Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

168/2016 Skólavörðustígur

Árið 2017, fimmtudaginn 6. apríl, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 168/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. desember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Vættaborgum 150, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. nóvember 2016 um að veita neikvætt svar við fyrirspurn um hvort samþykkt yrði að skrá bakhús að Skólavörðustíg 2 (Bankastræti 14) sem einstaklingsíbúð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 1. febrúar 2017.

Málsatvik og rök:
Með fyrirspurn, dags. 28. september 2016, var óskað eftir því við byggingarfulltrúa Reykjavíkur „að Skólavörðustígur 2 (Bankastræti 14) bakhús matsluti 04 01 01 verði skráð sem einstaklingsíbúð“. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru fasteignirnar Skólavörðustígur 2 og Bankastræti 14 á viðskipta- og þjónustulóð með landnúmerið 101383. Matshluti 04 sem merktur er 0101 er í fasteignaskrá skráður sem vörugeymsla byggð árið 1910 og mun það vera eign sú sem um ræðir. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. nóvember 2016 var bókað um neikvæða niðurstöðu hans þar sem fyrirspurn samræmdist ekki byggingarreglugerð og ekki væri að sjá í gögnum að bakhús hefði verið samþykkt sem íbúð.

Kærandi tekur fram að samkvæmt svari byggingarfulltrúa samræmist húsið ekki byggingarreglugerð, en kærandi telji að taka þyrfti mið af byggingarreglugerð frá þeim tíma er húsið hafi verið byggt en ekki eins og hún sé í dag. Þá hafi bakhúsið verið samþykkt sem einstaklingsíbúð með þinglýstri yfirlýsingu árið 1993 og þinglýstu afsali árið 1976. Ennfremur hafi verið samþykktar teikningar árið 2000 en byggingarleyfi ekki gefið út.

Reykjavíkurborg krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um stjórnvaldsákvörðun að ræða. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 16. nóvember s.á., hafi eiganda einungis verið tilkynnt niðurstaða í máli vegna fyrirspurnar kvartanda, en ekki hafi verið tekin formleg stjórnvaldsákvörðun.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um neikvæða afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. nóvember 2016 á fyrirspurn um hvort samþykkt yrði að skrá bakhús að Skólavörðustíg 2 (Bankastræti 14) sem einstaklingsíbúð. Kærandi mun vera eigandi umrædds húsnæðis.

Erindi það sem beint var til byggingarfulltrúa var á eyðublaði með árituninni „fyrirspurn“. Þar var óskað eftir að eign sú sem um ræðir yrði skráð sem einstaklingsíbúð og var vísað til meðfylgjandi gagna. Greind gögn varða eigendaskipti að eigninni og í yfirlýsingu sem innfærð var í þinglýsingabækur 5. maí 1993 kemur fram að eign sú sem þar skipti höndum sé einstaklingsíbúð merkt 04-01-01. Af gögnum og efni fyrirspurnarinnar verður því ráðið að beðið hafi verið um skráningu umræddrar eignar sem íbúðarhúsnæðis, en hún er nú skráð sem vörugeymsla á viðskipta- og þjónustulóð. Var því verið að biðja um leyfi fyrir breyttri notkun eignarinnar, en skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er slík notkun háð leyfi byggingarfulltrúa. Samþykkt eða synjun slíks leyfis verður borið undir úrskurðarnefndina. Hönnunargögn skulu fylgja umsókn um byggingarleyfi samkvæmt nánari fyrirmælum í mannvirkjalögum og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Slík gögn fylgdu ekki erindi því sem neitað var og ber málsmeðferð byggingarfulltrúa jafnframt með sér að farið var með erindið og það afgreitt sem fyrirspurn.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu byggingarfulltrúa verður ekki lögð að jöfnu við byggingarleyfisumsókn, einkum þegar á skortir að fyrirspurnin sé studd haldbærum gögnum. Verður og ekki talið að neikvætt svar byggingarfulltrúa við þeirri fyrirspurn hafi falið í sér neina þá stjórnvaldsákvörðun sem skapaði kæranda réttindi eða skyldur. Þar sem ekki er um að ræða lokaákvörðun sem bindur enda á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli, verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir