Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

73/2018 Arctic Sea Farm, Fjarðalax, Patreksfirði

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2018, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. apríl 2018 um að breyting á staðsetningu eldissvæða Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalax ehf. í Patreksfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. maí 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Akurholt ehf. og Geiteyri ehf., sem eigendur Haffjarðarár í Hnappadal, eigandi Kirkjubóls í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Fífustaðadalsá, eigandi Grænuhlíðar í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Bakkadalsá, Fluga og net ehf., sem  rekstrarfélag Vatnsdalsár á Barðaströnd, eigandi hluta veiðiréttar í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá í innanverðu Ísafjarðardjúpi, Varpland ehf., sem eigandi hluta veiðiréttar í Langadalsá og Hvannadalsá, og Veiðifélag Laxár á Ásum þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. apríl 2018 að breyting á staðsetningu eldissvæða Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalax ehf. í Patreksfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 15. júní 2018.

Málavextir: Hinn 9. maí 2016 lögðu Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalax ehf. fram matsskýrslu um framleiðslu á allt að 17.500 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði og óskuðu eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit stofnunarinnar þar um er frá 23. september 2016. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum en vegna neikvæðra áhrifa fyrirhugaðs fiskeldis gerði stofnunin tillögu að skilyrðum sem sett yrðu vegna leyfisveitingar fiskeldisins. Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi 13. desember 2017 til handa Arctic Sea Farm fyrir eldi á 6.800 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Sama dag gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Fjarðalaxi fyrir eldi á 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Hinn 22. s.m. gaf Matvælastofnun út rekstrarleyfi til handa Arctic Sea Farm fyrir 6.800 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði og sama dag gaf Matvælastofnun út rekstrarleyfi til handa Fjarðalaxi fyrir 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

Með bréfi, dags. 22. mars 2018, óskuðu framkvæmdaraðilar eftir því við Skipulagsstofnun að hún tæki ákvörðun um matsskyldu vegna áforma þeirra um að breyta staðsetningu tveggja eldissvæða í Patreksfirði. Var annars vegar um að ræða staðsetningu eldissvæðis Fjarðalax við Eyri og hins vegar staðsetningu eldissvæðis Arctic Sea Farm við Kvígindisdal. Kom fram í bréfinu að með nýrri staðsetningu yrði eldisfiskum tryggt betra aðgengi að ferskum sjó auk þess sem meiri halli í botni tryggði minni uppsöfnun lífræns úrgangs og hreinsun á svæðinu. Meðfylgjandi bréfinu var að finna skýrslu ráðgjafa um æskilega staðsetningu og legu eldiskvía í Patreksfirði. Vegna hugsanlegrar matsskyldu aflaði Skipulagsstofnun umsagna Vesturbyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar. Hinn 11. apríl 2018 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð breyting á staðsetningu eldissvæða í Patreksfirði væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Hin útgefnu starfsleyfi og rekstrarleyfi frá 13. og 22. desember 2017 voru kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í janúar 2018. Með úrskurðum í málum nr. 3/2018, 4/2018, 5/2018 og 6/2018, kveðnum upp 27. september og 4. október s.á., voru nefnd leyfi felld úr gildi þar sem ekki hafði farið fram nauðsynlegur samanburður umhverfisáhrifa fleiri valkosta. Í kjölfarið var með lögum nr. 108/2018 gerð breyting á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi og ráðherra fengin heimild til að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða í þeim tilvikum þegar rekstrarleyfi er fellt úr gildi, sbr. 21. gr. c. í lögunum. Á grundvelli þeirrar lagaheimildar veitti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hinn 5. nóvember 2018 rekstrarleyfi til bráðabirgða til handa Arctic Sea Farm og Fjarðalaxi til framleiðslu á 600 tonnum og 3.400 tonnum árlega af laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Var gildistími leyfisins til 5. september 2019. Hinn 20. nóvember 2018 veitti svo umhverfis- og auðlindaráðherra, á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, Arctic Sea Farm og Fjarðalaxi tímabundna undanþágu frá kröfu um starfsleyfi til hins sama og gilti sú undanþága einnig til 5. september 2019.

Í janúar 2019 lögðu Fjarðalax og Arctic Sea Farm fram „Viðbót við frummatsskýrslu og kostagreining vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar“. Í skýrslunni kemur fram að markmið hennar sé að bæta úr þeim ágöllum sem úrskurðarnefndin hafi talið vera á matsskýrslu fyrirtækjanna frá árinu 2016. Var frummatsskýrslan auglýst á vefsíðu Skipulagsstofnunar frá 4. febrúar til 19. mars 2019. Hinn 16. apríl s.á. lögðu félögin fram „Viðbót við matsskýrslu og kostagreining vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar“ og óskuðu eftir áliti Skipulagsstofnunar, sbr. 11. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Hinn 16. maí 2019 lá álit stofnunarinnar fyrir. Í niðurstöðu álitsins kemur fram að það snúi eingöngu að umfjöllun og mati framkvæmdaraðila á valkostum en að matsskýrsla framkvæmdaraðila frá 2016 og álit Skipulagsstofnunar frá 2016 standi að öðru leyti áfram. Í niðurstöðukafla álitsins er m.a. rakið að valkostur í Patreksfirði sé í samræmi við breytingu á fyrirkomulagi eldissvæða sem framkvæmdaraðilar hafi tilkynnt til Skipulagsstofnunar árið 2018.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi Fjarðalax á heimasíðu stofnunarinnar frá 14. júní til 15. júlí 2019 og tillögu að starfsleyfi Arctic Sea Farm frá 7. júní til 8. júlí s.á., en tillögurnar voru byggðar á umsóknargögnum ásamt nýjum gögnum sem komið höfðu fram í kjölfar úrskurða úrskurðarnefndarinnar. Hinn 26. ágúst s.á. veitti Umhverfisstofnun Arctic Sea Farm starfsleyfi til framleiðslu á 6.800 tonnum af laxi á ári í Patreksfirði og Tálknafirði og 27. s.m. veitti Matvælastofnun Arctic Sea Farm rekstrarleyfi til framleiðslu á 6.800 tonnum af laxi á ári í Patreksfirði og Tálknafirði. Þá veitti Umhverfisstofnun hinn 28. ágúst s.á. Fjarðalaxi starfsleyfi til framleiðslu á 10.700 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði og sama dag veitti Matvælastofnun Fjarðalaxi rekstrarleyfi til framleiðslu á 10.700 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Hafa þau leyfi ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til athugasemda sinna um þegar ákveðnar eldisstaðsetningar í kærumálum nr. 3/2018, 4/2018, 5/2018 og 6/2018 og telja að þær eigi jafnt við um hinar nýju fyrirhuguðu staðsetningar. Fjarlægð milli eldissvæðanna við Eyri og Kvígindisdal sé fölsuð á yfirlitskorti framkvæmdaraðilanna og sé hún ekki mæld á réttan hátt skv. 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi. Framkvæmdaraðilar mæli frá mælipunktum innan eldissvæðamarkanna og fái út 2,07 km fjarlægð. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar skuli lágmarksfjarlægð milli eldissvæða ótengdra aðila vera 5 km miðað við útmörk hvers eldissvæðis. Sú mæling sýni 1,4 km fjarlægð á milli eldissvæða við Kvígindisdal og Eyri. Þegar af þeirri ástæðu sé nauðsynlegt að mat á umhverfisáhrifum fari fram vegna breyttar staðsetningar greindra eldissvæða. Mæld fjarlægð sé langt undir leyfilegri lágmarksfjarlægð og Hafrannsóknastofnun hafi ekki heimilað svo mikla nánd. Þá sé ný staðsetning við Kvígindisdal nánast að öllu leyti á nýju svæði og þar með utan fyrra eldissvæðis.

Að mati Hafrannsóknastofnunar sé illgerlegt að segja til um hvort nýjar staðsetningar „drag[i] úr smitálagi og hvort sem væri vegna laxalúsar, baktería eða veirusmits á milli eldiseininga.“ Hin 5 km tilskilda lágmarksfjarlægð milli eldissvæða sé fyrst og fremst til að draga úr hættu á smitálagi og lúsafári. Þá bendi stofnunin á að færsla eldissvæða á meira dýpi geti haft þau áhrif að meira af úrgangi falli hraðar í botnlag fjarðarins og lækki þannig súrefni í því, sem aftur dragi úr burðarþoli hans. Þá segi stofnunin að ekki fyrirfinnist úttekt á því hvort veiðisvæði verði fyrir áhrifum vegna færslu svæðis við Kvígindisdal. Reyndar segi framkvæmdaraðilar að samkvæmt yfirlýsingu félags smábátaeigenda í Barðastrandarsýslu komi fyrirhugaðar staðsetningar inn á virk veiðisvæði nytjafiska í firðinum.

Umsögn dýralæknis fiskisjúkdóma hjá Matvælastofnun sé í svipuðum dúr og fyrri umsagnir þess aðila, þ.e. að „fyrirhugaðar breytingar séu jákvæðar út frá aðstæðum til fiskeldis.“ Eins og fyrri umsagnir viðkomandi dýralæknis hljóti umsögn hans að teljast ómarktæk eftir að upplýst hafi verið um sölu hans á bóluefni til eldisfyrirtækja.

Skipulagsstofnun segi að gera megi ráð fyrir að dreifing úrgangs og uppsöfnun næringarefna verði að einhverju leyti frábrugðin því sem nú sé og taki hún einnig undir með Hafrannsóknastofnun um að færsla eldiskvíanna geti orðið til þess að úrgangsefni muni í auknum mæli safnast fyrir í botnlagi fjarðarins. Að auki verði meiri dreifing á úrgangi frá því sem nú sé. Eins og tíundað hafi verið bendi eðli og staðsetning framkvæmdar, sem og eiginleikar hugsanlegra umhverfisáhrifa hennar, til þess að rannsaka verði og fjalla ítarlega um þau atriði en ekki skauta fram hjá þeim með léttvægu orðalagi.

Þá hafi Vesturbyggð óskað eftir rannsókn á hávaðamengun vegna nálægðar eldiskvía við íbúðabyggð. Í því sambandi sé bent á aukna sjónmengun og ljósamengun frá sterkum ljóskösturum á fóðurprömmum við eldiskvíar, sem valdi því meira ónæði eftir því sem eldið sé fært nær íbúðabyggð.

Varðandi skyldu til að fram fari mat á umhverfisáhrifum vegna breytinga eða viðbóta við framkvæmdir sem þegar hafi verið leyfðar vísist til tölul. 13.02 í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sem og viðmiðana í 2. viðauka sömu laga. Enn fremur vísist til 13. tölul. a) í II. viðauka tilskipunar 2011/92/ESB, þar sem mælt sé fyrir um að allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir skv. sama viðauka, sem þegar hafi verið leyfðar og kunni að hafa veruleg skaðleg áhrif á umhverfið, skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Samkvæmt tilvísuðum ákvæðum sé skylt að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum vegna hinna kærðu breytinga á framkvæmdinni.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er tekið undir með kærendum að framsetning framkvæmdaraðila á fjarlægðum milli eldiskvía sé nokkuð villandi, en stofnunin geti ekki tekið undir það að um fölsun upplýsinga sé að ræða. Sjá megi í tilkynningu framkvæmdaraðila að mælingin taki til fjarlægðar milli rammafestinga sjókvía en ekki eldissvæða. Sé fjarlægð ekki næg eða ekki mæld á réttan hátt geti það ekki leitt til þess að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum, eins og gefið sé til kynna í kærunni. Í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé að finna skilgreiningu á umtalsverðum umhverfisáhrifum. Skilyrði þau sem fram komi í skilgreiningunni þurfi að vera uppfyllt þannig að framkvæmd sé matsskyld. Stofnunin bendi á að í 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi sé kveðið á um að Matvælastofnun geti, að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun og að fenginni umsögn sveitarstjórnar, heimilað styttri eða lengri fjarlægðir milli eldisstöðva. Þegar Skipulagsstofnun hafi tekið sína ákvörðun hafi Matvælastofnun átt eftir að taka afstöðu til þess hvort undanþága yrði veitt frá fjarlægðarmörkum eður ei. Almennt sé sótt um undanþágu eftir að Skipulagsstofnun hafi tekið matsskylduákvörðun eða þegar álit um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir. Fái framkvæmdaraðilar ekki undanþágu frá Matvælastofnun sé ljóst að félögin geti ekki fengið leyfi fyrir eldinu. Í því tilliti sé ekki aðeins hægt að byggja á matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar heldur þurfi skilyrði laga og reglugerða á öðrum sviðum en því sem taki til mats á umhverfisáhrifum að vera uppfyllt, eins og t.d. reglugerðar um fiskeldi.

Undir umsögn Matvælastofnunar skrifi ekki aðeins dýralæknir fiskisjúkdóma heldur einnig fagsviðsstjóri fiskeldis. Ekki sé því rétt að segja að dýralæknirinn gefi umsögn í málinu.

Skipulagsstofnun vísi því á bug að hún hafi með léttvægu orðalagi skautað fram hjá eðli framkvæmdarinnar og hugsanlegum umhverfisáhrifum hennar. Lestur á hinni kærðu ákvörðun með hlutlægum hætti leiði í ljós að ákvörðunin sé rökstudd með hliðsjón af viðmiðum í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og að virtum fyrirliggjandi umsögnum.

Í umsögn Vesturbyggðar komi fram ósk um að hugað verði að hávaðamengun frá vinnusvæðinu utan dagvinnustunda, en ekki sé í umsögninni vikið sérstaklega að sjón- og ljósmengun. Í tölvupósti framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar 10. apríl 2018 komi fram að fóðrun sé almennt mest í dagsbirtu. Fóðurprammar, fóðrarar og tækjabúnaður séu knúnir áfram með rafmagni og því geti fylgt einhver hávaði frá ljósavélum séu þær olíuknúnar, líkt og oftast sé. Við Eyri hafi um nokkurt skeið verið unnið að undirbúningi á því að rafmagnskapall verði leiddur frá landi enda stutt fjarlægð. Það muni þá hafa í för með sér að hávaðamengun verði í algjöru lágmarki þegar fóðrað verði á tímabilum utan dagvinnutíma, enda þurfi þá ekki að knýja ljósavélar. Með þetta í huga og að virtum fyrirliggjandi gögnum málsins hafi Skipulagsstofnun talið að sjónarmið um mengun og ónæði í v-lið 1. tölul. 2. viðauka laga nr. 106/2000 kölluðu ekki á að hin kærða framkvæmd sætti mati á umhverfisáhrifum.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er farið fram á frávísun málsins á þeim grundvelli að aðild og lögvarðir hagsmunir kærenda séu verulega vanreifaðir. Þá séu meintir hagsmunir kærenda svo almenns eðlis að þeir uppfylli ekki almenn skilyrði þess að teljast vera lögvarðir. Verði ekki fallist á frávísunarkröfu sé þess krafist að kröfu kærenda verði hafnað. Því sé hafnað að málatilbúnaður kærenda í kærumálum nr. 3/2018, 4/2018, 5/2018 og 6/2018 komi til álita í máli þessu, enda lúti málin að óskyldum ákvörðunum Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar um útgáfu starfs- og rekstrarleyfis. Í máli þessu sé einvörðungu til skoðunar ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu vegna nýrra eldisstaðsetninga og verði að einskorða athugun málsins við það álitaefni.

Hafnað sé öllum fullyrðum kærenda um falsanir sem röngum. Umrædd mæling taki til fjarlægða milli kvíastæða en ekki útmarka eldissvæða, líkt og ranglega sé staðhæft í kæru. Í því samhengi leggi framkvæmdaraðili áherslu á að í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi sé kveðið á um að lágmarksfjarlægð milli sjókvíaeldisstöðva ótengdra aðila skuli samkvæmt meginviðmiði vera 5 km, miðað við útmörk hvers eldissvæðis sem rekstrarleyfishafa hafi verið úthlutað. Þar komi hins vegar einnig fram að Matvælastofnun geti, að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun og að fenginni umsögn sveitarstjórnar, heimilað styttri eða lengri fjarlægðir milli eldisstöðva. Ljóst sé því að það falli í skaut Matvælastofnunar að taka afstöðu til fjarlægðarmarka milli eldissvæða við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi á grundvelli laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Sú ákvörðun sem sé hér til skoðunar varði aftur á móti það álitaefni hvort tilfærsla eldissvæðanna skuli háð mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um það álitamál hafi verið vel rökstudd út frá viðmiðum sem fram komi í 2. viðauka laganna og séu því engir þeir ágallar á henni sem valdið geti ógildingu.

Skýrt megi ráða af ákvörðun Skipulagsstofnunar að fullt tillit hafi verið tekið til þeirra athugasemda sem fram kom í umsögn Hafrannsóknastofnunar frá 4. apríl 2018. Líkt og fram komi í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé tekið undir með Hafrannsóknastofnun að færsla eldiskvía geti orðið til þess að úrgangsefni muni í auknum mæli safnast fyrir í botnlagi fjarðarins. Aftur á móti sé tiltekið að botnstraumar í nágrenni fyrirhugaðra eldissvæða séu sterkir og súrefnisstyrkur almennt hár. Þá verði fyrirhuguð eldissvæði ekki fyrir dýpsta hluta fjarðarins þar sem styrkur súrefnis mælist lægstur á haustmánuðum. Með því að staðsetja kvíar þvert á straumstefnu verði meiri dreifing á úrgangi sem sé líklegt til að hafa jákvæð áhrif á uppsöfnun næringarefna frá því sem nú sé.

Vakin sé athygli á því að athugasemd Hafrannsóknastofnunar í umsögn hafi lotið að því að illgerlegt væri að segja til um það hvort nýjar staðsetningar myndu draga úr smitálagi vegna þess að vindar hefðu mikil áhrif á það hvernig yfirborðssjór berist á milli eldissvæða. Leggi framkvæmdaraðilar áherslu á að þrátt fyrir að ljóst sé að vindafar hafi nokkur áhrif á strauma í efstu lögum sjávar sé stóra myndin sú að streymi sjávar um strendur landsins sé almennt þannig að jarðsnúningur ráði miklu. Líkt og fram komi í greinargerð ráðgjafa vegna tillagna um breytingu á staðsetningu eldissvæða sé staðan sú að með ströndum umhverfis Íslands liggi svonefndur strandsjór réttsælis um landið. Meginstefna strandsjávarins við Ísland sé þannig að innstreymi virðist hægra megin fjarðar þegar horft sé inn fjörðinn en útstreymi vinstra megin. Framkvæmdaraðilar hafi látið framkvæma straummælingar á svæðum sínum og styðji niðurstöður þeirra þessa mynd af meginstraumstefnu í Patreksfirði, inn fjörðinn að sunnan og út fjörðinn að norðan.

Kærendur kjósi að líta fram hjá jákvæðum umsögnum annarra sérfróðra umsagnaraðila í málinu, s.s. Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar, Fiskistofu, Samgöngustofu og Strandveiðifélagsins Króks. Enginn framangreindra sérfróðra aðila hafi talið ástæðu til að mæla með því að breytt staðsetning eldissvæða skyldi leiða til mats á umhverfisáhrifum og það hafi Hafrannsóknastofnun í raun ekki heldur gert. Það sé samdóma álit nánast allra umsagnaraðila og Skipulagsstofnunar að hin umdeilda tilfærsla sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Framkvæmdaraðilar hafni því að umsögn Matvælastofnunar, sem dýralæknir fiskisjúkdóma stofnunarinnar skrifi m.a. undir, geti haft nokkur áhrif á gildi ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Engin tengsl séu á milli viðkomandi dýralæknis og framkvæmdaraðila og  hagsmunir séu ekki með þeim hætti að draga megi hæfi hans í efa með hliðsjón af hæfisreglum stjórnsýsluréttar. Sé um að ræða umsögn Matvælastofnunar en ekki viðkomandi dýralæknis og sé umsögnin, auk viðkomandi dýralæknis, undirrituð af fagsviðsstjóra fiskeldis hjá stofnuninni. Skipulagsstofnun sé ekki bundin af þeim umsögnum sem fyrir liggi við meðferð máls heldur leggi hún sjálfstætt mat á þá umhverfisþætti sem henni sé falið samkvæmt fyrirmælum í lögum og reglugerðum. Umsögnin hafi því ekkert sjálfstætt lögformlegt vægi sem valdið geti ógildingu ákvörðunar um matsskyldu. Af rökstuðningi Skipulagsstofnunar megi ráða að ákvörðunin sé vel ígrunduð og rökstudd með skýrum hætti með vísan til viðeigandi ákvæða laga. Meint vanhæfi viðkomandi dýralæknis geti því engin áhrif haft á meðferð málsins og gildi hinnar umþrættu ákvörðunar Skipulagsstofnunar. Lúti athugasemdir kærenda varðandi umsögn Matvælastofnunar einvörðungu að meintu vanhæfi viðkomandi dýralæknis en ekki að því að þar sé um að ræða rangfærslur.

Kærendur bendi á að fram komi í ákvörðun Skipulagsstofnunar að gera megi ráð fyrir að dreifing úrgangs og uppsöfnun næringarefna verði að einhverju leyti frábrugðin því sem nú sé og að færsla eldiskvíanna geti orðið til þess að úrgangsefni muni í auknum mæli safnast fyrir í botnlagi fjarðarins. Auk þess verði meiri dreifing á úrgangi. Bent sé á að í sömu efnisgrein og kærendur vitni til segi orðrétt: „Aftur á móti eru botnstraumar í nágrenni fyrirhugaðra eldissvæða sterkir og súrefnisstyrkur við botn Patreksfjarðar almennt hár. Þá verða fyrirhuguð eldissvæði ekki yfir dýpsta hluta Patreksfjarðar þar sem styrkur súrefnis mælist lægstur á haustmánuðum. Með því að staðsetja kvíar þvert á straumstefnu verði meiri dreifing á úrgangi sem sé líklegt að hafa jákvæð áhrif á uppsöfnun næringarefna frá því sem nú er. Skipulagsstofnun tekur undir með Umhverfisstofnun um að fyrirhuguð færsla eldissvæða sé ekki líkleg til að auka lífrænt álag í firðinum.“ Ljóst sé samkvæmt framansögðu að Skipulagsstofnun rökstyðji vel hvers vegna tilvitnuð áhrif séu ekki líkleg til að hafa neikvæð áhrif á umhverfið. Fallist Skipulagsstofnun á að meiri dreifing á úrgangi sé líkleg til að hafa jákvæð áhrif frá því sem nú sé, öfugt við það sem kærendur gefi í skyn.

Ekki sé rétt að Vesturbyggð hafi óskað eftir rannsókn á hávaðamengun. Hið rétta sé að í umsögn Vesturbyggðar, sem fram hafi komið á 831. fundi bæjarráðs hinn 6. apríl 2018, segi að vegna nálægðar við íbúðabyggð óski bæjarráð eftir „að hugað verði að hávaðamengun frá vinnusvæðinu utan dagvinnustunda.“ Í þessu samhengi sé áréttað að áhyggjum Vesturbyggðar vegna hávaðamengunar hafi verið svarað við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun. Þar hafi verið upplýst að starfsemi fiskeldi fylgi að mestu starfsemi á venjulegum vinnutíma. Einhver hávaði geti fylgt fóðrun utan dagvinnutíma vegna ljósavéla sem hafi hingað til verið olíuknúnar. Unnið hafi verið að því að leiða rafmagnskapal að eldissvæði við Eyri sem sé næst Patreksfjarðarbæ. Þegar að þeirri vinnu ljúki verði dregið verulega úr hávaðamengun.

Samkvæmt tölul. 13.02 í 1. viðauka laga nr. 106/2000 skuli allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir samkvæmt flokki A, aðrar en tilgreindar séu í tölul. 13.01, og flokki B sem hafi þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða séu í framkvæmd og kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, metnar í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum, sbr. einnig 2. viðauka laganna. Með öðrum orðum sé ekki um fortakslausa matsskyldu að ræða, líkt og kærendur haldi fram, heldur eigi að fara fram atviksbundið mat. Slíkt mat hafi nú farið fram og sé rökstudd niðurstaða Skipulagsstofnunar fyrirliggjandi.

Málið hafi hlotið ítarlega og vandaða málsmeðferð í samræmi við gildandi lög og reglugerðir og séu engir efnis- eða formannmarkar á afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar sem leitt geti til ógildingar. Jafnvel þótt fallist yrði á málatilbúnað kærenda að einhverju leyti sé ljóst að meintir annmarkar, sem kærendur reisi mál sitt á, geti ekki talist verulegir eða til þess fallnir að leiða til rangrar efnislegrar niðurstöðu. Í samræmi við framangreint, stjórnarskrárvarin réttindi framkvæmdaraðila og meginreglur stjórnsýsluréttar, þurfi sérstaklega mikið til að koma svo að komið geti til álita að fella ívilnandi ákvörðun úr gildi. Fari því fjarri að þær röksemdir sem hafi verið teflt fram geti stutt slíka niðurstöðu í máli þessu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 11. apríl 2018 að breyting á staðsetningu eldissvæða Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalax ehf. í Patreksfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, þar sem fyrirhuguð breyting á staðsetningu eldissvæða sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu hafa margvíslegar breytingar átt sér stað í tengslum við fiskeldisstarfsemi framkvæmdaraðila eftir að hin kærða ákvörðun í máli þessu var tekin. Vegna þessa beindi úrskurðarnefndin þeirri fyrirspurn til kærenda hvort grundvöllur væri fyrir afturköllun málsins vegna nýrrar stöðu mála. Í svari þeirra er bent á að mat á umhverfisáhrifum hafi í meginatriðum farið fram á árunum 2013 til 2015 og leyfi verið veitt vegna framkvæmdar sem hafi verið lýst í frummatsskýrslu frá 6. maí 2016. Við ógildingu leyfa í lok september og byrjun október 2018 hafi eingöngu verið byggt á því að í mati á umhverfisáhrifum hafi ekki verið með fullnægjandi hætti fjallað um valkosti framkvæmdarinnar, en hvergi hafi verið fjallað um breytta framkvæmd frá þeirri sem fjallað hafi verið um í frummatsskýrslunni 6. maí 2016. Því verði ekki séð að niður sé fallinn grundvöllur kærunnar og óskist hún tekin til úrskurðar nefndarinnar.

Svo sem áður er komið fram felldi úrskurðarnefndin úr gildi starfsleyfi og rekstrarleyfi félaganna Arctic Sea Farm og Fjarðalax frá desember 2017 með úrskurðum kveðnum upp í lok september og byrjun október 2018. Til að bæta úr þeim ágöllum sem úrskurðarnefndin hefði talið vera á matsskýrslu félaganna frá árinu 2016 lögðu þau fram „Viðbót við frummatsskýrslu og kostagreining vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar“ í janúar 2019. Í kjölfarið var lögð fram „Viðbót við matsskýrslu og kostagreining vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar“ og óskuðu félögin eftir áliti Skipulagsstofnunar á þeirri viðbót. Í áliti stofnunarinnar frá 16. maí 2019 kemur fram að í viðbótarmatsskýrslu sé fjallað um þrjá valkosti með tilliti til staðsetningar eldissvæða, þ.e. upphaflegar staðsetningar sem fjallað hafi verið um í matsskýrslu framkvæmdaraðila og áliti Skipulagsstofnunar árið 2016, nýja staðsetningu í Patreksfirði og nýja staðsetningu í Tálknafirði. Í álitinu er svo að finna mat stofnunarinnar á áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda á tiltekna umhverfisþætti bæði hvað varðar upphaflegar og nýjar staðsetningar.

Á grundvelli viðbótarmatsskýrslu félaganna og álits Skipulagsstofnunar voru í lok ágúst 2019 gefin út ný starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir félögin. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er óheimilt að gefa út leyfi til framkvæmdar skv. 5. eða 6. gr. laganna fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd skv. 6. gr. sé ekki matsskyld. Þau leyfi sem nú hafa verið gefin út styðjast hins vegar ekki við hina kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. apríl 2018 um að breyting á staðsetningu eldissvæða skuli ekki háð mat á umhverfisáhrifum heldur við álit sömu stofnunar frá 16. maí 2019. Að svo komnu máli er ljóst að hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur þá þýðingu sem ráð er fyrir gert í nefndri 1. mgr. 13. gr, en ný leyfi hafa ekki sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar. Með vísan til þessa, og eins og atvikum háttar hér sérstaklega, hafa kærendur ekki lengur hagsmuni af úrlausn máls þessa. Verður enda ekki séð að úrlausn þess myndi breyta því réttarástandi sem nú er til staðar, jafnvel þótt krafa kærenda um ógildingu næði fram að ganga. Verður því ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega og sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

49/2019 Svínabú að Torfum

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 14. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2019, kæra á ákvörðun Skipulags­­stofnunar frá 12. mars 2019, um að framkvæmdir vegna svínabús að Torfum, Eyjafjarðarsveit, skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum, og á afgreiðslu sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 28. s.m. á deiliskipulagstillögu vegna svínabúsins.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júní 2019, er móttekið var hjá nefndinni sama dag, kæra landeigendur að jörðunum Grund I og Grund IIa Finnastöðum, Eyjafjarðarsveit, ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019, um að framkvæmdir vegna svínabús að Torfum, Eyjafjarðarsveit, skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum, og „ákvörðun Eyjafjarðarsveitar um deiliskipulag svínabús að Torfum í Eyjafjarðarsveit, birt 22. maí 2019“. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinna kærðu ákvarðana. Jafnframt var farið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndar­innar uppkveðnum 10. júlí 2019.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 12. júlí 2019 og frá Eyjafjarðar­sveit 26. s.m.

Málavextir: Jörðin Torfur er í ábúð og er staðsett sunnan við kirkjujörðina Grund í Eyjafjarðar­sveit. Tilgreint fyrirtæki festi kaup á 18,8 ha spildu úr landi Torfa og hefur haft uppi áform um að byggja þar svínabú. Skipulags- og matslýsing vegna vinnu við deiliskipulag fyrir búið var samþykkt til kynningar á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar 1. október 2018 og hún auglýst á tímabilinu 2.-16. október 2018. Í kjölfarið yfirfór Skipulagsstofnun lýsingu deiliskipulags­tillögunnar samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana, sbr. bréf stofnunarinnar þar um, dags. 24. s.m. Skipulagsnefnd sveitarfélagsins tók umsagnir og athugasemdir vegna þessa fyrir á fundi sínum 5. nóvember 2018 og vísaði þeim áfram til áframhaldandi vinnu við deiliskipulag.

Á fundi sínum 29. nóvember 2018 samþykkti sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar tillögu skipulags­nefndar um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir svínabú í landi Torfa. Í tillögunni fólst að byggt yrði upp svínabú fyrir 2.400 grísi (30 kg og stærri) og 400 gyltur. Afmörkuð yrði 5,45 ha lóð fyrir fyrirhugaðar byggingar, sem yrðu 2.600 m² eldishús, 3.100 m² gyltu- og fráfæru­grísahús, 300 m² starfsmanna- og gestahús, allt að átta síló, samtals 80 m² að grunnflatarmáli, og 1-2 haugtankar, samtals um 6.000 m³. Tillagan var kynnt á tímabilinu 27. desember 2018 til 14. febrúar 2019. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum.

Á 302. fundi skipulagsnefndar 14. mars 2019 var fjallað um innkomnar athugasemdir og m.a. bókað að nefndin legði til við sveitarstjórn að auglýst skipulagstillaga yrði samþykkt skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem tilgreindar væru í afgreiðslu nefndarinnar á athugasemdum 3 c), 3 e), 6 c), 7 f) og 8 a). Einnig var bókað um afgreiðslu einnar athugasemdarinnar og bent á að því erindi væri beint til sveitarstjórnar, en að skipulags­nefnd hefði afgreitt þá þætti sem að henni sneru. Á fundi sveitarstjórnar 28. s.m. var málið tekið fyrir og bókað að fundargerð 302. fundar skipulagsnefndar væri tekin til afgreiðslu eins og einstakir liðir bæru með sér. Undir lið 1.1 var fjallað um umsókn um uppbyggingu svínahúss í landi Torfa og tekið fram að sveitarstjórn teldi skipulagsnefnd hafa svarað málefnalega öllum liðum þeirrar athugasemdar sem beint hefði verið að sveitarstjórn. Þá var eftirfarandi bókað: „Sveitarstjórn samþykkir tillögur skipulagsnefndar um afgreiðslu þeirra erinda sem bárust á auglýsingartímabili deiliskipulagstillögu svínabús á Torfum. Athugasemdafrestur var til 14. febrúar 2019.“ Með erindi, dags. 10. apríl s.á., sendi Eyjafjarðarsveit Skipulagsstofnun deiliskipulags­­­­­tillöguna til lögboðinnar yfirferðar. Með bréfi, dags. 3. maí s.á., tilkynnti Skipulags­­stofnun að hún gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda og fór birting slíkrar auglýsingar fram 22. maí 2019.

Samhliða meðferð deiliskipulagsins var framkvæmdin tilkynnt til Skipulagsstofnunar sem framkvæmd í flokki B samkvæmt lögum nr. 106/2006 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir 12. mars 2019. Var þar tekið fram að fyrirhuguð framkvæmd vegna svínabús að Torfum væri tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt 6. gr. og lið 1.10 í 1. viðauka í lögum nr. 106/2000. Væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laganna, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðunin var birt á vef Skipulagsstofnunar 13. s.m. og hún auglýst í Fréttablaðinu 14. s.m. Kom þar fram að samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000 mætti kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og væri kærufrestur til 15. apríl 2019.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að kærufrestur á ákvörðun Skipulagsstofnunar, um að framkvæmd vegna svínabúsins að Torfum skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum, hafi ekki runnið út 15. apríl 2019, enda sé ákvörðunin hugsanlega ekki ákvörðun sem sæti opinberri birtingu í skilningi síðasta málsliðar 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og í skipulags­lögum nr. 123/2010 virðist vera gerður greinarmunur á ákvörðun um matsskyldu annars vegar og áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hins vegar. Kærendur fái ekki séð að til staðar séu ákvæði í framangreindum lögum sem beinlínis tilgreini að ákvörðun Skipulags­stofnunar um matsskyldu sé ákvörðun sem skuli birt opinberlega. Kærendur telji það ótæka niðurstöðu að mismunandi kærufrestir gildi gagnvart almenningi vegna einu og sömu framkvæmdarinnar, þ.e. vegna uppbyggingar og deiliskipulags svínabúsins. Þá vísi kærendur til 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveði á um þriggja mánaða almennan kærufrest. Þriggja mánaða kærufresturinn myndi að jafnaði lágmarksrétt og öll lögbundin frávik frá frestinum, líkt og um ræði í málinu, beri að túlka þröngt.

Við málsmeðferð deiliskipulagsins hafi Eyjafjarðarsveit borist mikill fjöldi umsagna bæði frá stjórnvöldum og almenningi. Í athugasemdunum hafi komið nánast undantekningarlaust fram sömu eða sambærilegar athugasemdir á þá leið að svínabúið fæli í sér umhverfisraskanir sem hefðu neikvæð áhrif á nánasta umhverfi. Í athugasemdunum hefðu nágrannar sérstaklega lýst áhyggjum yfir mengun vegna úrgangs og lyktar sem kynni að dreifast yfir svæðið. Auk þess hefðu fjölmargir lýst yfir áhyggjum yfir framtíðarnýtingu fasteigna á svæðinu, en fyrirséð væri að svo stórt svínabú gæti haft varanleg neikvæð áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustu og frístundabyggðar. Athugasemdir nágranna og almennings hafi hins vegar haft afar takmörkuð áhrif. Athugasemdirnar hafi verið afgreiddar af sveitarfélaginu sem smávægilegar eða minni háttar. Þá hafi áhrif deiliskipulagsins ekki verið talin verulega neikvæð heldur fremur hlutlaus og að jákvæð áhrif framkvæmdanna kynnu að vega þyngra en neikvæð áhrif.

Að mati kærenda virðist sem að nær öll rannsókn málsins og eftirfarandi niðurstöður hafi byggst á huglægu mati eða ágiskunum stjórnvaldsins. Kærendur hafi óskað eftir gögnum málsins frá sveitarfélaginu og hvergi í þeim gögnum hafi verið að finna skýrslur eða mat sérfræðinga á aðstæðum eða forsendum sem hafi legið til grundvallar við gerð umhverfisskýrslu deiliskipulagsins, sbr. lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Sem dæmi megi nefna umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar, þar sem mögulegri lyktarmengun hafi verið lýst, en engin frekari rannsókn eða formlegt mat virðist hafa átt sér stað. Kærendur efist um að úrgangur úr rúmlega 4.200 svínum nemi einungis 9.000 m³ á ári. Þetta þyrfti að rannsaka og sannreyna en engar slíka aðgerðir virðist hafa verið framkvæmdar í deiliskipulags­ferlinu.

Kærendur hafni því að hægt sé að bera hefðbundinn landbúnað saman við stórtæka verksmiðju­framleiðslu kjöts. Fremur mætti fella slíka framleiðslu undir þungaiðnað. Áhrif framkvæmd­anna verði veruleg. Sé ljóst að þau muni koma til með að valda kærendum tjóni í formi verðlækkunar á landareignum. og kunni skaðabætur vegna þess að vera sóttar á öðrum vettvangi. Gera verði miklar kröfur til rannsókna af hálfu stjórnvaldsins við undirbúning deiliskipulags, t.d. með því að kalla eftir mati sérfræðinga og fagaðila á viðkomandi sviðum. Það virðist ekki hafa verið gert miðað við þau gögn sem kærendur hafi fengið frá sveitarfélaginu.

Þá telji kærendur að andmælaréttur þeirra hafi ekki verið virtur vegna skorts á samstarfi sveitarfélagsins við Skipulagsstofnun þegar mat á matsskyldu framkvæmdanna hafi átt sér stað. Að mati kærenda hefðu átt að berast skýrar leiðbeiningar til allra þeirra nágranna sem gert hefðu athugasemdir við skipulagsgerð um að málið væri til úrvinnslu hjá Skipulagsstofnun vegna matsskylduákvörðunar og að frestur væri gefinn til athugasemda, ásamt því að leiðbeint væri um að kærufrestur væri til staðar vegna þeirrar ákvörðunar. Þetta hafi ekki verið gert, sem kærendur telji brjóta gegn IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við mat á framangreindu sé óhjákvæmilegt að líta til 14. gr. skipulagslaga um tengsl ákvarðana Skipulagsstofnunar um matsskyldu og deiliskipulags sveitarfélags í tilvikum matsskyldra framkvæmda. Því beri að ógilda skipulagið og vísa því aftur til meðferðar hjá sveitarfélaginu Eyjafjarðarsveit.

Kærendur vísi til þess að við málsmeðferð deiliskipulagsins hjá Eyjafjarðarsveit hafi ekki legið fyrir loftmynd sem sýni áhrifasvæði í 500 m radíus frá svína­búinu. Slík loftmynd hafi hins vegar legið fyrir vegna valkosts í umhverfisskýrslu sveitar­félagsins vegna mögulegrar staðsetningar að Melgerðismelum. Skýringar hafi ekki verið gefnar á því af hverju engin loftmynd með umræddum áhrifaradíus hafi legið fyrir vegna áætlaðrar staðsetningar fyrirhugaðs svínabús. Slík loftmynd myndi sýna fram á hversu langt áhrifin nái inn á jarðir kærenda. Sá kærandi sem eigi jarðirnar að Grund I og Grund IIa telji að svæðið geti numið tugum hekta á landi hans. Það sé mat kærenda að slíkur uppdráttur hefði átt að liggja fyrir frá upphafi deiliskipulagsins og vera til staðar við ákvörðun um matsskyldu hjá Skipulagsstofnun. Þá hefði slíkur uppdráttur átt að vera í tilkynningu og gögnum sem borist hefðu frá Eyjafjarðar­sveit til Skipulagsstofnunar áður en slík ákvörðun hefði verið tekin. Slíkur uppdráttur hefði einnig átt að tilgreina landamerki nærliggjandi fasteigna. Kærendur telji að framangreint sé enn einn gallinn á málsmeðferð deiliskipulagsins og ákvörðunar Skipulags­stofnunar um mats­skyldu.

Málsrök Eyjafjarðarsveitar: Sveitarfélagið krefst þess að kærunni verði vísað frá eða kröfum kærenda verði hafnað. Meðferð deiliskipulagsins og atvika sem því tengist hafi verið til fyrirmyndar í málinu öllu. Á öllum stigum málsins hafi sveitarfélagið gætt að því að málsmeðferð væri í samræmi við lög, fjallað ítarlega um málið og ráðið því til lykta með ítrustu eftirfylgni við lög og reglur sem um það giltu.

Athugasemdir kærenda um varanlega neikvæð áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustu og frístundabyggðar á svæðinu séu ekki tæk sjónarmið. Áhrifasvæðið sé landbúnaðarland, þar með talið það land sem sé í eigu kærenda, en kærendur stundi sjálfir umfangsmikinn landbúnað. Landnotkun á svæðinu hafi ekki verið breytt við heildarendurskoðun aðalskipulags Eyjafjarðar­sveitar og engar óskir hafi komið um það frá kærendum eða öðrum. Mótmælt sé staðlausum fullyrðingum um að athugasemdir í skipulagsferlinu hafi verið afgreiddar af sveitarfélaginu sem „smávægilegar eða minni háttar“. Séu þetta ómaklegar aðdróttanir í garð starfsfólks og kjörinna fulltrúa Eyjafjarðarsveitar um huglægt mat eða ágiskanir stjórnvalds. Fyrirliggjandi gögn séu ítarleg, þar með taldar ítarlegar umsagnir sérfróðs stjórnvalds um umhverfisáhrif af framkvæmdinni. Óvenjulega ítarleg vinna hafi átt sér stað af hálfu stjórnvaldsins í málinu.

Rétt sé að sú breyting sem hafi verið samþykkt með deiliskipulaginu hafi falið í sér verulega breytingu á landnýtingu. Fyrir vikið hafi verið ráðist í deiliskipulagsbreytingu og farið ítarlega eftir þeim reglum sem um það gildi á öllum stigum. Rangt sé hins vegar að fyrirhuguð áform um svínabú skuli fella undir þungaiðnað. Sé slík fullyrðing kærenda gildishlaðin og ekki stutt lögmætum sjónarmiðum. Hið rétta sé að áformað svínabú sé landbúnaðarstarfsemi á landi sem í aðalskipulagi sé skilgreint sem landbúnaðarland. Augljóst sé að ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, sem og deiliskipulag, sé undanfari veitingar starfsleyfis, sbr. ákv. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunar­varnareftirlit. Þar segi að ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu skuli liggja fyrir og að ný atvinnustarfsemi skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Sé þetta breytt laga- og regluumhverfi frá því sem áður hafi verið þegar örðugara hafi verið að sjá fyrir hver áhrif yrðu af áformum um uppbyggingu svínabúa.

Fullyrðingum um að samþykkt skipulagsins og framkvæmd muni valda kærendum sem landeigendum tjóni sé mótmælt sem órökstuddum og ósönnuðum. Landsvæði kærenda sé landbúnaðarland og skipulagt sem slíkt. Fyrirhuguð landnýting sé skynsamleg og eðlileg fyrir þá starfsemi sem fyrirhuguð sé. Óvíða sé orðið hægt að finna svæði, jafnvel á landbúnaðar­svæðum, þar sem hægt sé að setja niður starfsemi sem þessa og uppfylla um leið reglur um fjarlægðarmörk, svo sem gert sé í tilviki umsækjenda. Ekki sé vitað um hentugt svæði þar sem hægt sé að uppfylla fjarlægðarkröfurnar annars staðar innan Eyjarfjarðarsveitar. Andmælaréttur kærenda hafi verið virtur, en fyrir liggi að þeir hafi á fyrri stigum málsins komið að sjónarmiðum sínum og haft jöfn tækifæri á við aðra um það. Af fram kominni kæru kærenda verði ekki séð að í henni sé að finna upplýsingar eða ábendingar um atvik sem væru til þess fallin að varpa nýju ljósi á málið eða breyta þeim sjónarmiðum sem afgreiðsla sveitarfélagsins hafi grundvallast á. Gildi þar rannsóknarreglan um að mál skuli rannsakað að því marki sem nauðsynlegt sé til að taka megi efnislega rétta ákvörðun í máli.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að samkvæmt niðurlagi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum skuli stofnunin gera hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni og kynna hana almenningi. Í 5. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum segi að Skipulagsstofnun kynni almenningi niðurstöðu sína með auglýsingu í dagblaði sem gefið sé út á landsvísu innan viku frá því að ákvörðun um matsskyldu liggi fyrir. Niðurstaða stofnunarinnar skuli vera aðgengileg á vef hennar. Samkvæmt þessu sé ljóst að matsskylduákvörðun stofnunarinnar sæti opinberri birtingu. Með það í huga eigi síðasti málsliður 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála við, en þar segi að kærufrestur teljist frá birtingu ákvörðunar sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu. Skipulagsstofnun bendi á að í samræmi við ákvæði 5. mgr. 12. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hafi hin kærða ákvörðun verið auglýst í Fréttablaðinu 14. mars 2019. Í auglýsingunni hafi kærufrestur verið tilgreindur. Með hliðsjón af ofangreindu sé ljóst að upphaf kærufrestsins miðist við þá dagsetningu, sbr. síðasta málslið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, og samkvæmt hinni kærðu ákvörðun hafi lok frestsins verið 15. apríl s.á. og hafi það verið tilgreint í auglýsingunni. Skýrt sé því að kærufresturinn hafi verið liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni. Nefndinni beri að vísa kærunni frá og taka þar með ekki afstöðu til efnis kærunnar, enda sé það ekki lögmæt afsökunarástæða að kærendur hafi ekki lesið Fréttablaðið tilgreindan dag og því ekki séð auglýsinguna.

Skipulagsstofnun árétti að kærufrestur samkvæmt síðasta málslið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 eigi við í málinu. Þetta sé sérstakur kærufrestur en kæru­fresturinn í 27. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 sé almennur. Sérákvæði um kærufrest gangi framar ákvæði um almennan kærufrest. Í því sambandi sé bent á að í 1. mgr. 27. gr. segi að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun „nema lög mæli á annan veg“. Hið tilvitnaða orðalag feli í sér að í sérlögum geti verið ákvæði um lengri eða styttri kærufrest.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er þess krafist að öllum kröfum kærenda verði hafnað að öllu leyti. Leyfishafi vísi til þess að hann reki svínabú að Teigi í Eyjafjarðarsveit. Hann hafi um hríð undirbúið að reisa stærra svínabú að Torfum, sem hann hyggist  reka samhliða búinu að Teigum. Þetta hafi hann ákveðið vegna harðnandi samkeppni og aukinnar hagræðingar­kröfu í búskap, auk sífellt metnaðarfyllri krafna um betri aðbúnað dýra og tækni. Það gefi auga leið að framkvæmd sem þessi sé dýr og kostnaðarsöm. Sé það því augljóst að miklir fjárhagslegir hagsmunir séu undir.

Eins og gögn málsins beri með sér sé ekki neitt athugavert við deiliskipulagsferlið hjá Eyjafjarðarsveit. Öllum athugasemdum hafi verið svarað málefnalega á grundvelli gildandi laga og reglna. Til þess verði að líta að hin fyrirhugaða framkvæmd sé á skipulögðu landbúnaðar­svæði. Jörðin Torfur og aðliggjandi jarðir, þ. á m. jarðir kærenda, séu skipulagt landbúnaðar­svæði. Það sé ekki óeðlilegt að þar þurfi nágrannar að þola að stundaður sé landbúnaður og að honum fylgi lykt af húsdýrum og úrgangi af þeim. Þá verði að líta til þess að svínahúsin séu langt utan fjarlægðarmarka samkvæmt reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Í 6. gr. reglugerðarinnar segi að fjarlægð eldishúsa svína með yfir 2.000 alisvín skuli vera að lágmarki 500 m frá íbúðarhúsum á skipulögðu landbúnaðarsvæði, en á öðrum svæðum í að lágmarki 600 m fjarlægð. Hús kærenda séu í 900 til 1.100 m fjarlægð og því séu svínahúsin langt utan fjarlægðarmarka, eins og tilgreint sé í ákvörðun Skipulags­stofnunar og umsögn Umhverfisstofnunar.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu og áréttað sjónarmið sín í frekari athugasemdum til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulags­­stofnunar frá 12. mars 2019 um að framkvæmdir vegna svínabús að Torfum, Eyjafjarðarsveit, skuli ekki háðar mati á umhverfis­áhrifum og um afgreiðslu sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 28. s.m. á deiliskipulagstillögu vegna svínabúsins.

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfis­áhrifum sæta ákvarðanir um matsskyldu framkvæmdar kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en um kærufrest fer samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefndina. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra laga er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hvorki er nánar skýrt í lögunum né í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 hvað teljist opinber birting. Í athugasemdum með frumvörpum þeim sem urðu að nefndum lögum er ekki heldur að finna slíkar skýringar. Er nærtækast að líta til orðanna hljóðan, en samkvæmt íslenskri nútímamálsorðabók þýðir „opinber“ eitthvað það sem almenningur hefur aðgang að. Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 kemur m.a. fram að vegna framkvæmdar í flokki B í 1. viðauka laganna skuli Skipulagsstofnun innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn um framkvæmdina berast taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Samkvæmt ákvæðinu, eins og það var þá orðað, skyldi stofnunin gera hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni og kynna hana almenningi. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna setur ráðherra í reglugerð ákvæði um þá málsmeðferð sem viðhöfð skal við ákvörðun um matsskyldu framkvæmda. Er slík ákvæði að finna í reglugerð nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, en í 6. mgr. 12. gr. hennar kemur fram að Skipulags­stofnun kynni almenningi niðurstöðu sína um matsskyldu framkvæmda í flokki B með auglýsingu í dagblaði sem gefið sé út á landsvísu innan viku frá því að ákvörðun um matsskyldu liggi fyrir. Þá skuli niðurstaða stofnunarinnar vera aðgengileg á vef hennar. Verður með hliðsjón af orðalagi framangreindra laga- og reglugerðarákvæða að telja ákvarðanir stofnunarinnar um matsskyldu sæta opinberri birtingu í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var hin kærða ákvörðun auglýst á vef Skipulags­stofnunar 13. mars 2019 og í Fréttablaðinu 14. s.m. og var kærufrestur þar tilgreindur til 15. apríl s.á. Mátti kærendum frá þeim degi vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Kæra vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar barst hins vegar ekki fyrr en rúmlega tveimur mánuðum eftir að kærufrestur var liðinn, eða 24. júní 2019. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berist að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 1. og 2. tl. Leiðbeint var um kæru­heimild og kærufrest í hinni kærðu matsskylduákvörðun og hefur löggjafinn tekið afstöðu til þess hvernig birtingu hennar skuli háttað, sem og að birta skuli auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Löggjafinn hefur einnig kveðið á um að hvort tveggja, matsskylduákvörðun og deiliskipulag, sæti kæru til úrskurðar­nefndarinnar og gildi sami kærufrestur þótt upphaf hans miðist ekki við sama tímamark. Að öllu þessu virtu verður ekki hjá því komist að vísa frá kæru á ákvörðun Skipulagsstofnunar í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvald innan marka síns sveitarfélags, enda annast þær gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Er nánar tiltekið í 1. mgr. 38. gr. laganna að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags. Þá skal skv. 1. mgr. 42. gr. sömu laga skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær. Í 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir að innihaldi fundargerðir nefnda ályktanir eða tillögur sem þarfnist staðfestingar byggðarráðs eða sveitarstjórnar beri að taka viðkomandi ályktanir og tillögur fyrir sem sérstök mál og afgreiða þau með formlegum hætti. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laganna setur ráðherra með auglýsingu leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitar­stjórna, m.a. um hvað þar sé skylt að bóka. Segir í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að greindum lögum að fundargerðir séu mikilvægt sönnunargagn um það sem fram hafi farið á fundi og verði þær að innihalda mikilvægustu upplýsingar, m.a. um niðurstöður mála, en borið hafi á að jafnvel þessar grundvallarupplýsingar séu ekki færðar til fundargerðar með réttum hætti. Auglýsing nr. 22/2013 um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna er sett með stoð í greindu ákvæði og er fjallað um skráningu dagskrármála í 7. gr. auglýsingarinnar. Segir þar að skrá skuli í fundargerð við dagskrármálið sjálft hvaða afgreiðslu það hafi hlotið, ályktanir og niðurstöðu, s.s. hvort mál hafi verið samþykkt, því synjað, frestað, vísað til umsagnar nefndar eða starfsmanns, vísað til fullnaðarafgreiðslu nefndar eða starfsmanns eða hvort máli hafi verið vísað frá. Í samræmi við framangreint er í 2. mgr. 28. gr. samþykktar nr. 861/2013 um stjórn Eyjafjarðarsveitar tekið fram að fundargerðir nefnda, ráða og stjórna skuli lagðar fyrir sveitarstjórn til kynningar eða afgreiðslu og staðfestingar. Þær ályktanir eða tillögur í fundar­gerðum sem þarfnist staðfestingar sveitarstjórnar séu lagðar fyrir sem sérstök mál og séu afgreiddar með formlegum hætti.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var á 302. fundi skipulagsnefndar 14. mars 2019 bókað að nefndin legði til við sveitarstjórn að auglýst skipulagstillaga yrði samþykkt skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með nánar tilgreindum breytingum. Var málið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 28. s.m. og afgreitt með svohljóðandi bókun: „Sveitarstjórn samþykkir tillögur skipulagsnefndar um afgreiðslu þeirra erinda sem bárust á auglýsingartímabili deiliskipulags­tillögu svínabús á Torfum. Athugasemdafrestur var til 14. febrúar 2019.“ Var það því tillaga skipulagsnefndar að auglýst skipulagstillaga yrði samþykkt með ákveðnum breytingum og að athugasemdir vegna hennar yrðu afgreiddar með ákveðnum hætti. Sá annmarki var hins vegar á málsmeðferð sveitarstjórnar að ekki kemur með skýrum hætti fram í bókun hennar hvort deiliskipulags­tillagan sé samþykkt heldur eingöngu að samþykktar séu tillögur skipulags­nefndar um afgreiðslu á þeim athugasemdum sem borist hafi. Þar sem ekki verður talið að afgreiðsla sveitarstjórnar uppfylli þau lágmarksskilyrði sem gera verður til skýrleika ákvarðana hennar, í skjóli valds þess sem sveitarstjórn er falið samkvæmt skipulagslögum og sveitar­stjórnarlögum, verður umrædd afgreiðsla ekki talin fela í sér ákvörðun er bindi enda á meðferð máls. Var því ranglega tilgreint í auglýsingu um gildistöku hins kærða deiliskipulags í B-deild Stjórnar­tíðinda að sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hefði samþykkt á fundi sínum 28. mars 2019 deiliskipulag fyrir svínabú í landi Torfa skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem meðferð deiliskipulagstillögu vegna svínabúsins er ekki lokið ber skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga einnig að vísa þessum hluta málsins frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

34/2019 Gljúfurárholt

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 12. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2019, kæra á ákvörðun skipulags-, byggingar- og umhverfis-nefndar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 17. apríl 2019 um að hafna umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi vegna Gljúfurárholts.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. maí 2019, er barst nefndinni 17. s.m., kærir eigandi Klettagljúfurs 21, Ölfusi, þá ákvörðun skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 17. apríl 2019 að hafna umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi vegna Gljúfurárholts.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 14. júní 2019.

Málavextir: Kærandi leitaði eftir heimild skipulags- og byggingarfulltrúa Ölfuss til að fjölga íbúðum í húsinu Klettagljúfri 21, Ölfusi. Eignin hafði verið tvíbýli en kærandi óskaði eftir leyfi fyrir fimm íbúðum. Skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd Ölfuss tók málið fyrir 14. mars 2017 og komst að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að endurskoða deiliskipulag svæðisins. Kærandi hóf í kjölfarið undirbúningsvinnu vegna deiliskipulagsbreytingarinnar, kynnti áform sín fyrir nágrönnum og lagði að lokum fram ósk um breytingu á deiliskipulagi 13. nóvember 2017. Skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd tók jákvætt í erindið á fundi sínum 16. s.m. með þeim fyrirvara að vinna þyrfti tillöguna frekar. Þó var samþykkt að tillagan yrði auglýst til kynningar og bárust athugasemdir á kynningartíma hennar. Málið var ekki tekið fyrir með formlegum hætti fyrr en 17. apríl 2019, en þá hafnaði nefndin tillögunni með vísan til framkominna athugasemda og þess að hún samræmdist ekki aðalskipulagi. Umtalsverð samskipti voru á milli kæranda og sveitarfélagsins frá upphafi málsins til loka.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að brotið hafi verið gegn meginreglu stjórnsýsluréttarins um málshraða og skilvirknisskyldu stjórnvalda. Kærandi hafi leitað fyrst með mál sitt til byggingarfulltrúa Ölfuss fyrir tæplega tveimur og hálfu ári. Ekkert við forsendur hinnar kærðu ákvörðunar beri með sér að tilefni hafi verið til að draga málið svo lengi, sem sé brot gegn málshraðareglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda hafi ekki heldur verið skýrt frá því að fyrirsjáanlegt væri að málið myndi tefjast, sem sé brot gegn 3. mgr. sömu greinar. Leiðbeiningum sem hann hafi fengið hafi verið ábótavant og þar af leiðandi í andstöðu við 7. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi kærandi ekki fengið að bera fram andmæli áður en endanleg ákvörðun hafi verið tekin, sem sé brot gegn 13. gr. stjórnsýslulaga. Loks hafi sveitarfélagið ekki tilkynnt kæranda um ákvörðun sína og sé það brot á 20. gr. sömu laga.

Bent sé á að deiliskipulagstillaga kæranda sé ekki í andstöðu við Aðalskipulag Sveitarfélagsins Ölfuss 2010-2022. Gatan Klettagljúfur sé á svæði Í10. Svæðið sé tilgreint sem 13 ha að stærð og fjöldi íbúða sé 22, en ekki 20 eins og á sé byggt í hinni kærðu ákvörðun. Ekki komi fram að um hámarksfjölda íbúða að ræða heldur sú um að ræða yfirlit um íbúðarsvæði í Ölfusi. Forsendur hinnar kærðu ákvörðun hafi því verið rangar. Hin forsenda höfnunar skipulagstillögunnar sé að tillagan hafi mætt andstöðu nokkurra hagsmunaaðila á svæðinu. Margar af þeim athugasemdum hafi byggst á misskilningi og því séu þær ekki málefnaleg ástæða fyrir höfnun erindisins.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: Af hálfu sveitarfélagsins er á því byggt að kærandi hefði verið upplýstur um að deiliskipulagstillagan væri í andstöðu við aðalskipulag og hefði hann fengið leiðbeiningar um að hann gæti komið sjónarmiðum sínum að við breytingu á aðalskipulaginu. Þá sé því hafnað að uppgefinn íbúðafjöldi í aðalskipulagi vísi ekki til hámarksfjölda íbúða, enda fæli önnur skýring í sér að enginn ákvæði þar um væru í gildi.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að landeigandi eða framkvæmdaraðili geti óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Það er því sveitarstjórn sem ber ábyrgð á gerð og breytingu deiliskipulags, hvort sem það er að eigin frumkvæði eða að frumkvæði landeiganda eða framkvæmdaraðila.

Í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er kveðið á um að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. skipulagslaga skal skipulagsnefnd, sem kjörin er af sveitarstjórn, starfa í hverju sveitarfélagi og er hún því fastanefnd innan stjórnsýslu sveitarfélags. Framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála þarf að koma fram í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins skv. 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Að sama skapi kemur fram í 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga að sveitarstjórn sé heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála, svo sem afgreiðslu deiliskipulagsáætlana og útgáfu framkvæmdaleyfa.

Í 36. gr. samþykktar um stjórn Sveitarfélagsins Ölfuss nr. 876/2013, sem í gildi var þegar hin kærða ákvörðun var tekin, kemur fram að bæjarstjórn staðfesti erindisbréf fyrir nefndir, ráð og stjórnir þar sem kveðið sé á um hlutverk, valdsvið og starfshætti þeirra í samræmi við lög, reglugerðir og almennar samþykktir bæjarstjórnar. Samkvæmt 37. gr. samþykktarinnar er ráðum þeim sem talin eru upp í 47. gr. hennar heimilt að afgreiða á grundvelli erindisbréfs skv. 36. gr., án staðfestingar bæjarstjórnar, mál á verksviði þeirra ef lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn því, þau varði ekki fjárhag sveitarfélagsins umfram það sem kveðið er á um í fjárhagsáætlun og þau víki ekki frá stefnu bæjarstjórnar í veigamiklum málum. Aðrar heimildir til fullnaðarafgreiðslu nefnda bæjarins er þar ekki að finna.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga skal samþykkt um stjórn sveitarfélags send ráðuneytinu til staðfestingar og skv. 1. tölul. 1. mgr. 18. gr. sömu laga skal sveitarstjórn ræða samþykktir og aðrar reglur sem samkvæmt lögum eiga að hljóta staðfestingu ráðherra við tvær umræður. Samþykktir sem staðfestar eru af ráðherra skulu vera birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 1. mgr. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað nr. 15/2005. Af því leiðir að erindisbréf sem ekki hefur hlotið framangreinda málsmeðferð getur ekki verið viðhlítandi heimild fyrir framsali á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála. Valdheimildir skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar Ölfuss voru því bundnar við þær heimildir sem fram koma í lögum og þágildandi samþykkt sveitarfélagsins, enda hafði sveitarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss ekki framselt það vald skv. 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga, sbr. 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Í samþykktinni er það eitt sagt um nefndina að hún fari m.a. með málefni sem varði skipulagsmál skv. skipulagslögum, skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og byggingar-reglugerð nr. 112/2012, sbr. B-lið 47. gr. samþykktarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga teljast ályktanir nefnda sveitarfélags tillögur til sveitarstjórnar hafi nefnd ekki verið falin fullnaðarafgreiðsla máls samkvæmt lögum eða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins. Umdeild ákvörðun skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar telst samkvæmt framangreindu tillaga til sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss um afgreiðslu máls.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður slík ákvörðun ekki borin undir  úrskurðarnefndina fyrr en málið hefur verið til lykta leitt af þar til bæru stjórnvaldi. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Í ljósi þess að umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi hefur ekki fengið lögboðna lokaafgreiðslu hjá sveitarfélaginu þykir rétt að vekja athygli á 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þar kemur fram að heimilt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, en samkvæmt 52. gr. skipulagslaga sæta stjórnvalds-ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

90/2018 Svarfhólsskógur

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 10. nóvember 2021, sjá hér.

Árið 2019, þriðjudaginn 22. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2018, kæra á gjaldtöku „fyrir sorp- og rotþróahreinsun í frístundabyggðinni Svarfhólsskógur […] í Hvalfjarðarsveit“.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Svarfhólfsskógur, félag eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi, gjaldtöku „fyrir sorp- og rotþróahreinsun í frístundabyggðinni Svarfhólsskógur“. Er þess krafist að allir sem greitt hafi fern árgjöld fyrir eina hreinsun sinnar rotþróar fái næsta árgjald niðurfellt eða fjórða árgjaldið endurgreitt með vöxtum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 3. ágúst 2018.

Málavextir: Hinn 15. mars 2017 sendi formaður kæranda sveitarstjóra Hvalfjarðarsveitar tölvupóst þar sem bent var á að rotþrær í Svarfhólsskógi, sem síðast hefðu verið hreinsaðar árið 2013, hefðu ekki verið hreinsaðar árið 2016. Því myndu líða fjögur ár á milli hreinsana þrátt fyrir að í 15. gr. Samþykktar nr. 583/2008 um fráveitur í Hvalfjarðarsveit væri kveðið á um að rotþrær skuli eigi hreinsa sjaldnar en á þriggja ára fresti. Í bréfinu kom einnig fram að margir sumarhúsaeigendur hefðu látið í ljós óánægju sína með hækkun á hreinsunargjaldi fyrir rotþró, en með gjaldskrá nr. 1145/2016 fyrir hreinsun rotþróa í Hvalfjarðarsveit hækkaði hreinsunargjald á rotþró við hvert íbúðarhús og sumarhús úr kr. 8.440 í kr. 11.650. Kom formaður kæranda þeim tilmælum á framfæri við sveitarstjórn að hún freistaði þess að ná hagstæðari samningi um hreinsun rotþróa. Svaraði sveitarstjóri samdægurs og þakkaði ábendingarnar, benti á að farið yrði yfir málin heildstætt og að þjónustugjöld skuli standa undir kostnaði við veitta þjónustu.

Frekari tölvupóstsamskipti áttu sér stað í desember 2017 og 4. janúar 2018 sendi formaður kæranda bréf til sveitarstjóra þar sem óskað var eftir því að upplýsingar um sundurliðaðan og rökstuddan kostnað við síðustu hreinsun rotþróa í Svarhólfsskógi. Bent var á að sumarhúsaeigendur hefðu verið búnir að greiða árlegt rotþróargjald í fjögur ár þegar loksins hefði verið hreinsað hjá þeim sumarið 2017. Í kjölfar frekari samskipta barst kæranda 11. apríl 2018 bréf frá skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins þar sem útskýrt var skipulag sveitarfélagsins á hreinsun rotþróa og að árið 2013 hefðu verið gerðar breytingar á fyrirkomulaginu. Bent var á að sveitarfélagið hefði gert samning um hreinsun rotþróa árið 2014 sem gilti til ársins 2019 og væri hann ekki uppsegjanlegur á samningstímanum. Einnig kom fram að undanfarin ár hefði rotþróarhreinsun verið rekin með halla og nauðsynlegt hefði reynst að hækka gjöldin árið 2016 til að mæta raunkostnaði við rotþróahreinsunina.

Hinn 21. apríl 2018 var á aðalfundi kæranda skorað á sveitarstjóra að svara erindi formanns félagsins er varðaði forsendur gjaldtöku fyrir sorp- og rotþróahreinsun og hvernig sveitarfélagið hygðist leiðrétta ofgreiðslu sumarhúsaeigenda fyrir rotþróahreinsun. Á fundi sveitarstjórnar 8. maí s.á. var samþykkt að hafna kröfu um endurgreiðslu álagðs hreinsunargjalds rotþróa.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að meintur kostnaður Hvalfjarðarsveitar vegna sorphreinsunar hafi verið innheimtur með fasteignagjöldum á hverju ári fyrir hvert almanaksár. Þá hafi meintur kostnaður sveitarfélagsins vegna hreinsunar rotþróa einnig verið innheimtur með fasteignargjöldum, en skipt niður á þrjú ár fyrir hverja hreinsun. Árið 2016 hefði samkvæmt greiðslufyrirkomulagi og reglum sveitarfélagsins átt að hreinsa rotþrær í Svarfhólfsskógi en það hafi ekki verið gert. Hvorki hafi verið haft samráð við sumarhúsaeigendur né þeim verið tilkynnt um breytingu á tíðni hreinsunar. Þegar í ljós hafi komið að árlegt rotþróargjald fyrir árið 2017 hefði verið hækkað um 35% frá fyrra ári hafi mörgum verið misboðið. Fyrirheit um rökstuddar og sundurliðaðar upplýsingar um gjaldtöku vegna sorp- og rotþróahreinsunar hafi verið svikin ítrekað.

Á aðalfundi kæranda 21. apríl 2018 hafi verið skorað á sveitarstjóra að svara erindi formanns félagsins. Áskorunin hafi verið afgreidd með bókun á sveitarstjórnarfundi 8. maí s.á., en þar hafi ranglega verið sagt að gerð hafi verið krafa um endurgreiðslu álagðs hreinsunargjalds rotþróa. Aðeins hafi verið spurt um hvernig sveitarfélagið hygðist leiðrétta ofgreiðslu sumarhúsaeigenda á gjaldinu. Þá sé þeirri staðhæfingu í bókuninni mótmælt að aðilar í Svarfhólsskógi hafi ekki ofgreitt umrætt gjald.

Rotþrær hafi verið hreinsaðar árið 2013 en fyrir hverja hreinsun séu þrjár árlegar greiðslur innheimtar. Sumarhúsaeigendur hafi gert ráð fyrir að næsta hreinsun færi fram árið 2016, sbr. 15. gr. samþykktar um fráveitur í Hvalfjarðarsveit nr. 583/2008, þar sem kveðið sé á um að rotþrær skuli eigi hreinsa sjaldnar en á þriggja ára fresti. Vegna misskilnings milli forsvarsmanna sveitarfélagsins og verktakans hafi rotþrær í Svarhólfsskógi ekki verið hreinsaðar fyrr en árið 2017. Eigi að síður hafi eigendum verið gert að greiða 33,33% meira en öðrum í sveitarfélaginu og þar með verið beittir mikilli mismunun.

Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í kæru komi ekki fram hvaða stjórnvaldsákvörðun sveitarfélagsins verið sé að kæra, sbr. áskilnað þar um í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ekki sé vísað til neinnar einnar ákvörðunar sveitarfélagsins sem kveði einhliða á um rétt eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli. Ekki liggi fyrir nein kæranleg stjórnvaldsákvörðun í málinu. Athugasemdir kæranda snúi ýmist að ákvörðunum sveitarfélagsins sem varði fleiri en einn aðila sem teljist vera stjórnvaldsfyrirmæli og heyri því ekki undir úrskurðarvald úrskurðarnefndarinnar, að tiltekinni ákvörðun stjórnvalds einkaréttarlegs eðlis, þ.e. samningi við verktaka um hreinsun rotþróa eða að framsetningu upplýsinga. Ákvörðun um breytingu á fyrirkomulagi á hreinsun rotþróa í sveitarfélaginu, sem gengið hafi í gildi árið 2014, sé ekki stjórnvaldsákvörðun. Fyrirkomulaginu hafi verið breytt með hliðsjón af rekstrarlegum forsendum en augljóst sé að slík ákvörðun varði ekki bara kæranda í afmörkuðu máli heldur alla eigendur fasteigna í sveitarfélaginu sem séu með rotþró.

Þá sé bent á að ekki liggi neitt fyrir í málinu neitt um tilvist kæranda, um aðildarhæfi hans að stjórnsýslumáli eða um hvort að ákvörðun um að leita til úrskurðarnefndarinnar hafi verið tekin í samræmi við samþykktir félagsins. Þá hafi í kærunni ekki verið leiddar líkur að því af hálfu kæranda hvaða einstaklegu og verulegu lögvörðu hagsmuni kærandi hafi af því að fá mál sitt tekið fyrir hjá nefndinni. Liggi því hvorki ljóst fyrir hvort umrætt félag geti, eða sé til þess fallið, að eiga aðild að máli fyrir úrskurðarnefndina, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, né hvort að skilyrði lagagreinarinnar um lögvarða hagsmuni séu uppfyllt.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Ágreiningur máls þessa lýtur að gjaldtöku vegna rotþróahreinsunar í Hvalfjarðarsveit en kærandi telur gjaldið of hátt. Auk þess hefur hann gert athugasemdir við fjárhæð sorphreinsunargjalds, sem kærandi telur hafa hækkað of mikið. Er ljóst að kærandi er almennt ósáttur við þau svör sem hann hefur fengið af hálfu sveitarfélagsins vegna gjaldtöku þess. Hefur kærandi og fundið að afgreiðslu sveitarstjórnar frá 8. maí 2018 þar sem félagið hafi ekki gert kröfu um endurgreiðslu álagðs gjalds vegna hreinsunar rotþróa heldur spurt hvernig sveitarfélagið hygðist leiðrétta ofgreiðslu sumarhúsaeigenda á gjaldinu.

Álagning gjalda, s.s. vegna hreinsunar rotþróa, sorphirðu og sorpeyðingar, er almennt kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Í kærumáli vegna slíkrar álagningar getur eftir atvikum komið til skoðunar hvort fjárhæð þjónustugjalds sem innheimt er á grundvelli gjaldskrár er innan þess ramma sem slíkum gjöldum er settur. Gjaldskrár sem slíkar eru hins vegar stjórnvaldsfyrirmæli sem beinast að hópi manna og hafa þeir ekki hagsmuna að gæta af þeim umfram aðra fyrr en álagning fer fram.

Kærandi er félag eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólfsskógi og samkvæmt samþykktum félagsins er hlutverk þess m.a. að gæta hagsmuna félagsmanna og koma fram fyrir þeirra hönd sameiginlega. Á félagið sjálft hafa hins vegar ekki verið lögð þau gjöld sem ágreiningsmál þetta snýst um og hafa einstakir félagsmenn kæranda sem á kunna að hafa verið lögð gjöld ekki lagt fram kæru. Kæra í máli þessu er lögð fram fyrir hönd félagsins og umboð stjórnarmanna þess til handa formanni til að bera fram kæru lúta að þeim málarekstri. Þá lúta málsrök kæranda að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna og bera samskipti félagsins við sveitarfélagið þess einnig vitni. Verður því ekki séð að kærandi hafi einstaklegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun. Þá verður kæruaðild ekki heldur byggð á þeim forsendum að félagið hafi stundað almenna hagsmunagæslu fyrir sína félagsmenn gagnvart sveitarfélaginu. Hafa ekki komið fram aðrar ástæður sem leitt geta til kæruaðildar samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður máli þessu því vísað frá sökum aðildarskorts.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

103/2019 Austurey

Með

Árið 2019, föstudaginn 18. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III og ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019 um að samþykkja byggingar­leyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. september 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Austureyjar II, Bláskógabyggð, ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III, og ákvörðun byggingar­fulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III. Er krafist ógildingar hinna kærðu ákvarðana og að úrskurðar­nefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunar­kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 10. október 2019.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag frístundabyggðar í landi Austureyjar I og III frá 7. júní 2002. Með umsókn, dags. 1. apríl 2019, sótti landeigandi Austureyjar III um breytingu á nefndu deiliskipulagi. Í umsókninni fólst skilmálabreyting fyrir heildarsvæðið varðandi nýtingarhlutfall lóða sem yrði 0,03 í stað ákvæðis um hámarksstærð bygginga í fer­metrum. Heimilað yrði að reisa á hverri frístundalóð eitt frístundahús og eitt smáhýsi/aukahús. Auk þess yrði frístundalóðin Eyrargata 9 stækkuð úr 5.444 m² í 7.177 m² ásamt stækkun byggingarreits. Tilgreint var að byggingarreitur væri 50 m frá vatnsbakka og 10 m frá lóðarmörkum og að gert yrði ráð fyrir 5 m belti fyrir göngustíg milli lóðanna Eyrargötu 7 og 9 í framhaldi af aðkomuvegi.

Á fundi skipulagsnefndar Bláskógabyggðar 10. apríl 2019 var mælst til þess að sveitarstjórn samþykkti framkomna breytingatillögu og að hún yrði auglýst samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags­­laga nr. 123/2010. Sveitarstjórn samþykkti að auglýsa tillöguna til kynningar á fundi sínum 9. maí 2019 og var hún kynnt á tímabilinu frá 22. maí til 3. júlí s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna á fundi sínum 22. ágúst 2019 og tók afstöðu til framkominna athugasemda. Skipulagsfulltrúi sendi athugasemdaaðilum svör bæjarstjórnar með bréfi, dags. 4. september s.á.

Með erindi, dags. 5. september 2019, sendi Bláskógabyggð Skipulagsstofnun deiliskipulags­breytinguna til lögboðinnar umfjöllunar og tilkynnti stofnunin með bréfi, dags. 18. s.m., að hún gerði ekki athugasemd við að auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Tók deiliskipulags­breytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2019.

Með umsókn, dags. 10. september 2019, sótti landeigandi Austureyjar III um byggingarleyfi fyrir 183,7 m² sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9. Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. september s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að ekki hafi verið aflað álits Umhverfisstofnunar og Náttúruverndarnefndar á umdeildri deiliskipulagsákvörðun eða samþykktu byggingarleyfi. Með þeim framkvæmdum sem nú eigi sér stað í Austurey III sé verið að raska vistkerfi Apa­vatns. Það sé skýrt samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd að við slíkar framkvæmdir beri að afla umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndar­­nefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir samkvæmt 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggi fyrir. Hvorki við samþykkt deili­skipulags né byggingarleyfis hafi þessara álita verið aflað og því beri að ógilda byggingarleyfið og taka deiliskipulagið til endurskoðunar.

Telji úrskurðarnefndin aftur á móti að afgreiðsla sveitarstjórnar hafi að þessu leyti átt við rök að styðjast og að ákvæði náttúruverndarlaga felli ekki úr gildi samþykkt deiliskipulagsins telji kærandi engu að síður að byggingarleyfið brjóti gegn lögum nr. 61/2006 um lax- og silungs­veiði en samkvæmt 33. gr. þeirra sé ekki heimilt að gefa út byggingarleyfi fyrr en leyfi hafi fengist hjá Fiskistofu. Þá hafi ekki verið óskað eftir áliti Veiðifélags Apavatns og umsagnar sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmda á lífríki vatnsins.

Kærandi byggir jafnframt á því að ekki hafi verið fylgt ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 og skipulagslaga nr. 123/2010 við samþykkt deiliskipulagsins. Ekki hafi verið leitað samráðs við hagsmunaaðila, sbr. gr. 5.2.1. reglugerðarinnar. Þannig hafi ekki verið haft samband við Veiðifélag Apavatns eða Náttúrufræðistofnun Íslands þrátt fyrir að framkvæmdirnar snerti viðkvæmt lífríki Apavatns sem hafi verið tilnefnt til B-hluta Náttúruminjaskrár árið 2018. Ekki sé í deiliskipulagi að finna skilgreindar takmarkanir á landnotkun sökum náttúruvár, en ljóst sé af myndum frá 2006 að mikil flóðahætta sé á svæðinu. Myndir af flóðum hafi verið sendar til sveitarstjórnar en hafi ekki fengið efnislega meðferð.

Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarstjórn byggir á því að málsmeðferðin hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við lög. Samkvæmt deiliskipulagi frá 2002 sé gert ráð fyrir byggingarreit á lóðinni Eyrargötu 9 á þeim stað þar sem hann sé í dag. Með deiliskipulags­breytingunni sé reiturinn stækkaður til austurs og suðurs og lóðin stækkuð um 1.735 m². Bent sé á að samkvæmt upphaflegu deiliskipulagi sé þegar gert ráð fyrir byggingu á staðnum og að stækkun lóðarinnar hafi engin áhrif á vistkerfi eða náttúru svæðisins enda sé ekki gert ráð fyrir mannvirkjum á þeim stöðum sem stækkunin taki til. Byggingarreiturinn sé í 50 m fjarlægð frá vatnsbakka en málsástæða kæranda, um að ekki megi byggja í meira en 100 m fjarlægð frá vatnsbakka þar sem svæðið sé tilnefnt í B-hluta Náttúruminjaskrár, sé hafnað þar sem svæðið sé ekki enn komin inn á skrána með þeim réttaráhrifum sem því fylgi.

Því sé hafnað að ákvæði 61. og 68. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd eigi við í málinu enda sé byggingarreitur í meira en 50 m fjarlægð frá vatnsbakka en það sé Apavatn sjálft sem njóti verndar, sbr. a-lið 1. mgr. 61. gr. laganna. Þá sé gert ráð fyrir byggingarreit á umræddum stað í skipulagi sem hafi hlotið lögmælta afgreiðslu og geti lög nr. 60/2013 ekki verið afturvirk. Heimiluð bygging samkvæmt umræddu byggingarleyfi hafi ekki áhrif á fiskigengd Apavatns og eigi 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði ekki við í máli þessu. Við vatnið séu fjöldamörg önnur sumarhús sem ekki hafi verið talið að hafi slík áhrif.

Deiliskipulagsbreytingin hafi verið í samræmi við markmið skipulagslaga og ákvæði skipulags­reglugerðar. Hún hafi verið auglýst og hafi öllum sem hafi átt hagsmuna að gæta gefist tækifæri til að koma að athugasemdum. Hvað varði þau málsrök kæranda að ekki hafi verið skilgreind takmörkun landnotkunar vegna náttúruvár sé til þess að líta að Aðalskipulag Bláskógabyggðar 2015-2027 hafi verið samþykkt 25. maí 2018. Við gerð þess hafi farið fram mat á því hvaða svæði féllu undir náttúruvá.

Að lokum sé því hafnað að skilyrði séu til staðar til þess að fella úr gildi ákvörðun um að samþykkja byggingaráform og veita byggingarleyfi. Samþykkt byggingaráform hafi verið í samræmi við skipulag og málsmeðferð að öðru leyti í samræmi við lög. Ekki hafi verið talið að framkvæmdir gætu haft í för með sér röskun á þeim landslagsgerðum sem verndaðar væru samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að fyrir liggi að hluti úr landi Austureyjar III hafi verið skipulagður sem frístundasvæði árið 2002, þar með talin lóðin Eyrargata 9, og hafi verið heimilt að byggja 163 m² á lóðinni fyrir breytingu. Sumarhúsið sem sé nú í byggingu verði 183,7 m². Ólíklegt sé að stækkun á sumarhúsi um 20 m² muni valda frekara raski eða hafa úrslitaáhrif um verndun Apavatns. Fyrirhugað sumarhús sé í eins og hálfs km fjarlægð frá Austurey III og er jörðin að Austurey I á milli. Mun því fyrirhugað sumarhús hvergi vera í sjónlínu frá landi kæranda.

Ekki sé verið að raska óröskuðu landi. Nú þegar hefur verið framkvæmt á svæðinu, en bæði séu frístundahús staðsett á lóðinni Eyrargötu 7 og jarðhiti hefur verið virkjaður. Fuglavarp á lóðinni að Eyrargötu 9 og umhverfis hana sé í engu ríkara en annars staðar í landi Austureyjar nema síður sé og til að mynda verpi engir andfuglar á lóðinni eða í námunda við hana.

Niðurstaða: Samkvæmt Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 teljast jarðirnar að Austurey I og III til frístundasvæðis. Í lýsingu aðalskipulagsins segir m.a. um frístundasvæði að á þeim skuli lóðir að jafnaði vera ½ til 1 ha að stærð og nýtingarhlutfall skuli ekki vera hærra en 0,03. Í ákveðnum tilfellum geti frístundalóðir þó verið minni og nýtingarhlutfall allt að 0,05. Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér skilmálabreytingu heildarsvæðisins varðandi nýtingarhlutfall sem breytist í 0,03. Heimilt verði að reisa eitt frístundahús og eitt smáhýsi/aukahús og þá verði lóðin að Eyrargötu 9 stækkuð úr 5.444 m² í 7.177 m². Fer hin umdeilda deiliskipulagsbreyting því ekki gegn stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulags­áætlana því fullnægt.

Umdeild deiliskipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem hann og gerði. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. sömu laga. Með bréfi, dags. 18. september 2019, tilkynnti stofnunin að hún hefði farið yfir framlögð gögn og gerði ekki athugasemdir við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulags­breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagssvæðið er ekki á B-hluta náttúruminjaskrár, sbr. lög nr. 60/2013 um náttúruvernd, því bar sveitarfélaginu ekki að leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar og viðkomandi náttúruverndar­­nefndar samkvæmt 68. gr. laganna. Með vísan til alls framangreinds liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð skipulags­­breytingarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Með hinu kærða byggingarleyfi er leyfishafa veitt heimild að byggja 183,7 m² sumarhús á lóðinni Eyrargötu 9 í landi Austureyjar III, en fyrir hina kærðu deiliskipulagsbreytingu mátti reisa á lóðinni byggingar, samtals 163 m² að stærð.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðar­nefndarinnar. Fyrirhugað sumarhús verður í nokkur hundrað metra fjarlægð frá landi kæranda. Verður ekki séð að stækkun heimilaðrar byggingar um 20,7 m² samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi muni hafa áhrif á grenndarhagsmuni kæranda vegna þeirrar fjarlægðar sem er á milli lands hans og fyrirhugaðs húss. Á kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti byggingarleyfisins svo sem áskilið er í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar en kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III.

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019, um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

152/2018 Miðdalur

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 9. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 152/2018, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 23. nóvember 2018 um að synja erindi Miðdals ehf. um efnistöku í Hrossadal í landi Miðdals.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Miðdalur ehf., Vínlandsleið 16, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 23. nóvember 2018 að synja erindi félagsins um efnistöku í Hrossadal í landi Miðdals. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins og athugasemdir bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 29. janúar og 9. ágúst 2019.

Málsatvik og rök: Kærandi sótti  um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar vegna efnistöku, nánar tiltekið grjótnámi, í landi Miðdals sem er í eigu kæranda. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 23. nóvember 2018 var erindi kæranda synjað „þar sem framkvæmdin samræmist ekki gildandi aðalskipulagi“. Á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar 10. janúar 2019 var erindi kæranda endurupptekið og skipulagsnefnd falið að taka það fyrir að nýju. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 1. febrúar s.á. Í niðurstöðu nefndarinnar var vísað til þess að bæjarstjórn hefði á fundi sínum 3. október 2018 tekið ákvörðun um að ráðast í endurskoðun aðalskipulags Mosfellsbæjar. Frá þeim tíma hafi beiðnum um breytingu aðalskipulags almennt verið vísað til endurskoðunar aðalskipulagsins. Með hliðsjón af framangreindu samþykkti skipulagsnefnd að vísa erindi kæranda til endurskoðunar aðalskipulags.

Kærandi byggir á því að rökstuðningur fyrir ákvörðun bæjaryfirvalda hafi ekki verið fullnægjandi og hafi hvorki stuðst við lögmæt né málefnaleg sjónarmið. Þar sem umsókn og erindi kæranda hafi lotið að því að fá tilgreinda breytingu á aðalskipulagi dugi ekki að halda því fram að erindið hafi ekki samrýmst skipulagi. Beri að taka efnislega afstöðu til erindisins út frá viðurkenndum skipulagssjónarmiðum. Hvers kyns takmarkanir á hagnýtingu eignarréttar verði að styðjast við lagaheimild og þegar stjórnvöldum sé falið að taka matskenndar ákvarðanir verði þau að gera það á grundvelli faglegra og málefnalegra sjónarmiða.

Af hálfu bæjaryfirvalda  er vísað til þess að mistök hafi verið gerð og fallist hafi verið á að taka málið til meðferðar að nýju. Upphafleg krafa kæranda um að hin kærða ákvörðun sé felld úr gildi sé því ekki lengur tæk til meðferðar. Með ákvörðun skipulagsnefndar 1. febrúar 2019 hafi verið brugðist við athugasemdum kæranda sem fram hafi komið í kæru og ný ákvörðun verið tekin sem fullnægi kröfum skipulagslaga nr. 123/2010, sem og stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um málsmeðferð og rökstuðning.

Niðurstaða: Svo sem nánar er lýst í málavöxtum sótti kærandi um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar vegna efnistöku í landi sínu í Miðdal. Erindi kæranda var synjað af skipulagsnefnd á þeim forsendum að það samrýmdist ekki gildandi aðalskipulagi.  Fallist var á að sú afgreiðsla hefði ekki verið fullnægjandi og var málið endurupptekið. Urðu lyktir þær að samþykkt var á fundi skipulagsnefndar 1. febrúar 2019 að vísa erindi kæranda til endurskoðunar aðalskipulags Mosfellsbæjar, en heildarendurskoðun þess stendur nú yfir. Mun erindið því enn vera til meðferðar hjá sveitarfélaginu. Úrskurðarnefndin hefur í ljósi atvika leitað eftir afstöðu kæranda til kæruefnisins, en þær umleitanir hafa ekki borið árangur. Með hliðsjón af því að kæruefnið er ekki lengur fyrir hendi verður kærandi ekki talinn eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá skorið úr um úrlausn þess, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamál. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

100/2019 Laugavegur

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 2. október 2019, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 100/2019, kæra á afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 13. september á fyrirspurn um verslun og veitingastað í húsnæði við Laugaveg 15, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. september 2019, er barst nefndinni 25. s.m., kærir eigandi Laugavegs 20b „samþykkt skipulagsfulltrúa frá 13. september að samþykkja veitingastað í húsnæði við Laugaveg 15“, Reykjavík. Verður að skilja málatilbúnað kæranda sem svo að þess sé krafist að afgreiðslan verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. september 2019.

Málavextir: Kærandi hefur oftar en einu sinni falast eftir því að fá að opna veitingastað í húsnæði sínu við Laugaveg 20b. Umsagnir skipulagsfulltrúa frá 29. janúar 2016, 29. júní 2018 og 16. september 2019 vegna erinda kæranda voru neikvæðar vegna starfsemiskvóta viðkomandi götuhliða.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 30. ágúst 2019 var lögð fram fyrirspurn um að vera með verslun og veitingastað/take away á jarðhæð hússins á lóð nr. 15 við Laugaveg. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra og var lögð fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. september 2019. Var í umsögninni tekið fram að ekki væri gerð skipulagsleg athugasemd við að heimilað yrði að opna verslun og veitingastað í rými því sem um ræddi með þeirri uppskiptingu sem lagt væri upp með samkvæmt fyrirspurninni. Endurskoða þyrfti þó fyrirhugaða uppstillingu á veitingahluta starfseminnar til að gæta að sérskilmálum í deiliskipulagi. Hægt væri að koma að nýjum tillögum þannig að þeim skilmálum yrði fylgt. Umsögn skipulagsfulltrúa var samþykkt á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 13. september 2019 og hefur sú afgreiðsla verið kærð, svo sem að framan greinir

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að bæði Laugavegur 15 og 20b séu staðsett á sama götusvæði og því hljóti sömu reglur að gilda um húsin. Það sé óeðlilegt að Laugavegur 20b, sem hafi ríka sögu sem veitingahúsnæði, fáist ekki samþykkt sem veitingastaður á meðan húsnæði sem alla tíð hafi verið í hefðbundinn verslunarrekstur fái slíkt samþykki.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verði ekki lögð að jöfnu við formlega leyfisumsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli geti ekki, eðli máls samkvæmt, talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgi. Sé því ljóst að svar skipulagsfulltrúa vegna fyrirspurnar feli ekki í sér lokaákvörðun. Þar sem hin kærða ákvörðun um jákvæða afstöðu til fyrirspurnar sé ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar beri að vísa kærumálinu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Í 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. sömu laga kemur fram að byggingarfulltrúi skuli leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd sem er háð byggingarleyfi samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Af framangreindum lagaákvæðum er ljóst að endanleg ákvarðanataka um veitingu byggingarleyfis til að breyta notkun húsnæðis í veitingastað liggur hjá byggingarfulltrúa. Samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðun, sem bindur ekki enda á mál, verður hins vegar ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsfulltrúa á fyrirspurn um hvort heimildir séu til staðar til að opna veitingastað í hluta húsnæðis við Laugaveg 15, en kærandi telur að í þeirri afgreiðslu felist ójafnræði gagnvart sér. Í þeirri afgreiðslu felst hins vegar engin sú ákvörðun sem bindur enda á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Er og ljóst að kærandi getur hvorki haft lögvarinna hagsmuna að gæta vegna grenndar eða meints ójafnræðis nema af leyfisveitingu verði, en samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála eiga þeir einir kærurétt til nefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af kæruefninu. Ber því samkvæmt öllu sem að framan er rakið að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

72/2019 Skólavegur

Með

Árið 2019, föstudaginn 27. september, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 72/2019 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Skólavegar 14, Fáskrúðsfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 9. ágúst 2016 að veita byggingarleyfi fyrir sólpall og 140 cm hárri skjólgirðingu úr timbri á lóðinni Skólavegi 12, Fáskrúðsfirði. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og viðurkennd verði aðilastaða hans við lokaúttekt mannvirkisins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 18. september 2019.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 13. júní 2016, sóttu eigendur Skólavegar 12 um byggingarleyfi fyrir byggingu sólpalls og 140 cm hárrar skjólgirðingar úr timbri á nefndri lóð. Umsóknin var tekin fyrir á fundi eignar-, skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins 15. s.m. og samþykkt að grenndarkynna hana fyrir kæranda, sem lóðarhafa aðliggjandi lóðar, með athugasemdfrest frá 20. júní til 18. júlí 2016. Að lokinni grenndarkynningu tók nefndin umsóknina fyrir 21. júlí s.á. og lágu þá m.a. fyrir athugasemdir frá kæranda. Samþykkti nefndin umsóknina með vísan til þess að fram komnar athugasemdir væru ekki þess eðlis að hafna bæri henni. Bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, staðfesti þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 25. júlí 2016. Byggingarfulltrúi tilkynnti umsækjanda þá niðurstöðu með bréfi, dags. 9. ágúst 2016, þar sem jafnframt kom fram að leyfið tæki gildi þegar byggingarleyfisgjöld hefðu verið greidd.

Af hálfu kæranda er á því byggt að umrætt byggingarleyfi sé ólögmætt sbr. ákvæði laga um mannvirki nr. 160/2010, auk e.-f. liða gr. 2.3.5. sem og gr. 7.2.3. byggingareglugerðar nr. 120/2012 með áorðnum breytingum. Einnig sé byggt á meginreglum nábýlisréttar ekki síst hvað varðar aukna snjósöfnun á lóð hans vegna umrædds mannvirkis. Kærandi hefði átt að hafa aðilastöðu, í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að því stjórnsýslumáli sem leiddi til útgáfu lokaúttektarvottorð vegna umþrætts mannvirkis.

Byggingaryfirvöld Fjarðabyggðar benda á að kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 vegna umdeilds byggingarleyfis hafi verið löngu liðinn þegar kæra í máli þessu hafi borist úrskurðarnefndinni en kæranda hafi verið leiðbeint um rétt sinn til að kæra umrædda ákvörðun. Þá hafi fulltrúi kæranda verið á svæðinu þegar lokaúttekt verksins hafi verið framkvæmd með sérstakt umboð í því skyni. Fyrir lokaúttektina hafi kærandi verið upplýstur um í bréfi, dags. 16. maí 2019, að sveitarfélagið teldi hann ekki eiga aðild að henni og myndu ekki fá sérstaka boðun í úttektina. Þrátt fyrir það hafi kærandi verið upplýstur um hvenær byggingarfulltrúi hefði í hyggju að framkvæma lokaúttekt og honum gefinn kostur á að hafa fulltrúa sinn viðstaddan.

Leyfishafi bendir á að eins mánaðar kærufrestur vegna málsins sé liðinn. Ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar hafi verið tekin 9. ágúst 2016 og kæranda sent bréf sama dag með tilkynningu um veitingu umdeilds byggingarleyfis tilkynnt um ákvörðunina. Samkvæmt ofangreindu hafi því kærufrestur í þessu máli runnið út fyrir rétt tæplega þremur árum áður en kæra hafi borist og beri því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins verður kæru þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Svo sem að framan er rakið var hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar tekin 9. ágúst 2016. Sama dag var bréf sent kæranda með tilkynningu um ákvörðunina og honum leiðbeint um kæruleið og kærufrest í samræmi við 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Liggur því fyrir að kæranda varð kunnugt um hina kærðu ákvörðun þegar í ágúst 2016. Kæra í máli þessu barst hins vegar ekki úrskurðarnefndinni fyrr en 25. júlí 2019 eða tæpum þremur árum síðar. Var lögbundinn kærufrestur þá löngu liðinn. Ekki eru fyrir hendi þær ástæður sem leiða til þess að ógildingarkrafa kæranda verði tekin fyrir að liðnum kærufresti samkvæmt undantekningarákvæðum nefndrar 28. gr. stjórnsýslulaga.

Fyrir liggur að byggingarfulltrúi sendi kæranda bréf, dags. 16. maí 2019, þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða lokaúttekt sem skyldi fara fram í síðasta lagi fyrir lok júní s.á. Kom þar m.a. fram að hann teldi það hluta af rannsóknarskyldu sinni í tilefni af athugasemdum kæranda að láta fara fram ákveðnar mælingar á staðnum sem lið í lokaúttekt. Í skjali sem ber yfirskriftina Lokaúttekt Skólavegar 12 og dagsett er 25. júní 2019 er tekið fram að meðal viðstaddra hafi verið fulltrúi kæranda. Loks liggur fyrir í málinu umboð kæranda, dags. 31. maí 2019 til þess fulltrúa sem viðstaddur var úttektina til að koma fram fyrir hans hönd við mælingar milli mannvirkis á Skólavegi 12 og lóðamarka Skólavegar 14. Verður af framangreindu ekki talið að kærandi eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um rétt hans til aðildar að umræddri lokaúttekt þar sem fulltrúi hans var á staðnum við úttektina sem þegar hefur farið fram.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

21/2019 Fitjar

Með

Árið 2019, föstudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2019, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 13. mars 2019 um að fresta afgreiðslu umsóknar um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. mars 2019, er barst nefndinni 20. s.m., kæra eigendur Fitja í Skorradalshreppi, þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 13. mars 2019 að fresta afgreiðslu umsóknar um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32. Er þess krafist að staðfest verði að framlögð gögn séu fullnægjandi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 9. maí 2019.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 3. júlí 2018 var tekin fyrir umsókn kærenda um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við Fitjahlíð 28 og 32. Var málinu frestað þar sem að mati nefndarinnar lægi ekki fyrir fullnægjandi gögn, sbr. c-lið 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Fært var til bókar að kærendur þyrftu að leggja fram hnitsettan uppdrátt sem staðfestur hafi verið af skipulagsyfirvöldum. Með bréfi, dags. 8. júlí s.á., tilkynnti byggingarfulltrúi kærendum um afgreiðslu nefndarinnar.

Í kjölfarið hafði annar kærenda samband við Þjóðskrá og óskaði eftir leiðbeiningum um hvaða gögnum þyrfti að skila til sveitarfélags til að uppfylla skilyrði fyrrnefnds lagaákvæðis. Fékk kærandi meðal annars þær leiðbeiningar að skila þyrfti inn umsóknareyðublaði F-550 um skráningu nýrra landeigna í fasteignaskrá ásamt hnitsettum mæliblöðum með nýrri afmörkun landeigna. Í tölvupósti skipulagsfulltrúa frá 21. ágúst 2018 til kæranda kom fram „[s]taðfestur uppdráttur af skipulagsyfirvöldum er deiliskipulag umræddra lóða Fitjahlíðar 28 og 32.“ Uppdráttur sem fylgt hafi með umsókn uppfylli ekki kröfu um gerð deiliskipulagstillögu.

Hinn 20. febrúar 2019 sendi kærandi erindi til skipulags- og byggingarnefndar og óskaði eftir því að umsókn kærenda yrði tekin til afgreiðslu en með erindinu fylgdi umsóknareyðublað ásamt hnitsettum uppdráttum. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 13. mars s.á. var erindi kærenda frestað að nýju þar sem hnitsettur uppdráttur sem staðfestur hafði verið af skipulags­yfirvöldum hafi ekki enn verið lagður fram. Var sú afgreiðsla nefndarinnar samþykkt á fundi hreppsnefndar sama dag.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að eftir að skipulags- og byggingarnefnd hafi frestað erindi þeirra hinn 3. júlí 2018 hafi þau leitað til Þjóðskrár. Þar hafi þau fengið greinargóð svör við fyrirspurn sinni um hvers konar staðfestingu skipulagsyfirvalda væri átt við í 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Hafi þeim verið tjáð að nóg væri að sveitarfélagið stimplaði mæliblað eða samþykkti með undirritun. Því hafi kærendur sent beiðni til skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps um afgreiðslu á umsókn sinni um að skipta Fitjahlíð 30 upp í tvær lóðir og sameina við Fitjahlíð 28 og 32. Kærendur hafi skilað inn umsókn ásamt hnitsettum uppdráttum en nefndin hafi ítrekað talið gögnin ófullnægjandi. Telja þau að byggingarfulltrúi eigi að taka umsókn þeirra fyrir og afhendi síðan Þjóðskrá „nauðsynleg gögn, sem yfirfer skráningu og færir upplýsingar í fasteignaskrá, að gefnu samþykki sýslumanns“, líkt og segi í leiðbeiningum um skráningu landeigna á vef Þjóðskrár.

Málsrök Skorradalshrepps: Af hálfu hreppsins er farið fram á frávísun málsins. Bent sé á að hin kærða ákvörðun sé ekki ákvörðun sem tekin sé samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, en ekkert sé fjallað um stofnun lóða, skráningu lóða eða breytingar á slíkri skráningu í lögunum. Umrædd ákvörðun sé þess efnis að hreppurinn hafi hafnað því að gera breytingar á umbeðinni skráningu lóða innan sveitarfélagsins á þeim grundvelli að framlögð gögn uppfylli ekki þær kröfur sem sveitar­félögum beri að gera til hnitsettra uppdrátta. Ákvörðunin sé tekin á grundvelli laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og eigi sem slík ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar. Þá sé hin kærða ákvörðun heldur ekki lokaákvörðun í málinu. Umsókn kærenda hafi verið frestað en ekki hafnað. Leiðbeiningar hafi verið veittar um hvað kærendur þurfi að gera til að fá umsóknina samþykkta og þar með hafi hreppurinn uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína gagnvart kærendum skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því liggi ekki fyrir lokaákvörðun í málinu en skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga verði ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en mál hafi verið til lykta leitt.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur hafna frávísunarkröfu hreppsins. Skýrt komi fram í gögnum málsins að kæran byggist á skilningi byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa um að málið snúist um skipulagsmál. Með kröfu hreppsins um deiliskipulagsgerð sé umsókn kærenda tekin úr samhengi við lög nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og sett alfarið undir skipulagslög nr. 123/2010. Lokaákvörðun í málinu felist í því að gera kröfu um deiliskipulagsgerð. Sú krafa sé óréttmæt, íþyngjandi og líklega ólögmæt. Umsóknin og hnitsett mæliblöð uppfylli kröfur c-liðar 14. gr. laga nr. 6/2001 og 1. mgr. 48. gr. laga nr. 123/2010. Ef gerð sé krafa um deiliskipulag þá beri hreppnum að standa straum af kostnaði sem af því hlýst, sbr. 5. mgr. 18. gr. skipulagslaga, og bera ábyrgð á gerð og afgreiðslu þess, sbr. 1. mgr. 38. og 5. mgr. 37. gr. sömu laga.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps að fresta afgreiðslu umsóknar kærenda um að skipta Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við Fitjahlíð 28 og 32.

Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en í lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna er ekki að finna kæruheimild til nefndarinnar. Umsókn kærenda var lögð fram á grundvelli 14. gr. laga nr. 6/2001 en þar er kveðið á um það ferli þegar sótt er um stofnun fasteignar í fasteignaskrá. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal umsókn lögð fram hjá viðkomandi sveitarfélagi ásamt m.a. afmörkun fasteignar á hnitsettum uppdrætti sem staðfestur hefur verið af skipulagsyfirvöldum þegar um skiptingu eða samruna lands er að ræða, sbr. c-lið ákvæðisins. Hins vegar er fjallað um ákvarðanir um lóðir og lóðamörk í skipulagslögum, en slíkar ákvarðanir geta annað hvort verið teknar með deili­skipulagsgerð, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga, eða með samþykki sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr. 48. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að umsókn kærenda hafi verið lögð fram á grundvelli 14. gr. laga nr. 6/2001 verður að líta svo á að efnislega hafi hún falið í sér beiðni um skiptingu lóða og breytingu á lóðamörkum. Með hliðsjón af fyrrnefndum lagaákvæðum bar hrepps­nefndinni því að afgreiða erindi kærenda á grundvelli skipulagslaga.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kærenda frestað og er því ljóst að sú ákvörðun fól ekki í sér lokaákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar. Verður kröfu kærenda um að staðfest verði að fullnægjandi gögn hafi verið lögð fram með umsókn þeirra um breytingu lóða því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Af gögnum málsins verður ráðið að hreppsnefndin hafi litið svo á að ekki yrði orðið við beiðni kærenda um skiptingu lóðar og sameiningu við aðrar lóðir nema með gerð deili­skipulags en kærendur hafi ítrekað verið ósammála þeirri afstöðu hreppsnefndarinnar og farið fram á að umsókn þeirra yrði afgreidd. Að svo búnu var full ástæða fyrir sveitarfélagið að afgreiða umsókn kærenda efnislega til þess að kæranleg lokaákvörðun lægi fyrir. Verður að svo komnu að líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Með hliðsjón af því að rúmlega hálft ár er frá því að kæra barst úrskurðar­nefndinni verður lagt fyrir hreppsnefnd Skorradalshrepps að taka umsókn kærenda til efnis­legrar meðferðar án ástæðulauss dráttar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 13. mars 2019 um að fresta afgreiðslu umsóknar kærenda er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Lagt er fyrir skipulagsyfirvöld í Skorradalshreppi að taka umsókn kærenda frá 20. febrúar 2019, um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32, til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

135/2018 Gulllág

Með

Árið 2019, föstudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 135/2018, kæra á afgreiðslu sviðsstjóra Sandgerðisbæjar, f.h. bæjarstjórnar, frá 3. janúar 2018 á erindi kærenda, dags. 27. nóvember 2017, þar sem farið var fram á að staðfestur yrði réttur þeirra til 1.800 ferfaðma spildu úr landi Gull­lágar í Sandgerði og að lóðin Byggðavegur 3 í Sandgerði sé innan landspildu þeirra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. nóvember 2018, er barst nefndinni 23. s.m., kæra A og B afgreiðslu sviðsstjóra Sandgerðisbæjar, f.h. bæjarstjórnar, frá 3. janúar 2018 á erindi þeirra, dags. 27. nóvember 2017, þar sem farið var fram á að staðfestur yrði réttur þeirra til 1.800 ferfaðma spildu úr landi Gulllágar í Sandgerði og að lóðin Byggðavegur 3 í Sandgerði sé innan landspildu þeirra. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu afgreiðslu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Suðurnesjabæ 21. maí 2019.

Málsatvik og rök: Kærendur sendu bæjarstjórn Sandgerðisbæjar bréf, dags. 27. nóvember 2017, þar sem farið var fram á að staðfestur yrði réttur þeirra til þinglýstrar 1.800 ferfaðma spildu úr Gulllág og að rétturinn næði til lóðarinnar að Byggðavegi 3 þar í bæ. Í svari sviðsstjóra umhverfis-, skipulags- og byggingarsviðs, f.h. bæjarstjórnar, dags. 3. janúar 2018, kom fram að sveitarfélagið efist ekki um rétt kærenda til spildunnar en ómögulegt sé á grundvelli fyrirliggjandi heimilda að staðfesta staðsetningu hennar og þar með hvort hún næði yfir lóðina að Byggðavegi 3. Það sem vitað sé fyrir víst er að spildunni hafi verið afsalað úr Sandgerðis­jörðinni árið 1933. Við sameiningu Sandgerðisbæjar og Garðs hinn 20. júní 2018 varð til sveitarfélagið Suðurnesjabær.

Kærendur benda á að mál þetta varði skilgreiningu á lóð sem óumdeilt sé í þeirra eigu. Lóðar­mörk séu aftur á móti ekki skilgreind og liggi innan svæðis sem Sandgerðisbær skilgreini alfarið sem eign annars aðila, þótt bærinn viðurkenni í raun að kærendur eigi hluta landsins. Bæjar­yfirvöld telji að kærendur eigi að semja um lóðarmörk við þann aðila sem sé skráður fyrir landinu öllu en slíkt setji þá í óeðlilega stöðu gagnvart honum. Að auki hafi Sandgerðisbær úthlutað hluta þess lands sem kærendur telji sig eiga til þriðja aðila, með samþykki þess aðila sem bærinn telji vera eiganda landsins, en þó einungis að hluta. Einhverra hluta vegna undirriti bæjaryfirvöld þann gerning skv. umboði frá meintum lóðarhafa.

Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að kærendur hafi ítrekað kallað eftir upplýsingum um afmörkun Gulllágar og virðist telja það alfarið á ábyrgð sveitarfélagsins að gefa upplýsingar um hana sem og allar aðrar afmarkanir landeigna. Það væri umtalsvert einfaldari staða fyrir byggingar- og skipulagsfulltrúa ef allar afmarkanir landeigna lægu fyrir með skilmerkilegum hætti en það væri ekki svo einfalt. Stofnun Byggðavegar 3 tengist málinu ekkert eins og kærendur virðist með einhverjum hætti gefa sér og séu sannfærðir um að sú lóð sé nákvæmlega úr Gulllág, án þess að færa fyrir því nokkur rök. Þó sé vitað að Gulllág hafi á sínum tíma verið keypt af þáverandi eigendum Sandgerðisjarðarinnar og því hafi Sandgerðisbær talið að málið þyrfti að leysa á milli þeirra sem hafi gert tilkall til spildunnar annars vegar og eigenda Sandgerðis­jarðarinnar hins vegar. Það hljóti alltaf fyrst og fremst að vera á ábyrgð landeigenda að sinna eign sinni, afmörkun hennar, umhirðu o.þ.h.

Niðurstaða: Samkvæmt 47. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu sveitarstjórnir láta gera skrá yfir allar jarðir, lönd og lóðir innan sveitarfélags í landeignaskrá sem skal vera hluti af fasteigna­skrá. Skal skráin hafa tilvísun í afmörkun og eignarhald í samræmi við þinglýstar heimildir. Þá er í 48. gr. laganna kveðið á um að óheimilt sé að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Var erindi kærenda um afmörkun lóðar réttilega beint til skipulagsyfirvalda Sandgerðisbæjar, nú Suðurnesjabæjar, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum.

Fyrir liggur afsal, sem fært var í afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu 14. nóvember 1933, fyrir 1.800 ferfaðma lóðarspildu í Sandgerði sem sögð er liggja ofarlega í svokallaðri „Gulllág“ og þegar sé afmörkuð með fjórum hælum. Er það sú lóðarspilda sem kærendur telja til eignar og mál þetta snýst um. Í hinni kærðu afgreiðslu skipulagsyfirvalda Sandgerðisbæjar er tekið fram að tilvist lóðarspildunnar sé óumdeild en ekki liggi fyrir upplýsingar um staðsetningu hennar, þrátt fyrir eftirgrennslan, sem unnt væri að styðjast við hvað varði afmörkun spildunnar.

Í erindi kærenda til bæjaryfirvalda felst beiðni um afmörkum landa í einkaeigu sem í eðli sínu varðar eignaréttindi sem sveitarstjórnir hafa ekki heimild til að skera úr um lögum samkvæmt. Á úrlausn slíkra álitaefna eftir atvikum undir dómstóla náist ekki samkomulag milli landeigenda um úrlausn mála.

Með hliðsjón af framangreindu gátu bæjaryfirvöld ekki orðið við erindi kærenda þar sem óvissa ríkir um staðsetningu umræddrar lóðarspildu. Stendur hin kærða afgreiðsla bæjarstjórnar Sandgerðis­bæjar af þeim sökum óröskuð.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu afgreiðslu sviðsstjóra Sandgerðisbæjar, f.h. bæjarstjórnar, frá 3. janúar 2018 á erindi kærenda, dags. 27. nóvember 2017, um afmörkun 1.800 ferfaðma lóðar­spildu kærenda innan marka sveitarfélagsins.