Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

135/2018 Gulllág

Árið 2019, föstudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 135/2018, kæra á afgreiðslu sviðsstjóra Sandgerðisbæjar, f.h. bæjarstjórnar, frá 3. janúar 2018 á erindi kærenda, dags. 27. nóvember 2017, þar sem farið var fram á að staðfestur yrði réttur þeirra til 1.800 ferfaðma spildu úr landi Gull­lágar í Sandgerði og að lóðin Byggðavegur 3 í Sandgerði sé innan landspildu þeirra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. nóvember 2018, er barst nefndinni 23. s.m., kæra A og B afgreiðslu sviðsstjóra Sandgerðisbæjar, f.h. bæjarstjórnar, frá 3. janúar 2018 á erindi þeirra, dags. 27. nóvember 2017, þar sem farið var fram á að staðfestur yrði réttur þeirra til 1.800 ferfaðma spildu úr landi Gulllágar í Sandgerði og að lóðin Byggðavegur 3 í Sandgerði sé innan landspildu þeirra. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu afgreiðslu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Suðurnesjabæ 21. maí 2019.

Málsatvik og rök: Kærendur sendu bæjarstjórn Sandgerðisbæjar bréf, dags. 27. nóvember 2017, þar sem farið var fram á að staðfestur yrði réttur þeirra til þinglýstrar 1.800 ferfaðma spildu úr Gulllág og að rétturinn næði til lóðarinnar að Byggðavegi 3 þar í bæ. Í svari sviðsstjóra umhverfis-, skipulags- og byggingarsviðs, f.h. bæjarstjórnar, dags. 3. janúar 2018, kom fram að sveitarfélagið efist ekki um rétt kærenda til spildunnar en ómögulegt sé á grundvelli fyrirliggjandi heimilda að staðfesta staðsetningu hennar og þar með hvort hún næði yfir lóðina að Byggðavegi 3. Það sem vitað sé fyrir víst er að spildunni hafi verið afsalað úr Sandgerðis­jörðinni árið 1933. Við sameiningu Sandgerðisbæjar og Garðs hinn 20. júní 2018 varð til sveitarfélagið Suðurnesjabær.

Kærendur benda á að mál þetta varði skilgreiningu á lóð sem óumdeilt sé í þeirra eigu. Lóðar­mörk séu aftur á móti ekki skilgreind og liggi innan svæðis sem Sandgerðisbær skilgreini alfarið sem eign annars aðila, þótt bærinn viðurkenni í raun að kærendur eigi hluta landsins. Bæjar­yfirvöld telji að kærendur eigi að semja um lóðarmörk við þann aðila sem sé skráður fyrir landinu öllu en slíkt setji þá í óeðlilega stöðu gagnvart honum. Að auki hafi Sandgerðisbær úthlutað hluta þess lands sem kærendur telji sig eiga til þriðja aðila, með samþykki þess aðila sem bærinn telji vera eiganda landsins, en þó einungis að hluta. Einhverra hluta vegna undirriti bæjaryfirvöld þann gerning skv. umboði frá meintum lóðarhafa.

Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að kærendur hafi ítrekað kallað eftir upplýsingum um afmörkun Gulllágar og virðist telja það alfarið á ábyrgð sveitarfélagsins að gefa upplýsingar um hana sem og allar aðrar afmarkanir landeigna. Það væri umtalsvert einfaldari staða fyrir byggingar- og skipulagsfulltrúa ef allar afmarkanir landeigna lægu fyrir með skilmerkilegum hætti en það væri ekki svo einfalt. Stofnun Byggðavegar 3 tengist málinu ekkert eins og kærendur virðist með einhverjum hætti gefa sér og séu sannfærðir um að sú lóð sé nákvæmlega úr Gulllág, án þess að færa fyrir því nokkur rök. Þó sé vitað að Gulllág hafi á sínum tíma verið keypt af þáverandi eigendum Sandgerðisjarðarinnar og því hafi Sandgerðisbær talið að málið þyrfti að leysa á milli þeirra sem hafi gert tilkall til spildunnar annars vegar og eigenda Sandgerðis­jarðarinnar hins vegar. Það hljóti alltaf fyrst og fremst að vera á ábyrgð landeigenda að sinna eign sinni, afmörkun hennar, umhirðu o.þ.h.

Niðurstaða: Samkvæmt 47. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu sveitarstjórnir láta gera skrá yfir allar jarðir, lönd og lóðir innan sveitarfélags í landeignaskrá sem skal vera hluti af fasteigna­skrá. Skal skráin hafa tilvísun í afmörkun og eignarhald í samræmi við þinglýstar heimildir. Þá er í 48. gr. laganna kveðið á um að óheimilt sé að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Var erindi kærenda um afmörkun lóðar réttilega beint til skipulagsyfirvalda Sandgerðisbæjar, nú Suðurnesjabæjar, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum.

Fyrir liggur afsal, sem fært var í afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu 14. nóvember 1933, fyrir 1.800 ferfaðma lóðarspildu í Sandgerði sem sögð er liggja ofarlega í svokallaðri „Gulllág“ og þegar sé afmörkuð með fjórum hælum. Er það sú lóðarspilda sem kærendur telja til eignar og mál þetta snýst um. Í hinni kærðu afgreiðslu skipulagsyfirvalda Sandgerðisbæjar er tekið fram að tilvist lóðarspildunnar sé óumdeild en ekki liggi fyrir upplýsingar um staðsetningu hennar, þrátt fyrir eftirgrennslan, sem unnt væri að styðjast við hvað varði afmörkun spildunnar.

Í erindi kærenda til bæjaryfirvalda felst beiðni um afmörkum landa í einkaeigu sem í eðli sínu varðar eignaréttindi sem sveitarstjórnir hafa ekki heimild til að skera úr um lögum samkvæmt. Á úrlausn slíkra álitaefna eftir atvikum undir dómstóla náist ekki samkomulag milli landeigenda um úrlausn mála.

Með hliðsjón af framangreindu gátu bæjaryfirvöld ekki orðið við erindi kærenda þar sem óvissa ríkir um staðsetningu umræddrar lóðarspildu. Stendur hin kærða afgreiðsla bæjarstjórnar Sandgerðis­bæjar af þeim sökum óröskuð.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu afgreiðslu sviðsstjóra Sandgerðisbæjar, f.h. bæjarstjórnar, frá 3. janúar 2018 á erindi kærenda, dags. 27. nóvember 2017, um afmörkun 1.800 ferfaðma lóðar­spildu kærenda innan marka sveitarfélagsins.