Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

152/2018 Miðdalur

Árið 2019, miðvikudaginn 9. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 152/2018, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 23. nóvember 2018 um að synja erindi Miðdals ehf. um efnistöku í Hrossadal í landi Miðdals.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Miðdalur ehf., Vínlandsleið 16, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 23. nóvember 2018 að synja erindi félagsins um efnistöku í Hrossadal í landi Miðdals. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins og athugasemdir bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 29. janúar og 9. ágúst 2019.

Málsatvik og rök: Kærandi sótti  um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar vegna efnistöku, nánar tiltekið grjótnámi, í landi Miðdals sem er í eigu kæranda. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 23. nóvember 2018 var erindi kæranda synjað „þar sem framkvæmdin samræmist ekki gildandi aðalskipulagi“. Á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar 10. janúar 2019 var erindi kæranda endurupptekið og skipulagsnefnd falið að taka það fyrir að nýju. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 1. febrúar s.á. Í niðurstöðu nefndarinnar var vísað til þess að bæjarstjórn hefði á fundi sínum 3. október 2018 tekið ákvörðun um að ráðast í endurskoðun aðalskipulags Mosfellsbæjar. Frá þeim tíma hafi beiðnum um breytingu aðalskipulags almennt verið vísað til endurskoðunar aðalskipulagsins. Með hliðsjón af framangreindu samþykkti skipulagsnefnd að vísa erindi kæranda til endurskoðunar aðalskipulags.

Kærandi byggir á því að rökstuðningur fyrir ákvörðun bæjaryfirvalda hafi ekki verið fullnægjandi og hafi hvorki stuðst við lögmæt né málefnaleg sjónarmið. Þar sem umsókn og erindi kæranda hafi lotið að því að fá tilgreinda breytingu á aðalskipulagi dugi ekki að halda því fram að erindið hafi ekki samrýmst skipulagi. Beri að taka efnislega afstöðu til erindisins út frá viðurkenndum skipulagssjónarmiðum. Hvers kyns takmarkanir á hagnýtingu eignarréttar verði að styðjast við lagaheimild og þegar stjórnvöldum sé falið að taka matskenndar ákvarðanir verði þau að gera það á grundvelli faglegra og málefnalegra sjónarmiða.

Af hálfu bæjaryfirvalda  er vísað til þess að mistök hafi verið gerð og fallist hafi verið á að taka málið til meðferðar að nýju. Upphafleg krafa kæranda um að hin kærða ákvörðun sé felld úr gildi sé því ekki lengur tæk til meðferðar. Með ákvörðun skipulagsnefndar 1. febrúar 2019 hafi verið brugðist við athugasemdum kæranda sem fram hafi komið í kæru og ný ákvörðun verið tekin sem fullnægi kröfum skipulagslaga nr. 123/2010, sem og stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um málsmeðferð og rökstuðning.

Niðurstaða: Svo sem nánar er lýst í málavöxtum sótti kærandi um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar vegna efnistöku í landi sínu í Miðdal. Erindi kæranda var synjað af skipulagsnefnd á þeim forsendum að það samrýmdist ekki gildandi aðalskipulagi.  Fallist var á að sú afgreiðsla hefði ekki verið fullnægjandi og var málið endurupptekið. Urðu lyktir þær að samþykkt var á fundi skipulagsnefndar 1. febrúar 2019 að vísa erindi kæranda til endurskoðunar aðalskipulags Mosfellsbæjar, en heildarendurskoðun þess stendur nú yfir. Mun erindið því enn vera til meðferðar hjá sveitarfélaginu. Úrskurðarnefndin hefur í ljósi atvika leitað eftir afstöðu kæranda til kæruefnisins, en þær umleitanir hafa ekki borið árangur. Með hliðsjón af því að kæruefnið er ekki lengur fyrir hendi verður kærandi ekki talinn eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá skorið úr um úrlausn þess, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamál. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.