Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

103/2019 Austurey

Árið 2019, föstudaginn 18. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III og ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019 um að samþykkja byggingar­leyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. september 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Austureyjar II, Bláskógabyggð, ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III, og ákvörðun byggingar­fulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III. Er krafist ógildingar hinna kærðu ákvarðana og að úrskurðar­nefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunar­kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 10. október 2019.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag frístundabyggðar í landi Austureyjar I og III frá 7. júní 2002. Með umsókn, dags. 1. apríl 2019, sótti landeigandi Austureyjar III um breytingu á nefndu deiliskipulagi. Í umsókninni fólst skilmálabreyting fyrir heildarsvæðið varðandi nýtingarhlutfall lóða sem yrði 0,03 í stað ákvæðis um hámarksstærð bygginga í fer­metrum. Heimilað yrði að reisa á hverri frístundalóð eitt frístundahús og eitt smáhýsi/aukahús. Auk þess yrði frístundalóðin Eyrargata 9 stækkuð úr 5.444 m² í 7.177 m² ásamt stækkun byggingarreits. Tilgreint var að byggingarreitur væri 50 m frá vatnsbakka og 10 m frá lóðarmörkum og að gert yrði ráð fyrir 5 m belti fyrir göngustíg milli lóðanna Eyrargötu 7 og 9 í framhaldi af aðkomuvegi.

Á fundi skipulagsnefndar Bláskógabyggðar 10. apríl 2019 var mælst til þess að sveitarstjórn samþykkti framkomna breytingatillögu og að hún yrði auglýst samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags­­laga nr. 123/2010. Sveitarstjórn samþykkti að auglýsa tillöguna til kynningar á fundi sínum 9. maí 2019 og var hún kynnt á tímabilinu frá 22. maí til 3. júlí s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna á fundi sínum 22. ágúst 2019 og tók afstöðu til framkominna athugasemda. Skipulagsfulltrúi sendi athugasemdaaðilum svör bæjarstjórnar með bréfi, dags. 4. september s.á.

Með erindi, dags. 5. september 2019, sendi Bláskógabyggð Skipulagsstofnun deiliskipulags­breytinguna til lögboðinnar umfjöllunar og tilkynnti stofnunin með bréfi, dags. 18. s.m., að hún gerði ekki athugasemd við að auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Tók deiliskipulags­breytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2019.

Með umsókn, dags. 10. september 2019, sótti landeigandi Austureyjar III um byggingarleyfi fyrir 183,7 m² sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9. Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. september s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að ekki hafi verið aflað álits Umhverfisstofnunar og Náttúruverndarnefndar á umdeildri deiliskipulagsákvörðun eða samþykktu byggingarleyfi. Með þeim framkvæmdum sem nú eigi sér stað í Austurey III sé verið að raska vistkerfi Apa­vatns. Það sé skýrt samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd að við slíkar framkvæmdir beri að afla umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndar­­nefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir samkvæmt 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggi fyrir. Hvorki við samþykkt deili­skipulags né byggingarleyfis hafi þessara álita verið aflað og því beri að ógilda byggingarleyfið og taka deiliskipulagið til endurskoðunar.

Telji úrskurðarnefndin aftur á móti að afgreiðsla sveitarstjórnar hafi að þessu leyti átt við rök að styðjast og að ákvæði náttúruverndarlaga felli ekki úr gildi samþykkt deiliskipulagsins telji kærandi engu að síður að byggingarleyfið brjóti gegn lögum nr. 61/2006 um lax- og silungs­veiði en samkvæmt 33. gr. þeirra sé ekki heimilt að gefa út byggingarleyfi fyrr en leyfi hafi fengist hjá Fiskistofu. Þá hafi ekki verið óskað eftir áliti Veiðifélags Apavatns og umsagnar sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmda á lífríki vatnsins.

Kærandi byggir jafnframt á því að ekki hafi verið fylgt ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 og skipulagslaga nr. 123/2010 við samþykkt deiliskipulagsins. Ekki hafi verið leitað samráðs við hagsmunaaðila, sbr. gr. 5.2.1. reglugerðarinnar. Þannig hafi ekki verið haft samband við Veiðifélag Apavatns eða Náttúrufræðistofnun Íslands þrátt fyrir að framkvæmdirnar snerti viðkvæmt lífríki Apavatns sem hafi verið tilnefnt til B-hluta Náttúruminjaskrár árið 2018. Ekki sé í deiliskipulagi að finna skilgreindar takmarkanir á landnotkun sökum náttúruvár, en ljóst sé af myndum frá 2006 að mikil flóðahætta sé á svæðinu. Myndir af flóðum hafi verið sendar til sveitarstjórnar en hafi ekki fengið efnislega meðferð.

Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarstjórn byggir á því að málsmeðferðin hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við lög. Samkvæmt deiliskipulagi frá 2002 sé gert ráð fyrir byggingarreit á lóðinni Eyrargötu 9 á þeim stað þar sem hann sé í dag. Með deiliskipulags­breytingunni sé reiturinn stækkaður til austurs og suðurs og lóðin stækkuð um 1.735 m². Bent sé á að samkvæmt upphaflegu deiliskipulagi sé þegar gert ráð fyrir byggingu á staðnum og að stækkun lóðarinnar hafi engin áhrif á vistkerfi eða náttúru svæðisins enda sé ekki gert ráð fyrir mannvirkjum á þeim stöðum sem stækkunin taki til. Byggingarreiturinn sé í 50 m fjarlægð frá vatnsbakka en málsástæða kæranda, um að ekki megi byggja í meira en 100 m fjarlægð frá vatnsbakka þar sem svæðið sé tilnefnt í B-hluta Náttúruminjaskrár, sé hafnað þar sem svæðið sé ekki enn komin inn á skrána með þeim réttaráhrifum sem því fylgi.

Því sé hafnað að ákvæði 61. og 68. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd eigi við í málinu enda sé byggingarreitur í meira en 50 m fjarlægð frá vatnsbakka en það sé Apavatn sjálft sem njóti verndar, sbr. a-lið 1. mgr. 61. gr. laganna. Þá sé gert ráð fyrir byggingarreit á umræddum stað í skipulagi sem hafi hlotið lögmælta afgreiðslu og geti lög nr. 60/2013 ekki verið afturvirk. Heimiluð bygging samkvæmt umræddu byggingarleyfi hafi ekki áhrif á fiskigengd Apavatns og eigi 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði ekki við í máli þessu. Við vatnið séu fjöldamörg önnur sumarhús sem ekki hafi verið talið að hafi slík áhrif.

Deiliskipulagsbreytingin hafi verið í samræmi við markmið skipulagslaga og ákvæði skipulags­reglugerðar. Hún hafi verið auglýst og hafi öllum sem hafi átt hagsmuna að gæta gefist tækifæri til að koma að athugasemdum. Hvað varði þau málsrök kæranda að ekki hafi verið skilgreind takmörkun landnotkunar vegna náttúruvár sé til þess að líta að Aðalskipulag Bláskógabyggðar 2015-2027 hafi verið samþykkt 25. maí 2018. Við gerð þess hafi farið fram mat á því hvaða svæði féllu undir náttúruvá.

Að lokum sé því hafnað að skilyrði séu til staðar til þess að fella úr gildi ákvörðun um að samþykkja byggingaráform og veita byggingarleyfi. Samþykkt byggingaráform hafi verið í samræmi við skipulag og málsmeðferð að öðru leyti í samræmi við lög. Ekki hafi verið talið að framkvæmdir gætu haft í för með sér röskun á þeim landslagsgerðum sem verndaðar væru samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að fyrir liggi að hluti úr landi Austureyjar III hafi verið skipulagður sem frístundasvæði árið 2002, þar með talin lóðin Eyrargata 9, og hafi verið heimilt að byggja 163 m² á lóðinni fyrir breytingu. Sumarhúsið sem sé nú í byggingu verði 183,7 m². Ólíklegt sé að stækkun á sumarhúsi um 20 m² muni valda frekara raski eða hafa úrslitaáhrif um verndun Apavatns. Fyrirhugað sumarhús sé í eins og hálfs km fjarlægð frá Austurey III og er jörðin að Austurey I á milli. Mun því fyrirhugað sumarhús hvergi vera í sjónlínu frá landi kæranda.

Ekki sé verið að raska óröskuðu landi. Nú þegar hefur verið framkvæmt á svæðinu, en bæði séu frístundahús staðsett á lóðinni Eyrargötu 7 og jarðhiti hefur verið virkjaður. Fuglavarp á lóðinni að Eyrargötu 9 og umhverfis hana sé í engu ríkara en annars staðar í landi Austureyjar nema síður sé og til að mynda verpi engir andfuglar á lóðinni eða í námunda við hana.

Niðurstaða: Samkvæmt Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 teljast jarðirnar að Austurey I og III til frístundasvæðis. Í lýsingu aðalskipulagsins segir m.a. um frístundasvæði að á þeim skuli lóðir að jafnaði vera ½ til 1 ha að stærð og nýtingarhlutfall skuli ekki vera hærra en 0,03. Í ákveðnum tilfellum geti frístundalóðir þó verið minni og nýtingarhlutfall allt að 0,05. Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér skilmálabreytingu heildarsvæðisins varðandi nýtingarhlutfall sem breytist í 0,03. Heimilt verði að reisa eitt frístundahús og eitt smáhýsi/aukahús og þá verði lóðin að Eyrargötu 9 stækkuð úr 5.444 m² í 7.177 m². Fer hin umdeilda deiliskipulagsbreyting því ekki gegn stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulags­áætlana því fullnægt.

Umdeild deiliskipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem hann og gerði. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. sömu laga. Með bréfi, dags. 18. september 2019, tilkynnti stofnunin að hún hefði farið yfir framlögð gögn og gerði ekki athugasemdir við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulags­breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagssvæðið er ekki á B-hluta náttúruminjaskrár, sbr. lög nr. 60/2013 um náttúruvernd, því bar sveitarfélaginu ekki að leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar og viðkomandi náttúruverndar­­nefndar samkvæmt 68. gr. laganna. Með vísan til alls framangreinds liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð skipulags­­breytingarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Með hinu kærða byggingarleyfi er leyfishafa veitt heimild að byggja 183,7 m² sumarhús á lóðinni Eyrargötu 9 í landi Austureyjar III, en fyrir hina kærðu deiliskipulagsbreytingu mátti reisa á lóðinni byggingar, samtals 163 m² að stærð.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðar­nefndarinnar. Fyrirhugað sumarhús verður í nokkur hundrað metra fjarlægð frá landi kæranda. Verður ekki séð að stækkun heimilaðrar byggingar um 20,7 m² samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi muni hafa áhrif á grenndarhagsmuni kæranda vegna þeirrar fjarlægðar sem er á milli lands hans og fyrirhugaðs húss. Á kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti byggingarleyfisins svo sem áskilið er í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar en kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III.

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019, um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III, er vísað frá úrskurðarnefndinni.