Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

72/2019 Skólavegur

Árið 2019, föstudaginn 27. september, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 72/2019 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Skólavegar 14, Fáskrúðsfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 9. ágúst 2016 að veita byggingarleyfi fyrir sólpall og 140 cm hárri skjólgirðingu úr timbri á lóðinni Skólavegi 12, Fáskrúðsfirði. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og viðurkennd verði aðilastaða hans við lokaúttekt mannvirkisins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 18. september 2019.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 13. júní 2016, sóttu eigendur Skólavegar 12 um byggingarleyfi fyrir byggingu sólpalls og 140 cm hárrar skjólgirðingar úr timbri á nefndri lóð. Umsóknin var tekin fyrir á fundi eignar-, skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins 15. s.m. og samþykkt að grenndarkynna hana fyrir kæranda, sem lóðarhafa aðliggjandi lóðar, með athugasemdfrest frá 20. júní til 18. júlí 2016. Að lokinni grenndarkynningu tók nefndin umsóknina fyrir 21. júlí s.á. og lágu þá m.a. fyrir athugasemdir frá kæranda. Samþykkti nefndin umsóknina með vísan til þess að fram komnar athugasemdir væru ekki þess eðlis að hafna bæri henni. Bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, staðfesti þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 25. júlí 2016. Byggingarfulltrúi tilkynnti umsækjanda þá niðurstöðu með bréfi, dags. 9. ágúst 2016, þar sem jafnframt kom fram að leyfið tæki gildi þegar byggingarleyfisgjöld hefðu verið greidd.

Af hálfu kæranda er á því byggt að umrætt byggingarleyfi sé ólögmætt sbr. ákvæði laga um mannvirki nr. 160/2010, auk e.-f. liða gr. 2.3.5. sem og gr. 7.2.3. byggingareglugerðar nr. 120/2012 með áorðnum breytingum. Einnig sé byggt á meginreglum nábýlisréttar ekki síst hvað varðar aukna snjósöfnun á lóð hans vegna umrædds mannvirkis. Kærandi hefði átt að hafa aðilastöðu, í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að því stjórnsýslumáli sem leiddi til útgáfu lokaúttektarvottorð vegna umþrætts mannvirkis.

Byggingaryfirvöld Fjarðabyggðar benda á að kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 vegna umdeilds byggingarleyfis hafi verið löngu liðinn þegar kæra í máli þessu hafi borist úrskurðarnefndinni en kæranda hafi verið leiðbeint um rétt sinn til að kæra umrædda ákvörðun. Þá hafi fulltrúi kæranda verið á svæðinu þegar lokaúttekt verksins hafi verið framkvæmd með sérstakt umboð í því skyni. Fyrir lokaúttektina hafi kærandi verið upplýstur um í bréfi, dags. 16. maí 2019, að sveitarfélagið teldi hann ekki eiga aðild að henni og myndu ekki fá sérstaka boðun í úttektina. Þrátt fyrir það hafi kærandi verið upplýstur um hvenær byggingarfulltrúi hefði í hyggju að framkvæma lokaúttekt og honum gefinn kostur á að hafa fulltrúa sinn viðstaddan.

Leyfishafi bendir á að eins mánaðar kærufrestur vegna málsins sé liðinn. Ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar hafi verið tekin 9. ágúst 2016 og kæranda sent bréf sama dag með tilkynningu um veitingu umdeilds byggingarleyfis tilkynnt um ákvörðunina. Samkvæmt ofangreindu hafi því kærufrestur í þessu máli runnið út fyrir rétt tæplega þremur árum áður en kæra hafi borist og beri því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins verður kæru þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Svo sem að framan er rakið var hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar tekin 9. ágúst 2016. Sama dag var bréf sent kæranda með tilkynningu um ákvörðunina og honum leiðbeint um kæruleið og kærufrest í samræmi við 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Liggur því fyrir að kæranda varð kunnugt um hina kærðu ákvörðun þegar í ágúst 2016. Kæra í máli þessu barst hins vegar ekki úrskurðarnefndinni fyrr en 25. júlí 2019 eða tæpum þremur árum síðar. Var lögbundinn kærufrestur þá löngu liðinn. Ekki eru fyrir hendi þær ástæður sem leiða til þess að ógildingarkrafa kæranda verði tekin fyrir að liðnum kærufresti samkvæmt undantekningarákvæðum nefndrar 28. gr. stjórnsýslulaga.

Fyrir liggur að byggingarfulltrúi sendi kæranda bréf, dags. 16. maí 2019, þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða lokaúttekt sem skyldi fara fram í síðasta lagi fyrir lok júní s.á. Kom þar m.a. fram að hann teldi það hluta af rannsóknarskyldu sinni í tilefni af athugasemdum kæranda að láta fara fram ákveðnar mælingar á staðnum sem lið í lokaúttekt. Í skjali sem ber yfirskriftina Lokaúttekt Skólavegar 12 og dagsett er 25. júní 2019 er tekið fram að meðal viðstaddra hafi verið fulltrúi kæranda. Loks liggur fyrir í málinu umboð kæranda, dags. 31. maí 2019 til þess fulltrúa sem viðstaddur var úttektina til að koma fram fyrir hans hönd við mælingar milli mannvirkis á Skólavegi 12 og lóðamarka Skólavegar 14. Verður af framangreindu ekki talið að kærandi eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um rétt hans til aðildar að umræddri lokaúttekt þar sem fulltrúi hans var á staðnum við úttektina sem þegar hefur farið fram.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.