Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

100/2019 Laugavegur

Árið 2019, miðvikudaginn 2. október 2019, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 100/2019, kæra á afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 13. september á fyrirspurn um verslun og veitingastað í húsnæði við Laugaveg 15, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. september 2019, er barst nefndinni 25. s.m., kærir eigandi Laugavegs 20b „samþykkt skipulagsfulltrúa frá 13. september að samþykkja veitingastað í húsnæði við Laugaveg 15“, Reykjavík. Verður að skilja málatilbúnað kæranda sem svo að þess sé krafist að afgreiðslan verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. september 2019.

Málavextir: Kærandi hefur oftar en einu sinni falast eftir því að fá að opna veitingastað í húsnæði sínu við Laugaveg 20b. Umsagnir skipulagsfulltrúa frá 29. janúar 2016, 29. júní 2018 og 16. september 2019 vegna erinda kæranda voru neikvæðar vegna starfsemiskvóta viðkomandi götuhliða.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 30. ágúst 2019 var lögð fram fyrirspurn um að vera með verslun og veitingastað/take away á jarðhæð hússins á lóð nr. 15 við Laugaveg. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra og var lögð fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. september 2019. Var í umsögninni tekið fram að ekki væri gerð skipulagsleg athugasemd við að heimilað yrði að opna verslun og veitingastað í rými því sem um ræddi með þeirri uppskiptingu sem lagt væri upp með samkvæmt fyrirspurninni. Endurskoða þyrfti þó fyrirhugaða uppstillingu á veitingahluta starfseminnar til að gæta að sérskilmálum í deiliskipulagi. Hægt væri að koma að nýjum tillögum þannig að þeim skilmálum yrði fylgt. Umsögn skipulagsfulltrúa var samþykkt á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 13. september 2019 og hefur sú afgreiðsla verið kærð, svo sem að framan greinir

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að bæði Laugavegur 15 og 20b séu staðsett á sama götusvæði og því hljóti sömu reglur að gilda um húsin. Það sé óeðlilegt að Laugavegur 20b, sem hafi ríka sögu sem veitingahúsnæði, fáist ekki samþykkt sem veitingastaður á meðan húsnæði sem alla tíð hafi verið í hefðbundinn verslunarrekstur fái slíkt samþykki.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verði ekki lögð að jöfnu við formlega leyfisumsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli geti ekki, eðli máls samkvæmt, talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgi. Sé því ljóst að svar skipulagsfulltrúa vegna fyrirspurnar feli ekki í sér lokaákvörðun. Þar sem hin kærða ákvörðun um jákvæða afstöðu til fyrirspurnar sé ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar beri að vísa kærumálinu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Í 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. sömu laga kemur fram að byggingarfulltrúi skuli leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd sem er háð byggingarleyfi samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Af framangreindum lagaákvæðum er ljóst að endanleg ákvarðanataka um veitingu byggingarleyfis til að breyta notkun húsnæðis í veitingastað liggur hjá byggingarfulltrúa. Samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðun, sem bindur ekki enda á mál, verður hins vegar ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsfulltrúa á fyrirspurn um hvort heimildir séu til staðar til að opna veitingastað í hluta húsnæðis við Laugaveg 15, en kærandi telur að í þeirri afgreiðslu felist ójafnræði gagnvart sér. Í þeirri afgreiðslu felst hins vegar engin sú ákvörðun sem bindur enda á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Er og ljóst að kærandi getur hvorki haft lögvarinna hagsmuna að gæta vegna grenndar eða meints ójafnræðis nema af leyfisveitingu verði, en samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála eiga þeir einir kærurétt til nefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af kæruefninu. Ber því samkvæmt öllu sem að framan er rakið að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.