Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

46/2023 Mjódalsvegur

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 29. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. febrúar 2023 um að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi sem telst vera matshluti nr. 07 á lóð nr. 16 við Mjódalsveg, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

Úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 10. apríl 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi sumarhúss að Mjódalsvegi 6, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. febrúar s.á. að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi á lóð nr. 16 við Mjódalsveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir á nefndri lóð yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði, uppkveðnum 27. apríl 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. apríl 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. febrúar 2023 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa hitaveitugeymi á lóð nr. 16 við Mjódalsveg. Var umsóknin samþykkt og stað-festi borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 2. mars s.á. með samþykkt b-hluta fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 1. s.m. Byggingarleyfi var gefið út 29. mars s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hinn fyrirhugaði hitaveitugeymir sé ekki í samræmi við skilyrði og heimildir í deiliskipulagi. Samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags fyrir miðlunargeyma á Reynisvatnsheiði, sem tekið hafi gildi 30. janúar 2008, hafi borið að gera öryggismön umhverfis miðlunargeymana og ganga frá henni eða hlutum hennar samhliða uppbyggingu á lóðinni. Ekki hafi enn verið byrjað á öryggismöninni sem samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins hefði átt að vera tilbúin árið 2008 samhliða byggingu dæluhúss. Byggingar­fulltrúa hafi borið að vísa umsókn um byggingarleyfi til skipulagsfulltrúa til umsagnar og vegna bindandi skilmála í deiliskipulagi hafi borið að skilyrða umsókn um byggingarleyfi við það að fyrir lægi samþykkt framkvæmdarleyfi vegna skilyrða um öryggismön. Þá eigi lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda- og áætlana við um leyfi til framkvæmda eins og hér um ræði.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að í gildi sé deiliskipulag, Hólmsheiði-jarðvegslosun, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 4. nóvember 2010 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 14. desember s.á. Í skipulaginu séu áréttaðir óbreyttir skilmálar frá deiliskipulagi fyrir miðlunar­geyma á Reynisvatnsheiði sem tekið hafi gildi 30. janúar 2008 með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Um sé að ræða byggingu fjórða miðlunargeymisins af fyrirhuguðum átta geymum á lóðinni. Þeir geymar sem fyrir séu hafi byggst upp á mismunandi tímum, þeir fyrstu 1988 og síðast hafi verið byggt dæluhús árið 2009 á grundvelli deiliskipulagsins. Engin krafa sé í deiliskipulaginu um að öryggismön skuli vera umhverfis dæluhúsið.

Samkvæmt upplýsingum Orkuveitu Reykjavíkur verði vinna hafin við gerð öryggismanar þegar geymirinn verði tekinn í rekstur og sé stefnt að því að hluti hennar verði þá þegar reistur. Undirbúningur sé þegar hafinn við að afla leyfis fyrir framkvæmdinni og verði sótt um leyfið innan fárra daga. Bent sé á að ekkert í deiliskipulaginu mæli fyrir um hvaða verkþættir skuli vera hafnir við öryggismönina og á hvaða tímapunkti sú vinna skuli hafin, enda um almennt orðalag að ræða. Verði í ljósi þess að veita lóðarhafa nokkuð svigrúm til að meta með hvaða hætti og í hvaða röð framkvæmdir samkvæmt skipulaginu fari fram. Tilgangur umrædds skilyrðis í deiliskipulaginu sé fyrst og fremst sett til að tryggja að öryggismönin verði gerð á einhverjum tímapunkti framkvæmda.

Enn fremur sé vakin athygli á að afgreiðsla byggingarfulltrúa byggi á lögum um mannvirki nr. 160/2010 og hafi byggingarfulltrúi engar heimildir til að gera kröfu um, hvað þá að samþykkja framkvæmdaleyfisskyldar aðrar framkvæmdir. Gerð öryggismanar sé þannig ekki hluti byggingarleyfisins vegna geymisins, heldur eðlilegt framhald af verkinu í heild. Engin skilyrði séu í deiliskipulaginu um að óheimilt sé að samþykkja byggingarleyfi vegna miðlunargeymana nema búið sé að gefa út framkvæmdaleyfi vegna manarinnar.

Ekki sé fallist á að notkun svæðisins, eða hluta þess sem geymslusvæðis, hafi nokkuð með byggingarleyfið að gera eða geti valdið ógildingu þess. Eftirlit með að skipulagsskilmálar séu virtir að því leyti og eftir atvikum að gera kröfu um úrbætur sé hins vegar á hendi skipulags­fulltrúa. Samkvæmt upplýsingum Orkuveitunnar sé enn fremur hafin vinna við að hreinsa svæðið og mun því ljúka á næstu dögum. Þá hafi byggingarfulltrúa ekki borið að bera umsóknina undir skipulagsfulltrúa þar sem miðlunargeymirinn eigi sér skýra stoð í deili­skipulagi.

Málsrök leyfishafa: Bent er á að byggingarleyfið sé í fullu samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag. Í skilmálum deiliskipulagsbreytingar sem samþykkt hafi verið árið 2007 og hafi verið teknar upp í gildandi skipulag sé gert ráð fyrir byggingu fimm heitavatnsgeyma til viðbótar við þá þrjá sem fyrir séu auk tveggja tengihúsa og dælustöðvar. Síðan þessi breyting hafi verið gerð á deiliskipulaginu hafi ekki átt sér stað frekari uppbygging á hitaveitugeymum á lóðinni. Árið 2009 hafi verið reist dælustöð sem staðsett sé á vesturhorni lóðarinnar en ekki sé gert ráð fyrir að öryggismön nái í kringum hana.

Í deiluskipulagi sjáist að dælustöðin sé áætluð nærri lóðarmörkum og framar en öryggismönin komi til með að standa. Þá sé framkvæmdum á lóðinni ekki lokið og ákveðinn ómöguleiki sé fólginn í því að reisa mannvirki á sama tíma og öryggismön sé sett umhverfis geymana. Farið verði eftir skilmálum í gildandi deiliskipulagi og muni hefjast vinna við öryggismön samhliða byggingu á geymi nr. 4 og verði hluti öryggismanar komin upp þegar sá geymir verði tekin í notkun.

Bygging á einum hitaveitugeymi til viðbótar við þá þrjá geyma sem þegar séu til staðar á Reynisvatnsheiði breyti í engu núverandi rekstarfyrirkomulagi á heiðinni og muni geymirinn ekki koma til með að auka tíðni atburða þegar leiða þurfi vatn í yfirfall. Þá sé áréttað að heita vatnið sem sé í tönkunum sé upphitað grunnvatn frá Nesjavallar- og Hellisheiðarvirkjun og því sé um hreint vatn að ræða. Ekkert bendi til þess að af geymunum stafi nokkur hætta enda séu þeir hannaðir eftir öllum þeim stöðlum og reglum sem gildi um slík mannvirki. Einnig sé mikilvægt að geymirinn rísi fyrir haustið 2023 til að draga ekki úr afhendingaröryggi næsta vetrar. Greiningar og reynsla eftir síðastliðinn vetur bendi eindregið til þess að núverandi tankarýmd sé ekki nægjanleg til þess að ráða við langvarandi kuldakast. Sé því mikilvægt að geymirinn rísi fyrir haustið 2023.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ítrekað er að deiliskipulagið Hólmsheiði jarðvegslosun, sem samþykkt var í borgarráði 4. nóvember 2010 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 14. desember s.á. hafi verið fellt úr gildi, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 6/2011 frá 14. febrúar 2014. Sama eigi við um deiliskipulag sem samþykkt hafi verið í borgarráði 25. mars 2010 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl s.á., sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 26/2010 frá10. apríl 2014. Í gildi sé deiliskipulag frá árinu 2003 með tilteknum breytingum sem samþykktar voru í borgarráði 29. nóvember 2007 og birtar í B-deild Stjórnartíðinda 30. janúar 2008.

Samkvæmt byggingarleyfi, dags. 29. mars 2023, sé ekki vísað til deiliskipulags og uppdrátta eða minnst á skilyrta öryggismön sem verkþátt samhliða byggingu hitaveitugeymis nr. 4. Hins vegar sé vísað til þess að öll framkvæmdin skuli unnin eftir aðal- og séruppdráttum, byggingar- og verklýsingum og gildandi lögum og reglugerðum um skipulags- og byggingarmál.

Í byggingarlýsingu sé í engu minnst á uppdrætti eða skipulagsskilmála í deiliskipulagi 2003 og deiliskipulagsbreytingu frá árinu 2008, margnefnda öryggismön eða aðrar lóðaframkvæmdir, nánasta umhverfi, hæðarlegu, lóðamörk, brunavarnir, aðkomu slökkviliðs, kvaðir, bílastæði, gróður, útlit o.s.frv. Vantar að gera grein fyrir öllu er við kemur meginskipulagi lóðar og aðlögun mannvirkis að næsta umhverfi og samþykktu deiliskipulagi og/eða skipulags­skilmálum eins og segi annars vegar í byggingareglugerð og hins vegar í lögum um mannvirki, og geti því ekki talist aðaluppdráttur eins og skylt er að leggja fram til byggingafulltrúa til samþykktar áður en byggingarleyfisumsókn er samþykkt, byggingarleyfi veitt og framkvæmdir hefjast.

Kærandi hefur gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. febrúar 2023 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa hitaveitugeymi á lóð nr. 16 við Mjódalsveg, Reykjavík. Kærandi telur að hinn fyrirhugaði hitaveitugeymir sé ekki í samræmi við skilyrði og heimildir í deiliskipulagi og að veiting leyfisins sé haldin annmörkum.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga.

Fyrir liggur að allt frá gildistöku deiliskipulags fyrir umrætt svæði árið 2003 hefur verið gert ráð fyrir hitaveitugeymum á umræddri lóð. Með deiliskipulagsbreytingu, sem samþykkt var í borgarráði 29. nóvember 2007 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 30. janúar 2008, var lóðin undir hitaveitugeyma stækkuð ásamt færslu og stækkun byggingarreita. Í skipulaginu er nú gert ráð fyrir að á svæðinu rísi fimm hitaveitugeymar til viðbótar við þá þrjá sem fyrir voru. Áskilnaður er um að öryggismön umhverfis geymana skuli gerð samhliða uppbyggingu á lóðinnni og að óheimilt sé að nota hana sem geymslusvæði eða ráðstafa hlutum hennar til annarra nota en fyrir hitaveitugeyma og mannvirki þeim tengdum. Breytingar sem samþykktar voru á skipulagi svæðisins og tóku gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. desember 2010 voru felldar úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 14. febrúar 2014, en þær breytingar sneru að notkun svæðis undir jarðvegslosun. Í skilmálum deiliskipulagsins er ekki kveðið á um tímamörk á því hvenær öryggismön þurfi að vera komin upp að öðru leyti en því að gengið sé frá henni samhliða uppbyggingu á lóðinni, en sú uppbygging mun hafa hafist árið 1988 og eru heimildir fyrir fjórum hitaveitugeymum enn ónýttar eftir hina kærðu ákvörðun. Samkvæmt framansögðu fer hið kærða byggingarleyfi ekki í bága við gildandi skipulagsáætlanir. Ekki liggur heldur fyrir að framkvæmdin sé háð umhverfismati.

Fyrir liggur að umsókn um að reisa umræddan hitaveitugeymi var samþykkt þar sem gerð er fullnægjandi grein fyrir mannvirkinu og staðsetningu þess á aðaluppdráttum sem umsókninni fygdi. Verður ekki annað séð en að málsmeðferð og afgreiðsla umsóknarinnar hafi verið lögum samkvæmt. Þess ber að geta að framkvæmdir sem háðar eru framkvæmdaleyfi eru á hendi skipulagsyfirvalda að heimila samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, en ekki byggingarfulltrúa sem afgreiðir leyfisskyldar framkvæmdir samkvæmt lögum um mannvirki. Ekki er nauðsynlegt að rekja skipulagsforsendur við samþykki byggingaráforma, en telji byggingarfulltrúi vafa leika á um að áformin samræmist skipulagi skal hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa áður en byggingarleyfi verður veitt, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki, en að öðrum kosti veitir hann byggingarleyfi án slikrar umsagnar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannörkum sem raskað geta gildi hennar og verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. febrúar 2023 um að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi á lóð nr. 16 við Mjódalsveg, Reykjavík.

69/2023 Bakkaflöt

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 22. júní, tók Ómar Stefánsson varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 69/2023, kæra á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 10. janúar 2023 um að veita leyfi fyrir breytingum á þegar samþykktri viðbyggingu við húsið að Bakkaflöt 5 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Bakkaflatar 7 í Garðabæ, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 10. janúar 2023 að veita leyfi fyrir breytingum á þegar samþykktri viðbyggingu við húsið að Bakkaflöt 5 í Garðabæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 21. september 2021 var samþykkt afgreiðsla byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að rífa bílageymslu og byggja við einbýlishús sem stendur á lóðinni Bakkaflöt 5. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 10. janúar 2023 var samþykkt afgreiðsla byggingarfulltrúa um að veita leyfi fyrir breytingum á þegar samþykktum teikningum af viðbyggingu við fyrrgreint hús.

Kærendur vísa til þess að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið haldin verulegum annmörkum. Tveir nefndarmenn skipulagsnefndar Garðabæjar hafi verið vanhæfir til að koma að afgreiðslu og ákvörðun um byggingarleyfisumsóknina og að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við almenna skilmála gildandi deiliskipulags Flata í Garðabæ, sbr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að stöðvun framkvæmda sé undantekningarheimild sem skýra beri þröngt og beri að veita í takmarkatilvikum þegar sérstakar aðstæður eða hagsmunir séu fyrir hendi og veigamikil rök standi til beitingar úrræðisins. Þegar hafi verið lokið við uppsteypu byggingarinnar og frágangur þaks sé langt kominn. Verkinu sé því lokið að því er varði áhrif á kærendur sem hafi ekki fært fram málsástæður eða rök fyrir því að slíkar aðstæður væru uppi í málinu sem réttlættu beitingu svo harkalegs úrræðis sem stöðvun framkvæmda sé.

Af hálfu leyfishafa er bent á að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé það meginregla að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Frá þeirri reglu sé sú undantekning gerð að kærandi geti krafist þess að nefndin úrskurði um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Í þessu máli sé framkvæmdum lokið þar sem einungis eigi eftir að einangra þak, leggja þakpappa og glerja bygginguna. Verði því að telja að lagaheimild bresti til að beita undantekningarheimild laganna eða a.m.k. verði að telja hagsmuni leyfishafa af því að mega loka byggingunni vega þyngra en hagsmuni kærenda af því að stöðva framkvæmdir.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðun en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um samþykki á byggingarleyfisumsókn fyrir viðbyggingu við hús á lóð Bakkaflatar 5. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hefur þegar verið lokið við uppsteypu byggingarinnar og frágangur þaks langt komin. Með hliðsjón af því og að virtum þeim sjónarmiðum sem liggja að baki framangreindum lagaákvæðum verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt þykir þó að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að halda áfram framkvæmdum áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða að Bakkaflöt 5, Garðabæ,  samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.

29/2023 Bláskógabyggð

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 7. desember 2022 um að veita Mílu ehf. byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. febrúar 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Ljósalandi í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 28. nóvember 2022 að veita Mílu hf. byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunar byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 7. desember 2022 um að veita byggingarleyfi fyrir nefndu fjarskiptamastri.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 29. mars 2023.

Málavextir: Hinn 10. desember 2021 óskaði Míla hf. eftir byggingarleyfi til að reisa á lóðinni L176855, Laugarási, Bláskógabyggð, 18 m hátt stálmastur. Á lóðinni er fyrir tækjahús Mílu sem reist var árið 1997 og hýsir fjarskiptabúnað sem þjónar nærliggjandi byggð. Í mastrinu er ætlunin að koma fyrir fjarskiptabúnaði, sem þjónar stærra svæði en nærliggjandi byggð og verður mastrið sjálfberandi stálstaur á steyptum undirstöðum. Umsóknin var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 6. janúar 2022 þar sem afgreiðslu málsins var frestað. Á fundi sveitastjórnar 17. febrúar s.á var málið tekið fyrir að nýju og samþykkt að það fengi málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar.

Umhverfis- og tæknisvið uppsveita sendi 8. mars 2022 til hagsmunaaðilum nærliggjandi lóða bréf, þar sem umsókn um byggingarheimild fyrir fjarskiptamastur var kynnt eigendum í samræmi við 44. gr. laga nr. 123/2010. Var frestur veittur til 12. apríl s.á. til að skila inn athugasemdum. Á fundi sveitarstjórnar 11. maí s.á. voru lagðar fram athugasemdir sem bárust við grenndarkynninguna, m.a. frá kæranda sem fór fram á að mastrinu yrði fundin önnur staðsetning þar sem hæð þess og sýnileiki yrði minni. Fallist var á að fresta málinu og að haft yrði samráð við umsækjanda um hugsanlega breytta staðsetningu mastursins í ljósi fram-kominna athugasemda.

Málið var tekið fyrir að nýju 23. nóvember 2022 hjá skipulagsnefnd sem tók undir andsvör umsækjanda vegna framlagðra athugasemda er bárust vegna málsins. Mæltist skipulagsnefnd til þess við sveitarstjórn að ekki yrði gerð athugasemd við útgáfu byggingarleyfis fyrir uppsetningu fjarskiptamastursins. Málið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 28. s.m. þar sem tekið var undir andsvörin og gerði sveitarstjórn ekki athugasemd við útgáfu byggingarleyfis. Var byggingarfulltrúa falin afgreiðsla málsins og samþykkti hann umsókn um byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á umræddri lóð 7. desember 2022.

 Málsrök kæranda: Kærandi telur fyrirhugaða staðsetningu fjarskiptamastursins vera of nærri heimili hans. Fjarlægð þess sé innan við 100 m frá heimili hans og kæmi það til með að gnæfa 20 m frá jörðu og rýra verulega fegurðarásýnd umhverfisins, verðmæti eigna hans og sölu-möguleika á fasteignum sem væru á lóð hans. Óljóst sé hver áhrif væntanlegrar geislunar frá mastrinu muni hafa á heilsu fólks. Sökum nálægðar fyrirhugaðs masturs við heimili kæranda yrði hann í umtalsvert meiri hættu á heilsuspillandi áhrifum geislunar heldur en þeir sem fjær búi. Að auki myndi það leiða til þess að ættingjar kæmu síður með börn sín í heimsókn ásamt því að möguleikum hans til að stofna fjölskyldu og eignast börn sé stefnt í hættu. Þá komi fjarskiptamastrið til með að hafa áhrif á atvinnuumsvif kæranda á lóð hans sem sé garðyrkjulóð þar sem ræktuð séu matvæli, blóm og tré. Stór hluti neytenda hefði sterkar skoðanir á því við hvaða aðstæður kaupvara þeirra sé ræktuð. Að hafa risavaxið fjarskiptamastur í svo mikilli nálægð við sölustaðinn kæmi til með að fæla stóran hluta viðskiptavina frá.

Að lokum yrði veruleg sjónmengun af ofangreindu mastri á þorpsmynd Laugaráss sem kæmi til með að skaða bæjarmynd þorpsins og rýra gildi þess sem æskilegs búsetustaðar fyrir fólk.

 Athugasemdir sveitarstjórnar Bláskógabyggðar: Vísað er til þess skipulagsvalds sem sveitarfélögum sé gefið sbr. skipulagslög nr. 123/2010. Meðferð málsins hafi verið í samræmi við skyldur sveitarfélagsins samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993, skipulagslögum nr. 123/2010 og gildandi aðal- og deiliskipulag fyrir svæðið.

Umrætt fjarskiptamastur verði staðsett á athafnalóð innan Bláskógabyggðar, nánar tiltekið Athafnasvæði nr. 16 í Laugarási. Kveðið sé á um í gildandi aðalskipulagi fyrir Bláskógabyggð um Laugarás sérstaklega að á athafnasvæðum geti byggst upp léttur iðnaður sem hafi litla mengunaráhættu í för með sér. Fram komi í aðalskipulaginu að endurskoða þurfi að mati sveitarfélagsins stefnu varðandi m.a. fjarskipti og eitt af meginmarkmiðum aðalskipulagsins sé að stuðla að betri fjarskiptum í sveitarfélaginu. Þá sé einnig fjallað þar um framkvæmdir sem séu heimilar án þess að afmarka þurfi sérstaka landnotkun. Eigi það meðal annars við um fjarskiptamöstur.

Í deiliskipulagi fyrir Laugarás í Bláskógarbyggð sem samþykkt hafi verið af sveitarstjórn 29. desember 2011 komi fram í skilmálum fyrir athafnalóðir að mænishæð húsa á lóðunum skuli ekki vera meiri en 10 m og vegghæð ekki hærri en 5 m. Hafi því verið ákveðið á fundi sveitar-stjórnar að fara með umsókn um byggingarheimild til að reisa fjarskiptamastur á lóðinni í sam-ræmi við 44. gr. skipulagslaga.

Fullyrðingum um að fyrirhugað mastur muni hafa áhrif á verðmat eigna kæranda séu ekki studdar neinum gögnum. Um sé að ræða lóð sem skilgreind sé sem athafnasvæði og hafi kæranda því mátt vera ljóst að á lóðinni yrðu reistar byggingar sem kæmu til með að sjást frá lóð hans. Fjarskiptamöstur séu víða að finna í byggð og sé hlutverk fyrirhugaðs fjarskipta-masturs að styrkja fjarskiptasamband á svæðinu líkt og stefna og markmið aðalskipulags Bláskógabyggðar áskilji.

Því sé hafnað að framkvæmdin komi til með að hafa áhrif á ásýnd og ímynd Laugaráss, enda sé það mat sveitarfélagsins að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa óæskileg áhrif. Þá séu fullyrðingar þess efnis að geislun frá mastrinu geti verið skaðleg heilsu kæranda, skert möguleika hans til að stofna fjölskyldu og geti haft áhrif á atvinnurekstur hans ekki studdar neinum gögnum.

 Málsrök leyfishafa: Vísað er til þess að um sé að ræða framkvæmdir á skilgreindu iðnaðar- og athafnasvæði. Sú lóð sem um ræði sé skilgreind sem athafnalóð þar sem gert sé ráð fyrir léttum og hreinlegum iðnaði. Tilefni umræddrar framkvæmdar sé vegna fjölda ábendinga og kvartana um lélegt fjarskiptasamband á umræddu svæði. Sambærileg fjarskiptamöstur sé að finna víða innan þéttbýlis og hefur verið hluti af innviðum landsins í áratugi. Stærð mastursins verði 18 m sem sé lágmarks hæð fyrir mastur á lóðum sem þessum til að geta sem best þjónað öllu nærliggjandi svæði. Bent sé á að mikillar upplýsingaóreiðu og misskilnings virðist gæta víða um geislun frá farsímum og fjarskiptamöstrum. Fullyrðingar kæranda hvað varði mögu-lega geislun og áhrif mastursins á atvinnuumsvif hans séu því ekki studdar neinum gögnum.

Leyfishafi fari í einu og öllu eftir ráðleggingum og reglum Geislavarna ríkisins sem komi frá sjálfstæðri stofnun sem beri nafnið ICNIRP. Nýjustu ráðleggingar þeirra frá árinu 2020 séu strangar varðandi útgeislun. Þær kröfur séu gerðar að útgeislun þar sem búið sé þurfi að vera 50 sinnum lægri en þau viðmiðunarmörk sem ICNIRP hafi metið sem örugga útgeislun. Þessum reglum sé ávallt fylgt eftir.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Vísað er til heimilda á internetinu þar sem rannsökuð hafa verið áhrif fjarskiptamastra á virði fasteigna. Þær réttlætingarástæður sem málsaðilar hafi borið fyrir sig um að lóðin sem stendur til að reisa mastrið á sé iðnaðarlóð breyti ekki þeirri staðreynd að staðsetningin sé alltof nærri heimili kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir 18 m háu fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð, þar sem fyrir er tækjahús með fjarskiptabúnaði. Lóðin er á deiliskipulögðu svæði og var leyfið veitt að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem slík málsmeðferð er heimiluð ef um óverulega breytingu á deiliskipulagi er að ræða.

Í k-lið, greinar 4.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um hvernig farið skuli með stakar skipulagsskyldar framkvæmdir sem ekki er talin þörf á að afmarka sérstaka landnotkun fyrir. Er þar átt við framkvæmdir sem ekki eru taldar líklegar til að valda verulegum áhrifum á umhverfið. Ein þeirra framkvæmda sem þar eru taldar upp eru stök fjarskiptamöstur. Í aðal-skipulagi þarf að koma fram stefna um hvar eða við hvaða aðstæður mannvirkjagerð sem taldar eru þar upp séu heimilar eða óheimilar og aðrar skipulagsforsendur fyrir gerð deiliskipulags eða veitingu leyfa til framkvæmda.

Samkvæmt Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 er umrædd lóð á skilgreindu athafna-svæði, en þar er gert ráð fyrir léttum iðnaði sem hafi litla mengunarhættu í för með sér. Í greinargerð aðalskipulagsins er í kafla 2.4.8 fjallað um stakar framkvæmdir. Kemur þar fram að fjarskiptamöstur í byggð séu heimiluð án þess að afmarka sérstaka landnotkun allt að 20 m há ásamt aðstöðuhúsi allt að 20 m² ásamt lögnum og vegum. Gerð er þó krafa um að hvert tilfelli sé metið og þá hvar fjarskiptamöstur verði heimiluð. Við matið skuli meðal annars tekið tillit til hljóðvistar og fjarlægðar frá landamerkjum, öðrum mannvirkjum, sýnileika og áhrifa á náttúru og landslag.

Um athafnalóðir segir í deiliskipulagi Laugaráss í Bláskógabyggð að mænishæð húsa á lóðunum skuli ekki vera meiri en 10 m og vegghæð ekki hærri en 5 m. Ekki er þar að finna umfjöllun um fjarskiptamöstur. Fjarskiptamastur er byggingarleyfisskylt mannvirki sbr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Í 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. laganna er áskilið að byggingar-leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir til að byggingaráform verði samþykkt og byggingarleyfi gefið út.

Í lokamálsgrein greinar 5.3.2.1. skipulagsreglugerðar er tekið fram að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir umfangi og stærð mannvirkja svo sem virkjana-, fjarskipta- og veitumannvirkja, samgöngumannvirkja o.fl. Þá er einnig tekið fram í gr. 5.3.2.15 að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir staðsetningu og umfangi fjarskiptamastra. Verða slík mannvirki því að eiga stoð í gildandi deiliskipulagi viðkomandi svæðis svo unnt sé að veita byggingarleyfi fyrir þeim.

Svo sem áður greinir var umdeild framkvæmd grenndarkynnt og var síðan tekin afstaða til framkominna athugasemda, málið afgreitt í skipulagsnefnd og staðfest í sveitarstjórn. Hins vegar liggur ekki fyrir að tillaga að breytingu á gildandi deiliskipulagi í tilefni af fyrirhuguðu fjarskiptamastri á umræddri lóð hafi verið send Skipulagsstofnun til yfirferðar og auglýsing birst um samþykki hennar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en skipulagsbreyting tekur fyrst gildi við birtingu þeirrar auglýsingar. Var því óheimilt að veita og gefa út hið kærða byggingarleyfi, sbr. áðurnefnda 11. og 13. gr. mannvirkjalaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hið kærða byggingarleyfi fellt úr gildi.

Úrskurðarorð:

 Ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 7. desember 2022 um að veita Mílu hf. byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð, er felld úr gildi.

41/2023 Seljadalsvegur

Með

Árið 2023, föstudaginn 2. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 24. febrúar 2022 um að samþykkja byggingarleyfi vegna frístundahúss á tveimur hæðum á lóðinni Seljadalsvegi 4, Mosfellsbæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 2. apríl 2023, kærir eigandi sumarbústaðalandsins Lækjartanga þá ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 24. febrúar 2022 að samþykkja byggingarleyfi vegna frístundahúss á tveimur hæðum á lóðinni Seljadalsvegi 4, Mosfellsbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 5. maí 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar 31. janúar 2022 var tekin fyrir byggingarleyfisumsókn vegna Seljadalsvegar 4, þar sem sótt var um leyfi til að byggja 125,1 m2 frístundahús úr steinsteypu og timbri á tveimur hæðum. Var umsókninni vísað til umsagnar skipulagsnefndar sem tók málið til umræðu og afgreiðslu á fundi sínum 18. febrúar s.á., en á þeim fundi lá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 31. janúar s.á., þar sem lagt var til að skipulagsnefnd samþykkti óveruleg frávik deiliskipu­lags um stærð húsa í samræmi við 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsnefnd samþykkti á þeim fundi „óveruleg frávik deiliskipulags um stærð húss og meðhöndlar málið í samræmi við 3. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010, enda samræmist stærð aðalskipulagi. […].“ Byggingarfulltrúi samþykkti byggingar-áform í kjölfarið á afgreiðslufundi 24. febrúar 2022 og gaf út byggingarleyfi 9. ágúst s.á.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að verði hið kærða byggingarleyfi ekki fellt úr gildi verði sumarbústaður kæranda ekki lengur hluti af dreifðri, lágreistri byggð við Hafravatn, heldur hluti af þéttbýliskjarna með fimm stórum húsum. Það muni stórbreyta ásýnd lands kæranda, rýra lífsgæði og verðgildi eignar hans. Þá muni notagildi gróðurhúss vera verulega skert sem og sumarhúss og útivist á landi kæranda vegna hávaða og ónæðis á byggingartíma. Skuggavarp verði á gróðurhús eftir að byggingin rísi.

Farið sé fram á að farið verði að lögum við skipulag og byggingu húss rétt við lóðamörk kæranda, svo sem með upplýsingum um deiliskipulag og grenndarkynningu. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar sé ekki stætt á að vísa til deiliskipulags frá 2017 sem forsendu fyrir útgáfu byggingarleyfis. Ekki hafi verið staðið að deiliskipulagi með lögbundnum hætti. Áður en tillaga að deiliskipulagi sé tekin til afgreiðslu verði að kynna hana íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í bókunum Mosfellsbæjar sé vísað til breytinga á deiliskipulagi en ekki verði séð að nokkurt staðfest deiliskipulag hafi verið í gildi á þeim tíma eftir að tillaga að deiliskipulagi frá 2015 hafi verið samþykkt. Deiliskipulag frá 2017 hafi hvorki verið kynnt nágrönnum né grenndarkynnt.

Kærandi hafi talið að hann yrði upplýstur um svo viðamiklar breytingar á landi, ásýnd þess og yfirbragði sem hið kærða byggingarleyfi feli í sér. Kærandi hafi hvorki fengið leyfi fyrir flutningi sumarbústaðs stutta vegalengd árið 1991 né leyfi fyrir niðurrifi bústaðs og nýjum bústað á sama stað árið 2014 nema að undangenginni grenndarkynningu. Tillaga að deili­skipulagi fyrir svæðið hafi verið ítarlega kynnt með bréfi til nágranna árið 2015 en ekki náð fram að ganga eftir að nágrannar hafi komið sjónarmiðum sínum á framfæri.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að rökstuðningur kæranda fyrir ógildingu hins kærða byggingarleyfis byggist að stærstum hluta á atriðum er varði málsmeðferð við gerð og samþykkt deiliskipulags frístundahúsa á spildu úr landi Miðdals 1. Í 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kveðið á um að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Jafn­framt komi fram að sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Deiliskipulag svæðisins hafi öðlast gildi með auglýsingu þess í B-deild Stjórnartíðinda 19. júlí 2019 og sé kærufrestur vegna þess því liðinn.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærandi hafi lagt fram hafi honum verið kunnugt um útgáfu leyfisins eigi síðar en 22. ágúst 2022 m.v. efni bréfs dags. 4. september s.á. og verið kunnugt um hlutverk úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og lög nr. 130/2011 með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 6. mars 2023. Hin kærða ákvörðun varði samþykki byggingarfulltrúa um byggingaráform frá 24. febrúar 2022 og útgáfu byggingarleyfis 9. ágúst s.á. Samkvæmt fyrirmælum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 samræmist útgáfa byggingarleyfisins sam­þykktu deiliskipulagi að undangenginni samþykkt á fundi skipulagsnefndar 18. febrúar 2022 og hafi verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010.

Bent sé á að skipulagsnefnd hafi samþykkt á fundi sínum 10. apríl 2018 að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi frístundabyggðar á frístundareit F533 skv. Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafi samþykkt afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 18. s.m. Skipulagið hafi verið auglýst og kynnt með almennum hætti í samræmi við 1. mgr. 41. gr. laga nr. 123/2010, sem samsvari kröfum um auglýsingu aðalskipulags í 1. mgr. 31. gr. sömu laga, en þar segi: „Sveitarstjórn skal auglýsa tillögu að aðalskipulagi með áberandi hætti, svo sem í dagblaði sem gefið er út á landsvísu. Tillagan skal einnig auglýst í Lögbirtingablaðinu og vera aðgengileg á netinu.“ Auglýsingin hafi verið framsett og unnin í samræmi við kröfur gr. 5.6.2. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, en hún hafi verið birt í Fréttablaðinu og Lög­birtinga­blaðinu 4. júlí 2018. Vegna orðalags í fyrri auglýsingu sem hafi þurft að leiðrétta hafi skipulagið verið kynnt að nýju í sömu miðlum 31. s.m. Athugasemdafrestur hafi verið til og með 18. ágúst s.á. í samræmi við ákvæði laga og reglugerðar um tímafresti. Engar athugasemdir hafi borist á kynningartíma. Hið staðfesta deiliskipulag sé að öllu leyti í samræmi við ákvæði Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2011-2030 um uppbyggingu frístundabyggða, stærðir lóða og húsa en samkvæmt aðalskipulaginu sem auglýst hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 3. október 2013 sé frístundabyggð skipulögð á svæðinu. Farið hafi verið að lögum við gerð deiliskipulags og hið umdeilda byggingarleyfi sé í samræmi við umrætt deiliskipulag og lögum samkvæmt.

Þó svo að í fundargerð bæjarstjórnar frá 18. apríl 2018 hafi verið vísað til þess að í fundargerð skipulagsnefndar, sem staðfest hafi verið á bæjarstjórnarfundinum, sé misritun þess efnis að umsækjanda sé heimilt að leggja fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi hafi öll máls­meðferð sveitarfélagsins miðast við að um gerð nýs deiliskipulags hafi verið að ræða. Hafi það komið fram á skipulagsuppdrættinum sjálfum, í auglýsingum vegna kynningar deiliskipulags­tillögunnar, í samþykkt bæjarstjórnar 5. september 2018 og í birtingu í Lögbirtingablaði að um nýtt deiliskipulag hafi verið að ræða. Þetta atriði hafi því ekki þau áhrif að deiliskipulagið geti talist ógilt. Með bréfi, dags. 17. september 2018, hafi sveitarfélagið sent deiliskipulagið til Skipulagsstofnunar til athugunar ásamt gögnum um málsmeðferðina í samræmi við 42. gr. laga nr. 123/2010 . Skipulagsstofnun hafi gert tilteknar athugasemdir, sem sveitarfélagið hafi tekið til greina og sent uppfærðan skipulagsuppdrátt til stofnunarinnar með bréfi dags. 8. júlí 2019. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 17. s.m., hafi komið fram að stofnunin hafi ákveðið að taka deiliskipulagið og málsmeðferðina ekki til nánari athugunar. Í kjölfarið hafi samþykkt skipulag verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. s.m. Á grundvelli skipulagsins hafi byggingarfulltrúi samþykkt byggingaráform 24. febrúar 2022 og gefið byggingarleyfi út 9. ágúst s.á.

Vegna málsástæðna kæranda er varða hagsmuni hans vísist til þess að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 31. janúar 2022 hafi byggingarfulltrúi vísað fjórum byggingarleyfis-umsóknum til umsagnar skipulagsnefndar Mosfellsbæjar vegna skilmála deiliskipulagsins. Umsóknirnar hafi verið teknar til umræðu og afgreiðslu á fundi nefndarinnar 18. febrúar s.á. Við umræðuna hafi legið frammi minnisblað og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 31. janúar s.á., þar sem fram hafi komið að um væri að ræða frávik fermetrafjölda á aðaluppdráttum frá gildandi deiliskipulagi. Deiliskipulag hafi takmarkað stærðir húsa við 120 m2 en aðalskipulag hafi heimilað 130 m2 hús í samræmi við stærðir lóða. Stærðir bygginga hafi verið á bilinu 3,4-4,3% stærri en deiliskipulag hafi heimilað og 3,9-4,8% minni en heimilað hafi verið í aðalskipulagi. Um sé að ræða brúttóflatarmál bygginga samkvæmt íslenskum staðli ÍST 50:1998 varðandi byggingarhluta í lokunarflokkum A og B. Undanskilið sé brúttóflatarmál rýma með lægri salarhæð en 1,8 m, sbr. ÍST 21:1971. Skipulagsnefnd hafi samþykkt að meðhöndla frávik húsa, um 4,1-5,1 m2 í samræmi við 3. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010, þar sem stærð hafi samræmst ákvæðum aðalskipulags að fullu. Byggingarfulltrúa hafi því verið heimilt að gefa út hið kærða byggingarleyfi þar sem umsóknin hafi samrýmst lögum um mannvirki nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 112/2012 og kynntum gögnum.

Á fundi skipulagsnefndar 18. febrúar 2022 hafi þeir aðaluppdrættir sem nefndin hafi lagt mat á verið fyrirliggjandi. Á þeim sjáist að fermetrar fari að stórum hluta í kjallara húss sem hafi tvær gluggalausar hliðar, auk þess sem B-rými séu undir skyggni og svölum. Heimildir til byggingar frístundahúsa hafi legið fyrir í aðal- og deiliskipulagi. Búið hafi verið að samþykkja upp­skiptingu lands, skilgreina byggingarreiti og húsagerðir. Samþykkt óverulegra frávika á fundi nefndarinnar hafi því verið í samræmi við heimildir skipulagslaga og kalli ekki á grenndar­kynningu, sbr. 3. mgr. 40. gr. og 2. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010, enda hvorki um nýtt skipulag né skipulagsbreytingu að ræða.

Kærandi hafi ekki mátt gera ráð fyrir því að aldrei yrði neitt byggt á umræddri spildu þar sem eiganda hennar sé heimilt að ráðstafa eign sinni á meðan sú ráðstöfun sé lögum samkvæmt. Sveitarfélagið hafi skilning á að það séu viðbrigði fyrir kæranda að fá mannvirki í nágrenni við sumarhús sitt, þar sem engin hafi verið áður, en á svæði skipulögðu sem frístundasvæði í aðalskipulagi megi ávallt eiga von á slíku. Núgildandi aðalskipulag hafi verið auglýst þann 3. október 2013 en kærandi hafi engu að síður sótt um byggingarleyfi síðar í þeim sama mánuði til að rífa eldra hús á lóð sinni og byggja þar nýtt. Hafi kærandi því ráðist í þær framkvæmdir þrátt fyrir að honum hafi þá mátt vera ljóst að svo kynni að fara að sumarhús yrðu byggð á umræddri spildu.

Bent sé á að það hús sem standa muni næst landi kæranda sé í um 55 m fjarlægð í vestur frá frístundahúsi kæranda. Ekkert í gögnum eða rökum kæranda styðji það sem þar sé haldið fram um skuggavarp. Þá telji sveitarfélagið að ekki verði horft til þess að notagildi sumarhúss kæranda muni rýrna á meðan á framkvæmdum skv. hinu kærða byggingarleyfis standi. Vísan til ætlaðra tímabundinna óþæginda kæranda geti ekki hindrað eiganda spildunnar í að nýta hana til að byggja á henni.

Í deiliskipulagi svæðisins komi fram að markmið þess séu „[a]ð á svæðinu rísi látlaus, lágreist byggð frístundahúsa sem fellur sem best að landi og umhverfi“ og að „[á] lóðum, innan byggingarreits, er gert ráð fyrir að byggja megi einnar hæðar aðalhús/gestahús með/án kjallara“. Öll samþykkt hús á svæðinu séu lágreist einnar hæðar frístundahús með kjallara undir aðalgólfi aðkomuhæðar þar sem húsið sé lagað að landi svo það falli sem best að umhverfi og aðstæðum hverju sinni. Kennisnið uppdrátta heimili kjallara og sé útfærsla teikningar ekki bundin í skipulagi. Teikningar að húsum sýni að aðstæður gefi kost á tveimur gluggahliðum á kjallara. Samkvæmt heimildum deiliskipulags megi mesta hæð húsa og þaks vera 6 m yfir aðalgólfi en samþykktar teikningar sýni að húsin séu 3,12 m yfir aðalgólfi. Ekki sé því rétt að hið kærða byggingarleyfi sé fyrir hús á tveimur hæðum.

———-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um kærumál þetta.

Niðurstaða: Seljadalsvegur 4 er á deiliskipulögðu frístundasvæði í landi Miðdals 1. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í lokamálslið 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að birta skuli auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnar­tíðinda. Deiliskipulag fyrir frístundahúsalóðir í landi Miðdals 1 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. júlí 2019, sem telst til opinberrar birtingar, og er kærufrestur vegna þess því liðinn.

Byggingarfulltrúi samþykkti byggingaráform 24. febrúar 2022 og gaf út hið umþrætta byggingarleyfi 9. ágúst s.á., en kæra vegna leyfisins barst úrskurðarnefndinni 2. apríl 2023. Kærandi sendi bæjaryfirvöldum bréf, dags. 4. september 2022, þar sem farið var fram á að byggingarleyfið yrði ógilt. Kom þar m.a. fram að kærandi hafi orðið var við framkvæmdir 22. ágúst s.á. Kæranda barst svar við erindi sínu 6. september s.á., þar sem fram kom að málið væri í skoðun og svars væri að vænta innan fárra daga. Kærandi áréttaði fyrirspurn sína með tölvupóstum 4. október s.á. og 30. mars 2023. Með tölvupósti, dags. 1. mars 2023, fékk kærandi svar við erindi sínu, þar sem nánar var vikið að efni hins kærða byggingarleyfis. Verður að líta svo á að kæranda hafi fyrst þá verið unnt að taka afstöðu til þess hvort hið kærða leyfi hafi verið innan þeirra marka sem lög, reglugerðir og skipulag hafi heimilað. Er kæra vegna byggingarleyfisins því lögð fram innan lögbundins kærufrests.

Í máli þessu er deilt um leyfi til að byggja 125,1 m2 frístundahús á tveimur hæðum á lóðinni Seljadalsvegi 4. Lóðin er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag fyrir frístundalóðir í landi Miðdals 1, en frístundahús kæranda liggur utan skipulagssvæðisins í u.þ.b. 50 m fjarlægð í austnorðaustur frá fyrirhuguðu frístundahúsi. Í skilmálum deiliskipulagsins kemur fram að byggingarmagn megi vera allt að 120 m2 á lóðum A-D, en lóðin Seljadalsvegur 4 er merkt sem lóð D á skipulagsuppdrætti.

Í 3. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að ef mannvirki er háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skuli hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Í 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. laganna er áskilið að mannvirki sé í samræmi við skipulagsáætlanir til að byggingaráform verði samþykkt og byggingarleyfi verði gefið út.

Líkt og greinir að framan leitaði byggingarfulltrúi umsagnar skipulagsfulltrúa vegna hins umdeilda byggingarleyfis. Í umsögninni, dags. 31. janúar 2022, kom m.a. fram að fyrirhugað mannvirki væri um 3,8% stærra en heimild deiliskipulags tilgreinir, en rúmaðist hins vegar innan ákvæða aðal­skipulags. Lagði skipulagsfulltrúi til að skipulagsnefnd samþykkti óveruleg frávik deiliskipu­lags um stærð húsa í samræmi við 3. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010 og að byggingar­fulltrúa væri þá heimilt að gefa út byggingarleyfi þegar umsókn samræmdist lögum um mann­virki nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 112/2012 og kynntum gögnum.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 123/2010 kemur fram að deiliskipulag sé skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Fjallað er um breytingar á deiliskipulagi í 43. gr. laganna. Í 1. mgr. kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi skuli fara með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða og skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti eða formi viðkomandi svæðis. Í 2. mgr. segir að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning en í 3. mgr. er sveitarstjórn heimilað að víkja frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndar­kynningu þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Felur nefnd 3. mgr. í sér undantekningu frá reglum 43. gr. um auglýsingu eða grenndarkynningu sem ber að skýra þröngt.

Hið umdeilda byggingarleyfi, sem samþykkt var með vísan til 3. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010, heimilar byggingu 125,1 m2 húss, þ.e. 5,1 m2 stærra en heimilað er samkvæmt deiliskipulagi svæðisins. Frístundahús kæranda er í um 50 m fjarlægð frá hinu fyrirhugaða frístundahúsi og er bein sjónlína á milli húsanna. Verður ekki útilokað að útsýni kæranda skerðist að einhverju leyti vegna þeirra viðbótarfermetra sem heimilaðir eru með hinu kærða byggingarleyfi umfram það sem deiliskipulag kveður á um og verður að túlka allan vafa þar um kæranda í vil. Samkvæmt framansögðu verður ekki hjá því komist að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 24. febrúar 2022 um að samþykkja byggingarleyfi vegna frístundahúss á tveimur hæðum á lóðinni Seljadalsvegi 4, Mosfellsbæ.

59/2023 Drangahraun

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 1. júní, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 59/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. apríl 2023 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði að Dranghrauni 3, matshluta 02.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. maí 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir G.P. Kranar ehf., lóðarhafi Skútahrauns 2a, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. apríl 2023 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði að Dranghrauni 3, matshluta 02. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Málavextir: Kærandi er lóðarleiguhafi að lóðinni Skútahrauni 2a. Árið 2008 tók gildi deiliskipulag Dranghrauns – Skútahrauns og kemur fram í greinargerð deiliskipulagsins að kvöð sé um „að bílastæði fyrir kjallara (neðstu hæð) húsa við nr. 3 og 5 við Drangahraun (hámarksflatarmál 2000 m2) verði á lóð Skútahrauns 2a og að fjöldi þeirra verði skv. byggingarreglugerð“, auk þess sem á skipulagsuppdrætti kemur fram að kvöð sé um umferð að kjallara Drangahrauns 3 og 5. Þá er í greinargerð skipulagsins að finna almenna skilmála þess efnis að athafnasvæði innan lóða skuli vera í samræmi við starfsemi í húsunum og þess gætt að ferming og afferming flutningstækja geti farið fram innan lóða.  Hinn 23. nóvember 2022 sótti Virki ehf., lóðarhafi Drangahrauns 3, um leyfi fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 5. apríl 2023 var umsóknin samþykkt og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kom kærandi áleiðis þeim ábendingum að framkvæmdir væru hafnar á lóðinni. Óskaði úrskurðarnefndin af því tilefni eftir upplýsingum frá Hafnarfjarðarkaupstað um hvort byggingarleyfi hefði verið gefið út. Í svarbréfi sveitarfélagsins, dags. 25. maí 2023, kom fram að ekkert byggingarleyfi hefði verið gefið út. Lagði kærandi þá fram myndir með tölvubréfi, dags. 31. maí 2023, sem sýndu framkvæmdir á hinu umrædda svæði.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að inntak kvaða samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum sé ekki í samræmi við fyrirliggjandi deiliskipulag svæðisins. Því séu hin samþykktu byggingaráform í andstöðu við 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og þegar af þeirri ástæðu beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Einnig sé vandséð hvernig lóðarhafi Drangahrauns 3 hyggist fullnægja því skilyrði deiliskipulagsins að ferming og afferming fari fram innan lóðar hans. Þá sé hámarksmænishæð í ósamræmi við skilmála deiliskipulagsins. Fyrirhugaðar framkvæmdir muni hafa í för með sér stórfellda röskun á starfsemi kæranda og erfitt verði að vinda ofan af framkvæmdunum eftir að þær verði afstaðnar.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Sveitarfélagið vísar til þess að umdeild byggingaráform séu í samræmi við deiliskipulag svæðisins. Ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út og því sé ekki fyrir hendi nein heimild til framkvæmda á lóðinni.

Athugasemdir Virkis ehf.: Af hálfu Virkis ehf. er bent á að samþykktir aðaluppdrættir séu í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag og því séu engar forsendur til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Engin lagaheimild sé til þess að stöðva framkvæmdir. Ákvörðun um stöðvun framkvæmda sé verulega íþyngjandi og beri að skýra allan vafa í hag þess aðila sem stöðvunin beinist gegn.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðun en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um samþykki á byggingarleyfisumsókn fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði en ekki verður talið að þær fyrirhugaðar framkvæmdir séu óafturkræfar. Með hliðsjón af því og að virtum þeim sjónarmiðum sem liggja að baki framangreindum lagaákvæðum verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt þykir þó að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja eða halda áfram framkvæmdum áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir. Einnig skal kæranda bent á að hægt er að fara fram á það við byggingarfulltrúa að hann beiti þvingunarúrræðum laga nr. 160/2010 um mannvirki vegna meintra óleyfisframkvæmda, en ákvörðun þar að lútandi er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða vegna fyrirhugaðs iðnaðar- og geymsluhúsnæðis á lóð Drangahrauns 3, matshluta 02.

151/2022 Naustavör

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 151/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 6. september 2022 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir lokun svala íbúðar 0302 að Naustavör 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. desember 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Naustavör 4–12, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 6. september 2022 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir lokun svala íbúðar 0302 að Naustavör 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 27. febrúar 2023.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar samþykkti umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir Naustavör 2–18 hinn 27. nóvember 2012. Síðar var númerum húsanna breytt í Naustavör 2–12. Í húsinu eru rekin tvö húsfélög, annars vegar húsfélagið Naustavör 4–12, sem er kærandi í máli þessu, og hins vegar húsfélagið Naustavör 2. Fram-kvæmdir við byggingu hússins nr. 2 við Naustavör hófust fyrst og var fokheldisvottorð fyrir húsið gefið út 26. febrúar 2015. Framkvæmdir við byggingu hússins nr. 4–12 hófust síðar og var fokheldisvottorð fyrir þá byggingu gefið út 10. desember s.á. Þegar framkvæmdir við byggingu nr. 2 við Naustavör hófust var í gildi deiliskipulag bryggjuhverfis við Kársnes sem samþykkt hafði verið í bæjarstjórn 22. mars 2005. Á þeim tíma var ekki búið að hanna göturými Vesturvarar og gatnamót Vesturvarar, Naustavarar og Litluvarar.

Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 3. desember 2018 var samþykkt að kynna tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir framangreind göturými. Umhverfisþættir sem skipulagsbreytingin var helst talin hafa áhrif á voru umferð, hljóðvist og andrúmsloft. Var tillagan auglýst til kynningar 17. desember s.á. og barst ein athugasemd frá eiganda íbúðar 0302 að Naustavör 2. Var hún á þann veg að með því að fjarlæga hluta af hljóðvarnarvegg sem væri til staðar kæmi breytingin til með að rýra hljóðvörn sem þegar væri fyrir íbúðina og einnig fyrir íbúð merkta 0202, sem væri á hæðinni fyrir neðan.

Á fundi skipulagsráðs 4. febrúar 2019 var tillagan tekin fyrir að nýju ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar Kópavogsbæjar, dags. 1. febrúar 2019. Í umsögninni er tekið undir athugasemdir eiganda íbúðar 0302 að Naustavör 2 um að breytingin fæli í sér neikvæð áhrif á hljóðvist á suðvesturhorni Naustavarar 2. Benti skipulags- og byggingardeild á að koma yrði til móts við framangreind sjónarmið með hljóðvörnum sem yrðu útfærðar í samráði við eigendur og íbúa Naustavarar 2. Var vísað til þess að framangreint kæmi fram á skipulags-uppdrætti og í greinargerð með deiliskipulagstillögunni. Afgreiðsla skipulagsráðs var staðfest á fundi bæjarstjórnar 12. febrúar s.á. Breyting á deiliskipulagi göturýmis Vesturvarar, Litlu-varar og Naustavarar, Kársnes vesturhluti, tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 16. apríl 2019.

Hinn 6. september 2022 samþykkti byggingarfulltrúi Kópavogs umsókn Kópavogsbæjar um leyfi til að setja lokun á svalir framangreindrar íbúðar 0302 að Naustavör 2.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að húsið að Naustavör 2–14 teljist eitt og sama húsið í skilningi 1. og 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Samkvæmt 6. og 8. gr. laganna sé allt ytra byrði hússins sameign allra eigenda í húsinu. Skipti þar engu um hvort mismunandi hús-félög séu til staðar fyrir mismunandi stigaganga. Á grundvelli 1. og 2. mgr. 30. gr. laganna verði að liggja fyrir samþykki sameigenda í húsinu fyrir framkvæmdum og breytingum á ytra byrði og útliti hússins. Að sama skapi geti stjórnvöld ekki heimilað framkvæmdir eða breytingar á sameign án lögbundins leyfis sameigenda. Þá sé ljóst að 1. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús geri þá kröfu að allir sameigendur í öllu húsinu þurfi að samþykkja slíkar breytingar á húsfundi ef um verulegar breytingar sé að ræða á sameign og útliti hússins. Séu slíkar breytingar ekki verulegar séu engu að síður kröfur um fundarsókn sbr. 2. mgr. 42. gr. framangreindra laga. Hafi þessi skilyrði laganna ekki verið uppfyllt þar sem húsfélagið Naustavör 4–12 hafi ekki gefið lög- og skyldubundið samþykki til umþrættrar svalalokunar og framkvæmda henni tengdri.

Í 1. mgr. 29. gr. laga um fjöleignarhús segi svo: „Rúmist bygging innan samþykktrar teikningar og sé byggingarrétturinn í eigu ákveðins eiganda, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 28. gr., getur hann ráðist í framkvæmdir að fengnum nauðsynlegum byggingarleyfum, enda taki hann sanngjarnt tillit til annarra eigenda við framkvæmdirnar og kosti kapps um að halda röskun og óþægindum í lágmarki.“ Ljóst sé að umþrætt svalalokun sé ekki á teikningum og hafi aldrei staðið til að breyta teikningum hússins. Einnig verði að líta til skyldu Kópavogsbæjar um að tryggja að samþykki sameigenda liggi fyrir þegar leyfi fyrir slíkum framkvæmdum sé veitt sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Það samþykki sem Kópavogsbær leggi fram í samskiptum sínum við kæranda vegna um-þrættrar framkvæmdar snúi einungis að samþykki sameigenda á stigaganginum að Naustavör 2 sem taki til minna en 20% samþykkis allra sameigenda í húsinu. Með vísan til framangreindra skilyrða laga um samþykki sameigenda sé því ljóst að um ólögmæta framkvæmd hafi verið að ræða. Auk þess hafi framkvæmdaraðili verið í „vondri trú“ um réttmæti leyfisveitingar húsfélagsins vegna framkvæmdanna. Af þeim sökum hafi Kópavogsbæ ekki átt að verið kleift að heimila framkvæmdina þar sem grundvallar formskilyrði leyfisveitingarinnar voru ekki til staðar. Þetta hafi starfsmönnum Kópavogsbæjar einnig átt að vera kunnugt um vegna fyrri samskipta.

Málsrök Kópavogsbæjar: Vísað er til greinargerðar VSÓ Ráðgjafar, dags. í desember 2016, sem unnin var fyrir Kópavogsbæ í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu á Kársnesi. Samkvæmt niðurstöðum greinargerðarinnar hafi hljóðvistarútreikningar sýnt að aukning á umferð hækki hljóðstig miðað við óbreyttar ferðavenjur.

Í kjölfar gildistöku breytinga á deiliskipulagi göturýmis Vesturvarar, Litluvarar og Naustavarar (Kársnes vesturhluti) hafi verið unnið að því að bæta hljóðvist í samvinnu við eigendur íbúða 0202 og 0302 á suðvesturhorni Naustavarar 2. Eftir skoðun og mat á mismunandi kostum hafi niðurstaðan verið að setja upp hljóðvarnargirðingu við svalir íbúðar á 2. hæð og svalalokun á íbúð 0302 að Naustavör 2. Þessa einu svalalokun hafi hönnuður hússins samþykkt sem einungis hafi verið ætluð fyrir umrædda íbúð.

Deiliskipulag bryggjuhverfis við Kársnes hafi verið unnið af Birni Ólafssyni arkitekt sem einnig hafi hannað Naustavör 2–12. Í greinargerð með deiliskipulaginu sé fjallað um hljóð-varnir, sbr. grein 1.3.7. Komi þar fram að gert sé ráð fyrir hljóðvörnum vegna bílaumferðar eftir því sem reglur segi til um. Að jafnaði sé reglum fylgt eftir með fjarlægð milli vega og bygginga og með skjólveggjum. Einnig sé gert ráð fyrir að reglum um hljóðvarnir sé svarað með sérstökum ráðstöfunum í útfærslu bygginga í samræmi við gildandi reglur. Þá komi einnig fram að hávaðamælingar hafi verið gerðar af Almennu verkfræðistofunni hf. og brugðist hafi verið við umsögn hennar frá 26. maí 2005 með eftirfarandi hætti: „Engin mikilvæg umferðaræð liggur nálægt svæðinu og hljóðverndun er ekki nauðsynleg nema í húsum sem næst eru Vestur-vör og eystri innkeyrslu. Fyrrgreindar ráðstafanir eru því eingöngu nauðsynlegar þar. Gert er ráð fyrir um 2 m háum skjólvegg meðfram þessum hluta Vesturvarar og sérútfærslu næstu bygginga þar þurfi, þ.e. á efri hæðum nokkurra húsa.“ Byggingarleyfið fyrir svalalokun á íbúð merktri 0302 í Naustvör 2 eigi því stoð í gildandi deiliskipulagi sbr. grein 1.3.7.

Samkvæmt skipulagsskilmálum fyrir svæðið, þ.m.t. Naustavör 2–12, skuli varast að líta á byggingu, þar sem séu tvö eða fleiri stigahús, sem eina heild eða eitt „verk“, heldur skuli líta á hvert stigahús sem augljósa einingu. Í þeim tilgangi megi nota einfaldar aðferðir eins og liti, mismunandi innganga og frágang útveggja á sökkli og jarðhæð. Einnig skuli forðast að hanna láréttar línur, reglulegar endurtekningar sömu gluggagerða eða önnur einkenni blokka, sbr. grein 2.6.

Svalalokunin hafi verið hönnuð fyrir Kópavogsbæ af Sigurði Á. Grétarssyni, verkfræðingi. Tilgangurinn hafi verið að bæta hljóðvist í íbúð 0302 að Naustavör 2 í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags göturýmis Vesturvarar, Litluvarar og Naustavarar. Hafi umrædd teikning fylgt umsókn umhverfis- og skipulagssviðs um leyfi fyrir svalalokuninni og samþykki allra eigenda íbúða í Naustavör 2. Við mat á umsókn um byggingarleyfi hafi byggingarfulltrúi sérstaklega litið til þess að hávaði í íbúð 0302 af völdum umferðar við hringtorgið, sem staðsett sé einungis nokkrum metrum frá íbúðinni, væri mun meiri en eigendur íbúðarinnar hafi með réttu geta búist við. Hafi byggingarfulltrúi talið umrædda svalalokun vera eina kostinn til að tryggja viðunandi hljóðvist í íbúðinni.

Samkvæmt áðurnefndri greinargerð VSÓ Ráðgjafar megi ætla að hávaði í íbúðinni af völdum ökutækja við hringtorgið á gatnamótum Vesturvarar og Naustavarar sé um og yfir 65 dB(A). Sé slíkur hávaði heilsuspillandi og langt umfram það sem eðlilegt geti talist. Eins og fram komi í greinargerðinni sé stöðugur hávaði heilsuspillandi. Í reglugerð um hávaða nr. 724/2008 sé lagt til að þar sem dvalarsvæði á lóð sé skilgreint skuli þess gætt að hljóðstig sé undir 55 dB(A). Að baki ákvörðuninni hafi því legið brýnir heilbrigðishagsmunir eigenda íbúðar 0302 sem kröfðust þess að gripið yrði til úrræða gagnvart hávaða frá umferð við gatnamót Vesturvarar og Naustavarar.

Þá hafi byggingarfulltrúi einnig litið til þess að húsið Naustvör 2–12 sé um margt óvenjulegt með tilliti til útlits og hönnunar. Form hússins sé óreglulegt og fjölbreytt í mörgum litum, stærð og útlit á svölum sé með um 40–50 mismunandi útfærslum. Þá séu sumar svalir með þaki en aðrar ekki. Samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu séu tveir matshlutar í húsinu, annars vegar matshluti 01, sem sé Naustavör 2 með 12 íbúðum, og hins vegar matshluti 02 sem sé Naustavör 4–12 með 50 íbúðum. Þá sé einn stigagangur fyrir Naustavör 2, en í Naustavör 4–12 séu þeir fimm talsins. Enn fremur sé húsið frábrugðið öðrum hefðbundnum fjöleignarhúsum að því leyti að Naustavör 10–12 standi eitt og sé ekki sambyggt Naustavör 2–8. Í Naustavör 2 sé sjálfstætt húsfélag sem fari með málefni hússins og annað sjálfstætt húsfélag í Naustavör 4–12 sem fari með málefni þess.

Enn fremur hafi byggingarfulltrúi litið til þess að umrædd svalalokun teldist smávægileg breyting á útliti hússins og því væri samþykki allra íbúa hússins að Naustavör 2 fullnægjandi. Íbúum í Naustavör 2–12 hefði mátt vera ljóst að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir varðandi hljóðvarnir á suðvesturhorni hússins að Naustavör 2 til að tryggja ásættanlega hljóðvist í íbúðum á 2. og 3. hæð sbr. áðurnefnt deiliskipulag göturýmis Vesturvarar og deiliskipulags bryggjuhverfis við Kársnes sem gilda um Naustavör 2–12. Hafi allur undirbúningur og máls-meðferð umræddra deiliskipulagsákvarðana verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010, óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar og meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verði að meta heildstætt málsmeðferð byggingarfulltrúa vegna hinnar kærðu ákvörðunar með hliðsjón af tilgangi og markmiðum laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Í því ljósi verði ekki fram hjá því litið að eigendur íbúðar 0302 í húsinu Naustavör 2 hafi búið við heilsuspillandi hávaða frá bílaumferð við nýtt hringtorg á gatnamótum Vestur-varar og Naustavarar. Hafi það verið mat hönnuðar hússins og byggingarfulltrúa að önnur lausn en svalalokun kæmi ekki til greina með hliðsjón af því markmiði að lausnin hefði uppfyllt markmið um einfaldleika og lágmarks útlitsbreytingu hússins. Ákvörðun byggingarfulltrúa frá 6. september 2022 hafi samrýmst lögum nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. III. kafla laganna og kafla 4.2. og 4.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2010.

Að lokum sé athygli vakin á að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. september 2022. Kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni 29. desember s.á. og hafi þá verið tæpir fjórir mánuðir liðnir frá upphafi kærufrests. Hafi kærufrestur því verið löngu liðinn og vísa beri kröfunni frá sbr. 27. gr. og 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá sé skv. 2. mgr. 28. gr. sömu laga óheimilt að sinna kæru sé meira en ár liðið frá töku ákvörðunar.

Málsrök framkvæmdaraðila: Eigandi íbúðar 0302 í húsinu Naustavör 2 vísar til athugasemda sinna sem gerðar voru við kynningu deiliskipulagstillöguna þess efnis að rýra ætti hljóðvörn sem þegar hafi verið fyrir íbúðina og íbúð 0202 á hæðinni fyrir neðan. Deiliskipulagsbreytingin hafi verið samþykkt með fyrirvara um að bæta ætti hljóðvörn umræddra íbúða. Settur hafi verið upp timburveggur til að bæta hljóðvörn neðri íbúðarinnar en sú ráðstöfun hafi ekki dugað fyrir þá efri. Eftir ýmsar vangaveltur hafi eina raunhæfa leiðin reynst vera að setja svalalokun til að bæta hljóðvörn íbúðar 0302.

Vísað er til áður framkominna sjónarmiða Kópavogsbæjar um heilsuspillandi hávaða og greinargerðar deiliskipulags bryggjuhverfis við Kársnes. Einnig vísar framkvæmdaraðili til tölvupósts, dags. 22. september 2020, þar sem fram komi álit arkitekts hússins um umrædda svalalokun. Komi þar fram að hún „sé gott svar við þessu viðkvæma vandamáli“ og hans álit sé jafnframt að svalalokunin sé „ekki fordæmi fyrir aðrar íbúðir í húsinu sem eiga ekki við sama vandamál að stríða.“

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ítrekað er að íbúar Naustavarar 4–12 hafi fyrst orðið þess áskynja að Kópavogsbær hefði veitt tiltekið byggingarleyfi þegar framkvæmdir á svalalokun voru hafnar, þ.e. 1. desember 2022. Hefði Kópavogsbæ verið nær að tilkynna húsfélaginu um að til stæði að taka slíka ákvörðun og veita íbúðareigendum andmælarétt áður en farið væri í framkvæmdirnar að frumkvæði og á kostnað Kópavogsbæjar. Virðist sem engin raunveruleg hljóðmæling hafi átt sér stað og eingöngu hafi verið stuðst við einhverskonar áætlun eða mat sem byggðist á öðrum forsendum en núverandi gatnaskipulag gefi í raun. Megi því ætla að allar forsendur hinnar kærðu ákvörðunar sem varði hljóð séu reistar á órannsökuðum grundvelli. Að auki sé mörgum spurningum ósvarað eins og þeirri hver beri ábyrgð á viðhaldi og endurnýjun þessarar svalalokunar, en það virðist vera húsfélagið þar sem slíkur búnaður fellur undir ytra byrði alls hússins.

Niðurstaða: Í máli þessu er farið fram á að því verði vísað frá þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Fram kemur í kæru að eigendum íbúða í húsinu Naustavör 4–12 hafi fyrst verið kunnugt um framkvæmdir við umdeilda svalalokun 1. desember 2022 og komist þá að því að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar hefði samþykkt byggingarleyfi til breytinga á fasteigninni 6. september s.á. Ekki liggja fyrir gögn eða upplýsingar sem benda til að kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrir þann tíma og verður því við það miðað að kæra í máli þessu, sem barst úrskurðarnefndinni 29. desember 2022, hafi borist innan kærufrests. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Hið kærða byggingarleyfi fyrir svalalokun íbúðar 0302 að Naustavör 2 er tilkomið vegna fyrirsjáanlegs hávaða frá umferð um hringtorg á gatnamótum Vesturvarar og Naustavarar. Við slíkar aðstæður bar Kópavogsbæ að bregðast við og tryggja að íbúðareigendur nefndrar íbúðar búi við hljóðvist sem uppfylli skilyrði laga um mannvirki nr. 160/2010, byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og reglugerðar um hávaða nr. 724/2008. Ekki liggja fyrir í málinu hljóðmælingar er feli í sér upplýsingar um hljóðvist á greindum svölum fyrir svalalokun.

Fjöleignarhúsið Naustavör 2–12 er eitt fjölbýlishús í skilningi 1. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Samkvæmt 8. tl. 5. gr. laganna er innra byrði svalaveggja og gólfflötur svala sér-eign, en húsfélag hefur ákvörðunarvald um allar breytingar, búnað og annað á svölum sem áhrif hefur á útlit hússins og heildarmynd. Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 er kveðið á um hvað skuli fylgja með umsókn um byggingarleyfi. Þar segir að í fjöleignarhúsum þurfi að liggja fyrir samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um nr. 26/1994 eftir því sem við eigi.

Umdeild svalalokun felur ekki einungis í sér framkvæmdir við umbúnað innan séreignar, sbr. 27. gr. laga nr. 26/1994. Breytingin er fyrst og fremst á ytra útliti húss þar sem ekki hefur verið gert ráð fyrir svalalokunum á endanlega samþykktri teikningu hússins að Naustavör 2–12. Umþrætt svalalokun getur þó ekki talist veruleg í skilningi 30. gr. nefndra laga. Um er að ræða einfalda smíð sem auðvelt er að fjarlægja, en ekki er gert ráð fyrir breytingum á útveggjum hússins. Fyrir liggur að kostnaður við uppsetninguna var greiddur af Kópavogsbæ og áhrif á notkun sameignar og viðhaldskostnaður sameigenda mun ekki fylgja framkvæmdinni. Bar Kópavogsbæ samkvæmt framansögðu að leita samþykkis húsfélagsins Naustavarar 2–12 fyrir umdeildri svalalokun og byggingarfulltrúa að gæta að því að slíkt samþykki lægi fyrir áður en umrætt byggingarleyfi var veitt.

Með vísan til þess sem að framan greinir eru þeir ágallar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að fallast ber á kröfu um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 6. september 2022 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir lokun svala íbúðar 0302 að Naustavör 2.

145/2022 Hraunbraut

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 11. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 145/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. nóvember 2022 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir íbúð á jarðhæð hússins að Hraunbraut 14, Kópavogi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 22. desember 2022, kærir eigandi Hraunbrautar 14 þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. nóvember 2022 að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir íbúð á jarðhæð hússins að Hraunbraut 14, Kópavogi. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunarinnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 13. mars 2023.

Málavextir: Kærandi sótti um að breyta bílskúrsþaki í dvalarsvæði og rými í kjallara hússins að Hraunbraut 14, Kópavogi, í íbúð. Erindið var lagt fram á fundi skipulagsráðs 7. desember 2020. Ráðið hafnaði erindinu og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarráði 22. s.m. Kærandi lagði þá fram tvær aðskildar umsóknir, dags. 11. mars 2021, annars vegar um að breyta bílskúrsþaki í dvalarsvæði og hins vegar um að breyta rými í kjallara í íbúð. Á fundi skipulags­ráðs 29. mars 2021 var samþykkt að grenndarkynna umsókn kæranda um dvalarsvæði á bílskúrsþaki en umsókn hans um að breyta rými í kjallara í íbúð var hafnað. Bæjarstjórn samþykkti hina síðarnefndu afgreiðslu á fundi sínum 13. apríl s.á. Kærandi sótti að nýju um að breyta rými í kjallara í íbúð 11. nóvember 2022. Þeirri umsókn var hafnað á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 25. s.m. með vísan til afgreiðslu skipulagsráðs 29. mars 2021 og bæjarstjórnar 13. apríl s.á. auk tilvísunar til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að afgreiðsla byggingarfulltrúa innihaldi þá rangfærslu að umrædd íbúð sé í kjallara. Það sé rangt enda hafi byggingarfulltrúi áður staðfest að íbúðin sé á jarðhæð. Ekki sé um að ræða ósk um breytingu á notkun eða uppskiptingu eignar. Ófullnægjandi upplýsingar hafi ítrekað legið til grundvallar ákvörðunum skipulagsráðs vegna erinda kæranda.

Tilvísun í afgreiðslu fyrra erindis eigi sér enga stoð þar sem það erindi hafi verið afgreitt á þeim röngu forsendum að kljúfa ætti geymslu frá íbúð á efstu hæð og stofna nýtt fasteignanúmer og breyta í íbúð. Hið rétta sé að umrædd íbúð hafi frá upphafi verið sérstakur eignarhluti en hafi um árið 1990 verið ranglega skráð hjá Þjóðskrá sem hluti af annarri eign. Um tvö ár hafi tekið að fá þau mistök leiðrétt. Byggingarfulltrúi virðist gefa sér að um sömu umsókn sé að ræða og áður hafi verið hafnað með þeim rökstuðningi að „nær væri að setja skýra stefnu hvað varðar fjölgun íbúða innan tiltekins hverfis“. Í þessu samhengi skuli bent á þá skýru stefnu Kópavogs­bæjar í hverfinu að fjölga íbúum svo þúsundum skipti. Benda megi á byggingu fjölbýlishúsa í stað einbýlishúsa inn á milli eldri húsa í næsta nágrenni við Hraunbraut 14, t.d. Ásbraut 1, Kársnesbraut 21 o.fl. auk yfirstandandi þéttingar á vesturhluta Kársness og við Fossvog. Óskiljanlegt sé að skipulagsnefnd snúi jákvæðu áliti sínu í neikvætt um viðurkenningu einnar stúdíóíbúðar í hverfinu sem full sátt hafi verið um í þau 37 ár sem þar hafi verið búið og feli ekki í sér neinar breytingar fyrir hagsmunaaðila.

Í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé fjallað um grenndarkynningu og hafi umrædd íbúð marg­sinnis farið í grenndarkynningu og alltaf hlotið samþykki allra nágranna.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að kærandi hafi sótt um sömu breytingu og mál þetta snúist um 18. nóvember 2020. Á fundi skipulagsráðs 7. desember s.á. hafi erindi kæranda um að breyta 57,6 m2 rými undir bílskúr í íbúð á eigin fasteignanúmeri verið synjað. Sambærileg umsókn hafi verið lögð inn 11. mars 2021 sem skipulagsráð hafi synjað á fundi 29. s.m.

Kærandi hafi í kjölfarið óskað eftir endurupptöku málsins. Bæjarráð hafi hafnað beiðni um endurupptöku á fundi sínum 16. júní 2021. Til grundvallar þeirri ákvörðun hafi legið umsögn lögfræðideildar Kópavogsbæjar þar sem fram komi að þau fordæmi sem kærandi hafi vísað til væru ekki sambærileg þeirri breytingu sem hann hafi sótt um, að einu tilviki undanskildu, sem samþykkt hafi verið árið 1994. Skipulagsráð hafi ekki talið sig bundið af þeirri afgreiðslu enda um að ræða tæplega þrjátíu ára gamalt fordæmi. Í janúarmánuði árið 2022 hafi enn borist erindi frá kæranda þar sem gerðar hafi verið athugasemdir við málsmeðferð og ákvörðun skipulags­ráðs. Erindi kæranda hafi verið svarað og fyrri sjónarmið og rök ítrekuð, m.a. um að skipulags­ráð teldi varasamt að setja fordæmi um samþykkt íbúðar á þessu svæði án þess að fyrir lægi stefna um fjölgun íbúða í grónum hverfum og án þess að litið væri til þess hvaða heildaráhrif fjölgun íbúða og íbúa myndi hafa á hverfið.

Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 sé Hraunbraut 14 á skilgreindu íbúðasvæði á Kársnesi. Í greinargerð aðalskipulagsins sé fjallað um rammahluta þess en markmið hans sé að útfæra nánari markmið fyrir fimm hverfi, þ.m.t. Kársnes, í takt við meginstefnu aðal­skipulagsins. Markmiðið sé m.a. að viðhalda kostum og sérkennum hverfisins. Samkvæmt aðal­skipulaginu gildi rammaákvæði nr. 1–4 fyrir Hraunbraut 14. Eitt af markmiðunum fyrir Kársnes sé að stuðla að því að draga úr neikvæðum áhrifum umferðar og auka sjálfbærni með vistvænum áherslum. Í aðal­skipulaginu sé miðað við áframhaldandi uppbyggingu á Kársnesi, þó aðallega á vestanverðu nesinu á þróunarsvæði og í Bryggjuhverfinu.

Með hliðsjón af framangreindu og þar sem að um sé að ræða ákvörðun sem veiti skipulags­yfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundinna skipulagsheimilda til að móta og þróa gróin hverfi telji Kópavogsbær að ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja umsókn kæranda byggi á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að umsókn kæranda um byggingarleyfi, dags. 11. nóvember 2022, hafi ekki fengið neina efnislega umfjöllun. Umsókninni hafi verið hafnað með vísan til afgreiðslu skipulagsráðs og bæjarstjórnar rúmu einu og hálfu ári áður. Slík máls­meðferð sé í andstöðu við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga um mannvirki nr. 160/2010. Útgáfa byggingarleyfis sé stjórnvaldsákvörðun sem lúti reglum stjórnsýslulaga, m.a. rannsóknarreglu 10. gr. laganna. Það að vísa einungis til ákvörðunar sem tekin hafi verið einu og hálfu ári áður gangi þvert gegn rannsóknarreglunni. Með umsókn kæranda frá 11. nóvember 2022 hafi fylgt ítarlegur rökstuðningur sem og gögn sem ekki hafi legið fyrir með fyrri umsóknum að öllu leyti, þ. á m. leiðrétting á rangri skráningu fasteignarinnar í fasteignaskrá. Byggingaryfirvöldum í Kópavogi hafi borið að taka efnislega afstöðu til erindisins óháð afgreiðslu þeirra á fyrri umsóknum kæranda. Sérstök ástæða sé til að benda á að í rökstuðningi fyrir höfnun skipulagsráðs og bæjarstjórnar Kópavogs í mars og apríl 2021 hafi sérstaklega verið vísað til þess að verið væri að vinna nýtt aðalskipulag fyrir Kópavogsbæ þar sem m.a. kæmi fram tillaga varðandi möguleika á fjölgun íbúða í þegar byggðum hverfum. Þegar kærandi sendi inn umsókn sína hafði nýtt aðalskipulag fyrir Kópavogsbæ tekið gildi, en það hafi verið staðfest í bæjarstjórn 28. desember 2021. Í ljósi þess hefði verið eðlilegt að erindið fengi umfjöllun og skoðun með hliðsjón af nýju aðalskipulagi, frekari rökstuðningi og nýjum gögnum. Þessu til viðbótar sé afgreiðsla byggingarfulltrúa ekki í samræmi við þá rannsóknarskyldu sem m.a. komi fram í 10.-11. gr. laga nr. 160/2010.

Fasteign kæranda sé á skilgreindu íbúðasvæði skv. Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040. Svæðið hafi ekki verið deiliskipulagt og það sé ekki á skilgreindu þróunarsvæði. Rammaákvæði 1–4 gildi á svæðinu en ekkert þessara ákvæða standi því í vegi að hægt sé að samþykkja umsókn kæranda um byggingarleyfi. Rétt sé að eitt af markmiðum rammahluta aðalskipulagsins sé að viðhalda kostum og sérkennum hverfanna en samtímis sé einnig gert ráð fyrir breytingum og þróun í hverfunum. Kostir og sérkenni Kársness muni á engan hátt breytast við að umsókn kæranda verði samþykkt. í rammahluta aðalskipulagsins segi: „Markmið með fjölgun íbúða í rað-, par- og einbýlishúsahverfum verða sett fram í hverfisáætlunum hvers hverfis fyrir sig (skv. markmiði í kafla 2.1.1.1. í greinargerð þessari). Skoðaðir verða möguleikar á að fjölga íbúðum (séríbúðum og aukaíbúðum) í þegar byggðum hverfum með áherslu á greiningu á reitum þar sem par-, rað- og einbýlishús eru ríkjandi. Ávallt skal meta áform um fjölgun íbúða á grundvelli markmiða og viðmiða sem sett eru í aðalskipulagi þessu, m.a. um gæði byggðar og fjölda bílastæða.“ Í samræmi við meginmarkmið aðalskipulagsins og hverfisáætlanir séu sérstök markmið fyrir Kársnes í rammahluta aðalskipulagsins. Þar komi m.a. fram að ekki sé mælt með að atvinnuhúsnæði á jarðhæðum í hverfiskjörnum verði breytt í íbúðir. Húsnæði kæranda sé ekki atvinnuhúsnæði. Þá sé gert ráð fyrir mikilli fjölgun íbúða á Kársnesi á skipulagstímabilinu og ráðgert að fjölgunin geti verið um 1.400 íbúðir.

Unnið hafi verið að gerð hverfisáætlana fyrir einstök hverfi Kópavogsbæjar allt frá árinu 2014, eða í rúm níu ár, og muni sú vinna nú vera langt komin. Markmið og leiðarljós hverfisáætlana sé m.a. að skoða hvernig auka megi gæði hverfisins, þróa verklagsreglur um hvernig fella megi nýja byggð að eldri byggð í hverfunum, stuðla að fjölbreyttri íbúðarbyggð, verslun og þjónustu og stuðla að vistvænum samgöngumátum. Í drögum að hverfisáætlun fyrir Kársnes sé m.a. fjallað um íbúðaþéttleika á Kársnesinu. Fasteign kæranda sé á svæði sem merkt sé sem K3, en fyrir liggi að þéttleiki íbúða á því svæði sé með því minnsta sem gerist á Kársnesi. Mesti þétt­leikinn sé á svæðum K2 og K4 og viðbúið að þéttleikinn á svæði K1 verði enn meiri þegar uppbyggingu á því svæði verði lokið á komandi árum. Þéttleiki íbúða sé og verði minnstur á svæðum K3 og K5 en stærstu opnu svæði Kópavogsbæjar séu á svæði K5.

Mikil aukning íbúða hafi verið á síðustu árum og sé fyrirhuguð á Kársnesi á komandi árum og í ljósi þess sé röng sú röksemd Kópavogsbæjar að hafna umsókn kæranda um byggingarleyfi sem snúi eingöngu að því að fá samþykkta íbúð í húsnæði sem nýtt hafi verið til íbúðar í hartnær 37 ár í sátt við allt nærumhverfi, hafi verið sérstakur eignarhluti í húsinu frá byggingu þess og sé skráð með sérstakt fasteignanúmer í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, áður Þjóðskrár. Að umsókn kæranda hafi verið hafnað á þeim forsendum „að nær væri að setja skýra stefnu hvað varðar fjölgun íbúða innan tiltekins hverfis“ sé með ólíkindum, enda standi það upp á sveitar­félagið að marka slíka stefnu að svo miklu leyti sem hún sé ekki nú þegar til. Slík stefna hafi þó verið mótuð í nýlegu aðalskipulagi sem tekið hafi gildi í árslok 2021 og í hverfisáætlunum. Umsókn kæranda falli mjög vel að þeirri stefnu.

Þegar erindi kæranda var hafnað hafi verið vísað til 44. gr. skipulagslaga, en sú lagagrein fjalli um grenndarkynningu og standi greinin ekki í vegi fyrir umsókn kæranda um byggingarleyfi. Hins vegar kunni að vera rétt að láta fara fram grenndarkynningu vegna umsóknarinnar og hafi kærandi ekki lagst gegn því. Þá hafi með umsókninni fylgt samþykki annarra íbúðareigenda og lóðarhafa í húsinu svo og í næsta nágrenni. Umrætt íbúðarrými hafi verið nýtt sem íbúð í rúm 37 ár. Að samþykkja umsókn kæranda hafi þannig í raun enga breytingu í för með sér fyrir sveitarfélagið, aðra íbúa hússins eða íbúa í næsta nágrenni.

Það húsnæði sem hér um ræði uppfylli öll þau skilyrði og þær kröfur sem gerðar séu til íbúðar­húsnæðis í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Íbúðin hafi verið tekin út af byggingarfulltrúa Kópavogs, sem hafi staðfest að eignin uppfyllti allar þær almennu kröfur sem gerðar séu til íbúða og fram komi í gr. 6.7. byggingarreglugerðar. Fullnægjandi teikningum og uppdráttum hafi einnig verið skilað til byggingaryfirvalda og hafi aldrei komið fram athugasemdir við innsend gögn.

Kópavogsbær sé bundinn af ákvæðum stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýsluréttar við afgreiðslu á umsókn kæranda. Ekki verði annað séð en að ákvörðun bæjarins gangi gegn jafnræðisreglu 11. gr. laganna og meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Í málinu liggi fyrir fjöldinn allur af fordæmum þar sem byggingaryfirvöld í Kópavogi hafi samþykkt fjölgun íbúða í þegar byggðum hverfum. Allar þær ákvarðanir hafi haft í för með sér fjölgun íbúða á Kársnesinu og varðað þéttleika byggðar. Þær eignir sem nefndar hafi verið hér að framan séu allar á sama reit og fasteign kæranda á Kársnesi og sé viðbúið að finna megi fleiri sambærileg dæmi bæði á Kársnesi og í öðrum þegar byggðum hverfum Kópavogs. Einnig megi velta fyrir sér hvort þessar byggingarleyfisumsóknir hafi haft í för með sér einhver áhrif, t.d. á umferð í hverfinu, en í greinargerð Kópavogs sé m.a. vísað til þess að mikilvægt sé að draga úr neikvæðum áhrifum umferðar á Kársnesi og auka sjálfbærni með vistvænum áherslum.

Í ljósi byggðaþróunar á svæðinu verði ekki séð að nýting kæranda á fasteign sinni sem íbúð fari hvorki í bága við markmið skipulagsyfirvalda um byggðamynstur á svæðinu né ákvæði aðal­skipulags eða hverfisáætlana. Þvert á móti virðist umsóknin falla mjög vel að byggðaþróun, ákvæðum aðalskipulags og hverfisáætlun svæðisins. Benda megi á fordæmi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 60/2000, en í því tilviki var samþykkt íbúð á svæði þar sem bæði aðal- og deiliskipulag hafi gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði sem gæti verið í íbúðabyggð. Í því máli sem hér um ræði sé fasteign kæranda hins vegar á skilgreindu íbúðasvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi.

Þó svo að um matskennda stjórnvaldsákvörðun sé að ræða sé mikilvægt að hafa í huga að sveitarfélagið sé bundið af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og meginreglum stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulaga, m.a. varðandi rannsóknarskyldu, andmælarétt, meðalhóf og jafnræði við meðferð og afgreiðslu á umsókn kæranda. Svigrúm sveitarfélagsins í skjóli lögbundinna skipulagsheimilda takmarkist m.a. af fyrrgreindum ákvæðum. Það eitt að um matskennda ákvörðun sé að ræða þýði ekki að sveitarfélag geti hagað sér að vild við afgreiðslu slíkra umsókna. Ákvörðunin verði að grundvallast á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum. Það hafi ekki verið gert við hina umdeildu afgreiðslu og byggi hin kærða ákvörðun á ólögmætum og ómálefnalegum sjónarmiðum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. nóvember 2022 um að synja umsókn kæranda um leyfi til að breyta rými í kjallara hússins að Hraunbraut 14 í íbúð.

Í fundargerð skipulagsráðs 29. mars 2021 kemur fram að á lóðinni sé steinsteypt þriggja hæða hús með þremur íbúðum og sambyggðum bílskúr, byggt 1968. Þar kemur einnig fram að í erindi kæranda sé óskað eftir að breyta 57,6 m2 rými, staðsettu undir tvöföldum bílskúr á lóðinni, í íbúð á eigin fastanúmeri. Á upphaflegum teikningum að húsinu sé þetta rými merkt sem geymsla en frá árinu 1985 hafi það verið notað sem íbúð. Samþykki meðeiganda og nágranna liggi fyrir. Líkt og fram kom í málavöxtum hafnaði skipulagsráð erindinu og vísaði því til afgreiðslu bæjarstjórnar sem hafnaði erindinu á fundi sínum 13. apríl 2021. Í hinni kærðu ákvörðun var vísað til þessara afgreiðslna og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir höfnun skipulagsráðs, sbr. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem var veittur 19. apríl 2021. Í rökstuðningi bæjaryfirvalda kom fram að skipulagsráð hafi hafnað erindi kæranda á þeim forsendum að nær væri að setja skýra stefnu hvað varðaði fjölgun íbúða innan tiltekins hverfis. Í nýju aðalskipulagi sem væri í vinnslu væri að finna tillögu um að skoða möguleika á fjölgun íbúða í þegar byggðum hverfum með áherslu á greiningu á reitum og fjölgun íbúða yrði metin á grundvelli markmiða og viðmiða sem sett séu í aðalskipulagi, m.a. um gæði byggðar og fjölda bílastæða. Verður að líta svo á að byggingarfulltrúi hafi gert framangreindan rökstuðning að sínum með vísan til afgreiðslu skipulagsráðs við ákvörðun sína frá 25. nóvember 2022 um að synja umsókn kæranda.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skal í rökstuðningi vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Í rökstuðningi Kópavogsbæjar er vísað til þess að nær væri að setja skýra stefnu hvað varðaði fjölgun íbúða innan tiltekins hverfis og í því samhengi vísað til nýs aðalskipulags sem væri í vinnslu. Verður ekki talið að slík almenn tilvísun til framtíðaráforma sveitarfélagsins uppfylli áskilnað 1. málsl. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga um rökstuðning. Hin kærða ákvörðun varðaði erindi kæranda, sem dagsett var 11. nóvember 2022, en nýtt aðalskipulag Kópavogsbæjar tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. desember 2021. Samkvæmt framansögðu var byggingarfulltrúa því ekki rétt að hafna erindi kæranda með vísan til afgreiðslu skipulagsráðs 29. mars 2021 og bæjarstjórnar 13. apríl s.á.

Í hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa var einnig vísað til 44. gr. laga nr. 123/2010, en í þeirri grein er fjallað um grenndarkynningu. Ekki er nánar tiltekið í afgreiðslu byggingar-fulltrúa hvað í 44. gr. mæli gegn því að erindi kæranda fáist samþykkt. Í 1. mgr. 44. gr. segir að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar að undan-genginni grenndarkynningu. Í 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að ef mannvirki er háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skuli hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Hafi byggingarfulltrúi litið svo á að umsókn kæranda gæti farið í bága við gildandi skipulag hefði honum verið rétt að leita umsagnar skipulagsfulltrúa. Það var ekki gert við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og getur afgreiðsla skipulagsráðs frá gildistíð eldra aðalskipulags ekki komið í þess stað.

Með vísan til alls framangreinds var málsmeðferð og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar svo áfátt að fella ber hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. nóvember 2022 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir íbúð á jarðhæð hússins að Hraunbraut 14, Kópavogi.

46/2023 Mjódalsvegur, heitavatnsgeymir

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 27. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 46/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjarvík frá 21. febrúar 2023 um að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi, matshluta nr. 07, á lóð nr. 16 við Mjódalsveg, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 10. apríl 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Mjódalsvegar 6, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. febrúar s.á. að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi, matshluta nr. 7, á lóð nr. 16 við Mjódalsveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. febrúar 2023 tók byggingarfulltrúi fyrir umsókn um leyfi til að reisa hitaveitugeymi, matshluta 7, á lóð nr. 16 við Mjódalsveg. Var umsóknin samþykkt og staðfesti borgarráð afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum 2. mars s.á. með samþykkt á b-hluta fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 1. s.m. Byggingarleyfi var gefið út 29. mars s.á.

Kærandi telur að hinn fyrirhugaði hitaveitugeymir sé ekki í samræmi við skilyrði og heimildir í deiliskipulagi. Samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags hafi borið að gera öryggismön umhverfis miðlunargeymana og ganga frá henni, eða hlutum hennar, samhliða uppbyggingu á lóðinni. Ekki hafi enn verið byrjað á öryggismöninni sem samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins hefði átt að vera tilbúin árið 2008, samhliða byggingu dæluhúss. Byggingarfulltrúa hafi borið að vísa umsókn um byggingarleyfi til skipulagsfulltrúa til umsagnar og vegna bindandi skilmála í deiliskipulagi hafi borið að skilyrða umsókn um byggingarleyfi við það að fyrir lægi samþykkt framkvæmdarleyfi vegna skilyrða um öryggismön. Þá eigi lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda- og áætlana við um leyfi til framkvæmda eins og hér um ræði.

Reykjavíkurborg bendir á að fyrir umrætt svæði sé í gildi deiliskipulag, Hómsheiði-jarðvegslosun, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 4. nóvember 2010 og birt í b-deild stjórnartíðinda 14. desember s.á. Byggingarleyfið sé í samræmi við gildandi deiliskipulag og undirbúningur sé hafinn við að afla framkvæmdaleyfis vegna öryggismanarinnar. Afgreiðsla byggingarfulltrúa byggi á lögum nr. 160/2010 um mannvirki og hafi hann engar heimildir til að gera kröfu um eða samþykkja framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir. Gæta verði meðalhófs, en ógilding byggingarleyfisins eða stöðvun framkvæmda myndi valda byggingarleyfishafa ómældu óþarfa tjóni.

Leyfishafi vísar til þess að útgefið byggingarleyfi sé í samræmi við aðal- og deiliskipulag og hafi málsmeðferðin verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Markmið þess að fjölga hitaveitugeymum á Reynisvatnsheiði sé  að auka afhendingaröryggi á heitu vatni til íbúa höfuðborgarsvæðisins og jafna út sveiflur í rekstri. Mikilvægt sé að geymirinn rísi fyrir haustið 2023 til að draga ekki úr afhendingaröryggi næsta vetur. Farið hafi verið í útboð og samið við verktaka um byggingu geymisins. Því geti hlotist af því fjárhagslegt tjón að þurfa að hætta við eða seinka framkvæmdum. Ekki verði séð að knýjandi nauðsyn sé, með tilliti til hagsmuna kæranda, að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og séu heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Hið kærða byggingarleyfi felur í sér heimild til að reisa hitaveitugeymi á lóð nr. 16 við Mjódalsveg, en á umræddri lóð standa fyrir þrír sambærilegir hitaveitugeymar. Þegar litið er til framangreindra lagaákvæða með tilliti til hagsmuna kæranda, og að um er að ræða afturkvæmar framkvæmdir, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt er að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja framkvæmdir áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða að Mjódalsvegi 16.

30/2023 Laufásvegur

Með

Árið 2023, föstudaginn 31. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 30/2023, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. febrúar 2023 um að samþykkja byggingarleyfisumsókn til að innrétta búsetuúrræði í matshlutum 02 og 03 á lóð nr. 19 við Laufásveg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 26. febrúar 2023, kærir eigandi, Laufásvegi 19, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. febrúar 2023 að samþykkja byggingarleyfisumsókn til að innrétta búsetuúrræði í matshlutum 02 og 03 á lóð nr. 19 við Laufásveg. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 26. febrúar 2023, kæra eigendur, Laufásvegi 19, og eigandi, Laufásvegi 22, sömu ákvörðun með kröfu um ógildingu og stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. Verður það mál, sem er nr. 31/2023, sameinað kærumáli þessu þar sem um sömu ákvörðun er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkrafna kærenda.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. desember 2022 tók byggingarfulltrúi fyrir umsókn um leyfi til að innrétta búsetuúrræði í matshluta 02 og 03 á lóð nr. 19 við Laufásveg. Vísaði byggingarfulltrúi málinu til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Skipulagsfulltrúi samþykkt á fundi sínum 15. s.m. að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Laufásvegi 14, 17, 18, 18a, 19, 20, 22 og 25, Skálholtsstíg 6 Þingholtsstræti 30 og 34. Umsóknin var grenndarkynnt 29. desember 2022 með athugasemdafrest til 30. janúar 2023. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 22. febrúar s.á. var grenndarkynningin samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 16. s.m. og a-liðar 1. gr. í viðauka 1.1. við samþykkt Reykjavíkurborgar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars s.á. var byggingarleyfisumsóknin samþykkt.

Kærendur telja framkvæmdina ólögmæta með öllu. Eignarlóð baki Laufásvegar 19 sé í eigu íbúa að Laufásvegi 19 og hafi þeir hvorki samþykkt framkvæmdirnar né gefið leyfi fyrir búsetu. Kærendur hafi talsverðar áhyggjur af þeim mikla umgangi og ónæði sem hljótist af því að hafa 14–16 manns í bílskúrunum á baklóðinni, sem aldrei hafi verið hugsaðar sem búsetuúrræði. Ákvörðunin muni skerða verulega möguleika íbúanna á að selja íbúðir sínar nema á skertu verði.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að byggingarleyfið hafi verið grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leyfið sé í samræmi við aðalskipulag og hafi málsmeðferðin verið í fullu samræmi við reglur skipulaglaga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og séu heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Hið kærða samþykki byggingarleyfisumsóknar felur í sér heimild til að innrétta búsetuúrræði í matshlutum 02 og 03 á lóð nr. 19 við Laufásveg. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur ekkert byggingarleyfi verið gefið út. Í ljósi framangreindra lagaákvæða og að um er að ræða afturkvæmar framkvæmdir verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni. Verður kröfu kærenda því hafnað.

Rétt er þó að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja framkvæmdir áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á lóð nr. 19 við Laufásveg.

137/2022 Naustavör

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 137/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 2. júlí 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja svalaskýli við íbúð nr. 010406 að Naustavör 48.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. desember 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi íbúðar nr. 01–0407, að Naustavör 50, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 2. júlí 2021 að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja svalaskýli á þakverönd við íbúð nr. 01–0406 að Naustavör 48. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 10. janúar 2023.

Málavextir: Hinn 2. júlí 2021 samþykkti byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar umsókn um byggingarleyfi fyrir svalaskýli á þakverönd við íbúð merkt 01–0406 að Naustavör 48. Fyrir liggur að á byggingartímanum var byggingarlýsingu hússins breytt nokkrum sinnum. Var m.a. sótt um stækkun íbúðar og svalarýmis við íbúðir á 4. hæð að Naustavör 48, uppsetningu svalaskjóls og svalaskýlis við íbúðir að Naustavör 44–50.

Forsaga málsins er sú að á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 3. febrúar 2020 var lögð fram tillaga f.h. lóðarhafa Naustavarar 44–50 að breytingu á deiliskipulagi bryggjuhverfis við Kársnes. Tillagan fól í sér stækkun íbúðar á 4. hæð að Naustavör 48, merkt 01-0407, og stækkun þaksvala sömu íbúðar til austurs. Var tillagan samþykkt á fundi skipulagsráðs 11. febrúar s.á. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. apríl s.á.

Byggingarfélag Gunnars og Gylfa sótti um byggingarleyfi fyrir stækkun íbúðar á 4. hæð að Naustavör 48, merkt 01–0406, og stækkun þaksvala sömu íbúðar 24. apríl 2020. Var umsóknin samþykkt 29. maí s.á. Eigendur þeirrar íbúðar sóttu um byggingarleyfi fyrir glerskýli með glerþaki á þaksvölum íbúðarinnar 11. maí 2021. Sama dag sótti hönnuður hússins um breytingu á byggingarlýsingu Naustavarar 44–50, á þann veg að gert yrði ráð fyrir glerskýldu sólskýli með léttu þaki á hluta íbúðar merkt 01–0406. Fram kemur í byggingarlýsingunni að svalaskýlið sé ekki skilgreint sem lokað rými þar sem útiloft getur leikið um rýmið óhindrað. Var byggingarlýsingin og byggingarleyfið vegna svalaskýlisins samþykkt af byggingarfulltrúa 2. júlí 2021.

 Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi keypt fasteign sína að Naustavör 50 í nóvember 2020. Við undirritun kaupsamnings, dags. 16. desember 2020, hafi legið fyrir öll helstu skjöl vegna fasteignarinnar, s.s. eignaskiptasamningur vegna Naustavarar 44–50. Í kaupsamningi hafi einungis verið fyrirvari um breytingar vegna tæknilegra útfærslna.

Kæranda hafi fyrst verið kunnugt um að byggt hafi verið sólskýli við íbúð 01–0406 að Naustavör 48 þegar hann hafi komið heim úr sumarleyfi sumarið 2022. Við nánari athugun hafi hann komist að því að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar hafði samþykkt breytingu á fasteigninni 2. júlí 2021, án sinnar vitundar. Hafi breytingin því aldrei verið borin undir aðra eigendur í húsinu. Um sé að ræða verulega útlitsbreytingu á fasteigninni auk þess sem breytingin hafi orðið til skerðingar á útsýni frá íbúð hans.

Hinn 13. maí 2022, um leið og kæranda hafi orðið þetta ljóst, hafi hann sent fyrirspurn til Kópavogsbæjar og óskað eftir gögnum frá byggingarfulltrúa vegna sólskýlisins. Þau gögn hafi borist með tölvupósti 9. nóvember s.á. og hafi kæranda þá fyrst verið unnt að kæra málið til úrskurðarnefndarinnar.

Leyfi til byggingar umþrætts sólskýlis hafi falið í sér breytingu á ásýnd húseignarinnar og hafi því verið háð samþykki allra eigenda, eða a.m.k. þeirra sem bygging sólskýlisins hafi áhrif á. Þar sem ekki hafi verið leitað eftir því beri að fella byggingarleyfið úr gildi.

 Málsrök Kópavogsbæjar: Rakin er forsaga málsins og m.a. vísað til þess að arkitekt og hönnuður hússins að Naustavör 44–50 hafi sótt um breytingu á byggingarlýsingu, dags. 16. október 2018. Var í umsókninni óskað samþykkis fyrir því að kaupendur íbúða gætu sett upp svalaskjól úr hertu 8 mm opnanlegu gleri, Lumon (CCME vottaðar svalalokanir) eða sambærilegu kerfi á svalir garðmegin. Ekki skyldi setja svalaskjól á svalir á norðurhlið né austurhlið, nema horníbúðir sjávarmegin á norðausturhorni hússins. Hafi umsóknin verið samþykkt af byggingarfulltrúa 29. maí 2020. Þá hafi þessar breytingar á byggingarlýsingu verið á fokheldisvottorði hússins sem gefið hafi verið út 20. október 2020.

Þegar kærandi hafi fest kaup á íbúð sinni hafi verið fyrirvari í kaupsamningi um að seljendur áskildu sér rétt til að láta breyta teikningum hússins á byggingartímanum í samráði við arkitekt og hönnuði hússins. Þá hafi einnig komið fram að húsið að Naustavör 44–50 væri enn á byggingarstigi og að hann sem kaupandi hafi kynnt sér teikningar gaumgæfilega og gerði engar athugasemdir við þær. Hafi lokaúttekt hússins farið fram 10. mars 2022 og í kjölfarið hafi byggingarfulltrúi gefið út lokavottorð 17. mars s.á.

Naustavör 44–50 sé innan deiliskipulags bryggjuhverfis á Kársnesi sem hafi tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 27. apríl 2005. Í greinargerð með skipulaginu, kafla 2.6., sé fjallað um almenn atriði um utanhússhönnun bygginga á svæðinu, þ.m.t. Naustavarar 48–50. Þar segi að þegar tvö eða fleiri stigahús séu í sömu byggingu skuli varast að líta á hana sem eina heild, en heldur skuli líta á hvert stigahús sem augljósa einingu. Þá komi m.a. fram að svalir og útistandandi gluggar geti verið utan byggingarreita og einnig yfir gangstígum utan lóðar, sé hæð undir það minnst 2,8 m.

Með breytingu á deiliskipulagi fyrir Naustavör 44–50, sem samþykkt hafi verið á fundi skipulagsráðs 3. febrúar 2020 og síðar á fundi bæjarstjórnar 11. febrúar s.á., hafi þaksvalir íbúðar á 4. hæð að Naustavör 48 verið stækkaðar til austurs. Í framhaldi af samþykkt byggingarfulltrúa á byggingarlýsingu fyrir íbúðina, dags. 2. júlí 2021, hafi verið heimilt að samþykkja byggingarleyfi fyrir glerskýli íbúðarinnar. Hafi það verið mat byggingarfulltrúa að glerskýlið rúmaðist innan samþykktrar teikningar fjölbýlishússins í skilningi 1. mgr. 29. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Af eðli máls og framangreindum sjónarmiðum leiði að nýting umþrættrar byggingarheimildar íbúðar á 4. hæð að Naustavör 48 sé ekki háð samþykki sameigenda skv. 2. mgr. 28. gr. laga um fjöleignarhús og hafi því byggingarleyfishafa verið heimilt að uppfylltum þeim ákvæðum að ráðast í framkvæmdir að fengnu byggingarleyfi, sbr. 1. mgr. 29. gr. sömu laga.

Ákvörðun byggingarfulltrúa frá 2. júlí 2021 hafi samrýmst lögum nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. III. kafla laganna og kafla 4.2. og 4.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2010. Séu því engin skilyrði til að fallast á kröfu kæranda að lögum.

 Loks er bent á að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. júlí 2021. Kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni 6. desember 2022 og hafi þá verið liðnir 17 mánuðir frá upphafi kærufrests. Hafi kærufrestur því verið löngu liðinn og vísa beri kröfunni frá sbr. 27. gr. og 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá sé skv. 2. mgr. 28. gr. sömu laga óheimilt að sinna kæru sé meira en ár liðið frá töku ákvörðunar.

 Málsrök leyfishafa: Vísað er til þess að kæranda hafi verið ljóst að byggingarfulltrúi hafi gefið út umþrætt byggingarleyfi 2. júlí 2021. Hafnað sé skýringum kæranda um að miða skuli kærufrest við 9. nóvember 2022. Sé það í ósamræmi við gögn málsins og ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í samþykkt byggingarfulltrúa frá 2. júlí 2021 sé sérstaklega tekið fram að umsóknin samrýmist lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Hafi því umsækjendur verið í góðri trú um að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar hafi gætt þeirra laga- og reglugerðarákvæða, sem um framkvæmdina gildi.

Í þeim bakhluta íbúðar kæranda sem vísað sé til að útsýni skerðist séu þrjú svefnherbergi með litlum gluggum. Sé því um að ræða litla eða enga útsýnisskerðingu. Í þeim hluta íbúðar kæranda sem snúi í austur sé stofan og svalir og sjáist svalaskýlið ekki þaðan. Því verði að líta svo á að svalaskýlið skerði hagsmuni kæranda óverulega eða ekkert.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda eru ítrekuð sjónarmið um kærurétt, en beiðni hans um upplýsingar hafi ekki verið svarað af Kópavogsbæ fyrr en 9. nóvember 2022 og þá fyrst hafi honum verið mögulegt að kæra málsmeðferð bæjarins í máli þessu. Þá eru áréttaðar athugasemdir að kaupendur íbúðanna, þar á meðal kærandi, hafi einungis undirritað samþykki fyrir því að breytingar yrðu gerðar á tæknilegum útfærslum. Bygging svalaskýlis geti ekki talist til tæknilegra breytinga, heldur til breytingar á séreignarhluta íbúðar, sem hafi veruleg áhrif á útsýni kæranda úr íbúð sinni. Þegar kærandi gerði kaupsamning hafi legið fyrir að svalir fylgdu íbúð merktri 01–0406, en það sé eðli máls allt annað en svalaskýli.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogs frá 2. júlí 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja svalaskýli við íbúð merktri 01–0406 að Naustavör 48. Þá er einnig deilt um þýðingu yfirlýsingar í kaupsamningi um eignina og hvort kæra hafi borist úrskurðarnefndinni innan lögbundins kærufrests. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að.

Í kæru greinir frá því að kæranda hafi fyrst verið kunnugt um framkvæmdir við svalaskýlið þegar hann kom heim úr sumarleyfi sumarið 2022 og komst þá að því að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar hafði samþykkt byggingarleyfi til breytingar á fasteigninni 2. júlí 2021. Verður að ætla af þessu að framkvæmdir hafi ekki hafist við mannvirkið fyrr en þá um vorið, en staðhæfing kæranda um þetta rekst ekki á við umsagnir Kópavogsbæjar og leyfishafa. Kærandi sendi án tafar fyrirspurn 13. maí 2022 til Kópavogsbæjar og óskaði eftir gögnum frá byggingarfulltrúa. Umrædd gögn bárust honum ekki fyrr en með tölvupósti 9. nóvember s.á. Verður af þeim sökum að telja afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, og verður málið því tekið til efnismeðferðar. 

Í 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er fjallað um útgáfu byggingarleyfis. Þar kemur fram í 1. tl. að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis sé að mannvirkið og notkun samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið frá 27. apríl 2005 kemur fram í grein 2.6 að þegar tvö eða fleiri stigahús séu í sömu byggingu skuli varast að líta á hana sem eina heild, en heldur skuli líta á hvert stigahús sem augljósa einingu. Þá kemur m.a. fram að svalir og útistandandi gluggar geti verið utan byggingarreita og einnig yfir gangstígum utan lóðar, sé hæð undir það minnst 2,8 m. Ekki er fjallað um gerð svalaskýla í umræddu deiliskipulagi.

Verktaki sá sem byggði húsið að Naustavör 44–50 sótti um breytingu á deiliskipulagi þess, 3. febrúar 2020, sem fól í sér stækkun á íbúð á 4. hæð, merkt 01–0407, að Naustavör 48 og stækkun þaksvala sömu íbúðar til austurs. Var tillagan samþykkt 11. febrúar s.á. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. apríl s.á. Í deiliskipulagsbreytingunni var því eingöngu gert ráð fyrir framangreindum breytingum á íbúð merktri 01–0407, en ekki var getið um eða sýnt að gert væri ráð fyrir svalaskýli. Í framhaldi sótti verktakinn um byggingarleyfi fyrir stækkun íbúðar og þaksvala í sama stigahúsi og á sömu hæð, merktri 01–0406, sem er sú íbúð þar sem búið er að reisa hið umþrætta svalaskýli. Var umsóknin samþykkt á fundi byggingarfulltrúa 29. maí s.á.

Samkvæmt 8. tl. 5. gr. laga um fjöleignarhús er innra byrði svalaveggja og gólfflötur svala hluti af séreign í fjöleignarhúsi. Hins vegar kemur þar einnig fram að húsfélag hafi ákvörðunarvald um allar breytingar, búnað og annað á svölum sem áhrif hafi á útlit hússins og heildarmynd. Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er kveðið á um hvað skuli fylgja með umsókn um byggingarleyfi. Þar segir að í fjöleignarhúsum þurfi að liggja fyrir samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús. Þá kemur einnig fram í 1. mgr. 30. gr. sömu laga að sé um byggingu, endurbætur eða framkvæmdir að ræða sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu verði ekki í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, ef um sé að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins. Í 2. mgr. er kveðið á um að sé um að ræða framkvæmdir sem hafi í för með sér breytingar á sameign, utan húss eða innan, sem þó geti ekki talist verulegar, þá nægi að 2/3 hlutar eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, séu því meðmæltir.

Eins og að framan greinir var það mat byggingarfulltrúa að glerskýlið rúmaðist innan samþykktrar teikningar fjölbýlishússins í skilningi 1. mgr. 29. gr. laga nr. 26/1994 og sé ekki háð samþykki sameigenda skv. 2. mgr. 28. gr. sömu laga. Það liggur fyrir að arkitekt hússins að Naustavör 44–50 sótti um breytingu á byggingarlýsingu 16. október 2018. Var í umsókninni óskað samþykkis fyrir því að kaupendur íbúða gætu sett upp svalaskjól úr hertu 8 mm gleri. Var breytingin samþykkt af byggingarfulltrúa 29. maí 2020. Fokheldisvottorð fyrir Naustavör 44–50 var gefið út 20. október 2020 og voru breytingarnar á byggingarlýsingu hússins dagsettar í umræddu vottorði.

Eigandi íbúðar á 4. hæð að Naustavör 48, merkt 01–0406, sótti um byggingarleyfi fyrir glerskýli með glerþaki á þaksvalir íbúðarinnar 11. maí 2021. Sama dag sótti hönnuður hússins um breytingu á byggingarlýsingu Naustavarar 44–50, á þann veg að gert væri ráð fyrir glerskýldu sólskýli með léttu þaki á hluta þaksvala íbúðar á 4. hæð að Naustavör 48, merkt 01–0406. Fram kemur í byggingarlýsingunni að svalaskýlið sé ekki skilgreint sem lokað rými þar sem útiloft geti leikið um rýmið óhindrað. Byggingarfulltrúi samþykkti umbeðnar breytingar byggingarlýsingar á íbúðinni 2. júlí. 2022.

Þegar nýbygging eins og um ræðir í máli þessu verður fokheld skal eignarskiptayfirlýsing liggja fyrir og þinglýst sbr. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 26/1994. Í eignaskiptayfirlýsingu skal koma fram hvort séreignarhluta fylgi annars sérstakur réttur til byggingar ofan á eða við hús eða á lóð þess sbr. 6. tl. 17. gr. sömu laga.

Í deiliskipulagi bryggjuhverfis við Kársnes frá 2005, er fjallað um svalir og útistandandi glugga. Deiliskipulagið girðir ekki fyrir byggingu sólskýlis á þaki, innan byggingarreits. Stóð deiliskipulag því ekki í vegi fyrir þeim breytingum á byggingarlýsingu íbúðarinnar á 4. hæð að Naustavör 48, sem um er deilt í máli þessu.

Vegna sjónarmiða sem hafa komið fram í málinu verður að benda á að ágreiningur um gildi og innihald fyrirvara í kaupsamningi verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni. Slíkur ágreiningur á eftir atvikum undir lög um fjöleignarhús eða dómstóla.

Með vísan til framangreinds verður hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 2. júlí 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja svalaskýli við íbúð merkt 01–0406 að Naustavör 48 látin óröskuð.

Úrskurðarorð:

 Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 2. júlí 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja svalaskýli við íbúð merkt 01–0406 að Naustavör 48, er óröskuð.