Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

75/2023 Reynimelur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2023 um synjun umsóknar um að rjúfa og fjarlægja hluta af steyptu grindverki á lóðarmörkum að Hofsvallagötu og gera tvö bílastæði fyrir parhús á lóð nr. 55 við Reynimel.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. júní 2023, er barst nefndinni 26. s.m., kæra eigendur Reynimels 55, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2023 að synja umsókn um að rjúfa og fjarlægja hluta af steyptu grind­verki á lóðarmörkum að Hofsvallagötu og gera tvö bílastæði fyrir parhús á lóð nr. 55 við Reynimel. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. júlí 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 7. mars 2023, var tekin fyrir umsókn kærenda, dags. 17. febrúar s.á., þar sem sótt var um leyfi til að rjúfa og fjarlægja hluta af steyptu grindverki á lóðarmörkum að Hofsvallagötu og gera tvö bílastæði á lóð nr. 55 við Reynimel. Málinu var frestað og vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn hans, dags. 18. apríl s.á., kom fram að „[þ]ótt að bílastæði séu sýnd á uppdrætti í gildandi deiliskipulagi, og einnig sögð heimil skv. skilmálatöflu fyrir lóðina, þá teljast ákvæði deiliskipulags um varð­veislu garðveggja og að óæskilegt sé að gera nýjar innkeyrslur á grónar lóðir hafa hærra lagalegt vægi“. Var því ekki fallist á erindið af hálfu skipulagsfulltrúa. Í kjölfarið var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. maí s.á. og því synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að í deiliskipulagi staðgreinireits 1.540, Melar norðan Hagamels, séu gefnar heimildir fyrir hóflegum viðbyggingum og breytingum á húsum. Í greinargerð skipulagsins, í kafla um geymslur, bílastæði og vinnustofur, komi fram að almennt sé óheimilt að gera nýjar innkeyrslur á grónar lóðir og því sé heimild til að byggja bílageymslur á lóð einskorðuð við þær lóðir þar sem innkeyrsla eða bílastæði hafi verið í notkun miðað við úttekt haustið 2009. Í sérskilmálum skipulagsins megi sjá að þessum áherslum sé fylgt hvað varði þær götur þar sem húsaraðir með samræmdum framhliðum snúi að götu­rýmunum og samræmt yfirbragð sé á inngöngum, tröppum og steyptum garðveggjum.

Markmiðið um að ekki megi gera nýjar innkeyrslur á lóðir eigi hins vegar ekki við um innkeyrslur frá Hofsvallagötu og Furumel. Í kafla deiliskipulagsins um bílastæði sé tekið fram að heimilt sé að gera ný stæði við bílageymslur við Hofsvallagötu og Furumel þar sem þau séu merkt á uppdrætti. Þannig séu afmarkaðir byggingarreitir fyrir nýjar bílageymslur og bílastæði með aðkomu frá Hofsvallagötu á lóðunum Grenimel 37, Reynimel 55, Víðimel 53 og 56 og Hringbraut 77, sem og á fjórum lóðum sem liggi að Furumel. Einnig komi fram í sérskilmálum deiliskipulagsins fyrir Reynimel 55 að heimilt sé að byggja tvöfalda bílageymslu/geymslu eða vinnustofu á byggingarreit samkvæmt skilmálum og sé hámarksstærð byggingar 45 m2.

Engar framhliðar húsa með samræmt yfirbragð snúi að Hofsvallagötu eða Furumel, þannig að nýjar innkeyrslur við þær götur séu inn á baklóðir þeirra húsa sem liggi að þeim, sem sé í samræmi við það sem fram komi í greinargerð skipulagsins um að leitast skuli við að skapa eðlilegt svigrúm til stækkunar og breytinga húsa á þeim svæðum sem snúi að garðrýmum. Girðingar og garðveggir við Hofsvallagötu séu með ýmsu sniði og það að stytta einn illa farinn vegg um nokkra metra muni ekki hafa nein áhrif á yfirbragð götunnar. Þá megi benda á að nýlega hafi garðveggur verið rofinn frá Furumel inn á lóðina Víðimel 29. Sú breyting sé í samræmi við þær breytingar sem sótt hafi verið um vegna Reynimels 55.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að byggingarfulltrúi hafi leitað umsagnar skipulagsfulltrúa vegna umsóknar kærenda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, þar sem vafi þótti leika á um hvort fyrirhuguð framkvæmd samræmdist deiliskipulagi svæðisins. Í kjölfar neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa hafi byggingarfulltrúi synjað umsókn kærenda, enda skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010. Niðurstaða í umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið að ekki væri unnt að fallast á erindið þar sem ekki sé heimild í deiliskipulagi til að rjúfa garðveggi og gera nýjar innkeyrslur. Ótvírætt sé að deiliskipulagið kveði á um að æskilegt sé að varðveita steypta garðveggi sem setji svip sinn á heildarmynd svæðisins. Heimildum í deiliskipulagi til að útbúa ný bílastæði á grónum lóðum séu settar þröngar skorður.

Þar sem umsótt framkvæmd kærenda hafi falið í sér að rjúfa steyptan garðvegg í því skyni að koma fyrir nýju bílastæði á lóðinni og með tilliti til þess að enginn bílageymsla né innkeyrsla eða bílastæði sé fyrir á lóðinni þyki niðurstaða skipulagsfulltrúa sem fram hafi komið í umsögn hans standast skoðun. Að teknu tilliti til þeirrar umsagnar hafi byggingarfulltrúi ekki átt þess annan kost en að synja umsókn kærenda á þeim forsendum að fyrirhuguð framkvæmd samræmdist ekki skipulagsáætlunum á svæðinu.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Bent er á að ekki hefði verið sótt um innkeyrslu eða bíla­stæði ef slíkt væri fyrir á lóðinni. Þrátt fyrir að deiliskipulag svæðisins feli í sér að vernda beri ásýnd húsaraðanna að framanverðu hafi borgaryfirvöld staðið fyrir umtalsverðum nánar til­teknum ásýndarbreytingum við Hofsvallagötu.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Hin kærða ákvörðun í máli þessu var tilkynnt kærendum með bréfi, dags. 10. maí 2023, en ákvörðuninni fylgdu ekki leiðbeiningar um kæruheimild í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Óskað var eftir rökstuðningi vegna tiltekinna atriða af hálfu kærenda með tölvubréfi, dags. 11. s.m., og var sú beiðni ítrekuð í nokkur skipti þar til rökstuðningur barst 7. júní s.á. Með þeim rökstuðningi fylgdi bréf, dags. 25. maí s.á., þar sem leiðbeint var um kæruheimild og -frest til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Óskaði fulltrúi kærenda í kjölfarið eftir því að kærufrestur yrði framlengdur með tölvubréfi, dags. 8. júní s.á., og fékk hann þau svör frá borgaryfirvöldum að kærufrestur yrði framlengdur til 7. júlí s.á. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 26. júní s.á.

Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. laga nr. 37/1993 hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur fyrir kærðri ákvörðun hefur verið tilkynntur aðila máls. Byrjaði kærufrestur því ekki að líða fyrr en 8. júní 2023, þegar kærendum var veittur rökstuðningur, og barst kæra í máli þessu því innan kæru­frests. Rétt þykir að vekja athygli á að stjórnvald skal svara beiðni um rökstuðning innan 14 daga frá því að beiðni þess efnis barst, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 37/1993, og að lægra sett stjórnvald hafi ekki heimild að lögum til að víkja frá eða framlengja lögákveðinn kærufrest til æðra stjórnvalds, sbr. 6. mgr. 27. gr. laganna.

Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á veitingu leyfis til að brjóta niður hluta garðveggjar og gera bílastæði á lóðinni Reynimel 55 með aðkomu frá Hofsvalla­götu. Reynimelur 55 stendur á horni Reynimels og Hofsvallagötu og snýr framhlið hússins í norður að Reynimel, en vesturhlið lóðarinnar er afmörkuð með steyptum garðvegg. Á svæðinu er í gildi deiliskipulag staðgreinireits 1.540, Melar, norðan Hagamels. Deiliskipulagið skiptist í skipulagsuppdrátt, almenna skilmála fyrir skipulagssvæðið og sérskilmála fyrir einstaka lóðir.

Í upphafi almennra skilmála er m.a. tekið fram að huga þurfi að varðveislu og endurgerð steyptra garðveggja, innkeyrslna og bílastæða sem kunna að skipta máli fyrir heildarmynd svæðisins. Í hinum almennu skilmálum er að finna kafla um steypta garðveggi, garðveggi og bílastæði, en auk þess er þar sérstakur kafli um geymslur, bílageymslur og vinnustofur. Ekki var sótt um að byggja geymslu, bílageymslu eða vinnustofu og reynir því ekki á síðastnefnda kafla almennu skilmálanna í máli þessu. Í kafla um steypta garðveggi segir að „[s]teyptir garð­veggir og tröppur setja mikinn svip á hverfið. Þetta á einkum við þar sem hús standa sunnan megin götu en þar tengjast oft tröppur, veggir og skyggni og mynda fallega heild. Sjá kafla um viðhald steyptra veggja“. Ekki er að finna kafla í deiliskipulaginu sem ber heitið „viðhald steyptra veggja“ en ætla verður að með því sé vísað til kaflans um garðveggi. Í þeim kafla deiliskipulagsins kemur fram: „Æskilegt er að tröppur, veggir og skyggni fái viðhald og að þeir veggir sem hafa verið málaðir ofan á steiningu verði aftur færðir í upprunalegt horf. Einnig að steyptir verði nýir veggir þar sem veggir hafa verið fjarlægðir. Hæð nýrra veggja skal vera a.m.k. 1,2 m. Timburveggir og girðingar komi ekki í stað steyptra veggja. Víða eru og voru járnhlið við göngustíga og innkeyrslur. Mælst er til þess að þau verði endurnýjuð á uppruna­legan hátt, þannig að þau eigi sinn þátt í að styrkja götumyndina ásamt garðveggjum og tröppum“. Í kaflanum um bílastæði er tekið fram að við gerð deiliskipulagsins hafi verið leitast við að fjölga ekki bílastæðum á kostnað lóða eða garðveggja. Almennt sé því ekki gert ráð fyrir nýjum stæðum á lóðum, en heimilt sé að gera ný stæði við bílageymslur við Hofsvallagötu og Furumel þar sem þau séu merkt á uppdrætti. Ekki sé heimilt að gera bílastæði á lóðum á öðrum stöðum.

Í sérskilmálum fyrir Reynimel 55 kemur fram að heimilt sé að byggja tvöfalda bílageymslu, geymslu eða vinnustofu á byggingarreit samkvæmt skilmálunum. Hámarksstærð byggingar sé 45 m2. Heimilt sé að nýta allt að helming „viðbyggingarreits“ og hækka þak samkvæmt skilmálum. Heimilt sé að gera tvö bílastæði. Á deiliskipulagsuppdrætti eru merkingar annars vegar fyrir tvö bílastæði á lóðinni Reynimel 55 og hins vegar tvær merkingar fyrir innkeyrslur á lóðina. Umsókn kærenda um byggingarleyfi er í samræmi við deiliskipulagsuppdrátt hvað varðar staðsetningu bæði bílastæðanna og hinnar tvöföldu innkeyrslu. Eru bílastæðin á lóðinni merkt með nP merkingu, sem samkvæmt skýringum við deiliskipulagið þýðir: „Heimild fyrir nýju bílastæði á lóð – staðsetning bindandi“.

Verður að telja ómögulegt að gera innkeyrslu og bílastæði, á þeim stað sem skipulagsuppdráttur mælir fyrir um, án þess að brjóta niður garðvegg á þeim sama stað, enda var garðveggurinn til staðar þegar heimild til að gera innkeyrslu á lóðinni var sett inn í deiliskipulag. Þrátt fyrir almenna skilmála um að óæskilegt sé að gerðar séu nýjar innkeyrslur á grónar lóðir og um varðveislu garðveggja geta almennir skilmálar ekki vikið sérskilmálum einstakra lóða til hliðar, sé ósamræmi þar á milli, enda myndi það leiða til þess að sérskilmálar væru með öllu merkingarlausir. Á þetta sérstaklega við í máli þessu þar sem heimildir vegna Reynimels 55 í sérskilmálum deiliskipulagsins eru mjög skýrar hvað þetta varðar.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar svo áfátt að fella beri hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. maí 2023 um synjun umsóknar um að rjúfa og fjarlægja hluta af steyptu grindverki á lóðarmörkum að Hofsvallagötu og gera tvö bílastæði fyrir parhús á lóð nr. 55 við Reynimel.

59/2023 Drangahraun

Með

Árið 2023, föstudaginn 18. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. apríl 2023 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði að Drangahrauni 3, matshluta 02.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. maí 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir G.P. Kranar ehf., lóðarleiguhafi Skútahrauns 2a, þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. apríl 2023 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir stað­steyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði að Drangahrauni 3, matshluta 02. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 1. júní 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 11. maí 2023.

Málavextir: Kærandi er lóðarleiguhafi að lóðinni Skútahrauni 2a. Árið 2008 tók gildi deili­skipulag Drangahrauns – Skútahrauns og kemur fram í greinargerð þess um lóðina Skútahraun 2a að kvöð sé um „að bílastæði fyrir kjallara (neðstu hæð) húsa við nr. 3 og 5 við Drangahraun (hámarksflatarmál 2000 m2) verði á lóð Skútahrauns 2a og að fjöldi þeirra verði skv. byggingar­reglugerð“ auk þess sem á skipulagsuppdrætti kemur fram að kvöð sé um umferð að kjallara Drangahrauns 3 og 5. Í skilmálum skipulagsins um lóðirnar  Drangahraun 3 og 5 kemur fram að „[n]yrst á lóðunum sé gert ráð fyrir kjöllurum sem aðeins hafa aðkomu frá Skútahrauni […]. Hámarksvegghæð er 6 m frá Drangahrauni og hámarksmænishæð 7,5 m á þeim hluta sem snýr að Skútahrauni 2 og 2a. Bílastæði fyrir kjallarana skulu vera á lóð Skútahrauns 2A og fjöldi þeirra skv. byggingarreglugerð.“ Þá er í greinargerð skipulagsins að finna almenna skilmála þess efnis að athafnasvæði innan lóða skuli vera í samræmi við starfsemi í húsunum og þess gætt að ferming og afferming flutningstækja geti farið fram innan lóða. Í almennum skilmálum skipulagsins kemur jafnframt fram að fjöldi bílastæða á lóð skuli vera í samræmi við 64. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 með síðari breytingum, þ.e. eitt bíla­stæði fyrir hverja 35 m2 verslunar- og skrifstofuhúsnæðis og eitt bílastæði fyrir hverja 50 m2 af öðru húsnæði.

Hinn 23. nóvember 2022 sótti Virki ehf., lóðarleiguhafi Drangahrauns 3, um leyfi fyrir stað­steyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 5. apríl 2023 var umsóknin samþykkt.

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni kom kærandi áleiðis þeim ábendingum að framkvæmdir væru hafnar á lóðinni. Óskaði úrskurðarnefndin af því tilefni eftir upplýsingum frá Hafnarfjarðarkaupstað um hvort byggingarleyfi hefði verið gefið út og í svari sveitar­félagsins, dags. 25. maí 2023, kom fram að svo hafi ekki verið gert. Lagði kærandi þá fram myndir með tölvubréfi, dags. 31. maí 2023, sem sýndu framkvæmdir á hinu umrædda svæði. Kærandi sendi byggingarfulltrúa bréf, dags. 6. júní s.á., og vakti athygli á framkvæmdunum. Byggingarfulltrúi fór fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar þann sama dag.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verði byggingaráform aðeins samþykkt sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Þá leiði af 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. sömu laga að byggingarleyfi verði ekki gefið út nema mannvirkið og notkun þess samræmist gildandi skipulagsáætlunum. Hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við fyrirliggjandi deili­skipulag svæðisins og beri því að fella það úr gildi.

Samkvæmt deiliskipulagi Drangahrauns – Skútahrauns hvíli tvær kvaðir á lóð kæranda. Í dóma- og úrskurðarframkvæmd hafi verið gerðar töluverðar kröfur til skipulagskvaða af þessu tagi og m.a. lagt til grundvallar að ekki sé hægt að stofna til umferðarréttar með deiliskipulagi nema að fengnu samþykki eiganda eða á grundvelli eignarnáms, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar í málum nr. 118/2009 og 781/2016 og úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 67/2015. Þá hafi verið lagt til grundvallar að náist ekki samningar eða séu skilyrði eignarnáms ekki talin vera fyrir hendi geti það leitt til þess að skipulagskvöð í skipulagi verði ekki virk, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 26/2018.

Inntak beggja kvaðanna sé verulega óljóst samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Það eina sem fram komi um umferðarkvöðina í deiliskipulaginu sé texti á skipulagsuppdrætti. Liggi þannig ekkert fyrir um inntak ætlaðs umferðarréttar, svo sem hver skuli vera breidd, lega eða lengd þeirrar aðkomu sem kvöðin mæli fyrir um. Kvöðin skeri sig frá sambærilegri kvöð á lóð Skútahrauns 2 sem útfærð sé með nánari hætti í deiliskipulaginu. Að sama skapi sé inntak kvaðarinnar varðandi bílastæðin verulega óljóst og ekkert sé fjallað um hvar bílastæðin skuli vera staðsett innan lóðar kæranda. Önnur gögn bæti ekki úr þessum óskýrleika og liggi ekki fyrir samkomulag við kæranda um kvaðirnar. Í fyrirliggjandi lóðarleigusamningi sé þannig ekki mælt fyrir um kvaðirnar heldur aðeins kveðið á um kvaðir fyrir aðkomu fyrir lóðirnar Skútahraun 2 og 2a og kostnaðarskiptingu vegna þessa. Það hafi því komið kæranda verulega á óvart hvernig kvaðirnar hafi verið útfærðar í þeim gögnum sem lögð hafi verið fram með byggingarleyfisumsókn lóðarhafa. Á meðal gagna sem fylgt hafi umsókninni hafi verið afstöðumynd sem sýnt hafi m.a. aðkomu að mannvirkinu og bílastæði, sbr. gr. 4.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Öfugt við deiliskipulagið hafi verið búið að teikna inn bílastæði á lóð kæranda og tilgreina fjölda þeirra.

Þær kvaðir sem komið hafi fram í skipulaginu frá 2008 geti ekki skapað óbein eignarréttindi til handa lóðarhafa aðliggjandi lóðar án samþykkis kæranda. Þar sem slíkt samþykki liggi ekki fyrir hafi Hafnarfjarðarkaupstað verið óheimilt að samþykkja byggingarleyfi á grundvelli aðaluppdrátta sem mæli fyrir um umferðarrétt á lóð kæranda og bílastæði inn á lóð hans. Í öllu falli telji kærandi einsýnt að hið kærða byggingarleyfi og þau gögn sem liggi því til grundvallar fari langt fram úr heimildum deiliskipulagsins enda liggi fyrir að kvöðunum sé þar gefið allt annað inntak en leiða megi af fyrirmælum deiliskipulagsins. Byggingarleyfið sé því ekki í sam­ræmi við fyrirliggjandi skipulagsáætlanir og því í andstöðu við 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi skuli öll ferming og afferming flutningstækja fara fram innan lóðar. Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að ætlun lóðarhafa standi til þess að hafa geymslur í þeim hluta mannvirkisins sem snúi að Skútahrauni 2a. Í ljósi nálægðar mann­virkisins við lóðarmörk Skútahrauns 2a sé vandséð hvernig lóðarhafi hyggist fullnægja því skilyrði deiliskipulagsins að ferming og afferming fari fram innan lóðar hans. Í öllu falli sé óútskýrt hvernig þeim málum verði háttað og því óskýrt hvort eða hvernig fyrirhuguð notkun mannvirkisins samrýmist skilmálum deiliskipulagsins að þessu leyti. Hámarksmænishæð þess hluta mannvirkisins sem snúi að Skútahrauni 2 skuli vera 7,5 m samkvæmt deiliskipulagi. Af fyrirliggjandi teikningum verði ekki annað séð en að hámarksmænishæð sé 11,8 m samkvæmt samþykktri umsókn um byggingarleyfi og þar með í ósamræmi við framangreindan skilmála deiliskipulagsins. Að lokum sé ekki að finna upplýsingar í gögnum frá lóðarhafa um hvernig frárennslismálum frá kjallara verði háttað að öðru leyti en að frárennsli fari á kerfi sveitar­félagsins. Frárennsli frá kjallara að Skútahrauni 2a sé um dælu sem lóðarhafi reki.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Sveitarfélagið vísar til þess að umdeild byggingaráform séu í samræmi við deiliskipulag svæðisins. Ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út og sé því ekki fyrir hendi nein heimild til framkvæmda á lóðinni.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að samþykktir aðaluppdrættir séu í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag og séu því engar forsendur til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Í gildandi deiliskipulagi liggi fyrir að á lóðinni Skútahrauni 2 sé kvöð um umferð að lóðinni Skútahrauni 2a sem og umferð að kjallara Drangahrauns 3 og 5. Sambærileg kvöð sé á lóðinni Skútahrauni 2a um umferð að kjallara Drangahrauns 3 og 5. Bílastæði fyrir kjallara Drangahrauns 3 og 5 eigi að vera á lóð Skútahrauns 2a og fjöldi þeirra sé samkvæmt byggingarreglugerð. Þó sé hámarksfjöldi stæða miðað við að kjallarar Drangahrauns 3 og 5 séu ekki samanlagt stærri en 2.000 m2 eins og fram komi í deiliskipulagi.

Við hönnun og teikningu hússins hafi kjallari þess verið dreginn fjóra metra inn frá byggingar­reit svo unnt væri að hafa hluta bílastæða framan við viðkomandi einingar. Lóðarhafar Drangahrauns 3 og 5 muni eftir sem áður nýta sér þá kvöð sem hvíli á lóðinni Skútahrauni 2a um umferðarrétt og bílastæði í suðausturhorni lóðarinnar, enda sé sá réttur óumdeildur. Lóðar­hafar Skútahrauns 2a nýti sér sambærilega kvöð um umferðarrétt á lóðinni Skútahrauni 2.

Sú umferð sem kærandi þurfi að þola sé umferð á um sjö metra breiðu bili syðst á lóð sinni. Umferðarkvöðin hafi legið fyrir í skipulaginu frá upphafi auk þess sem um sé að ræða leigulóð. Rök kæranda um eignarnám eigi því ekki við. Ekkert við umferðarkvöðina sé óljóst þar sem hún komi bæði fram í deiliskipulagi og á hæðarblaði fyrir lóðina. Það sé því rangt sem haldið sé fram í kæru að það eina sem liggi fyrir um kvöðina sé texti á skipulagsuppdrætti. Ferming og afferming muni ekki fara fram innan lóðar Skútahrauns 2a. Engin rök eða gögn hafi verið lögð fram til stuðnings fullyrðingu kæranda um að þetta kunni að vera vandamál.

Mænishæð hins umdeilda húss sé 6,26 m miðað við núllpunkt á aðalhæð hússins, sem sé í samræmi við deiliskipulag og samþykktar teikningar.

Lóðirnar hafi í upphafi verið í eigu sama aðila sem komið hafi að gerð deiliskipulagsins árið 2008, en sá aðili hafi einnig látið teikna og fá samþykktar teikningar að húsi sem hefði valdið mun meiri truflun fyrir lóðarhafa Skútahrauns 2a. Fyrsti áfangi þeirra framkvæmda, steyptur stoðveggur, hafi verið byggður árið 2008 en niðursveifla í þjóðfélaginu hafi orðið til þess að ekki hafi orðið af frekari framkvæmdum. Núverandi lóðarhafi að Skútahrauni 2a leiði rétt sinn frá þeim aðila og þurfi að sætta sig við þær kvaðir sem séu til staðar og hann hafi vitað eða mátt vita um. Geti hann ekki öðlast betri rétt en deiliskipulagið kveði á um.

Fyrir liggi að aðalteikningar hafi verið samþykktar sem séu að öllu leyti í samræmi við gildandi deiliskipulag. Þeirri fullyrðingu kæranda að þær kvaðir sem komi fram í deiliskipulagi geti ekki skapað óbein eignarréttindi til handa lóðarhafa aðliggjandi lóðar án samþykkis kæranda sé hafnað. Ekkert í þeim dómum og úrskurðum sem kærandi vísi til styðji þá niðurstöðu. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 118/2009 hafi atvik verið þau að í nýju deiliskipulagi hafi verið gert ráð fyrir umferðarrétti án samþykkis eiganda aðliggjandi fasteignar. Því sé ekki svo farið í máli þessu, þar sem þáverandi lóðarhafi Skútahrauns 2a hafi samþykkt deiliskipulagið. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 781/2016 hafi krafa um umferðarrétt verið sett fram með beinni innsetningar­gerð á grundvelli deiliskipulags sem hafi enga þýðingu við úrlausn þessa máls. Ekki verði séð að sá ágreiningur sem hafi verið uppi í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 26/2018 hafi neina tengingu við þann ágreining sem uppi sé í máli þessu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Hæðarblað hafi að mati kæranda ekki þýðingu við mat á því hvort útgefið byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulag. Á hæðarblaði sé kvöðunum, líkt og á aðaluppdráttum, gefið allt annað inntak en leiða megi af deiliskipulagi. Skilyrði laga nr. 160/2010 um mannvirki lúti að því að byggingaráform og byggingarleyfi séu í samræmi við skipulagsáætlanir. Hæðarblöð falli ekki undir hugtakið skipulagsáætlun heldur séu þau hönnunargögn sem séu unnin í kjölfar og á grundvelli deiliskipulags. Byggingarleyfi verði því ekki gefið út eða byggingaráform samþykkt á þeim grundvelli að það sé í samræmi við hæðar­blað, sér í lagi ef hæðarblaðið er í ósamræmi við deiliskipulag.

Hæðarblað gæti hugsanlega haft sjálfstæða þýðingu í málinu ef það væri hluti af þinglýstum gögnum eða áritað um samþykki af kæranda. Kærandi hafi aldrei samþykkt hæðarblaðið og það sé ekki hluti af þeim skjölum sem hafi verið þinglýst á lóðina. Eina hæðarblaðið sem sé hluti af þinglýstum skjölum sé það sem komi fram í lóðarleigusamningi kæranda við Hafnarfjarðarbæ frá árinu 1997. Bent sé á að hæðarblaðið sé dagsett í maí 2023 eða rúmlega mánuði eftir að byggingarfulltrúi hafi tekið hina kærðu ákvörðun. Á hæðarblaðinu sé dregið ský í kringum kvaðirnar sem sé hugsanlega gert til áhersluauka eða til að auðkenna breytingar frá fyrra hæðarblaði. Hafnarfjarðarbær vísi til mæliblaðs frá árinu 2008 sem ekki liggi fyrir í málinu.

Í greinargerð leyfishafa sé rakið að í upphafi hafi báðar lóðirnar verið í eigu sama aðila sem hafi komið að og samþykkt deiliskipulagið árið 2008 og að viðkomandi aðili hafi þá verið búinn að láta teikna og fá samþykktar teikningar. Kærandi hafi verið einn af lóðarhöfum Skútahrauns 2a þegar deiliskipulagið hafi tekið gildi árið 2008 en ekki Drangahrauns 3. Hinar umræddu teikningar hafi væntanlega verið samþykktar í gildistíð eldra skipulags enda séu þær áritaðar um samþykki fyrir gildistöku deiliskipulagsins í desember 2008. Ekkert liggi fyrir um að kærandi hafi samþykkt kvaðir deiliskipulagsins og séu gögn þar að lútandi ekki á meðal þinglýstra skjala lóðarinnar. Bent sé á að tvær fasteignir að Skútahrauni 2a ásamt tilheyrandi lóðarréttindum hafi verið seldar nauðungarsölu árið 2014 og að eignirnar hafi í kjölfarið verið seldar aftur til kæranda. Við nauðungarsöluna hafi öll hugsanleg óbein eignarréttindi yfir eignunum fallið niður, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Í athugasemdum leyfishafa komi fram að mænishæð hússins sé í samræmi við deiliskipulag þar sem hún sé 6,26 m miðað við núllpunkt á aðalhæð hússins. Í deiliskipulaginu sé ekki rætt um að miða skuli hámarksmænishæð við tiltekinn núllpunkt. Þar komi fram að hámarks­mænishæð sé „7,5 m á þeim hluta sem snúi að Skútahrauni 2 og 2a“. Framlagðar teikningar séu ekki í samræmi við þessi fyrirmæli. Af fyrirliggjandi teikningum virðist mega ráða að fimm metrar séu frá kjallara mannvirkisins að lóðarmörkum. Því sé verulega óljóst hvernig leyfishafi ætli að ferma og afferma innan lóðar sinnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykkt byggingaráforma fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði á lóðinni Drangahrauni 3, Hafnarfirði. Óumdeilt er að heimilt sé að byggja slíkt húsnæði á lóðinni samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins, Drangahrauns-Skútahrauns, sem tók gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. desember 2008. Deila aðila snýst um útfærslu tiltekinna atriða, þ.e. staðsetningu bílastæða og umferðarkvöð innan lóðar Skútahrauns 2a, hvernig fermingu og affermingu skuli háttað og um hámarksmænishæð húss að Drangahrauni 3.

Samkvæmt afstöðumynd sem fylgdi umsókn vegna hinna kærðu byggingaráforma er gert ráð fyrir að 10 bílastæði verði staðsett á suðausturhorni lóðar Skútahrauns 2a. Líkt og fram kemur í málavaxtakafla segir í deiliskipulagsskilmálum um lóðir nr. 3 og 5 við Drangahraun að bíla-stæði fyrir kjallara skuli vera á lóð Skútahrauns 2a og fjöldi þeirra samkvæmt byggingar-reglugerð. Þá segir í skilmálum fyrir lóðina Skútahraun 2a að kvöð sé um að bílastæði fyrir kjallara húsa nr. 3 og 5 við Drangahraun verði á lóð Skútahrauns 2a og fjöldi þeirra verði samkvæmt byggingarreglugerð. Í almennum skilmálum skipulagsins kemur fram að fjöldi bílastæða á lóð skuli vera í samræmi við þágildandi 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 með síðari breytingum, þ.e. eitt bílastæði fyrir hverja 35 m2 verslunar- og skrifstofuhúsnæðis og eitt bílastæði fyrir hverja 50 m2 af öðru húsnæði.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er áskilið að byggingarleyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir til að byggingaráform verði samþykkt. Samkvæmt sömu grein skal byggingarfulltrúi ganga úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra, sbr. einnig 1. mgr. 16. gr. laganna. Verða byggingaráform samkvæmt framansögðu ekki samþykkt nema þau séu bæði í samræmi við skipulagsáætlanir og gildandi lög og reglugerðir.

Fjallað er um aðkomuleiðir og umferðarsvæði innan lóðar í gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og er almennt ákvæði um bílastæði að finna í 7. mgr. nefnds ákvæðis. Þar kemur fram að stæði fyrir bíla, reiðhjól og önnur farartæki skuli vera í samræmi við ákvæði gildandi deiliskipulags eða ákvörðun viðkomandi sveitarfélags á grundvelli 44. gr. eða 1. tölul. bráðabirgðaákvæða skipulagslaga. Komi ekki fram krafa um ákveðna staðsetningu bílastæða eða stæða fyrir reiðhjól í skipulagi beri að hafa þau á sem öruggustu svæði innan lóðar. Í núgildandi byggingarreglugerð er ekki kveðið á um tiltekinn lágmarksfjölda bílastæða, að undanskildum bílastæðum hreyfihamlaðra, sbr. gr. 6.2.4., en í eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 var mælt fyrir um tiltekinn fjölda bílastæða á lóð, hafi ekki verið kveðið á um annað í deiliskipulagi, sbr. 64. gr. þeirrar reglugerðar.

Samkvæmt 7. mgr. gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð er sveitarfélögum heimilt að ákveða fjölda bílastæða á lóð með deiliskipulagi. Verður að telja að skipulagsyfirvöldum sé heimilt að vísa til krafna eldri byggingarreglugerðar um fjölda bílastæða, stangist þær kröfur ekki á við gildandi byggingarreglugerð hverju sinni, enda er skipulagsvaldið í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í máli þessu verður ekki séð að hin samþykktu byggingaráform fari gegn ákvæðum byggingarreglugerðar hvað bílastæði varðar. Var því heimilt að mæla fyrir um í deiliskipulagi að fjöldi bílastæða á lóð færi eftir ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Bílastæði lóðar Drangahrauns 3 eru ekki á þeirri lóð heldur eru þau á lóð Skútahrauns 2a. Samkvæmt 20. tölul. 2. gr. skipulagslaga eru skipulagskvaðir kvaðir sem lagðar eru á einstakar lóðir eða landsvæði í deiliskipulagi, svo sem um umferðarrétt og legu lagna. Er kvöð um hin umdeildu bílastæði skipulagskvöð samkvæmt framansögðu enda er henni komið á með deiliskipulagi, en úrskurðarnefndin tekur ekki afstöðu til einkaréttarlegs ágreinings um mögulega tilvist eða efni einkaréttarlegra kvaða um bílastæðin. Þrátt fyrir að réttur til hinna umdeildu bílastæða og fjöldi þeirra, sé nægjanlega tilgreindur í skipulagskvöðinni verður ekki ráðið af deiliskipulagi hver staðsetning stæðanna skuli vera. Verður að telja að staðsetning bílastæða á annarri lóð samkvæmt skipulagskvöð sé svo veigamikill þáttur kvaðarinnar að skipulagsyfirvöld geti ekki ákveðið slíka staðsetningu með byggingarleyfi, heldur þarf stað­setningin að eiga stoð í deiliskipulagi. Verður því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi hvað staðsetningu bílastæða á lóð Skútahrauns 2a varðar.

Samkvæmt afstöðumynd sem fylgdi umsókn vegna hinna kærðu byggingaráforma er gert ráð fyrir kvöð um aðkomu að kjallara Drangahrauns 3 og 5 syðst á lóð Skútahrauns 2a. Ekki er að finna nákvæm mál kvaðarinnar á afstöðumyndinni en ráða má af henni að kvöðin nái um 7 m inn á lóð Skútahrauns 2a. Á deiliskipulagsuppdrætti er kvöðin ekki afmörkuð nákvæmlega en þar er að finna texta við lóðamörk Skútahrauns 2a, Drangahrauns 3 og Drangahrauns 5 þar sem kemur fram: „Kvöð um umferð að kjallara Drangahrauns 3 og 5“. Í skilmálum skipulagsins um lóðir nr. 3 og 5 við Drangahraun kemur jafnframt fram að „[n]yrst á lóðunum er gert ráð fyrir kjöllurum sem aðeins hafa aðkomu frá Skútahrauni en heimilt er að hafa neyðarútgang Drangahraunsmegin.“ Þrátt fyrir að óumdeilt sé að umferðarréttur sé til staðar á lóð Skútahrauns 2a vegna kjallara Drangahrauns 3 verður með sömu rökum og um staðsetningu bílastæða hér að framan ekki talið að samþykkt byggingaráforma geti falið í sér útfærslu kvaðar á lóð kæranda umfram það sem fram kemur í deiliskipulagi. Verður því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi hvað varðar þá útfærslu umferðarkvaðar á lóð Skútahrauns 2a sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun.

Kærandi hefur vísað til þess að fasteignir að Skútahrauni 2a ásamt tilheyrandi lóðarréttindum hafi verið seldar nauðungarsölu árið 2014 og hafi öll óbein eignarréttindi þá fallið niður skv. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í nefndri málsgrein kemur fram að hafi nauðungarsölu verið krafist eftir heimild 6. eða 7. gr. falli niður öll veðbönd, umráðaréttindi, kvaðir, höft og önnur réttindi yfir eigninni við útgáfu afsals nema annað leiði beinlínis af lögum, eignin hafi verið seld með þeim skilmálum að þau standi í tilteknum atriðum óhögguð eða kaupandinn hafi síðar tekið þau að sér. Í afsali skuli tekið fram hver réttindi yfir eigninni falli á brott. Líkt og áður segir tekur nefndin ekki afstöðu til einkaréttarlegs ágreinings um mögulega tilvist eða efni kvaða. Skipulagskvöðum er komið á með deiliskipulagi, sem teljast til almennra stjórnvaldsfyrirmæla, og sækja stoð sína í 20. tölul. 2. gr. skipulagslaga. Er skipulagskvöðum því komið á með lögum í skilningi 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 og á greinin því ekki við hvað varðar þær skipulagskvaðir sem deilt er um í máli þessu.

Samkvæmt almennum deiliskipulagsskilmálum svæðisins skulu athafnasvæði innan lóða vera í samræmi við starfsemi í húsunum og þess gætt að ferming og afferming flutningstækja geti farið fram innan lóða. Samkvæmt skipulagsuppdrætti er byggingarreitur kjallara Drangahrauns 3 samsíða lóðamörkum þeirrar lóðar og lóðanna Skútahrauns 2 og 2a og er einn metri frá byggingarreit að lóðamörkum. Af grunnmynd kjallara má sjá að hin nýja bygging að Drangahrauni 3 mun ekki fullnýta byggingarreit lóðarinnar, heldur er veggur byggingarinnar fimm metra frá lóðamörkum og verða bílastæði fyrir utan bygginguna sem ná að þeim mörkum. Ekki verður fullyrt að ómögulegt sé að ferma og afferma innan lóðarmarka og verður því ekki talið að hin kærða ákvörðun brjóti í bága við deiliskipulag hvað þetta varðar.

Samkvæmt skipulagsskilmálum fyrir lóðir nr. 3 og 5 við Drangahraun er hámarksmænishæð 7,5 m á þeim húshluta er snýr að Skútahrauni 2 og 2a. Í lýsingu staðhátta í deiliskipulaginu kemur einnig fram að mikill hæðarmunur sé milli lóða nr. 3 og 5 við Drangahraun og lóðar nr. 2a og hluta lóðar nr. 2 við Skútahraun. Samkvæmt grunnmynd kjallara er hæð hans er snýr að Skúta­hrauni 2 og 2a alls 6,26 m frá botnplötu 1. hæðar. Er hið kærða leyfi í samræmi við deili­skipulag að því leyti.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar að því er varðar útfærslu kvaða vegna staðsetningar bílastæða og umferðarkvaðar á lóð Skútahrauns 2a. Að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er þó ekki tilefni til að ógilda hina kærðu ákvörðun í heild sinni.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. apríl 2023 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði að Drangahrauni 3, matshluta 02, að því er varðar staðsetningu bílastæða á lóð Skútahrauns 2a og legu umferðar­kvaðar á sömu lóð. Að öðru leyti stendur hin kærða ákvörðun óröskuð.

 

87/2023 Grjótháls

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 27. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 76/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um útgáfu byggingarleyfis til niðurrifs í húsi á lóð við Grjótháls 8 og byggingarleyfis til að byggja bílaþvottastöð og þvottabás á sömu lóð.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

 um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2023, er barst nefndinni degi síðar, kæra Bón- og þvottastöðin ehf. og B&Þ rekstrarfélag ehf., Grjóthálsi 10, Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um útgáfu byggingarleyfa, dags. 2. júní 2023, til Löðurs ehf., til niðurrifs í húsi á lóð við Grjótháls nr. 8 og dags. 16. júní 2023, til sama aðila, á sömu lóð, til að byggja bílaþvottastöð og þvottabás með auknu byggingarmagni frá því sem áður var.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 27. september 2022 var samþykkt leyfi til niðurrifs á hluta af þvottaaðstöðu, matshluta nr. 06, þ.e. rými 0104, 0105 og 0106 húss á lóð við Grjótháls 8. Borgarráð samþykkti afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum 6. október 2022. Byggingarleyfi til niðurrifs var gefið út 2. júní 2023. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 27. september 2022 var samþykkt leyfi til að byggja bílaþvottastöð og þvottabás, nýbyggingin er stálgrindarhús á steyptum sökklum í matshluta nr. 06 á lóð við Grjótháls 8. Borgarráð samþykkti afgreiðslu byggingarfulltrúa  á fundi sínum 6. október 2022. Byggingarleyfi var gefið út 16. júní 2023.

Kærendur álíta að byggingarleyfi sé ekki í samræmi við deiliskipulag. Vísað er til þess að í gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir eldsneytissölu og skyldri starfsemi á lóðinni og að ekki hafi verið lokið við málsmeðferð tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar, sem verið hafi til meðferðar. Muni fyrirhuguð starfsemi koma til með að þrengja verulega að starfsemi kærenda á næstu lóð vegna aukinnar umferðar. Af hálfu leyfisútgefanda er því hafnað að leyfin samrýmist ekki skipulagi en sala eldsneytis og rekstur bílaþvottastöðvar sé skyld starfsemi og hafi verið bílaþvottastöð á lóðinni, sem um ræði, í áraraðir. Í tillögu að breyttu deiliskipulagi sem sé í auglýsingu sé landnotkun lóðarinnar ekki breytt, en aðeins fjallað um nýtingarhlutfall fyrir byggingarreit á öðrum matshluta en þeim sem leyfi þessi varði, til að tryggja að nægilegt rafmagn verði til staðar á lóðinni. Af hálfu leyfishafa koma fram lík sjónarmið en auk þess er greint frá því að hluti af húsi hafi þegar verið rifið sem geri að verkum að starfsemi bílaþvottastöðvarinnar sé takmörkuð og því séu miklir hagsmunir bundir því að ekki verði fallist á kröfu um stöðvun framkvæmda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu eru málsaðilar fleiri en einn og eiga þeir andstæðra hagsmuna að gæta. Hafa kærendur fært fram sjónarmið um grenndarhagsmuni sem rök fyrir aðild sinni að kærunni og verður að fallast á aðild þeirra á þeim grundvelli. Mál þetta snýst um samþykki á byggingarleyfisumsóknum um annars vegar niðurrif hluta eldra mannvirkis og hins vegar byggingu nýs mannvirkis í stað þess. Að virtum þeim sjónarmiðum sem liggja að baki framangreindum lagaákvæðum verður ekki talin knýjandi þörf sé á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt þykir þó að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja eða halda áfram framkvæmdum áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt byggingarleyfi til niðurrifs í húsi á lóð við Grjótháls 8 og byggingarleyfi til að byggja bílaþvottastöð og þvottabás á sömu lóð.

78/2023 Urðarstígur

Með

Árið 2023, föstudaginn 21. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 78/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023, um að samþykkja leyfi til viðbyggingar við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Urðarstígs 6 og 6a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023, að samþykkja leyfi til viðbyggingar við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Kærandi gerir jafnframt þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. júlí 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars. sl. var samþykkt leyfi til að byggja viðbyggingu við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Við athugun byggingarfulltrúa og eldvarnareftirlits, eftir að kæra þessa kom til nefndarinnar, var álitið að brunavörnum væri áfátt. Í framhaldi þess stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdir á lóðinni 5. júlí. sl. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. júlí sl. var síðan samþykkt umsókn um breytingu varðandi bættar brunavarnir á suðurgafli fyrirhugaðrar viðbyggingar. Í framhaldi aflétti byggingarfulltrúi stöðvun framkvæmda. Var sú ákvörðun, sem fól í sér útgáfu nýs byggingarleyfis, einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar og hefur fengið málsnúmerið 86/2023.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst hafa gert athugasemdir við breytingu á deiliskipulagi vegna framkvæmdanna fyrir Urðarstíg 4 þess efnis að fara skyldi eftir fyrirmælum reglugerðar sem varði brunavarnir og fjarlægð frá lóðarmörkum. Engin gögn hafi ó borist honum um hvernig brugðist hafi verið við þeim athugasemdum. Við útgáfu byggingarleyfisins hafi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, um fjarlægð milli húsa með tilliti til brunavarna ekki verið fylgt eftir. Fjarlægð viðbyggingar Urðarstígs 4 frá húsinu að Urðarstíg 6A sé hvorki nefnd í deiliskipulagi né byggingarleyfi, enda um að ræða brot á reglugerð. Viðbyggingin við suðurgafl Urðarstígs 4 sé um einn metra frá Urðarstíg 6A og innan við 6 metra frá Urðarstíg 6. Þessar fjarlægðir komi ekki fram með réttum hætti á teikningum. Þetta séu mun minni fjarlægðir en reglugerð heimili. Þá sé skúrbygging á lóð Urðarstígs 4 í 50 cm fjarlægð frá útvegg Urðarstígs 6A og á lóðarmörkum sem stórauki hættu á reitnum án þess að tekið hafi verið tillit til þessa við afgreiðslu byggingarleyfis.

Þær undanþágur sem veittar hafi verið með þessu frá reglugerð séu óskiljanlegar í ljósi þess að húsin við Urðarstíg 4 og 6 séu gömul timburhús og húsið á Urðarstíg 6A sé byggt árið 1922  úr holsteini og sé með stórt þakskyggni úr viði. Veruleg brunahætta hafi orðið til með breytingum á deiliskipulagi og veitingu byggingarleyfis. Sér hafi ekki verið kynnt að byggingafulltrúi hygðist gefa undanþágur frá reglugerð og ekki hafi verið gætt meðalhófs við meðferð málsins. Þess er krafist að framkvæmdir verði umsvifalaust stöðvaðar og teikningum breytt þannig að fjarlægðir á milli húsanna og viðbyggingar, sem settar sé fram í bruna- og byggingareglugerð verði að fullu virtar án undantekninga. Jafnframt að gluggalaus brunaveggur verði látinn snúa að húsunum á Urðarstíg 6 og 6A sem og að leyfi fyrir svölum og stiga sem snúi að Urðarstíg 6 og 6A, í mjög lítilli fjarlægð frá lóðarmörkum, verði afturkallað. Þá er þess óskað að skúrbygging sem standi í leyfisleysi 50 cm frá útvegg Urðarstígs 6A verði færð 3 metra frá lóðarmörkum og tekin inn í brunaúttekt á framkvæmdum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er staðhæft að fjarlægð frá húsinu á Urðarstíg 6 að steyptum kjallara viðbyggingarinnar sé um 6 metrar. Einnig séu 6 metrar frá efri hæð viðbyggingarinnar og að sömu byggingu. Því sé ekki talin vera sambrunahætta fyrir hendi. Samkvæmt samþykktu breytingarerindi frá 11. júlí sl. vegna suðvesturhorns viðbyggingarinnar sem snúi að Urðarstíg 6A verði gluggar í viðbyggingu með brunakröfu E30 og utanhúsklæðning eldvarin timburklæðning í flokki 2. Sé þannig ákvæðum gr. 9.6.26 (töflu 9.0) varðandi glugga, gr. 9.7.3., varðandi timburklæðningu og 9.7.5 (tafla 9.09) varðandi lágmarksfjarlægðir á milli bygginga uppfyllt. Í ljósi framangreinds og á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra fresti ekki réttaráhrifum beri jafnframt að hafna kröfu um stöðvun framkvæmda og kveða upp fullnaðarúrskurð í málinu.

Málsrök leyfishafa: Hafnað er fullyrðingum kæranda um að fjarlægð viðbyggingar sé ekki í samræmi við reglugerð. Í brunavarnarlýsingu á aðaluppdrætti fyrir Urðarstíg 4 komi fram að fjarlægð í næstu byggingu frá kjallara sé um 6 metrar og um 6.6 metrar séu frá efri hæð og að sömu byggingu. Við hönnun viðbyggingarinnar hafi verið hugað sérstaklega að þessu og hafi verkfræðingur verið fenginn til þess að kynna málið fyrir slökkviliði höfuðborgarsvæðisins þann 8. nóvember 2022. Jafnframt er staðhæft að fjarlægð milli viðbyggingar Urðarstígs 4 og Urðarstígs 6A sé 1.70 metrar en ekki 1 metri. Einnig sé því hafnað að engar fjarlægðarmælingar hafi verið sýndar á milli húsanna. Hið rétta sé að á uppdrætti í deiliskipulagstillögu komi fram að útveggur viðbyggingar nái 300 cm frá húsinu. Að auki hafi aldrei staðið til að hafa aðeins tvo glugga á þeirri hlið Urðarstígs 4 sem snúi að Urðarstíg 6A. Þá sé skúrbygging sú sem kærandi fari fram á að verði færð um þrjá metra 14.9 fermetrar og hafi því ekki þarfnast byggingarleyfis. Þá hafi skýrinn verið reistur áður en kærandi varð eigandi að Urðarstíg 6A og með samþykki fyrrverandi eigenda. Af fyrirliggjandi gögnum málsins megi glögglega sjá að málið hafi fengið alla þá málsmeðferð sem tilgreind sé í skipulagslögum nr. 123/2010 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023, um að samþykkja leyfi til viðbyggingar við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Meðan mál þetta var til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni voru framkvæmdir stöðvaðar af byggingarfulltrúa vegna brunavarna. Gefið var út nýtt byggingarleyfi 11. júlí sl. sem hefur verið kært til nefndarinnar en með því var fyrra leyfi fellt niður. Í ljósi þess verður kæru þessari vísað frá nefndinni, enda á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn nefndarinnar um gildi þess leyfis.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

34/2023 Hafnargata 23

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 6. desember 2022 um að hafna umsókn kæranda um leyfi til að breyta verslunarrými við Hafnargötu 23 að hluta til í íbúð og ákvörðun bæjarstjórnar frá 7. febrúar 2023 um að staðfesta fyrri ákvörðun.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. mars 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir A, f.h. B, þá ákvörðun bæjar-stjórnar Reykjanesbæjar frá 6. desember 2022 að hafna erindi kæranda um leyfi til að breyta verslunarrými að Hafnargötu 23 að hluta til í íbúð og ákvörðun bæjarstjórnar frá 7. febrúar 2023 um að staðfesta þá ákvörðun. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 12. apríl 2023.

Málavextir: Hafnargata 23 í Reykjanesbæ er á ódeiliskipulögðu svæði. Hinn 17. nóvember 2022 sendi kærandi erindi til bæjaryfirvalda Reykjanesbæjar og óskaði umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs um fyrirhugaða breytingu verslunar­rýmis á jarðhæð húss að Hafnargötu 23 í íbúð­ og verslun. Í erindinu kom m.a. fram að verslunin yrði „óbreytt að sjá“ og þar yrði séreign með salerni, starfsmannaaðstöðu og lager. Gengið yrði í íbúðina úr sameign líkt og við á um aðrar íbúðir í húsinu. Erindið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. nóvember 2022 og var því vísað til umhverfis- og skipulagsráðs með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. desember s.á. var erindinu synjað og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 6. s.m.

Hinn 18. desember 2022 ítrekaði kærandi fyrra erindi sitt og sótti „formlega“ um fyrirhugaðar breytingar og eftir atvikum endurupptöku erindisins liti sveitarfélagið svo á að fyrri ákvörðun þess hafi verið stjórnvaldsákvörðun. Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. febrúar 2023 og því hafnað. Staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna á fundi 7. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að kærufrestur vegna ákvörðunar bæjarstjórnar frá 6. desember 2022 sé ekki liðinn. Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rofni kærufrestur þegar aðili óski eftir endurupptöku máls innan kærufrests, en haldi síðan áfram að líða að nýju frá þeim tíma er ákvörðun um að hafna beiðni um endurupptöku sé tilkynnt aðila máls. Kæranda hafi borist tilkynning um umrædda ákvörðun 15. desember 2022 og marki það upphaf kærufrests í málinu. Kærufrestur hafi rofnað 18. s.m. þegar endurupptöku málsins hafi verið óskað en byrjað aftur að líða þegar kæranda hafi verið tilkynnt um synjun erindisins með bréfi, dags. 9. febrúar 2023. Síðasti dagur kærufrests vegna umræddrar ákvörðunar sé því 8. mars 2023.

Rökstuðningi fyrir hinum kærðu ákvörðunum sé stórlega áfátt og eigi það að leiða til ógildingar þeirra. Í þágildandi aðalskipulagi hafi ekki komið fram að ekki mætti breyta atvinnuhúsnæði á jarðhæð í íbúðarhúsnæði. Slíkt ákvæði sé hins vegar að finna í nýju aðalskipulagi, sem auglýst hefði verið í B-deild Stjórnartíðinda 8. febrúar 2023, en það eigi ekki við í málinu þar sem hinar kærðu ákvarðanir hafi báðar verið teknar fyrir gildistöku þess. Afgreiða beri erindi á grundvelli þeirra laga, reglugerða og annarra réttarheimilda sem séu í gildi þegar umsókn berst en umsókn kæranda vegna umræddra breytinga hafi verið í fullu samræmi við þágildandi aðalskipulag. Óheimilt sé að vísa til áforma um hertar reglur í framtíðarskipulagi við afgreiðslu málsins líkt og sveitarfélagið hefði gert.

Þá hafi sveitarfélagið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. gr. stjórnsýslu­laga. Ekki hafi verið gætt samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti þegar litið sé til afgreiðslu sambærilegra mála. Í umsókn sinni hafi kærandi vísað til fordæma, m.a. breytinga sem gerðar hafi verið á Hafnargötu 16 og 34. Ekki hafi verið vikið að þessum fordæmum í rökstuðningi sveitarfélagsins og kæranda einum gert að sæta því að beitt sé ákvæði í skipulagi sem ekki hefði öðlast gildi. Þá hafi ekki verið gætt meðalhófs við afgreiðslu hinna kærðu ákvarðana, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Í umsókn kæranda hafi verið komið til móts við stefnu bæjarstjórnar um að standa gegn því að verslunarrýmum á umræddu svæði verði breytt í íbúðir. Ekki standi til að breyta öllu rýminu í íbúð, heldur verði verslunarrými látið halda sér á þeirri hlið sem snúi að götunni. Því verði hvorki breyting á notkun þess hluta rýmisins né heldur götumynd eða innsýn í rýmið frá götunni.

Kæranda hafi verið bent á andmælarétt í tilkynningum til hans um hinar kærðu ákvarðanir. Sú málsmeðferð sé ekki í samræmi við lög enda felist í andmælarétti samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga að aðili máls eigi rétt á að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun sé tekin í því. Full ástæða hefði verið til að gefa kæranda kost á að koma andmælum sínum á framfæri þegar fyrir hefði legið að til stæði að taka ákvörðun í málinu á grundvelli ákvæðis í aðalskipulagi sem ekki hefði öðlast gildi.

Málsrök Reykjanesbæjar: Sveitarfélagið bendir á að í þágildandi Aðalskipulagi Reykjanes­bæjar 2015–2030 hafi m.a. komið fram að áhersla væri lögð á að styrkja stoðir smá- og fag­verslana og veitingastaða við Hafnargötu. Umhverfis- og skipulagsráð hafi metið svo að breyting á jarðhæð Hafnargötu 23 væri ekki til þess fallin að ná því markmiði. Aðalskipulagið hafi gert ráð fyrir skrifstofum og íbúðum við götuna, en það gefi fasteignaeigendum ekki óskoraðan rétt til breytinga á notkun hvaða húsrýmis sem er samkvæmt eigin geðþótta og án þess að hafa málefnalegar ástæður. Í skjóli skipulagsvalds síns hafi sveitarfélagið fulla heimild til að hafna breytingartillögum sem styðji ekki markmið aðalskipulags og séu líklegri til að vinna gegn þeim. Við afgreiðslu hinna kærðu ákvarðana hafi verið fullljóst að endurskoðað aðalskipulag hefði ekki tekið gildi og það ekki lagt til grundvallar við afgreiðslu málsins. Hins vegar hefði verið vísað til ákvæða nýs aðalskipulags til þess að sýna fram á viðhorf og áherslu sveitarfélagsins til uppbyggingar í miðbænum.

Við afgreiðslu erindis kæranda hafi verið sérstaklega horft til aðstæðna á jarðhæð við Hafnar­götu 17–27a, en það sé kjarni verslunarhluta götunnar. Austan megin við götuna, þ.e. sömu megin og Hafnargata 23, sé gengið beint inn á jarðhæð. Þar sem ekki þurfi að fara um tröppur henti húsnæðið vel til verslunarreksturs. Vestan megin við götuna hafi nýtt deiliskipulag tekið gildi og þar sé gert ráð fyrir því að eldri hús á háum sökkli muni víkja fyrir nýjum byggingum með beinu aðgengi. Markmiðið sé að styrkja rekstur verslunar og þjónustu á þeim hluta götunnar.

Þau fordæmi sem kærandi hafi vísað til séu ekki sambærileg máli þessu. Veitt hefði verði heimild til að breyta 1. hæð Hafnargötu 16 í íbúð árið 2017 og hluta 1. hæðar Hafnargötu 34 í íbúð árið 2019. Vegna aðgengis henti þessi húsrými mun síður til reksturs verslunar eða þjónustu þar sem tröppur liggi að þeim og aðkoma sé þröng. Ekki hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við beitingu skipulagsvalds sé nauðsynlegt að úrlausn máls taki mið af aðstæðum í hverju tilfelli fyrir sig, götumynd, tegund og stærð húss, aðkomu og öðrum þáttum. Þessi fordæmi hafi ekki úrslita­áhrif í máli þessu.

Þá sé unnið að deiliskipulagi fyrir Hafnargötu, en hún hafi byggst upp á rúmri öld og húsagerð við götuna sé fjölbreytt. Efri hluti götunnar sé í aflíðandi brekku en neðsti hlutinn nær sléttur. Ekki verði lagt mat á hvort stærðir einstakra verslunarrýma séu fullnægjandi fyrr en þeirri vinnu sé lokið. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að 45–50 m2 verslunarrými sé fullnægjandi né heldur að húsið, út frá fyrirkomulagi og staðsetningu, henti illa verslunarrekstri.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar að ekki sé annað til úrlausnar í málinu en að fá úr því skorið hvort rökstuðningur umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. desember 2022, sem bæjarstjórn hafi  staðfest 6. desember 2022, sé í samræmi við lög og fullnægi þeim kröfum sem gera verði til rökstuðnings stjórnvaldsákvarðana. Í rökstuðningi þeirrar ákvörðunar komi ekki fram með hvaða hætti umsókn kæranda hafi farið gegn þágildandi aðalskipulagi. Einu rökin sem sveitarfélagið hefði teflt fram gegn áformum kæranda séu að ekki sé heimilt að breyta atvinnuhúsnæði á jarðhæð í íbúðarhúsnæði samkvæmt endurskoðuðu aðalskipulagi. Aðrar ástæður eða skýringar sveitarfélagsins í kærumáli þessu geti engu breytt um þá staðreynd að rökstuðningurinn hafi verið rangur og ófullnægjandi, enda verði ekki bætt úr ágöllum á rök­stuðningi eftir að ákvörðun hafi verið tekin í stjórnsýslumáli. Sveitarfélagið hefði hafnað beiðni kæranda um endurupptöku og verði því ekki úr því bætt.

Þá sé réttur kæranda til að hagnýta eign sína í samræmi við gildandi skipulag ríkur og ótvíræður stjórnarskrárvarinn réttur. Því verði að færa fram veigamiklar og málefnalegar ástæður fyrir ákvörðun um að takmarka þann rétt og gegni furðu að sveitarfélagið leggi sönnunarbyrði á herðar kæranda. Sönnunarbyrði fyrir því að hafna beri umsókn af þessu tagi sé hjá sveitar­félaginu, en ekki öfugt.

Kærandi mótmæli því að breytingar á Hafnargötu 16 og 34 séu haldlaus fordæmi vegna þess að tröppur séu við innganga þeirra. Auðvelt sé að koma fyrir römpum til þess að tryggja aðgengi allra að þessu húsnæði, auk þess sem slíkt aðgengi sé ekki fyrir hendi alls staðar þar sem rekin sé verslun eða þjónustustarfsemi í eldri bæjarhlutum. Þá séu þær breytingar, sem gerðar hafi verið á Hafnargötu 16 og 34, umfangsmeiri en umsókn kæranda hafi gert ráð fyrir, m.a. varðandi breytingu á götumynd og innsýn.

Niðurstaða: Erindi kæranda, dags. 17. nóvember 2022, fól í sér ósk um umsögn umhverfis- og skipulagsráðs um breytingu á hluta verslunarrýmis á jarðhæð Hafnargötu 23 í íbúð. Byggingarfulltrúi vísaði erindinu til umhverfis- og skipulagsráðs með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um grenndarkynningu. Var erindið þannig tekið til meðferðar sem byggingarleyfisumsókn og afgreitt sem slík af umhverfis- og skipulagsráði og afgreiðslan staðfest af bæjarstjórn 6. desember 2022. Undanfari ákvörðunar bæjarstjórnar 7. febrúar 2023 var erindi kæranda, dags. 18. desember 2022, þar sem fram kom að hann sækti formlega um umrædda breytingu, en liti sveitarfélagið svo á að afgreiðsla á fyrra erindi hans fæli í sér stjórnvaldsákvörðun væri óskað endurupptöku þeirrar ákvörðunar. Í erindi kæranda fólst því umsókn um byggingarleyfi og eftir atvikum beiðni um endurupptöku fyrra erindis hans. Sveitarfélagið tók ekki beina afstöðu til beiðni kæranda um endurupptöku máls en hafnaði umsókn hans um fyrrgreindar breytingar á fyrstu hæð hússins að Hafnargötu 23. Verður að líta svo á að í máli þessu sé deilt um lögmæti þessara tveggja ákvarðana.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga er það á hendi sveitarstjórna að skipuleggja land innan marka sveitarfélags og annast þær og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. gr. og 38. gr. laganna. Eru skipulagsáætlanir tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Við töku skipulagsákvarðana ber þó m.a. að hafa í huga markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Þá eru yfirvöld sveitarfélaga bundin af reglum stjórnsýsluréttarins við töku ákvarðana, svo sem lögmætisreglu, og reglum um rökstuðning.

Í 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er m.a. mælt fyrir um að óheimilt sé að breyta mannvirki eða notkun þess nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Þá kemur fram í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitar­stjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr. laganna, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar að undangenginni grenndarkynningu ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Umhverfis- og skipulagsráð hafnaði erindi kæranda á fundi 2. desember 2022 með eftirfarandi rökstuðningi: „Hafnargata hefur átt undir högg að sækja sem verslunargata en unnið er að uppbyggingu og mikilvægt er að framboð verði á hentugu verslunarrými við götuna. Deili­skipulag liggur fyrir vegna Hafnargötu 12 og Hafnargötu 22–28 en stutt er í að framkvæmdir hefjist. Við endurskoðun aðalskipulags var sett inn svohljóðandi ákvæði: Lögð er áhersla á að viðhalda lifandi götuhliðum  með innsýn í verslunar- og þjónusturými. Ekki er heimilt að breyta atvinnuhúsnæði á jarðhæð í íbúðarhúsnæði. Erindi hafnað.“

Umsókn kæranda var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. febrúar 2023 og var henni hafnað. Vísaði ráðið til þess að í greinargerð Aðalskipulags Reykjanesbæjar 2015–2030 kæmi fram að Hafnargatan hefði verið aðalmiðbæjargata bæjarins og þróunarmöguleikar líflegs miðbæjarumhverfis væru góður. Kæmi einnig fram að lögð væri áhersla á að styrkja stoðir smá- og fagverslana og veitingastaða. Þessi stefna væri ítrekuð við endurskoðun aðal­skipulagsins en þar væri sett inn svohljóðandi ákvæði: „Lögð er áhersla á að viðhalda lifandi götuhliðum með innsýn í verslunar- og þjónusturými. Ekki er heimilt að breyta atvinnuhúsnæði á jarðhæð í íbúðarhúsnæði.“ Þá tók ráðið eftirfarandi fram: „Skipulagsáætlanir við götuna sem hafa verið samþykktar síðustu ár s.s. Hafnargata 12 og Hafnargata 22–28 styðja við þessa stefnu. Í vinnslu er deiliskipulag fyrir Hafnargötu fyrir reit sem markast af lóðum nr. 15 og að nr. 41. Áætlað er að það skipulag komi til afgreiðslu á vormánuðum en þar verður m.a. nánar skilgreind nýting rýma á jarðhæð húsa við götuna. Erindi hafnað.“

Samkvæmt 3. og 5. mgr. 32. gr. skipulagslaga tekur aðalskipulagsáætlun gildi þegar hún hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar eða eftir atvikum ráðherra og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Um réttaráhrif þeirrar birtingar kemur fram í 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað að fyrirmælum, er felist í lögum, auglýsingum, reglugerðum, samþykktum eða öðrum slíkum ákvæðum almenns efnis, megi eigi beita fyrr en birting í Stjórnartíðindum hafi farið fram, nema þau geymi ákvæði algerlega einkamálaeðlis og aðilar hafi komið sér saman um að skipti þeirra skuli fara eftir óbirtum fyrirmælum. Samkvæmt 2. mgr. lagaákvæðisins skulu birt fyrirmæli binda alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt ef þau geymi ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína. Skipulagsstofnun staðfesti Aðalskipulag Reykjanes­bæjar 2020–2035 hinn 25. janúar 2023 og var auglýsing birt í B-deild Stjórnar­tíðinda 8. febrúar s.á. Þegar hinar kærðu ákvarðanir voru teknar 6. desember 2022 og 7. febrúar 2023 var því eldra aðalskipulagið enn í gildi.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2015–2030 var Hafnargata á skilgreindu miðsvæði M2. Um svæðið var tekið fram að gatan hefði verið aðalmiðbæjargata bæjarins og þróunar­möguleikar líflegs miðbæjarumhverfis væru góðir. Lögð væri áhersla á að styrkja stoðir smá- og fagverslana og veitingastaða. Á svæðinu væri einnig gert ráð fyrir skrifstofum og íbúðum.

Í umsóttum breytingum fólst að hluta umrædds verslunarrýmis yrði breytt í íbúð, en þó ekki þeim hluta sem snýr að Hafnargötu og yrði því áfram innsýn í verslunarrýmið frá götunni. Af rökstuðningi hinna kærðu ákvarðana verður ráðið að meginforsenda þeirra var áhersla á að styrkja Hafnargötu sem aðalmiðbæjargötu og stefna sem mörkuð er í Aðalskipulagi Reykjanes­bæjar 2020–2035 um bann við breytingu atvinnurýmis á jarðhæð í íbúðarhúsnæði á svæðinu.

Ekki verður séð að umsókn kæranda um byggingarleyfi hafi farið í bága við þágildandi Aðal­skipulag Reykjanesbæjar 2015–2030 í ljósi þess að áfram var gert ráð fyrir verslunarrými við Hafnargötu og í aðalskipulaginu kom m.a. fram að gert væri ráð fyrir skrifstofum og íbúðum á svæðinu. Skírskotun sveitarfélagsins til væntanlegs aðalskipulags sem birt var 8. febrúar 2023 verður ekki talin viðhlítandi rökstuðningur fyrir synjun þess á umræddri byggingarleyfis­umsókn. Líta verður og til þess að við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi er stefna gildandi aðalskipulags bindandi, sbr. 6. mgr. 32. gr. skipulagslaga.

Með vísan til alls framangreinds var rökstuðningi hinna kærðu ákvarðana svo áfátt að ekki verður hjá því komist að fella þær úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi ákvarðanir bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 6. desember 2022 og 7. febrúar 2023 um að synja erindi og umsókn kæranda um breytingu á verslunarrými á jarðhæð Hafnar­götu 23 í Reykjanesbæ að hluta í íbúð.

23/2023 Ásvellir

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2023, kæra á útgáfu byggingarleyfis, dags. 2. febrúar 2023, fyrir knatthúsi og þjónustubyggingu að Ásvöllum 1, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 25. janúar s.á. um að samþykkja greind byggingar­áform.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. febrúar 2023, er barst nefndinni 13. s.m., kæra A og B, Blikaási 4 og 9, Hafnarfirði, útgáfu byggingarleyfis, dags. 2. febrúar 2023, fyrir knatthúsi að Ásvöllum 1, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnar­fjarðar frá 25. janúar s.á. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá er þess krafist að umhverfis­mats­skýrsla framkvæmdaraðila frá því í maí 2022 verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum byggingarleyfisins verði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar upp­kveðnum 17. mars 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 21. febrúar 2023.

Málavextir: Lóðin Ásvellir 1 er samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar. Í greinargerð Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013–2025 kemur fram að Haukar hafi byggt upp fjölbreytta aðstöðu til íþróttaiðkunar á íþrótta­svæði sínu að Ásvöllum sem sé u.þ.b. 16 ha að flatarmáli og að mestu fullbyggt. Deiliskipulag svæðisins á Ásvöllum er frá árinu 2004 og hefur því verið breytt í tvígang. Með breytingu á deiliskipulagi er tók gildi árið 2010 var gert ráð fyrir að reist yrði stórt knatthús fyrir miðju íþróttasvæðisins. Með annarri breytingu, sem birt var í B-deild Stjórnar­tíðinda 27. júlí 2021, var skilgreind ný íbúðalóð vestan íþrótta­­miðstöðvar til að „stuðla að fjölbreyttari landnotkun á svæðinu.“ Sú lóð, sem nefnist Ásvellir 3-5, var að hluta til innan svæðis sem ætlað var knatthúsi samkvæmt eldra deiliskipulagi og var lóðinni úthlutað til byggingaraðila í mars árið 2022. Byggingarreitur knatthússins var við þetta færður nyrst á íþróttasvæðið „til að stuðla að betri nýtingu lóðar og svo byggingin raski sem minnst núverandi íbúðar­byggð í nágrenninu“, að því segir í greinargerð skipulagsins. Með þessu er gert ráð fyrir að húsið rísi vestan­megin við íþróttahús íþróttafélagsins og að lang­hlið þess verði samsíða mörkum frið­landsins við Ástjörn á svæði þar sem áður var grasvöllur og æfingar­svæði.

Íþróttasvæði Hauka liggur steinsnar frá svonefndri Ástjörn, sem var friðlýst árið 1978 sam­kvæmt heimild í þágildandi lögum nr. 47/1971 um náttúruvernd. Verndarsvæði friðlýsingar var stækkað árið 1996 með stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall. Á vefsíðu Hafnarfjarðar greinir frá því að lífríki tjarnarinnar sé fjölbreytilegt og kjörlendi margra fuglategunda því fæðuframboð í tjörninni sé mikið. Sést hafi 44 tegundir fugla við tjörnina, mikið beri á and­fuglum, en mesta athygli veki flórgoði. Tjörnin og nánasta um­hverfi hennar njóti frið­lýsingar vegna fjölskrúðugs fuglalífs og lífríkis. Göngu­stígur liggi um­hverfis tjörnina en á varp­tíma fugla á tímabilinu 1. maí til 15. júlí megi ekki ganga um svæðið.

Hinn 16. mars 2021 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Hafnar­fjarðar­kaupstað um fyrir­hugaða uppbyggingu á íþróttasvæði Hauka að Ásvöllum, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 10.03 í 1. viðauka laganna, sem m.a. varðar mannvirkjagerð íþróttaleikvanga. Varðaði tilkynningin greind áform um breytingu á upp­byggingaráformum á Ásvöllum. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, frá 13. júlí 2021, kom m.a. fram að mikil óvissa væri um áhrif framkvæmda á vatnafar Ástjarnar, fyrir­liggjandi rannsóknir á vatna­fari væru tæplega 20 ára gamlar og töluverð uppbygging hefði orðið á svæðinu í kringum Ás­tjörn á þeim tíma sem kallaði á nýjar rannsóknir. Var það niður­staða stofnunarinnar að fyrir­huguð fram­kvæmd kynni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. við­auka laga um mat á umhverfisáhrifum, og skyldi því háð mati á umhverfisáhrifum. Hinn 25. nóvember 2021 barst Skipulagsstofnun matsáætlun um upp­byggingu á íþróttasvæði Hauka að Ásvöllum samkvæmt 21. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. lið 10.02 í 1. viðauka laganna. Þann sama dag var matsáætlunin kynnt á vefsíðu Skipulagsstofnunar og frestur til athuga­semda veittur­ til 28. desember s.á. Var einnig leitað um­sagna frá Hafnar­fjarðar­­kaupstað, Haf­rannsókna­stofnun, Heil­brigðis­eftirliti Hafnarfjarðar og Kópa­vogssvæðis, sem svo nefndist á þeim tíma, Minja­stofnun Íslands, Náttúru­fræði­stofnun Íslands, Orkustofnun, Umhverfis­stofnun og Veður­stofu Íslands. Athugasemdir bárust frá þeim öllum, að Hafnar­fjarðarkaupstað undan­skildum. Þá bárust jafnframt fjórar umsagnir frá öðrum, þ. á m. frá Land­vernd og öðrum kærenda í máli þessu.

Skipulagsstofnun af­greiddi matsáætlunina 22. febrúar 2022 með áliti, í samræmi við 3. mgr. 21. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 17. gr. laga nr. 111/2021. Í álitinu var gerð grein fyrir atriðum sem fjalla þyrfti um í umhverfismats­skýrslu. Kom þar m.a. fram ábending um að þörf væri á því að meta fleiri valkosti fyrir stað­setningu knatthússins. Þá áleit ­stofnunin að í ljósi verndar­gildis Ástjarnar væri afar brýnt að meta áhrif fram­kvæmd­anna á vatna­bú­skap tjarnar­innar. Gera þyrfti grein fyrir því hvort fram­kvæmdir gætu haft áhrif á vatnsstöðu tjarnarinnar og til hvaða ráðstafana yrði gripið til að svo yrði ekki. Sýna þyrfti í umhverfismats­skýrslu af nokkurri nákvæmni hvernig mannvirkið yrði grundað, gera grein fyrir hvernig staðið yrði að jarðvinnu og hvernig tryggt yrði að ekki yrði farið niður fyrir hæstu vatnsstöðu Ás­tjarnar. Meta þyrfti mengunarhættu á fram­kvæmda­tíma og eftir að framkvæmdum lyki sem og greina frá mögu­legum mót­vægisaðgerðum vegna vatns­­verndar. Þá þyrfti að meta áhrif fyrirhugaðra fram­kvæmda á fuglalíf og lífríki tjarnarinnar og nær­liggjandi votlendis, þar með talið hvort mann­virki hefði hindrandi eða fælandi áhrif á fugla, t.d. ef mann­virki þveri flugleiðir að Ástjörn.

Hinn 4. maí 2022 lagði Hafnarfjarðarkaupstaður fram umhverfismatsskýrslu framkvæmdar­aðila um uppbyggingu á svæðinu til kynningar og athugunar hjá Skipulagsstofnun, sbr. 22. og 23. gr. laga nr. 111/2021. Í skýrslunni var ekki að finna aðra valkosti en í mats­áætluninni, þ.e. valkost A sem var samkvæmt gildandi deiliskipulagi, valkost B sem var samkvæmt deili­skipu­laginu frá 2010 og núllkost, þar sem lýst var óbreyttu ástandi. Framkvæmdin og skýrslan voru aug­lýst í Lögbirtingablaðinu og Fréttablaðinu 2. júní s.á. og Fjarðar­­fréttum 8. s.m. og kom þar fram að allir gætu kynnt sér skýrsluna og lagt fram athugasemdir. Umhverfismatsskýrslan lá frammi til kynningar hjá stofnuninni frá 2. júní til 15. júlí 2022 og var einnig aðgengileg á vef­síðu hennar. Umsagna var leitað hjá Hafnar­fjarðar­kaup­stað, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðis­nefnd Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness, Minjastofnun Íslands, Náttúru­fræði­stofnun Íslands, Orkustofnun, Umhverfis­stofnun og Veður­stofu Íslands og bárust um­sagnir frá þeim öllum ásamt fleirum, þ. á m. frá öðrum kærenda máls þessa. Álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá síðan fyrir 23. september 2022 og taldi stofnunin umhverfismats­skýrsluna uppfylla skilyrði laga nr. 111/2021. Í niðurstöðu álits­ins kom m.a. fram að það væri mat stofnunarinnar að tekin væri áhætta með því að reisa stórt knatthús steinsnar frá viðkvæmri náttúru, líkt og ráðgert væri með valkosti A. Taldi stofnun­in að með hliðsjón af mögulegum áhrifum á Ástjörn og lífríki hennar væri valkostur B betri.

Áform um byggingu íbúðarhúsa á lóðinni að Ásvöllum 3–5 voru sam­þykkt af byggingarfulltrúa Hafnar­fjarðar­­ 21. desember 2022, en áður hafði skipulags­fulltrúa verið falið að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir jarðvinnu á lóðinni. Kæru vegna þeirra áforma, þ. á m. frá kærendum í máli þessu, var vísað frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, með úrskurði sem kveðinn var upp hinn 20. janúar 2023 í máli nr. 146/2022, þar sem framkvæmdirnar voru ekki taldar hafa slík grenndaráhrif að þau vörðuðu lög­varða hagsmuni kærenda í málinu. Í sama máli var einnig kærð ákvörðun byggingarfulltrúa frá 23. nóvember 2022 um samþykkt byggingaráforma vegna knatthúss að Ás­völlum 1. Var það álit úrskurðarnefndarinnar að grenndaráhrif með tilliti til útsýnis vegna knatt­hússins væru ekki slík að vörðuðu hagsmuni tveggja kærenda svo að þeim yrði játuð kæru­aðild, en ekki var talið unnt að útiloka slík áhrif gagnvart eigendum Blikaáss 4 og 9. Var þeim því játuð kæruaðild en þeir eru jafnframt kærendur í máli þessu. Með úrskurði í málinu, upp­kveðnum 20. janúar 2023, var hin kærða ákvörðun felld úr gildi þar sem umsagnar Umhverfis­stofnunar samkvæmt 54. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd hafði ekki verið aflað áður en ákvörðunin var tekin. Þann sama dag barst bæjaryfirvöldum umsögn stofnunarinnar og voru byggingar­áformin samþykkt, að teknu tilliti til hennar af byggingar­­fulltrúa 25. janúar 2023. Byggingar­leyfi vegna knatthússins var gefið út 2. febrúar s.á. Í leyfinu var framkvæmdaraðila gert að fara eftir vöktunar- og viðbragðsáætlun sem og nánari fyrirmælum í samantekt byggingar­fulltrúa vegna afgreiðslu byggingar­leyfis­umsóknar.

Í greindri vöktunar- og viðbragðsáætlun voru sett skilyrði um vöktun tveggja umhverfis­þátta, þ.e. annars vegar vatnafars og lífríkis og hins vegar fugla. Í þeim fyrrnefnda fólst sívöktun á vatnshæð Ástjarnar, eftirlit og hreinsun brunna og mengunareftirlit. Í þeim síðarnefnda fólst vöktun vað- og vatnafugla innan friðlandsins. Þá var gerður fyrirvari um að vöktunaráætlun kynni að breytast vegna nýrra upplýsinga. Vöktun á vatnshæð Ástjarnar feli í sér að fylgst verði með hvort vatnshæð breytist umfram náttúrulega sveiflu og skal Umhverfisstofnun tilkynnt ef hæð hennar fari út fyrir sett viðbragðsmörk og skulu framkvæmdir stöðvaðar reynist niðurstaða grunn­vatnsvöktunar utan ásættanlegra marka á framkvæmdartíma. Þá verði tekin ákvörðun um að­gerðir í samráði við sérfræðing og Umhverfisstofnun ef upp koma aðstæður í grunni knatt­húss sem kunna að hafa áhrif á Ástjörn og geta mögulegar aðgerðir falist í stöðvun fram­kvæmda, grautun, eða öðrum aðgerðum til að þétta berg. Á rekstrartíma hússins skyldi Umhverfis­stofnun tilkynnt ef grunur væri um að mengun hafi borist í Ástjörn. Hvað varði vöktun á fuglalífi felur viðbragðsáætlunin í sér að fylgst verði með mögulegum áhrifum fram­kvæmda á vaðfugla yfir framkvæmdartíma og fyrstu tvö árin af rekstrartíma hússins. Áfram­haldandi vöktun verði ákveðin í samráði við sérfræðinga og Umhverfisstofnun. Felur áætlunin í sér að haft verði samráð við Umhverfisstofnun ef niðurstöður vöktunar gefi til kynna að þess þurfi og ákvörðun verði tekin um fyrirkomulag áframhaldandi vöktunar.

Í samantekt byggingarfulltrúa kom m.a. fram að niðurstaða umhverfismats hefði verið að val­kostir A og B væru í heild taldir hafa óveruleg til talsvert neikvæð áhrif á umhverfisþætti og að áhrifin væru sambærileg á milli valkosta. Hönnun knatthússins hefði tekið breytingum í gegnum matsferlið til að koma til móts við ábendingar frá fagaðilum og almenningi. Undir­stöðum hefði verið breytt og húsinu lyft lítillega frá hæstu vatnastöðu Ástjarnar. Leitast yrði við að draga úr raski á hraunklöpp eins og kostur væri á framkvæmdar­tímanum og tryggja að hún myndi áfram stemmi fyrir tjörnina. Að meðaltali myndu undirstöður ná 1,1 metra niður í hraun­­klöppina. Settar yrðu nákvæmniskröfur á losun klappar, þ.e. verklag og tæki, t.d. um magn hleðslu í borholu, titringskröfur og „pre-splitt“ þannig að tryggt væri að klöpp yrði ekki raskað undir kóta 21,5 m y.s. Þá skyldi leggja ríka áherslu á regnvatnslausnir við framkvæmdir til þess að viðhalda vatnabúskap svæðisins og var mælt nánar fyrir um fyrir­komulag þeirra. Til að draga úr sjónrænum áhrifum vegna jarðrasks yrði reynt að haga frágangi þannig að ummerki eftir efnistöku yrðu hverfandi. Heillegar gróðurtorfur yrðu varðveittar og nýttar við lokafrágang og sárum í landi lokað með grófum hraunmolum þar sem við ætti. Þá var einnig tekin afstaða til umsagnar Umhverfisstofnunar skv. 54. gr. laga nr. 60/2013 og kom m.a. fram að mótvægisaðgerðir úr umhverfismatsskýrslu yrðu hluti af byggingarleyfi og að það væri gert til að fyrirbyggja eins og kostur væri að mengandi efni bærist í vatnasvið Ástjarnar. Þá kom fram að bætt yrði við byggingarleyfið þeirri málsgrein sem Umhverfisstofnun hefði farið fram á en í umsögn hennar hefði komið fram að stofnunin teldi mikilvægt að í byggingar­leyfinu kæmi fram bein tilvísun til efnis auglýsingar um friðlýsingu Ástjarnar við Hafnarfjörð nr. 189/1978 og auglýsingar um stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ás­fjall nr. 658/1996.

Það kom fram að bæjaryfirvöld væru ósammála umsögn Umhverfisstofnunar um að líkur væru á því að vatn úr tjörninni gæti runnið inn í grunn knatthússins en fylgst yrði með stöðu grunnvatns með sírita. Sett yrðu skilyrði um að hávaðasamar framkvæmdir ættu sér stað utan varptíma og miðað við sömu dagsetningar og í skilmálum friðlýsingar, þ.e. frá 1. maí til 15. júlí. Í niðurstöðu samantektar byggingarfulltrúa kom fram að hann teldi ekki grund­vallar­mun á afstöðu sveitarfélagsins og áliti Skipulagsstofnunar og væru þau sammála um helstu umhverfis­áhrif og umfang þeirra. Staðhættir og lífríki Ástjarnar hefðu verið höfð til hlið­sjónar í öllu matsferlinu, við hönnun knatthússins, í mótun verklags á framkvæmdatíma, mótun mót­vægis­aðgerða og vöktunar á rekstrartíma. Með því væri unnt að fylgja eftir stefnu sveitar­félags­ins varðandi uppbyggingu íþróttasvæðisins en um leið draga sem kostur væri úr nei­kvæð­um umhverfis­áhrifum. Hvorki Skipulags­stofnun né bæjaryfirvöld álitu áhrif á umhverfis­þætti umtalsverð eða verulega neikvæð. Þá hefði við ákvörðun um útgáfu bygg­ingar­leyfis verið litið til umhverfissjónarmiða, friðlýsingar Ástjarnar og markmiða náttúru­verndar­laga.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að Ástjörn og fólkvangurinn í kring séu friðlýst og að um sé að ræða afar viðkvæmt svæði með mikla verndarþörf. Skipulagsstofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda að Ásvöllum. Þá sé bent á að samkvæmt c-lið 22. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana skuli umhverfismatsskýrsla m.a. innihalda lýsingu og mat á raunhæfum valkostum. Ákvæðið hljóti að eiga við um raunhæfa valkosti á þeim tíma sem umhverfismatsskýrsla sé gerð en við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda á íþróttasvæðinu að Ásvöllum hafi sú ekki verið raunin. Raunhæfa valkosti verði að telja valkosti þar sem mögulegt sé að reisa knatthúsið.

Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins frá árinu 2010 hafi knatthúsið átt að vera sunnan íþrótta­svæðisins og sé sú staðsetning valkostur B í umhverfismats­skýrslu bæjaryfirvalda frá því í maí árið 2022. Langt sé þó liðið frá því að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi tekið ákvörðun um að þar skyldu rísa íbúðarhús í stað knatthúss. Þannig hafi sveitarfélagið og knattspyrnu­félagið Haukar þegar á árinu 2018 undirritað viljayfirlýsingu þar sem Haukar hafi afsalað sér lóðarskika þar sem áður hafi verið gert ráð fyrir knatthúsinu. Í apríl 2021 hafi bæjarstjóri tekið skóflustungu að knatthúsinu á þeirri staðsetningu sem hin kærða ákvörðun taki til, þ.e. valkosti A í umhverfis­­matsskýrslunni. Skipulagsstofnun hafði þá ekki lokið málsmeðferð um það hvort framkvæmdir á svæðinu, þ. m. t. bygging knatthússins, væri háð mati á umhverfisáhrifum. Það sama haust hafi verið byrjað á stórum æfingavelli sem skarist á við valkost B, en sé á réttum stað samkvæmt valkosti A. Völlurinn hafi verið tyrftur og girtur sumarið á eftir.

Í lok ársins 2021 hafi viljayfirlýsingin frá árinu 2018 verið útfærð nánar með framkvæmda­samningi á milli bæjaryfirvalda og íþróttafélagsins um knatthús að Ásvöllum og eftirgjöf lóðar til byggingar íbúða á íþrótta­svæði félagsins. Hafi bæjaryfirvöld því verið búin að ákveða að fjármagna byggingu knatthússins samkvæmt valkosti A með lóðasölu og valkostur B því ekki verið inni í myndinni. Lóðum undir íbúðarbyggð að Ásvöllum 3–5 hafi verið úthlutað til byggingar­félags í mars 2022 og sé þar um að ræða enn eitt dæmið um að valkostur B hafi ekki verið inni í mynd­inni hjá bæjaryfirvöldum. Hinn 13. maí s.á. hafi bæjarráð Hafnarfjarðar sam­þykkt að bjóða út byggingu knatthúss samkvæmt valkosti A. Í sama mánuði hafi umhverfis­mats­skýrslan verið gefin út og í skýrslunni sé gert ráð fyrir að valkostur B sé enn mögulegur, en tekið fram að verði sá kostur fyrir valinu verði ekki úr frekari íbúða­uppbyggingu.

Í áliti Skipulagsstofnunar frá 23. september 2022 hafi verið tiltekið að stofnunin teldi bæjar­yfirvöld hafa sett framkvæmdinni mjög þröngar skorður með því að binda hana við það svæði sem um ræði og miða stærð knatthúss við skilyrði til að spila í efstu deild. Fyrir vikið hafi að mjög takmörkuðu leyti verið skoðað hvernig unnt væri að byggja knatthús með sem minnstum umhverfisáhrifum. Hikandi afstaða hafi bæði komið fram í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfismatsskýrsluna og í áliti hennar um matsáætlun bæjaryfirvalda, en þar hafi m.a. komið fram að valkostur B virtist óraunhæfur þar sem ráðgerðar íbúðir skerði svæði sem ætlað væri fyrir knatthús. Jafnframt hafi stofnunin talið nauðsynlegt að meta áhrif fyrirhugaðrar íbúða­byggðar á framlagða kosti um uppbyggingu íþróttamannvirkja. Þá hafi stofnunin jafn­framt tekið undir það sem fram hafi komið í umsögnum um að æskilegt væri að skoða fleiri valkosti, en A og B, fyrir staðsetningu knatthúss.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga eigi stjórnvald að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Skipulagsstofnun hefði því ekki átt að láta sér nægja að segja að valkostur B virtist óraunhæfur heldur hafi stofnuninni borið skylda til að kanna svo mikilvægt atriði nægilega til þess að unnt væri að taka upplýsta ákvörðun. Ekkert komi fram í áliti stofnunarinnar um matsskýrsluna sem bendi til þess að bæjaryfirvöld hafi lagt mat á áhrif íbúðarbyggðar á framlagða valkosti eins og stofnunin hafi talið nauðsynlegt. Valkostur B sé augljóslega óraunhæfur og þar með sé umhverfismatsskýrslan ófullnægjandi og ólögmæt.

Umhverfismatsskýrslunni sé jafnframt áfátt um ýmis önnur atriði. Það hafi ekki verið gerðar neinar kannanir á undirlagi knatthúss samkvæmt valkosti B en 16 holur hafi verið boraðar vegna knatt­húss samkvæmt valkosti A og gengið út frá því að báðir kostir myndu sýna sömu niður­stöðu. Þá hafi engin grein verið gerð fyrir því hvaða áhrif kostur B kynni að hafa á nánasta um­hverfi sitt, svo sem á íþróttamiðstöð Hauka og nálæg íbúðarhús. Ekki hafi heldur verið fjallað um bílastæði og mögulegt torg við inngang hússins. Mjög þröngt verði um knatthúsið sam­kvæmt valkosti A en eigi að síður séu áformuð 230 bílastæði við húsið, þar af 135–145 bílastæði að norðanverðu sem snúi að byggðinni og séu ekki á yfirlitsmynd lóðar í umhverfis­mats­skýrslunni. Ekkert sé fjallað um þessi bílastæði í skýrslunni og hugsanlega mengun frá þeim. Samkvæmt skýrslunni séu stæðin nefnd „frágangssvæði“ og muni verða talsvert ónæði af þeim vegna hávaða og lýsingar, m.a. í friðlandinu en þau verði örskammt frá tjörninni.

Það sé óumdeilt að framkvæmdin raski Ástjörn og hrauni sem sé verndað samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd, sbr. 61. gr. laganna. Samkvæmt lögunum skuli forðast röskun nema brýna nauðsyn beri til. Af því leiði að gera verði kröfu um brýna nauðsyn hinnar kærðu framkvæmdar. Fyrirmæli lagagreinarinnar takmarki skipulagsvald sveitarfélaga og sé rök­stuðningur byggingarfulltrúa um brýna nauðsyn fyrir framkvæmdinni haldlaus. Byggingarfulltrúi hafi talið að báðir valkostir, þ.e. A og B, yllu talsverðum neikvæðum áhrifum á hraunið en bæjaryfirvöld telji hins vegar aðra staðsetningu utan íþróttasvæðisins ekki koma til greina.

 Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að um samþykki byggingar­áforma og útgáfa byggingarleyfis fari samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.4.2. og 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Valkostir hafi verið skoðaðir í vinnu við umhverfismatsskýrslu en ekki við samþykki byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis. Við undirbúning, málsmeðferð og töku ákvörðunar um byggingu knatthúss að Ásvöllum hafi öllum lögum og reglum sem við eigi verið fylgt, svo sem skipulagslögum nr. 123/2010, skipu­lags­­reglugerð nr. 90/2013, lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og reglugerð nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, lögum um mannvirki, byggingar­­reglugerð, lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd og lögum nr. 80/2012 um menningar­minjar. Byggingarleyfið sé í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag og álit Skipulags­stofnunar um framkvæmdina liggi fyrir. Framkvæmdaleyfi til slóðagerðar og gróf­fyllingar knatt­spyrnu­­vallar á lóð Hauka að Ásvöllum hafi verið gefið út 21. september 2020. Á afgreiðslu­­­fundi skipulags- og byggingarfulltrúa 15. febrúar 2023 hafi verið lögð fram umsókn um endurútgáfu á framkvæmdaleyfinu vegna áframhaldandi undirbyggingar knattspyrnu­vallarins og heimildar til að nýta burðarhæft efni innan lóðar og hafi skipulags­fulltrúa verið falið að gefa út framkvæmdaleyfi.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja framgöngu sveitarfélagsins við afhendingu gagna bera þess merki að það sé í alla staði vanhæft til að fjalla um og taka til meðferðar sína eigin framkvæmd. Þá hafi verulegir annmarkar verið á að samþykki byggingaráforma, útgáfa byggingarleyfis og samantekt með leyfinu væri í samræmi við lög. Í svörum bæjaryfirvalda til úrskurðarnefndarinnar hafi beinlínis verið gengist við því að valkostir hefðu ekki verið skoðaðir við samþykki byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis, heldur við vinnu umhverfis­matsskýrslu. Liggi því fyrir að umfjöllun Skipulagsstofnunar um áhættu sem tekin væri með valkosti A hefði ekki verið skoðuð við samþykki byggingaráforma eða útgáfu byggingar­leyfis.

—-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um leyfi til byggingar knatthúss á íþróttasvæði Hauka að Ásvöllum og byggja kærendur málatilbúnað sinn aðallega á því að annmarki hafi verið á mati á umhverfis­­áhrifum fyrirhugaðrar uppbyggingar á íþróttasvæði Hauka á Ásvöllum, en bygging knatt­hússins er liður í þeim framkvæmdum. Þess ber að geta að Hafnar­fjarðarkaupstaður er leyfis­hafi í málinu og er byggingarfulltrúi bæjarins leyfisveitandi.

—-

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlut­­verk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 30. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat fram­kvæmda og áætlana eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd skuli háð umhverfis­mati skv. 20. gr. og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda kæran­­legar til úrskurðar­nefndarinnar nema sérlög kveði á um annað. Lögmætisathugun nefndar­innar í máli þessu beinist þó ekki ein­göngu að málsmeðferð og efnislegri niðurstöðu byggingarfulltrúa sem leyfisveitanda heldur einnig, eftir at­vikum, að málsmeðferð Skipulags­stofnunar vegna umhverfismats Hafnarfjarðar­kaup­staðar sem framkvæmdaraðila samkvæmt lögum nr. 111/2021. Verður gildi umhverfis­mats­skýrslu framkvæmdar­­aðila á hinn bóginn ekki borið sérstaklega undir nefndina, svo sem kærendur gera kröfu um, enda felur hún ein og sér ekki í sér stjórnvaldsákvörðun sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993.

Til athugunar er í máli þessu hvort málsmeðferð Skipulagsstofnunar við mat á umhverfis­áhrifum þeirrar framkvæmdar að byggja knatthús og þjónustu­byggingu að Ásvöllum 1 hafi verið haldin ágöllum og þá hvort þeir séu svo verulegir að á matinu verði ekki byggt. Jafnframt hvort máls­meðferð byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar­kaup­staðar hafi verið ábótavant við leyfis­veitingu að teknu tilliti til þess mats á umhverfisáhrifum sem fram fór. Við útgáfu byggingar­leyfis vegna framkvæmdar sem undir­gengist hefur mat á umhverfisáhrifum eru skyldur byggingarfulltrúa sem leyfisveitanda ríkar. Ber byggingar­fulltrúa þannig að fylgja þeim málsmeðferðarreglum sem mælt er fyrir um í lögum um mann­virki nr. 123/2010 og lögum nr. 111/2021 og sjá til þess að skilyrði þeirra laga séu upp­fyllt. Jafnframt getur byggingar­fulltrúa við leyfisveitinguna verið skylt að líta til efnis- og form­reglna annarra laga, s.s. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá er byggingarfulltrúi sem endra­­­nær bundin af ákvæðum stjórn­sýslulaga og óskráðum meginreglum stjórn­sýslu­­réttar.

—-

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 111/2021 er umhverfis­mat framkvæmda ferli sem samanstendur af nánar tilgreindum þáttum sem tíunduð eru í fimm stafliðum, þ. á m. afgreiðslu matsáætlunar, sbr. a-lið og álit Skipulagsstofnunar um umhverfis­mat framkvæmdarinnar, sbr. d-lið. Í síðasta þætti ferilsins, þ.e. e-lið, er svo til­greint að álit stofnunarinnar sé lagt til grundvallar við af­greiðslu umsókna um leyfi til fram­kvæmda. Sam­kvæmt 1. mgr. 18. gr. laganna ber fram­kvæmdaraðili sem hyggst hefja mats­skylda framkvæmd ábyrgð á umhverfismati hennar og skal hann vinna mats­áætlun, sbr. 21. gr., og umhverfismatsskýrslu þar sem gerð er grein fyrir umhverfismati fram­kvæmdar­innar, sbr. 22. gr.

Samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 21. gr. laga nr. 111/2021 skal framkvæmdaraðili leggja álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun til grund­vallar við umhverfismat fram­kvæmdar­innar og skal álitið fela í sér leiðbeiningar til framkvæmdaraðila um vinnslu, efni og framsetningu umhverfismatsskýrslu, m.a. með hliðsjón af framkomnum um­sögnum, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Skal gerð og efni umhverfismats­skýrslu vera í sam­ræmi við mats­áætlun og álit Skipulagsstofnunar um hana, sbr. 2. mgr. 22. gr. sömu laga. Í c-lið 1. mgr. 22. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að umhverfismatsskýrsla framkvæmdar­aðila skuli innihalda lýsingu og mat á raunhæfum valkostum sem framkvæmdar­aðili hafi kannað og upplýsingar um helstu ástæður fyrir þeim valkosti sem var valinn, með tilliti til umhverfis­áhrifa framkvæmdarinnar.

Tilgangur mats á mismunandi valkostum er einkum að sá sem beri ábyrgð á matinu velti fyrir sér raunhæfum valkostum og mótvægisaðgerðum í þeim tilgangi að draga úr umhverfisáhrifum og er samanburður umhverfisáhrifa raunhæfra valkosta höfuðatriði við mat á umhverfis­áhrifum. Þá ber að kynna bæði matsáætlun og umhverfismatsskýrslu fyrir almenningi og veita með því tækifæri á athugasemdum, sbr. 2. mgr. 21. gr. og 1. mgr. 23. gr. laga nr. 111/2021. Geta athugasemdir frá almenningi og aðilum sem hafa hagsmuna að gæta haft verulega þýðingu, t.a.m. um það hvaða valkosti umhverfismat lýtur að. Um leið verður að viðurkenna ákveðið forræði framkvæmdaraðila um það hvaða valkosti hann leggi fram sem uppfylli markmið viðkomandi framkvæmdar enda sé matið reist á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum. Rök­­studdar athugasemdir sem lúta að valkostamati geta þó leitt til þess að framkvæmdar­aðila sé rétt eða skylt í ferli umhverfismats að fjölga valkostum eða bæta úr lýsingu á þeim.

Í matsáætlun vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á íþrótta­svæði Hauka að Ásvöllum var lagt til að mat yrði lagt á þrjá valkosti, A, B og núllkost, þ.e. óbreytt ástand. Fram kom að ekki væri talið æskilegt að uppbygging íþróttamannvirkja Hauka færi fram á öðrum svæðum enda markmið fram­kvæmdar­innar að styrkja þá starfsemi sem fyrir væri á Ásvöllum og nýta um leið þá innviði sem þar væru til staðar. Taldi framkvæmdaraðili, þ.e. bæjaryfirvöld, að uppbygging á íþrótta­svæðinu væri mikil­væg fyrir íbúa og nýtti vel fjárfestingu í innviðum. Upp­bygging íþrótta­svæðis á öðrum stöðum gæti síður mætt þeim markmiðum sem sett væru í skipulagi eða verið til þess fallin að valda minni umhverfisáhrifum. Var það jafnframt mat fram­kvæmdaraðila að fyrir lægju skýrir hagsmunir sem fælust í bættri þjónustu við íbúa og aðgengi að henni, sem vægju upp þau neikvæðu áhrif sem yrðu, m.a. vegna rasks á hrauni.

Í umsögnum við matsáætlunina voru m.a. gerðar athugasemdir við að einungis væri lagt mat á tvo valkosti, þ.e. A og B. Til að mynda kom fram í umsögn Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis að núllkostur kæmi vart til greina og gilti hið sama um kost B sem ekki væri raunhæfur. Greining valkosta þar sem í raun væri aðeins einn valkostur væri ekki í anda laga nr. 111/2021 og leggja yrði fram aðra kosti til að bera saman við kost A. Taldi heilbrigðiseftirlitið að fjölga þyrfti valkostum í matsáætlun. Meta ætti hvort minna mann­virki myndi ekki fullnægja raunverulegri þörf samfélagsins fyrir knatthús og ef svo væri hvort það myndi valda minna álagi innan friðlandsins og minni líkum á röskun á grunnvatnsflæði. Í umsögn Umhverfisstofnunar kom með líkum hætti fram að í mats­áætlun væri lítil áhersla lögð á samanburð við núllkost og að þar sem framkvæmdin hefði ekki áður farið í mat á umhverfis­áhrifum væri mikilvægt að umhverfisáhrif valkostanna tveggja væru bornir saman við nú­verandi ástand. Þá væri lítil áhersla lögð á umhverfisáhrif æfingavallanna þriggja sem fyrir­hugaðir væru syðst á lóðinni, en mikilvægt væri að meta umhverfisáhrif framkvæmdanna að Ásvöllum í heild sinni. Í umsögnum frá einstaklingum komu fram áþekk sjónarmið um skort á valkostum. Þar var m.a. bent á að Haukar hefðu látið bæjaryfirvöldum eftir lóð undir íbúðir á Haukasvæðinu sem yrði tekjustofn fyrir bæinn, en á bæjarstjórnarfundi 22. janúar 2022 hafi verið bókað af meirihluta bæjarstjórnar að framkvæmdir við nýtt knatt­hús myndu hefjast í takt við sölu lóða. Samkvæmt úttekt á ársreikningum sveitarfélaga árið 2019 hefði Hafnar-fjarðarkaupstaður verið mjög skuldugur, og væri kannski enn. Hlyti skýringin á valkosti A því fyrst og fremst að vera slæm fjárhagsstaða bæjarins.

Í áliti Skipulags­stofnunar við matsáætlunina frá 22. febrúar 2022 var um valkosti tekið fram að stofnunin tæki undir það sem fram kæmi í umsögnum um að í ljósi nálægðar við Ástjörn, verndar­stöðu og viðkvæmni svæðisins væri æskilegt að skoða frekari valkosti fyrir stað­setningu knatthúss. Þá kom og fram að nauðsynlegt væri að meta áhrif fyrirhugaðrar íbúða­byggðar á framlagða kosti um uppbyggingu íþróttamannvirkja og að miðað við myndræna fram­setningu kosta í matsáætlun virtist valkostur B óraunhæfur þar sem ráð­gerðar íbúðir skertu svæði sem ætlað væri fyrir knatt­hús samkvæmt honum.

Í umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila er rakið að valkostur A byggi á núgildandi skipu­lagi en valkostur B á fyrri hugmyndum og eldra skipulagi. Núllkostur feli í sér óbreytt ástand og að ekki yrði af framkvæmdum og var tekið fram að hann væri ekki talinn koma til greina sem raun­hæfur valkostur þar sem hann upp­fyllti ekki markmið um að efla starfsemi og stuðla að fjöl­breyttari notkun á íþróttasvæði Hauka eða tryggja aukið framboð íbúðarhúsnæðis. Núll­kostur væri notaður sem grunnviðmið til að meta áhrif framkvæmda á umhverfið og með honum kæmi ekki til þeirra áhrifa sem aðrir valkostir hefðu í för með sér. Yrði valkostur B fyrir valinu væri ekki hægt að koma fyrir íbúðabyggð í samræmi við gildandi skipulag þar sem byggingarreitur knatthúss og íbúðarlóðar samkvæmt skipu­lagi, skarist. Yrði hið sama uppi á teningnum þótt knatthúsinu yrði snúið. Uppbygging á íþróttasvæðinu væri mikilvæg og lægju fyrir skýrir hagsmunir til að bæta þjónustu við íbúa og aðgengi að henni. Markmiðið væri að styrkja þá starfsemi sem þegar væri til staðar á svæðinu með því að nýta núverandi innviði sem best, s.s. gatnakerfi, veitukerfi og skólaþjónustu. Þá væri einnig tilgangurinn að tryggja aukið framboð íbúðarhúsnæðis, í sam­ræmi við markmið húsnæðisstefnu Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013–2025.

Í þessu sambandi bendir úrskurðarnefndin á að framkvæmdaraðila hefur verið játað ákveðið forræði á því hvaða kosti hann leggi fram til mats, sem séu til þess fallnir að ná markmiðum framkvæmdar. Mismunandi valkostir geti falist í mismunandi staðsetningu, umfangi, tilhögun, tæknilegri útfærslu o.s.frv. Athafnasvæði Hauka á Ásvöllum hefur verið skilgreint sem íþrótta­svæði í skipulagi um alllangan tíma, en það er um 15 ha að flatarmáli. Fyrir eru á svæðinu ýmis mannvirki og íþróttavellir sem ætluð eru til íþróttaiðkunar. Þar er einnig óraskað hraun. Ekki verður gerð athugasemd við það mat bæjarins að uppbygging íþróttasvæðis á öðrum stöðum geti síður mætt þeim markmiðum sem að væri stefnt með framkvæmdinni. Þá er ekki óeðlilegt að í umhverfismati sé horft til þeirra áforma sem sýnd hafa verið í eldra deili­skipulagi, svo sem við hafi átt um valkost B. Í ljósi athugasemda umsagnaraðila og Skipulags­stofnunar um mat á valkostum verður þó talið að í matsskýrslu hefði verið tilefni til að gera nánari grein fyrir því af hvaða sökum aðrir valkostir, t.d. um minna mannvirki, þættu ekki koma til álita. Fram hefur komið að svo til samhliða því að unnið var að umhverfismati seldu bæjaryfirvöld frá sér hluta þess lands sem hefði verið hagnýttur ef stuðst hefði verið við valkost B. Þetta var til þess fallið að takmarka möguleika almennings til trúverðugrar þátttöku í undir­búningi framkvæmdarinnar. Um leið athugast að í lögum er ekki kveðið á um lágmarks­fjölda valkosta sem verði metnir í umhverfismatsskýrslu. Fyrir þessu voru auk þess færð skipulagsleg rök um mikilvægi þess að stuðla að fjölbreyttari notkun svæðisins með uppbyggingu íbúða samkvæmt valkosti A. Með hliðsjón af því, stað­háttum og eðli þeirrar framkvæmdar sem hér um ræðir verður ekki talið að þessi ágalli á mats­skýrslunni sé svo verulegur að varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

—-

Í umhverfismatsskýrslu vegna framkvæmdarinnar greinir að helstu áhrif hennar felist í sjón­rænum áhrifum vegna knatthúss, raski á eldhrauni og áhrifum á fuglalíf við Ástjörn. Um grundun mannvirkisins kemur m.a. fram að neðri brún undirstaða spyrnuveggja muni standa 0,6 m fyrir ofan hæstu vatnsstöðu Ástjarnar sem sé 21 m y.s. en til að vernda lekt stemmis, þ.e. jarðlaga sem haldi aftur af vatni í Ástjörn, sé lagt til bæði í umhverfisskýrslu með deiliskipulagi og matsskyldufyrirspurn að bilið á milli hæstu grunnvatnshæðar Ástjarnar, 21 m y.s., og hæð graftarbotns sé minnst 0,5 m. Í skýrslunni er álitið að valkostirnir séu í heild sinni taldir hafa óveruleg til talsvert neikvæð áhrif á umhverfisþætti. Voru áhrifin talin sambærileg á milli valkosta. Neikvæð áhrif voru helst talin vegna rasks á eldhrauni sem nyti verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013, en að mati framkvæmdaraðila, þ.e. bæjaryfirvalda, var talið óhjákvæmilegt að raska hrauni og hefði þó verið leitast við að draga úr því eins og kostur væri. Af hálfu nefndarinnar verður ekki gerð athugasemd við þetta mat en til þess er þá einnig að líta að svæðið sem um ræðir er þegar raskað og verndargildi þess minna en ella svo sem rakið er í umhverfismatsskýrslu.

Við umhverfismatið lá fyrir skýrsla sérfræðinga um fuglalíf á og við Ástjörn, þar sem leitast var við að greina áhrif framkvæmda bæði á framkvæmdatíma og til lengri tíma. Á grundvelli þeirrar skýrslu er í samantekt byggingarfulltrúa ályktað að heldur meira öryggi og ró í umhverfinu virðist felast í kosti A og hann sé því líklega betri fyrir fuglalíf til lengri tíma litið, með hliðsjón af þáttum eins og skuggum af mannvirkjum, hæð mannvirkja, ónæði af ljósum og hávaða. Þessi umfjöllun í samantektinni hefði mátt vera ítarlegri enda óvissu til að dreifa um ályktanir, svo sem segir í sérfræðiskýrslunni, en hún styður þó um leið þá ályktun að valkostirnir séu í heild taldir hafa óveruleg til talsvert neikvæð áhrif á umhverfisþætti og áhrifin séu sambærileg á milli þeirra.

—-

Lokaliður mats á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021 felst í því að álit Skipulags­stofnunar á umhverfismatskýrslu er lagt til grundvallar við afgreiðslu umsókna um leyfi til framkvæmda, sbr. e-lið 1. mgr. 17. gr. laganna. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfis­áhrifum lá fyrir 25. september 2023. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 111/2021 skal í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar fjalla um forsendur, aðferðir og ályktanir um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar í umhverfis­matsskýrslu framkvæmdaraðila. Þá skal þar koma fram rökstudd niðurstaða um umhverfismat framkvæmdarinnar og eftir því sem við á skal þar greina skilyrði um mótvægisaðgerðir og vöktun.

Í samantekt byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar vegna útgáfu hins kærða byggingar­leyfis kemur fram að bæjaryfirvöld, þ.e. leyfisveitandi, hafi ítarlega yfirfarið niðurstöður umhverfismats, skýrslur sérfræðinga, mælingar á vatnshæð Ástjarnar, umsagnir og athuga­semdir, hönnunargögn, mótvægisaðgerðir og vöktunaráætlanir. Í samantektinni er sett fram afstaða bæjaryfirvalda til álits Skipulagsstofnunar, þ. á m. varðandi samanburð valkosta og áhrif á jarðminjar, vatnafar og lífríki. Verður því ekki annað séð en að leyfisveitandi hafi kynnt sér umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og lagt álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar, sbr. 3. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021.

Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 skal leyfisveitandi tilkynna Skipulagsstofnun um útgáfu leyfis vegna matsskyldra framkvæmda og birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína og gera leyfi sem og greinargerð með því aðgengilegt almenningi á netinu innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Í auglýsingunni skal tilgreina kæruheimild og kærufrest. Ekki verður ráðið að gætt hafi verið að þessu við útgáfu hins kærða byggingarleyfis. Verður sá annmarki þó ekki talinn hafa áhrif á gildi leyfisins en athygli er vakin á því að samkvæmt 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu.

—-

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Í 13. gr. laganna er fjallað um útgáfu byggingarleyfis. Þar kemur fram í 1. tölulið 1. mgr. að skilyrði fyrir útgáfu þess sé að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum er hið kærða byggingarleyfi í sam­ræmi við gildandi deiliskipulag svo sem áskilið er samkvæmt ákvæðinu.

Að framangreindu virtu liggur ekki fyrir að hið kærða byggingarleyfi sé haldið slíkum form- eða efnisannmörkum að varði ógildingu þess verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kærenda um að umhverfismatsskýrsla framkvæmdar­aðila frá því í maí 2022 verði felld úr gildi.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis, dags. 2. febrúar 2023, fyrir knatthúsi og þjónustubyggingu að Ásvöllum 1, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 25. janúar s.á. um að samþykkja greind byggingar­áform.

46/2023 Mjódalsvegur

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 29. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. febrúar 2023 um að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi sem telst vera matshluti nr. 07 á lóð nr. 16 við Mjódalsveg, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

Úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 10. apríl 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi sumarhúss að Mjódalsvegi 6, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. febrúar s.á. að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi á lóð nr. 16 við Mjódalsveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir á nefndri lóð yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði, uppkveðnum 27. apríl 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. apríl 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. febrúar 2023 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa hitaveitugeymi á lóð nr. 16 við Mjódalsveg. Var umsóknin samþykkt og stað-festi borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 2. mars s.á. með samþykkt b-hluta fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 1. s.m. Byggingarleyfi var gefið út 29. mars s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hinn fyrirhugaði hitaveitugeymir sé ekki í samræmi við skilyrði og heimildir í deiliskipulagi. Samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags fyrir miðlunargeyma á Reynisvatnsheiði, sem tekið hafi gildi 30. janúar 2008, hafi borið að gera öryggismön umhverfis miðlunargeymana og ganga frá henni eða hlutum hennar samhliða uppbyggingu á lóðinni. Ekki hafi enn verið byrjað á öryggismöninni sem samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins hefði átt að vera tilbúin árið 2008 samhliða byggingu dæluhúss. Byggingar­fulltrúa hafi borið að vísa umsókn um byggingarleyfi til skipulagsfulltrúa til umsagnar og vegna bindandi skilmála í deiliskipulagi hafi borið að skilyrða umsókn um byggingarleyfi við það að fyrir lægi samþykkt framkvæmdarleyfi vegna skilyrða um öryggismön. Þá eigi lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda- og áætlana við um leyfi til framkvæmda eins og hér um ræði.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að í gildi sé deiliskipulag, Hólmsheiði-jarðvegslosun, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 4. nóvember 2010 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 14. desember s.á. Í skipulaginu séu áréttaðir óbreyttir skilmálar frá deiliskipulagi fyrir miðlunar­geyma á Reynisvatnsheiði sem tekið hafi gildi 30. janúar 2008 með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Um sé að ræða byggingu fjórða miðlunargeymisins af fyrirhuguðum átta geymum á lóðinni. Þeir geymar sem fyrir séu hafi byggst upp á mismunandi tímum, þeir fyrstu 1988 og síðast hafi verið byggt dæluhús árið 2009 á grundvelli deiliskipulagsins. Engin krafa sé í deiliskipulaginu um að öryggismön skuli vera umhverfis dæluhúsið.

Samkvæmt upplýsingum Orkuveitu Reykjavíkur verði vinna hafin við gerð öryggismanar þegar geymirinn verði tekinn í rekstur og sé stefnt að því að hluti hennar verði þá þegar reistur. Undirbúningur sé þegar hafinn við að afla leyfis fyrir framkvæmdinni og verði sótt um leyfið innan fárra daga. Bent sé á að ekkert í deiliskipulaginu mæli fyrir um hvaða verkþættir skuli vera hafnir við öryggismönina og á hvaða tímapunkti sú vinna skuli hafin, enda um almennt orðalag að ræða. Verði í ljósi þess að veita lóðarhafa nokkuð svigrúm til að meta með hvaða hætti og í hvaða röð framkvæmdir samkvæmt skipulaginu fari fram. Tilgangur umrædds skilyrðis í deiliskipulaginu sé fyrst og fremst sett til að tryggja að öryggismönin verði gerð á einhverjum tímapunkti framkvæmda.

Enn fremur sé vakin athygli á að afgreiðsla byggingarfulltrúa byggi á lögum um mannvirki nr. 160/2010 og hafi byggingarfulltrúi engar heimildir til að gera kröfu um, hvað þá að samþykkja framkvæmdaleyfisskyldar aðrar framkvæmdir. Gerð öryggismanar sé þannig ekki hluti byggingarleyfisins vegna geymisins, heldur eðlilegt framhald af verkinu í heild. Engin skilyrði séu í deiliskipulaginu um að óheimilt sé að samþykkja byggingarleyfi vegna miðlunargeymana nema búið sé að gefa út framkvæmdaleyfi vegna manarinnar.

Ekki sé fallist á að notkun svæðisins, eða hluta þess sem geymslusvæðis, hafi nokkuð með byggingarleyfið að gera eða geti valdið ógildingu þess. Eftirlit með að skipulagsskilmálar séu virtir að því leyti og eftir atvikum að gera kröfu um úrbætur sé hins vegar á hendi skipulags­fulltrúa. Samkvæmt upplýsingum Orkuveitunnar sé enn fremur hafin vinna við að hreinsa svæðið og mun því ljúka á næstu dögum. Þá hafi byggingarfulltrúa ekki borið að bera umsóknina undir skipulagsfulltrúa þar sem miðlunargeymirinn eigi sér skýra stoð í deili­skipulagi.

Málsrök leyfishafa: Bent er á að byggingarleyfið sé í fullu samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag. Í skilmálum deiliskipulagsbreytingar sem samþykkt hafi verið árið 2007 og hafi verið teknar upp í gildandi skipulag sé gert ráð fyrir byggingu fimm heitavatnsgeyma til viðbótar við þá þrjá sem fyrir séu auk tveggja tengihúsa og dælustöðvar. Síðan þessi breyting hafi verið gerð á deiliskipulaginu hafi ekki átt sér stað frekari uppbygging á hitaveitugeymum á lóðinni. Árið 2009 hafi verið reist dælustöð sem staðsett sé á vesturhorni lóðarinnar en ekki sé gert ráð fyrir að öryggismön nái í kringum hana.

Í deiluskipulagi sjáist að dælustöðin sé áætluð nærri lóðarmörkum og framar en öryggismönin komi til með að standa. Þá sé framkvæmdum á lóðinni ekki lokið og ákveðinn ómöguleiki sé fólginn í því að reisa mannvirki á sama tíma og öryggismön sé sett umhverfis geymana. Farið verði eftir skilmálum í gildandi deiliskipulagi og muni hefjast vinna við öryggismön samhliða byggingu á geymi nr. 4 og verði hluti öryggismanar komin upp þegar sá geymir verði tekin í notkun.

Bygging á einum hitaveitugeymi til viðbótar við þá þrjá geyma sem þegar séu til staðar á Reynisvatnsheiði breyti í engu núverandi rekstarfyrirkomulagi á heiðinni og muni geymirinn ekki koma til með að auka tíðni atburða þegar leiða þurfi vatn í yfirfall. Þá sé áréttað að heita vatnið sem sé í tönkunum sé upphitað grunnvatn frá Nesjavallar- og Hellisheiðarvirkjun og því sé um hreint vatn að ræða. Ekkert bendi til þess að af geymunum stafi nokkur hætta enda séu þeir hannaðir eftir öllum þeim stöðlum og reglum sem gildi um slík mannvirki. Einnig sé mikilvægt að geymirinn rísi fyrir haustið 2023 til að draga ekki úr afhendingaröryggi næsta vetrar. Greiningar og reynsla eftir síðastliðinn vetur bendi eindregið til þess að núverandi tankarýmd sé ekki nægjanleg til þess að ráða við langvarandi kuldakast. Sé því mikilvægt að geymirinn rísi fyrir haustið 2023.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ítrekað er að deiliskipulagið Hólmsheiði jarðvegslosun, sem samþykkt var í borgarráði 4. nóvember 2010 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 14. desember s.á. hafi verið fellt úr gildi, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 6/2011 frá 14. febrúar 2014. Sama eigi við um deiliskipulag sem samþykkt hafi verið í borgarráði 25. mars 2010 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl s.á., sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 26/2010 frá10. apríl 2014. Í gildi sé deiliskipulag frá árinu 2003 með tilteknum breytingum sem samþykktar voru í borgarráði 29. nóvember 2007 og birtar í B-deild Stjórnartíðinda 30. janúar 2008.

Samkvæmt byggingarleyfi, dags. 29. mars 2023, sé ekki vísað til deiliskipulags og uppdrátta eða minnst á skilyrta öryggismön sem verkþátt samhliða byggingu hitaveitugeymis nr. 4. Hins vegar sé vísað til þess að öll framkvæmdin skuli unnin eftir aðal- og séruppdráttum, byggingar- og verklýsingum og gildandi lögum og reglugerðum um skipulags- og byggingarmál.

Í byggingarlýsingu sé í engu minnst á uppdrætti eða skipulagsskilmála í deiliskipulagi 2003 og deiliskipulagsbreytingu frá árinu 2008, margnefnda öryggismön eða aðrar lóðaframkvæmdir, nánasta umhverfi, hæðarlegu, lóðamörk, brunavarnir, aðkomu slökkviliðs, kvaðir, bílastæði, gróður, útlit o.s.frv. Vantar að gera grein fyrir öllu er við kemur meginskipulagi lóðar og aðlögun mannvirkis að næsta umhverfi og samþykktu deiliskipulagi og/eða skipulags­skilmálum eins og segi annars vegar í byggingareglugerð og hins vegar í lögum um mannvirki, og geti því ekki talist aðaluppdráttur eins og skylt er að leggja fram til byggingafulltrúa til samþykktar áður en byggingarleyfisumsókn er samþykkt, byggingarleyfi veitt og framkvæmdir hefjast.

Kærandi hefur gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. febrúar 2023 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa hitaveitugeymi á lóð nr. 16 við Mjódalsveg, Reykjavík. Kærandi telur að hinn fyrirhugaði hitaveitugeymir sé ekki í samræmi við skilyrði og heimildir í deiliskipulagi og að veiting leyfisins sé haldin annmörkum.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga.

Fyrir liggur að allt frá gildistöku deiliskipulags fyrir umrætt svæði árið 2003 hefur verið gert ráð fyrir hitaveitugeymum á umræddri lóð. Með deiliskipulagsbreytingu, sem samþykkt var í borgarráði 29. nóvember 2007 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 30. janúar 2008, var lóðin undir hitaveitugeyma stækkuð ásamt færslu og stækkun byggingarreita. Í skipulaginu er nú gert ráð fyrir að á svæðinu rísi fimm hitaveitugeymar til viðbótar við þá þrjá sem fyrir voru. Áskilnaður er um að öryggismön umhverfis geymana skuli gerð samhliða uppbyggingu á lóðinnni og að óheimilt sé að nota hana sem geymslusvæði eða ráðstafa hlutum hennar til annarra nota en fyrir hitaveitugeyma og mannvirki þeim tengdum. Breytingar sem samþykktar voru á skipulagi svæðisins og tóku gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. desember 2010 voru felldar úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 14. febrúar 2014, en þær breytingar sneru að notkun svæðis undir jarðvegslosun. Í skilmálum deiliskipulagsins er ekki kveðið á um tímamörk á því hvenær öryggismön þurfi að vera komin upp að öðru leyti en því að gengið sé frá henni samhliða uppbyggingu á lóðinni, en sú uppbygging mun hafa hafist árið 1988 og eru heimildir fyrir fjórum hitaveitugeymum enn ónýttar eftir hina kærðu ákvörðun. Samkvæmt framansögðu fer hið kærða byggingarleyfi ekki í bága við gildandi skipulagsáætlanir. Ekki liggur heldur fyrir að framkvæmdin sé háð umhverfismati.

Fyrir liggur að umsókn um að reisa umræddan hitaveitugeymi var samþykkt þar sem gerð er fullnægjandi grein fyrir mannvirkinu og staðsetningu þess á aðaluppdráttum sem umsókninni fygdi. Verður ekki annað séð en að málsmeðferð og afgreiðsla umsóknarinnar hafi verið lögum samkvæmt. Þess ber að geta að framkvæmdir sem háðar eru framkvæmdaleyfi eru á hendi skipulagsyfirvalda að heimila samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, en ekki byggingarfulltrúa sem afgreiðir leyfisskyldar framkvæmdir samkvæmt lögum um mannvirki. Ekki er nauðsynlegt að rekja skipulagsforsendur við samþykki byggingaráforma, en telji byggingarfulltrúi vafa leika á um að áformin samræmist skipulagi skal hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa áður en byggingarleyfi verður veitt, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki, en að öðrum kosti veitir hann byggingarleyfi án slikrar umsagnar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannörkum sem raskað geta gildi hennar og verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. febrúar 2023 um að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi á lóð nr. 16 við Mjódalsveg, Reykjavík.

69/2023 Bakkaflöt

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 22. júní, tók Ómar Stefánsson varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 69/2023, kæra á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 10. janúar 2023 um að veita leyfi fyrir breytingum á þegar samþykktri viðbyggingu við húsið að Bakkaflöt 5 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Bakkaflatar 7 í Garðabæ, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 10. janúar 2023 að veita leyfi fyrir breytingum á þegar samþykktri viðbyggingu við húsið að Bakkaflöt 5 í Garðabæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 21. september 2021 var samþykkt afgreiðsla byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að rífa bílageymslu og byggja við einbýlishús sem stendur á lóðinni Bakkaflöt 5. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 10. janúar 2023 var samþykkt afgreiðsla byggingarfulltrúa um að veita leyfi fyrir breytingum á þegar samþykktum teikningum af viðbyggingu við fyrrgreint hús.

Kærendur vísa til þess að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið haldin verulegum annmörkum. Tveir nefndarmenn skipulagsnefndar Garðabæjar hafi verið vanhæfir til að koma að afgreiðslu og ákvörðun um byggingarleyfisumsóknina og að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við almenna skilmála gildandi deiliskipulags Flata í Garðabæ, sbr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að stöðvun framkvæmda sé undantekningarheimild sem skýra beri þröngt og beri að veita í takmarkatilvikum þegar sérstakar aðstæður eða hagsmunir séu fyrir hendi og veigamikil rök standi til beitingar úrræðisins. Þegar hafi verið lokið við uppsteypu byggingarinnar og frágangur þaks sé langt kominn. Verkinu sé því lokið að því er varði áhrif á kærendur sem hafi ekki fært fram málsástæður eða rök fyrir því að slíkar aðstæður væru uppi í málinu sem réttlættu beitingu svo harkalegs úrræðis sem stöðvun framkvæmda sé.

Af hálfu leyfishafa er bent á að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé það meginregla að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Frá þeirri reglu sé sú undantekning gerð að kærandi geti krafist þess að nefndin úrskurði um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Í þessu máli sé framkvæmdum lokið þar sem einungis eigi eftir að einangra þak, leggja þakpappa og glerja bygginguna. Verði því að telja að lagaheimild bresti til að beita undantekningarheimild laganna eða a.m.k. verði að telja hagsmuni leyfishafa af því að mega loka byggingunni vega þyngra en hagsmuni kærenda af því að stöðva framkvæmdir.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðun en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um samþykki á byggingarleyfisumsókn fyrir viðbyggingu við hús á lóð Bakkaflatar 5. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hefur þegar verið lokið við uppsteypu byggingarinnar og frágangur þaks langt komin. Með hliðsjón af því og að virtum þeim sjónarmiðum sem liggja að baki framangreindum lagaákvæðum verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt þykir þó að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að halda áfram framkvæmdum áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða að Bakkaflöt 5, Garðabæ,  samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.

29/2023 Bláskógabyggð

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 7. desember 2022 um að veita Mílu ehf. byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. febrúar 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Ljósalandi í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 28. nóvember 2022 að veita Mílu hf. byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunar byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 7. desember 2022 um að veita byggingarleyfi fyrir nefndu fjarskiptamastri.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 29. mars 2023.

Málavextir: Hinn 10. desember 2021 óskaði Míla hf. eftir byggingarleyfi til að reisa á lóðinni L176855, Laugarási, Bláskógabyggð, 18 m hátt stálmastur. Á lóðinni er fyrir tækjahús Mílu sem reist var árið 1997 og hýsir fjarskiptabúnað sem þjónar nærliggjandi byggð. Í mastrinu er ætlunin að koma fyrir fjarskiptabúnaði, sem þjónar stærra svæði en nærliggjandi byggð og verður mastrið sjálfberandi stálstaur á steyptum undirstöðum. Umsóknin var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 6. janúar 2022 þar sem afgreiðslu málsins var frestað. Á fundi sveitastjórnar 17. febrúar s.á var málið tekið fyrir að nýju og samþykkt að það fengi málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar.

Umhverfis- og tæknisvið uppsveita sendi 8. mars 2022 til hagsmunaaðilum nærliggjandi lóða bréf, þar sem umsókn um byggingarheimild fyrir fjarskiptamastur var kynnt eigendum í samræmi við 44. gr. laga nr. 123/2010. Var frestur veittur til 12. apríl s.á. til að skila inn athugasemdum. Á fundi sveitarstjórnar 11. maí s.á. voru lagðar fram athugasemdir sem bárust við grenndarkynninguna, m.a. frá kæranda sem fór fram á að mastrinu yrði fundin önnur staðsetning þar sem hæð þess og sýnileiki yrði minni. Fallist var á að fresta málinu og að haft yrði samráð við umsækjanda um hugsanlega breytta staðsetningu mastursins í ljósi fram-kominna athugasemda.

Málið var tekið fyrir að nýju 23. nóvember 2022 hjá skipulagsnefnd sem tók undir andsvör umsækjanda vegna framlagðra athugasemda er bárust vegna málsins. Mæltist skipulagsnefnd til þess við sveitarstjórn að ekki yrði gerð athugasemd við útgáfu byggingarleyfis fyrir uppsetningu fjarskiptamastursins. Málið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 28. s.m. þar sem tekið var undir andsvörin og gerði sveitarstjórn ekki athugasemd við útgáfu byggingarleyfis. Var byggingarfulltrúa falin afgreiðsla málsins og samþykkti hann umsókn um byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á umræddri lóð 7. desember 2022.

 Málsrök kæranda: Kærandi telur fyrirhugaða staðsetningu fjarskiptamastursins vera of nærri heimili hans. Fjarlægð þess sé innan við 100 m frá heimili hans og kæmi það til með að gnæfa 20 m frá jörðu og rýra verulega fegurðarásýnd umhverfisins, verðmæti eigna hans og sölu-möguleika á fasteignum sem væru á lóð hans. Óljóst sé hver áhrif væntanlegrar geislunar frá mastrinu muni hafa á heilsu fólks. Sökum nálægðar fyrirhugaðs masturs við heimili kæranda yrði hann í umtalsvert meiri hættu á heilsuspillandi áhrifum geislunar heldur en þeir sem fjær búi. Að auki myndi það leiða til þess að ættingjar kæmu síður með börn sín í heimsókn ásamt því að möguleikum hans til að stofna fjölskyldu og eignast börn sé stefnt í hættu. Þá komi fjarskiptamastrið til með að hafa áhrif á atvinnuumsvif kæranda á lóð hans sem sé garðyrkjulóð þar sem ræktuð séu matvæli, blóm og tré. Stór hluti neytenda hefði sterkar skoðanir á því við hvaða aðstæður kaupvara þeirra sé ræktuð. Að hafa risavaxið fjarskiptamastur í svo mikilli nálægð við sölustaðinn kæmi til með að fæla stóran hluta viðskiptavina frá.

Að lokum yrði veruleg sjónmengun af ofangreindu mastri á þorpsmynd Laugaráss sem kæmi til með að skaða bæjarmynd þorpsins og rýra gildi þess sem æskilegs búsetustaðar fyrir fólk.

 Athugasemdir sveitarstjórnar Bláskógabyggðar: Vísað er til þess skipulagsvalds sem sveitarfélögum sé gefið sbr. skipulagslög nr. 123/2010. Meðferð málsins hafi verið í samræmi við skyldur sveitarfélagsins samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993, skipulagslögum nr. 123/2010 og gildandi aðal- og deiliskipulag fyrir svæðið.

Umrætt fjarskiptamastur verði staðsett á athafnalóð innan Bláskógabyggðar, nánar tiltekið Athafnasvæði nr. 16 í Laugarási. Kveðið sé á um í gildandi aðalskipulagi fyrir Bláskógabyggð um Laugarás sérstaklega að á athafnasvæðum geti byggst upp léttur iðnaður sem hafi litla mengunaráhættu í för með sér. Fram komi í aðalskipulaginu að endurskoða þurfi að mati sveitarfélagsins stefnu varðandi m.a. fjarskipti og eitt af meginmarkmiðum aðalskipulagsins sé að stuðla að betri fjarskiptum í sveitarfélaginu. Þá sé einnig fjallað þar um framkvæmdir sem séu heimilar án þess að afmarka þurfi sérstaka landnotkun. Eigi það meðal annars við um fjarskiptamöstur.

Í deiliskipulagi fyrir Laugarás í Bláskógarbyggð sem samþykkt hafi verið af sveitarstjórn 29. desember 2011 komi fram í skilmálum fyrir athafnalóðir að mænishæð húsa á lóðunum skuli ekki vera meiri en 10 m og vegghæð ekki hærri en 5 m. Hafi því verið ákveðið á fundi sveitar-stjórnar að fara með umsókn um byggingarheimild til að reisa fjarskiptamastur á lóðinni í sam-ræmi við 44. gr. skipulagslaga.

Fullyrðingum um að fyrirhugað mastur muni hafa áhrif á verðmat eigna kæranda séu ekki studdar neinum gögnum. Um sé að ræða lóð sem skilgreind sé sem athafnasvæði og hafi kæranda því mátt vera ljóst að á lóðinni yrðu reistar byggingar sem kæmu til með að sjást frá lóð hans. Fjarskiptamöstur séu víða að finna í byggð og sé hlutverk fyrirhugaðs fjarskipta-masturs að styrkja fjarskiptasamband á svæðinu líkt og stefna og markmið aðalskipulags Bláskógabyggðar áskilji.

Því sé hafnað að framkvæmdin komi til með að hafa áhrif á ásýnd og ímynd Laugaráss, enda sé það mat sveitarfélagsins að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa óæskileg áhrif. Þá séu fullyrðingar þess efnis að geislun frá mastrinu geti verið skaðleg heilsu kæranda, skert möguleika hans til að stofna fjölskyldu og geti haft áhrif á atvinnurekstur hans ekki studdar neinum gögnum.

 Málsrök leyfishafa: Vísað er til þess að um sé að ræða framkvæmdir á skilgreindu iðnaðar- og athafnasvæði. Sú lóð sem um ræði sé skilgreind sem athafnalóð þar sem gert sé ráð fyrir léttum og hreinlegum iðnaði. Tilefni umræddrar framkvæmdar sé vegna fjölda ábendinga og kvartana um lélegt fjarskiptasamband á umræddu svæði. Sambærileg fjarskiptamöstur sé að finna víða innan þéttbýlis og hefur verið hluti af innviðum landsins í áratugi. Stærð mastursins verði 18 m sem sé lágmarks hæð fyrir mastur á lóðum sem þessum til að geta sem best þjónað öllu nærliggjandi svæði. Bent sé á að mikillar upplýsingaóreiðu og misskilnings virðist gæta víða um geislun frá farsímum og fjarskiptamöstrum. Fullyrðingar kæranda hvað varði mögu-lega geislun og áhrif mastursins á atvinnuumsvif hans séu því ekki studdar neinum gögnum.

Leyfishafi fari í einu og öllu eftir ráðleggingum og reglum Geislavarna ríkisins sem komi frá sjálfstæðri stofnun sem beri nafnið ICNIRP. Nýjustu ráðleggingar þeirra frá árinu 2020 séu strangar varðandi útgeislun. Þær kröfur séu gerðar að útgeislun þar sem búið sé þurfi að vera 50 sinnum lægri en þau viðmiðunarmörk sem ICNIRP hafi metið sem örugga útgeislun. Þessum reglum sé ávallt fylgt eftir.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Vísað er til heimilda á internetinu þar sem rannsökuð hafa verið áhrif fjarskiptamastra á virði fasteigna. Þær réttlætingarástæður sem málsaðilar hafi borið fyrir sig um að lóðin sem stendur til að reisa mastrið á sé iðnaðarlóð breyti ekki þeirri staðreynd að staðsetningin sé alltof nærri heimili kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir 18 m háu fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð, þar sem fyrir er tækjahús með fjarskiptabúnaði. Lóðin er á deiliskipulögðu svæði og var leyfið veitt að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem slík málsmeðferð er heimiluð ef um óverulega breytingu á deiliskipulagi er að ræða.

Í k-lið, greinar 4.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um hvernig farið skuli með stakar skipulagsskyldar framkvæmdir sem ekki er talin þörf á að afmarka sérstaka landnotkun fyrir. Er þar átt við framkvæmdir sem ekki eru taldar líklegar til að valda verulegum áhrifum á umhverfið. Ein þeirra framkvæmda sem þar eru taldar upp eru stök fjarskiptamöstur. Í aðal-skipulagi þarf að koma fram stefna um hvar eða við hvaða aðstæður mannvirkjagerð sem taldar eru þar upp séu heimilar eða óheimilar og aðrar skipulagsforsendur fyrir gerð deiliskipulags eða veitingu leyfa til framkvæmda.

Samkvæmt Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 er umrædd lóð á skilgreindu athafna-svæði, en þar er gert ráð fyrir léttum iðnaði sem hafi litla mengunarhættu í för með sér. Í greinargerð aðalskipulagsins er í kafla 2.4.8 fjallað um stakar framkvæmdir. Kemur þar fram að fjarskiptamöstur í byggð séu heimiluð án þess að afmarka sérstaka landnotkun allt að 20 m há ásamt aðstöðuhúsi allt að 20 m² ásamt lögnum og vegum. Gerð er þó krafa um að hvert tilfelli sé metið og þá hvar fjarskiptamöstur verði heimiluð. Við matið skuli meðal annars tekið tillit til hljóðvistar og fjarlægðar frá landamerkjum, öðrum mannvirkjum, sýnileika og áhrifa á náttúru og landslag.

Um athafnalóðir segir í deiliskipulagi Laugaráss í Bláskógabyggð að mænishæð húsa á lóðunum skuli ekki vera meiri en 10 m og vegghæð ekki hærri en 5 m. Ekki er þar að finna umfjöllun um fjarskiptamöstur. Fjarskiptamastur er byggingarleyfisskylt mannvirki sbr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Í 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. laganna er áskilið að byggingar-leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir til að byggingaráform verði samþykkt og byggingarleyfi gefið út.

Í lokamálsgrein greinar 5.3.2.1. skipulagsreglugerðar er tekið fram að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir umfangi og stærð mannvirkja svo sem virkjana-, fjarskipta- og veitumannvirkja, samgöngumannvirkja o.fl. Þá er einnig tekið fram í gr. 5.3.2.15 að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir staðsetningu og umfangi fjarskiptamastra. Verða slík mannvirki því að eiga stoð í gildandi deiliskipulagi viðkomandi svæðis svo unnt sé að veita byggingarleyfi fyrir þeim.

Svo sem áður greinir var umdeild framkvæmd grenndarkynnt og var síðan tekin afstaða til framkominna athugasemda, málið afgreitt í skipulagsnefnd og staðfest í sveitarstjórn. Hins vegar liggur ekki fyrir að tillaga að breytingu á gildandi deiliskipulagi í tilefni af fyrirhuguðu fjarskiptamastri á umræddri lóð hafi verið send Skipulagsstofnun til yfirferðar og auglýsing birst um samþykki hennar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en skipulagsbreyting tekur fyrst gildi við birtingu þeirrar auglýsingar. Var því óheimilt að veita og gefa út hið kærða byggingarleyfi, sbr. áðurnefnda 11. og 13. gr. mannvirkjalaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hið kærða byggingarleyfi fellt úr gildi.

Úrskurðarorð:

 Ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 7. desember 2022 um að veita Mílu hf. byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð, er felld úr gildi.

41/2023 Seljadalsvegur

Með

Árið 2023, föstudaginn 2. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 24. febrúar 2022 um að samþykkja byggingarleyfi vegna frístundahúss á tveimur hæðum á lóðinni Seljadalsvegi 4, Mosfellsbæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 2. apríl 2023, kærir eigandi sumarbústaðalandsins Lækjartanga þá ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 24. febrúar 2022 að samþykkja byggingarleyfi vegna frístundahúss á tveimur hæðum á lóðinni Seljadalsvegi 4, Mosfellsbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 5. maí 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar 31. janúar 2022 var tekin fyrir byggingarleyfisumsókn vegna Seljadalsvegar 4, þar sem sótt var um leyfi til að byggja 125,1 m2 frístundahús úr steinsteypu og timbri á tveimur hæðum. Var umsókninni vísað til umsagnar skipulagsnefndar sem tók málið til umræðu og afgreiðslu á fundi sínum 18. febrúar s.á., en á þeim fundi lá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 31. janúar s.á., þar sem lagt var til að skipulagsnefnd samþykkti óveruleg frávik deiliskipu­lags um stærð húsa í samræmi við 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsnefnd samþykkti á þeim fundi „óveruleg frávik deiliskipulags um stærð húss og meðhöndlar málið í samræmi við 3. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010, enda samræmist stærð aðalskipulagi. […].“ Byggingarfulltrúi samþykkti byggingar-áform í kjölfarið á afgreiðslufundi 24. febrúar 2022 og gaf út byggingarleyfi 9. ágúst s.á.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að verði hið kærða byggingarleyfi ekki fellt úr gildi verði sumarbústaður kæranda ekki lengur hluti af dreifðri, lágreistri byggð við Hafravatn, heldur hluti af þéttbýliskjarna með fimm stórum húsum. Það muni stórbreyta ásýnd lands kæranda, rýra lífsgæði og verðgildi eignar hans. Þá muni notagildi gróðurhúss vera verulega skert sem og sumarhúss og útivist á landi kæranda vegna hávaða og ónæðis á byggingartíma. Skuggavarp verði á gróðurhús eftir að byggingin rísi.

Farið sé fram á að farið verði að lögum við skipulag og byggingu húss rétt við lóðamörk kæranda, svo sem með upplýsingum um deiliskipulag og grenndarkynningu. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar sé ekki stætt á að vísa til deiliskipulags frá 2017 sem forsendu fyrir útgáfu byggingarleyfis. Ekki hafi verið staðið að deiliskipulagi með lögbundnum hætti. Áður en tillaga að deiliskipulagi sé tekin til afgreiðslu verði að kynna hana íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í bókunum Mosfellsbæjar sé vísað til breytinga á deiliskipulagi en ekki verði séð að nokkurt staðfest deiliskipulag hafi verið í gildi á þeim tíma eftir að tillaga að deiliskipulagi frá 2015 hafi verið samþykkt. Deiliskipulag frá 2017 hafi hvorki verið kynnt nágrönnum né grenndarkynnt.

Kærandi hafi talið að hann yrði upplýstur um svo viðamiklar breytingar á landi, ásýnd þess og yfirbragði sem hið kærða byggingarleyfi feli í sér. Kærandi hafi hvorki fengið leyfi fyrir flutningi sumarbústaðs stutta vegalengd árið 1991 né leyfi fyrir niðurrifi bústaðs og nýjum bústað á sama stað árið 2014 nema að undangenginni grenndarkynningu. Tillaga að deili­skipulagi fyrir svæðið hafi verið ítarlega kynnt með bréfi til nágranna árið 2015 en ekki náð fram að ganga eftir að nágrannar hafi komið sjónarmiðum sínum á framfæri.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að rökstuðningur kæranda fyrir ógildingu hins kærða byggingarleyfis byggist að stærstum hluta á atriðum er varði málsmeðferð við gerð og samþykkt deiliskipulags frístundahúsa á spildu úr landi Miðdals 1. Í 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kveðið á um að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Jafn­framt komi fram að sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Deiliskipulag svæðisins hafi öðlast gildi með auglýsingu þess í B-deild Stjórnartíðinda 19. júlí 2019 og sé kærufrestur vegna þess því liðinn.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærandi hafi lagt fram hafi honum verið kunnugt um útgáfu leyfisins eigi síðar en 22. ágúst 2022 m.v. efni bréfs dags. 4. september s.á. og verið kunnugt um hlutverk úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og lög nr. 130/2011 með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 6. mars 2023. Hin kærða ákvörðun varði samþykki byggingarfulltrúa um byggingaráform frá 24. febrúar 2022 og útgáfu byggingarleyfis 9. ágúst s.á. Samkvæmt fyrirmælum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 samræmist útgáfa byggingarleyfisins sam­þykktu deiliskipulagi að undangenginni samþykkt á fundi skipulagsnefndar 18. febrúar 2022 og hafi verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010.

Bent sé á að skipulagsnefnd hafi samþykkt á fundi sínum 10. apríl 2018 að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi frístundabyggðar á frístundareit F533 skv. Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafi samþykkt afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 18. s.m. Skipulagið hafi verið auglýst og kynnt með almennum hætti í samræmi við 1. mgr. 41. gr. laga nr. 123/2010, sem samsvari kröfum um auglýsingu aðalskipulags í 1. mgr. 31. gr. sömu laga, en þar segi: „Sveitarstjórn skal auglýsa tillögu að aðalskipulagi með áberandi hætti, svo sem í dagblaði sem gefið er út á landsvísu. Tillagan skal einnig auglýst í Lögbirtingablaðinu og vera aðgengileg á netinu.“ Auglýsingin hafi verið framsett og unnin í samræmi við kröfur gr. 5.6.2. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, en hún hafi verið birt í Fréttablaðinu og Lög­birtinga­blaðinu 4. júlí 2018. Vegna orðalags í fyrri auglýsingu sem hafi þurft að leiðrétta hafi skipulagið verið kynnt að nýju í sömu miðlum 31. s.m. Athugasemdafrestur hafi verið til og með 18. ágúst s.á. í samræmi við ákvæði laga og reglugerðar um tímafresti. Engar athugasemdir hafi borist á kynningartíma. Hið staðfesta deiliskipulag sé að öllu leyti í samræmi við ákvæði Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2011-2030 um uppbyggingu frístundabyggða, stærðir lóða og húsa en samkvæmt aðalskipulaginu sem auglýst hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 3. október 2013 sé frístundabyggð skipulögð á svæðinu. Farið hafi verið að lögum við gerð deiliskipulags og hið umdeilda byggingarleyfi sé í samræmi við umrætt deiliskipulag og lögum samkvæmt.

Þó svo að í fundargerð bæjarstjórnar frá 18. apríl 2018 hafi verið vísað til þess að í fundargerð skipulagsnefndar, sem staðfest hafi verið á bæjarstjórnarfundinum, sé misritun þess efnis að umsækjanda sé heimilt að leggja fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi hafi öll máls­meðferð sveitarfélagsins miðast við að um gerð nýs deiliskipulags hafi verið að ræða. Hafi það komið fram á skipulagsuppdrættinum sjálfum, í auglýsingum vegna kynningar deiliskipulags­tillögunnar, í samþykkt bæjarstjórnar 5. september 2018 og í birtingu í Lögbirtingablaði að um nýtt deiliskipulag hafi verið að ræða. Þetta atriði hafi því ekki þau áhrif að deiliskipulagið geti talist ógilt. Með bréfi, dags. 17. september 2018, hafi sveitarfélagið sent deiliskipulagið til Skipulagsstofnunar til athugunar ásamt gögnum um málsmeðferðina í samræmi við 42. gr. laga nr. 123/2010 . Skipulagsstofnun hafi gert tilteknar athugasemdir, sem sveitarfélagið hafi tekið til greina og sent uppfærðan skipulagsuppdrátt til stofnunarinnar með bréfi dags. 8. júlí 2019. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 17. s.m., hafi komið fram að stofnunin hafi ákveðið að taka deiliskipulagið og málsmeðferðina ekki til nánari athugunar. Í kjölfarið hafi samþykkt skipulag verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. s.m. Á grundvelli skipulagsins hafi byggingarfulltrúi samþykkt byggingaráform 24. febrúar 2022 og gefið byggingarleyfi út 9. ágúst s.á.

Vegna málsástæðna kæranda er varða hagsmuni hans vísist til þess að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 31. janúar 2022 hafi byggingarfulltrúi vísað fjórum byggingarleyfis-umsóknum til umsagnar skipulagsnefndar Mosfellsbæjar vegna skilmála deiliskipulagsins. Umsóknirnar hafi verið teknar til umræðu og afgreiðslu á fundi nefndarinnar 18. febrúar s.á. Við umræðuna hafi legið frammi minnisblað og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 31. janúar s.á., þar sem fram hafi komið að um væri að ræða frávik fermetrafjölda á aðaluppdráttum frá gildandi deiliskipulagi. Deiliskipulag hafi takmarkað stærðir húsa við 120 m2 en aðalskipulag hafi heimilað 130 m2 hús í samræmi við stærðir lóða. Stærðir bygginga hafi verið á bilinu 3,4-4,3% stærri en deiliskipulag hafi heimilað og 3,9-4,8% minni en heimilað hafi verið í aðalskipulagi. Um sé að ræða brúttóflatarmál bygginga samkvæmt íslenskum staðli ÍST 50:1998 varðandi byggingarhluta í lokunarflokkum A og B. Undanskilið sé brúttóflatarmál rýma með lægri salarhæð en 1,8 m, sbr. ÍST 21:1971. Skipulagsnefnd hafi samþykkt að meðhöndla frávik húsa, um 4,1-5,1 m2 í samræmi við 3. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010, þar sem stærð hafi samræmst ákvæðum aðalskipulags að fullu. Byggingarfulltrúa hafi því verið heimilt að gefa út hið kærða byggingarleyfi þar sem umsóknin hafi samrýmst lögum um mannvirki nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 112/2012 og kynntum gögnum.

Á fundi skipulagsnefndar 18. febrúar 2022 hafi þeir aðaluppdrættir sem nefndin hafi lagt mat á verið fyrirliggjandi. Á þeim sjáist að fermetrar fari að stórum hluta í kjallara húss sem hafi tvær gluggalausar hliðar, auk þess sem B-rými séu undir skyggni og svölum. Heimildir til byggingar frístundahúsa hafi legið fyrir í aðal- og deiliskipulagi. Búið hafi verið að samþykkja upp­skiptingu lands, skilgreina byggingarreiti og húsagerðir. Samþykkt óverulegra frávika á fundi nefndarinnar hafi því verið í samræmi við heimildir skipulagslaga og kalli ekki á grenndar­kynningu, sbr. 3. mgr. 40. gr. og 2. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010, enda hvorki um nýtt skipulag né skipulagsbreytingu að ræða.

Kærandi hafi ekki mátt gera ráð fyrir því að aldrei yrði neitt byggt á umræddri spildu þar sem eiganda hennar sé heimilt að ráðstafa eign sinni á meðan sú ráðstöfun sé lögum samkvæmt. Sveitarfélagið hafi skilning á að það séu viðbrigði fyrir kæranda að fá mannvirki í nágrenni við sumarhús sitt, þar sem engin hafi verið áður, en á svæði skipulögðu sem frístundasvæði í aðalskipulagi megi ávallt eiga von á slíku. Núgildandi aðalskipulag hafi verið auglýst þann 3. október 2013 en kærandi hafi engu að síður sótt um byggingarleyfi síðar í þeim sama mánuði til að rífa eldra hús á lóð sinni og byggja þar nýtt. Hafi kærandi því ráðist í þær framkvæmdir þrátt fyrir að honum hafi þá mátt vera ljóst að svo kynni að fara að sumarhús yrðu byggð á umræddri spildu.

Bent sé á að það hús sem standa muni næst landi kæranda sé í um 55 m fjarlægð í vestur frá frístundahúsi kæranda. Ekkert í gögnum eða rökum kæranda styðji það sem þar sé haldið fram um skuggavarp. Þá telji sveitarfélagið að ekki verði horft til þess að notagildi sumarhúss kæranda muni rýrna á meðan á framkvæmdum skv. hinu kærða byggingarleyfis standi. Vísan til ætlaðra tímabundinna óþæginda kæranda geti ekki hindrað eiganda spildunnar í að nýta hana til að byggja á henni.

Í deiliskipulagi svæðisins komi fram að markmið þess séu „[a]ð á svæðinu rísi látlaus, lágreist byggð frístundahúsa sem fellur sem best að landi og umhverfi“ og að „[á] lóðum, innan byggingarreits, er gert ráð fyrir að byggja megi einnar hæðar aðalhús/gestahús með/án kjallara“. Öll samþykkt hús á svæðinu séu lágreist einnar hæðar frístundahús með kjallara undir aðalgólfi aðkomuhæðar þar sem húsið sé lagað að landi svo það falli sem best að umhverfi og aðstæðum hverju sinni. Kennisnið uppdrátta heimili kjallara og sé útfærsla teikningar ekki bundin í skipulagi. Teikningar að húsum sýni að aðstæður gefi kost á tveimur gluggahliðum á kjallara. Samkvæmt heimildum deiliskipulags megi mesta hæð húsa og þaks vera 6 m yfir aðalgólfi en samþykktar teikningar sýni að húsin séu 3,12 m yfir aðalgólfi. Ekki sé því rétt að hið kærða byggingarleyfi sé fyrir hús á tveimur hæðum.

———-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um kærumál þetta.

Niðurstaða: Seljadalsvegur 4 er á deiliskipulögðu frístundasvæði í landi Miðdals 1. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í lokamálslið 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að birta skuli auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnar­tíðinda. Deiliskipulag fyrir frístundahúsalóðir í landi Miðdals 1 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. júlí 2019, sem telst til opinberrar birtingar, og er kærufrestur vegna þess því liðinn.

Byggingarfulltrúi samþykkti byggingaráform 24. febrúar 2022 og gaf út hið umþrætta byggingarleyfi 9. ágúst s.á., en kæra vegna leyfisins barst úrskurðarnefndinni 2. apríl 2023. Kærandi sendi bæjaryfirvöldum bréf, dags. 4. september 2022, þar sem farið var fram á að byggingarleyfið yrði ógilt. Kom þar m.a. fram að kærandi hafi orðið var við framkvæmdir 22. ágúst s.á. Kæranda barst svar við erindi sínu 6. september s.á., þar sem fram kom að málið væri í skoðun og svars væri að vænta innan fárra daga. Kærandi áréttaði fyrirspurn sína með tölvupóstum 4. október s.á. og 30. mars 2023. Með tölvupósti, dags. 1. mars 2023, fékk kærandi svar við erindi sínu, þar sem nánar var vikið að efni hins kærða byggingarleyfis. Verður að líta svo á að kæranda hafi fyrst þá verið unnt að taka afstöðu til þess hvort hið kærða leyfi hafi verið innan þeirra marka sem lög, reglugerðir og skipulag hafi heimilað. Er kæra vegna byggingarleyfisins því lögð fram innan lögbundins kærufrests.

Í máli þessu er deilt um leyfi til að byggja 125,1 m2 frístundahús á tveimur hæðum á lóðinni Seljadalsvegi 4. Lóðin er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag fyrir frístundalóðir í landi Miðdals 1, en frístundahús kæranda liggur utan skipulagssvæðisins í u.þ.b. 50 m fjarlægð í austnorðaustur frá fyrirhuguðu frístundahúsi. Í skilmálum deiliskipulagsins kemur fram að byggingarmagn megi vera allt að 120 m2 á lóðum A-D, en lóðin Seljadalsvegur 4 er merkt sem lóð D á skipulagsuppdrætti.

Í 3. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að ef mannvirki er háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skuli hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Í 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. laganna er áskilið að mannvirki sé í samræmi við skipulagsáætlanir til að byggingaráform verði samþykkt og byggingarleyfi verði gefið út.

Líkt og greinir að framan leitaði byggingarfulltrúi umsagnar skipulagsfulltrúa vegna hins umdeilda byggingarleyfis. Í umsögninni, dags. 31. janúar 2022, kom m.a. fram að fyrirhugað mannvirki væri um 3,8% stærra en heimild deiliskipulags tilgreinir, en rúmaðist hins vegar innan ákvæða aðal­skipulags. Lagði skipulagsfulltrúi til að skipulagsnefnd samþykkti óveruleg frávik deiliskipu­lags um stærð húsa í samræmi við 3. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010 og að byggingar­fulltrúa væri þá heimilt að gefa út byggingarleyfi þegar umsókn samræmdist lögum um mann­virki nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 112/2012 og kynntum gögnum.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 123/2010 kemur fram að deiliskipulag sé skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Fjallað er um breytingar á deiliskipulagi í 43. gr. laganna. Í 1. mgr. kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi skuli fara með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða og skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti eða formi viðkomandi svæðis. Í 2. mgr. segir að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning en í 3. mgr. er sveitarstjórn heimilað að víkja frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndar­kynningu þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Felur nefnd 3. mgr. í sér undantekningu frá reglum 43. gr. um auglýsingu eða grenndarkynningu sem ber að skýra þröngt.

Hið umdeilda byggingarleyfi, sem samþykkt var með vísan til 3. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010, heimilar byggingu 125,1 m2 húss, þ.e. 5,1 m2 stærra en heimilað er samkvæmt deiliskipulagi svæðisins. Frístundahús kæranda er í um 50 m fjarlægð frá hinu fyrirhugaða frístundahúsi og er bein sjónlína á milli húsanna. Verður ekki útilokað að útsýni kæranda skerðist að einhverju leyti vegna þeirra viðbótarfermetra sem heimilaðir eru með hinu kærða byggingarleyfi umfram það sem deiliskipulag kveður á um og verður að túlka allan vafa þar um kæranda í vil. Samkvæmt framansögðu verður ekki hjá því komist að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 24. febrúar 2022 um að samþykkja byggingarleyfi vegna frístundahúss á tveimur hæðum á lóðinni Seljadalsvegi 4, Mosfellsbæ.