Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

23/2023 Ásvellir

Árið 2023, fimmtudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2023, kæra á útgáfu byggingarleyfis, dags. 2. febrúar 2023, fyrir knatthúsi og þjónustubyggingu að Ásvöllum 1, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 25. janúar s.á. um að samþykkja greind byggingar­áform.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. febrúar 2023, er barst nefndinni 13. s.m., kæra A og B, Blikaási 4 og 9, Hafnarfirði, útgáfu byggingarleyfis, dags. 2. febrúar 2023, fyrir knatthúsi að Ásvöllum 1, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnar­fjarðar frá 25. janúar s.á. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá er þess krafist að umhverfis­mats­skýrsla framkvæmdaraðila frá því í maí 2022 verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum byggingarleyfisins verði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar upp­kveðnum 17. mars 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 21. febrúar 2023.

Málavextir: Lóðin Ásvellir 1 er samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar. Í greinargerð Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013–2025 kemur fram að Haukar hafi byggt upp fjölbreytta aðstöðu til íþróttaiðkunar á íþrótta­svæði sínu að Ásvöllum sem sé u.þ.b. 16 ha að flatarmáli og að mestu fullbyggt. Deiliskipulag svæðisins á Ásvöllum er frá árinu 2004 og hefur því verið breytt í tvígang. Með breytingu á deiliskipulagi er tók gildi árið 2010 var gert ráð fyrir að reist yrði stórt knatthús fyrir miðju íþróttasvæðisins. Með annarri breytingu, sem birt var í B-deild Stjórnar­tíðinda 27. júlí 2021, var skilgreind ný íbúðalóð vestan íþrótta­­miðstöðvar til að „stuðla að fjölbreyttari landnotkun á svæðinu.“ Sú lóð, sem nefnist Ásvellir 3-5, var að hluta til innan svæðis sem ætlað var knatthúsi samkvæmt eldra deiliskipulagi og var lóðinni úthlutað til byggingaraðila í mars árið 2022. Byggingarreitur knatthússins var við þetta færður nyrst á íþróttasvæðið „til að stuðla að betri nýtingu lóðar og svo byggingin raski sem minnst núverandi íbúðar­byggð í nágrenninu“, að því segir í greinargerð skipulagsins. Með þessu er gert ráð fyrir að húsið rísi vestan­megin við íþróttahús íþróttafélagsins og að lang­hlið þess verði samsíða mörkum frið­landsins við Ástjörn á svæði þar sem áður var grasvöllur og æfingar­svæði.

Íþróttasvæði Hauka liggur steinsnar frá svonefndri Ástjörn, sem var friðlýst árið 1978 sam­kvæmt heimild í þágildandi lögum nr. 47/1971 um náttúruvernd. Verndarsvæði friðlýsingar var stækkað árið 1996 með stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall. Á vefsíðu Hafnarfjarðar greinir frá því að lífríki tjarnarinnar sé fjölbreytilegt og kjörlendi margra fuglategunda því fæðuframboð í tjörninni sé mikið. Sést hafi 44 tegundir fugla við tjörnina, mikið beri á and­fuglum, en mesta athygli veki flórgoði. Tjörnin og nánasta um­hverfi hennar njóti frið­lýsingar vegna fjölskrúðugs fuglalífs og lífríkis. Göngu­stígur liggi um­hverfis tjörnina en á varp­tíma fugla á tímabilinu 1. maí til 15. júlí megi ekki ganga um svæðið.

Hinn 16. mars 2021 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Hafnar­fjarðar­kaupstað um fyrir­hugaða uppbyggingu á íþróttasvæði Hauka að Ásvöllum, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 10.03 í 1. viðauka laganna, sem m.a. varðar mannvirkjagerð íþróttaleikvanga. Varðaði tilkynningin greind áform um breytingu á upp­byggingaráformum á Ásvöllum. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, frá 13. júlí 2021, kom m.a. fram að mikil óvissa væri um áhrif framkvæmda á vatnafar Ástjarnar, fyrir­liggjandi rannsóknir á vatna­fari væru tæplega 20 ára gamlar og töluverð uppbygging hefði orðið á svæðinu í kringum Ás­tjörn á þeim tíma sem kallaði á nýjar rannsóknir. Var það niður­staða stofnunarinnar að fyrir­huguð fram­kvæmd kynni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. við­auka laga um mat á umhverfisáhrifum, og skyldi því háð mati á umhverfisáhrifum. Hinn 25. nóvember 2021 barst Skipulagsstofnun matsáætlun um upp­byggingu á íþróttasvæði Hauka að Ásvöllum samkvæmt 21. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. lið 10.02 í 1. viðauka laganna. Þann sama dag var matsáætlunin kynnt á vefsíðu Skipulagsstofnunar og frestur til athuga­semda veittur­ til 28. desember s.á. Var einnig leitað um­sagna frá Hafnar­fjarðar­­kaupstað, Haf­rannsókna­stofnun, Heil­brigðis­eftirliti Hafnarfjarðar og Kópa­vogssvæðis, sem svo nefndist á þeim tíma, Minja­stofnun Íslands, Náttúru­fræði­stofnun Íslands, Orkustofnun, Umhverfis­stofnun og Veður­stofu Íslands. Athugasemdir bárust frá þeim öllum, að Hafnar­fjarðarkaupstað undan­skildum. Þá bárust jafnframt fjórar umsagnir frá öðrum, þ. á m. frá Land­vernd og öðrum kærenda í máli þessu.

Skipulagsstofnun af­greiddi matsáætlunina 22. febrúar 2022 með áliti, í samræmi við 3. mgr. 21. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 17. gr. laga nr. 111/2021. Í álitinu var gerð grein fyrir atriðum sem fjalla þyrfti um í umhverfismats­skýrslu. Kom þar m.a. fram ábending um að þörf væri á því að meta fleiri valkosti fyrir stað­setningu knatthússins. Þá áleit ­stofnunin að í ljósi verndar­gildis Ástjarnar væri afar brýnt að meta áhrif fram­kvæmd­anna á vatna­bú­skap tjarnar­innar. Gera þyrfti grein fyrir því hvort fram­kvæmdir gætu haft áhrif á vatnsstöðu tjarnarinnar og til hvaða ráðstafana yrði gripið til að svo yrði ekki. Sýna þyrfti í umhverfismats­skýrslu af nokkurri nákvæmni hvernig mannvirkið yrði grundað, gera grein fyrir hvernig staðið yrði að jarðvinnu og hvernig tryggt yrði að ekki yrði farið niður fyrir hæstu vatnsstöðu Ás­tjarnar. Meta þyrfti mengunarhættu á fram­kvæmda­tíma og eftir að framkvæmdum lyki sem og greina frá mögu­legum mót­vægisaðgerðum vegna vatns­­verndar. Þá þyrfti að meta áhrif fyrirhugaðra fram­kvæmda á fuglalíf og lífríki tjarnarinnar og nær­liggjandi votlendis, þar með talið hvort mann­virki hefði hindrandi eða fælandi áhrif á fugla, t.d. ef mann­virki þveri flugleiðir að Ástjörn.

Hinn 4. maí 2022 lagði Hafnarfjarðarkaupstaður fram umhverfismatsskýrslu framkvæmdar­aðila um uppbyggingu á svæðinu til kynningar og athugunar hjá Skipulagsstofnun, sbr. 22. og 23. gr. laga nr. 111/2021. Í skýrslunni var ekki að finna aðra valkosti en í mats­áætluninni, þ.e. valkost A sem var samkvæmt gildandi deiliskipulagi, valkost B sem var samkvæmt deili­skipu­laginu frá 2010 og núllkost, þar sem lýst var óbreyttu ástandi. Framkvæmdin og skýrslan voru aug­lýst í Lögbirtingablaðinu og Fréttablaðinu 2. júní s.á. og Fjarðar­­fréttum 8. s.m. og kom þar fram að allir gætu kynnt sér skýrsluna og lagt fram athugasemdir. Umhverfismatsskýrslan lá frammi til kynningar hjá stofnuninni frá 2. júní til 15. júlí 2022 og var einnig aðgengileg á vef­síðu hennar. Umsagna var leitað hjá Hafnar­fjarðar­kaup­stað, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðis­nefnd Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness, Minjastofnun Íslands, Náttúru­fræði­stofnun Íslands, Orkustofnun, Umhverfis­stofnun og Veður­stofu Íslands og bárust um­sagnir frá þeim öllum ásamt fleirum, þ. á m. frá öðrum kærenda máls þessa. Álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá síðan fyrir 23. september 2022 og taldi stofnunin umhverfismats­skýrsluna uppfylla skilyrði laga nr. 111/2021. Í niðurstöðu álits­ins kom m.a. fram að það væri mat stofnunarinnar að tekin væri áhætta með því að reisa stórt knatthús steinsnar frá viðkvæmri náttúru, líkt og ráðgert væri með valkosti A. Taldi stofnun­in að með hliðsjón af mögulegum áhrifum á Ástjörn og lífríki hennar væri valkostur B betri.

Áform um byggingu íbúðarhúsa á lóðinni að Ásvöllum 3–5 voru sam­þykkt af byggingarfulltrúa Hafnar­fjarðar­­ 21. desember 2022, en áður hafði skipulags­fulltrúa verið falið að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir jarðvinnu á lóðinni. Kæru vegna þeirra áforma, þ. á m. frá kærendum í máli þessu, var vísað frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, með úrskurði sem kveðinn var upp hinn 20. janúar 2023 í máli nr. 146/2022, þar sem framkvæmdirnar voru ekki taldar hafa slík grenndaráhrif að þau vörðuðu lög­varða hagsmuni kærenda í málinu. Í sama máli var einnig kærð ákvörðun byggingarfulltrúa frá 23. nóvember 2022 um samþykkt byggingaráforma vegna knatthúss að Ás­völlum 1. Var það álit úrskurðarnefndarinnar að grenndaráhrif með tilliti til útsýnis vegna knatt­hússins væru ekki slík að vörðuðu hagsmuni tveggja kærenda svo að þeim yrði játuð kæru­aðild, en ekki var talið unnt að útiloka slík áhrif gagnvart eigendum Blikaáss 4 og 9. Var þeim því játuð kæruaðild en þeir eru jafnframt kærendur í máli þessu. Með úrskurði í málinu, upp­kveðnum 20. janúar 2023, var hin kærða ákvörðun felld úr gildi þar sem umsagnar Umhverfis­stofnunar samkvæmt 54. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd hafði ekki verið aflað áður en ákvörðunin var tekin. Þann sama dag barst bæjaryfirvöldum umsögn stofnunarinnar og voru byggingar­áformin samþykkt, að teknu tilliti til hennar af byggingar­­fulltrúa 25. janúar 2023. Byggingar­leyfi vegna knatthússins var gefið út 2. febrúar s.á. Í leyfinu var framkvæmdaraðila gert að fara eftir vöktunar- og viðbragðsáætlun sem og nánari fyrirmælum í samantekt byggingar­fulltrúa vegna afgreiðslu byggingar­leyfis­umsóknar.

Í greindri vöktunar- og viðbragðsáætlun voru sett skilyrði um vöktun tveggja umhverfis­þátta, þ.e. annars vegar vatnafars og lífríkis og hins vegar fugla. Í þeim fyrrnefnda fólst sívöktun á vatnshæð Ástjarnar, eftirlit og hreinsun brunna og mengunareftirlit. Í þeim síðarnefnda fólst vöktun vað- og vatnafugla innan friðlandsins. Þá var gerður fyrirvari um að vöktunaráætlun kynni að breytast vegna nýrra upplýsinga. Vöktun á vatnshæð Ástjarnar feli í sér að fylgst verði með hvort vatnshæð breytist umfram náttúrulega sveiflu og skal Umhverfisstofnun tilkynnt ef hæð hennar fari út fyrir sett viðbragðsmörk og skulu framkvæmdir stöðvaðar reynist niðurstaða grunn­vatnsvöktunar utan ásættanlegra marka á framkvæmdartíma. Þá verði tekin ákvörðun um að­gerðir í samráði við sérfræðing og Umhverfisstofnun ef upp koma aðstæður í grunni knatt­húss sem kunna að hafa áhrif á Ástjörn og geta mögulegar aðgerðir falist í stöðvun fram­kvæmda, grautun, eða öðrum aðgerðum til að þétta berg. Á rekstrartíma hússins skyldi Umhverfis­stofnun tilkynnt ef grunur væri um að mengun hafi borist í Ástjörn. Hvað varði vöktun á fuglalífi felur viðbragðsáætlunin í sér að fylgst verði með mögulegum áhrifum fram­kvæmda á vaðfugla yfir framkvæmdartíma og fyrstu tvö árin af rekstrartíma hússins. Áfram­haldandi vöktun verði ákveðin í samráði við sérfræðinga og Umhverfisstofnun. Felur áætlunin í sér að haft verði samráð við Umhverfisstofnun ef niðurstöður vöktunar gefi til kynna að þess þurfi og ákvörðun verði tekin um fyrirkomulag áframhaldandi vöktunar.

Í samantekt byggingarfulltrúa kom m.a. fram að niðurstaða umhverfismats hefði verið að val­kostir A og B væru í heild taldir hafa óveruleg til talsvert neikvæð áhrif á umhverfisþætti og að áhrifin væru sambærileg á milli valkosta. Hönnun knatthússins hefði tekið breytingum í gegnum matsferlið til að koma til móts við ábendingar frá fagaðilum og almenningi. Undir­stöðum hefði verið breytt og húsinu lyft lítillega frá hæstu vatnastöðu Ástjarnar. Leitast yrði við að draga úr raski á hraunklöpp eins og kostur væri á framkvæmdar­tímanum og tryggja að hún myndi áfram stemmi fyrir tjörnina. Að meðaltali myndu undirstöður ná 1,1 metra niður í hraun­­klöppina. Settar yrðu nákvæmniskröfur á losun klappar, þ.e. verklag og tæki, t.d. um magn hleðslu í borholu, titringskröfur og „pre-splitt“ þannig að tryggt væri að klöpp yrði ekki raskað undir kóta 21,5 m y.s. Þá skyldi leggja ríka áherslu á regnvatnslausnir við framkvæmdir til þess að viðhalda vatnabúskap svæðisins og var mælt nánar fyrir um fyrir­komulag þeirra. Til að draga úr sjónrænum áhrifum vegna jarðrasks yrði reynt að haga frágangi þannig að ummerki eftir efnistöku yrðu hverfandi. Heillegar gróðurtorfur yrðu varðveittar og nýttar við lokafrágang og sárum í landi lokað með grófum hraunmolum þar sem við ætti. Þá var einnig tekin afstaða til umsagnar Umhverfisstofnunar skv. 54. gr. laga nr. 60/2013 og kom m.a. fram að mótvægisaðgerðir úr umhverfismatsskýrslu yrðu hluti af byggingarleyfi og að það væri gert til að fyrirbyggja eins og kostur væri að mengandi efni bærist í vatnasvið Ástjarnar. Þá kom fram að bætt yrði við byggingarleyfið þeirri málsgrein sem Umhverfisstofnun hefði farið fram á en í umsögn hennar hefði komið fram að stofnunin teldi mikilvægt að í byggingar­leyfinu kæmi fram bein tilvísun til efnis auglýsingar um friðlýsingu Ástjarnar við Hafnarfjörð nr. 189/1978 og auglýsingar um stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ás­fjall nr. 658/1996.

Það kom fram að bæjaryfirvöld væru ósammála umsögn Umhverfisstofnunar um að líkur væru á því að vatn úr tjörninni gæti runnið inn í grunn knatthússins en fylgst yrði með stöðu grunnvatns með sírita. Sett yrðu skilyrði um að hávaðasamar framkvæmdir ættu sér stað utan varptíma og miðað við sömu dagsetningar og í skilmálum friðlýsingar, þ.e. frá 1. maí til 15. júlí. Í niðurstöðu samantektar byggingarfulltrúa kom fram að hann teldi ekki grund­vallar­mun á afstöðu sveitarfélagsins og áliti Skipulagsstofnunar og væru þau sammála um helstu umhverfis­áhrif og umfang þeirra. Staðhættir og lífríki Ástjarnar hefðu verið höfð til hlið­sjónar í öllu matsferlinu, við hönnun knatthússins, í mótun verklags á framkvæmdatíma, mótun mót­vægis­aðgerða og vöktunar á rekstrartíma. Með því væri unnt að fylgja eftir stefnu sveitar­félags­ins varðandi uppbyggingu íþróttasvæðisins en um leið draga sem kostur væri úr nei­kvæð­um umhverfis­áhrifum. Hvorki Skipulags­stofnun né bæjaryfirvöld álitu áhrif á umhverfis­þætti umtalsverð eða verulega neikvæð. Þá hefði við ákvörðun um útgáfu bygg­ingar­leyfis verið litið til umhverfissjónarmiða, friðlýsingar Ástjarnar og markmiða náttúru­verndar­laga.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að Ástjörn og fólkvangurinn í kring séu friðlýst og að um sé að ræða afar viðkvæmt svæði með mikla verndarþörf. Skipulagsstofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda að Ásvöllum. Þá sé bent á að samkvæmt c-lið 22. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana skuli umhverfismatsskýrsla m.a. innihalda lýsingu og mat á raunhæfum valkostum. Ákvæðið hljóti að eiga við um raunhæfa valkosti á þeim tíma sem umhverfismatsskýrsla sé gerð en við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda á íþróttasvæðinu að Ásvöllum hafi sú ekki verið raunin. Raunhæfa valkosti verði að telja valkosti þar sem mögulegt sé að reisa knatthúsið.

Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins frá árinu 2010 hafi knatthúsið átt að vera sunnan íþrótta­svæðisins og sé sú staðsetning valkostur B í umhverfismats­skýrslu bæjaryfirvalda frá því í maí árið 2022. Langt sé þó liðið frá því að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi tekið ákvörðun um að þar skyldu rísa íbúðarhús í stað knatthúss. Þannig hafi sveitarfélagið og knattspyrnu­félagið Haukar þegar á árinu 2018 undirritað viljayfirlýsingu þar sem Haukar hafi afsalað sér lóðarskika þar sem áður hafi verið gert ráð fyrir knatthúsinu. Í apríl 2021 hafi bæjarstjóri tekið skóflustungu að knatthúsinu á þeirri staðsetningu sem hin kærða ákvörðun taki til, þ.e. valkosti A í umhverfis­­matsskýrslunni. Skipulagsstofnun hafði þá ekki lokið málsmeðferð um það hvort framkvæmdir á svæðinu, þ. m. t. bygging knatthússins, væri háð mati á umhverfisáhrifum. Það sama haust hafi verið byrjað á stórum æfingavelli sem skarist á við valkost B, en sé á réttum stað samkvæmt valkosti A. Völlurinn hafi verið tyrftur og girtur sumarið á eftir.

Í lok ársins 2021 hafi viljayfirlýsingin frá árinu 2018 verið útfærð nánar með framkvæmda­samningi á milli bæjaryfirvalda og íþróttafélagsins um knatthús að Ásvöllum og eftirgjöf lóðar til byggingar íbúða á íþrótta­svæði félagsins. Hafi bæjaryfirvöld því verið búin að ákveða að fjármagna byggingu knatthússins samkvæmt valkosti A með lóðasölu og valkostur B því ekki verið inni í myndinni. Lóðum undir íbúðarbyggð að Ásvöllum 3–5 hafi verið úthlutað til byggingar­félags í mars 2022 og sé þar um að ræða enn eitt dæmið um að valkostur B hafi ekki verið inni í mynd­inni hjá bæjaryfirvöldum. Hinn 13. maí s.á. hafi bæjarráð Hafnarfjarðar sam­þykkt að bjóða út byggingu knatthúss samkvæmt valkosti A. Í sama mánuði hafi umhverfis­mats­skýrslan verið gefin út og í skýrslunni sé gert ráð fyrir að valkostur B sé enn mögulegur, en tekið fram að verði sá kostur fyrir valinu verði ekki úr frekari íbúða­uppbyggingu.

Í áliti Skipulagsstofnunar frá 23. september 2022 hafi verið tiltekið að stofnunin teldi bæjar­yfirvöld hafa sett framkvæmdinni mjög þröngar skorður með því að binda hana við það svæði sem um ræði og miða stærð knatthúss við skilyrði til að spila í efstu deild. Fyrir vikið hafi að mjög takmörkuðu leyti verið skoðað hvernig unnt væri að byggja knatthús með sem minnstum umhverfisáhrifum. Hikandi afstaða hafi bæði komið fram í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfismatsskýrsluna og í áliti hennar um matsáætlun bæjaryfirvalda, en þar hafi m.a. komið fram að valkostur B virtist óraunhæfur þar sem ráðgerðar íbúðir skerði svæði sem ætlað væri fyrir knatthús. Jafnframt hafi stofnunin talið nauðsynlegt að meta áhrif fyrirhugaðrar íbúða­byggðar á framlagða kosti um uppbyggingu íþróttamannvirkja. Þá hafi stofnunin jafn­framt tekið undir það sem fram hafi komið í umsögnum um að æskilegt væri að skoða fleiri valkosti, en A og B, fyrir staðsetningu knatthúss.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga eigi stjórnvald að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Skipulagsstofnun hefði því ekki átt að láta sér nægja að segja að valkostur B virtist óraunhæfur heldur hafi stofnuninni borið skylda til að kanna svo mikilvægt atriði nægilega til þess að unnt væri að taka upplýsta ákvörðun. Ekkert komi fram í áliti stofnunarinnar um matsskýrsluna sem bendi til þess að bæjaryfirvöld hafi lagt mat á áhrif íbúðarbyggðar á framlagða valkosti eins og stofnunin hafi talið nauðsynlegt. Valkostur B sé augljóslega óraunhæfur og þar með sé umhverfismatsskýrslan ófullnægjandi og ólögmæt.

Umhverfismatsskýrslunni sé jafnframt áfátt um ýmis önnur atriði. Það hafi ekki verið gerðar neinar kannanir á undirlagi knatthúss samkvæmt valkosti B en 16 holur hafi verið boraðar vegna knatt­húss samkvæmt valkosti A og gengið út frá því að báðir kostir myndu sýna sömu niður­stöðu. Þá hafi engin grein verið gerð fyrir því hvaða áhrif kostur B kynni að hafa á nánasta um­hverfi sitt, svo sem á íþróttamiðstöð Hauka og nálæg íbúðarhús. Ekki hafi heldur verið fjallað um bílastæði og mögulegt torg við inngang hússins. Mjög þröngt verði um knatthúsið sam­kvæmt valkosti A en eigi að síður séu áformuð 230 bílastæði við húsið, þar af 135–145 bílastæði að norðanverðu sem snúi að byggðinni og séu ekki á yfirlitsmynd lóðar í umhverfis­mats­skýrslunni. Ekkert sé fjallað um þessi bílastæði í skýrslunni og hugsanlega mengun frá þeim. Samkvæmt skýrslunni séu stæðin nefnd „frágangssvæði“ og muni verða talsvert ónæði af þeim vegna hávaða og lýsingar, m.a. í friðlandinu en þau verði örskammt frá tjörninni.

Það sé óumdeilt að framkvæmdin raski Ástjörn og hrauni sem sé verndað samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd, sbr. 61. gr. laganna. Samkvæmt lögunum skuli forðast röskun nema brýna nauðsyn beri til. Af því leiði að gera verði kröfu um brýna nauðsyn hinnar kærðu framkvæmdar. Fyrirmæli lagagreinarinnar takmarki skipulagsvald sveitarfélaga og sé rök­stuðningur byggingarfulltrúa um brýna nauðsyn fyrir framkvæmdinni haldlaus. Byggingarfulltrúi hafi talið að báðir valkostir, þ.e. A og B, yllu talsverðum neikvæðum áhrifum á hraunið en bæjaryfirvöld telji hins vegar aðra staðsetningu utan íþróttasvæðisins ekki koma til greina.

 Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að um samþykki byggingar­áforma og útgáfa byggingarleyfis fari samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.4.2. og 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Valkostir hafi verið skoðaðir í vinnu við umhverfismatsskýrslu en ekki við samþykki byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis. Við undirbúning, málsmeðferð og töku ákvörðunar um byggingu knatthúss að Ásvöllum hafi öllum lögum og reglum sem við eigi verið fylgt, svo sem skipulagslögum nr. 123/2010, skipu­lags­­reglugerð nr. 90/2013, lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og reglugerð nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, lögum um mannvirki, byggingar­­reglugerð, lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd og lögum nr. 80/2012 um menningar­minjar. Byggingarleyfið sé í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag og álit Skipulags­stofnunar um framkvæmdina liggi fyrir. Framkvæmdaleyfi til slóðagerðar og gróf­fyllingar knatt­spyrnu­­vallar á lóð Hauka að Ásvöllum hafi verið gefið út 21. september 2020. Á afgreiðslu­­­fundi skipulags- og byggingarfulltrúa 15. febrúar 2023 hafi verið lögð fram umsókn um endurútgáfu á framkvæmdaleyfinu vegna áframhaldandi undirbyggingar knattspyrnu­vallarins og heimildar til að nýta burðarhæft efni innan lóðar og hafi skipulags­fulltrúa verið falið að gefa út framkvæmdaleyfi.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja framgöngu sveitarfélagsins við afhendingu gagna bera þess merki að það sé í alla staði vanhæft til að fjalla um og taka til meðferðar sína eigin framkvæmd. Þá hafi verulegir annmarkar verið á að samþykki byggingaráforma, útgáfa byggingarleyfis og samantekt með leyfinu væri í samræmi við lög. Í svörum bæjaryfirvalda til úrskurðarnefndarinnar hafi beinlínis verið gengist við því að valkostir hefðu ekki verið skoðaðir við samþykki byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis, heldur við vinnu umhverfis­matsskýrslu. Liggi því fyrir að umfjöllun Skipulagsstofnunar um áhættu sem tekin væri með valkosti A hefði ekki verið skoðuð við samþykki byggingaráforma eða útgáfu byggingar­leyfis.

—-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um leyfi til byggingar knatthúss á íþróttasvæði Hauka að Ásvöllum og byggja kærendur málatilbúnað sinn aðallega á því að annmarki hafi verið á mati á umhverfis­­áhrifum fyrirhugaðrar uppbyggingar á íþróttasvæði Hauka á Ásvöllum, en bygging knatt­hússins er liður í þeim framkvæmdum. Þess ber að geta að Hafnar­fjarðarkaupstaður er leyfis­hafi í málinu og er byggingarfulltrúi bæjarins leyfisveitandi.

—-

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlut­­verk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 30. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat fram­kvæmda og áætlana eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd skuli háð umhverfis­mati skv. 20. gr. og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda kæran­­legar til úrskurðar­nefndarinnar nema sérlög kveði á um annað. Lögmætisathugun nefndar­innar í máli þessu beinist þó ekki ein­göngu að málsmeðferð og efnislegri niðurstöðu byggingarfulltrúa sem leyfisveitanda heldur einnig, eftir at­vikum, að málsmeðferð Skipulags­stofnunar vegna umhverfismats Hafnarfjarðar­kaup­staðar sem framkvæmdaraðila samkvæmt lögum nr. 111/2021. Verður gildi umhverfis­mats­skýrslu framkvæmdar­­aðila á hinn bóginn ekki borið sérstaklega undir nefndina, svo sem kærendur gera kröfu um, enda felur hún ein og sér ekki í sér stjórnvaldsákvörðun sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993.

Til athugunar er í máli þessu hvort málsmeðferð Skipulagsstofnunar við mat á umhverfis­áhrifum þeirrar framkvæmdar að byggja knatthús og þjónustu­byggingu að Ásvöllum 1 hafi verið haldin ágöllum og þá hvort þeir séu svo verulegir að á matinu verði ekki byggt. Jafnframt hvort máls­meðferð byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar­kaup­staðar hafi verið ábótavant við leyfis­veitingu að teknu tilliti til þess mats á umhverfisáhrifum sem fram fór. Við útgáfu byggingar­leyfis vegna framkvæmdar sem undir­gengist hefur mat á umhverfisáhrifum eru skyldur byggingarfulltrúa sem leyfisveitanda ríkar. Ber byggingar­fulltrúa þannig að fylgja þeim málsmeðferðarreglum sem mælt er fyrir um í lögum um mann­virki nr. 123/2010 og lögum nr. 111/2021 og sjá til þess að skilyrði þeirra laga séu upp­fyllt. Jafnframt getur byggingar­fulltrúa við leyfisveitinguna verið skylt að líta til efnis- og form­reglna annarra laga, s.s. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá er byggingarfulltrúi sem endra­­­nær bundin af ákvæðum stjórn­sýslulaga og óskráðum meginreglum stjórn­sýslu­­réttar.

—-

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 111/2021 er umhverfis­mat framkvæmda ferli sem samanstendur af nánar tilgreindum þáttum sem tíunduð eru í fimm stafliðum, þ. á m. afgreiðslu matsáætlunar, sbr. a-lið og álit Skipulagsstofnunar um umhverfis­mat framkvæmdarinnar, sbr. d-lið. Í síðasta þætti ferilsins, þ.e. e-lið, er svo til­greint að álit stofnunarinnar sé lagt til grundvallar við af­greiðslu umsókna um leyfi til fram­kvæmda. Sam­kvæmt 1. mgr. 18. gr. laganna ber fram­kvæmdaraðili sem hyggst hefja mats­skylda framkvæmd ábyrgð á umhverfismati hennar og skal hann vinna mats­áætlun, sbr. 21. gr., og umhverfismatsskýrslu þar sem gerð er grein fyrir umhverfismati fram­kvæmdar­innar, sbr. 22. gr.

Samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 21. gr. laga nr. 111/2021 skal framkvæmdaraðili leggja álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun til grund­vallar við umhverfismat fram­kvæmdar­innar og skal álitið fela í sér leiðbeiningar til framkvæmdaraðila um vinnslu, efni og framsetningu umhverfismatsskýrslu, m.a. með hliðsjón af framkomnum um­sögnum, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Skal gerð og efni umhverfismats­skýrslu vera í sam­ræmi við mats­áætlun og álit Skipulagsstofnunar um hana, sbr. 2. mgr. 22. gr. sömu laga. Í c-lið 1. mgr. 22. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að umhverfismatsskýrsla framkvæmdar­aðila skuli innihalda lýsingu og mat á raunhæfum valkostum sem framkvæmdar­aðili hafi kannað og upplýsingar um helstu ástæður fyrir þeim valkosti sem var valinn, með tilliti til umhverfis­áhrifa framkvæmdarinnar.

Tilgangur mats á mismunandi valkostum er einkum að sá sem beri ábyrgð á matinu velti fyrir sér raunhæfum valkostum og mótvægisaðgerðum í þeim tilgangi að draga úr umhverfisáhrifum og er samanburður umhverfisáhrifa raunhæfra valkosta höfuðatriði við mat á umhverfis­áhrifum. Þá ber að kynna bæði matsáætlun og umhverfismatsskýrslu fyrir almenningi og veita með því tækifæri á athugasemdum, sbr. 2. mgr. 21. gr. og 1. mgr. 23. gr. laga nr. 111/2021. Geta athugasemdir frá almenningi og aðilum sem hafa hagsmuna að gæta haft verulega þýðingu, t.a.m. um það hvaða valkosti umhverfismat lýtur að. Um leið verður að viðurkenna ákveðið forræði framkvæmdaraðila um það hvaða valkosti hann leggi fram sem uppfylli markmið viðkomandi framkvæmdar enda sé matið reist á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum. Rök­­studdar athugasemdir sem lúta að valkostamati geta þó leitt til þess að framkvæmdar­aðila sé rétt eða skylt í ferli umhverfismats að fjölga valkostum eða bæta úr lýsingu á þeim.

Í matsáætlun vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á íþrótta­svæði Hauka að Ásvöllum var lagt til að mat yrði lagt á þrjá valkosti, A, B og núllkost, þ.e. óbreytt ástand. Fram kom að ekki væri talið æskilegt að uppbygging íþróttamannvirkja Hauka færi fram á öðrum svæðum enda markmið fram­kvæmdar­innar að styrkja þá starfsemi sem fyrir væri á Ásvöllum og nýta um leið þá innviði sem þar væru til staðar. Taldi framkvæmdaraðili, þ.e. bæjaryfirvöld, að uppbygging á íþrótta­svæðinu væri mikil­væg fyrir íbúa og nýtti vel fjárfestingu í innviðum. Upp­bygging íþrótta­svæðis á öðrum stöðum gæti síður mætt þeim markmiðum sem sett væru í skipulagi eða verið til þess fallin að valda minni umhverfisáhrifum. Var það jafnframt mat fram­kvæmdaraðila að fyrir lægju skýrir hagsmunir sem fælust í bættri þjónustu við íbúa og aðgengi að henni, sem vægju upp þau neikvæðu áhrif sem yrðu, m.a. vegna rasks á hrauni.

Í umsögnum við matsáætlunina voru m.a. gerðar athugasemdir við að einungis væri lagt mat á tvo valkosti, þ.e. A og B. Til að mynda kom fram í umsögn Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis að núllkostur kæmi vart til greina og gilti hið sama um kost B sem ekki væri raunhæfur. Greining valkosta þar sem í raun væri aðeins einn valkostur væri ekki í anda laga nr. 111/2021 og leggja yrði fram aðra kosti til að bera saman við kost A. Taldi heilbrigðiseftirlitið að fjölga þyrfti valkostum í matsáætlun. Meta ætti hvort minna mann­virki myndi ekki fullnægja raunverulegri þörf samfélagsins fyrir knatthús og ef svo væri hvort það myndi valda minna álagi innan friðlandsins og minni líkum á röskun á grunnvatnsflæði. Í umsögn Umhverfisstofnunar kom með líkum hætti fram að í mats­áætlun væri lítil áhersla lögð á samanburð við núllkost og að þar sem framkvæmdin hefði ekki áður farið í mat á umhverfis­áhrifum væri mikilvægt að umhverfisáhrif valkostanna tveggja væru bornir saman við nú­verandi ástand. Þá væri lítil áhersla lögð á umhverfisáhrif æfingavallanna þriggja sem fyrir­hugaðir væru syðst á lóðinni, en mikilvægt væri að meta umhverfisáhrif framkvæmdanna að Ásvöllum í heild sinni. Í umsögnum frá einstaklingum komu fram áþekk sjónarmið um skort á valkostum. Þar var m.a. bent á að Haukar hefðu látið bæjaryfirvöldum eftir lóð undir íbúðir á Haukasvæðinu sem yrði tekjustofn fyrir bæinn, en á bæjarstjórnarfundi 22. janúar 2022 hafi verið bókað af meirihluta bæjarstjórnar að framkvæmdir við nýtt knatt­hús myndu hefjast í takt við sölu lóða. Samkvæmt úttekt á ársreikningum sveitarfélaga árið 2019 hefði Hafnar-fjarðarkaupstaður verið mjög skuldugur, og væri kannski enn. Hlyti skýringin á valkosti A því fyrst og fremst að vera slæm fjárhagsstaða bæjarins.

Í áliti Skipulags­stofnunar við matsáætlunina frá 22. febrúar 2022 var um valkosti tekið fram að stofnunin tæki undir það sem fram kæmi í umsögnum um að í ljósi nálægðar við Ástjörn, verndar­stöðu og viðkvæmni svæðisins væri æskilegt að skoða frekari valkosti fyrir stað­setningu knatthúss. Þá kom og fram að nauðsynlegt væri að meta áhrif fyrirhugaðrar íbúða­byggðar á framlagða kosti um uppbyggingu íþróttamannvirkja og að miðað við myndræna fram­setningu kosta í matsáætlun virtist valkostur B óraunhæfur þar sem ráð­gerðar íbúðir skertu svæði sem ætlað væri fyrir knatt­hús samkvæmt honum.

Í umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila er rakið að valkostur A byggi á núgildandi skipu­lagi en valkostur B á fyrri hugmyndum og eldra skipulagi. Núllkostur feli í sér óbreytt ástand og að ekki yrði af framkvæmdum og var tekið fram að hann væri ekki talinn koma til greina sem raun­hæfur valkostur þar sem hann upp­fyllti ekki markmið um að efla starfsemi og stuðla að fjöl­breyttari notkun á íþróttasvæði Hauka eða tryggja aukið framboð íbúðarhúsnæðis. Núll­kostur væri notaður sem grunnviðmið til að meta áhrif framkvæmda á umhverfið og með honum kæmi ekki til þeirra áhrifa sem aðrir valkostir hefðu í för með sér. Yrði valkostur B fyrir valinu væri ekki hægt að koma fyrir íbúðabyggð í samræmi við gildandi skipulag þar sem byggingarreitur knatthúss og íbúðarlóðar samkvæmt skipu­lagi, skarist. Yrði hið sama uppi á teningnum þótt knatthúsinu yrði snúið. Uppbygging á íþróttasvæðinu væri mikilvæg og lægju fyrir skýrir hagsmunir til að bæta þjónustu við íbúa og aðgengi að henni. Markmiðið væri að styrkja þá starfsemi sem þegar væri til staðar á svæðinu með því að nýta núverandi innviði sem best, s.s. gatnakerfi, veitukerfi og skólaþjónustu. Þá væri einnig tilgangurinn að tryggja aukið framboð íbúðarhúsnæðis, í sam­ræmi við markmið húsnæðisstefnu Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013–2025.

Í þessu sambandi bendir úrskurðarnefndin á að framkvæmdaraðila hefur verið játað ákveðið forræði á því hvaða kosti hann leggi fram til mats, sem séu til þess fallnir að ná markmiðum framkvæmdar. Mismunandi valkostir geti falist í mismunandi staðsetningu, umfangi, tilhögun, tæknilegri útfærslu o.s.frv. Athafnasvæði Hauka á Ásvöllum hefur verið skilgreint sem íþrótta­svæði í skipulagi um alllangan tíma, en það er um 15 ha að flatarmáli. Fyrir eru á svæðinu ýmis mannvirki og íþróttavellir sem ætluð eru til íþróttaiðkunar. Þar er einnig óraskað hraun. Ekki verður gerð athugasemd við það mat bæjarins að uppbygging íþróttasvæðis á öðrum stöðum geti síður mætt þeim markmiðum sem að væri stefnt með framkvæmdinni. Þá er ekki óeðlilegt að í umhverfismati sé horft til þeirra áforma sem sýnd hafa verið í eldra deili­skipulagi, svo sem við hafi átt um valkost B. Í ljósi athugasemda umsagnaraðila og Skipulags­stofnunar um mat á valkostum verður þó talið að í matsskýrslu hefði verið tilefni til að gera nánari grein fyrir því af hvaða sökum aðrir valkostir, t.d. um minna mannvirki, þættu ekki koma til álita. Fram hefur komið að svo til samhliða því að unnið var að umhverfismati seldu bæjaryfirvöld frá sér hluta þess lands sem hefði verið hagnýttur ef stuðst hefði verið við valkost B. Þetta var til þess fallið að takmarka möguleika almennings til trúverðugrar þátttöku í undir­búningi framkvæmdarinnar. Um leið athugast að í lögum er ekki kveðið á um lágmarks­fjölda valkosta sem verði metnir í umhverfismatsskýrslu. Fyrir þessu voru auk þess færð skipulagsleg rök um mikilvægi þess að stuðla að fjölbreyttari notkun svæðisins með uppbyggingu íbúða samkvæmt valkosti A. Með hliðsjón af því, stað­háttum og eðli þeirrar framkvæmdar sem hér um ræðir verður ekki talið að þessi ágalli á mats­skýrslunni sé svo verulegur að varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

—-

Í umhverfismatsskýrslu vegna framkvæmdarinnar greinir að helstu áhrif hennar felist í sjón­rænum áhrifum vegna knatthúss, raski á eldhrauni og áhrifum á fuglalíf við Ástjörn. Um grundun mannvirkisins kemur m.a. fram að neðri brún undirstaða spyrnuveggja muni standa 0,6 m fyrir ofan hæstu vatnsstöðu Ástjarnar sem sé 21 m y.s. en til að vernda lekt stemmis, þ.e. jarðlaga sem haldi aftur af vatni í Ástjörn, sé lagt til bæði í umhverfisskýrslu með deiliskipulagi og matsskyldufyrirspurn að bilið á milli hæstu grunnvatnshæðar Ástjarnar, 21 m y.s., og hæð graftarbotns sé minnst 0,5 m. Í skýrslunni er álitið að valkostirnir séu í heild sinni taldir hafa óveruleg til talsvert neikvæð áhrif á umhverfisþætti. Voru áhrifin talin sambærileg á milli valkosta. Neikvæð áhrif voru helst talin vegna rasks á eldhrauni sem nyti verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013, en að mati framkvæmdaraðila, þ.e. bæjaryfirvalda, var talið óhjákvæmilegt að raska hrauni og hefði þó verið leitast við að draga úr því eins og kostur væri. Af hálfu nefndarinnar verður ekki gerð athugasemd við þetta mat en til þess er þá einnig að líta að svæðið sem um ræðir er þegar raskað og verndargildi þess minna en ella svo sem rakið er í umhverfismatsskýrslu.

Við umhverfismatið lá fyrir skýrsla sérfræðinga um fuglalíf á og við Ástjörn, þar sem leitast var við að greina áhrif framkvæmda bæði á framkvæmdatíma og til lengri tíma. Á grundvelli þeirrar skýrslu er í samantekt byggingarfulltrúa ályktað að heldur meira öryggi og ró í umhverfinu virðist felast í kosti A og hann sé því líklega betri fyrir fuglalíf til lengri tíma litið, með hliðsjón af þáttum eins og skuggum af mannvirkjum, hæð mannvirkja, ónæði af ljósum og hávaða. Þessi umfjöllun í samantektinni hefði mátt vera ítarlegri enda óvissu til að dreifa um ályktanir, svo sem segir í sérfræðiskýrslunni, en hún styður þó um leið þá ályktun að valkostirnir séu í heild taldir hafa óveruleg til talsvert neikvæð áhrif á umhverfisþætti og áhrifin séu sambærileg á milli þeirra.

—-

Lokaliður mats á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021 felst í því að álit Skipulags­stofnunar á umhverfismatskýrslu er lagt til grundvallar við afgreiðslu umsókna um leyfi til framkvæmda, sbr. e-lið 1. mgr. 17. gr. laganna. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfis­áhrifum lá fyrir 25. september 2023. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 111/2021 skal í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar fjalla um forsendur, aðferðir og ályktanir um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar í umhverfis­matsskýrslu framkvæmdaraðila. Þá skal þar koma fram rökstudd niðurstaða um umhverfismat framkvæmdarinnar og eftir því sem við á skal þar greina skilyrði um mótvægisaðgerðir og vöktun.

Í samantekt byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar vegna útgáfu hins kærða byggingar­leyfis kemur fram að bæjaryfirvöld, þ.e. leyfisveitandi, hafi ítarlega yfirfarið niðurstöður umhverfismats, skýrslur sérfræðinga, mælingar á vatnshæð Ástjarnar, umsagnir og athuga­semdir, hönnunargögn, mótvægisaðgerðir og vöktunaráætlanir. Í samantektinni er sett fram afstaða bæjaryfirvalda til álits Skipulagsstofnunar, þ. á m. varðandi samanburð valkosta og áhrif á jarðminjar, vatnafar og lífríki. Verður því ekki annað séð en að leyfisveitandi hafi kynnt sér umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og lagt álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar, sbr. 3. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021.

Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 skal leyfisveitandi tilkynna Skipulagsstofnun um útgáfu leyfis vegna matsskyldra framkvæmda og birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína og gera leyfi sem og greinargerð með því aðgengilegt almenningi á netinu innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Í auglýsingunni skal tilgreina kæruheimild og kærufrest. Ekki verður ráðið að gætt hafi verið að þessu við útgáfu hins kærða byggingarleyfis. Verður sá annmarki þó ekki talinn hafa áhrif á gildi leyfisins en athygli er vakin á því að samkvæmt 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu.

—-

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Í 13. gr. laganna er fjallað um útgáfu byggingarleyfis. Þar kemur fram í 1. tölulið 1. mgr. að skilyrði fyrir útgáfu þess sé að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum er hið kærða byggingarleyfi í sam­ræmi við gildandi deiliskipulag svo sem áskilið er samkvæmt ákvæðinu.

Að framangreindu virtu liggur ekki fyrir að hið kærða byggingarleyfi sé haldið slíkum form- eða efnisannmörkum að varði ógildingu þess verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kærenda um að umhverfismatsskýrsla framkvæmdar­aðila frá því í maí 2022 verði felld úr gildi.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis, dags. 2. febrúar 2023, fyrir knatthúsi og þjónustubyggingu að Ásvöllum 1, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 25. janúar s.á. um að samþykkja greind byggingar­áform.