Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

69/2023 Bakkaflöt

Árið 2023, fimmtudaginn 22. júní, tók Ómar Stefánsson varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 69/2023, kæra á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 10. janúar 2023 um að veita leyfi fyrir breytingum á þegar samþykktri viðbyggingu við húsið að Bakkaflöt 5 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Bakkaflatar 7 í Garðabæ, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 10. janúar 2023 að veita leyfi fyrir breytingum á þegar samþykktri viðbyggingu við húsið að Bakkaflöt 5 í Garðabæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 21. september 2021 var samþykkt afgreiðsla byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að rífa bílageymslu og byggja við einbýlishús sem stendur á lóðinni Bakkaflöt 5. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 10. janúar 2023 var samþykkt afgreiðsla byggingarfulltrúa um að veita leyfi fyrir breytingum á þegar samþykktum teikningum af viðbyggingu við fyrrgreint hús.

Kærendur vísa til þess að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið haldin verulegum annmörkum. Tveir nefndarmenn skipulagsnefndar Garðabæjar hafi verið vanhæfir til að koma að afgreiðslu og ákvörðun um byggingarleyfisumsóknina og að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við almenna skilmála gildandi deiliskipulags Flata í Garðabæ, sbr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að stöðvun framkvæmda sé undantekningarheimild sem skýra beri þröngt og beri að veita í takmarkatilvikum þegar sérstakar aðstæður eða hagsmunir séu fyrir hendi og veigamikil rök standi til beitingar úrræðisins. Þegar hafi verið lokið við uppsteypu byggingarinnar og frágangur þaks sé langt kominn. Verkinu sé því lokið að því er varði áhrif á kærendur sem hafi ekki fært fram málsástæður eða rök fyrir því að slíkar aðstæður væru uppi í málinu sem réttlættu beitingu svo harkalegs úrræðis sem stöðvun framkvæmda sé.

Af hálfu leyfishafa er bent á að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé það meginregla að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Frá þeirri reglu sé sú undantekning gerð að kærandi geti krafist þess að nefndin úrskurði um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Í þessu máli sé framkvæmdum lokið þar sem einungis eigi eftir að einangra þak, leggja þakpappa og glerja bygginguna. Verði því að telja að lagaheimild bresti til að beita undantekningarheimild laganna eða a.m.k. verði að telja hagsmuni leyfishafa af því að mega loka byggingunni vega þyngra en hagsmuni kærenda af því að stöðva framkvæmdir.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðun en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um samþykki á byggingarleyfisumsókn fyrir viðbyggingu við hús á lóð Bakkaflatar 5. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hefur þegar verið lokið við uppsteypu byggingarinnar og frágangur þaks langt komin. Með hliðsjón af því og að virtum þeim sjónarmiðum sem liggja að baki framangreindum lagaákvæðum verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt þykir þó að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að halda áfram framkvæmdum áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða að Bakkaflöt 5, Garðabæ,  samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.