Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

78/2023 Urðarstígur

Árið 2023, föstudaginn 21. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 78/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023, um að samþykkja leyfi til viðbyggingar við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Urðarstígs 6 og 6a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023, að samþykkja leyfi til viðbyggingar við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Kærandi gerir jafnframt þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. júlí 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars. sl. var samþykkt leyfi til að byggja viðbyggingu við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Við athugun byggingarfulltrúa og eldvarnareftirlits, eftir að kæra þessa kom til nefndarinnar, var álitið að brunavörnum væri áfátt. Í framhaldi þess stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdir á lóðinni 5. júlí. sl. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. júlí sl. var síðan samþykkt umsókn um breytingu varðandi bættar brunavarnir á suðurgafli fyrirhugaðrar viðbyggingar. Í framhaldi aflétti byggingarfulltrúi stöðvun framkvæmda. Var sú ákvörðun, sem fól í sér útgáfu nýs byggingarleyfis, einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar og hefur fengið málsnúmerið 86/2023.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst hafa gert athugasemdir við breytingu á deiliskipulagi vegna framkvæmdanna fyrir Urðarstíg 4 þess efnis að fara skyldi eftir fyrirmælum reglugerðar sem varði brunavarnir og fjarlægð frá lóðarmörkum. Engin gögn hafi ó borist honum um hvernig brugðist hafi verið við þeim athugasemdum. Við útgáfu byggingarleyfisins hafi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, um fjarlægð milli húsa með tilliti til brunavarna ekki verið fylgt eftir. Fjarlægð viðbyggingar Urðarstígs 4 frá húsinu að Urðarstíg 6A sé hvorki nefnd í deiliskipulagi né byggingarleyfi, enda um að ræða brot á reglugerð. Viðbyggingin við suðurgafl Urðarstígs 4 sé um einn metra frá Urðarstíg 6A og innan við 6 metra frá Urðarstíg 6. Þessar fjarlægðir komi ekki fram með réttum hætti á teikningum. Þetta séu mun minni fjarlægðir en reglugerð heimili. Þá sé skúrbygging á lóð Urðarstígs 4 í 50 cm fjarlægð frá útvegg Urðarstígs 6A og á lóðarmörkum sem stórauki hættu á reitnum án þess að tekið hafi verið tillit til þessa við afgreiðslu byggingarleyfis.

Þær undanþágur sem veittar hafi verið með þessu frá reglugerð séu óskiljanlegar í ljósi þess að húsin við Urðarstíg 4 og 6 séu gömul timburhús og húsið á Urðarstíg 6A sé byggt árið 1922  úr holsteini og sé með stórt þakskyggni úr viði. Veruleg brunahætta hafi orðið til með breytingum á deiliskipulagi og veitingu byggingarleyfis. Sér hafi ekki verið kynnt að byggingafulltrúi hygðist gefa undanþágur frá reglugerð og ekki hafi verið gætt meðalhófs við meðferð málsins. Þess er krafist að framkvæmdir verði umsvifalaust stöðvaðar og teikningum breytt þannig að fjarlægðir á milli húsanna og viðbyggingar, sem settar sé fram í bruna- og byggingareglugerð verði að fullu virtar án undantekninga. Jafnframt að gluggalaus brunaveggur verði látinn snúa að húsunum á Urðarstíg 6 og 6A sem og að leyfi fyrir svölum og stiga sem snúi að Urðarstíg 6 og 6A, í mjög lítilli fjarlægð frá lóðarmörkum, verði afturkallað. Þá er þess óskað að skúrbygging sem standi í leyfisleysi 50 cm frá útvegg Urðarstígs 6A verði færð 3 metra frá lóðarmörkum og tekin inn í brunaúttekt á framkvæmdum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er staðhæft að fjarlægð frá húsinu á Urðarstíg 6 að steyptum kjallara viðbyggingarinnar sé um 6 metrar. Einnig séu 6 metrar frá efri hæð viðbyggingarinnar og að sömu byggingu. Því sé ekki talin vera sambrunahætta fyrir hendi. Samkvæmt samþykktu breytingarerindi frá 11. júlí sl. vegna suðvesturhorns viðbyggingarinnar sem snúi að Urðarstíg 6A verði gluggar í viðbyggingu með brunakröfu E30 og utanhúsklæðning eldvarin timburklæðning í flokki 2. Sé þannig ákvæðum gr. 9.6.26 (töflu 9.0) varðandi glugga, gr. 9.7.3., varðandi timburklæðningu og 9.7.5 (tafla 9.09) varðandi lágmarksfjarlægðir á milli bygginga uppfyllt. Í ljósi framangreinds og á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra fresti ekki réttaráhrifum beri jafnframt að hafna kröfu um stöðvun framkvæmda og kveða upp fullnaðarúrskurð í málinu.

Málsrök leyfishafa: Hafnað er fullyrðingum kæranda um að fjarlægð viðbyggingar sé ekki í samræmi við reglugerð. Í brunavarnarlýsingu á aðaluppdrætti fyrir Urðarstíg 4 komi fram að fjarlægð í næstu byggingu frá kjallara sé um 6 metrar og um 6.6 metrar séu frá efri hæð og að sömu byggingu. Við hönnun viðbyggingarinnar hafi verið hugað sérstaklega að þessu og hafi verkfræðingur verið fenginn til þess að kynna málið fyrir slökkviliði höfuðborgarsvæðisins þann 8. nóvember 2022. Jafnframt er staðhæft að fjarlægð milli viðbyggingar Urðarstígs 4 og Urðarstígs 6A sé 1.70 metrar en ekki 1 metri. Einnig sé því hafnað að engar fjarlægðarmælingar hafi verið sýndar á milli húsanna. Hið rétta sé að á uppdrætti í deiliskipulagstillögu komi fram að útveggur viðbyggingar nái 300 cm frá húsinu. Að auki hafi aldrei staðið til að hafa aðeins tvo glugga á þeirri hlið Urðarstígs 4 sem snúi að Urðarstíg 6A. Þá sé skúrbygging sú sem kærandi fari fram á að verði færð um þrjá metra 14.9 fermetrar og hafi því ekki þarfnast byggingarleyfis. Þá hafi skýrinn verið reistur áður en kærandi varð eigandi að Urðarstíg 6A og með samþykki fyrrverandi eigenda. Af fyrirliggjandi gögnum málsins megi glögglega sjá að málið hafi fengið alla þá málsmeðferð sem tilgreind sé í skipulagslögum nr. 123/2010 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023, um að samþykkja leyfi til viðbyggingar við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Meðan mál þetta var til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni voru framkvæmdir stöðvaðar af byggingarfulltrúa vegna brunavarna. Gefið var út nýtt byggingarleyfi 11. júlí sl. sem hefur verið kært til nefndarinnar en með því var fyrra leyfi fellt niður. Í ljósi þess verður kæru þessari vísað frá nefndinni, enda á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn nefndarinnar um gildi þess leyfis.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.