Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

75/2023 Reynimelur

Árið 2023, miðvikudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2023 um synjun umsóknar um að rjúfa og fjarlægja hluta af steyptu grindverki á lóðarmörkum að Hofsvallagötu og gera tvö bílastæði fyrir parhús á lóð nr. 55 við Reynimel.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. júní 2023, er barst nefndinni 26. s.m., kæra eigendur Reynimels 55, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2023 að synja umsókn um að rjúfa og fjarlægja hluta af steyptu grind­verki á lóðarmörkum að Hofsvallagötu og gera tvö bílastæði fyrir parhús á lóð nr. 55 við Reynimel. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. júlí 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 7. mars 2023, var tekin fyrir umsókn kærenda, dags. 17. febrúar s.á., þar sem sótt var um leyfi til að rjúfa og fjarlægja hluta af steyptu grindverki á lóðarmörkum að Hofsvallagötu og gera tvö bílastæði á lóð nr. 55 við Reynimel. Málinu var frestað og vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn hans, dags. 18. apríl s.á., kom fram að „[þ]ótt að bílastæði séu sýnd á uppdrætti í gildandi deiliskipulagi, og einnig sögð heimil skv. skilmálatöflu fyrir lóðina, þá teljast ákvæði deiliskipulags um varð­veislu garðveggja og að óæskilegt sé að gera nýjar innkeyrslur á grónar lóðir hafa hærra lagalegt vægi“. Var því ekki fallist á erindið af hálfu skipulagsfulltrúa. Í kjölfarið var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. maí s.á. og því synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að í deiliskipulagi staðgreinireits 1.540, Melar norðan Hagamels, séu gefnar heimildir fyrir hóflegum viðbyggingum og breytingum á húsum. Í greinargerð skipulagsins, í kafla um geymslur, bílastæði og vinnustofur, komi fram að almennt sé óheimilt að gera nýjar innkeyrslur á grónar lóðir og því sé heimild til að byggja bílageymslur á lóð einskorðuð við þær lóðir þar sem innkeyrsla eða bílastæði hafi verið í notkun miðað við úttekt haustið 2009. Í sérskilmálum skipulagsins megi sjá að þessum áherslum sé fylgt hvað varði þær götur þar sem húsaraðir með samræmdum framhliðum snúi að götu­rýmunum og samræmt yfirbragð sé á inngöngum, tröppum og steyptum garðveggjum.

Markmiðið um að ekki megi gera nýjar innkeyrslur á lóðir eigi hins vegar ekki við um innkeyrslur frá Hofsvallagötu og Furumel. Í kafla deiliskipulagsins um bílastæði sé tekið fram að heimilt sé að gera ný stæði við bílageymslur við Hofsvallagötu og Furumel þar sem þau séu merkt á uppdrætti. Þannig séu afmarkaðir byggingarreitir fyrir nýjar bílageymslur og bílastæði með aðkomu frá Hofsvallagötu á lóðunum Grenimel 37, Reynimel 55, Víðimel 53 og 56 og Hringbraut 77, sem og á fjórum lóðum sem liggi að Furumel. Einnig komi fram í sérskilmálum deiliskipulagsins fyrir Reynimel 55 að heimilt sé að byggja tvöfalda bílageymslu/geymslu eða vinnustofu á byggingarreit samkvæmt skilmálum og sé hámarksstærð byggingar 45 m2.

Engar framhliðar húsa með samræmt yfirbragð snúi að Hofsvallagötu eða Furumel, þannig að nýjar innkeyrslur við þær götur séu inn á baklóðir þeirra húsa sem liggi að þeim, sem sé í samræmi við það sem fram komi í greinargerð skipulagsins um að leitast skuli við að skapa eðlilegt svigrúm til stækkunar og breytinga húsa á þeim svæðum sem snúi að garðrýmum. Girðingar og garðveggir við Hofsvallagötu séu með ýmsu sniði og það að stytta einn illa farinn vegg um nokkra metra muni ekki hafa nein áhrif á yfirbragð götunnar. Þá megi benda á að nýlega hafi garðveggur verið rofinn frá Furumel inn á lóðina Víðimel 29. Sú breyting sé í samræmi við þær breytingar sem sótt hafi verið um vegna Reynimels 55.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að byggingarfulltrúi hafi leitað umsagnar skipulagsfulltrúa vegna umsóknar kærenda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, þar sem vafi þótti leika á um hvort fyrirhuguð framkvæmd samræmdist deiliskipulagi svæðisins. Í kjölfar neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa hafi byggingarfulltrúi synjað umsókn kærenda, enda skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010. Niðurstaða í umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið að ekki væri unnt að fallast á erindið þar sem ekki sé heimild í deiliskipulagi til að rjúfa garðveggi og gera nýjar innkeyrslur. Ótvírætt sé að deiliskipulagið kveði á um að æskilegt sé að varðveita steypta garðveggi sem setji svip sinn á heildarmynd svæðisins. Heimildum í deiliskipulagi til að útbúa ný bílastæði á grónum lóðum séu settar þröngar skorður.

Þar sem umsótt framkvæmd kærenda hafi falið í sér að rjúfa steyptan garðvegg í því skyni að koma fyrir nýju bílastæði á lóðinni og með tilliti til þess að enginn bílageymsla né innkeyrsla eða bílastæði sé fyrir á lóðinni þyki niðurstaða skipulagsfulltrúa sem fram hafi komið í umsögn hans standast skoðun. Að teknu tilliti til þeirrar umsagnar hafi byggingarfulltrúi ekki átt þess annan kost en að synja umsókn kærenda á þeim forsendum að fyrirhuguð framkvæmd samræmdist ekki skipulagsáætlunum á svæðinu.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Bent er á að ekki hefði verið sótt um innkeyrslu eða bíla­stæði ef slíkt væri fyrir á lóðinni. Þrátt fyrir að deiliskipulag svæðisins feli í sér að vernda beri ásýnd húsaraðanna að framanverðu hafi borgaryfirvöld staðið fyrir umtalsverðum nánar til­teknum ásýndarbreytingum við Hofsvallagötu.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Hin kærða ákvörðun í máli þessu var tilkynnt kærendum með bréfi, dags. 10. maí 2023, en ákvörðuninni fylgdu ekki leiðbeiningar um kæruheimild í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Óskað var eftir rökstuðningi vegna tiltekinna atriða af hálfu kærenda með tölvubréfi, dags. 11. s.m., og var sú beiðni ítrekuð í nokkur skipti þar til rökstuðningur barst 7. júní s.á. Með þeim rökstuðningi fylgdi bréf, dags. 25. maí s.á., þar sem leiðbeint var um kæruheimild og -frest til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Óskaði fulltrúi kærenda í kjölfarið eftir því að kærufrestur yrði framlengdur með tölvubréfi, dags. 8. júní s.á., og fékk hann þau svör frá borgaryfirvöldum að kærufrestur yrði framlengdur til 7. júlí s.á. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 26. júní s.á.

Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. laga nr. 37/1993 hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur fyrir kærðri ákvörðun hefur verið tilkynntur aðila máls. Byrjaði kærufrestur því ekki að líða fyrr en 8. júní 2023, þegar kærendum var veittur rökstuðningur, og barst kæra í máli þessu því innan kæru­frests. Rétt þykir að vekja athygli á að stjórnvald skal svara beiðni um rökstuðning innan 14 daga frá því að beiðni þess efnis barst, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 37/1993, og að lægra sett stjórnvald hafi ekki heimild að lögum til að víkja frá eða framlengja lögákveðinn kærufrest til æðra stjórnvalds, sbr. 6. mgr. 27. gr. laganna.

Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á veitingu leyfis til að brjóta niður hluta garðveggjar og gera bílastæði á lóðinni Reynimel 55 með aðkomu frá Hofsvalla­götu. Reynimelur 55 stendur á horni Reynimels og Hofsvallagötu og snýr framhlið hússins í norður að Reynimel, en vesturhlið lóðarinnar er afmörkuð með steyptum garðvegg. Á svæðinu er í gildi deiliskipulag staðgreinireits 1.540, Melar, norðan Hagamels. Deiliskipulagið skiptist í skipulagsuppdrátt, almenna skilmála fyrir skipulagssvæðið og sérskilmála fyrir einstaka lóðir.

Í upphafi almennra skilmála er m.a. tekið fram að huga þurfi að varðveislu og endurgerð steyptra garðveggja, innkeyrslna og bílastæða sem kunna að skipta máli fyrir heildarmynd svæðisins. Í hinum almennu skilmálum er að finna kafla um steypta garðveggi, garðveggi og bílastæði, en auk þess er þar sérstakur kafli um geymslur, bílageymslur og vinnustofur. Ekki var sótt um að byggja geymslu, bílageymslu eða vinnustofu og reynir því ekki á síðastnefnda kafla almennu skilmálanna í máli þessu. Í kafla um steypta garðveggi segir að „[s]teyptir garð­veggir og tröppur setja mikinn svip á hverfið. Þetta á einkum við þar sem hús standa sunnan megin götu en þar tengjast oft tröppur, veggir og skyggni og mynda fallega heild. Sjá kafla um viðhald steyptra veggja“. Ekki er að finna kafla í deiliskipulaginu sem ber heitið „viðhald steyptra veggja“ en ætla verður að með því sé vísað til kaflans um garðveggi. Í þeim kafla deiliskipulagsins kemur fram: „Æskilegt er að tröppur, veggir og skyggni fái viðhald og að þeir veggir sem hafa verið málaðir ofan á steiningu verði aftur færðir í upprunalegt horf. Einnig að steyptir verði nýir veggir þar sem veggir hafa verið fjarlægðir. Hæð nýrra veggja skal vera a.m.k. 1,2 m. Timburveggir og girðingar komi ekki í stað steyptra veggja. Víða eru og voru járnhlið við göngustíga og innkeyrslur. Mælst er til þess að þau verði endurnýjuð á uppruna­legan hátt, þannig að þau eigi sinn þátt í að styrkja götumyndina ásamt garðveggjum og tröppum“. Í kaflanum um bílastæði er tekið fram að við gerð deiliskipulagsins hafi verið leitast við að fjölga ekki bílastæðum á kostnað lóða eða garðveggja. Almennt sé því ekki gert ráð fyrir nýjum stæðum á lóðum, en heimilt sé að gera ný stæði við bílageymslur við Hofsvallagötu og Furumel þar sem þau séu merkt á uppdrætti. Ekki sé heimilt að gera bílastæði á lóðum á öðrum stöðum.

Í sérskilmálum fyrir Reynimel 55 kemur fram að heimilt sé að byggja tvöfalda bílageymslu, geymslu eða vinnustofu á byggingarreit samkvæmt skilmálunum. Hámarksstærð byggingar sé 45 m2. Heimilt sé að nýta allt að helming „viðbyggingarreits“ og hækka þak samkvæmt skilmálum. Heimilt sé að gera tvö bílastæði. Á deiliskipulagsuppdrætti eru merkingar annars vegar fyrir tvö bílastæði á lóðinni Reynimel 55 og hins vegar tvær merkingar fyrir innkeyrslur á lóðina. Umsókn kærenda um byggingarleyfi er í samræmi við deiliskipulagsuppdrátt hvað varðar staðsetningu bæði bílastæðanna og hinnar tvöföldu innkeyrslu. Eru bílastæðin á lóðinni merkt með nP merkingu, sem samkvæmt skýringum við deiliskipulagið þýðir: „Heimild fyrir nýju bílastæði á lóð – staðsetning bindandi“.

Verður að telja ómögulegt að gera innkeyrslu og bílastæði, á þeim stað sem skipulagsuppdráttur mælir fyrir um, án þess að brjóta niður garðvegg á þeim sama stað, enda var garðveggurinn til staðar þegar heimild til að gera innkeyrslu á lóðinni var sett inn í deiliskipulag. Þrátt fyrir almenna skilmála um að óæskilegt sé að gerðar séu nýjar innkeyrslur á grónar lóðir og um varðveislu garðveggja geta almennir skilmálar ekki vikið sérskilmálum einstakra lóða til hliðar, sé ósamræmi þar á milli, enda myndi það leiða til þess að sérskilmálar væru með öllu merkingarlausir. Á þetta sérstaklega við í máli þessu þar sem heimildir vegna Reynimels 55 í sérskilmálum deiliskipulagsins eru mjög skýrar hvað þetta varðar.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar svo áfátt að fella beri hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. maí 2023 um synjun umsóknar um að rjúfa og fjarlægja hluta af steyptu grindverki á lóðarmörkum að Hofsvallagötu og gera tvö bílastæði fyrir parhús á lóð nr. 55 við Reynimel.