Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

87/2023 Grjótháls

Árið 2023, fimmtudaginn 27. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 76/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um útgáfu byggingarleyfis til niðurrifs í húsi á lóð við Grjótháls 8 og byggingarleyfis til að byggja bílaþvottastöð og þvottabás á sömu lóð.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

 um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2023, er barst nefndinni degi síðar, kæra Bón- og þvottastöðin ehf. og B&Þ rekstrarfélag ehf., Grjóthálsi 10, Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um útgáfu byggingarleyfa, dags. 2. júní 2023, til Löðurs ehf., til niðurrifs í húsi á lóð við Grjótháls nr. 8 og dags. 16. júní 2023, til sama aðila, á sömu lóð, til að byggja bílaþvottastöð og þvottabás með auknu byggingarmagni frá því sem áður var.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 27. september 2022 var samþykkt leyfi til niðurrifs á hluta af þvottaaðstöðu, matshluta nr. 06, þ.e. rými 0104, 0105 og 0106 húss á lóð við Grjótháls 8. Borgarráð samþykkti afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum 6. október 2022. Byggingarleyfi til niðurrifs var gefið út 2. júní 2023. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 27. september 2022 var samþykkt leyfi til að byggja bílaþvottastöð og þvottabás, nýbyggingin er stálgrindarhús á steyptum sökklum í matshluta nr. 06 á lóð við Grjótháls 8. Borgarráð samþykkti afgreiðslu byggingarfulltrúa  á fundi sínum 6. október 2022. Byggingarleyfi var gefið út 16. júní 2023.

Kærendur álíta að byggingarleyfi sé ekki í samræmi við deiliskipulag. Vísað er til þess að í gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir eldsneytissölu og skyldri starfsemi á lóðinni og að ekki hafi verið lokið við málsmeðferð tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar, sem verið hafi til meðferðar. Muni fyrirhuguð starfsemi koma til með að þrengja verulega að starfsemi kærenda á næstu lóð vegna aukinnar umferðar. Af hálfu leyfisútgefanda er því hafnað að leyfin samrýmist ekki skipulagi en sala eldsneytis og rekstur bílaþvottastöðvar sé skyld starfsemi og hafi verið bílaþvottastöð á lóðinni, sem um ræði, í áraraðir. Í tillögu að breyttu deiliskipulagi sem sé í auglýsingu sé landnotkun lóðarinnar ekki breytt, en aðeins fjallað um nýtingarhlutfall fyrir byggingarreit á öðrum matshluta en þeim sem leyfi þessi varði, til að tryggja að nægilegt rafmagn verði til staðar á lóðinni. Af hálfu leyfishafa koma fram lík sjónarmið en auk þess er greint frá því að hluti af húsi hafi þegar verið rifið sem geri að verkum að starfsemi bílaþvottastöðvarinnar sé takmörkuð og því séu miklir hagsmunir bundir því að ekki verði fallist á kröfu um stöðvun framkvæmda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu eru málsaðilar fleiri en einn og eiga þeir andstæðra hagsmuna að gæta. Hafa kærendur fært fram sjónarmið um grenndarhagsmuni sem rök fyrir aðild sinni að kærunni og verður að fallast á aðild þeirra á þeim grundvelli. Mál þetta snýst um samþykki á byggingarleyfisumsóknum um annars vegar niðurrif hluta eldra mannvirkis og hins vegar byggingu nýs mannvirkis í stað þess. Að virtum þeim sjónarmiðum sem liggja að baki framangreindum lagaákvæðum verður ekki talin knýjandi þörf sé á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt þykir þó að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja eða halda áfram framkvæmdum áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt byggingarleyfi til niðurrifs í húsi á lóð við Grjótháls 8 og byggingarleyfi til að byggja bílaþvottastöð og þvottabás á sömu lóð.