Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

30/2015 Mánatún

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 9. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til þess að byggja steinsteypt fimm hæða fjölbýlishús með 44 íbúðum, sem verði mhl. 03 á lóð nr. 1 við Sóltún, sem tengist bílakjallara og áður byggðum fjölbýlishúsum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. apríl 2015, er barst nefndinni 5. maí s.á., kærir stjórn húsfélags Mánatúns 3-5 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2015 að veita leyfi til þess að byggja steinsteypt fimm hæða fjölbýlishús með 44 íbúðum, sem verði mhl. 03 á lóð nr. 1 við Sóltún, sem tengist bílakjallara og áður byggðum fjölbýlishúsum. Er þess krafist að leyfið verði fellt úr gildi hvað varðar byggingu bílageymslunnar. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. júní 2015.

Málavextir: Á árinu 2006 staðfesti borgarráð ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi við Mánatún 3-5, en það var fyrsti áfangi í uppbyggingu á svonefndum Bílanaustsreit, sem meðal annars mun samanstanda af húsum nr. 1-17 við Mánatún og 1-3 við Sóltún. Árið 2011 samþykkti byggingarfulltrúi að veita byggingarleyfi til að ganga frá og taka í notkun til bráðabirgða hluta bílageymslu á sameiginlegri lóð áðurgreindra húsa, sem heimiluð var á árinu 2006. Samkvæmt þeim teikningum sem samþykktar voru árin 2006 og 2011 er gert ráð fyrir einni inn- og útkeyrslu í bílageymsluna frá Mánatúni, en á gildandi deiliskipulagsuppdrætti svæðisins frá árinu 2005 er að finna tvær inn- og útkeyrslur, þ.e. frá Mánatúni og frá Sóltúni. Árið 2013 var gert samkomulag við íbúa Mánatúns 3-5 um tímabundin afnot af bílastæðum og í kjölfarið hófust samskipti þeirra við byggingarfulltrúa þar sem farið var fram á að hann hlutaðist til um að önnur inn- og útkeyrsla yrði gerð. Barst svar frá byggingarfulltrúa í maí 2014 þar sem hann mat það svo að inn- og útkeyrslur í bílageymsluna sem sýndar væru á skipulagsuppdrætti væru leiðbeinandi en ekki skyldubundnar. Var greind niðurstaða byggingarfulltrúa kærð til úrskurðarnefndarinnar í júlí 2014, sem vísaði málinu frá 2. október s.á. þar sem kærufrestur var liðinn er kæra barst.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. mars 2015 var samþykkt umsókn, dags. 10. febrúar s.á., um leyfi til að byggja steinsteypt fimm hæða fjölbýlishús með 44 íbúðum, sem tengdist bílakjallara og áður byggðum fjölbýlishúsum á lóð nr. 1 við Sóltún. Var sú breyting gerð frá fyrri byggingaráformum að bílastæðum í bílageymslu fjölgað úr 284 í 305. Varð kæranda kunnugt um byggingaráformin á stjórnarfundi húsfélagsins hinn 21. apríl s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að í hinu kærða byggingarleyfi sé ekki gert ráð fyrir inn- og útkeyrslu í bílageymslu frá Sóltúni í samræmi við ákvæði deiliskipulags fyrir byggingarreitinn. Þá sé tveimur sorpgeymslum komið fyrir í sameiginlegum húsagarði Mánatúns 1-17 og Sóltúns 1-3 án þess að nokkurs staðar sé getið slíkra mannvirkja í deiliskipulaginu. Með tilkomu greindra sorpgeymslna séu bílastæði reitsins á yfirborði skert um allt að tíu bílastæði. Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu sé öllum húsum á reitnum skylt að stofna með sér félag um bílageymslu og lóð í samræmi við lög um fjöleignarhús nr. 26/1994. Það leiði af meginreglum þeirra laga að frávik frá samþykktu deiliskipulagi verði ekki gerð nema með samþykki allra aðila.

Samkvæmt deiliskipulagi skuli sameiginleg bílageymsla hafa tvær tvöfaldar inn- og útkeyrslur. Gert sé ráð fyrir samtals 305 bílastæðum í bílageymslunni þegar hún sé fullbyggð. Gildandi byggingarleyfi geri þó aðeins ráð fyrir 284 bílastæðum. Þetta fyrirkomulag hafi verið kynnt kaupendum íbúða í Mánatúni 3 og 5 á sínum tíma með tilvísun í deiliskipulagið. Í upphafi hafi þó aðeins verið byggð ein inn- og útkeyrsla þar sem það hafi fullnægt þörfum íbúa fyrst um sinn. Sú inn- og útkeyrsla sem samkvæmt deiliskipulagi skuli vera frá Sóltúni hafi ekki verið byggð enda hafi sá hluti bílageymslunnar ekki verið að fullu uppsteyptur og hönnun Sóltúns 1 ekki hafin á þeim tíma.

Þegar framkvæmdir við Mánatún 7-17 hófust hafi verið vakin athygli á því að ákvæði væru um það í deiliskipulagi að koma þyrfti upp annarri innkeyrslu í bílageymsluna. Á fundum í stjórn húsfélags kæranda hafi framkvæmdaraðili tekið undir það sjónarmið húsfélagsins að betra væri að hafa tvær innkeyrslur þótt það væri ekki skylt samkvæmt byggingarleyfi. Hafi niðurstaða verkfræðistofunnar Eflu í febrúar 2014 verið sú að ein innkeyrsla ætti að duga. Fjöldi inn- og útkeyrslna í bílageymsluna og fyrirkomulag þeirra virðist ekki hafi hlotið neina umfjöllun áður en byggingarleyfið hafi verið samþykkt, sem vikið hafi frá því fyrirkomulagi sem sýnt sé í deiliskipulaginu. Hafi kærandi látið gera greiningu á því ef aðeins ein inn- og útkeyrsla verði úr bílageymslunni og bendi hún til þess að öngþveiti muni skapast við útkeyrslu á álagstímum. Mikilvægt sé að hafa í huga að umrædd bílageymsla sé nálægt annarri stórri bílageymslu og fjölmörgum bílastæðum við byggingar á reitnum. Jafnframt muni þetta fyrirkomulag skerða umferðaröryggi á svæðinu þar sem stórum hluta umferðar á skipulagsreitnum, m.a. frá Borgartúni 26, sé beint inn á sama stað á lóðinni.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er skírskotað til þess að heimilt hafi verið að samþykkja umrædda byggingarleyfisumsókn og að málsmeðferð hafi verið í samræmi við ákvæði laga og reglugerða þar að lútandi.

Í gildi sé deiliskipulag fyrir Bílanaustsreit, samþykkt af borgarráði 29. september 2005. Segi í kafla um bílastæði að fyrirkomulag bílastæða á skipulagsuppdrætti sé leiðbeinandi. Í minnisblaði verkfræðistofunnar Eflu, dags. 11. febrúar 2014, sé vitnað til vinnu verkfræðistofunnar vegna deiliskipulags svæðisins við Borgartún 26 og Sóltún 3 ásamt hönnun bílakjallara og húss við Mánatún 3-5. Í þeirri vinnu hafi umferðarflæði á lóð og tengingar við gatnakerfi í nágrenni svæðisins verið skoðuð. Þegar unnið hafi verið að deiliskipulaginu hafi ekki verið tekin afstaða til nauðsynlegs fjölda innkeyrslna í bílakjallara undir byggingum við Mánatún og Sóltún 1-3, en í deiliskipulaginu hafi verið gert ráð fyrir að þær gætu verið á tveimur stöðum, þ.e. við Mánatún og við Sóltún, og hafi öll umfjöllun miðast við það. Hafi það verið mat verkfræðistofunnar að miðað við skoðun á afköstum útkeyrslna væri ekki gerð krafa um tvær aðkomur í bílageymslu neðanjarðar, heldur sýndir möguleikar á innkeyrslu á tveimur stöðum.

Skipulagið geri ráð fyrir 1,8 bílastæðum á hverja íbúð, þar af skuli a.m.k. helmingur vera í bílageymslu neðanjarðar, og sé fyrirkomulag bílastæða á skipulagsuppdrætti leiðbeinandi. Samkvæmt byggingarlýsingu, samþykktri 24. mars 2015, sé gert ráð fyrir 305 bílastæðum í bílageymslu. Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu sé einnig gert ráð fyrir hlutdeild í 305 bílastæðum í kjallara. Fullyrðingar kæranda um fjölda bílastæða eigi því ekki við rök að styðjast. Ef fjöldi bílastæða reynist annar að loknum byggingartíma þá verði væntanlega gerðar athugasemdir varðandi það í lokaúttekt.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kæra í máli þessu sé of seint fram komin. Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin 24. mars 2015. Kæran hafi því borist að liðnum kærufresti og ekki sé bent á veigamiklar ástæður til þess að lengri kærufrestur eigi við. Tafir á framkvæmdum og breytingum á hönnun allra mannvirkja á lóðinni á þessu stigi myndu leiða til verulegs tjóns enda hafi mátt gera ráð fyrir að kærufrestir vegna útgefins byggingarleyfis fyrir bílageymsluhúsið væru löngu liðnir. Öll mannvirki á lóðinni hafi verið og séu hönnuð í samræmi við þá forsendu að einar inn- og útkeyrsludyr séu á sameiginlegri bílageymslu.

Byggingaráform fari ekki að neinu leyti út fyrir þann ramma sem deiliskipulagið setji. Komi hvergi fram í umræddu deiliskipulagi að skylt sé að hafa tvær inn- og útkeyrslur úr bílageymslunni. Ekki sé kveðið á um það í byggingarreglugerð eða öðrum reglum hversu margar útkeyrslur eigi að vera úr bílageymslu. Þótt ákveðið hafi verið að hafa eina inn- og útkeyrslu teljist það ekki frávik frá eða breyting á deiliskipulagi, sem sé leiðbeinandi, en veiti svigrúm til endanlegrar hönnunar innan ramma laga og reglna.

Frá upphafi, þ.e. frá árinu 2007, hafi verið gert ráð fyrir einum inn- og útkeyrsludyrum á bílageymsluhúsinu. Öll önnur gögn sem varði Mánatúnsreitinn byggi á hinu sama, m.a. samþykktar teikningar fyrir Mánatún 3-5, sem séu hluti af gildandi eignaskiptayfirlýsingu. Byggingaráform fyrir Mánatún 19-21 (áður Sóltún 1-3) séu einnig grundvölluð á þeirri forsendu. Fram komin kæra á byggingaráformum fyrir Mánatún 19-21 sé því í raun ekkert annað en kæra á ákvörðunum sem hafi verið teknar fyrir fjölmörgum árum og kæranda hafi verið fullkunnugt um.

Þá sé því mótmælt að bygging sorpgerðanna sé í andstöðu við deiliskipulag. Frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir að reist yrði sorpgerði á þeim stað sem byggingaráform geri ráð fyrir. Þetta sjáist m.a. af samþykktum byggingarteikningum fyrir Mánatún 3-5. Þær teikningar séu hluti gildandi eignaskiptayfirlýsingar fyrir Mánatúnsreitinn og um leið hluti kaupsamninga allra eigenda séreigna í Mánatúni 3-5. Að auki sé því andmælt að verið sé að fækka bílastæðum frá því sem ráð hafi verið gert fyrir í deiliskipulagi. Bílastæðafjöldi sé skilmerkilega skilgreindur í deiliskipulagi, eða 1,8 stæði á íbúð, og sé því skilyrði fullnægt. Komi það einnig skýrt fram í gildandi eignaskiptayfirlýsingu að allur réttur til uppbyggingar á lóðinni sé á hendi leyfishafa svo lengi sem framkvæmdir séu í samræmi við deiliskipulag á hverjum tíma.

Niðurstaða: Í máli þessu er fyrst og fremst deilt um fjölda inn- og útkeyrslna frá sameiginlegri bílageymslu þeirra fjölbýlishúsa sem standa á óskiptri lóð sem skráð er með landnúmerið 208575 í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Telja kærendur að hið kærða byggingarleyfi samræmist ekki deiliskipulagi svæðisins að þessu leyti.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kæranda varð kunnugt um tilvist og efni hinnar kærðu ákvörðunar. Með samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 24. mars 2015, varð til ný stjórnvaldsákvörðun þar sem breytingar voru gerðar á áður samþykktum byggingaráformum. Miðast því kærufrestur við það hvenær kærandi hafi mátt gera sér sannanlega grein fyrir samþykki hinnar kærðu ákvörðunar. Af gögnum málsins liggur fyrir að kæranda varð ekki kunnugt um ákvörðunina fyrr en 21. apríl 2015. Með hliðsjón af því barst kæran innan lögmælts kærufrests, eða hinn 5. maí 2015. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.

Samkvæmt 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er það eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulagið Bílanaustsreitur frá árinu 2005 og í greinargerð skipulagsins er að finna sérstakan kafla um bílastæði. Þar er tekið fram að á fjölbýlishúsalóð sé gert ráð fyrir a.m.k. 1,8 bílastæðum á hverja íbúð og þar af skuli a.m.k. helmingur vera í bílageymslu. Segir síðan að fyrirkomulag bílastæða á skipulagsuppdrætti sé leiðbeinandi. Líkt og bent hefur verið á sýnir skipulagsuppdráttur deiliskipulagsins inn- og útkeyrslur frá tveimur stöðum, þ.e. frá Sóltúni og Mánatúni, en samkvæmt samþykktum byggingaráformum er gert ráð fyrir einni inn- og útkeyrslu. Fallast má á með kærendum að aðeins ein inn- og útkeyrsla frá jafnstórri bílageymslu og hér um ræði bjóði upp á skert þjónustustig miðað við tvær inn- og útkeyrslur. Þegar litið er til orðalags greinargerðar deiliskipulagsins verður þó ekki annað ráðið en að með fyrirkomulagi bílastæða sé einnig átt við aðkomu að þeim. Sé því um að ræða valkvæða skilmála um tilhögun inn- og útkeyrslu frá umræddri fjölbýlishúsalóð við Sóltún/Mánatún. Þá er hvorki að finna í lögum né reglugerðum kröfu um lágmarksfjölda inn- og útkeyrslna í bílageymslum eftir fjölda bílastæða.

Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að gert var ráð fyrir sorpgerðum á bílastæði byggingarreitsins á upprunalegum teikningum frá árinu 2006. Hafa ekki verið gerðar breytingar á þeim byggingaráformum. Er það í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, en samkvæmt gr. 4.3.6. skal á aðaluppdráttum gera sérstaklega grein fyrir sorpgeymslu og aðkomu að henni. Hvorki er í skipulagslögum né reglugerðum kveðið á um slíka skyldu við deiliskipulagsgerð og því ekki nauðsyn að taka slíkt fram á deiliskipulagsuppdrætti.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús skal byggingarréttur byggjast á þinglýstum heimildum. Rúmist bygging innan samþykktra teikninga og byggingarréttur sé í eigu ákveðins eiganda, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 28. gr., er heimilt að ráðast í framkvæmdir að fengnum nauðsynlegum byggingarleyfum, sbr. 1. mgr. 29. gr. sömu laga. Í eignaskiptayfirlýsingu fyrir þá lóð sem hér um ræðir, sem móttekin var til þinglýsingar 2. febrúar 2009, kemur fram að eigendum lóðarinnar sé heimilt, án samþykkis eða greiðslu til eigenda einstakra íbúða, að ráðast í uppbyggingu í samræmi við deiliskipulag svæðisins eins og það sé á hverjum tíma. Líkt og áður greinir hafa öll byggingaráform á lóðinni miðast við að ein inn- og útkeyrsla sé frá bílageymslunni og hefur ekki orðið breyting þar á. Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum verður ekki annað ráðið en að byggingarleyfishafi hafi ekki þurft að leita eftir samþykki eigenda íbúða á lóðinni við byggingu og frágang umræddrar bílageymslu.

Að öllu framangreindu virtu er hið kærða byggingarleyfi í samræmi við deiliskipulag svæðisins. Þá var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar í samræmi við lög og reglur og verður ekki séð að hún sé haldin þeim annmörkum að leitt geti til ógildingar. Af þeim sökum verður ekki fallist á ógildingarkröfu kæranda.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til þess að byggja steinsteypt fimm hæða fjölbýlishús með 44 íbúðum, sem verði mhl. 03 á lóð nr. 1 við Sóltún, sem tengist bílakjallara og áður byggðum fjölbýlishúsum.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

45/2015 Ránargata

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 2. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. október 2014 um að veita leyfi til að stækka kvist og byggja svalir við hann, stækka aðaltröppur með palli og breyta innra skipulagi hússins á lóð nr. 29a við Ránargötu, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júní 2015, sem barst nefndinni sama dag, kæra íbúar að Ránargötu 31, Ránargötu 32, Ránargötu 33, Stýrimannastíg 4 og, Stýrimannastíg 8, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. október 2014 að veita leyfi til að stækka kvist og byggja svalir við hann, stækka aðaltröppur með palli og breyta innra skipulagi hússins á lóð nr. 29a við Ránargötu, Reykjavík. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 23. júní 2015.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 14. október 2014 var samþykkt umsókn um leyfi til að stækka kvist og byggja svalir við hann, stækka aðaltröppur með palli, breyta stiga milli kjallara og neðri hæðar, koma fyrir salernum og böðum í tveimur svefnherbergjum og tveimur vinnuherbergjum í kjallara, breyta inntaki og endurnýja heimtaugar og heimaæðar í húsinu á lóð nr. 29a við Ránargötu. Umsókninni fylgdi umsögn frá Minjastofnun Íslands, dags. 18. september s.á. Hefur framangreind ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að eftir að framkvæmdir hafi hafist, m.a. með því að trjágróður væri fjarlægður og grafið væri fyrir dreni, hafi þeir leitað sér nánari upplýsinga um í hverju framkvæmdirnar fælust. Hafi þeir ekki fyrr en þá gert sér grein fyrir því að til stæði að gera áberandi breytingar utanhúss, svo sem verulega stækkun á kvisti vestan megin ásamt byggingu nýrra svala. Breytingarnar séu óæskilegar og ekki í samræmi við aðra kvisti rishæða sem snúi inn að görðum hverfisins. Þeir séu yfirleitt látlausir og lágreistir og samsvari húsunum vel. Muni kvistur og svalir gnæfa yfir nærliggjandi garða og skerða næði kærenda meira en áður hafi verið. Sé þess krafist að byggingarleyfið sé fellt úr gildi þar sem grenndarkynning hafi ekki farið fram í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er upplýst að við skoðun á málinu hafi komið í ljós að láðst hafi að grenndarkynna umrædda byggingarleyfisumsókn. Verði leyfið fellt úr gildi megi búast við því að umsóknin verði grenndarkynnt.

Málsrök leyfishafa:
Leyfishafi skírskotar til þess að hann hafi unnið að nýjum teikningum sem lagðar hafi verið fram hjá byggingarfulltrúa og samþykktar þar að loknum viðeigandi breytingum. Húsið sem um ræði sé dæmigert fyrir íslenskan sveitserstíl sem aðlagaður hafi verið aðstæðum hér á landi. Sambærileg hús sé að finna í vesturbænum, umhverfis Tjörnina og í Þingholtunum, en húsið sé sérstakt m.a. fyrir það að standa á baklóð milli gatna og snúa þvert á almenna stefnu húsanna sem standi við göturnar í kring. Breytingar utanhúss séu þær að í stað hallandi kvists á þakinu sé fyrirhugaður veggkvistur með mænisþaki og svölum og dyrum út á þær. Hann sé sömu gerðar og ættar og fjölmargir kvistir á timburhúsum frá þessum tíma og sómi húsinu vel, sbr. umsagnir Minjastofnunar Íslands og Borgarsögusafns. Með kvistinum og svölunum sé tryggð flóttaleið af efri hæð hússins sem ekki hafi verið fyrir. Einnig sé fyrirhuguð breyting á aðaltröppum hússins, þær verði smíðaðar úr timbri og gengið verði um pall sem auki notagildi þeirra. Allar breytingar séu í samræmi við samþykktar teikningar.

Byggingarleyfi hafi verið gefið út og samþykkt af byggingarfulltrúa 14. október 2014, framkvæmdir hafist 13. apríl 2015 og hafi verktakar unnið við fasteignina alla virka daga síðan. Framkvæmdir hafi þá þegar byrjað af fullum þunga utanhúss og verði því ekki betur séð en að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Leyfishafi hafi nú þegar eytt miklum fjármunum og tíma í að koma framkvæmdum í þann farveg sem þær séu í. Samningar hafi verið gerðir við verktaka og myndi ógilding byggingarleyfis hafa mikil og ófyrirsjáanleg fjárhagsleg áhrif á leyfishafa. Stefna hans sé að framkvæma allar breytingar á þeim fasteignum sem hann kunni að eignast í samræmi við aldur hverrar eignar og harmi hann að þessi staða sé komin upp. Leyfishafi eyði verulegum fjármunum í að halda í upphaflegt útlit hússins eins og kostur sé, en ekki sé sjálfgefið að eigendur fasteigna leggi slíka fjármuni og metnað í það að vernda sögulegt gildi og útlit gamalla fasteigna, eins og hér um ræði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingar innan og utan hússins á lóð nr. 29a við Ránargötu, Reykjavík. Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt um tilvist og efni hinnar kærðu ákvörðunar eða mátti af aðstæðum vera það ljóst. Óumdeilt er að framkvæmdir hófust í apríl 2015. Hins vegar verður ekki ráðið af gögnum málsins að neinar þær framkvæmdir hafi þá þegar verið hafnar sem bent gætu til breytinga á kvisti eða að svölum yrði þar bætt við, en að sögn kærenda voru framkvæmdir utan húss fólgnar í því að garður var grafinn upp, trjágróður fjarlægður og grafið fyrir dreni. Munu kærendur hafa aflað sér upplýsinga í byrjun júní s.á. um byggingarleyfi það sem kært var til úrskurðarnefndarinnar 11. s.m. Með hliðsjón af framangreindu verður við það að miða að kæra í máli þessu hafi borist innan lögmælts kærufrests, enda verður ekki fullyrt að kærendum hafi mátt vera efni byggingarleyfisins ljóst fyrr eða haft tilefni til að kanna það sérstaklega vegna aðstæðna. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.

Húsið Ránargötu 29a er staðsett á ódeiliskipulögðu svæði. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 19. gr. laga nr. 59/2014, er skipulagsnefnd heimilað að ákveða að veita megi byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir, enda fari áður fram grenndarkynning. Kemur og skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynnt skuli í slíkum tilvikum. Er þannig með ótvíræðum hætti lögð sú skylda á sveitarfélög að sjá til þess að grenndarkynning fari fram þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur undir höndum hefur grenndarkynning ekki farið fram. Þá voru ekki skilyrði fyrir því að falla frá grenndarkynningu á grundvelli undantekningarákvæðis 3. mgr. 44. gr. laganna, enda ekki útilokað að umþrætt framkvæmd geti haft áhrif á aðra en sveitarfélagið og umsækjanda hins kærða leyfis.

Að framagreindu virtu verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. október 2014 um að veita leyfi til að stækka kvist og byggja svalir við hann, stækka aðaltröppur með palli og breyta innra skipulagi hússins á lóð nr. 29a við Ránargötu, Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

90/2014 Hraunbær

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2014, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á umsókn um að klæða fjöleignarhúsið Hraunbæ 102 B, C, D og E með báruálklæðningu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. ágúst 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir Ingimar Ingimarsson hrl., f.h. Húsfélagsins að Hraunbæ 102 B, C, D og E, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. júlí 2014 á umsókn um að klæða fjöleignarhúsið með báruálklæðningu. Er þess krafist að synjunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 10. september 2014.

Málavextir: Hinn 1. júlí 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík tekin fyrir umsókn, dags. 21. maí s.á., um leyfi til að klæða með báruálklæðningu suðurhlið og austurgafl, framlengja þak yfir svalir á efstu hæð og endurnýja handrið á svölum fjöleignarhússins Hraunbæjar 102 B, C, D og E. Var umsókninni synjað og eftirfarandi bókað: „Samræmist ekki yfirbragði fjölbýlishúsa í hverfinu sem eru með sléttri áferð útveggja.“ Umsækjanda var tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 16. júlí 2014.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að synjun byggingarfulltrúa byggi á því að umsótt breyting samræmist ekki yfirbragði fjölbýlishúsa í hverfinu sem séu með sléttri áferð útveggja. Húsið Hraunbær 102 B, C, D og E skeri sig úr frá öðrum húsum í grenndinni. Það sé stakt og götur liggi á alla vegu kringum húsið. Að auki sé jarðhæðin byggð sem atvinnuhúsnæði. Handan götunnar séu hús með ýmis konar klæðningu, m.a. grófu báruáli. Sé suðurgafl fjölbýlishússins að Hraunbæ 102 A að hluta klæddur með grófu bárustáli og sjáist slík klæðning einnig á eldri íbúðarblokkum í hverfinu.

Klæðning með smáum bárum líti út sem slétt þótt staðið sé býsna nálægt, t.d. við næstu íbúðarblokk. Endalausar steypuviðgerðir á húsum í Hraunbænum séu áberandi. Erfitt sé að skilja að hægt sé að meina húseigendum að verja hús sín með þeim efnum sem best séu talin á hverjum tíma.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að lög og reglur geri beinlínis ráð fyrir því hlutverki skipulags- og byggingaryfirvalda að leggja mat á m.a. fagurfræði bygginga. Segi t.a.m. í gr. 6.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að mannvirki skuli þannig hönnuð og byggð að þau henti vel til fyrirhugaðra nota. Við ákvörðun á útliti þeirra, efnisvali, litavali og gerð skuli gæði byggingarlistar höfð að leiðarljósi. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að einhver önnur sjónarmið hafi ráðið för við samþykkt byggingarfulltrúa í málinu eða að framkvæmdin sé þess eðlis að hún brjóti svo verulega á hagsmunum kæranda að það leiði til ógildingar. Sé því einnig mótmælt að reglur um málsmeðferð hafi verið brotnar. Málsmeðferðin hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga og reglna.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á umsókn kæranda um leyfi til að klæða umrætt fjöleignarhús með báruálklæðningu, með þeim rökum að hinar umsóttu breytingar samræmdust ekki yfirbragði fjölbýlishúsa í hverfinu. 

Ákvarðanir um útlit mannvirkja og form eru teknar við gerð deiliskipulags, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en sveitarstjórn, eða eftir atvikum skipulagsnefnd, ber ábyrgð á gerð þess skv. 1. mgr. 38. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er m.a. óheimilt að breyta notkun mannvirkis, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Í 5. mgr. sömu greinar segir að varði breyting á mannvirki útlit þess og form skuli leita samþykkis skipulagsnefndar áður en byggingarleyfi sé veitt nema breyting sé óveruleg. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum segir um greinda málsgrein að í tilvikum þar sem um sé að ræða breytingu á útliti húss verði að teljast rökrétt að leita eftir samþykki skipulagsnefndar í ljósi eðlis slíkra breytinga. Þá segir í gr. 2.3.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að samþykki skipulagsnefndar þurfi vegna breytinga á útliti eða formi mannvirkja áður en byggingarleyfi sé veitt sé breytingin ekki óveruleg og ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag sem heimili hana. Til að breyting geti talist óveruleg má hún ekki breyta eða hafa áhrif á götumynd, sbr. 2. mgr. nefnds ákvæðis.

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulagið Árbær-Selás frá árinu 1966. Engin greinargerð fylgdi deiliskipulaginu og er ekki að finna skilmála á skipulagsuppdrætti er varða útlit húsa á svæðinu. Fyrir liggur að hvorki skipulagsnefnd né sveitarstjórn hafði aðkomu að málsmeðferð hinnar umdeildu byggingarleyfisumsóknar áður en til synjunar byggingarfulltrúa kom. Þá verður ekki séð að hin kærða ákvörðun sé byggð á markmiðum mannvirkjalaga sem felast aðallega í að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt, sbr. a-lið 1. mgr. 1. gr. mannvirkjalaga. Með hliðsjón af þeirri verkaskiptingu byggingar- og skipulagsyfirvalda sem lög og reglur gera ráð fyrir, sem og eðli þeirrar framkvæmdar sem synjað var um leyfi fyrir, verður að telja að byggingarfulltrúa hafi borið að leita til skipulagsnefndar, hvort sem er til samþykktar eða synjunar umbeðinnar útlitsbreytingar.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á umsókn um leyfi til að klæða fjöleignarhúsið Hraunbæ 102 B, C, D og E með báruálklæðningu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

28/2015 Ingólfsstræti

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja leyfi til að „byggja veislustofu með þaksvölum við núverandi 3. hæð, koma fyrir útibekkjum og gróðurbelti, framlengja lyftu og flóttaleið frá Bankastræti 7 á þaksvölum, Gamla Bíós“, Ingólfsstræti 2A.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. apríl 2015, sem barst nefndinni 24. s.m., kærir Einar Þór Sverrisson hrl., f.h. 101 Hótel ehf., Hverfisgötu 8-10 og IP-Studium Reykjavík ehf., eiganda fasteignarinnar við Hverfisgötu 8-10, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja leyfi til að „byggja veislustofu með þaksvölum á 3. hæð, koma fyrir útibekkjum og gróðurbelti, framlengja lyftu og flóttaleið frá Bankastræti 7 á þaksvölum, Gamla Bíós“. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 13. maí og 4. júní 2015.

Málavextir: Hinn 10. júní 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til áðurgreindra framkvæmda, m.a. á þaksvölum Gamla Bíós. Málinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa og barst hún 16. s.m. Þar var lagt til að grenndarkynna umsóknina, þar sem ekkert deiliskipulag væri í gildi, auk þess sem aukin notkun þaksvala gæti haft áhrif á nærliggjandi byggingar. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 20. s.m. var samþykkt að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum í nærliggjandi húsum. Erindið var grenndarkynnt frá 26. s.m. til og með 24. júlí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum, og var þeim svarað með umsögn skipulagsfulltrúa. Að lokinni grenndarkynningu var erindinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem tók það fyrir á fundi 27. ágúst s.á. Ráðið gerði engar athugsemdir við erindið, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 25. s.m., og vísaði því til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Erindið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa en afgreiðslu málsins var frestað þar sem afla þurfti frekari gagna, s.s. hljóðvistarskýrslu og umsagnar Minjastofnunar Íslands. Hljóðvistarskýrsla lá fyrir 22. október 2014. Minjastofnun gerði ekki athugasemdir við umræddar breytingar í umsögn sinni, dags. 16. mars 2015. Var erindið tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. mars 2015 og það samþykkt.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að útgáfa byggingarleyfisins sé í andstöðu við lög. Hafi hvorki verið gætt réttra réttarreglna um grennd og hljóðvist né tekið tillit til lögmætra réttinda og væntinga kærenda og hótelstarfsemi þeirra við útgáfu leyfisins. Hótelstarfsemin hafi verið rekin frá því um síðustu aldamót en núverandi rekstaraðili Gamla Bíós sé að breyta starfsemi þess húss í grundvallaratriðum á kostnað kærenda. Sé augljóst að verði leyfi veitt fyrir byggingu svalanna, og þar með gefið út leyfi fyrir veitingarekstri, muni það leiða til aukins ónæðis.

Fyrir liggi yfirlýsing forsvarsmanns húseigenda Gamla Bíós þess efnis að sótt verði um útiveitingaleyfi á svölum hússins þegar fyrirhuguðum framkvæmdum verði lokið. Með því sé verið að koma upp torgi á þaki hússins, við hliðina á hótelinu, með skemmtanaleyfi og tilheyrandi reykingum sem komi til með að raska ró gesta hótelsins. Eigi kærendur réttmæta kröfu til þess að geta tryggt næturró gestanna.

Ekki verði séð af gögnum málsins að húseigandi hafi verið krafinn um snið- og afstöðumyndir, sem sýni áhrif skuggavarps á 101 Hótel og hvernig sjónlína frá fyrirhugaðri þakbyggingu komi til með að hafa áhrif inn í herbergi hótelsins. Þá hafi engar hljóðvistarmælingar farið fram. Sé það brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Grundvallarbreyting á rekstri Gamla Bíós hafi átt sér stað og við það sé starfsemi hótelsins stefnt í tvísýnu. Séu hagsmunir kærenda vegna þessara breytinga mun meiri en leyfishafa. Það sé grundvallarregla stjórnsýsluréttar að minni hagsmunir víki fyrir meiri.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er því hafnað að afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi verið ólögmæt.

Mótmælt sé þeirri staðhæfingu kærenda að rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin. Hvað skuggavarp varði þá tíðkist það ekki við afgreiðslu byggingarleyfisumsókna hjá embættinu að óskað sé eftir skýrslu um skuggavarp vegna byggingaráforma. Að auki sé ekki gerð krafa til þess í kafla 2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að byggingarfulltrúi afli slíkra gagna. Þá skuli á það bent að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 25. ágúst 2014, sem gerð hafi verið í kjölfar athugasemda sem borist hafi á grenndarkynningartíma, komi fram að ekki sé þörf á skuggavarpsteikningum þar sem breytingin hafi engin áhrif á birtu, auk þess sem núverandi þak fasteignarinnar varpi skugga á fasteign 101 Hótels ehf. Loks sé því mótmælt að ekki hafi verið framkvæmd almennileg rannsókn á hljóðvist. Lögð hafi verið fram hljóðvistarskýrsla á fundi byggingarfulltrúa 24. mars 2015. Í skýrslunni sé lagt mat á hljóðmengun frá lyftustokki og veislusal/þaksvölum á 3. hæð fasteignarinnar og sé niðurstaða skýrslunnar sú að fyrirhuguð starfsemi uppfylli settar reglugerðarkröfur m.t.t. hávaða. Byggingarfulltrúi hafi lagt efnislegt mat á innihald skýrslunnar við töku ákvörðunar í málinu og hafi ekki talið ástæðu til að draga réttmæti hennar í efa.

Því sé hafnað að við samþykkt erindisins hafi grenndarsjónarmiða ekki verið nægjanlega gætt. Erindið hafi verið grenndarkynnt hagsmunaaðilum og athugasemdum svarað af hálfu skipulagsfulltrúa. Því hafi ekki verið neitað að ónæði kynni að leiða af notkun svalanna og til þess að draga úr því hafi „svalir verið minnkaðar frá því sem áður var með þeim hætti að þær eru minnkaðar til norðurs í átt að hótelinu“. Jafnframt hafi komið fram í umsögn skipulagsfulltrúa að uppsetningu gróðurbelta og skjólgirðinga væri ætlað að minnka innsýn og hljóð.

Kærendur hafi haldið því fram að samþykkt byggingaráforma hafi í raun falið í sér samþykki á leyfi fyrir veitingarekstri á svölunum. Sveitarfélagið bendi hins vegar á að um veitingaleyfi gildi lög nr. 85/2007 en ekki lög um mannvirki nr. 160/2010. Byggingarfulltrúi veiti því ekki leyfi til útiveitinga með því að samþykkja byggingaráform.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að breytingar á húsinu hafi verið gerðar til samræmis við kröfur laga og reglugerða. Séu breytingarnar í fullkomnu samræmi við þá starfsemi sem þegar sé fyrir og feli þær ekki í sér nýja eða breytta starfsemi. Í Gamla Bíói hafi frá öndverðu verið rekið fjölbreytt skemmti- og menningarstarfsemi með tilheyrandi hávaða. Svo virðist sem ekki hafi verið gerðar fullnægjandi ráðstafanir til að tryggja nægjanlega hljóðeinangrun í húsinu sem hýsi starfsemi kærenda og sé það tæplega á ábyrgð leyfishafa. Hann hafi boðist til samvinnu til að leysa þennan vanda og skapa grundvöll til að starfsemi þessara tveggja atvinnubygginga geti þrifist hlið við hlið, en af hálfu kærenda hafi ekki verið áhugi á að vinna málið á þann hátt.

Flestar efnislegar kvartanir kærenda varði ekki byggingarleyfið sem slíkt heldur fyrirhugaðan rekstur á staðnum. Þannig geti athugasemdir um meinta hávaðamengun frá samkomusal leyfishafa ekki varðað það hvort veita beri byggingarleyfi fyrir lagfæringum á svölum hússins. Auk þess sé á það bent að byggingarleyfisumsóknin varði ekki byggingu þaksvala, sem hafi verið á húsinu frá öndverðu, heldur sé tilgangur breytinganna að gera svalirnar betur úr garði til að geta gegnt hlutverki sínu í samræmi við nútímakröfur.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 28. maí 2015.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi fyrir veislustofu á þaksvölum Gamla Bíós. Telja kærendur að hin kærða ákvörðun muni hafa í för með sér neikvæð grenndaráhrif, m.a. með tilliti til rekstrar 101 Hótels.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir umrætt svæði en til þess að veita megi byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum án þess að deiliskipulag liggi fyrir skal fyrirhuguð framkvæmd vera í samræmi við landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem Miðborgarkjarni, M1a. Svæðinu er lýst sem hjarta höfuðborgarinnar þar sem sérstök áhersla sé lögð á smásöluverslun, veitingastarfsemi og afþreyingu, sem og þjónustu lykilstofnana í stjórnsýslu, menningu og menntun. Á svæðinu gilda almennar veitingaheimildir, en í því felst að allar tegundir veitingastaða eru heimilaðar þar sem lengst má vera opið til kl. 3.00 um helgar. Að auki sé heimilt að veita leyfi fyrir útiveitingum, þó aldrei lengur en til kl. 23.00. Í miðborgarstefnu aðalskipulagsins er jafnframt lögð áhersla á að miðborgin geti tekið vel á móti öllum sem hana sæki og að hún geti sinnt ólíkum hlutverkum. Loks er fjallað um þá þróun sem átt hafi sér stað í miðborginni á undanförnum áratugum, sem hafi falist í að ólík starfsemi hafi í auknum mæli tengst sömu rekstrar- og húsnæðiseiningum. Er síðan áréttað að mikilvægt sé að stuðla að því að miðborgin haldi áfram að vera ákjósanlegur vettvangur fyrir sem fjölbreyttasta þjónustu. Að teknu tilliti til þessa verður ekki annað séð en að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags.

Ítarleg gögn lágu fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar, þ. á m. hljóðvistarskýrsla, yfirlýsing vegna umsóknar um útiveitingaleyfi og umsögn Minjastofnunar Íslands. Verður ekki annað ráðið en að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið tekin að ígrunduðu máli og er ekki hægt að fallast á að við töku þeirrar ákvörðunar hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er ekki að sjá að málsmeðferðin hafi verið haldin öðrum annmörkum. Þannig fór grenndarkynning fram fyrir hagsmunaraðilum í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga og athugasemdum var svarað, s.s. varðandi skuggavarp. Í kjölfarið var erindið samþykkt. Þá liggur fyrir að Minjastofnun lagðist ekki gegn umræddri framkvæmd í umsögn sinni sem gefin var í samræmi við lög nr. 80/2012 um menningarminjar.

Loks felur hin kærða ákvörðun ekki í sér breytingar á formi þaksvalanna sem eru upprunalegar og hafa verið nýttar í tengslum við þá starfsemi sem hefur verið í húsinu á hverjum tíma. Verður ekki séð að staðsetning umræddrar veislustofu á svölunum muni hafa teljandi áhrif á nærliggjandi hótelrekstur en í hinu kærða leyfi felst m.a. að gerðar verði ráðstafanir til að draga úr mögulegum grenndaráhrifum, t.a.m. með því að takmarka notkunarflöt svalanna, sem og með því að koma fyrir skjólvegg og gróðri. Verður því ekki séð að hin kærða ákvörðun brjóti gegn grenndarhagsmunum kærenda þannig að ógildingu varði.

Af öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja leyfi til að „byggja veislustofu með þaksvölum við núverandi 3. hæð, koma fyrir útibekkjum og gróðurbelti, framlengja lyftu og flóttaleið frá Bankastræti 7 á þaksvölum, Gamla Bíós“, Ingólfsstræti 2A.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

   

26/2015 Ferjuvað

Með

Árið 2015, mánudaginn 22. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 26/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1 og 3 við Ferjuvað.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. apríl 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir S, Ferjuvaði 1-3, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 17. mars 2015, um að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1 og 3 við Ferjuvað. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Hinn 17. mars 2015 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík samþykkt umsókn þar sem sótt var um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1 og 3 við Ferjuvað. Fólust breytingarnar í því að stæði í bílageymslu, sem áður var ætlað hreyfihömluðum, var breytt í almennt bílastæði.

Kærandi skírskotar til þess að með ákvörðun sinni hafi byggingarfulltrúinn í Reykjavík gengið gegn hagsmunum eigenda og ekki virt athugasemdir þeirra við ákvarðanatöku. Gangi ákvörðunin gegn ákvæðum fjöleignarhúsalaga, eignaskiptayfirlýsingu, byggingarreglugerð og mannvirkjalögum.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu um stöðvun framkvæmda verði hafnað. Engar framkvæmdir séu yfirstandandi þar sem þeim hafi verið lokið áður en sótt hafi verið um leyfi fyrir breytingunum.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.

Í máli þessu er krafist ógildingar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi fjölbýlishúss við Ferjuvað 1-3. Fólust breytingarnar í því að breyta stæði í bílageymslu, sem áður var ætlað hreyfihömluðum, í almennt bílastæði.

Af þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ljóst að hinum umdeildu breytingum var lokið áður en sótt var um leyfi fyrir þeim hjá byggingarfulltrúa. Hefur því ekki þýðingu að stöðva framkvæmdir á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, enda eru þær afstaðnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir

73/2010 Hverfisgata

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2010, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. nóvember 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir notkun 1. hæðar hússins að Hverfisgötu 18 í Reykjavík undir veitingastað í flokki III með aðgengi að salernisaðstöðu í kjallara.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. desember 2010, er barst nefndinni 3. s.m., kæra 12 eigendur, íbúar og forsvarsmenn stofnana og fyrirtækja að Hverfisgötu 14, 15, 16, 16a, 18a, 19 og 20, þá samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. nóvember 2010 að veita byggingarleyfi fyrir notkun 1. hæðar hússins að Hverfisgötu 18  undir veitingastað í flokki III með aðgengi að salernisaðstöðu í kjallara.

Af hálfu kærenda er þess krafist að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir:
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. maí 2010 var tekið fyrir erindi þar sem sótt var um leyfi fyrir veitingastað í flokki III á öllum hæðum í húsi nr. 18 við Hverfisgötu og var málinu frestað. Fram að þeim tíma mun hafa verið rekin í húsinu upplýsingaþjónusta, kaffihús að degi til og veitingarekstur að kvöldlagi. Hinn 22. september s.á. var tekin fyrir á fundi skipulagsráðs umsókn um leyfi fyrir veitingastað í flokki III í kjallara og á 1. hæð í framangreindu húsi. Var m.a. lögð fram umsögn skipulagsstjóra, dags. 4. júní 2010, mótmæli nágranna, bréf heilbrigðisfulltrúa og glugga- og glerskoðun ásamt hljóðvistarskýrslum. Þá var á sama fundi lögð fram umsögn skipulagsstjóra frá 16. september 2010. Skipulagsráð samþykkti umsögn skipulagsstjóra og vísaði málinu til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Í framangreindri umsögn skipulagsstjóra frá 16. september 2010 sagði m.a.: „Ekki er þó unnt að fallast á umsóttar breytingar að svo stöddu nema rekstraraðili skuldbindi sig til þess að hafa rekstur í húsinu að degi til. Að sama skapi þarf byggingarleyfið að vera bundið því skilyrði að ekki verði byrgt fyrir glugga á nokkurn hátt, hvorki á varanlegan hátt með límdum filmum né með gluggatjöldum. Einnig skal taka fram í byggingarleyfi að óheimilt er að setja upp skilti né auglýsingar á húsið án þess að sækja um sérstakt leyfi fyrir því. Ef ekki er unnt að uppfylla þessi skilyrði er lagt til að erindinu verði frestað þar til endurskoðun á þróunaráætlun miðborgarinnar liggur fyrir en henni ætti að ljúka í byrjun árs 2011.“

Hinn 28. september 2010 var erindið tekið fyrir á fundi byggingarfulltrúa og var niðurstaða hans sú að umsækjandi skyldi leggja fram yfirlýsingu í samræmi við fyrrnefnda umsögn skipulagsstjóra frá 16. s.m. Yfirlýsingu um skilyrði fyrir leyfi, dags. 22. október 2010, var þinglýst á fasteignina Hverfisgötu 18 hinn 30. s.m. Umsókn um leyfi fyrir veitingastað í flokki III á 1. hæð, með aðgengi að salernisaðstöðu í kjallara, var síðan samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. nóvember 2010 og eftirfarandi fært til bókar: „Vakin er athygli umsækjanda á því að hér er um vandasama útfærslu vegna hljóðvistarmála að ræða og ber umsækjanda að óska úttektar byggingarfulltrúa á öllum þrepum framkvæmda hvað hljóðvist varðar auk annarra tilskilinna úttekta.“ Afgreiðsla byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi í skipulagsráði 10. nóvember 2010 og staðfest í borgarráði 18. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að engin grenndarkynning hafi farið fram áður en hið kærða leyfi hafi verið veitt. Áður hafi verið ónæði af rekstri í húsinu við Hverfisgötu 18 en ekkert í líkingu við það sem fylgi núverandi starfsemi. Kærendur geti sætt sig við að veitingaleyfi II væri veitt, þannig að starfsemi í nefndu húsi myndi ljúka kl. 24. Starfsemi í húsinu að Hverfisgötu 18 fari fram eftir miðnætti og standi fram undir morgun. Þá sé ljóst að engin rekstur sé í húsnæðinu á daginn, eins og skilyrt sé í yfirlýsingu.

Umgengni gesta veitingastaðarins umhverfis menningarstofnanir, fyrirtæki og íbúðarhúsnæði í nágrenninu sé mjög slæm. Húseigendur að Hverfisgötu 16 og 16a verði fyrir síendurteknu ónæði vegna hávaða með tilheyrandi svefnleysi. Skrifstofuhúsnæði á 1. hæð að Hverfisgötu 16a hafi verið breytt í íbúðarhúsnæði með styrk frá borginni sem túlka verði svo að borgaryfirvöld vilji að fólk búi í húsinu með þeim réttindum sem fylgi friðhelgi einkalífs. Í húsinu nr. 16 við Hverfisgötu séu þrjár íbúðir og muni veitingareksturinn hafa neikvæð áhrif á verð fasteignarinnar.

Samkvæmt 4. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavíkurborg sé m.a. bannað að hafast nokkuð að sem valdi ónæði eða raski næturró manna og sé það alkunn staðreynd að lögreglan hafi ekki mannafla til að sinna útköllum. Þá séu ákvæði um sviptingu rekstrarleyfis í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald þegar leyfishafi rekstrarleyfis verði uppvís að því að misnota rekstrarleyfið, vanrækja skyldur sem á honum hvíli samkvæmt lögum sem um reksturinn gildi eða brjóta gegn skilyrðum eða skilmálum leyfisins. Það hljóti að teljast lögbrot að sniðganga þetta ákvæði með því að aðhafast ekkert.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að rekstur veitingahúss á þessum stað í borginni sé í samræmi við þróunaráætlun miðborgarinnar, sem sé hluti af Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar. Skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 geri ekki ráð fyrir grenndarkynningum á byggingarleyfisskyldum framkvæmdum sem teljist samræmast deiliskipulagi. Umsóttar breytingar séu innan heimilda deiliskipulags og í samræmi við heimilaða landnotkun á miðborgarsvæði. Leitað hafi verið umsagna Minjasafns Reykjavíkur og Húsafriðunarnefndar og hafi þessir aðilar ekki lagst gegn umsókninni.

Í umsögn skipulagsstjóra, dags. 4. júní 2010, hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði um landnotkun kæmu ekki í veg fyrir að samþykkt væri leyfi fyrir veitingastað í flokki III í húsinu að Hverfisgötu 18. Þar hafi jafnframt komið fram að ekki væri mælt með því að reka slíkan veitingastað í húseigninni og vísað til þess að um væri að ræða reisulegt og sérstakt bárujárnsklætt timburhús frá fyrsta tug síðustu aldar. Alþjóðahús hafi m.a. rekið upplýsingaþjónustu í húsinu og kaffihús að degi til en veitingarekstur að kvöldlagi. Eftir að þeirri starfsemi hafi verið hætt hafi þar verið rekinn skemmtistaður. Í staðfestri þróunaráætlun miðborgarinnar komi fram að m.a. megi notkun ekki hafa neikvæð áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna lyktar, hávaða, sorps eða af öðrum ástæðum.

Hafi sú afstaða komið fram í umsögn skipulagsstjóra 16. september 2010 að ekki hafi verið unnt að fallast á umsóttar breytingar nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og nú liggi fyrir þinglýst yfirlýsing þar um. Fyrir liggi hljóðvistarskýrsla þar sem fram komi að hljóðstig fyrir vestur- og norðurhliðar sé áætlað innan þeirra marka sem fram komi í reglugerð um hávaða fyrir íbúðarhúsnæði á íbúðar-, verslunar- og þjónustusvæðum á mismunandi tímum sólarhrings. Varðandi kvartanir kærenda vegna hávaða, óþrifnaðar og ónæðis skuli á það bent að það sé í verkahring lögregluyfirvalda að sjá til þess að ónæði sem stafi frá veitingastöðum sé ekki umfram það sem búast megi við í miðborginni og að sinna kvörtunum íbúa vegna slíkra staða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi þar sem heimiluð er breytt notkun hússins að Hverfisgötu 18, en skv. 4. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, falla eftirgreindir veitingastaðir í flokk III:  „Umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þar sem leikin er hávær tónlist og/eða afgreiðslutími er lengri en til kl. 23 og kalla á meira eftirlit og/eða löggæslu.‟ Samkvæmt gögnum málsins hóf leyfishafi starfsemi í húsinu á grundvelli bráðabirgðaleyfis fyrir veitingahús, útgefnu af lögreglustjóranum í Reykjavík, áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Fyrirliggjandi hljóðvistaskýrsla er dagsett 24. ágúst 2010 og í umsögn skipulagsstjóra frá 16. september s.á. segir að með hinu kærða leyfi sé verið að heimila breytingar á húsnæðinu til að draga úr hávaða.

Umrætt hús er innan deiliskipulagsreits, sem afmarkast af Laugavegi, Bankastræti, Ingólfsstræti, Hverfisgötu og Traðarkotssundi. Svæðið er hluti miðborgar Reykjavíkur samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem var í gildi er leyfið var samþykkt. Í landnotkunarþætti þróunaráætlunar miðborgar, sem er hluti af fyrrgreindu aðalskipulagi, er miðborginni skipt í landnotkunarreiti, þ.e. miðborgarkjarna, atvinnusvæði, aðalverslunarsvæði og hliðarverslunarsvæði. Laugavegur og Bankastræti innan deiliskipulagsreitsins eru á auðkenndu aðalverslunarsvæði V-I.I meðan að suðurhlið Hverfisgötu, þar með talið húsið nr. 18 og fasteignir nokkurra kærenda, eru staðsettar á hliðarverslunarsvæði V-II.I. Fasteignir annarra kærenda eru staðsettar á norðurhlið Hverfisgötu, á skilgreindu atvinnusvæði utan deiliskipulagsreitsins.

Samkvæmt aðalskipulaginu hafa á hliðarverslunarsvæðum verið skilgreind fjögur götusvæði þar sem nákvæmari stýringu verði beitt til að tryggja æskilega dreifingu notkunar og er eitt þeirra Hverfisgata, þ.e. suðurhlið hennar frá og með nr. 4 til og með nr. 62. Telst því Hverfisgata nr. 18 til skilgreindra götusvæða. Þá er sérákvæði í aðalskipulaginu sem kveður á um að borgaryfirvöld vilji, sem lið í því að viðhalda og efla fjölbreytt mannlíf í borginni, stuðla að samspili verslunarreksturs og veitingareksturs. Jafnframt þyki rétt í því skyni að leyfa rýmri afgreiðslutíma áfengis á aðalverslunarsvæðum V-I.I og hliðarverslunarsvæðum V-II.I. Sú skýring er gefin fyrir framangreindu að tilgreind svæði séu nálægt miðborgarkjarnanum, þar sem mest veitingastarfsemi sé, og þau séu fjær íbúðarbyggð en önnur verslunarsvæði. Samhæfing afgreiðslutíma áfengis á svæðinu skapi tengsl við veitingastarfsemi miðborgarkjarnans og stuðli að því að stærri hluti næturlífsins sé á tilgreindu svæði. Þá er loks almennt ákvæði í aðalskipulaginu um notkun utan skilgreindra götusvæða aðal- og hliðarverslunarsvæða, s.s. í bakhúsum og á efri hæðum. Er þar sett sem skilyrði fyrir því að veitt verði leyfi fyrir notkun að hún hafi ekki truflandi áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna hávaða, lyktar, sorps eða af öðrum ástæðum. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið, og þar sem húsið að Hverfisgötu 18 er á skilgreindu götusvæði og nálægar götur eru ekki innan skilgreindrar íbúðarbyggðar, verður ekki talið að hin heimilaða notkun húsnæðisins að Hverfisgötu 18 fari í bága við skilmála aðal- og deiliskipulags um landnotkun umrædds skipulagsreits.

Ekki liggur annað fyrir en málsmeðferð við undirbúning og töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið lögum samkvæmt, en ekki var þörf á grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga 73/1997, sem gilti á þeim tíma sem hér um ræðir, þar sem umdeilt byggingarleyfi var í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.

Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin form- eða efnisgöllum sem raskað geta gildi hennar og verður ógildingarkröfu kærenda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. nóvember 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir notkun 1. hæðar hússins að Hverfisgötu 18 í Reykjavík undir veitingastað í flokki III með aðgengi að salernisaðstöðu í kjallara.

______________________________
Ómar Stefánsson

____________________________            ___________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson
 

2/2012 Laufásvegur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 11. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2012, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. nóvember 2011 á reyndarteikningum vegna framkvæmda á árunum 2006 og 2007 á fasteigninni Laufásvegi 68 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. janúar 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir I, Smáragötu 11, Reykjavík, samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. nóvember 2011 á reyndarteikningum vegna framkvæmda á árunum 2006 og 2007 á fasteigninni Laufásvegi 68. Barst nefndinni frekari rökstuðningur fyrir kærunni með bréfi, dags. 1. maí 2012. Liggur baklóð Laufásvegar 68 að baklóð kæranda.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu 19. mars 2012 og í maí 2015.

Málavextir:
Á lóðinni nr. 68 við Laufásveg stendur einbýlishús sem reist var ásamt bílskúr á fjórða áratug síðustu aldar. Mál þetta á sér nokkra forsögu en 5. janúar 2007 tók gildi breyting á deiliskipulagi vegna lóðarinnar og var gefið út byggingarleyfi vegna framkvæmda þar 21. mars s.á. Með ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur 18. febrúar 2010 var leyfishafa veittur frestur að viðlögðum dagsektum til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðar sinnar til samræmis við aðaluppdrætti og hinn 20. maí s.á. felldi borgarráð úr gildi hluta byggingarleyfisins. Með úrskurðum í málum nr. 19 og 35/2010, uppkveðnum 25. október 2011, felldi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úr gildi fyrrgreindar ákvarðanir borgarráðs frá árinu 2010, þar sem þær voru haldnar annmörkum.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur 25. nóvember 2011 var tekin fyrir umsókn um samþykki á reyndarteikningum. Var eftirfarandi fært til bókar: „Sótt er um samþykki á reyndarteikningum vegna framkvæmda 2006-2007 sem fela í sér að heitur pottur er færður til, bætt er við gönguhurð í bílgeymslu, bætt er við gönguhurð úr húsi út í garð, hæðarlegu neðri palls er breytt og skráningartafla er lagfærð fyrir einbýlishús á lóð nr. 68 við Laufásveg.“ Þá var bókað: ,,Í ljósi úrskurða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málum nr. 19/2010 og 35/2010 er ekki gerð athugasemd við erindið.“ Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 29. nóvember 2011 var umsóknin samþykkt með vísan til fundargerðar frá fyrrnefndum afgreiðslufundi skipulagsstjóra og staðfest í borgarráði hinn 1. desember 2011.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að hann hafi í desember 2007 vakið athygli Reykjavíkurborgar á því að framkvæmdir við Laufásveg 68 brytu í bága við gildandi deiliskipulag. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 12. júní 2008, hafi verið tekið undir þau sjónarmið og framkvæmdum m.a. þannig lýst að reist hafi verið 32,2 m² útigeymsla sem gangi 4 m út fyrir byggingarreit og að 47 m² steypt plata liggi ofan á lóðarvegg milli Laufásvegar 68 og Smáragötu 11 þannig að gera megi ráð fyrir að lóðin hafi verið hækkuð um allt að einum metra. Hafi tilraunir borgaryfirvalda til að koma framkvæmdum í lögmætt horf ekki borið árangur og vísist í því sambandi til úrskurða úrskurðarnefndarinnar frá 25. október 2011.

Teikningar með hinni kærðu ákvörðun sýni ýmsar fleiri framkvæmdir sem hafi verið gerðar á umræddu árabili en þeirra sé ekki getið í ákvörðuninni. Í ódagsettri breytingalýsingu á teikningu sé lýst breytingum sem ekki sé ljóst hvort einnig sé verið að samþykkja. Þá verði ekki betur séð en að útigeymslan og lóðarhækkunin standi óbreytt. Auk þess sé á teikningum gert ráð fyrir framkvæmdum sem ekki hafi verið ráðist í. Til dæmis segi að ofan á steyptan vegg á milli húsa sé 1,5 m hár viðarveggur. Í athugasemdum á teikningunni standi að með öllu sé óheimilt að breyta þessum vegg nema með samþykki beggja lóðarhafa. Slíkur veggur hafi ekki verið byggður og engin áform séu um það af kæranda hálfu en ekki verði af ákvörðuninni ráðið hvort í henni felist samþykki fyrir byggingu ofan á núverandi vegg. Samkvæmt teikningunni virðist hafa verið fjarlægður hluti af pallinum sem steyptur hafi verið ofan á garðvegginn milli lóðanna, en eins og framkvæmdir standi núna þá sé pallurinn ennþá steyptur ofan á vegginn. Hins vegar hafi verið gerð göt á hann fyrir gróður.

Óljóst sé hvað felist í hinni kærðu ákvörðun en hún virðist byggð á þeirri forsendu að framkvæmdir standi óbreyttar. Verði því ekki annað séð en að hún feli í sér samþykki borgaryfirvalda á öllum umdeildum framkvæmdum sem ráðist hafi verið í að Laufásvegi 68 með og án byggingarleyfis á umræddum árum en ekki bara þeim sem taldar hafi verið upp í ákvörðuninni. Jafnframt megi leiða af henni að fallið sé frá áformum um að afturkalla byggingarleyfi vegna framkvæmda sem ekki rúmist innan deiliskipulags. Enn sé í gildi deiliskipulag fyrir það svæði sem byggt hafi verið á og framkvæmdir jafn ólöglegar nú og þegar þær hafi farið fram, eins og byggingarfulltrúi lýsi í bréfi sínu frá 12. júní 2008.

Ekki verði séð að lagaheimild sé fyrir ákvörðun borgaryfirvalda, en framkvæmdin hafi hvorki verið einungis lítillega í andstöðu við deiliskipulag né hafi hún verið grenndarkynnt. Ekkert sé heldur í tilvitnuðum úrskurðum úrskurðarnefndarinnar sem gagnist sem rökstuðningur fyrir ákvörðuninni. Þvert á móti séu í nefndum úrskurðum gerðar verulegar athugasemdir við málsmeðferð við töku fyrri ákvarðana, óskýrleika þeirra og að þær séu að hluta til óframkvæmanlegar. Borgaryfirvöld hafi átt að hlutast til um að framkvæmdir yrðu færðar í löglegt horf og eftir atvikum að axla ábyrgð á eigin mistökum við útgáfu byggingarleyfis.

Þá geri kærandi athugasemd gagnvart úrskurðarnefndinni varðandi málsmeðferð í máli nr. 19/2010. Í úrskurðinum sé haft eftir lögmanni byggingarleyfishafa ýmislegt varðandi afstöðu kæranda til framkvæmda og um forsendur þess að kærandi hafi gert athugasemdir til borgarinnar vegna þeirra. Fullyrðingar lögmannsins séu rangar og hæpið að það standist rannsóknarreglu stjórnsýslulaga að veita kæranda ekki tækifæri til að tjá sig um það sem eftir honum sé haft, fyrst nefndin hafi talið frásögn um það atriði eiga erindi í úrskurðinn.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Samþykkt Reykjavíkurborgar byggi á úrskurðum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 25. október 2011, en í ljósi þeirra hafi ekki verið stætt á öðru en að samþykkja umsókn þá sem hér sé til umfjöllunar.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Aðalkrafa um frávísun sé byggð á því að kæra, dags. 9. janúar 2012, hafi brotið í bága við 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en í kærunni séu engar kröfur settar fram og enginn rökstuðningur. Þau atriði sem um sé deilt í málinu hafi engin áhrif á fasteignina að Smáragötu 11 og séu þau tæplega sýnileg eigendum þeirrar fasteignar. Málið byggi því á réttlætiskennd eigenda fasteignarinnar að Smáragötu 11, en ekki raunverulegum hagsmunum.

Samþykktar hafi verið reyndarteikningar þar sem fram komi endanleg afstaða framkvæmda, sbr. ákvæði mannvirkjalaga og gildandi byggingarreglugerðar. Um sé að ræða minniháttar breytingar sem hafi orðið frá upphaflegum teikningum á framkvæmdatíma. Þá rúmist framkvæmdirnar allar innan deiliskipulagsins. Sé ferli þetta að fullu og öllu leyti í samræmi við lög og verði ekki séð af kæru eða rökstuðningi fyrir henni að færð séu málefnaleg rök fyrir öðru.

Á hinum samþykktum uppdráttum sé ekki gert ráð fyrir viðarvegg ofan á steypta vegginn milli lóða kæranda og leyfishafa. Á greindum uppdráttum sé athugasemd um viðarvegg milli lóðanna að Laufásvegi 68 og 70 en þar sé enginn slíkur viðarveggur á lóðarmörkunum í dag og séu ekki áform um að reisa hann. Sá veggur yrði auk þess kæranda óviðkomandi. Eini viðarveggurinn í nágrenninu sé milli lóðanna Laufásvegar 70 og Smáragötu 13 og sé hann kæranda og leyfishafa jafnframt óviðkomandi. Ekki þurfi leyfi fyrir runnagróðri en ekki sé gert ráð fyrir að hann verði hávaxinn. Sá gróður sé að öllu leyti innan lóðar leyfishafa.

Ákvörðun borgaryfirvalda um að afturkalla byggingarleyfið hafi verið felld úr gildi. Sé því ekki rétt hjá kæranda að segja að borgaryfirvöld hafi fallið frá ákvörðun sinni um að afturkalla byggingarleyfið sem ekki rúmist innan deiliskipulags. Afstaða kæranda bendi til þess að það eigi að vera markmið borgaryfirvalda að fella byggingarleyfið úr gildi. Fyrir liggi að rannsókn byggingarfulltrúa og öll málsmeðferð borgaryfirvalda, sem leiddi til þess að byggingarleyfið hafi verið fellt úr gildi á sínum tíma, hafi ekki verið í samræmi við lög. Niðurstaða þeirrar ólögmætu málsmeðferðar geti á engan hátt verið vísbending eða staðfesting á því að umræddar framkvæmdir séu óleyfilegar. Þær hafi nú verið samþykktar af borgaryfirvöldum í kjölfar vandaðrar og eðlilegrar málsmeðferðar sem staðfesti að umræddar framkvæmdir séu í löglegu horfi.

—————-

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun:
Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 21. apríl 2015.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi byggingarleyfis sem veitt var fyrir framkvæmdum á lóðinni nr. 68 við Laufásveg en svo sem áður er lýst liggur eign kæranda að baklóð þess húss og verður að telja að umdeildar framkvæmdir geti snert lögvarða hagsmuni hans.  Kæranda var tilkynnt um leyfi vegna framkvæmdanna með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 7. desember 2011, sem póstlagt var 9. s.m. Kæra barst úrskurðarnefndinni 9. janúar 2012 þar sem fram kom hver væri kærandi og hvaða ákvörðun væri kærð. Kæran var bæði skrifleg og undirrituð. Fram kemur í kæru að bréfi byggingarfulltrúa hafi ekki fylgt gögn og er jafnframt með kærunni farið fram á afrit allra gagna málsins. Þá segir að kærandi muni koma með frekari rökstuðning þegar hann hafi fengið tækifæri til að kynna sér þau gögn. Verður með hliðsjón af framangreindu, og þar sem hin kærða ákvörðun kemur að verulegu leyti fram á teikningum sem ekki fylgdu bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, að telja fullnægt skilyrðum 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Sveitarfélögum er veitt vald til tiltekinna leyfisveitinga með lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Sveitarfélög fara einnig með skipulagsvald samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Skulu þau við skipulagsgerð gæta hagsmuna heildarinnar en þó þannig að hagsmunir einstaklinga séu ekki fyrir borð bornir, sbr. 1. gr. nefndra laga. Náið samspil er milli laganna tveggja og skulu byggingarleyfi vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 13. gr. mannvirkjalaga. Þá er sveitarfélögum skylt að fara í hvívetna að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 sem og almennum reglum stjórnsýsluréttarins þegar þau beita valdi sínu og sinna lögboðnum skyldum sínum í skjóli þess.

Eins og rakið er í málavöxtum var hinn 21. mars 2007 gefið út byggingarleyfi vegna framkvæmda að Laufásvegi 68. Með úrskurðum uppkveðnum 25. október 2011 felldi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úr gildi þær ákvarðanir borgarráðs frá árinu 2010 að beita þvingunarúrræðum vegna framkvæmdanna og að fella úr gildi hluta nefnds byggingarleyfis. Byggingarfulltrúi samþykkti 29. nóvember 2011 nýtt byggingarleyfi á grundvelli framlagðra reyndarteikninga. Við ákvörðun sína vísaði hann til fundar skipulagsstjóra þar sem bókað var að ekki væri gerð athugasemd við erindið í ljósi fyrrnefndra úrskurða. Virðist af þessari afgreiðslu borgaryfirvalda að í kjölfar úrskurða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hafi þau ekki talið sér annað fært en að veita hið kærða leyfi. Gáfu úrskurðirnir ekki tilefni til þeirrar ályktunar enda byggði niðurstaða þeirra annars vegar á því að undirbúningi ákvörðunar hefði verið verulega áfátt og hins vegar á því að ákvörðun væri haldin verulegum annmörkum og þá einkum með vísan til þess að íþyngjandi ákvarðanir yrðu að vera skýrar, framkvæmanlegar og studdar málefnalegum rökum. Tilvísun til nefndra úrskurða í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun var því ekki haldbær. Hefðu borgaryfirvöld þvert á móti átt að taka málið til nánari rannsóknar sem og að meta áhrif ákvarðana sinna á alla aðila málsins.

Við meðferð málsins bar borgaryfirvöldum þannig að taka málið til skoðunar á ný og meta með sjálfstæðum hætti hvort skilyrði væru til staðar til útgáfu byggingarleyfis á grundvelli framlagðra reyndarteikninga eða ekki. Það verður hins vegar ekki séð af gögnum málsins að borgaryfirvöld hafi tekið efnislega afstöðu til þess hvort framlagðar reyndarteikningar samrýmdust skipulagsáætlunum, sbr. áskilnað þar um í 1. tl. 13. gr. mannvirkjalaga, heldur létu þau við það sitja að vísa til áðurnefndra úrskurða. Þá verður að telja að tilefni hafi verið til að leita annað hvort eftir umsögn borgarminjavarðar á ný í samræmi við ákvæði gildandi deiliskipulags um vernd hússins að Laufásvegi 68 eða taka afstöðu til þeirrar umsagnar borgarminjavarðar er veitt var fyrir útgáfu byggingarleyfisins 2007.

Af öllu því sem framan greinir, og einkum og sér í lagi í ljósi forsögu málsins, verður að telja að borgaryfirvöld hafi ekki sinnt lögboðnu hlutverki sínu sem skyldi og er ljóst að bæði rannsókn málsins og rökstuðningi niðurstöðu þess var verulega áfátt. Verður með hliðsjón af því að telja að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið haldin slíkum annmörkum að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. nóvember 2011 á reyndarteikningum vegna framkvæmda á árunum 2006 og 2007 á fasteigninni Laufásvegi 68 í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Þorsteinn Þorsteinsson

75/2012 Laufásvegur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 11. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2012, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. nóvember 2011 um að breyta innra skipulagi einbýlishúss, byggja skyggni yfir inngang, gera dyr á suðurhlið hússins út í garð, koma fyrir setlaug og steypa palla á lóðinni nr. 70 við Laufásveg í Reykjavík. Jafnframt er kærð afgreiðsla byggingarfulltrúans frá 17. júlí 2012 um að samþykkja breyttar teikningar af frágangi téðrar lóðar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. júlí 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra S, Smáragötu 13, Reykjavík, leyfi byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. nóvember 2011 um að breyta innra skipulagi einbýlishúss, byggja nýtt skyggni yfir inngang, gera dyr á suðurhlið, koma fyrir setlaug og steypa palla á lóðinni nr. 70 við Laufásveg. Jafnframt er kært samþykki byggingarfulltrúans frá 17. júlí 2012 fyrir breyttum teikningum af frágangi lóðarinnar. Liggur baklóð Laufásvegar 70 að baklóð kærenda.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærðu byggingarleyfi verði felld úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda með sérstökum úrskurði.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu 8. ágúst 2012 og í maí 2015.

Málavextir: Á lóðinni nr. 70 við Laufásveg stendur einbýlishús sem reist var árið 1927. Bílskúr og vermistöð eru einnig á lóðinni. Hinn 18. október 2011 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins, reisa nýtt skyggni yfir inngang þess, gera dyr út í garð á suðurhlið, koma fyrir setlaug og steypa palla á umræddri lóð. Var afgreiðslu málsins frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Erindið var næst tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 1. nóvember s.á., það samþykkt og talið samræmast ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010.

Með bréfum, dags. 21. júní og 3. júlí 2012, komu kærendur á framfæri kvörtun við skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur vegna framkvæmda á téðri lóð sem ekki hefðu verið grenndarkynntar. Töldu kærendur m.a. að framkvæmdirnar væru ekki í samræmi við framlagðar teikningar sem þeir hefðu aflað sér. Ekki væri um uppfyllta palla að ræða eins og fram kæmi á teikningum, heldur viðbyggingu við húsið með steyptu gólfi og dyragati inn í aðalhús. Var þess krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar og nánari skýringa óskað.

Byggingarfulltrúi svaraði kærendum með bréfi, dags. 6. júlí 2012. Kom þar fram að athugun hefði leitt í ljós að framkvæmdir hefðu verið hafnar án þess að veitt hefði verið byggingarleyfi en skilyrt gögn fyrir útgáfu leyfisins hefðu ekki borist embættinu. Einnig að í byggingu væri steinsteypt rými undir pöllum á baklóð sem ekki hefði verið sótt um byggingarleyfi fyrir. Jafnframt hefðu mælingar sýnt að pallar væru í samræmi við uppdrætti, að undanskildu rými undir þeim. Umræddar framkvæmdir ættu sér því stað án leyfis og yrðu stöðvaðar þar til úr hefði verið bætt. Var lóðarhafa Laufásvegar 70 tilkynnt um stöðvun framkvæmda með bréfi, dags. sama dag. Með bréfi kærenda til byggingarfulltrúa, einnig dags. nefndan dag, var því andmælt að um byggingu palla væri að ræða. Gerð var krafa um að ákvörðun byggingarfulltrúa frá 1. nóvember 2011 yrði afturkölluð og að framkvæmdir yrðu grenndarkynntar.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 17. nóvember 2011 var tekin fyrir umsókn um breyttar teikningar af lóðarfrágangi að Laufásvegi 70. Var umsóknin samþykkt og talin samræmast ákvæðum laga nr. 160/2010. Byggingarleyfi vegna framangreindra samþykkta var gefið út 18. júlí 2012.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að ekki sé um palla að ræða heldur viðamikil járnbent og steinsteypt mannvirki í tveimur hæðum. Stærra mannvirkið sé um 165 cm frá fyrri lóðarhæð og það minna um 300 cm frá fyrri lóðarhæð. Í stað þess að lóð kærenda og lóðin að Laufásvegi 70 séu í sömu hæð og áður muni þeir sem vistist á mannvirkjunum fá mikla innsýn í garð og inn um glugga á húsi kærenda þrátt fyrir háa girðingu sem sé á lóðarmörkum. Hafi engin grenndarkynning farið fram á téðum mannvirkjum enda þótt þau nái vel út fyrir byggingarreit samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Muni framkvæmdirnar hafa veruleg og óafturkræf neikvæð áhrif á nágrenni sitt og þá einkum gagnvart kærendum. Hafi borið að grenndarkynna framkvæmdirnar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að úrskurðarnefndin staðfesti hinar kærðu ákvarðanir. Um steinsteypta palla sé að ræða og sé holrými undir steyptu gólfi í stað þess að fylla það. Ekki sé gert ráð fyrir að það verði nýtt á nokkurn hátt, enda hafi ekki verið veitt leyfi til þess. Stærð umdeildra palla, hæð þeirra miðuð við yfirborðsfrágang lóðar og fjarlægð frá lóð kærenda hafi verið metin þannig að ekki væri þörf á grenndarkynningu. Ekki sé meiri sýn í garð kærenda af umræddum pöllum en reikna megi með á þessu svæði. Ef breytingar teljist hvorki fela í sér verulega né óverulega breytingu á deiliskipulagi krefjist skipulagslög þess ekki að breytingarnar séu grenndarkynntar og hafi svo háttað hér. Muni umræddir pallar aldrei geta haft það veruleg eða óafturkræf neikvæð áhrif á grennd sína að rétt hefði verið að synja umsókn um gerð þeirra á þeim grundvelli. Hafi það enga þýðingu þótt nefnd mannvirki nái e.t.v. út fyrir byggingarreit, enda sé aðeins um byggingu palla að ræða en ekki húsbyggingu.

Málsrök byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafi fer fram á að kröfum kærenda verði hafnað. Skírskotar hann til og tekur undir sjónarmið og rökstuðning Reykjavíkurborgar í máli þessu sem og til framlagðra gagna borgarinnar. Jafnframt sé tekið fram að fullnægt hafi verið öllum skilyrðum fyrir byggingarleyfi. Öll tilskilin leyfi hafi verið fengin með réttum hætti og skjótt hafi verið brugðist við athugasemdum byggingarfulltrúa. Brjóti leyfið hvorki í bága við skipulags- og byggingarlög né heldur reglugerðir sem settar hafi verið með stoð í þeim. Sé leyfið og í samræmi við deiliskipulag fyrir svæðið. Um palla sé að ræða en ekki húsbyggingu. Á teikningu sé sérstaklega merkt við þau aflokuðu rými sem óuppfyllt séu innan sökkla í samræmi við 2. mgr. gr. 4.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hyggist byggingarleyfishafi ekki nýta umrædd rými. Bent sé á að lóðin hafi verið með verulegum halla sem hafi gert hana að miklu leyti ónýtanlega. Sé hluti steyptra palla lægri en lóðin hafi áður verið. Standist ekki að lóðir kærenda og leyfishafa hafi áður verið í sömu hæð. Verði kærendur að una því að húseigandi geti nýtt sér lóð sína með hefðbundnum hætti.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 21. apríl 2015.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti tveggja ákvarðana byggingarfulltrúans í Reykjavík vegna framkvæmda við Laufásveg 70. Annars vegar að heimila m.a. að gera dyr á suðurhlið út í garð og steypa palla á lóðinni og hins vegar að samþykkja breyttar teikningar af frágangi lóðarinnar. Lúta athugsemdir kærenda að byggingu nefndra palla.

Lóðin að Laufásvegi 70 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag fyrir staðgreinireiti 1.197.2 og 1.197.3 sem afmarkast af Smáragötu, Njarðargötu, Laufásvegi og Einarsgarði. Deiliskipulagið öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 8. maí 2006. Fram kemur í deiliskipulaginu að flest hús á svæðinu hafi verið reist í samræmi við fyrsta heildarskipulag Reykjavíkur frá 1927. Samkvæmt forsendum deiliskipulagsins er svæðið hluti af jaðarsvæði miðborgarinnar og fellur sem slíkt undir Þróunaráætlun miðborgarinnar. Nýtur allt deiliskipulagssvæðið hverfisverndar og fellur undir flokk II í þróunaráætlun eða „verndun byggðra svæða með umhverfisgildi“. Í þeim flokki er lögð áhersla á að svip húsa verði sem minnst raskað en ekki er lagst gegn breytingum á þeim hliðum húsa sem sjást lítt eða ekki frá götu. Þá er tilgreint í forsendum skipulagsins að jaðarsvæði þessi séu að mestu leyti fullbyggð og því sé með deiliskipulagi á reitum þessara svæða leitað leiða til að viðhalda upprunalegu svipmóti en leyfa þó hóflegar viðbætur og breytingar.

Deiliskipulag sem tekið hefur gildi er bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. gr. 6.4. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sem í gildi var þegar hinar umdeildu ákvarðanir voru teknar. Í deiliskipulagi felst ákvörðun sveitarstjórnar um landnotkun og yfirbragð skipulagssvæða. Er þar kveðið á um hvaða heimildir eru fyrir hendi til nýtingar einstakra lóða og fyrirkomulag bygginga. Verða borgarar að geta treyst því að festa sé í framkvæmd byggingarmála og að mannvirki séu reist í samræmi við gildandi skilmála. Fyrrnefnt deiliskipulag er ítarlegt og geymir skilmála um viðbyggingar, bílskúra, steypta garðveggi, bílastæði á lóðum, hækkun húsa og þakhæða, fjölgun íbúða, trjágróður, viðhald og endurnýjun. Greinargóð ákvæði er lúta að viðhaldi og endurnýjun á húsum á lóðunum taka t.a.m. til viðhalds og endurnýjunar þaka, á þakrennum og niðurföllum, steypu og steinunar, á gluggum, endurnýjun og gerð nýrra skyggna yfir útidyrum og steyptra/hlaðinna garðveggja. Er tekið fram að þau ákvæði séu ekki tæmandi talin og bera þau þess merki að við framangreindar framkvæmdir skuli tekið mið af gerð og aldri húsa og leitast við að færa ástand þeirra í upprunalegt horf.

Uppbyggingu á reitnum eru settar skorður með deiliskipulaginu en þó er leyft að byggja við öll hús við Laufásveg innan byggingarreits sem almennt er afmarkaður á þeim hliðum sem ekki snúa að götu. Segir um viðbyggingar og breytingar að vanda skuli mjög til hönnunar þeirra og skulu viðbyggingar og breytingar vera með þeim hætti að þær hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfið og gæði nálægra bygginga. Þá skulu þær vernda og styrkja heildarmynd svæðisins. Loks eru sérskilmálar fyrir hverja lóð og er samkvæmt þeim heimilt að reisa á lóðinni að Laufásvegi 70 viðbyggingu innan byggingarreits og stækka bílskúr.

Hinir umdeildu pallar eru steinsteyptir og áfastir við húsið og fara þeir út fyrir byggingarreit. Samkvæmt samþykktum uppdráttum rís hærri pallurinn um einn metra upp yfir fyrri lóðarhæð. Eru pallarnir þannig að gerð og umfangi að þeir hafa áhrif sem jafna má við áhrif af viðbyggingum sem þurfa að vera innan byggingarreits. Eru áhrifin bæði á svipmót hússins og á nágrannalóðir. Geta grenndaráhrifin orðið veruleg og skert nýtingarmöguleika nærliggjandi lóða vegna hljóðvistar og yfirsýnar. Eins og áður greinir eru pallarnir að hluta til utan þess byggingarreits sem markaður er í deiliskipulagi og er ekki að öðru leyti gert ráð fyrir heimild til gerðar slíkra mannvirkja í deiliskipulagsskilmálum, sem þó eru ítarlegir eins og áður er rakið.

Verður að telja, að teknu tilliti til framangreinds, að heimild til byggingar mannvirkja sem hér um ræðir hafi þurft að eiga beina stoð í deiliskipulagi. Ekki verður ráðið að slíkri heimild sé til að dreifa í deiliskipulagi Smáragötureits en það er á færi skipulagsyfirvalda að gera þar að lútandi breytingar. Var því áskilnaði 1.tl. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 um að byggingarleyfi samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu ekki fullnægt. Með vísan til þess sem að framan greinir verður því ekki hjá því komist að fella hinar kærðu ákvarðarnir úr gildi en með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þær eingöngu felldar úr gildi að því er varðar upprædda palla. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld eru úr gildi leyfi byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. nóvember 2011 og 17. júlí 2012 að því er varðar steinsteypta palla á lóðinni nr. 70 við Laufásveg, Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

___________________________            ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                              Þorsteinn Þorsteinsson

17/2015 Brú í landi Elliðakots

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 8. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2015, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 4. febrúar 2015 og á ákvörðun bæjarstjórnar frá 11. s.m. um að samþykkja að veita megi byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni Brú í landi Elliðakots í Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Hjalti Steinþórsson hrl., f.h. eigenda fasteignarinnar Elliðakots í Mosfellsbæ, ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 4. febrúar 2015 og ákvörðun bæjarstjórnar frá 11. s.m. um að samþykkja að veita megi byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni Brú í landi Elliðakots. Var gerð sú krafa að hinar kærðu ákvarðanir yrðu felldar úr gildi og að úrskurðarnefndin frestaði réttaráhrifum þeirra til bráðabirgða meðan málið væri til meðferðar fyrir nefndinni. Var kröfu um frestun réttaráhrifa hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 12. mars 2015.

Með bréfum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. apríl og 6. maí 2015, er bárust nefndinni samdægurs, kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ frá 15. apríl 2015 um að samþykkja byggingaráform fyrir 133,2 m² sumarbústað á fyrrnefndri lóð og ákvörðun byggingarfulltrúans frá 24. apríl 2015 um að samþykkja byggingaráform fyrir sumarbústað á nefndri lóð er yrði 129,3 m² í stað 133,2 m². Gerð er krafa um ógildingu hinna kærðu ákvarðana og að kveðið verði á um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður það kærumál, sem er númer 27/2015, sameinað máli þessu enda lúta hinar kærðu ákvarðanir að heimild til byggingar sumarhúss á nefndri lóð. Verður málið nú tekið til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik: Kærendur eru eigendur fasteignarinnar Elliðakots í Mosfellsbæ sem er lögbýli. Samkvæmt lóðarleigusamningi frá 2002 seldu kærendur leigutaka á leigu „lóð þá úr landi Elliðakots, Mosfellsbæ sem sumarhúsið „Brú“ stendur á“. Umrætt hús, sem mun hafa verið um 70 m² timburhús, brann árið 2014. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar hinn 1. júlí s.á. var tekin fyrir fyrirspurn f.h. leigutaka lóðarinnar um hvort leyft yrði að endurbyggja sumarbústað í landi Elliðakots, landnr. 125216, sem yrði 130 m² að stærð með útgröfnum skriðkjallara/tæknirými. Var fært til bókar að samkvæmt aðalskipulagi væri hámarksstærð húss á lóðinni 130 m² en nefndin væri neikvæð fyrir gerð skriðkjallara undir húsi. Heimilað yrði að grenndarkynna umrætt sumarhús þegar breyttir uppdrættir lægju fyrir. Í kjölfarið var grenndarkynnt „umsókn um leyfi til að byggja 130 m² sumarbústað í stað bústaðar þess sem brann“ og var samkvæmt kynntum uppdráttum kjallari undir öllu húsinu. Komu kærendur að athugasemdum við fyrirhugaða byggingu og kváðust sem landeigendur hafna henni. Athugasemdum kærenda var svarað með bréfum, dags. 9. september 2014, og þeim gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum, sem þeir og gerðu með bréfum, dags. 18. og 22. s.m.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar hinn 11. nóvember 2014. Taldi nefndin m.a. að hafna bæri umsókn um byggingarleyfi þar sem húsið væri yfir stærðarmörkum í aðalskipulagi þar sem reikna bæri flatarmál kjallara með í heildarflatarmáli þess. Á sama fundi var tekið fyrir erindi frá byggingarfulltrúa um byggingu 129,3 m² sumarhúss á lóðinni og fallist á að grenndarkynna það. Var erindið grenndarkynnt með bréfum, dags. 20. nóvember 2014. Andmælum og sjónarmiðum kærenda var komið á framfæri við bæjaryfirvöld með bréfi, dags. 2. desember s.á. Hinn 4. febrúar 2015 var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Nefndin samþykkir framlögð drög að svörum og samþykkir jafnframt að hún gerir ekki athugasemdir við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi skv. fyrirliggjandi umsókn þegar hann telur hönnunargögn vera orðin fullnægjandi.“ Staðfesti bæjarstjórn samþykkt skipulagsnefndar 11. s.m.

Hinn 15. apríl s.á. var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að „byggja/endurbyggja“ 133,2 m² sumarbústað úr forsteyptum einingum á nefndri lóð. Var umsóknin samþykkt og í fundargerð var vísað til bókunar skipulagsnefndar frá 4. febrúar s.á. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. apríl 2015 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir „breyttri stærð á áður samþykktum sumarbústað úr forsteyptum einingum á lóð nr. 125216 í Elliðakotslandi í samræmi við framlögð gögn en stærð bústaðarins var við umfjöllun skipulagsnefndar og í grenndarkynntum gögnum 129,3 m². Stærð bústaðs eftir breytingu er 129,3 m², 675,0 m³. Áður samþykktir uppdrættir falli úr gildi.“

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að veiting fyrirhugaðs byggingarleyfis fari í bága við gildandi aðalskipulag Mosfellsbæjar. Svæði það sem hér um ræði sé í aðalskipulagi skilgreint á uppdrætti sem svæði fyrir frístundabyggð sem ekki hafi verið deiliskipulagt. Í gr. 4.11 í greinargerð aðalskipulagsins sé fjallað um svæði fyrir frístundabyggð. Þar segi svo: „Ný frístundahús má einungis reisa innan svæða sem afmörkuð eru fyrir frístundabyggð og í samræmi við samþykkt deiliskipulag.“ Sé þess hvergi getið að víkja megi frá kröfu um deiliskipulag eða að frá henni séu undantekningar. Í umsögn skipulagsfulltrúa í málinu sé ekki gerð grein fyrir því á hvaða grundvelli bæjaryfirvöld telji sig geta vikið til hliðar fortakslausu ákvæði aðalskipulags um deiliskipulag frístundabyggða. Fyrirhuguð sé nýbygging sem sé nærri tvöfalt stærra en hús það sem verið hafi á lóðinni. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé það skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis að það samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Augljóst sé að svo sé ekki í máli þessu og beri þegar af þeirri ástæðu að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi.

Að auki hafi ekki verið skilyrði til að viðhafa grenndarkynningu í málinu. Ekki sé um þegar byggt hverfi að ræða. Við það bætist m.a. að um verulega breytingu á byggðamynstri og þéttleika byggðar sé að ræða og um leið vikið frá hvoru tveggja, sem ekki samrýmist skilyrðum þeim sem sett séu í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Því sé alfarið hafnað að líta beri til heimilda aðalskipulags um hvert sé byggðamynstur svæðisins.

Loks telji kærendur að fyrirhuguð bygging húss á lóð þeirra að Brú sé háð samþykki þeirra og gildi þá einu hver afstaða byggingaryfirvalda kunni að vera til umsóknarinnar. Leigulóðarhafi eigi aðeins samningsbundinn og tímabundinn rétt til hagnýtingar afmarkaðs lands í eigu kærenda. Sé réttur hans aðeins sá sem með óyggjandi hætti verði ráðinn af samningnum. Beri að skýra allan vafa kærendum í hag, en úrlausn ágreiningsins eigi undir dómstóla. Hvergi sé í lóðarleigusamningi um lóðina vikið að rétti til nýbyggingar eða endurbyggingar húss á lóðinni. Þvert á móti sé samningurinn gerður fyrir tiltekið hús sem þar sé fyrir. Sé réttur lóðarhafa til afnota af lóðinni bundinn við umrætt hús og þær framkvæmdir sem nauðsynlegar séu til nýtingar þess. Væri talið að réttur til endurbyggingar húss eftir bruna væri fyrir hendi, reistur á sanngirnissjónarmiðum og eðli máls, væri hann takmarkaður við sambærilegt og jafn stórt hús og fyrir hafi verið á lóðinni.

Eigi kærendur ríka lögvarða hagsmuni því tengda að ekki verði byggt á lóðinni stærra og verðmætara hús en það sem fyrir hafi verið, m.a. vegna hugsanlegrar innlausnarskyldu þeirra í lok leigutíma lóðarinnar. Leiði af grundvallareglum eignarréttarins að leyfi landeiganda þurfi til að veita megi byggingarleyfi á hans landi og sé land í sameign þurfi samþykki sameigenda. Sé í því sambandi vísað m.a. til dóma Hæstaréttar í málum nr. 326/2005, 204/2008 og 406/2010. Þá hafi verið samþykkt lítilsháttar breyting árið 1998 á bústað þeim er brann og hafi hann eftir það verið skráður 68,9 m² og því rangt að hann hafi margsinnis verið stækkaður, líkt og haldið sé fram.

Byggt sé á sömu málsrökum vegna hinna kærðu ákvarðana byggingarfulltrúa um samþykkt byggingaráforma. Þar við bætist að leyfi byggingarfulltrúa vegna áforma um byggingu 133,2 m² sumarbústaðar á lóðinni sé bæði í andstöðu við ákvæði aðalskipulags um hámarksstærð sumarhúsa á frístundasvæðum í sveitarfélaginu svo og samþykkt skipulagsnefndar um að heimila mætti byggingu á 129,3 m² húsi á umræddri lóð.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Óskað hafi verið eftir leyfi til að endurbyggja sumarhús sem hafi eyðilagst í bruna og verði sá bústaður m.a. með sama fastanúmer og eldri bústaður. Ákvæði aðalskipulags taki samkvæmt orðum sínum ekki til slíkra tilvika þegar endurbygging fari fram. Taki það einungis til nýrra frístundahúsa, og þá í þeim skilningi að um sé að ræða ný hús, sem fái ný fastanúmer, þar sem ekki hafi staðið hús áður. Fyrirhugað hús samræmist fyllilega aðalskipulagi hvað varði landnotkun, stærð húss og fjölda húsa/lóða á svæðinu.

Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 beri aðeins að horfa til þess hvort byggð sé fyrir hendi en ekki til stærðar hennar. Teljist umrætt hverfi byggt í skilningi ákvæðisins, þótt fjöldi húsa eða nágranna sé ekki mikill, en viðmið um fjölda leiði af eðli byggðarinnar sem sé gisin byggð frístundahúsa. Skuli ekki horfa til ástandsins sem fyrir hafi verið á umræddu svæði þegar meta beri hvort bygging feli í sér verulega breytingu á byggðamynstri og þéttleika byggðar, heldur til ákvæða gildandi aðalskipulags. Fyrirhugað hús samræmist fyllilega ákvæðum aðalskipulags um landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Hafi því verið rétt að viðhafa grenndarkynningu.

Sveitarfélagið hafi ekki talið að því væri stætt á að neita að gefa út byggingarleyfi á þeim grundvelli að heimild umsækjanda til notkunar landsins væri ekki fyrir hendi, á meðan í gildi væri lóðarleigusamningur þar sem skýrlega kæmi fram að umrædd lóð væri leigð undir „sumarhúsið Brú“. Sé þá haft í huga að samningur þessi kveði ekki á um að húsið skuli vera af tiltekinni lögun eða stærð, eða að óheimilt sé að endurbyggja það. Hljóti lóðarhafi að hafa rúman rétt til notkunar og hagnýtingar landsins, nema sérstakar kvaðir séu settar í lóðarleigusamningi. Jafnframt hafi verið horft til þess að ef afstaða kærenda til efnis samningsins yrði ofan á sæti lóðarleiguhafi uppi með leigusamning til margra ára án þess að geta hagnýtt sér landið í samræmi við ákvæði hans.
Hvað varði kæru um samþykkt byggingaráforma frá 15. apríl 2015 sé vísað til fram kominna málsraka bæjarins eftir því sem við eigi. Sé bent á að eftir nýja samþykkt byggingarfulltrúa frá 24. s.m. sé húsið nú í samræmi við ákvæði aðalskipulags og samþykkt skipulagsnefndar. Þá standist það ekki málsmeðferðarreglur að leggja sama ágreining aftur til úrskurðar nefndarinnar, eins og gert sé, og ætti því að vísa máli þessu frá með hliðsjón af sjónarmiðum um litis pendens áhrif. Verði í öllu falli ekki séð að kærendur hafi lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn kærunefndar í máli nr. 17/2015, þar sem um sama ágreiningsefni sé að ræða, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á sérkenni lóðarleigusamninga miðað við leigusamninga almennt, sem sé m.a. hinn ríki ráðstöfunarréttur lóðarleiguhafans. Þurfi almennt ekki leyfi landeiganda fyrir breytingu á mannvirkjum sem á leigðri lóð standi. Fram þurfi að koma í lóðarleigusamningi eigi landeigandi að hafa eitthvað að segja um útlit eða gerð húsa á landinu. Í því sambandi verði að benda á að hús það sem staðið hafi á lóðinni, er lóðarleigusamningur hafi verið gerður við fyrri lóðarleiguhafa, hafi verið margstækkað.

Fyrirhugaður bústaður verði eftir sem áður sumarhúsið „Brú“ og muni bera sama fastanúmer og hús það sem fyrir hafi verið. Ekki sé um nýtt hús að ræða í skilningi skipulagslaga. Aðeins sé verið að reisa hús í samræmi við það sem almennt tíðkist í dag hvað varði stærð og útlit. Hvorki sé vikið að því í lóðarleigusamningi aðila að sumarhúsið sé af ákveðinni stærð eða gerð né að óheimilt sé að bæta við það eða breyta því að vild eigenda þess. Réttur til endurbyggingar eftir bruna sé fyrir hendi á grundvelli samnings og bygging nýs húss í stað þess sem brann nauðsynleg og eðlileg framkvæmd til að leyfishafi geti nýtt sér réttindi sín samkvæmt samningum. Sé vísað til þess að samkvæmt 5. gr. samningsins sé gert ráð fyrir að önnur hús eða mannvirki geti staðið á lóðinni. Ekki sé hægt að synja útgáfu byggingarleyfis vegna hugsanlegrar innlausnarskyldu í lok leigutíma. Þá sé ekki hægt að fallast á að 44. gr. skipulagslaga eigi ekki við hér og megi því til stuðnings vísa til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála í máli nr. 48/2014. Loks sé tekið fram að samkvæmt gildandi skipulagslögum sé ekki gert ráð fyrir samþykki sameigenda eins og áður hafi verið.

Eftir brunann hafi talsmanni eigenda verið kynntar teikningar og áform um byggingu nýs húss og hafi engar athugasemdir borist. Hafi síðar borist bréf frá eigendum þar sem byggingu hússins hafi verið hafnað. Leyfishafi hafi síðan verið beðinn um að gera kauptilboð í landspilduna en þá hafi eigendur hætt við söluna. Sé ferlið búið að taka eitt ár og hafi kostað leyfishafa bæði tíma og talsverða peninga. Telji leyfishafi sig hafa farið að öllum lögum og reglum og hafi allan tímann reynt að framkvæma í sátt við sveitarfélagið og landeigendur.

Athugasemdir kærenda við greinargerð Mosfellsbæjar og leyfishafa: Kærendur taka fram að ekki verði séð að skilyrði hafi verið til endurupptöku fyrri ákvörðunar byggingarfulltrúa um samþykkt byggingaráforma á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða að um einhliða afturköllun hafi verið að ræða á grundvelli 25. gr. sömu laga. Sé þessari málsmeðferð mótmælt sem ólögmætri. Þá sé hafnað að vísa beri málinu frá. Um sitthvora stjórnvaldsákvörðun sé að ræða sem stafi jafnframt frá sitt hvoru stjórnvaldinu og geti því ekki verið um litis pendens áhrif að ræða þegar þannig standi á.

Kærendur taki einnig fram að lóðarhafa hafi aldrei verið gefið loforð af hálfu landeigenda fyrir því að þeir myndu samþykkja byggingu hins umdeilda húss. Hafi hann ekki verið beðinn um að gera kauptilboð heldur aðeins verið bent á að slíkt væri mögulegt vildi hann fá svar frá landeigendum.
Athugasemdir Mosfellsbæjar við athugasemdum kærenda: Sveitarfélagið tekur fram að við afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 24. apríl 2015 hafi legið fyrir teikning er sýnt hafi að stærð umrædds sumarbústaðar næmi 129,3 m². Við nánari skoðun hafi komi í ljós að þetta væri rangt og hafi bústaðurinn í raun verið 133 m². Í kjölfarið hafi verið ákveðið að afturkalla fyrri ákvörðun og hafi sveitarfélaginu verið það heimilt, sbr. 1. og 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 1.tl. 1. mgr. 24. gr. sömu laga.

—-

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar í málinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um það í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Ef umsókn lýtur að mannvirkjagerð á ódeiliskipulögðu svæði eða vafi leikur á um að fyrirhugað mannvirki sé í samræmi við gildandi deiliskipulag skal leita umsagnar skipulagsfulltrúa eða skipulagsnefndar, sbr. 10. gr. laganna og gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Ef sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi getur skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags, enda hafi áður farið fram grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Felur það lagaákvæði samkvæmt orðanna hljóðan m.a. í sér að skipulagsnefnd taki ákvörðun um hvort veita megi byggingar- eða framkvæmdaleyfi án deiliskipulags. Hins verður ekki litið fram hjá því að endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki. Var hin kærða ákvörðun skipulagsnefndar frá 4. febrúar 2015, sem og afgreiðsla bæjarstjórnar frá 11. s.m um að samþykkja að veita mætti byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni Brú í landi Elliðakots, því ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður þessum hluta málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hinn 24. apríl 2015 felldi byggingarfulltrúi úr gildi samþykkt sína frá 15. s.m. um samþykkt byggingaráforma fyrir 133,2 m² sumarhúsi á lóðinni Brú. Telja kærendur að ekki hafi verið heimild fyrir slíkri málsmeðferð, svo sem áður hefur verið rakið. Fram hefur komið að sama dag samþykkti byggingarfulltrúi áform um byggingu 129,3 m² sumarhúss á sömu lóð í kjölfar umsóknar þess efnis. Lá því fyrir ný stjórnvaldsákvörðun á grundvelli nýrrar og breyttrar umsóknar leyfishafa fyrir byggingu sumarhússins. Hefur hin kærða ákvörðun um byggingarleyfi frá 15. apríl 2015 því ekki lengur réttarverkan að lögum og verður ekki séð að kærendur eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti þeirrar ákvörðunar. Verður þeim þætti málsins af þeim sökum einnig vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. 

Verður því eingöngu tekin afstaða til lögmætis þeirra byggingaráforma er samþykkt voru 24. apríl 2015 og fólu í sér heimild til að reisa 129,3 m² sumarhús úr forsteyptum einingum.

Lóðin þar sem hinu umdeilda sumarhúsi er ætlað að rísa er innan svæðis sem afmarkað er í Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 sem frístundabyggð. Ekki er fyrir hendi deiliskipulag af því svæði. Kveðið er á um í gr. 4.11 í aðalskipulaginu að ný frístundahús megi einungis reisa innan svæða sem afmörkuð séu fyrir frístundabyggð og í samræmi við samþykkt deiliskipulag. Aðalskipulagið gerir þó ráð fyrir því að heimila megi, að undangenginni grenndarkynningu, minniháttar viðbyggingar við stök frístundahús frá fyrri tíð sem auðkennd séu á aðalskipulagsuppdrætti með hring í lit frístundasvæða, en um slíkt er ekki að ræða hér. Fram hefur komið að á umræddri lóð stóð áður um 70 m² sumarhús úr timbri en með hinni kærðu ákvörðun er heimilað að reisa þar 129,3 m² sumarhús úr forsteyptum einingum. Telja verður að um nýtt hús sé að ræða en ekki endurbyggingu fyrra húss, enda er hið samþykkta hús töluvert stærra en það sem fyrir var og steinsteypt í stað þess að vera úr timbri. Var því ekki heimilt að samþykkja hin umdeildu byggingaráform án undangenginnar deiliskipulagsgerðar, sbr. áskilnað tilvitnaðrar greinar í aðalskipulagi Mosfellsbæjar. Öndverð túlkun nefnds ákvæðis myndi leiða til þess að áskilnaður um deiliskipulag væri þýðingarlaus. Með hliðsjón af þessu verður að fella hina umdeildu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni afgreiðslu skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 4. febrúar 2015 og ákvörðun bæjarstjórnar frá 11. s.m. um að samþykkja að veita megi byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóð, landnr.125216, í landi Elliðakots í Mosfellsbæ.

Jafnframt er vísað frá úrskurðarnefndinni ákvörðun byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ frá 15. apríl 2015 um að samþykkja byggingaráform fyrir byggingu 133,2 m² sumarbústaðar á nefndri lóð.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ frá 24. apríl 2015 um að samþykkja byggingaráform fyrir byggingu 129,3 m² sumarbústað á nefndri lóð.

______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

78/2011 Tunguheiði

Með

Árið 2015, fimmtudaginn 28. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 8. nóvember 2011 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir þakhýsi á hluta húseignarinnar að Tunguheiði 8.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. október 2011, er barst nefndinni 26. s.m., kæra S, Tunguheiði 8, Kópavogi, ákvörðun bæjaryfirvalda í Kópavogi varðandi byggingu þakhýsis á hluta húseignarinnar að Tunguheiði 8. Eins og atvikum er háttað verður að skilja málskot kærenda svo að kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 8. nóvember 2011 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir nefndu þakhýsi með kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 17. janúar 2013, 27. apríl 2015 og 8. maí 2015.

Málavextir: Kærendur hafa frá árinu 2001 óskað eftir heimild skipulags- og byggingaryfirvalda í Kópavogi til byggingar þakhýsis á hluta fjöleignarhússins við Tunguheiði 8, án árangurs, en í húsinu eru fjórar íbúðir á tveimur hæðum og stendur það á ódeiliskipulögðu svæði. Með bréfi til bæjarskipulags Kópavogsbæjar, dags. 11. nóvember 2010, óskuðu kærendur á ný eftir leyfi til byggingar þakhýsisins með breyttum uppdráttum þar sem tekið var tillit til athugasemda sem áður höfðu borist við grenndarkynningu. Á fundi hinn 16. nóvember 2010 vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu og var það tekið fyrir á fundi í skipulagsnefnd sama dag en málinu frestað. Á fundi nefndarinnar 13. desember s.á. var samþykkt að senda erindið í grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Athugasemdir bárust frá eigendum fasteigna við Skálaheiði 5 og 7 og Tunguheiði 12 og voru þær kynntar á fundi skipulagsnefndar 15. mars 2011. Athugasemdirnar lutu einkum að skuggavarpi af þakhýsinu, að það myndi spilla útsýni frá 3. hæð Skálaheiðar 7 og væri ekki í samræmi við götumynd. Skipulagsnefnd tók málið fyrir að nýju hinn 19. apríl s.á. og var þá lögð fram umsögn umhverfissviðs Kópavogsbæjar um þær athugasemdir sem borist höfðu. Helstu niðurstöður umsagnarinnar voru þær að fyrirhugað þakhýsi myndi ekki valda verulegri skuggaaukningu í nærliggjandi görðum og hefði ekki verulega neikvæð útsýnisáhrif á 3. hæð Skálaheiðar 7 eða á skuggavarp í garð og á sólpall að Skálaheiði 5. Skuggi af þakhýsi félli þó á húshlið á efri hæðum þegar sól væri lágt á lofti. Þá væri tekið undir að þakhýsið væri ekki í samræmi við götumynd. Var skipulagsstjóra falið að ræða við þá sem sendu inn athugasemdir.

Málið var aftur á dagskrá skipulagsnefndar 20. september 2011 þar sem lögð var fram útfærsla og málsetningar teiknistofu af fyrirhuguðu þakhýsi, dags. 17. ágúst 2011, ásamt umsögn byggingarfulltrúa, dags. sama dag, varðandi lofthæð og þakhalla fyrirhugaðs þakhýsis þar sem vísað var í gr. 78.1 og 136.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Skipulagsnefnd samþykkti niðurstöðu umhverfissviðs en í niðurstöðu nefndarinnar, sem skráð er á umsögnina, segir meðal annars að reikna megi með að skuggavarp geti haft áhrif á notkun sólpalls frá október til loka febrúar á tímanum frá hádegi til að verða kl. 16. Með tilvísan í framlögð gögn og fram komnar athugasemdir hafnaði skipulagsnefnd því að veita leyfi fyrir þakhýsi á hluta húseignarinnar að Tunguheiði 8. Bæjarráð samþykkti hins vegar erindið á fundi sínum 23. september 2011. Hinn 27. s.m. staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsnefndar og hafnaði erindinu.

Málið var að endingu tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. nóvember 2011 og afgreitt með svofelldri bókun: „Hafnað, með tilvísun í umsögn byggingarfulltrúa 17. ágúst 2011, þar sem fram kemur að byggingin uppfyllir ekki ákvæði byggingarreglugerðar nr. 44/1998 og umögn skipulagsnefndar dags. 12. apríl 2011.“

Málsrök kæranda: Kærendur vísa til áðurnefndrar umsagnar umhverfissviðs Kópavogsbæjar um að fyrirhugað þakhýsi valdi ekki verulegri skuggaaukningu í nærliggjandi görðum og á sólpöllum og hafi ekki verulega neikvæð útsýnisáhrif á efstu hæð Skálaheiðar 7. Hvað götumynd og yfirbragð hverfisins varði sé bent á að götumyndinni hafi þegar verið breytt þegar hallandi þak hafi verið sett í stað flats þaks á Tunguheiði 14 og þakið um leið hækkað nokkuð frá því sem áður hafi verið. Þá séu hús handan götunnar, sem tilheyri Melaheiði og Lyngheiði, sem hafi allt annað yfirbragð en þau fjögur hús við Tunguheiði sem séu með flötu þaki. Því hafi áður verið haldið fram í bréfi formanns skipulagsnefndar, dags. 2. desember 2008, að bygging þakhæðar væri ekki í samræmi við yfirbragð hverfisins og í því sambandi vísi kærendur í greinargerð, dags. 20. júlí 2005, sem fylgt hafi tillögu að deiliskipulagi fyrir Heiðarvallasvæðið. Þar segi meðal annars að engin ein þakgerð sé ráðandi í hverfinu, breytingar og viðbyggingar hafi verið gerðar á flestum húsanna og byggðin sé sundurleit og án sérkenna. Þá bendi kærendur á að trjágróður á svæðinu virðist undanskilinn þegar götumynd, skugga- og útsýnisáhrif séu metin, en hann sé nú orðinn nokkuð mikill. Grenitré við Tunguheiði 8 hafi til að mynda vaxið um 3 m upp fyrir þakhæð hússins.

Fordæmi séu fyrir því að lítil þakhýsi hafi fengist samþykkt í hverfinu. Þakhýsi hafi verið byggt ofan á hluta húss við Lyngheiði 1, leyfi hafi verið veitt fyrir slíkri byggingu að Lyngheiði 18 og byggingu þakhýsis á Melaheiði 1 sé lokið. Athygli sé vakin á því að bygging þakhýsis á síðastnefndu húseigninni hafi talsvert meiri útsýnisáhrif en þakhýsi á Tunguheiði 8 geti haft, en það beri í Kistufellið á Esjunni þegar staðið sé við útsýnisskífu á friðlýstu svæði á Víghóli. Það sé ekki síst þegar kærendur skoði upplýsingar í fundargerðum skipulagsnefndar, bæjarráðs og bæjarstjórnar um meðferð umsóknar um leyfi fyrir þakhýsi á Melaheiði 1, sem þeim finnist Kópavogsbær hafa virt jafnræðis- og sanngirnissjónarmið að vettugi.

Kærendur hafi alltaf haft það sjónarmið að leiðarljósi að þakhýsi á Tunguheiði 8 yrði af hóflegri stærð og félli sem best inn í götumynd efst í götunni að austanverðu. Gert sé ráð fyrir flötu þaki sem sé í samræmi við byggingarstíl hússins og þakhýsið verði dregið vel inn á þakið. Þá séu fjölmörg dæmi um það í fundargerðum byggingarnefndar að mál hafi hlotið brautargengi eftir að komið hafi verið til móts við innsendar athugasemdir.

Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað og að staðfest verði ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs um að hafna útgáfu byggingarleyfis fyrir þakhýsi að Tunguheiði 8.

Við mat á því hvort veita skuli byggingarleyfi skuli fyrst og fremst litið til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Það sé eðli borga og bæja að þeir geti tekið breytingum og séu í stöðugri þróun. Eigendur húsa verði því að gera ráð fyrir að skipulag í hverfum geti tekið óverulegum breytingum að því er varði einstakar fasteignir, uppbyggingu hverfa og þéttingu byggðar. Þó skuli leitast við að tryggja hagsmuni heildarinnar og að grenndarhagsmunir séu ekki skertir.

Almennt sé viðurkennt að grenndarsjónarmið vegi þungt við útgáfu byggingarleyfa í hverfum sem ekki hafi verið deiliskipulögð. Þá verði að telja sjónarmið um almannahagsmuni og náttúruvernd vega enn þyngra, en Tunguheiði 8 sé við austurenda Víghóls, sem sé friðlýst náttúruvætti á grundvelli 22. gr. laga um náttúruvernd nr. 47/1971, sbr. auglýsingu nr. 778 í B-deild Stjórnartíðinda, dags. 23. nóvember 1983. Um svæðið gildi ákveðnar reglur samkvæmt auglýsingunni, þar á meðal sú regla að varðveita skuli jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd. Hvers konar mannvirkjagerð eða jarðrask, sem breytt geti útliti eða eðli svæðisins, sé óheimilt nema til komi sérstakt leyfi Umhverfisstofnunar.

Víghólar séu jökulsorfnar grágrýtisklappir með ávölum hvalbökum og jökulrákum. Friðlýsta svæðið sé um einn hektari en útivistarsvæðið í heild sé rúmir þrír hektarar. Svæðið sé hæsti hluti Digraneshæðar og þaðan sé víðsýnt, m.a. í austurátt þar sem Tunguheiði 8 sé. Á Víghóli hafi verið komið fyrir útsýnisskífu og útsýni frá hæstu punktum svæðisins sé umtalsvert til allra átta, meðal annars fögur fjallasýn til norðurs og austurs. Ein af grundvallarforsendum fyrir verndun svæðisins sé að útsýni af Víghóli verði ekki skert. Þá hafi svæðið verið nýtt til stjörnuskoðunar og til að skoða norðurljós. Þá hafi ekki verið komið fyrir ljósastaurum þar svo að náttúruskoðunar verði sem best notið til allra átta. Mat Kópavogsbæjar sé að þakhýsi á Tunguheiði 8 myndi breyta eðli svæðisins sem útsýnissvæðis og því sé bygging þakhýsa við Tunguheiði óheimil. Telja verði að með mannvirkjagerð sé ekki einungis átt við mannvirkjagerð innan hins friðlýsta svæðis, heldur taki friðlýsingin til hvers konar mannvirkjagerðar á og við Víghól.

Andmæli hafi borist frá nágrönnum kærenda við grenndarkynningu þakhýsisins. Í umsögn umhverfissviðs Kópavogsbæjar, dags. 19. apríl 2011, komi fram að bygging þess muni ekki hafa veruleg grenndaráhrif en þó einhver. Þá sé bygging þakhýsisins ekki í samræmi við götumynd. Kærendur vísi til þess að götumynd hafi verið breytt með breytingu á þaki Tunguheiðar 14 og að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir þakhýsum á Lyngheiði 1 og 18 og Melaheiði 1. Með því að þeim hafi verið synjað um leyfi fyrir þakhýsi hafi jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið brotin. Í því samhengi sé vakin athygli á að ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir þakhýsi á Lyngheiði 1, en líklega eigi kærendur þar við Lyngheiði 2, og byggingarleyfi fyrir þakhýsi á Lyngheiði 18 sé fallið úr gildi þar sem það hafi ekki verið nýtt innan tilskilinna tímamarka. Kærendur hafi ekki fært viðhlítandi rök fyrir því með hvaða hætti Kópavogsbær hafi brotið jafnræðisreglu með því að synja um byggingarleyfið. Um afar ólík mál sé að ræða, bæði að því er varði stærð, útlit, áhrif á götumynd og grenndaráhrif, og því eigi sjónarmið um jafnræði ekki við í þessu tilviki. Í jafnræðisreglunni felist að mál sem séu sambærileg í lagalegu tilliti skuli hljóta samskonar úrlausn. Ekki sé unnt að fallast á að endurnýjun þaks á Tunguheiði 14 sé sambærileg við byggingu þakhýsis að Tunguheiði 8. Þakið á Tunguheiði 14 standi umtalsvert lægra en þakhýsið á Tunguheiði 8 myndi gera. Í því ljósi og samanborið við nýtingarmöguleika sé ljóst að ekki sé um sambærileg mál að ræða. Húsin við Lyngheiði 2 og 18 og Melaheiði 1 séu einbýlishús á einni hæð frá götu séð og þakhæð þeirra sé eðli máls samkvæmt umtalsvert minni en þakhæð hússins að Tunguheiði 8. Því sé ekki hægt að fallast á að um sambærileg mál sé að ræða.

Kópavogsbær hafi árið 2005 staðið fyrir óformlegri kynningu á deiliskipulagstillögu fyrir Heiðarvallasvæðið, sem afmarkist af Skálaheiði 1-9 til austurs, Digranesheiði 23-45 til suðurs, opnu svæði Víghóls til vesturs og Álfhólsvegi 74-96 til norðurs. Í tillögunni hafi verið sýnd hækkun húsa á umræddu svæði. Ástæða kynningarinnar hafi verið sú að borist hafi nokkur erindi frá íbúum á svæðinu þar sem farið hafi verið fram á leyfi fyrir hækkun húsa. Kópavogsbæ hafi borist fjöldi athugasemda frá íbúum svæðisins þar sem lýst hafi verið andstöðu við deiliskipulagstillöguna. Ljóst sé að töluverð andstaða ríki meðal nágranna og sem fyrr greini hafi grenndarhagsmunir verið taldir vega þungt í málum sem þessu.

Kópavogsbær telji afgreiðslu bæjarins á umsókn um byggingarleyfi fyrir þakhýsi að Tunguheiði 8 bæði formlega og efnislega rétta. Ákvörðun sveitarstjórnar sé á rökum reist og byggist á málefnalegum sjónarmiðum, fari í engu í bága við jafnræðisreglur stjórnsýsluréttarins og sé eðlileg með tilliti til byggðarinnar í heild, hagsmuna nágranna og sjónarmiða um náttúruvernd og friðlýsingu Víghólssvæðisins.

Niðurstaða: Samkvæmt fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa hinn 8. nóvember 2011 var byggingarleyfisumsókn kærenda hafnað, annars vegar með tilvísun í umsögn byggingarfulltrúa frá 17. ágúst 2011, þar sem fram hafi komið að byggingin uppfyllti ekki ákvæði gr. 78.1 og gr. 136.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, um lofthæð íbúðarrýma og þakhalla, og hins vegar með vísan í umsögn, sem ætla verður að sé umsögn umhverfissviðs vegna málsins frá 19. apríl 2011 að lokinni grenndarkynningu. Þar kom fram að þakhýsi það sem kærendur sóttu um leyfi fyrir myndi ekki hafa veruleg grenndaráhrif með tilliti til skuggavarps en hins vegar væri það í ósamræmi við götumynd. Skipulagsnefnd hafnaði erindi kærenda hinn 20. september 2011, þar sem tekið var undir nefnda umsögn, en benti auk þess á að reikna mætti með að skuggavarp gæti haft áhrif á notkun sólpalls að Tunguheiði 12 frá október til loka febrúar frá hádegi til um kl. 16.

Ekki verður af fyrirliggjandi gögnum málsins ráðið með vissu að hönnun umrædds þakhýsis fari gegn fyrrgreindum ákvæðum byggingarreglugerðar um lofthæð og þakhalla og þá með hvaða hætti. Er rökstuðningi umræddrar ákvörðunar að þessu leyti áfátt.

Í 5. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga segir að varði breyting á mannvirki útlit þess og form skuli leita samþykkis skipulagsnefndar áður en byggingarleyfi er veitt nema breyting sé óveruleg. Bygging þakhýsis að Tunguheiði 8 telst ekki óveruleg framkvæmd í þessum skilningi að mati úrskurðarnefndarinnar og var byggingarfulltrúa því rétt að leita samþykkis skipulagsnefndar í samræmi við áðurgreint lagaákvæði.

Kærendur halda því fram að Kópavogsbær hafi virt jafnræðis- og sanngirnissjónarmið að vettugi við afgreiðslu umsóknar þeirra. Kemur því til skoðunar hvort skipulagsnefnd hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í reglunni felst að almennt sé óheimilt að mismuna aðilum sem eins sé ástatt um. Sambærileg mál beri að afgreiða á sambærilegan hátt. Reglan á að hindra að ákvarðanir verði tilviljunarkenndar, byggðar á geðþótta eða annarlegum viðhorfum. Þrátt fyrir jafnræðisregluna getur þó verið réttlætanlegt að afgreiða sambærileg tilvik með ólíkum hætti ef slík niðurstaða byggist á frambærilegum og málefnalegum sjónarmiðum.

Þakhýsi á Tunguheiði 8 er að mati úrskurðarnefndarinnar ekki sambærilegt við þakhýsi á húsunum við Lyngheiði 2 og 18 og Melaheiði 1, sem eru einbýlishús á einni hæð við götu, en hús kærenda er tvílyft fjölbýlishús. Telja verður að áhrif þakhýsisins á götumynd verði önnur og meiri en áhrif heimilaðrar breytingar á þaki Tunguheiðar 14. Afstaða skipulagsnefndar til umsóknar kærenda var því studd efnisrökum og verður ekki fallist á að nefndin hafi brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við afgreiðslu málsins.

Að öllu virtu verður því talið að byggingarfulltrúa hafi verið rétt að synja um byggingarleyfið með vísan til 5. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga og þrátt fyrir fyrrgreindan annmarka á rökstuðningi verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 8. nóvember 2011 að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir þakhýsi á hluta húseignarinnar við Tunguheiði 8.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson