Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

90/2014 Hraunbær

Árið 2015, þriðjudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2014, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á umsókn um að klæða fjöleignarhúsið Hraunbæ 102 B, C, D og E með báruálklæðningu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. ágúst 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir Ingimar Ingimarsson hrl., f.h. Húsfélagsins að Hraunbæ 102 B, C, D og E, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. júlí 2014 á umsókn um að klæða fjöleignarhúsið með báruálklæðningu. Er þess krafist að synjunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 10. september 2014.

Málavextir: Hinn 1. júlí 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík tekin fyrir umsókn, dags. 21. maí s.á., um leyfi til að klæða með báruálklæðningu suðurhlið og austurgafl, framlengja þak yfir svalir á efstu hæð og endurnýja handrið á svölum fjöleignarhússins Hraunbæjar 102 B, C, D og E. Var umsókninni synjað og eftirfarandi bókað: „Samræmist ekki yfirbragði fjölbýlishúsa í hverfinu sem eru með sléttri áferð útveggja.“ Umsækjanda var tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 16. júlí 2014.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að synjun byggingarfulltrúa byggi á því að umsótt breyting samræmist ekki yfirbragði fjölbýlishúsa í hverfinu sem séu með sléttri áferð útveggja. Húsið Hraunbær 102 B, C, D og E skeri sig úr frá öðrum húsum í grenndinni. Það sé stakt og götur liggi á alla vegu kringum húsið. Að auki sé jarðhæðin byggð sem atvinnuhúsnæði. Handan götunnar séu hús með ýmis konar klæðningu, m.a. grófu báruáli. Sé suðurgafl fjölbýlishússins að Hraunbæ 102 A að hluta klæddur með grófu bárustáli og sjáist slík klæðning einnig á eldri íbúðarblokkum í hverfinu.

Klæðning með smáum bárum líti út sem slétt þótt staðið sé býsna nálægt, t.d. við næstu íbúðarblokk. Endalausar steypuviðgerðir á húsum í Hraunbænum séu áberandi. Erfitt sé að skilja að hægt sé að meina húseigendum að verja hús sín með þeim efnum sem best séu talin á hverjum tíma.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að lög og reglur geri beinlínis ráð fyrir því hlutverki skipulags- og byggingaryfirvalda að leggja mat á m.a. fagurfræði bygginga. Segi t.a.m. í gr. 6.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að mannvirki skuli þannig hönnuð og byggð að þau henti vel til fyrirhugaðra nota. Við ákvörðun á útliti þeirra, efnisvali, litavali og gerð skuli gæði byggingarlistar höfð að leiðarljósi. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að einhver önnur sjónarmið hafi ráðið för við samþykkt byggingarfulltrúa í málinu eða að framkvæmdin sé þess eðlis að hún brjóti svo verulega á hagsmunum kæranda að það leiði til ógildingar. Sé því einnig mótmælt að reglur um málsmeðferð hafi verið brotnar. Málsmeðferðin hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga og reglna.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á umsókn kæranda um leyfi til að klæða umrætt fjöleignarhús með báruálklæðningu, með þeim rökum að hinar umsóttu breytingar samræmdust ekki yfirbragði fjölbýlishúsa í hverfinu. 

Ákvarðanir um útlit mannvirkja og form eru teknar við gerð deiliskipulags, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en sveitarstjórn, eða eftir atvikum skipulagsnefnd, ber ábyrgð á gerð þess skv. 1. mgr. 38. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er m.a. óheimilt að breyta notkun mannvirkis, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Í 5. mgr. sömu greinar segir að varði breyting á mannvirki útlit þess og form skuli leita samþykkis skipulagsnefndar áður en byggingarleyfi sé veitt nema breyting sé óveruleg. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum segir um greinda málsgrein að í tilvikum þar sem um sé að ræða breytingu á útliti húss verði að teljast rökrétt að leita eftir samþykki skipulagsnefndar í ljósi eðlis slíkra breytinga. Þá segir í gr. 2.3.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að samþykki skipulagsnefndar þurfi vegna breytinga á útliti eða formi mannvirkja áður en byggingarleyfi sé veitt sé breytingin ekki óveruleg og ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag sem heimili hana. Til að breyting geti talist óveruleg má hún ekki breyta eða hafa áhrif á götumynd, sbr. 2. mgr. nefnds ákvæðis.

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulagið Árbær-Selás frá árinu 1966. Engin greinargerð fylgdi deiliskipulaginu og er ekki að finna skilmála á skipulagsuppdrætti er varða útlit húsa á svæðinu. Fyrir liggur að hvorki skipulagsnefnd né sveitarstjórn hafði aðkomu að málsmeðferð hinnar umdeildu byggingarleyfisumsóknar áður en til synjunar byggingarfulltrúa kom. Þá verður ekki séð að hin kærða ákvörðun sé byggð á markmiðum mannvirkjalaga sem felast aðallega í að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt, sbr. a-lið 1. mgr. 1. gr. mannvirkjalaga. Með hliðsjón af þeirri verkaskiptingu byggingar- og skipulagsyfirvalda sem lög og reglur gera ráð fyrir, sem og eðli þeirrar framkvæmdar sem synjað var um leyfi fyrir, verður að telja að byggingarfulltrúa hafi borið að leita til skipulagsnefndar, hvort sem er til samþykktar eða synjunar umbeðinnar útlitsbreytingar.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á umsókn um leyfi til að klæða fjöleignarhúsið Hraunbæ 102 B, C, D og E með báruálklæðningu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson