Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

73/2010 Hverfisgata

Árið 2015, þriðjudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2010, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. nóvember 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir notkun 1. hæðar hússins að Hverfisgötu 18 í Reykjavík undir veitingastað í flokki III með aðgengi að salernisaðstöðu í kjallara.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. desember 2010, er barst nefndinni 3. s.m., kæra 12 eigendur, íbúar og forsvarsmenn stofnana og fyrirtækja að Hverfisgötu 14, 15, 16, 16a, 18a, 19 og 20, þá samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. nóvember 2010 að veita byggingarleyfi fyrir notkun 1. hæðar hússins að Hverfisgötu 18  undir veitingastað í flokki III með aðgengi að salernisaðstöðu í kjallara.

Af hálfu kærenda er þess krafist að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir:
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. maí 2010 var tekið fyrir erindi þar sem sótt var um leyfi fyrir veitingastað í flokki III á öllum hæðum í húsi nr. 18 við Hverfisgötu og var málinu frestað. Fram að þeim tíma mun hafa verið rekin í húsinu upplýsingaþjónusta, kaffihús að degi til og veitingarekstur að kvöldlagi. Hinn 22. september s.á. var tekin fyrir á fundi skipulagsráðs umsókn um leyfi fyrir veitingastað í flokki III í kjallara og á 1. hæð í framangreindu húsi. Var m.a. lögð fram umsögn skipulagsstjóra, dags. 4. júní 2010, mótmæli nágranna, bréf heilbrigðisfulltrúa og glugga- og glerskoðun ásamt hljóðvistarskýrslum. Þá var á sama fundi lögð fram umsögn skipulagsstjóra frá 16. september 2010. Skipulagsráð samþykkti umsögn skipulagsstjóra og vísaði málinu til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Í framangreindri umsögn skipulagsstjóra frá 16. september 2010 sagði m.a.: „Ekki er þó unnt að fallast á umsóttar breytingar að svo stöddu nema rekstraraðili skuldbindi sig til þess að hafa rekstur í húsinu að degi til. Að sama skapi þarf byggingarleyfið að vera bundið því skilyrði að ekki verði byrgt fyrir glugga á nokkurn hátt, hvorki á varanlegan hátt með límdum filmum né með gluggatjöldum. Einnig skal taka fram í byggingarleyfi að óheimilt er að setja upp skilti né auglýsingar á húsið án þess að sækja um sérstakt leyfi fyrir því. Ef ekki er unnt að uppfylla þessi skilyrði er lagt til að erindinu verði frestað þar til endurskoðun á þróunaráætlun miðborgarinnar liggur fyrir en henni ætti að ljúka í byrjun árs 2011.“

Hinn 28. september 2010 var erindið tekið fyrir á fundi byggingarfulltrúa og var niðurstaða hans sú að umsækjandi skyldi leggja fram yfirlýsingu í samræmi við fyrrnefnda umsögn skipulagsstjóra frá 16. s.m. Yfirlýsingu um skilyrði fyrir leyfi, dags. 22. október 2010, var þinglýst á fasteignina Hverfisgötu 18 hinn 30. s.m. Umsókn um leyfi fyrir veitingastað í flokki III á 1. hæð, með aðgengi að salernisaðstöðu í kjallara, var síðan samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. nóvember 2010 og eftirfarandi fært til bókar: „Vakin er athygli umsækjanda á því að hér er um vandasama útfærslu vegna hljóðvistarmála að ræða og ber umsækjanda að óska úttektar byggingarfulltrúa á öllum þrepum framkvæmda hvað hljóðvist varðar auk annarra tilskilinna úttekta.“ Afgreiðsla byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi í skipulagsráði 10. nóvember 2010 og staðfest í borgarráði 18. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að engin grenndarkynning hafi farið fram áður en hið kærða leyfi hafi verið veitt. Áður hafi verið ónæði af rekstri í húsinu við Hverfisgötu 18 en ekkert í líkingu við það sem fylgi núverandi starfsemi. Kærendur geti sætt sig við að veitingaleyfi II væri veitt, þannig að starfsemi í nefndu húsi myndi ljúka kl. 24. Starfsemi í húsinu að Hverfisgötu 18 fari fram eftir miðnætti og standi fram undir morgun. Þá sé ljóst að engin rekstur sé í húsnæðinu á daginn, eins og skilyrt sé í yfirlýsingu.

Umgengni gesta veitingastaðarins umhverfis menningarstofnanir, fyrirtæki og íbúðarhúsnæði í nágrenninu sé mjög slæm. Húseigendur að Hverfisgötu 16 og 16a verði fyrir síendurteknu ónæði vegna hávaða með tilheyrandi svefnleysi. Skrifstofuhúsnæði á 1. hæð að Hverfisgötu 16a hafi verið breytt í íbúðarhúsnæði með styrk frá borginni sem túlka verði svo að borgaryfirvöld vilji að fólk búi í húsinu með þeim réttindum sem fylgi friðhelgi einkalífs. Í húsinu nr. 16 við Hverfisgötu séu þrjár íbúðir og muni veitingareksturinn hafa neikvæð áhrif á verð fasteignarinnar.

Samkvæmt 4. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavíkurborg sé m.a. bannað að hafast nokkuð að sem valdi ónæði eða raski næturró manna og sé það alkunn staðreynd að lögreglan hafi ekki mannafla til að sinna útköllum. Þá séu ákvæði um sviptingu rekstrarleyfis í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald þegar leyfishafi rekstrarleyfis verði uppvís að því að misnota rekstrarleyfið, vanrækja skyldur sem á honum hvíli samkvæmt lögum sem um reksturinn gildi eða brjóta gegn skilyrðum eða skilmálum leyfisins. Það hljóti að teljast lögbrot að sniðganga þetta ákvæði með því að aðhafast ekkert.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að rekstur veitingahúss á þessum stað í borginni sé í samræmi við þróunaráætlun miðborgarinnar, sem sé hluti af Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar. Skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 geri ekki ráð fyrir grenndarkynningum á byggingarleyfisskyldum framkvæmdum sem teljist samræmast deiliskipulagi. Umsóttar breytingar séu innan heimilda deiliskipulags og í samræmi við heimilaða landnotkun á miðborgarsvæði. Leitað hafi verið umsagna Minjasafns Reykjavíkur og Húsafriðunarnefndar og hafi þessir aðilar ekki lagst gegn umsókninni.

Í umsögn skipulagsstjóra, dags. 4. júní 2010, hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði um landnotkun kæmu ekki í veg fyrir að samþykkt væri leyfi fyrir veitingastað í flokki III í húsinu að Hverfisgötu 18. Þar hafi jafnframt komið fram að ekki væri mælt með því að reka slíkan veitingastað í húseigninni og vísað til þess að um væri að ræða reisulegt og sérstakt bárujárnsklætt timburhús frá fyrsta tug síðustu aldar. Alþjóðahús hafi m.a. rekið upplýsingaþjónustu í húsinu og kaffihús að degi til en veitingarekstur að kvöldlagi. Eftir að þeirri starfsemi hafi verið hætt hafi þar verið rekinn skemmtistaður. Í staðfestri þróunaráætlun miðborgarinnar komi fram að m.a. megi notkun ekki hafa neikvæð áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna lyktar, hávaða, sorps eða af öðrum ástæðum.

Hafi sú afstaða komið fram í umsögn skipulagsstjóra 16. september 2010 að ekki hafi verið unnt að fallast á umsóttar breytingar nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og nú liggi fyrir þinglýst yfirlýsing þar um. Fyrir liggi hljóðvistarskýrsla þar sem fram komi að hljóðstig fyrir vestur- og norðurhliðar sé áætlað innan þeirra marka sem fram komi í reglugerð um hávaða fyrir íbúðarhúsnæði á íbúðar-, verslunar- og þjónustusvæðum á mismunandi tímum sólarhrings. Varðandi kvartanir kærenda vegna hávaða, óþrifnaðar og ónæðis skuli á það bent að það sé í verkahring lögregluyfirvalda að sjá til þess að ónæði sem stafi frá veitingastöðum sé ekki umfram það sem búast megi við í miðborginni og að sinna kvörtunum íbúa vegna slíkra staða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi þar sem heimiluð er breytt notkun hússins að Hverfisgötu 18, en skv. 4. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, falla eftirgreindir veitingastaðir í flokk III:  „Umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þar sem leikin er hávær tónlist og/eða afgreiðslutími er lengri en til kl. 23 og kalla á meira eftirlit og/eða löggæslu.‟ Samkvæmt gögnum málsins hóf leyfishafi starfsemi í húsinu á grundvelli bráðabirgðaleyfis fyrir veitingahús, útgefnu af lögreglustjóranum í Reykjavík, áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Fyrirliggjandi hljóðvistaskýrsla er dagsett 24. ágúst 2010 og í umsögn skipulagsstjóra frá 16. september s.á. segir að með hinu kærða leyfi sé verið að heimila breytingar á húsnæðinu til að draga úr hávaða.

Umrætt hús er innan deiliskipulagsreits, sem afmarkast af Laugavegi, Bankastræti, Ingólfsstræti, Hverfisgötu og Traðarkotssundi. Svæðið er hluti miðborgar Reykjavíkur samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem var í gildi er leyfið var samþykkt. Í landnotkunarþætti þróunaráætlunar miðborgar, sem er hluti af fyrrgreindu aðalskipulagi, er miðborginni skipt í landnotkunarreiti, þ.e. miðborgarkjarna, atvinnusvæði, aðalverslunarsvæði og hliðarverslunarsvæði. Laugavegur og Bankastræti innan deiliskipulagsreitsins eru á auðkenndu aðalverslunarsvæði V-I.I meðan að suðurhlið Hverfisgötu, þar með talið húsið nr. 18 og fasteignir nokkurra kærenda, eru staðsettar á hliðarverslunarsvæði V-II.I. Fasteignir annarra kærenda eru staðsettar á norðurhlið Hverfisgötu, á skilgreindu atvinnusvæði utan deiliskipulagsreitsins.

Samkvæmt aðalskipulaginu hafa á hliðarverslunarsvæðum verið skilgreind fjögur götusvæði þar sem nákvæmari stýringu verði beitt til að tryggja æskilega dreifingu notkunar og er eitt þeirra Hverfisgata, þ.e. suðurhlið hennar frá og með nr. 4 til og með nr. 62. Telst því Hverfisgata nr. 18 til skilgreindra götusvæða. Þá er sérákvæði í aðalskipulaginu sem kveður á um að borgaryfirvöld vilji, sem lið í því að viðhalda og efla fjölbreytt mannlíf í borginni, stuðla að samspili verslunarreksturs og veitingareksturs. Jafnframt þyki rétt í því skyni að leyfa rýmri afgreiðslutíma áfengis á aðalverslunarsvæðum V-I.I og hliðarverslunarsvæðum V-II.I. Sú skýring er gefin fyrir framangreindu að tilgreind svæði séu nálægt miðborgarkjarnanum, þar sem mest veitingastarfsemi sé, og þau séu fjær íbúðarbyggð en önnur verslunarsvæði. Samhæfing afgreiðslutíma áfengis á svæðinu skapi tengsl við veitingastarfsemi miðborgarkjarnans og stuðli að því að stærri hluti næturlífsins sé á tilgreindu svæði. Þá er loks almennt ákvæði í aðalskipulaginu um notkun utan skilgreindra götusvæða aðal- og hliðarverslunarsvæða, s.s. í bakhúsum og á efri hæðum. Er þar sett sem skilyrði fyrir því að veitt verði leyfi fyrir notkun að hún hafi ekki truflandi áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna hávaða, lyktar, sorps eða af öðrum ástæðum. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið, og þar sem húsið að Hverfisgötu 18 er á skilgreindu götusvæði og nálægar götur eru ekki innan skilgreindrar íbúðarbyggðar, verður ekki talið að hin heimilaða notkun húsnæðisins að Hverfisgötu 18 fari í bága við skilmála aðal- og deiliskipulags um landnotkun umrædds skipulagsreits.

Ekki liggur annað fyrir en málsmeðferð við undirbúning og töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið lögum samkvæmt, en ekki var þörf á grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga 73/1997, sem gilti á þeim tíma sem hér um ræðir, þar sem umdeilt byggingarleyfi var í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.

Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin form- eða efnisgöllum sem raskað geta gildi hennar og verður ógildingarkröfu kærenda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. nóvember 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir notkun 1. hæðar hússins að Hverfisgötu 18 í Reykjavík undir veitingastað í flokki III með aðgengi að salernisaðstöðu í kjallara.

______________________________
Ómar Stefánsson

____________________________            ___________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson