Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/2015 Ferjuvað

Árið 2015, mánudaginn 22. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 26/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1 og 3 við Ferjuvað.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. apríl 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir S, Ferjuvaði 1-3, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 17. mars 2015, um að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1 og 3 við Ferjuvað. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Hinn 17. mars 2015 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík samþykkt umsókn þar sem sótt var um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1 og 3 við Ferjuvað. Fólust breytingarnar í því að stæði í bílageymslu, sem áður var ætlað hreyfihömluðum, var breytt í almennt bílastæði.

Kærandi skírskotar til þess að með ákvörðun sinni hafi byggingarfulltrúinn í Reykjavík gengið gegn hagsmunum eigenda og ekki virt athugasemdir þeirra við ákvarðanatöku. Gangi ákvörðunin gegn ákvæðum fjöleignarhúsalaga, eignaskiptayfirlýsingu, byggingarreglugerð og mannvirkjalögum.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu um stöðvun framkvæmda verði hafnað. Engar framkvæmdir séu yfirstandandi þar sem þeim hafi verið lokið áður en sótt hafi verið um leyfi fyrir breytingunum.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.

Í máli þessu er krafist ógildingar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi fjölbýlishúss við Ferjuvað 1-3. Fólust breytingarnar í því að breyta stæði í bílageymslu, sem áður var ætlað hreyfihömluðum, í almennt bílastæði.

Af þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ljóst að hinum umdeildu breytingum var lokið áður en sótt var um leyfi fyrir þeim hjá byggingarfulltrúa. Hefur því ekki þýðingu að stöðva framkvæmdir á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, enda eru þær afstaðnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir