Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

45/2015 Ránargata

Árið 2015, fimmtudaginn 2. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. október 2014 um að veita leyfi til að stækka kvist og byggja svalir við hann, stækka aðaltröppur með palli og breyta innra skipulagi hússins á lóð nr. 29a við Ránargötu, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júní 2015, sem barst nefndinni sama dag, kæra íbúar að Ránargötu 31, Ránargötu 32, Ránargötu 33, Stýrimannastíg 4 og, Stýrimannastíg 8, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. október 2014 að veita leyfi til að stækka kvist og byggja svalir við hann, stækka aðaltröppur með palli og breyta innra skipulagi hússins á lóð nr. 29a við Ránargötu, Reykjavík. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 23. júní 2015.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 14. október 2014 var samþykkt umsókn um leyfi til að stækka kvist og byggja svalir við hann, stækka aðaltröppur með palli, breyta stiga milli kjallara og neðri hæðar, koma fyrir salernum og böðum í tveimur svefnherbergjum og tveimur vinnuherbergjum í kjallara, breyta inntaki og endurnýja heimtaugar og heimaæðar í húsinu á lóð nr. 29a við Ránargötu. Umsókninni fylgdi umsögn frá Minjastofnun Íslands, dags. 18. september s.á. Hefur framangreind ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að eftir að framkvæmdir hafi hafist, m.a. með því að trjágróður væri fjarlægður og grafið væri fyrir dreni, hafi þeir leitað sér nánari upplýsinga um í hverju framkvæmdirnar fælust. Hafi þeir ekki fyrr en þá gert sér grein fyrir því að til stæði að gera áberandi breytingar utanhúss, svo sem verulega stækkun á kvisti vestan megin ásamt byggingu nýrra svala. Breytingarnar séu óæskilegar og ekki í samræmi við aðra kvisti rishæða sem snúi inn að görðum hverfisins. Þeir séu yfirleitt látlausir og lágreistir og samsvari húsunum vel. Muni kvistur og svalir gnæfa yfir nærliggjandi garða og skerða næði kærenda meira en áður hafi verið. Sé þess krafist að byggingarleyfið sé fellt úr gildi þar sem grenndarkynning hafi ekki farið fram í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er upplýst að við skoðun á málinu hafi komið í ljós að láðst hafi að grenndarkynna umrædda byggingarleyfisumsókn. Verði leyfið fellt úr gildi megi búast við því að umsóknin verði grenndarkynnt.

Málsrök leyfishafa:
Leyfishafi skírskotar til þess að hann hafi unnið að nýjum teikningum sem lagðar hafi verið fram hjá byggingarfulltrúa og samþykktar þar að loknum viðeigandi breytingum. Húsið sem um ræði sé dæmigert fyrir íslenskan sveitserstíl sem aðlagaður hafi verið aðstæðum hér á landi. Sambærileg hús sé að finna í vesturbænum, umhverfis Tjörnina og í Þingholtunum, en húsið sé sérstakt m.a. fyrir það að standa á baklóð milli gatna og snúa þvert á almenna stefnu húsanna sem standi við göturnar í kring. Breytingar utanhúss séu þær að í stað hallandi kvists á þakinu sé fyrirhugaður veggkvistur með mænisþaki og svölum og dyrum út á þær. Hann sé sömu gerðar og ættar og fjölmargir kvistir á timburhúsum frá þessum tíma og sómi húsinu vel, sbr. umsagnir Minjastofnunar Íslands og Borgarsögusafns. Með kvistinum og svölunum sé tryggð flóttaleið af efri hæð hússins sem ekki hafi verið fyrir. Einnig sé fyrirhuguð breyting á aðaltröppum hússins, þær verði smíðaðar úr timbri og gengið verði um pall sem auki notagildi þeirra. Allar breytingar séu í samræmi við samþykktar teikningar.

Byggingarleyfi hafi verið gefið út og samþykkt af byggingarfulltrúa 14. október 2014, framkvæmdir hafist 13. apríl 2015 og hafi verktakar unnið við fasteignina alla virka daga síðan. Framkvæmdir hafi þá þegar byrjað af fullum þunga utanhúss og verði því ekki betur séð en að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Leyfishafi hafi nú þegar eytt miklum fjármunum og tíma í að koma framkvæmdum í þann farveg sem þær séu í. Samningar hafi verið gerðir við verktaka og myndi ógilding byggingarleyfis hafa mikil og ófyrirsjáanleg fjárhagsleg áhrif á leyfishafa. Stefna hans sé að framkvæma allar breytingar á þeim fasteignum sem hann kunni að eignast í samræmi við aldur hverrar eignar og harmi hann að þessi staða sé komin upp. Leyfishafi eyði verulegum fjármunum í að halda í upphaflegt útlit hússins eins og kostur sé, en ekki sé sjálfgefið að eigendur fasteigna leggi slíka fjármuni og metnað í það að vernda sögulegt gildi og útlit gamalla fasteigna, eins og hér um ræði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingar innan og utan hússins á lóð nr. 29a við Ránargötu, Reykjavík. Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt um tilvist og efni hinnar kærðu ákvörðunar eða mátti af aðstæðum vera það ljóst. Óumdeilt er að framkvæmdir hófust í apríl 2015. Hins vegar verður ekki ráðið af gögnum málsins að neinar þær framkvæmdir hafi þá þegar verið hafnar sem bent gætu til breytinga á kvisti eða að svölum yrði þar bætt við, en að sögn kærenda voru framkvæmdir utan húss fólgnar í því að garður var grafinn upp, trjágróður fjarlægður og grafið fyrir dreni. Munu kærendur hafa aflað sér upplýsinga í byrjun júní s.á. um byggingarleyfi það sem kært var til úrskurðarnefndarinnar 11. s.m. Með hliðsjón af framangreindu verður við það að miða að kæra í máli þessu hafi borist innan lögmælts kærufrests, enda verður ekki fullyrt að kærendum hafi mátt vera efni byggingarleyfisins ljóst fyrr eða haft tilefni til að kanna það sérstaklega vegna aðstæðna. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.

Húsið Ránargötu 29a er staðsett á ódeiliskipulögðu svæði. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 19. gr. laga nr. 59/2014, er skipulagsnefnd heimilað að ákveða að veita megi byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir, enda fari áður fram grenndarkynning. Kemur og skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynnt skuli í slíkum tilvikum. Er þannig með ótvíræðum hætti lögð sú skylda á sveitarfélög að sjá til þess að grenndarkynning fari fram þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur undir höndum hefur grenndarkynning ekki farið fram. Þá voru ekki skilyrði fyrir því að falla frá grenndarkynningu á grundvelli undantekningarákvæðis 3. mgr. 44. gr. laganna, enda ekki útilokað að umþrætt framkvæmd geti haft áhrif á aðra en sveitarfélagið og umsækjanda hins kærða leyfis.

Að framagreindu virtu verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. október 2014 um að veita leyfi til að stækka kvist og byggja svalir við hann, stækka aðaltröppur með palli og breyta innra skipulagi hússins á lóð nr. 29a við Ránargötu, Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson