Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

58/2016 Gerplustræti

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 11. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 26. ágúst 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga Helgafellshverfis vegna lóðar nr. 1-5 við Gerplustræti og á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar að samþykkja leyfi til að byggja 31 íbúða fjöleignarhús með bílakjallara á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Ástu-Sólliljugötu nr. 1 og 5, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 26. ágúst 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga Helgafellshverfis vegna lóðar nr. 1-5 við Gerplustræti. Þá er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar um að samþykkja leyfi til að byggja 31 íbúða fjöleignarhús með bílakjallara á lóðinni. Verður að skilja málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi fyrir fyrrgreindu húsi frá 6. nóvember 2015 og 13. apríl 2016 verði felld úr gildi sem og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Mosfellsbæ 8. júní 2016.

Málavextir: Hinn 23. júní 2015 var á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar tekin fyrir tillaga um breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga Helgafellshverfis vegna lóðar nr. 1-5 við Gerplustræti. Í breytingunni fólst að íbúðum í fyrirhuguðu fjöleignarhúsi var fjölgað úr 26 í 31, skilmálum bílastæða breytt, stigahúsum fækkað úr þremur í eitt og gólfkótar hækkaðir um 1,4 m. Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu. Deiliskipulagsbreytingin var auglýst 6. júlí 2015 með athugasemdafresti til 17. ágúst s.á., en engar athugasemdir bárust á kynningartíma. Á fundi skipulagsnefndar 18. ágúst 2015 var deiliskipulagsbreytingin samþykkt og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 26. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. febrúar 2016.

Hinn 18. janúar 2016 var haldinn fundur með eigendum Ástu-Sólliljugötu 1-7, þ. á m. kærendum, ásamt hluta bæjarstjórnar, byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar þar sem farið var yfir stöðu mála. Í kjölfarið sendu greindir eigendur bréf til bæjarstjóra, dags. 25. s.m., þar sem gerðar voru athugasemdir við málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar og uppdrætti fyrirhugaðrar byggingar er varðaði fjölda hæða.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar 6. nóvember 2015 voru samþykkt byggingaráform og var leyfi gefið út til að byggja 31 íbúða fjöleignarhús með bílakjallara á lóð nr. 1-5 við Gerplustræti. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. apríl 2016 var samþykkt að heimilað hús yrði lækkað um 50 cm og það staðsett um 3 m fjær vestur lóðarmörkum en áður var gert ráð fyrir.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að samþykktir aðaluppdrættir sýni fjögurra hæða fjöleignarhús á meðan samþykkt deiliskipulag fyrir lóðina heimili aðeins byggingu þriggja hæða húss. Vísað sé í gr. 6.4.12 byggingarreglugerðar nr. 112/2012 þar sem segi m.a. í 7. mgr. að kjallari íbúðarhúss undir aðalinngangshæð, þar sem einungis sé bílgeymsla, geymslur eða þess háttar rými, teljist ekki til hæðar í skilningi 5. mgr. sömu greinar. Þar sem kjallari umrædds fjöleignarhúss hýsi ekki aðeins bílgeymslu, geymslur og þess háttar, heldur jafnframt fjórar íbúðir, teljist það til hæðar og því sé um að ræða fjögurra hæða hús en ekki þriggja. Kærendur telji sig hafa fengið vitneskju um byggingaráform, þ.e. byggingu fjögurra hæða húss, sama dag og kæran hafi borist úrskurðarnefndinni og beri því að líta svo á að kærufrestur sé einn mánuður frá þeim tíma.  

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagins er vísað til þess að kærufrestur sé liðinn. Um sé að ræða ákvörðun sem sæti opinberri birtingu og teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hin kærða skipulagsbreyting hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 11. febrúar 2016 og því sé kærufrestur liðinn. Þá verði að hafa það í huga að kærendur hafi gert athugasemdir um fjölda hæða fjöleignarhússins í bréfi sínu, dags. 25. janúar 2016, og skömmu áður hafi byggingarfulltrúi sent kærendum gögn og myndir vegna fyrirhugaðra framkvæmda sem vel hafi sýnt fjölda hæða og fyrirkomulag húsa við Gerplustræti.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að verið sé að vinna að framkvæmdunum í sátt við nágranna og hafi ýmislegt verið gert til að fólk yrði sátt við framkvæmdina. Byggingin sé í samræmi við skipulag svæðisins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. febrúar 2016. Kæra í málinu barst 31. maí s.á eða rúmum þremur mánuðum eftir lok kærufrests.

Hvað varðar upphaflegt byggingarleyfi fyrir húsinu að Gerplustræti 1-5 miðast kærufrestur við það tímamark hvenær kærandi hafi mátt vita um samþykki hinnar kærðu ákvörðunar. Samþykkt var að veita byggingarleyfi fyrir húsinu í nóvember 2015 og það gefið út. Hinn 4. janúar 2016 gerði byggingarfulltrúi úttekt á botnplötu og á undirstöðum hússins 10. mars s.á. Þá liggur fyrir í málinu að kærendur, ásamt öðrum íbúum Ástu-Sólliljugötu, og sveitarfélagið voru í samskiptum vegna byggingarframkvæmdanna og var haldinn fundur með nefndum aðilum af því tilefni í janúar 2016. Vísa kærendur til þessa fundar í bréfi sínu til sveitarfélagsins, dags. 25. janúar s.á., þar sem m.a. voru gerðar athugasemdir við fjölda hæða byggingarinnar. Að framangreindu virtu þykir ljóst að kærendum hafi mátt vera kunnugt um efni upphaflegs byggingarleyfis þegar í byrjun árs 2016 eða tæpum fimm mánuðum áður en kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að vísa skuli kæru frá berist hún að liðnum kærufresti. Þær undantekningar eru gerðar frá nefndri meginreglu í 1. og 2. tl. ákvæðisins að taka megi mál til meðferðar að liðnum kærufresti þegar afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur m.a. fram í athugasemdum með nefndri 28. gr. að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Í máli þessu fara hagsmunir kærenda og handhafa hins kærða byggingarleyfis ekki saman.

Að öllu framangreindu virtu eiga fyrrgreindar undantekningar frá meginreglunni um frávísun máls sem berst að liðnum kærufresti ekki við hvað varðar hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi það sem samþykkt var hinn 6. nóvember 2015. Verður þeim þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hinn 13. apríl 2016 var samþykkt breytt byggingarleyfi fyrir umrætt hús í kjölfar athugasemda nágranna. Var húsið lækkað um 50 cm og það staðsett um 3 m fjær fasteignum kærenda en áður var gert ráð fyrir. Af fyrirliggjandi gögnum og málsatvikum verður ekki fullyrt að kærendum hafi mátt vera kunnugt um samþykkt þess meira en mánuði áður en kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 31. maí s.á. Verður því álitaefni um lögmæti hins breytta byggingarleyfis tekið til efnismeðferðar. Hins vegar er umrætt byggingarleyfi í samræmi við deiliskipulag það sem tók gildi 11. febrúar 2016 og liggur ekki annað fyrir en að málsmeðferð þess hafi verið lögum samkvæmt. Verður því ekki fallist á kröfu um ógildingu þess.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 13. apríl 2016 um að samþykkja leyfi til að byggja 31 íbúða fjöleignarhús með bílakjallara á lóðinni Gerplustræti 1-5. Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir

 

51/2016 Klapparstígur 33

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 14. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 51/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2016 um að veita byggingarleyfi til að innrétta veitingastað í flokki III á 1. hæð og kjallara hússins við Klapparstíg 33.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landsþing ehf., eigandi eignarhluta 201, 301 og 401 í fjöleignarhúsinu að Klapparstíg 33, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2016 að veita Basalti ehf. byggingarleyfi til að innrétta veitingastað í flokki III fyrir 100 gesti á 1. hæð og  í kjallara  hússins að Klapparstíg 33. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en jafnframt er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 13. júní 2016.

Málavextir: Hinn 17. maí 2016 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi til að innrétta veitingastað í flokki III fyrir 100 gesti á 1. hæð og í kjallara í fjöleignarhúsinu við Klapparstíg 33. Með erindinu fylgdi jákvæð umsögn skipulagsfulltrúa, minnisblað um brunavarnir og hljóðvistarskýrsla. Var leyfið samþykkt með þeim áskilnaði að þinglýst yrði yfirlýsing um opnunartíma til kl. 01 á virkum dögum og til kl. 03 um helgar og að opið yrði frá hádegi.

Málsrök kærenda: Kærandi bendir á að hann reki hótel og íbúðaleigu í húsum nr. 22a við Laugaveg og nr. 33 við Klapparstíg. Sú ákvörðun byggingarfulltrúa að leyfa veitingarekstur á fyrstu hæð og í kjallara hússins að Klapparstíg 33 raski hagsmunum hans verulega. Í stað kyrrlátrar starfsemi í greindu húsnæði, með lokunartíma  kl. 18 virka daga og kl. 16 um helgar, sé nú veitt leyfi fyrir starfsemi sem hefjist á hádegi og ljúki kl. 01 á virkum dögum og til kl. 03 um helgar. Muni sú starfsemi trufla gesti kæranda og raska næturró þeirra. Með hinni kærðu ákvörðun sé verið að rýra eignarréttindi kæranda.

Byggingarleyfisumsóknin hafi hvorki verið kynnt kæranda né hafi verið leitað eftir sjónarmiðum hans áður en hún hafi verið samþykkt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi kærandi ekki heldur verið upplýstur um að málið væri til meðferðar hjá sveitarfélaginu, sbr. 14. gr. sömu laga. Sem meirihlutaeigandi Klapparstígs 33 eigi kærandi tvímælalaust aðild að öllum byggingarleyfisumsóknum sem varði húsnæðið og sé ljóst að málsmeðferð byggingarfulltrúa hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög. Umrætt hús sé fjöleignarhús og um það gildi lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Um verulega breytingu á hagnýtingu séreignar sé að ræða og hafi því þurft samþykki allra eigenda, sbr. 5. tl. 41. gr. fjöleignarhúsalaga.

Nálægð veitingastaða sé nú þegar til vandræða og hafi haft það í för með sér að viðskiptavinir kæranda hafa fallið frá pöntunum. Það byggingarleyfi sem hér um ræði veiti leyfi fyrir bar á tveimur hæðum fyrir 100 gesti. Alþekkt sé að gestafjöldi fari oft yfir leyfilegt hámark og fylgi börum mikill hávaði. Hávær tónlist muni berast um allar hæðir og valda íbúum og gestum sem dvelji þar miklu ónæði. Einnig sé á það bent að afgreiðsla byggingarfulltrúa sé haldin slíkum annmörkum að fella beri umdeilt leyfi úr gildi. Meðal annars sé á uppdrætti sýnt rými í kjallara fyrir uppvask, en það sé í eigu kæranda og því óheimilt að leggja það undir starfsemi veitingastaðarins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagins er vísað til þess að hið umþrætta byggingarleyfi sé í fullu samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.172.2, ásamt síðari breytingum, sem afmarkist af Laugavegi, Frakkastíg, Grettisgötu og Klapparstíg, og samþykkt hafi verið í borgarráði 25. mars 2003. Sú breyting á hagnýtingu sem hið kærða byggingarleyfi heimili sé ekki þess háttar breyting sem ákvæði 27. gr. laga nr. 26/1994 fjalli um. Ljóst sé að samkvæmt gildandi skipulagi fyrir umrætt svæði sé heimilt að reka þar veitingahús og sé slíkur rekstur náskyldur rekstri verslana. Þegar hagnýting séreignar sé hliðrað með þessum hætti, þ.e. úr verslunarrekstri í veitingarekstur, reyni á það hvort aðili sem um slíkt sæki uppfylli fagleg skilyrði laga til að mega reka veitingahús á viðkomandi stað og hvort slíkt sé heimilt í gildandi skipulagi. Öll slík skilyrði hafi verið uppfyllt.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi skírskotar til þess að ekki sé verið að breyta hagnýtingu séreignar hans verulega og hafi því ekki þurft samþykki allra eigenda hússins, sbr. 2. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Því sé mótmælt að umrædd breyting muni raska hagsmunum kæranda verulega. Í miðborg Reykjavíkur sé leyfð mjög rúm landnotkun og meðal annars sé þar gert ráð fyrir rekstri veitinga- og skemmtistaða. Megi ávallt búast við ýmsum breytingum, s.s. á atvinnurekstri, innan heimilda þess sem skipulag svæðisins leyfi. Engin rök séu fyrir því að hefta umrædda starfsemi. Breyti engu að undanfarin ár hafi listagallerí verið starfrækt í umræddum eignarhluta og takmarki það ekki rétt eiganda til að nýta húsnæðið til annarrar starfsemi síðar, að uppfylltum skilyrðum. Ekki sé hægt að fallast á þá fullyrðingu að ónæði og hávaði af rekstrinum verði meiri en talist geti eðlilegt í miðborg, þar sem blönduð starfsemi sé eðlilegur hluti af daglegu lífi og þróun miðborgar og samkvæmt skipulagi.

Þá sé því mótmælt að afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi ekki verið í samræmi við áskilnað laga og reglugerða. Engar lagareglur mæli fyrir um kynningu byggingaráforma, sem séu í samræmi við skipulag og reglur laga um mannvirki. Fullyrðing kæranda um að verið sé að nota rými í hans eigu sé mótmælt og sé þar um misskilning að ræða. 

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er ekki heimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skulu með byggingarleyfisumsókn fylgja nauðsynleg gögn, m.a. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Í 27. gr. nefndra laga er kveðið á um að breytingar á hagnýtingu séreignar í fjöleignarhúsi, frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins.

Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 heyrir umrætt svæði undir miðborgarkjarna (M1a), en því er þar lýst sem svæði þar sem sérstök áhersla sé lögð á smásöluverslun, veitingastarfsemi og afþreyingu, sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Jafnframt segir að á svæðinu gildi almennar veitingaheimildir þar sem lengst megi vera opið til kl. 01 á virkum dögum og kl. 03 um helgar. Í kafla aðalskipulagsins „Landnotkun – skilgreiningar (bindandi stefna)“ er að finna nánari skilgreiningar á svæðinu og er umrætt fjöleignarhús staðsett á hliðarverslunarsvæði nr. 12 sem afmarkast af Klapparstíg, austur- og vesturhlið, frá Laugavegi að Skólavörðustíg. Jafnframt er þar að finna sérstök ákvæði um götuhliðar í miðborginni þar sem settir eru á kvótar fyrir tilteknar tegundir starfsemi. Annars vegar kvótar með það að markmiði að vernda og efla smásöluverslun með því að kveða á um lágmarkshlutfall smásöluverslunar við ákveðin götusvæði og hins vegar kvótar til að tryggja fjölbreytilega starfsemi með því að kveða á um hámarkshlutfall sömu starfsemi við ákveðin götusvæði og torg. Það svæði sem hér um ræðir fellur undir fyrri flokkinn og er forsenda samþykkis fyrir breyttri notkun húsnæðis við jarðhæðir háð því að hlutfall smásöluverslunar fari ekki undir 50% við skilgreinda götuhlið. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð að farið hafi verið gegn fyrrnefndu skilyrði með hinni kærðu ákvörðun. Þar að auki er gildandi deiliskipulag í samræmi við skilgreiningar aðalskipulags er varðar landnotkun.

Fasteignaeigendur á tilteknu skipulagssvæði eiga að jafnaði rétt til þess að nota fasteign sína í samræmi við heimildir gildandi skipulags og þurfa að sæta því að aðrir fasteignaeigendur geri slíkt hið sama, að uppfylltum skilyrðum laga og reglna, s.s.um hljóðvist. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærandi eigi íhlutunarrétt vegna hinnar breyttu notkunar leyfishafa á séreign sinni skv. 27. gr. laga um fjöleignarhús. Var því ekki þörf á að láta samþykki meðeigenda fylgja með umræddri byggingarleyfisumsókn, auk þess sem ákvæði stjórnsýslulaga um andmælarétt og tilkynningarskyldu stjórnvalda áttu ekki við um réttarstöðu kæranda við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar.

Kærandi telur jafnframt að með hinu umdeilda byggingarleyfi sé verið að heimila breytingar á séreign hans í kjallara hússins. Samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fyrir Klapparstíg 33 tilheyrir eignarhluta 201, sem er í eigu kæranda, geymsla í kjallara og er birt stærð hennar 8,4 m2. Samkvæmt skráningartöflu þeirri sem fylgdi með eignaskiptayfirlýsingunni er umrædd geymsla merkt 0002 og er nettóflötur hennar skráður 6,7 m2, sem er sá fermetrafjöldi sem sýndur er á teikningu. Samkvæmt uppdrætti þeim sem fylgdi hinu umrædda byggingarleyfi er ekki að sjá að verið sé að breyta greindri geymslu heldur er hún skilmerkilega merkt sem geymsla 0002 á byggingarleyfisteikningum.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hið kærða byggingarleyfi sé haldið annmörkum sem raskað geta gildi þess og verður kröfu um ógildingu þess því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2016 um að veita leyfi til að innrétta veitingastað í flokki III á 1. hæð og í kjallara hússins við Klapparstíg 33.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

25/2016 Kerlingarfjöll

Með

Árið 2016, fimmtudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 2. júlí 2015 um að heimila efnistöku vegna 1. áfanga uppbyggingar hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa Hrunamannahrepps frá 30. september 2015 um að samþykkja byggingu hótels með 40 herbergjum í Ásgarði á svæði Kerlingarfjalla.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá samþykkt byggingarfulltrúa Hrunamannahrepps frá 30. september 2015 að heimila byggingu 1.869 m² hótels í Ásgarði í Kerlingarfjöllum. Enn fremur er kærð sú ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 2. júlí 2015 að leggjast ekki gegn efnistöku í Kerlingarfjöllum vegna framangreindrar hótelbyggingar.

Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar, en ekki þótti tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda fyrr þar sem framkvæmdir höfðu þegar hafist haustið 2015 en var ekki framhaldið um vetrartímann vegna aðstæðna.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hrunamannahreppi 21. mars og 25. apríl 2016.

Málavextir: Hinn 2. júlí 2015 tók sveitarstjórn Hrunamannahrepps fyrir erindi Fannborgar ehf. um heimild til efnistöku vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Ásgarði og Hveradölum í Kerlingarfjöllum. Var fært til bókar að nú lægi fyrir álit Skipulagsstofnunar um að framkvæmdir við heildaruppbyggingu hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum, utan 1. áfanga. Í ljósi þessa væri ekki hægt að veita leyfi fyrir efnistöku fyrir heildaruppbyggingu svæðisins en ekki væri gerð athugsemd við efnistöku í tengslum við 1. áfanga uppbyggingarinnar, þ.e. á svæðum merktum B, C og E í fyrirliggjandi greinargerð.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Hrunamannahrepps 30. september 2015 var tekin fyrir umsókn Fannborgar ehf. um leyfi til að reisa 1.869 m² hótel í Ásgarði í Kerlingarfjöllum. Um tveggja hæða byggingu væri að ræða með kjallara, þjónustuálmu og gistiálmu með 40 herbergjum. Var umsóknin samþykkt og bókað að uppfyllt væru ákvæði laga um mannvirki nr. 160/2010. Einnig var fært til bókar að byggingarleyfi yrði gefið út að uppfylltum skilyrðum er fram kæmu í gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Gaf byggingarfulltrúi út leyfi til byggingar greinds hótels 4. desember 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann eigi lögvarða hagsmuni skv. 1. ml. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Tengist mál þetta á órjúfanlegan hátt öðru máli sem kærandi hafi skotið til úrskurðarnefndarinnar og byggi ákvarðanir leyfisveitenda á ákvörðun þeirri sem kærð hafi verið í því máli. Þá sé kæranda á grundvelli b-liðar síðari málsliðar 3. mgr. 4. gr. greindra laga ekki nauðsyn á að sýna fram á lögvarða hagsmuni sína, en hinar kærðu ákvarðanir varði framkvæmdir sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

Kæra þessi sé sett fram innan lögbundins kærufrests. Kæranda hafi ekki verið kunnugt um samþykki byggingarleyfisins fyrr en 17. febrúar 2016 og ekki um ákvörðun um efnistöku fyrr en 7. mars s.á. Með tölvupósti kæranda til byggingarfulltrúa 8. og 10. febrúar 2016 hafi verið óskað upplýsinga um hvort gefið hefði verið út byggingarleyfi til framkvæmdaraðila vegna byggingar 1. áfanga hótels í Kerlingarfjöllum. Svar hafi borist 17. s.m. og þar komið fram að byggingarleyfið hafi verið samþykkt 30. september 2015. Í svarpósti til kæranda 22. febrúar 2016 hefði verið frá því greint að leyfið hefði þó ekki verið útgefið. Hafi kærandi orðið þess áskynja 4. mars s.á. að framkvæmdir væru hafnar.

Lögum samkvæmt sé skrifleg tilkynning um að leyfisveitandi fallist á byggingaráform ekki ígildi byggingarleyfis. Verði því að líta svo á að ekki hafi enn verið útgefið byggingarleyfi í skilningi mannvirkjalaga nr. 160/2010. Þá liggi fyrir að framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku hafi ekki verið gefið út.

Ljóst sé að slíkir annmarkar séu á hinum kærðu ákvörðunum að fella beri þær úr gildi. Umrætt svæði sé allt innan þjóðlendu, en ekki hafi legið fyrir áskilin leyfi samkvæmt lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur. Ákvörðun um byggingarleyfi hafi stuðst við heimildarlaust samþykki sveitarstjórnar til efnistöku fyrir framkvæmdinni eða hagnýtingar á landi til þeirrar efnistöku, en ekki hafi verið leitað samþykkis forsætisráðherra skv. 2. mgr. 3. gr. laganna. Jafnframt sé ákvörðunin ólögmæt þar sem ekki virðist hafa legið fyrir nauðsynlegt samþykki forsætisráðherra skv. 3. mgr. 3. gr. þjóðlendalaga um að heimila nýtingu lands til byggingar umrædds hótels. Sé í þessu sambandi einnig vísað til ákvæða mannvirkjalaga og kafla 2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá verði ekki séð að gætt hafi verið 4. mgr. tilvitnaðs ákvæðis laganna um endurgjald. Breyti samningar milli Hrunamannahrepps og framkvæmdaraðila, dags. 25. ágúst 2015, engu í þessu sambandi.

Málsrök Hrunamannahrepps: Af hálfu Hrunamannahrepps er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Kærandi geti ekki átt aðild að kærumálinu þar sem hann hafi ekki lögvarinna hagsmuni að gæta. Varði kröfur kæranda ekki ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskylda framkvæmd og því geti a-liður 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ekki átt við. Þá hafi kæra borist úrskurðarnefndinni utan lögbundins kærufrests. Hafi kæranda verið tilkynnt með tölvupósti 9. október 2015 að byggingarleyfi lægi fyrir og hafi það verið gefið út 4. desember s.á. Fullljóst sé að kæranda hafi verið vel kunnugt um útgáfu hins kærða byggingarleyfis.

Öllum röksemdum kæranda sé hafnað. Réttum málsmeðferðarreglum hafi verið fylgt við samþykkt hins kærða byggingarleyfis og hafi engin rök verið færð fyrir öðru.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir aðallega þá kröfu að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Til vara sé þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað og hinar kærðu ákvarðanir staðfestar.

Telja verði að kæra sé of seint fram komin. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé frestur til að kæra ákvörðun til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana, nema á annan veg sé mælt í lögum. Lögbundinn kærufrestur vegna ákvörðunar sveitarstjórnar um efnistöku hafi runnið út 2. ágúst 2015 og kærufrestur vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa  hafi hafist 30. september s.á. Kæra hafi ekki borist fyrr en 8. mars 2016, nokkrum mánuðum eftir lok kærufrests. Sé röksemdum kæranda um upphaf kærufrests alfarið hafnað.

Bent sé á að kærandi hafi getað kynnt sér stöðu mála á heimasíðu sveitarstjórnar og byggingarfulltrúa, en þar séu fundargerðir birtar. Fyrir úrskurðarnefndinni liggi kæra frá kæranda vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda í Kerlingarfjöllum. Hafi kærandi bæði haft efni og sérstaklega ríka ástæðu til að fylgjast náið með framgangi framkvæmda við Kerlingarfjöll, sem hann hafi lengi vitað að væru í uppsiglingu. Hafi honum í öllu falli mátt vera kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir fljótlega eftir að framkvæmdir hófust. Hafi honum þá borið að kynna sér kærurétt sinn og gera reka að því að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar. Sé í þessu sambandi vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 84/2011. Kæranda hafi sérstaklega verið tilkynnt með tölvupósti byggingarfulltrúa 9. október 2015 að byggingarleyfi fyrir 1. áfanga framkvæmdarinnar lægi fyrir. Í öllu falli sé ljóst að kæranda hafi í síðasta lagi mátt vera kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir undir lok janúar 2016, þegar hann hafi fengið senda tillögu að matsáætlun þar sem fram komi með skýrum hætti að framkvæmdir við 1. áfanga séu hafnar. Þá verði ekki séð að afsakanlegt sé eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Yrði það verulega íþyngjandi fyrir leyfishafa yrði málinu ekki vísað frá úrskurðarnefndinni, enda hafi framkvæmdum verið haldið áfram í góðri trú eftir að kærufresti lauk. Verði að túlka allar undanþágur frá hinum lögbundna kærufresti þröngt.

Sé ekki fallist á frávísun máls þessa sé mótmælt rökum kæranda er snúa að því að byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út. Útgáfa þess sé sjálfstætt álitamál sem engin áhrif geti haft á gildi ákvörðunar um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi. Málatilbúnaður kæranda að þessu leyti varði því ekki álitaefni hinnar kærðu stjórnvaldsákvörðunar og komi því ekki til álita í máli þessu.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur sé það hlutverk forsætisráðherra að skera úr ágreiningi um veitingu leyfa. Því sé hafnað að tilvitnuð leyfi skv. 3. gr. laganna, hafi þurft að liggja fyrir áður en ákvarðanir um samþykkt byggingaráforma eða um heimild til efnistöku hafi verið teknar. Ekki sé gert að sérstöku skilyrði í mannvirkjalögum nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 112/2012 og skipulagslögum nr. 123/2010 að öll leyfi sem þurfi til að ráðast í framkvæmd séu nauðsynlegur undanfari ákvörðunar um samþykkt byggingar- eða framkvæmdaleyfisumsókna. Ekki megi heldur lesa það úr lögum nr. 58/1998 eða lögskýringargögnum. Geti skortur á tilskildum leyfum því ekki talist vera ágalli sem varðað geti ógildingu hinnar kærðu ákvarðana. Jafnframt sé því vísað á bug að 4. mgr. 3. gr. þjóðlendulaga eigi við um leyfisveitingar samkvæmt öðrum lögum en þjóðlendulögum. Þá sé ljóst að um heimildarákvæði sé að ræða.

Athugasemdir kæranda við málsrökum sveitarfélagsins og leyfishafa: Kærandi áréttar sjónarmið sín sem að framan eru rakin. Jafnframt fer hann fram á að úrskurðarnefndin hafi í huga starfsaðstæður kæranda þegar metin verði áhrif þess að ekki hafi verið brugðist strax við með nýrri kæru þegar fyrir hafi legið vitneskja um samþykki til útgáfu byggingarleyfis í október 2015, enda hefði leyfisveitandi ítrekað staðhæft við framkvæmdastjóra kæranda í október 2015 og febrúar 2016 að byggingarleyfi hefði ekki verið gefið út. Ekki sé hægt að ætlast til þess af kæranda að hann vefengdi orð forsvarsmanna leyfisveitanda um að leyfi væri óútgefið. Hafi kærandi enga ástæðu haft til að ætla að framkvæmdir gætu hafist eða myndu hefjast án útgáfu slíks leyfis. Ekki liggi heldur fyrir að leyfisveitingin hafi verið birt í Lögbirtingablaðinu eða öðru blaði. Þá skipti það engu þótt fundargerðir séu aðgengilegar á netinu. Hafi ekkert bent til þess að byggingarframkvæmdir væru í gangi eða yfir höfuð mögulegar yfir hávetur í Kerlingarfjöllum. Hafi leyfisveitandi ekki upplýst kæranda um kærurétt eða kærufrest.

Framkvæmdastjóri kæranda hafi óskað eftir gögnum í október 2015 og í febrúar 2016, þegar byggingarleyfi lægi fyrir. Hafi þau aldrei borist og hefði það fyrst verið 19. apríl 2016, eftir að kærandi hafi fengið afrit af gögnum málsins hjá nefndinni, að kæranda hafi orðið ljóst að þrátt fyrir ítrekaðar fullyrðingar af hálfu leyfisveitanda hefði byggingarleyfi í raun verið gefið út.

Líta verði svo á að kærufrestur hafi ekki getað byrjað að líða á meðan kæranda hafi ekki verið kunnugt um að byggingarleyfi hefði verið gefið út eða að veitt hefði verið leyfi til efnistöku. Geti fresturinn fyrst byrjað að líða þegar kærandi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að ákvörðun sú sem honum hefði vissulega verið kunnugt um hefði komið til framkvæmda, það er að skilyrði útgáfu byggingarleyfis hefði verið uppfyllt og það gefið út. Það hefði kæranda í fyrsta lagi getað verið kunnugt um þegar upplýsingar hefðu farið að berast um að framkvæmdir hefðu hafist. Önnur og strangari skýring geti ekki átt rétt á sér eins og atvikum hafi verið háttað. Hafi kærandi ekki sýnt af sér tómlæti um að halda málinu áfram.

Á því sé byggt að ekki verði horft fram hjá 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki við úrlausn á því hvaða atburður marki upphaf kærufrests. Líta verði svo á að útgáfa byggingarleyfis teljist „ákvörðun“ í skilningi ákvæðisins, en skilyrt samþykkt í bókun í fundargerð sé ekki það tímamark sem miða beri við, eins og hér á standi. Sé vísað í 59. gr. mannvirkjalaga. Álykta verði að það sé hin skriflega útgáfa byggingarleyfisins sem fyrst geti markað upphaf kærufrests. Samkvæmt því hafi kærufrestur ekki getað byrjað að líða fyrr en eftir að kærandi setti fram kæru, þar sem honum hefði ekki verið kunnugt um það fyrr en hann fékk afrit af umsögnum 19. apríl 2016 að leyfi hefði verið gefið út.

Kærandi geri jafnframt athugsemd við samþykkt stöðuleyfi. Þá hafi sveitarstjórn verið vanhæf til töku hinnar kærðu ákvörðunar sökum einkaréttarlegra hagsmuna sinna.

Athugasemdir leyfishafa við athugasemdum kæranda: Leyfishafi áréttar að jafnvel þótt miðað sé við síðasta mögulega tímamark megi ljóst vera að kæran hafi borist að liðnum lögbundnum kærufresti. Sé lögð áhersla á að óumdeilt verði að teljast að kæranda hafi verið fullkunnugt um kæruleiðir og kærufresti til úrskurðarnefndarinnar en kærandi hafi rekið fjöldamörg kærumál fyrir úrskurðarnefndinni undanfarin áratug.

Því sé mótmælt að útgáfa stöðuleyfis komi til álita í máli þessu. Hafnað sé að engin gögn hafi verið lögð fram varðandi afstöðu forsætisráðuneytisins til leyfisveitingar samkvæmt þjóðlendulögum nr. 58/1998 og sé m.a. vísað til lóðarleigusamnings í þessu efni. Loks sé tekið fram að sveitarstjórnarmenn hafi ekki haft neinna hagsmuna að gæta er valdið geti vanhæfi þeirra til aðkomu að málinu.

——

Aðilar hafa fært fram ítarlegri sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin, en úrskurðarnefndin hefur haft til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 23. júní 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi leyfisveitinga vegna uppbyggingar hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum. Kærandi hefur m.a. gert athugasemd við að stöðuleyfi hafi verið veitt fyrir herbergjaeiningum, sem síðar skyldu notaðar sem 2. hæð fyrirhugaðrar hótelbyggingar. Beinir hann því til úrskurðarnefndarinnar „að skoða umrætt stöðuleyfi í tengslum við þetta mál“. Af aðstæðum á vettvangi er ljóst að umræddar herbergiseiningar eru nú þegar orðnar hluti af þeim byggingarframkvæmdum sem lokið hefur verið við á svæðinu. Var á vettvangi upplýst um það af hálfu leyfishafa að framkvæmdum vegna þessa hefði lokið á haustmánuðum ársins 2015, eða áður en kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni. Þykir því ekki ástæða til að fjalla frekar um nefnt stöðuleyfi.

Í málinu er gerð krafa um frávísun með þeim rökum að kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta auk þess sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti.

Um málsmeðferð og kæruaðild að máli þessu fer eftir 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en skv. 3. mgr. hennar geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök kært nánar tilgreindar ákvarðanir, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Þar á meðal geta slík samtök kært ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið nefndrar 3. mgr. 4. gr. Þegar frumvarp til laganna var til umfjöllunar á Alþingi var orðalagi nefnds b-liðar breytt, án þess þó að efnisinnihald hans breyttist. Í athugasemdum með frumvarpinu segir um greindan lið að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi til framkvæmda. Hér undir falli m.a. framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að háðar skuli mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laganna. Þau leyfi sem um sé að ræða séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem sé háð mati á umhverfisáhrifum.

Með úrskurði, uppkveðnum fyrr í dag í máli nr. 60/2015, féllst úrskurðarnefndin á þá kröfu kæranda að fella úr gildi þann hluta ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2015 að 1. áfangi uppbyggingar hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum skuli ekki háður mati á umhverfisáhrifum. Að þeirri niðurstöðu fenginni stendur óhögguð sú ákvörðun stofnunarinnar að heildaruppbygging hálendismiðstöðvarinnar skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Þar með á kærandi, sem er umhverfisverndarsamtök, kæruaðild á grundvelli framangreinds b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Í 2. mgr. umræddrar 4. gr. laga nr. 130/2011 er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Ekki sér þess stað í gögnum málsins að kærandi hafi vitað eða mátt vita um útgáfu framkvæmdaleyfis til efnistöku fyrr en kæra barst í málinu, þrátt fyrir að hann hafi óskað eftir upplýsingum þar um frá leyfisveitanda. Verður þeim hluta málsins því ekki vísað frá á grundvelli þess að kærufrestur sé liðinn.

Hið kærða byggingarleyfi var samþykkt 30. september 2015 og gefið út 4. desember s.á. Af hálfu kæranda var sendur tölvupóstur til byggingarfulltrúa 9. október það ár og leitað upplýsinga um útgefin leyfi vegna framkvæmdanna. Í svari byggingarfulltrúa sama dag segir að byggingarleyfi hafi verið gefið út vegna 1. áfanga framkvæmdanna og er jafnframt tekið fram að nánari upplýsingar verði sendar. Að mati úrskurðarnefndarinnar mátti kæranda vera kunnugt um efni byggingarleyfisins á þessu tímamarki þrátt fyrir að ekki væri upplýst nánar í tölvupóstinum til hverra framkvæmda 1. áfangi tæki, en kærandi er aðili annars máls fyrir úrskurðarnefndinni þar sem kærð er ákvörðun Skipulagsstofnunar varðandi nefndan 1. áfanga. Kæra í því máli barst úrskurðarnefndinni 4. ágúst 2015, um tveimur mánuðum fyrir samskipti kæranda við byggingarfulltrúa, og fjallar kæran efnislega um umræddan 1. áfanga. Þykir því ekki varhugavert að miða upphaf kærufrests vegna hins kærða byggingarleyfis við tölvupóst byggingarfulltrúa 9. október 2015. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hins vegar 8. mars 2016, eða um fjórum mánuðum eftir að kærufresti lauk.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá að vísa kærunni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr., eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. 1. mgr. Í athugasemdum við nefndan 1. tl. er tekið fram í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að nefna megi sem dæmi að lægra sett stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Við mat á því hvort fyrir hendi séu skilyrði til að taka kæru til meðferðar á grundvelli nefndra töluliða þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Er ótvírætt að leyfishafi í máli þessu á verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til þess verður ekki talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Kemur þá til skoðunar hvort taka beri málið til meðferðar á grundvelli þess að veigamiklar ástæður mæli með því. Við mat á því verður samkvæmt framangreindu að líta til hagsmuna aðila máls, en að mati úrskurðarnefndarinnar koma þar einnig til skoðunar almannahagsmunir. Slíkir almannahagsmunir geta m.a. tengst framkvæmdum á svæðum á náttúruminjaskrá, en svo háttar t.a.m. um Kerlingarfjöll, sem einnig lúta hverfisvernd samkvæmt Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2003-2015. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Er þar öðrum þræði vísað til hagsmuna leyfishafa. Með vísan til alls framangreinds þykja ekki nægar ástæður liggja til grundvallar því að taka kærumálið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningaákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga þrátt fyrir fyrrgreinda almannahagsmuni. Verður þeim hluta kærunnar sem snýr að byggingarleyfi því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Þá er ákvæði sama efnis að finna í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Með úrskurði, uppkveðnum fyrr í dag í máli nr. 60/2015, felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2015, þess efnis að framkvæmd sú sem hér er um deilt skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Verður þegar af framangreindum ástæðum að ógilda hið kærða framkvæmdaleyfi til efnistöku.

Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta er tiltekið að til að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendu að öðru leyti en greini í 2. mgr. 3. gr. þurfi leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, en sé nýting heimiluð til lengri tíma en eins árs þurfi jafnframt samþykki ráðherra. Leyfishafi og Hrunamannahreppur hafa gert með sér lóðarleigusamning til 25 ára vegna lóðar undir hálendismiðstöð í Kerlingarfjöllum. Samningurinn var samþykktur af forsætisráðherra í samræmi við framangreint ákvæði. Í málinu liggur jafnframt fyrir sú afstaða forsætisráðuneytisins, í tölvupósti frá 29. mars 2016, að þar sem samþykki liggi fyrir samningnum á grundvelli 3. og 4. mgr. 3. gr. laganna þurfi ekki að koma til samþykkis vegna einstakra framkvæmda við mannvirki á hinni leigðu lóð. Úrskurðarnefndin bendir hins vegar á að í 2. mgr. 3. gr. tilvitnaðra laga er einnig kveðið á um að leyfi ráðherra þurfi m.a. til að nýta námur og önnur jarðefni innan þjóðlendu nema mælt sé fyrir um annað í lögum. Ákvörðun sveitarstjórnar um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku lá fyrir 2. júlí 2015 og verður ekki séð af gögnum málsins að leyfi skv. fyrrnefndri 2. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 hafi þá legið fyrir.

Sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi skv. 13. og 14. gr. skipulagslaga, sbr. og 3. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Þar segir nánar að ef annað sé ekki ákveðið í samþykkt sveitarfélags gefi skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi, að fengnu samþykki sveitarstjórnar. Um þau gögn sem fylgja skulu framkvæmdaleyfisumsókn er fjallað í 7. gr. reglugerðarinnar og er í 2. mgr. hennar m.a. talið upp að umsókninni skuli fylgja fyrirliggjandi samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem framkvæmdin kann að vera háð samkvæmt öðrum lögum. Verður að skilja nefnd ákvæði svo að leyfi skv. lögum nr. 58/1998 þurfi að liggja fyrir þegar leyfisveitandi, þ.e. sveitarstjórn, tekur afstöðu til umsóknarinnar. Sama máli gegnir um aðrar leyfisveitingar, s.s. á grundvelli vatnalaga nr. 15/1923, en ekki verður séð að við veitingu framkvæmdaleyfis hafi legið fyrir gögn um hvort Orkustofnun hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða efnistöku úr áreyrum Ásgarðsár í samræmi við 1. mgr. 144. gr. þeirra laga.

 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 2. júlí 2015 um að heimila efnistöku vegna 1. áfanga uppbyggingar við hálendismiðstöð í Kerlingarfjöllum.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

61/2014 Reynifellskrókur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2014, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra frá 13. maí 2013 um að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóð nr. 2b í landi Reynifells.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2014, sem barst nefndinni 4. s.m., kærir K, eigandi lóðar nr. 6 við Reynifellskrók í landi Reynifells, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra frá 13. maí 2013 að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 8. júní 2015, gerir sami aðili þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 26. ágúst 2015. 

Gögn málsins bárust frá Rangárþingi ytra 14. júlí 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 13. maí 2013 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings ytra umsókn um byggingarleyfi fyrir byggingu frístundahúss á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Var byggingarleyfið gefið út 21. s.m. Um var að ræða 23,2 m2 hús úr timbri með einhalla þaki með 3,65 m hámarkshæð. Gert var ráð fyrir að ytra byrði frístundahússins yrði klætt bárujárni. Hinn 12. janúar 2014 hafði kærandi samband við skipulags- og byggingarfulltrúa í því skyni að fá frekari upplýsingar um hið umrædda hús og hvort það samrýmdist byggingarskilmálum svæðisins. Fór kærandi þess á leit að aðstæður yrðu kannaðar og var hann í samskiptum við embættið vegna málsins allt til 18. júní 2014. Var hið umdeilda byggingarleyfi kært til úrskurðarnefndarinnar 4. júlí 2014.

Kærandi skírskotar til þess að húsið samræmist ekki byggingarskilmálum svæðisins. Húsið sé of lítið, og hvorki húslag né klæðning í samræmi við önnur hús á svæðinu. Hið umrædda hús stingi mjög í stúf við landslagið og raski útliti svæðisins. Sjónmengun sé mikil vegna hússins alls staðar að á svæðinu. Auk þess geti hin kærða ákvörðun gefið fordæmi fyrir því að fleiri hús af þessu tagi rísi á svæðinu.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að meðvituð ákvörðun hafi verið tekin um að leyfa tiltekna stærð á sumarhúsinu þrátt fyrir ákvæði um lágmarksstærð í byggingarskilmálum svæðisins. Skilmálarnir séu frá árinu 1999 og byggðir á samkomulagi eigenda við  landskipti á árinu 1983. Skipulag svæðisins hafi verið til umræðu hjá embætti skipulags- og byggingarfulltrúa og viðraðar hugmyndir um breytingu á því við landeigendur. Á síðustu árum hafi ekki verið sett ákvæði um  lágmarksstærðir mannvirkja á frístundasvæðum, heldur um hámarksstærðir. Sé það merki um nauðsynlegar endurbætur á núgildandi skilmálum. Að auki sé það eðlilegt að leyfa byggjendum að byrja smátt með möguleika á stækkun eða viðbyggingu síðar. Með byggingu svalaskýlis við umrætt frístundahús sé komið til móts við ríkjandi byggingarlag á svæðinu. Í byggingarskilmálunum sé tekið fram að hús skulu vera sömu gerðar og yfirvöld mæli með sem sumarhús. Sé hiklaust mælt með þeim byggingarstíl sem hér um ræði og falli hann vel að því sem fyrir sé á svæðinu. Í byggingarskilmálum segir að hús skuli byggð úr timbri. Umrætt hús sé alfarið úr timbri en veðurkápa sé þó úr stáli. Nokkuð sé um að sumarhús á svæðinu hafi ómálað stál á þökum og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við umrætt efni á útvegg þar sem auðvelt sé að mála það í þeim lit sem hæfi. Hafi verið rétt staðið að veitingu umrædds byggingarleyfis samkvæmt lögum og reglum og almennum hefðum í landinu.

———-

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna kæru máls þessa, en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 23. júní 2016.

Niðurstaða: Kærandi í máli þessu byggir málatilbúnað sinn á því að með hinu kærða byggingarleyfi sé vikið frá byggingarskilmálum gildandi deiliskipulags og heimilað hús falli ekki að yfirbragði byggðar eða landslagi og útliti umrædds svæðis. Umrætt frístundasvæði er fremur flatlent og að mestu leyti þakið lággróðri. Stendur hin umdeilda bygging í a.m.k. 250 m fjarlægð frá frístundahúsi kæranda en milli húsanna eru tvær óbyggðar frístundahúsalóðir.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er skilyrði kæruaðildar í málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda viðkomandi ákvörðun nema að lög mæli sérstaklega á annan veg. Er það í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun.

Framangreindar málsástæður kæranda lúta að atriðum er tengjast skipulagslegum hagsmunum er teljast til almannahagsmuna sem sveitarstjórnir fara með og ber að gæta innan marka síns sveitarfélags í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.  Eins og atvikum er hér háttað verður ekki séð að umdeild bygging raski lögvörðum grenndarhagsmunum kæranda, en útlit byggingarinnar eitt og sér getur ekki varðað einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni hans. 

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið þykir á skorta að kærandi eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem gert er að skilyrði fyrir kæruaðild í fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
  Ómar Stefánsson                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

36/2014 Bugðulækur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 um að samþykkja leyfi til að endurnýja handrið á þaki bílskúrs á lóðinni nr. 17 við Bugðulæk í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. apríl 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir K, Rauðalæk 18, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurnýjun handriðs á þaki bílskúrs að Bugðulæk 17 í Reykjavík. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að hugsanleg ákvörðun byggingarfulltrúans um að heimila uppsetningu timburpalls og timburhandriðs á fyrrgreindu þaki sé hnekkt.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 22. maí 2014 og í mars 2016.

Málavextir: Á lóðinni Bugðulæk 17 stendur fjölbýlishús, sem samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands var reist árið 1959. Bílskúr, sambyggður húsinu á norðurhlið þess, var reistur árið 1965 og tilheyrir eignarhluta 0101. Er bílskúrinn jafnframt sambyggður bílskúrum á lóðum Rauðalækjar nr. 16 og 18. Í ágúst 2009 tilkynnti byggingarfulltrúi þáverandi eigendum umrædds bílskúrs að Bugðulæk 17 að framkvæmdir við byggingu skjólveggs ofan á hann skyldu stöðvaðar, þar sem ekki lægi fyrir leyfi til framkvæmdanna. Í framhaldi af því kom fram að þáverandi eigendur hefðu haft samband við Reykjavíkurborg til að afla sér upplýsinga um hvort leyfi þyrfti til að endurnýja handrið á bílskúrnum, en því hefði verið neitað. Þá var send inn fyrirspurn til byggingarfulltrúa um hvort heimilt væri að endurnýja handriðið, sem verið hefði á bílskúrnum allt frá byggingu hans. Var erindið lagt fyrir skipulagsstjóra, sem gerði ekki athugasemd við greinda framkvæmd, enda yrði sótt um byggingarleyfi, sem síðan yrði grenndarkynnt.

Í október 2010 var sótt um leyfi til byggingarfulltrúa fyrir endurnýjun fyrrgreinds handriðs. Var erindið grenndarkynnt og bárust athugasemdir frá húsfélaginu Rauðalæk 18. Skipulagsráð tók málið fyrir 24. nóvember s.á. og synjaði erindinu, með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, er taldi að ekki væri æskilegt að samþykkja umsóknina gegn andmælum íbúa að Rauðalæk 18. Þá var umsækjanda bent á að leggja fram sams konar fyrirspurn þar sem dregið yrði úr umfangi afnotaflatar. Í samræmi við það lagði umsækjandi fram nýja fyrirspurn og veitti skipulagsstjóri umsögn um málið 25. febrúar 2011. Niðurstaða hans var sú að í ljósi fyrri umsagnar væri lagt til að umsækjanda yrði heimilt að gera ráð fyrir svölum á þaki sem yrðu 3,5 m að dýpt og inndregnar um 1,5 m frá lóðamörkum. Umsókn um leyfi fyrir endurnýjun á handriði á þaki fyrrnefnds bílskúrs var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 17. maí 2011. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra, sem tók það fyrir á fundi 20. s.m. og færði til bókar að lagfæra þyrfti uppdrætti þannig að þeir samræmdust þeim skilyrðum er fram hefðu komið í umsögn skipulagsstjóra, dags. 25. febrúar 2011. Byggingarfulltrúi tók málið fyrir að nýju 24. maí s.á. Var afgreiðslu málsins frestað að nýju en m.a. bókað að með vísan til umsagnar skipulagsstjóra væri mögulegt að samþykkja svalir á bílskúrsþaki í samræmi við meðsenda skissu.

Hinn 21. janúar 2014 tók byggingarfulltrúi málið fyrir enn á ný. Var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu og á embættisafgreiðslufundi hans 24. s.m. var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Rauðalæk 16 og 18. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 26. mars s.á. var fyrrnefnt erindi tekið fyrir. Var tiltekið í fundargerð að borist hefðu athugasemdir við kynnt erindi frá húsfélaginu Rauðalæk 18 og að lögð væri fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 14. s.m., en þar var framkomnum athugasemdum svarað og lagt til að umsókn yrði samþykkt. Fært var til bókar að ekki væri gerð athugasemd við nefnda umsögn og var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Umrædd umsókn var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. apríl 2014, hún samþykkt og talin samræmast ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að bílskúrar á lóðum Rauðalækjar 16 og 18 séu báðir með timburþaki. Á öðrum þeirra sé dúkklæðning en á hinum bárujárnsklæðning. Á þakplötu bílskúrs Bugðulækjar 17 sé settur tjörudúkur og timburpallur auk timburhandriðs. Við ákveðnar aðstæður geti skapast veruleg eldhætta sem einnig geti haft mikið fjárhagslegt tjón í för með sér. Sé vísað til 3. mgr. 23. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir, en byggingarfulltrúa hefði verið rétt að framvísa gögnum um samráð við slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins vegna mats á eldhættu áður en hin kærða ákvörðun var samþykkt. Einnig sé hætta á að börn slasist vegna umgangs þeirra um ofangreinda bílskúra og sé þak bílskúrs að Rauðalæk 18 tekið að síga vegna þess. Umrætt handrið valdi skuggavarpi í garði Rauðalækjar 18, notkunargildi hans rýrni og gengið sé á hlut íbúa þess húss um rétt til friðhelgi í garði sínum. Handriðið sé til lýta, efnisval þess sé viðhaldsfrekt og verði það fljótt ljótt ásýndum sé viðhaldi ábótavant, en ólíklegt megi telja að tréverki út að lóðamörkum verði viðhaldið.

Hvorki séu sýnd þrep upp á þak nefnds bílskúrs né þaksvalir á samþykktum teikningum frá árinu 1964. Fyrstu framkvæmdir við bílskúrsþakið hafi hafist í miklum flýti árið 2009. Hafi verið reistur 180 cm hár timburveggur á lóðamörkum, en þakið ekki klætt. Skapi ósamþykktar óleyfisframkvæmdir ekki rétt eða hefð samkvæmt lögum. Þá megi á teikningu, dags. 17. desember 2013, sjá að fyrirhugaður timburpallur á þaki bílskúrsins eigi eingöngu að vera innan afmarkaðs timburhandriðs, en pallurinn nái alveg út að lóðamörkum Rauðalækjar 16 og 18. Einnig séu hæðarhlutföll önnur og mikið lægri á teikningu en raunin sé, einkum á austurhlið hússins. Hafi byggingarfulltrúi ekki fylgt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu. Hagsmunir allra íbúa að Rauðalæk 18 og eigenda bílskúra að Rauðalæk 16 hljóti að vega þyngra en hagsmunir íbúa einnar íbúðar að Bugðulæk 17, sem nú þegar hafi samþykktar svalir á suðurhlið þess húss.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg tekur fram að áður en byggingarleyfi hafi verið samþykkt hafi verið óskað eftir umsögn slökkviliðs, sem ekki hafi gert athugasemd við umsóknina. Framkvæmdin sé ekki áhættusamari m.t.t. eldhættu en sambærileg mannvirki sem ekki séu háð byggingarleyfi, enda sé leyfið bundið við að mannvirkið sé 1,5 m frá lóðamörkum. Skuggavarp muni ekki aukast. Hafi skipulagsfulltrúi gert kröfu um að hið umdeilda handrið færi ekki yfir 1,1 m og væri inndregið. Nái þaksvalir nú yfir mun minni flöt en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Með því móti hafi verið komið til móts við athugasemdir kæranda og tryggt að friðhelgi myndi ekki raskast. Þá megi alltaf gera ráð fyrir að friðhelgi raskist vegna eðlilegrar hagnýtingar á nærliggjandi fasteignum í þéttri borgarbyggð.

Við afgreiðslu umsóknar sé gerð úttekt á framkvæmd og gengið úr skugga um að uppfylltar séu þær öryggiskröfur sem um hana gildi. Verði kærandi að bregðast við meintri slysahættu og koma í veg fyrir að börn komist yfir á bílskúr í hans eigu. Þá hafi verið gerð krafa um að handrið félli vel að húsinu við afgreiðslu umsóknarinnar. Geti byggingarfulltrúi ekki synjað afgreiðslu á þeim forsendum að hugsanlega muni framkvæmdin verða til lýta síðar meir. Jafnframt sé bent á heimild byggingarfulltrúa skv. byggingarreglugerð til að bregðast við ef ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss sé ábótavant.

Ekki hafi verið gert ráð fyrir þaksvölum á bílskúr á upphaflegum byggingarnefndarteikningum frá árinu 1964. Hins vegar hafi borgaryfirvöld látið það óátalið til fjölda ára að svalirnar væru nýttar með þeim hætti. Hafi eigendur haft réttmætar væntingar til þess að fá að nýta þakið áfram með sama hætti. Hafi núverandi eigendur keypt fasteignina með væntingum um að leyfi væri til staðar. Það hafi því verið mat embættisins að ekki væri lögmætt að synja umsókninni þó að um óleyfisframkvæmd hefði verið að ræða frá öndverðu. Ekki virðist leika vafi á því að handrið hafi verið um lengri tíma á bílskúrnum þar sem tími hafi verið kominn á endurnýjun þess. Þá sé bent á að varakrafa kæranda felist í aðalkröfunni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að þegar hann hafi fest kaup á fasteign sinni að Bugðulæk 17 í apríl 2013 hafi komið fram á söluyfirliti að ofan á bílskúr væru stórar svalir með grindverki. Langsótt sé að það geti valdið stórtjóni að grilla innan umrædds handriðs. Handrið til norðurs sé í talsverðri fjarlægð frá þaki bílskúrs að Rauðalæk 18 sem sé einnig einum metra lægra en hið umdeilda þak. Þá hafi tryggingarfélag leyfishafa ekki gert athugasemd við nefnt handrið.

Garður íbúa að Rauðalæk 18 snúi í hásuður og þar af leiðandi komi síðdegissól í garðinn að hluta úr vestri. Verði ekki séð hvernig fyrirhugað handrið muni valda skuggavarpi. Umrætt hverfi sé mjög þéttbýlt og friðsælt og ekki sé langt á milli húsa, garða eða innkeyrsla. Garðurinn að Rauðlæk 18 liggi enn fremur að mjög fjölfarinni gangstétt. Verði handriðið ekki klárað með þeim hætti sem samþykkt sé verði slysahætta líklega viðvarandi. Þá telji leyfishafa enga ástæðu til annars en að viðhalda og ganga vel um eign sína.

Tröppur, sem séu við stigapall við inngang að Bugðulæk 17 og inn á pall bílskúrsins, hafi verið steyptar við byggingu hans. Handrið hafi verið við brún alls þaks bílskúrsins frá þeim tíma og það svæði nýtt af íbúum. Hafi það mátt vera augljóst þegar íbúar að Rauðalæk 18 fjárfestu í sínum eignum. Þá megi finna þess dæmi í hverfinu að handrið séu á þökum bílskúra.

       

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 3. maí 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 að samþykkja endurnýjun á handriði á þaki bílskúrs að Bugðulæk 17. Á samþykktum uppdráttum segir svo: „Við endurnýjun er settur þakdúkur á steypta þakplötu og timburpallur yfir dúk. Nýtt svalahandrið verður timburgrind með lóðréttri borðaklæðningu á báðum hliðum. Hæð handriðs verður 110 cm frá timburpalli.“ Einskorðast athugun úrskurðarnefndarinnar við lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Byggingarfulltrúa er hins vegar að lögum falið að hafa eftirlit með byggingarframkvæmdum og grípa til viðeigandi aðgerða, t.d. ef byggt hefur verið á annan hátt en leyfi stendur til, frágangi eða viðhaldi húss er ábótavant, af því stafi hætta eða ekki hafi verið gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu.

Aðila máls greinir ekki á um að byggingarnefndarteikningar að umræddum bílskúr frá árinu 1964 sýna ekki handrið ofan á honum. Hins vegar kemur fram í gögnum málsins að líklegt sé að handrið hafi verið á þaki bílskúrsins um langt skeið og rennir skoðun úrskurðarnefndarinnar á vettvangi stoðum undir það. Sama á við um steyptar tröppur upp á þak skúrsins. Þrátt fyrir að gögn málsins beri ekki með sér frá hvaða tíma nefnt þak hafi verið nýtt sem svalir má ætla að sá möguleiki hafi verið fyrir hendi í áratugi. Er ekki um það deilt að leyfi byggingarfulltrúa hefur ekki verið fyrir hendi fyrir slíkri nýtingu, en hún virðist hafa átt sér stað án athugasemda borgaryfirvalda. Í framlagðri umsókn er ekki sótt um leyfi til að nýta umrætt svæði sem svalir, en ljóst er þó að með því að heimila hið umdeilda handrið skapast aðstaða til að nýta þakið til útivistar.

Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og var byggingarleyfi veitt að undangenginni grenndarkynningu. Kom kærandi að athugasemdum af því tilefni. Við yfirferð málsins hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru ekki gerðar athugasemdir vegna hugsanlegrar eldhættu. Þá voru við meðferð málsins gerðar þær breytingar frá fyrri erindum að í stað þess að handrið á þaki nefnds bílskúrs lægi að mörkum lóðar kæranda var það fært innar á þak bílskúrsins, eða um 1,5 m frá lóðamörkum. Er greind breyting til þess fallin að draga úr mögulegum grenndaráhrifum gagnvart kæranda. Verður hvorki séð að umrætt handrið muni auka skuggavarp í garði kæranda né að innsýn muni aukast að marki þegar litið er til staðsetningar útidyra og glugga á húsi leyfishafa, sem snúa að garðinum. Þá verður að líta til þess að almennt má búast við að eitthvert ónæði hljótist af því að búa í þéttbýli og er sú skerðing á friðhelgi einkalífs kæranda sem hann hefur haldið fram ekki umfram það sem búast má við í þéttri byggð.

Þrátt fyrir að nýting þakflatar bílskúrs undir svalir sé óhefðbundin og geti eftir atvikum haft veruleg áhrif á nýtingarmöguleika nágrannalóða, svo sem vegna hljóðvistar og yfirsýnar yfir á næstu lóðir, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að grenndaráhrif í máli þessu, eins og að framan er lýst, séu ekki slík að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Eins og atvikum er hér sérstaklega háttað, og þar sem ekki verður séð að neinir þeir aðrir form- eða efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði, verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 um að samþykkja leyfi til að endurnýja handrið á þaki bílskúrs á lóðinni nr. 17 við Bugðulæk í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

123/2014 Skipasund

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 123/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Skipasundi 43 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. nóvember 2014, er barst nefndinni 4. desember s.á., kærir Á, Skipasundi 41, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 að veita m.a. leyfi til að byggja svalir og stiga niður í garð og færa til kofa við hús á lóð nr. 43 við Skipasund í Reykjavík. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að farið sé fram á ógildingu greindrar ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 14. janúar 2014.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. júlí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja svalir með tröppum niður í garð við húsið að Skipasundi 43, breyta staðsetningu kofa og færa innkeyrslu og byggingarreit fyrir bílskúr á lóðinni. Var erindinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem samþykkti á fundi sínum 11. s.m. að grenndarkynna umsóknina. Eftir grenndarkynninguna var málið á dagskrá skipulagsfulltrúa, sem vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs á fundi hinn 5. september 2014. Umhverfis- og skipulagsráð tók málið fyrir á fundi sínum 10. s.m. Á fundinum lá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 4. s.m. þar sem fram komnum athugasemdum var svarað og mælt með því að umsóknin yrði samþykkt með tilgreindum skilyrðum. Engar athugasemdir komu fram á fundinum við umsögnina og var vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa, sem samþykkti umsóttar breytingar á fundi hinn 16. september 2014.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að útfærsla svala með stiga niður í garð, sem heimiluð sé með hinni kærðu ákvörðun, geri það að verkum að þaðan sé horft beint inn í stofu og sólstofu kæranda. Viðbygging við hús kæranda hafi verið hönnuð með stórum gluggum til austurs þar sem ekki hefði verið um innsýn að ræða, en með tilkomu nefndra svala og stiga yrði staðan önnur. Kærandi hafi ekki mótmælt þessum framkvæmdum enda talið einfalt að hindra þessi áhrif með útfærslu mannvirkisins og hækkun skjólveggjar upp í 1,5 m. Raunin hafi hins vegar orðið sú að horft sé frá svölunum og stiganum inn í stofu og sólstofu kæranda. Óbreytt ástand muni verða kæranda til ama og leiða til þess að fasteign hans falli í verði. Loks sé farið fram á að smáhýsi sem standi of nálægt umræddum lóðamörkum verði fært til samræmis við ákvörðun byggingarfulltrúa og ákvæði byggingarreglugerðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að að tekið hafi verið tillit til fram kominna athugasemda kæranda við grenndarkynningu fyrirhugaðra breytinga að Skipasundi 43. Sá hluti skjólveggjar er snúi að fasteign kæranda hafi verið hækkaður í 1,5 m í þeim tilgangi að takmarka innsýn í stofu og borðstofu kæranda. Ekki verði talið að mannvirkið hafi slíka röskun í för með sér gagnvart kæranda að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi  en um 12 m séu milli umræddra svala og húss kæranda. Heimilaðar svalir hafi ekki meiri grenndaráhrif en að jafnaði megi búast við þegar breytingar séu gerðar á húsum í þéttbýli. Skúr sá sem standi á nefndri lóð sé innan við 10 m2 að stærð og sé ekki byggingarleyfisskyldur. Skúrinn beri þó að staðsetja minnst þrjá metra frá lóðamörkum samkvæmt byggingarreglugerð.

Andmæli byggingarleyfishafa: Skírskotað er til þess að framkvæmdir eins lóðarhafa geti ekki takmarkað eða komið í veg fyrir framkvæmdir á nærliggjandi lóðum. Hinar kærðu breytingar séu óverulegar í samanburði við það sem samþykkt hafi verið á lóð kæranda. Vegna athugasemda kæranda hafi byggingarleyfishafi orðið við tilmælum skipulags- og byggingarsviðs um að hækka hluta skjólveggjar, sem snúi að lóð kæranda, í 1,5 m í þeim tilgangi að takmarka beina sýn inn um stofuglugga á húsi kæranda. Sú hlið húss kæranda sem snúi að lóð byggingarleyfishafa sé með glugga er nái frá gólfi til lofts og blasi sú hlið hússins við frá lóð leyfishafa án tillits til umdeildra framkvæmda. Bent sé á að uppbyggð verönd sé á húsi kæranda með sýn yfir á lóð leyfishafa. Smáhýsi á lóð leyfishafa verði fært þrjá metra frá lóðamörkum, í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, og til að jafnræðis verði gætt sé farið fram á það að íverustaður sem kærandi hafi komið fyrir við lóðarmörk leyfishafa verði færður.

Niðurstaða:  Smáhýsi það sem kemur við sögu í máli þessu er ekki byggingarleyfisskylt, sbr. g-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hins vegar verður samkvæmt nefndu ákvæði að liggja fyrir samþykki rétthafa aðliggjandi lóðar fyrir stöðu slíks húss innan þriggja metra frá lóðamörkum. Kærandi hefur lýst sig samþykkan staðsetningu hússins eins og hún er sýnd á fyrirliggjandi uppdrætti, sem staðfestur hefur verið af byggingarfulltrúa, og leyfishafi hefur lýst því yfir að húsið verði ekki staðsett nær lóðarmörkum kæranda en í þriggja metra fjarlægð. Með hliðsjón af þessum málsatvikum, og þar sem ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun varðandi staðsetningu smáhýsisins sem borin verður undir úrskurðarnefndina skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, verður ekki fjallað frekar um þann þátt málsins.

Ágreiningsefni máls þessa lýtur fyrst og fremst að hönnun svala við hús byggingarleyfishafa að Skipasundi 43, sem kærandi telur að muni hafa óæskileg grenndaráhrif gagnvart sinni fasteign að Skipasundi 41 vegna innsýnar.

Húsið að Skipasundi 43 er kjallari, hæð og ris. Samkvæmt fyrirliggjandi uppdráttum eru umræddar svalir 13,6 m2 að flatarmáli og nemur gólfflötur þeirra við gólf fyrstu hæðar hússins, og er í um 2,3 m hæð frá lóðaryfirborði. Snýr skammhlið svalanna, sem er um 2,4 m að breidd, að lóð kæranda og er skjólveggur á þeirri hlið 1,5 m á hæð, en 1,1 m á öðrum hliðum svalanna. Svalirnar og stigi frá þeim niður á lóð eru úr timbri og munu vera í um 12 m fjarlægð frá húsi kæranda. Á árinu 2004 var heimiluð rúmlega 100 m2 viðbygging við hús kæranda, sem liggur í átt að lóðamörkum umræddra lóða. Er hús kæranda nú 181,1 m2 en hús byggingarleyfishafa 144,9 m2. Báðar lóðir eru jafn stórar, eða 549 m2 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár. Nýtingarhlutfall lóðar kæranda er því mun hærra en lóðar byggingarleyfishafa. Fyrrgreindar svalir eru ekki óvenjulegar að gerð og hafa ekki meiri grenndaráhrif en almennt má búast við að fylgi svölum við sambærileg hús. Liggur fyrir að skjólveggur sem snýr að lóð kæranda var hækkaður til að draga úr innsýn í hús kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin slíkum  ágöllum að leitt geti til ógildingu hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 um að veita m.a. leyfi til að byggja svalir og stiga niður í garð og færa til kofa við hús á lóð nr. 43 við Skipasund í Reykjavík.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

99/2014 Háteigsvegur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 8. apríl 2014 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á innra fyrirkomulagi risíbúðar að Háteigsveg 14 í Reykjavík.
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. september 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra S, Háteigsvegi 14, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2014 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á innra fyrirkomulagi risíbúðar að Háteigsvegi 14. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá er gerð krafa um að leyfishafa verði gert að færa til fyrra horfs þær breytingar sem gerðar hafi verið á nefndri íbúð í skjóli hins kærða byggingarleyfis og farið fram á málskostnað vegna reksturs kærumálsins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. október 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 17. febrúar 2014 sótti leyfishafi, sem er eigandi íbúðar í rishæð að Háteigsvegi 14, um byggingarleyfi fyrir fyrirhuguðum innanhússbreytingum á nefndri risíbúð. Fólu þær í sér tilfærslu eldhúss úr norðurenda íbúðarinnar í suðurenda hennar, endurbætur á baðherbergi, ásamt því að útbúið yrði þvottahús. Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. mars 2014. Var afgreiðslu málsins frestað, þar sem samþykki meðeigenda vantaði. Erindið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi 8. apríl s.á., það samþykkt og talið samræmast ákvæðum laga um mannvirki nr. 160/2010. Ákvörðun byggingarfulltrúa var staðfest í borgaráði 10. s.m. Var byggingarleyfi gefið út 17. júlí 2014. Hinn 23. maí s.á. leituðu kærendur til byggingarfulltrúa með skriflega beiðni um upplýsingar og öll gögn varðandi framkvæmdir í risíbúð hússins. Sú beiðni var undirrituð af lögmanni kærenda og ítrekuð 15. júlí 2014. Byggingarfulltrúi svaraði erindi kærenda með bréfi til lögmanns þeirra, dags. 22. s.m.

Af hálfu kærenda er tekið fram að vegna sumarleyfa hafi lögmanni þeirra ekki orðið kunnugt um svarbréf byggingarfulltrúans, dags. 22. júlí 2014, fyrr en 5. ágúst s.á. Sama dag hafi bréfið ásamt fylgigögnum verið sent með tölupósti til kærenda. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Kærendum hafi fyrst orðið kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun 5. ágúst 2014. Það sé sú vitneskja sem marki upphaf kærufrestsins. Kæran hafi verið send innan mánaðarfrestsins, eða 4. september s.á. Sú staðreynd að lokað umslag hafi borist lögmannsstofu lögmanns kærenda breyti þar engu. Þá hafi þurft að ítreka bréf, dags. 23. maí 2014, til þess að fá upplýsingar frá byggingarfulltrúa sem borist hafi 15. júlí 2014, en ekkert umboð til handa lögmanni hafi fylgt því bréfi. Kærendur hafi fyrst veitt slíkt umboð 3. september s.á. Möguleg vitneskja lögmannsins eða hvað honum hafi mátt vera kunnugt um breyti engu um kærufrest kærenda, þar sem þeirra vitneskja sé skilyrði þess að kærufrestur byrji að líða. Samkvæmt byggingarleyfi og samþykktum teikningum hafi stigapallur fyrir framan risíbúðina, sem sé hluti af sameign 2. hæðar og risíbúðarinnar, verið skeytt við risíbúðina. Þetta sé hvorki í samræmi við upprunalegar teikningar né gildan eignaskiptasamning frá 11. ágúst 1970. Hefði því þurft að leita samþykkis sameigenda áður en byggingarleyfið hafi verið gefið út. Með byggingarleyfinu hafi votrýmum risíbúðarinnar verið fjölgað í því skyni að koma fyrir stúdíóíbúð. Til að rýma fyrir stúdíóíbúðinni hafi megineldhús íbúðarinnar verið flutt úr norðurenda í suðurenda hennar og skilið eftir pláss sem kallað hafi verið geymsla á samþykktum teikningum, en sé í raun íverurými umræddrar stúdíóíbúðar. Framkvæmdin sé slík meiriháttar breyting að krefjast hefði átt samþykkis kærenda. Að útbúa aukaíbúð í risi til útleigu, með sérinngangi innan úr sameiginlegu stigahúsi, auki mjög umferð fólks um sameign með tilheyrandi óhagræði fyrir kærendur. Með fjölgun votrýma í risi og annarra framkvæmda aukist sömuleiðis skarkali sem berist að ofan niður á milli hæða og valdi kærendum ónæði. Hefði átt að leita eftir samþykki kærenda, sbr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Kærendur hafi beðið um öll gögn málsins hinn 23. maí 2014, en bréfið verið ítrekað 15. júlí s.á. Byggingarfulltrúi hafi svarað bréfinu 22. s.m. Kærendum hafi frá þeim tíma átt að vera fullljóst um efni byggingarleyfisins, en kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni 4. september 2014, eða um tveimur vikum eftir lok kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Ekki verði séð að neinar slíkar ástæður séu fyrir hendi í máli þessu. Jafnframt skorti lagaheimild til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin séu fyrir úrskurðarnefndinni og komi krafa kærenda um málskostnað því ekki til álita hjá nefndinni.   

Byggingarleyfishafi krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran hafi borist  úrskurðarnefndinni 4. september 2014, en hann hafi runnið út í síðasta lagi 23. ágúst s.á. Því beri að vísa málinu frá, sbr.  2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Meint sumarfrí lögmanns kæranda geti engu breytt í þeim efnum og verði kærendur að bera hallann af því. Ekki sé unnt að fallast á að meint sumarfrí hafi einhverja þýðingu í þessum efnum, enda væri þá ákvæði laga nr. 130/2011 um kærufrest markleysa því afar auðvelt væri að komast fram hjá því annars skýra ákvæði ef tekið væri tillit til meintra sumarfría eða annarra leyfa kærenda og umboðsmanna þeirra. Fjölmargar athugasemdir í kæru snúi ekki að efni umdeilds byggingarleyfis og séu í öllum meginatriðum rangar. Byggingarleyfið snúi einvörðungu að tilfærslum innan íbúðar leyfishafa og hafi engin áhrif á aðra íbúa í húsinu. Hagnýtingu íbúðarinnar hafi í engu verið breytt heldur sé hún áfram nýtt til íbúðar. Vísun kærenda til 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús eigi því ekki rétt á sér. Ekki geti skipt máli í þessu sambandi hvort leyfishafi leigi íbúð sína út eða ekki. Kærendur leigi sjálfir út sína íbúð í töluverðum mæli til erlendra ferðamanna sem dvelji þar til skamms tíma í senn og valdi töluverðu ónæði. Sé það með nokkrum ólíkindum að kærendur sjái sér fært að bera slíka málsástæðu á borð í ljósi þess að þeir sinni slíkri starfsemi sjálfir.

Niðurstaða:  Í kærumáli þessu er gerð krafa um frávísun með þeim rökum að kæra hafi borist að liðnum kærufresti.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Í frumvarpi því sem varð að nefndum lögum er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. þeirra laga að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Er þar tekið fram að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki.
   
Byggingarleyfisumsókn leyfishafa var samþykkt 8. apríl 2014 og munu framkvæmdir hafa byrjað í kjölfar þess. Af því tilefni sendi lögmaður kærenda bréf, dags. 23. maí s.á., fyrir þeirra hönd, þar sem farið var fram á upplýsingar um leyfi vegna framkvæmdanna og óskað eftir gögnum málsins. Erindið var ítrekað með bréfi lögmannsins, dags. 15. júlí 2014, og svaraði byggingarfulltrúi því erindi með bréfi, dags. 22. s.m, þar sem fram kom að byggingarleyfi hefði verið veitt og hvert innihald þess væri. Bréfinu fylgdi byggingarleyfisumsókn leyfishafa og samþykktur aðaluppdráttur. Ekki verður annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að lögmaður kærenda hafi komið fram í umboði kærenda í samskiptum sínum við byggingaryfirvöld í umboði kærenda og verður því upphaf kærufrests miðað við það tímamark er bréf byggingarfulltrúa, dags. 22. júlí 2014, barst lögmanninum og hann átti þess kost að kynna sér efni þess og fylgigögn. Samkvæmt tölvupósti lögmannsins til kærenda var þeim kynnt svarbréf byggingarfulltrúa og fylgigögn hinn 5. ágúst 2014, eða innan kærufrests. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hins vegar 4. september 2014, eða um hálfum mánuði eftir að kærufresti lauk.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í athugasemdum við 1. tl. nefndrar 28. gr. er tekið fram í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að nefna megi sem dæmi að lægra sett stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Þó þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Ótvírætt er að leyfishafi í máli þessu á verulegra hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Eins og atvikum máls þessa er háttað þykja ekki forsendur til að taka kærumálið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningaákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Ásgeir Magnússon

33/2014 Sölvaslóð

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2014, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 25. mars 2014 um að synja um byggingarleyfi fyrir sumarhúsi að Sölvaslóð 1, Arnarstapa í Snæfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. apríl 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir E, ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 25. mars 2014 um að synja um byggingarleyfi fyrir sumarhúsi að Sölvaslóð 1, Arnarstapa. Skilja verður málsskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust frá Snæfellsbæ 26. maí 2014 og 22. apríl 2016. 

Málavextir: Forsaga málsins er sú að kærandi átti sumarhús á lóðinni Sölvaslóð 1, Arnarstapa, en það brann árið 2009. Í kjölfar þess hefur kærandi nokkrum sinnum sótt um að fá að byggja nýtt sumarhús á lóðinni.

Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 42/2010, uppkveðnum 22. nóvember 2012, var ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 25. maí 2010, um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir 105,1 m² sumarhúsi að Sölvaslóð 1, felld úr gildi. Í úrskurðinum kom m.a. fram að synjunin hefði verið byggð á deiliskipulagstillögu sem hefði ekki öðlaðast gildi, þar sem lögboðin auglýsing um gildistöku hennar hefði aldrei verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Þá hefði ekki heldur verið unnt að leggja til grundvallar tillögu að nýju deiliskipulagi umrædds svæðis, enda hefði hún þá ekki öðlast gildi.

Úrskurðurinn var tekinn fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 2. júlí 2013 og í bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 3. s.m., kom fram að í samræmi við úrskurðinn féllist umhverfis- og skipulagsnefnd á umsókn hans um að reisa einnar hæðar 105,1 m² sumarhús á umræddri lóð. Í bréfinu var þó tiltekið að nefndin gerði athugasemdir við rúmmál, svalahurð og milliloft og að skipulags- og byggingarfulltrúa hefði verið falið að leita eftir sjónarmiðum eigenda þar um. Var það gert með bréfi sama dag þar sem skipulags- og byggingarfulltrúi, f.h. umhverfis- og skipulagsnefndar, rakti athugasemdir nefndarinnar. Tekið var fram að það væri mat nefndarinnar að rúmmál sumarhússins, þ.e. 404,8 m3 án gólfplötu og 425,8 m3 með gólfplötu, væri meira en leyfilegt hámark, sem væri 394,1 m3, að teknu tilliti til skilmála deiliskipulagsins og niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Þá gerði nefndin athugasemd við svalahurð sem væri að finna á framlögðum uppdráttum, en ekki væri gert ráð fyrir efri hæð í húsinu. Því samræmdust svalir ekki hönnunargögnum, skilmálum eða ákvæðum byggingarreglugerðar. Að lokum gerði nefndin athugasemd varðandi milliloft sem væri í húsinu og áréttaði að ekki væri gert ráð fyrir því í hönnunargögnum eða skilmálum. Var kæranda gefið færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna þessara atriða sem og upplýsingum um hvernig húsinu yrði breytt til að það myndi standast hönnunargögn og skilmála.

Kærandi svaraði með bréfi, dags. 21. júlí 2013, og tók fram að öll þau atriði sem umhverfis- og skipulagsnefnd gerði athugasemdir við hefðu legið fyrir frá upphafi og myndað forsendur úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 22. nóvember 2012. Yrði nefndin af þeim sökum að samþykkja umsókn kæranda án tafar. Í svarbréfi umhverfis- og skipulagsnefndarinnar, dags. 13. ágúst 2013, áréttaði nefndin að sveitarfélagið teldi sig bundið af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, en að úrskurðurinn tæki eingöngu til afmarkaðs þáttar, þ.e. flatarmáls hússins. Var tekið fram að framlagðar teikningar yrðu að fullnægja öðrum skilyrðum er lytu að rúmmáli, svalahurð og millilofti.

Teikningar munu hafa borist frá kæranda 31. október 2013 og með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til hans, dags. 12. nóvember s.á., var tilkynnt að umhverfis- og skipulagsnefnd hefði á fundi sínum 5. s.m. frestað fyrirhuguðum dagsektum þar sem borist hefðu nýjar teikningar sem skoða þyrfti hvort væru í anda þeirra athugasemda sem nefndin hefði gert. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 18. mars 2014, var kæranda síðan tilkynnt að á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 21. janúar s.á. hefði nefndin samþykkt að kæranda yrði tilkynnt um að í undirbúningi væri að leggja á hann dagsektir.

Umhverfis- og skipulagsnefnd barst bréf kæranda 19. mars 2014, sem póstlagt var 11 s.m. en dagsett 29. október 2013. Þar krefst kærandi þess að á næsta fundi nefndarinnar verði „… samþykkt meðfylgjandi teikning af sumarhúsi að Sölvaslóð 1“ samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í svarbréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 20. mars 2014, var tilkynnt að erindið færi á næsta fund nefndarinnar. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 25. mars 2014 var erindið tekið fyrir og í bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa 26. s.m. er greint frá efni hans. Þar er tekið fram að engar teikningar hafi fylgt erindi kæranda en að nefndin telji að lóðarhafi eigi við teikningar sem borist hefðu nefndinni án erindis 31. október 2013. Sagði í bréfinu að nefndin hafnaði því að gefa út byggingarleyfi á grundvelli þessara teikninga. Á þeim væri rúmmál hússins tilgreint 404,8 m³ en samkvæmt skilmálum mætti rúmmál mest vera 394,1 m³ án gólfplötu. Auk þess ítrekaði nefndin kröfur um úrbætur vegna framkvæmda við svalahurð og milliloft, sem færu í bága við skipulagsskilmála og innsendar teikningar. Hefur framangreind ákvörðun nefndarinnar verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir málskot sitt á því að umhverfis- og skipulagsnefnd Snæfellsbæjar hafi verið skylt að samþykkja umsókn sína um byggingarleyfi á fundi sínum 25. mars 2014. Þau atriði sem nefndin hafi gert athugasemdir við og nýtt sér sem rökstuðning fyrir synjuninni hafi öll verið ljós af teikningum sem legið hafi fyrir og komið fram við fyrri málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar árið 2010, þ.e. með vettvangsferð og í gögnum málsins. Þau atriði sem athugasemdir hafi verið gerðar við hafi verið meðal forsendna fyrir ákvörðun úrskurðarnefndarinnar í úrskurði sínum nr. 42/2010 um að fella úr gildi fyrri synjun umhverfis- og skipulagsnefndar.

Málsrök Snæfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að með bréfi 3. júlí 2013 hafi kæranda verið tilkynnt að það sætti sig við úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 42/2010 og að málið væri tekið fyrir að nýju til þess að fjalla um annað en hið umdeilda flatarmál. Þrjú atriði hafi verið til skoðunar, þ.e. rúmmál hússins, svalahurð og milliloft. Um þessi atriði sé ekkert fjallað í greindum úrskurði. Það sé mat sveitarfélagsins að rétt sé að um þessi atriði gildi sömu almennu skilyrði og fyrir aðrar lóðir á svæðinu, að teknu tilliti til byggingartíma og gildistöku skilmála.

Samkvæmt deiliskipulagi sé gert ráð fyrir því að leyfilegt hámarksrúmmál húsa verði 3,75 m × flatarmál. Því megi reikna með að hámarksrúmmál húss á lóð nr. 1 við Sölvaslóð megi vera allt að 105,1 m² × 3,75 m = 394,1 m3. Samkvæmt þeim teikningum sem kærandi hafi lagt fram sé hins vegar sótt um hús sem sé 404,8 m3, án gólfplötu. Umhverfis- og skipulagsnefnd hafi tilkynnt kæranda að draga þyrfti úr rúmmáli hússins þannig að það yrði ekki stærra en 394,1 m3, án gólfplötu. Skilmálar séu túlkaðir lóðarhafa í vil að því leyti að miðað sé við gólflöt án botnplötu. Kærandi hafi ekki enn lagt fram breyttar teikningar, tillögur eða ráðagerðir um hvernig það verði gert.

Á teikningum sem kærandi hafi lagt fram sé sýnd svalahurð. Það stangist á við að ekki sé gert ráð fyrir efri hæð í húsinu. Auk þess sé hvorki gert ráð fyrir öryggissvæði innan við svalahurð né gert ráð fyrir aðgengi að svölum. Svalir eða svalahurð samræmist þannig ekki umsókn eða hönnunargögnum, skilmálum eða ákvæðum byggingarreglugerðar. Þá hafi kærandi komið fyrir millilofti í húsinu. Hins vegar sé ekki gert ráð fyrir millilofti í hönnunargögnum eða skilmálum. Nefndin hafi tilkynnt kæranda að þessum atriðum þyrfti að breyta.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 25. mars 2014 að synja um byggingarleyfi fyrir þegar byggðu sumarhúsi að Sölvaslóð 1, Arnarstapa.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu á mál þetta sér nokkra forsögu. Sú ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar, sem felld var úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 42/2010, var tekin í gildistíð skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Lög nr. 160/2010 um mannvirki tóku hins vegar gildi 1. janúar 2011 og giltu því um þá málsmeðferð sem fram fór í kjölfar úrskurðarins og þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar sem hér er deilt um.

Samkvæmt 9. gr. mannvirkjalaga er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða leyfi Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Sé mannvirki háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skal hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. laganna. Samkvæmt sömu grein skal umsókn um byggingarleyfi ásamt hönnunargögnum send hlutaðeigandi byggingarfulltrúa, sem fer yfir umsóknina, gengur úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna, og reglugerða settra samkvæmt þeim, og tilkynnir umsækjanda eftir atvikum um samþykkt byggingaráforma hans, sbr. 11. gr. nefndra laga. Sveitarstjórn er heimilt, með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. laganna, að kveða á um það að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Snæfellsbær mun hins vegar ekki hafa sett sér slíka samþykkt.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum segir að um sé að ræða nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Lögð sé til sú grundvallarbreyting að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa, auk þess sem lagt er til að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar. Loks er tekið fram í athugasemdunum að sveitarstjórnir komi að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti. Í eðli sínu séu byggingarmál tæknileg mál og þess vegna sé eðlilegt að framkvæmd þeirra sé í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði.

Samkvæmt skýru orðalagi mannvirkjalaga og athugasemdum í lögskýringargögnum er endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis á hendi byggingarfulltrúa. Synjun umhverfis- og skipulagsnefndar á erindi kærenda gat því ekki bundið enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur þurfti til að koma sjálfstæð ákvörðun byggingarfulltrúa. Af samskiptum skipulags- og byggingarfulltrúa við kæranda, svo sem þeim er lýst í málavöxtum, er ljóst að í þeim fólst eingöngu upplýsingagjöf skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda um afstöðu umhverfis- og skipulagsnefndar. Þannig einskorðaðist efni bréfs fulltrúans, dags. 26. mars 2014, við að greina frá efni fundar nefndarinnar degi áður og niðurstöðu hennar um að synja kæranda um byggingarleyfi. Afstöðu eða afgreiðslu byggingarfulltrúa á umsókn kæranda var hins vegar í engu getið og verður hvorki séð af bréfinu né öðrum gögnum málsins að byggingarfulltrúi hafi, í samræmi við fortakslaus ákvæði mannvirkjalaga, sem áður eru rakin, tekið afstöðu til umsóknar kæranda.
   
Af öllu framangreindu er ljóst að ekki liggur fyrir ákvörðun þar til bærs stjórnvalds sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður því ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.
   
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

99/2015 Frakkastígur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 3. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. maí 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir stækkun kvista, glugga og bíslags til norðurs, sem og fyrir klæðningu, breytingu á innra skipulagi og því að innrétta veitingahús í flokki II í húsinu á lóð nr. 26A við Frakkastíg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. nóvember 2015, er barst nefndinni 6. s.m., kærir S, Frakkastíg 26, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. maí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir stækkun kvista, glugga og bíslags til norðurs, sem og fyrir klæðningu, breytingu á innra skipulagi og því að innrétta veitingahús í flokki II í húsinu á lóð nr. 26A við Frakkastíg. Verður að skilja kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 10. nóvember 2015.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. mars 2015 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að stækka kvisti, stækka bíslag til norðurs, stækka glugga, einangra og klæða að utan með borðaklæðningu, breyta innra skipulagi og innrétta veitingahús í flokki II fyrir 48 gesti á lóð nr. 26A við Frakkastíg. Afgreiðslu málsins var frestað og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 6. s.m. var bókað að ekki væri gerð athugsemd við erindið, en þó væri vísað til skilyrða og leiðbeininga sem fram kæmu í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 4. s.m. Þar var ekki lagst gegn leyfisveitingu en á það bent að milli húss þess er umsóknin laut að og húss kæranda væru einungis 4 m. Því væri æskilegt að samþykki kæranda lægi fyrir, einnig þar sem kvöð væri um aðkomu að fasteign kæranda um garð umsækjanda. Þá var mælt með því að gengið yrði úr skugga um að húsið myndi eftir umsóttar breytingar uppfylla „þær kröfur sem gerðar eru til hljóðvistar veitingahúsa“.

Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. s.m. og því frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. maí 2015 var umsóknin enn tekin fyrir og fylgdi áðurnefnd umsögn skipulagsfulltrúa, sem og umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 25. febrúar s.á. Var umsóknin samþykkt og talin samræmast ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki. Byggingarleyfi var svo gefið út 10. júlí s.á.

Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 13. júlí 2015, mótmælti lögmaður kæranda fyrir hans hönd breyttri notkun fasteignarinnar Frakkastígs 26A. Hagsmunum hans yrði raskað vegna hávaða, matarlyktar, umgangs gesta á svæði þar sem hann hefði umferðarrétt að húsi sínu og vegna nálægðar gesta við húsið. Þá væri gert ráð fyrir eldhúsi í bakhúsi, sem sneri að húsi kæranda, og við það kæmu upp spurningar um hávaða vegna loftræsingar, sem og um lyktarmengun sem berast myndi inn um glugga á húsi kæranda. Grenndarkynning hefði ekki farið fram og krefðist kærandi þess að hún færi fram áður en byggingarframkvæmdir myndu hefjast. Óskaði hann þess að lokum að hann yrði upplýstur um feril málsins. Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 10. ágúst s.á., ítrekaði lögmaður kæranda fyrra erindi og tók fram að fjarlægð milli húsa væri minnst 3,94 m og mest 4,06 m, en að í samþykktri teikningu væri tilgreint að fjarlægðin væri 4,20 m. Sú tilgreining væri röng og ekki í samræmi við gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Fjarlægð milli húsanna myndi minnka enn frekar vegna einangrunar á útvegg og borðaklæðningar. Var farið fram á að bíslag yrði rifið svo að eðlileg fjarlægð yrði milli húsanna eða að byggingarleyfið yrði afturkallað.

Með tölvupóstum 4., 5., 10. og 21. september 2015 sendi kærandi fyrirspurnir til byggingarfulltrúa um byggingarleyfi það sem heimilaði breytingu á notkun umræddrar eignar úr íbúðarhúsi í veitingahús, sem og um skilgreiningu Frakkastígs sem aðalgötu. Honum var svarað með tölvupóstum 7., 9. og 22. s.m., þar sem fram komu upplýsingar um samþykkt byggingarleyfisumsóknar 12. maí s.á., sem og um forsendur þær sem fyrir lægju í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að byggingarleyfi vegna breyttrar notkunar á íbúðarhúsinu Frakkastíg 26A í veitingahús í flokki II hafi ekki verið grenndarkynnt. Ákvörðunin hafi farið leynt og því ekki gefist kostur á að koma mótmælum á framfæri til úrskurðarnefndarinnar innan tilskilins frests.

Því sé mótmælt að veitingahúsi sé komið fyrir svo nærri húsi og lóðarmörkum kæranda auk þess sem hann eigi umferðarrétt framhjá fyrirhuguðu veitingahúsi. Álitaefni séu uppi um brunavarnir og aðkomu slökkviliðs og sé bent á gr. 9.8.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar um. Ekki hafi verið leitað umsagnar slökkviliðs við afgreiðslu byggingarleyfisins. Þá hafi gaflar, hliðar hússins og þak verið hækkuð, auk þess sem kvistur á bakhlið hússins sé breiðari en samþykktar teikningar segi til um. Kvistir á húsinu séu ekki í samræmi við samþykkar teikningar heldur staðsettir alveg að þakbrún. Viðbygging við bíslag fyrirhugaðs veitingahúss sé alveg á lóðamörkum og þykk einangrun og múrhúð stytti enn frekar bilið milli þeirra húsa er um ræði. Viðbyggingin sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag frá 2008 þar sem tilgreint sé að lóðin sé fullbyggð.

Skuggavarp hafi ekki verið unnið og mælingar á milli húsa ekki farið fram. Fjarlægð á milli húss kæranda og fyrirhugaðs veitingahúss sé röng á samþykktri teikningu frá 12. maí 2015, enda hafi mælingar verið gerðar af leyfishafa. Við framkvæmdirnar hafi verktaki á vegum leyfishafa farið með vinnuvélar í leyfisleysi inn á lóð kæranda, unnið á henni skemmdir og fjarlægt grindverk á lóðamörkum og tré að honum forspurðum. Lóð leyfishafa hafi verið dýpkuð án þess að samþykki leyfisveitanda og kæranda lægi fyrir, svo sem áskilið sé í byggingarreglugerð. Steypt hafi verið plan sem fari inn á lóð kæranda og eigi sama við um brunn sem settur hafi verið niður. Jafnframt hafi verið reistur hlaðinn múrveggur á lóðamörkum án þess að samþykki kæranda lægi fyrir og sé veggurinn það langur að hann hindri aðkomu kæranda að lóð sinni. Umferðarréttur hans nái til 2 m breiðrar ræmu en veggurinn takmarki hana við 1,2 m. Kærandi hafi hafnað tillögu leyfishafa að samkomulagi og sé þetta önnur framkvæmd en hið kærða leyfi heimili. Reykjavíkurborg hafi ekki haft eftirlit með þessum framkvæmdum. Loks sé um hljóðvist vísað til gr. 11.1.1. og 11.1.3. í áðurnefndri reglugerð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg bendir á að kæra í málinu sé of seint fram komin og beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. Kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra eigi, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umsókn um byggingarleyfi hafi verið samþykkt 12. maí 2015 og byggingarleyfi verið gefið út 10. júlí s.á. Fjölmargar úttektir hafi farið fram, sú fyrsta 7. ágúst s.á., vegna botns, undirstöðu og sökkla. Hafi kæranda því mátt vera ljóst að framkvæmdir væru hafnar og hafi hann þá getað kynnt sér hvaða leyfi lægju þar að baki. Þrátt fyrir að ekki yrði séð að bréfum lögmanns kæranda hafi verið svarað hefði kæranda engu að síður verið ljóst, a.m.k. í byrjun ágúst, að framkvæmdir væru hafnar og hljóti kærufrestur að miðast við það. Í öllu falli hafi kærandi upplýst í tölvupósti sínum 10. september s.á. að honum væri kunnugt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum. Kæranda hafi svo verið svarað með tölvupósti 22. s.m. Kærufrestur hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.

Byggingarleyfið sé í samræmi við deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Þar sem um aðalgötu sé að ræða sé heimilt að vera með veitingastað í flokki I og II með opnunartíma til kl. 23:00. Auk þess hafi umsóknin uppfyllt allar kröfur byggingarreglugerðar, m.a. vegna brunavarna. Þá sé ekki farið fram á hljóðvistarskýrslur vegna veitingastaða í flokki I og II, enda sé gert ráð fyrir því í reglugerð nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald að þeir séu umfangslitlir og starfsemin ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að leyfisumsókn hafi verið unnin af fagmönnum og í samráði við Reykjavíkurborg. Frakkastígur sé borgargata, sem gefi aukið svigrúm til að hýsa starfsemi á borð við veitingastaði, verslanir eða kaffihús á fyrstu hæð húsa sem snúi að götunni. Áður en til umsóknar hafi komið hafi leyfishafi sent fyrirspurnir um möguleika á rekstri auk þess sem arkitektar hafi af hans hálfu sent fyrirspurn vegna fyrirhugaðrar stækkunar á bíslagi í horni garðsins, sem vegna staðsetningar hafi ekki áhrif á skuggavarp eða útsýni nærliggjandi húsa. Um hafi verið að ræða horn sem engum nýttist, enginn aðgangur hafi verið að þessu svæði og sólin ekki skinið þar á.

Brunavarnir hafi verið unnar í samráði við brunahönnuð og sé allt gler sem snúi að húsi kæranda eldþolið, auk þess sem klæðningar séu vottaðar. Þá sé verið að bæta við úðakerfi í húsið en við það muni brunahætta minnka verulega. Leyfishafi hafi fundað með kæranda og lögmanni hans þegar byggingarleyfi hafi legið fyrir til að framkvæmdirnar yrðu unnar í sátt við kæranda og myndu valda sem minnstu raski. Þar hafi m.a. komið fram að umferðarréttur hans yrði virtur að fullu, enda hafi aldrei annað staðið til.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi byggingarleyfis sem heimilar breytta notkun á Frakkastíg 26A úr íbúðarhúsnæði í veitingastað í flokki II, auk breytinga á húsinu að innan sem utan. Byggingarfulltrúi samþykkti byggingaráform vegna breytinganna 12. maí 2015 en kæra barst úrskurðarnefndinni 6. nóvember s.á. Kærufrestur til úrskurðarnefndar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð er, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Af gögnum málsins er ljóst að kæranda var kunnugt um hinar umdeildu framkvæmdir og samþykkt byggingaráforma í júlí 2015. Var kærufrestur því liðinn er kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni. Hins vegar sendi lögmaður kæranda án tafar, og síðar kærandi sjálfur, ítrekaðar fyrirspurnir um framkvæmdirnar og byggingarleyfið. Svör Reykjavíkurborgar bárust ekki fyrr en með tölvupóstum í september s.á. og er þar hvorki að finna leiðbeiningar um kæruheimild né kærufrest. Verður af þeim sökum að telja afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Kærandi hefur gert ýmsar athugasemdir við hinar umdeildu framkvæmdir. Í því sambandi er rétt að benda á að lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar einskorðast við leyfi fyrir framkvæmdunum en að almennt eftirlit með þeim er á hendi byggingarfulltrúa skv. lögum nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er hin umdeilda lóð á íbúðarsvæði, ÍB11, og er Frakkastígur skilgreindur sem aðalgata. Um íbúðarsvæði segir í aðalskipulaginu að þar sé almennt gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu og geti veitingastaðir í flokki I, og eftir atvikum í flokki II, fallið undir þá skilgreiningu. Innan skilgreindra íbúðarsvæða sé mögulegt að gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi, enda sé um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki valdi ónæði. Meðfram aðalgötum sé heimil fjölbreyttari landnotkun. Verslun og þjónusta á jarðhæðum geti verið heimil, svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II. Opnunartími allra veitingastaða skuli takmarkast við kl. 23:00. Að teknu tilliti til framangreinds var ekki þörf á grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, enda fór breytt notkun ekki í bága við gildandi skipulagsáætlanir.

Samkvæmt 10. gr. mannvirkjalaga skal umsókn um byggingarleyfi ásamt hönnunargögnum send hlutaðeigandi byggingarfulltrúa, sem fer yfir umsóknina, gengur úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna, og reglugerða settra samkvæmt þeim, og tilkynnir umsækjanda eftir atvikum um samþykkt byggingaráforma hans, sbr. 11. gr. nefndra laga. Gögn vegna samþykktar byggingaráforma eru m.a. aðaluppdrættir ásamt byggingarlýsingu og getur leyfisveitandi krafist þess að greinargerð fylgi umsókn, sbr. gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, einkum a-lið 2. mgr.

Í II. flokk veitingastaða falla umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemi er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og afgreiðslutími er ekki lengri en til kl. 23, sbr. skilgreiningu 3. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Samkvæmt gr. 11.1.3. í byggingarreglugerð skal hönnuður staðfesta að hljóðvist uppfylli kröfur reglugerðarinnar og þeirra staðla sem hún vísar til og á það m.a. við um þegar notkun mannvirkis er breytt, sbr. a-lið 1. mgr. ákvæðisins. Skal þá staðfesta að hljóðvist mannvirkisins fullnægi öllum þeim kröfum sem gerðar eru til hljóðvistar vegna hinnar nýju starfsemi. Þó skal einungis vinna greinargerð um hönnunarþætti, s.s. hljóðvist, eftir því sem við á og í samræmi við umfang og eðli verkefnis, sbr. gr. 4.5.3. í byggingarreglugerð. Með hliðsjón af áðurgreindri skilgreiningu á þeirri starfsemi sem leyfð var verður ekki talið að umfang hennar hafi gefið byggingarfulltrúa tilefni til að óska eftir sérstakri greinargerð um hljóðvist þar, svo sem honum hefði verið heimilt með stoð í fyrrnefndri gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð. Hins vegar tiltekur gr. 4.3.9. reglugerðarinnar í stafliðum hvaða þáttum, er varða uppbyggingu mannvirkis, skuli a.m.k. gera grein fyrir í byggingarlýsingu. Skal þar skv. m-lið gera grein fyrir hljóðvistarkröfum og hvernig þær séu uppfylltar. Byggingarlýsing á samþykktum uppdráttum tilgreinir ekki þessi atriði, en vegna mikillar nálægðar húss kæranda við hús það er hið kærða leyfi tekur til var ástæða fyrir byggingarfulltrúa að ganga eftir því að svo væri.

Ekki liggur annað fyrir í málinu en að hönnun byggingarinnar Frakkastígs 26A hafi uppfyllt kröfur laga og reglugerða um hljóðvist auk þess sem tekið er fram í byggingarlýsingu að eingöngu sé heimilt að nota byggingarvörur sem hlotið hafi staðfestingu tilnefnds aðila eða séu merktar CE í samræmi við lög þar um, en erfitt er að staðreyna hljóðvist fyrr en á reynir. Í því sambandi er rétt að benda á athugasemd skipulagsfulltrúa í umsögn, dags. 4. mars 2015, þess efnis að gengið yrði úr skugga um að húsið myndi, eftir umsóttar breytingar, uppfylla kröfur um hljóðvist veitingahúsa. Þá er vert að árétta að komi síðar í ljós að hávaði vegna breyttrar notkunar húss þess sem um er deilt, eða þeirrar starfsemi sem þar fer fram, sé óásættanlegur gagnvart kæranda eða öðrum nágrönnum ber eigandi eftir atvikum ábyrgð á að úr verði bætt svo hljóðstig sé innan lögboðinna marka.

Að teknu tilliti til framangreinds verður sá annmarki á byggingarlýsingu, að gera ekki grein fyrir hljóðvistarkröfum og hvernig þær yrðu uppfylltar, ekki látinn valda ógildi hins kærða byggingarleyfis.

Frakkastígur 26A er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulagið Kárastígsreitur austur, staðgreinireitur 1.182.3. Svæðið markast af Skólavörðustíg að suðvestan, Kárastíg að norðvestan og Frakkastíg að austan. Deiliskipulagið öðlaðist gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 2. desember 2008. Þar segir um nefnda lóð að hún sé fullbyggð og að þar sé kvöð um umferð að Frakkastíg 26. Í almennum skilmálum deiliskipulagsins er fjallað um byggingarmöguleika allra lóða þar sem aðstæður leyfi. Kemur þar fram að kvisti megi byggja á risþök í samræmi við byggingarreglugerð og byggingarstíl húsa og skuli fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1,0 m. Heimilt sé að byggja litlar viðbyggingar utan byggingarreita, allt að 12 m², og einnig litlar geymslur á baklóðum, allt að 6 m², og ef fjarlægð viðbygginga og geymsla frá lóðarmörkum sé minni en 3,0 m þurfi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða. Einnig er tekið fram að girðing á mörkum lóða sé háð samþykki beggja lóðarhafa. Með hinu kærða byggingarleyfi var heimiluð stækkun bíslags til norðurs, en bíslag þetta liggur fast upp að mörkum lóðar kæranda. Þá segir í byggingarlýsingu hins kærða leyfis að sorpgeymslum verði komið fyrir vestan megin á lóðinni og settir upp skjólveggir og núverandi grindverk á lóðarmörkum endurnýjað. Er þar um að ræða skjólveggi og grindverk á lóðamörkum kæranda og leyfishafa. Leyfi fyrir stækkun bíslagsins, auk nefndra skjólveggja og grindverks, er þannig í andstöðu við þá skilmála deiliskipulagsins er áskilja samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða og veldur sá annmarki ógildingu.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er innan við 4 m fjarlægð milli húss kæranda og húss þess er hið kærða leyfi tekur til. Röng eða ónákvæm tilgreining í byggingarlýsingu á samþykktum teikningum um að fjarlægðin sé 4,2 m er ekki slík að hún geti haft áhrif á gildi hins kærða leyfis. Í gildandi deiliskipulagi er hæð hússins ekki tilgreind að öðru leyti en því að húsið sé hæð og ris. Af gögnum málsins er ljóst að húsið hefur verið mælt upp og samkvæmt skráningartöflu samþykktri 18. maí 2015 er heildarhæð rishæðar 336 cm, þar af torf á þaki 16 cm. Í byggingarlýsingu kemur og fram að hæðarmál hafi verið mælt á teikningu og hafi komið út úr því 3,36 m. Verður þannig ekki séð að leyfið heimili neina þá hæðarbreytingu að raski hagsmunum kæranda eða sem sé í andstöðu við gildandi deiliskipulag. Loks verður ekki séð að brunavörnum sé áfátt miðað við byggingarlýsingu hins kærða byggingarleyfis.

Með hliðsjón af öllu framangreindu, og að teknu tilliti til  meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður hið kærða byggingarleyfi eingöngu fellt úr gildi að hluta, þ.e. að því er varðar stækkun bíslags, skjólveggi og grindverk.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. maí 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum Frakkastígs 26A, að því er varðar stækkun bíslags til norðurs, skjólveggi og grindverk, allt á lóðamörkum nefndrar lóðar og Frakkastígs 26.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
  Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

15/2015 Grettisgata

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 28. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2014 um að veita byggingarleyfi til að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í húsinu á lóð nr. 62 við Grettisgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. febrúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir E, Grettisgötu 60, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2014 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu við Grettisgötu 62. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að því er varðar svalir hússins.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 1. apríl 2015 og í janúar 2016.

Málavextir: Fasteignin að Grettisgötu 62 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireitur 1.190.1. Um er að ræða hús á horni Grettisgötu og Barónsstígs.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. maí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til þess m.a. að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í umræddu húsi. Var afgreiðslu málsins frestað og erindinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í júlí s.á. var auglýst tillaga að breytingu á fyrrnefndu deiliskipulagi vegna lóða nr. 62 við Grettisgötu og Barónsstígs 20a og öðlaðist greind breyting gildi 12. nóvember s.á. Fól breytingin m.a. í sér að umræddar lóðir yrðu sameinaðar og heimilt yrði að byggja að lóðarmörkum innan byggingarreits. Hús á lóðinni yrði þrjár hæðir, ásamt þakhæð með kvistum, og fjöldi íbúða átta, en heimild hafði verið fyrir því að byggja eina hæð ofan á húsið samkvæmt áður gildandi skilmálum. Þá væru svalir á 2. og 3. hæð heimilaðar út fyrir byggingarreit. Jafnframt var tekið fram að eldri skilmálar giltu að öðru leyti.

Umsókn um leyfi til að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í húsinu að Grettisgötu 62 var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. nóvember 2014. Var afgreiðslu málsins frestað, sem og á afgreiðslufundum embættisins 2. og 9. desember s.á. Erindið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi 22. desember s.á., það samþykkt og talið samræmast ákvæðum laga um mannvirki nr. 160/2010. Var byggingarleyfi gefið út 6. mars 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi fest kaup á íbúð á þriðju hæð Grettisgötu 60 í desember 2014. Séu svalir á Grettisgötu 62, til vesturs út frá eldhúsi, allt of nálægt svefnherbergisgluggum á annarri og þriðju hæð Grettisgötu 60. Ekki sé ljóst af teikningum frá 2010 að um svalir sé að ræða. Á seinni teikningum sé óljóst að svalir séu frá eldhúsi og ekki komi þar heldur fram að svalir séu rétt við svefnherbergisglugga íbúðar kæranda. Þá hafi kærandi reynt að afla sér upplýsinga hjá sveitarfélaginu um framkvæmdir á umræddri lóð í desember 2014, en engin svör fengið. Það hafi fyrst verið á fundi með umhverfis- og skipulagsráði 21. janúar 2015 sem kærandi hafi séð samþykktar teikningar að Grettisgötu 62.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að kæru sé vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Að öðru leyti sé öllum kröfum kæranda hafnað. Hið umþrætta byggingarleyfi sé í fullu samræmi við breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits. Hafi auglýsing um gildistöku breytingarinnar verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. nóvember 2014. Byggingarleyfi hafi verið samþykkt og gefið út 22. desember s.á. og staðfest í borgarráði 8. janúar 2015. Úrskurðarnefndinni hafi borist kæra í málinu 19. febrúar 2015 og hafi kærufrestur þá verið liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að árið 2010 hafi verið lögð inn fyrirspurn til byggingarnefndar um stækkun hússins. Á teikningu er fylgt hafi fyrirspurn séu sýndar skáskornar svalir. Í byrjun árs 2014 hafi verið sótt um að breyta deiliskipulagi lóðanna Grettisgötu 62 og Barónsstígs 20a. Í umsókninni hafi verið sýndar svalir, líkt og í fyrirspurn. Á samþykktum byggingarnefndarteikningum séu svalir óbreyttar frá fyrirspurn og samþykktu deiliskipulagi. Ekkert komi fram í byggingarreglugerð sem komi í veg fyrir þessa útfærslu á svölum. Hafi þær verið skáskornar af tilliti til íbúa Grettisgötu 60, en á þann hátt verði ekki innsýn frá svölum í þær íbúðir.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis er heimilar m.a. stækkun hússins að Grettisgötu 62 og lýtur kröfugerð kæranda að svölum á annarri og þriðju hæð. Hefur Reykjavíkurborg gert kröfu um frávísun málsins með vísan til þess að kæra hafi ekki borist úrskurðarnefndinni innan lögboðins kærufrests. 

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, nema á annan veg sé mælt fyrir um í lögum. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr, eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki liggur annað fyrir en að kæranda hafi fyrst á fundi með umhverfis- og skipulagsráði 21. janúar 2015 orðið kunnugt um samþykkt byggingarleyfis vegna Grettisgötu 62. Ekki verður fullyrt að kæranda hafi mátt vera efni þess ljóst fyrr en þá. Kæra barst í málinu 19. febrúar 2015 og því innan áskilins kærufrests. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.

Húsið að Grettisgötu 62 er reist árið 1923 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en húsakönnun Árbæjarsafns tilgreinir byggingarár sem 1924. Í VII. kafla laga um menningarminjar nr. 80/2012 er fjallað um verndun og varðveislu húsa og mannvirkja. Er kveðið á um það í 30. gr. laganna að eigendum húsa og mannvirkja sem ekki njóta friðunar, en byggð voru 1925 eða fyrr, sé skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands með minnst sex vikna fyrirvara ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa. Ber byggingarfulltrúum að fylgjast með því að leitað sé eftir nefndu áliti áður en leyfi er veitt til framkvæmda. Skal álit Minjastofnunar liggja fyrir áður en byggingarleyfi er veitt til framkvæmda og skal þar taka tillit til skilyrða sem Minjastofnun leggur til í áliti sínu. Er óheimilt að gefa út byggingarleyfi
fyrir mannvirki sem fellur undir IV., VI. og VII. kafla laga um menningarminjar fyrr en álit Minjastofnunar liggur fyrir skv. 4. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Svo sem fyrr greinir er húsið að Grettisgötu 62 reist fyrir árið 1925. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg liggur ekki fyrir álit Minjastofnunar í málinu. Með vísan til þess sem að ofan greinir er þó ljóst að eiganda hússins hefði borið að leita álits Minjastofnunar áður en sótt var um leyfi byggingaryfirvalda fyrir breytingum á því og var byggingarfulltrúa að sama skapi óheimilt að veita umrætt byggingarleyfi áður en álits þessa væri leitað. Leiðir ágalli þessi á málsmeðferð óhjákvæmilega til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar í heild sinni.

Eins og fyrr greinir er í gildi deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireitur 1.190.1, á umræddu svæði. Þar kemur m.a. fram að við hönnun viðbygginga og breytinga skuli vanda mjög til hönnunar og hafa t.a.m. til hliðsjónar að þær hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfið og gæði nálægra bygginga. Jafnframt segir svo í almennum skilmálum: „Við Grettisgötu og Barónsstíg skulu svalir snúa inn að reit. Dýpt þeirra leggst við húsdýpt. Mesta dýpt svala frá bakhlið húss er 1,6 m.“ Líkt og áður er rakið tók gildi breyting á skilmálum greinds deiliskipulags vegna lóðanna Grettisgötu 62 og Barónsstígs 20a í nóvember 2014, en tekið var þar fram að eldri skilmálar giltu að öðru leyti. Þær breytingar einar voru gerðar hvað varðar svalir að gert er ráð fyrir því að svalir á 2. og 3. hæð séu heimilaðar út fyrir byggingarreit. Ekki er í neinu vikið að stærð svala og verður því ekki annað ráðið en að áðurgreindir almennir skilmálar um stærð þeirra séu enn í gildi. Af framlögðum byggingarnefndarteikningum fyrir aðra og þriðju hæð hússins að Grettisgötu 62 verður ekki betur séð en að dýpt þeirra svala sem eru í kverk hússins sé meiri en áskilið er í deiliskipulagi. Er hið kærða byggingarleyfi hvað þetta varðar því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem krafa er gerð um í 11. gr. og 1. tl. 13. gr. mannvirkjalaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2014 um að veita byggingarleyfi til að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í húsinu á lóð nr. 62 við Grettisgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson