Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

25/2018 Brekkugata

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Akureyrar­kaupstaðar frá 4. janúar 2018 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun jarðhæðar hússins að Brekkugötu 13, Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðhæðar hússins að Brekkugötu 13, Akureyri, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Akureyrar­kaupstaðar frá 4. janúar 2018 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun jarðhæðarinnar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og umsóknin samþykkt en ella að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að samþykkja umsóknina. Að öðrum kosti er gerð sú krafa að auk ógildingar verði lagt fyrir Akureyrarkaupstað að setja hæfan og óvilhallan byggingarfulltrúa til að afgreiða fyrirliggjandi byggingarumsókn kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 14. mars 2018.

Málavextir: Kærendur festu kaup á jarðhæð hússins að Brekkugötu 13 snemma árs 2015. Eignin var skráð sem vinnustofa en fyrri eigendur starfræktu þar húsgagnavinnustofu. Hinn 5. maí 2017 sóttu kærendur um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun jarðhæðarinnar. Byggingarfulltrúi hafnaði erindinu á afgreiðslufundi 11. maí 2017 þar sem rýmið uppfyllti ekki ákvæði byggingarreglugerðar nr. 122/2012 um lofthæð í íbúðarherbergjum.

Hinn 22. desember 2017 barst Akureyrarbæ umsókn að nýju frá kærendum, dags. 19. desember 2017, og fylgdi henni greinargerð byggingarverkfræðings, dags. 4. júlí s.á. Í greinargerðinni kom m.a. fram að umrædd fasteign hentaði vel til notkunar sem íbúð, enda væri öryggi og heilbrigði fólks þar fyllilega samanburðarhæft við aðrar íbúðir í sama húsi. Með greinargerðinni fylgdi og bréf kærenda til Mannvirkjastofnunar þar sem óskað var eftir leiðbeiningum til handa byggingarfulltrúa um túlkun á 3. mgr. gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð og þá einkum hvort heimilt væri að víkja frá einstökum ákvæðum 6. hluta hennar, þ.m.t. ákvæðum 2. mgr. gr. 6.7.2. um lofthæð. Í svarbréfi Mannvirkjastofnunar, dags. 7. september 2017, kom fram að stofnunin hefði litið svo á að 3. mgr. gr. 6.1.5. ætti eingöngu við um þær kröfur sem gerðar væru til algildrar hönnunar og aðgengis, en hún ætti ekki við um lágmarkskröfur um lofthæð í íbúðarhúsnæði almennt skv. gr. 6.7.2. Því hefði verið talið að greinin fæli ekki í sér heimild fyrir byggingarfulltrúa til að veita undanþágur hvað varðaði lofthæð í íbúðarhúsnæði.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. janúar 2018 var umsókn kærenda um byggingarleyfi tekin fyrir. Í bókun byggingarfulltrúa var vísað til afgreiðslu fyrra erindis um sama mál, „með rökum sem nú er stutt í svarbréfi Mannvirkjastofnunar, dagsett 7. September 2017.“ Byggingarfulltrúi hafnaði erindinu þar sem ákvæði byggingarreglugerðar um lofthæð væru ekki uppfyllt, sbr. gr. 6.7.2., og einnig með vísan til gr. 6.7.4. í reglugerðinni. Með tölvupósti 10. janúar 2018 óskuðu kærendur eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun byggingarfulltrúa. Rökstuðningurinn barst kærendum 19. s.m. Kemur þar m.a. fram að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi byggst á ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012, með áorðnum breytingum. Hafi erindi kærenda verið hafnað annars vegar vegna lofthæðar, sbr. ákvæði gr. 6.7.2., og hins vegar vegna þess að jarðhæðin sé niðurgrafin, ef frá sé talin austurhlið hennar, sbr. ákvæði gr. 6.7.4. Þá hafi Mannvirkjastofnun gefið út túlkun sína á gr. 6.1.5. í reglugerðinni um að ákvæðið gildi eingöngu um undanþágu frá algildri hönnun en ekki um aðra hluta hennar.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja fyrst og fremst á því að hin kærða ákvörðun sé byggð á rangri túlkun byggingarfulltrúa á undanþáguákvæði 3. mgr. gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Sé ákvörðun byggingarfulltrúa byggð á því að honum sé óheimilt að veita undanþágu frá ákvæðum gr. 6.7.2. og gr. 6.7.4. á grundvelli 3. mgr. gr. 6.1.5. í reglugerðinni. Þessi skilningur sé í engu rökstuddur en þrátt fyrir það virðist byggingarfulltrúi hafa lagt til grundvallar að ákvæði 3. mgr. gr. 6.1.5. veiti honum aðeins heimild til að veita undanþágu frá tilteknum en ekki öllum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar. Telji kærendur að byggingarfulltrúa sé ekki aðeins heimilt heldur beinlínis skylt að veita undanþágu frá framangreindum ákvæðum með vísan til ákvæðis 3. mgr. gr. 6.1.5. í reglugerðinni. Slík skýring fáist í fyrsta lagi með vísan til einfaldrar orðskýringar á ákvæðinu. Í öðru lagi sé sú túlkun reglugerðarinnar sem kærendur byggi á í samræmi við stjórnarskrárvarinn rétt þeirra til nýtingar á eign sinni. Þá beri í þriðja lagi við skýringu á gr. 6.1.5. að horfa til meginreglna laga, tilgangs ákvæðisins og markmiðs þess.

Skilyrði til útgáfu umbeðins byggingarleyfis séu að fullu uppfyllt og því beri að breyta hinni kærðu ákvörðun á þá leið sem tiltekið sé í aðalkröfu kærenda eða til vara að byggingarfulltrúa verði gert að samþykkja fyrirliggjandi umsókn kærenda. Umrætt hús sem byggt sé árið 1904, sé staðsett í brattri brekku og þannig byggt að erfiðleikum sé bundið að uppfylla ákvæði gr. 6.7.2. og gr. 6.7.4. í byggingarreglugerðinni án þess að breyta að verulegu leyti megingerð mannvirkisins, burðarvirki þess, útliti, innra skipulagi og öðrum sérkennum, sem vert sé að varðveita. Af þeim sökum hafi kærendur lagt fram sérstaka greinargerð hönnuðar skv. 3. mgr.  gr. 6.1.5. þar sem fram komi að verndarhagsmunir framangreindra ákvæða byggingarreglugerðar séu að fullu virtir og að eignin henti vel til notkunar sem íbúð með tilliti til öryggis og heilbrigðis fólks.

Kærendur bendi jafnframt á að stjórnsýslumeðferð málsins hafi í flestum atriðum verið veru­lega áfátt og beinlínis andstæð lögum. Fyrri umsókn kærenda hafi verið afgreidd án samráðs við kærendur, án vettvangsskoðunar og án þess að þeir fengju að koma að sjónarmiðum sínum. Þá hafi kærendur lagt inn nýja umsókn eftir að þeim hafi verið bent á að leggja í kostnaðarsama gagnaöflun. Byggingarfulltrúi hafi á því stigi haft uppi ummæli um kærendur, sem ótvírætt hafi borið merki þess að hann og embætti hans beri kaldan hug til þeirra. Því verði ekki hjá því komist að álykta sem svo að byggingarfulltrúi og starfsmenn hans hafi verið vanhæfir til afgreiðslu umsóknarinnar, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að lokum telji kærendur óhjákvæmilegt að líta til þess að hin kærða ákvörðun sé íþyngjandi. Fasteign kærenda sé skráð sem vinnustofa en hafi ekki verið nýtt sem atvinnuhúsnæði í þrjú ár. Óumdeilt sé að hvorki fasteignin sem slík né umhverfi hennar henti sem atvinnu­húsnæði en hins vegar henti hún vel sem íbúðarhúsnæði. Núverandi staða sé sú að fasteign kærenda verði hvorki með góðu móti nýtt sem atvinnuhúsnæði né íbúðarhúsnæði, sem jafngildi eðli málsins samkvæmt eignaupptöku.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að eignin að Brekkugötu 13  sé í kjallara eða jarðhæð í húsi frá árinu 1904. Eignin, sem sé tilgreint sem vinnustofa í fasteignamati, hafi verið nýtt sem vinnustofa eða verkstæði í tugi ára. Vinnustofan sé niður­grafin, ef frá sé talin austurhlið hennar, og lofthæð sé 2,35 m. Vísað sé í ákvæði gr. 6.7.2. í byggingarreglugerð, sem mæli fyrir um að lofthæð í íbúðarherbergjum og eldhúsi skuli vera a.m.k. 2,50 m að innanmáli, mælt frá fullfrágengnu lofti. Heimilt sé að víkja frá þessu ef meðalhæð herbergis sé minnst 2,20 m og lofthæð minnst 2,50 m í að minnsta kosti 2/3 hluta þess. Undantekningin eigi því ekki við þar sem lofthæð á framlögðum teikningum íbúðarinnar sé tilgreind 2,35 m í allri eigninni. Mannvirkjastofnun hafi einnig gefið út túlkun sína á gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð um að ákvæðið gildi eingöngu um undanþágu frá algildri hönnun en ekki varðandi aðra hluta byggingarreglugerðarinnar.

Byggingarfulltrúi hafi hafnað umsókn kærenda á grundvelli gr. 6.7.4. í byggingarreglugerð. Þar segi að óheimilt sé að hafa sjálfstæða nýja íbúð þar sem útveggir íbúðar séu niðurgrafnir nema að uppfylltum m.a. þeim skilyrðum að minnst ein hlið íbúðarrýmis sé ekki niðurgrafin. Sú óniðurgrafna hlið skuli snúa móti suðaustri, suðri, suðvestri eða vestri og skuli þar vera stofa íbúðarinnar. Þá skuli lengd óniðurgrafinnar hliðar vera minnst 25% af lengd þeirra veggflata sem afmarki íbúðina. Ákvæði 2. mgr. ákvæðisins skuli uppfyllt hvað varði öll niðurgrafin íbúðarherbergi. Þar sem óniðurgrafin hlið umrædds húss snúi á móti austri hafi byggingarfulltrúi hafnað erindi kærenda á grundvelli fyrrgreindrar gr. 6.7.4.

Að lokum sé á því byggt að ákvæði gr. 6.1.5. og 6.7.4. í byggingarreglugerð séu fortakslaus og því sé óheimilt að víkja frá þeim. Undanþága frá ákvæðunum gildi einungis um kröfur um algilda hönnun, sem ekki eigi við í þessu tilviki.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar. Hins vegar tekur hún ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að taka tiltekna ákvörðun. Af þeim sökum verður ekki tekin afstaða til krafna kærenda um að úrskurðarnefndin samþykki byggingarleyfisumsókn þeirra eða leggi fyrir byggingarfulltrúa að gera slíkt. Það sama gildir um þá kröfu kærenda að lagt verði fyrir Akureyrarkaupstað að setja hæfan og óvilhallan byggingarfulltrúa til að afgreiða fyrirliggjandi byggingarumsókn þeirra.

Byggingarfulltrúi hafnaði umsókn kærenda um að breyta vinnustofu á jarðhæð að Brekkugötu 13 í íbúð þar sem ákvæði byggingarreglugerðar voru ekki talin uppfyllt. Vísaði byggingar­fulltrúi í rökstuðningi sínum fyrir ákvörðuninni til túlkunar Mannvirkjastofnunar á gr. 6.1.5. í bréfi stofnunarinnar, dags. 7. september 2017, þar sem litið var svo á að 3. mgr. gr. 6.1.5. ætti eingöngu við um þær kröfur sem gerðar væru um algilda hönnun og aðgengi. Á grundvelli þessa taldi stofnunin að byggingarfulltrúa væri ekki heimilt að veita undanþágur hvað varðar lofthæð í íbúðarhúsi. Ekki liggja fyrir neinar þær ástæður sem benda til hlutdrægni byggingarfulltrúa eða starfsmanna hans við málsmeðferð umsóknar kærenda, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993, svo sem kærendur halda fram.

Í byggingarreglugerð nr. 112/2012, kemur fram í gr. 6.7.2. að lofthæð í íbúðarherbergjum og eldhúsi skuli vera a.m.k. 2,50 m að innanmáli, mælt frá fullfrágengnu gólfi að fullfrágengnu lofti. Þó sé heimilt að víkja frá þessu ef meðalhæð herbergis er minnst 2,20 m og lofthæð minnst 2,50 m í að minnsta kosti 2/3 hluta þess. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er lofthæð umræddrar jarðhæðar kærenda 2,35 m. Lofthæðin nær því ekki því lágmarki sem mælt er fyrir um í gr. 6.7.2. í reglugerðinni. Þá kemur fram í gr. 6.7.4. að óheimilt sé að hafa sjálfstæða nýja íbúð þar sem útveggir íbúðar eru niðurgrafnir nema að uppfylltu m.a. því skilyrði að minnst ein hlið íbúðarrýmis sé ekki niðurgrafin og snúi mót suðaustri, suðri, suðvestri eða vestri og skal þar þá vera stofa íbúðarinnar. Eign kærenda er skráð sem vinnustofa og er niðurgrafin ef frá er talin austurhlið hennar. Liggur því fyrir að rýmið uppfyllir ekki ákvæði gr. 6.7.4. í reglugerðinni, en umsókn kæranda um breytta notkun umrædds húsnæðis fylgdi greinargerð byggingarverkfræðings með rökstuðningi fyrir undanþágu frá gildandi ákvæðum byggingarreglugerðar.

Í áðurgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 kemur fram í gr. 12.8 að við umfjöllun um byggingarleyfisumsóknir, sem varði breytingar á byggingum sem byggðar hafi verið fyrir gildis­töku reglugerðarinnar, skuli taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi voru þegar þær voru byggðar, eftir því sem hægt sé að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggis- og heilbrigðismál. Í núgildandi byggingarreglugerð er ekki að finna sambærilegt ákvæði en í einstökum ákvæðum hennar er tekin afstaða til þess hvort þargreindar kröfur þurfi að uppfylla við breytingar á eldri mannvirkjum. Má þar nefna að í gr. 9.2.5. kemur fram að við breytingar á þegar byggðu mannvirki eða við breytta notkun skuli þess gætt að brunavarnir uppfylli kröfur skv. reglugerðinni og að breytingin skerði ekki brunavarnir annarra þátta mannvirkisins. Er tekið fram í gr. 12.1.2. að ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar um öryggi við notkun eigi við um breytingu á þegar byggðu mannvirki og um breytta notkun þess. Þá er í gr. 6.1.5. fjallað um breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun þess. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að við breytingu á mannvirki sem byggt sé í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli eftir því sem unnt sé byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Þá hljóðar 3. mgr. ákvæðisins svo: „Ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar. Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Taka skal sérstakt tillit til mannvirkja sem falla undir ákvæði laga um menningarminjar.“

Af framangreindum ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar verður sú ályktun dregin að beita skuli þeim ákvæðum hennar er varða öryggi og heilbrigði við breytingar á eldri mannvirkjum og við breytta notkun þeirra, en auk þess geti leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar, sem hefur m.a. að geyma reglur um lofthæð íbúðarrýma, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Af hinni kærðu ákvörðun verður ekki ráðið að byggingarfulltrúi hafi tekið efnislega afstöðu til greinargerðar þeirrar sem fylgdi byggingarleyfisumsókn kærenda og þar með til þess hvort skilyrði væru uppfyllt fyrir undanþágu frá kröfum byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði og hvort tilefni væri til að víkja frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar í samræmi við ákvæði 3. mgr. gr. 6.1.5.

Með hliðsjón af framangreindu voru slíkir annmarkar á rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Akureyrarkaupstaðar frá 4. janúar 2018 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun jarðhæðar hússins að Brekkugötu 13, Akureyri.

13/2019 Blesugróf, Reykjavík

Með

Árið 2019, föstudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. apríl 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir parhúsi með geymslum og bílgeymslum í kjallara á lóðinni nr. 12 við Blesugróf.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. febrúar 2019, kæra eigendur, Blesugróf 14, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. apríl 2018 að veita byggingarleyfi fyrir parhúsi með geymslum og bílgeymslum í kjallara á lóðinni nr. 12 við Blesugróf. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir á lóðinni verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. mars 2019 og viðbótargögn bárust 1. apríl s.á.

Málsatvik: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. apríl 2018 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja parhús með geymslum og bílgeymslum í kjallara á lóðinni nr. 12 við Blesugróf. Var fært til bókar að frágangur á lóðamörkum yrði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Staðfesti borgarráð afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum 26. s.m. Var byggingar­leyfi gefið út 8. janúar 2019 og hófust framkvæmdir við byggingu parhússins í kjölfar þess.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að framkvæmdir þær sem samþykktar hafi verið með hinu kærða byggingarleyfi hafi aldrei verið kynntar fyrir þeim og hafi því þeim ekki verið kunnugt um áformin. Í svari skipulags- og byggingarsviðs sem kærendum hafi borist 14. febrúar 2019 hafi komið fram að hæð fyrirhugaðrar nýbyggingar yrði innan gildandi deiliskipulags. Þegar framkvæmdir hafi byrjað og búið hafi verið að koma púða fyrir á lóðinni og slá upp sökklum hafi komið í ljós að framangreind svör hafi einfaldlega ekki verið rétt. Með vísan til þess hafi kæra í máli þessu borist innan kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og beri því að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Útgefið byggingarleyfi sé ekki í samræmi við skilmála deiliskipulags Blesugrófar. Samkvæmt hæðarblaði sé hæðarkóti 17,8 við lóðamörk Blesugrófar 12 og 14 og skuli frágangur á lóða­mörkunum miða við þá hæð að framkvæmdum loknum. Enginn áberandi hæðarmunur hafi verið á milli lóðanna fyrir framkvæmdir en landið halli lítillega og jafnt á milli Blesugrófar 10 og 14. Kærendur hafi gert ráð fyrir að hæð nýs húss á lóð nr. 12 myndi verða í eðlilegu samhengi við nærliggjandi hús og heildargötumynd, líkt og skilmálar gildandi deiliskipulags krefjist. Nú sé aftur á móti búið að keyra miklu magni af möl í lóðina Blesugróf 12, gera púða ofanjarðar og þar ofan á hafi verið slegið upp fyrir sökklum. Búið sé að búa til hæðarmun á milli lóðanna sem ekki hafi verið til staðar áður. Virðist gert ráð fyrir að gólfkóti Blesugrófar 12 verði 19,86 sem sé 3 m frá lóðamörkum þar sem hæðarkóti sé 17,8. Af þessum sökum þurfi að gera sérstakar varnarráðstafanir til að bregðast við hæðarmismuninum við lóðamörkin en ekkert slíkt hafi verið rætt við kærendur þrátt fyrir að slíkt sé áskilið í útgefnu byggingar­leyfi.

Skilmálar deiliskipulags um 6 m hámarkshæð húsa miði við aðkomuhæð auk þess sem taka skuli tillit til legu í landi, hæð húsa í kring og núverandi ástand. Með því að hafa púða og sökkla hússins ofanjarðar, með gólfkóta 19,86 borið saman við hæðarkóta 17,8 á lóðamörkum í 3 m fjarlægð, sé húsið að Blesugróf 12 komið upp fyrir leyfilega hámarkshæð samkvæmt deiliskipulagi og miðað við það sem kærendur hafi mátt ætla út frá legu lóðarinnar í umhverfinu. Á afstöðumynd sé hæðarkóti mænis sýndur 24,8 sem þýði að húsið verði meira en 6 m hátt miðað við landhæð við lóðamörk.

Í skilmálum gildandi deiliskipulags fyrir Blesugróf komi fram að þar sem aðstæður leyfi megi gera kjallara, en það sé háð mati skipulagsyfirvalda hverju sinni. Þá sé í skipulaginu fjallað um heimild til að vera með bílastæði eða bílskúra. Deiliskipulaginu fylgi skýringarmyndir með dæmum um húsagerðir. Í umsögn skipulagsfulltrúa um hið kærða byggingarleyfi segi að þær aðstæður séu tæplega til staðar að vera með kjallara í húsinu. Heldur mikill halli verði á rampa niður í bílakjallara, eða 17,5%, en viðmið varðandi hámarkshalla á slíkum rampa sé 15%. Hönnun hússins samræmist ekki skilmálum gildandi deiliskipulags og sé ekki í sam­ræmi við legu í landi og umhverfi. Deiliskipulagið heimili ekki bílakjallara heldur einungis lágreista bílskúra. Þá geti skilmálar um kjallara ekki átt við um bílakjallara enda fjallað um bílastæði/bílskúra á öðrum stað í skipulagsskilmálunum. Umræddur bílakjallari virðist að miklu leyti vera rót þess hversu frekt mannvirkið verði til umhverfisins, bæði hvað varði hæð hússins í nágrenni lóðamarkanna og fyrirkomulag aðkomu.

Byggingarleyfið gangi gegn grenndarhagsmunum kærenda og sé ólögmætt. Inngangur að Blesugróf 12 snúi að fasteign kærenda í 2-3 m hæð yfir lóð þeirra, 3 m frá lóðamörkum. Gangstétt og tröppur muni ná nánast alveg að lóðamörkum. Á afstöðumynd sjáist að gert sé ráð fyrir að húsið sjálft verði byggt út að ystu mörkum byggingarreits þeim megin sem snúi að húsi kærenda og síðan sé gert ráð fyrir að gangstígur og tröppur að inngangi séu staðsett á hinu 3 m belti á milli byggingarreits og lóðamarka. Koma þurfi fyrir fallvörnum, bæði við inngang og rampa bílakjallara, sbr. kafla 12.10 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar að auki uppfylli aðkoman að Blesugróf 12 ekki kröfur byggingarreglugerðar um aðgengi, sbr. h-lið 1. mgr. gr. 6.1.3.

Í hinu útgefna byggingarleyfi sé áskilið að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Ekkert samráð hafi aftur á móti verið haft við kærendur og viti þeir því ekki hvernig fyrirhugað sé að ganga frá hæðarmismuninum. Ljóst sé að þar þurfi að koma til umfangsmikið mannvirki, enda gert ráð fyrir að húsið sjálft standi ofan á grjóthrúgu auk þess sem aðalinngangur þess verði þar með tilheyrandi tröppum og fallvörnum. Slík mannvirki á lóðamörkum séu byggingarleyfisskyld skv. ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð, sbr. gr. 2.3.5., auk þess sem samþykki beggja lóðarhafa þurfi að liggja fyrir áður en byggingarleyfi sé gefið út.

Ræktaður garður með sólpalli og heitum potti sé á þeirri hlið lóðar kærenda sem snúi að suðurhlið Blesugrófar 12. Af sólpalli muni blasa við grjótgarður eða annað mannvirki og ofan á því margra metra hár húsveggur. Gott útsýni muni verða úr hinu nýja húsi ofan í garð kærenda, þ.m.t. á sólpallinn og heita pottinn. Vegna hins manngerða hæðarmunar sé engin leið til að hindra útsýnið með skjólveggjum. Búast megi við miklu skuggavarpi frá nýja húsinu og sé líklegt að hinn sólríki suðurgarður verði ekki lengur sólríkur auk þess sem friðhelgi kærenda sé rofin vegna umferðar um gangstétt í 2-3 m hæð og útsýnis yfir garðinn.

Í kærumáli úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 31/2011 hafi verið talið að bygging setlaugar á lóðamörkum hefði veruleg grenndaráhrif gagnvart eigendum aðliggjandi lóðar. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem ákvæði byggingarreglugerðar um girðingar og gróður á lóðamörkum og þeirra grenndaráhrifa sem setlaugin hafði, hafi úrskurðarnefndin ekki talið rétt af hálfu byggingaryfirvalda að veita leyfi fyrir henni á umræddum stað án samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Hafi því byggingarleyfi setlaugarinnar verið fellt úr gildi. Niðurstaða nefndarinnar hafi einnig verið studd við ákvæði 4. mgr. gr. 4.2.2 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 þar sem fram kom að við deiliskipulagningu íbúðar­svæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar. Sambærilegt ákvæði sé nú í gr. 5.3.2.2. í gildandi skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Mál kærenda sé sambærilegt framangreindu máli að því leyti að verulega sé gengið á grenndarhagsmuni þeirra með útgáfu byggingarleyfis án samþykkis þeirra fyrir stórfelldum framkvæmdum við lóðamörk. Samþykki kærenda þurfi fyrir þeim mannvirkjum sem koma þurfi fyrir við og í nágrenni lóðamarka. Áskilnaður um samráð eftir á nægi ekki í því samhengi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að í greinargerð deiliskipulags Blesugrófar komi fram að hús séu bundin þeim skilmálum að óheimilt sé að fara út fyrir byggingarreit. Af þeim gögnum sem hafi fylgt byggingarleyfisumsókninni sé ljóst að öll byggingin sé innan byggingarreits. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins skuli lágmarksfjarlægð frá lóðamörkum vera 3-5 m. Fjarlægð byggingarinnar frá lóðamörkum við Blesugróf 14 sé 3 m. Í greinargerð skipulagsins komi fram að heimilt sé að veita leyfi fyrir kjallara þar sem aðstæður leyfi. Skipulagsfulltrúi hafi skilað inn umsögn þar sem ekki hafi verið gerð athugasemd við niðurgrafinn bílskúr, nema að því að leyti að rampur skuli vera með 15% halla en ekki 17,5% halla líkt og umsóknin gerði ráð fyrir. Heimilt sé á tilteknum lóðum að byggja hærri hús en samkvæmt almennum skilmálum deiliskipulagsins. Þá skuli miða við legu hússins í landi, hæð húsa í kring og núverandi ástand. Hæsti punktur þeirra húsa sem undir heimildina falli sé 6,0 m frá grunnplötu og hámarkshæð útveggja sé sú sama. Sérstakt tillit skuli tekið til nærliggjandi húsa og heildargötumyndar. Blesugróf 12 falli undir þessa reglu og sé leyfileg hámarkshæð 6,0 m mælt frá grunnplötu.

Samkvæmt samþykktum uppdráttum fyrir Blesugróf 12 sé byggingin 6 m að hæð miðað við götukóta en 4,32 m miðað við grunnplötu. Hæsti punktur byggingarinnar sé í kóta 24,18, gólfkóti grunnplötu sé 19,86 og götukóti 18,10. Af þessu megi vera ljóst að byggingin sé innan skilmála deiliskipulagsins, enda sé hæð hússins 4,32 m mælt frá grunnplötu þegar leyfileg hámarkshæð sé 6 m. Í deiliskipulaginu sé ekki kveðið á um það í hvaða hæð miðað við götu grunnplata skuli vera. Hæð hússins sé því í samræmi við gildandi deiliskipulag og sömuleiðis gólfkóti þar sem engin takmörk séu sett í skilmálum skipulagsins fyrir legu hans. Við samþykkt byggingaráforma hafi verið bókað að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Bókunin leggi þær skyldur á herðar byggingaraðila að ekki verði gengið frá lóðamörkum nema í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Verði þeir að koma sér saman um frágang á lóðamörkum. Sveitarfélagið hafi ekki aðrar forsendur en að líta svo á að frágangur verði í samræmi við fyrrnefnda bókun.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar telja að skilmálar gildandi deiliskipulags um hámarks­hæðir húsa hafi ekki verið brotnir. Hönnun umrædds húss sé í fullkomnu samræmi við legu á landi og umhverfið og byggingaryfirvöld hafi heimilað bílageymslu undir húsinu. Vísað sé til heimilda þeirra yfirvalda til mats samkvæmt skipulaginu. Þá hafi kærufrestur verið liðinn þegar kæra hafi borist nefndinni skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í rökstuðningi borgaryfirvalda komi fram að hvergi í deiliskipulaginu sé hæð grunnplötu ákvörðuð miðað við götukóta. Nánast megi skilja afstöðu borgarinnar þannig að engar takmarkanir hafi í raun verið á því hversu mikið hafi mátt hækka lóðina svo lengi sem húsið sjálft væri innan hæðarmarka. Þetta sé einfaldlega rangt þar sem í deiliskipulaginu sé kveðið á um að miða eigi við legu í landi, hæð húsa í kring og núverandi ástand. Jafnframt segi að þegar um sé að ræða lóðir þar sem hærri húsagerð sé leyfð skuli sérstaklega tekið tillit til nærliggjandi húsa og heildargötumyndar.

Vettvangsskoðun: Úrskurðanefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 22. mars 2019 að viðstöddum fulltrúum málsaðila og borgaryfirvalda.

 Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu hófust framkvæmdir á grundvelli hins kærða byggingarleyfis í janúar 2019 og beindi annar kærenda fyrirspurn til byggingarfulltrúa af því tilefni. Var m.a. spurt hvort gólfplata á Blesugróf 12 yrði sú sama og á Blesugróf 10. Í svarpósti starfsmanns byggingar­fulltrúa 21. janúar 2019 er vísað til deiliskipulags svæðisins og þess að byggingar­leyfisumsókn hafi verið send til skipulagsfulltrúa til umsagnar og var jafnframt upplýst um hæðar­­­­kóta Blesugrófar 14 og Blesugrófar 12 en ekki var tekin fram hæð gólfplötu Blesugrófar 10. Ítrekaði kærandi fyrirspurn sína hvað hæð gólfplatna varðaði og verður ekki talið að honum hafi mátt að fullu vera kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar fyrr en starfsmaður skipulagsfulltrúa sendi kæranda sneiðmynd af fyrirhuguð húsi skv. samþykktum teikningum í tölvupósti 14. febrúar s.á. Kæra í máli þessu barst 25. s.m. og þar með innan kærufrests. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Á grundvelli ákvæðisins tilkynnir leyfisveitandi umsækjanda um samþykkt byggingaráforma, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Skal útgefið byggingarleyfi og vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir parhúsi með geymslum og bíl­geymslum í kjallara á lóð nr. 12 við Blesugróf. Er einkum deilt um grenndaráhrif þau sem af húsinu verða sökum hæðar þess og innsýnar á lóð kærenda. Á svæðinu gildir deiliskipulag Blesugrófar frá árinu 2005. Um markmið skipulagsins segir að við uppbyggingu skuli taka mið af yfirbragði hverfisins og leitast við að styrkja heildarmynd þess. Þá segir í skilmálum deiliskipulagsins um hæð bygginga að almennt skuli miða við þá hæð sem einkenni hverfið, þ.e. einnar hæðar einbýlishús með lágu þaki. Hæsti útveggur skuli ekki vera hærri en 3,5 m og hæsti punktur þaks megi vera 1,5 m yfir hæstu leyfilegu hæð útveggja. Heimilt sé að byggja hærri hús á tilgreindum lóðum, þ. á m. Blesugróf 12, og eigi þá að taka mið af legu í landi, hæð húsa í kring og núverandi ástandi. Í þeim húsum sé gert ráð fyrir að hæsti punktur þaks og hámarkshæð útveggja sé 6,0 m frá grunnplötu. Þá skuli sérstaklega taka tillit til nærliggjandi húsa og heildargötumyndar. Í deiliskipulaginu er skýringamynd sem sýnir sneiðmynd af lægri og hærri húsagerð og sýnir sú mynd gólfplötu beggja húsagerða við yfirborð lóðar. Skýringargögn eru ekki bindandi nema það sé sérstaklega tekið fram skv. gr. 5.5.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 en geta þó verið til leiðbeiningar við túlkun á efni skipulags. Að mati úrskurðarnefndarinnar felur deiliskipulagið í sér hið minnsta þá takmörkun á hæð gólfplötu að taka beri mið af nærliggjandi húsum og umhverfinu í kring.

Gólfkóti samkvæmt samþykktum uppdráttum fyrirhugaðrar nýbyggingar að Blesugróf 12 er 19,86. Hús kærenda er einbýlishús á einni hæð og samkvæmt samþykktum uppdráttum frá árinu 2006 er gólfkóti þess 17,8. Hús á lóð Blesugrófar 10 er einbýlishús með kjallara og samkvæmt samþykktum uppdráttum frá árinu 1983 er gólfkóti þess 19,8. Hæðarkóti á lóða­mörkum Blesugrófar 12 og 14 miðað við aðkomu er 18,0 en á lóðamörkum Blesugrófar 12 og 10 er hann 18,2. Lóðir Blesugrófar 12 og 14 eru í litlum halla en örlítið meiri halli er á lóð Blesugrófar 10. Gólfkóti nýbyggingarinnar tók þannig að nánast öllu leyti mið af húsinu á lóðinni nr. 10, sem stendur hærra í landi, en að sama skapi að hverfandi leyti af húsi kærenda að Blesugróf 14 sem þó stendur nær hinni fyrirhugaðri nýbyggingu en húsið að Blesugróf 10. Verður því ekki fallist á að gætt hafi verið að hinu sérstaka tilliti gagnvart nærliggjandi húsum sem skilmálar deiliskipulagsins kveða á um að taka skuli þegar um ræðir heimild til byggja hærri hús en samkvæmt almennum skilmálum skipulagsins. Til þess er einnig að líta að vegna hæðar gólfplötu Blesugrófar 12 verður inngangur hússins, sem er rúmum 3 m frá lóðarmörkum og snýr að garði kærenda, í um 2 m hæð frá yfirborði lóðar kærenda. Hefur byggingin þar af leiðandi veruleg grenndaráhrif gagnvart fasteign kærenda, m.a. með tilliti til innsýnar yfir á suðurhluta lóðar þeirra. Eru þau áhrif umfram það sem kærendur máttu búast við með hliðsjón af orðalagi gildandi deiliskipulags um að tillit skuli tekið til nærliggjandi eigna.

Að framangreindu virtu er hið kærða byggingarleyfi ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svo sem áskilið er í 11. gr., sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr., laga um mannvirki og verður því ekki hjá því komist að fella það úr gildi.

Þá þykir rétt að benda á að fram kemur í skilmálum gildandi deiliskipulags að þar sem aðstæður leyfi megi gera kjallara, en það sé mat skipulagsyfirvalda hverju sinni. Í málinu liggur fyrir umsögn skipulagsfulltrúa þar sem segir að lóðin sé nánast hallalaus og það sé mat skipulagsfulltrúa að þær aðstæður séu tæplega til staðar að vera með kjallara á húsinu, en fallist yrði á það ef halli á rampi yrði 15%. Þegar deiliskipulag mælir fyrir um að aðstæður verði að vera til staðar vegna einhverra framkvæmda og eftirlætur það mat skipulagsyfirvöldum verður að gera þær kröfur að lágmarki að það sé ótvírætt mat þeirra yfirvalda að þær aðstæður séu fyrir hendi. Umsögn skipulagsfulltrúa ber það hins vegar ekki með sér samkvæmt orðalagi sínu.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. apríl 2018 um að veita byggingarleyfi til að byggja parhús með geymslum og bílgeymslum í kjallara á lóð nr. 12 við Blesugróf er felld úr gildi.

113/2018 Brúnás, Garðabær

Með

 

Árið 2019, föstudaginn 12. apríl kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 113/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 6. júlí 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Brúnási 12 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 3. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Brúnási 14, Garðabæ, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Garðabæ frá 6. júlí 2018 að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Brúnási 12. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því að leyfishafi hélt að sér höndum meðan reynt var að ná samkomulagi milli aðila var ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 13. febrúar 2019.

Málsatvik og rök: Hinn 9. janúar 2018 samþykkti bæjarráð Garðabæjar afgreiðslu byggingarfulltrúans í Garðabæ um samþykkt byggingaráforma til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Brúnási 12. Í bókun ráðsins var tekið fram að útgáfa byggingarleyfisins væri háð því að samhliða yrði útgefið byggingarleyfi fyrir lóðirnar við Brúnás 10 og Brekkuás 7 samkvæmt ákvæði í úthlutunarsamningi lóðarinnar. Hinn 19. Febrúar s.á. móttók Garðabær breytta aðaluppdrætti fyrir Brúnás 12, en dagsetning breytinganna var 2. s.m. Kom þar fram að óskað væri eftir hækkun kóta þakkants ásamt hækkun gólfkóta hússins og jöfnun hæðarkóta íbúðarrýmis. Byggingarfulltrúi samþykkti breytta uppdrætti 6. júlí 2018 og gaf út byggingar­leyfi í framhaldi af því 13. s.m.. Sú ákvörðun var kærð eins og að framan greinir en í kjölfar þess var reynt að leita lausna í málinu með aðilum sem ekki gekk eftir.

Kærandi bendir á að samkvæmt byggingarlýsingu sem fram komi á teikningu að húsinu að Brúnási 12, dags. 2. febrúar 2018, hafi verið sótt um breytingu á aðaluppdrætti sem hafi falið í sér hækkun kóta þakkants ásamt hækkun á gólfkóta. Aðaluppdráttur virðist áður hafa verið gefinn út 14. nóvember 2017. Kærandi hafi hvorki fengið afrit af fyrri aðaluppdrætti né nein gögn þar sem færð séu fram rök fyrir breytingunni eða umfjöllun um hana á vettvangi bæjaryfirvalda. Þá virðist sem hin kærða ákvörðun hafi ekki verið lögð fyrir skipulagsnefnd, bæjarstjórn eða bæjarráð til samþykktar. Umrædd lóð tilheyri deiliskipulagssvæði Hraunsholts í Garðabæ sem hafi að mestu verið byggt á árunum 1999-2010. Samkvæmt skilmálum skipulagsins sé á lóðinni heimiluð bygging einnar hæðar einbýlishúss, E-1. Hvorki fyrirhuguð vegghæð né gólfhæð samkvæmt samþykktum teikningum samræmist skipulagsskilmálum. Lóðin að Brúnási 12 liggi að norðurmörkum lóðar kæranda að Brúnási 14. Fyrirhuguð nýbygging verði því reist framan við suðurhlið lóðar hans, þar sem sé að finna sólaraðstöðu og verönd. Grenndaráhrif fyrirhugaðs húss verði mikil fyrir íbúa að Brúnási 14, sérstaklega vegna fyrirhugaðrar gólfhæðar og vegghæðar hússins.

Bæjaryfirvöld vísa til þess að á lóðinni Brúnási 12 sé samkvæmt deiliskipulagsskilmálum heimilt að byggja hús af gerðinni E-1 eða E-2. Hús af gerðinni E-1 sé í gildandi deiliskipulagi skilgreint sem einbýlishús á einni hæð en hús að gerðinni E-2 sem einbýlishús á einni og hálfri hæð. Að mati Garðabæjar sé áætluð heildarhæð hússins og vegghæð innan heimilda gildandi skipulags fyrir hús af gerðinni E-1. Þá sé á hæðarblaði einungis kveðið á um gólfhæð fyrir þann hluta hússins sem snúi að götu. Verði því að telja að byggingarfulltrúa hafi verið heimilt að samþykkja frávik frá hæðarkóta gólfhæðar enda sé þess gætt við hönnun hússins að heildarhæð þess sé innan tilskilinna skilmála. Á sneiðmyndum sem Garðabær hafi látið útbúa og sýni götumynd húsanna við Brúnás 8-16 megi sjá að götumynd sé eðlileg og í samræmi við þann fjölbreytileika sem almennt megi gera ráð fyrir í einbýlishúsahverfum. Þá sé ólíklegt að truflun verði af innsýn yfir á lóð kæranda umfram það sem eðlilegt sé og fólk sem búi í þéttbýli verði að sætta sig við.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum vegna kærumálsins en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Fram kemur í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að óheimilt sé að reisa mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa eða Mannvirkja­stofnunar, sbr. 2. og 3. mgr. greinds ákvæðis. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. á byggingarfulltrúi í viðkomandi sveitarfélagi að veita byggingarleyfi, eftir atvikum í samræmi við samþykkt skv. 1. mgr. 7. gr. laganna, vegna hvers konar mannvirkjagerðar sem háð er byggingarleyfi skv. 1. mgr. Í nefndri 1. mgr. 7. gr. kemur fram að sveitarstjórn sé heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi. Sveitarstjórn er heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa, vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þegar byggingar­fulltrúinn í Garðabæ samþykkti hið kærða byggingarleyfi var í gildi samþykkt nr. 863/2011 um afgreiðslur byggingarnefndar Garðabæjar. Í 2. gr. þeirrar samþykktar kemur fram að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa samkvæmt III. kafla laga um mannvirki sé að bæjarráð hafi samþykkt útgáfuna en bæjarráð annist verkefni byggingar­nefndar samkvæmt 7. gr. laganna.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum var samþykkt byggingaráforma ekki lögð fyrir bæjarráð að nýju eftir að byggingarfulltrúi samþykkti breytingar á hæðarkótum á aðaluppdráttum 6. júlí 2018, svo sem kveðið var á um í 2. gr. fyrrgreindrar samþykktar um afgreiðslur byggingarnefndar Garðabæjar. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna sáttaumleitana í málinu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

76/2018 Dugguvogur

Með

Árið 2019, föstudaginn 5. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2018 um að synja umsókn um leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2018, er barst nefndinni 25. s.m., kæra fasteignaeigendur 2. hæðar að Dugguvogi 8-10, „úrskurð skipulagsfulltrúa frá 27. apríl 2018 um að húsnæðið samræmist ekki skipulagi“. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að kærð sé til ógildingar synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2018 á leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. september 2018.

Málavextir: Kærendur sóttu um leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. apríl 2018 og var henni vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem tók umsóknina fyrir 27. s.m. Í niðurstöðu umsagnar skipulagsfulltrúa var m.a. tekið fram að ekki væri hægt að samþykkja íbúðir í iðnaðarhúsnæði. Á afgreiðslufundi sínum 2. maí 2018 synjaði byggingarfulltrúi umsókn kærenda með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 27. apríl s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að teikningar af húsnæðinu við Dugguvog hafi áður verið samþykktar sem íbúðir 11. nóvember 2008. Vísað sé til teikninga af húsnæðinu sem samþykktar hafi verið 14. febrúar 2017, þar sem slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafi gert athugasemdir. Samkvæmt skipulagi sé heimilt að nota umrætt húsnæði sem íbúðir.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kröfu kærenda verði hafnað. Forsaga málsins sé sú að í nóvember 2008 hafi byggingarfulltrúi samþykkt byggingarleyfisumsókn þar sem sótt hafi verið um að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðir. Umsóknin hafi verið samþykkt með þeim skilyrðum að skráningartafla yrði lagfærð fyrir útgáfu á byggingarleyfi. Fleiri skilyrði hafi legið fyrir, s.s. að gerð skyldi grein fyrir brunahólfum rýmisins bæði lóðrétt og lárétt og að eignaskiptayfirlýsingu yrði þinglýst. Framangreind skilyrði hefðu aldrei verið uppfyllt og hefði byggingarleyfið fallið úr gildi ári síðar. Árið 2011 hafi síðan verið sótt um endursamþykkt á íbúðum á annarri hæð, matshluta 02, með vísan til samþykktarinnar frá 2008, ásamt umsókn um leyfi til að innrétta hluta efri hæðar matshluta 02 sem skrifstofur í húsinu. Afgreiðslu þeirrar umsóknar hafi verið frestað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa í október 2011 með vísan til þess að ekki hefði verið bætt úr athugasemdum varðandi lagfæringar á skráningartöflu. Einnig hefðu legið fyrir athugasemdir frá forvarnardeild slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins er lutu að eldvörnum.

Synjun byggingarleyfisumsóknarinnar hafi byggt á umsögn skipulagsfulltrúa frá 27. apríl 2018. Í umsögninni segi m.a. að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé lóðin skilgreind á miðsvæði (M19) á þróunarsvæði (Þ37) fyrir uppbyggingu blandaðrar byggðar í borgarhluta 04, Laugardal. Það sé breyting frá eldra aðalskipulagi þar sem lóðin hafi verið á svæði þar sem landnotkun hafi verið takmörkuð við iðnaðar- og athafnasvæði. Ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir lóðina, en unnið hafi verið rammaskipulag fyrir Vogabyggð árið 2013, svæði 1-4, en umrætt svæði hafi fengið númerið 3. Fyrir liggi að ganga frá deiliskipulagi fyrir Vogabyggð 3, en þegar hafi verið samþykkt deiliskipulag fyrir Vogabyggð 1 og 2. Rammaskipulag og gildar deiliskipulagsáætlanir fyrir Vogabyggð 1 og 2 geri ráð fyrir að hverfið sé heildstæð og sjálfbær eining sem einkennist af blöndu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis með verslun og þjónustu. Endanlegur fjöldi íbúða og heildarbyggingarmagn ráðist við vinnslu á deiliskipulagi.

Ekki sé hægt að samþykkja íbúðir í iðnaðarhúsnæði. Umrædd lóð sé á miðsvæði fyrir blandaða byggð en ekki iðnaðarsvæði og hafi verið það frá gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Þar af leiðandi skuli skoða hljóðvist, loftgæði, rykmyndun, starfsemi og aðra umhverfisþætti á annan hátt en áður hafi verið gert á svæðinu. Til að mynda séu ríkari kröfur gerðar til hljóðvistar innan- og utanhúss á lóðinni, sorpmála, aðgengis fyrir alla, bílastæða og frágangs.

Niðurstaða: Lóðin Dugguvogur 10 er á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin skilgreind á miðsvæði (M19) á þróunarsvæði (Þ52). Þar kemur fram að á miðsvæðum sé fyrst og fremst gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, stjórnsýslu og skrifstofum en einnig íbúðum, einkum á efri hæðum bygginga. Samkvæmt aðalskipulagi telst Vogabyggð til þróunarsvæðis 52. Þar er gert ráð fyrir íbúðum og skrifstofum, auk verslunar og þjónustu. Áhersla skuli lögð á 3-5 hæða randbyggð, heildstæðar götumyndir og borgarmiðað gatnakerfi.

Hin kærða synjun um byggingarleyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog var rökstudd með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 27. apríl 2018. Í þeirri umsögn var niðurstaðan svohljóðandi: „Ekki er hægt að samþykkja íbúðir í iðnaðarhúsnæði. Umrædd lóð er á miðsvæði fyrir blandaða byggð en ekki iðnaðarsvæði og hefur verið það frá gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Þ.a.l. skal skoða hljóðvist, loftgæði, rykmyndun, starfsemi og aðra umhverfisþætti á annan hátt en áður var gert á svæðinu. T.a.m. eru  ríkari kröfur um hljóðvist innan- og utanhúss á lóðinni, sorpmál, aðgengi fyrir alla, bílastæði, frágang á lóð o.fl.“

Ekki er fallist á að gildandi aðalskipulag hafi girt fyrir veitingu byggingarleyfis fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum, enda er beinlínis gert ráð fyrir íbúðum á umræddu svæði eins og áður greinir. Þá liggja engar upplýsingar fyrir í málinu um að umrætt húsnæði uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til íbúðarhúsnæðis skv. ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012, s.s um hljóðvist, sorpmál, aðgengi fyrir alla, bílastæði og til frágangs á lóð.

Með hliðsjón af framangreindu var rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar svo verulega áfátt að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2018 um að synja umsókn um leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog.

36/2018 Brimslóð

Með

Árið 2019, föstudaginn 5. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2018, kæra á afgreiðslu skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar Blönduósbæjar á umsóknum vegna lóðanna nr. 10a og 10c við Brimslóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur ákvarðanir skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar Blönduósbæjar vegna lóða sinna nr. 10a og 10c við Brimslóð. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að felld verði úr gildi afgreiðsla skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar frá 7. febrúar 2018 á umsóknum kærenda er varða lóðirnar og framkvæmdir á þeim.

Gögn málsins bárust frá Blönduósbæ 10. apríl og 1. júní 2018. Viðbótarupplýsingar bárust frá sveitarfélaginu í mars 2019.

Málsatvik og rök: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Af gögnum málsins verður ráðið að kærendur hafi átt í samskiptum við Blönduósbæ allt frá árinu 2005, ýmist vegna umsókna þeirra um breytta notkun á húsnæðinu við Brimslóð 10a eða hugmynda þeirra um stækkun greindrar lóðar. Í nóvember 2017 tók skipulags-, umhverfis- og umferðarnefnd Blönduósbæjar fyrir ósk kærenda um viðræður um stækkun lóðanna Brimslóðar 10a og 10c og byggingarreita innan þeirra. Í svari nefndarinnar kom fram að vinna við „verndarsvæði í byggð“ stæði yfir og ekki yrðu teknar neinar ákvarðanir um byggingar á svæðinu fyrr en þeirri vinnu væri lokið. Í janúar 2018 tók nefndin á ný fyrir fyrirspurnir kærenda um stækkun lóðanna og byggingarreita innan þeirra og var erindið afgreitt á sömu lund auk þess sem á það var bent að uppfylla þyrfti skipulagslög og fylgja þeim við úrlausn erindisins.

Með bréfum, dags. 1. febrúar 2018, sendu kærendur inn umsóknir um stækkun lóðanna við Brimslóð 10a og 10c, um niðurrif á geymsluhúsnæði á lóðinni við Brimslóð 10c og um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu í stað eldri byggingar á lóðinni. Á fundi skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar 7. febrúar 2018 var bókað að nefndin legðist ekki gegn því að undirbúningi yrði haldið áfram með þeim fyrirvara að endanlegri afgreiðslu yrði frestað þar til afgreiðslu tillögu um verndarsvæði í byggð væri lokið. Þá kom fram að nefndin væri jákvæð fyrir því að taka til skoðunar byggingarhugmyndir og stækkun lóðanna við Brimslóð 10a og 10c en í því sambandi þyrfti að hafa hliðsjón af niðurstöðu vinnu um verndarsvæði í byggð. Sem áður þyrfti að uppfylla skipulagslög og fylgja þeim við úrlausn erindisins.

Kærendur halda því m.a. fram að Blönduósbær hafi torveldað uppbyggingu fyrirtækis þeirra og komið í veg fyrir fyrirhugaðar áætlanir um frekari uppbyggingu þess. Brot sveitarfélagsins felist nánar tiltekið í því að ekki hafi verið staðið við loforð um stækkun lóðar, ekki hafi verið lögð fram tillaga um lóðarmörk af hálfu bæjarins auk þess sem hafnað hafi verið að veita leyfi fyrir stækkun lóða á þeim forsendum að unnið væri að verndarsvæði í byggð. Þá hafi nefndarmenn skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar bæjarins verið vanhæfir við afgreiðslu máls kærenda 7. febrúar 2018.

Sveitarfélagið vísar til þess að samkvæmt 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skuli koma fram hvaða ákvörðun er kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru. Verulega skorti á að það komi fram með skýrum hætti hvers sé krafist, hvaða ákvörðun sé kærð og hvaða rök búi að baki. Ómögulegt sé fyrir sveitarfélagið að svara kærunni með nákvæmum hætti og gerð sé sú krafa að kærunni verði vísað frá. Jafnframt hljóti kærufrestur að vera löngu liðinn í málinu og kæran sé því ekki tæk til meðferðar af þeirri ástæðu. Vert sé að benda á að skipulags-, umhverfis- og umferðarnefnd bæjarins hafi ekki tekið neinar endanlegar ákvarðanir vegna fasteigna kærenda og því sé erfitt að gera sér grein fyrir hvaða ákvarðanir séu til umfjöllunar fyrir úrskurðarnefndinni. Þá mótmæli Blönduósbær meintu vanhæfi nefndarmanna, enda séu tengsl þeirra við málefni varðandi Brimslóð 10 of langsótt til þess að valda vanhæfi þeirra.

—–

Kærendur hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða breyta því nema að fengnu byggingarleyfi sem byggingarfulltrúi veitir skv. 2. mgr. nefndrar 9. gr. laganna. Þá er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélaga í höndum sveitarstjórna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og er samkvæmt 48. gr. laganna óheimilt að breyta landamerkjum og lóðarmörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu sóttu kærendur um stækkun lóðanna við Brimslóð 10a og 10c og um byggingarleyfi fyrir annars vegar nýbyggingu í stað eldri byggingar á lóðinni við Brimslóð 10c og hins vegar til niðurrifs geymsluhúsnæðis á sömu lóð. Voru allar umsóknirnar dagsettar 1. febrúar 2018. Á fundi skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar Blönduósbæjar 7. s.m. voru umsóknir kærenda teknar fyrir. Nefndin bókaði m.a. að erindi kærenda yrðu skoðuð samhliða vinnunni um verndarsvæði í byggð. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá sveitarfélaginu hafa umsóknir kærenda enn ekki verið afgreiddar efnislega til samþykktar eða synjunar. Hefur sveitarfélagið og upplýst að  verndarsvæði í byggð sé enn í vinnslu vegna svæðisins. Sveitarfélagið hafi sent málið til viðeigandi ráðuneytis til staðfestingar en því sé ekki lokið.

Samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga um mannvirki er endanleg ákvörðun um afdrif umsóknar um byggingarleyfi á hendi byggingarfulltrúa. Þá þarf samþykki sveitarstjórnar að koma til ef breyta á lóðarmörkum samkvæmt áður greindu ákvæði skipulagslaga. Afgreiðsla hvorugs þessara aðila liggur fyrir í málinu. Er þannig ljóst að ekki liggur fyrir úrskurðarnefndinni ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þegar svo háttar ber að vísa máli frá skv. fyrirmælum 1. mgr. ákvæðisins.  Í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er þó sérstök heimild til að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til æðra stjórnvalds og ber að beina slíkri kæru til þess stjórnvalds sem stjórnvaldsákvörðun í málinu verður kærð til, en skv. 59. gr. mannvirkjalaga og 52. gr. skipulagslaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Verður að svo komnu máli að líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls skv. fyrrgreindu ákvæði 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þrátt fyrir að enn standi yfir vinna um verndarsvæði í byggð er til þess að líta að rúmt ár er liðið frá kæru og af henni verður ekki annað ráðið en að vilji kærenda standi til að fá úrlausn sinna mála. Þá er óljóst hvenær þeirri vinnu sem vísað hefur verið til lýkur samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað. Að þeim atvikum virtum er það mat úrskurðarnefndarinnar að rétt sé af byggingarfulltrúa og sveitarstjórn að taka umsóknir kærenda til efnislegrar afgreiðslu án frekari dráttar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúann á Blönduósi að taka til efnislegrar afgreiðslu, án ástæðulauss dráttar, umsókn kærenda, dags. 1. febrúar 2018, um byggingarleyfi á lóðinni við Brimslóð 10c, og umsókn kærenda, dags. s.d., um niðurrif á geymsluhúsnæði á sömu lóð.

Lagt er fyrir sveitarstjórn Blönduósbæjar að taka til efnislegrar afgreiðslu, án ástæðulauss dráttar, umsókn kærenda, dags. 1. febrúar 2018, um stækkun lóðanna við Brimslóð 10a og 10c.

17/2018 Langabrekka

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2018, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Kópavogsbæjar frá 15. janúar 2018 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr að Löngubrekku 5, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Löngubrekku 5, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsráðs Kópavogsbæjar frá 15. janúar 2018 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr að Löngubrekku 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að byggingarfulltrúa Kópavogs verði gert að veita leyfi fyrir viðbyggingu við bílskúrinn að Löngubrekku 5.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 20. júlí 2018.

Málavextir: Kærandi hefur um árabil óskað eftir leyfi bæjaryfirvalda Kópavogs fyrir byggingu við bílskúr sinn að Löngubrekku 5. Hefur því erindi hans ítrekað verið hafnað af bæjaryfirvöldum, auk þess sem íbúar á aðliggjandi lóð hafa ætíð andmælt þeim byggingar­áformum. Umrædd fasteign er á ódeiliskipulögðu svæði.

Kærandi lagði fram umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu bílskúrs að Löngubrekku 5 hinn 8. júní 2015. Á fundi skipulagsnefndar 22. s.m. var samþykkt að grenndarkynna umsótta breytingu, með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemdir bárust frá íbúum Álfhólsvegar 61. Að lokinni grenndarkynningu hafnaði skipulagsnefnd umsókninni 26. október s.á. Bæjarráð tók afgreiðslu skipulagsnefndar fyrir hinn 29. s.m. og vísaði henni til bæjarstjórnar, sem staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar 10. nóvember 2015. Byggingarfulltrúi hafnaði í kjölfarið byggingarleyfisumsókn kæranda hinn 12. s.m. með vísan til afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarstjórnar og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með bréfi, dags. 10. desember 2015, kærði kærandi þá ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum 16. nóvember 2017. Kærandi sótti að nýju um leyfi fyrir viðbyggingu við áðurgreindan bílskúr 20. s.m. og vísaði byggingarfulltrúi umsókninni til skipulagsráðs á fundi sínum 7. desember s.á., með vísan til 44. gr. skipulagslaga. Skipulagsráð hafnaði erindinu 15. janúar 2018 og vísaði því til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi skipulagsráðs fyrir ákvörðuninni 17. s.m. Bæjarráð og bæjarstjórn staðfestu afgreiðslu skipulagsráðs hinn 18. og 23. janúar 2018 og var umbeðinn rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 30. s.m. Með vísan í afgreiðslu skipulagsráðs og bæjarstjórnar hafnaði byggingarfulltrúi byggingarleyfisumsókn kæranda hinn 6. júlí 2018.

Málsrök kæranda: Kærandi telur augljóst að engin frekari rannsókn hafi farið fram vegna byggingarleyfisumsóknar hans, s.s. með því að afla umsagnar sérfróðra aðila um málið, og með því hafi verið brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sé kveðið á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin. Í þessu máli hafi verið sérstakt tilefni fyrir skipulagsyfirvöld til frekari rannsóknar á málinu eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fellt fyrri ákvörðun byggingarfulltrúa úr gildi. Skipulagsráð hafi ákveðið að hundsa niðurstöðu úrskurðarnefndar. Í umsögn bæjarskipulags Kópavogs um stækkun bílskúrs frá 16. mars 2007 sé mælt með því að leyfið verði veitt og í umsögn frá 26. október 2015 séu ekki tilgreind nein atriði sem valda ættu því að umsókninni yrði hafnað.

Rökstuðningur skipulagsráðs fyrir ákvörðuninni sé vægast sagt sérkennilegur. Látið sé að því liggja að umsókn um byggingarleyfi hafi eingöngu snúist um að grenndarkynna umsóknina og að ekki hafi þurft að taka afstöðu til annars. Synjunin hafi eingöngu byggst á mótmælum lóðarhafa Álfhólsvegar 61 og fullyrðingum þeirra um að kærandi muni nota viðbygginguna á annan hátt en getið sé um í umsókn. Í rökstuðningi sé fullyrt að viðbyggingin muni hafa veruleg grenndaráhrif gagnvart aðliggjandi lóð, en hvorki sé vitnað í rannsóknir á málinu né rök eða útskýringar færðar fyrir fullyrðingunni. Í engu sé tekið undir þessar fullyrðingar í fyrrnefndum umsögnum bæjarskipulags Kópavogs.

Í lóðarleigusamningi frá 1. janúar 2008 sé hvergi getið um að hafa skuli samráð við lóðarhafa aðliggjandi lóðar við framkvæmdir við lóðamörk, eins og fullyrt sé í rökstuðningi skipulagsráðs. Samkvæmt núgildandi byggingarlögum sé ekki krafist samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóða vegna framkvæmda á lóðamörkum. Þá sé fullyrt í rökstuðningnum að umrædd viðbygging sé ekki í samræmi við tilgang og markmið skipulagslaga og mannvirkjalaga nr. 160/2010. Þessi fullyrðing sé ekki útskýrð nánar.

Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær vísar til þess að samkvæmt 14. gr. lóðarleigusamnings Kópavogsbæjar fyrir Löngubrekku 5 skuli lóðarhafi hafa samráð við nágranna um frágang á sameiginlegum lóðamörkum. Af því leiði að séu framkvæmdir fyrirhugaðar á lóðamörkum þurfi samþykki aðliggjandi lóðarhafa að liggja fyrir. Ljóst sé að hin umdeilda viðbygging muni liggja að lóðamörkum Álfhólsvegar 61 og framkvæmdir á lóðamörkum því óhjákvæmilegar. Þar sem lóðarhafi Álfhólsvegar 61 hafi ítrekað mótmælt umræddum framkvæmdum hafi skipulagsráð ekki þótt ástæða til að grenndarkynna tillöguna að nýju enda væri byggingarleyfisumsóknin efnislega samhljóða fyrri umsókn, sem hafi verið grenndarkynnt. Af þeirri ástæðu hafi skipulagsráð hafnað grenndarkynningu framlagðrar tillögu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds-ákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðar­nefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en það fellur utan valdheimilda nefndarinnar að leggja fyrir byggingarfulltrúa að veita hið umsótta byggingarleyfi. Verður því ekki tekin afstaða til þess hluta kröfugerðar kæranda í máli þessu.

Endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 11. gr., 13. gr. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Verður því svo litið á að í máli þessu sé kærð fyrirliggjandi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 6. júlí 2018 um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr að Löngubrekkur 5, enda er hin kærða ákvörðun skipulagsráðs liður í málsmeðferð byggingarleyfisumsóknar en telst ekki ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar er tekið fram að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd, sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir, geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr. laganna, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar sé framkvæmdin í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Verður ekki ráðið af orðalagi ákvæðisins að sú skylda sé fyrir hendi þegar sveitarstjórn, eða öðrum aðila sem falin er fullnaðarafgreiðsla máls, leggst gegn því að veita umsótt leyfi.

Í rökstuðningi Kópavogsbæjar fyrir hinni kærðu ákvörðun er rakið að umsókn kæranda sé efnislega sú sama og grenndarkynnt hafi verið árið 2015. Hafi það verið mat skipulagsráðs að ekki væri forsenda fyrir annarri grenndarkynningu þar sem lóðarhafi aðliggjandi lóðar hefði verið mótfallinn fyrirhugaðri viðbyggingu frá upphafi og að samkvæmt gildandi lóðarleigusamningi skuli hafa samráð við lóðarhafa aðliggjandi lóðar vegna framkvæmda við lóðamörk. Fyrir hafi legið að samþykki þeirra fengist ekki fyrir umsóttum framkvæmdum. Verður að telja rök þessi málefnaleg fyrir þeirri ákvörðun að synja um grenndarkynningu umsóknar kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki liggur fyrir að aðstæður hafi breyst eftir grenndarkynningu fyrri umsóknar kæranda, verður kröfu kæranda um ógildingu hennar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 6. júlí 2018 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr að Löngubrekku 5 í Kópavogi.

11/2019 Ægisíða

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2019 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu norðan við einbýlishús á lóð nr. 44 við Ægisíðu og breyta innra skipulagi þess.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. febrúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir TD á Íslandi ehf., Starhaga 16, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2019 að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu norðan við einbýlishús á lóð nr. 44 við Ægisíðu og breyta innra skipulagi þess. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar­­­­nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunar­kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. febrúar 2019.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 11. september 2018 var tekin fyrir umsókn eiganda um leyfi til að byggja steinsteypta viðbyggingu norðan við hús og til að breyta innra skipulagi einbýlishúss á lóð nr. 44 við Ægisíðu. Var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa sem ákvað á fundi sínum 14. s.m. að umsóknin skyldi grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum. Athugasemdir bárust á kynningartíma umsóknarinnar, m.a. frá kæranda. Umhverfis- og skipulagsráð afgreiddi hina grenndarkynntu umsókn 12. desember 2018 með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 16. nóvember s.á. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. janúar 2019 var byggingarleyfisumsóknin samþykkt og staðfesti borgarráð­ þá afgreiðslu 17. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi telur uppbyggingu á lóðinni ekki vera í samræmi við sýn upphaflegs hönnuðar eða borgaryfirvalda, skv. teikningum frá 1952, 1955 og 1992. Teikning af svæðinu frá 1955 sýni að gert hafi verið ráð fyrir bílskúr vestan megin við íbúðarhúsið að Ægisíðu 44. Deiliskipulag fyrir Starhaga og Þormóðsstaðaveg geri hins vegar ekki ráð fyrir bílskúr við fyrrgreint hús. Fyrirhuguð viðbygging samræmist ekki byggðamynstri og hafi meiri áhrif á götumynd Starhaga en götumynd Ægisíðu. Viðbyggingin verði í beinni sjónlínu frá gluggum í norðvesturhorni húss kæranda að Starhaga 16, þ.e. bæði frá kjallara og miðhæð hússins. Fyrirhuguð viðbygging muni því draga verulega úr útsýni og upplifun frá rýmunum auk þess sem hún muni þrengja að innkeyrslu að bílskúr að Starhaga 16.

Ekki hafi verið óskað eftir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar vegna uppbyggingar á lóðarmörkum í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 þar að lútandi. Ljóst sé að samþykki beggja lóðarhafa aðliggjandi lóða þurfi fyrir því að reisa girðingu á mörkum lóðanna, sé girðingin 1,8 m að hæð. Óski kærandi eftir að svæðið í heild sinni verði deiliskipulagt eða að lögð verði fram ný teikning þar sem tekið verði tillit til athugasemda hans. Óskað sé m.a. eftir því að nýbyggingin verði höfð í beinni línu við bílskúr kæranda á lóðinni við Starhaga 16.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld fallast ekki á þau rök kæranda að viðbygging við aðalbyggingu á baklóð Ægisíðu 44 sé ekki í samræmi við gamlar teikningar eða áætlanir. Teikningin frá 1955 sýni vissulega bílskúr vestan megin við húsið að Ægisíðu 44 en þar sé húsið á Starhaga 16 einnig sýnt mun minna en það sé nú. Þótt þessi teikning sé til þá sé svæðið ódeiliskipulagt. Rétt sé að deiliskipulagsuppdráttur fyrir Starhaga og Þormóðsstaða­veg sýni engan bílskúr á lóð við Ægisíðu 44, en það deiliskipulag fjalli ekki um lóðirnar norðan við Starhaga eða Ægisíðu 44 og sýni eingöngu það ástand sem þar hafi verið árið 1992.

Byggðamynstur fyrir Starhaga og Ægisíðu einkennist af því að íbúðarhús séu framarlega eða á miðri lóð og bílskúrar í aukahlutverki á baklóð. Engin byggingarlína sé til fyrir hús á baklóðum og teljist staðsetning og stærð heimilaðrar byggingar falla að því byggðamynstri sem einkenni hverfið. Jafnframt sé ekki hægt að fallast á röksemdir um að viðbygging á baklóð Ægisíðu 44 skerði útsýni úr gluggum í kjallara húss við Starhaga 16 eða úr gluggum sem snúi út að baklóð. Ekki séu sannfærandi röksemdir fyrir skertu útsýni þegar hæð frá gólfi í glugga sé 1,8 m auk þess sem bílskúr á lóð Starhaga 16 sé í sjónlínu og skerði útsýni úr gluggum úr kjallara og úr gluggum hússins sem snúi út að baklóð. Íbúar í þéttri byggð geti ávallt vænst þess að einhverjar breytingar verði í nágrenni þeirra sem geti haft áhrif á grenndarhagsmuni þeirra, en réttur til útsýnis sé ekki lögbundinn.

Í lögum eða reglugerðum sé ekki gerður áskilnaður um samþykki eigenda aðlægra lóða þegar byggt sé á lóðarmörkum skv. gr. 7.2.3. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Vísað sé í þessu sambandi til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í kærumáli nr. 58/2011.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir viðbyggingu á baklóð Ægisíðu 44 sem liggja mun að vesturmörkum lóðar kæranda að Starhaga 16, en ekki er í gildi deiliskipulag er tekur til lóðarinnar Ægisíðu 44.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar er kveðið á um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdarfresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og kom kærandi að athugasemdum sínum við grenndarkynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði og hún samþykkt auk þess sem afstaða var tekin til framkominna athugasemda. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingarleyfis­umsóknina á grundvelli ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 17. janúar 2019.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin við Ægisíðu 44 á svæði merktu ÍB-3 Hagar í borgarhluta 01 Vesturbæ. Um svæðið segir að byggð þess sé fastmótuð og hafi svæðið verið fullbyggt um 1970. Byggð sé heilsteypt að stærstum hluta. Samkvæmt aðalskipulaginu má í fastmótaðri byggð gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Í ljósi þessa verður ekki séð að umrætt leyfi fari gegn framangreindum markmiðum aðalskipulags.

Húsið á lóðinni Ægisíðu 44 er 200 m² að stærð samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en á samþykktum aðaluppdráttum er fyrirhuguð viðbygging 73,2 m². Nýtingarhlutfall lóðarinnar eftir stækkun telst því 0,31. Til samanburðar má nefna að nýtingarhlutfall lóðarinnar Ægisíðu 46 er 0,42 og nýtingarhlutfall lóðar kæranda er 0,47. Þá er nýtingarhlutfall samkvæmt deiliskipulagsskilmálum Ægisíðu, sem var samþykkt árið 2005, að jafnaði á bilinu 0,5–0,6 en þar er hámarksnýtingarhlutfall 0,65. Nýtingarhlutfall aðliggjandi lóða er því töluvert hærra en lóðar byggingarleyfishafa. Við götuna Starhaga og Ægisíðu eru bílskúrar staðsettir innarlega á lóð, eða þar sem lóðamörk eru við baklóðir Lynghaga, og hafa þeir því óveruleg áhrif á götumynd. Þá eru dæmi þess á sambærilegum lóðum í nágrenni við lóð byggingarleyfishafa að reist hafi verið bakhús eða viðbyggingar á baklóðum til þess að nýta lóðirnar sem best. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að byggðamynstur eða yfirbragð byggðar breytist við tilkomu viðbyggingar á baklóð byggingarleyfishafa.

Samkvæmt framangreindu liggur ekki annað fyrir en að málsmeðferð byggingarleyfis-umsóknarinnar hafi verið lögum samkvæmt enda hin leyfða byggingarframkvæmd í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Voru því skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga uppfyllt og heimilt að grenndarkynna hina umþrættu umsókn.

Kærandi heldur því fram að með hinu kærða byggingarleyfi sé með ólögmætum hætti gengið gegn grenndarhagsmunum hans vegna útsýnisskerðingar, m.a. frá gluggum í norðvestur horni Starhaga 16, bæði frá kjallara og miðhæð hússins. Þar að auki muni viðbyggingin þrengja að bílskúr kæranda. Samkvæmt fyrirliggjandi uppdráttum mun fyrirhuguð viðbygging að stærstum hluta liggja samsíða bílskúr kæranda sem liggur að lóðarmörkum Ægisíðu 44 og er í ­sjónlínu­­ frá framangreindum rýmum í húsi kæranda. Útsýni er því þegar skert frá húsi kæranda til norðvesturs vegna bílskúrsins en umdeild viðbygging verður í sambærilegri hæð. Verður því ekki séð að heimilaðar breytingar raski grenndarhagsmunum kæranda að nokkru marki vegna skerðingar á útsýni. Þá verður viðbyggingin staðsett inni á lóð leyfishafa og mun hún því ekki þrengja að bílskúr á lóð kæranda. Ekki er fallist á með kæranda að byggingarleyfishafi þurfi að afla samþykkis kæranda fyrir heimilaðri byggingarframkvæmd samkvæmt gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, enda tekur ákvæðið samkvæmt efni sínu einungis til skjólveggja eða girðinga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2019 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu norðan við einbýlishús að Ægisíðu 44 og breyta innra skipulagi þess.

149/2017 Nesbali

Með

Árið 2019, föstudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 149/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 24. október 2016 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu að Nesbala 35.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. desember 2017, er barst nefndinni 22. s.m., kæra  fyrri eigandi Nesbala 33, og Lísa B. Hjaltested og eigandi, Nesbala 33, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 24. október 2016 að samþykkja byggingarleyfi vegna nýbyggingar að Nesbala 35. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir bæjarstjórn að láta fjarlægja ólögmætan sökkul og lagnir undir fyrirhuguðu gróðurhúsi á lóðinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 9. apríl 2018.

Málavextir: Með umsókn, dags. 13. maí 2016, sótti lóðarhafi Nesbala 35 um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu á nefndri lóð. Lóðin var þá á ódeiliskipulögðu svæði en vinna við deiliskipulag fyrir svæðið stóð yfir af hálfu Seltjarnarnesbæjar. Með bréfi, dags. 13. júlí 2016, gerði einn kærenda máls þessa athugasemdir við ósamþykkta uppdrætti að fyrirhugaðri nýbyggingu, m.a. varðandi gólfkóta og nýtingarhlutfall. Byggingarfulltrúi veitti 15. s.m. takmarkað byggingarleyfi til jarðvinnu vegna byggingar húss á nefndri lóð. Plötupróf var framkvæmt 7. október 2016 og 24. s.m. samþykkti byggingarfulltrúi aðaluppdrætti, uppdrætti af burðarvirki og teikningar að lögnum. Sama dag samþykkti hann einnig takmarkað byggingarleyfi til að fullgera sökkla og grunnlagnir. Fyrrnefndur kærandi hafði aftur samband við byggingarfulltrúa 10. nóvember s.á. og gerði athugasemd við fjarlægð sökkuls frá lóðarmörkum og að byggingarframkvæmdir væru hafnar án þess að fyrir lægi samþykkt deiliskipulag. Í svari byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 14. s.m., kom fram að vegna tafa við gerð nýs deiliskipulags fyrir Vestursvæði hafi verið gefið út takmarkað byggingarleyfi til að ljúka við sökkla, grunnlagnir og grunnplötu. Þá segir í svari byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 23. nóvember 2016, að uppdrættir sýni áformaða byggingu innan byggingarreits samkvæmt gildandi byggingarskilmálum en meira nýtingarhlutfall, sem þó sé innan skilmála deiliskipulags sem sé í vinnslu. Samþykkt sé að hús verði 3,15 m frá lóð nr. 33 við Nesbala og gólfkóti verði 5,35 m. Breyttir aðaluppdrættir vegna nýbyggingarinnar að Nesbala 35 voru svo samþykktir 21. desember 2016.

Að lokinni kynningu samþykkti skipulags- og umferðarnefnd 11. apríl 2017 að senda bæjar­stjórn til staðfestingar tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vestursvæðis, sem m.a. tekur til lóðarinnar Nesbala 35. Samþykkti bæjarstjórnin skipulagstillöguna á fundi sínum 24. maí 2017 og tók deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. september s.á. Byggingarfulltrúi gaf svo að lokum út endanlegt byggingarleyfi fyrir fram­kvæmdum að Nesbala 35 hinn 17. janúar 2018.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að eitt af markmiðum skipulagslaga nr. 123/2010 sé að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-liður 1. gr. laganna. Ljóst megi vera að bæjaryfirvöld hafi sniðgengið þetta markmið með því að heimila byggingu í trássi við skipulagslög og lög um mannvirki og veita einum aðila ríkari rétt en öðrum. Óheimilt hafi verið að veita leyfi, jafnt takmarkað byggingarleyfi fyrir sökklum sem og leyfi fyrir frekari framkvæmdum, fyrr en eftir samþykkt deiliskipulags og staðfestingu þess með birtingu í Stjórnartíðindum. Með auknu nýtingarhlutfalli umræddrar lóðar í samþykktu deiliskipulagi hafi bæjaryfirvöld staðfest eftir á það ólögmæti sem þau hafi áður samþykkt. Það að eiganda Nesbala 35 sé veitt 15% meiri nýting en öðrum sé tvímælalaust brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að málinu verið vísað frá á þeim grunni að kæran sé of seint fram komin. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun. Af kæru sé raunar ekki fyllilega ljóst hvaða ákvörðun verið sé að kæra. Seltjarnarnesbær gangi út frá því að það séu hin takmörkuðu byggingarleyfi sem veitt hafi verið.

Í málinu liggi fyrir að framkvæmdir við byggingu hússins að Nesbala 35 hafi hafist strax í júlí 2016 þegar veitt hafi verið takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu. Þá hafi kæranda í síðasta lagi mátt vera ljóst að veitt hefði verið leyfi fyrir byggingarframkvæmdum á lóðinni. Einn kærenda hafi þá nokkru áður verið í samskiptum við byggingaryfirvöld, m.a. um teikningar að húsinu o.fl., sbr. m.a. bréf kæranda frá 13. júlí 2016. Plötupróf sem framkvæmt var 7. október 2016 beri með sér að þá þegar hafi verið kominn þjappaður púði á lóðina. Þá liggi fyrir, með hliðsjón af samskiptum kæranda og sveitarfélagsins í byrjun október 2016 og í nóvember s.á. um framkvæmdirnar, að þeim kæranda hafi verið ljóst að veitt hafi verið leyfi fyrir byggingu sökkla, enda framkvæmdir við þá verið hafnar, og í kjölfarið leyfi fyrir uppsteypu hússins, enda hafi kærandi fylgst grannt með framkvæmdum og m.a. mælt staðsetningu sökkla. Þá komi fram í kæru að byggingarframkvæmdum við húsið hafi verið lokið í byrjun september 2017. Kæranda hafi því verið kunnugt um framkvæmdirnar frá miðju ári 2016 þar til þeim hafi nánast verið lokið í september 2017. Þá hafi hann notið aðstoðar lögmanns frá því í apríl 2017. Kærufrestur hafi því verið löngu liðinn þegar framkvæmdin hafi verið kærð 22. desember 2017. Af þeirri ástæðu beri að vísa kærunni frá nefndinni. Enn fremur liggi fyrir að lóðarhafa hafi verið veitt heildar byggingarleyfi á grundvelli gildandi deiliskipulags 17. janúar 2018. Kærendur eigi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af ógildingu fyrri leyfa. Því beri jafnframt að vísa málinu frá á þeirri forsendu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að hann hafi keypt lóð að Nesbala 35 árið 2016 og upp frá því hafi hafist vinna við að hanna húsið í sátt við skipulagsfulltrúa Seltjarnarnesbæjar. Takmarkað byggingarleyfi hafi verið gefið út 15. júlí 2016 og 14. desember s.á., en endanlegt byggingarleyfi hafi verið gefið út 17. janúar 2018 í samræmi við deiliskipulag sem hafi öðlast gildi 7. september 2017. Húsið sé að öllu leyti byggt í samræmi við núgildandi deiliskipulag. Húsið hafi sérstaklega verið lækkað að norðanverðu, sem sé sú hlið sem snúi að húsi kæranda að Nesbala 33, með tilliti til þeirra sem þar búi, auk þess sem gluggar sem snúi í norður hafi verið hafðir sérstaklega háir svo að það væri ekki horft yfir að lóð kærenda.

Niðurstaða: Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Útgáfa byggingarleyfis veitir leyfishafa heimild til að hefja framkvæmdir í samræmi við þegar samþykkta umsókn þegar viðbótarskilyrði 13. gr. laga um mannvirki eru uppfyllt, s.s. um samþykki aðaluppdrátta og greiðslu gjalda. Útgáfan ein og sér felur ekki í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun, enda eru leyfin gefin út í skjóli þegar samþykktra byggingaráforma í samræmi við 11. gr. laganna sem felur í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun. Eins og atvikum máls þessa er háttað verður því litið svo á að í máli þessu sé kærð ákvörðun byggingarfulltrúa frá 24. október 2016 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir framkvæmdum að Nesbala 35 með áritun aðaluppdrátta.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Samkvæmt kæru varð fyrri eigandi Nesbala 33 þess var að fyrirhugað væri að reisa nýbyggingu á lóð Nesbala 35 fyrri part sumars 2016. Gerði hann athugasemdir við bæjaryfirvöld vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar um sumarið. Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 14. nóvember 2016, kemur fram að gefið hafi verið út takmarkað byggingarleyfi til að ljúka við sökkla, grunnlagnir og grunnplötu. Fól hið takmarkaða byggingarleyfi í sér samþykkta uppdrætti fyrir nýbyggingu. Gögn málsins bera með sér að framkvæmdir hafi hafist í kjölfar útgáfu hins takmarkaða byggingarleyfis frá 24. október 2016, en í bréfi kæranda til byggingarfulltrúa frá 10. nóvember s.á. eru gerðar athugasemdir við að byggingarframkvæmdir séu hafnar. Með hliðsjón af þessum aðdraganda og framkvæmdum á lóð Nesbala 35 verður að líta svo á að kæranda hafi mátt vera kunnugt um að byggingarleyfi fyrir nýbyggingu hafi verið samþykkt í síðasta lagi í nóvember 2016. Kæra í máli þessu barst hins vegar ekki fyrr en 22. desember 2017 eða rúmu ári síðar. Var lögbundinn kærufrestur þá löngu liðinn og byggingarframkvæmdum á umræddri lóð að mestu lokið.

Samkvæmt afsali vegna Nesbala 33, dags. 5. desember 2017, tóku núverandi eigendur Nesbala 33 við eigninni hinn 1. ágúst 2017. Ekki liggur fyrir að hvaða leyti þeir voru upplýstir um samskipti fyrri eiganda við bæjaryfirvöld vegna byggingarleyfisumsóknar Nesbala 35 og þann ágreining sem þar var á milli. Við afhendingu voru framkvæmdir að Nesbala 35 hins vegar langt á veg komnar og höfðu nýir eigendur þá tilefni til að afla upplýsinga um hið kærða byggingarleyfi. Verður og ekki fram hjá því litið að fjölskyldutengsl eru á milli núverandi eigenda og fyrri eiganda Nesbala 33. Að því virtu verður að líta svo á að kærufrestur hafi einnig verið liðinn að því er varðar núverandi eigendur Nesbala 33, en kæra í máli þessu barst hátt í fimm mánuðum eftir að þau fengu eignina afhenta.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnis­meðferðar. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins verður kæru þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 kemur m.a. fram í athugasemdum með nefndri 28. gr. að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algerum undantekningartilvikum. Í máli þessu fara hagsmunir kærenda og handhafa hins kærða leyfis ekki saman. Þótt ekki verði séð að fyrri eiganda Nesbala 33 hafi verði leiðbeint um kæruleið og kærufrest í tilefni af samskiptum hans við byggingaryfirvöld vegna málsins, svo sem rétt hefði verið að gera samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, verður sá dráttur sem varð á að málið var kært ekki talinn afsakanlegur í ljósi þess sem áður er rakið. Að sama skapi er dráttur núverandi eigenda Nesbala 33 á að kæra málið heldur ekki talinn afsakanlegur að virtum fyrrnefndum aðstæðum. Eru því ekki uppfyllt skilyrði til að taka málið til meðferðar á grundvelli áðurgreindrar undanþágu 28. gr. stjórnsýslulaga, sbr. og áðurnefndan tímafrest 2. mgr. 28. gr. laganna.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. Þar sem málið verður ekki tekið til efnismeðferðar verður eðli máls samkvæmt ekki tekin afstaða til lögmætis hins kærða byggingarleyfis.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kæru þessari er vísað frá úrskurðarnefndinni.

94/2018 Suðurgata

Með

Árið 2019, föstudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2018, kæra á ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar frá 14. maí 2018 um að samþykkja með skilyrði umsókn um endurnýjun byggingarleyfis vegna Suðurgötu 49.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júlí 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Suðurgötu 49, Siglufirði, þá ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar frá 14. maí 2018 að samþykkja með skilyrði umsókn um endurnýjun byggingarleyfis vegna Suðurgötu 49. Skilja verður mála­tilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar að því er skilyrði hennar varðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjallabyggð 18. júlí 2018 og í febrúar og mars 2019.

Málavextir: Hinn 7. mars 2018 sótti kærandi um endurnýjun byggingarleyfis til breytinga á húseigninni að Suðurgötu 49, en leyfi hafði áður verið samþykkt á árinu 2013. Meðal annars var sótt um að hækka þak, endurbyggja glugga og hurðir, sem og fjarlægja steypuhnalla á göflum. Erindið var grenndarkynnt í samræmi við fyrirmæli 1. og 2. mgr. 44. gr. skipulags­laga nr. 123/2010. Athugasemdir bárust frá sex aðilum og var tæknideild bæjarins falið að vinna úr þeim. Athugasemdirnar lutu m.a. að því að mikilvægt væri að húsið að Suðurgötu 49 héldi upprunalegu útliti og væru steypuhnallarnir ásamt hvítum línum á stöfnum hússins stór hluti af arkitektúr þess. Saga hússins og útlit hefði tilfinningalegt gildi fyrir íbúa. Í svörum tæknideildar bæjarins við athugasemdunum var m.a. vísað til þess að samkvæmt húsaskráningu á Siglufirði, sem var unninn 2012-2013 og uppfærð í desember 2017, einkenndi hinn svokallaði „siglfirski gafl“ mörg steinsteypt hús á Siglufirði frá þriðja áratug 20. aldar og hefði stíllinn ákveðið menningarsögulegt gildi í bænum.

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 14. maí 2018 var umsókn kæranda tekin til afgreiðslu, svo og svör tæknideildar við þeim athugasemdum sem bárust á kynningartíma. Var m.a. bókað að eitt af því sem einkenndi mörg steinsteypt hús á Siglufirði frá þriðja og fjórða áratug 20. aldar, væru kantaðir steypuhnallar á gaflbrúnum húsanna. Teldi nefndin mikilvægt að varðveita þessi einkenni frá húsum þess tíma og gerði þá kröfu að teikningum yrði breytt þannig að útlit og form steypuhnalla (brandmúr) á göflum hússins héldu sér. Að öðru leyti samþykkti nefndin greinda umsókn um byggingarleyfi. Bæjarstjórn Fjallabyggðar staðfesti afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar 6. júní 2018.

Málsrök kæranda: Kærandi fær ekki séð að bókun umhverfis- og skipulagsnefndar byggi á lagalegum forsendum. Í aðalskipulagi sé mælt fyrir um hverfisvernd sem taki til svæðis eða hverfis sem hafi sérkennandi yfirbragð og sé mikilvægur hluti af bæjarmyndinni. Þótt kærandi geti fallist á varðveislugildi einstakra húsa í bænum og að gera megi kröfur í því sambandi bendi hann á að Suðurgata 49 sé ekki á skilgreindu hverfisverndarsvæði skv. Aðalskipulagi Fjallabyggðar 2008-2028. Þá njóti steypuhnallar fasteignarinnar ekki skráðrar hverfisverndar. Byggingaraldur hússins sé 88 ár og því njóti það ekki verndar fyrir aldurs sakir samkvæmt gildandi lögum.

Umtalsverðar skemmdir hafi komið í ljós við endurbyggingu hússins. Skemmdirnar hafi stafað af viðvarandi vatnsleka frá göflum hússins, auk þess sem óafturkræfur skaði hafi orðið á steinsteypu svokallaðra hnalla (brandmúra) svo hætta stafaði af. Að mati hönnunarstjóra verksins beri að fjarlægja hnallana. Gæði steinsteypunnar séu svo léleg að verja þurfi útveggina fyrir ágangi veðurs með klæðningu, t.d. bárujárni. Með því að hverfa frá hinum steinsteypta stíl millistríðsáranna og líkjast byggð aldamótanna 1900 megi setja húsið á bás með byggingarstíl bárujárnshúsanna í bænum. Hér sé um að ræða breytingu á steinsteyptu húsi í bárujárnshús. Að halda í hnallana á bárujárnshúsi sem tilheyri steinsteypuhúsum sé ekki forsvaranlegt. Steinsteypan í húsinu sé ónothæf vegna aldurs og lélegs viðhalds.

Með ódagsettu bréfi er barst úrskurðarnefndinni 14. febrúar 2019 vakti kærandi athygli á því að framkvæmdir hefðu verið stöðvaðar vegna kæru til nefndarinnar. Á meðan beðið hafi verið úrskurðar nefndarinnar hafi skemmdir aukist innandyra en tekist hafi að stemma stigu við auknum skaða með aðgerðum. Kærandi fari fram á forgang kærumálsins vegna aðkallandi skemmda og tjóns, en ljóst sé að eigendur hafi nú þegar beðið tjón vegna tafa.

Málsrök Fjallabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að byggingarleyfið hafi verið samþykkt að mestu leyti en skipulags- og umhverfisnefnd hafi hins vegar ekki getað fallist á að steypuhnallar á göflum hússins yrðu fjarlægðir. Í kærunni komi fram að tilgangur breytinganna sé meðal annars að færa húsið í þann byggingarstíl sem hafi einkennt byggð aldamótanna 1900 með bárujárnsklæðningu og hverfa frá þeim einkennum sem hafi einkennt hús á Siglufirði frá þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar með köntuðum steypuhnöllum á gaflbrúnum. Á þetta hafi skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarstjórn ekki getað fallist.

Það sé mat sveitarfélagsins að byggingarleyfisumsóknin hafi fengið málefnalega umfjöllun og að skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki hafi verið fylgt í hvívetna. Við afgreiðslu umsóknarinnar hafi verið komið til móts við kæranda og honum gert kleift að breyta húsinu og gera það þannig betra til íbúðar. Einnig hafi við afgreiðslu umsóknarinnar verið horft til upphaflegs arkitektúrs hússins og samþykkt að halda skyldi í sérkenni sem húsið beri með sér.

Í umsókn kæranda um byggingarleyfi hafi hvergi komið fram að hnallarnir séu skemmdir og að óafturkræfur skaði hefði orðið á þeim. Mörg sambærileg hús séu á Siglufirði sem hafi þessa hnalla og sé búið sé að klæða þau til þess að halda þessu útliti.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar frá 14. maí 2018 að samþykkja umsókn um endurnýjun byggingarleyfis vegna breytinga á húsnæðinu við Suðurgötu 49 á Siglufirði með því skilyrði að teikningum yrði breytt þannig að útlit og form steypuhnalla á göflum hússins myndi halda sér. Útgáfa byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa er háð samþykki nefndarinnar, skv. 2. gr. samþykktar nr. 555/2014 um afgreiðslu byggingarnefndar Fjallabyggðar, en samþykktin er sett með stoð í 7. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Því verður litið svo á að fyrir liggi lokaákvörðun í málinu sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Kæranda var tilkynnt um ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar með bréfi, dags. 15. maí 2018, og var tekið fram að afgreiðsla nefndarinnar væri gerð með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórnar og að gert yrði viðvart ef afgreiðsla hennar yrði á annan veg. Þá var leiðbeint um að heimilt væri að vísa niðurstöðu sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að kærufrestur væri einn mánuður. Í áðurnefndri samþykkt nr. 555/2014 er ekki kveðið á um að staðfestingu bæjarstjórnar á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar þurfi áður en til útgáfu byggingar­leyfis komi. Er ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar því hin kæranlega ákvörðun í málinu og var mánaðar kærufrestur vegna hennar liðinn þegar kæra barst 6. júlí 2018, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með hliðsjón af því að kæranda var leiðbeint um að það væri ákvörðun sveitarstjórnar sem væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og að sú ákvörðun lá ekki fyrir fyrr en 6. júní 2018, verður þó talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði en í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu var erindi kæranda um byggingarleyfi grenndarkynnt í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Athugasemdir bárust frá sex nágrönnum. Í þeim var m.a. bent á mikilvægi þess að húsið að Suðurgötu 49 héldi upprunalegu útliti og að steypuhnallarnir ásamt hvítum línum á stöfnum hússins væri stór hluti af arkitektúr þess. Þá var vísað til þess í svörum tæknideildar bæjarins við innsendum athugasemdum að hinn svokallaði „siglfirski gafl“ einkenndi mörg steinsteypt hús á Siglufirði frá þriðja áratug 20. aldar. Gaflinn hefði jafnframt ákveðið menningarsögulegt gildi í bænum. Hið umdeilda skilyrði var sett fyrir hinu samþykkta byggingarleyfi með vísan til fyrrgreindra athugasemda og umsagnar. Skipulags- og umhverfisnefnd taldi mikilvægt að varðveita einkenni hússins og gerði þá kröfu að teikningum yrði breytt á þann veg að útlit og form steypuhnalla á göflum hússins héldi sér. Ákvarðanir um útlit mannvirkja og form eru almennt teknar við gerð deiliskipulags, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en sveitarstjórn, eða eftir atvikum skipulagsnefnd undir yfirstjórn sveitarstjórnar, ber ábyrgð á gerð þess skv. 1. mgr. 38. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga er m.a. óheimilt að breyta útliti eða formi mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingar­fulltrúa. Í 5. mgr. sömu greinar segir að varði breyting á mannvirki útlit þess og form skuli leita samþykkis skipulagsnefndar áður en byggingarleyfi sé veitt nema breyting sé óveruleg. Er og tiltekið um greinda málsgrein í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að í tilvikum þar sem um sé að ræða breytingu á útliti húss verði að teljast rökrétt að leita eftir samþykki skipulagsnefndar í ljósi eðlis slíkra breytinga. Þá segir í gr. 2.3.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að samþykki skipulagsnefndar þurfi vegna breytinga á útliti eða formi mannvirkja áður en byggingarleyfi sé veitt sé breytingin ekki óveruleg og ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag sem heimili hana. Til að breyting geti talist óveruleg má hún ekki breyta eða hafa áhrif á götumynd, sbr. 2. mgr. nefnds ákvæðis.

Þótt húsið nyti hvorki friðunar fyrir aldurs sakir né hverfisverndar samkvæmt aðalskipulagi verður, að teknu tilliti til framangreinds hlutverks skipulagsnefndar, að telja að hún hafi haft á valdi sínu mat um þau atriði sem hún lagði áherslu á, þ.e. óbreytt útlit og form steypuhnalla. Eru það og málefnaleg sjónarmið að varðveita einkenni steinsteyptra húsa frá ákveðnum byggingartíma. Með hliðsjón af þessu og með vísan til alls framangreinds bjuggu efnisrök að baki ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar að skilyrða samþykki sitt á umsókn kæranda um endurnýjun byggingarleyfis.

Kærandi tekur fram í kæru að skemmdir hafi komið í ljós vegna vatnsleka frá göflum hússins og hafi óafturkræfur skaði orðið á steinsteypu hinna umdeildu hnalla. Af umsókn um byggingarleyfi eða af gögnum málsins að öðru leyti verður hins vegar ekki ráðið að þessu hafi verið haldið fram áður en til ákvörðunar skipulags- og umhverfisnefndar kom. Var því ekki tilefni fyrir nefndina að kanna þetta atriði sérstaklega áður en hún ákvað að byggingarleyfi skyldi bundið því skilyrði að haldið yrði í hnallana. Verður því ekki fundið að rannsókn málsins, en á það skal bent að telji kærandi óraunhæft að uppfylla skilyrðið getur hann eftir atvikum beiðst endurupptöku málsins og er afgreiðsla slíkrar beiðni kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Að öllu framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim annmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður ógildingarkröfu kæranda af þeim sökum hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Fjalla­byggðar frá 14. maí 2018 að samþykkja með skilyrði umsókn um endurnýjun byggingarleyfis vegna Suðurgötu 49.

134/2017 og 8/2019 Þrastargata

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 134/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. september 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna lóðanna Þrastargötu 1 og 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. nóvember 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi húss að Þrastargötu 7, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. september 2017 að samþykkja breytingu á deili­skipulagi Fálkagötureits vegna lóðanna Þrastargötu 1 og 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. janúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. s.m. um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á milli núverandi íbúðarhúss og geymsluhúss á lóðinni nr. 5 við Þrastargötu. Er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því að sami aðili stendur að báðum kærumálunum, og að hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar, verður síðara kærumálið, sem er nr. 8/2019, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. janúar 2018 og 11. febrúar 2019.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Fálkagötureits sem samþykkt var á árinu 2008 og tekur m.a. til lóðanna Þrastargötu 1 og 5. Meðal markmiða skipulagsins samkvæmt greinargerð þess er að stuðla að hæfilegri uppbyggingu og endurnýjun á reitnum á forsendum þeirrar byggðar sem þar er fyrir. Þá segir í skilmálum um byggðamynstur að hafa beri í huga mælikvarða þeirrar byggðar sem fyrir sé á svæðinu. Samkvæmt grein 1.A í skilmálum deiliskipulagsins er heimilt að byggja litlar viðbyggingar í samræmi við byggingarstíl húsa.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. ágúst 2016 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu á milli núverandi íbúðarhúss og geymsluhúss á lóðinni nr. 5 við Þrastargötu, en leyfið fól í sér að flatarmál bygginga á lóðinni fór úr 67,2 m2 í 86,1 m2, eða aukningu um 28%. Kærandi kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem felldi leyfið úr gildi með úrskurði uppkveðnum 8. desember 2016 í máli nr. 126/2016. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að almennir skilmálar deiliskipulagsins, um heimild til að byggja litlar viðbyggingar í samræmi við byggingarstíl húsanna, gæti ekki tekið til þeirrar stækkunar hússins sem um ræddi í málinu.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 29. mars 2017 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits. Í breytingunni fólst heimild til að byggja við húsið að Þrastargötu 5, að lóðin Þrastargata 1 verði aftur hluti sameiginlegrar lóðar Þrastargötu 1-11, Smyrilsvegar 29 og 31, skilgreining kvaða um gangstíga og aðkomu neyðarbíla og árétting á skilmálum um fjölda bílastæða. Samþykkti nefndin að auglýsa tillöguna og fól jafnframt skipulagsfulltrúa að upplýsa íbúa í nágrenninu sérstaklega um auglýsinguna. Var tillögunni vísað til borgarráðs, sem samþykkti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 6. apríl s.á. Tillagan var auglýst til kynningar frá 10. apríl til 22. maí s.á. og bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kæranda. Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 30. ágúst s.á. ásamt ódagsettu bréfi eiganda fasteignarinnar að Þrastargötu 5, mótteknu af Reykjavíkurborg 22. ágúst s.á., og umsögn skipulagsfulltrúa frá 28. s.m. um framkomnar athugasemdir. Samþykkti umhverfis- og skipulagsráð deiliskipulagsbreytinguna með breytingum þeim sem settar voru fram í umsögn skipulagsfulltrúa og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 7. september s.á. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. október 2017.

Hinn 30. október 2018 sótti eigandi Þrastargötu 5 um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á milli núverandi íbúðarhúss og geymsluhúss á grundvelli hins breytta deiliskipulags. Byggingar­fulltrúinn í Reykjavík samþykkti byggingaráform fyrir viðbyggingunni hinn 22. janúar 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að í gr. 1.A í skilmálum deiliskipulags Fálkagötureits sé gerð grein fyrir almennum byggingarmöguleikum á lóðum, en þar segi m.a. að heimilt sé að byggja litlar viðbyggingar í samræmi við byggingarstíl húsanna. Í skilmálunum séu framangreindir almennir byggingarmöguleikar heimfærðir á einstakar lóðir og þar komi fram að lóðarhlutinn að Þrastargötu 5 sé fullbyggður. Þrastargata 5 sé hluti sameiginlegar lóðar Þrastargötu 3, 3b, 4, 5, 7, 7b, 8, 9, 10 og 11 og Smyrilsvegar 29 og 31. Byggðamynstur Þrastargötu njóti verndar samkvæmt deiliskipulagi. Húsið við Þrastargötu 5 teljist samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands 58,9 m2 með 8,3 m2 geymslu. Í deiliskipulagsskilmálum Fálkagötureits komi fram varðandi uppbyggingu á reitnum að breytingar þurfi að taka „mið af mælikvarða byggðar og hlutföllum húsa. Sýna þurfi sérstaka aðgát við hönnun breytinga og viðbygginga.“ Við gerð deiliskipulagsins hafi farið fram mat á því hvar uppbygging væri heimil og ekki til þess fallin að raska hinu verndaða byggðamynstri. Það hafi verið mat skipulagsyfirvalda að heimila ekki uppbyggingu að Þrastargötu 5 í deiliskipulagi, sbr. til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 56/2008.

Í deiliskipulagsskilmálum Fálkagötureits segi um fjölda bílastæða: „Gert er ráð fyrir 1 bílastæði fyrir hverja nýja íbúð undir 80 m2 en 2 stæði fyrir íbúðir stærri en 80 m2 í samræmi við byggingarreglugerð.“ Samkvæmt lágmarkskröfum deiliskipulagsins þurfi því að vera samtals 27 bílastæði á hinu deiliskipulagða svæði. Á mæliblaði fyrir hina sameiginlegu lóð sé að finna kvöð fyrir 39 bílastæði. Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur sé sérstaklega tekið fram að breyttar kröfur samkvæmt stefnu skipulagsins séu ekki afturvirkar fyrir samþykkt deiliskipulag.

Deiliskipulagsbreytingin taki í fyrsta lagi til þess að sérstökum skilmálum fyrir Þrastargötu 5 sé breytt á þann veg að heimilað sé að reisa viðbyggingu á lóðinni í samræmi við samþykkt byggingaráform, sem felld hafi verið úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 126/2016. Í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni sé rakið að Þrastargata 5 sé 67,2 m2 að stærð, en verði eftir breytinguna 86,1 m2. Ekki sé fjallað um að svo mikil stækkun á húsinu muni hafa áhrif á skerðingu bílastæða og stærð hinnar sameiginlegu lóðar. Í öðru lagi feli deiliskipulagsbreytingin í sér að lóðin að Þrastargötu 1 sé sameinuð fyrrnefndri sameiginlegu lóð en ekki sé fjallað um áhrif sameiningarinnar á fjölda bílastæða á reitnum.

Að því er varði byggingaráformin að Þrastargötu 5 telji kærandi í fyrsta lagi að viðbygging sem heimilað sé að reisa að Þrastargötu 5 hafi áhrif á hagsmuni hans. Hún muni hafa áhrif frá húsi og garði til austurs frá Þrastargötu 7. Samhliða deiliskipulagsbreytingunni hafi ekki verið kannað skuggavarp og áhrif þess, eins og venja sé í eldri þéttari byggðum. Sá annmarki feli í sér brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessi annmarki sé sérlega alvarlegur þar sem byggðamynstur Þrastargötu sé verndað.

Í öðru lagi sé annmarki á málsetningu á viðbyggingu við Þrastargötu 5, sem heimilað sé að reisa samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni. Í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni segi að eigandi Þrastargötu 5 hafi óskað eftir heimild til að stækka húsið til austurs ásamt því að fjarlægja skúr og reisa lægri viðbyggingu í hans stað. Sú lýsing sé ekki rétt þar sem gögn málsins sýni að viðbyggingin sé ekki lægri en þrír metrar. Þá sé viðbygging til suðausturs ekki málsett á hæðina en sá hluti breytingarinnar muni hafa hvað mest áhrif á hagsmuni kæranda. Breidd þess hluta viðbyggingar sé málsett 3,35 m en núverandi breidd á skúr samkvæmt samþykktum aðaluppdrætti frá 9. maí 1984 sé 2,76 m. Því sé um breikkun að ræða þótt fullyrt sé í umsögn skipulagsfulltrúa að viðbygging eigi að vera í samræmi við núverandi skúr. Óvíst sé hvort vísað sé til hins ólöglega skúrs og hann notaður sem viðmið. Verði að telja það verulega ómálefnalegt ef miðað sé við hinn ólöglega skúr sem sé hærri en leyfileg hámarkshæð skúra samkvæmt byggingarreglugerð og deiliskipulagi. Skúrar séu ekki byggingarleyfisskyldir ef þeir séu undir 2,5 m og minni en 15 m2 samkvæmt byggingarreglugerð. Viðmið hljóti einvörðungu að eiga við um löglega skúra. Lagfærður deiliskipulagsuppdráttur sýni ekki málsetningu einnar hæðar viðbyggingar þar sem nú standi hinn ólöglegi skúr. Verði að telja það verulegan annmarka.

Í þriðja lagi séu byggingaráformin í andstöðu við almenna skilmála deiliskipulags Fálkagötu­reits, en skilmálarnir séu bindandi, sbr. 21. tl. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Viðbyggingin sem heimiluð sé samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni feli í sér a.m.k. 28% aukningu á byggingarmagni á lóðarhlutanum. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi staðfest að aukning byggingarmagns um 28% gæti aldrei talist „lítil“ og rúmist því ekki innan greinar 1.A í deiliskipulagsskilmálum Fálkagötureits. Óhjákvæmilega hefði þurft að breyta þeim samhliða breytingum á sértækum skilmálum fyrir lóðarhlutann að Þrastargötu 5.

Með deiliskipulagsbreytingunni sé einvörðungu verið að heimila að byggja viðbyggingu í samræmi við almenna skilmála deiliskipulagsins. Þó svo að stærð viðbyggingar sé tilgreind í deiliskipulagsbreytingunni breyti það því ekki að hún geti ekki talist „lítil“. Í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni sé talað um að aukning um 30% sé ekki mikil á þeim forsendum að húsið að Þrastargötu 5 sé lítið. Það geti ekki átt við þegar talað sé um hlutfallslega aukningu. Horfa verði sjálfstætt á hvern lóðarhluta og hlutfallslega aukningu á byggingarmagni á honum, enda hafi breytingar sem þessar áhrif á byggðamynstur. Mælikvarði á hvort viðbygging geti talist „lítil“ taki eðli málsins samkvæmt mið af því húsi sem verið sé að byggja við.

Við meðferð tillögu að deiliskipulagsbreytingunni hafi verið fjallað um þá aukningu á byggingarmagni sem hafi verið heimiluð á húsi kæranda að Þrastargötu 7 samkvæmt gildandi deiliskipulagi Fálkagötureits. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins hafi verið heimilað að „endurbyggja húsið“ að Þrastargötu 7 í hæð aðlægra húsa. Þá hafi legið fyrir skilgreindur byggingarreitur fyrir nýtt hús samkvæmt deiliskipulagsuppdrættinum þegar kærandi eignaðist húsið. Þegar núverandi eigandi Þrastargötu 5 hafi eignast hús sitt eftir gildistöku deiliskipulagsins frá 2008 hafi honum mátt vera ljóst að ekki væru til staðar heimildir til stækkunar að Þrastargötu 5.

Við gerð deiliskipulags Fálkagötureits á árinu 2008 hafi farið fram mat á því hvaða byggingaráform væru til þess fallin að taka „mið af mælikvarða byggðar og hlutföllum húsa“. Það hafi verið mat skipulagsyfirvalda að heimila ekki uppbyggingu að Þrastargötu 5 í deili­skipulaginu. Heimiluð byggingaráform samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni falli því ekki að markmiðum deiliskipulagsins og skipulagsáherslum.

Í fjórða lagi hafi við meðferð deiliskipulagstillögunnar hvorki verið leitað eftir áliti Minjastofnunar né Borgarsögusafni þrátt fyrir að byggðamynstur við Þrastargötu sé verndað. Málsmeðferðin sé því andstæð rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verði talið að ekki hafi verið skylt að leita eftir slíku áliti fyrr en uppdrættir liggi fyrir sé bent á að form og hlutföll viðbyggingar séu ákveðin í deiliskipulagsbreytingunni og málsett að hluta. Engin rök standi til þess að bíða með að leita eftir slíku áliti þegar deiliskipulagsbreytingin sé gagngert samþykkt til að heimila tiltekin byggingaráform.

Að því er varði sameiningu Þrastargötu 1 við hina sameiginlegu lóð byggi kærandi á því að til þess hefði þurft samþykki allra lóðarhafa hinnar sameiginlegu lóðar, en sameiningin hafi áhrif á sameiginlega ákvarðanatöku innan sameignarinnar. Bent sé á að Reykjavíkurborg hafi átt lóðina að Þrastargötu 1 á undan núverandi eiganda. Þvert á það sem fram komi í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni þá muni fækkun bílastæða hafa áhrif á hagsmuni kæranda þar sem sameiningin feli í sér skerðingu á þeim bílastæðum sem fyrir séu á lóðinni og gert sé ráð fyrir á uppdrætti, en eins og áður greini sé þar kveðið á um fjölda bílastæða umfram þann fjölda sem tryggður sé í gildandi deiliskipulagi. Þá muni sameiningin í öllu falli hafa í för með sér skerðingu á stærð hinnar sameiginlegu lóðar eins og hún komi fram í lóðarleigusamningi og á mæliblaði með honum, þ.e. að hluti lóðarinnar fari undir bílastæði fyrir lóðarhafa að Þrastargötu 1. Í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni sé ekki fjallað um þá skerðingu á bílastæðum sem stækkun Þrastargötu 5 muni hafa í för með sér. Afla þurfi samþykkis allra lóðarhafa hinnar sameiginlegu lóðar fyrir stækkuninni. Aðalskipulag horfi til framtíðar og geti ekki haft afturvirk áhrif á lágmarksrétt sem tryggður sé samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Það sé annmarki á málinu að hagur heildarinnar hafi ekki verið hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem svo mikil aukning á nýtingarhlutfalli hafi áhrif á verndað byggðamynstur og kunni að skapa fordæmi. Þá sé málsmeðferð Reykjavíkurborgar gagnrýnd. Bréf eiganda Þrastargötu 5 hafi verið tekið inn í skipulagsferlið þrátt fyrir að hafa borist að athugasemdafresti liðnum. Þar komi fram alvarlegar og rangar ávirðingar í garð kæranda. Verði að telja ómálefnalegt að hafa litið til þess við meðferð tillögunnar.

Eftirfarandi athugasemdir séu gerðir við samþykkta aðaluppdrætti. Í grein 1.A í deiliskipulagsskilmálum Fálkagötureits komi fram að heimilt sé að byggja kvisti á helmingi þakflatar og skuli fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1,0 m. Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum sé fjarlægðarviðmið ekki virt og sé því um sjálfstæðan annmarka að ræða, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 100/2017.

Eigandi Þrastargötu 9 hafi sent fyrirspurn um stækkun viðbyggingar á sínu húsi til vesturs um 1,8 m. Í svari Reykjavíkurborgar segi að við þá aðgerð raskist fínleg hlutföll núverandi húss. Ekki sé hægt að fallast á erindið en hafi eigandi Þrastargötu 9 áhuga á hóflegri stækkun skuli hann leita eftir umsögn Borgarsögusafns Reykjavíkur. Með hliðsjón af svari Reykjavíkurborgar geti hin kærðu byggingaráform ekki talist vera í samræmi við framangreint, enda um að ræða stærri viðbyggingu en fyrirspurn eiganda Þrastargötu 9 hafi lotið að, sbr. einnig 11. gr. stjórnsýslulaga.

Af aðaluppdráttum verði ráðið að hæð á viðbyggingu sem snúi að Þrastargötu sé ekki málsett. Eingöngu sé málsett hæð viðbyggingar frá gólfplötu hennar. Því sé ekki rétt fram sett sú hæð sem verði á viðbyggingu við Þrastargötu 5. Ætla megi að 600 til 800 mm bætist við hæð útveggjar þegar mælt sé frá Þrastargötu. Engir hæðarkótar séu á teikningum sem geri grein fyrir þessari hæð.

Hin samþykkta viðbygging sé í andstöðu við fyrirmæli um brunavarnir í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ekki sé að sjá að uppfyllt séu fyrirmæli gr. 6.7.6. um að í þakherbergjum og kvistherbergjum íbúða megi meðalhæð vera minnst 2,20 m, enda sé lofthæðin minnst 2,50 m í að minnsta kosti þriðjungi herbergis. Þá komi fram í gr. 6.7.14. að veggsvalir bygginga skuli vera a.m.k. 4,0 m2 að stærð og ekki mjórri en 1,60 m. Á aðaluppdráttum sé dýpt svala hins vegar einvörðungu sýnd 1,0 m. Fram komi á aðaluppdráttum að um björgunarsvalir sé að ræða, en í gr. 9.5.5. segi: „Björgunarop í byggingum eru auðopnanlegir gluggar eða hlerar sem nota má við flótta úr eldsvoða til öruggs svæðis og til að gera vart við sig. Gluggar skulu vera hliðarhengdir, rennigluggar eða á láréttum snúningsás og þá skal vera hægt að opna án lykils eða annarra verkfæra. Breidd björgunaropsins skal vera minnst 0,60 m og hæðin minnst 0,60 m […].“ Ljóst sé að gluggar viðbyggingarinnar séu topphengdir auk þess sem þeir séu ekki málsettir til að uppfylla kröfur um lágmarksstærð þeirra. Þá komi fram í gr. 9.7.5. að bil milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið til að ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra. Bent sé á að fjarlægð á milli Þrastargötu 3 og 5 sé ekki málsett á afstöðumynd eða grunnmynd. Það liggi ekki fyrir útreikningar á geislun á milli bygginganna en Reykjavíkurborg hafi gert kröfu um slíkt í öðrum sambærilegum málum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að breyting á deiliskipulaginu hafi verið gerð til að taka af öll tvímæli um að heimild væri fyrir viðbyggingu við Þrastargötu 5 í deiliskipulagsskilmálum. Líta beri til þess að Þrastargata 5 sé með minnstu húsum við botnlangann, eða 67,2 m2 samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en um sé að ræða rúmlega 18 m2 viðbyggingu. Þær byggingarheimildir sem tilteknar séu á lóðum við Fálkagötu 2, 4, 7, 10, 20, 25, 26 og 30 og Suðurgötu 100 heimili miklu meira byggingarmagn en þær almennu heimildir sem gildi á reitnum um litlar viðbyggingar. Viðbygging sé í takti við markmið deiliskipulagsins um hæfilega uppbyggingu og endurnýjun á reitnum. Viðbyggingin sé bæði í samræmi við byggingarstíl hússins og sé óveruleg. Hún sé því innan allra heimilda sem deiliskipulagið kveði á um. Einnig taki hin nýja viðbygging mið af því byggðamynstri sem fyrir sé og njóti verndar í gildandi deiliskipulagi, sem felist í því að hönnunin taki tillit til einkenna nærliggjandi byggðar hvað varði efnisval, þakgerð og mælikvarða. Að því er varði stækkun hússins við Þrastargötu 5 vegna viðbyggingarinnar þurfi að líta til þess að það sé með minnstu húsum við botnlangann. Því sé ekki rétt að miða við 30% stækkun þegar um sé að ræða 17,9 m2 viðbyggingu á mjög litlu húsi.

Þegar gerður hafi verið samningur árið 1984 við eigendur húsanna að Þrastargötu 3, 3b, 5, 5a, 7, 7a, 9 og 9a hafi Þrastargata 1 ekki verið talin með þar sem þar hafi ekkert hús staðið. Því hafi hún verið talin sem sérstök lóð. Árið 1989 hafi verið gefinn út lóðauppdráttur og þar séu lóðamörkin óskýr, en sjá megi að Þrastargata 1 sé talin með í hinni sameiginlegu lóð. Árið 2005 hafi lóðunum verið breytt og Þrastargata 1 tekin út úr hinni sameiginlegu lóð. Með samþykktum skipulagsnefndar 4. janúar 1993 og borgarráðs 5. s.m. hafi útivistarsvæði að Þrastargötu 1 verið samþykkt. Með samþykktum skipulags- og umferðarnefndar 27. október 1997 og borgarráðs 28. s.m. hafi lóð Suðurgötu 100 verið stækkuð. Það sjáist á þeim uppdráttum að Þrastargata 1 hafi verið innan sameinaðrar lóðar til ársins 1993. Því sé eðlilegt að Þrastargata 1 verði aftur hluti sameinaðrar lóðar. Í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um skipulagsforsendur innan sveitarfélagsins, m.a. um stærðir lóða og fjölda þeirra. Þá sé óheimilt að skipta jörðum, löndum, lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til, sbr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og ekki sé heimilt að sameina lóðirnar án breytingar á deiliskipulagi.

Núverandi deiliskipulagsskilmálar um bílastæði gildi áfram. Þar sé gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja nýja íbúð undir 80 m2, en tvö stæði fyrir íbúðir stærri en 80 m2. Á hinni sameiginlegu lóð séu nú 36 bílastæði, en eins og kærandi bendi á þurfi einungis 27 bílastæði til að uppfylla bílastæðabókhaldið fyrir lóðina. Fjöldi bílastæða á lóðinni sé talsvert meiri en gert sé ráð fyrir í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og því sé nægilegt svigrúm til að sameina aftur lóðina að Þrastargötu 1 við hina sameiginlegu lóð án þess að ganga á þær heimildir sem fyrir séu. Ekki sé verið að fjölga bílastæðum fyrir Þrastargötu 5 og einungis eitt stæði muni fylgja Þrastargötu 1.

Samkvæmt 30. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 sé eigendum húsa og mannvirkja sem byggð hafi verið á árinu 1925 eða fyrr skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands ef þeir hyggðust breyta þeim, flytja þau eða rífa. Ekki sé hægt að bera saman framkvæmdir kæranda að Þrastargötu 7 og þær framkvæmdir sem heimilaðar séu með byggingarleyfinu að Þrastargötu 5. Kærandi hafi þurft að leita eftir áliti Minjastofnunar á sínum tíma þegar hann hafi óskað eftir því að rífa hús sem byggt hafi verið árið 1925, þar sem hús nr. 7 standi nú, og byggja nýtt staðsteypt hús í staðinn. Hér sé verið að tala um litla viðbyggingu, sem sé í samræmi við byggðamynstur og hlutfall hússins, á hús sem sé byggt árið 1944 og sé því ekki umsagnarskylt, eins og kærandi haldi fram. Reykjavíkurborg vísi því á bug að rannsóknarregla og jafnræðisregla hafi verið brotin með nokkru móti.

Hið kærða byggingarleyfi sé í fullu samræmi við það deiliskipulag sem gildi fyrir Þrastargötu 5, og gætt hafi verið að málsmeðferðarreglum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Í breytingu á deiliskipulagi fyrir Þrastargötu 5 hafi verið settur inn uppdráttur sem sé ítarleg teikning miðað við að um deiliskipulag sé að ræða. Á grunn- og útlitsmynd komi fram að bæði brunasvalir og svalahurð verði á viðbyggingunni. Skýrt sé tekið fram hvernig Þrastargata 5 skuli líta út eftir breytinguna. Þessi uppdráttur sé skilgreindur sem sérskilmálar fyrir Þrastargötu 5 og því eigi ekki almennir skilmálar deiliskipulags Fálkagötureits við húsið. Þá sé ekki hægt að byggja á því að svar Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Þrastargötu 9 eigi við um Þrastargötu 5, enda um tvö gjörólík hús að ræða. Á upp­drættinum séu allar hæðarmerkingar settar inn. Yfirleitt séu ekki settar inn mælingar á útlitsmynd hússins heldur í sniðmynd og teljist það nægjanlegt. Á deiliskipulagsuppdrættinum og teikningunum komi fram að viðbyggingin verði 5,48 m að hæð.

Að því er varði ákvæði byggingarreglugerðar um lofthæð og birtuskilyrði íbúðahúsa þá sé ekki verið að bæta við herbergi heldur að stækka þau sem fyrir séu. Þegar breyting eigi sér stað á eldri húsum, sem byggð hafi verið samkvæmt eldri byggingarreglugerðum, sé ekki hægt að krefjast þess að stærð herbergja uppfylli þær kröfur sem gerðar séu í dag. Um sé að ræða smágert einbýlishús og viðbyggingin sé hönnuð með tilliti til stærðar og lögunar eldra húss.

Búið sé að fella úr gildi gr. 6.7.14. í byggingarreglugerðinni, sem kveðið hafi á um lágmarks­stærð svala. Í gr. 6.7.6. í reglugerðinni sé fjallað um svalir og svalaskýli, en þar segi: „Svalir skulu vera öruggar og henta til fyrirhugaðra nota.“ Fyrirhugaðar svalir séu svokallaðar björgunarsvalir og svalahurð sé með sérstöku brunaheldu gleri. Þá séu gluggar á efri hæð ekki skilgreindir sem björgunarop. Þess vegna hafi svalir og svalahurð verið settar og skilgreindar sem björgunarleið af efri hæðinni. Að því er varði fjarlægð milli Þrastargötu 5 og 3 þá séu tæpir 5 m á milli húsanna og það teljist nægjanlegt þar sem Þrastargata 3 sé steinsteypt hús með brunagafli og Þrastargata 5 með brunamótstöðu EI60. Forvarnardeild slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafi yfirfarið teikningarnar áður en þær hafi verið samþykktar og ekki gert athugasemd varðandi fjarlægð á milli húsanna, enda talið hana uppfylla kröfur skv. töflu 9.09 í byggingarreglugerðinni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að hin fyrirhugaða viðbygging sé inndregin og því muni kærandi ekki sjá neitt af viðbyggingunni frá lóð sinni. Fyrir liggi að eigendur húsa sem standi næst austurgafli Þrastargötu 5 hafi allir gefið skriflegt samþykki fyrir framkvæmdunum, en ólíkt húsi kæranda muni viðbyggingin sjást frá þeim húsum.

Hin fyrirhugaða viðbygging sé í samræmi við verndun byggðamynsturs og falli vel inn í götumyndina. Umrætt hús sé lágreist og lítið, viðbyggingin sé inndregin á öllum hliðum og í samræmi við byggingarstíl húsanna við Þrastargötu. Það sé leyfishafa nauðsynlegt að fara í breytingarnar. Með hliðsjón af lögum nr. 75/2000 um brunavarnir þá séu engir bruna- eða neyðarútgangar af efri hæð hússins og það samrýmist ekki lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Á efri hæð hússins sé aðeins einn þröngur útgangur og þar sofi börn. Það sé því beinlínis hættulegt ástand sem leyfishafi búi við. Þá eigi leyfishafi tvö fötluð börn í hjólastólum sem þurfi að hafa afdrep á neðri hæð hússins þegar þau dvelji þar. Það náist einungis með því að fara í þær framkvæmdir sem um ræði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Fálkagötureits, sem felur m.a. í sér heimild til að byggja við húsið að Þrastargötu 5 og að lóðin Þrastargata 1 verði aftur hluti sameiginlegrar lóðar Þrastargötu 1-11 og Smyrilsvegar 29 og 31. Þá eru í breytingunni áréttaðir skilmálar um fjölda bílastæða. Einnig er deilt um lögmæti samþykktar byggingarleyfis fyrir nefndri viðbyggingu að Þrastargötu 5.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna. Skipulagsyfirvöld eru ekki bundin við skilmála eldra deiliskipulags við slíka breytingu, enda felur breyting á deiliskipulagi eðli máls samkvæmt í sér breytingu á deiliskipulagi sem fyrir er. Við beitingu skipulagsvalds ber að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. um að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið nefnds ákvæðis.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna Þrastargötu 1 og 5 var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Að loknum athugasemda­fresti tóku skipulagsyfirvöld sveitarfélagsins við bréfi með athugasemdum frá eiganda Þrastar­götu 5, en þar sem stjórnvöldum ber að sjá til þess að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, getur slíkt ekki haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Deiliskipulagstillagan var svo afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði, þar sem framkomnum athugasemdum kæranda var svarað í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Vegna athugasemdanna voru gerðar þrjár breytingar á tillögunni, en þær breytingar voru þó ekki svo veigamiklar að auglýsa þyrfti breytta tillögu að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Að lokum var breytingin samþykkt í borgarráði lögum samkvæmt. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga, en ekki liggja fyrir lagafyrirmæli sem knýja á um að afla þurfi álits Minjastofnunar eða Borgarsögusafns vegna viðbyggingarinnar að Þrastargötu 5.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur m.a. í sér heimild til að fjarlægja skúr og byggja í staðinn viðbyggingu til austurs og suðausturs, innan byggingarreits, við einbýlishúsið að Þrastargötu 5. Hús kæranda að Þrastargötu 7 liggur norðvestanmegin við Þrastargötu 5. Á uppdráttum deiliskipulagsins er ekki málsett hæð viðbyggingar til suðausturs, sem er sá hluti hennar sem mun hafa mest grenndaráhrif gagnvart fasteign kæranda. Þrátt fyrir það er ljóst að hæð viðbyggingarinnar verður mjög svipuð og hæð þess skúrs sem samþykktur var árið 1984. Er því ekki að sjá að heimilaðar breytingar raski grenndarhagsmunum kæranda að nokkru marki, svo sem vegna skerðingar á útsýni, skuggavarps, aukinnar umferðar eða vegna annars ónæðis. Verður með hliðsjón af því ekki talið að breytingin sé slík að réttur kæranda hafi verið fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Sem fyrr segir felst í skipulagsvaldi sveitarstjórna m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. skipulagslaga, en í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti og byggðarmynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, sbr. 1. mgr. 37. gr. sömu laga. Ekki er áskilið að sveitarstjórn afli samþykkis lóðarhafa vegna sameiningar lóða, líkt og kærandi heldur fram, enda verður eignarréttindum ekki ráðstafað með skipulagsáætlunum. Sem endranær verða þó að liggja málefnalegar forsendur að baki slíkum ákvörðunum. Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar er ástæða þess að lóðin að Þrastargötu 1 var sameinuð fyrrnefndri sameiginlegu lóð sú að upphaflega var lóðin hluti af hinni sameiginlegu lóð en var síðar breytt í sérlóð undir útivistarsvæði. Þar sem nú sé aftur komið hús á lóðina sé eðlilegt að lóðin verði aftur hluti af hinni sameiginlegu lóð. Búa því efnisleg rök að baki þeirri ákvörðun að sameina umræddar lóðir.

Samkvæmt 3. gr. deiliskipulagsskilmála Fálkagötureits er gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir íbúðir undir 80 m2 en tveimur stæðum fyrir íbúðir stærri en 80 m2 í samræmi við byggingar­reglugerð. Með deiliskipulagsbreytingunni eykst krafa um fjölda bílastæða fyrir hina sameiginlegu lóð úr 27 bílastæðum í 30. Í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar kemur fram að bílastæði á lóðinni séu 36 en á lóðaruppdrætti sem fylgir lóðarleigusamningi eru á sama svæði merkt inn 39 bílastæði. Uppfyllir deiliskipulagsbreytingin því kröfu deiliskipulags Fálkagötureits um fjölda bílastæða.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Af framlögðum gögnum verður ekki annað ráðið en að samþykktir aðaluppdrættir hins kærða byggingarleyfis séu í samræmi við ákvæði nefndra laga og byggingarreglugerðar nr. 112/2012, þ. á m. ákvæði um brunavarnir í 9. hluta reglugerðarinnar.

Í áðurgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 kemur fram í gr. 12.8 að við umfjöllun um byggingarleyfisumsóknir sem varði breytingar á byggingum sem byggðar hafi verið fyrir gildis­töku reglugerðarinnar skuli taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi voru þegar þær voru byggðar, eftir því sem hægt sé að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggis- og heilbrigðismál. Í núgildandi byggingarreglugerð er ekki að finna sambærilegt ákvæði en í einstökum ákvæðum hennar er tekin afstaða til þess hvort þargreindar kröfur þurfi að uppfylla við breytingar á eldri mannvirkjum. Má þar nefna að í gr. 9.2.5. kemur fram að við breytingar á þegar byggðu mannvirki eða við breytta notkun skuli þess gætt að brunavarnir uppfylli kröfur skv. reglugerðinni og að breytingin skerði ekki brunavarnir annarra þátta mannvirkisins. Tekið er fram í gr. 12.1.2. að ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar um öryggi við notkun eigi við um breytingu á þegar byggðu mannvirki og um breytta notkun þess. Þá er í gr. 6.1.5. fjallað um breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun þess. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að við breytingu á mannvirki sem byggt sé í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli eftir því sem unnt er byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Þá hljóðar 3. mgr. ákvæðisins svo: „Ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar. Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Taka skal sérstakt tillit til mannvirkja sem falla undir ákvæði laga um menningarminjar.“

Af framangreindum ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar verður sú ályktun dregin að beita skuli ákvæðum hennar er varða öryggi og heilbrigði við breytingar á eldri mannvirkjum og við breytta notkun þeirra, en auk þess geti leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar, sem hefur m.a. að geyma reglur um lofthæð íbúðarrýma, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar að byggt verði við íbúðarhús sem reist var á árinu 1944 og breytt var árið 1984. Um heimilaða nýbyggingu við húsið gilda ákvæði reglugerðar nr. 112/2012. Fram kemur í 2. mgr. gr. 6.7.2. í reglugerðinni að í þakherbergjum og kvist­herbergjum íbúða megi meðalhæð minnst vera 2,20 m, enda sé lofthæðin minnst 2,50 m í að minnsta kosti þriðjungi herbergis. Samkvæmt samþykktum uppdráttum er umrædd viðbygging 18,9 m2 að stærð og lofthæð á 2. hæð nær ekki 2,50 m í þriðjungi herbergis. Hvorki liggur fyrir að greinargerð hafi fylgt umsókn um umrætt byggingarleyfi vegna frávika frá kröfum um lofthæð þakherbergja né að leyfisveitandi hafi fallist á slíkt frávik með formlegum hætti í samræmi við fyrrgreinda gr. 6.1.5. í byggingar­reglugerð. Að framangreindu virtu uppfyllir hið kærða byggingarleyfi ekki áskilnað 11. gr. mannvirkjalaga um að byggingarleyfi sé í samræmi við byggingarreglugerð. Verður hið kærða byggingarleyfi því fellt úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 7. september 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna lóðanna Þrastargötu 1 og 5.

 

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á milli núverandi íbúðarhúss og geymsluhúss á lóð nr. 5 við Þrastargötu er felld úr gildi.