Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

103/2019 Austurey

Með

Árið 2019, föstudaginn 18. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III og ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019 um að samþykkja byggingar­leyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. september 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Austureyjar II, Bláskógabyggð, ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III, og ákvörðun byggingar­fulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III. Er krafist ógildingar hinna kærðu ákvarðana og að úrskurðar­nefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunar­kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 10. október 2019.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag frístundabyggðar í landi Austureyjar I og III frá 7. júní 2002. Með umsókn, dags. 1. apríl 2019, sótti landeigandi Austureyjar III um breytingu á nefndu deiliskipulagi. Í umsókninni fólst skilmálabreyting fyrir heildarsvæðið varðandi nýtingarhlutfall lóða sem yrði 0,03 í stað ákvæðis um hámarksstærð bygginga í fer­metrum. Heimilað yrði að reisa á hverri frístundalóð eitt frístundahús og eitt smáhýsi/aukahús. Auk þess yrði frístundalóðin Eyrargata 9 stækkuð úr 5.444 m² í 7.177 m² ásamt stækkun byggingarreits. Tilgreint var að byggingarreitur væri 50 m frá vatnsbakka og 10 m frá lóðarmörkum og að gert yrði ráð fyrir 5 m belti fyrir göngustíg milli lóðanna Eyrargötu 7 og 9 í framhaldi af aðkomuvegi.

Á fundi skipulagsnefndar Bláskógabyggðar 10. apríl 2019 var mælst til þess að sveitarstjórn samþykkti framkomna breytingatillögu og að hún yrði auglýst samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags­­laga nr. 123/2010. Sveitarstjórn samþykkti að auglýsa tillöguna til kynningar á fundi sínum 9. maí 2019 og var hún kynnt á tímabilinu frá 22. maí til 3. júlí s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna á fundi sínum 22. ágúst 2019 og tók afstöðu til framkominna athugasemda. Skipulagsfulltrúi sendi athugasemdaaðilum svör bæjarstjórnar með bréfi, dags. 4. september s.á.

Með erindi, dags. 5. september 2019, sendi Bláskógabyggð Skipulagsstofnun deiliskipulags­breytinguna til lögboðinnar umfjöllunar og tilkynnti stofnunin með bréfi, dags. 18. s.m., að hún gerði ekki athugasemd við að auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Tók deiliskipulags­breytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2019.

Með umsókn, dags. 10. september 2019, sótti landeigandi Austureyjar III um byggingarleyfi fyrir 183,7 m² sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9. Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. september s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að ekki hafi verið aflað álits Umhverfisstofnunar og Náttúruverndarnefndar á umdeildri deiliskipulagsákvörðun eða samþykktu byggingarleyfi. Með þeim framkvæmdum sem nú eigi sér stað í Austurey III sé verið að raska vistkerfi Apa­vatns. Það sé skýrt samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd að við slíkar framkvæmdir beri að afla umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndar­­nefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir samkvæmt 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggi fyrir. Hvorki við samþykkt deili­skipulags né byggingarleyfis hafi þessara álita verið aflað og því beri að ógilda byggingarleyfið og taka deiliskipulagið til endurskoðunar.

Telji úrskurðarnefndin aftur á móti að afgreiðsla sveitarstjórnar hafi að þessu leyti átt við rök að styðjast og að ákvæði náttúruverndarlaga felli ekki úr gildi samþykkt deiliskipulagsins telji kærandi engu að síður að byggingarleyfið brjóti gegn lögum nr. 61/2006 um lax- og silungs­veiði en samkvæmt 33. gr. þeirra sé ekki heimilt að gefa út byggingarleyfi fyrr en leyfi hafi fengist hjá Fiskistofu. Þá hafi ekki verið óskað eftir áliti Veiðifélags Apavatns og umsagnar sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmda á lífríki vatnsins.

Kærandi byggir jafnframt á því að ekki hafi verið fylgt ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 og skipulagslaga nr. 123/2010 við samþykkt deiliskipulagsins. Ekki hafi verið leitað samráðs við hagsmunaaðila, sbr. gr. 5.2.1. reglugerðarinnar. Þannig hafi ekki verið haft samband við Veiðifélag Apavatns eða Náttúrufræðistofnun Íslands þrátt fyrir að framkvæmdirnar snerti viðkvæmt lífríki Apavatns sem hafi verið tilnefnt til B-hluta Náttúruminjaskrár árið 2018. Ekki sé í deiliskipulagi að finna skilgreindar takmarkanir á landnotkun sökum náttúruvár, en ljóst sé af myndum frá 2006 að mikil flóðahætta sé á svæðinu. Myndir af flóðum hafi verið sendar til sveitarstjórnar en hafi ekki fengið efnislega meðferð.

Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarstjórn byggir á því að málsmeðferðin hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við lög. Samkvæmt deiliskipulagi frá 2002 sé gert ráð fyrir byggingarreit á lóðinni Eyrargötu 9 á þeim stað þar sem hann sé í dag. Með deiliskipulags­breytingunni sé reiturinn stækkaður til austurs og suðurs og lóðin stækkuð um 1.735 m². Bent sé á að samkvæmt upphaflegu deiliskipulagi sé þegar gert ráð fyrir byggingu á staðnum og að stækkun lóðarinnar hafi engin áhrif á vistkerfi eða náttúru svæðisins enda sé ekki gert ráð fyrir mannvirkjum á þeim stöðum sem stækkunin taki til. Byggingarreiturinn sé í 50 m fjarlægð frá vatnsbakka en málsástæða kæranda, um að ekki megi byggja í meira en 100 m fjarlægð frá vatnsbakka þar sem svæðið sé tilnefnt í B-hluta Náttúruminjaskrár, sé hafnað þar sem svæðið sé ekki enn komin inn á skrána með þeim réttaráhrifum sem því fylgi.

Því sé hafnað að ákvæði 61. og 68. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd eigi við í málinu enda sé byggingarreitur í meira en 50 m fjarlægð frá vatnsbakka en það sé Apavatn sjálft sem njóti verndar, sbr. a-lið 1. mgr. 61. gr. laganna. Þá sé gert ráð fyrir byggingarreit á umræddum stað í skipulagi sem hafi hlotið lögmælta afgreiðslu og geti lög nr. 60/2013 ekki verið afturvirk. Heimiluð bygging samkvæmt umræddu byggingarleyfi hafi ekki áhrif á fiskigengd Apavatns og eigi 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði ekki við í máli þessu. Við vatnið séu fjöldamörg önnur sumarhús sem ekki hafi verið talið að hafi slík áhrif.

Deiliskipulagsbreytingin hafi verið í samræmi við markmið skipulagslaga og ákvæði skipulags­reglugerðar. Hún hafi verið auglýst og hafi öllum sem hafi átt hagsmuna að gæta gefist tækifæri til að koma að athugasemdum. Hvað varði þau málsrök kæranda að ekki hafi verið skilgreind takmörkun landnotkunar vegna náttúruvár sé til þess að líta að Aðalskipulag Bláskógabyggðar 2015-2027 hafi verið samþykkt 25. maí 2018. Við gerð þess hafi farið fram mat á því hvaða svæði féllu undir náttúruvá.

Að lokum sé því hafnað að skilyrði séu til staðar til þess að fella úr gildi ákvörðun um að samþykkja byggingaráform og veita byggingarleyfi. Samþykkt byggingaráform hafi verið í samræmi við skipulag og málsmeðferð að öðru leyti í samræmi við lög. Ekki hafi verið talið að framkvæmdir gætu haft í för með sér röskun á þeim landslagsgerðum sem verndaðar væru samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að fyrir liggi að hluti úr landi Austureyjar III hafi verið skipulagður sem frístundasvæði árið 2002, þar með talin lóðin Eyrargata 9, og hafi verið heimilt að byggja 163 m² á lóðinni fyrir breytingu. Sumarhúsið sem sé nú í byggingu verði 183,7 m². Ólíklegt sé að stækkun á sumarhúsi um 20 m² muni valda frekara raski eða hafa úrslitaáhrif um verndun Apavatns. Fyrirhugað sumarhús sé í eins og hálfs km fjarlægð frá Austurey III og er jörðin að Austurey I á milli. Mun því fyrirhugað sumarhús hvergi vera í sjónlínu frá landi kæranda.

Ekki sé verið að raska óröskuðu landi. Nú þegar hefur verið framkvæmt á svæðinu, en bæði séu frístundahús staðsett á lóðinni Eyrargötu 7 og jarðhiti hefur verið virkjaður. Fuglavarp á lóðinni að Eyrargötu 9 og umhverfis hana sé í engu ríkara en annars staðar í landi Austureyjar nema síður sé og til að mynda verpi engir andfuglar á lóðinni eða í námunda við hana.

Niðurstaða: Samkvæmt Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 teljast jarðirnar að Austurey I og III til frístundasvæðis. Í lýsingu aðalskipulagsins segir m.a. um frístundasvæði að á þeim skuli lóðir að jafnaði vera ½ til 1 ha að stærð og nýtingarhlutfall skuli ekki vera hærra en 0,03. Í ákveðnum tilfellum geti frístundalóðir þó verið minni og nýtingarhlutfall allt að 0,05. Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér skilmálabreytingu heildarsvæðisins varðandi nýtingarhlutfall sem breytist í 0,03. Heimilt verði að reisa eitt frístundahús og eitt smáhýsi/aukahús og þá verði lóðin að Eyrargötu 9 stækkuð úr 5.444 m² í 7.177 m². Fer hin umdeilda deiliskipulagsbreyting því ekki gegn stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulags­áætlana því fullnægt.

Umdeild deiliskipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem hann og gerði. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. sömu laga. Með bréfi, dags. 18. september 2019, tilkynnti stofnunin að hún hefði farið yfir framlögð gögn og gerði ekki athugasemdir við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulags­breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagssvæðið er ekki á B-hluta náttúruminjaskrár, sbr. lög nr. 60/2013 um náttúruvernd, því bar sveitarfélaginu ekki að leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar og viðkomandi náttúruverndar­­nefndar samkvæmt 68. gr. laganna. Með vísan til alls framangreinds liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð skipulags­­breytingarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Með hinu kærða byggingarleyfi er leyfishafa veitt heimild að byggja 183,7 m² sumarhús á lóðinni Eyrargötu 9 í landi Austureyjar III, en fyrir hina kærðu deiliskipulagsbreytingu mátti reisa á lóðinni byggingar, samtals 163 m² að stærð.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðar­nefndarinnar. Fyrirhugað sumarhús verður í nokkur hundrað metra fjarlægð frá landi kæranda. Verður ekki séð að stækkun heimilaðrar byggingar um 20,7 m² samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi muni hafa áhrif á grenndarhagsmuni kæranda vegna þeirrar fjarlægðar sem er á milli lands hans og fyrirhugaðs húss. Á kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti byggingarleyfisins svo sem áskilið er í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar en kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III.

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019, um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

112/2018 Freyjubrunnur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 29. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. ágúst 2017 um að endurútgefa byggingarleyfi fyrir þriggja hæða fjölbýlishúsi ásamt geymslu- og bílageymslukjallara á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. ágúst 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Freyjubrunni 25-27, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. ágúst 2017 að endurútgefa byggingarleyfi fyrir þriggja hæða fjölbýlishúsi ásamt geymslu- og bílageymslukjallara á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að þess sé þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. september 2018 og 26. mars 2019.

Málavextir: Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 18. janúar 2007 var staðfest afgreiðsla byggingarfulltrúa frá 16. s.m. um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja þriggja hæða fjölbýlishús ásamt geymslu- og bílageymslukjallara á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn. Takmarkað byggingarleyfi var gefið út 31. júlí s.á. og hófust framkvæmdir í kjölfar þess.   Byggingarleyfið var síðan gefið út 24. september s.á. en framkvæmdir stöðvuðust á árinu 2008.

Hinn 30. maí 2017 höfðu kærendur samband við Reykjavíkurborg þar sem þau höfðu fengið fregnir af því að hefja ætti byggingu á þriggja hæða húsi við Freyjubrunn 23 og töldu þau fyrirhugaða framkvæmd stangast á við deiliskipulag. Hið útgefna byggingarleyfi frá 2007 var svo endurútgefið 17. ágúst 2017 og hófust framkvæmdir á lóðinni um haustið. Skipulagsfulltrúi veitti hinn 29. s.m. umsögn um fyrirspurn varðandi breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Freyjubrunn þar sem m.a. kom fram að samþykktar teikningar væru ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Töluverð tölvupóstsamskipti áttu sér stað á milli kærenda og Reykjavíkurborgar næstu mánuði þar sem kærendur voru ítrekað upplýstir um að verið væri að vinna í málinu. Hinn 2. ágúst 2018 var kærendum tilkynnt að ekki yrði aðhafst frekar í málinu og að eigendur Freyjubrunns 23 hefðu í höndunum útgefið byggingarleyfi og framkvæmdu í samræmi við það. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni sem fyrr segir 29. ágúst s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að hið kærða byggingarleyfi samræmist ekki deiliskipulagi. Fyrirhuguð bygging verði of há og skerði útsýni og birtu verulega gagnvart nærliggjandi húsum. Hinn 19. september 2017 hafi kærendur farið ásamt lögmanni sínum á fund með starfsmanni skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar. Á þeim fundi hafi fulltrúar umhverfis- og skipulagssviðs verið sammála kærendum um að útgefið byggingarleyfi væri ekki í samræmi við deiliskipulag. Þessi afstaða hafi síðar verið staðfest í formlegu svari umhverfis- og skipulagssviðs, dags.  29. september 2017, við fyrirspurn leyfishafa um breytingar á húsi að Freyjubrunni 23.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Fyrir liggi að upphaflegt byggingarleyfi hafi verið gefið út árið 2007 og endurnýjað 17. ágúst 2017. Kærendum, sem séu íbúar í næsta húsi við Freyjubrunn 23, hafi verið kunnugt um yfirstandandi framkvæmdir til lengri tíma. Fram komi í kærunni að þeir hafi fundað með skipulagsfulltrúa 19. september 2017 vegna byggingarleyfisins. Í það minnsta megi gera ráð fyrir því að full vitneskja hafi verið um tilvist þess frá þeim tíma. Samt sem áður hefðu kærendur ekkert aðhafst í því að kæra útgáfu þess fyrr en 29. ágúst 2018, 377 dögum eftir útgáfu þess. Kærendur hafi beint samtali sínu að embætti sem ekkert hafi með útgáfu leyfisins að gera og hafi engar stjórnsýslulegar heimildir vegna byggingarmála. Hafa verði í huga að kærendur hafi notið aðstoðar lögmanns. Alla jafna megi geri strangari kröfur til lögmanna, sem séu sérfróðir um kæruleiðir og kærufresti stjórnsýslumála.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærufrestur sé liðinn vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa Reykjavíkur um að endurútgefa byggingarleyfi 17. ágúst 2017. Af gögnum málsins megi ráða að kærendum hafi verið kunnugt um útgáfu þess a.m.k. frá 19. september s.á. þegar þeir hafi farið ásamt lögmanni til fundar við starfsmann umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kærða ákvörðun. Engar forsendur séu til þess að miða upphaf kærufrests við annað og síðara tímamark en 19. september 2017 enda komi afdráttarlaust fram í kæru að kærendum hafi verið fullkunnugt um útgáfu byggingarleyfisins við framangreint tímamark.

Órökstuddar vangaveltur þáverandi starfsmanns umhverfis- og skipulagssviðs þess efnis að byggingarleyfi samræmdist ekki gildandi deiliskipulagi svæðisins breyti engu um upphaf kærufrestsins. Þær vangaveltur starfsmannsins hafi heldur ekki átt við nokkur rök að styðjast, sem endurspeglist í þeirri staðreynd að gilt og útgefið byggingarleyfi hafi aldrei verið afturkallað eða fellt úr gildi af byggingarfulltrúa. Útgefið byggingarleyfi sé í fullu samræmi við 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og gildandi skipulagsáætlanir. Ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að málsmeðferð Reykjavíkurborgar við útgáfu leyfisins sé haldin einhverjum annmörkum sem varðað geti ógildingu ákvörðunarinnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Hið kærða byggingarleyfi var endurútgefið 17. ágúst 2017 en af gögnum málsins má ráða að kærendum hafi í síðasta lagi verið kunnugt um útgáfu þess á fundi með fulltrúum borgaryfirvalda 19. september s.á. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hins vegar 29. ágúst 2018 eða rúmum 11 mánuðum síðar.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Fyrir liggur í gögnum málsins að eftir fyrrnefndan fund 19. september 2017, þar sem sú afstaða mun hafa komið fram af hálfu fulltrúa umhverfis- og skipulagssviðs að byggingarleyfið ætti sér ekki stoð í deiliskipulagi, áttu sér stað talsverð samskipti á milli kærenda og borgaryfirvalda þar sem kærendur voru ítrekað upplýstir um að verið væri að vinna í málinu. Er það ekki fyrr en 2. ágúst 2018 sem kærendur eru upplýstir af starfsmanni umhverfis- og skipulagssviðs um að ekki verði aðhafst frekar í málinu. Telja verður að undantekningarákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga eigi hér við og að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki komið fyrr fram í málinu. Verður það því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Á grundvelli ákvæðisins tilkynnir leyfisveitandi umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrir­huguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Skal útgefið byggingarleyfi vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Á svæðinu gildir deiliskipulag Úlfarsársdals sem tók gildi 19. febrúar 2018. Í skilmálatöflu sem hefur að geyma sérskilmála fyrir hverja lóð á skipulagssvæðinu kemur fram að heimilað sé að reisa tveggja og hálfrar hæðar hús á lóðinni Freyjubrunni 23 auk bílageymsluhæðar, en sömu skilmála var að finna í eldra deiliskipulagi. Þegar um tveggja og hálfrar hæða fjölbýlishús sé að ræða takmarkist byggingarmagn íbúðarhæða við 2,5 x grunnflöt byggingarreits. Hið kærða byggingarleyfi heimilar byggingu þriggja hæða fjölbýlishúss ásamt geymslu- og bílageymslukjallara. Grunnflötur byggingarreits lóðarinnar er 251,75 m2 og er því leyfilegt flatarmál íbúðarhæða 629,4 m2. Samkvæmt samþykktri skráningartöflu verður byggingarmagn íbúðarhæða 559,4 m2 og er því innan leyfilegs byggingarmagns samkvæmt deiliskipulaginu.

Í skilmálum deiliskipulagsins kemur fram að fjölbýlishús verði almennt 2-5 íbúðarhæðir auk bílageymsluhæðar. Hámarksvegghæð þriggja hæða bygginga sé 9,5 m yfir viðmiðunarkóta aðkomuhæðar (KA) ef þök séu flöt. Ef þök séu hallandi sé hámarkshæð þriggja hæða bygginga 11,0 m. Sjá má á samþykktum teikningum fyrir Freyjubrunn 23 að hámarkshæð byggingarinnar mun verða 13,45 m miðað við kóta aðkomuhæðar.

Með hliðsjón af framangreindu er hið kærða byggingarleyfi ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags um hámarkshæð húsa, svo sem áskilið er í 11. gr., sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr., laga um mannvirki og verður það af þeim sökum fellt úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. ágúst 2017, um að endurútgefa byggingar-leyfi fyrir þriggja hæða fjölbýlishúsi ásamt geymslu- og bílageymslukjallara á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn, er felld úr gildi.

131/2018 Rangársel

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. október 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir að breyta notkun verslunarrýmis í húsinu nr. 8 við Rangársel í barnaheimili.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október 2018, er barst nefndinni 31. s.m., kærir Steinhús Verktakar ehf., Rangárseli 6, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. október 2018 fyrir að breyta notkun verslunarrýmis í húsinu nr. 8 við Rangársel í barnaheimili. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. nóvember 2018.

Málavextir: Hinn 20. júlí 2018 var sótt um byggingarleyfi til að breyta notkun verslunarrýmis í húsinu nr. 8 við Rangársel í barnaleikskóla fyrir 15 til 20 börn. Útisvæði barna yrði komið fyrir „á lóð íbúðarhússins á efri hæð“ sem yrði girt af með eins metra hárri girðingu, en íbúðarhúsið er í eigu sömu aðila og greint verslunarrými. Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 23. október 2018. Vísað var m.a. til umsagnar skipulags­fulltrúa vegna fyrirspurnar umsækjanda byggingarleyfisins, dags. 9. apríl 2018, þar sem ekki var gerð skipulagsleg athugasemd við erindið. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 25. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að barnaheimili á umræddum stað muni óhjákvæmilega trufla eða loka aðgengi að sameiginlegri geymslu sem sé staðsett við hlið útitröppu í vesturhluta húsalengjunnar, en hugmyndin sé að fara með börnin um þær tröppur til útisvæðis. Reksturs barnaheimilis muni leiða til þess að bílastæði muni algjörlega fyllast milli kl. átta og níu að morgni og milli kl. fjögur og fimm síðdegis. Auk þess muni sameiginleg bílastæði verða lögð af. Rekstur barnaheimilis muni óhjákvæmilega torvelda að hægt sé að stunda þar jafnframt aðra starfsemi. Í eignaskipta­yfirlýsingu sé getið um verslanir eða þjónustu í lengjunni. Þjónusta hafi víðtæka skilgreiningu en barnaheimili sé þar ekki meðtalið. Fasteignasali hafi metið áhrif þess að setja barnaheimili í lengjuna og sé niðurstaðan sú að það muni rýra verðmæti eignar kæranda.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að sú málsástæða kæranda sé fráleit að not barnaheimils af sameiginlegum tröppum muni trufla eða loka aðgangi að sameiginlegri geymslu. Aðgangur að sameiginlegri geymslu sé eðli málsins samkvæmt sameiginlegur og hafi því sameigendur jafnan rétt til aðgangs. Til að komast að útivistarsvæði, sem sé í eigu byggingarleyfishafa, sé gengið framhjá útigeymslunni og upp tröppur. Verði ekki séð að kærandi verði fyrir truflun af þeim sökum, hvað þá að aðgengi að geymslunni lokist. Ekki sé heldur fallist á að rekstur barnaheimilis muni leiða til þess að bílastæði fyllist á tilteknum tímum. Næg bílastæði séu á lóðinni og eðli málsins samkvæmt muni einhverjir bílar stoppa stutt á meðan börnin séu sótt. Sameiginleg bílastæði á lóðinni verði óbreytt.

Reykjavíkurborg átti sig ekki á því hvað kærandi eigi við með því að starfsemin muni gera annarri starfsemi erfitt fyrir enda hafi engin rök verið færð fyrir þeirri fullyrðingu. Ekki sé heimilt að vera með neina meiriháttar atvinnustarfsemi á lóðinni. Lóðin sé á skilgreindu íbúðarsvæði þar sem heimiluð sé minniháttar atvinnustarfsemi. Fullyrðingu kæranda um verðfall á eign sinni sé mótmælt enda hafi engin rök verið leidd fyrir þeirri ályktun.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar rekstur barna­heimilis á fyrstu hæð hússins nr. 8 við Rangársel sem stendur á lóðinni nr. 2-8 við þá götu. Á svæðinu er í gildi deiliskipulagið Seljahverfi, Breiðholt II, frá árinu 1973. Engin greinargerð fylgdi deiliskipulaginu og er ekki að finna sérstaka skilmála á skipulagsuppdrætti er taka til húsnæðisins.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem íbúðarbyggð. Sam­kvæmt gr. 6.2.a. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er íbúðarbyggð skilgreind sem svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar sé kveðið á um í stefnu skipulagsins. Þá er tekið fram í greinargerð aðalskipulagsins að innan skilgreindra íbúðarsvæða sé mögulegt að gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi enda sé um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki valdi ónæði. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að umsókn um rekstur barnaheimilis fyrir 15 til 20 börn á jarðhæð hússins að Rangárseli 8 falli að skilgreindri landnotkun svæðisins. Er hin kærða ákvörðun samkvæmt framansögðu í samræmi við gildandi skipulag. Þá verður ekki séð að umdeild breyting hafi í för með sér röskun á hagsmunum kæranda í ljósi umfangs heimilaðs rekstrar enda verður kærandi að sæta því að aðrir eigendur fasteigna á lóðinni geti nýtt sér sameiginlegar tröppur. Þá verður heldur ekki séð að réttur kæranda til bílastæða á lóðinni verði á neinn hátt raskað.

Samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fasteignanna við Rangársel 2-8 frá ágúst 1987 eru á fyrstu hæð, með aðkomu frá Rangárseli, „fjórir eignarhlutar, sem eiga eingöngu hlutdeild í lóð fyrir framan hvert verslunarbil ásamt bílastæðum þar.“ Jafnframt eru á annarri og þriðju hæð fjórar íbúðir í heildarhúseigninni og fylgir þeim eignum lóð fyrir framan hverja íbúð sem snúa að Skógarseli, þar sem fyrirhugað er að hafa útisvæði barna eins og áður hefur verið rakið. Með hliðsjón af þessu liggur fyrir að ekki hafi þurft samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 fyrir hinu kærða byggingarleyfi enda tók það samkvæmt efni sínu ekki til ráðstöfunar eða hagnýtingar á sameign annarra fasteignaeigenda.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin ágöllum sem raskað geta gildi hennar og verður því ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. október 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir að breyta notkun verslunarrýmis í húsinu nr. 8 við Rangársel í barnaheimili.

128/2018 Eyrarbraut

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 128/2018, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 26. september 2018 um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna gluggaops á bílskúr sem stendur á lóðinni Eyrarbraut 12, Stokkseyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. október 2018, er barst nefndinni 26. s.m., kærir eigandi, Eyrarbraut 10, Stokkseyri, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 26. september 2018 að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna gluggaops á bílskúr sem stendur á lóðinni við Eyrarbraut 12. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 29. nóvember 2018.

Málavextir: Hinn 21. apríl 2018 sendi kærandi skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar erindi varðandi gluggaop á norðurgafli bílskúrs að Eyrarbraut 12. Í erindinu var vísað til samkomu­lags, dags. 3. ágúst 1997, þar sem eigendur lóðanna við Eyrarbraut 10 og 12 samþykktu staðsetningu, stærð og gerð umrædds glugga á meðan móðir annars þáverandi eigenda fasteignarinnar að Eyrarbraut 12 notaði bílskúrinn til íbúðar. Þá kom fram í samkomulaginu að loka skyldi fyrir gluggann ef hún hætti að nota bílskúrinn til íbúðar nema að fengnu samþykki eigenda Eyrarbrautar 10 um annað. Samkomulaginu var þinglýst sem kvöð á fasteignina Eyrarbraut 12. Í málinu liggur fyrir að móðirin lést árið 2008. Meginástæðu erindisins kveður kærandi vera verulegt ónæði frá íbúum bílskúrsins að Eyrarbraut 12, sem sé af ýmsum toga. Þá ber kærandi því við að misskilningur ríki um mörk lóðanna við bílskúrinn.

Skipulags- og byggingarfulltrúi sendi eigendum fasteignanna við Eyraveg 10 og 12 bréf, dags. 17. maí 2018, þar sem tilkynnt var að hann hefði tekið til skoðunar hvort umrætt gluggaop samrýmdist ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Einnig kom fram að tekið yrði til skoðunar hvort tilefni væri til að krefja aðila um úrbætur eða eftir atvikum að beita þvingunarúrræðum 55. eða 56. gr. mannvirkjalaga, sbr. gr. 2.9.1. og 2.9.2. í reglugerðinni. Þá var eigendum einnig veittur frestur til að koma að sjónarmiðum sínum í málinu og leggja fram gögn áður en tekin yrði endanleg ákvörðun. Skipulags- og byggingar­fulltrúa barst bréf frá kæranda, dags. 25. maí 2018. Í bréfinu voru áður framkomnar athuga­semdir ítrekaðar. Þá barst jafnframt bréf frá eigendum Eyrarbrautar 12, dags. 1. ágúst 2018, þar sem komu m.a. fram sjónarmið vegna ágreinings um lóðamörk.

Í hinni kærðu ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa frá 26. september 2018 var talið að rétt hefði verið að afla byggingarleyfis áður en settur hefði verið upp gluggi sá sem staðsettur væri á útvegg bílskúrs á lóðinni við Eyrarbraut 10. Hins vegar stæðu ekki efni til að beita þeim þvingunarúrræðum sem greini í ákvæðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að samkomulag hafi verið gert milli eigenda Eyrar­brautar 10 og 12 þess efnis að gluggaopi á bílskúr Eyrarbrautar 12 yrði lokað um leið og móðir þáverandi eiganda fasteignarinnar flytti úr bílskúrnum. Hún hafi andast árið 2008, þá löngu flutt úr honum, en glugginn sé þar enn. Þá sé búið að skipta um skyggt öryggisgler í neðri glugganum sem tilgreint sé í þinglýstu kvöðinni og sett hafi verið venjulegt gler í þann hluta gluggans. Þar með sé óskert útsýni frá glugganum inn í garð kæranda og stofu hennar. Gerð sé krafa um að glugganum verði lokað og að úrskurðarnefndin felli úr gildi synjun skipulags- og byggingar­fulltrúa, en hann hafi viðurkennt að staðsetning gluggans standist engar reglur.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Bæjaryfirvöld vísa til þess rökstuðnings sem fylgdi hinni kærðu ákvörðun. Þar sé vísað til þess að almenna reglan sé að sækja þurfi um byggingarleyfi fyrir öllum nýjum mannvirkjum, viðbyggingum og breytingum á t.d. útliti, burðarkerfi og lagnakerfum. Ýmsar minniháttar framkvæmdir sem tilgreindar séu í gr. 2.3.5. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012 séu þó undanþegnar byggingarleyfi og sæki þessi undantekning frá kröfu um byggingarleyfi stoð í 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Sú aðgerð að setja glugga í útvegg verði að teljast breyting á mannvirki sem sé háð leyfi byggingarfulltrúa í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga og sé því byggingarleyfisskyld framkvæmd.

Ákvæði X. kafla mannvirkjalaga, sbr. gr. 2.9.1. og 2.9.2. í byggingarreglugerð hafi að geyma íþyngjandi heimildarákvæði og því ekki um að ræða fortakslausa skyldu til þess að beita þeim, þrátt fyrir að ekki hafi verið formlega rétt staðið að framkvæmdum, sbr. 9. gr. laganna. Beiting þvingunarúrræða skuli byggja á atviksbundnu mati á hverju tilviki fyrir sig og skuli það gert með tilliti til meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf, sbr. einkum 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Við mat á því hvort beita eigi þvingunarúrræðum beri m.t.t. meðalhófsreglu að meta þá andstæðu hagsmuni sem vegist á hverju sinni. Eigandi Eyrarbrautar 10 kveði veruleg óþægindi stafa frá margvíslegri notkun bílskúrsins að Eyrarbraut 12 og sé það meginástæða athugasemda hennar. Staðsetning gluggaopsins kunni að valda eigendum Eyrarbrautar 10 einhverjum óþægindum en ekki sé að sjá að þau óþægindi séu umfram það sem fólk megi almennt búast við í þéttbýli. Það sé því mat skipulags- og byggingarfulltrúa, m.t.t. eðlis, staðsetningar og umfangs gluggans, að þrátt fyrir annmarka er varði tilkomu hans feli tilvist hans ekki í sér svo verulega réttindaskerðingu að það leiði sjálfstætt til beitingar þvingunarúrræða. Þá hafi staðsetning og gerð gluggaopsins samræmst almennum öryggis­kröfum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna gluggaops á norðurvegg bílskúrs að Eyrarbraut 12. Sú ákvörðun byggingarfulltrúa er kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 8. gr. laga um mannvirki fer byggingarfulltrúi með eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi og er m.a. tekið fram í gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að byggingarfulltrúi skuli grípa til viðeigandi aðgerða samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar og 10. kafla mannvirkjalaga sé framkvæmd ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög, reglugerðir og byggingarlýsingu. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga getur byggingar­fulltrúi stöðvað framkvæmdir ef byggt er án þess að leyfi sé fengið fyrir framkvæmdinni eða ef ekki er að öðru leyti fylgt eftir ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er að finna heimild fyrir byggingar­fulltrúa til að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Þá heimilar 56. gr. byggingarfulltrúa að krefjast úrbóta að viðlögðum dagsektum. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða gagnvart þriðja aðila vegna einstaklings­hagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja slíka hagsmuni, svo sem með því að bera ágreining um brot á samningi milli aðila undir dómstóla.

Bæjaryfirvöld rökstuddu synjun um beitingu þvingunarúrræða með þeim hætti að ekki væri að sjá að staðsetning gluggaopsins kynni að valda eigendum Eyrarbrautar 10 einhverjum óþægindum umfram það sem fólk mætti almennt búast við í þéttbýli. Þá hafi staðsetning og gerð gluggaopsins samræmst almennum öryggiskröfum. Verður ekki annað séð en að það mat skipulags- og byggingarfulltrúa að ekki væri tilefni til að beita þvingunarúrræðum sé stutt fullnægjandi efnisrökum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 26. september 2018 um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna gluggaops á bílskúr sem stendur á lóðinni Eyrarbraut 12, Stokkseyri.

39/2019 Strandarvegur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 4. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2019, beiðni um að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úrskurði um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 á Seyðisfirði teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. maí 2019, er barst nefndinni 3. júní s.á., fór skipulags- og byggingarfulltrúi Seyðisfjarðar, f.h. bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar, fram á, með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, að úrskurðað verði um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 á Seyðisfirði teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi.

Gögn málsins bárust frá Seyðisfjarðarkaupstað 3. júní 2019.

Málsatvik: Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkti á fundi sínum 16. apríl 2019 að óska eftir ofangreindri málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar með vísan til 4. mgr. 9. gr. mannvirkja-laga nr. 160/2010, þar sem uppi væri verulegt álitamál um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála er hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Fram kemur í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Sú undantekning er gerð í 4. mgr. 9. gr. laganna að leiki vafi á því hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi eða falli undir 2. eða 3. mgr. ákvæðisins skuli leita niðurstöðu úrskurðarnefndar skv. 59. gr. laganna. Er í slíkum málum því tekin afstaða til þess hvort gerð tiltekins mannvirkis eða breyting á því sé háð byggingarleyfi.

Í máli þessu er ekki leitað niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um byggingarleyfisskyldu vegna gerðar tiltekins mannvirkis eða breytinga á því heldur er leitað álits nefndarinnar á því hvort samþykkt tiltekinnar reyndarteikningar af innra skipulagi Strandarvegar 21 feli í sér ákvörðun um byggingarleyfi. Slík lögspurning verður ekki borin undir úrskurðarnefndina á grundvelli 4. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga heldur verður einungis tekin afstaða til þess álitaefnis í kærumáli þar sem ágreiningur er uppi um gildi eða þýðingu áritunar svonefndrar reyndarteikningar.

Af framangreindum ástæðum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Beiðni bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar, um að úrskurðarnefndin úrskurði um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 á Seyðisfirði teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

17/2019 Austurkór

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 27. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2019, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. febrúar 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum við gerð sparkvallar, afgirtum að hluta, og stíga við Austurkór, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2019, er barst nefndinni 4. mars s.á, kærir eigandi Austurkórs 90, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. febrúar 2019 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð sparkvallar, afgirtum að hluta, og stíga við Austurkór, Kópavogi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með tölvupósti frá 31. maí 2019 fór kærandi fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 21. mars 2019.

Málavextir: Í apríl 2018 hóf Kópavogsbær framkvæmdir við boltavöll, göngustíg og bætta aðkomu að fráveitulögnum í næsta nágrenni við íbúð kæranda. Ekki var gefið út sérstakt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdunum skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 heldur var á því byggt að nægilegt væri að framkvæmdirnar ættu stoð í samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið. Kærandi í máli þessu kærði þær framkvæmdir til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði uppkveðnum 15. nóvember 2018 í kærumáli nr. 103/2018 vísaði málinu frá þar sem ekki lá fyrir kæranleg stjórnvalds­ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis. Í úrskurðinum var á því byggt að framkvæmd bæjaryfirvalda við boltavöllinn hefði verið framkvæmdaleyfisskyld en að framkvæmdir við göngustíg á svæðinu væru ekki háðar slíku leyfi.

Í kjölfar úrskurðar nefndarinnar var málið lagt fyrir skipulagsráð Kópavogsbæjar, sem samþykkti á fundi sínum 4. febrúar 2019 framkvæmdaleyfi fyrir gerð sparkvallar og stígum norðan og vestan við Austurkór 76-92. Sparkvöllurinn verði afgirtur að hluta með tveggja til þriggja metra hárri stálgirðingu. Var sú afgreiðsla staðfest af bæjarstjórn 12. s.m. og var hið kærða framkvæmdaleyfi gefið út 14. febrúar 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 103/2018 og ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Sérstaklega sé vísað til e-liðar gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sem mæli m.a. fyrir um að ekki sé heimilt að breyta hæð lóðar innan hennar þannig að það valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni, t.d. vegna útsýnis. Það sé augljóst að mannvirkið liggi of hátt í landinu. Leiði það til skertra lífsgæða nágranna vegna lakara útsýnis sem og þess að í framkvæmdaleyfinu sé kveðið á um að heimilt sé að reisa tveggja til þriggja metra háar girðingar.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Hið kærða framkvæmdaleyfi sé í fullu samræmi við skipulag svæðisins og málsmeðferð hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Jafnframt verði ekki séð að sparkvöllurinn muni skerða útsýni eða hafa önnur neikvæð grenndaráhrif.

Athugasemdir kæranda við umsögn Kópavogsbæjar: Kærandi vísar m.a. til þess að máls­meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar þar sem komist sé m.a. að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin sé veruleg og þar af leiðandi leyfisskyld. Einnig sé dregið í efa að ákvæði byggingarreglugerðar hafi verið uppfyllt en ekki verði séð að á neinu stigi málsins hafi byggingarfulltrúi átt aðkomu að málinu.

Sú fullyrðing að sparkvöllurinn skerði ekki útsýni eða hafi önnur neikvæð grenndaráhrif sé ósönnuð. Ekki hafi verið gerð tilraun af hálfu skipulagsyfirvalda til að ræða við þá íbúa sem málið snerti, heimsækja þá eða kynna íbúum málið á vettvangi áður en framkvæmdir hæfust. Vettvangsskoðun úrskurðarnefndarinnar og niðurstaða hennar um að framkvæmdin sé veruleg og hafi verið háð framkvæmdaleyfi staðfesti að framkvæmdin sé viðamikil og að þörf hafi verið á frekari skoðun málsins.

Svo virðist sem að við framkvæmdina hafi ekki verið fylgt  ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012, en í reglugerðinni og lögum sé m.a. mælt fyrir um nágrannarétt, grenndarkynningar og skerðingu útsýnis. Þá sé hvergi að finna í fundargerðum skipulagsnefndar Kópavogsbæjar umfjöllun um úrskurð úrskurðarnefndarinnar, sem hljóti að vera mjög undarleg stjórnsýsla. Þá megi spyrja hvernig Kópavogsbær hefði farið með þetta mál ef óskyldur aðili hefði sótt um framkvæmda- og byggingarleyfi fyrir verkefnið.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Að lokum kemur það fram í 5. mgr. 13. gr. að þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu, sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag varðandi landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar.

Með hinu kærða framkvæmdaleyfi var heimiluð gerð 30×15 m sparkvallar, sem verður að hluta girtur af með tveggja til þriggja  metra hárri stálgirðingu og afmarkaður af stíg norðan og vestan við Austurkór 76 til 92 í Rjúpnahæð. Jafnframt var heimilað að leggja göngustíg að sparkvellinum milli lóðanna við Austurkór 82, 84, 86, 88 og 90.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Rjúpnahæð – Vesturhluta er gert ráð fyrir boltavelli norðan lóðanna Austurkórs 88-92. Deiliskipulagið var upphaflega samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs 13. mars 2007 og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. maí s.á. Með deiliskipulagsbreytingu, sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 24. maí 2011 og öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní s.á., var gerð breyting á deiliskipulaginu. Er þar heimilað að boltavöllurinn verði færður fjær lóðunum við Austurkór 88-92 og að hluta til út fyrir mörk þess svæðis sem skipulagið nær til. Aðrar upplýsingar um boltavöllinn en um staðsetningu hans er ekki að finna í skipulagi. Á deiliskipulagsuppdrætti er göngustígur vestan lóðanna Austurkórs 76-86, en ekki er þar gert ráð fyrir lagnastíg eða öðrum stíg norðan lóðanna Austurkórs 88-104. Heimilaður boltavöllur liggur innan þess svæðis sem gildandi deiliskipulag tekur til og ætlað er undir boltavöll. Áður en hinar umdeildu framkvæmdir hófust var á svæðinu slóði að fráveitulögnum og hefur hann nú verið breikkaður og hækkaður og tengist hann nú áðurnefndum göngustíg, sem gert er ráð fyrir á deiliskipulagsuppdrætti og myndar aðkomuleið að boltavellinum.

Verður að telja með hliðsjón af framangreindu að heimilaðar framkvæmdir við stígagerð og boltavöll eigi stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis og bar því ekki nauðsyn til að grenndarkynna þær framkvæmdir, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga.

Sé tekið mið af fyrirhugaðri staðsetningu boltavallarins gagnvart íbúðar kæranda verður ráðið að grenndaráhrif með tilliti til útsýnis verði þar ekki veruleg. Ljóst er að vellinum fylgir umferð gangandi fólks um svæðið, auk þess sem honum munu fylgja allnokkur áhrif á næsta umhverfi, svo sem með tilliti til hljóðvistar vegna boltaleikja, en líta verður til þess að boltavöllur hefur verið ráðgerður á greindum stað í deiliskipulagi um árabil með þeim grenndaráhrifum sem slíkum velli fylgir.

Þær framkvæmdir sem heimilaðar eru með umræddu framkvæmdaleyfi fela m.a. í sér að boltavöllurinn verður girtur af að hluta með tveggja til þriggja metra hárri stálgirðingu. Er slík girðing háð byggingarleyfi sem byggingarfulltrúi veitir skv. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og gr. 2.3.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, enda fellur slík girðing ekki undir undanþáguákvæði f-liðar 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Er hið kærða framkvæmda­leyfi því ekki viðhlítandi stoð fyrir gerð áðurnefndrar girðingar.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað að öðru leyti en því er varðar heimild fyrir áðurnefndri girðingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. febrúar 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum við gerð sparkvallar og stíga í Kópavogi, að öðru leyti en því er varðar leyfi til að reisa tveggja til þriggja metra háa stálgirðingu við völlinn.

25/2018 Brekkugata

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Akureyrar­kaupstaðar frá 4. janúar 2018 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun jarðhæðar hússins að Brekkugötu 13, Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðhæðar hússins að Brekkugötu 13, Akureyri, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Akureyrar­kaupstaðar frá 4. janúar 2018 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun jarðhæðarinnar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og umsóknin samþykkt en ella að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að samþykkja umsóknina. Að öðrum kosti er gerð sú krafa að auk ógildingar verði lagt fyrir Akureyrarkaupstað að setja hæfan og óvilhallan byggingarfulltrúa til að afgreiða fyrirliggjandi byggingarumsókn kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 14. mars 2018.

Málavextir: Kærendur festu kaup á jarðhæð hússins að Brekkugötu 13 snemma árs 2015. Eignin var skráð sem vinnustofa en fyrri eigendur starfræktu þar húsgagnavinnustofu. Hinn 5. maí 2017 sóttu kærendur um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun jarðhæðarinnar. Byggingarfulltrúi hafnaði erindinu á afgreiðslufundi 11. maí 2017 þar sem rýmið uppfyllti ekki ákvæði byggingarreglugerðar nr. 122/2012 um lofthæð í íbúðarherbergjum.

Hinn 22. desember 2017 barst Akureyrarbæ umsókn að nýju frá kærendum, dags. 19. desember 2017, og fylgdi henni greinargerð byggingarverkfræðings, dags. 4. júlí s.á. Í greinargerðinni kom m.a. fram að umrædd fasteign hentaði vel til notkunar sem íbúð, enda væri öryggi og heilbrigði fólks þar fyllilega samanburðarhæft við aðrar íbúðir í sama húsi. Með greinargerðinni fylgdi og bréf kærenda til Mannvirkjastofnunar þar sem óskað var eftir leiðbeiningum til handa byggingarfulltrúa um túlkun á 3. mgr. gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð og þá einkum hvort heimilt væri að víkja frá einstökum ákvæðum 6. hluta hennar, þ.m.t. ákvæðum 2. mgr. gr. 6.7.2. um lofthæð. Í svarbréfi Mannvirkjastofnunar, dags. 7. september 2017, kom fram að stofnunin hefði litið svo á að 3. mgr. gr. 6.1.5. ætti eingöngu við um þær kröfur sem gerðar væru til algildrar hönnunar og aðgengis, en hún ætti ekki við um lágmarkskröfur um lofthæð í íbúðarhúsnæði almennt skv. gr. 6.7.2. Því hefði verið talið að greinin fæli ekki í sér heimild fyrir byggingarfulltrúa til að veita undanþágur hvað varðaði lofthæð í íbúðarhúsnæði.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. janúar 2018 var umsókn kærenda um byggingarleyfi tekin fyrir. Í bókun byggingarfulltrúa var vísað til afgreiðslu fyrra erindis um sama mál, „með rökum sem nú er stutt í svarbréfi Mannvirkjastofnunar, dagsett 7. September 2017.“ Byggingarfulltrúi hafnaði erindinu þar sem ákvæði byggingarreglugerðar um lofthæð væru ekki uppfyllt, sbr. gr. 6.7.2., og einnig með vísan til gr. 6.7.4. í reglugerðinni. Með tölvupósti 10. janúar 2018 óskuðu kærendur eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun byggingarfulltrúa. Rökstuðningurinn barst kærendum 19. s.m. Kemur þar m.a. fram að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi byggst á ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012, með áorðnum breytingum. Hafi erindi kærenda verið hafnað annars vegar vegna lofthæðar, sbr. ákvæði gr. 6.7.2., og hins vegar vegna þess að jarðhæðin sé niðurgrafin, ef frá sé talin austurhlið hennar, sbr. ákvæði gr. 6.7.4. Þá hafi Mannvirkjastofnun gefið út túlkun sína á gr. 6.1.5. í reglugerðinni um að ákvæðið gildi eingöngu um undanþágu frá algildri hönnun en ekki um aðra hluta hennar.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja fyrst og fremst á því að hin kærða ákvörðun sé byggð á rangri túlkun byggingarfulltrúa á undanþáguákvæði 3. mgr. gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Sé ákvörðun byggingarfulltrúa byggð á því að honum sé óheimilt að veita undanþágu frá ákvæðum gr. 6.7.2. og gr. 6.7.4. á grundvelli 3. mgr. gr. 6.1.5. í reglugerðinni. Þessi skilningur sé í engu rökstuddur en þrátt fyrir það virðist byggingarfulltrúi hafa lagt til grundvallar að ákvæði 3. mgr. gr. 6.1.5. veiti honum aðeins heimild til að veita undanþágu frá tilteknum en ekki öllum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar. Telji kærendur að byggingarfulltrúa sé ekki aðeins heimilt heldur beinlínis skylt að veita undanþágu frá framangreindum ákvæðum með vísan til ákvæðis 3. mgr. gr. 6.1.5. í reglugerðinni. Slík skýring fáist í fyrsta lagi með vísan til einfaldrar orðskýringar á ákvæðinu. Í öðru lagi sé sú túlkun reglugerðarinnar sem kærendur byggi á í samræmi við stjórnarskrárvarinn rétt þeirra til nýtingar á eign sinni. Þá beri í þriðja lagi við skýringu á gr. 6.1.5. að horfa til meginreglna laga, tilgangs ákvæðisins og markmiðs þess.

Skilyrði til útgáfu umbeðins byggingarleyfis séu að fullu uppfyllt og því beri að breyta hinni kærðu ákvörðun á þá leið sem tiltekið sé í aðalkröfu kærenda eða til vara að byggingarfulltrúa verði gert að samþykkja fyrirliggjandi umsókn kærenda. Umrætt hús sem byggt sé árið 1904, sé staðsett í brattri brekku og þannig byggt að erfiðleikum sé bundið að uppfylla ákvæði gr. 6.7.2. og gr. 6.7.4. í byggingarreglugerðinni án þess að breyta að verulegu leyti megingerð mannvirkisins, burðarvirki þess, útliti, innra skipulagi og öðrum sérkennum, sem vert sé að varðveita. Af þeim sökum hafi kærendur lagt fram sérstaka greinargerð hönnuðar skv. 3. mgr.  gr. 6.1.5. þar sem fram komi að verndarhagsmunir framangreindra ákvæða byggingarreglugerðar séu að fullu virtir og að eignin henti vel til notkunar sem íbúð með tilliti til öryggis og heilbrigðis fólks.

Kærendur bendi jafnframt á að stjórnsýslumeðferð málsins hafi í flestum atriðum verið veru­lega áfátt og beinlínis andstæð lögum. Fyrri umsókn kærenda hafi verið afgreidd án samráðs við kærendur, án vettvangsskoðunar og án þess að þeir fengju að koma að sjónarmiðum sínum. Þá hafi kærendur lagt inn nýja umsókn eftir að þeim hafi verið bent á að leggja í kostnaðarsama gagnaöflun. Byggingarfulltrúi hafi á því stigi haft uppi ummæli um kærendur, sem ótvírætt hafi borið merki þess að hann og embætti hans beri kaldan hug til þeirra. Því verði ekki hjá því komist að álykta sem svo að byggingarfulltrúi og starfsmenn hans hafi verið vanhæfir til afgreiðslu umsóknarinnar, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að lokum telji kærendur óhjákvæmilegt að líta til þess að hin kærða ákvörðun sé íþyngjandi. Fasteign kærenda sé skráð sem vinnustofa en hafi ekki verið nýtt sem atvinnuhúsnæði í þrjú ár. Óumdeilt sé að hvorki fasteignin sem slík né umhverfi hennar henti sem atvinnu­húsnæði en hins vegar henti hún vel sem íbúðarhúsnæði. Núverandi staða sé sú að fasteign kærenda verði hvorki með góðu móti nýtt sem atvinnuhúsnæði né íbúðarhúsnæði, sem jafngildi eðli málsins samkvæmt eignaupptöku.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að eignin að Brekkugötu 13  sé í kjallara eða jarðhæð í húsi frá árinu 1904. Eignin, sem sé tilgreint sem vinnustofa í fasteignamati, hafi verið nýtt sem vinnustofa eða verkstæði í tugi ára. Vinnustofan sé niður­grafin, ef frá sé talin austurhlið hennar, og lofthæð sé 2,35 m. Vísað sé í ákvæði gr. 6.7.2. í byggingarreglugerð, sem mæli fyrir um að lofthæð í íbúðarherbergjum og eldhúsi skuli vera a.m.k. 2,50 m að innanmáli, mælt frá fullfrágengnu lofti. Heimilt sé að víkja frá þessu ef meðalhæð herbergis sé minnst 2,20 m og lofthæð minnst 2,50 m í að minnsta kosti 2/3 hluta þess. Undantekningin eigi því ekki við þar sem lofthæð á framlögðum teikningum íbúðarinnar sé tilgreind 2,35 m í allri eigninni. Mannvirkjastofnun hafi einnig gefið út túlkun sína á gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð um að ákvæðið gildi eingöngu um undanþágu frá algildri hönnun en ekki varðandi aðra hluta byggingarreglugerðarinnar.

Byggingarfulltrúi hafi hafnað umsókn kærenda á grundvelli gr. 6.7.4. í byggingarreglugerð. Þar segi að óheimilt sé að hafa sjálfstæða nýja íbúð þar sem útveggir íbúðar séu niðurgrafnir nema að uppfylltum m.a. þeim skilyrðum að minnst ein hlið íbúðarrýmis sé ekki niðurgrafin. Sú óniðurgrafna hlið skuli snúa móti suðaustri, suðri, suðvestri eða vestri og skuli þar vera stofa íbúðarinnar. Þá skuli lengd óniðurgrafinnar hliðar vera minnst 25% af lengd þeirra veggflata sem afmarki íbúðina. Ákvæði 2. mgr. ákvæðisins skuli uppfyllt hvað varði öll niðurgrafin íbúðarherbergi. Þar sem óniðurgrafin hlið umrædds húss snúi á móti austri hafi byggingarfulltrúi hafnað erindi kærenda á grundvelli fyrrgreindrar gr. 6.7.4.

Að lokum sé á því byggt að ákvæði gr. 6.1.5. og 6.7.4. í byggingarreglugerð séu fortakslaus og því sé óheimilt að víkja frá þeim. Undanþága frá ákvæðunum gildi einungis um kröfur um algilda hönnun, sem ekki eigi við í þessu tilviki.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar. Hins vegar tekur hún ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að taka tiltekna ákvörðun. Af þeim sökum verður ekki tekin afstaða til krafna kærenda um að úrskurðarnefndin samþykki byggingarleyfisumsókn þeirra eða leggi fyrir byggingarfulltrúa að gera slíkt. Það sama gildir um þá kröfu kærenda að lagt verði fyrir Akureyrarkaupstað að setja hæfan og óvilhallan byggingarfulltrúa til að afgreiða fyrirliggjandi byggingarumsókn þeirra.

Byggingarfulltrúi hafnaði umsókn kærenda um að breyta vinnustofu á jarðhæð að Brekkugötu 13 í íbúð þar sem ákvæði byggingarreglugerðar voru ekki talin uppfyllt. Vísaði byggingar­fulltrúi í rökstuðningi sínum fyrir ákvörðuninni til túlkunar Mannvirkjastofnunar á gr. 6.1.5. í bréfi stofnunarinnar, dags. 7. september 2017, þar sem litið var svo á að 3. mgr. gr. 6.1.5. ætti eingöngu við um þær kröfur sem gerðar væru um algilda hönnun og aðgengi. Á grundvelli þessa taldi stofnunin að byggingarfulltrúa væri ekki heimilt að veita undanþágur hvað varðar lofthæð í íbúðarhúsi. Ekki liggja fyrir neinar þær ástæður sem benda til hlutdrægni byggingarfulltrúa eða starfsmanna hans við málsmeðferð umsóknar kærenda, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993, svo sem kærendur halda fram.

Í byggingarreglugerð nr. 112/2012, kemur fram í gr. 6.7.2. að lofthæð í íbúðarherbergjum og eldhúsi skuli vera a.m.k. 2,50 m að innanmáli, mælt frá fullfrágengnu gólfi að fullfrágengnu lofti. Þó sé heimilt að víkja frá þessu ef meðalhæð herbergis er minnst 2,20 m og lofthæð minnst 2,50 m í að minnsta kosti 2/3 hluta þess. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er lofthæð umræddrar jarðhæðar kærenda 2,35 m. Lofthæðin nær því ekki því lágmarki sem mælt er fyrir um í gr. 6.7.2. í reglugerðinni. Þá kemur fram í gr. 6.7.4. að óheimilt sé að hafa sjálfstæða nýja íbúð þar sem útveggir íbúðar eru niðurgrafnir nema að uppfylltu m.a. því skilyrði að minnst ein hlið íbúðarrýmis sé ekki niðurgrafin og snúi mót suðaustri, suðri, suðvestri eða vestri og skal þar þá vera stofa íbúðarinnar. Eign kærenda er skráð sem vinnustofa og er niðurgrafin ef frá er talin austurhlið hennar. Liggur því fyrir að rýmið uppfyllir ekki ákvæði gr. 6.7.4. í reglugerðinni, en umsókn kæranda um breytta notkun umrædds húsnæðis fylgdi greinargerð byggingarverkfræðings með rökstuðningi fyrir undanþágu frá gildandi ákvæðum byggingarreglugerðar.

Í áðurgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 kemur fram í gr. 12.8 að við umfjöllun um byggingarleyfisumsóknir, sem varði breytingar á byggingum sem byggðar hafi verið fyrir gildis­töku reglugerðarinnar, skuli taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi voru þegar þær voru byggðar, eftir því sem hægt sé að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggis- og heilbrigðismál. Í núgildandi byggingarreglugerð er ekki að finna sambærilegt ákvæði en í einstökum ákvæðum hennar er tekin afstaða til þess hvort þargreindar kröfur þurfi að uppfylla við breytingar á eldri mannvirkjum. Má þar nefna að í gr. 9.2.5. kemur fram að við breytingar á þegar byggðu mannvirki eða við breytta notkun skuli þess gætt að brunavarnir uppfylli kröfur skv. reglugerðinni og að breytingin skerði ekki brunavarnir annarra þátta mannvirkisins. Er tekið fram í gr. 12.1.2. að ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar um öryggi við notkun eigi við um breytingu á þegar byggðu mannvirki og um breytta notkun þess. Þá er í gr. 6.1.5. fjallað um breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun þess. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að við breytingu á mannvirki sem byggt sé í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli eftir því sem unnt sé byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Þá hljóðar 3. mgr. ákvæðisins svo: „Ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar. Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Taka skal sérstakt tillit til mannvirkja sem falla undir ákvæði laga um menningarminjar.“

Af framangreindum ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar verður sú ályktun dregin að beita skuli þeim ákvæðum hennar er varða öryggi og heilbrigði við breytingar á eldri mannvirkjum og við breytta notkun þeirra, en auk þess geti leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar, sem hefur m.a. að geyma reglur um lofthæð íbúðarrýma, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Af hinni kærðu ákvörðun verður ekki ráðið að byggingarfulltrúi hafi tekið efnislega afstöðu til greinargerðar þeirrar sem fylgdi byggingarleyfisumsókn kærenda og þar með til þess hvort skilyrði væru uppfyllt fyrir undanþágu frá kröfum byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði og hvort tilefni væri til að víkja frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar í samræmi við ákvæði 3. mgr. gr. 6.1.5.

Með hliðsjón af framangreindu voru slíkir annmarkar á rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Akureyrarkaupstaðar frá 4. janúar 2018 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun jarðhæðar hússins að Brekkugötu 13, Akureyri.

13/2019 Blesugróf, Reykjavík

Með

Árið 2019, föstudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. apríl 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir parhúsi með geymslum og bílgeymslum í kjallara á lóðinni nr. 12 við Blesugróf.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. febrúar 2019, kæra eigendur, Blesugróf 14, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. apríl 2018 að veita byggingarleyfi fyrir parhúsi með geymslum og bílgeymslum í kjallara á lóðinni nr. 12 við Blesugróf. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir á lóðinni verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. mars 2019 og viðbótargögn bárust 1. apríl s.á.

Málsatvik: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. apríl 2018 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja parhús með geymslum og bílgeymslum í kjallara á lóðinni nr. 12 við Blesugróf. Var fært til bókar að frágangur á lóðamörkum yrði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Staðfesti borgarráð afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum 26. s.m. Var byggingar­leyfi gefið út 8. janúar 2019 og hófust framkvæmdir við byggingu parhússins í kjölfar þess.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að framkvæmdir þær sem samþykktar hafi verið með hinu kærða byggingarleyfi hafi aldrei verið kynntar fyrir þeim og hafi því þeim ekki verið kunnugt um áformin. Í svari skipulags- og byggingarsviðs sem kærendum hafi borist 14. febrúar 2019 hafi komið fram að hæð fyrirhugaðrar nýbyggingar yrði innan gildandi deiliskipulags. Þegar framkvæmdir hafi byrjað og búið hafi verið að koma púða fyrir á lóðinni og slá upp sökklum hafi komið í ljós að framangreind svör hafi einfaldlega ekki verið rétt. Með vísan til þess hafi kæra í máli þessu borist innan kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og beri því að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Útgefið byggingarleyfi sé ekki í samræmi við skilmála deiliskipulags Blesugrófar. Samkvæmt hæðarblaði sé hæðarkóti 17,8 við lóðamörk Blesugrófar 12 og 14 og skuli frágangur á lóða­mörkunum miða við þá hæð að framkvæmdum loknum. Enginn áberandi hæðarmunur hafi verið á milli lóðanna fyrir framkvæmdir en landið halli lítillega og jafnt á milli Blesugrófar 10 og 14. Kærendur hafi gert ráð fyrir að hæð nýs húss á lóð nr. 12 myndi verða í eðlilegu samhengi við nærliggjandi hús og heildargötumynd, líkt og skilmálar gildandi deiliskipulags krefjist. Nú sé aftur á móti búið að keyra miklu magni af möl í lóðina Blesugróf 12, gera púða ofanjarðar og þar ofan á hafi verið slegið upp fyrir sökklum. Búið sé að búa til hæðarmun á milli lóðanna sem ekki hafi verið til staðar áður. Virðist gert ráð fyrir að gólfkóti Blesugrófar 12 verði 19,86 sem sé 3 m frá lóðamörkum þar sem hæðarkóti sé 17,8. Af þessum sökum þurfi að gera sérstakar varnarráðstafanir til að bregðast við hæðarmismuninum við lóðamörkin en ekkert slíkt hafi verið rætt við kærendur þrátt fyrir að slíkt sé áskilið í útgefnu byggingar­leyfi.

Skilmálar deiliskipulags um 6 m hámarkshæð húsa miði við aðkomuhæð auk þess sem taka skuli tillit til legu í landi, hæð húsa í kring og núverandi ástand. Með því að hafa púða og sökkla hússins ofanjarðar, með gólfkóta 19,86 borið saman við hæðarkóta 17,8 á lóðamörkum í 3 m fjarlægð, sé húsið að Blesugróf 12 komið upp fyrir leyfilega hámarkshæð samkvæmt deiliskipulagi og miðað við það sem kærendur hafi mátt ætla út frá legu lóðarinnar í umhverfinu. Á afstöðumynd sé hæðarkóti mænis sýndur 24,8 sem þýði að húsið verði meira en 6 m hátt miðað við landhæð við lóðamörk.

Í skilmálum gildandi deiliskipulags fyrir Blesugróf komi fram að þar sem aðstæður leyfi megi gera kjallara, en það sé háð mati skipulagsyfirvalda hverju sinni. Þá sé í skipulaginu fjallað um heimild til að vera með bílastæði eða bílskúra. Deiliskipulaginu fylgi skýringarmyndir með dæmum um húsagerðir. Í umsögn skipulagsfulltrúa um hið kærða byggingarleyfi segi að þær aðstæður séu tæplega til staðar að vera með kjallara í húsinu. Heldur mikill halli verði á rampa niður í bílakjallara, eða 17,5%, en viðmið varðandi hámarkshalla á slíkum rampa sé 15%. Hönnun hússins samræmist ekki skilmálum gildandi deiliskipulags og sé ekki í sam­ræmi við legu í landi og umhverfi. Deiliskipulagið heimili ekki bílakjallara heldur einungis lágreista bílskúra. Þá geti skilmálar um kjallara ekki átt við um bílakjallara enda fjallað um bílastæði/bílskúra á öðrum stað í skipulagsskilmálunum. Umræddur bílakjallari virðist að miklu leyti vera rót þess hversu frekt mannvirkið verði til umhverfisins, bæði hvað varði hæð hússins í nágrenni lóðamarkanna og fyrirkomulag aðkomu.

Byggingarleyfið gangi gegn grenndarhagsmunum kærenda og sé ólögmætt. Inngangur að Blesugróf 12 snúi að fasteign kærenda í 2-3 m hæð yfir lóð þeirra, 3 m frá lóðamörkum. Gangstétt og tröppur muni ná nánast alveg að lóðamörkum. Á afstöðumynd sjáist að gert sé ráð fyrir að húsið sjálft verði byggt út að ystu mörkum byggingarreits þeim megin sem snúi að húsi kærenda og síðan sé gert ráð fyrir að gangstígur og tröppur að inngangi séu staðsett á hinu 3 m belti á milli byggingarreits og lóðamarka. Koma þurfi fyrir fallvörnum, bæði við inngang og rampa bílakjallara, sbr. kafla 12.10 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar að auki uppfylli aðkoman að Blesugróf 12 ekki kröfur byggingarreglugerðar um aðgengi, sbr. h-lið 1. mgr. gr. 6.1.3.

Í hinu útgefna byggingarleyfi sé áskilið að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Ekkert samráð hafi aftur á móti verið haft við kærendur og viti þeir því ekki hvernig fyrirhugað sé að ganga frá hæðarmismuninum. Ljóst sé að þar þurfi að koma til umfangsmikið mannvirki, enda gert ráð fyrir að húsið sjálft standi ofan á grjóthrúgu auk þess sem aðalinngangur þess verði þar með tilheyrandi tröppum og fallvörnum. Slík mannvirki á lóðamörkum séu byggingarleyfisskyld skv. ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð, sbr. gr. 2.3.5., auk þess sem samþykki beggja lóðarhafa þurfi að liggja fyrir áður en byggingarleyfi sé gefið út.

Ræktaður garður með sólpalli og heitum potti sé á þeirri hlið lóðar kærenda sem snúi að suðurhlið Blesugrófar 12. Af sólpalli muni blasa við grjótgarður eða annað mannvirki og ofan á því margra metra hár húsveggur. Gott útsýni muni verða úr hinu nýja húsi ofan í garð kærenda, þ.m.t. á sólpallinn og heita pottinn. Vegna hins manngerða hæðarmunar sé engin leið til að hindra útsýnið með skjólveggjum. Búast megi við miklu skuggavarpi frá nýja húsinu og sé líklegt að hinn sólríki suðurgarður verði ekki lengur sólríkur auk þess sem friðhelgi kærenda sé rofin vegna umferðar um gangstétt í 2-3 m hæð og útsýnis yfir garðinn.

Í kærumáli úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 31/2011 hafi verið talið að bygging setlaugar á lóðamörkum hefði veruleg grenndaráhrif gagnvart eigendum aðliggjandi lóðar. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem ákvæði byggingarreglugerðar um girðingar og gróður á lóðamörkum og þeirra grenndaráhrifa sem setlaugin hafði, hafi úrskurðarnefndin ekki talið rétt af hálfu byggingaryfirvalda að veita leyfi fyrir henni á umræddum stað án samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Hafi því byggingarleyfi setlaugarinnar verið fellt úr gildi. Niðurstaða nefndarinnar hafi einnig verið studd við ákvæði 4. mgr. gr. 4.2.2 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 þar sem fram kom að við deiliskipulagningu íbúðar­svæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar. Sambærilegt ákvæði sé nú í gr. 5.3.2.2. í gildandi skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Mál kærenda sé sambærilegt framangreindu máli að því leyti að verulega sé gengið á grenndarhagsmuni þeirra með útgáfu byggingarleyfis án samþykkis þeirra fyrir stórfelldum framkvæmdum við lóðamörk. Samþykki kærenda þurfi fyrir þeim mannvirkjum sem koma þurfi fyrir við og í nágrenni lóðamarka. Áskilnaður um samráð eftir á nægi ekki í því samhengi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að í greinargerð deiliskipulags Blesugrófar komi fram að hús séu bundin þeim skilmálum að óheimilt sé að fara út fyrir byggingarreit. Af þeim gögnum sem hafi fylgt byggingarleyfisumsókninni sé ljóst að öll byggingin sé innan byggingarreits. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins skuli lágmarksfjarlægð frá lóðamörkum vera 3-5 m. Fjarlægð byggingarinnar frá lóðamörkum við Blesugróf 14 sé 3 m. Í greinargerð skipulagsins komi fram að heimilt sé að veita leyfi fyrir kjallara þar sem aðstæður leyfi. Skipulagsfulltrúi hafi skilað inn umsögn þar sem ekki hafi verið gerð athugasemd við niðurgrafinn bílskúr, nema að því að leyti að rampur skuli vera með 15% halla en ekki 17,5% halla líkt og umsóknin gerði ráð fyrir. Heimilt sé á tilteknum lóðum að byggja hærri hús en samkvæmt almennum skilmálum deiliskipulagsins. Þá skuli miða við legu hússins í landi, hæð húsa í kring og núverandi ástand. Hæsti punktur þeirra húsa sem undir heimildina falli sé 6,0 m frá grunnplötu og hámarkshæð útveggja sé sú sama. Sérstakt tillit skuli tekið til nærliggjandi húsa og heildargötumyndar. Blesugróf 12 falli undir þessa reglu og sé leyfileg hámarkshæð 6,0 m mælt frá grunnplötu.

Samkvæmt samþykktum uppdráttum fyrir Blesugróf 12 sé byggingin 6 m að hæð miðað við götukóta en 4,32 m miðað við grunnplötu. Hæsti punktur byggingarinnar sé í kóta 24,18, gólfkóti grunnplötu sé 19,86 og götukóti 18,10. Af þessu megi vera ljóst að byggingin sé innan skilmála deiliskipulagsins, enda sé hæð hússins 4,32 m mælt frá grunnplötu þegar leyfileg hámarkshæð sé 6 m. Í deiliskipulaginu sé ekki kveðið á um það í hvaða hæð miðað við götu grunnplata skuli vera. Hæð hússins sé því í samræmi við gildandi deiliskipulag og sömuleiðis gólfkóti þar sem engin takmörk séu sett í skilmálum skipulagsins fyrir legu hans. Við samþykkt byggingaráforma hafi verið bókað að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Bókunin leggi þær skyldur á herðar byggingaraðila að ekki verði gengið frá lóðamörkum nema í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Verði þeir að koma sér saman um frágang á lóðamörkum. Sveitarfélagið hafi ekki aðrar forsendur en að líta svo á að frágangur verði í samræmi við fyrrnefnda bókun.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar telja að skilmálar gildandi deiliskipulags um hámarks­hæðir húsa hafi ekki verið brotnir. Hönnun umrædds húss sé í fullkomnu samræmi við legu á landi og umhverfið og byggingaryfirvöld hafi heimilað bílageymslu undir húsinu. Vísað sé til heimilda þeirra yfirvalda til mats samkvæmt skipulaginu. Þá hafi kærufrestur verið liðinn þegar kæra hafi borist nefndinni skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í rökstuðningi borgaryfirvalda komi fram að hvergi í deiliskipulaginu sé hæð grunnplötu ákvörðuð miðað við götukóta. Nánast megi skilja afstöðu borgarinnar þannig að engar takmarkanir hafi í raun verið á því hversu mikið hafi mátt hækka lóðina svo lengi sem húsið sjálft væri innan hæðarmarka. Þetta sé einfaldlega rangt þar sem í deiliskipulaginu sé kveðið á um að miða eigi við legu í landi, hæð húsa í kring og núverandi ástand. Jafnframt segi að þegar um sé að ræða lóðir þar sem hærri húsagerð sé leyfð skuli sérstaklega tekið tillit til nærliggjandi húsa og heildargötumyndar.

Vettvangsskoðun: Úrskurðanefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 22. mars 2019 að viðstöddum fulltrúum málsaðila og borgaryfirvalda.

 Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu hófust framkvæmdir á grundvelli hins kærða byggingarleyfis í janúar 2019 og beindi annar kærenda fyrirspurn til byggingarfulltrúa af því tilefni. Var m.a. spurt hvort gólfplata á Blesugróf 12 yrði sú sama og á Blesugróf 10. Í svarpósti starfsmanns byggingar­fulltrúa 21. janúar 2019 er vísað til deiliskipulags svæðisins og þess að byggingar­leyfisumsókn hafi verið send til skipulagsfulltrúa til umsagnar og var jafnframt upplýst um hæðar­­­­kóta Blesugrófar 14 og Blesugrófar 12 en ekki var tekin fram hæð gólfplötu Blesugrófar 10. Ítrekaði kærandi fyrirspurn sína hvað hæð gólfplatna varðaði og verður ekki talið að honum hafi mátt að fullu vera kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar fyrr en starfsmaður skipulagsfulltrúa sendi kæranda sneiðmynd af fyrirhuguð húsi skv. samþykktum teikningum í tölvupósti 14. febrúar s.á. Kæra í máli þessu barst 25. s.m. og þar með innan kærufrests. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Á grundvelli ákvæðisins tilkynnir leyfisveitandi umsækjanda um samþykkt byggingaráforma, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Skal útgefið byggingarleyfi og vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir parhúsi með geymslum og bíl­geymslum í kjallara á lóð nr. 12 við Blesugróf. Er einkum deilt um grenndaráhrif þau sem af húsinu verða sökum hæðar þess og innsýnar á lóð kærenda. Á svæðinu gildir deiliskipulag Blesugrófar frá árinu 2005. Um markmið skipulagsins segir að við uppbyggingu skuli taka mið af yfirbragði hverfisins og leitast við að styrkja heildarmynd þess. Þá segir í skilmálum deiliskipulagsins um hæð bygginga að almennt skuli miða við þá hæð sem einkenni hverfið, þ.e. einnar hæðar einbýlishús með lágu þaki. Hæsti útveggur skuli ekki vera hærri en 3,5 m og hæsti punktur þaks megi vera 1,5 m yfir hæstu leyfilegu hæð útveggja. Heimilt sé að byggja hærri hús á tilgreindum lóðum, þ. á m. Blesugróf 12, og eigi þá að taka mið af legu í landi, hæð húsa í kring og núverandi ástandi. Í þeim húsum sé gert ráð fyrir að hæsti punktur þaks og hámarkshæð útveggja sé 6,0 m frá grunnplötu. Þá skuli sérstaklega taka tillit til nærliggjandi húsa og heildargötumyndar. Í deiliskipulaginu er skýringamynd sem sýnir sneiðmynd af lægri og hærri húsagerð og sýnir sú mynd gólfplötu beggja húsagerða við yfirborð lóðar. Skýringargögn eru ekki bindandi nema það sé sérstaklega tekið fram skv. gr. 5.5.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 en geta þó verið til leiðbeiningar við túlkun á efni skipulags. Að mati úrskurðarnefndarinnar felur deiliskipulagið í sér hið minnsta þá takmörkun á hæð gólfplötu að taka beri mið af nærliggjandi húsum og umhverfinu í kring.

Gólfkóti samkvæmt samþykktum uppdráttum fyrirhugaðrar nýbyggingar að Blesugróf 12 er 19,86. Hús kærenda er einbýlishús á einni hæð og samkvæmt samþykktum uppdráttum frá árinu 2006 er gólfkóti þess 17,8. Hús á lóð Blesugrófar 10 er einbýlishús með kjallara og samkvæmt samþykktum uppdráttum frá árinu 1983 er gólfkóti þess 19,8. Hæðarkóti á lóða­mörkum Blesugrófar 12 og 14 miðað við aðkomu er 18,0 en á lóðamörkum Blesugrófar 12 og 10 er hann 18,2. Lóðir Blesugrófar 12 og 14 eru í litlum halla en örlítið meiri halli er á lóð Blesugrófar 10. Gólfkóti nýbyggingarinnar tók þannig að nánast öllu leyti mið af húsinu á lóðinni nr. 10, sem stendur hærra í landi, en að sama skapi að hverfandi leyti af húsi kærenda að Blesugróf 14 sem þó stendur nær hinni fyrirhugaðri nýbyggingu en húsið að Blesugróf 10. Verður því ekki fallist á að gætt hafi verið að hinu sérstaka tilliti gagnvart nærliggjandi húsum sem skilmálar deiliskipulagsins kveða á um að taka skuli þegar um ræðir heimild til byggja hærri hús en samkvæmt almennum skilmálum skipulagsins. Til þess er einnig að líta að vegna hæðar gólfplötu Blesugrófar 12 verður inngangur hússins, sem er rúmum 3 m frá lóðarmörkum og snýr að garði kærenda, í um 2 m hæð frá yfirborði lóðar kærenda. Hefur byggingin þar af leiðandi veruleg grenndaráhrif gagnvart fasteign kærenda, m.a. með tilliti til innsýnar yfir á suðurhluta lóðar þeirra. Eru þau áhrif umfram það sem kærendur máttu búast við með hliðsjón af orðalagi gildandi deiliskipulags um að tillit skuli tekið til nærliggjandi eigna.

Að framangreindu virtu er hið kærða byggingarleyfi ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svo sem áskilið er í 11. gr., sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr., laga um mannvirki og verður því ekki hjá því komist að fella það úr gildi.

Þá þykir rétt að benda á að fram kemur í skilmálum gildandi deiliskipulags að þar sem aðstæður leyfi megi gera kjallara, en það sé mat skipulagsyfirvalda hverju sinni. Í málinu liggur fyrir umsögn skipulagsfulltrúa þar sem segir að lóðin sé nánast hallalaus og það sé mat skipulagsfulltrúa að þær aðstæður séu tæplega til staðar að vera með kjallara á húsinu, en fallist yrði á það ef halli á rampi yrði 15%. Þegar deiliskipulag mælir fyrir um að aðstæður verði að vera til staðar vegna einhverra framkvæmda og eftirlætur það mat skipulagsyfirvöldum verður að gera þær kröfur að lágmarki að það sé ótvírætt mat þeirra yfirvalda að þær aðstæður séu fyrir hendi. Umsögn skipulagsfulltrúa ber það hins vegar ekki með sér samkvæmt orðalagi sínu.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. apríl 2018 um að veita byggingarleyfi til að byggja parhús með geymslum og bílgeymslum í kjallara á lóð nr. 12 við Blesugróf er felld úr gildi.

113/2018 Brúnás, Garðabær

Með

 

Árið 2019, föstudaginn 12. apríl kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 113/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 6. júlí 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Brúnási 12 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 3. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Brúnási 14, Garðabæ, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Garðabæ frá 6. júlí 2018 að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Brúnási 12. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því að leyfishafi hélt að sér höndum meðan reynt var að ná samkomulagi milli aðila var ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 13. febrúar 2019.

Málsatvik og rök: Hinn 9. janúar 2018 samþykkti bæjarráð Garðabæjar afgreiðslu byggingarfulltrúans í Garðabæ um samþykkt byggingaráforma til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Brúnási 12. Í bókun ráðsins var tekið fram að útgáfa byggingarleyfisins væri háð því að samhliða yrði útgefið byggingarleyfi fyrir lóðirnar við Brúnás 10 og Brekkuás 7 samkvæmt ákvæði í úthlutunarsamningi lóðarinnar. Hinn 19. Febrúar s.á. móttók Garðabær breytta aðaluppdrætti fyrir Brúnás 12, en dagsetning breytinganna var 2. s.m. Kom þar fram að óskað væri eftir hækkun kóta þakkants ásamt hækkun gólfkóta hússins og jöfnun hæðarkóta íbúðarrýmis. Byggingarfulltrúi samþykkti breytta uppdrætti 6. júlí 2018 og gaf út byggingar­leyfi í framhaldi af því 13. s.m.. Sú ákvörðun var kærð eins og að framan greinir en í kjölfar þess var reynt að leita lausna í málinu með aðilum sem ekki gekk eftir.

Kærandi bendir á að samkvæmt byggingarlýsingu sem fram komi á teikningu að húsinu að Brúnási 12, dags. 2. febrúar 2018, hafi verið sótt um breytingu á aðaluppdrætti sem hafi falið í sér hækkun kóta þakkants ásamt hækkun á gólfkóta. Aðaluppdráttur virðist áður hafa verið gefinn út 14. nóvember 2017. Kærandi hafi hvorki fengið afrit af fyrri aðaluppdrætti né nein gögn þar sem færð séu fram rök fyrir breytingunni eða umfjöllun um hana á vettvangi bæjaryfirvalda. Þá virðist sem hin kærða ákvörðun hafi ekki verið lögð fyrir skipulagsnefnd, bæjarstjórn eða bæjarráð til samþykktar. Umrædd lóð tilheyri deiliskipulagssvæði Hraunsholts í Garðabæ sem hafi að mestu verið byggt á árunum 1999-2010. Samkvæmt skilmálum skipulagsins sé á lóðinni heimiluð bygging einnar hæðar einbýlishúss, E-1. Hvorki fyrirhuguð vegghæð né gólfhæð samkvæmt samþykktum teikningum samræmist skipulagsskilmálum. Lóðin að Brúnási 12 liggi að norðurmörkum lóðar kæranda að Brúnási 14. Fyrirhuguð nýbygging verði því reist framan við suðurhlið lóðar hans, þar sem sé að finna sólaraðstöðu og verönd. Grenndaráhrif fyrirhugaðs húss verði mikil fyrir íbúa að Brúnási 14, sérstaklega vegna fyrirhugaðrar gólfhæðar og vegghæðar hússins.

Bæjaryfirvöld vísa til þess að á lóðinni Brúnási 12 sé samkvæmt deiliskipulagsskilmálum heimilt að byggja hús af gerðinni E-1 eða E-2. Hús af gerðinni E-1 sé í gildandi deiliskipulagi skilgreint sem einbýlishús á einni hæð en hús að gerðinni E-2 sem einbýlishús á einni og hálfri hæð. Að mati Garðabæjar sé áætluð heildarhæð hússins og vegghæð innan heimilda gildandi skipulags fyrir hús af gerðinni E-1. Þá sé á hæðarblaði einungis kveðið á um gólfhæð fyrir þann hluta hússins sem snúi að götu. Verði því að telja að byggingarfulltrúa hafi verið heimilt að samþykkja frávik frá hæðarkóta gólfhæðar enda sé þess gætt við hönnun hússins að heildarhæð þess sé innan tilskilinna skilmála. Á sneiðmyndum sem Garðabær hafi látið útbúa og sýni götumynd húsanna við Brúnás 8-16 megi sjá að götumynd sé eðlileg og í samræmi við þann fjölbreytileika sem almennt megi gera ráð fyrir í einbýlishúsahverfum. Þá sé ólíklegt að truflun verði af innsýn yfir á lóð kæranda umfram það sem eðlilegt sé og fólk sem búi í þéttbýli verði að sætta sig við.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum vegna kærumálsins en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Fram kemur í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að óheimilt sé að reisa mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa eða Mannvirkja­stofnunar, sbr. 2. og 3. mgr. greinds ákvæðis. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. á byggingarfulltrúi í viðkomandi sveitarfélagi að veita byggingarleyfi, eftir atvikum í samræmi við samþykkt skv. 1. mgr. 7. gr. laganna, vegna hvers konar mannvirkjagerðar sem háð er byggingarleyfi skv. 1. mgr. Í nefndri 1. mgr. 7. gr. kemur fram að sveitarstjórn sé heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi. Sveitarstjórn er heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa, vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þegar byggingar­fulltrúinn í Garðabæ samþykkti hið kærða byggingarleyfi var í gildi samþykkt nr. 863/2011 um afgreiðslur byggingarnefndar Garðabæjar. Í 2. gr. þeirrar samþykktar kemur fram að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa samkvæmt III. kafla laga um mannvirki sé að bæjarráð hafi samþykkt útgáfuna en bæjarráð annist verkefni byggingar­nefndar samkvæmt 7. gr. laganna.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum var samþykkt byggingaráforma ekki lögð fyrir bæjarráð að nýju eftir að byggingarfulltrúi samþykkti breytingar á hæðarkótum á aðaluppdráttum 6. júlí 2018, svo sem kveðið var á um í 2. gr. fyrrgreindrar samþykktar um afgreiðslur byggingarnefndar Garðabæjar. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna sáttaumleitana í málinu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

76/2018 Dugguvogur

Með

Árið 2019, föstudaginn 5. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2018 um að synja umsókn um leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2018, er barst nefndinni 25. s.m., kæra fasteignaeigendur 2. hæðar að Dugguvogi 8-10, „úrskurð skipulagsfulltrúa frá 27. apríl 2018 um að húsnæðið samræmist ekki skipulagi“. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að kærð sé til ógildingar synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2018 á leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. september 2018.

Málavextir: Kærendur sóttu um leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. apríl 2018 og var henni vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem tók umsóknina fyrir 27. s.m. Í niðurstöðu umsagnar skipulagsfulltrúa var m.a. tekið fram að ekki væri hægt að samþykkja íbúðir í iðnaðarhúsnæði. Á afgreiðslufundi sínum 2. maí 2018 synjaði byggingarfulltrúi umsókn kærenda með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 27. apríl s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að teikningar af húsnæðinu við Dugguvog hafi áður verið samþykktar sem íbúðir 11. nóvember 2008. Vísað sé til teikninga af húsnæðinu sem samþykktar hafi verið 14. febrúar 2017, þar sem slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafi gert athugasemdir. Samkvæmt skipulagi sé heimilt að nota umrætt húsnæði sem íbúðir.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kröfu kærenda verði hafnað. Forsaga málsins sé sú að í nóvember 2008 hafi byggingarfulltrúi samþykkt byggingarleyfisumsókn þar sem sótt hafi verið um að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðir. Umsóknin hafi verið samþykkt með þeim skilyrðum að skráningartafla yrði lagfærð fyrir útgáfu á byggingarleyfi. Fleiri skilyrði hafi legið fyrir, s.s. að gerð skyldi grein fyrir brunahólfum rýmisins bæði lóðrétt og lárétt og að eignaskiptayfirlýsingu yrði þinglýst. Framangreind skilyrði hefðu aldrei verið uppfyllt og hefði byggingarleyfið fallið úr gildi ári síðar. Árið 2011 hafi síðan verið sótt um endursamþykkt á íbúðum á annarri hæð, matshluta 02, með vísan til samþykktarinnar frá 2008, ásamt umsókn um leyfi til að innrétta hluta efri hæðar matshluta 02 sem skrifstofur í húsinu. Afgreiðslu þeirrar umsóknar hafi verið frestað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa í október 2011 með vísan til þess að ekki hefði verið bætt úr athugasemdum varðandi lagfæringar á skráningartöflu. Einnig hefðu legið fyrir athugasemdir frá forvarnardeild slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins er lutu að eldvörnum.

Synjun byggingarleyfisumsóknarinnar hafi byggt á umsögn skipulagsfulltrúa frá 27. apríl 2018. Í umsögninni segi m.a. að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé lóðin skilgreind á miðsvæði (M19) á þróunarsvæði (Þ37) fyrir uppbyggingu blandaðrar byggðar í borgarhluta 04, Laugardal. Það sé breyting frá eldra aðalskipulagi þar sem lóðin hafi verið á svæði þar sem landnotkun hafi verið takmörkuð við iðnaðar- og athafnasvæði. Ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir lóðina, en unnið hafi verið rammaskipulag fyrir Vogabyggð árið 2013, svæði 1-4, en umrætt svæði hafi fengið númerið 3. Fyrir liggi að ganga frá deiliskipulagi fyrir Vogabyggð 3, en þegar hafi verið samþykkt deiliskipulag fyrir Vogabyggð 1 og 2. Rammaskipulag og gildar deiliskipulagsáætlanir fyrir Vogabyggð 1 og 2 geri ráð fyrir að hverfið sé heildstæð og sjálfbær eining sem einkennist af blöndu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis með verslun og þjónustu. Endanlegur fjöldi íbúða og heildarbyggingarmagn ráðist við vinnslu á deiliskipulagi.

Ekki sé hægt að samþykkja íbúðir í iðnaðarhúsnæði. Umrædd lóð sé á miðsvæði fyrir blandaða byggð en ekki iðnaðarsvæði og hafi verið það frá gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Þar af leiðandi skuli skoða hljóðvist, loftgæði, rykmyndun, starfsemi og aðra umhverfisþætti á annan hátt en áður hafi verið gert á svæðinu. Til að mynda séu ríkari kröfur gerðar til hljóðvistar innan- og utanhúss á lóðinni, sorpmála, aðgengis fyrir alla, bílastæða og frágangs.

Niðurstaða: Lóðin Dugguvogur 10 er á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin skilgreind á miðsvæði (M19) á þróunarsvæði (Þ52). Þar kemur fram að á miðsvæðum sé fyrst og fremst gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, stjórnsýslu og skrifstofum en einnig íbúðum, einkum á efri hæðum bygginga. Samkvæmt aðalskipulagi telst Vogabyggð til þróunarsvæðis 52. Þar er gert ráð fyrir íbúðum og skrifstofum, auk verslunar og þjónustu. Áhersla skuli lögð á 3-5 hæða randbyggð, heildstæðar götumyndir og borgarmiðað gatnakerfi.

Hin kærða synjun um byggingarleyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog var rökstudd með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 27. apríl 2018. Í þeirri umsögn var niðurstaðan svohljóðandi: „Ekki er hægt að samþykkja íbúðir í iðnaðarhúsnæði. Umrædd lóð er á miðsvæði fyrir blandaða byggð en ekki iðnaðarsvæði og hefur verið það frá gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Þ.a.l. skal skoða hljóðvist, loftgæði, rykmyndun, starfsemi og aðra umhverfisþætti á annan hátt en áður var gert á svæðinu. T.a.m. eru  ríkari kröfur um hljóðvist innan- og utanhúss á lóðinni, sorpmál, aðgengi fyrir alla, bílastæði, frágang á lóð o.fl.“

Ekki er fallist á að gildandi aðalskipulag hafi girt fyrir veitingu byggingarleyfis fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum, enda er beinlínis gert ráð fyrir íbúðum á umræddu svæði eins og áður greinir. Þá liggja engar upplýsingar fyrir í málinu um að umrætt húsnæði uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til íbúðarhúsnæðis skv. ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012, s.s um hljóðvist, sorpmál, aðgengi fyrir alla, bílastæði og til frágangs á lóð.

Með hliðsjón af framangreindu var rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar svo verulega áfátt að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2018 um að synja umsókn um leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog.