Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2019 Austurkór

Árið 2019, fimmtudaginn 27. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2019, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. febrúar 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum við gerð sparkvallar, afgirtum að hluta, og stíga við Austurkór, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2019, er barst nefndinni 4. mars s.á, kærir eigandi Austurkórs 90, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. febrúar 2019 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð sparkvallar, afgirtum að hluta, og stíga við Austurkór, Kópavogi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með tölvupósti frá 31. maí 2019 fór kærandi fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 21. mars 2019.

Málavextir: Í apríl 2018 hóf Kópavogsbær framkvæmdir við boltavöll, göngustíg og bætta aðkomu að fráveitulögnum í næsta nágrenni við íbúð kæranda. Ekki var gefið út sérstakt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdunum skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 heldur var á því byggt að nægilegt væri að framkvæmdirnar ættu stoð í samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið. Kærandi í máli þessu kærði þær framkvæmdir til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði uppkveðnum 15. nóvember 2018 í kærumáli nr. 103/2018 vísaði málinu frá þar sem ekki lá fyrir kæranleg stjórnvalds­ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis. Í úrskurðinum var á því byggt að framkvæmd bæjaryfirvalda við boltavöllinn hefði verið framkvæmdaleyfisskyld en að framkvæmdir við göngustíg á svæðinu væru ekki háðar slíku leyfi.

Í kjölfar úrskurðar nefndarinnar var málið lagt fyrir skipulagsráð Kópavogsbæjar, sem samþykkti á fundi sínum 4. febrúar 2019 framkvæmdaleyfi fyrir gerð sparkvallar og stígum norðan og vestan við Austurkór 76-92. Sparkvöllurinn verði afgirtur að hluta með tveggja til þriggja metra hárri stálgirðingu. Var sú afgreiðsla staðfest af bæjarstjórn 12. s.m. og var hið kærða framkvæmdaleyfi gefið út 14. febrúar 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 103/2018 og ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Sérstaklega sé vísað til e-liðar gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sem mæli m.a. fyrir um að ekki sé heimilt að breyta hæð lóðar innan hennar þannig að það valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni, t.d. vegna útsýnis. Það sé augljóst að mannvirkið liggi of hátt í landinu. Leiði það til skertra lífsgæða nágranna vegna lakara útsýnis sem og þess að í framkvæmdaleyfinu sé kveðið á um að heimilt sé að reisa tveggja til þriggja metra háar girðingar.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Hið kærða framkvæmdaleyfi sé í fullu samræmi við skipulag svæðisins og málsmeðferð hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Jafnframt verði ekki séð að sparkvöllurinn muni skerða útsýni eða hafa önnur neikvæð grenndaráhrif.

Athugasemdir kæranda við umsögn Kópavogsbæjar: Kærandi vísar m.a. til þess að máls­meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar þar sem komist sé m.a. að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin sé veruleg og þar af leiðandi leyfisskyld. Einnig sé dregið í efa að ákvæði byggingarreglugerðar hafi verið uppfyllt en ekki verði séð að á neinu stigi málsins hafi byggingarfulltrúi átt aðkomu að málinu.

Sú fullyrðing að sparkvöllurinn skerði ekki útsýni eða hafi önnur neikvæð grenndaráhrif sé ósönnuð. Ekki hafi verið gerð tilraun af hálfu skipulagsyfirvalda til að ræða við þá íbúa sem málið snerti, heimsækja þá eða kynna íbúum málið á vettvangi áður en framkvæmdir hæfust. Vettvangsskoðun úrskurðarnefndarinnar og niðurstaða hennar um að framkvæmdin sé veruleg og hafi verið háð framkvæmdaleyfi staðfesti að framkvæmdin sé viðamikil og að þörf hafi verið á frekari skoðun málsins.

Svo virðist sem að við framkvæmdina hafi ekki verið fylgt  ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012, en í reglugerðinni og lögum sé m.a. mælt fyrir um nágrannarétt, grenndarkynningar og skerðingu útsýnis. Þá sé hvergi að finna í fundargerðum skipulagsnefndar Kópavogsbæjar umfjöllun um úrskurð úrskurðarnefndarinnar, sem hljóti að vera mjög undarleg stjórnsýsla. Þá megi spyrja hvernig Kópavogsbær hefði farið með þetta mál ef óskyldur aðili hefði sótt um framkvæmda- og byggingarleyfi fyrir verkefnið.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Að lokum kemur það fram í 5. mgr. 13. gr. að þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu, sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag varðandi landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar.

Með hinu kærða framkvæmdaleyfi var heimiluð gerð 30×15 m sparkvallar, sem verður að hluta girtur af með tveggja til þriggja  metra hárri stálgirðingu og afmarkaður af stíg norðan og vestan við Austurkór 76 til 92 í Rjúpnahæð. Jafnframt var heimilað að leggja göngustíg að sparkvellinum milli lóðanna við Austurkór 82, 84, 86, 88 og 90.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Rjúpnahæð – Vesturhluta er gert ráð fyrir boltavelli norðan lóðanna Austurkórs 88-92. Deiliskipulagið var upphaflega samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs 13. mars 2007 og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. maí s.á. Með deiliskipulagsbreytingu, sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 24. maí 2011 og öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní s.á., var gerð breyting á deiliskipulaginu. Er þar heimilað að boltavöllurinn verði færður fjær lóðunum við Austurkór 88-92 og að hluta til út fyrir mörk þess svæðis sem skipulagið nær til. Aðrar upplýsingar um boltavöllinn en um staðsetningu hans er ekki að finna í skipulagi. Á deiliskipulagsuppdrætti er göngustígur vestan lóðanna Austurkórs 76-86, en ekki er þar gert ráð fyrir lagnastíg eða öðrum stíg norðan lóðanna Austurkórs 88-104. Heimilaður boltavöllur liggur innan þess svæðis sem gildandi deiliskipulag tekur til og ætlað er undir boltavöll. Áður en hinar umdeildu framkvæmdir hófust var á svæðinu slóði að fráveitulögnum og hefur hann nú verið breikkaður og hækkaður og tengist hann nú áðurnefndum göngustíg, sem gert er ráð fyrir á deiliskipulagsuppdrætti og myndar aðkomuleið að boltavellinum.

Verður að telja með hliðsjón af framangreindu að heimilaðar framkvæmdir við stígagerð og boltavöll eigi stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis og bar því ekki nauðsyn til að grenndarkynna þær framkvæmdir, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga.

Sé tekið mið af fyrirhugaðri staðsetningu boltavallarins gagnvart íbúðar kæranda verður ráðið að grenndaráhrif með tilliti til útsýnis verði þar ekki veruleg. Ljóst er að vellinum fylgir umferð gangandi fólks um svæðið, auk þess sem honum munu fylgja allnokkur áhrif á næsta umhverfi, svo sem með tilliti til hljóðvistar vegna boltaleikja, en líta verður til þess að boltavöllur hefur verið ráðgerður á greindum stað í deiliskipulagi um árabil með þeim grenndaráhrifum sem slíkum velli fylgir.

Þær framkvæmdir sem heimilaðar eru með umræddu framkvæmdaleyfi fela m.a. í sér að boltavöllurinn verður girtur af að hluta með tveggja til þriggja metra hárri stálgirðingu. Er slík girðing háð byggingarleyfi sem byggingarfulltrúi veitir skv. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og gr. 2.3.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, enda fellur slík girðing ekki undir undanþáguákvæði f-liðar 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Er hið kærða framkvæmda­leyfi því ekki viðhlítandi stoð fyrir gerð áðurnefndrar girðingar.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað að öðru leyti en því er varðar heimild fyrir áðurnefndri girðingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. febrúar 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum við gerð sparkvallar og stíga í Kópavogi, að öðru leyti en því er varðar leyfi til að reisa tveggja til þriggja metra háa stálgirðingu við völlinn.