Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2018 Dugguvogur

Árið 2019, föstudaginn 5. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2018 um að synja umsókn um leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2018, er barst nefndinni 25. s.m., kæra fasteignaeigendur 2. hæðar að Dugguvogi 8-10, „úrskurð skipulagsfulltrúa frá 27. apríl 2018 um að húsnæðið samræmist ekki skipulagi“. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að kærð sé til ógildingar synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2018 á leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. september 2018.

Málavextir: Kærendur sóttu um leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. apríl 2018 og var henni vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem tók umsóknina fyrir 27. s.m. Í niðurstöðu umsagnar skipulagsfulltrúa var m.a. tekið fram að ekki væri hægt að samþykkja íbúðir í iðnaðarhúsnæði. Á afgreiðslufundi sínum 2. maí 2018 synjaði byggingarfulltrúi umsókn kærenda með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 27. apríl s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að teikningar af húsnæðinu við Dugguvog hafi áður verið samþykktar sem íbúðir 11. nóvember 2008. Vísað sé til teikninga af húsnæðinu sem samþykktar hafi verið 14. febrúar 2017, þar sem slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafi gert athugasemdir. Samkvæmt skipulagi sé heimilt að nota umrætt húsnæði sem íbúðir.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kröfu kærenda verði hafnað. Forsaga málsins sé sú að í nóvember 2008 hafi byggingarfulltrúi samþykkt byggingarleyfisumsókn þar sem sótt hafi verið um að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðir. Umsóknin hafi verið samþykkt með þeim skilyrðum að skráningartafla yrði lagfærð fyrir útgáfu á byggingarleyfi. Fleiri skilyrði hafi legið fyrir, s.s. að gerð skyldi grein fyrir brunahólfum rýmisins bæði lóðrétt og lárétt og að eignaskiptayfirlýsingu yrði þinglýst. Framangreind skilyrði hefðu aldrei verið uppfyllt og hefði byggingarleyfið fallið úr gildi ári síðar. Árið 2011 hafi síðan verið sótt um endursamþykkt á íbúðum á annarri hæð, matshluta 02, með vísan til samþykktarinnar frá 2008, ásamt umsókn um leyfi til að innrétta hluta efri hæðar matshluta 02 sem skrifstofur í húsinu. Afgreiðslu þeirrar umsóknar hafi verið frestað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa í október 2011 með vísan til þess að ekki hefði verið bætt úr athugasemdum varðandi lagfæringar á skráningartöflu. Einnig hefðu legið fyrir athugasemdir frá forvarnardeild slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins er lutu að eldvörnum.

Synjun byggingarleyfisumsóknarinnar hafi byggt á umsögn skipulagsfulltrúa frá 27. apríl 2018. Í umsögninni segi m.a. að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé lóðin skilgreind á miðsvæði (M19) á þróunarsvæði (Þ37) fyrir uppbyggingu blandaðrar byggðar í borgarhluta 04, Laugardal. Það sé breyting frá eldra aðalskipulagi þar sem lóðin hafi verið á svæði þar sem landnotkun hafi verið takmörkuð við iðnaðar- og athafnasvæði. Ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir lóðina, en unnið hafi verið rammaskipulag fyrir Vogabyggð árið 2013, svæði 1-4, en umrætt svæði hafi fengið númerið 3. Fyrir liggi að ganga frá deiliskipulagi fyrir Vogabyggð 3, en þegar hafi verið samþykkt deiliskipulag fyrir Vogabyggð 1 og 2. Rammaskipulag og gildar deiliskipulagsáætlanir fyrir Vogabyggð 1 og 2 geri ráð fyrir að hverfið sé heildstæð og sjálfbær eining sem einkennist af blöndu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis með verslun og þjónustu. Endanlegur fjöldi íbúða og heildarbyggingarmagn ráðist við vinnslu á deiliskipulagi.

Ekki sé hægt að samþykkja íbúðir í iðnaðarhúsnæði. Umrædd lóð sé á miðsvæði fyrir blandaða byggð en ekki iðnaðarsvæði og hafi verið það frá gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Þar af leiðandi skuli skoða hljóðvist, loftgæði, rykmyndun, starfsemi og aðra umhverfisþætti á annan hátt en áður hafi verið gert á svæðinu. Til að mynda séu ríkari kröfur gerðar til hljóðvistar innan- og utanhúss á lóðinni, sorpmála, aðgengis fyrir alla, bílastæða og frágangs.

Niðurstaða: Lóðin Dugguvogur 10 er á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin skilgreind á miðsvæði (M19) á þróunarsvæði (Þ52). Þar kemur fram að á miðsvæðum sé fyrst og fremst gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, stjórnsýslu og skrifstofum en einnig íbúðum, einkum á efri hæðum bygginga. Samkvæmt aðalskipulagi telst Vogabyggð til þróunarsvæðis 52. Þar er gert ráð fyrir íbúðum og skrifstofum, auk verslunar og þjónustu. Áhersla skuli lögð á 3-5 hæða randbyggð, heildstæðar götumyndir og borgarmiðað gatnakerfi.

Hin kærða synjun um byggingarleyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog var rökstudd með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 27. apríl 2018. Í þeirri umsögn var niðurstaðan svohljóðandi: „Ekki er hægt að samþykkja íbúðir í iðnaðarhúsnæði. Umrædd lóð er á miðsvæði fyrir blandaða byggð en ekki iðnaðarsvæði og hefur verið það frá gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Þ.a.l. skal skoða hljóðvist, loftgæði, rykmyndun, starfsemi og aðra umhverfisþætti á annan hátt en áður var gert á svæðinu. T.a.m. eru  ríkari kröfur um hljóðvist innan- og utanhúss á lóðinni, sorpmál, aðgengi fyrir alla, bílastæði, frágang á lóð o.fl.“

Ekki er fallist á að gildandi aðalskipulag hafi girt fyrir veitingu byggingarleyfis fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum, enda er beinlínis gert ráð fyrir íbúðum á umræddu svæði eins og áður greinir. Þá liggja engar upplýsingar fyrir í málinu um að umrætt húsnæði uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til íbúðarhúsnæðis skv. ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012, s.s um hljóðvist, sorpmál, aðgengi fyrir alla, bílastæði og til frágangs á lóð.

Með hliðsjón af framangreindu var rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar svo verulega áfátt að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2018 um að synja umsókn um leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog.