Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

128/2018 Eyrarbraut

Árið 2019, fimmtudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 128/2018, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 26. september 2018 um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna gluggaops á bílskúr sem stendur á lóðinni Eyrarbraut 12, Stokkseyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. október 2018, er barst nefndinni 26. s.m., kærir eigandi, Eyrarbraut 10, Stokkseyri, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 26. september 2018 að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna gluggaops á bílskúr sem stendur á lóðinni við Eyrarbraut 12. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 29. nóvember 2018.

Málavextir: Hinn 21. apríl 2018 sendi kærandi skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar erindi varðandi gluggaop á norðurgafli bílskúrs að Eyrarbraut 12. Í erindinu var vísað til samkomu­lags, dags. 3. ágúst 1997, þar sem eigendur lóðanna við Eyrarbraut 10 og 12 samþykktu staðsetningu, stærð og gerð umrædds glugga á meðan móðir annars þáverandi eigenda fasteignarinnar að Eyrarbraut 12 notaði bílskúrinn til íbúðar. Þá kom fram í samkomulaginu að loka skyldi fyrir gluggann ef hún hætti að nota bílskúrinn til íbúðar nema að fengnu samþykki eigenda Eyrarbrautar 10 um annað. Samkomulaginu var þinglýst sem kvöð á fasteignina Eyrarbraut 12. Í málinu liggur fyrir að móðirin lést árið 2008. Meginástæðu erindisins kveður kærandi vera verulegt ónæði frá íbúum bílskúrsins að Eyrarbraut 12, sem sé af ýmsum toga. Þá ber kærandi því við að misskilningur ríki um mörk lóðanna við bílskúrinn.

Skipulags- og byggingarfulltrúi sendi eigendum fasteignanna við Eyraveg 10 og 12 bréf, dags. 17. maí 2018, þar sem tilkynnt var að hann hefði tekið til skoðunar hvort umrætt gluggaop samrýmdist ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Einnig kom fram að tekið yrði til skoðunar hvort tilefni væri til að krefja aðila um úrbætur eða eftir atvikum að beita þvingunarúrræðum 55. eða 56. gr. mannvirkjalaga, sbr. gr. 2.9.1. og 2.9.2. í reglugerðinni. Þá var eigendum einnig veittur frestur til að koma að sjónarmiðum sínum í málinu og leggja fram gögn áður en tekin yrði endanleg ákvörðun. Skipulags- og byggingar­fulltrúa barst bréf frá kæranda, dags. 25. maí 2018. Í bréfinu voru áður framkomnar athuga­semdir ítrekaðar. Þá barst jafnframt bréf frá eigendum Eyrarbrautar 12, dags. 1. ágúst 2018, þar sem komu m.a. fram sjónarmið vegna ágreinings um lóðamörk.

Í hinni kærðu ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa frá 26. september 2018 var talið að rétt hefði verið að afla byggingarleyfis áður en settur hefði verið upp gluggi sá sem staðsettur væri á útvegg bílskúrs á lóðinni við Eyrarbraut 10. Hins vegar stæðu ekki efni til að beita þeim þvingunarúrræðum sem greini í ákvæðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að samkomulag hafi verið gert milli eigenda Eyrar­brautar 10 og 12 þess efnis að gluggaopi á bílskúr Eyrarbrautar 12 yrði lokað um leið og móðir þáverandi eiganda fasteignarinnar flytti úr bílskúrnum. Hún hafi andast árið 2008, þá löngu flutt úr honum, en glugginn sé þar enn. Þá sé búið að skipta um skyggt öryggisgler í neðri glugganum sem tilgreint sé í þinglýstu kvöðinni og sett hafi verið venjulegt gler í þann hluta gluggans. Þar með sé óskert útsýni frá glugganum inn í garð kæranda og stofu hennar. Gerð sé krafa um að glugganum verði lokað og að úrskurðarnefndin felli úr gildi synjun skipulags- og byggingar­fulltrúa, en hann hafi viðurkennt að staðsetning gluggans standist engar reglur.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Bæjaryfirvöld vísa til þess rökstuðnings sem fylgdi hinni kærðu ákvörðun. Þar sé vísað til þess að almenna reglan sé að sækja þurfi um byggingarleyfi fyrir öllum nýjum mannvirkjum, viðbyggingum og breytingum á t.d. útliti, burðarkerfi og lagnakerfum. Ýmsar minniháttar framkvæmdir sem tilgreindar séu í gr. 2.3.5. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012 séu þó undanþegnar byggingarleyfi og sæki þessi undantekning frá kröfu um byggingarleyfi stoð í 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Sú aðgerð að setja glugga í útvegg verði að teljast breyting á mannvirki sem sé háð leyfi byggingarfulltrúa í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga og sé því byggingarleyfisskyld framkvæmd.

Ákvæði X. kafla mannvirkjalaga, sbr. gr. 2.9.1. og 2.9.2. í byggingarreglugerð hafi að geyma íþyngjandi heimildarákvæði og því ekki um að ræða fortakslausa skyldu til þess að beita þeim, þrátt fyrir að ekki hafi verið formlega rétt staðið að framkvæmdum, sbr. 9. gr. laganna. Beiting þvingunarúrræða skuli byggja á atviksbundnu mati á hverju tilviki fyrir sig og skuli það gert með tilliti til meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf, sbr. einkum 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Við mat á því hvort beita eigi þvingunarúrræðum beri m.t.t. meðalhófsreglu að meta þá andstæðu hagsmuni sem vegist á hverju sinni. Eigandi Eyrarbrautar 10 kveði veruleg óþægindi stafa frá margvíslegri notkun bílskúrsins að Eyrarbraut 12 og sé það meginástæða athugasemda hennar. Staðsetning gluggaopsins kunni að valda eigendum Eyrarbrautar 10 einhverjum óþægindum en ekki sé að sjá að þau óþægindi séu umfram það sem fólk megi almennt búast við í þéttbýli. Það sé því mat skipulags- og byggingarfulltrúa, m.t.t. eðlis, staðsetningar og umfangs gluggans, að þrátt fyrir annmarka er varði tilkomu hans feli tilvist hans ekki í sér svo verulega réttindaskerðingu að það leiði sjálfstætt til beitingar þvingunarúrræða. Þá hafi staðsetning og gerð gluggaopsins samræmst almennum öryggis­kröfum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna gluggaops á norðurvegg bílskúrs að Eyrarbraut 12. Sú ákvörðun byggingarfulltrúa er kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 8. gr. laga um mannvirki fer byggingarfulltrúi með eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi og er m.a. tekið fram í gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að byggingarfulltrúi skuli grípa til viðeigandi aðgerða samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar og 10. kafla mannvirkjalaga sé framkvæmd ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög, reglugerðir og byggingarlýsingu. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga getur byggingar­fulltrúi stöðvað framkvæmdir ef byggt er án þess að leyfi sé fengið fyrir framkvæmdinni eða ef ekki er að öðru leyti fylgt eftir ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er að finna heimild fyrir byggingar­fulltrúa til að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Þá heimilar 56. gr. byggingarfulltrúa að krefjast úrbóta að viðlögðum dagsektum. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða gagnvart þriðja aðila vegna einstaklings­hagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja slíka hagsmuni, svo sem með því að bera ágreining um brot á samningi milli aðila undir dómstóla.

Bæjaryfirvöld rökstuddu synjun um beitingu þvingunarúrræða með þeim hætti að ekki væri að sjá að staðsetning gluggaopsins kynni að valda eigendum Eyrarbrautar 10 einhverjum óþægindum umfram það sem fólk mætti almennt búast við í þéttbýli. Þá hafi staðsetning og gerð gluggaopsins samræmst almennum öryggiskröfum. Verður ekki annað séð en að það mat skipulags- og byggingarfulltrúa að ekki væri tilefni til að beita þvingunarúrræðum sé stutt fullnægjandi efnisrökum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 26. september 2018 um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna gluggaops á bílskúr sem stendur á lóðinni Eyrarbraut 12, Stokkseyri.