Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

134/2018 Breiðdalshreppur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 22. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 134/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 30. júlí 2018 um að samþykkja tillögu að Aðalskipulagi Breiðdalshrepps 2018-2030.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. nóvember 2018, er barst nefndinni 20. s.m., kærir eigandi, Brekkuborg, Breiðdalsvík, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 30. júlí 2018 að samþykkja tillögu að Aðalskipulagi Breiðdalshrepps 2018-2030. Er þess krafist að í aðalskipulaginu verði lausaganga sauðfjár bönnuð.

Málsatvik og rök: Hinn 30. júlí 2018 samþykkti sveitarstjórn Fjarðabyggðar tillögu að Aðalskipulagi Breiðdalshrepps 2018-2030. Staðfesti Skipulagsstofnun aðalskipulagið 24. október s.á. og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda 7. nóvember s.á.

Kærandi vísar til þess að í aðalskipulaginu sé lausaganga sauðfjár áfram heimiluð. Ísland sé aðili að bæði Kýótó-bókuninni og Parísarsáttmálanum og hafi því skuldbundið sig til að draga verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þá sé það stefna sveitarstjórnar samkvæmt aðalskipulaginu að atvinnustarfsemi taki mið af umhverfisvænum sjónarmiðum. Ljóst sé að það þurfi mikið og samhent átak til áætlanir um kolefnisbindingu og úrdrætti á losun nái fram að ganga. Með banni við lausagöngu sauðfjár muni sveitarfélagið stíga ákveðið skref í átt að kolefnisjöfnun búgreinarinnar ásamt því að styðja vel við sín eigin markmið sem fram komi í aðalskipulaginu.

Atvik málsins lágu ljós fyrir og var því ekki leitað eftir gögnum eða sjónarmiðum sveitarfélagsins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra beri að nefndum lögum að staðfesta sæti ekki kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laganna er aðalskipulag háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Er mælt svo fyrir um í 2. ml. 3. mgr. 32. gr. tilvitnaðra laga  að aðalskipulag taki gildi þegar það hafi verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Eins og að framan er rakið var hið kærða aðalskipulag staðfest af Skipulagsstofnun 24. október 2018 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. nóvember s.á. Samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

68/2017 Skriðufell

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 6. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 4. janúar 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Skriðufells í Þjórsárdal.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júní 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir félag leigutaka hjólhýsastæða í landi Skriðufells þá ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi Skriðufells. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og úrskurðað verði að umrætt svæði sé frístundabyggð.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, gerir kærandi jafnframt kröfu um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi 12. júlí 2017.

Málsatvik: Á fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps 6. maí 2014 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi í landi Skógræktar ríkisins á jörðinni Skriðufelli í Þjórsárdal. Varðaði tillagan frágang og framkvæmdir sem giltu um hjólhýsi á svæðinu. Tillagan var auglýst frá 22. maí til 4. júlí 2014. Frestur til að skila inn athugasemdum var veittur til 4. júlí s.á. og barst ein athugasemd innan frestsins.

Á fundi sveitarstjórnar 13. ágúst 2014 var samþykkt að fresta afgreiðslu málsins og sveitarstjóra falið að afla nánari upplýsinga. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar 3. september 2014 og tillagan samþykkt, en Skógrækt ríkisins var gefinn frestur til 1. maí 2015 til úrbóta í öryggismálum, ellegar yrði deiliskipulagsbreytingin felld úr gildi.

Tillagan var send Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 10. október 2014, og tilkynnti stofnunin með bréfi, dags. 23. s.m., að hún gerði ekki athugasemd við birtingu deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda þegar 8. gr. skilmála um frágang rotþróa hefði verið uppfærð.

Á fundi skipulagsnefndar 8. desember 2016 var tillagan tekin fyrir að nýju og mælti nefndin með að sveitarstjórn samþykkti að auglýsa breytinguna að nýju. Var það og samþykkt á fundi sveitarstjórnar 4. janúar 2017. Tillagan var auglýst frá 12. janúar til 24. febrúar 2017 og var frestur til að skila inn athugasemdum til 24. febrúar s.á. Engar athugasemdir bárust innan tilgreinds frests og var tillagan send Skipulagsstofnun til yfirferðar. Stofnunin tilkynnti sveitarfélaginu með bréfi, dags. 28. apríl 2017, að hún gerði ekki athugasemdir við birtingu tillögunnar í Stjórnartíðindum. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var loks birt í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí 2017. 

Málsrök kæranda:
Kærandi telur umrætt landsvæði sem leigt sé undir varanlega staðsett hjólhýsi félagsmanna hans vera frístundabyggð í skilningi h-liðar gr. 6.2., sbr. gr. 1.3., í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Öll hjólhýsi á svæðinu séu varanlega staðsett í skilningi laga, þau séu ekki á skráningarnúmerum og við þau hafi verið skeytt varanlegum pöllum og stöku geymslum. Sum hafi verið þar í rúm 30 ár og mikil þróun hafi átt sér stað varðandi öryggismál og aðra þætti sem snúi að því að uppfylla kröfur um öryggis- og umhverfismál. Leigutakar séu ekki skráðir til fastrar búsetu heldur nýti þeir hjólhýsin í 4-6 mánuði á árinu, eftir veðrum.

Hjólhýsi falli undir skilgreiningu 12. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í athugasemdum um 3. gr. í frumvarpi að þeim lögum sé vikið að hjólhýsabyggðum. Kemur þar fram að standi húsvagnar á lóð fyrir frístundahús en séu ekki samtengdir þeim gildi lög nr. 75/2008 um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundabyggð. 

Ákvörðun sveitarfélagsins að skilgreina svæði, þar sem varanlega staðsett hjólhýsi standi, sem afþreyingar- og ferðamannasvæði fái ekki stoð í þeim lögum og reglum sem gildi um skipulag. Ljóst megi vera að i-liður gr. 6.2. í skipulagsreglugerð eigi við um svæði þar sem fólk komi og fari og dvelji í skemmri tíma hverju sinni, svo sem í skráðum hjólhýsum sem dregin séu af bifreiðum. 

Undanfarin ár hafi leigjendur lóða í hjólhýsabyggðinni óskað eftir meiri aðkomu landeiganda og sveitarfélagsins að öryggismálum, sérstaklega m.t.t. brunahættu, gasnotkunar o.fl. Verkfræðistofa hafi árið 2015 metið brunahættu á svæðinu vegna gróður- og kjarrelda og kærandi hafi margoft fundað með sveitarfélaginu og landeiganda vegna mála er tengist breytingu á skipulagi svæðisins. Hafi komið fram verulega íþyngjandi kröfur af hálfu landeiganda, Skógræktar Íslands, þar sem þess sé m.a. krafist að hjólhýsin verði færð til skoðunar á skoðunarstöð annað hvert ár, þar sem þau þurfi að vera skráð. Þá hafi þess jafnframt verið krafist að leigusamningar verði eingöngu gerðir til eins árs í senn og séu skilmálar landeiganda algerlega á skjön við þau réttindi og skyldur sem lög um frístundabyggð feli landeiganda og umráðamönnum lóða að fara eftir.
 
Hjólhýsi sé skilgreint sem tengitæki og sé notkun þess háð því að vera dregið af öðru ökutæki, sbr. 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Svar Samgöngustofu við fyrirspurn kæranda hafi verið að ekki megi nota ökutæki í umferð sem ekki séu á númerum og því þurfi ekki að færa þau til skoðunar. Þetta fái bæði stoð í reglugerð nr. 8/2009 um skoðun ökutækja, og umferðarlögum.

Málsrök Skeiða- og Gnúpverjahrepps:
Af hálfu sveitarstjórnar er kröfu kæranda mótmælt. Sveitarstjórnin telji ekki ástæðu til að draga í efa réttmæti ákvörðunar sinnar um samþykkt breytinga á skilmálum deiliskipulagsins og standi fast við hana. Málsmeðferð hafi að öllu leyti verið í samræmi við lög. 

Athugasemdir umráðanda svæðisins:
Skógrækt ríkisins bendir á að ákveðið hafi verið að grípa til breytinga á fyrirkomulagi útleigu og skipulagi svæðisins vorið 2014 í kjölfar mjög alvarlegra slysa á umræddu hjólhýsasvæði. Breytingarnar hafi verið ákveðnar í samráði við skipulagsyfirvöld, sveitarstjórn, lögreglu og brunavarnir á svæðinu. Fulltrúar félags leigutaka hafi einnig verið á umræddum fundum.

Fulltrúar löggæslu, brunavarna og skipulagsmála hafi talið nauðsynlegt að öll hjólhýsi væru skráð, tryggð og í ástandi til að draga þau af stæðum með litlum fyrirvara ef upp kæmi hættuástand á svæðinu. Mörg hjólhýsanna hafi verið orðin gömul og verið lagfærð á stæðunum, þrátt fyrir að slíkt væri ekki heimilt í eldra deiliskipulagi eða leigusamningi. Talið hafi verið að minnka mætti líkur á slysum með því að koma í veg fyrir að slík hjólhýsi gengju kaupum og sölum á leigustæðum á svæðinu. 

Við gerð breytinga á leigusamningum hafi verið hafðar til hliðsjónar breytingar á lagaumhverfi og reglugerðum varðandi hjólhýsi. Helstu breytingar hafi verið að ekki sé lengur heimilt að selja hjólhýsi á leigustæðum. Leigutími sé áfram eitt ár, líkt og verið hafi um langan tíma. Óheimilt sé að hafa svokallaða „trailera“ á stæðunum, en þeir séu breiðari en hefðbundin hjólhýsi. Þeir sem hafi ætlað að selja hjólhýsi sín eða hætta leigu hafi þurft að fjarlægja þau af stæðunum.

Í kjölfar breytinganna hafi töluvert af gömlum hjólhýsum og trailerum horfið af svæðinu. Breytingin hafi valdið hluta leigjenda óþægindum en markmiðið hafi verið að gera svæðið að öruggari dvalarstað fyrir alla gesti. Úrbætur varðandi flóttaleiðir, merkingar, frásögun o.fl. hafi verið gerðar í kjölfar niðurstöðu verkfræðistofu á mati á brunahættu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 4. janúar 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Skriðufells í Þjórsárdal. Er í kæru m.a. gerð sú krafa að úrskurðarnefndin úrskurði að hjólhýsasvæðið að Skriðufelli sé frístundabyggð og varakrafa um að tilteknum skilmálum hins kærða deiliskipulags verði breytt í samræmi við tillögu í kæru. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 og einskorðast valdheimildir hennar lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar, en það er ekki á færi nefndarinnar að breyta efni hinnar kærðu skipulagsákvörðunar, líkt og krafa er gerð um.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sem annast og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga, og sætir ákvörðun um aðalskipulag ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 52. gr. skipulagslaga. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst einnig m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, líkt og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en það er gert að skilyrði að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem m.a. öryggi landsmanna sé haft að leiðarljósi, sbr. a-lið. Sveitarstjórnir eru enn fremur bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á þeim skuli háttað.

Í gildi er Aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2004-2016 og er fjallað um hina umdeildu hjólhýsabyggð í kafla 10 – Svæði fyrir frístundabyggð. Kemur þar fram að styr hafi staðið um hjólhýsabyggðina en fyrirkomulag flestra hjólhýsanna uppfylli ekki þau skilyrði sem byggingarreglugerð setji. Deiliskipulag hafi verið unnið fyrir svæðið haustið 2001 og í því settir strangir skilmálar um hjólhýsin. Er og tekið fram að þótt fjallað sé um hjólhýsasvæðið í kafla 10 sé það ekki skilgreint sem svæði fyrir frístundabyggð heldur sett í flokkinn opin svæði til sérstakra nota. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er því ekki hróflað við landnotkun á svæðinu og fer hún að því leyti ekki gegn aðalskipulagi. Af lestri aðalskipulags er jafnframt ljóst að vilji sveitarfélagsins hafi staðið til þess að skilyrðum laga og reglna vegna hjólhýsabyggðarinnar yrði framfylgt. Er þar vísað til byggingarreglugerðar, þar sem m.a. eru gerðar kröfur um brunavarnir og um ráðstafanir vegna eldhættu, hvort heldur um er að ræða mannvirki eða stöðuleyfisskylda lausafjármuni, s.s. hjólhýsi. 

Deiliskipulag af svæðinu er frá árinu 2001 en breyting sú sem um er deilt gerir ítarlegri kröfur til skráningar og skoðunar hjólhýsa og setur strangari reglur um meðferð elds. Í eldra skipulagi var þegar mælt fyrir um að frágangur skyldi vera með þeim hætti að unnt væri að færa hjólhýsi með tiltölulega einföldum hætti, en með deiliskipulagsbreytingunni var bætt við þeirri skýringu að svo þurfi að vera, t.d. ef eldsvoði brjótist út eða náttúruvá sé yfirvofandi. Hjólhýsi eru skráningarskyld tengitæki skv. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og eru kröfur deiliskipulags um skráningu, tryggingu og skoðun hjólhýsa í samræmi við kröfur laganna og reglugerða settum með stoð í þeim. Miða ákvæði þeirra við að hjólhýsi séu skráð á meðan þau eru í notkun og er notkun utan vega þar ekki sérstaklega undanskilin. Þó hjólhýsin séu höfð á tilgreindu hjólhýsasvæði er svæðið aðeins leigt til eins árs í senn og því ekki hægt að fullyrða að þau séu varanlega staðsett auk þess sem sú krafa er gerð samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu að unnt sé að rýma svæðið auðveldlega í neyðartilfellum. Verður að telja að skráning og skoðun hjólhýsa stuðli að því lögmæta markmiði að svo verði gert í þeim tilgangi að tryggja öryggi manna, en við gerð deiliskipulags skal skv. gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð m.a. gætt að því að unnt sé að framfylgja sérstökum kröfum sem gerðar séu, s.s. um heilsu og öryggi, í öðrum lögum og reglugerðum, en slíkar kröfur koma t.a.m. fram í byggingarreglugerð. Að öllu virtu lágu bæði lögmæt og málefnaleg sjónarmið að baki deiliskipulagsbreytingunni.

Loks var hin kærða deiliskipulagsbreyting kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga, afgreidd í skipulagsnefnd að kynningu lokinni og staðfest af sveitarstjórn lögum samkvæmt. Tók hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Var þannig farið að lögum við málsmeðferð hinnar kærðu skipulagsákvörðunar.

Af framangreindu er ljóst að hvorki formi né efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var áfátt og verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 4. janúar 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Skriðufells í Þjórsárdal.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

41 og 42/2017 Kirkjutorg Kvosin

Með

Árið 2018, föstudaginn 31. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Lækjargötu 10 og 12, Vonarstrætis 4-4b og Skólabrúar 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. maí 2017, er barst nefndinni 28. s.m., kærir eigandi fasteignar að Kirkjutorgi 6a, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Lækjargötu 10 og 12, Vonarstrætis 4-4b og Skólabrúar 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. apríl 2017, mótteknu sama dag, kærir Þórsgarður hf., eigandi fasteigna að Kirkjutorgi 4 og 6a og Templarasundi 3, áðurnefnda ákvörðun borgarráðs og krefst ógildingar hennar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður greint kærumál, sem er nr. 42/2017, sameinað máli þessu. Kærendur gerðu jafnframt kröfu um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 9. júní 2017.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. og 29. maí 2017.

Málsatvik: Deiliskipulag Kvosarinnar er frá árinu 1988 og tekur það til svæðis sem markast af Geirsgötu að norðan, Lækjargötu að austan, lóðunum vestan Aðalstrætis að vestan og Tjörninni að sunnan. Því hefur margsinnis verið breytt, m.a. á árinu 2008 þegar því var breytt innan staðgreinireits 1.141.2 vegna Lækjargötu 12 og Vonarstrætis 4-4b. Með þeirri breytingu var veitt heimild til talsverðs niðurrifs og mikillar uppbyggingar á þeim lóðum. Var m.a. heimiluð nýbygging, sem yrði alls fimm hæðir þar sem hún risi hæst, og yrði hún hótel og bankabygging.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 21. september 2016 var samþykkt að auglýsa og vísa til borgarráðs tillögu, dags. 15. september 2016, um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Lækjargötu 10 og 12, Vonarstrætis 4-4b og Skólabrúar 2. Í breytingunni fólst að lítillega var dregið úr byggingarmagni ofanjarðar og húshlutar gerðir ívið grennri en í gildandi skipulagi. Byggingarreitur jarðhæðar minnkaði og garðrými í porti stækkaði. Byggingarhlutar næst Lækjargötu 10 og Vonarstræti 4 lækkuðu um eina hæð. Byggingarreitur næst Skólabrú 2 minnkaði og þakform bygginga næst Skólabrú og Kirkjutorgi breyttust. Kvöð um umferð á lóð Lækjargötu 10 var felld niður. Ennfremur voru sett skilyrði um uppbrot útveggjar að Lækjargötu í fjórar einingar, heimild til þess að byggja turn felld niður og gerð var grein fyrir varðveislu og frágangi fornminja sem fundist höfðu á reitnum. Borgarráð samþykkti auglýsingu tillögunnar á fundi sínum 29. september 2016 og var hún auglýst til kynningar með fresti til athugasemda frá 7. október 2016 til og með 18. nóvember s.á. Alls bárust fimm athugasemdir, m.a. frá kærendum.

Að kynningu lokinni samþykkti umhverfis- og skipulagsráð tillöguna á fundi 14. desember 2016, með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 9. desember s.á., og samþykkti borgarráð skipulagstillöguna svo breytta 22. desember 2016.

Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi, dags. 11. janúar 2017, að ekki væru gerðar athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda en benti á að áður þyrfti að lagfæra og/eða skýra tiltekin atriði á kortablaði 2/4. Bréf Skipulagsstofnunar var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 1. febrúar 2017 ásamt lagfærðum uppdrætti frá 27. janúar 2017. Var tillagan samþykkt og málinu vísað til borgarráðs sem staðfesti afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á fundi 9. febrúar 2017. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um hinn 10. maí 2017 í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að ekki sé um breytingu á deiliskipulagi að ræða heldur nýtt deiliskipulag. Skipulagið hafi verið unnið að frumkvæði nýs eiganda umræddra lóða sem hafi kastað fyrra deiliskipulagi fyrir róða og unnið nýtt frá grunni.

Hið breytta deiliskipulag gangi freklega á rétt kærenda og brjóti gegn lögvörðum hagsmunum þeirra. Í stað þess að taka mið af þeim margbreytileika, sem finna megi í húsagerðum við Templarasund, Kirkjutorg og Skólabrú, verði fimm hæða byggingar byggðar meðfram Lækjargötu, fjögurra hæða byggingar meðfram Vonarstræti og tveggja til fjögurra hæða byggingar verði byggðar á miðjum reitnum. Húsið að Kirkjutorgi 6a hafi verið friðað árið 1991 og taki sú friðun til ytra byrðis hússins. Önnur hús við Kirkjutorg búi einnig yfir mikilli sögu og setji sterkt svipmót á reitinn. Ekkert tillit hafi verið tekið til þessara atriða við gerð deiliskipulagsbreytingarinnar. Auk þess rúmist hún ekki innan ákvæða Kvosarskipulagsins sem taki til svæðisins. Búið sé að hækka þriggja hæða byggingarhluta að Vonarstræti 4b, sem standi næst Kirkjutorgi 6, en lækka byggingarhluta þann sem sé tvær hæðir. Þaksvölum hafi verið bætt við beggja vegna sem valdi auknu ónæði og hljóðmengun. Gildandi deiliskipulag geri aðeins ráð fyrir þremur hæðum, en hið kærða skipulag geri ráð fyrir allt að fjórum hæðum. Tekið sé fram í fundargerð 162. fundar umhverfis- og skipulagsráðs að byggingarhluti næst Kirkjutorgi 6 og 6a hækki. Framsetningu á auglýstum tillögum sé ábótavant þar sem ósamræmi virðist vera í teikningum á bls. 2 og 3 varðandi aukningu á byggingarhlutum og því erfitt fyrir hagsmunaaðila að gera sér grein fyrir hinni raunverulegu tillögu.

Skipulagsbreytingin leiði til þess að byggingin á reitnum verði hærri og stærri með tilheyrandi skerðingu á útsýni og aukinni sjónmengun sem jafnframt leiði til aukinnar umferðar og meiri hávaða. Samkvæmt gildandi skipulagi sé óheimilt að breyta leyfilegum hæðarmörkum húsa. Hlutverk sveitarfélagsins sé að tryggja að mannvirki séu byggð í samræmi við gildandi skipulag, að jafnræðis sé gætt og að heildarmynd hverfis sé ekki raskað gegn vilja íbúa. Fullyrðing um að umþrætt skipulag feli í sér minni skerðingu á sólarljósi sé röng. Mat á áhrifunum sé ekki fyrirliggjandi en það verði að liggja fyrir þegar deiliskipulag og breytingartillaga séu skoðuð. Hækkun á fasteigninni sé á þeim hluta sem standi næst Kirkjutorgi 6a, mót suðri. Því sé ljóst að sól hverfi alveg á hluta hótelsins á Kirkjutorgi 4 og 6. 

Fyrirliggjandi deiliskipulag frá 2008 hafi verið meginforsenda fyrir kaupum annars kærenda á fasteignunum Kirkjutorgi 4 og 6 og Templarasundi 3 undir hótelrekstur. Í því sambandi skipti hæð og útlit næstu bygginga höfuðmáli. Um mikla hagsmuni sé að ræða fyrir þann kæranda. Hótel í slíkri nálægð við annað hótel eigi ekki að þurfa að hlíta því að samkeppnisaðili geti með samþykki sveitarfélagsins breytt skipulagi sér í vil og brotið með þeim hætti gegn hagsmunum kærenda.

Borgaryfirvöld hafi svarað beiðni annars kærenda á þann veg að afturköllun deiliskipulagstillögu yrði að koma frá umsækjendum sjálfum. Af svarinu verði ráðið að borgin hafi framselt skipulagsvald sitt til framkvæmdaraðila, en slíka heimild sé að finna í 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ákvæði 43. gr. skipulagslaga leysi sveitarfélagið ekki undan skyldu sinni til að standa að skipulagsbreytingunni skv. 37. gr. laganna, þar sem í 4. mgr. sé m.a. kveðið á um að lagt skuli mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir séu með gerð húsakönnunar. Sú skylda eigi við jafnt við gerð deiliskipulags og við breytingar á því. Meginreglu skipulagslaga, um að raska sem minnst þeirri hverfismynd sem til staðar sé við breytingar á deiliskipulagi eða við gerð nýs skipulags, hafi ekki verið fylgt. Samþykkt hafi verið skipulag sem í raun sé í ósamræmi við lög og það sé óásættanlegt. Fasteignir kærenda hafi verið lengur en aðrar á reitnum og ekki sé hægt að virða rétt þeirra algerlega að vettugi líkt og gert hafi verið.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að skipulagsvald liggi hjá sveitarfélaginu og því sé það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að breyta hinni kærðu ákvörðun. Um breytingu á gildandi deiliskipulagi svæðisins frá 2008 sé að ræða en ekki nýtt deiliskipulag. Í innsendum athugasemdum við kynningu umdeildrar skipulagsbreytingar hafi komið fram krafa um að Reykjavíkurborg afturkallaði tillöguna. Afturköllun verði að koma frá lóðarhöfum sjálfum enda sé ekki á forræði borgarinnar að taka slíka ákvörðun. Skylda sé samkvæmt skipulagslögum að auglýsa verulegar breytingar á deiliskipulagi og kalla eftir athugasemdum, en ekki sé skylda til að verða við þeim athugasemdum sem berist. Ekki hafi þótt ástæða til að verða við athugasemdum kærenda.

Með breytingunni sé ekki verið að hækka umræddan byggingarhluta heldur færist hann til og breytist lítillega. Í meginatriðum séu breytingarnar minna íþyngjandi fyrir Kirkjutorg 6 og 6a en að óbreyttu skipulagi, þar sem byggingarreitur sé grennri og færist til og að byggingarhlutar séu að hluta til lækkaðir og felldir út. Skýrt komi fram í myndrænni framsetningu og texta tillögunnar hvernig heimildirnar séu fyrir þennan byggingarhluta. Kærendur hafi ekki sýnt með neinum gögnum fram á þá skerðingu sem þeir telji sig verða fyrir.

Ekki sé um útsýnisskerðingu að ræða sem haft geti áhrif á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar, enda geti aðilar í þéttri borgarbyggð ekki búist við því að lóðir í nágrenni þeirra haldist óbreyttar um aldur og ævi. Aðstæður á lóðum í borginni séu mismunandi og ávallt fari fram sjálfstætt mat á hvaða heimildir séu veittar í hverju tilfelli fyrir sig. Hvergi í lögum segi að eitt deiliskipulag sé eða skuli vera fordæmisgefandi fyrir annað deiliskipulag.

Fullyrðingar um neikvæð umhverfisáhrif séu ekki rökstuddar. Ekki verði talið að þaksvalir eða möguleg aukin umferð valdi hljóðmengun umfram það sem búast megi við í þéttri byggð. Umfang breytingarinnar sé ekki þess eðlis að hún kalli á sérstök viðbrögð eða mælingar vegna mögulega aukinnar umferðar gesta í miðbænum sem leið gætu átt í viðkomandi byggingar. Heimilt sé samkvæmt gildandi deiliskipulagi að byggja hótel á sameinaðri lóð nr. 4-4b við Vonarstræti og Lækjargötu 12 í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og ekki verði séð að farið sé gegn réttindum kærenda með breytingunni.

Ekki sé skylt að gera nýja húsakönnun þegar um breytingar á deiliskipulagi sé að ræða, en húsakönnun fyrir umræddan staðgreinireit 1.141.2, Vonarstræti, Templarasund, Kirkjutorg, Skólabrú og Lækjargötu, hafi verið gerð árið 2005 og telji skipulagsyfirvöld uppbygginguna falla vel að byggðamynstri svæðisins.

Málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga. Tillagan hafi verið auglýst lögum samkvæmt með athugasemdafresti, kærendur hafi komið að athugasemdum sínum og samráði hafi ekki verið ábótavant.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar borgarráðs frá 9. febrúar 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, með síðari breytingum, vegna Lækjargötu 10 og 12, Vonarstrætis 4-4b og Skólabrúar 2.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en skilyrði er að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er gert ráð fyrir mikilli þéttingu byggðar. Umrædd deiliskipulagsbreyting tekur til lóða á svæði Þ17, svonefndum Íslandsbankareit í aðalskipulagi, sem skilgreindur er sem þróunarreitur þar sem gert er ráð fyrir hóteli, verslun, þjónustu og skrifstofum. Hin kærða deiliskipulagsbreyting er samkvæmt því í samræmi við landnotkun aðalskipulags og áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana er því fullnægt. Breytingatillagan var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði að kynningu lokinni, framkomnum athugasemdum svarað og tillagan staðfest í borgarráði lögum samkvæmt. Lá og fyrir húsakönnun frá 2005. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Eins og fram er komið í málavaxtalýsingu fól umdeild skipulagsbreyting í sér lítillega minnkun byggingarmagns ofanjarðar. Hámarksnýtingarhlutfall er óbreytt frá eldra skipulagi, svo sem því var breytt á árinu 2008, eða 3,97. Byggingarreitur næst lóðunum Kirkjustræti 6 og 6a er minnkaður og færist fjær þeim lóðum að sama skapi auk þess sem húshluti sem snýr að þeim lóðum er lækkaður úr þremur hæðum í tvær. Verður ekki ráðið að skipulagsbreytingin raski grenndarhagsmunum kærenda umfram það sem verið hefði að nýttum byggingarheimildum samkvæmt deiliskipulagi Kvosarinnar með þeim breytingum sem gerðar voru á því 2008. Hafa verður í huga að um er að ræða lóðir í miðbæjarkjarna þar sem búast má við mjög þéttri byggð og fjölbreyttri starfsemi sem hefur í för með sér umferð fólks og farartækja.

Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin form- eða efnisgöllum sem valdið geta ógildingu hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Lækjargötu 10 og 12, Vonarstrætis 4-4b og Skólabrúar 2.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                              Þorsteinn Þorsteinsson  

 

67/2017 Fornubúðir

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 12. júlí kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. apríl 2017 um breytingu á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna lóðarinnar Fornubúða 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júní 2017, er barst nefndinni 20. s.m., kæra A og B, Suðurgötu 70, Hafnarfirði þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. apríl 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna lóðarinnar Fornubúða 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. maí 2018, er barst nefndinni 2. s.m., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 27. mars s.á. um að veita leyfi fyrir viðbyggingu að Fornubúðum 5. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður síðara kærumálið, sem er nr. 68/2018, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að kærunum. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðabæ 2. ágúst 2017 og 17. maí 2018.

Málavextir: Hinn 13. apríl 2016 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar lýsingu vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi Flensborgarhafnar. Lóðin Fornubúðir 5 er innan þess svæðis sem lýsingin tók til. Samkvæmt lýsingunni voru lágreistar byggingar sem féllu vel að aðliggjandi byggð meðal markmiða nýs skipulags. Málið var til umfjöllunar í nefndum bæjarins á árunum 2016 og 2017 án þess að tillaga að breyttu deiliskipulagi fyrir svæðið hafi verið lögð fram. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 23. ágúst 2016 var síðan lagt fram erindi frá lóðarhafa Fornubúða 5 þar sem kynnt voru áform um viðbyggingu við fasteign á lóðinni. Var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir lóðina á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 1. febrúar 2017. Sendu kærendur inn athugasemdir við tillöguna. Breyting á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna Fornubúða 5 var svo samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 27. apríl 2017. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. maí s.á. Breytingin felur í sér að heimilt er að reisa skrifstofu- og þjónustuhús á lóðinni, breyta hámarkshæð bygginga og húsagerð, stækka byggingarreit, auka nýtingarhlutfall lóðarinnar auk heimildar til að byggja bílakjallara. Umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Fornubúðum 5 var síðan samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. mars 2018.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst þegar hin kærða skipulagsákvörðun var tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þannig hafi nauðsynleg gögn ekki legið fyrir, þar sem skipulagslýsing fyrir Flensborgarhöfn hafi ekki verið meðal gagna málsins, auk þess sem ekki hafi verið gerðar nauðsynlegar athuganir á því hvaða áhrif aukið byggingarmagn og umfangsmeiri starfsemi myndu hafa á umferð á svæðinu. Þá telja kærendur að ekki hafi verið farið að ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 við meðferð málsins. Þannig hafi ekki verið tekin afstaða til allra athugasemda kærenda í samræmi við 3. mgr. 41. gr. laganna. Það að deiliskipuleggja einstakar lóðir sérstaklega sé almennt ekki í samræmi við skipulagslög, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna, auk þess sem skortur hafi verið á samráði við íbúa þar sem ákveðið hafi verið að hverfa frá því sem lagt hafi verið upp með í skipulagslýsingu fyrir svæðið. Einnig hafi tillaga að breyttu deiliskipulagi verið auglýst með vísan til 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga en hún hefði átt að vera auglýst með vísan til 1. mgr. 43. laganna. Jafnframt hafi tillagan tekið breytingum frá auglýsingu en bætt hafi verið við 8.000 m2 bílakjallara og nýtingarhlutfall fært úr 1,36 í 1,9. Því hafi borið að auglýsa tillöguna að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Deiliskipulagsbreytingin sé í ósamræmi við Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025 þar sem fyrirhuguð starfsemi á lóðinni sé ekki í samræmi við landnotkunarflokk aðalskipulagsins. Ríkisstofnanir falli undir landnotkunarflokkinn samfélagsþjónusta en samkvæmt aðalskipulaginu sé um að ræða hafnarsvæði en auk þess sé leyfilegt að staðsetja á hafnarsvæðinu verslanir og þjónustustarfsemi tengdri höfninni samkvæmt skilmálum fyrir Flensborgarhöfn, en ríkisstofnun falli ekki undir þann flokk. Einnig byggja kærendur á því að byggingin, sem deiliskipulagið heimilar að byggð verði, stingi í stúf við aðrar byggingar á svæðinu og nágrenni þess, en hún sé tvöfalt hærri en aðrar byggingar á svæðinu auk þess að vera í ósamræmi við byggðamynstur samkvæmt skipulagslýsingu fyrir Flensborgarhöfn. Þá skerði fyrirhuguð bygging útsýni frá fasteign kærenda og rýri verðmæti hennar. Byggingarmagn sé einnig allt of mikið miðað við umferðaræðar að og frá svæðinu og bílastæði í næsta nágrenni. Skipulagsbreytingin sé auk þess í miklu ósamræmi við gildandi skipulag og skipulagslýsingu. Kærendur taka fram að þeim hafi ekki orðið kunnugt um útgáfu byggingarleyfisins fyrr en fyrsta lagi 9. apríl 2018 og því hafi kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar ekki verið liðinn þegar kæran var send úrskurðarnefndinni.

Málsrök Hafnafjarðarbæjar:
Af hálfu bæjaryfirvalda er því hafnað að sú hugmyndavinna sem fram hafi farið vegna Flensborgarhafnar sé bindandi fyrir þær hugmyndir sem síðar komu fram um uppbyggingu að Fornubúðum 5. Um sé að ræða tvö aðskilin mál og því hafi skipulagslýsingin ekki þurft að liggja fyrir þegar breytt deiliskipulag vegna Fornubúða 5 hafi verið afgreitt. Þegar um sé að ræða breytingu á deiliskipulagi sé heimilt að taka einstakar lóðir út og deiliskipuleggja þær sérstaklega, sbr. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi ekki orðið breyting frá auglýstri tillögu að deiliskipulagi þótt tilkynning á heimasíðu Hafnafjarðarbæjar hafi gefið slíkt til kynna. Jafnframt er því hafnað að breytt deiliskipulag vegna Fornubúða 5 sé ekki í samræmi við Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025. Í því sambandi er vísað til þess sem segi í aðalskipulaginu varðandi svæðið Flensborgarhöfn (H2) en auk þess séu mörg fordæmi fyrir því að ríkisstofnanir eða fyrirtæki á vegum eða í eigu þess nýti mannvirki sem eru á lóðum sem samkvæmt landnotkunarflokki er annað en „samfélagsþjónusta“. Kærendur hafi ekki rökstutt þá fullyrðingu sína að hæð mannvirkja og byggingarmagn verði of mikið. Ljóst sé að umferð muni aukast um þær umferðaræðar sem liggi að núverandi hafnarsvæði en erfitt sé að fullyrða hver sú aukning verði. Þá sé ekki fallist á að útsýni sé lögvarið og því óljóst hverjir séu hinir lögvörðu hagsmunir kærenda í málinu.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna málsins en hann hefur ekki látið málið til sín taka fyrir nefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Hin kærða ákvörðun varðandi byggingarleyfið var tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. mars 2018. Kærendur hafa fært fyrir því rök að þeim hafi ekki orðið kunnugt um ákvörðunina fyrr en einhverjum dögum síðar, en þeim var ekki tilkynnt um veitingu leyfisins. Verður því við það að miða að upphaf kærufrests vegna samþykktar hins kærða byggingarleyfis hafi ekki verið fyrr en fyrstu dagana í apríl 2018 og var kærufrestur því ekki liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni 2. maí s.á. og verður málinu því ekki vísað frá af þeim sökum. Þá er ekki útilokað, með hliðsjón af staðháttum og hæð fyrirhugaðrar byggingar, sem heimiluð er með umdeildri skipulagsbreytingu, að hún muni hafa áhrif á útsýni frá fasteign kærenda. Teljast kærendur því eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna lóðarinnar Fornubúða 5 og samþykki byggingaráforma á grundvelli þeirrar breytingar, þar sem gert er ráð fyrir byggingu skrifstofu- og þjónustuhúss fyrir starfsemi Hafrannsóknarstofnunar. Hafrannsóknarstofnun er ríkisstofnun sem annast rannsóknir og ráðgjöf á sviði hafs og vatna, sbr. lög um Hafrannsóknarstofnun, rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna nr. 112/2015.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Lóðin Fornubúðir 5, sem umrædd deiliskipulagsbreyting tekur til, tilheyrir svæðinu Suðurhöfn og er staðsett á hafnarsvæði H1 samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025, en ekki á hafnarsvæði H2 þar sem verslunar- og þjónustustarfsemi er heimiluð auk hafnarstarfsemi. Í grein 6.2 skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 er að finna skilgreiningu á landnotkunarflokkum aðalskipulags. Þar er flokkurinn „hafnir (H)“ skilgreindur sem „Svæði fyrir hafnir og hafnarmannvirki þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjum og tækjum til móttöku skipa og báta, losunar og lestunnar þeirra.

Í gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar segir svo um hafnarsvæði: „Á hafnarsvæðum tengist landnotkun fyrst og fremst hafnsækinni starfsemi, s.s. mannvirkjum og tækjum til móttöku skipa og báta, lestunar og losunar þeirra, geymslu vöru, móttöku og afgreiðslu þessarar vöru, móttöku og brottfarar farþega, fiskvinnslu og starfsemi tengdri sjóflutningum og skipasmíði eða viðgerðum. Íbúðir eru ekki heimilar á hafnarsvæðum. Þó er í undantekningartilvikum unnt að gera ráð fyrir húsvarðaríbúðum. Hafnarsvæðin heyra undir stjórn hafnarstjórnar.“ Um Suðurhöfn segir sérstaklega: „Miðað er við að Suðurhöfn (H1) verði áfram megin fiskihöfn höfuðborgarsvæðisins, vöruflutningahöfn og miðstöð skipasmíða og viðhaldsþjónustu við skipaflotann. Megin markmið í skipulagi hafnarsvæðisins eru að skapa skilyrði og bestu aðstæður til öflugrar þróunar fyrir hafnsækna starfsemi og að skapa aðstöðu fyrir uppbyggingu skipaviðhaldsiðnaðar. Gera þarf ráð fyrir að hægt verði að taka á móti og þjónusta farþegaskip í Suðurhöfninni. Miklir þróunarmöguleikar eru í Suðurhöfn sem verður miðstöð útgerðar, vöruflutninga og skipaviðgerða. Suðurhöfnin hefur verið stækkuð með landfyllingu og útbúið stórt athafnasvæði og aðastaða fyrir útgerð, fiskmarkað og flutningafyrirtæki. Einnig er þar olíubryggja og olíugeymar, sem fjallað er um í áhættumati Höfuðborgarsvæðisins og í umhverfismati aðalskipulagsins. Með nýjum ákvæðum um hafnarvernd er sá hluti hafnarsvæðanna sem vöruflutningar fara um lokaður fyrir allri almennri umferð.“

Samkvæmt umræddri deiliskipulagsbreytingu er heimilt að reisa á fyrrgreindri lóð skrifstofu- og þjónustuhús og fram kemur í hinu kærða byggingarleyfi að húsnæðið sé ætlað undir starfsemi Hafrannsóknarstofnunar. Sú notkun getur ekki fallið undir landnotkunarflokk hafna eins og hann er skilgreindur í skipulagsreglugerð eða fyrrgreinda skilmála aðalskipulags. Í kafla skipulagsreglugerðar um landnotkun er gert ráð fyrir að þjónustustofnanir falli undir landnotkunarflokkinn samfélagsþjónusta (S) eða eftir atvikun miðsvæði (M) skv. grein 6.2 skipulagsreglugerðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur fyrir að hin kærða deiliskipulagsbreyting er hvorki í samræmi við landnotkunarflokk svæðisins samkvæmt skipulagsreglugerð né skilmála Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013-2025. Verður því ekki hjá því komist að ógilda deiliskipulagsbreytinguna með hliðsjón af kröfu 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi ekki stoð í gildandi deiliskipulagi svo sem áskilið er í 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og verður það því fellt úr gildi.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. apríl 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna Fornubúða 5 er felld úr gildi.

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 27. mars 2018 um að samþykkja umsókn um byggingu skrifstofu- og rannsóknarhúss fyrir starfsemi Hafrannsóknarstofnunar á lóð nr. 5 við Fornubúðir er felld úr gildi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

40/2016 Auðbrekka

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 26. apríl 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Auðbrekku – þróunarsvæði, svæði 1, 2 og 3.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2016, er barst nefndinni 27. s.m., kæra 45 íbúar við Löngubrekku í Kópavogi þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 26. apríl 2016 að samþykkja deiliskipulag fyrir Auðbrekku – þróunarsvæði, svæði 1, 2 og 3. Gera kærendur þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 15. júní 2016, var kröfu um stöðvun framkvæmda synjað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 17. maí 2016.

Málavextir: Hið umþrætta deiliskipulag tekur til reita innan Auðbrekkusvæðis í Kópavogi. Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er svæðið þróunarsvæði, ÞR-2 Auðbrekka Nýbýlavegur.

Hinn 29. janúar 2015 var haldinn íbúafundur og var samantekt frá honum lögð fyrir fund skipulagsnefndar 9. febrúar s.á. Á fundi nefndarinnar 4. maí s.á. var lögð fram skipulagslýsing fyrir þróunarsvæði Auðbrekku og drög að deiliskipulagi fyrir svæðið. Var lýsingin samþykkt í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og henni vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar, sem staðfesti hana á bæjarstjórnarfundi 12. maí 2015. Á fundi skipulagsnefndar 5. október s.á. var lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir hluta þróunarsvæðis Auðbrekku, svæði 1, 2 og 3, og samþykkt að hún yrði auglýst í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Á bæjarstjórnarfundi 12. s.m. var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest. Að lokinni kynningu var tillagan lögð fram að nýju, með áorðnum breytingum, á fundi skipulagsnefndar 18. janúar 2016 og hún samþykkt ásamt umsögn um framkomnar athugasemdir. Á bæjarstjórnarfundi 26. s.m. var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest. Á fundi skipulagsnefndar 11. apríl 2016 var, með vísan til erindis Skipulagsstofnunar, dags. 24. febrúar s.á., lögð fram leiðrétt deiliskipulagstillaga og var hún samþykkt með vísan til 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Á bæjarstjórnarfundi 26. s.m. var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest. Með auglýsingu birtri í B-deild Stjórnartíðinda 17. maí 2016 tók deiliskipulagið gildi.

Í deiliskipulaginu felst að reistar verða 165 nýjar íbúðir auk þess að byggt verður við núverandi atvinnuhúsnæði og nýtt verslunar- og þjónustuhúsnæði reist. Meðalnýtingarhlutfall deiliskipulagssvæðisins er um 0,55 fyrir breytingar. Áætlað nýtingarhlutfall á reit 1 fer úr 1,1 í 1,9, á reit 2 úr 0,6 í um 3,0 og á reit 3 úr 0,12 í 2,8.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að tveir átta hæða turnar sem heimilaðir séu með hinu kærða deiliskipulagi muni rýra verðgildi fasteigna þeirra, en frá þeim megi nú njóta útýnis meðal annars til Snæfellsjökuls, Skerjafjarðar, flugvallarins, Öskjuhlíðar, Akrafjalls, Skarðsheiðar og Esjunnar. Skipulagið skerði lífsgæði íbúa og mikilfenglegt útsýni muni hverfa. Þá muni bílaumferð aukast verulega með tilheyrandi mengun, verri hljóðvist, töfum og slysahættu.

Farið sé fram á það að bæjaryfirvöld gæti meðalhófs og að turnarnir á reit 1-3 verði lækkaðir að lágmarki um þrjár hæðir. Ekki verði byggt ofan á Auðbrekku fyrir framan Löngubrekku 41-47 og heldur ekki byggt þar á milli, eða gerður þar bílakjallari. Dregið verði úr byggingarmagni og íbúðum á Auðbrekkusvæðinu verði fækkað um 100 hið minnsta. Löngubrekku verði breytt í botngötu til að sporna við auknum umferðarþunga um götuna. Gerð verði leiksvæði fyrir börn á svæðinu og fjölskyldustefna verði í hávegum höfð. Einnig sé þess krafist að byggingarleyfi verði ekki gefin út og engar framkvæmdir fari af stað á reitnum fyrr en íbúar fái skriflega staðfestingu á því að ofangreindum kröfum verði mætt.

Íbúar svæðisins hafi fjölmennt á íbúafund þar sem kynntar hafi verið hugmyndir að deiliskipulagi Auðbrekkusvæðisins. Þar hafi komið fram ábendingar af hálfu íbúa þar sem lögð hafi verið rík áhersla á að byggingar yrðu í samræmi við núverandi byggð og myndu ekki skyggja á útsýni sem fyrir sé. Starfsfólk Kópavogsbæjar hafi fullvissað íbúa um að þetta væri aðeins tillaga að skipulagi sem ætti eftir að vinna frekar og að ekki yrði farið í frekari vinnu án samráðs við húseigendur á svæðinu. Þetta hafi ekki verið efnt og því hafi íbúar staðið í þeirri trú að hugmyndavinna væri enn í gangi. Annað hafi komið í ljós þegar þeir hafi séð frétt í dagblaði þess efnis að samþykkja ætti nýtt deiliskipulag á Auðbrekkusvæði hinn 18. janúar 2016. Þá strax hafi íbúar sent athugasemdir til bæjaryfirvalda vegna fyrirhugaðs deiliskipulags en engar tilkynningar hafi borist þeim frá Kópavogsbæ af því tilefni.

Hinn 23. mars 2016 hafi íbúar við Löngubrekku setið fund með skipulagsstjóra Kópavogsbæjar þar sem farið hafi verið yfir deiliskipulagið. Þar hafi þeir komið á framfæri óánægju sinni og í kjölfarið kallað eftir hæðarkótum á fyrirhuguðum byggingum. Á fundi 20. apríl s.á. hafi verið haldinn fundur þar sem umbeðin gögn hafi verið afhent. Þá hafi komið fram á fundinum að verkefnið yrði ekki grenndarkynnt. Starfsmenn Kópavogsbæjar hafi komið því á framfæri að íbúar yrðu látnir vita ef eitthvað nýtt kæmi fram í skipulagsferlinu. Það hafi ekki verið efnt.

Í greinargerð frá bæjaryfirvöldum, sem samþykkt hafi verið 12. maí 2015, hafi komið fram: „Hæðir bygginga skulu taka mið af nærliggjandi byggð og reynt verður eftir fremsta megni að ný byggð verði ekki íþyngjandi fyrir núverandi byggð.“ Þá sé þar og talað um „mikilvægi þess að fá hagsmunaaðila inn í vinnuna á fyrstu stigum og halda samráði virku meðan á skipulagsferlinu stendur til að tryggja að allir aðilar séu meðvitaðir um framvindu málsins.“ Í ljósi þessa sé alveg með ólíkindum að ekki hafi verið haft samband við íbúa. Því megi ætla að Kópavogsbær telji íbúa Löngubrekku ekki hagsmunaaðila.

Ljóst sé að skortur á samráði við gerð deiliskipulagstillögunnar samræmist ekki 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en jafnframt hafi upplýsingum vísvitandi verið haldið frá kærendum með því að skipulagslýsing hafi ekki verið kynnt fyrir þeim. Þá komi fram í aðalskipulagi að á Auðbrekkusvæðinu sé reiknað með 160 íbúðum. Deiliskipulag Auðbrekkusvæðis, sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn 26. apríl 2016, sé því í hrópandi ósamræmi við gildandi aðalskipulag þar sem með því sé verið að heimila 350-400 íbúðir. Skorti því á innra samræmi skipulagsáætlana, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 sé Auðbrekkusvæðið þróunarsvæði ÞR-2, en í skilgreiningu svæðisins segi að landnotkun á svæðinu norðan Hamraborgar við Auðbrekku og Nýbýlaveg hafi breyst frá því að vera nær eingöngu fyrir iðnað í að vera fyrir verslun og þjónustu. Breytingin hafi tengt hverfið betur við miðbæjarsvæðið og miði skipulag hverfisins við að auka hlut verslunar og þjónustu eða starfsemi henni tengdri, auk þess að fjölga íbúðum á svæðinu. Að auki komi fram í aðalskipulaginu að markmið á þróunarsvæðum sé að bæta umhverfi, búsetugæði og efnahagslega umgjörð eldri byggðar í Kópavogi með aukinni blöndun byggðar, sem miði að sjálfbærri þróun borgarumhverfisins. Auka skuli jafnvægi í dreifingu atvinnusvæða og íbúðarsvæða og skapa þannig aukin atvinnutækifæri nær íbúðarhverfum jafnframt því að draga úr umferðarþörf og stytta vegalengdir á milli íbúða, verslunar, þjónustu og atvinnu. Loks sé í aðalskipulaginu að því stefnt að bæta hljóðvist vegna aukinnar umferðar með nánari útfærslu í deiliskipulagi. Taki deiliskipulagsgerð Auðbrekkusvæðisins mið af framangreindum markmiðum Aðalskipulags Kópavogs.

Í upphafi hafi deiliskipulagslýsing fyrir allt Auðbrekkusvæðið verið kynnt og m.a. haldinn sérstakur kynningarfundur fyrir íbúa á svæðinu þar sem farið hafi verið ítarlega yfir verkefnið, spurningum svarað og tekið við athugasemdum. Auðbrekkusvæðið skiptist í sex reiti og í framhaldi af kynningarfundi hafi farið í gang vinna við deiliskipulag fyrir reiti 1-3. Um sé að ræða nýtt deiliskipulag og hafi auglýsing og kynning verið í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt umræddri grein skuli auglýsa á sama hátt og um aðalskipulag væri að ræða, þ.e. í dagblaði gefnu út á landsvísu sem og í Lögbirtingablaði. Sé ekki ætlast til að skipulagsbreytingar sem lúti málsmeðferð 41. gr. skipulagslaga séu einnig grenndarkynntar. Að mati Kópavogsbæjar hafi ekki verið þörf á slíkri kynningu. Kynningarfundur hafi verið haldinn og hann m.a. kynntur með dreifibréfi sem dreift hafi verið í hús á svæðinu og í næsta nágrenni.

Á það bent að vinna að deiliskipulagi fyrir reiti 4-6 sé ekki hafin og athugasemdir kærenda vegna skipulagsáforma á því svæði eigi því ekki að koma til álita hér. Hvað varði þær athugasemdir sem kærendur hafi gert við deiliskipulag reita 1-3, annars vegar við Auðbrekku 7-13 og hins vegar við Dalbrekku 2-8, sé gert þar ráð fyrir átta hæða húsum með inndreginni efstu hæð. Umrædd hús séu staðsett töluvert neðar en hús kærenda, en landið á umræddu svæði sé aflíðandi. Hækkun húsa myndi því hafa takmörkuð grenndaráhrif. Sú útsýnisskerðing sem kærendur telji yfirvofandi sé óveruleg og geti útsýni varla talist til lögvarinna réttinda.

Staðhæfingum kærenda um að reynt hafi verið að villa um fyrir íbúum og að ekki hafi verið haft samband við þá sé mótmælt. Líkt og að framan greini hafi verið haldinn opinn kynningarfundur þar sem öllum þeim sem mættu hafi verið gefinn kostur á að kynna sér verkefnið. Hvergi sé kveðið á um það í lögum að frekara samráð skuli haft við íbúa, að öðru leyti en því að auglýsa skuli nýtt skipulag eða skipulagsbreytingar og gefa þar með almenningi færi á að gera athugasemdir við þá tillögu sem til meðferðar sé. Málsmeðferð deiliskipulagsins fyrir reiti 1-3 í Auðbrekku sé ítarleg og í samræmi við lög og reglur. Hafi það verið lagt fyrir og kynnt í viðeigandi nefndum og ráðum á öllum stigum málsins, athugasemdum svarað. Einnig sé sérstaklega bent á að Kópavogsbær hafi reynt eftir fremsta megni að veita kærendum eins ítarlegar upplýsingar og kostur var og m.a. boðað þá á sérstakan fund til að skýra málið nánar, þrátt fyrir að athugasemdir þeirra á umræddu deiliskipulagi hafi borist eftir að athugasemdafrestur hafi verið liðinn.

Niðurstaða:
Hið kærða deiliskipulag tekur til reita 1-3, sem eru innan skilgreinds þróunarsvæðis, ÞR-2 Auðbrekka-Nýbýlavegur, í gildandi aðalskipulagi. Reitir 4-6 innan þróunarsvæðisins hafa hins vegar ekki verið deiliskipulagðir.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Annast þær jafnframt og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Í skipulagsáætlunum er sett fram stefna skipulagsyfirvalda um þróun byggðar og landnotkun og teknar ákvarðanir um samgöngur og mannvirki sem þeim tengjast. Sveitarstjórnum er því gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags en við beitingu þess valds ber þeim þó að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Sveitarstjórnir eru enn fremur bundnar af lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er til að ná þeim markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað, en gæta verður þess að deiliskipulag sé í samræmi við efni aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 kemur fram að fjölgun íbúða á Auðbrekkusvæðinu geti orðið um 160. Er og tekið fram að landnotkun hafi breyst frá því að vera nær eingöngu fyrir iðnað í verslun og þjónustu. Breytingin hafi tengt hverfið betur við miðbæjarsvæðið. Skipulag hverfisins miðist við að auka hlut verslunar og þjónustu, eða starfsemi sem sé tengd henni, auk íbúðarhúsnæðis. Hlutfallið árið 2012 hafi verið 12% íbúðir en 88% atvinnuhúsnæði. Stefnt sé að því að hlutfallið verði 40% íbúðir en 60% atvinnuhúsnæði.

Hið kærða deiliskipulag, sem tekur aðeins til hluta Auðbrekkusvæðisins, gerir ráð fyrir 165 íbúðum. Með því er uppbyggingarheimild aðalskipulagsins á íbúðum á Auðbrekkusvæðinu fullnýtt að óbreyttu skipulagi. Þó svo að samþykktar íbúðir séu fleiri en fram kemur í aðalskipulaginu gefur orðalag þess það til kynna að svigrúm sé til staðar við ákvörðun um fjölda íbúða. Verður því að telja að deiliskipulagið sé í samræmi við stefnu og skilmála aðalskipulags, svo sem krafa er gerð um í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Í skipulaginu er gert ráð fyrir húsum, allt að átta hæðum, á svæði nokkru neðan við Löngubrekku, en landhalli er þar nokkur. Í málinu liggja fyrri myndir er sýna eiga útsýnisskerðingu frá Löngubrekku vegna húsanna og má af þeim ráða að þau muni ekki skerða útsýni að marki umfram það sem nú þegar er raunin, m.a. vegna húsa sem þar standa á milli.

Ekki verður annað ráðið en að málsmeðferð hins kærða deiliskipulags hafi verið í samræmi við ákvæði VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010. Þannig var lýsing gerð um skipulagsverkefnið, haldinn um það kynningarfundur, skipulagstillagan auglýst til kynningar, framkomnum athugasemdum er bárust innan lögboðins frests svarað og tillagan síðan afgreidd í skipulagsnefnd og bæjarstjórn. Ekki er gerð krafa í nefndum lögum um að grenndarkynna skuli nýtt deiliskipulag fyrir hagsmunaaðilum, sbr. 44. gr. laganna, heldur ber sveitarfélagi að auglýsa tillögu að deiliskipulagi með almennum hætti, sbr. 1. mgr. 41. gr. þeirra.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir neinir þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 26. apríl 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Auðbrekku – þróunarsvæði, svæði 1, 2 og 3.

102/2017 Nónhæð

Með
Árið 2017, föstudaginn 29. september, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 102/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 18. september 2017, kærir A, Foldarsmára 18, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. júní 2017 að auglýsa breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 og ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 10. ágúst s.á. um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Nónhæð. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Málsatvik og rök: Á fundi sínum 13. júní 2017 samþykkti bæjarstjórn Kópavogs að auglýsa til kynningar tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins og á fundi 10. ágúst s.á., samþykkti bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Nónhæðar. Frestur til athugasemda beggja skipulagstillagnanna var auglýstur til 29. september 2017.

Kærandi telur auglýsingu tillögu að breyttu aðalskipulagi ólögmæta þar sem í skipulagslögum sé gert ráð fyrir endurskoðun þess að loknum sveitarstjórnarkosningum og að tilkynna skuli Skipulagsstofnun um þá endurskoðun. Hin auglýsta tillaga að breyttu deiliskipulagi Nónhæðar byggi á greindri aðalskipulagsbreytingu og beri því að afturkalla hana.

Bæjaryfirvöld Kópavogs benda á að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun í hinum kærðu málum. Bæði deiliskipulags- og aðalskipulagstillagan séu ennþá í auglýsingu með athugasemdafrest til 29. september 2017.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. málsl. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að lögum að staðfesta ekki kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar, en það á við um hina kærðu aðalskipulagsbreytingu skv. 3. og 5. mgr. 32. gr. laganna.

Einungis ákvörðun sem bindur enda á mál verður kærð til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun um að auglýsa fyrrgreinda deiliskipulagstillögu er er liður í málsmeðferð en ekki lokáákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar. Ákvörðun um deiliskipulag tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingar um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda.

Af framangreindum ástæðum  verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

__________________________________________
Ómar Stefánsson

49/2016 Ægisíða

Með
Árið 2017, miðvikudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. apríl 2016 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir veitingastað í flokki II.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 18. maí 2016, kærir Borðið ehf., Ægisíðu 123, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. apríl 2016 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir veitingastað í flokki II að Ægisíðu 123. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. ágúst 2016.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 12. janúar 2016 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að breyta rekstri veitingahúss á lóð nr. 123 við Ægisíðu úr flokki I í flokk II samkvæmt lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, en með rekstrarleyfi í flokki II felst m.a. leyfi til sölu vínveitinga. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt. Málinu var vísað til skipulagsfulltrúa, sem samþykkti á embættisafgreiðslufundi sínum 29. s.m. að grenndarkynna erindið. Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin ásamt umsögn skipulagsfulltrúa tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi hans hinn 8. apríl 2016. Í nefndri umsögn var lagst gegn því að umsótt leyfi yrði veitt. Málinu var vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem samþykkti umsögn skipulagsfulltrúa á fundi sínum 14. s.m. og vísaði málinu til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi synjaði umsókninni 19. apríl 2016 með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hin kærða synjun byggingarfulltrúa hafi valdið algjörum forsendubresti fyrir kaupum á húsnæði veitingastaðarins að Ægissíðu 123 og rekstri staðarins, enda hafi skipulagsyfirvöld áður veitt jákvæða umsögn fyrir rekstri veitingastaðar í flokki II í húsnæðinu.

Alvarleg athugasemd sé gerð við umsögn skipulagsfulltrúa þar sem segi m.a: „Fyrirvari var gefinn við veitingastað í flokki II að aflokinni grenndarkynningu til að gefa íbúum í nágrenni tækifæri til að tjá skoðun sína á starfseminni.“ Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 29. október 2014 hafi verið veitt jákvæð umsögn vegna fyrirspurnar um veitingaverslun í flokki II, að uppfylltum skilyrðum, enda yrði sótt um byggingarleyfi sem yrði grenndarkynnt. Ljóst sé að þessi tvö skilyrði hafi verið uppfyllt, þ.e. sótt hafi verið um byggingarleyfi og grenndarkynning hafi farið fram.

Skipulagsyfirvöld virðist þar að auki byggja á því að Ægisíða sé ekki skilgreind sem aðalgata í aðalskipulagi og að lóð nr. 123 á Ægisíðu sé ekki skilgreind sem nærþjónustukjarni. Ægisíðan sé stofnæð fyrir fjölda fólks vestur í bæ og á Seltjarnarnesi. Þar sé mikil umferð auk þess sem tveir strætisvagnar fari um götuna. Hvað varði þá staðreynd að verslunarrýmið sé ekki skilgreint sem nærþjónustukjarni sé vakin athygli á því að þarna hafi verið starfsræktur verslunarrekstur sleitulaust frá árinu 1947 og alltaf hafi verið talsvert líf í kringum húsið af þeim sökum.

Kærandi telji einnig að stjórnsýsluleg meðferð málsins hafi ekki verið fullnægjandi. Kærandi hafi aldrei fengið að sjá grenndarkynninguna sjálfa og honum hafi aldrei verið boðið upp á að svara þeim athugasemdum sem borist hafi. Þá hafi kærandi boðist til að binda notkun hússins skilyrðum en ekki verið gefinn kostur á því. Reykjavíkurborg hafi þó iðulega farið þá leið til að greiða fyrir því að sátt næðist um sölu vínveitinga í húsnæði nálægt íbúðabyggð. Þá sé kæranda mismunað gagnvart eigendum annarra staða í næstu hverfum sem fengið hafi takmarkað vínveitingaleyfi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að óheppilegt sé að skipulagsfulltrúi hafi í umsögn sinni vegna fyrirspurnarinnar árið 2014 tekið jákvætt í að grenndarkynna byggingarleyfisumsókn í stað þess að taka neikvætt í fyrirspurnina. Aðalskipulag Reykjavíkur leyfi ekki veitingastaði í flokki II í íbúðabyggð nema við skilgreindar aðalgötur og nærþjónustukjarna. Hin neikvæða umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. apríl 2016, hafi tekið mið af því. Enda þótt í umsögninni sé vísað til þeirra athugasemda sem borist hafi sé þar ekki að finna nein efnisleg svör við þeim athugasemdum. Hvað varði þær málsástæður að forsendur séu brostnar fyrir kaupum kæranda á umræddu húsnæði sé á það bent að kærandi hafi fengið samþykkt byggingarleyfi hinn 10. nóvember 2015 fyrir veitingahúsi í flokki I og hafi hafið framkvæmdir samkvæmt því. Hann hafi ekki getað verið í vissu um að fá leyfi fyrir veitingastað í flokki II vegna umsagnar skipulagsfulltrúa frá árinu 2014, enda hafi þar verið tekið fram að sækja yrði um byggingarleyfi sem yrði grenndarkynnt. Það að borgaryfirvöld samþykki að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknir feli ekki í sér að umsækjendur geti vænst þess að þær verði undir öllum kringumstæðum samþykktar. Þar sem aðalskipulag Reykjavíkur heimili ekki veitingastað í flokki II á umræddum stað hafi verið óheimilt að samþykkja byggingarleyfisumsóknina.

Niðurstaða: Fyrir liggur að á árinu 2014 beindi kærandi fyrirspurn til borgaryfirvalda um afstöðu þeirra til veitingareksturs í flokki II í húsinu að Ægissíðu 123. Var tekið jákvætt í fyrirspurnina en þó tekið fram að húsið væri staðsett í íbúðabyggð og að veitingastarfsemi þar takmarkaðist því við flokk I með opnunartíma til kl. 23:00 og án áfengisveitinga. Hvað varðaði veitingarekstur í flokki II var sá fyrirvari gerður að slíka umsókn þyrfti að grenndarkynna.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. apríl 2016, sem gerð var að lokinni grenndarkynningu umsóknar kæranda um rekstur veitingastaðar í flokki II, er vísað í svar við fyrrgreindri fyrirspurn kæranda frá árinu 2014. Er og tekið fram að húsið að Ægisíðu 123 sé á svæði sem samkvæmt aðalskipulagi sé með skilgreinda landnotkun sem íbúðabyggð og takmarkist því veitingastaður þar við flokk I samkvæmt lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Fjölbreyttari atvinnustarfsemi innan íbúðabyggðar sé aðeins heimiluð ef húsnæðið sé staðsett við aðalgötu eða innan skilgreinds nærþjónustukjarna. Ægisíða sé ekki skilgreind sem aðalgata í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og tilheyri ekki nærþjónustukjarna sem tilgreindir séu á myndum 15 og 16 á bls. 183 í aðalskipulaginu. Með vísan til þessa var umsókn kæranda hafnað.

Eins og áður greinir var sá fyrirvari gerður í svari við fyrirspurn kæranda um mögulegan veitingarekstur í flokki II að slíkt leyfi þyrfti að grenndarkynna. Við slíka kynningu geta komið fram athugasemdir sem áhrif geta haft á niðurstöðu máls. Gat kærandi því ekki gengið að því sem vísu að lyktir mála yrðu á þann veg að veitt yrði veitingaleyfi í flokki II á umræddum stað. Við veitingu byggingarleyfis er byggingarfulltrúi bundinn af gildandi skipulagi skv. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, en eins og fram kemur í áðurgreindri umsögn skipulagsfulltrúa standa skilmálar gildandi aðalskipulags því í vegi að veitt verði leyfi fyrir veitingastað í flokki II í húsi kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. apríl 2016 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir veitingastað í flokki II.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

107/2014 Sorpa bs. Álfsnesi

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 23. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2014, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. ágúst 2014 um að veita starfsleyfi fyrir starfsemi Sorpu bs. í Álfsnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Kvíslartungu 26, Mosfellsbæ, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. ágúst 2014 að veita starfsleyfi fyrir starfsemi Sorpu bs. í Álfsnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi ella verði gerðar nánar tilgreindar breytingar á skilyrðum starfsleyfisins.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 18. maí og 18. nóvember 2015.

Málavextir:
Á árinu 2013 útbjó Umhverfisstofnun tillögu að starfsleyfi fyrir urðunarstað og aðra starfsemi í Álfsnesi að fenginni umsókn Sorpu bs. um nýtt starfsleyfi. Kom fram í umsókninni að urðunarstaðurinn hefði verið rekinn síðan 1991 og að starfsleyfi hefði fyrst verið gefið út 26. apríl það ár.

Með bréfum, dags. 10. apríl 2013, leitaði stofnunin umsagna um starfsleyfistillöguna hjá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis, Reykjavíkurborg, Mosfellsbæ, Skipulagsstofnun, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og íbúasamtökum Leirvogstungu, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Umsagnir bárust frá öllum nefndum aðilum.

Tillagan var auglýst á tímabilinu 8. apríl til 5. ágúst 2014 og bárust Umhverfisstofnun athugasemdir við hana frá bæjarráði Mosfellsbæjar, dags. 22. maí s.á., heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis, dags. 27. s.m., og íbúasamtökum Leirvogstungu, dags. 29. júlí 2014. Framangreindir aðilar gerðu allir athugasemdir við fyrirhugaðan gildistíma starfsleyfisins og lögðu til að leyfi yrði veitt til fimm ára í samræmi við samkomulag eigenda Sorpu bs., dags. 25. október 2013. Auk þessa gerðu íbúasamtök Leirvogstungu frekari athugasemdir, einkum hvað varðaði lyktarmengun.

Með bréfi, dags. 16. júní 2014, óskaði Sorpa bs. eftir því að starfsleyfi yrði gefið út í samræmi við framangreinda tillögu Umhverfisstofnunar og að það gilti til 31. desember 2020, að því er varðaði urðun í Álfsnesi.

Starfsleyfi fyrir meðhöndlun úrgangs í Álfsnesi var gefið út til Sorpu bs. 21. ágúst 2014. Samkvæmt gr. 1.2 í leyfinu veitir það heimild til urðunar allt að 120.000 tonna af úrgangi á ári, heimilt er að starfrækja hreinsistöð fyrir hauggas, heimilt er að gera tilraunir með endurnýtingu flokkaðs úrgangs og heimilt er að geyma úrgang sem nýttur er við rekstur urðunarstaðarins eða bíður endurnýtingar. Í 1. mgr. 7. kafla segir að starfsleyfið gildi til 21. ágúst 2030, en samkvæmt 2. mgr. falla ákvæði starfsleyfisins er varða urðun úrgangs úr gildi 31. desember 2020. Auglýsing um starfsleyfið var birt í B-deild Stjórnartíðinda 5. september 2014.

Umhverfisstofnun ritaði íbúasamtökum Leirvogstungu bréf, dags. 11. september s.á., þar sem samtökunum var tjáð að vegna mistaka í skjalavörslu hjá stofnuninni hefði athugasemdum þeirra við auglýst starfsleyfi ekki verið svarað sérstaklega áður en starfsleyfið hefði verið gefið út og auglýst. Taldi stofnunin að athugasemdum hefði þó öllum verið svarað efnislega við málsmeðferðina, bæði í greinargerð með athugasemdum og svörum stofnunarinnar, dags. 8. apríl 2014, í tengslum við opinn kynningarfund á auglýsingartíma, sem og við umfjöllun um aðrar athugasemdir er borist hefðu á auglýsingartímanum. Því væri ekki ástæða til að ætla að nefndar athugasemdir hefðu breytt nokkru um niðurstöðu ákvörðunar stofnunarinnar og væru ekki efni til að afturkalla starfsleyfið af þeim sökum. Stofnunin kvaðst áforma að fella svör sín inn í greinargerð með athugasemdum og svörum sem birt hefði verið við útgáfu starfsleyfisins og er uppfærð greinargerð dagsett 1. október 2014. Var íbúasamtökunum gefinn frestur til 22. september s.á. til að gera athugasemdir við málsmeðferð Umhverfisstofnunar.

Með bréfi, dags. 22. september 2014, mótmæltu íbúasamtök Leirvogstungu þeirri niðurstöðu Umhverfisstofnunar að veita Sorpu bs. heimild til starfrækslu urðunarstaðar í Álfsnesi. Ekki hefði verið tekið nægjanlegt tillit til réttmætra athugasemda íbúa í nágrenninu og jafnframt væri harmað að athugasemdir samtakanna hefðu ekki verið teknar fyrir við umfjöllun um leyfisveitinguna.

Í bréfi Umhverfisstofnunar til íbúasamtakanna, dags. 1. október 2014, kom fram að stofnunin túlkaði ákvæði laga og reglugerða þannig að eingöngu alvarleg hætta fyrir umhverfið eða neikvætt umhverfismat gæti valdið því að stofnunin gæti synjað um starfsleyfi. Ítrekað var að mistök hefðu orðið til þess að athugasemdum íbúasamtakanna hefði ekki verið svarað áður en starfsleyfið hefði verið gefið út og auglýst. Varðandi efnislegar athugasemdir íbúasamtakanna kvað Umhverfisstofnun koma til greina að skoða eitt af þeim atriðum nánar, þ.e. ákvæði um geymslu úrgangs. Það gæti stofnunin gert að fenginni beiðni um endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var samtökunum leiðbeint um þriggja mánaða frest til að setja fram beiðni um endurupptöku, sbr. 2. mgr. 24. gr., en slík beiðni kom ekki fram.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir séu meðlimir íbúasamtaka Leirvogstungu og að þeir geri að sínum málatilbúnað samtakanna í samskiptum þeirra við Umhverfisstofnun. Hefði m.a. ekki átt að gefa út hið umdeilda starfsleyfi vegna lyktarmengunar sem starfsemin muni hafa í för með sér. Einnig hefði mat á umhverfisáhrifum átt að fara fram vegna starfseminnar í Álfsnesi.

Starfsleyfið opni fyrir tilraunir með endurnýtingu á lyktarsterkum úrgangi, m.a. undir beru lofti, og geri ráð fyrir geymslu á lyktarmengandi úrgangi, sem einnig skapi hættu á foki og uppgangi vargs á svæðinu. Lyktarmengunin rýri notkunarmöguleika kærenda á fasteign sinni og brjóti því gegn rétti kærenda samkvæmt nábýlisrétti, sem og þeirri meginreglu íslenskrar stjórnskipunar að eignarrétturinn sé friðhelgur.

Ákvæði í starfsleyfinu heimili geymslu úrgangs á urðunarstað, sem aftur auki hættu á lyktarmengun. Þyki kærendum rétt að skilgreina magn úrgangs sem geyma megi á urðunarstað hverju sinni fremur en að hafa opið ákvæði um það.

Umhverfisstofnun hefði átt að fela tiltekna þætti heilbrigðiseftirlits faggiltum skoðunaraðila til að tryggja að farið yrði að ýtrustu kröfum um lyktar-, fok- og mengunarvarnir. Jafnframt hefði þurft að skilgreina í starfsleyfi hvernig bregðast skyldi við lyktarmengun og tilkynningum þar um. Jafnframt mótmæli kærendur því, að fenginni reynslu, að leyfishafi hafi heimild til að birgja úrgang sjaldnar en daglega, þar sem slíkt auki m.a. hættu á lyktarmengun.

Í október 2013 hafi eigendur Sorpu bs. undirritað samkomulag sem hafi tekið á þeim vandamálum sem fylgi starfsemi urðunarstaðar svo nærri byggð. Í því hafi m.a. verið tiltekið að urðun skyldi hætt í Álfsnesi innan fjögurra til fimm ára, að Gými yrði lokað og að þar skyldi rísa gas- og jarðgerðarstöð sem uppfyllti ströngustu skilyrði um mengunarvarnir. Þetta samkomulag hafi gefið ákveðin fyrirheit um úrlausn þeirra vandamála sem starfseminni hafi fylgt. Því hljóti að vera eðlilegt að starfsleyfið taki mið af því samkomulagi og sé einungis veitt til þess tíma sem þar sé tiltekið að nauðsynlegur sé til að vinna að ákveðnum breytingum, eða fjögurra til fimm ára.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að fyrir liggi ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 31. ágúst 2005, um að urðunarstaðurinn í Álfsnesi skuli ekki háður mati á umhverfisáhrifum. Í umsögn stofnunarinnar um starfsleyfistillöguna komi ekki fram að sú ákvörðun þurfi endurskoðunar við, enda sé ekki um að ræða stækkun á umfangi urðunar.

Heimildir til tilrauna með endurnýtingu úrgangs, til geymslu úrgangs og til að birgja baggaðan úrgang sjaldnar en daglega hafi verið settar í hið umdeilda starfsleyfi á grundvelli starfsleyfisumsóknar leyfishafa, Sorpu bs. Um heimildir sé að ræða sem Sorpa bs. hafi talið nauðsynlegar fyrir starfsemi urðunarstaðarins. Þar sem nágrannar á svæðinu hafi á síðustu árum orðið fyrir ónæði vegna lyktarmengunar, sem rekja hafi mátt til urðunarsvæðisins, hafi Umhverfisstofnun ákveðið að taka sérstaklega á þeim þætti málsins við vinnslu starfsleyfisins. Til að draga eins og mögulegt sé úr lyktarmengun frá starfseminni og lágmarka ónæði vegna hennar hafi stofnunin bundið í leyfið margvísleg ákvæði um mótvægisaðgerðir, með áherslu á varnir gegn lyktarmengun við urðun úrgangs og meðhöndlun lyktarsterks úrgangs. Framangreind ákvæði séu fullnægjandi ráðstafanir til að takmarka ónæði vegna lyktarmengunar eins og mögulegt sé. Komi hið gagnstæða í ljós á gildistíma starfsleyfisins hafi útgefandi starfsleyfis úrræði til að taka leyfið og ákvæði þess til endurskoðunar, sbr. gr. 1.8 í starfsleyfinu. Gildistími starfsleyfisins hvað varði urðun úrgangs sé mun skemmri en verið hafi samkvæmt auglýstri tillögu, eða til 31. desember 2020.

Tilraunir með endurnýtingu á lyktarsterkum úrgangi og öðrum úrgangi, sem valdið geti umtalsverðum óþrifnaði, ónæði eða mengun, séu háðar skilyrðum um samþykki útgefanda starfsleyfis og eftirlitsaðila, sbr. III. lið 1. mgr. gr. 1.2 í starfsleyfinu, að fengnum umsögnum heilbrigðisnefndar Reykjavíkur og heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis. Mögulegt sé að binda slíkt samþykki skilyrðum um tilteknar mengunarvarnir eða tiltekið verklag við meðhöndlun þess úrgangs sem tilraunir séu gerðar með. Þessar ráðstafanir séu viðhafðar til að koma í veg fyrir að þær tilraunir sem leyfishafi muni mögulega ráðast í geti haft umtalsverða mengun í för með sér, þ.m.t. lyktarmengun. Eins og orðalagið kveði á um skuli slíkar tilraunir almennt ekki fara fram nema í lokuðu rými. Umhverfisstofnun geri því ráð fyrir að það verði hið almenna verklag. Stofnuninni hafi þó ekki þótt rétt að binda tilraunirnar því skilyrði án mögulegra undantekninga, heldur veita leyfishafa svigrúm til að framkvæma slíkar tilraunir utandyra ef í staðinn kæmu aðrar og sértækar ráðstafanir til mengunarvarna.

Leyfishafi hafi til þessa ekki geymt lyktarsterkan úrgang á athafnasvæði sínu, enda hafi til þessa eingöngu verið tekið við slíkum úrgangi til urðunar og ekki hafi komið fram neitt um fyrirætlun leyfishafa um að hefja geymslu á lyktarsterkum úrgangi. Niðurstaðan hafi orðið sú að ef til þess kæmi þá giltu um geymsluna ákvæði 2. mgr. gr. 2.1, sem kveði m.a. á um að farið skuli þannig með allan úrgang við meðhöndlun að tryggt sé að hann valdi sem minnstum óþægindum, m.a. vegna ólyktar. Dugi þessi ákvæði ekki til og vart verði lyktarmengunar frá geymslusvæði geti útgefandi starfsleyfis hafið endurskoðun starfsleyfisins, sbr. gr. 1.8. Umhverfisstofnun telji nefnd úrræði fullnægjandi og áformi að leggja áherslu á að fylgjast með þessu atriði við lögbundið eftirlit stofnunarinnar. Varðandi mögulegt fok úrgangs frá starfseminni, þ.m.t. frá geymslusvæði, gildi ákvæði 2. mgr. gr. 2.1. og gr. 3.1 í starfsleyfinu og varðandi vargfugl gildi ákvæði 6. mgr. gr. 2.1.

Umhverfisstofnun bendi á að hið almenna grunnviðmið við daglegan frágang urðunarreina á urðunarstöðum sé að birgja úrgang daglega, m.a. til að lágmarka lyktarmengun. Þetta gildi einnig um urðunarstaðinn í Álfsnesi, sbr. 1. málsl. 1. mgr. gr. 4.3 í hinu kærða starfsleyfi. Hins vegar sé verklagi þannig háttað við urðun baggaðs úrgangs í Álfsnesi að Umhverfisstofnun telji mögulegt að veita heimild til að víkja frá þessu grunnviðmiði, enda komi aðrar og sértækar mótvægisaðgerðir í staðinn, sbr. 2. mgr. gr. 3.2. Það sé enn fremur skilyrði fyrir nýtingu þeirrar heimildar að verklagið skapi ekki lyktarmengun frá urðunarstaðnum. Umhverfisstofnun muni framfylgja því skilyrði við lögbundið eftirlit.

Athugasemdir leyfishafa: Í athugasemdum leyfishafa kemur fram að vinna Umhverfisstofnunar við gerð nýs starfsleyfis hafi hafist um mitt ár 2012 og staðið þar til auglýsing um nýtt starfsleyfi hafi verið birt í Stjórnartíðindum 5. september 2014. Ekki verði séð að nýjar upplýsingar komi fram í kæru og fylgiskjölum hennar sem ónýta ættu þá umfangsmiklu vinnu og samráð sem Umhverfisstofnun hafi viðhaft við undirbúning og gerð starfsleyfisins.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð veiting starfsleyfis fyrir meðhöndlun úrgangs í Álfsnesi, Reykjavík. Kærendur, sem eru búsettir í Leirvogstunguhverfi þar sem lyktarmengunar hefur orðið vart, gera ýmsar athugasemdir varðandi ákvæði leyfisins um meðferð úrgangs sem skapi hættu á slíkri mengun, einkum urðun hans. Einnig telja kærendur að leyfið hefði átt að veita til skemmri tíma, eða fjögurra til fimm ára, og jafnframt að fara hefði átt fram mat á umhverfisáhrifum starfseminnar.

Samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og 1. mgr. 49. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 131/2011, sæta ákvarðanir Umhverfisstofnunar samkvæmt lögunum kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að mæla fyrir um efnislegar breytingar á ákvörðuninni.

Samkvæmt 5. gr. a í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. sömu laga. Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir slíkum rekstri sé hann talinn upp í fylgiskjali með lögunum, sbr. 1. mgr. 6. gr., en svo er í þessu tilviki, sbr. 12. tl. í fylgiskjali I. Reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, hefur verið sett á grundvelli 5. gr. laga nr. 7/1998 og er markmið hennar m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum, sbr. gr. 1.1. Umhverfisstofnun er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðar nr. 785/1999 sem snúa að mengunarvörnum. Ber stofnuninni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Auk framangreinds eru sérákvæði um starfsleyfi móttökustöðva fyrir úrgang í lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt 1. gr. laganna er markmið þeirra m.a. að tryggja að úrgangsstjórnun og meðhöndlun úrgangs fari þannig fram að: a. ekki skapist hætta fyrir heilbrigði manna og dýra og umhverfið verði ekki fyrir skaða, b. ekki skapist óþægindi vegna hávaða eða ólyktar, c. ekki komi fram skaðleg áhrif á landslag eða staði sem hafa sérstakt gildi og d. úrgangsstjórnun sé markviss og hagkvæm og úrgangur sem til falli fái viðeigandi meðhöndlun. Í 14.-17. gr. er að finna ákvæði um starfsleyfi móttökustöðva fyrir úrgang. Þá eru reglur um starfsleyfi fyrir móttökustöðvar úrgangs nánar útfærðar í reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs, sem sett hefur verið með stoð í nefndum lögum nr. 55/2003.

Mat á umhverfisáhrifum sorpurðunar í Álfsnesi hefur ekki farið fram, en í málinu liggur fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2005 þess efnis að breyting á urðunarsvæðinu sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 738/2003 segir að starfsleyfi skuli ekki gefa út fyrr en farið hefur fram mat á umhverfisáhrifum eftir því sem lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum, kveði á um. Samkvæmt þeim lögum eru förgunarstöðvar úrgangs sem meðhöndla meira en 500 tonn af úrgangi á ári ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum. Í ákvæði I. til bráðabirgða er þó tekið fram að framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 séu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum séu þær hafnar fyrir árslok 2002. Á það við um mál þetta, enda hófst urðun í Álfsnesi á árinu 1991 samkvæmt leyfi útgefnu það ár.  

Kærendur byggja aðallega á því að í skilyrðum hins veitta starfsleyfis hafi ekki verið tekið nægilegt tillit til athugasemda um lyktarmengun frá Álfsnesi. Samkvæmt gögnum málsins vann Umhverfisstofnun tillögu að starfsleyfi fyrir urðunarstað í Álfsnesi eftir að umsókn um nýtt starfsleyfi hafði borist frá Sorpu bs. Í kafla 10.2 í umsókninni er fjallað um lykt og aðgerðir til að eyða henni. Kemur þar fram að með tilkomu nýrrar byggðar í Leirvogstungu hafi þeim fjölgað sem hafi orðið varir við lykt frá urðunarstaðnum og að frá árinu 2009 hafi verið lagt í umfangsmiklar aðgerðir og breytingar á ferlum til að bregðast við kvörtunum vegna lyktar, sem ætla megi að í flestum tilfellum eigi upptök sín á urðunarstaðnum. Er og rakið í umsókninni að skipulega hafi verið unnið að eyðingu lyktar í Álfsnesi, viðhorfskannanir bendi til að þær ráðstafanir hafi gert gagn þótt lyktarmengun sé ekki úr sögunni, lyktarvarnir muni verða bættar frekar og að vandamálið eigi að geta verið úr sögunni þegar hætt verði að urða lífrænan gasmyndandi úrgang. Í samræmi við gr. 8.2. í reglugerð nr. 785/1999 leitaði Umhverfisstofnun umsagna ýmissa aðila við gerð starfsleyfistillögu og breytingar voru gerðar á starfsleyfisdrögunum í samræmi við ábendingar sem bárust. Í greinargerð um umsagnirnar eru rakin svör stofnunarinnar við þeim og kemur þar m.a. fram að tillagan sé í samræmi við reglugerð nr. 738/2003 og að samkvæmt henni sé urðunarstaðurinn í fullnægjandi fjarlægð frá dvalarstöðum fólks, auk þess sem stofnunin hafi gengið lengra en mælt sé fyrir um í reglugerðinni og sett sértæk ákvæði um varnir gegn lyktarmengun, sbr. gr. 3.2. í tillögunni, en það sé almennt ekki gert í starfsleyfum urðunarstaða á Íslandi. Umrædd grein hefur að geyma greinargóð ákvæði um mótvægisaðgerðir vegna lyktarmengunar, auk þess sem sú skylda er lögð á rekstraraðila að útbúa tímasetta áætlun um frekari ráðstafanir til að draga úr lyktarmengun. Verður því ekki annað séð en að með skilyrðum í starfsleyfinu hafi fullnægjandi tillit verið tekið til athugasemda varðandi lyktarmengun.

Svo sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 auglýsti Umhverfisstofnun tillögu sína að starfsleyfi og gaf lögboðinn frest til að gera við hana athugasemdir. Athugasemdir íbúasamtaka Leirvogstungu, sem kærendur hafa gert að sínum, bárust innan frestsins, en Umhverfisstofnun svaraði þeim ekki sérstaklega fyrr en eftir útgáfu leyfisins. Lög áskilja hins vegar ekki að afstaða sé tekin til athugasemda öðru vísi en með útgáfu starfsleyfis. Með hliðsjón af því að um lyktarmengun var fjallað í leyfinu, auk þess sem Umhverfisstofnun hafði þegar svarað athugasemdum íbúasamtakanna svipaðs efnis fyrr í málsmeðferðinni við undirbúning ákvörðunartöku sinnar, verður ekki talið að skortur á svörum við athugasemdum íbúasamtakanna hafi valdið þeim réttarspjöllum þannig að leiði til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Í 16. gr. reglugerðar nr. 785/1999, sbr. breytingareglugerð nr. 177/2014, kemur fram að starfsemi leyfishafa skuli samrýmast aðalskipulagi varðandi landnotkun og byggðaþróun og vera í samræmi við samþykkta notkun fasteignar. Skal útgefandi starfsleyfis leita umsagnar skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa um þessa þætti. Á meðal gagna málsins eru bréfleg samskipti Umhverfisstofnunar við Reykjavíkurborg vegna ákvæða í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030 þar sem vísað er til eigendasamkomulags, dags. 25. október 2013, á milli sveitarfélaga þeirra er eiga Sorpu bs. Í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs vegna fyrirspurnar Umhverfisstofnunar, sem samþykkt var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. mars 2014, kemur fram það álit að viðkomandi ákvæði eigi ekki að stangast á við útgáfu starfleyfis fyrir urðunarsvæðið í Álfsnesi. Var það og niðurstaða Umhverfisstofnunar. Í uppfærðri greinargerð hennar um athugasemdir er bárust stofnuninni við auglýsta starfsleyfistillögu, dags. 1. október 2014, kemur og fram vegna athugasemda um tímalengd starfsleyfis að stofnuninni hafi verið kunnugt um framangreint eigendasamkomulag og efni þess. Eftir ítarlega umfjöllun um málið hafi niðurstaðan orðið sú að samkomulag, eins og hér um ræði, heyrði ekki til þeirra málsgagna sem stofnuninni bæri að taka tillit til við ákvörðun á gildistíma starfsleyfis, samkvæmt þeim lögum og reglugerðum sem um útgáfu starfsleyfis giltu. Stofnuninni bæri hinsvegar að taka tillit til þeirra landnotkunarheimilda sem skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis kvæðu á um og samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 væri starfsemi Sorpu bs. á svæði sem skilgreint væri sem iðnaðarsvæði (I5) til ársins 2030. Í umfjöllun um svæðið í greinargerð aðalskipulagsins væri vísað til eigendasamkomulags Sorpu bs., en ekki sett skýr tímamörk fyrir urðun á svæðinu.

Aðalskipulag Reykjavíkurborgar 2010-2030 tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. febrúar 2014. Í kaflanum Landnotkun – skilgreiningar (bindandi stefna) er Álfsnes skilgreint sem iðnaðarsvæði (I), nánar tiltekið I5 Álfsnes – Sorpa. Þar segir: „Núverandi sorpförgunarsvæði er á Álfsnesi. Tímamörk urðunar á svæðinu miðast við eigendasamkomulag sveitarfélaganna og viðauka þess, dagsett 25. október 2013 (sjá fylgiskjal C8). Unnið verði í samræmi við markmið laga um meðhöndlun úrgangs og markvisst dregið úr urðun úrgangs. Til að ná þeim markmiðum er gert ráð fyrir byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar í grennd við núverandi urðunarstað, sbr. ofangreint samkomulag og viðauka þess.“ Í kaflanum Kjalarnes – borgarhluti 10 er samhljóða málsgrein um Sorpu, Álfsnesi og jafnframt segir um gas- og jarðgerðarstöð: „Starfsemi hennar í Álfsnesi getur haldið áfram þó hætt verði frekari urðun í Álfsnesi.“ Í nefndu eigendasamkomulagi sem vísað er til og fylgdi aðalskipulaginu kemur fram að „hætt verði að urða í Álfsnesi innan 4-5 ára frá undirritun samkomulags þessa“ og er samkomulagið undirritað 25. október 2013. Verður að telja að með þessu hafi í skipulagi verið tekin ákvörðun um að byggðaþróun eftir 24. október 2018 verði með þeim hætti að ekki verði urðað á svæðinu, enda er byggðarþróun m.a. skilgreind sem framvinda atvinnulífs skv. gr. 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Var Umhverfisstofnun bundin af þessari stefnu við útgáfu hins kærða starfsleyfis, sbr. tilvitnað ákvæði 16. gr. reglugerðar nr. 785/1999, og verður því ekki hjá því komist að fella það úr gildi. Að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður hið kærða starfsleyfi þó eingöngu fellt úr gildi að hluta, þ.e. að því er varðar urðun.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. ágúst 2014 um að veita starfsleyfi fyrir starfsemi Sorpu bs. í Álfsnesi, að því er varðar urðun.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

89/2015 Heiðarbær Þingvallasveit

Með
Árið 2016, föstudaginn 18. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Kristín Benediktsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2015, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Uppsveita bs. frá 10. september 2015 um að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi til byggingar sumarhúss á lóð 170211, nú 223275, í landi Heiðarbæjar, Bláskógabyggð, Þingvallasveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir, leigjandi lóðar 170211, nú 223275,  í landi Heiðarbæjar, Bláskógabyggð, ákvörðun skipulagsnefndar Uppsveita bs. frá 10. september 2015 um að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi til byggingar sumarhúss á umræddri lóð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að fyrri ákvörðun skipulagsnefndarinnar frá 6. nóvember 2014 um að grenndarkynna skuli umsókn um leyfi til byggingar húss á téðri lóð verði látin standa.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu 12. nóvember 2015 og frekari gögn á árinu 2016.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Uppsveita bs. 6. nóvember 2014 var lögð fram   fyrirspurn um hvort leyft yrði að byggja sumarhús á lóð nr. 170211 við Grafningsveg í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit. Í erindinu var m.a. tilgreint að samkvæmt tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Heiðarbæjar við Þingvallavatn væri gert ráð fyrir því að lóðinni yrði skipt í tvo hluta. Ekki hefði tekist að afgreiða skipulagstillöguna innan lögbundins frests. Hafi rétthafar lóðarinnar allt frá árinu 2005 óskað eftir því að heimilað yrði að skipta lóðinni en vinna við deiliskipulag hafi tafið afgreiðslu málsins. Ríkið væri eigandi umræddrar lóðar og hefði samþykkt lóðarskiptin fyrir sitt leyti. Var erindið afgreitt með eftirfarandi hætti: „Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við skiptingu lóðarinnar í samræmi við fyrirliggjandi beiðni. Þá er samþykkt að umsókn um byggingarleyfi verði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipu-lagslaga nr. 123/2010 þegar lóðastofnun hefur gengið í gegn“. Staðfesti sveitarstjórn greinda afgreiðslu 13. nóvember 2014.

Hinn 3. september 2015 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa 98,2 m² sumarhús á fyrrgreindri lóð og umsókninni vísað til skipulagsnefndar þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir. Skipulagsnefnd tók erindið fyrir 10. s.m. og frestaði afgreiðslu málsins. Var fært til bókar að í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011, væri ekki unnt að gefa út byggingarleyfi á lóðum innan fyrrum Þingvallasveitar nema á grundvelli deiliskipulags eða þá að ákvæði aðalskipulags, um að deiliskipulag þyrfti að vera forsenda byggingarleyfa en ekki grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga, yrði fellt út. Var kæranda tilkynnt afgreiðsla skipulagsnefndar með bréfi, dags. 11. september 2015, og þar tekið fram að sá fyrirvari væri á nefndri tilkynningu að sveitarstjórn samþykkti hana á næsta fundi sínum.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að forsendur fyrir niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011 hafi annars vegar verið reistar á Aðalskipulagi Þingvallasveitar 2004-2016 og hins vegar á skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Sé aðalskipulagið unnið á grundvelli eldri skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og nefndrar reglugerðar. Sú reglugerð hafi ekki lengur verið í gildi þegar kærandi hafi sótt um byggingarleyfi.

Hafi nefndin í úrskurði sínum byggt niðurstöðu málsins á ákvæðum aðalskipulagsins um hverfisvernd, en þó sérstaklega á því ákvæði þess að vinna skuli deiliskipulag fyrir sumarhúsasvæði í Þingvallasveit „innan 4 ára frá gildistöku aðalskipulagsins“ og að ekki verði „gefin út byggingarleyfi á þeim svæðum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag að loknum þessum 4 árum“.

Skilgreining „hverfisverndar“ sé svipuð í fyrrgreindri skipulagsreglugerð og nýrri skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Sá grundvallarmunur sé þó á að samkvæmt eldri reglugerðinni skuli gera grein fyrir slíkum svæðum í „svæðis- og aðalskipulagi“ og öll svæði sem „staðfest hverfisvernd gildir um samkvæmt aðalskipulagi skulu deiliskipulögð ef framkvæmdir eru fyrirhugaðar“. Í gr. 5.3.2.17. í gildandi skipulagsreglugerð sé hins vegar heimilt „að setja ákvæði um hverfisvernd“ við gerð deiliskipulags, „þótt slíkt svæði sé ekki afmarkað í aðalskipulagi“. Jafnframt sé skírskotað til gr. 6.3. í síðarnefndu reglugerðinni.

Í 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi m.a. fram að tilgangur aðalskipulags sé að setja fram stefnu „um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál“ og að leggja grundvöll fyrir gerð deiliskipulags varðandi þessa þætti. Hafi ákvæði 12. gr. laganna verið breytt með lögum nr. 87/2015 þannig að „jafnframt skal setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um verndaráætlun í byggð samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð“. Kveðið sé á um markmið aðalskipulags í skipulagsreglugerðinni og í gr. 4.7.1. hennar segi að stefna aðalskipulags sé bindandi við gerð deiliskipulags og útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa.

Hverfisverndarsvæðin virðist ekki mjög vel skilgreind í aðalskipulaginu fyrir utan almenna stefnumörkun þess um vatnsvernd, gróður, stærð lóða o.s.frv. Verði ekki séð að umsókn kæranda brjóti á neinn hátt í bága við stefnu þess um landnotkun eða byggingarform og lögð sé áhersla á að gætt verði þeirra verndarsjónarmiða sem þar séu mörkuð. Hafi hvorki skipulags- né byggingarnefnd gert neinar athugsemdir við umsóknina í þá veru. Það skilyrði aðalskipulagsins um að byggingarleyfi verði ekki gefin út eftir 2. júní 2010 sé óvenjulegt og falli ekki undir eðlilega stefnumörkun þess sem skal vera leiðbeinandi „við mat á einstökum byggingarumsóknum innan eldri sumarhúsasvæða“ á meðan deiliskipulag liggi ekki fyrir.

Í 44. gr. skipulagslaga segi að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Hafi ákvæðinu verið breytt og tekið fram í athugasemdum við þá breytingu að lögð væri fram breyting á orðalagi 1. mgr. 44. gr. laganna á þann veg að skýrt yrði að við framkvæmd grenndarkynningar vegna byggingar-eða framkvæmdaleyfis verði aðalskipulag að liggja fyrir og framkvæmdin að vera í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Jafnframt sé vísað til gr. 5.9.1. skipulagsreglugerðar um grenndarkynningu.

Þótt „stefna“ aðalskipulags sé bindandi við útgáfu byggingarleyfis skv. 6. mgr. 32. gr. skipulagslaga sé ekki hægt að fallast á að nefnt ákvæði aðalskipulagsins, um bann við útgáfu byggingarleyfa hafi deiliskipulag ekki verið afgreitt, víki til hliðar skýrum lagaákvæðum um að byggingarleyfi megi gefa út á grundvelli grenndarkynningar samræmist það aðalskipulagi að öðru leyti. Um verulega íþyngjandi ákvæði sé að ræða sem hindri að rétthafi lóðar geti fengið byggingarleyfi. Það sé að auki ósanngjarnt vegna þess langa tíma sem deiliskipulag hafi verið í smíðum og þar sem ákvæðið sé ótímabundið.

Hljóti sanngirnisrök að styðja það að byggingarleyfi verði grenndarkynnt án frekari tafa vegna sögu málsins. Sé það sjónarmið stutt af landeiganda. Þá komi fram í aðalskipulaginu í kafla um stefnu um frístundabyggð á láglendi að annað leiðarljós við mótun stefnunnar, en að vernda lífríki Þingvallavatns og ásýnd svæðisins, sé að gæta eins og framast er unnt sanngirni og jafnræðis gagnvart landeigendum sem lýst hafi áhuga á að skipuleggja sumarhúsasvæði á sínum jörðum.   

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að undanfarin ár hafi skipulagsnefnd samþykkt að grenndarkynna mætti byggingarleyfi á svæðum þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi svo verið gert þrátt fyrir ákvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins um að fjórum árum eftir gildistöku þess skyldi deiliskipulag ávallt vera forsenda fyrir byggingarleyfi á þessu svæðum. Í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011, sem fjalli um viðbyggingu á sumarhúsalóð í landi Miðfells, hafi sveitarfélagið ekki talið mögulegt að taka aðra ákvörðun en þá sem kærð sé í máli þessu. Þá sé bent á að unnið sé að endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins og sé gert ráð fyrir að nýtt aðalskipulag taki gildi um mitt árið 2016.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um það í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Ef umsókn lýtur að mannvirkjagerð á ódeiliskipulögðu svæði eða vafi leikur á um að fyrirhugað mannvirki sé í samræmi við gildandi deiliskipulag skal leita umsagnar skipulagsfulltrúa eða skipulagsnefndar, sbr. 10. gr. laganna og gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ef sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi getur skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags, enda hafi áður farið fram grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Felur það lagaákvæði samkvæmt orðanna hljóðan m.a. í sér að skipulagsnefnd taki ákvörðun um hvort veita megi byggingar- eða framkvæmdaleyfi án deiliskipulags. Hins vegar er endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki.

Umsókn kæranda um byggingarleyfi var tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa 3. september 2015. Vísaði hann erindinu til skipulagsnefndar sem frestaði afgreiðslu þess. Var sú afstaða nefndarinnar á því reist að í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011 væri ekki unnt að gefa út byggingarleyfi á lóðum innan fyrrum Þingvallasveitar nema á grundvelli deiliskipulags eða þá með því að fella út ákvæði í aðalskipulagi um að deiliskipulag þyrfti að vera forsenda byggingarleyfa, en ekki grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga.

Skýrt er kveðið á um í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt, en af framansögðu er ljóst að svo er ekki. Verður að svo komnu að líta á málskot kæranda sem kæru á óhæfilegum drætti á afgreiðslu máls, skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, enda lítur hin kærða ákvörðun að frestun á afgreiðslu umsóknar kæranda.

Fyrirliggjandi gögn bera með sér að kærandi hefur allt frá árinu 2005 óskað eftir skiptingu lóðar nr. 170211 svo honum væri unnt að reisa sumarhús á lóðinni. Kemur fram í bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins f.h. Jarðeigna ríkisins til kæranda, dags. 30. september 2014, að vinna við deiliskipulag frístundabyggðar fyrir Heiðarbæ hafi staðið í vegi fyrir afgreiðslu þess erindis. Eins og fyrr greinir mun tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis ekki hafa verið afgreidd innan lögbundins frests en lóðinni mun þó hafa verið formlega skipt upp sumarið 2015 í samræmi við þá tillögu. Byggingarfulltrúi vísaði umsókn kæranda um byggingarleyfi til skipulagsnefndar 3. september s.á. sem frestaði afgreiðslu málsins ótímabundið á fundi sínum 11. s.m.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana skv. 3. mgr. 3. gr. laganna. Aðalskipulag Bláskógabyggðar, Þingvallasveit, 2004-2016 tók gildi árið 2006 og var þar kveðið á um ekki yrðu gefin út byggingarleyfi á ódeiliskipulögðum svæðum að liðnum fjórum árum frá gildistöku þess. Er sú afstaða sveitarfélagsins í samræmi við þá meginreglu skipulagslaga að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna. Með greindu ákvæði tók sveitarfélagið þá ákvörðun að nýta sér ekki undanþáguákvæði 44. gr. skipulagslaga um að skipulagsnefnd geti, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, ákveðið að unnt sé að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar enda fari áður fram grenndarkynning. Er sveitarstjórn bundin af greindu skilyrði meðan aðalskipulagi er ekki breytt. Verður að líta svo á að rök sveitarfélagsins fyrir því að fresta afgreiðslu á umsókn kæranda um byggingaleyfi hafi þar með verið málefnaleg og verður ekki talið að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins þegar kæra í máli þessu barst 15. október 2015.

Hins vegar verður að líta til þess að nú er liðið meira en ár frá því að málinu var frestað ótímabundið. Í samræmi við 4. mgr. 28. gr. skipulagslaga og gr. 4.8.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 mun almenn endurskoðun aðalskipulags Bláskógabyggðar hafa hafist árið 2014. Munu vonir standa til þess að unnt verði að auglýsa tillögu að greindu aðalskipulagi í byrjun árs 2017, en frekari lögbundin málsmeðferð á sér stað eftir auglýsingu sem líkur eru á að taki mánuði frekar en vikur að ljúka. Þannig er gert ráð fyrir að endurskoðað aðalskipulag geti tekið gildi á vormánuðum 2017 samkvæmt þeim upplýsingum sem aflað hefur verið frá sveitarfélaginu. Er því fyrirsjáanlegt að afgreiðsla á umsókn kæranda um byggingarleyfi muni enn tefjast umfram það sem orðið er.

Stjórnvöldum ber að taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er skv. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga á grundvelli laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem þá eru í gildi og að teknu tilliti til annarra réttarheimilda. Umsókn er þá samþykkt eða henni synjað og eftir atvikum beint í annan farveg. Sveitarfélagið getur t.a.m. breytt aðalskipulagi, haft frumkvæði að deiliskipulagsgerð eða leiðbeint framkvæmdaraðila um að óska heimildar til að vinna sjálfur að gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Í því sambandi er rétt að geta þess að ekki mun hafa verið tekin ákvörðun í máli þessu um að hefja gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði, en um mitt árið 2016 tók gildi deiliskipulag fyrir tvær lóðir í landi Heiðarbæjar. Þá mun samkvæmt upplýsingum frá skipulagsfulltrúa koma til greina að skipta umræddu svæði í nokkur deiliskipulagssvæði.

Ríflega 14 mánuðir eru liðnir frá töku hinnar kærðu ákvörðunar 10. september 2015 og liggja ekki fyrir neinar nýjar ákvarðanir vegna umsóknar kæranda um byggingarleyfi. Þá er fyrirsjáanlegt, eins og áður er greint, að afgreiðsla hennar mun tefjast enn frekar ef ekki er leitað annarra lausna en almennrar endurskoðunar á aðalskipulagi. Verður að svo komnu ekki komist hjá því að telja að afgreiðsla umsóknarinnar sé farin að tefjast umfram það sem við verði unað gegn andmælum kæranda. Er því lagt fyrir skipulagsnefnd Uppsveita bs., sveitarstjórn Bláskógabyggðar og byggingarfulltrúa að taka umsóknina til efnislegrar meðferðar án ástæðulauss dráttar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir skipulagsnefnd Uppsveita bs., sveitarstjórn Bláskógabyggðar og byggingarfulltrúa að ljúka afgreiðslu umsóknar kæranda um leyfi til byggingar sumarhúss á lóð 170211, nú 223275, í landi Heiðarbæjar, Bláskógabyggð, Þingvallasveit.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Kristín Benediktsdóttir

21/2016 Biskupstungnahreppur

Með
Árið 2016, mánudaginn 18. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 21/2016, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 10. desember 2015 á tillögu að breyttu Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. febrúar 2016, er barst nefndinni 17. s.m., kærir K, Einiholti 2, Selfossi, þá ákvörðun Bláskógabyggðar frá 10. desember 2015 að samþykkja tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Bláskógabyggð 21. mars 2016.

Málsatvik og rök: Hinn 10. desember 2015 samþykkti sveitarstjórn Bláskógabyggðar breytingu á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012. Í breytingunni fólst að 7 ha svæði milli þjóðvegar og Einiholtslækjar væri skilgreint sem svæði fyrir verslun og þjónustu í stað landbúnaðarsvæðis og efnistökusvæðis. Efnistökusvæði í Einiholti (E10) væri jafnframt fellt burt. Staðfesti Skipulagsstofnun téða breytingu 21 janúar 2016 og birtist auglýsing um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda 4. febrúar 2016.

Kærandi tekur fram að landeigendur hafi mótmælt fyrirætlunum sveitarfélagins frá því að þær hafi legið fyrir. Öll umferð um svæðið muni aukast til muna með tilheyrandi raski, rykmengun og ónæði auk þess sem vegur og brýr á svæðinu muni ekki þola aukna umferð. Verslunar- og þjónustustarfsemi muni hamla því að hægt sé að auka umsvif þess landbúnaðar sem fyrir sé, en að því stefni landeigendur með auknum fjárfestingum. Umfangsmikil starfsemi sé nú þegar í ferðaþjónustu í Bláskógabyggð og það hljóti að vera markmið aðalskipulags að góð landbúnaðarsvæði verði ekki tekin til afnota sem skerði verulega starfsemi landbúnaðar í kring. Þá sé fjölskrúðugt fuglalíf á svæðinu sem hingað til hafi verið óáreitt og beri að forðast að raska votlendissvæðum eða mikilvægum búsvæðum fugla. Loks hafi markmið skipulagslaga nr. 123/2010 ekki verið höfð að leiðarljósi við hina kærðu aðalskipulagsbreytingu auk þess sem rannsókn málsins eða mati stjórnvalda hafi verið áfátt í þeim efnum.

Af hálfu Bláskógabyggðar er bent á að vísa beri máli þessu frá úrskurðarnefndinni. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 séu ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra staðfesti ekki kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Skýrt komi fram í umsögn sveitarfélagsins um athugasemdir vegna aðalskipulagsbreytingarinnar að deiliskipulag, sem auglýst hafi verið samhliða henni, sé kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar og hver kærufrestur sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er aðalskipulag háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Er mælt svo fyrir um í 2. ml. 3. mgr. 32. gr. tilvitnaðra laga  að aðalskipulag taki gildi þegar það hafi verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Eins og að framan er rakið var hin umþrætta breyting á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps staðfest af Skipulagsstofnun 21. janúar 2016 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 4. febrúar s.á. Sæta ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að fyrrgreindum lögum að staðfesta ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 52. gr. téðra laga. Af þeim sökum brestur úrskurðarnefndina vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar og verður málinu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir