Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2016 Ægisíða

Árið 2017, miðvikudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. apríl 2016 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir veitingastað í flokki II.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 18. maí 2016, kærir Borðið ehf., Ægisíðu 123, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. apríl 2016 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir veitingastað í flokki II að Ægisíðu 123. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. ágúst 2016.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 12. janúar 2016 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að breyta rekstri veitingahúss á lóð nr. 123 við Ægisíðu úr flokki I í flokk II samkvæmt lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, en með rekstrarleyfi í flokki II felst m.a. leyfi til sölu vínveitinga. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt. Málinu var vísað til skipulagsfulltrúa, sem samþykkti á embættisafgreiðslufundi sínum 29. s.m. að grenndarkynna erindið. Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin ásamt umsögn skipulagsfulltrúa tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi hans hinn 8. apríl 2016. Í nefndri umsögn var lagst gegn því að umsótt leyfi yrði veitt. Málinu var vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem samþykkti umsögn skipulagsfulltrúa á fundi sínum 14. s.m. og vísaði málinu til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi synjaði umsókninni 19. apríl 2016 með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hin kærða synjun byggingarfulltrúa hafi valdið algjörum forsendubresti fyrir kaupum á húsnæði veitingastaðarins að Ægissíðu 123 og rekstri staðarins, enda hafi skipulagsyfirvöld áður veitt jákvæða umsögn fyrir rekstri veitingastaðar í flokki II í húsnæðinu.

Alvarleg athugasemd sé gerð við umsögn skipulagsfulltrúa þar sem segi m.a: „Fyrirvari var gefinn við veitingastað í flokki II að aflokinni grenndarkynningu til að gefa íbúum í nágrenni tækifæri til að tjá skoðun sína á starfseminni.“ Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 29. október 2014 hafi verið veitt jákvæð umsögn vegna fyrirspurnar um veitingaverslun í flokki II, að uppfylltum skilyrðum, enda yrði sótt um byggingarleyfi sem yrði grenndarkynnt. Ljóst sé að þessi tvö skilyrði hafi verið uppfyllt, þ.e. sótt hafi verið um byggingarleyfi og grenndarkynning hafi farið fram.

Skipulagsyfirvöld virðist þar að auki byggja á því að Ægisíða sé ekki skilgreind sem aðalgata í aðalskipulagi og að lóð nr. 123 á Ægisíðu sé ekki skilgreind sem nærþjónustukjarni. Ægisíðan sé stofnæð fyrir fjölda fólks vestur í bæ og á Seltjarnarnesi. Þar sé mikil umferð auk þess sem tveir strætisvagnar fari um götuna. Hvað varði þá staðreynd að verslunarrýmið sé ekki skilgreint sem nærþjónustukjarni sé vakin athygli á því að þarna hafi verið starfsræktur verslunarrekstur sleitulaust frá árinu 1947 og alltaf hafi verið talsvert líf í kringum húsið af þeim sökum.

Kærandi telji einnig að stjórnsýsluleg meðferð málsins hafi ekki verið fullnægjandi. Kærandi hafi aldrei fengið að sjá grenndarkynninguna sjálfa og honum hafi aldrei verið boðið upp á að svara þeim athugasemdum sem borist hafi. Þá hafi kærandi boðist til að binda notkun hússins skilyrðum en ekki verið gefinn kostur á því. Reykjavíkurborg hafi þó iðulega farið þá leið til að greiða fyrir því að sátt næðist um sölu vínveitinga í húsnæði nálægt íbúðabyggð. Þá sé kæranda mismunað gagnvart eigendum annarra staða í næstu hverfum sem fengið hafi takmarkað vínveitingaleyfi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að óheppilegt sé að skipulagsfulltrúi hafi í umsögn sinni vegna fyrirspurnarinnar árið 2014 tekið jákvætt í að grenndarkynna byggingarleyfisumsókn í stað þess að taka neikvætt í fyrirspurnina. Aðalskipulag Reykjavíkur leyfi ekki veitingastaði í flokki II í íbúðabyggð nema við skilgreindar aðalgötur og nærþjónustukjarna. Hin neikvæða umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. apríl 2016, hafi tekið mið af því. Enda þótt í umsögninni sé vísað til þeirra athugasemda sem borist hafi sé þar ekki að finna nein efnisleg svör við þeim athugasemdum. Hvað varði þær málsástæður að forsendur séu brostnar fyrir kaupum kæranda á umræddu húsnæði sé á það bent að kærandi hafi fengið samþykkt byggingarleyfi hinn 10. nóvember 2015 fyrir veitingahúsi í flokki I og hafi hafið framkvæmdir samkvæmt því. Hann hafi ekki getað verið í vissu um að fá leyfi fyrir veitingastað í flokki II vegna umsagnar skipulagsfulltrúa frá árinu 2014, enda hafi þar verið tekið fram að sækja yrði um byggingarleyfi sem yrði grenndarkynnt. Það að borgaryfirvöld samþykki að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknir feli ekki í sér að umsækjendur geti vænst þess að þær verði undir öllum kringumstæðum samþykktar. Þar sem aðalskipulag Reykjavíkur heimili ekki veitingastað í flokki II á umræddum stað hafi verið óheimilt að samþykkja byggingarleyfisumsóknina.

Niðurstaða: Fyrir liggur að á árinu 2014 beindi kærandi fyrirspurn til borgaryfirvalda um afstöðu þeirra til veitingareksturs í flokki II í húsinu að Ægissíðu 123. Var tekið jákvætt í fyrirspurnina en þó tekið fram að húsið væri staðsett í íbúðabyggð og að veitingastarfsemi þar takmarkaðist því við flokk I með opnunartíma til kl. 23:00 og án áfengisveitinga. Hvað varðaði veitingarekstur í flokki II var sá fyrirvari gerður að slíka umsókn þyrfti að grenndarkynna.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. apríl 2016, sem gerð var að lokinni grenndarkynningu umsóknar kæranda um rekstur veitingastaðar í flokki II, er vísað í svar við fyrrgreindri fyrirspurn kæranda frá árinu 2014. Er og tekið fram að húsið að Ægisíðu 123 sé á svæði sem samkvæmt aðalskipulagi sé með skilgreinda landnotkun sem íbúðabyggð og takmarkist því veitingastaður þar við flokk I samkvæmt lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Fjölbreyttari atvinnustarfsemi innan íbúðabyggðar sé aðeins heimiluð ef húsnæðið sé staðsett við aðalgötu eða innan skilgreinds nærþjónustukjarna. Ægisíða sé ekki skilgreind sem aðalgata í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og tilheyri ekki nærþjónustukjarna sem tilgreindir séu á myndum 15 og 16 á bls. 183 í aðalskipulaginu. Með vísan til þessa var umsókn kæranda hafnað.

Eins og áður greinir var sá fyrirvari gerður í svari við fyrirspurn kæranda um mögulegan veitingarekstur í flokki II að slíkt leyfi þyrfti að grenndarkynna. Við slíka kynningu geta komið fram athugasemdir sem áhrif geta haft á niðurstöðu máls. Gat kærandi því ekki gengið að því sem vísu að lyktir mála yrðu á þann veg að veitt yrði veitingaleyfi í flokki II á umræddum stað. Við veitingu byggingarleyfis er byggingarfulltrúi bundinn af gildandi skipulagi skv. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, en eins og fram kemur í áðurgreindri umsögn skipulagsfulltrúa standa skilmálar gildandi aðalskipulags því í vegi að veitt verði leyfi fyrir veitingastað í flokki II í húsi kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. apríl 2016 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir veitingastað í flokki II.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson