Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

67/2017 Fornubúðir

Árið 2018, fimmtudaginn 12. júlí kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. apríl 2017 um breytingu á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna lóðarinnar Fornubúða 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júní 2017, er barst nefndinni 20. s.m., kæra A og B, Suðurgötu 70, Hafnarfirði þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. apríl 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna lóðarinnar Fornubúða 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. maí 2018, er barst nefndinni 2. s.m., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 27. mars s.á. um að veita leyfi fyrir viðbyggingu að Fornubúðum 5. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður síðara kærumálið, sem er nr. 68/2018, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að kærunum. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðabæ 2. ágúst 2017 og 17. maí 2018.

Málavextir: Hinn 13. apríl 2016 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar lýsingu vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi Flensborgarhafnar. Lóðin Fornubúðir 5 er innan þess svæðis sem lýsingin tók til. Samkvæmt lýsingunni voru lágreistar byggingar sem féllu vel að aðliggjandi byggð meðal markmiða nýs skipulags. Málið var til umfjöllunar í nefndum bæjarins á árunum 2016 og 2017 án þess að tillaga að breyttu deiliskipulagi fyrir svæðið hafi verið lögð fram. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 23. ágúst 2016 var síðan lagt fram erindi frá lóðarhafa Fornubúða 5 þar sem kynnt voru áform um viðbyggingu við fasteign á lóðinni. Var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir lóðina á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 1. febrúar 2017. Sendu kærendur inn athugasemdir við tillöguna. Breyting á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna Fornubúða 5 var svo samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 27. apríl 2017. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. maí s.á. Breytingin felur í sér að heimilt er að reisa skrifstofu- og þjónustuhús á lóðinni, breyta hámarkshæð bygginga og húsagerð, stækka byggingarreit, auka nýtingarhlutfall lóðarinnar auk heimildar til að byggja bílakjallara. Umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Fornubúðum 5 var síðan samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. mars 2018.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst þegar hin kærða skipulagsákvörðun var tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þannig hafi nauðsynleg gögn ekki legið fyrir, þar sem skipulagslýsing fyrir Flensborgarhöfn hafi ekki verið meðal gagna málsins, auk þess sem ekki hafi verið gerðar nauðsynlegar athuganir á því hvaða áhrif aukið byggingarmagn og umfangsmeiri starfsemi myndu hafa á umferð á svæðinu. Þá telja kærendur að ekki hafi verið farið að ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 við meðferð málsins. Þannig hafi ekki verið tekin afstaða til allra athugasemda kærenda í samræmi við 3. mgr. 41. gr. laganna. Það að deiliskipuleggja einstakar lóðir sérstaklega sé almennt ekki í samræmi við skipulagslög, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna, auk þess sem skortur hafi verið á samráði við íbúa þar sem ákveðið hafi verið að hverfa frá því sem lagt hafi verið upp með í skipulagslýsingu fyrir svæðið. Einnig hafi tillaga að breyttu deiliskipulagi verið auglýst með vísan til 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga en hún hefði átt að vera auglýst með vísan til 1. mgr. 43. laganna. Jafnframt hafi tillagan tekið breytingum frá auglýsingu en bætt hafi verið við 8.000 m2 bílakjallara og nýtingarhlutfall fært úr 1,36 í 1,9. Því hafi borið að auglýsa tillöguna að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Deiliskipulagsbreytingin sé í ósamræmi við Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025 þar sem fyrirhuguð starfsemi á lóðinni sé ekki í samræmi við landnotkunarflokk aðalskipulagsins. Ríkisstofnanir falli undir landnotkunarflokkinn samfélagsþjónusta en samkvæmt aðalskipulaginu sé um að ræða hafnarsvæði en auk þess sé leyfilegt að staðsetja á hafnarsvæðinu verslanir og þjónustustarfsemi tengdri höfninni samkvæmt skilmálum fyrir Flensborgarhöfn, en ríkisstofnun falli ekki undir þann flokk. Einnig byggja kærendur á því að byggingin, sem deiliskipulagið heimilar að byggð verði, stingi í stúf við aðrar byggingar á svæðinu og nágrenni þess, en hún sé tvöfalt hærri en aðrar byggingar á svæðinu auk þess að vera í ósamræmi við byggðamynstur samkvæmt skipulagslýsingu fyrir Flensborgarhöfn. Þá skerði fyrirhuguð bygging útsýni frá fasteign kærenda og rýri verðmæti hennar. Byggingarmagn sé einnig allt of mikið miðað við umferðaræðar að og frá svæðinu og bílastæði í næsta nágrenni. Skipulagsbreytingin sé auk þess í miklu ósamræmi við gildandi skipulag og skipulagslýsingu. Kærendur taka fram að þeim hafi ekki orðið kunnugt um útgáfu byggingarleyfisins fyrr en fyrsta lagi 9. apríl 2018 og því hafi kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar ekki verið liðinn þegar kæran var send úrskurðarnefndinni.

Málsrök Hafnafjarðarbæjar:
Af hálfu bæjaryfirvalda er því hafnað að sú hugmyndavinna sem fram hafi farið vegna Flensborgarhafnar sé bindandi fyrir þær hugmyndir sem síðar komu fram um uppbyggingu að Fornubúðum 5. Um sé að ræða tvö aðskilin mál og því hafi skipulagslýsingin ekki þurft að liggja fyrir þegar breytt deiliskipulag vegna Fornubúða 5 hafi verið afgreitt. Þegar um sé að ræða breytingu á deiliskipulagi sé heimilt að taka einstakar lóðir út og deiliskipuleggja þær sérstaklega, sbr. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi ekki orðið breyting frá auglýstri tillögu að deiliskipulagi þótt tilkynning á heimasíðu Hafnafjarðarbæjar hafi gefið slíkt til kynna. Jafnframt er því hafnað að breytt deiliskipulag vegna Fornubúða 5 sé ekki í samræmi við Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025. Í því sambandi er vísað til þess sem segi í aðalskipulaginu varðandi svæðið Flensborgarhöfn (H2) en auk þess séu mörg fordæmi fyrir því að ríkisstofnanir eða fyrirtæki á vegum eða í eigu þess nýti mannvirki sem eru á lóðum sem samkvæmt landnotkunarflokki er annað en „samfélagsþjónusta“. Kærendur hafi ekki rökstutt þá fullyrðingu sína að hæð mannvirkja og byggingarmagn verði of mikið. Ljóst sé að umferð muni aukast um þær umferðaræðar sem liggi að núverandi hafnarsvæði en erfitt sé að fullyrða hver sú aukning verði. Þá sé ekki fallist á að útsýni sé lögvarið og því óljóst hverjir séu hinir lögvörðu hagsmunir kærenda í málinu.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna málsins en hann hefur ekki látið málið til sín taka fyrir nefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Hin kærða ákvörðun varðandi byggingarleyfið var tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. mars 2018. Kærendur hafa fært fyrir því rök að þeim hafi ekki orðið kunnugt um ákvörðunina fyrr en einhverjum dögum síðar, en þeim var ekki tilkynnt um veitingu leyfisins. Verður því við það að miða að upphaf kærufrests vegna samþykktar hins kærða byggingarleyfis hafi ekki verið fyrr en fyrstu dagana í apríl 2018 og var kærufrestur því ekki liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni 2. maí s.á. og verður málinu því ekki vísað frá af þeim sökum. Þá er ekki útilokað, með hliðsjón af staðháttum og hæð fyrirhugaðrar byggingar, sem heimiluð er með umdeildri skipulagsbreytingu, að hún muni hafa áhrif á útsýni frá fasteign kærenda. Teljast kærendur því eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna lóðarinnar Fornubúða 5 og samþykki byggingaráforma á grundvelli þeirrar breytingar, þar sem gert er ráð fyrir byggingu skrifstofu- og þjónustuhúss fyrir starfsemi Hafrannsóknarstofnunar. Hafrannsóknarstofnun er ríkisstofnun sem annast rannsóknir og ráðgjöf á sviði hafs og vatna, sbr. lög um Hafrannsóknarstofnun, rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna nr. 112/2015.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Lóðin Fornubúðir 5, sem umrædd deiliskipulagsbreyting tekur til, tilheyrir svæðinu Suðurhöfn og er staðsett á hafnarsvæði H1 samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025, en ekki á hafnarsvæði H2 þar sem verslunar- og þjónustustarfsemi er heimiluð auk hafnarstarfsemi. Í grein 6.2 skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 er að finna skilgreiningu á landnotkunarflokkum aðalskipulags. Þar er flokkurinn „hafnir (H)“ skilgreindur sem „Svæði fyrir hafnir og hafnarmannvirki þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjum og tækjum til móttöku skipa og báta, losunar og lestunnar þeirra.

Í gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar segir svo um hafnarsvæði: „Á hafnarsvæðum tengist landnotkun fyrst og fremst hafnsækinni starfsemi, s.s. mannvirkjum og tækjum til móttöku skipa og báta, lestunar og losunar þeirra, geymslu vöru, móttöku og afgreiðslu þessarar vöru, móttöku og brottfarar farþega, fiskvinnslu og starfsemi tengdri sjóflutningum og skipasmíði eða viðgerðum. Íbúðir eru ekki heimilar á hafnarsvæðum. Þó er í undantekningartilvikum unnt að gera ráð fyrir húsvarðaríbúðum. Hafnarsvæðin heyra undir stjórn hafnarstjórnar.“ Um Suðurhöfn segir sérstaklega: „Miðað er við að Suðurhöfn (H1) verði áfram megin fiskihöfn höfuðborgarsvæðisins, vöruflutningahöfn og miðstöð skipasmíða og viðhaldsþjónustu við skipaflotann. Megin markmið í skipulagi hafnarsvæðisins eru að skapa skilyrði og bestu aðstæður til öflugrar þróunar fyrir hafnsækna starfsemi og að skapa aðstöðu fyrir uppbyggingu skipaviðhaldsiðnaðar. Gera þarf ráð fyrir að hægt verði að taka á móti og þjónusta farþegaskip í Suðurhöfninni. Miklir þróunarmöguleikar eru í Suðurhöfn sem verður miðstöð útgerðar, vöruflutninga og skipaviðgerða. Suðurhöfnin hefur verið stækkuð með landfyllingu og útbúið stórt athafnasvæði og aðastaða fyrir útgerð, fiskmarkað og flutningafyrirtæki. Einnig er þar olíubryggja og olíugeymar, sem fjallað er um í áhættumati Höfuðborgarsvæðisins og í umhverfismati aðalskipulagsins. Með nýjum ákvæðum um hafnarvernd er sá hluti hafnarsvæðanna sem vöruflutningar fara um lokaður fyrir allri almennri umferð.“

Samkvæmt umræddri deiliskipulagsbreytingu er heimilt að reisa á fyrrgreindri lóð skrifstofu- og þjónustuhús og fram kemur í hinu kærða byggingarleyfi að húsnæðið sé ætlað undir starfsemi Hafrannsóknarstofnunar. Sú notkun getur ekki fallið undir landnotkunarflokk hafna eins og hann er skilgreindur í skipulagsreglugerð eða fyrrgreinda skilmála aðalskipulags. Í kafla skipulagsreglugerðar um landnotkun er gert ráð fyrir að þjónustustofnanir falli undir landnotkunarflokkinn samfélagsþjónusta (S) eða eftir atvikun miðsvæði (M) skv. grein 6.2 skipulagsreglugerðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur fyrir að hin kærða deiliskipulagsbreyting er hvorki í samræmi við landnotkunarflokk svæðisins samkvæmt skipulagsreglugerð né skilmála Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013-2025. Verður því ekki hjá því komist að ógilda deiliskipulagsbreytinguna með hliðsjón af kröfu 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi ekki stoð í gildandi deiliskipulagi svo sem áskilið er í 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og verður það því fellt úr gildi.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. apríl 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna Fornubúða 5 er felld úr gildi.

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 27. mars 2018 um að samþykkja umsókn um byggingu skrifstofu- og rannsóknarhúss fyrir starfsemi Hafrannsóknarstofnunar á lóð nr. 5 við Fornubúðir er felld úr gildi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson