Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

125/2017 Hornbrekkubót

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 13. desember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 125/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 13. september 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Hornbrekkubót, Ólafsfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimnes Hótel ehf., Bylgjubyggð 2, Ólafsfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 13. september 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Hornbrekkubót, Ólafsfirði, sem fól í sér breytta legu göngustígs á svæðinu. Er þess krafist að stígurinn verði ekki lagður á leigulandi kæranda. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjallabyggð 16. október 2017.

Málavextir: Kærandi gerði samning við Ólafsfjarðarbæ 19. júní 1998 um afnotarétt af landi þar sem m.a. var vísað til deiliskipulags sem unnið hefði verið af svæðinu, en 18. s.m. hafði verið lögð fram í bæjarstjórn Ólafsfjarðar tillaga að deiliskipulagi fyrir Hornbrekkubót. Tillagan hlaut hins vega aldrei samþykki bæjarstjórnar og tók því ekki gildi. Hinn 24. febrúar 2012 tók gildi deiliskipulag fyrir Hornbrekkubót, sem mun hafa verið byggt á skipulagstillögunni frá 1998. Á fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar 13. september 2017 var staðfest samþykki skipulags- og umhverfisnefndar frá 11. s.m. varðandi breytingu á því deiliskipulagi, að undangenginni grenndarkynningu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kærandi gerði athugasemdir við tillöguna og var þeim svarað af hálfu sveitarfélagsins. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 28. september 2017.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting felur í sér að legu göngustígs innan svæðisins var breytt frá áðurgildandi skipulagi þannig að hann var færður nær Ólafsfjarðarvegi, en skyldi þó vera í a.m.k. 3-4 m fjarlægð frá veginum. Jafnframt var sett kvöð um trjágróður vestan við stíginn. Þá var göngubrú og göngustígur að henni felldur út.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann reki hótel og átta sumarbústaði sem standi við Ólafsfjarðarvatn á landi sem hann hafi afnotarétt af samkvæmt samningi við sveitarfélagið frá árinu 1998, er gildi til ársins 2097. Hagsmunir kæranda séu þeir að landið verði látið sem næst ósnert og að gangandi umferð verði haldið sem lengst frá sumarbústöðunum. Truflun sé af gangandi umferð sem takmarka mætti með því að leggja göngustíginn fjær bústöðunum. Jafnframt komi staðsetning göngustígsins í veg fyrir mögulega nýtingu kæranda á lóðinni í framtíðinni. Eðlilegra væri að stígurinn lægi upp við Ólafsfjarðarveg þar sem ná mætti því markmiði að auðvelda gangandi umferð um svæðið. Skiptir lega hans og fjarlægð frá vegi engu þar um. Stjórnvöldum beri að gæta meðalhófs við ákvarðanatöku af þessu tagi og velja það úrræði sem tryggi markmið framkvæmda, þannig að sem skemmst sé gengið gegn hagsmunum annarra, s.s. afnotaréttarhafa. Göngustígurinn þurfi ekki að vera 3-4 m frá vegbrún til að öryggis gangandi umferðar sé gætt, en lítil umferð sé um Ólafsfjarðarveg og leyfður hámarkshraði á þessum stað 50 km/klst. Jafnframt sé hafnað þeirri afstöðu Fjallabyggðar að gangbraut við veginn muni hafa neikvæð áhrif á upplifun íbúa og gesta, auk þess sem slíkir hagsmunir séu léttvægir miðað við hagsmuni kæranda í málinu. Vegna einkaafnotasamningsins sé sveitarfélaginu, óháð deiliskipulagi, óheimilt að framkvæma á svæðinu án samþykkis kæranda. Núverandi skipulag byggi á eldri hugmyndum um frekari göngustíga um svæðið, m.a. vegna tengingar við brú og við bryggju sem á svæðinu sé, og því þurfi ekki að miða legu göngustígar við slíkar tengingar heldur aðeins að gangandi umferð komist um svæðið á malbikuðum göngustíg. Þá hafi ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 ekki verið fylgt við setningu áðurgildandi deiliskipulags varðandi samráð við hagsmunaaðila, sbr. 40. gr. laganna. Einnig sé það fásinna að halda því fram að sveitarfélagið sé að einhverju leyti bundið af meintum vilja forsvarsmanna kæranda þegar vilji þeirra til hins gagnstæða sé nú skýr.

Málsrök Fjallabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að það hafi vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélagsins samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Við beitingu þess valds beri sveitarfélaginu að fylgja markmiðum skipulagslaga auk þess að fylgja lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Þá verði ákvörðun að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Að þessu gættu hafi sveitastjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi framangreindum reglum verið fylgt í hvívetna. Hin kærða ákvörðun sé hvorki haldin form- né efnisgöllum. Þá geti málsmeðferð sveitarfélagsins við gerð áðurgildandi deiliskipulags ekki komið til skoðunar nú, rúmum fimm árum eftir gildistöku þess. Jafnframt hafni sveitarfélagið því að málsmeðferðin hafi á einhvern hátt farið gegn ákvæðum skipulagslaga.

Skipulagsvald sveitarfélagsins sé óháð eignarhaldi á landi eða samningum um óbein eignarréttindi. Sveitarfélaginu sé því heimilt að breyta skipulagi hins umrædda svæðis óháð umræddum afnotaréttarsamningi, auk þess sem ágreiningur um óbein eignarréttindi verði ekki leystur fyrir úrskurðarnefndinni. Jafnframt sé vísað til 2. gr. afnotasamningsins þar sem fram komi að kærandi áformi að vinna svæðið samkvæmt deiliskipulagi sem hafi verið unnið fyrir það. Hafi samþykkt tillögunnar, sem m.a. hafi gert ráð fyrir göngustíg á svæðinu, verið forsenda fyrir gerð samningsins af hálfu kæranda samkvæmt nefndri grein. Þá segi í 3. gr. samningsins að göngustígur samkvæmt skipulagi liggi um svæðið og að kæranda sé óheimilt með öllu að leggja nokkrar hömlur á gangandi umferð um stíginn. Loks komi fram í 7. gr. samningsins að sveitarfélagið kosti göngustíga og hljóðmanir sem gerðar verði á svæðinu. Því sé ljóst að sveitarfélagið sé ekki að brjóta umræddan afnotaréttarsamning með því að leggja göngustíg með þeim hætti sem fyrirhugað sé, enda hafi ávallt verið gert ráð fyrir stíg um svæðið.

Í raun sé verið að minnka grenndaráhrif stígsins gagnvart uppbyggingarsvæði kæranda með því að færa stíginn fjær byggingarlóðunum, fella niður brú og ákveða að tré skuli gróðursett milli stígsins og vatnsins. Sveitarfélagið telji sig því hvorki þurfa sérstaka heimild frá kæranda fyrir skipulagsbreytingunni né þeim framkvæmdum sem sveitarfélagið hyggist ráðast í á grundvelli þess. Þá sé í deiliskipulaginu ekki gert ráð fyrir fleiri bústöðum á svæðinu og því geti hugsanleg fjölgun þeirra engin áhrif haft. Hafnað sé málsástæðu kæranda varðandi skort á meðalhófi. Í tillögu að deiliskipulagi frá 1998 og áðurgildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir göngustígnum meðfram Ólafsfjarðarvatni að austanverðu. Með deiliskipulagsbreytingunni hafi umræddur göngustígur verið færður töluvert fjær bústöðum kæranda miðað við deiliskipulagið frá 2012. Staða kæranda sé því betri en fyrir umdeilda deiliskipulagsbreytingu. Göngustígnum sé ætlað að tengja saman þéttbýli og dreifbýli í Ólafsfirði og efla útivist, en umræddur göngustígur sé vinsæl gönguleið meðal íbúa. Markmiðið með stígnum myndi ekki nást ef fallist hefði verið á kröfu kæranda varðandi það að gera stíginn að gangstétt meðfram Ólafsfjarðarvegi, auk þess sem eðlismunur sé á göngustíg og gangstétt meðfram götu. Ákvörðun um staðsetningu göngustígsins sé byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Þá hafi sveitarfélagið lagt sig fram við að leita sátta við kæranda. Til að koma til móts við sjónarmið kæranda hafi upphaflegri tillögu verið breytt áður en hún hafi verið lögð fram í bæjarráði 11. júlí 2017. Hafi m.a. verið ákveðið að gróðursetja trjágróður vestan við göngustíginn til þess að sjónlína gangandi vegfarenda yrði ekki beint á sumarbústaði kæranda. Samkvæmt þessu sé ljóst að ekki sé gengið á hagsmuni kæranda með deiliskipulagsbreytingunni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi fyrir Hornbrekkubót, þar sem er gert ráð fyrir að göngustígur samkvæmt áðurgildandi deiliskipulagi sé færður nær Ólafsfjarðarvegi og trjágróður gróðursettur vestan við stíginn.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breyting rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga, og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með breytingunni.

Í 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er tekið fram að hlutverk nefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum á því sviði. Ágreiningur um bein eða óbein eignarréttindi og túlkun samninga í því sambandi, svo sem um lóðarleiguréttindi, verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni, enda á slíkur ágreiningur eftir atvikum undir dómstóla. Ekki verður því tekin afstaða til heimildar sveitarfélagsins til framkvæmda á deiliskipulagssvæðinu á grundvelli afnotaréttarsamnings sveitarfélagsins og kæranda í máli þessu.

Áðurgildandi deiliskipulag fyrir Hornbrekkubót tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 24. febrúar 2012. Þar sem kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar er löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sætir það deiliskipulag ekki endurskoðun í máli þessu.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með grenndarkynningu í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, afgreidd af skipulags- og umhverfisnefnd að kynningu lokinni og staðfest í bæjarstjórn lögum samkvæmt. Framkomnum athugasemdum var svarað og Skipulagsstofnun tilkynnt um deiliskipulagsbreytinguna. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 28. september 2017. Ekki verður séð að staða kæranda sé verri en að óbreyttu skipulagi í ljósi þess að umræddur göngustígur er færður fjær sumarhúsalóðum kæranda með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Með vísan til alls þess sem að framan er raki liggja ekki fyrir þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 13. september 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hornbrekkubótar, Ólafsfirði.

127 og 133/2018 Nýtingarleyfi jarðhita Reykjanesi, Ísafjarðardjúpi

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 6. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 127/2018, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 8. október 2018 um að veita leyfi til nýtingar á jarðhita í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, Súðavíkurhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. október 2018, er barst nefndinni 24. s.m., kærir Orkubú Vestfjarða þá ákvörðun Orkustofnunar frá 8. október 2018 að veita leyfi til nýtingar á jarðhita í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 9. nóvember 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Ísafjarðarbær fyrrgreinda ákvörðun Orkustofnunar. Gerð er sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hennar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður greint kærumál, sem er nr. 133/2018, sameinað máli þessu.

Verður nú tekin afstaða til framkominnar frestunarkröfu kærenda.

Málavextir:
 Með bréfi er barst Orkustofnun 8. maí 2018 sótti Ferðaþjónustan Reykjanesi, Rnes ehf., um leyfi til nýtingar á jarðvarma í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Var umsóknin kynnt 20. júní 2018 og leitað umsagna, m.a. frá Ísafjarðarbæ og Orkubúi Vestfjarða. Í umsögn Orkubús Vestfjarða, sem barst 8. ágúst s.á., er útgáfu leyfisins mótmælt þar sem orkubúið sé og hafi verið eigandi allra jarðhitaréttinda á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp frá stofnun þess 1977. Umsögn Ísafjarðarbæjar barst 13. september s.á. og lagðist sveitarfélagið gegn veitingu nýtingarleyfisins m.a. með vísan til óvissu um eignarhald á jarðhita svæðisins. Nýtingarleyfið var gefið út af Orkustofnun 8. október 2018.

Málsrök kærenda: Af hálfu Orkubús Vestfjarða er bent á að fullyrðing um að á svæðinu sé nægilegt vatn til sjálfrennslis til að standa undir fyrirhugaðri nýtingu sé röng. Það stuðli ekki að hagkvæmri nýtingu jarðhita í Reykjanesi að veita einstökum húseigendum nýtingarleyfi á umræddri jarðhitaauðlind, auðlind sem nú þegar sé virkjuð af Orkubúi Vestfjarða í þágu allra notenda á svæðinu. Þannig blasi við að nýtingarheimild til fleiri aðila á sömu auðlind muni skarast og valda ófyrirsjáanlegum erfiðleikum, ef ekki tjóni á auðlindinni sjálfri. Hið kærða leyfi heimili leyfishafa nýtingu á heitu vatni í þeim mæli og með þeim hætti að nýting þess geri Orkubúi Vestfjarða hugsanlega ómögulegt að standa við eigin skuldbindingar. Nýting leyfisins á grundvelli forsendna þess í leyfinu sjálfu og fylgibréfi Orkustofnunar með því sé til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á nýtingu kærandans á auðlindinni og síðast en ekki síst að skaða auðlindina sjálfa. Nýting hins kærða leyfis sé yfirvofandi.

Af hálfu Ísafjarðarbæjar kemur fram að talið sé nauðsynlegt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar í ljósi þess að nýting samkvæmt leyfinu sé yfirvofandi en kunni að hafa í för með sér ófyrirséðar afleiðingar, sbr. m.a. sjónarmið um óvissu varðandi mælingar.

Málsrök Orkustofnunar:  Orkustofnun bendir á að nái krafa kærenda fram að ganga, um að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað, muni það að líkindum hafa í för með sér umtalsvert tjón fyrir leyfishafa, ferðaþjónustu hans, lagnakerfi hótels og húsa o.fl. Yrði honum óheimilt að nýta þann jarðhita til húshitunar sem hin kærða ákvörðun taki til, m.a. að nýta jarðhita úr hver við og undir aðalbyggingu hótelsins. Krafa kærenda sé úr samhengi við allt sem kallast geti meðalhóf og eigi sér enga lagastoð, svo ekki sé dýpra tekið í árinni. Frestun réttaráhrifa, komi til þess, sé ekki til þess fallin að firra kærendur tjóni á nokkurn hátt, svo séð verði, né geti skert hagsmuni þeirra.

Bent sé að krafa um stöðvun framkvæmda, með þeim rökum að yfirvofandi nýting kunni að hafa í för með sér ófyrirséðar afleiðingar, m.a. að því er varði óvissu varðandi mælingar, lýsi vanþekkingu á aðstæðum og efni hinnar kærðu ákvörðunar. Um sé að ræða staðfestingu á jarðhitanýtingu sem hafi verið í Reykjanesi síðan 1934 og hafi engar ófyrirséðar afleiðingar, m.a. að því er varði óvissu varðandi mælingar eftir rúmlega átta áratuga jarðhitanýtingu þar. Slík krafa sé auðvitað fráleit.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að fráleitt sé að halda því fram að skilyrði séu til að fresta réttaráhrifum vegna þess að framkvæmdir séu hafnar eða yfirvofandi, enda verði því úrræði fyrst og fremst beitt til þess að koma í veg fyrir tjón eða óafturkræfar framkvæmdir. Allt frá því að leyfishafi hafi keypt fasteignir sínar í Reykjanesi árið 2003 og til aprílmánaðar 2018 hafi hann nýtt það heita vatn sem leyfisbréfið lúti að með þeim búnaði sem fyrir hendi hafi verið. Í aprílmánuði hafi hins vegar orðið sú breyting á að í fullkomnu heimildarleysi hafi Orkubú Vestfjarða gripið til þess ráðs að rjúfa tengingu leyfishafa. Þær framkvæmdir sem vísað sé til af hálfu framangreinds kæranda felist einfaldlega í því að koma á sömu nýtingu og hafi verið fyrir hendi í vel á annan áratug.

Tilvísanir kærandans þess efnis að nýtingarleyfið geri honum hugsanlega ómögulegt að standa við skuldbindingar sínar verði vart skildar öðruvísi en svo að til þess sé vísað að kærandinn geti ekki afhent öðrum ætluðum notendum heitt vatn, en kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þeirri staðhæfingu sinni. Í því sambandi skuli áréttað að í fyrsta lagi eigi kærandi ekki jarðhitaréttindi á svæðinu og reki þar ekki neina hitaveitu. Í öðru lagi sé eina hitaveitan sem um sé að tefla sú sem tilheyri leyfishafa beinlínis og lúti að fasteignum hans og sé hann eini notandinn. Í þriðja lagi bendi leyfishafi á þá staðreynd að nýtingarheimildir samkvæmt leyfisbréfinu miðist við sömu notkun og hafi tíðkast um áratugaskeið, þ.e. 9,01 l/s meðalnýtingu á ársgrundvelli og 12,00 l/s hámarksnýtingu.

Leyfishafi leggi að öðru leyti áherslu á að ef réttaráhrifum yrði frestað myndi það leiða til frekara tjóns en þegar hafi orðið. Í því sambandi vísist til þess að hitakerfið í Reykjanesi tengist mikið innbyrðis og allar breytingar á einum stað hafi áhrif á annan. Ef lokað sé fyrir eða rennsli minnkað úr borholu aukist þrýstingur úr sprungum sem séu víða á þessu svæði og margar við eða undir fasteignum. Ef lokað sé fyrir borholu lengur en sólarhring leiði það til þess að upp komi heitt vatn víða í kjöllurum fasteigna leyfishafa, sem eins og gefi að skilja valdi ómældu tjóni.

Frá því að kærandi hafi rofið flæði á heitu vatni til leyfishafa í aprílmánuði 2018 hafi hann þurft að ráðast í aðgerðir til þess að safna heitu vatni undan og frá húsum ferðaþjónustu sinnar á tank og dæla því inn á kerfi sín. Slíkt hafi með naumindum dugað til kyndingar fasteigna heitari mánuði ársins, en leyfishafi hafi ekki getað nýtt sundlaug sína neitt af þessum sökum. Af því hafi þegar hlotist tjón, enda sé hún eitt aðalaðdráttarafl svæðisins. Ef réttaráhrifum nýtingarleyfis verði frestað þar til úrskurður liggi fyrir megi reikna með að verulegt tjón hljótist á bæði fasteignum og sundlaug þar sem vetur sé genginn í garð og lítill tími til stefnu. Auk þess sé fyrirsjáanlegt að rekstrartjón leyfishafa aukist til muna verði á kröfuna fallist.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hennar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi, þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa undantekning frá nefndri meginreglu, sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga sé tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Einnig að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um ákvörðun Orkustofnunar um að veita leyfi til nýtingar jarðhita í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Jarðhitanýting á jörðinni Reykjanesi hefur átt sér stað í áratugi og hefur vatni verið veitt til leyfishafa um nokkurt skeið úr umþrættri borholu, en lokað var fyrir flæði á heitu vatni til leyfishafa í apríl 2018. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að hefjist vatnstaka að nýju samkvæmt hinu kærða leyfi muni hún hafa þau áhrif á auðlindina að hætta sé á slíku óafturkræfu tjóni fyrir kærendur að kæra yrði þýðingarlaus yrði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Hins vegar myndi slík frestun hafa í för með sér tjón fyrir leyfishafa. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og efnis hins kærða nýtingarleyfis verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa þess á meðan á meðferð málsins stendur fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa samkvæmt hinni kærðu ákvörðun er hafnað.

72/2018 Veltusund

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 6. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2018, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 25. apríl 2018 um að staðfesta neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa á fyrirspurn. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. maí 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Balance ehf., eigandi fasteignarinnar Veltusunds 3b, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 25. apríl 2018 að staðfesta neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa á fyrirspurn um „leiðréttingu á skilmálum um banni á skammtímaleigu í Veltusundi 3B.“ Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. júní 2018.

Málavextir: Hinn 3. janúar 2018 sendi kærandi inn erindi með yfirskriftinni „Fyrirspurn til skipulagsfulltrúa“. Í stuttri lýsingu á erindinu sagði m.a.: „Fyrirspurn um leiðréttingu á skilmálum um banni á skammtímaleigu í Veltusundi 3B.“ Með bréfi, dags. 22. janúar 2018, var kæranda tilkynnt um að á fundi skipulagsfulltrúa 19. s.m. hefði hann tekið neikvætt í fyrirspurnina þar sem hún samræmdist ekki skipulagi. Vísaði skipulagsfulltrúi til umsagnar sinnar frá 17. s.m. Í umsögninni sem fylgdi nefndu bréfi kom fram að lögð væri fram fyrirspurn um breytingu á skilmálum deiliskipulags Kvosarinnar vegna lóðarinnar nr. 3b við Veltusund. Í niðurstöðu umsagnarinnar segir að neikvætt sé tekið í að heimila gististað í flokki II að Veltusundi 3b þar sem starfsemin sé ekki í samræmi við landnotkun í aðalskipulagi og  gildandi deiliskipulag.

Með bréfi, dags. 22. mars s.á., fór kærandi fram á að umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur myndi endurskoða ákvörðun skipulagsfulltrúa. Í bréfinu sagði að fordæmi væru fyrir því að deiliskipulagi hefði verið breytt vegna rekstrarlegra forsendna þar sem rekstur annarrar starfsemi hefði verið talinn óhagstæður í tilteknu húsnæði. Var óskað eftir að umhverfis- og skipulagsráð myndi veita kæranda leyfi fyrir breyttri notkun húsnæðisins til samræmis við fyrri loforð starfsmanna í gegnum árin. Á fundi sínum 25. apríl s.á. staðfesti umhverfis- og skipulagsráð afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 19. janúar s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að upphaf málsins megi rekja til fyrirspurnar frá 30. apríl 2007 um breytt deiliskipulag tiltekinna lóða, m.a. lóðar nr. 3b við Veltusund, þar sem áætlað hefði verið að reka gistiþjónustu í húsinu. Í svari skipulagsfulltrúa borgarinnar frá 29. maí s.á. hafi jákvæð umsögn verið veitt nema hvað varðaði hækkun húsanna og umfang framkvæmda. Viðurkennt sé í stjórnsýslurétti að yfirlýsingar starfsmanna stjórnsýslunnar geti leitt til þess að hjá borgurunum skapist málefnalegar væntingar, sem stjórnvöldum geti eftir atvikum verið skylt að taka tillit til við meðferð mála. Kallist þetta meginreglan um réttmætar væntingar. Kærandi hafi haft huglægar væntingar vegna jákvæðrar umsagnar borgarinnar um að rekin yrði gistiþjónusta í húsinu. Hann hafi verið í góðri trú um að athafnir og yfirlýsingar starfsmanna borgarinnar væru bindandi, enda hafi úrbótum á húsnæðinu verið hrint í framkvæmd eftir tilmælum frá starfsmönnum skipulagsyfirvalda. Telja verði eðlilegt og réttmætt eftir hlutlægum mælikvarða að kærandi hafi bundið traust við framangreindar athafnir og yfirlýsingar starfsmanna borgarinnar.

Líta verði til staðsetningar og gerðar fasteignarinnar, en hún takmarki verulega notkun hennar. Húsnæðið hafi verið skipulagt sem íbúðarhúsnæði með fimm litlum stúdíóíbúðum á tveimur efri hæðum. Eftirspurn eftir svo smáum leigurýmum til langtímaleigu sé hverfandi. Ekki sé raunhæft út frá rekstrarlegum forsendum að setja íbúðirnar í langtímaleigu, líkt og deiliskipulagið geri nú ráð fyrir. Þá mæli samkeppnissjónarmið með því að honum verði heimilað að reka gistiþjónustu á efri hæðum hússins. Hann hafi mikla hagsmuni af því að nýta húsnæðið, líkt og staðið hafi til frá árinu 2007, enda hafi hann lagt í gríðarlegar fjárfestingar vegna verkefnisins.

Skilyrði séu fyrir hendi til þess að kæranda verði heimilaður rekstur gistiþjónustu á tveimur efri hæðum hússins að Veltusundi 3b. Fyrir því séu fordæmi að deiliskipulagi hafi verið breytt vegna rekstrarlegra forsendna þar sem rekstur annarrar starfsemi hafi verið talin óhagstæður í tilteknu húsnæði.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, þar sem ekki sé um stjórnvaldsákvörðun að ræða, en ella að kröfum kæranda verði hafnað. Ekki sé búið að taka stjórnvaldsákvörðun í máli því sem hafi byrjað með erindi kæranda, dags. 3. janúar 2018. Með tölvubréfi 28. apríl s.á. hafi kæranda einungis verið kynnt niðurstaða í málinu hjá umhverfis- og skipulagssviði vegna fyrirspurnar, en ekki verið tekin formleg stjórnsýsluákvörðun.

Athugasemdir kæranda vegna frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar: Kærandi bendir á að með stjórnvaldsákvörðun sé almennt vísað til þess þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds. Í málinu hafi Reykjavíkurborg tekið einhliða ákvörðun um réttindi kæranda til þess að mega nýta eign sína með tilteknum hætti.

Með bréfi kæranda, dags. 22. mars 2018, hafi þess beinlínis verið óskað með skýlausu orðalagi að umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur veitti kæranda leyfi fyrir breyttri notkun hússins að Veltusundi 3b. Þess hafi beinlínis verið krafist að tekin yrði stjórnvaldsákvörðun í málinu. Umhverfis- og skipulagsráð hafi afgreitt erindið með því að staðfesta fyrri afgreiðslu, eins og það sé orðað í fundargerð ráðsins frá 25. apríl s.á. Með því hafi erindinu verið synjað, enda hafi ekki verið fallist á beiðni kæranda um að fá leyfi fyrir breyttri notkun húsnæðisins.

Því sé mótmælt að erindi kæranda frá 22. mars 2018 hafi verið fyrirspurn. Efni bréfsins sé skýrt og skorinort. Vísun til fyrirspurnar kæranda frá 3. janúar s.á. breyti þar engu um. Þegar kærandi hafi leitað til borgarinnar í janúar þá hafi hann ekki notið liðsinnis lögmanns og því hafi starfsmönnum borgarinnar borið að veita honum leiðbeiningar um hvernig hann gæti leitað réttar síns innan stjórnsýslu borgarinnar. Verði borgin að bera hallann af því að leiðbeiningar hafi ekki verið betri en svo að kærandi hafi ekki fengið efnislega meðferð á erindi sínu. Þá verði einnig að líta til efnis erindis en ekki heitis. Þótt erindið kunni að hafa fengið heitið fyrirspurn þá hafi það falið í sér beiðni um breytta notkun fyrir húsnæði sem myndi heimila kæranda að reka þar gististað. Neikvæð umsögn skipulagsfulltrúa hafi falið í sér synjun á erindinu efnislega. Erindi hans til skipulagsfulltrúa hafi þó engin áhrif á erindi hans til umhverfis- og skipulagsráðs, enda fari ráðið með fullnaðarafgreiðslu erinda á skipulagssviði borgarinnar.

Líta verði til verkefna og hlutverks umhverfis- og skipulagsráðs, en ráðið starfi eftir umboði borgarinnar í samræmi við 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2011. Ákvæðið heimili sveitarstjórn að fela skipulagsnefnd fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum. Þá segi í samþykktum umhverfis- og skipulagsráðs að ráðið taki ákvarðanir um mál er varði verksvið þess og hafi eftirlit með því að samþykktum og stefnumörkum þess sé fylgt. Af þessu sé ljóst að umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar annist fullnaðarafgreiðslu mála á þessu sviði fyrir Reykjavíkurborg og taki ákvarðanir um réttindi og skyldu aðila í skjóli þess stjórnsýsluvalds.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Reykjavíkurborgar frá 25. apríl 2018 þar sem staðfest var af umhverfis- og skipulagsráði neikvætt svar skipulagsfulltrúa við fyrirspurn um „leiðréttingu á skilmálum um banni á skammtímaleigu í Veltusundi 3B.“ Kom það svar til vegna erindis sem beint var til skipulagsfulltrúa sem fyrirspurn í gegnum vefsvæði Reykjavíkurborgar. Bókun skipulagsfulltrúa og umsögn hans bera þess enda merki að um afgreiðslu á fyrirspurn væri að ræða. Í erindi kæranda til umhverfis- og skipulagsráðs 22. mars s.á. var beðið um „endurskoðun/upptöku umsóknar“ og þar m.a. vísað til þess að fordæmi væru fyrir því að deiliskipulagi hefði verið breytt. Var þess og óskað að umhverfis- og skipulagsráð endurskoðaði málið og veitti kæranda leyfi fyrir breyttri notkun húsnæðis þess sem um ræðir. Af tilvitnuðu orðalagi og yfirskrift erindisins verður ekki annað séð en að kærandi hafi öðrum þræði óskað eftir endurskoðun á fyrra erindi sínu, sem hann hafi jafnframt litið á sem umsókn sem hann óskaði efnislegrar afgreiðslu á. Kom enda fram í hinu nýrra erindi kæranda að málið varðaði synjun á breytingu skilmála deiliskipulags Kvosarinnar vegna fasteignar hans. Afgreiddi umhverfis- og skipulagsráð erindi kæranda með þeim hætti að staðfest var fyrri afgreiðsla skipulagsfulltrúa frá 19. janúar 2018.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega umsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Sama á við um synjun á endurupptöku á afgreiðslu fyrirspurnar. Er því ljóst að sú ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur að staðfesta neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa vegna fyrirspurnar kæranda fól ekki í sér lokaákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli. Verður kærumáli þessu að því leytinu til vísað frá úrskurðarnefndinni.

Þrátt fyrir að erindi kæranda frá 3. janúar 2018 hafi verið í formi fyrirspurnar ber beiðni hans um endurupptöku frá 22. mars s.á. með sér að gerð var sjálfstæð krafa um að breytt yrði skilmálum deiliskipulags. Var rík ástæða fyrir Reykjavíkurborg til að beina málinu í þann farveg með hliðsjón af því sem fram kemur í 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að landeigandi eða framkvæmdaraðili geti óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að skipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Þótt ekki hafi verið vísað til þess að beiðnin væri lögð fram á grundvelli 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga er til þess að líta að á stjórnvöldum hvílir rík leiðbeiningarskylda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, og að þar sem eingöngu var um skilmálabreytingu að ræða stóð skortur á fullnaðargögnum vart efnislegri afgreiðslu í vegi. Hefði borgaryfirvöldum, með vísan til 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga, að lágmarki borið að ganga úr skugga um hvort skilja bæri erindi kæranda sem beiðni um endurupptöku á afgreiðslu á fyrirspurn eða umsókn og leiðbeina þar um, enda gaf orðalag erindisins tilefni til þess. Ljóst er að ekki liggur fyrir lokaákvörðun hvað varðar þann hluta erindis kæranda sem líta verður á sem umsókn um breytingu á deiliskipulagi, enda hefur henni hvorki verið synjað né hún samþykkt. Af því verður kærandi þó ekki látinn bera halla. Verður að svo komnu að líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Með hliðsjón af því að borgaryfirvöld telja að málinu sé lokið af sinni hálfu og að ríflega hálft ár er frá því að kæra barst úrskurðarnefndinni verður lagt fyrir skipulagsyfirvöld í Reykjavík að taka þann hluta erindis kæranda frá 22. mars 2018 sem laut að skilmálabreytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar til efnislegrar meðferðar án frekari tafa.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. apríl 2018, um að staðfesta neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa á fyrirspurn, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Lagt er fyrir skipulagsyfirvöld í Reykjavík að taka umsókn kæranda frá 22. mars 2018, um breytingu á skilmálum deiliskipulags Kvosarinnar vegna lóðar nr. 3b við Veltusund, til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

43/2018 Rannsóknarleyfi Hvalárvirkjun

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 6. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2018, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 31. janúar 2017 um að framlengja rannsóknarleyfi vegna áætlana um Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, Árneshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir einn eigenda jarðarinnar Seljaness á Ströndum, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 31. janúar 2017 að framlengja rannsóknarleyfi vegna áætlana um Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, Árneshreppi. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 10. apríl 2018.

Málavextir: Hinn 31. janúar 2015 sótti VesturVerk ehf. um leyfi til Orkustofnunar til rannsóknar á svæðum í Ófeigsfirði og á Ófeigsfjarðarheiði. Í umsókninni kom fram að markmiðið væri að rannsaka hagkvæmni þess að nýta rennsli Hvalár og Rjúkanda í einu þrepi úr Hvalárvatni og allt að því niður að sjávarmáli við Ófeigsfjörð í Árneshreppi. Leyfi var veitt 30. mars s.á. í samræmi við III. kafla laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, með vísan til 40. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Kom fram að gildistími leyfisins væri frá 31. mars 2015 til 31. mars 2017.

Með bréfi, dags. 26. janúar 2017, óskaði leyfishafi eftir framlengingu greinds rannsóknarleyfis til tveggja ára. Í bréfinu kom fram að öllum fyrirhuguðum rannsóknum væri lokið nema kjarnaborun í jarðgangaleiðir og staðfestingu magns jökulruðnings með greftri könnunarhola. Þær rannsóknir hafi leyfishafi ekki talið forsvaranlegar vegna kostnaðar fyrr en afstaða Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu virkjunar lægi fyrir, sem og ákvörðun Landsnets og Orkustofnunar um afhendingarstað raforku í Ísafjarðardjúpi. Einnig var tekið fram að til þess að koma jarðbor til rannsókna á Ófeigsfjarðarheiði þyrfti m.a. að lagfæra vegi í Ingólfsfirði og Ófeigsfirði. Með bréfi, dags. 31. janúar 2017, féllst Orkustofnun á að framlengja rannsóknarleyfið frá 31. mars 2017 til 31. mars 2019.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að vegur sem notaður verði til að flytja vinnuvélar og búnað á rannsóknarsvæði liggi með strandlengjunni í Ingólfsfirði, fyrir Seljanes innan við 100 m frá sumarhúsi á jörð kæranda og rúmum 200 m frá íbúðarhúsum. Frá Seljanesi sé útsýni til Hvaláróss og yfir á Ófeigsfjarðarheiði. Eigi kærandi því mikilla hagsmuna að gæta af leyfi því sem honum hafi nýlega orðið ljóst að Orkustofnun hafi veitt til mikils rasks upp frá Hvalárósum og um Ófeigsfjarðaheiði alla. Vegna hinna heimiluðu rannsókna þurfi að flytja tæki og búnað og líklega vinnubúðir á staðinn og til baka. Við það bætist og efnisflutningar tengdir þessum rannsóknarframkvæmdum. Verði farið um land kæranda í því skyni. Kæranda hafi ekki verið kunnugt um að rannsóknarleyfi hafi verið veitt fyrr en hann hafi fengið vitneskju um að á heimasíðu leyfishafa í mars 2018 hefði birst sú frétt að kæru Landverndar vegna sama leyfis hefði verið vísað frá úrskurðarnefndinni.

Málsrök Orkustofnunar: Orkustofnun tekur fram að hin kærða ákvörðun hafi verið birt á vefsíðu stofnunarinnar í desember 2015 og í lok janúar 2017, auk þess sem umrætt leyfi hafi verið í opinberri umræðu í fleiri misseri. Kæranda hafi því mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrir margt löngu. Kæra málshefjanda sé dagsett 12. mars 2018 og móttekin hjá úrskurðarnefndinni þann sama dag. Kærufrestur sé því liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að skv. 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi, þ.e. kæruaðild sé byggð á svokallaðri „hagsmunareglu“. Tíðum kunni þó að vera vandasamt að ákvarða hvorum megin hryggjar álitaefni um aðild falli. Þegar um sé að ræða grenndarrétt hafi almennt verið litið til þess hvort hagnýtingarmöguleikar kæranda á eign hans skerðist með einhverri breytingu sem leiði af hinni kærðu ákvörðun. Því fjær sem kærandinn búi frá þeim stað þar sem einhver mannvirkjagerð sé fyrirhuguð, því minni líkur séu á að viðkomandi verði talinn eiga einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni sem veiti honum kæruaðild á grundvelli grenndarréttar.

Þær rannsóknir sem leyfi hafi verið veitt fyrir kalli á lítilsháttar aðstöðusköpun og hafi því í deiliskipulagstillögum verið gert ráð fyrir reit fyrir vinnubúðir. Vinnubúðirnar muni verða í ca. 4 km fjarlægð í beinni loftlínu frá Seljanesi. Þar í milli sé að finna aðra byggð þannig að hvorki sé um ósnortið land né víðerni að ræða. Þótt kærandi geti hugsanlega séð til granna sinna í vinnubúðunum í norðri frá hlaðinu í Seljanesi og telji það skerða útsýni sitt þá takmarki það í engu nýtingarmöguleika Seljanesjarðarinnar og varði í engu hina kærðu ákvörðun, sem snúist eingöngu um tímabundna framlengingu rannsóknarheimildar.

Fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar verði ekki á landi kæranda og snerti hvorki vatnasvið jarðarinnar Seljaness né Dranga og skerði í engu hagnýtingarmöguleika eigenda þessara jarða. Þá sé og rétt að geta þess til skýringar að beinn og óbeinn eignarhluti kæranda í nefndum jörðum virðist samkvæmt skráðum heimildum vera innan við 10% í hvorri jörð fyrir sig og að sameigendur hans, sem fari þá með meira en 90% hagsmuni í hvorri jörð fyrir sig, hafi ekki mótmælt fyrirhuguðum framkvæmdum.

Til að komast frá Ingólfsfirði í Ófeigsfjörð sé farið m.a. yfir land Seljaness. Þar sé hins vegar farið eftir þjóðvegi F649, Ófeigsfjarðarvegi, sem liggi þannig samkvæmt þjóðvegaskrá Vegagerðarinnar: „Af Strandavegi hjá Melum í Árneshreppi, um Eyri í Ingólfsfirði, fyrir Ingólfsfjörð, um Seljanes, að Hvalá í Ófeigsfirði“. Vegagerðin sé veghaldari á þessum vegi í skilningi vegalaga nr. 80/2007 og hafi þannig forræði yfir vegi og vegsvæði og annist vegagerð, þjónustu og viðhald vega. Samkvæmt 46. gr. vegalaga sé öllum frjáls för um slíka vegi, nema sérstakar takmarkanir séu settar á umferð, oftast þá vegna veðurs eða náttúruatburða. Eigendur þeirra jarða sem vegir liggi um geti hins vegar ekki ráðið hverjir fari um þá.

Niðurstaða: Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var við hina kærðu framlengingu rannsóknarleyfis einungis ólokið rannsóknum sem lutu að kjarnaborun í jarðgangaleiðir og staðfestingu magns jökulruðnings með greftri könnunarhola. Til þess að koma jarðbor til þessara rannsókna á Ófeigsfjarðarheiði lá fyrir að lagfæra þyrfti vegi í Ingólfsfirði og Ófeigsfirði. Rannsóknir þær sem um ræðir eru ekki fyrirhugaðar í landi kæranda, en um land það sem hann á að hluta liggur vegur að rannsóknarsvæðinu. Heldur kærandi því fram að hann verði fyrir ónæði við flutning vinnuvéla og búnaðar um veginn. Við mat á því hvort kærandi eigi hagsmuna að gæta vegna þessa verður að líta til þess að nefndur vegur, F649, er landsvegur samkvæmt Aðalskipulagi Árneshrepps 2005-2025. Telst hann því til þjóðvega, sbr. d-lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna eru þjóðvegir þeir vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar, haldið er við af fé ríkisins og upp eru taldir í vegaskrá. Vegagerðin er veghaldari þjóðvega skv. 13. gr. vegalaga og er landeiganda skylt að láta af hendi land sem þarf til þjóðvegagerðar og hvers kyns veghalds, sbr. 37. gr. laganna. Rannsóknarleyfið var gefið út snemma árs 2015 og það framlengt með hinni kærðu ákvörðun í janúar 2017. Samkvæmt útgefnum umferðartölum Vegagerðarinnar var árdagsumferð um veginn, þ.e. sá fjöldi bifreiða sem að jafnaði fara þar um á hverjum degi, á bilinu sex til átta frá árinu 2010 til 2017. Vetrardagsumferð hefur haldist óbreytt á þessu tímabili en sumardagsumferð aukist nokkuð, en hún var 12-14 bílar árin 2010-2015 og 17 árin 2016-2017. Á sama tímabili hefur orðið mikil aukning ferðamanna á landinu. Þrátt fyrir að um fáfarinn veg sé að ræða og um hann verði flutt tæki og búnaður til þeirra rannsókna sem enn er ólokið er það álit úrskurðarnefndarinnar að öllu virtu að það tímabundna ónæði sem af því hljótist snerti ekki einstaklega og lögvarða hagsmuni kæranda í þeim mæli að hann geti átt aðild að kæru vegna hins umdeilda rannsóknarleyfis.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kæruaðild kæranda hvorki byggð á eignarréttarlegum grunni né grenndarhagsmunum og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

29/2017 Sprengisandslína

Með

29/2017 Sprengisandslína

Árið 2018, fimmtudaginn 6. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri

Fyrir var tekið mál nr. 29/2017, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. febrúar 2017 um að umhverfisáhrif Sprengisandslínu skuli ekki metin sameiginlega með Blöndulínu 3, línu milli Hólasands og Kröflu, Hólasandslínu, Kröflulínu 3 og línu milli Brennimels og Blöndu.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. febrúar 2017 að umhverfisáhrif Sprengisandslínu skuli ekki metin sameiginlega með Blöndulínu 3, línu milli Hólasands og Kröflu, Hólasandslínu 3, Kröflulínu 3 og línu milli Brennimels og Blöndu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að ákveða að framkvæmdin Sprengisandslína skuli metin sameiginlega með nefndum fimm framkvæmdum. Til vara er þess krafist að lagt verði fyrir stofnunina að ákveða að framkvæmdin Sprengisandslína skuli metin sameiginlega með Blöndulínu 3, Hólasandslínu 3, línu frá Hólasandi að Kröflu og Kröflulínu 3. Hið allra minnsta verði ákveðið að sameiginlegt umhverfismat fari fram á Sprengisandslínu og Blöndulínu 3 og Hólasandslínu 3.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 19. apríl 2017.

Málavextir: Haustið 2015 barst Skipulagsstofnun tillaga Landsnets að matsáætlun vegna Sprengisandslínu. Var tillagan lögð fram til opinberrar kynningar með athugasemdafresti til og með 17. nóvember s.á. Athugasemdir bárust m.a. frá kæranda þar sem lýst var þeirri afstöðu að taka þyrfti ákvörðun um sameiginlegt mat Sprengisandslínu með öðrum tilgreindum raflínuframkvæmdum, áður en Skipulagsstofnun afgreiddi matsáætlun Sprengisandslínu, en í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd sé fyrirhuguð á sama svæði eða framkvæmdir séu háðar hver annarri geti Skipulagsstofnun, að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur, ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega.

Með bréfi, dags. 4. desember 2015, óskaði Skipulagsstofnun eftir afstöðu viðkomandi leyfisveitenda til sameiginlegs mats samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, en þeir leyfisveitendur voru Orkustofnun, Ásahreppur, Akrahreppur, Fljótsdalshreppur, Hörgársveit, Fljótsdalshérað, Sveitarfélagið Skagafjörður, Skútustaðahreppur, Húnavatnshreppur, Akureyri, Þingeyjarsveit og Rangárþing ytra. Samhliða því var óskað eftir afstöðu Landsnets sem framkvæmdaraðila.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar lá fyrir 3. febrúar 2017 og var hún þess efnis að Sprengisandslína skyldi ekki fara í sameiginlegt umhverfismat skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 með Blöndulínu 3, línu milli Hólasands og Kröflu, Hólasandslínu, Kröflulínu 3 og línu milli Brennimels og Blöndu. Kom fram í hinni kærðu ákvörðun að kærufrestur vegna hennar væri til 9. mars 2017 og barst kæra málsins úrskurðarnefndinni þann sama dag.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að í athugasemdum hans til Skipulagsstofnunar við tillögu að matsáætlun vegna Sprengisandslínu, dags. 23. nóvember 2015, hafi verið ítarlega rökstutt hvers vegna hann telji lagaskilyrði vera til þess að beita 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum að því er varði mat á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu og valkost A („T-lausn“ – norður Sprengisand og frá Blöndu í Fljótsdal) og C (hálendislína og vesturvængur – lína norður Sprengisand og úr Bárðardal í Fljótsdal annarsvegar og svo Brennimelur – Blanda hinsvegar). Hafi kærandi bent á að Landsnet hafi frá upphafi og með skýrum hætti gengið út frá því að Sprengisandslína sé hluti af uppbyggingu raforkuflutningskerfisins verði af þessum valkostum. Vísi kærandi að þessu leyti einnig til umsagnar tilgreinds lögmanns, dags. 17. nóvember 2015, er komið hafi fram við sömu málsmeðferð, en þar segi m.a. að samkvæmt gögnum Landsnets séu framkvæmdirnar allar liður í styrkingu sameiginlegs meginflutningskerfis og séu þannig ekki sjálfstæðar framkvæmdir í þeim skilningi að ein þeirra, eða þær hver fyrir sig, verki sjálfstætt til flutnings raforku frá virkjun til notanda.

Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 72/2012, frá 31. mars 2015, er fjallað hafi um ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. júní 2014, hafi hliðstæð atvik að hluta verið til umfjöllunar. Í því máli hafi nefndin talið að hvorki hefði verið um að ræða framkvæmdir á sama svæði né að þær hefðu verið hvor annarri háðar. Því hafi ekki verið fyrir hendi lagaskilyrði til að mæla fyrir um sameiginlegt mat þeirra skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000. Ágreiningur í því máli hafi snúist um það hvort meta hafi átt umhverfisáhrif hringtengingar um Ísland með Blöndulínu 3. Í þessu máli snúist ágreiningurinn ekki um það hvort framkvæmdirnar séu á sama svæði eða háðar hvor annarri. Ekki sé raunar heldur um ágreining að ræða milli tveggja aðila, í þeim skilningi sem leggja verði í forsendur úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 72/2012, heldur sé hér öllu fremur um það að ræða að niðurstaða stjórnvaldsins hafi ekki byggt á réttum efnislegum forsendum og sé því háð svo alvarlegum annmörkum að ógildingu varði. Telji kærandi þannig forsendur ákvörðunar stjórnvaldsins ekki standast og að ákvörðunin sé því röng og verulegum annmörkum háð í skilningi laga nr. 106/2000 og einnig í skilningi stjórnsýsluréttar.

Sú forsenda Skipulagsstofnunar að undirbúningur Hólasandslínu 3 hafi ekki verið kominn á það stig að geta talist fyrirhuguð framkvæmd í skilningi 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 standist ekki þar sem mat á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar hafi verið hafið í skilningi laganna þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Sú forsenda stofnunarinnar að mati á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3 væri lokið og hún því ekki fyrirhuguð fái heldur ekki staðist. Annmarkar þessir séu svo alvarlegir að ekki verði hjá því komist að að ógilda ákvörðunina í heild.

Um undirbúning Hólasandslínu 3 og Kröflulínu 3 sé vísað til opinberra gagna frá Landsneti. Mat á umhverfisáhrifum sé skammt á veg komið í báðum tilvikum. Hvað varði fyrrgreindu framkvæmdina hafi drög að tillögu að matsáætlun verið kynnt og frestur til athugasemda runnið út í lok janúar 2017. Málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum hennar hafi því hafist þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin, þrátt fyrir fullyrðingu um hið gagnstæða í ákvörðuninni, sem niðurstaða Skipulagsstofnunar hafi síðan verið byggð á. Fráleit sé sú niðurstaða að Hólasandslína 3 sé ekki fyrirhuguð framkvæmd í skilningi umrædds lagaákvæðis. Síðarnefnda framkvæmdin, Kröflulína 3, sé einnig á upphafsstigum í ferlinu, þótt hún hafi verið það í mun lengri tíma en hin fyrrnefnda. Hins vegar hafi ekkert efnislega komið fram síðan úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn 7. maí 2015 um ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun 13. ágúst 2013 í máli nr. 91/2013. Hér liggi því fyrir ákvörðun um matsáætlun í skilningi laga nr. 106/2000 og sé málsmeðferðin því komin einu skrefi lengra en málsmeðferð vegna Hólasandslínu 3. Engu skipti þótt Skipulagsstofnun hafi tekið ákvörðun um matsáætlun og langt sé um liðið síðan það hafi verið gert. Málið sé enn statt þar sem það hafi verið 13. ágúst 2013 með tilliti til málsmeðferðar.

Varðandi mat á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3 sé ljóst að þrátt fyrir að Skipulagsstofnun hafi talið að álit hennar á matsskýrslu frá janúar 2013 stæðist lög sé umhverfis- og auðlindaráðuneytið því ekki sammála. Hafi ráðuneytið beint þeim tilmælum til Skipulagsstofnunar með bréfi, dags. 26. maí 2016, að hún endurskoðaði fyrri ákvarðanir sínar þar sem ekki hafi farið fram mat á efnistöku og ekki hafi verið metinn sá kostur að leggja jarðstreng á þeirri línuleið. Í millitíðinni hafi Landsnet lagt fram drög að nýrri kerfisáætlun þar sem þessi framkvæmd sé ekki lengur á framkvæmdaáætlun. Því ætti ekki að vera neitt óhagræði af því að meta þá þætti, sem út af standi varðandi Blöndulínu 3, með Sprengisandslínu og öðrum tengdum framkvæmdum er mál þetta varði.

Bent sé á að í upphaflegum lögum nr. 106/2000 hafi ákvæði það sem á reyni í þessu máli ekki haft að geyma heimild til að meta umhverfisáhrif fleiri en einnar framkvæmdar sameiginlega nema þegar þær væru á sama svæði. Þannig hafi með frumvarpi því er samþykkt hafi verið af Alþingi í maí 2000 verið vísað til þess að hér hafi getað verið um að ræða framkvæmdir ólíkra aðila á sama stað, t.d. verkmiðju, höfn og veitur. Með lögum nr. 74/2005 hafi lögunum verið breytt og við það tækifæri hafi gildissvið ákvæðisins verið víkkað út og það látið ná til framkvæmda sem ekki væru á sama svæði. Í athugasemdum með breytingafrumvarpinu sagði: „Í tillögunni felst að ekki sé nauðsynlegt að framkvæmdir séu á sama svæði til að Skipulagsstofnun geti ákveðið að umhverfisáhrif séu metin sameiginlega. Það geti einnig átt við að framkvæmdir séu háðar hver annarri en ekki að þær séu nauðsynlega landfræðilega tengdar. Framkvæmd er háð annarri framkvæmd ef um það er að ræða að ekki verði af framkvæmdinni nema til komi önnur framkvæmd henni tengd og að um sé að ræða sammögnunaráhrif þessara framkvæmda. Með þessu verða umhverfisáhrif framkvæmdanna metin saman sem á að gefa skýrara mynd af því hver heildarumhverfisáhrif eru af framkvæmdunum.“

Tilgangur ákvæðisins sé þannig að fá fram skýra mynd af heildarumhverfisáhrifum og áherslu á sammögnunaráhrifum þeirra, sem sé mikilvægur þáttur í umhverfismati framkvæmda. Með því að meta einungis búta af styrkingum sem fyrirhugaðar séu á meginflutningskerfinu, ekki síst þeim línum sem kærandi hafi í sameiginlegri umsögn sinni með öðrum félagasamtökum, dags. 23. nóvember 2015, talið að þyrfti að meta saman, verði ekki betur séð en unnið sé gegn markmiðum laganna. Auk þess verði ekki séð að neitt óhagræði sé af slíku sameiginlegu mati, þar sem um sé að ræða línulagnir í byggð þar sem málsmeðferð sé rétt að hefjast (Hólasandslína 3 og Kröflulína 3) eða þar sem málsmeðferð sé enn ólokið en hafi legið niðri um langa hríð (Blöndulína 3). Verulegu máli skipti að fjallað sé um umhverfisáhrif þessara tengdu framkvæmda saman svo skýr mynd fáist af heildaráhrifum þeirra í skilningi 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000.

Í drögum að kerfisáætlun Landsnets sé sérstaklega vikið að því að framkvæmdir sem tilheyri svokölluðu meginflutningskerfi fyrirtækisins séu háðar hvor annarri. Þannig sé vikið að því í drögunum að það fari eftir því hve langur jarðstrengur sé settur á þeirri leið þar sem Blöndulína 3 sé fyrirhuguð hversu langan slíkan sé unnt að setja á þeirri leið þar sem Hólasandslína 2 sé fyrirhuguð. Á sama hátt sé í áætluninni fjallað um mismunandi áhrif þess að settur yrði niður jarðstrengur á þeirri leið sem Sprengisandslína þar sé fyrirhuguð. Á bls. 70-71 í kafla. 4.4.2. í drögunum Hálendislína og nýbygging Fljótsdalur-Blanda segi: „Vakin er athygli á því að full nýting á jarðstrengsmöguleikum einnar línuleiðar í valkostinum, hefur bein áhrif á mögulega heildalengd jarðstrengja á annarri línuleið. Tafla 4-28 sýnir vegalengdir sem er tæknilega mögulegt að leggja sem jarðstreng. Eins og sjá má á athugasemdum í töflunni eru vegalengdirnar innbyrðis tengdar og háðar ýmsum skilyrðum. Það er því ekki raunhæft að leggja saman vegalengdir sem gefnar eru upp í töflunni og fá þannig út heildarlengd mögulegra jarðstrengskafla í valkostinum. Mikilvægt er einnig að hafa í huga að eftir því sem meira af 220 kV flutningskerfinu er lagt í jörðu, takmarkar það hversu langa kafla af 132 kV kerfinu er hægt að leggja sem jarðstrengi. Því hærra sem hlutfall loftlína er í 220 kV kerfinu skapast þeim mun meiri möguleikar til að leggja lengri jarðstrengskafla í 132 kV kerfinu heldur en er tæknilega mögulegt í 220 kV kerfinu. Fjallað er nánar um útfærslu á hverri línuleið fyrir sig í framkvæmdarmati viðkomandi verkefnis.“ Samsvarandi texta sé að finna á bls. 73. í kafla 4.4.3 sem beri heitið Hálendislína með 50 km jarðstreng og nýbygging Fljótsdalur-Blanda: „Tafla 4-30 sýnir tæknilega mögulegar vegalengdir sem hægt er að leggja sem jarðstreng. Þegar 50 km jarðstrengur er lagður yfir hálendið styttast þær vegalengdir sem hægt er að leggja í jörð á hinum þremur leggjum byggðalínunnar.“ Af þessari umfjöllun og annarri hliðstæðri um þessar tengdu framkvæmdir telji kærandi alveg ljóst að fyrirtækið sem hyggi á þessar línulagnir telji þær vera svo háðar hvor annarri að ákvörðun verði ekki tekin um eina þeirra án þess að það hafi áhrif á hinar framkvæmdirnar. Ekki sé óvarlegt að álykta að framkvæmdirnar séu háðar hver annarri í skilningi 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000. Ekki sé unnt að skilja ákvæðið á annan hátt enda slíkt í ósamræmi við tilgang umhverfismats og fjölda dóma Evrópudómstólsins um að ekki megi skýra þröngt ákvæði tilskipana sem lög nr. 106/2000 séu sett til innleiðingar á. Sýnist því ljóst að hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar sé af þessum sökum háð svo miklum annmörkum að óhjákvæmilegt sé að ógilda hana.

Ekki sé tekið undir að Skipulagstofnun hafi ekki heimild til að taka ákvörðun um að sameiginlegt umhverfismat fari fram hafi hún áður tekið ákvörðun um matsáætlun. Tilvitnaðir úrskurðir umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í hinni kærðu ákvörðun hafi ekki neitt fordæmisgildi í máli þessu, enda um kærumálsmeðferð að ræða sem ekki uppfylli ákvæði 9. gr. Árósasamningsins og tilskipunar 2011/92/ESB. Kærandi taki undir umsagnir Fljótsdalshrepps og Skútustaðahrepps um að nauðsyn sé á sameiginlegu umhverfismati og fallist jafnframt á þau sjónarmið sem vísað sé til í umsögn Akureyrarbæjar að til bóta sé að ákvörðun liggi fyrir um að fara í framkvæmd þegar lagt sé mat á hvort þær séu háðar hver annarri og hafi í för með sér sammögnunaráhrif. Kærandi sé hins vegar ekki sammála sjónarmiðum um að mat á umhverfisáhrifum megi ekki tefja fyrir framkvæmdum, enda sé matið framkvæmt í samræmi við lögbundna málsmeðferð og alveg í ákveðnum tilgangi.

Kærandi taki fram, vegna athugasemdar í lok hinnar kærðu ákvörðunar, að umhverfismat áætlana byggi á öðrum lagalegum grunni en umhverfismat framkvæmda og lúti öðrum reglum. Hvorugt komi í stað hins, svo sem margdæmt hafi verið af Evrópudómstólnum. Ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 sé sjálfstæð heimild til sameiginlegs umhverfismats tengdra framkvæmda, óháð ákvæðum laga um umhverfismat áætlana, og komi ekki í stað slíks mats á neinn hátt.

Mat á umhverfisáhrifum hefjist með framlagningu tillögu að matsáætlun, eða eftir atvikum matsskyldufyrirspurn, og ljúki með ákvörðun um veitingu leyfis. Það sé þannig rangt í hinni kærðu ákvörðun að mati á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3 hafi lokið með áliti stofnunarinnar 29. janúar 2013, þar sem mati á umhverfisáhrifum ljúki aldrei fyrr en ákvörðun hafi verið tekin um hvort leyfi verði veitt fyrir framkvæmd. Þetta sé í samræmi við dómaframkvæmd vegna tilskipunar 2011/92/ESB, sem lög nr. 106/2000 innleiði, og hafi verið áréttað í skilgreiningu á mati á umhverfisáhrifum í breytingatilskipun, 2014/52/ESB, sem hafi verið hluti af EES-samningnum frá 2015.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er á það bent að eins og lög um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála séu úr garði gerð hafi úrskurðarnefndin ekki valdheimild til að leggja fyrir Skipulagsstofnun að taka tilteknar ákvarðanir. Nefndin hafi hins vegar heimild til að staðfesta ákvarðanir stofnunarinnar og fella þær úr gildi. Með þetta í huga geti úrskurðarnefndin ekki fallist á kröfugerð Landverndar um að nefndin leggi fyrir Skipulagsstofnun að taka umbeðnar ákvarðanir.

Málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum Hólasandslínu 3 hafi ekki verið formlega hafin þegar Skipulagsstofnun hafi tekið hina kærðu ákvörðun. Í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum sé hvergi minnst á drög að tillögu að matsáætlun. Í þessum réttarheimildum sé ekki kveðið á um að Skipulagsstofnun skuli fara yfir drög að slíkri tillögu. Í 16. gr. reglugerðarinnar sé ákvæði um kynningu og samráð við gerð tillögu að matsáætlun. Í greininni komi fram að framkvæmdaraðili leiti samráðs eins snemma og kostur sé. Framkvæmdaraðila beri að kynna umsagnaraðilum og almenningi tillögu að matsáætlun. Framkvæmdaraðili skuli kynna tillöguna með auglýsingu sem vísi á veraldarvefinn og gefi almenningi kost á að lágmarki tveimur vikum til að koma á framfæri athugasemdum við tillöguna. Framkvæmdaraðili geti auk þess kynnt tillöguna á almennum kynningarfundi eða í opnu húsi.

Ekki sé hægt að líta svo á að málsmeðferð umhverfismats hefjist með drögum að tillögu að matsáætlun heldur hefjist hún þegar framkvæmdaraðili sendi endanlega tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 og 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Málsmeðferð teljist með öðrum orðum vera hafin þegar tillaga sem uppfylli skilyrði laganna og reglugerðarinnar berist stofnuninni.

Vakin sé athygli úrskurðarnefndarinnar á því að hinn 16. mars 2017 hafi verið kynnt frummatsskýrsla fyrir Kröflulínu 3 á heimasíðu Skipulagsstofnunar. Á vefsíðunni hafi jafnframt verið tilgreint að niðurstöður skýrslunnar yrðu kynntar á opnum húsum í Skútustaðahreppi, Egilstöðum og í Reykjavík í apríl s.á. Þá ítreki Skipulagsstofnun þau sjónarmið sem fram komi í úrskurði umhverfisráðuneytisins frá 28. janúar 2010 að ákvörðun um sameiginlegt mat þurfi að liggja fyrir áður en ákvörðun sé tekin um matsáætlun þeirrar framkvæmdar sem til umfjöllunar sé hverju sinni.

Tekið sé fram að með úrskurði 26. maí 2016 hafi umhverfis- og auðlindaráðuneytið vísað frá kæru er lotið hafi að ákvörðun Skipulagsstofnunar um að hafna kröfu um að stofnunin myndi afturkalla og/eða endurskoða ákvörðun sína um að taka frummatsskýrslu Landsnets um Blöndulínu 3 til athugunar. Þá hafi stofnunin jafnframt hafnað kröfu um að hún endurskoðaði álit sitt um matsskýrslu Landsnets um Blöndulínu 3. Samhliða og samdægurs uppkvaðningu úrskurðarins hafi ráðuneytið sent bréf til stofnunarinnar þar sem það beini þeim tilmælum til hennar að fjalla á nýjan leik um tiltekna annmarka á málsmeðferð vegna mats á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3 með tilliti til þeirra sjónarmiða sem rakin séu í bréfinu og í kjölfarið taka nýja ákvörðun um hugsanlega endurskoðun stofnunarinnar á áliti um mat á umhverfisáhrifum vegna línunnar og málsmeðferðinni vegna matsins, þ.e. vegna annmarka á frummatsskýrslu. Skipulagsstofnun leggi áherslu á að umrætt bréf ráðuneytisins feli í sér tilmæli en ekki fyrirmæli. Með tilmælum sé átt við beiðni eða að mælst sé til einhvers. Tilmæli séu ekki lagalega skuldbindandi. Með þetta í huga sé Skipulagsstofnun ekki skylt að lögum að verða við tilmælum ráðuneytisins. Stofnunin hafi þó ritað ráðuneytinu bréf, dags. 16. júní 2016, en ekki enn fengið svar við því.

Ekki verði fallist á þá fullyrðingu að mati á umhverfisáhrifum ljúki með ákvörðun um veitingu leyfis. Þessi fullyrðing sé ekki byggð á traustum eða haldbærum lagarökum. Eins og umgjörð mats á umhverfisáhrifum sé háttað í núgildandi matslögum sé ljóst að umhverfismatsferlið og leyfisveitingaferlið séu ekki sami hluturinn. Í því sambandi megi t.d. nefna ákvæði III til bráðabirgða við matslögin, en þar segi m.a. að við endurskoðun laganna skuli sérstaklega kanna hvort ástæða sé til að sameina og samræma mat, sbr. 11.-13. gr., við leyfisveitingar fyrir einstökum framkvæmdum. Þetta ákvæði gefi til kynna að löggjafinn hafi litið svo á, þegar matslögin hafi verið samþykkt á árinu 2000, að mat á umhverfisáhrifum sé ekki hluti af leyfisveitingaferlinu. Sé þessi afstaða löggjafans óbreytt í dag. Í þessu sambandi megi benda á að í athugasemdum við ákvæði III til bráðabirgða í frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 106/2000 hafi m.a. komið fram að: „Samkvæmt íslenskum lögum er úrskurður um mat á umhverfisáhrifum sérstakt ferli og ótengt löggjöf um leyfisveitingar fyrir einstakar framkvæmdir, svo sem lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, þar sem kveðið er á um starfsleyfi fyrir mengandi starfsemi. Við útgáfu leyfa er hins vegar skv. 13. gr. gildandi laga, sbr. 16. gr. frumvarpsins, gert ráð fyrir að leyfisveitandi skuli taka tillit til úrskurðarins við útgáfu leyfis. Eftir því sem best er vitað er Ísland eina landið á EES-svæðinu sem skilur á milli mats á umhverfisáhrifum og útgáfu framkvæmda með þessum hætti. Annars staðar á Norðurlöndunum er um eitt ferli að ræða sem endar með útgáfu framkvæmdaleyfis/starfsleyfis og er þar lögð áhersla á aðkomu almennings í upphafi málsmeðferðar.“

Mat á umhverfisáhrifum sé undanfari leyfisveitinga, enda sé fyrrnefnda ferlið stjórntæki sem hafi þann tilgang að tryggja að viðkomandi leyfisveitandi sé eins vel upplýstur og mögulegt sé um áhrif og afleiðingar viðkomandi framkvæmdar í hverju tilviki fyrir sig og hafi jafnframt upplýsingar um þær mótvægisaðgerðir sem mögulegar séu. Þetta þýði að tilgangur matsins sé að tryggja upplýsta ákvarðanatöku hjá leyfisveitandanum. Vegna tilvísunar kæranda til tilskipunar 2014/52/ESB sé rétt að benda á að ekki sé búið að innleiða tilskipunina í íslenskan landsrétt. Starfshópur sé að störfum sem hafi það hlutverk að semja frumvarp um breytingar á matslögunum sem byggist á umræddri tilskipun. Með þetta í huga sé ekki hægt að byggja á tilskipuninni, eins og kærandi geri.

Hafnað sé þeirri fullyrðingu kæranda að tilvitnaðir úrskurðir í hinni kærðu ákvörðun hafi ekki fordæmisgildi. Á þeim tíma sem úrskurðirnir hafi verið kveðnir upp hafi verið hægt að kæra ákvarðanir Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum til umhverfisráðuneytisins. Þetta hafi verið fyrirkomulag sem löggjafinn hafi komið á. Þótt þessu fyrirkomulagi hafi verið breytt á þann hátt að ákvarðanir Skipulagsstofnunar séu nú kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, til að koma til móts við Árósasamninginn og umrædda tilskipun, sé ekki hægt að líta svo á að eldri úrskurðaframkvæmd hafi enga þýðingu. Hafi enda þeim sjónarmiðum sem fram komi í umræddum úrskurðum ráðuneytisins ekki verið hafnað af Hæstarétti, umboðsmanni Alþingis eða úrskurðarnefndinni.

Með hinni kærðu ákvörðun hafi Skipulagsstofnun ekki tekið afstöðu til þess hvort efnisleg skilyrði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 hafi verið uppfyllt, enda hafi ekki verið ekki tilefni til þess, eins og efni ákvörðunarinnar beri með sér. Sé því ekki tilefni til að svara þeirri fullyrðingu kæranda að umræddar framkvæmdir séu háðar hver annarri.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er gerð athugasemd við kröfugerð í kæru að því leyti að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi að lögum ekki heimild til að leggja fyrir Skipulagsstofnun að ákveða að framkvæmdin Sprengisandslína skuli metin sameiginlega með öðrum framkvæmdum.

Þeim staðhæfingum kæranda að ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi ekki verið byggð á efnislegum forsendum sé mótmælt. Þegar Skipulagsstofnun hafi tekið hina kærðu ákvörðun hafi legið fyrir álit stofnunarinnar vegna Blöndulínu 3 og línu milli Hólasands og Kröflu. Þá hafi einnig legið fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun vegna Kröflulínu 3. Í ljósi úrskurðar umhverfisráðuneytis frá 1. febrúar 2010, í máli 09110008, um að staðfesta ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skyldi fara fram sameiginlegt mat Suðvesturlína og annarra framkvæmda, hafi verið rétt sú niðurstaða stofnunarinnar að ekki hafi verið forsendur til að beita heimild 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum til að láta áðurnefndar framkvæmdir sæta sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum með Sprengisandslínu. Þá hafi einnig verið rétt sú niðurstaða Skipulagsstofnunar að undirbúningur Hólasandslínu 3 og línu milli Brennimels og Blöndu hefði verið svo skammt á veg kominn að ekki væri unnt að líta svo á að framkvæmdirnar teldust fyrirhugaðar í skilningi laga nr. 106/2000. Þá hafi kærendur ekki sýnt fram á að ákvörðunin hafi verið haldin öðrum annmörkum. Skipulagsstofnun hafi virt þær málsmeðferðar- og efnisreglur sem hafi gilt um ákvörðunina og því beri að hafna kröfum kæranda.

Verði hins vegar litið svo á að einhverjir annmarkar séu á ákvörðun Skipulagsstofnunar verði að líta svo á að þeir séu svo óverulegir að þeir geti ekki réttlætt ógildingu hennar. Í því sambandi verði að hafa í huga að ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 feli eingöngu í sér heimildarákvæði. Þá verði og að líta til þess að eingöngu sé mögulegt að beita heimildinni þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd sé fyrirhuguð á sama svæði eða framkvæmdirnar séu háðar hver annarri. Fyrir liggi að umræddar framkvæmdir hafi ekki sama áhrifasvæði, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 72/2012. Þá séu framkvæmdirnar ekki háðar Sprengisandslínu, þar sem þær séu hluti af bæði hálendisleið og byggðaleið við framtíðarstyrkingu flutningskerfisins, eins og fram komi í langtímaáætlun kerfisáætlunar. Mótmæli Landsnet sérstaklega þeim ályktunum kæranda að út frá umfjöllun í kerfisáætlun um hámarkslengd jarðstrengsmöguleika verði ráðið að Landsnet telji framkvæmdirnar háðar hver annarri. Afar langsótt sé að halda því fram að framkvæmdir teljist háðar hver annarri í skilningi 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 á grundvelli þess að einhverra raffræðilegra áhrifa gæti á milli framkvæmda. Af lestri langtímaáætlunar kerfisáætlunar megi þvert á móti vera ljóst að Sprengisandslína sé lögð fram sem einn af valkostum við framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku og aðrar framkvæmdir séu engan veginn háðar því að af Sprengisandslínu verði.

Langt sé um liðið frá því að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin og hafi engin frekari skref verið tekin varðandi mat á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu. Á þessari stundu liggi ekki fyrir hvert framhald verkefnisins verði. Hins vegar hafi undirbúningur annarra framkvæmda haldið áfram og nú liggi fyrir álit Skipulagsstofnunar frá 6. desember 2017 um mat á umhverfisáhrifum Kröflulínu 3 og ákvörðun stofnunarinnar frá 5. janúar 2018 um matsáætlun vegna Hólasandslínu 3, auk þess sem frummatsskýrsla vegna þeirrar framkvæmdar sé tilbúin. Af þessu megi ljóst vera að ógilding ákvörðunar Skipulagsstofnunar hafi engan tilgang þar sem ekki séu fyrir hendi skilyrði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 til að láta Sprengisandslínu sæta sameiginlegu mati með umræddum framkvæmdum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. febrúar 2017 um að umhverfisáhrif Sprengisandslínu skuli ekki metin sameiginlega með fimm öðrum rafmagnslínum, þ.e. Blöndulínu 3, línu milli Hólasands og Kröflu, Hólasandslínu, Kröflulínu 3 og línu milli Brennimels og Blöndu.

Kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna ágreinings um framkvæmd laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er að finna í 14. gr. laganna. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk hennar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Tekur nefndin því aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en það fellur utan valdheimilda nefndarinnar að leggja það fyrir Skipulagsstofnun að ákveða að meta skuli sameiginlega umhverfisáhrif Sprengisandslínu með öðrum framkvæmdum skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 getur Skipulagsstofnun, að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur, ákveðið að umhverfisáhrif skuli metin sameiginlega, þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd eru fyrirhugaðar á sama svæði eða framkvæmdirnar eru háðar hver annarri. Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að því verður ekki beitt nema að uppfylltum öllum þeim skilyrðum sem þar eru talin, þ.e. að um sé að ræða fleiri en eina matsskyld framkvæmd, að umræddar framkvæmdir séu fyrirhugaðar á sama svæði eða séu háðar hver annarri og að ákveðið samráð hafi farið fram. Ákvörðun um beitingu þessa ákvæðis er háð mati Skipulagsstofnunar hverju sinni, en hagsmunaaðilum er ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja stofnunina til beitingar heimildarinnar. Er enda tekið fram í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 106/2000 að varðandi stærri framkvæmdir geti verið um að ræða nokkrar matsskyldar framkvæmdir sem séu háðar hver annarri og að æskilegt geti verið að kynna og fjalla um þessar framkvæmdir samtímis. Þótt beiting heimildarinnar sé þannig háð mati stofnunarinnar hverju sinni um það hvort æskilegt sé að sameiginlegt mat fari fram þarf ákvörðun til samþykkis eða synjunar þess að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki heimildinni.

Greinir kæranda og Skipulagsstofnun m.a. á um það hvort þær línuframkvæmdir er kærandi hélt fram að nauðsynlegt væri að meta umhverfisáhrif á sameiginlega með Sprengisandslínu hafi verið fyrirhugaðar í skilningi laga nr. 106/2000, en Skipulagstofnun féllst á með framkvæmdaraðila að svo væri ekki hvað varðaði Blöndulínu 3, Kröflulínur 4 og 5 (milli Hólasands og Kröflu), línu milli Akureyrar og Hólasands (nú Hólasandslínu 3), sem og línu milli Brennimels og Blöndu. Vísaði stofnunin m.a. í forsendum sínum til úrskurðar umhverfisráðuneytisins frá 28. janúar 2010, sbr. og úrskurð ráðuneytisins frá 3. apríl 2008. Dró stofnunin jafnframt þá ályktun af úrskurðarframkvæmd ráðuneytisins að ekki væri unnt að fara fram á sameiginlegt mat Sprengisandslínu með Kröflulínu 3 þar sem ákvörðun um matsáætlun síðarnefndu línunnar hefði verið tekin 9. ágúst 2013.

Samkvæmt e-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 106/2000 telst framkvæmd vera fyrirhuguð ef hún er komin á það stig að hún geti hlotið málsmeðferð skv. IV. kafla laganna. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að breytingarlögum nr. 138/2014 segir um þessa skilgreiningu að talin hafi verið þörf á að skýra hugtakið „fyrirhuguð framkvæmd“ sem fjallað sé um í 2. mgr. 5. gr. laganna og því hafi verið lagt til að hugtakið yrði skýrt sem framkvæmd sem komin væri á það stig að hún gæti hlotið málsmeðferð skv. IV. kafla laganna. Í úrskurði umhverfisráðherra frá 28. janúar 2010, málsnúmer 09110008, er hafi varðað ákvörðun Skipulagsstofnunar um sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína, hefði komið fram að framkvæmd gæti ekki talist „fyrirhuguð“ skv. 2. mgr. 5. gr. laganna nema hún væri komin á það stig að hún gæti hlotið málsmeðferð skv. IV. kafla laganna. Ekki hafi því verið talið nægjanlegt að framkvæmdin væri bara á hugmyndastigi.

Í IV. kafla laga nr. 106/2000 er fjallað um málsmeðferð vegna matsskyldra framkvæmda. Uppbygging kaflans miðast við tímaröð málsmeðferðarinnar og er þar fyrst tilgreind matsáætlun, sbr. 8. gr., síðan frummatsskýrsla, sbr. 9. gr., athugun Skipulagsstofnunar og matsskýrsla, sbr. 10. gr., álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 11. gr., endurskoðun matsskýrslu, sbr. 12. gr., og loks leyfi til framkvæmda og málskot, sbr. 13. og 14. gr. laganna. Kemur nánar fram í 1. mgr. 8. gr. að framkvæmdaraðili skuli gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur sé. Verður ekki önnur ályktun dregin af orðalagi þessu, uppbyggingu kaflans, sem og þeim orðum að framkvæmd teljist fyrirhuguð þegar hún „geti hlotið málsmeðferð skv. IV. kafla“, sbr. e-lið 3. gr. laganna, en að málsmeðferð hefjist þegar framkvæmdaraðili komi tillögu sinni á framfæri við Skipulagsstofnun. Er það í samræmi við það forræði sem viðurkennt hefur verið að framkvæmdaraðili hafi á framkvæmd sinni, sem og það að hann beri ákveðna ábyrgð á mati á umhverfisáhrifum hennar, sbr. ráðagerð þar um í d-, h- og j-liðum 3. gr. nefndra laga. Að áliti úrskurðarnefndarinnar felst jafnframt í því að framkvæmd „geti hlotið málsmeðferð skv. IV. kafla“ að framkvæmd hafi ekki þegar hlotið málsmeðferð samkvæmt þeim kafla eða að hún sé hafin. Hefur þá verið tekið mið af því að matsáætlun er grundvöllur þess að mati á umhverfisáhrifum verði fram haldið, enda skal frummatsskýrsla vera að gerð og efni í samræmi við matsáætlun. Mat á umhverfisáhrifum er tímafrekt og dýrt og er því markaður ákveðinn farvegur í upphafi sem framkvæmdaraðili má búast við að haldist óbreyttur nema samráð við hann leiði til annars. Þótt ákveðin heildarsýn yfir framkvæmdir náist með sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum þá verður ekki talið að markmiðum laga nr. 106/2000 verði einungis náð með því að slíkt mat fari fram, enda er í mati á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda gert ráð fyrir að í frummatsskýrslu skuli m.a. tilgreina uppsöfnuð og samvirk áhrif framkvæmdar á umhverfið, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3 lá fyrir 29. janúar 2013 og 24. nóvember 2010 lá fyrir álit stofnunarinnar vegna Kröflulínu 4 og 5. Þá féllst stofnunin með athugasemdum á matsáætlun vegna Kröflulínu 3 hinn 9. ágúst 2013. Liggur og ekkert fyrir í málinu um að lína milli Brennimels og Blöndu hafi komist á það stig að haft hafi verið samráð við Skipulagsstofnun vegna gerðar tillögu að matsáætlun. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að telja að ákvörðun stofnunarinnar frá 3. febrúar 2017, um að ekki yrði um þær línur fjallað sameiginlega með Sprengisandslínu í mati á umhverfisáhrifum, hafi verið studd viðhlítandi rökum.

Skipulagsstofnun tilkynnti á heimasíðu sinni 2. nóvember 2015 að stofnuninni hefði borist tillaga Landsnets að matsáætlun vegna Sprengisandslínu. Var veittur frestur til að gera athugasemdir við tillöguna til 17. s.m. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu bárust stofnuninni athugasemdir þess efnis að sameiginlegt mat framkvæmda þyrfti að fara fram. Því synjaði stofnunin 3. febrúar 2017. Í 2. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum segir að framkvæmdaraðila beri að hafa samráð við Skipulagsstofnun við gerð tillögu að matsáætlun. Á heimasíðu framkvæmdaraðila birtist tilkynning 2. janúar 2017 um að unnið væri að tillögu að matsáætlun vegna Hólasandslínu 3 og var tillagan birt með ósk um athugasemdir og ábendingar sem berast skyldu á tímabilinu 4. til 25. janúar s.á. Var Hólasandslína 3 á þessu stigi orðin meira en hugmynd þótt hún hafi ekki verið orðin tæk til málsmeðferðar skv. IV. kafla laga nr. 106/2000. Í ljósi áðurnefnds reglugerðarákvæðis verður að telja líklegt að Skipulagsstofnun hafi haft vitneskju um framkvæmdina og þar með haft tækifæri til að meta hvort rétt væri að áhrif hennar yrðu metin sameiginlega með Sprengisandslínu. Í ljósi þess litla svigrúms sem er til að mæla fyrir um sameiginlegt mat framkvæmda, þ.e. á þeim tíma þegar framkvæmdirnar eru tækar til málsmeðferðar skv. IV. kafla laga nr. 106/2000 en málsmeðferð þeirra er ekki of langt komin, hefði verið eðlilegt að stofnunin fjallaði í ákvörðun sinni um hvort slíkt kæmi til álita í tilfelli Hólasandslínu 3 og Sprengisandslínu. Það verður þó ekki fram hjá því litið að tillaga að matsáætlun vegna Hólasandslínu 3 barst stofnuninni ekki fyrr en 21. ágúst 2017, eða rúmu hálfu ári eftir hina kærðu ákvörðun, og fyrr var ekki hægt að kveða á um að umhverfisáhrif hennar yrðu metin sameiginlega með t.a.m. Sprengisandslínu.

Að öllu framangreindu virtu verður hafnað kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. febrúar 2017 um að umhverfisáhrif Sprengisandslínu skuli ekki metin sameiginlega með Blöndulínu 3, línu milli Hólasands og Kröflu, Hólasandslínu, Kröflulínu 3 og línu milli Brennimels og Blöndu.

52/2018 Brúarvirkjun

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 17. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi úrskurðarnefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2018, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 1. febrúar 2018 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

 úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2018, er barst nefndinni 27. s.m., kæra Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 1. febrúar 2018 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun, 9,9 MW vatnsaflsvirkjun í Tungufljóti. Tilkynnt var um veitingu framkvæmdaleyfisins með auglýsingu, m.a. í Lögbirtingablaði, 2. mars 2018. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 8. maí 2018, var synjað kröfu um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 13. apríl 2018.

Málavextir: Í september 2015 barst Skipulagsstofnun til athugunar tillaga að matsáætlun frá HS Orku hf. um Brúarvirkjun til athugunar. Er um að ræða vatnsaflsvirkjun, rennslisvirkjun, í efri hluta Tungufljóts í Biskupstungum, Bláskógabyggð, sem mun verða með uppsett afl allt að 9,9 MW. Stofnunin leitaði umsagna Bláskógabyggðar, Fiskistofu, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Orkustofnunar, Skógræktar ríkisins og Umhverfisstofnunar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um tillöguna lá fyrir 30. s.m. Kom þar fram að stofnunin féllist á matsáætlun framkvæmdaraðila með þeim viðbótum sem kæmu fram í tölvupósti 29. september 2015 og þeim athugasemdum sem fram kæmu í ákvörðun stofnunarinnar.

Í febrúar 2016 barst Skipulagsstofnun til athugunar frummatsskýrsla um Brúarvirkjun í Tungufljóti til athugunar frá HS Orku. Framkvæmdin og frummatsskýrslan voru auglýst opinberlega 1. mars s.á. með athugasemdafresti til 12. apríl 2016. Skipulagsstofnun leitaði umsagnar Bláskógabyggðar, Fiskistofu, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Orkustofnunar, Skógræktar ríkisins og Umhverfisstofnunar. Hinn 16. júní 2016 lagði HS Orka fram matsskýrslu og óskaði eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á áhrifum framkvæmdarinnar „Brúarvirkjun, allt að 9,9 MW rennslisvirkjunar í Biskupstungum Bláskógabyggð“ á umhverfið lá fyrir 20. september 2016. Helstu niðurstöður álitsins eru dregnar saman svo: „Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar felist í breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess miðað við núverandi aðstæður. Svæðið er að mestu leyti ósnortið og einkennist að Tungufljóti og vel grónum bökkum þess enda um lindá að ræða en slíkar ár eru ekki algengar á Íslandi og sjaldgæfar á heimsvísu. Að framkvæmdum loknum mun svæðið einkennast að misumfangsmiklum mannvirkjum og verulega skertu rennsli í Tungufljóti á um þriggja km löngum kafla. Fyrirhugað framkvæmdasvæði er þó í nokkurri fjarlægð frá fjölförnum vegum og ferðamannastöðum og neikvæð sjónræn áhrif verða mest frá frístundabyggð í nágrenninu auk þess sem sjónræn áhrif á þá ferðamenn sem leggja leið sína upp með Tungufljóti frá núverandi þjóðvegi munu verða mjög neikvæð. Í ljósi þess sem er rakið hér að framan er það mat Skipulagsstofnunar að áhrif á ásýnd og landslag fyrirhugaðra framkvæmda verða talsvert neikvæð. Fyrirhugað framkvæmdasvæði einkennist af gróskumiklu votlendi og skóglendi sem nýtur séstakrar verndar skv. lögum um náttúruvernd og sem forðast skal að raska nema brýna nauðsyn beri til en nær allt framkvæmdasvæðið er mjög vel gróið. Áhrif á gróður verða því staðbundið talsvert neikvæð. Skipulagsstofnun telur mikilvægt að ráðist verði í fyrirhugaða endurheimt votlendis og birkikjarrs og telur að setja verði eftirfarandi skilyrði:

1. Í framkvæmdaleyfi þarf að koma fram á hvaða svæðum eigi að ráðast í endurheimt votlendis og birkikjarrs í samráði við Umhverfisstofnun, Skógræktina, sveitarfélag og landeigendur.

Fyrir liggur það álit í gögnum málsins að samkvæmt niðurstöðum fuglarannsókna muni fyrirhugaðar framkvæmdir ekki koma til með að hafa mikil neikvæð áhrif á fugla. Stofnunin setur fyrirvara við þessa niðurstöðu þar sem ljóst er að ekki fóru fram fuglarannsóknir í lónstæðinu en þar er líklegt að sé auðugt fuglalíf og meðal annars hugsanlegt að þar finnist straumandavarp samkvæmt framlögðum gögnum. Skipulagsstofnun bendir á að straumönd er tegund á válista auk þess að vera ábyrgðartegund þar sem Ísland er eina landið í Evrópu sem tegundin verpir. Stofnunin telur því ljóst að óvissa er um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á fugla og þá einkum á straumendur þar sem rannsóknir hafa ekki farið fram á lónstæðinu. Í ljósi ofangreinds þarf að setja eftirfarandi skilyrði:

2. Í framkvæmdaleyfi þarf að koma fram að rannsakað verði hvort straumönd verpi í eða við lónstæði fyrirhugaðrar Brúarvirkjunar og svæði sem fer undir stíflumannvirki. Rannsóknin þarf að fara fram áður en framkvæmdir hefjast við stíflu eða lónstæðið. Ef rannsóknin staðfestir varp á svæðinu þarf, með vísan til 74. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013, að bera það undir Náttúrufræðistofnun Íslands hvort nauðsynlegt sé að vakta afdrif straumandar að loknum framkvæmdum. Áhrif á aðra umhverfisþætti s.s. landnotkun, hljóðstig og ónæði, jarðmyndanir og vatnalíf verða minni, eða nokkuð neikvæð til óveruleg. Ekki á að vera hætta á að fornleifum verði raskað að því gefnu að farið verði eftir tilmælum Minjastofnunar Íslands.“

Skipulagsvinna fór fram samhliða og í kjölfar mats á umhverfisáhrifum. Breyting á þágildandi Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 var samþykkt í sveitarstjórn 2. mars 2017, staðfest af Skipulagsstofnun 5. apríl s.á. og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. s.m. Með því var landnotkun svæðisins, þar sem stöðvarhúsið, inntaksmannvirki og frárennsliskurður munu verða staðsett, breytt í iðnaðarsvæði og fengu inntakslón, stífla, þrýstipípa og vegur sér merkingu. Þá voru syðri mörk grannsvæðis vatnsverndar færð norður fyrir fyrirhugað inntakslón og efnistöku- og efnislosunarsvæði merkt inn á aðalskipulagið ásamt því að svæði undir frístundabyggð var skert. Deiliskipulag vegna Brúarvirkjunar tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 2. maí 2017 og breyting á deiliskipulaginu tók með sama hætti gildi 9. mars 2018.

Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 4. maí 2017 var tekin fyrir umsókn HS Orku, dags. 27. apríl 2017, um framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdir vegna Brúarvirkjunar. Sótt var um leyfi fyrir efnistöku á um 18.000 m³ efnis úr námu E, sunnan Biskupstungnabrautar, veglagningu frá stöðvarhúsi að inntaki, plani undir vinnubúðir verktaka, lagningu rafstrengs og ljósleiðara milli stöðvarhúss og inntaks, tengingu við dreifikerfi RARIK, lagningu vatnsveitu og uppsetningu girðinga. Samþykkti sveitarstjórn umsóknina og var skipulagsfulltrúa falið að auglýsa niðurstöðu sveitarstjórnar. Sætti þessi ákvörðun sveitarstjórnar ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Umsókn HS Orku, dags. 11. september 2017, um framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun var lögð fram á fundi skipulagsnefndar Uppsveita bs. 28. s.m. Gerði nefndin ekki athugasemd við að sveitarstjórn samþykkti umsóknina, sem hún og gerði á fundi sínum 12. október s.á. Fól sveitarstjórn jafnframt skipulagsfulltrúa að auglýsa þá niðurstöðu sína. Úrskurðarnefndinni bárust kærur, m.a. frá kærendum, vegna framangreindrar ákvörðunar sveitarstjórnar.

Með umsókn, dags. 17. janúar 2018, sótti HS Orka að nýju um framkvæmdaleyfi vegna Brúarvirkjunar. Umsókninni fylgdi greinargerð með tilgreindum viðaukum nr. 1-12 ásamt áliti Skipulagsstofnunar, matsskýrslu vegna Brúarvirkjunar, yfirlitsmynd, umsögn Umhverfisstofnunar um tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012, Bláskógabyggð, vegna Brúarvirkjunar í Tungufljóti, sem og virkjunarleyfi og leyfi Fiskistofu. Var þess óskað að afgreiðsla sveitarstjórnar frá 12. október 2017 yrði endurupptekin með hliðsjón af nefndum gögnum, umsóknin afgreidd og samþykkt og fyrri afgreiðsla afturkölluð samtímis. Á fundi sínum 1. febrúar 2018 tók sveitarstjórn erindi HS Orku fyrir og féllst á að skilyrði til endurupptöku væru uppfyllt og bókaði jafnframt að fyrri samþykkt um málið frá 12. október 2017 væri felld úr gildi. Með úrskurði í kærumáli nr. 138/2017, uppkveðnum 19. febrúar 2018, var áðurnefndum kærum vegna ákvörðunar sveitarstjórnar frá 12. október 2017 vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ákvörðunin hefði ekki lengur réttarverkan að lögum.

Umsókn HS Orku um framkvæmdaleyfi var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Uppsveita bs. 25. janúar 2018 og var eftirfarandi m.a. bókað um afgreiðslu málsins: „Að mati skipulagsnefndar eru lagaskilyrði til útgáfu umsótts framkvæmdaleyfis. Fyrirhuguð umsókn er í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag svæðisins ásamt skilyrðum sem fram koma í áliti Skipulagsstofnunar. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að umsókn HS Orku hf. vegna Brúarvirkjunar verði samþykkt og jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við umsókn og framlögð gögn, reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og auglýsa framkvæmdaleyfið.“ Þá var bókað um skilyrði leyfisveitingarinnar og tekið fram að samþykktin ætti ekki við um framkvæmdir sem háðar væru byggingarleyfi samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 1. febrúar 2018 var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest og var samþykkt að veita framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun með nánar tilgreindum skilyrðum. Bókað var að sveitarstjórn teldi ljóst að skipulagsnefnd hefði kynnt sér ítarlega umsótta framkvæmd og fylgigögn og tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, líkt og áskilið væri í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn tæki að öllu leyti undir bókun og rökstuðning skipulagsnefndar og gerði að sínum. Jafnframt var lagt fyrir skipulagsfulltrúa að auglýsa niðurstöðu sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi og gefa út nýtt framkvæmdaleyfi að undangengnum framangreindum skilyrðum. Var það og gert og birtist auglýsing þar um í Lögbirtingablaði 2. mars 2018, sem og í fjölmiðlum. Hefur ákvörðun sveitarstjórnar verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir telji að ákvörðun Bláskógabyggðar og málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum í máli þessu hafi farið í bága við lög. Á ákvörðuninni séu bæði form- og efnisannmarkar sem leiða eigi til ógildingar hennar. Fimm hektarar af skógræktarlandi Skógræktarinnar í Haukadal muni fara undir framkvæmdir, en jörðin Haukadalur hafi verið færð Skógrækt ríkisins að gjöf til skógræktar. Nái framkvæmdin einnig til svæðis á náttúruminjaskrá.

Skilyrði vegna brýnna almannahagsmuna hafi ekki verið uppfyllt. Náttúruminjar sem njóti verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, þ.e. fimm ha birkiskógur og 2,5 ha votlendi, muni eyðast við fyrirhugaða framkvæmd. Ekki hafi verið sýnt fram á að aðrir kostir séu ekki færir eða að brýnir almannahagsmunir krefjist þess, líkt og ákvæðið mæli fyrir um, sbr. einnig lögskýringargögn með því. Sé í því sambandi bent á lagaskyldu skv. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til þess að ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd. Ekki hafi verið sýnt fram á að samningar um að planta 25.000 birkiplöntum á 10 ha svæði norðvestan við framkvæmdasvæðið aflétti þeirri vernd sem náttúrulegir birkiskógar njóti að lögum. Sé þetta verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun, sbr. einnig niðurstöðukafla í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 84/2017, að því er varði náttúruminjar sem njóti verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd. Verði ekki síst að líta til þess, í ljósi úrskurðarins, að alger skortur sé á mati valkosta í mati því á umhverfisáhrifum sem liggi fyrir í þessu máli.

Brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í tengslum við vatnsvernd. Séu miklir hagsmunir bundnir við neysluvatn Bláskógabyggðar. Meginregla sé að ekki megi framkvæma á grannsvæði vatnsbóla, sbr. reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Hins vegar hafi verið þrengt að vatnsvernd vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar þegar gildandi mörkum vatnsverndarsvæðisins hafi verið breytt í skipulagi í því skyni að inntakslón Brúarvirkjunar lenti ekki innan þess. Sú málsmeðferð öll gefi tilefni til sérstakrar rannsóknar, sbr. forsendur skilgreiningar vatnsverndarsvæða í gr. 13.1 í reglugerð um varnir gegn mengun vatns, sem vísað sé til í 9. gr. reglugerðar nr. 536/2001 um neysluvatn. Vísi kærendur til alvarlegra athugasemda sem fram hafi komið, m.a. í lögbundnum umsögnum stjórnvalda, sbr. einkum viðbótarumsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands til Skipulagsstofnunar, dags. 25. apríl 2016, í tengslum við tillögu til breytinga á aðalskipulagi. Engar jarðfræðirannsóknir liggi til grundvallar breytingunni, þrátt fyrir framangreind reglugerðarákvæði.

Verulegir annmarkar séu á undirbúningi máls þar sem við málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum hafi ekki verið tekið mið af því að fyrirhugað lón næði inn á svæði sem væri grannsvæði vatnsverndar í aðalskipulagi. Stofnanir hafi veitt umsagnir sínar án vitneskju um það og hafi almenningur ekki komið að athugasemdum þar um, sbr. álit Skipulagsstofnunar 20. september 2016. Málsmeðferð skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi því ekki átt sér stað hvað varði vatnsvernd. Ekki hafi verið kannað á neinn hátt í umhverfismati hvernig þétting berggrunns undir stíflugarð fyrirhugaðrar virkjunar muni hafa áhrif á grunnvatnsrennsli svæðisins neðan við fyrirhugaða virkjun.

Ekki hafi verið könnuð hugsanleg áhrif virkjunarframkvæmda á grunnvatnskerfi Geysissvæðisins, t.d. í tengslum við virkt brotakerfi Suðurlands. Geysir sé frægasti goshver heims og sé friðlýsing Geysissvæðisins á náttúruverndaráætlun sem Alþingi hafi samþykkt í maí árið 2004 og beri því að friðlýsa svæðið. Taka verði mið af varúðarreglum laga um náttúruvernd við þessar einstæðu aðstæður og ekki bera fyrir sig skort á vísindalegri þekkingu til þess að gæta ekki að vernd, sbr. 7. og 9. gr. náttúruverndarlaga. Þá verði vísindaleg þekking að vera grundvöllur allra ákvarðanatöku stjórnvalda, sbr. 8. gr. sömu laga og gildi þannig strangari regla um slíkar ákvarðanir en um ákvarðanir einkaaðila.

Jarðfræðirannsóknir séu afar takmarkaðar í mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar og könnunarboranir, sérstaklega undir fyrirhugaðan stífluvegg, séu algerlega ónógar. Vanti allar jarðfræðilegar upplýsingar um lekt, sprungur og misgengi innan framkvæmdasvæðisins. Varðandi rannsóknir á köldum lindum sé í matinu einkum stuðst við rannsóknir og rennslismælingar Orkustofnunar árin 1981 og 1988 og ekki komi fram hvort breytingar hafi orðið á vatnsrennsli eftir Suðurlandsskjálftana árin 2000 og 2008. Hafi leyfisveitanda borið skylda til að láta gera á því sérstaka könnun hverjar breytingar hafi orðið á vatnsrennsli síðustu 30 ár, einkum eftir Suðurlandsskjálftana, en vísindaleg þekking verði að vera grundvöllur allrar ákvarðanatöku stjórnvalds, sbr. 8. gr. laga um náttúruvernd. Við þá athugun hafi borið að gæta ákvæða laga nr. 106/2000 um aðkomu almennings og álits Skipulagsstofnunar, sbr. kærumál nr. 84/2017.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að við meðferð málsins hafi verið gætt allra þeirra skilyrða sem lög kveði á um, ásamt því að vandað hafi verið til verka á öllum stigum málsins. Í samræmi við ákvæði 4. mgr. 13. gr. laga nr. 123/2010 hafi sveitarfélagið gengið úr skugga um að framkvæmdin hafi verið í samræmi við aðalskipulag. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi legið fyrir, svo sem áskilið sé skv. 1. mgr. 14. gr. laganna. Í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. hafi sveitarfélagið tekið matsskýrslu HS Orku til skoðunar, kannað hvort framkvæmdin væri í samræmi við hana og loks tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Líkt og fram hafi komið í bókun frá fundi sveitarstjórnar sé það mat hennar að umsókn HS Orku, þ.m.t. fyrirhugað eftirlit og mótvægisaðgerðir, hafi verið í samræmi við þau skilyrði sem fram komi í álitinu. Reynt hafi verið eftir fremsta megni að ganga úr skugga um að öll helstu sjónarmið og umsagnir, sem þýðingu gætu haft við ákvarðanatöku um veitingu leyfisins, væru fyrirliggjandi.

Skilyrði 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd um brýna nauðsyn hafi verið uppfyllt. Fyrir liggi að bein áhrif virkjunarinnar á gróður séu þau að mannvirki og inntakslón muni koma til með að raska gróðri á rúmlega 10 ha svæði. Af þeim séu um 3 ha gróður sem ekki njóti verndar náttúruverndarlaga. Á bls. 45 í matsskýrslu sé fjallað sérstaklega um nauðsyn þessarar skerðingar með svohljóðandi hætti: „Í lögum um náttúruvernd kemur fram í 3. mgr. 61. gr. [nvl] að forðast beri að raska vistkerfum sem taldar eru upp í 1. mgr., sbr. viðmið hér að framan um votlendi og birkiskóga sem njóta sérstakrar verndar, nema brýna nauðsyn beri til. Með frumvarpi laganna var brýn þörf skilgreind þannig að um ríka almannahagsmuni sé að ræða. Með hliðsjón af þessu skal tekið fram að fyrirhugaðri Brúarvirkjun er ætlað að styrkja stöðu HS Orku á raforkumarkaðnum eins og fram kemur í kafla 3.1 og stuðla þannig að virkri samkeppni almenningi til hagsbóta. Vatnsaflsvirkjanir eru í eðli sínu sjálfbær orkukostur sem afla raforku án nokkurrar loftmengunar þó svo að næsta umhverfi verði fyrir áhrifum vegna röskunar á landi og árfarvegum. Þó svo að vistkerfi er njóta verndar verði fyrir áhrifum, hefur HS Orka uppi áform um að draga úr þeim áhrifum með mótvægisaðgerðum, eins og fram kemur hér á eftir. Einnig má benda á að samhliða fyrirhugaðri Brúarvirkjun og tengingu hennar við flutningskerfið mun RARIK styrkja dreifikerfi raforku á svæðinu, til að mynda á Geysissvæðinu. Almannahagsmunir eru því ríkir fyrir heimamenn.“ Um nauðsyn að baki framkvæmdinni sé jafnframt í bókun skipulagsnefndar frá 149. fundi nefndarinnar, dags. 25. janúar 2018, vísað til þessa kafla matsskýrslunnar og annarra almannahagsmuna. Það er að almennt sé virkjunin mikilvæg fyrir gæði raforku á dreifiveitusvæðinu, styrki afhendingaröryggi þar umtalsvert og gefi möguleika á „eyjakeyrslu“ í tilvikum rafmagnsleysis þannig að halda megi afmörkuðum hluta dreifikerfis raforku inni þrátt fyrir umlykjandi rafmagnsleysi. Stofnkerfi raforku styrkist á stóru svæði með lagningu háspennustrengs frá jörðinni Brú, virkjunarstað, til Reykholts, Biskupstungum. Við innkomu rafmagnsframleiðslu inn á kerfi RARIK aukist möguleikar til rafmagnsdreifingar lengra til norðurs, t.d. að Bláfelli (Neyðarlínan) og Kerlingafjöllum, verði stofnkerfi RARIK lagt þangað. Færi gefist til frekari uppbyggingar ljósleiðarakerfis þar sem ljósleiðaralögn verði lögð með háspennustrengjum frá inntaksmannvirkjum virkjunar til tengistöðvar í Reykholti.

Sveitarfélagið hafi yfirfarið tilvitnuð sjónarmið HS Orku ásamt sjónarmiðum skipulagsnefndar og talið sýnt fram á að brýna nauðsyn í skilningi 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga bæri til fyrirhugaðrar röskunar birkiskóga og votlendis. Í þessu samhengi beri jafnframt að leggja áherslu á að HS Orka hafi lagt mikla áherslu á að vinna að endurheimt birkiskógar og votlendis sem hluta af mótvægisaðgerðum vegna fyrirhugaðrar Brúarvirkjunar. Í því skyni hafi verið lagður fram samningur um endurheimt birkiskógar og votlendis milli HS Orku og Skógræktarinnar, dags. 27. september 2017. Í honum sé samið um gróðursetningu 25 þúsund birkiplantna á alls 10 ha svæði og endurheimt votlendis með uppfyllingu skurða í landi Mosfells í Grímsnesi. Verktími sé ætlaður á árunum 2018 og 2019. Að mati sveitarfélagsins falli tilvitnaður samningur afar vel að því markmiði náttúruverndarlaga að stuðla að endurheimt raskaðra vistkerfa, sbr. 1. gr. laganna. Rétt sé að taka fram að í greinargerð með framkvæmdaleyfi, sem jafnframt teljist vera hluti leyfisins, sé gert að skilyrði að lýstum fyrirætlunum verði fylgt eftir, sbr. kafla 10.3.

Í þessu samhengi beri jafnframt að líta til þess að í ferlinu öllu hafi verið leitað umsagna fjölda aðila sem hafi með náttúruvernd að gera, s.s. Skógræktar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og umhverfisnefndar Bláskógabyggðar. Enginn umsagnaraðila hafi lagst gegn framkvæmdinni. Með hliðsjón af eðli og umfangi fyrirhugaðrar skerðingar, fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum og hagsmunum samfélagsins sé það álit skipulagsnefndar að brýn nauðsyn réttlæti þau neikvæðu áhrif sem framkvæmdin hafi óneitanlega í för með sér.

Varðandi meintan skort á mati á umhverfisáhrifum valkosta bendi sveitarfélagið á að í matsskýrslu komi fram að gerð hafi verið forathugun á sex kostum á tilhögun virkjunarinnar, með mismunandi uppsettu afli. Þeir kostir sem skoðaðir hafi verið séu í stórum dráttum ekki mikið frábrugðnir þeirri virkjunartilhögun sem hið kærða framkvæmdaleyfi lúti að. Sá kostur þyki einnig hagstæður kostnaðarlega séð og hafi því orðið fyrir valinu hjá HS Orku.

Fram komi að í umsögn Umhverfisstofnunar um tillögu að matsáætlun hafi stofnunin lagt til að skoða þann möguleika að staðsetja virkjunarmannvirkin á vesturbakka Tungufljóts. Í frummatsskýrslu hafi verið greint frá því að aðrennslispípa í gegnum skóginn vestan Tungufljóts hefði í för með sér mun meira rask en ráðgerð leið austan fljótsins og hafi sú útfærsla því ekki verið skoðuð nánar. Umhverfisstofnun hafi talið þetta ekki vera nægjanlegt og því ítrekað þá skoðun sína að skoða þyrfti betur þann möguleika að staðsetja virkjunina á vesturbakkanum. Í kjölfarið hafi verið gerður ítarlegri samanburður á staðsetningu virkjunarmannvirkja og hafi niðurstaðan orðið sú að staðsetning þeirra vestan Tungufljóts hefði meira rask í för með sér en ráðgerð staðsetning að austanverðu. Umhverfisstofnun hafi tekið undir þessa niðurstöðu í frekari umsögn sinni frá 8. apríl 2016.

Sveitarfélagið bendi á að í matsskýrslu komi fram að inntakslónið sé utan grannsvæðis vatnsverndar í drögum að nýju aðalskipulagi Bláskógabyggðar. Eftir að breyting á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 hafi tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. apríl 2017 hafi þessi nýju grannsvæðismörk verið staðfest. Rökin fyrir þessari breytingu, sem fjallað sé um í matsskýrslu, séu á þá leið að mörkin hafi verið ónákvæm þegar þau hafi verið ákvörðuð á sínum tíma og að rekstrarvatnsborð lónsins sé um 15 m lægra en núverandi vatnstökustaður. Því sé útilokað að vatn úr lóninu komi til með að menga vatnsbólið.

Þess megi geta að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi í upphafi gert athugasemd um skort á upplýsingum í tengslum við vatnsvernd. Í endanlegri umsögn eftirlitsins við tillögu að breytingu á aðalskipulagi, dags. 18. nóvember 2016, sé ekki gerð athugasemd við hvernig staðið hafi verið að breytingu á afmörkun vatnsverndarinnar. Þá sé því hafnað alfarið að láðst hafi að taka tillit til þess við málsmeðferð umhverfismats að fyrirhuguð framkvæmd sé í nágrenni við grannsvæði vatnsverndar. Nægi þar að vísa til umfjöllunar á bls. 10-11 í áliti Skipulagsstofnunar þar sem raktar séu umsagnir og athugasemdir við matsskýrslu og svör HS Orku við þeim. Skipulagsstofnun hafi talið þau svör sýna fram á að þar sem vatnstökustaður stæði rúmlega 15 m hærra en yfirborð fyrirhugaðs lóns væru engar líkur á að vatn úr lóninu mengaði vatnstökustaðinn.

Hvað varði úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 84/2017 telji sveitarfélagið að ólíkum málavöxtum sé saman að jafna. Í tilvitnuðum úrskurði hafi verið óumdeilt að hin umdeilda framkvæmd, í því tilviki loftlína, myndi liggja um vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Í áliti Skipulagsstofnunar hafi komið fram sú niðurstaða stofnunarinnar að þrátt fyrir boðaðar öryggisráðstafanir og mótvægisaðgerðir væri óhjákvæmileg hætta fyrir hendi á að fyrirhugaðar framkvæmdir hefðu neikvæð áhrif á vatnsverndarsvæði og um leið neysluvatn ef mengunslys myndi eiga sér stað. Með hliðsjón af því sé ljóst að sömu sjónarmið eigi ekki við í máli þessu.

Sveitarfélagið hafni því að ástæða hafi verið til að taka til nánari skoðunar hugsanleg áhrif virkjunarframkvæmda á grunnvatnskerfi Geysissvæðisins, enda engin gögn eða umsagnir fyrirliggjandi í málinu sem bendi til þess að slík áhrif séu sennileg eða líkleg.

Fullyrðingum um að jarðfræðirannsóknir hafi verið takmarkaðar og ónógar sé mótmælt sem tilhæfulausum og órökstuddum. Bent sé á að þær jarðefna- og jarðgrunnsrannsóknir sem hafi verið gerðar á byggingarsvæði stífla og annarra mannvirkja á efra svæði virkjunarinnar séu jarðefnaathugun, Cobra-boranir, könnunargryfjur, jarðgrunnskönnun, sýnatökur, mat á lektarstuðlum, sigpróf og sjónskoðun á svæðinu. Því sé hafnað að skort hafi á könnun á áhrifum virkjunarinnar á votlendissvæði. Vísað sé til þess að rennsli Tungufljóts komi ekki til með að breytast neðan fyrirhugaðs stöðvarhúss og því muni virkjunin ekki koma til með að hafa áhrif á svæði sem séu vel sunnan við fyrirhugað framkvæmdasvæði.

Sveitarfélagið telji að málatilbúnaður kærenda hvað varði meintar forsendur gjafabréfs fyrir jörðunum Haukadal og Tortu, varði einkaréttarleg álitaefni sem komi útgáfu framkvæmdaleyfis til HS Orku ekkert við. Úrskurðarnefndin hafi ekki valdheimildir til þess að fjalla um slík álitamál og komi þau því ekki til úrlausnar í máli þessu. Ágreining um meintar forsendur gjafaafsals verði þar til bærir aðilar að bera undir hina almennu dómstóla, standi vilji til að fá úr honum skorið.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að frá upphafi þessa máls hafi hann leitast við að tryggja að rannsóknir á umhverfisáhrifum virkjunarinnar yrðu sem ítarlegastar og bestar. Hafi ekkert verið til sparað í þeirri málsmeðferð. Hafi félagið sjálft óskað eftir því að framkvæmdin færi beint í mat á umhverfisáhrifum framkvæmda þrátt fyrir að framkvæmdin sem slík, vegna stærðar hennar, félli ekki í þann flokk. Í ferlinu hafi verið leitað til færustu sérfræðinga á hverju sviði um rannsóknir, umsagnir og hönnun, eins og ítarleg og vönduð gögn málsins beri með sér. Þá viti leyfishafi ekki betur en að þær opinberu stofnanir sem hafi haft með málið að gera hafi leitað allra nauðsynlegra umsagna annarra opinberra aðila og krafist allra nauðsynlegra gagna og upplýsinga af hálfu félagsins sem lög geri ráð fyrir. Hafi málsmeðferð því verið í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslög nr. 123/2010, lög nr. 60/2013 um náttúruvernd, stjórnsýslulög nr. 37/1993 og annarra laga og reglugerða.

Um nauðsyn framkvæmdarinnar sé fjallað á bls. 45-46 í matsskýrslu og árétti leyfishafi það sem þar komi fram. Ekki sé bannað að raska tilgreindum vistkerfum samkvæmt ákvæðum náttúruverndarlaga. Eingöngu beri að forðast það. Leyfisveitandi hafi með afgreiðslu sinni metið það svo að um væri að ræða brýna hagsmuni og framkvæmdaraðili hafi gripið til mótvægisaðgerða í samræmi við umsagnir lögbundinna umsagnaraðila.

Í umsögn Umhverfisstofnunar frá 8. apríl 2016 komi fram að stofnunin telji að stærð votlendis sem komi til með að raskast vegna framkvæmdarinnar sé minni en ráða megi af frummatsskýrslu. Ekki sé unnt að greina á vettvangi að votlendi stærra en 20.000 m2 verði raskað og því óljóst að umrætt svæði njóti sérstakrar verndar. Í umsögnum sínum leggist Umhverfisstofnun heldur ekki gegn raski á birkiskógi á svæðinu. Skógræktin geri það ekki heldur en leggi til að gengið verði til samninga um mótvægisaðgerðir og að skógareyðing fari fram í samráði við skógarvörð.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar hafi orðið sú að þrátt fyrir að hún teldi rök HS Orku um ríka almannahagsmuni orka tvímælis væri hægt að fallast á framkvæmdina þar sem skerðing votlendis og skóglendis næði til lítils svæðis og að um væri að ræða sneið af jaðri svæðanna. Skilyrði yrði sett í framkvæmdaleyfi um endurheimt og að val á svæðum verði unnið í samráði við Umhverfisstofnun, Skógræktina, viðkomandi sveitarfélag og landeigendur. Skipulagsstofnun hafi talið að fyrirætlanir um að græða upp jafn stórt svæði með birkigróðri og endurheimt votlendis væru til þess fallin að draga úr áhrifum á gróður.

Með vísan til framangreinds hafi Skipulagsstofnun sett það skilyrði að í framkvæmdaleyfi þyrfti að koma fram á hvaða svæðum ætti að ráðast í endurheimt votlendis og birkikjarrs í samráði við Umhverfisstofnun, Skógræktina, sveitarfélagið og landeigendur. HS Orka hafi samið við Skógræktina um endurheimt birkiskógar og votlendis, sbr. samning aðila dags. 27. september 2017.

Afstaða Umhverfisstofnunar til framkvæmdarinnar liggi fyrir í mörgum umsögnum stofnunarinnar, sbr. t.d. umsögn frá 8. apríl 2016 sem getið sé að framan. Að auki hafi stofnunin gefið umsögn um aðalskipulagsbreytinguna, sem gerð hafi verið sérstaklega vegna framkvæmdarinnar, sbr. umsögn frá 28. nóvember 2016. Hafi því ekki þurft að leita sérstakrar umsagnar stofnunarinnar vegna þessa. Með vísan til þess að enginn umsagnaraðila hafi lagst gegn framkvæmdinni hafi leyfisveitandi ekki þurft að rökstyðja framkvæmdina sérstaklega. Leyfisveitandi hafi því metið það svo að um væri að ræða brýna nauðsyn sem heimilaði þá röskun sem hér um ræði, en til að draga úr henni yrði gripið til ákveðinna mótvægisaðgerða, enda legðist enginn umsagnaraðili gegn framkvæmdinni. Það mat sé úrskurðarnefndin ekki bær til að endurskoða. Engir formgallar séu heldur á málinu að þessu leyti.

Hvað varði þá fullyrðingu að mótvægisaðgerðir séu ekki nægilegar þá sé bent á það sem þegar hafi komið fram. Samið hafi verið við Skógræktina, helstu sérfræðistofnun landsins í þessu efni, um endurheimt 10 ha af birkiskógi á svæði í landi Haukadals 1, eða tvöfalt það kjarrlendi sem fari undir vatn eða eyðist með öðrum hætti við framkvæmdina. Um það bil 10 ha af votlendi verði endurheimt úr landi jarðarinnar Mosfells í Grímsnesi, sem Skógræktin hafi til umráða. Í samningnum komi fram að gæðaúttekt muni verða gerð af skógræktarráðgjafa að lokinni gróðursetningu og um það verði gerð skýrsla. Hvað varði endurheimt votlendis verði leitað ráðgjafar hjá Landgræðslunni ef þörf krefji. Umhverfisstofnun hafi fyrir sitt leyti samþykkt að með þessum samningi, gerðum 27. september 2017, hafi framkvæmdaraðili uppfyllt skilyrði Skipulagsstofnunar um samráð við Umhverfisstofnun á fullnægjandi hátt.

Skoðaðir hafi verið sex kostir við tilhögun virkjunar austan Tungufljóts, auk einnar tilhögunar vestan fljótsins ásamt núllkosti. Umræddir kostir hafi verið bornir saman og sá samanburður „leiddi ekkert í ljós sem bendir til þess að aðrir kostir en fyrirhugaður virkjunarkostur séu betri frá umhverfissjónarmiðum“.

Í matsskýrslu sé vakin athygli á því að inntakslónið sé utan grannsvæðis vatnsverndar í drögum að nýju aðalskipulagi Bláskógabyggðar. Í breyttu Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 hafi þessi nýju grannsvæðamörk verið staðfest með breytingu á aðalskipulagi 5. apríl 2017. Rökin fyrir breytingunni, sem fjallað sé um í matsskýrslu, séu á þá leið að mörkin hafi verið ónákvæm þegar þau hafi verið ákvörðuð á sínum tíma og að rekstrarvatnsborð lónsins sé um 15 m lægra en núverandi vatnstökustaður. Því sé útilokað að vatn úr lóninu mengi vatnsbólið. Í þessu efni megi benda á 13. gr. reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, sbr. breytingarreglugerð nr. 533/2001, en þar segi að við ákvörðun á afmörkun grannsvæða vatnsbóla skuli taka tillit til jarðvegsþekju svæðisins og grunnvatnsstrauma sem stefni að vatnsbólinu.

Rétt sé að gera grein fyrir sögulegum ástæðum þess hvernig grannsvæði vatnsbólsins hafi upphaflega verið afmarkað. Fram til ársins 2000 hafi aðalvatnsból Biskupstungna verið í landi Austurhlíðar. Við stóra Suðurlandsskjálftann 17. júní það ár hafi vatnið í vatnsbólinu minnkað mikið og því sem næst horfið. Við þetta hafi skapast neyðarástand í samfélaginu og hafi hreppsnefnd gripið til ýmissa bráðabirgðaaðgerða til þess að tryggja íbúum lágmarksneysluvatn. Samhliða því hafi verið farið í þá vinnu að leita að nýju vatnsbóli. Fljótsbotnar í landi Haukadals hafi orðið fyrir valinu. Leitin að vatnsbólinu og virkjun þess hafi þurft að ganga hratt fyrir sig þar sem neyðarástand hafi verið í neysluvatnsmálum. Þegar komið hafi að því að skilgreina grannsvæði vatnsbólsins hafi engar jarðfræðirannsóknir legið að baki heldur hafi verið gerður nógu stór hringur um svæðið svo að ekki yrði nein hætta á að gerð yrði athugasemd við skilgreininguna. Þrátt fyrir þetta hafi allir verið meðvitaður um að vatnið sem virkjað hefði verið kæmi úr norðri, þ.e. frá Langjökli, og að vatnsverndin ætti því fyrst og fremst að vera norðan við Fljótsbotnana, þar sem vatnið kæmi að, en ekki suður af þeim, þar sem vatnið renni frá þeim. Nú hafi endurskilgreining farið fram og í ljósi sögunnar hafi sveitarstjórn Bláskógabyggðar aðlagað þessa skilgreiningu grannsvæðis til samræmis við nýjar upplýsingar og til samræmis við það sem hreppsnefnd Biskupstungnahrepps hafi ætlast til að yrði gert.

Upphaflega hafi Heilbrigðiseftirlit Suðurlands gert athugasemd um vöntun á upplýsingum í tengslum við vatnsverndina, en í endanlegri umsögn heilbrigðiseftirlitsins við tillögu að breytingu á aðalskipulagi, dags. 18. nóvember 2016, sé ekki gerð athugasemd við hvernig staðið hafi verið að breytingu á afmörkun vatnsverndarinnar.

Þá hafi farið fram rannsóknir á vatnsrennsli til vatnsbóla, bæði á yfirborði og neðanjarðar. Talið sé að vatnið í Fljótsbotnum sé ættað frá Langjökli. Á þessu svæði renni vatn til suðurs, þ.e. landið hækki til norðurs. Vatnsbólin í Fljótsbotnum standi mun hærra en hæsta mögulega vatnsstaða verði í fyrirhuguðu inntakslóni. Þá hafi áhrif breyttrar afmörkunar grann- og fjarsvæða vatnsbólsins í Fljótsbotnum verið metin. Niðurstaða þessi hafi verið sett fram í skýrslunni „Bláskógabyggð. Breyting á grannsvæði vatnsverndar í Fljótsbotnum, Greinargerð ÍSOR-16046“. Niðurstaða skýrslunnar sé sú að óhætt sé að færa mörk vatnsverndarsvæðis til norðurs, þ.e. hærra í landið, án þess að það spilli vatni eða vatnstökumöguleikum á vatnsverndarsvæðinu í Fljótsbotnum. Því sé röng sú fullyrðing kærenda að ekki hafi farið fram jarðfræðirannsóknir vegna þessa þáttar. Að auki sé vakin athygli á að umrædd vatnsverndarmörk hafi þegar verið staðfest í skipulagi og hafi þær skipulagstillögur ekki sætt andmælum af hálfu kærenda á sínum tíma.

Staðkunnugir viti að vatnið á Geysissvæðinu sé býsna heitt, enda um jarðhitakerfi að ræða, og að vatnið í Tungufljóti sé að sama skapi býsna kalt, enda lindar- og yfirborðsvatn. Uppspretta þessa vatns sé úr mismunandi og vel aðskildum vatnskerfum, þar sem annað liggi mjög djúpt og hitt yfir eða nálægt yfirborði jarðar. Að minnsta kosti 4 km séu frá Geysi að fyrirhuguðu stíflusvæði í Tungufljóti og á milli þessara staða séu auk þess vatnsmiklir lækir, sem muni renna sína leið óháð virkjunarframkvæmdum. Því telji sérfræðingar útilokað að Brúarvirkjun muni hafa áhrif á Geysissvæðið. Þessi athugasemd kærenda eigi sér því ekki stoð.

Þær rannsóknir sem hafi verið gerðar á byggingarsvæði stífla og annarra mannvirkja á efra svæði virkjunarinnar séu eftirfarandi jarðefna- og jarðgrunnsrannsóknir: Jarðefnaathugun, Cobra-boranir, könnunargryfjur, jarðgrunnskönnun, sýnatökur, mat á lektarstuðlum, sigpróf og sjónpróf á svæðinu. Þessar rannsóknir hafi varðað þau svæði sem fari undir steypt mannvirki og jarðvegsstíflur. Rannsóknirnar gefi fullnægjandi upplýsingar svo að hönnun umræddra mannvirkja geti farið fram með faglega fullnægjandi og viðteknum hætti.

Þá sé á það bent að fyrirhuguð virkjun byggist á rennsli Tungufljótsins eins og það sé núna og að jarðskjálftar sem hafi orðið fyrir nærri tveimur áratugum breyti þar engu um. Engu að síður hátti svo til að rennslismælingar hafi verið gerðar í Tungufljóti a.m.k. allt frá sjötta áratug síðustu aldar og síritun á rennsli árinnar við fossinn Faxa, sem sé talsvert fyrir neðan fyrirhugað framkvæmdasvæði, hafi staðið frá árinu 1971. Í minnisblaði tilgreindrar verkfræðistofu komi fram að ekki hafi verið hægt að merkja nokkrar breytingar á rennsli árinnar sem rekja mætti beint til jarðskjálftanna árið 2000. Ef athugasemd kærenda vísi hins vegar til annars vatns en í Tungufljóti þá sé vísað til umfjöllunar hér að framan um áhrif Suðurlandsskjálfta árið 2000 á vatnsbólið við Austurhlíð.

Rennsli Tungufljóts komi ekki til með að breytast neðan fyrirhugaðs stöðvarhúss. Fyrirhuguð virkjun muni því hvorki hafa áhrif á svæði nr. 737, Almenning, á náttúruminjaskrá, né á votlendið milli Tungufljóts og Hvítár, norðan friðlýsta svæðisins Pollengis og Tungueyjar, sem sé nr. 738 á náttúruminjaskrá. Það hafi því ekki verið kannað sérstaklega. Þessi svæði séu langt sunnan og langt neðan við fyrirhugað framkvæmdasvæði, t.a.m. sé Tunguey u.þ.b. 25 km neðar, við ármót Tungufljóts og Hvítár. Mörg vatnsföll önnur en Tungufljót séu þarna í milli sem hafi miklu meiri áhrif en Tungufljót á vatnsbúskapinn þarna suðurfrá. Kærendur hafi ekki leitt neinum líkum að því að virkjunin geti haft áhrif á fyrrgreind svæði. Enginn sérfróðra umsagnaraðila virðist hafa haft áhyggjur af þessu atriði enda vatnsmagn á svæðinu óbreytt. Engar athugasemdir hafi heldur borist í skipulagsferlinu.

Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé valdsvið nefndarinnar skilgreint. Það nái ekki til þess að úrskurða um einkaréttarlegt atriði eins og athugun á forsendum fyrir gjafaafsali vegna Haukadalsjarðarinnar árið 1940. Í 3. mgr. 4. gr. laganna segi að þeir einir eigi kærurétt sem eigi lögvarða hagsmuni. Það eigi kærendur ekki sem slíkir. Frá þessu sé gerð undantekning varðandi m.a. umhverfisverndarsamtök sem geti kært ákvarðanir sem séu tæmandi taldar í a- til c-liðum í nefndri 3. mgr. Umkvörtunarefni kærenda í þessum lið falli ekki undir þær heimildir og það megi forsvarsmenn kærenda vita. Engar kvaðir séu í nefndum gjafagerningi sem komi í veg fyrir virkjun árinnar. Framkvæmdin muni að auki ekki raska skógrækt á svæðinu almennt enda hafi framkvæmdaraðili gert samning við Skógræktina um uppgræðslu þess í stað þess skógar sem eyðist við framkvæmdina, eins og áður hafi verið fjallað um.

Niðurstaða: Brúarvirkjun er fyrirhuguð 9,9 MW rennslisvirkjun í efri hluta Tungufljóts í Biskupstungum. Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um veitingu framkvæmdaleyfis lá fyrir 1. febrúar 2018, en undirbúningur framkvæmda vegna virkjunarinnar hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Um er að ræða tilkynningarskylda framkvæmd skv. lið 3.22 í 1. viðauka, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í samræmi við 6. mgr. nefndrar 6. gr. tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun að hann teldi að framkvæmdin skyldi undirgangast mat á umhverfisáhrifum. Féllst stofnunin á þá málsmeðferð og lá álit hennar á mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar fyrir 20. september 2016. Svo sem greinir í málavaxtalýsingu var niðurstaða stofnunarinnar sú að áhrif á ásýnd og landslag yrðu talsvert neikvæð. Þannig yrðu áhrif á gróður staðbundið talsvert neikvæð og lagði Skipulagsstofnun til að sett yrðu skilyrði um endurheimt votlendis og birkikjarrs vegna þess. Þá taldi stofnunin að óvissa ríkti um áhrif framkvæmdarinnar á fugla, og þá einkum straumendur, þar sem ekki hefðu farið fram fuglarannsóknir í lónstæðinu. Var því lagt til að við veitingu framkvæmdaleyfis yrði sett skilyrði um að slíkar rannsóknir færu fram áður en framkvæmdir hæfust við stíflu- eða lónstæðið.

Um veitingu framkvæmdaleyfis, málsmeðferð og skilyrði er fjallað í skipulagslögum nr. 123/2010. Gildir 13. gr. almennt um framkvæmdaleyfi, en að auki kemur 14. gr. til álita þegar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldra framkvæmda er að ræða, sbr. og 13. gr. laga nr. 106/2000. Koma og til skoðunar lög nr. 60/2013 um náttúruvernd, sbr. 7. mgr. 13. gr. skipulagslaga, og stjórnsýslulög nr. 37/1993, svo sem endranær við töku stjórnvaldsákvarðana. Í samræmi við 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga skal leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Það álit Skipulagsstofnunar er lögbundið en ekki bindandi fyrir leyfisveitanda en þarf að fullnægja ákveðnum lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald til þess að leyfisveitandi geti tekið upplýsta ákvörðun um leyfisveitingu að vel athuguðu máli. Lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar vegna hinnar kærðu leyfisveitingar tekur því bæði til þess hvort tekin hafi verið rökstudd afstaða til álits Skipulagsstofnunar og þess hvort álitið sé fullnægjandi.

—–

Í bókun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar á fundi sínum 1. febrúar 2018, er hið kærða framkvæmdaleyfi var samþykkt, kom fram að hún teldi framlögð gögn lýsa framkvæmdinni á fullnægjandi hátt, að hönnunargögn væru fullnægjandi og að framkvæmdin væri í samræmi við mat á umhverfisáhrifum og gildandi skipulagsáætlanir. Leitað hefði verið allra lögbundinna umsagna, gætt að ákvæðum laga um náttúruvernd, laga um menningarminjar, skipulagslaga, reglugerðar um framkvæmdaleyfi og annarra laga og reglugerða sem við ættu. Var einnig bókað að sveitarstjórn teldi umsókn leyfishafa vera í samræmi við þá framkvæmd sem lýst væri í matsskýrslu og að hún væri í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag svæðisins. Tók sveitarstjórn jafnframt undir bókun og rökstuðning skipulagsnefndar frá 25. janúar s.á. og gerði að sínum.

Í 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga segir m.a. að framkvæmdir og aðgerðir sem hafa áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir og skal skv. 1. mgr. 13. gr. laganna afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku og annarra framkvæmda sem falla undir lög nr. 106/2000. Í 4. mgr. 13. gr. segir að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir.

Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var í gildi Aðalskipulag Biskupstungnahrepps 2000-2012 með síðari breytingum. Á fundi bæjarstjórnar 2. mars 2017 var samþykkt breyting á því aðalskipulagi vegna umrædds svæðis, sem staðfest var af Skipulagsstofnun 5. apríl s.á. og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 26. s.m. Tilefni breytingarinnar var fyrirhuguð Brúarvirkjun og fólst í henni að gert væri ráð fyrir nýju iðnaðarsvæði fyrir stöðvarhús, aðrennslisgöng og stíflu inntakslóns, þremur nýjum efnistöku- og efnislosunarsvæðum auk þess sem eitt svæði yrði stækkað. Þá myndi inntakslón ná að hluta til inn á svæði sem skilgreint hefði verið sem vatnsverndarsvæði og landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi, en með breytingunni væri staðsetning vatnsbóla leiðrétt samkvæmt nákvæmari kortagrunnum og afmörkun vatnsverndarsvæðis breytt því til samræmis.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga segir að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og í 3. mgr. kemur fram að við gerð deiliskipulags skuli byggt á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi svæði eða reit. Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Brúarvirkjunar í Tungufljóti, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. maí 2017. Kemur þar fram að áformað sé að reisa aðalstíflu virkjunarinnar þvert yfir farveg Tungufljóts, rétt ofan við ármót Stóru-Grjótár, og þaðan verði áin leidd í um 1.700 m langri niðurgrafinni þrýstipípu að stöðvarhúsi. Virkjunin verði rennslisvirkjun og stærð hennar allt að 9,9 MW.

Samkvæmt framangreindu verður ekki annað séð en að hið kærða framkvæmdaleyfi í samræmi við skipulagsáætlanir, svo sem sveitarstjórn og skipulagsnefnd tóku réttilega fram við meðferð málsins, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga.

—–

Með bréfi, dags. 25. apríl 2016, gerði Heilbrigðiseftirlit Suðurlands viðbótarathugasemd við frummatsskýrslu framkvæmdarinnar, en fyrri umsögn eftirlitsins var dagsett 16. mars s.á. Vakti eftirlitið athygli á því að hvergi hefði komið fram í framlögðum gögnum vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Brúarvirkjunar, hvorki í tillögu að matsáætlun, dags. 5. september 2015, né í frummatsskýrslu, dags. febrúar 2016, að fyrirhuguð framkvæmd væri í nágrenni við og næði inn á grannsvæði vatnsverndar vatnstökusvæðis sveitarfélagsins í Haukadal.

Í kjölfar athugasemda Heilbrigðiseftirlits Suðurlands var unnið sérstakt minnisblað af tilgreindri verkfræðistofu þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að útilokað sé að vatn úr lóninu muni menga vatnsbólið þar sem að vatnsbólið sitji ofar í landinu og að vatn þaðan renni því til lónsins en ekki öfugt. Skipulags- og byggingarfulltrúi óskaði fyrir hönd sveitarfélagsins eftir áliti Íslenskra orkurannsókna(ÍSOR) á þessu atriði, þ.e. hvort að hætta væri á að fyrirhuguð virkjun myndi hafa áhrif á vatnstöku á svæðinu í nútíð og framtíð og hvort að vatnsverndarsvæðið væri rétt eða skynsamlega afmarkað. Í greinargerð ÍSOR frá 16. júní 2016 kemur fram í niðurstöðu að óhætt sé að færa suðausturmörk grannsvæðisins til norðurs í samræmi við fyrirliggjandi tillögu án þess að það spilli vatni eða vatnstökumöguleikum á vatnsverndarsvæðinu í Fljótsbotnum.

Í matsskýrslu er fjallað um vatnsvernd í kafla 2.2. Kemur þar fram, sem og í viðbrögðum framkvæmdaraðila við umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, að hæðarmunur vatnstökusvæðis og inntakslóns sé það mikill, eða um 15 m, að útilokað sé að vatn úr lóninu mengi vatnstökustaðinn. Hönnuðir virkjunarinnar hafi haft vitneskju um vatnstökusvæðið og tekið tillit til þess við hönnunina. Kemur og fram í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 20. september 2016 að samkvæmt mati stofnunarinnar hafi framkvæmdaraðili sýnt fram á í svörum sínum að þar sem vatnstökustaður standi rúmlega 15 m hærra en yfirborð fyrirhugaðs lóns séu engar líkur á að vatn úr lóninu mengi vatnstökustaðinn.

Liggur ljóst fyrir af gögnum málsins og þeirri málsmeðferð sem rakin hefur verið að ekki var fjallað um áhrif framkvæmdarinnar á vatnsverndarsvæði á fyrri stigum mats á umhverfisáhrifum. Hefði það með réttu átt að vera til umfjöllunar í matsáætlun og frummatsskýrslu vegna framkvæmdarinnar, enda gera lög nr. 106/2000 ráð fyrir ákveðnu efnislegu samræmi milli matsáætlunar og matsskýrslu, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna. Á hinn bóginn er það eitt af markmiðum laganna að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta, sbr. c-lið 1. gr., auk þess sem mat á umhverfisáhrifum er þáttur í rannsókn máls. Að fenginni athugasemd um möguleg áhrif framkvæmdarinnar á vatnsverndarsvæði var framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnun rétt að bregðast við, svo sem gert var.

Svo sem áður hefur komið fram var þágildandi Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 breytt vegna umrædds svæðis og vatnsverndarsvæðið minnkað. Með bréfi, dags. 18. nóvember 2016, veitti Heilbrigðiseftirlit Suðurlands umsögn að nýju um aðalskipulagsbreytinguna, þar sem fram kom að með vísan til greinargerðar ÍSOR gerði eftirlitið ekki lengur athugasemd við breytingu á afmörkun suðausturmarka umrædds vatnsverndarsvæðis.

Að teknu tilliti til þessa verður að telja að framangreindir hnökrar eða ágallar sem voru á matinu í öndverðu hafi verið lagfærðir með tilhlýðilegum hætti á meðan á frekari vinnslu þess stóð og áður en leyfi var veitt. Verður því ekki fallist á með kærendum að rannsókn málsins hafi verið ófullnægjandi hvað varðar áhrif á vatnsvernd, enda lágu umsagnir og álit sérfróðra aðila fyrir við álit Skipulagsstofnunar, breytingu á aðalskipulagi og hina kærðu leyfisveitingu.

Í kafla 3.4 í mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar kemur fram að við forathugun hafi verið metnir aðrir kostir við tilhögun virkjunarinnar miðað við þau hönnunargögn sem þá voru til staðar. Að teknu tilliti til þeirra gagna var gerður samanburður á sex valkostum, auk núllkosts, og áhrifum þeirra m.t.t. þess hversu mikið afl virkjunarinnar yrði og hversu stórt að flatarmáli lónið yrði, ásamt stíflu, inntaki og öðrum mannvirkjum. Í umsögn Umhverfisstofnunar lagði stofnunin til að skoðaður yrði sá möguleiki að staðsetja virkjunarmannvirkin á vesturbakka Tungufljóts. Í kjölfar þeirrar athugasemdar var gerður ítarlegri samanburður á því að staðsetja virkjunarmannvirki á austur- og vesturbakka fljótsins og er þá umfjöllun að finna í kafla 3.4.2 í matsskýrslu. Var niðurstaðan sú að staðsetning virkjunarmannvirkja vestan Tungufljóts hefði meira rask í för með sér en ráðgerð staðsetning að austanverðu og tók Umhverfisstofnun undir þá niðurstöðu í frekari umsögn sinni, dags. 8. apríl 2016. Verður ekki talið að nauðsyn hafi borið til könnunar og samanburðar á frekari valkostum og skal í því sambandi áréttað að inntakslón er að breyttu aðalskipulagi ekki innan vatnsverndarsvæðis. Var þannig fullnægt áskilnaði laga nr. 106/2000 um samanburð valkosta.

—–

Kærendur halda því fram að ekki hafi verið rannsakað nógu ítarlega eða fjallað um áhrif á grunnvatnsrennsli neðan við fyrirhugaða virkjun og áhrif á grunnvatnskerfi Geysissvæðisins og rennsli í köldum lindum. Hafi jarðfræðirannsóknir vegna þessa verið takmarkaðar, einkum og sér í lagi í ljósi jarðskjálfta á Suðurlandi árin 2000 og 2008.

Í matsskýrslu eru teknar saman upplýsingar um staðhætti. Kemur þar m.a. fram að árið 1986 hafi rennsli úr Sandvatni verið stíflað og öllu jökulvatni verið veitt um Sandá í Hvítá. Hafi Tungufljót síðan verið að mestu hrein bergvatnsá með lindarvatnsuppruna. Þá kemur fram að í Tungufljót bætist mikið lindarvatn norðaustan Haukadals og frá Haukadalsheiði. Foss sé í fljótinu, 10,8 km frá ósum við Hvítá. Heiti hann Faxi, eða Vatnsleysufoss, og sé staðsettur nokkuð neðan fyrirhugaðrar virkjunar. Liggur fyrir í gögnum málsins að í nefndum fossi hafa verið rennslismælingar allt frá því snemma á 6. áratug síðustu aldar, þar af með sírita frá árinu 1971. Um rennslisbreytingar er fjallað í matsskýrslunni, með áherslu á áhrif þeirra á vatnalíf. Sömu áherslu er að finna í áliti Skipulagsstofnunar. Í mati á umhverfisáhrifum kom fram athugasemd um breytingar á rennsli neðan virkjunarinnar og vegna þessa lét framkvæmdaraðili fara fram frekari mælingar á rennsli beggja kvísla neðan virkjunar. Var hönnun frárennslis breytt í framhaldi af því til að tryggja sem minnsta breytingu á rennsli í kvíslunum. Kom og fram í greinargerð með umsókn um framkvæmdaleyfi að Veðurstofa Íslands hefði tekið þátt í úrvinnslu fyrir rennslislykil árinnar.

Í kafla 4.3.5 í matsskýrslu er fjallað um jarðfræði og jarðmyndanir á umræddu svæði og kemur þar fram að ekki hafi verið talin þörf á sérstakri jarðfræðiúttekt heldur hafi jarðfræði svæðisins verið greind út frá jarðvegsathugun og byggingarefnisleit, sem gerð hafi verið í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir, ásamt upplýsingum úr tiltækum heimildum. Varðandi grunnástand er vísað til heimilda frá árinu 2015 um jarðfræði svæðisins og jarðhitakerfi Geysissvæðisins. Jarðfræði svæðisins er sýnd á mynd 4.12 í matsskýrslu. Í heimildaskrá skýrslunnar er einnig vísað til greinargerðar deiliskipulags fyrir Geysissvæðið, en þar er í 6. kafla m.a. fjallað um jarðfræði Geysis og nágrennis. Loks liggur fyrir að engar athugasemdir bárust frá Umhverfisstofnun eða Náttúrufræðistofnun Íslands varðandi möguleg áhrif á Geysissvæðið, en báðar þessar stofnanir hafa sérstakra skyldna að gæta varðandi áhrif á náttúruminjar samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hnigu ekki rök að því, miðað við það sem að framan er rakið, að kanna þyrfti frekar eða fjalla nánar um þá þætti sem kærendur hafa byggt málflutning sinn á að þessu leyti.

—–

Fyrir liggur álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að helstu neikvæðu áhrif framkvæmdarinnar fælust í breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess. Kom fram að fyrirhugað framkvæmdasvæði einkenndist af gróskumiklu votlendi og skóglendi sem nyti sérstakrar verndar samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd og sem forðast skuli að raska nema brýna nauðsyn bæri til, en nær allt framkvæmdasvæðið sé vel gróið. Stofnunin taldi óvissu vera um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á fugla og þá einkum á straumendur þar sem rannsóknir hefðu ekki farið fram í lónstæðinu. Áhrif á aðra umhverfisþætti, s.s. landnotkun, hljóðstig og ónæði, jarðmyndanir og vatnalíf, yrðu minni. Nánar er rakið í áliti stofnunarinnar að bein áhrif fyrirhugaðrar Brúarvirkjunar á gróður séu þau að mannvirki og inntakslón virkjunarinnar komi til með að raska birkikjarr- og skóglendi auk votlendis á tæplega 7 ha svæði. Liggur þannig fyrir að áhrif verða á umhverfisþætti sem njóta sérstakrar verndar lögum samkvæmt. Kemur og fram í áliti Skipulagsstofnunar að framkvæmdin feli í sér byggingu ýmissa mannvirkja, s.s. um 600 m langrar og allt að 12 m hárrar stíflu, um 10 m hás stöðvarhúss og um 8 ha lóns, auk nýs vegar, á svæði sem sé að mestu ósnortið. Enn fremur muni verða rask á svæðinu vegna efnistöku, haugsetningar og skurða.

Svo sem áður er rakið hvíldi sú skylda m.a. á sveitarstjórn samkvæmt skipulagslögum og lögum nr. 106/2000 að fjalla um og taka rökstudda afstöðu til framangreinds álits Skipulagsstofnunar. Þá liggur fyrir að við leyfisveitingu þurfti einnig að líta til ákvæða laga nr. 60/2013 og eftir atvikum til annarra laga.

Bókað var um rökstuðning sveitarstjórnar fyrir leyfisveitingunni á fundi hennar 1. febrúar 2018. Gerði sveitarstjórn jafnframt bókun og rökstuðning skipulagsnefndar frá 25. janúar s.á. að sínum. Tilvitnaðar bókanir voru ítarlegar, m.a. um hvaða framkvæmd væri að ræða og um álit Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum hennar. Fjallað var um samræmi við skipulagsáætlanir og við lög og reglugerðir, sem og um það hvaða umsagna hefði verið leitað og hvaða gögn hefðu legið fyrir við leyfisveitinguna. Var tekið undir álit Skipulagsstofnunar hvað varðaði neikvæð áhrif framkvæmdarinnar, rakið hvaða rannsóknir hefðu farið fram frá því að álit stofnarinnar lá fyrir, hvernig fullnægt hefði verið þeim skilyrðum sem þar koma fram og hvaða skilyrði væru sett fyrir leyfisveitingunni. Setti sveitarstjórn sem skilyrði fyrir framkvæmdinni sömu mótvægisaðgerðir og verklag sem tilgreind voru í matsskýrslu og umsókn um framkvæmdaleyfi, einnig voru skilmálar sem tilgreindir voru í greinargerð með deiliskipulagi Brúarvirkjunar gerðir að skilyrðum fyrir framkvæmd. Tiltekið var að í framkvæmdaleyfi skyldi koma fram á hvaða svæðum ætti að ráðast í endurheimt votlendis og birkikjarrs og skyldi leyfishafi ábyrgjast að í samræmi við skilyrði Skipulagsstofnunar og vöktunaráætlun Náttúrufræðistofnunar Íslands yrði fylgst með afdrifum straumandar, endurheimt birkiskógar í landi Haukadals, endurheimt votlendis í landi Mosfells í Grímsnesi, grunnvatnsstöðu í votlendi, sem og áfoki og rofi á bökkum inntökulóns. Vöktunin skyldi hefjast um leið og framkvæmdir hæfust samkvæmt leyfinu og standa yfir þar til fimm ár væru liðin frá framkvæmdalokum. Sveitarstjórn setti enn fremur sem skilyrði að framkvæmdir skyldu ekki eiga sér stað á hrygningartíma laxa, þ.e. á tímabilinu 1. október til 20. nóvember, og að hafa bæri samráð við landeigendur og eigendur frístundahúsa um leiðir til að draga úr ásýndaráhrifum framkvæmdarinnar. Loks að framkvæmdaleyfi vegna efnistöku skyldi gefið út til 24 mánaða og skyldi þar gerð grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt væri að nýta og vinnslutíma, til samræmis við þær upplýsingar sem fram kæmu í umsókn, fylgigögnum og gildandi skipulagsáætlunum. Bæri að hafa samráð við Umhverfisstofnun um frágang á efnistökusvæðum. Af framangreindum bókunum er ljóst að sveitarstjórn kynnti sér matsskýrslu framkvæmdaraðila, kannaði hvort framkvæmdin væri sú sem þar er lýst og tók rökstudda afstöðu til álits Skipulagstofnunar, svo sem áskilið er í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, sbr. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.

Þá gekk sveitarstjórn úr skugga um að skilyrði þau sem Skipulagsstofnun hafði lagt til væru virt og tók jafnframt á helstu neikvæðu umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar með því að setja frekari og viðeigandi skilyrði í ljósi þeirra rannsókna sem fram höfðu farið í kjölfar álits Skipulagsstofnunar. Þær rannsóknir lutu m.a. að varpi straumanda, en Skipulagsstofnun hafði talið óvissu ríkja um áhrif framkvæmdarinnar á fugla, einkum straumendur. Straumendur teljast til villtra dýra og eru friðaðar skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Skal skv. 2. mgr. 6. gr. laganna gæta fyllstu varkárni og nærgætni gagnvart villtum dýrum og búsvæðum þeirra og forðast óþarfa truflun. Skal og tekið tillit til þessa við skipulag og landnotkun, sbr. lög um náttúruvernd og skipulagslög. Straumendur verpa hvergi í Evrópu nema á Íslandi. Eru þær á válista en ekki taldar í hættu. Válistar eru m.a. gefnir út til að uppfylla aðildarskyldur Íslands samkvæmt Bernarsamningnum um vernd plantna og dýra og búsvæða þeirra í Evrópu, en Náttúrufræðistofnun Íslands fer með framkvæmd samningsins á Íslandi. Við leyfisveitingu hafði verið upplýst að um líklegt straumandarvarp væri að ræða á áhrifasvæði framkvæmdarinnar og voru gerðar tillögur að vöktun af hálfu Náttúrufræðistofnunar Íslands.

—–

Í 61. gr. laga nr. 60/2013 er tiltekin sérstök vernd tiltekinna vistkerfa, jarðminja o.fl. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar er tilgreindum vistkerfum veitt sérstök vernd í samræmi við markmið 2. gr. laganna, sbr. og c-lið 3. gr. þeirra. Þau vistkerfi eru m.a. votlendi 20.000 m² að flatarmáli eða stærri, sbr. a-lið 1. mgr. 61. gr., og sérstæðir eða vistfræðilega mikilvægir birkiskógar og leifar þeirra þar sem eru m.a. gömul tré, sbr. b-lið ákvæðisins. Samkvæmt 3. mgr. nefndrar 61. gr. laganna ber að forðast að raska vistkerfum og jarðminjum sem taldar eru upp í 1. og 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Skal og áður en leyfi er veitt leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggi fyrir. Fyrir liggur að hvoru tveggja birkiskógur og votlendi munu skerðast við hina fyrirhuguðu framkvæmd og var gengið út frá því í mati á umhverfisáhrifum og við leyfisveitingu að 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 ætti við. Þurfti því að gæta að þeim ákvæðum er áður greinir.

Við hina kærðu leyfisveitingu lágu fyrir umsagnir Umhverfisstofnunar, dags. 28. nóvember 2016 vegna breytinga sem gerðar voru á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 í þágu virkjunaráforma, og vegna deiliskipulags Brúarvirkjunar. Jafnframt lágu fyrir umsagnir Umhverfisstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum Brúarvirkjunar, sem og umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands. Að auki var við leyfisveitingu leitað umsagnar umhverfisnefndar Bláskógabyggðar, en samkvæmt 4. tl. A-liðar 48. gr. samþykktar nr. 592/2013 um stjórn sveitarfélagsins Bláskógabyggðar fer nefndin með hlutverk náttúruverndarnefndar skv. 14. gr. laga nr. 60/2013. Er umsögnin frá 24. janúar 2018 og kom þar fram að nefndin legðist ekki gegn því að leyfi yrði veitt fyrir framkvæmdinni en legði áherslu á mótvægisaðgerðir. Með vísan til framangreinds verður að telja að skilyrði 3. mgr. 61. gr., sbr. og 1. og 2. mgr. 68. gr., náttúruverndarlaga hafi verið uppfyllt hvað varðaði umsagnir.

Kemur þá til skoðunar hvort færð hafi verið rök fyrir því að brýna nauðsyn hafi borið til framkvæmdarinnar í skilningi 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013. Í tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun var það svo orðað að tilgangur með virkjun Tungufljóts ofan Brúar væri að auka orkuöflun frá vatnsaflsvirkjunum og bæta þannig stöðu HS Orku á raforkumarkaði. Í matsskýrslu var því bætt við að tilgangur með aukinni orkuöflun væri einnig að stuðla að auknu raforkuöryggi uppsveita Árnessýslu, auk þess sem styrkari staða framkvæmdaraðila á markaði stuðlaði að virkri samkeppni almenningi til hagsbóta. Í mati á umhverfisáhrifum kom fram að Umhverfisstofnun teldi styrkari stöðu framkvæmdaraðila á raforkumarkaði vart teljast til almannahagsmuna og í áliti sínu tók Skipulagsstofnun einnig fram að hún teldi orka tvímælis þann rökstuðning HS Orku að fyrirhugaða framkvæmd mætti færa undir ríka almannahagsmuni. Það teldist vart til ríkra almannahagsmuna að fyrirtækið styrkti stöðu sína á raforkumarkaði eða að RARIK myndi samtímis styrkja dreifikerfi raforku á svæðinu. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ljóst að það teljist ekki til brýnnar nauðsynjar í skilningi 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 að styrkja stöðu fyrirtækis á markaði þótt það leiði mögulega til aukinnar samkeppni sem e.t.v. yrði almenningi til hagsbóta. Að stuðla að auknu raforkuöryggi er hins vegar málefnalegt markmið og í rökstuðningi skipulagsnefndar, samþykktum af sveitarstjórn, var m.a. vísað til aukins afhendingaröryggis og þess að möguleiki gæfist á „eyjakeyrslu“ þannig að halda mætti afmörkuðum hluta dreifikerfis raforku inni þrátt fyrir umlykjandi rafmagnsleysi. Að auki myndu möguleikar til rafmagnsdreifingar lengra til norðurs aukast, t.d. að Bláfelli vegna endurvarpsstöðvar Neyðarlínunnar. Játa verður sveitarstjórn nokkuð svigrúm til mats á því hvað teljist til brýnna hagsmuna almennings í sveitarfélaginu og kemur fram t.a.m. í opinberri ársskýrslu RARIK fyrir árið 2017 að verið sé að auka afhendingaröryggi til muna á þessu svæði. Að teknu tilliti til þessa verður fallist á að ásættanleg rök hafi verið færð fyrir því að áskilnaði títtnefndrar 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um brýna nauðsyn hafi verið fullnægt.

—–

Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir neinir þeir form- eða efnisannmarkar við undirbúning og töku hinnar kærðu ákvörðunar sem leiða eigi til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 1. febrúar 2018 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun.

79/2017 Valhúsahæð

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 24. maí 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 19. júlí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 24. maí 2017 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði á Seltjarnarnesi. Verður kæran skilin á þann hátt að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 31. ágúst 2017.

Málavextir: Hinn 17. ágúst 2016 samþykkti bæjarstjórn Seltjarnarness að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði en það svæði hafði ekki áður verið deiliskipulagt. Svæðið nær yfir Valhúsahæð, Plútóbrekku, Bakkagarð, svæði norðan Norðurstrandar frá Austurströnd að Lindarbraut, svæða sunnan Suðurstrandar frá Steinavör að Lindarbraut auk Kirkjubrautar og Skólabrautar. Tillagan var auglýst frá 5. september 2016 með athugasemdafresti til og með 14. október s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda, og svaraði skipulags- og umferðarnefnd þeim athugasemdum ásamt því að koma til móts við hluta þeirra.

Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna á fundi sínum 14. desember 2016 og voru gögnin send Skipulagsstofnun til umfjöllunar. Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við framsetningu deiliskipulagsins og í kjölfar þess var uppfærð skipulagsgreinagerð samþykkt í bæjarstjórn 24. maí 2017. Deiliskipulagið tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 20. júní s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi gert athugasemdir við kynningu umrædds deiliskipulags fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði og hafi eftirfarandi athugasemdir ekki verið teknar til greina.

Í fyrsta lagi bendir kærandi á að samkvæmt gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eigi deiliskipulag að jafnaði að ná til reits eða svæðis sem myndi heildstæða einingu eins og svæði með sömu landnotkun, svæði afmarkað af götum, húsaþyrpingu, svo sem landbúnaðarsvæðum, eða annað sem gefi sameiginlegar forsendur fyrir viðkomandi deiliskipulag. Í deiliskipulagi fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útisvistarsvæði hafi þessu ákvæði ekki verið fylgt eftir þar sem blandað hafi verið saman húsabyggð og útivistarsvæði.

Í öðru lagi vísar kærandi til þess að byggingarreitir hafi margir verið furðulegir í greinagerð með deiliskipulaginu. Á Skólabraut 4, 8 og 10 séu ekki skráðir byggingarreitir fyrir þegar byggðum húsum, auk þess að gert sé ráð fyrir byggingarreit fyrir framan bílskúra á mörgum stöðum án þess að gert sé ráð fyrir viðbyggingu.

Í þriðja lagi hafi ekki verið gert ráð fyrir einni hæð til viðbótar ofan á húsið Skólabraut 6, sem leyfi sé fyrir samkvæmt uppdráttum frá 1949 og 1950. Uppdrættir sem Seltjarnarnesbær hafi vísað til frá árinu 1972 séu vegna bílskúrs en ekki íbúðarhússins. Því væri eðlilegt að í deiliskipulaginu væri gert ráð fyrir að húsið að Skólabraut 6 mætti vera þriggja hæða, eins og flest önnur hús í kring. Það sé óforsvaranlegt og standist ekki lög að hafna því á þeirri forsendu að uppdrættir séu fallnir úr gildi.

Óskað hafi verið eftir fjölgun bílastæða við Skólabraut 6. Húsið sé tvíbýlishús og einungis með aðkeyrslu að bílskúrum, en engin gestastæði séu á lóðinni. Algengt sé bæði á Skólabraut og Kirkjubraut að hafa gestastæði inni á lóð og séu t.d. allt að sex gestastæði á lóðinni nr. 12 við Skólabraut.

Loks sé það athugavert að umferðaröryggisáætlun kveði á um að kanna skuli skástæði við Skólabraut, en engar opinberar athuganir hafi verið gerðar og kynntar almenningi á þessu svæði varðandi það. Samkvæmt deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir beinum bílastæðum samhliða gangstétt norðan við götuna. Slíkt valdi óþarfa hættu fyrir gangandi vegfarendur þar sem innkeyrslur úr bílastæðum húsa séu fyrir. Mun öruggara væri að hafa skástæði norðan við götuna sem myndi einnig fjölga bílastæðum töluvert, líkt og lengi hafi verið talin þörf á, ásamt því að auðveldara yrði að komast í og úr skástæðum. Þá sé hvergi gert ráð fyrir stæðum fyrir stærri bíla, rútur eða bílastæði ætluðu fötluðu fólki.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Umrædd kæra byggi á fimm málsástæðum sem að mati sveitarfélagsins geti ekki raskað gildi hins kærða skipulags, enda sé það hvorki haldið form- né efnisgöllum. Málsástæður kæranda séu efnislega þær sömu og athugasemdir hans sem komið hafi verið á framfæri á fyrri stigum deiliskipulagsgerðarinnar. Þær athugasemdir hafi verið teknar til skoðunar áður en deiliskipulagið hafi verið samþykkt og hafi sveitarfélagið svarað þeim.

Vald til að skipuleggja svæði innan marka sveitarfélags sé í höndum sveitarstjórna og annist þær og beri ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við beitingu valdsins beri sveitarfélögum að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð séu í 1. gr. laganna. Þá séu sveitarstjórnir að auki bundnar af lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins ásamt því að krafa sé gerð um að ákvarðanir sveitarstjórna byggi á málefnalegum sjónarmiðum. Telur Seltjarnarnesbær ljóst að framangreindum reglum hafi verið fylgt við gerð umrædds deiliskipulags.

Samkvæmt 1. málsl. gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga sé gert ráð fyrir að deiliskipulag skuli að jafnaði gera fyrir einstök svæði eða reiti sem myndi heildstæða einingu. Telji sveitarfélagið að umrætt skipulag sé í samræmi við framangreind ákvæði, enda búi fullkomlega lögmæt og málefnaleg sjónarmið að baki afmörkun skipulagssvæðisins, auk þess sem ekki hafi verið sýnt fram á með neinum efnislegum rökum að afmörkun skipulagssvæðisins hafi leitt til réttarspjalla fyrir kæranda eða sé óeðlilegt í skipulagslegu tilliti. Þá séu skilmálar fyrir lóðir á svæðinu skýrir og málefnalegir. Í greinagerð skipulagsins komi fram að við þegar byggð hús við Kirkjubraut og Skólabraut sé ekki gert ráð fyrir breytingum utan þeim sem fylgi almennu viðhaldi og endurnýjun, að undanskildum ákveðnum undanþágum sem upp séu taldar í deiliskipulaginu. Með deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir þeirri breytingu við Skólabraut að gangstétt verði milli götu og lóða við götuna norðanverða. Gangandi vegfarendum geti stafað nokkur hætta af útakstri frá lóðum. Til að stemma stigu við þeirri hættu sé gert ráð fyrir að útaksturssvæði verði auðkennd með minni hellum og takmörkun á breidd inn- og útaksturssvæða. Breytingin sé gerð vegna umferðar gangandi vegfarenda, einkum skólabarna, sem í dag noti götuna sem göngusvæði.

Samkvæmt samþykktum teikningum frá 1968 og 1972 sé ekki gert ráð fyrir hæð ofan á núverandi hús á lóðinni nr. 6 við Skólabraut. Á upphaflegum teikningum að húsinu, samþykktum 19. september 1949, skyldi húsið vera tvær hæðir og ris. Sótt hafi verið um að hafa húsið þriggja hæða árið 1950, en inn á teikningu frá þeim tíma hafi núverandi þak verið handteiknað ofan á aðra hæðina. Hins vegar sé húsið tveggja hæða samkvæmt gildandi uppdráttum fyrir húsið frá 1968 og 1972. Að auki liggi fyrir uppdráttur frá 1996 sem sýni húsið eins og það sé nú. Við gerð deiliskipulagsins hafi verið ákveðið að halda í núverandi yfirbragð byggðarinnar og hafa húsin við Skólabraut almennt tveggja hæða.

Varðandi beiðni kæranda um aukinn fjölda bílastæða á lóðinni Skólabraut 6 vísi Seltjarnarnesbær til þess að nauðsynlegt sé að halda breidd hverrar innkeyrslu í lágmarki til að tryggja umferðaröryggi á götunni. Fjölmennur grunnskóli sé í sömu götu og því séu á svæðinu margir gangandi vegfarendur, einkum skólabörn. Hægt sé að sækja um undanþágu vegna framkvæmda samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og skuli bílastæði inni á lóðum gerð í samráði við skipulags- og umferðarnefnd sveitarfélagsins.

Niðurstaða: Deiliskipulag það sem um er deilt í máli þessu er að mestu útivistarsvæði en innan þess er núverandi íbúðabyggð, við Kirkjubraut og Skólabraut, sem mótast hefur á liðnum áratugum. Kærandi er búsettur á deiliskipulagssvæðinu og lúta athugasemdir hans varðandi skipulagið að efni þess hvað íbúðabyggðina snertir, auk þess sem fundið er að afmörkun skipulagssvæðisins.

Hið kærða deiliskipulag var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, afgreitt í skipulags- og umferðarnefnd 15. nóvember 2016 og staðfest í bæjarstjórn Seltjarnarness 14. desember s.á. Framkomnum athugasemdum var svarað og þeim sem athugasemdir gerðu voru send þau svör. Ekki verður þó séð að athugasemd kæranda varðandi aukningu bílastæða á lóðinni Skólabraut 6 hafi verið svarað beint. Telst það þó ekki slíkur ágalli að leitt geti til ógildingar deiliskipulagsins. Skipulagið tók síðan gildi að undangenginni yfirferð Skipulagsstofnunar lögum samkvæmt. Fyrir liggur að skipulagssvæðið liggur að mörkum nærliggjandi deiliskipulagssvæða, myndar eina heild og tekur til fyrrgreindrar íbúðabyggðar, sem lá utan deiliskipulagssvæða. Lágu því skipulagsrök að baki afmörkun skipulagssvæðisins og verður að telja þá afmörkun í samræmi við 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, sbr. og gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, enda er þar ekki gert að skilyrði að aðeins einn landnotkunarflokkur rúmist innan deiliskipulagssvæðis. Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins er ekki gert ráð fyrir frekari uppbyggingu við Skólabraut umfram heimilaða sólskála og veggsvalir og er mörkum byggingarreita á lóðum við götuna ætlað að mynda bindandi byggingarlínu í tiltekinni fjarlægð frá götu. Er því ljóst að þeir byggingarreitir verða einungis nýttir þegar og ef til endurbyggingar kemur á viðkomandi lóðum. Með hliðsjón af framangreindu var málsmeðferð hins kærða deiliskipulags lögum samkvæmt og eru ekki þeir ágallar á framsetningu skipulagsins sem raskað geta gildi þess

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skjóli þess valds er ákvörðunum skipulagsyfirvalda sveitarfélaga um mótun og þróun byggðar hrint í framkvæmd. Við beitingu skipulagsvalds ber að gæta þess að ákvörðun um deiliskipulag sé í samræmi við heimildir aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með ákvörðuninni.

Ákvörðun um tilhögun bílastæða við Skólabraut samkvæmt umræddu deiliskipulagi lýtur fyrst og fremst að gæslu almannahagsmuna og fyrir þeirri tilhögun hafa verið færð fram rök er snúa að umferðaröryggi. Verður ekki séð að sú tilhögun snerti einstaklega lögvarða hagsmuni kæranda umfram aðra íbúa skipulagssvæðisins.

Fyrir liggur uppdráttur vegna Skólabrautar 6, sem staðfestur var af byggingarfulltrúa á árinu 1968. Þar er íbúðarhúsið teiknað sem tveggja hæða, eins og það er nú. Af uppdrættinum verður ráðið að hann hafi einungis verið gerður vegna byggingar bílskúrs, en teikning hússins á uppdrættinum hafi eingöngu verið gerð til að sýna innbyrðis afstöðu bygginganna á lóðinni. Það sama á við um staðfestan uppdrátt frá árinu 1972 er sýnir breytingar á bílskúrnum. Á upphaflegum uppdrætti, sem staðfestur var af oddvita Seltjarnarneshrepps 19. september 1949, er húsið teiknað sem tvær hæðir og ris, en á öðrum uppdrætti, sem mun vera frá 13. desember 1950, er það teiknað sem þriggja hæða. Er þar dregin lína milli annarrar og þriðju hæðar á teikningu af suðurhlið hússins, sem óljóst er hvað á að merkja. Hvað sem öðru líður verður að líta til þess að húsið var á sínum tíma byggt sem tveggja hæða og hefur verið það alla tíð síðan. Verður ekki talið að hæð umrædds hús sé í ósamræmi við götumynd svæðisins en hús þar eru ýmist tveggja til þriggja hæða.

Í greinagerð með umræddu deiliskipulagi kemur fram að nauðsynlegt sé að tryggja umferðaröryggi á Skólabraut, enda sé fjölmennur grunnskóli í sömu götu og því mikið um gangandi vegfarendur á svæðinu, einkum skólabörn. Gangandi vegfarendum geti stafað nokkur hætta af útakstri frá lóðum og því sé breidd inn- og útaksturssvæða takmörkuð. Samkvæmt þessu verður að telja að ef bæta ætti við bílastæðum á lóðinni nr. 6 við Skólabraut yrði að breikka aðkomu að lóðinni, sem dregið gæti úr umferðaröryggi og aukið hættu á slysum. Lágu því málefnaleg sjónarmið að baki synjun Seltjarnarnesbæjar á beiðni um fjölgun bílastæða á lóð kæranda, auk þess sem bílastæðafjöldi á lóðinni telst ekki óeðlilegur þegar litið er til annarra lóða sem deiliskipulagið tekur til.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar. Verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 24. maí 2017 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði.

132/2017 Garðahraunsvegur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 132/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. nóvember 2017, er barst nefndinni 9. s.m., kæra A og B, Heiðvangi 8, Hafnafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi hvað varðar lokun á vegtengingu á milli Herjólfsbrautar og Garðahraunsvegar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 1. mars 2018.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 30. júní 2016 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns. Varðaði tillagan aðallega breytingar á gatnakerfi, þ. á m. að loka Garðahraunsvegi til vesturs þannig að ekki verði vegtenging við Herjólfsbraut. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt á fundi bæjarráðs 5. júlí s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar varðandi umrædda lokun á vegtengingu, m.a. frá kærendum. Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 9. mars 2017 ásamt minnisblaði skipulagsstjóra um svör við athugasemdum. Samþykkti nefndin tillöguna með breytingum sem gerðar voru til að koma til móts við athugasemdir. Í breytingunum fólst m.a. að neyðarakstur og akstur strætisvagna yrði heimilaður frá Garðahraunsvegi að Herjólfsbraut í báðar áttir. Var sú afgreiðsla nefndarinnar samþykkt í bæjarráði 14. mars s.á. og í bæjarstjórn 16. s.m. Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. október s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að deiliskipulagsbreytingin sé verulega íþyngjandi fyrir þau og aðra íbúa í nágrenninu. Ástæða þess að loka þurfi umræddri vegtengingu sé óljós og ekki hafi verið færð fram nein rök fyrir lokuninni. Breytingin feli í sér að vegur, sem hafi verið notaður áratugum saman og lagður fyrir opinbert fé, sé ekki lengur í boði fyrir verulegan hluta þeirra sem noti hann daglega. Umferð um hverfi kærenda verði þyngri og erfiðari þar sem lokað sé á mikilvæga tengingu á milli sveitarfélaga. Einnig feli breytingin í sér veruleg óþægindi fyrir íbúa hverfisins þar sem kærendur búa með tilheyrandi afleiðingum, svo sem lækkuðu verði fasteignar kærenda og annarra fasteigna í nágrenninu. Að mati kærenda sé verið að opna á þróun sem ekki geti talist heppileg þar sem eitt sveitarfélag fari þá leið að loka vegtengingu við annað bæjarfélag án þess að þurfa að taka á nokkurn hátt tillit til hagsmuna íbúa þess sveitarfélags. Þá sé ekki að sjá að samráð hafi verið haft við Vegagerðina í samræmi við áskilnað 4. mgr. 2. gr. vegalaga nr. 80/2007. Verulegar líkur séu á því að umferð um Reykjavíkurveg, sem sé þjóðvegur í skilningi fyrrgreindra laga, muni stóraukast vegna þessara breytinga.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu Garðabæjar er bent á að kærendur séu íbúar í öðru sveitarfélagi. Kærendur vísi til almennra hagsmuna íbúa sem tengist því að umferð geti farið um götur tiltekins svæðis eins og vegfarendum þyki best henta hverju sinni. Slíkir hagsmunir séu almenns eðlis en vandséð sé að kærendur eigi þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni sem séu skilyrði aðildar að kærumálum fyrir úrskurðarnefndinni. Af þessum ástæðum sé krafist frávísunar málsins.

Um efnishlið máls sé á það bent að fyrirkomulag gatna og umferðarmannvirkja í þéttbýli sé á forræði sveitarfélaganna og falli undir skipulagsvald þeirra. Í skipulagslögum nr. 123/2010 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé gert ráð fyrir því að gerð sé grein fyrir samgöngum og samgöngumannvirkjum í skipulagsáætlunum og að ákvarðanir séu þar teknar um þessi mannvirki. Þá séu í vegalögum ákvæði um forræði á vegum og í umferðarlögum séu heimildir til takmörkunar á notkun slíkra mannvirkja, t.d. með ákvörðunum um einstefnuakstur, bann við tiltekinni umferð og um aðrar takmarkanir á umferð sem lögreglustjóri ákveði að fengnum tillögum sveitarstjórnar hverju sinni. Verði borgararnir að sæta slíkum takmörkunum jafnvel þótt þær kunni að hafa í för með sér óþægindi fyrir þá, sbr. 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Ákvörðun um lokun tengingar Garðahraunsvegar við Herjólfsbraut styðjist við umferðaröryggissjónarmið. Bent sé á að í Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016 sé gert ráð fyrir lengingu Herjólfsbrautar til vesturs og nýrri tengingu þaðan við gatnakerfi Garðabæjar, sem að miklu leyti muni þjóna sama tilgangi og núverandi tenging við Garðahraunsveg. Þá eigi lokunin sér stoð í aðalskipulagi þar sem umrædd tenging sé ekki sýnd á uppdrætti aðalskipulagsins. Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sem í gildi hafi verið við staðfestingu aðalskipulagsins, hafi verið kveðið á um að í aðalskipulagi skyldi gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum samgöngumannvirkjum, s.s. þjóðvegum og höfnum, svo og helstu umferðaræðum og tengingum við þær, sbr. gr. 4.16.2. Herjólfsbraut verði að teljast meðal helstu umferðaræða og hefði því átt að sýna umrædda tengingu á uppdrætti aðalskipulags ef hún hefði átt að vera til frambúðar. Samkvæmt skipulagslögum skuli gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags þar sem stefna þess sé nánar útfærð. Verði deiliskipulag ávallt að vera í samræmi við aðalskipulag og leiði af því að ekki hafi í raun verið heimilt að gera ráð fyrir umræddri tengingu í endurskoðuðu deiliskipulagi svæðisins.

———-

Úrskurðarnefndinni bárust athugasemdir Hafnarfjarðarbæjar vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Þar er henni andmælt vegna áhrifa á umferð innan Hafnarfjarðar. Vakin er og athygli á að Garðahraunsvegur og Herjólfsbraut séu megin umferðaræðar að Hrafnistu við Hraunvang og að ljóst sé að innbyrðis ósamræmi milli nýsamþykkts aðalskipulags Garðabæjar, deiliskipulags Garðahrauns og deiliskipulags Hleina að Langeyrarmölum hins vegar. Bæjaryfirvöld Hafnarfjarðar hafa að öðru leyti ekki látið mál þetta til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns þar sem gert er ráð fyrir lokun vegtengingar Garðahraunsvegar til vesturs fyrir almennri umferð við Herjólfsbraut.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Hin kærða ákvörðun felur í sér breytingu á vegakerfi í nágrenni húss kærenda, en með breytingunni eru umferðarhömlur settar á umferðarleið að fjölförnum stofnvegi. Verða kærendur því taldir eiga einstaklegra og lögvarinna hagsmuni að gæta í kærumáli þessu og verður því ekki fallist á frávísunarkröfu Garðabæjar sökum aðildarskorts.

Vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Annast þær jafnframt og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. laganna. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga.

Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 og Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016, sem var í gildi þegar hin kærða ákvörðun var tekin, er Garðahraunsvegur skilgreindur sem „annar vegur“. Ekki er kveðið með beinum hætti á um vegtengingu í nefndum skipulagsáætlunum en á skipulagsuppdráttum sést aftur á móti hvar vegirnir mætast. Hafa verður í huga að ekki er gerð krafa um að á aðalskipulagsuppdrætti eða í greinargerð þess sé gerð grein fyrir öllum atriðum gatnakerfis. Verður og að gera ráð fyrir nokkru svigrúmi við gerð deiliskipulags til nánari útfærslu gatnakerfis, sbr. a-lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, þar sem kveðið er á um að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir frekari stefnumörkun varðandi útfærslu gatnakerfis. Að því virtu verður litið svo á að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að taka ákvörðun í deiliskipulagi um lokun Garðahraunsvegar til vesturs fyrir almennri umferð, en til þess ber að líta að vegurinn er hvorki stofn- né tengibraut. Hin kærða deiliskipulagsbreyting fer samkvæmt því ekki gegn aðalskipulagi og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana því fullnægt.

Í greinargerð umrædds deiliskipulags kemur fram að með nýjum Álftanesvegi hafi Garðahraunsvegur breyst úr stofnbraut í safngötu. Þá hafi gefist tækifæri til að þétta byggðina og skipuleggja íbúðahverfi með opnum svæðum, leiksvæðum og stígum. Í svari bæjarstjórnar við innsendum athugasemdum vegna deiliskipulagsins kemur fram að Garðahraunsvegur hafi lengi borið meiri umferð en hann hafi burði til. Hin þunga umferð um veginn hafi dregið verulega úr búsetugæðum nærliggjandi svæðis. Þá er vísað til þess að gerð hafi verið breyting á tillögunni sem falist hafi í því að heimila gegnumakstur strætisvagna og neyðarbíla. Í greinargerð deiliskipulagsins og svari bæjarstjórnar við athugasemdum hafa því komið fram þau efnisrök sem bjuggu að baki hinni kærðu ákvörðun. Verður að telja að þau sjónarmið hafi bæði verið lögmæt og málefnaleg.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin form- eða efnisgöllum sem valdið geta ógildingu hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns.

131/2017 Hrauntunga

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. nóvember 2017, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Dalsnes ehf., Fossaleyni 1, Reykjavík, eigandi fasteignarinnar Hrauntungu í Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns. Er þess aðallega krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt heimild til að deiliskipuleggja lóðina Hrauntungu fyrir íbúðabyggð. Til vara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að málið verði sent aftur til efnislegrar meðferðar hjá bæjaryfirvöldum. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi hvað varði lóðina Hrauntungu og að málið verði sent aftur til efnismeðferðar bæjaryfirvaldar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 1. mars 2018.

Málavextir: Kærandi er eigandi húss og lóðaréttinda á lóðinni Hrauntungu í Garðabæ, en lóðin er um 3,2 ha að flatarmáli. Hinn 29. september 2015 komu fulltrúar kæranda á fund skipulagsnefndar Garðabæjar og greindu frá hugmyndum hans um uppbyggingu á lóðinni. Á fundi skipulagsnefndar 30. júní 2016 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns. Varðaði tillagan aðallega breytingar á gatnakerfi en ekki var gert ráð fyrir frekari byggð á lóðinni Hrauntungu. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt á fundi bæjarráðs 5. júlí s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kæranda. Gerði hann athugasemd við að ekki væri gert ráð fyrir nýjum byggingum á lóðinni og vísað til þess að samkvæmt aðalskipulagi væri lóðin staðsett á svæði fyrir íbúðabyggð.

Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 9. mars 2017 ásamt minnisblaði skipulagsstjóra um svör við framkomnum athugasemdum. Í svari við athugasemdum kæranda segir að fyrrverandi lóðarhafi umræddrar lóðar hafi lagt áherslu á „að hafa lóðina óbyggða og varðveita gróðurinn sem hann hafi lagt sál sína í að rækta. Ákveðin gæði eru fólgin í slíku umhverfi sem skipulagið varðveitir og í því felst enginn mismunur gagnvart lóðarleiguhafa sem áfram hefur sinn rétt samkvæmt leigusamningi um að byggja eitt hús.“ Samþykkti nefndin deiliskipulagstillöguna með breytingum sem gerðar voru til að koma til móts við athugasemdir sem borist höfðu. Var sú afgreiðsla samþykkt í bæjarráði 14. mars s.á. og í bæjarstjórn 16. s.m. Skipulagsstjóri Garðabæjar sendi kæranda bréf, dags. 29. september s.á., með svörum við athugasemdum sem borist höfðu. Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. október 2017.

Málsrök kæranda: Kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar byggir kærandi á því að málsmeðferð sveitarfélagsins hafi ekki staðist ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Í 1. mgr. 42. gr. laganna segi m.a: „Senda skal Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Jafnframt skal sveitarstjórn senda þeim aðilum er athugasemdir gerðu umsögn sína um þær.“ Frestur til að gera athugasemdir hafi runnið út 19. október 2016 og því hafi sex mánaða frestur runnið út 19. apríl 2017. Svör við athugasemdum hafi ekki borist fyrr en 9. október 2017, eða tæpum sex mánuðum eftir að fresturinn hafi runnið út. Ekki sé hægt að líta svo á að sveitarfélagið hafi lokið við yfirferð og athugun framkominna athugasemda fyrr en búið hafi verið að senda þeim sem gert hafi athugasemdirnar svör við þeim. Málsmeðferð sé enn fremur í ósamræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Synjun Garðabæjar á beiðni kæranda sé ekki byggð á lögmætum sjónarmiðum. Fyrir það fyrsta standist ekki skoðun það svar sveitarfélagsins vegna athugasemda kæranda að horft sé til áherslna fyrri lóðarhafa um að hafa lóðina óbyggða. Sá vilji hafi hvergi komið fram með formlegum hætti. Fyrri eigandi hafi þó gert ítarlega erfðaskrá og hafi haft mörg tækifæri í gegnum árin til þess að setja slíkar kvaðir á lóðina en það hafi hann ekki gert. Svo virðist því sem verið sé að vitna í meintan vilja aðila sem sé löngu látinn. Það geti ekki talist lögmætt sjónarmið. Það litla sem til sé um samskipti fyrri eiganda við bæjaryfirvöld bendi í raun til þess að vilji hans hafi ekki verið jafn einbeittur og bærinn vilji meina. Það megi sjá af tölvupósti sem bæjarstjóri Garðabæjar hafi sent forsvarsmanni kæranda 26. febrúar 2015. Þar segi bæjarstjórinn að hann hafi rætt við fyrri eiganda um „möguleika á því að þarna yrði leikskóli“ og að á „þessum tíma hugnaðist honum sú hugmynd vel.“ Í öðru lagi leggi kærandi á það mikla áherslu að uppbygging á lóðinni myndi, ef af yrði, fara fram á þann hátt að náttúrunni og umhverfi yrði leyft að njóta sín. Þetta tvennt geti vel farið saman andstætt því sem sveitarfélagið virðist telja. Í þriðja lagi verði að hafa í huga að ástand eignarinnar og lóðarinnar sé nú afar bágborið. Ekki sé því hægt að segja að Garðbæingar fái að njóta náttúrunnar í Hrauntungu. Það sé vandséð hvernig núverandi ástand lóðarinnar komi heim og saman við áherslur sveitarfélagsins.

Samkvæmt aðalskipulagi Garðabæjar sé lóðin á svæði sem skilgreint sé sem íbúðasvæði. Í deiliskipulagi svæðisins frá 2003 megi sjá að gert sé ráð fyrir vegtengingu inn á lóðina bæði úr austri og vestri. Lóðirnar í kring hafi allar verið skipulagðar sem íbúðahverfi og búið sé að skipta þeim lóðum upp og skipuleggja þar byggð. Engu að síður megi ráða af svörum sveitarfélagsins vilja til að lóð kæranda verði notuð sem einhverskonar útivistarsvæði eða grænt svæði. Það verði ekki skilið öðruvísi en svo að það sé kæranda að taka á sig að veita slík gæði. Fari það gegn ákvæðum 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga þar sem fram komi að í deiliskipulagi eigi að taka ákvarðanir um lóðir og notkun þeirra.

Rétthafar lóða vestan, austan og norðan við lóð kæranda hafi fengið að skipta upp lóðum sínum og skipuleggja íbúðabyggð, en slíkt sé ekki leyft á lóð hans. Þar sé um að ræða sambærilegar lóðir með sambærilegum kvöðum samkvæmt lóðaleigusamningi. Þar sem lóð hans hafi ekki fengið sömu meðferð og aðrar lóðir í kring sé um brot á jafnræði gagnvart kæranda að ræða. Um það megi vísa til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og eftir atvikum 65. gr. stjórnarskrárinnar. Gera verði þá kröfu að slík mismunun byggi á skýrum lagalegum grunni og að viðkomandi stjórnvald geti rökstutt þá ákvörðun ítarlega, en svo sé ekki í þessu tilfelli. Engum formlegum heimildum hafi verið til að dreifa og engar kvaðir hafi verið settar á lóðina í þá veru að hún yrði óbyggð um ókomna tíð.

Í ákvörðun Garðabæjar felist einnig brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Sveitarfélagið geti vel heimilað kæranda að skipuleggja byggð á lóðinni en jafnframt tekið ákvörðun í skipulagi um verndun náttúru, svo sem kostur væri, frekar en að hafna alfarið eðlilegum tillögum kæranda um að fá að deiliskipuleggja íbúðabyggð á lóðinni.

Málsrök Garðabæjar: Sveitarfélagið telur að ekki liggi fyrir nein kæranleg ákvörðun um að hafna beiðni kæranda um að fá að deiliskipuleggja lóð sína að Hrauntungu í Garðabæ, enda sé sú ákvörðun aðeins liður í meðferð máls. Væri slík ákvörðun aftur á móti til staðar þá hlyti hún að hafa verið tekin fyrir 7. september 2016 og væri þá kærufrestur löngu liðinn. Sama sé að segja um þá ákvörðun að synja athugasemdum kæranda við deiliskipulag fyrir Garðahraun, en þar sé um að ræða ákvörðun sem sé liður í meðferð máls og því ekki kæranleg til æðra stjórnvalds. Verði þetta talið leiða af 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá væri kærufrestur jafnframt löngu liðinn væri á annað borð um kæranlega ákvörðun að ræða. Samkvæmt framansögðu sæti hin kærða ákvörðun, svo sem henni er lýst í kæru, ekki kæru til æðra stjórnvalds og beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Af kröfugerð kæranda verði aftur á móti ráðið að fyrir honum hafi vakað að kæra breytingu á deiliskipulagi fyrir Garðahraun, en auglýsing um þá breytingu hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. október 2017. Verði kæran tekin til meðferðar á grundvelli kröfugerðar kæranda beri allt að einu að vísa frá einstökum liðum í henni sem falli utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar. Í aðalkröfu sé þess krafist að umrædd deiliskipulagsbreyting „verði felld úr gildi og þeim gert að veita kæranda heimild til að deiliskipuleggja lóð sína að Hrauntungu í Garðabæ, fnr. 2072677, fyrir íbúabyggð.“ Úrskurðarnefndin hafi ekki á valdi sínu að mæla fyrir um að veita beri kæranda heimild til að deiliskipuleggja lóð sína heldur sé vald nefndarinnar takmarkað við það eitt að endurskoða lögmæti kærðrar ákvörðunar, sem eftir atvikum geti leitt til þeirrar niðurstöðu að úrskurðarnefndin felli hana úr gildi. Taki þá við réttarástand sem ríkt hafi fyrir gildistöku umræddrar ákvörðunar. Varakrafa kæranda sé sama marki brennd, enda ekki á færi nefndarinnar að leggja fyrir bæjaryfirvöld að taka mál að nýju til efnislegrar meðferðar. Þá sé þrautavarakrafa kæranda þarflaus þar sem hið meira feli í sér hið minna og geti stundum komið til álita að fella kærða ákvörðun úr gildi að hluta til með tilliti til meðalhófs, þyki að öðru leyti vera uppfyllt skilyrði fyrir slíkri niðurstöðu.

Skipulagsvaldið sé í höndum sveitarstjórna og verði eigendur landa og lóða almennt að lúta málefnalegum ákvörðunum þeirra í því efni. Hafi kærandi ekki getað haft væntingar til þess að fá auknar heimildir til bygginga á svæði á þeirri forsendu að skipulagi hafi verið frestað vegna sérstakrar óskar fyrrum lóðarhafa um að svæðið yrði áfram nýtt til skógræktar sem hann hafi stundað þar. Breyti þar engu þótt svæðið sé skilgreint sem íbúðasvæði í aðalskipulagi, enda megi á slíkum svæðum gera ráð fyrir opnum svæðum, leiksvæðum, görðum og þjónustulóðum fyrir nærþjónustu án þess að það sé sérstaklega tilgreint á uppdrætti. Þá megi einnig benda á að í lóðarleigusamningi um lóðina Hrauntungu komi skýrt fram að aðeins sé leyfi til að byggja eitt íbúðarhús á lóðinni og að óheimilt sé að reisa aðrar byggingar á landinu.

Með hinu kærða deiliskipulagi sé gerð sú breyting varðandi lóð kæranda að hún sé tekin inn í deiliskipulag svæðisins í stað þess að skipulagi hennar sé frestað. Sé það til samræmis við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, sem ekki geri ráð fyrir að deiliskipulagi sé frestað varðandi tiltekinn hluta skipulagssvæðis, gagnstætt því sem geti komið til álita þegar um aðalskipulag sé að tefla. Þá sé í skipulaginu settur rúmur byggingarreitur á lóðina og heimild til byggingar íbúðarhúss í samræmi við skilgreinda landnotkun svæðisins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk hennar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin til endurskoðunar lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns. Hins vegar fellur það utan valdheimilda nefndarinnar að taka ákvörðun um að leggja fyrir sveitarfélagið að heimila kæranda að deiliskipuleggja umrædda lóð fyrir íbúðabyggð eða að málið verði tekið til efnislegrar meðferðar að nýju.

Vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Annast þær jafnframt og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. laganna. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga.

Samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016, sem var í gildi þegar hin kærða ákvörðun var tekin, er lóðin Hrauntunga á skilgreindu íbúðasvæði. Í skipulagsforsendum aðalskipulagsins kemur fram að í gildandi deiliskipulagi Garðahrauns sé gert ráð fyrir stækkun íbúðahverfis og þéttingu byggðar. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi um árabil reynt að fá umrædda lóð skipulagða fyrir íbúðabyggð, en lóðin er um 3,2 ha að stærð. Ekki verður talið að það gangi gegn aðalskipulagi Garðabæjar að heimila ekki frekari uppbyggingu á umræddri lóð, enda ber sveitarfélagi ekki skylda til þess að skipuleggja frekari uppbyggingu íbúða á öllum lóðum innan skipulagssvæðisins þrátt fyrir að það sé skilgreint sem íbúðasvæði í aðalskipulaginu.

Landeigandi getur á grundvelli 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað en hann á ekki lögvarða kröfu til þess að knýja á um að af breytingunni verði. Líkt og fyrr var rakið hafa sveitarstjórnir víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags en við beitingu þess valds ber þeim þó að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Sveitarstjórnir eru enn fremur bundnar af málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins.

Á kynningartíma umræddrar skipulagstillögutillögu sendi kærandi inn athugasemdir þar sem hann ítrekaði ósk sína um uppbyggingu íbúðabyggðar á lóð sinni. Í svari sveitarfélagsins við athugasemdum hans segir: „Fyrrverandi lóðarhafi lagði áherslu á að hafa lóðina óbyggða og varðveita gróðurinn sem hann hafði lagt sál sína í að rækta. Ákveðin gæði eru fólgin í slíku umhverfi sem skipulagið varðveitir og í því felst enginn mismunur gagnvart lóðarleiguhafa sem áfram hefur sinn rétt samkvæmt leigusamningi um að byggja eitt hús.“ Telja verður að við ákvörðun um skipulag tiltekins svæðis geti sveitarfélag ekki látið niðurstöðu sína ráðast af vilja fyrrum lóðarleiguhafa um uppbyggingu á lóðinni. Aftur á móti verður sú afstaða sveitarfélagsins að vilja varðveita þau gæði sem felast í lítt byggðri lóð innan svæðisins í sjálfu sér ekki talin ómálefnaleg.

Deiliskipulag Garðahrauns er frá árinu 2003 og var í því gert ráð fyrir töluverðri uppbyggingu í íbúðahverfi sunnan Álftanesvegar. Deiliskipulaginu hefur frá þeim tíma verið breytt nokkrum sinnum, m.a. var gerð á því veruleg breyting á árinu 2008 vegna nýs Álftanesvegar. Lóðin Hrauntunga var ekki innan deiliskipulagssvæðisins fyrr en við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Í greinargerð breytingarinnar er því lýst að töluverðar breytingar, s.s. á gatnamótum og legu stofnstíga, hafi orðið við endanlega útfærslu á nýjum Álftanesvegi. Sunnan gamla Álftanesvegar, nú Garðahraunsvegar, hafi nýframkvæmdir verið óverulegar og ekki verið byggt á nýjum lóðum, þar sem húsagötur hafi ekki verið fullgerðar, enda hafi sumar tengingar breyst vegna tilgreindra gatnaframkvæmda. Er tiltekið að nefnd atriði hafi m.a. leitt til þess að ákveðið hafi verið að uppfæra gögn skipulagsins í heild, bæði uppdrátt, skipulagslýsingu og skipulagsskilmála. Í deiliskipulagsbreytingunni felst fyrst og fremst breyting á legu gatna. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á deiliskipulagssvæðinu, en þó er gert ráð fyrir einni nýrri lóð við götuna Steinprýði á svæði þar sem uppbygging var fyrirhuguð allt frá gildistöku upprunalegs deiliskipulags árið 2003. Að framangreindu virtu verður ekki á það fallist að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er tekið fram í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar að gert sé ráð fyrir þeim möguleika að lóðinni Hrauntungu, sem og annarri stórri lóð, verði skipt í smærri lóðir með sambærilegu skipulagi og þar sé lýst. Verður að telja að með því móti hafi verið komið í nokkru til móts við óskir kæranda og meðalhófs verið gætt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin þeim form- eða efnisgöllum sem valdið geta ógildingu hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns.

Mál nr. 14/2011 Akureyri endurupptaka

Með

Ár 2014, fimmtudaginn 11. september, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 eins og ákvæðið var fyrir breytingu með lögum nr. 131/2011 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7, Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2011 Einar Guðmann,  Hlíðargötu 5, Akureyri gegn Akureyrarkaupstað.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I.  Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 29. júní 2011, kærði Einar Guðmann, hér eftir nefndur kærandi,  ákvörðun Akureyrarkaupstaðar ,  hér eftir nefndur kærði, sem fólst í setningu samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011, sem m.a. hefur að geyma ákvæði sem bannar hundahald í Grímsey.  Kærandi krafðist þess að ákvæði það sem bannar hundahald í Grímsey yrði úrskurðað ógilt og hélt því fram að ekki hafi verið gætt að skilyrðum laga og góðrar stjórnsýslu við setningu samþykktarinnar.  Kærði krafðist þess aðallega að kæru málsins yrði vísað frá úrskurðarnefndinni vegna óskýrleika krafna kæranda og/eða skorts á lögvörðum hagsmunum hans. Til vara krafðist kærði þess að kröfu kæranda yrði hafnað vegna aðildarskorts og/eða sökum þess að ákvæði í samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað, sem banni hundahald í Grímsey, væri lögmætt og málefnalegt og hefði auk þess hlotið löglega meðferð.

Kveðinn var upp úrskurður í málinu þann 10. nóvember 2011. Úrskurðarorðið var svohljóðandi:

„Staðfest er sú ákvörðun Akureyrarbæjar um að banna hundahald í Grímsey með þeim hætti að hvort tveggja sé bannað að þar dvelji hundur og að þangað komi hundur í heimsókn. Staðfest er að gætt hafi verið þeirra formskilyrða fyrir setningu samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011 sem heyra undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Vísað er frá úrskurðarnefndinni ágreiningi um hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra skuli leita umsagnar Umhverfisstofnunar og ágreiningi er varðar kosningar um hundahald í Grímsey“.

Um kröfur sem nú eru til meðferðar vísast til kafla II.

II.  Málsmeðferð

Kæra málsins er dagsett 29. júní 2011 og byggir hún á kæruheimild í 4. mgr. 19. gr. samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.  Í kæru gerir kærandi grein fyrir að hann hafi einnig sent bréf til Umhverfisráðuneytisins.  Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 14. júlí 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu.  Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 11. ágúst 2011.  Úrskurðarnefndin kynnti kæranda greinargerð kærða og gaf honum kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum af sinni hálfu. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 2. september 2011. Úrskurðarnefndin kynnti athugasemdir kæranda fyrir kærða með bréfi, dags. 9. september 2011.  Þann 16. september 2011 barst tölvupóstur frá kærða þar sem áréttuð voru þau sjónarmið sem kærði hafði gert grein fyrir í greinargerð sinni og tekið fram að ekki yrðu gerðar frekari athugasemdir af hans hálfu. Kveðinn var upp úrskurður í málinu þann 10. nóvember 2011 eins og að framan greinir.

Kærandi beindi kvörtun til  Umboðsmanns Alþingis vegna niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt áliti Umboðsmanns frá 19. ágúst 2013 í máli nr. 7024/2012 er frávísun úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir á þeim þætti stjórnsýslukæru kæranda er laut að því hvort 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 um hundahald í Akureyrarkaupstað hefði verið sett með réttum hætti ekki í samæmi við lög.

Með bréfi Umboðsmanns Alþingis til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. október 2013 var óskað svara við eftirfarandi fyrirspurn:  „Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar var vísað frá nefndinni ágreiningi um hvort  1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra skuli leita umsagnar Umhverfisstofnunar. Segir í forsendum úrskurðarins að nefndin telji sig ekki vera bært stjórnvald til að úrskurða um hvort ráðherra, sem æðsta stjórnvald á viðkomandi sviði, hafi verið skylt að leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en ráðuneyti hans staðfesti umrædda samþykkt um hundahald vegna mögulegra nýmæla í samþykktinni.  Í tilefni af þessari niðurstöðu var óskað að nefndin veitti nánari upplýsingar um á hvaða lagagrundvelli sú afstaða nefndarinnar væri reist að það falli utan hennar valdsviðs að taka afstöðu til hvort ráðherra hafi við staðfestingu samþykktar sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998, gætt ákvæða 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laganna“.

Svar úrskurðarnefndarinnar við bréfi Umboðsmanns Alþingis er dags. 11. janúar 2013. Í svarinu kemur fram að ákvörðun nefndarinnar hafi byggt á því að Umhverfisráðherra væri æðsti handhafi á því sviði sem málið varðaði og þar með væri úrskurðarnefndin ekki bært stjórnvald til að endurskoða ákvarðanir hans. Niðurstaðan grundvallaðist á þeirri meginreglu sem fram kæmi í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæruheimildir séu til æðri stjórnvalda. Á grundvelli þeirrar meginreglu taldi úrskurðarnefndin sér ekki fært að endurskoða ákvörðun Umhverfisráðherra um hvort leita hefði átt umsagnar Umhverfisstofnunar áður en ráðuneyti hans staðfesti samþykkt þá er málið varðaði.

Með bréfi Umboðsmanns Alþingis til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. febrúar s.l. kemur fram að Umboðsmaður hafi mælst til þess að nefndin tæki mál kæranda fyrir að nýju kæmi fram beiðni um það frá honum.  Slík beiðni hafi komið fram frá kæranda  og er því óskað eftir að nefndin upplýsi hvort beiðnin hafi orðið tilefni frekari viðbragða af hálfu nefndarinnar.

Beiðni kæranda um að málið verði tekið fyrir að nýju var áframsend úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með bréfi þeirrar nefndar dags. 19. febrúar 2014 var erindi kæranda endursent úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir með vísan til ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 130/2011 og kynnt að kærandi yrði upplýstur um það.  Byggðist það á því áliti úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að ekki væri um nýtt mál að ræða heldur endurupptöku og að ljúka skyldi efnismeðferð málsins hjá því stjórnvaldi sem tók umrædda ákvörðun.

Í beiðni kæranda um að málið verði tekið fyrir að nýju er farið fram á að málið verði tekið fyrir í ljósi álits Umboðsmanns Alþingis þess efnis að frávísun úrskurðarnefndarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög. Einnig að nefndin taki til athugunar hvort takmörkun sú sem falin er í algjöru hundabanni í Grímsey sé brot á Evrópusáttmála um gæludýr, European Convention for the Protection of Pet Animals,  eða Rómarsáttmálanum um gæludýr sem Ísland er aðili að í ljósi þess að Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru aðilar að sáttmálanum.  Óskað er álits á því hvort um er að ræða brot á umræddum sáttmálum ef það falli undir hlutverk nefndarinnar.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til Umhverfis- og Auðlindaráðuneytis sem barst ráðuneytinu 9. apríl 2014 var óskað eftir umsögn um það hvort ráðuneytið hafi leitað umsagnar Umhverfisstofnunar um umrætt ákvæði og hafi það ekki verið gert hver hafi verið ástæða þess. Svar ráðuneytisins barst þann 1. júlí s.l. með bréfi dags. 27. júní 2014.

Með vísan til alls framangreinds er endurupptekin sú niðurstaða nefndarinnar að vísa frá úrskurðarnefndinni ágreiningi um hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og ágreiningi er varðar kosningar um hundahald í Grímsey“.

III.  Málsatvik

Frá málsatvikum er greint í fyrirliggjandi úrskurði nefndarinnar frá 10. nóvember 2011 en þau eru í stuttu máli eftirfarandi:

Akureyrarkaupstaður og Grímseyjarhreppur sameinuðust í eitt sveitarfélag 1. júní 2009.  Við sameiningu sveitarfélaganna var í gildi samþykkt um hundahald á Akureyri nr. 360/2001.  Formleg ákvörðun um hundahald í Grímsey liggur ekki fyrir meðal gagna málsins en af gögnum má draga þá ályktun að það hafi verð útbreidd vissa manna að hundahald væri bannað í eynni.  Þann 28. mars 2011 birtist í B-deild Stjórnartíðinda samþykkt nr. 321/2011 um hundahald í hinu sameinaða sveitarfélagi, sem samþykkt hafði verið í Umhverfisráðuneytinu, nú Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, 14. mars 2011.  Í samþykktinni segir í 2. gr. að hundahald sé bannað í Grímsey og þar megi hundar hvorki dvelja né koma í heimsóknir en hundahald sé heimilað annars staðar í Akureyrarkaupstað að fengnu leyfi og að uppfylltum skilyrðum samþykktarinnar.

IV.  Málsástæður og rök kæranda

Ekki verða greindar aðrar málsástæður og rök en mál þetta varðar, þ.e. frávísun nefndarinnar á þeim ágreiningi hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og ágreiningi er varðar kosningar um hundahald í Grímsey.

Kærandi heldur því fram að kærði hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að kynna málið með viðunandi hætti auk þess sem kærði hafi ranglega haldið því fram að bann við hundahaldi hafi verið í gildi í Grímsey í 50 ár. Heldur kærandi því fram að ákvörðun um eldra bann hafi hvorki verið auglýst né samþykkt með lögformlegum hætti og því sé rangt að halda því fram að ekki sé um nýtt bann við hundahaldi í Grímsey að ræða.

Kærandi vísar til ákvæðis 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og kveðst telja að sveitarfélögum og ráðherra sé óheimilt að takmarka eða banna gæludýrahald hafi umsagnar Umhverfisstofnunar ekki verið leitað.

Kærandi telur ákvæðið sem bannar hundahald í Grímsey vera nýmæli og því hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar fyrir setningu þess.

Þá gerir kærandi í athugasemdum sínum athugasemd við kosningar um hundahald sem fram fóru í Grímsey vorið 2010 og heldur því fram að þá hafi ekki verið kosið um bann við gestkomandi hundum í eynni og hafi íbúum Grímseyjar ekki verið bent á að einnig stæði til að banna gestkomandi hunda.

Í beiðni kæranda um að málið verði tekið fyrir að nýju er farið fram á að málið verði tekið fyrir í ljósi álits Umboðsmanns Alþingis þess efnis að frávísun úrskurðarnefndarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög. Einnig að nefndin taki til athugunar hvort takmörkun sú sem falin er í algjöru hundabanni í Grímsey sé brot á Evrópusáttmála um gæludýr, European Convention for the Protection of Pet Animals  eða Rómarsáttmálanum um gæludýr sem Ísland er aðili að í ljósi þess að Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru aðilar að sáttmálanum.  Óskað er álits á því hvort um er að ræða brot á umræddum sáttmálum ef það falli undir hlutverk nefndarinnar.

V.  Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að samhliða sveitarstjórnarkosningum árið 2006 hafi farið fram atkvæðagreiðsla í Grímsey um tillögu um að afnema bann við hundahaldi sem gilt hefði í eynni í 50 ár.  Atkvæði hafi fallið þannig að hlynntir því að leyfa hundahald hafi verið 18 en 41 á móti og því hafi bann við hundahaldi verið áfram í gildi í Grímsey. Þegar Akureyrarkaupstaður og Grímsey hafi sameinast í eitt sveitarfélag á árinu 2009 hafi samþykktir og reglur Akureyrarkaupstaðar tekið gildi í hinu sameinaða sveitarfélagi samkvæmt ákvörðun ráðuneytis sveitarstjórnarmála og hafi engir sérstakir fyrirvarar verið gerðir á hundasamþykkt Akureyrarkaupstaðar við sameininguna. Á fundi samráðsnefndar Grímseyjar í sameiningarferli við Akureyrarkaupstað þann 26. janúar 2010 hafi verið bent á að rétt væri að íbúar í Grímsey kysu aftur um hunda- og kattahald í eynni.  Undir það hafi verið tekið af hálfu framkvæmdaráðs Akureyrarkaupstaðar á fundi þann 19. febrúar 2010 og á fundi bæjarráðs Akureyrarkaupstaðar þann 12. maí 2010 hafi spurningar á atkvæðaseðil verið samþykktar. Jafnhliða sveitarstjórnarkosningum þann 29. maí 2010 hafi farið fram atkvæðagreiðsla samkvæmt 5. mgr. 104 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 meðal íbúa Grímseyjar þess efnis hvort leyfa ætti hundahald í Grímsey. Hafi niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verið sú að 33 voru andvígir hundahaldi en 20 samþykkir hundahaldi.  Í kjölfar niðurstöðu kosninganna hafi verið gerð drög að nýrri hundasamþykkt fyrir hið sameinaða sveitarfélag. Hafi ný samþykkt verið rædd á fundum framkvæmdaráðs Akureyrarkaupstaðar, sem fari með málefni hundahalds í umboði heilbrigðiseftirlitsins, þann 3. og 17. september 2010 og drög að nýrri samþykkt verið send heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra til samþykktar.  Samþykkt um hundahald hafi síðan verið afgreidd frá framkvæmdaráði þann 17. nóvember 2010 og aftur þann 10. desember 2010 eftir breytingar í bæjarstjórn.  Tvær umræður hafi farið fram um samþykktina í bæjarstjórn, sú fyrri 7. desember 2010 en hin síðari 21. desember 2010 og hafi samþykktin þá verið samþykkt.  Umrædd samþykkt hafi síðan verið send Umhverfisráðuneytinu til samþykktar og ráðherra samþykkt hana þann 14. mars 2011.  Þann 28. mars 2011 hafi samþykktin verið birt í B-deild Stjórnartíðinda og þar með tekið gildi.

Í greinargerð kærða segir síðan að samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað hafi farið löglegan feril innan stjórnsýslu bæjarins samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og hafi hún verið samþykkt af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Samþykktin hafi hlotið þá löglegu meðferð sem krafist sé samkvæmt sveitarstjórnarlögum og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

Þá kemur m.a. fram í greinargerðinni að samkvæmt 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir geti sveitarfélög sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin.  Heimilt sé að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds.  Með vísan til niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar hafi bann við hundahaldi í Grímsey verið sett í nýja samþykkt um hundahald, sem staðfest hafi verið af Umhverfisráðuneytinu 14. mars 2011 og tekið gildi við birtingu í Stjórnartíðindum 28. mars 2011.  Þá er tekið fram að bann við hundahaldi í Grímsey styðjist við langa hefð og hafi hundahald verið bannað þar í 50 ár.

Varðandi athugasemdir kæranda við atkvæðagreiðsluna í Grímsey frá því í maí 2010 segir í greinargerð kærða að fyrir atkvæðagreiðsluna hafi öllum þeim sem höfðu lögheimili í Grímsey verið send gögn til kynningar um atkvæðagreiðsluna ásamt þeirri spurningu sem lögð yrði fyrir þá jafnhliða sveitarstjórnarkosningunum og þeir beðnir um að kynna sér málið vel.

Þá segir í greinargerðinni að rétt sé að bann við hundahaldi, sem verið hafi í Grímsey í 50 ár, hafi ekki verið sett í sérstaka samþykkt sem birt hafi verið í Stjórnartíðindum.  Þess vegna hafi verið nauðsynlegt að verða við vilja íbúanna um að láta fara fram nýja atkvæðagreiðslu árið 2010, þrátt fyrir að atkvæðagreiðsla sama efnis hafi farið fram árið 2006, og setja sérstakt ákvæði í nýja samþykkt um hundahald þar sem vilji meirihluta íbúanna hafi verið hafður að leiðarljósi.

Varðandi hvort leita hafi átt umsagnar Umhverfisstofnunar vísar kærði til þess að Umhverfisráðuneytið hafi ekki stöðu kærða í málinu.

Með tölvupósti bæjarlögmanns Akureyrar,  dags. 11. febrúar s.l. var því komið á framfæri að kærði myndi ekki koma að frekari gögnum í málinu og sæi ekki ástæðu til.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Þegar hefur verið tekin afstaða til krafna kærða í málinu á þá leið að staðfesta þá ákvörðun kærða að banna alfarið hundahald í Grímsey í samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011.

Eftir stendur að taka afstöðu til hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og til ágreinings er varðar kosningar um hundahald í Grímsey.

Sveitarstjórnum er heimilt að setja sér eigin samþykktir m.a. sem varða bann eða takmörkun gæludýra- og húsdýrahalds, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. sömu laga skal heilbrigðisnefnd semja drög að samþykktum og leggja fyrir viðkomandi sveitarstjórn sem afgreiðir þau í formi samþykktar til ráðherra.  Sé um nýmæli að ræða í samþykktum sveitarfélaga skal ráðherra leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en hann staðfestir samþykktina.  Samkvæmt 4. mgr. 25. gr. sömu laga skulu samþykktir sveitarfélaga birtar í B-deild Stjórnartíðinda á kostnað hlutaðeigandi sveitarfélaga.

Í málinu er um það deilt af hálfu málsaðila hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011, sem bannar hundahald í Grímsey, sé nýmæli eða ekki og þar með hvort ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en hann staðfesti samþykktina, sbr. ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Úrskurðarnefndin hefur engar athugasemdir við framkvæmd setningar samþykktar nr. 321/2011 og telur að gætt hafi verið þeirra formskilyrða sem sett eru fyrir setningu slíkra samþykkta í 1. málslið 2. mgr. og 4. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Vegna málsins óskaði úrskurðarnefndin eftir eftir umsögn um það hvort Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi leitað umsagnar Umhverfisstofnunar um umrætt ákvæði vegna staðfestingar á samþykktinni og hafi það ekki verið gert hver hafi verið ástæða þess. Svar ráðuneytisins barst þann 1. júlí s.l. með bréfi dags. 27. júní 2014. Í svarbréfi ráðuneytisins kemur fram að ekki hafi verið leitað umsagnar Umhverfisstofnunar vegna staðfestingar ráðherra á samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað. Einnig segir að „ákvæði 1. tl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir kveði á um að sveitarfélögum sé heimilt að banna gæludýrahald í samþykktum sínum. Í reglugerð nr. 1127/2007 um lögreglusamþykktir, sem gildi sem fyrirmynd að lögreglusamþykktum sveitarfélaga, sem komi í stað lögreglusamþykktar þar sem lögreglusamþykkt er ekki sett, sé auk þess hundahald í þéttbýli bannað í 30. gr. en sveitarstjórnum heimilað að kveða á um annað fyrirkomulag í sérstökum samþykktum á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í ljósi framangreindra laga- og reglugerðarákvæða hafi það verið mat ráðuneytisins að 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 ætti ekki við í málinu enda ekki um nýmæli í samþykktum sveitarfélags að ræða“.

Með vísan til alls framangreinds og allra málsatvika telur nefndin ekki unnt að líta svo á að ákvæði í umræddri samþykkt um bann við hundahaldi hafi falið í sér nýmæli og því hafi umhverfisráðherra ekki borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar.  Í málinu liggur fyrir að bann við hundahaldi í  Grímsey hafi verið almennt viðurkennt í u.þ.b. 50 ár hundahaldi í við setningu umræddrar samþykktar. Bannið í eynni byggist þannig á áratuga hefð. Þá liggur fyrir að árið 2006 fór óvefengjanlega fram atkvæðagreiðsla í eynni um tillögu um að afnema bann við hundahaldi.  Atkvæði féllu þannig að meirihluti íbúa var á móti því að afnema bannið. Eftir sameiningu við  Akureyrarkaupstað þótti rétt að íbúar í Grímsey fengju aftur tækifæri til að kjósa um hunda- og kattahald í eynni.  Þann 29. maí 2010 fór fram atkvæðagreiðsla þess efnis hvort leyfa ætti hundahald í Grímsey og var sem fyrr meirihluti íbúa því andvígur. Í kjölfar þessa var svo sett samþykkt um hundahald sem deilt er um í málinu. Úrskurðarnefndin tekur undir þau sjónarmið kærða að umrædd samþykkt feli ekki í sér nýtt bann við hundahaldi enda var ekki verið að breyta fyrirkomulaginu heldur staðfesta framkvæmd sem gilt hafði um langt árabil og sem íbúar höfðu kosið um. Þannig hafi ekki verið um nýmæli að ræða.

Með vísan til framanritaðs telur nefndin þannig að umhverisráðherra hafi ekki borið að bera ákvæði samþykktarinnar undir Umhverfisstofnun. Ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir um staðfestingu ráðherra á samþykktinni, felur í sér skyldu fyrir ráðherra til að endurskoða og hafa eftirlit með því að viðkomandi gerningur, í þessu tilfelli samþykkt sveitarfélags, sé lögmætur.  Við staðfestingu á samþykktinni bar ráðherra þannig að gæta þess að hún væri tekin af þar til bærum aðila að undangenginni lögmæltri málsmeðferð. Þá bar ráðherra að gæta þess að samþykktin hefði næga lagastoð og væri í samræmi við lög og grundvallarreglur stjórnsýsluréttar.

Þá liggur ekki annað fyrir en að eðlilega hafi verið staðið að kosningum meðal íbúa Grímseyjar um hundahald og kærandi hefur ekki ýnt fram á að framkvæmdin hafi leitt til óeðlilegrar niðurstöðu sem áhrif kunni að hafa haft í málinu. Tekið er undir röksemdir kærða hvað það varðar.  Fyrir liggur að kosningin snérist um bann við hundahald í eynni og felur það í sér að um algjört bann er að ræða.

Í beiðni kæranda um að málið yrði tekið fyrir að nýju var óskað eftir að nefndin taki til athugunar hvort takmörkun sú sem falin er í algjöru hundabanni í Grímsey sé brot á Evrópusáttmála um gæludýr, European Convention for the Protection of Pet Animals eða Rómarsáttmálanum um gæludýr sem Ísland er aðili að í ljósi þess að Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru aðilar að sáttmálanum.  Endurupptaka málsins er ekki nýtt mál heldur felur í sér að sama mál er tekið til meðferðar á ný.  Eingöngu er um að ræða endurupptöku á þeim þáttum sem vísað var frá nefndinni í úrskurði hennar þann 10. nóvember 2011. Ekki er unnt að koma að nýjum kröfum og röksemdum í málinu enda hefur nefndin þegar tekið efnislega afstöðu til ágreiningsins.  Nefndin telur sig ekki bæra til að taka afstöðu til þessara krafna.

Úrskurðarorð:

Talið er að ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 feli ekki í sér nýmæli sem leiða hefði átt til þess að ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar um samþykktina. Talið er að eðlilega hafi verið staðið að kosningum um hundahald í Grímsey.

Hafnað er að taka afstöðu til hvort takmörkun sú sem falin er í algjöru hundabanni í Grímsey sé brot á Evrópusáttmála um gæludýr, European Convention for the Protection of Pet Animals,j eða Rómarsáttmálanum um gæludýr sem Ísland er aðili að í ljósi þess að Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru aðilar að sáttmálanum.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                                                                        Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 9/25/14