Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2005 Úrskurður vegna kæru Hreins Pálssonar gegn Bláskógabyggð.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005 föstudaginn 18. nóvember, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7 í Reykjavík. Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2005 Hreinn Pálsson, Asparteigi 2, 270 Mosfellsbæ gegn Bláskógabyggð.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I.

Stjórnsýslukæra Hreins Pálssonar, Asparteigi 2, 270 Mosfellsbæ er dags. 27. apríl, 2005. Kærð er stjórnvaldsákvörðun Bláskógabyggðar á rotþróargjaldi fyrir árið 2005 vegna sumarhúss Hreins, B-gata lóð 17 í landi Miðdals í Bláskógabyggð. Þess er krafist að ákvörðun um rotþróargjald verði felld úr gildi. Þá er og krafist lækkunar á sorphirðugjaldi og að það verði ákvarðað í samræmi við birta og gildandi gjaldskrá sveitarfélagins. Hreinn er hér eftir nefndur kærandi, en Bláskógabyggð kærði.. Kærða var sent afrit af gögnum kæranda með bréfi dags. 16. maí s.l. Svarbréf kærða er dags. 20. júní s.l. Var svarbréf það sent kæranda til umsagnar og sendi hann svarbréf dags. 12. júlí 2005. Stjórnsýslukæru fylgdu eftirfarandi gögn:

1) Afrit af seðli um álagningu fasteignagjalda 2005.

2) Afrit af bréfi kærða, skýringar á álagningarreglum fasteignagjalda fyrir Bláskógabyggð árið 2005.

Greinargerð kærða fylgdu eftirfarandi gögn:

1) Samþykkt Bláskógabyggðar, samþykkt Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 15. febrúar 2005 og auglýsing umhverfisráðuneytis í Stjórnartíðindum

B 53/2005.

2) Gjaldskrá vegna seyrulosunar frá nóvember 2004, samþykkt Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 15. mars, 2005 og auglýsing í Stjórnartíðindum.

3) Upplýsingar og staðreyndir, Umhverfisstofnun maí 2005.

4) Gjaldskrá vegna sorphirðu í Bláskógabyggð.

II.

Í stjórnsýslukæru dags. 27. apríl 2005 gerir kærandi þær kröfur að úrskurðarnefnd felli úr gildi stjórnvaldsákvörðun kærða um álagningu rotþróargjalds á kæranda vegna sumarhúss kæranda við B-götu lóð 17 fyrir árið 2005. Þá er þess og krafist að sorpgjald verði lækkað og ákvarðað í samræmi við birta og gildandi gjaldskrá kærða.

Málavöxtum lýsir kærandi svo að hann séi eigandi sumarhúss í landi Miðdals. Hafi honum fyrir nokkrum dögum borist í pósti ódagsettur álagningarseðill fasteignagjalda svo og rotþróar- og sorpgjalds. Telji kærandi að sorphirðugjaldið hafi verið ákvarðað of hátt og ekki í samræmi við birta og gildandi gjaldskrá. Aftur á móti telji kærandi að rotþróargjald verði ekki lagt á þar sem til þess skorti allar heimildir. Gerir kærandi þær kröfur að kærði rökstyðji og leggi fram gildandi og birta gjaldskrá sem heimili kærða töku sorpgjalds og að fjárhæð sorpgjalds verði ekki ákveðin hærri en gjaldskrá segi til um. Krafist er ógildingar rotþróargjalds þar sem engin gild réttarheimild hafi verið til staðar til álagningar gjaldsins þegar það hafi verið lagt á. Þannig hafði samþykkt um gjaldið staðfest af umhverfisráðherra ekki verið birt þegar gjaldið hafi verið lagt á. Á sama máta hafði gjaldskráin ekki verið birt í Stjórnartíðindum. Því fari þessi álagningarháttur í bága við skýr fyrirmæli 5. mgr. 25.gr. laga nr. 7/1998 svo og 7. gr. l. nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldserinda.

Bendir kærandi á að fari svo að gjaldskráin verði birt áður en úrskurður í máli þessu sé uppkveðinn sé álagningin engu að síður ólögleg, þar sem hún sé þá afturvirk og taki til mánaða sem þegar séu liðnir. Vísar kærandi um ólögmæti afturvirkra álagningu þjónustugjalda til dóms Hrd. 1984:560.

Kærandi kveður að í öðru lagi sé því haldið fram að kærði hafi farið út fyrir valdheimildir sínar þegar hann hafi skyldað alla íbúða sveitarfélagsins til þess að kaupa af sér þjónustu um seyrulosun. Hvorki lög né reglugerðir geti leitt til þessarar niðurstöðu. Á hinn bóginn sé íbúum sveitarfélaga skylt að sjá til þess að seyrulosun sé í samræmi við lög og reglugerðir og hafi heilbrigðisfulltrúi og eftir atvikum starfsmenn sveitarfélaga löglegar heimildir til þess að hafa eftirlit með því og eftir atvikum að láta framkvæma seyrulosun á kostnað fasteignareiganda ef hann vanræki að kaupa að sér slíka þjónustu aðila sem hafi opinber leyfi til þess að sinna henni.

Kveður kærandi að hvernig sem á sé litið sé því álagning seyrulosunargjald ólöglegt og beri að ógilda það. Kærandi áskilur sé rétt til þess að koma að nýjum lagarökum og kröfum. Ennfremur að koma að andmælum við þau gögn sem kærði kunni að leggja fram.

Svarbréf kæranda v. greinargerðar kærða er dags. 12. júlí s.l. Ítrekar kærandi kröfur sínar, en gerir kröfu um að sorpgjald verði lækkað fyrir janúar til apríl 2005 og ákvarðað í samræmi við birta og þágildandi gjaldskrá kærða nr. 96/2004.

Kærandi ítrekar enn að kærði hafi farið út fyrir valdheimildir sínar þegar hann hafi tekið ákvörðun um að skylda alla íbúa sveitarfélagsins til þess að kaupa af sér þjónustu um seyrulosun. Hvorki lög né reglugerðir leiði til þessarar niðurstöðu. Slík íþyngjandi ákvörðun verði á grundvelli lögmætisreglunnar að eiga sér bæði skýra og ótvíræða lagastoð sem kærandi kveður ákvörðun ekki hafa, enda komi það ekki fram í greinargerð kærða. Bendir kærandi á að ekki megi rugla saman skorti á lagaheimild til þess fyrir kærða að þvinga borgara til að kaupa þessa þjónustu af kærða og þeirri skylda sumarhúsaeigenda að láta losa seyru hjá sér í samræmi við lög og reglur. Kveður kærandi að hinn einfaldi kjarni málsins sé að 25. gr. l. nr. 7/1998 veiti kærða ekki lagaheimild til þess að skylda fasteignareigendur kærða til þess að kaupa hjá sér þjónustu um seyrulosun. Á grundvelli lögmætisreglu gildi því frelsi borgaranna til þess að velja sér viðsemjanda svo lengi sem hann hefur tilskilin leyfi til þess að sinna slíkri þjónustu og farið sé að öðru leyti að gildandi lögum og reglum um seyrulosun.

Kærandi krefst þess til vara að rotþróargjald verði ógilt þar sem engin gild réttarheimild hafi verið til staðar til álagningar gjaldsins þegar það hafi verið lagt á. Þannig hafi samþykkt um gjaldið ekki verið birt í Stjórnartíðindum þegar gjaldið hafi verið lagt á. Eldri gjaldskrá hafi ekki heldur verið til staðar. Fari því þessi álagningarháttur í bága við skýr fyrirmæli 5. mgr. 25. gr. l. nr. 7/1998 svo og 7. gr. l. nr. 64/1943. Þá ítrekar kærandi og skýrir kröfur varðandi sorphirðugjald sem hafi verið ákveðið of hátt fyrir mánuðina febrúar til apríl og ekki í samræmi við gildandi gjaldskrá nr. 96/2004 og krefst hann því endurgreiðslu.

III.

Greinargerð kærða er dagsett 20. júní, 2005. Vísar sveitarstjóri kærða til þess að sveitarstjórn kærða hafi rætt ítarlega um losun seyru úr rotþróm. Vandamál þetta hafi farið vaxandi, en að auki hafi komið fram vitneskja um að losun hafi ekki verið sinnt og í kjölfar þess komið upp vandamál m.a. mengun vatnsbóla og sýkingar. Hafi málið orðið flóknara þar sem bændur með haugsugur hafi ekki heimild til að sjá um losun og urðun seyru heldur þurfi til þess viðurkenndar aðferðir og tækjabúnað. Til þess að uppfylla skyldur kærða hafi verið samþykktar reglur um seyrulosun, gjaldskrá og ennfremur hafi verkið verið boðið út og það tilkynnt sérstaklega með ýmsu móti. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi verið með í ráðum, enda þurfi samþykki þess til að koma að aflokinni umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjóri kærða kveður heimild kærða vera í 14. gr. rgl. um meðhöndlun seyru. Skv. 25. gr. l. nr. 7/1998 sé sveitarstjórnum heimilt að setja samþykktir og gjaldskrá um meðferð úrgangs og skólps. Sveitarstjóri bendir á að þó sveitarfélög hafi skýrar heimildir til þess að leggja á seyrulosunargjöld sé ljóst að heimildir sveitarfélags nái ekki til annars en að leggja á gjöld fyrir meiru en áföllnum kostnaði við þennan verkþátt. Er ennfremur bent á að ákvörðun kærða um seyrulosun sé tekin í ljósi brýnna heildarhagsmuna og í samræmi við lög og reglugerðir. Bendir kærði á að gjaldskrá vegna seyrulosunar sé byggð á greiðsludreifingu til þriggja ára sem eigi að nægja fyrir einni losun. Gjaldskrá kærða vegna næsta árs muni byggja á kostnaði vegna ársins 2005 og gjald vegna ársins 2007 á raunkostnaði áranna 2005 og 2006. Bent er ennfremur á að um sé að ræða árgjald en ekki mánaðargjald þó greiðslu sé dreift og innheimt um leið og fasteignagjöld. Sé framangreint skoðað í heild er það skoðun sveitarstjóra kærða að vísa skuli kröfum kæranda á bug, en til vara sé kærði tilbúinn til að greiða viðkomandi hlutfallslega af álögðu árgjaldi 2005 til þess tíma er auglýsing um gjaldskrá birtist í Stjórnartíðindum.

IV.

Ágreiningur máls þessa snýst um hækkun sorphirðugjalds annars vegar og hins vegar álagningu seyrulosunargjalds. Gjaldskrá kærða um sorphirðu var birt 27. apríl 2005. Gildistími hækkunar getur ekki verið fyrr en frá og með þeim tíma enda kemur fram í gjaldskrá fyrir 2005 að frá og með sama tíma falli úr gildi eldri gjaldskrá fyrir sorphirðu í Bláskógabyggð.

Í 14. gr. rgl. nr. 799/1999 kemur fram að sveitarstjórnir skuli sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm. Með tilvísan til þess og með tilvísun til 25. gr. l. nr. 7/1998 er sveitarstjórnum heimilt að setja samþykktir og gjaldskrá um meðferð úrgangs og sorps. Eru því heimildir kærða í samræmi við gildandi lög og reglugerðir og álagning gjalda vegna seyrulosunar einnig. Álögð gjöld mega þó aldrei vera hærri heldur en þjónusta sú sem veitt er.

Með tilvísan til framangreinds er það því niðurstaða nefndarinnar að kærða hafi ekki verið heimilt að krefja um hærri sorphirðugjöld fyrr en auglýsing um gjaldskrá var birt. Er því fallist á kröfu kæranda um að hækkun sé bundin birtingu gjaldskrár.

Eins og fram er komið eru álögð gjöld vegna seyrulosunar lögmæt.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfu kæranda um gildistíma auglýsingar um sorphirðugjald. Breyting á gjaldskrá tekur fyrst gildi með birtingu auglýsingar. Ekki er fallist á kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun kærða um álagningu seyrulosunargjalds.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                             Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 11/25/05

6/2005 Úrskurður vegna kæru Jóns Bergkvistssonar gegn Austurbyggð

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005, föstudaginn 11. nóvember kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur. Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2005 Jón Bergkvistsson gegn Austurbyggð.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I.

Erindi Jóns Bergkvistssonar, Búðavegi 10 A, 750 Fáskrúðsfirði er dags. 25. apríl 2005. Litið er á erindið sem stjórnsýslukæru og er því Jón hér eftir nefndur kærandi. Kærð er álagning Austurbyggðar (áður Búðahrepps) á álagningu sorphirðugjalds á fasteignir kæranda að Hlíðargötu 12 og Hafnargötu 41 á Fáskrúðsfirði. Austurbyggð er hér eftir nefnd kærði. Kærandi óskar eftir áliti á því hvort sveitarfélag geti innheimt sorphirðu- og sorpeyðingargjöld óháð því hvort þjónusta er innt af hendi eða ekki og ennfremur hvort kærandi teljist hafa greitt fullnægjandi fyrir sorphirðu með því að greiða gjöld v. þess húsnæðis sem hann býr í. Í ljósi þessa lítur úrskurðarnefnd svo á að kærandi geri kröfu um niðurfellingu sorphirðugjalds vegna fasteignanna Hlíðargötu 12 og Hafnargötu 41 á Fáskrúðsfirði. Kærða var sent afrit af gögnum kæranda með bréfi dags. 16. maí s.l. og sendi greinargerð ásamt gögnum með bréfi dags. 30. maí s.l. Bréfi kærða fylgdu eftirfarandi gögn:

1) Afrit af bréfi nefndarinnar ásamt kærubréfi kæranda.

2) Afrit af bréfi Austurbyggðar dags. 20. janúar 2005.

3) Afrit af bréfi kæranda dags 6. janúar 2005.

4) Afrit af bréfi umhverfisráðuneytis dags. 10. desember 2004.

5) Afrit af bréfi til kæranda dags. 19. október 2004.

6) Afrit af bréfi til umhverfisráðuneytis dags. 3. nóvember 2004.

7) Afrit af bréfi kæranda dags. 30. september, 2004.

8) Afrit af bréfi umhverfisráðuneytis dags. 15. september 2004.

9) Afrit af bréfi kæranda dags. 30. júlí 2004.

10) Afrit af bréfi kærða dags. 9. maí 2003.

11) Afrit af bréfi kærða dags. 10. mars 2003.

12) Afrit af bréfi kæranda dags. 3. mars 2003.

13) Afrit af bréfi kærða dags. 20. mars 2001.

14) Afrit af bréfi kæranda dags. 29. janúar 2001.

15) Afrit af bréfi kærða dags. 17. janúar 2001.

16) Afrit af úrskurði úrskurðarnefndar dags. 29. maí 2000.

17) Afrit af svari frá Sambandi ísl. Sveitarfélaga við fyrirspurn í kjölfar bréfs kæranda 30. september 2004 og bréfs Umhverfisstofnunar 15. september 2004.

18) Gjaldskrá fyrir sorphirðu í Austurbyggð 2005.

Gögn kærða voru send kæranda með bréfi dags. 9. júlí. Svarbréf kæranda er dags. 23. júlí 2005.

II.

Kærandi lýsir málavöxtum á þá leið að hann sé sjálfstæður atvinnurekandi með smábátaútgerð á Fáskrúðsfirði. Hann sé eigandi að einbýlishúsi að Hlíðargötu 12 og að einbýlishúsi að Búðavegi 10A á Fáskrúðsfirði. Þess utan sé hann eigandi að Hafnargötu 41 s.st. sem sé sjóhús með bátaskýli og bryggju. Hann kveður ekki hafa verið búið að Hlíðargötu 12 í fjölda ára og séu engin sorpílát við húsið og ekkert sorp hafi verið hirt þaðan. Ekki séu heldur sorpílát við Hafnargötu 41 og það litla sem til hafi fallið þar hafi kærandi sjálfur séð um losun á. Kveðst kærandi hafa búið að Búðavegi 10A ásamt aldraðri móður þar til hún féll frá á árinu 2003 en síðan hafi hann búið einn í húsinu. Kærandi kveður að fram til ársins 2001 hafi Austurbyggð fellt niður gjöldin af Hafnargötu 41 og Hlíðargötu 12 af ofangreindum ástæðum, þ.e. að sveitarfélagið hafi ekki þurft að veita neina sorphirðuþjónustu þeirra vegna.

Hinnn 17. janúar 2001 hafi sveitarstjóri kærða tilkynnt kæranda að heimild til niðurfellingar á sorphirðu- og sorpeyðingargjöldum hafi verið felld úr gildi og kæranda gert að greiða álögð gjöld á umræddar fasteignir. Þessu hafi kærandi strax mótmælt með bréfi dags. 29. janúar, 2001 þar sem ekkert hefði breyst varðandi búsetu eða notkun á viðkomandi húsnæði að Hlíðargötu 12 og Hafnargötu 41 og því væri þetta gjaldtaka fyrir þjónustu sem ekki hefði verið innt af hendi af sveitarfélaginu. Erindinu hafi verið hafnað af kærða. Í ársbyrjun 2003 hafi kærði breytt um aðferð og leggi tunnugjald kr.12.100 pr. tunnu í stað sorphirðu- og sorpeyðingargjalda. Hafi þá kærandi aftur mótmælt bréflega hinn 3. mars 2003 þar sem við tilgreindar fasteignir við Hlíðargötu og Hafnargötu hafi aldrei verið sorptunnur og að kærði hafi ekki séð ástæðu til að leggja þær til við þessi hús þar sem starfsmenn kærða hafi vitað að þeirra hafi ekki verið þörf. Hafi því kærandi óskað eftir því að fá tunnugjöldin felld niður þar sem enn væri um tilefnislausa gjaldtöku að ræða. Sveitarstjóri kærða hafi svarað þessu með því að láta starfsmenn sína fleygja tómum tunnum inn á lóðir viðkomandi húsa, væntanlega til að réttlæta gjaldtökuna. Kærandi hafi skilað þeim aftur í áhaldahús kærða þar sem þeirra hafi ekki verið þörf.

Kærandi kveður koma fram í samþykkt kærða 7. gr. að gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemi rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Gjöld skuli lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóti framangreindrar þjónustu. Vísar kærandi til þess að þar sem um sé að ræða gjald fyrir veitta þjónustu en ekki skatt veki það upp spurningar um lögmæti framangreindrar framkomu sveitarfélagsins. Vísar kærandi til þess að hann hafi áður sent mál þetta til félagsmálaráðuneytis sem hafi vísað því til umhverfisráðuneytis. Fram komi í áliti ráðuneytisins að sé engin þjónusta veitt af hálfu sveitarfélagsins sé að mati ráðuneytisins óheimilt að innheimta fyrir hana. Kærandi bendir á að kærði hafi ekki fallist á þessa niðurstöðu sbr. bréf hans dags. 20. júní 2005. Óumdeilt sé að á vegum kærða sé veitt sorphirðuþjónusta sem sitt kosti að reka, en þegar fyrir liggi í upphafi hvers árs að ekki sé þörf á þessari þjónustu vegna ofangreindra fasteigna líti kærandi svo á að sveitarfélagið sé vísvitandi að misskipta kostnaðinum. Kostnaðinum skuli skipta milli þeirra sem þjónustuna nota.

Þá telur kærandi að sveitarfélagið misbeiti valdi sínu með því að innheimta í einu lagi fyrir lögboðin fasteignagjöld og þjónustugjöld. Þar með sé íbúum gert ókleift að skilja á milli þessara gjalda við greiðslu og hafi forsvarsmenn sveitarfélagsins enga löngun til að leita svara við ágreiningsmálum. Fjármunir fyrir þjónustugjöld séu innheimtir í skjóli lögboðinna fasteignagjalda og ekki hlustað á neinar mótbárur. Því óskar kærandi eftir áliti á því :

1) Hvort sveitarfélag geti innheimt sorphirðu- og sorpeyðingargjöld óháð því hvort þjónustan sé innt af hendi eða ekki,

2) Hvort kærandi teljist ekki hafa greitt fullnægjandi fyrir sorphirðu með því að greiða af því húsnæði sem hann raunverulega býr í að Búðavegi 10A.

Með bréfi dags. 23. júlí s.l. svaraði kærandi framlögðum gögnum kærða í málinu. Telur kærandi að enn á ný hafi kærða mistekist að svara ágreiningsefninu. Vísar hann enn á ný til þess að ekki sé veitt þjónusta nema við eina fasteigna hans. Ítrekar kærandi að sorphirðugjöld hafi verið felld niður í nokkur ár af fasteignum hans að Hlíðargötu og Hafnargötu þar sem viðurkennt hafi verið að ekki hafi nein þjónusta verið veitt þar. Bendir hann á að óþolandi stjórnsýsluhættir séu að íbúar þurfi að búa við það að sveitarstjóri og sveitarstjórn geti ákveðið eftir því hvernig á þeim liggur hvort þjónusta teljist hafa verið veitt og hvort greiða skuli fyrir hana eða ekki. Kveður kærandi það von sína að úrskurðarnefnd taki undir það sjónarmið að slíkir stjórnsýsluhættir séu hverju sveitarfélagi til skammar burtséð frá því hver niðurstaða mála verði.

III.

Í bréfi kærða dags. 30. maí 2005 er vísað til meðfylgjandi gagna til rökstuðnings synjunar sveitarfélagsins á því að fella niður sorphirðugjöld af tveim fasteignum í eigu kæranda. Í svarbréfi kærða dags. 9. maí 2003 kemur fram að gjald fyrir sorphirðu og sorpeyðingu sé lagt á allar húseignir í hreppnum og fylgi þar með rétturinn til þess að fá þá þjónustu hvort sem hún sé mikið eða lítið nýtt. Gjald vegna þessa svari til gjalds fyrir eina tunnu og sé óháð fjölda íbúa og því hve stóran hluta árs eignin sé notuð. Gerir svo sveitarstjóri kærða grein fyrir því að kostnaður við sorphirðu og sorpeyðingu kærða sé miklu mun meiri en innkomnar tekjur. Er erindi hafnað með þeim rökum að í einni fasteigninni sé um að ræða vinnustað sem sé aðsetur starfsmanns og því skuli greitt fyrir sorphirðu og sorpeyðingu sem svari til gjalds fyrir eina tunnu. Þar falli til sorp vegna aðstöðu starfsmanna sem flokkist undir heimilissorp. Í bréfi kærða frá 20. mars 2001 kemur fram að rök fyrir því að ekki sé samþykkt að fella niður gjöld af öðrum eignum kæranda sé að sveitarfélagið sé skyldugt til að bjóða upp á þessa þjónustu að taka við sorpi og koma því fyrir með viðurkenndum hætti. Ekki sé gerður greinarmunur á því hvort eigandi eignar noti þjónustu mikið eða lítið eða ekki neitt, sama gjald sé á hverja eign. Þjónusta standi öllum til boða og lagt hafi verið í umtalsverðan stofnkostnað til að geta veitt þessa þjónustu í samræmi við lög og reglugerðir þar um. Telur kærði rétt að fram komi að þrátt fyrir álögð gjöld þá kosti þjónusta sveitarfélagsins töluvert meira en fáist við innheimtu þessara gjalda. Kærði leggur fram í málinu m.a. úrskurð úrskurðarnefndar frá árinu 2000. Í úrskurði þeim er vísað frá kæru vegna álagningar sorphirðugjalda þar sem fasteign var ekki í notkun.

IV.

Deilt er í máli þessu um álagningu sorphirðugjalda á fasteignir að Hliðargötu 12 og Hafnargötu 41 á Fáskrúðsfirði, sem báðar eru í eigu kæranda. Kærandi kveður ekkert sorp falla til vegna fasteignanna en kærði vísar til þess að sorp falli til vegna vinnustaðar starfsmanna að Hafnargötu 41 en kærandi kveðst sjálfur hafa séð um losun á því litla sem þar hafi til fallið.

Í 9. gr. l. nr. 45/1998 kemur fram að sveitarstjórnir hafi ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélag annast, að svo miklu leyti sem ekki séu settar um það reglur í löggjöf. Í 11. gr. rgl. um úrgang nr. 805/1999 kemur fram að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglubundinni tæmingu og flutningi heimilisúrgangs á viðkomandi svæðum. Í 25. gr. l.nr. 7/1998 segir m.a. að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim, enda falli þau undir lögin og síðar segir áfram að sveitarfélögum sé heimilt að setja gjaldskrá vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu en gjöld megi ekki vera hærri en nemur kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

Í samræmi við framangreint hefur kærði sett sér gjaldskrá fyrir sorphirðu í Austurbyggð, nr. 1087 frá 30. desember 2004.

Í samræmi við framangreint er litið svo á að sorphirðugjald sé bundið veittri þjónustu þó ekki komi slíkt fram í gjaldskrá kærða.

Nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 lítur svo á að sorphirðugjald sé bundið veittri þjónustu. Ekki kemur fram í gögnum málsins að ágreiningur sé með aðilum um hvort sorp falli til frá tilgreindum fasteignum. Verður því að líta svo á að ágreiningslaust sé að sorp falli ekki til vegna fasteignarinnar að Hlíðargötu 12 á Fáskrúðsfirði en að sorp falli til vegna Hafnargötu 41, enda sé það vinnustaður. Með tilvísan til þessa er fallist á kröfu kæranda varðandi sorphirðugjöld af Hlíðargötu 12 á Fáskrúðsfirði, en hafnað er kröfu kæranda um niðurfellingu sorphirðugjalda af Hafnargötu 41.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfu kæranda um að ekki beri að greiða sorphirðugjöld vegna fasteignar hans að Hlíðargötu 12 á Fáskrúðsfirði. Kröfu kæranda um niðurfellingu sorphirðugjalds af Hafnargötu 41 á Fáskrúðsfirði er hafnað.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                                Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 11/25/05

8/2004 Úrskurður vegna kæru Sláturfélag Suðurlands gegn Umhverfisstofnun.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005, miðvikudaginn 22. ágúst, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Gísli Gíslason, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr.  8/2004  Sláturfélag Suðurlands Fosshálsi 1, Reykjavík gegn Umhverfisstofnun Suðurlandsbraut 24, Reykjavík.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I

Stjórnsýslukæra Einars Arnar Davíðssonar hdl f.h. Sláturfélags Suðurlands, hér eftir nefnt kærandi er dags 9. desember, 2004.  Kærð er synjun Umhverfisstofnunar, hér eftir nefnd kærði,  á umsókn um heimild til notkunar á aukaefnum E 475, E 435 og E 127 í matvælaflokki 16.2 og 15.1.

Eftirtalin gögn fylgdu kærunni :

1)      Afrit af umsókn um heimild til notkunar aukaefna  (Bac´n Pieces-Bacon flavored chips).

2)      Afrit af umsókn um heimild til notkunar aukaefna  (Salad Toppings).

3)      Afrit af bréfi Umhverfisstofunar dags. 9. september, 2004, synjun umsóknar.

4)      Afrit af bréfi Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur dags. 28. október 2004.

5)      Afrit af bréfi Hollustuverndar ríkisins dags. 12. febrúar, 1991.

Afrit af gögnum kæranda voru send kærða,  Greinargerð kærða er dags. 9. febrúar 2005.  Kærandi gerði athugasemdir við þá greinargerð með bréfi dags. 28. febrúar, 2005.

II.

Lögmaður kæranda kærir synjun kærða á umsókn um heimild til notkunar á aukaefnum E 475, E 435 og E 127 í matvælaflokki 16.2 og 15.1  Kröfur kæranda eru:

1)      Að réttaráhrifum hinnar kærðu stjórnvaldsákvörðunar verði frestað meðan kæra sé til meðferðar úrskurðarnefndar.

2)      Að kæranda verði heimilt að nota aukaefnin E 127 (erýtrósýn), E 435 (Pólýocilen sorbitanmónósterat) og E 475 (Pólýglyserófitusýruesterar) í matvælaflokki 16.2  (Skreyting og vörur til yfirborðsmeðhöndlunar).

3)      Að kæranda verði heimilt að nota aukaefnið E 127 (Erýtrósýn), í matvælaflokki 15.1 (Naslvörur úr korni, kartöflum eða sterkju).

4)      Einnig er krafist að í niðurstöðu úrskurðarnefndar verði kærða gert að greiða kostnað við að hafa kæruna uppi.

Lögmaður kæranda kveður kæranda hafa um langt skeið flutt inn til landsins

og selt ýmsar vörur og matvæli.  Meðal annars vörurnar McCormick Bac´n Pieces-Bacon flavored chips 92. gr. og McCormick Salad Toppings 106 gr. frá bandaríska framleiðandanum McCormick.  Einnig Betty Crocker kökuskreytingakrem frá bandaríska framleiðandanum Signature Brands.  Vegna athugasemda kærða við umræddar matvörur hafi kærandi lagt umsóknir inn til kærða. Þeim umsóknum hafi verið hafnað.  Með bréfi Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur dags. 28. október, 2004 hafi kæranda verið gert að stöðva dreifingu á vörunum Betty Crocker kökuskreytingakremi frá Signature Brands, Bac´n Pieces-Bacon flavored chips frá McCormick og Salad Toppings frá Mc Cormick og innkalla vörurnar af markaði.

Rökstuðningur lögmanns kæranda um frestun réttaráhrifa er sá að kæran sé í

raun þýðingarlaus sé kærðri ákvörðun hrundið í framkvæmd áður en úrskurðarnefndin komist að niðurstöðu í málinu. Séu umræddar vörur kæranda teknar úr hillum matvörubúða sé nær tilgangslaust fyrir kæranda að nýta lögmæta heimild sína til að kæra ákvörðun kærða þar sem kærandi hafi þá þegar orðið fyrir tjóni.  Um þetta vísar lögmaður kæranda til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.  Kærandi telji að Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur eigi ekki að leita strangari leiða í framkvæmd sinni en nauðsyn beri til.  Vísar lögmaður kæranda til þess að við framkvæmd ákvörðunar skuli velja það úrræði sem vægast sé þar sem fleiri úrræða sé völ er þjónað gæti því markmiði sem að sé stefnt.  Þá er vísað til þess að stjórnvald gæti hófs í beitingu þess úrræðis sem valið sé.

Rökstuðningur lögmanns kæranda um kröfuliði 2 og 3 er sá að kærði hafi ekki litið til allra þátta við ákvörðun sína og að stofnunin hafi brotið 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kærandi vísi til meðfylgjandi umsókna um efnisinnihald og annarra staðreynda um vörurnar.  Sér í lagi að aukaefnin séu með öllu hættulaus jafnvel þó þeirra sé neytt í miklum mæli.  Þá vísar lögmaður kæranda til þess að hér á landi sé heimilt að selja rauð kokteilber, Cocktail Cherries frá framleiðandum Opies, sem innihaldi litarefnið E 127.  Vísi því kærandi til meginsjónarmiða um jafnræði.  Telur kærandi að þar sem heimilt sé að selja umrædd kokteilber með þessu litarefni sé kærða ekki stætt á að banna sölu á Bac´n Pieces-Bacon flavored chips, Salad Toppings og öðrum vörum sem innihaldi tilgreint litarefni.  Þá telur lögmaður kæranda það ekki samrýmast grundvallarmarkmiðum laga og reglna stjórnsýslunnar að mismuna matvælainnflytjendum á þann hátt sem að ofan greini.  Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga sérstaklega 1. liðar 2. mgr. telur kærandi að kærði hafi ekki rökstutt ákvörðun sína nægilega.  Sé það óskiljanlegt hvernig vara sem til margra ára hafi verið seld hér á landi sé nú orðin ólögleg.

Lögmaður kæranda greinir frá því að allt frá því honum bárust athugasemdir kærða vegna umræddra vörutegunda hafi hann leitað að vöru sem komið gæti í stað þeirra sem hin kærða ákvörðun beinist að.  Komið hafi í ljós að hvorki í Evrópu né Bandaríkjunum sé til vara sem komi í stað bakonlíkis (Bac´n Pieces-Bacon flavored chips).  Vísar lögmaður kæranda af þeirri ástæðu til sjónarmiða um meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.  Kærandi telur að af þeirri ástæðu ætti að gera enn strangari kröfur á hendur kærða fyrir að banna bakonlíkið.

Lögmaður kæranda bendir á að kærandi hafi undir höndum heimild frá Hollustuvernd ríkisins dags. 12. febrúar, 1991 til að selja bakonlíki (stytting á Bac´n Pieces Bacon flavored ships) með því skilyrði að límt sé yfir ”No cholesterol”.  Kærandi telur þessa heimild ekki hafa verið afturkallaða og því í fulu gildi.  Með vísan til efnisinnihalds umræddrar vöru og þeirrar staðreyndar að aukaefnin sem umsókn kæranda beindist að séu með öllu hættulaus telur kærandi að kærði hafi með ákvörðun sinni brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.  Kærandi telur að stofnunin eigi ekki að leita strangari leiða í framkvæmd sinni en nauðsyn beri til og við framkvæmd ákvörðunar skuli velja það úrræði sem vægast sé þar sem fleiri úrræða sé völ er þjónað geta því markmiði sem að sé stefnt.  Þá er vísað til þess að kærði eigi að gæta hófs í beitingu þess úrræðis sem valið sé.

Lögmaður kæranda gerir þá kröfu að nefndin taki fram í niðurstöðu sinni að kærði beri kostnað kæranda við að hafa kæruna uppi.  Farið er fram á að nefndin ákvarði upphæð greiðslu kærða til kæranda skv. mati sínu og að fjárhæðin sé tiltekin í niðurstöðu nefndarinnar. Lögmaður kæranda ítrekar kröfur kæranda og áskilur sér rétt til frekari málsreifana, málsástæðna og lagaraka ef krafist sé.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða kemur fram að þar sem kærði og Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur hafi í raun orðið við kröfu kæranda sé ekki ástæða til þess að nefndin taki ákvörðun um þá kröfu að fresta réttaráhrifum meðan á meðferð málsins standi.  Lögmaður kæranda telur að í málavaxtalýsingu kærða sé ekki getið um samskipti kærða og kæranda áður en kærða hafi borist umsókn kæranda um leyfi á grundvelli 10. gr.  Þyki því rétt að fjalla nánar um forsögu þess að umsókn hafi verið send kærða.  Eins og fram komi í kæru hafi kærandi um langt skeið flutt inn og selt þær vörur sem mál þetta snúist um.  Hafi kærandi fengið tilkynningu frá kærða þess efnis að hann gæti ekki haldið áfram innflutningi og dreifingu á nokkrum vörum nema að sótt yrði um leyfi á grundvelli 10. gr.  Kveður lögmaður kæranda að látið hafi verið að því liggja að slík umsókn væri aðeins formsatriði en greiða þyrfti gjald fyrir. Hafi kærandi skv. leiðbeiningum kærða sótt um heimild til að nota ofangreind aukefni en hafi verið hafnað.  Kærandi bendir á að fram komi í greinargerð kærða að það sé álit hans að við túlkun á 10. gr. rgl.nr. 285/2002 beri að líta til orðalags 5. gr. tilskipunar 89/107/EBE.  Kærandi hafnar túlkun kærða á þessu og bendir á að í ljósi forsögu málsins telji hann að með túlkun sinni á 10. gr. rgl. nr. 285/2002 fari kærði gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sér í lagi 7. gr. um leiðbeiningarskyldu.  Kærði hafi yfirumsjón með opinberu eftirliti með framleiðslu og dreifingu matvæla hér á landi og hefði á auðveldan hátt getað greint kæranda frá “túlkun” sinni strax í upphafi og með því sparað kæranda tíma og peninga. Í stað þess hafi kærði leitt kæranda út í kostnaðarsamar aðgerðir sem hafi valdið honum miklu fjárhagslegu tjóni.  Með því að gefa til kynna að kæranda yrði veitt bráðabirgðaleyfi til notkunar aukefna sem ekki samræmdist aukefnalista hafi kærði gefið kæranda tilefni til að ætla að hann gæti áfram verslað með umræddar vörur.  Hafi kærandi tekið mið af því í áætlanagerð sinni.

Kveður kærandi að með hliðsjón af 12. gr. stjórnsýslulaga og vinnubrögðum kæranda telji kærandi að nefndin ætti að heimila notkun á aukefnum skv. kröfuliðum 2 og 3 í kæru.

Kærandi vísar á bug tilvísunum kærða í norrænar vinnunefndir og birtar greinar.  Upplýsingaskylda hvíli á kærða og hefði kærði viljað byggja á tilvitnuðum gögnum hefði honum mátt vera ljóst að slík gögn hefðu átt að fylgja greinargerð hans.   Kærandi ítrekar að hann hafi undir höndum heimild frá Hollustuvernd ríkisins dags. 12. febrúar 1991 til að selja Bakonlíki með því skilyrði að límt sé yfir “No Cholesterol”, sbr. fylgiskjal 5.  Breyting á reglugerð breyti ekki þessari heimild.  Kærandi telji þessa heimild ekki hafa verið afturkallaða og því enn í fullu gildi.

Kærandi bendir á að það komi fram í greinargerð kærða að kærandi eigi að bera allan kostnað við að hafa kæruna uppi.  Í nokkrum lögum sé að finna heimild til að taka gjald af aðilum kærumáls.  Það leiði af lögmætisreglunni að kærugjald verði ekki tekið af aðilum kærumáls nema til grundvallar slíkri ákvörðun liggi ótvíræð lagaheimild.  Þar sem ekki sé skýr heimild til þess að taka gjald af kæranda fyrir að hafa kæruna uppi, komi slíkt ekki til álita hjá nefndinni.

Kærandi mótmælir þessu. Varðandi kröfulið 4 í kæru vísar kærandi til rökstuðnings um aðdraganda þess að kærandi lagði fram umsókn um heimild til notkunar á aukefnum og framferðis kærða.

Kærandi vísar til þess að með orðalagi í greinargerð kærða hafi mátt ráða að frá upphafi hafi verið tilgangslaust fyrir kæranda að sækja um heimild.  Kærandi lýsir yfir endurkröfurétti á hendur kærða verði niðurstaðan gegn hagsmunum kæranda.

Lögmaður kæranda  ítrekar að heimila skuli kæranda að nota umsótt aukefni og ítrekar gerðar kröfur.

III.

Greinargerð kærða er dags. 9. febrúar, 2005.  Getur kærði þess fyrst að opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla sé í höndum heilbrigðisnefnda undir yfirumsjón kærða að svo miklu leyti sem það sé ekki falið öðrum.  Skv. 10. gr. rgl. nr. 285/2002 um aukefni í matvælum sé kærða falið að veita bráðabirgðaleyfi til notkunar aukefna sem ekki samræmist aukefnalista.  Því verði einungis fjallað um kröfuliði tvö og þrjú þar sem þeir kröfuliðir snúi að kærða.

Kærði kveður málavexti þá að umsókn hafi borist kærða frá kæranda á grundvelli 10. gr. rgl. nr. 285/2002 um aukefni í matvælum og hafi verið óskað leyfis kærða til að nota aukefnin E-127 í kafla 15.1 naslvörur úr korni, kartöflum og sterkju í aukefnalista í viðauka II með reglugerðinni.  Einnig hafi verið sótt um aukefnin  E 475, 435 og 127 í flokki 16.2 skreytingar og vörur til yfirboðsmeðhöndlunar.  Kærði hafi tekið ákvörðun 9. september 2004 þar sem hafnað hafi verið að heimila ofangreind aukefni í aðra matvælafloka en þá sem þegar séu tilgreindir í viðauka II með reglugerðinni.

Kærði bendir á að ákvæði 10. gr. rgl. sæki uppruna sinn í 5. gr. tilskipunar 89/107/EBE.  Þar segi að heimilt sé að að leyfa tímabundið á yfirráðasvæði landanna markaðssetningu og notkun á aukefni úr einhverjum þeim flokkum sem taldir séu í I. viðauka og séu ekki taldir með í skrá (þ.e. jákvæðum aukefnalista).  Það sé álit kærða að við túlkun á 10. gr. reglulgerðarinnar beri að líta til orðalags þessa ákvæðis tilskipunarinnar.  Í því felist að einungis sé mögulegt að veita bráðabirgðaleyfi fyrir þau aukefni sem ekki hafi þegar verið sett inn á aukefnalista í viðauka II.  Hafi tiltekið aukefni hins vegar verið tekið inn á skrána í tiltekna flokka sé ekki heimilt skv. 10. gr. að veita bráðabirgðaleyfi til að þau aukefni séu heimil í aðra flokka.

Kærði kveður verklagið, þegar ný efni séu tekin inn í aukefnalista, vera með þeim hætti sem vísað sé til í 5. gr. tilskipunnar 89/107/EBE en þar sé vísað til málsmeðferðar sem kveðið sé á um í 100. gr. Rómarsáttmálans.  Sé aukefni leyft sé það leyfi takmarkað við tiltekna flokka á jákvæða aukefnalistanum og gefin sé út tilskipun sem tekin sé upp í íslenskan rétt með breytingum á viðauka II með aukaefnareglugerð.

Heimild kærða til útgáfu bráðabirgðaleyfis á grundvelli 10. gr. rgl. skv. 5. gr. tilskipunarinnar byggi þannig á því sjónarmiði að ef ný aukefni komi til sögunnar sem Evrópusambandið hafi ekki tekið til skoðunar geti stofnunin veitt bráðabirgðaleyfi til tveggja ára meðan tekið sé til skoðunar hjá Evrópusambandinu hvort breyta eigi hinum jákvæða aukefnalista og setja inn hið nýja aukefni í skrána.  Við ákvörðun sína hafi kærði byggt á þessu lögmæta og málefnalega sjónarmiði þ.e. að einungis sé heimilt að veita bráðabirgðaleyfi fyrir aukefnum sem ekki hafa þegar verið leyfð í t.t. flokka í viðauka II.  Aukefnið E-127 sé leyft í eftirfarandi flokka í viðauka II með reglugerðinni : 4.3.3, 4.3.5 og 10.1  Aukefnið E-475 sé leyft í  eftirfarandi flokka : 3.2, 1.4.4, 1.7, 2.2.1.2, 2.3, 2.4, 4.3.7, 5.2, 5.3, 6.3, 6.5, 7.2, 10.2, 10.3, 10.4, 10.5, 13.3, 13.4, 13.6, 14.2.6.1, 14.3, 16.1 og aukefnið E-435 sé leyft í flokka : 2.2.1.2, 2.2.2, 2.3, 2.4, 3, 4.3.7, 5.2, 5.3, 6.5, 7.2, 10.5, 12.5, 12.6.1, 13.3, 13.4, 13.6 og 16.1.  Því hafi umsókn kæranda verið hafnað með þeim rökum að heimildin í 10. gr. nái einungis til nýrra efna, þ.e. efna sem ekki séu þegar á aukefnalista í viðauka II við reglugerð 285/2002, sbr. tilskipun ESB 89/107 frá 21. desember 1999 sem reglugerðin sé m.a. byggð á.  Þessi rökstuðningur komi fram í ákvörðun kærða með skýrum hætti.

Kærði bendir á að kærandi vísi til heimildar til að selja á markaði rauð kokteilber, coctail cherries frá enska framleiðandanum Opies, en ber þessi innihaldi litarefnið E-127.  Skv. viðauka II sé heimilt að nota umrætt aukefni í flokki 4.3.5 í 200mg/kg aðeins í kokkteil- og kirsuber.  Umrædd vara sé því lögleg á markaði og í fullu samræmi við ákvæði rgl. nr. 285/2002.

Kærði bendir á að fram komi í kærunni að aukefnin séu með öllu hættulaus.  Um það sé að segja hvað viðkomi E-127 að í úttekt norrænnar vinnunefndar um eiturefnafræði og áhættumat sem birtist í ritinu “Food additives in Europe 2000. Status of safety asessments of food additives presently permitted in the EU og sem aðgengilegt sé á heimasíðu Umhverfisstofnunar, komi fram að þrátt fyrir margar mismunandi rannsóknir sýni eiturefnafræðileg gögn m.a. frá Scientific Committee of Food að ADI gildi efnisins sé lágt og að notkun þess eigi að vera í algjöru lágmarki.  Þá komi jafnframt fram að ekki sé þörf á endurmati á aukefninu.  Kærði vísar til nefndrar heimildar frá Hollustuvernd ríkisns til að selja Bakonlíki, sem sent hafi verið Sláturfélagi Suðurlands í myndsendi 12. febrúar 1991.  Þegar umrædd heimild hafi verið send hafi verið í gildi reglugerð nr. 409/1988 um aukefni í matvælum og öðrum neysluvörum.  Skv. þeirri reglugerð hafi Hollustuvernd ríkisins veitt bráðabirgðaleyfi til notkunar aukefna hafi slíkt verið samþykkt af aukefnanefnd.  Ekkert leyfi hafi verið gefið út vegna umræddrar matvöru né hafi aukefnanefnd fjallað um vöruna.  Í myndsenda bréfinu hafi einungis verið vísað til þess að sem rétt var á þeim tíma að aukefnið E-127 hafi verið leyfilegt í flokk 16 í fylgiskjali með reglugerðinni.  Það hafi þó einungis gilt um búðinga og kökuskraut í magni 30mg/kg.

IV.

Kröfur kæranda eru að honum verði heimilað að nota aukaefnin E 127, E 435 og E 475 í matvælaflokki 16.2 (Skreyting og vörur til yfirborðsmeðhöndlunar).  Ennfremur að honum verði heimilað að nota aukefnið E 127 í matvælaflokk 15.1 /Naslvörur úr korni, kartöflum eða sterkju).  Lögmaður kæranda hefur fallið frá kröfu um frestun á réttaráhrifum kærðrar stjórnvaldsákvörðunar þar sem fallist hafi verið á hana af kærða.  Krafist er úrskurðar úrskurðarnefndar  um kostnað við að hafa kæruna uppi.

Úrskurðarnefndin hefur ekki vald til þess að ákvarða um kostnað og er því þeirri kröfu kæranda vísað frá.

Svo sem fram kemur í 10. gr. rgl. nr. 285/2002 um aukefni í matvælum hefur kærði heimild til að veita bráðabirgðaleyfi til tveggja ára fyrir aukefni sem ekki samræmast ákvæðum í aukefnalista.  Heimildin nær einvörðungu til nýrra efna, þ.e. efna sem ekki eru þegar á aukefnalista í viðauka II við reglugerð 285/2002, sbr. tilskipun ESB89/107 frá 21. desember 1988 sem reglugerðin byggir m.a. á.  Því er heimild kærða bundin framangreindum heimildum.  Samkvæmt því hefur kærði ekki heimild til að veita bráðabirgðaleyfi til tveggja ára, enda ekki um ný aukefni að ræða.  Þegar liggja fyrir í tilgreindri rgl. hver heimild er til notkunar á þeim aukefnum sem kærandi óskar eftir heimild að nota sbr. lista í viðauka II. í tilgreindri rgl.  Þar kemur ekki fram heimild til að nota aukefnið í þær vörur sem kærandi hefur flutt inn.  Með tilvísan til þess verður að staðfesta synjun kærða á umsókn kæranda.

ÚRSKURÐARORÐ:

Niðurstaða kærða um synjun á umsókn kæranda er staðfest.  Kröfu kæranda um kostnað við að hafa kæruna uppi er vísað frá.

                                                                                                                        Lára G. Hansdóttir

Gísli Gíslason                            Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 10/4/05

1/2005 Úrskurður vegna kæru Ólafur Guðmundsson gegn Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005,   föstudaginn  2. september, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Gísli Gíslason, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2005  Ólafur Guðmundsson gegn Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra Ólafs Guðmundssonar  hér eftir nefndur kærandi, er dags. 23. desember, 2004, en barst úrskurðarnefnd 5. janúar, 2005.   Kærð er ákvörðun Umhverfis- og heilbrigðisnefndar  Reykjavíkur, hér eftir nefnd kærði, um að kæranda beri að afla samþykkis beggja sameigenda sinna fyrir hundahaldi að Grenimel 6 í Reykjavík.

Gögn sem kærunni fylgdu eru :

1)      Afrit af úrskurði kærða dags. 23. september, 2004.

2)      Afrit af bréfi kærða dags. 23. september, 2004.

3)      Afrit af athugasemdum  kæranda við bréfi kærða dags. 22.júlí, 2004.

4)      Afrit af umsögn Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur vegna kæru kæranda til kærða vegna skilyrðis um samþykki sameigenda fyrir veitingu hundaleyfis.

5)      Afrit af greinargerð með kæru kæranda dags. 24. mars 2004.

6)      Afrit af kæru kæranda dags. 6. febrúar 2004.

7)      Afrit af úrskurði kærða í máli Birgis Jónssonar gegn Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

8)      Afrit af svarbréfi Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 25. ágúst 2003 vegna umsóknar um hundahald í Reykjavík.

9)      Afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 15. september 2003.

10)  Afrit af svarbréfi Umhverfis- og heilbrigðisstofu til kæranda dags. 12. október, 2003.

11)  Afrit af bréfi kæranda til Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 22. október, 2003

12)  Afrit af samþykki Huldu Jessen fyrir hundahaldi kæranda.

13)  Afrit af bréfi kæranda til Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 7. nóvember, 2003.

14)  Afrit af svarbréfi Umhverfis- og heilbrigðisstofu við umsókn um leyfi til hundahalds dags. 7. nóvember, 2003.

15)  Afrit af bréfi kæranda til Umhverfis- og heilbrigðisstofu  dags. 30. janúar, 2004.

16)  Afrit af bréfi Umhverfis- og heilbrigðisstofu til kæranda dags. 8. febrúar 2004.

17)  Afrit af bréfi kæranda til Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 3. mars, 2004.

Afrit af gögnum kæranda var sent kærða til umsagnar.  Gögn kærða voru send með bréfi póststimpluðu  4. maí 2005, en bréf er dags. 4. apríl, 2005.

II.

Kærandi kærir úrskurð kærða dags 23. september, 2004 um að honum beri að afla samþykkis beggja sameigenda sinna fyrir hundahaldi sínu að Grenimel 6 í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og verði ekki fallist á aðalkröfu sé þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og staðfest verði að kærða sé ekki á grundvelli samþykktar um hundahalds í Reykjavík nr. 52/2002 fært að binda útgáfu leyfis til kæranda til að halda hund á efri hæð í fjöleignarhúsinu að Grenimel 6 í Reykjavík, því  skilyrði að sameigendur þar lýsi sig samþykka hundahaldinu. Kærandi vísar um málavexti til fylgiskjals síns nr. 5, í meðfylgjandi gögnum.  Kveðst kærandi hafa afhent umsókn um leyfi til hundahalds hinn 23. ágúst 2003.  Hafi umsókn og fylgigögnum verið veitt viðtaka en starfsmaður Umhverfis- og heilbrigðisstofu hafi talið að veiting leyfis væri háð því skilyrði að lagt yrði fram samþykki eigenda íbúðar á neðri hæð fyrir hinu áformaða hundahaldi.  Kærandi kveður að þar eð umrædd skoðun hafi eigi verið í samræmi við ákvæði 13. tl. A-liðar 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og virðist ekki eiga stoð í ákvæðum samþykktar nr. 52/002 um hundahald í Reykjavík hafi undirritaður óskað eftir að fá gögn sem staðfestu réttmæti þessarar afstöðu starfsmanns. Komið hafi þá til annar starfsmaður Umhverfis- og heilbrigðisstofu sem hafi afhent útprentun af úrskurði kærða dags. 24. febrúar 2000.  Þegar kærandi hafi skoðað úrskurðinn hafi hann ekki getað séð að hann styddi staðhæfingar um nauðsyn á samþykki af hálfu eigenda íbúðarinnar á neðri hæð að Grenimel 6.  Þar eð sá úrskurður varði túlkun á ákvæðum eldri samþykktar um hundahald í Reykjavík eigi hann ekki við.  Þá komi það eitt fram í niðurstöðum úrskurðarins varðandi forsendur að talið sé að hlutaðeiganda hafi borið að afla samþykkis allra sameigenda í húsinu þar eð húsið sé fjöleignarhús skv. 5. gr. þágildandi samþykktar um hundahald í Reykjavík.  Telur kærandi því að þessi staða hafi ekki ein og sér átt að nægja til þess arna sbr. 13. tl. A- liðar 41. gr. l. nr. 26/1994 og því síður sé svo nú sbr. ákvæði 6. gr. 13. tl A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994.  Þá sé í niðurstöðum ekki umfjöllun um hvað sé talið felast í hugtakinu “sameiginlegur inngangur” sem fram komi í tilgreindum 13. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 hvað þá um hvað teljist “sérinngangur “ í skilningi ákvæða 2. mgr. 6. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002.  Því hafi kærandi talið að starfsmaður Umhverfis- og heilbrigðisstofu  hlyti að hafa gert mistök með því að afhenda honum umræddan úrskurð.

Kærandi kveður Umhverfis- og heilbrigðisstofu hafa með bréfi dags. 25. ágúst 2003 krafið sig um að afla samþykkis eigenda neðri hæðar að Grenimel 6 vegna hundahalds.  Hafi þá kærandi svarað og bent á að afstaða stofunnar væri byggð á misskilningi og að eflaust ættu við ákvæði 2. mgr. 5. gr. samþykktar nr.52/2002 auk þess sem vísað hafi verið til ótvíræðra ákvæða 13. tl. 41. gr. laga nr. 26/1994.  Hafi kærandi óskað afgreiðslu umsóknar án frekari málalenginga en óskað þess að ef Umhverfis- og heilbrigðisstofa ætlaði að halda kröfu sinni til streitu yrði gerð skilmerkilega og ítarlega rökstudd grein fyrir grundvelli þeirrar afstöðu áður en frekara framhald yrði á málinu.  Kveður kærandi að bréf hafi borist frá Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 12. október 2003. Í bréfinu hafi verið slíkar mótsagnir að ekki hafi verið unnt að henda reiður á því hvert væri raunverulegt efni þess.  Hafi því kærandi sent svarbréf og bent á að slíkar sendingar yrði að skoða sem markleysu.  Kærandi lýsti þó að í ljósi aðstæðna og krafna um fjárútlát hafi hann talið ráðlegast að afla tímabundins samþykkis af hálfu eiganda íbúðarinnar á neðri hæð að Grenimel 6.  Hafi samþykki verið sent til Umhverfis- og heilbrigðisstofu.  Skömmu síðar hafi borist bréf forstöðumanns Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 7. nóvember 2003 um að ritvilla hafi verið í bréfi dags. 12. október 2003 en það væri meining stofnunarinnar að “aðkoma”að húsnæði kæranda að Grenimel 6 félli ekki undir þær kringumstæður sem lýst væri í 2. mgr. 6. gr. samþykktar nr. 52/2002.  Ekki hafi verið frekari skýringar í bréfinu en vísað væri til þess að samþykkt um hundahald sé sett með stoð í lögum nr. 7/1998 er veiti sveitarstjórnum heimild til að setja í samþykktir sínar ítarlegri kröfur en fram komi í sjálfum lögunum  eða reglugerðum settum samkvæmt þeim og að á grundvelli þessa sé skilyrði fyrir veitingu leyfis til hundahalds í fjöleignarhúsi í Reykjavík við þær aðstæður sem lýst er í 1. og 2. mgr. samþykktar um hundahald að samþykki sameigenda liggi fyrir.  Þá hafi mátt ráða af niðurlagsmálsgrein bréfsins að það fæli í sér ákvörðun af hálfu Umhverfis- og heilbrigðisstofu um að samþykki eigenda íbúðar á neðri hæð að Grenimel 6 yrði sett sem skilyrði fyrir veitingu leyfis til hundahalds í íbúð kæranda.

Kærandi bendir á að með bréfi til Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 30. janúar 2004 hafi hann krafist þess að þegar í stað yrði gengið frá afgreiðslu leyfis til hundahalds honum til handa og krafist skýringa á því af hverju það hefði ekki enn verið veitt, auk þess sem því var lýst yfir að áskilinn væri réttur til að krefjast endurgreiðslu gjalds sem greitt hafði verið.  Með bréfi Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 8. febrúar 2004 hafi verið greint frá því að afgreiðsla umsóknar hefði tafist vgna mistaka en úr því yrði bætt.  Ennfremur kom fram að sakir þess að afgreiðsla leyfisins hefði misfarist yrði ekki um að ræða gjaldtöku vegna ársins 2004.  Nokkrum dögum síðar barst bréf er innihélt skilríki til staðfestingar því að leyfi til hundahalds væri veitt.

Kærandi kveðst hafa kært ákvörðun Umhverfis- og heilbrigðisstofu um að binda veitingu leyfis því skilyrði að eigendur íbúðar á neðri hæð samþykktu hundahaldið til kærða.  Þá kveðst kærandi hafa sent Umhverfis- og heilbrigðisstofu bréf og gert grein fyrir þeim brestum sem hann teldi á málsmeðferð stofunnar og boðið að umrætt bréf frá 7. nóvember yrði tekið til baka og yrði þá kæran afturkölluð. Er ekki varð orðið við þessu boði hafi kærandi lagt fram ítarlega greinargerð með kærunni dags. 23. mars, 2004,  krafist ómerkingar vegna málsmeðferðarágalla, en til vara að staðfest yrði að 2. mgr. 6. gr. samþykktar nr. 52/2002 ætti við um hundahald í íbúð kæranda.  Orðið var við tilmælum kæranda um að fá í hendur “umsögn” Umhverfis- og heilbrigðisstofu vegna kærunnar, en við lestur hennar kveður kærandi hafa komið í ljós að stofan hafði algjörlega horfið frá fyrra grundvelli í málinu þ.e. að samþykkis sameiganda neðri hæðarinnar væri krafist þar sem inngangur íbúðanna teldist sameiginlegur og hefði því nú verið haldið fram að samþykkis væri þörf þar sem lóð væri sameiginleg.  Kærandi kveður að þessi afstaða hafi þó m.a. verið með öllu ósamrýmanleg hinu veitta leyfi til hundahalds sem hafði verið afgreitt án nokkurrar kröfu um samþykki eiganda kjallaraíbúðar í húsinu, sem lóð hússins hafi ekki síður verið tilheyrandi heldur en hæðunum tveim.  Hafi því kærandi sent ítarlegar athugasemdir og aðalkrafa um ómerkingu verið afturkölluð.  Kærandi hafi því kært ákvörðun Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur til kærða og sent með greinargerð dags. 24. mars, 2004 þar sem ítarleg grein hafi verið gerð fyrir málinu.

Kærði hafi fellt úrskurð sinn hinn 23. september s.l. og hafi úrskurðurinn borist kæranda 28. september s.l.  Í úrskurðarorðum komi fram að lagt sé fyrir kæranda að afla samþykkis beggja sameigenda sinna fyrir hundahaldinu.  Kærandi kveður að greindur úrskurður sé bæði efnislega rangur og auk þess afar óvandaður.  Ítarlegar efnislegar röksemdir kæranda fái þar enga umfjöllun og ábendingum um ágalla sé í engu sinnt og ekkert sé að því fundið að Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur hafi við kærumeðferð byggt afstöðu sína á öðrum grundvelli en við töku hinnar kærðu ákvörðunar.  Þá sé með úrskurðarorðum tekin ný ákvörðun en ekki lýst ákvörðun til kæruefnis, auk þess sem þau séu ósamþýðanleg áður veittu leyfi til hundahalds sem ekki hafi verið hróflað við.

Rök kæranda til stuðnings aðalkröfu.

Í kæru byggir kærandi aðalkröfu sína á hæfisskorti nefndarmanna kærða.  Um sé að ræða lögfræðileg atriði af því tagi sem ekki sé unnt að búast við að leikmenn valdi.  Telur kærandi úrskurðinn bera þess merki.  Þá byggir hann og á því að kærði hafi látið hjá líða að fjalla um og taka afstöðu til málsmeðferðar Umhverfis- og heilbrigðisnefndar, en kærandi hafi í greinargerð dags. 24. mars, 2004 lýst fjölmörgum ágöllum sem á ákvörðun virtust vera.

Kærandi vísar til þess að Umhverfis- og heilbrigðisstofu hafi borið að gæta ákvæða stjórnsýslulaga við meðferð mála eins og þessa.  Kærandi féll frá kröfu um ómerkingu úrskurðar í bréfi sinu dags. 22. júlí 2004. Telur kærandi að ekki sé til neins að láta Umhverfis- og heilbrigðisstofu  fjalla um málið að nýju.

Aðalkrafan sé og studd með vísan til þess að reifun málsástæðna í hinum kærða úrskurði dags. 23. september, 2004 sé bæði ófullnægjandi og beinlínis röng.  Fari því mjög fjarri að málsástæðum kæranda fram bornum í greinargerð dags. 24. mars, 2004 og í athugasemdum dags. 22. júlí sé lýst með fullnægjandi hætti í þeim fjórum setningum um þær sem séu fram settar í úrskurði kærða.  Þannig sé t.d. í engu vikið að því ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús sem séu höfuðundirstaða í röksemdafærslu kæranda.  Þá sé rangt með farið að fram hafi komið að kærandi telji “ómálefnalegt að og óréttmætt” það sjónarmið að túlka verði undanþágur frá banni við hundahaldi í Reykjavík þröngt með hagsmuni samborgaranna að leiðarljósi “  Hins vegar sé í athugasemdun kæranda dags. 22. júlí 2004 vísað til þess að tilfærð orð afhjúpi að starfsmenn Umhverfis- og heilbrigðisstofu láti við embættisfærslu sína stjórnast af því viðhorfi að hagsmunir þeirra sem andsnúnir eru hundahaldi hafi meira vægi en hagsmunir þeirra sem vilja halda hunda og þeirri skoðun síðan lýst að það viðhorf sé algjörlega ómálefnalegt og óréttmætt.

Þá sé aðalakrafan og sérstaklega studd með vísan til þess að kærði hafi alls ekki fjallað um helstu málsástæður kæranda viðvíkjandi efnishlið þeirra ákvörðunar er hinn kærði úrskurður varðar. Telur kærandi að mjög alvarlegur brestur sé uppi að þessu leyti þar eð ekki sé neina umfjöllun að finna í kærðum úrskurði um þá meginröksemd kæranda að ákvæði 13. tl. A liðar 41. gr. l.nr. 26/1994 um fjöleignarhús laga gangi framar ákvæðum samþykkta sveitarfélaga sem sett hafi verið grundvelli 25. gr. l. nr. 7/1998.  Tekið skuli fram að orð í úrskurðinum fengin úr dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. september 1999 í máli Jóns Guðmundssonar gegn Reykjavíkurborg, á þá leið að samþykki um hundahald í Reykjavík hafi næga lagastoð, hafi enga þýðingu í þessu sambandi þar eð kærandi byggi ekki á því að samþykkt um hundahald í Reykjavík, skorti lagastoð.  Þá sé ekki heldur fjallað um athugasemdir kæranda um að umhverfis- og heilbrigðisstofa hafi undir rekstri horfið frá fyrra efnisgrundvelli, og vísar kærandi til athugasemda sinna dags. 22. júlí 2004 um þetta málefni.  Kærandi bendir á að þegar ákvörðun stjórnvalds sé skotið til æðra stjórnvalds sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, beri hinu æðra stjórnvaldi að taka hina kærðu ákvörðun og þær ástæður sem kærandi færi fram, til sjálfstæðrar, óvilhallrar og hlutlægrar skoðunar.  Þá beri æðra stjórnvaldi að rökstyðja niðurstöðu sína í kærumáli. Kveður kærandi að ekki fáist staðist að í slíkum úrskurði sé látið hjá liða að fjalla um helstu ástæður sem kærandi byggi á.  Í máli þessu hafi úrskurðaraðili þó skotið sér undan þessu og sé svo sem kærða hafi fallist hendur gagnvart því verkefni að fjalla með rökstuddum hætti um efnishlið kæru.  Telur kærandi að hinn kærði úrskurður beri ekki með sér að kæran hafi hlotið óvilhalla og hlutlæga skoðun.

Aðalkrafan sé og studd þeim röksemdum að með úrskurðarorðum hins kærða úrskurðar hafi kærði tekið nýja ákvörðun en eigi lýst yfir afstöðu til fram kominna krafna.  Séu greind úrskurðarorð ósamþýðanleg veittu leyfi til hundahalds sem ekki hafi verið hróflað við.  Þá sé þversögn í því fólgin að kærði skuli annars vegar setja fram þá kröfu sem úrskurðarorð greina en hins vegar í engu finna að málsmeðferð Umhverfis- og heilbrigðisstofu.

Í athugasemdum kæranda dags. 22. júlí 2004 sé því lýst að aðkoma Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur að kærumeðferð kærða veki grun um að vera kunni að með fyrirmælum í 2. mgr. 1. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík um málsskotsrétt til kærða, sé í raun farið á svig við ákvæði 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Ennfremur sé þar lýst grunsemdum um að verið geti að Umhverfis- og heilbrigðisstofa komi að úrskurðum í eigin málum með þeim hætti að í bága fari við góða stjórnsýsluhætti eða jafnvel ákvæði stjórnsýslulaga og ennfremur að spurningar vakni um það hvort kærði reiði  sig að öðru leyti á liðsinni starfsmanna Umhverfis- og heilbrigðisstofu við undirbúning og vinnu að úrskurðum sínum í málum sem sú sama stofnun á aðild að.   Kærandi fer þess á leit, verði orðið við kröfu um ómerkingu að réttaráhrif hennar verði tilgreind, þ.e. t.d. hvort kærða beri þá að endurtaka málsmeðferð sína eða hvort slík endurmeðferð sé háð kröfu um að hún fari fram.

Rök til stuðnings varakröfu.

Kærandi vísar til verndar eignarréttar í 72. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 enda sé friðhelgi eignarréttar ein helsta stoð almennra mannréttinda.  Telur kærandi gildi tilvísaðrar lagagreinar ekki síst í því fólgið að hún leiði til þess að almennt beri að túlka þröngt þau ákvæði er setja eignarréttindum skorður.  Kærandi bendir á að um gagnkvæm réttindi og skyldur eigenda fjöleignarhúsa sé mælt fyrir um í l. nr. 26/1994 um fjöleignarhús.  Umrædd lög séu sérlög varðand sérsvið eignarréttarins.  Skv. 1. mgr. 2. gr. laganna séu ákvæði þeirra ófrávíkjanleg nema annað sé tekið fram í þeim eða leiði af eðli máls. Kveður kærandi að löggjafinn hér á landi hafi skipað réttindum og skyldum sameigenda fjöleignarhúsa með samræmdum hætti óháð því hvar á landinu eignir þeirra séu.  Til fyllingar lögunum standi hinar almennu ólögfestu  lagareglur eignarréttar, einkum reglur varðandi sameign sem og reglur grenndarréttar.  Vísar kærandi til þess að í lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 sé mælt fyrir um við hvaða aðstæður hundahald eiganda íbúðar í fjöleignarhúsi sé háð samþykki eigenda annarra eignarhluta, sbr. A-lið 41. gr. laganna þar sem upp séu talin þau tilvik er samþykki allra sameigenda fjöleignarhúss þurfi til ráðstöfunar.  Í 13. tl. A-liðar 41. gr. segi um að halda hunda og/eða ketti í húsinu að þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægi samþykki þeirra eigenda sem hafi sameiginlegan inngang, stigagang eða annað semeiginlegt húsrými.  Kærandi vísar og til athugsemdar með frumvarpi umræddra laga og þar komi fram að skýra beri gildissvið greinds A-liðar 41. gr. þröngri lögskýringu.  Með tilvísan til framangreinds sé rökrétt að álykta að séu þær aðstæður sem lýst sé í 13. tl. ekki fyrir hendi sé hundahald ekki háð samþykki sameigenda.     Telur kærandi óhjákvæmilegt að líta svo á að orðin “sameiginlegt húsrými” í umræddum 13. tl. taki til húsrýmis þar sem snertifletir vegna umgengni hunda og katta sem haldin væru, yrðu ámóta og óhjákvæmilegt er þegar um er að ræða sameiginlegan inngang eða stigagang.  Ennfremur verði samkvæmt ofantöldu ályktað að merking hugtaksins”inngangur” verði ekki skilin víðtækum skilningi í því sambandi sem tilgreindur 13. tl. tekur til heldur þvert á móti.  Skv. því verði eigi talið að þar gæti verið um annað að ræða en þær aðstæður að beinlínis sé gengið inn í húsrými um sameiginlegar dyr. Á sama hátt verði fráleitt talið að “inngangur”geti í þessu sambandi átt við sameiginlega aðkomuleið undir beru lofti.  Vísar kærandi til ákvæðis 72. gr. stjskr. sem og almenn sjónarmið um að varlega beri að fara við að túlka lög til takmörkunar athafnafrelsis manna séu framangreindum ályktunum til frekari styrktar.  Kærandi bendir hins vegar á í þessu sambandi að enda þótt hundahald í fjöleignarhúsi kunni þannig að vera óháð samþykki sameigenda hljóti þó vegna hagsmuna og réttar sameigenda að verða að gæta strangari hamla við hundahald í fjöleignarhúsi en er um ræði hundahald í einbýli.

Kærandi bendir á að þeirri innbyrðisskipan réttinda sameigenda fjöleignarhúsa sem ákveðin hafi verið með lögum um fjöleignarhús, sérlögum um þau málefni verði ekki vikið til hliðar nema með ótvíræðum lagaákvæðum.  Vísar kærandi þar um til þess að samþykktir sveitarfélaga geti eigi gengið framar ákvæðum laga sem Alþingi hafi sett.  Kærandi bendir á að ákvæði 1. mgr. 25. gr. l. nr. 7/1998 geti ekki staðist sem frávik frá þeirri reglu, enda alls ekki unnt með almennu lagaákvæði að framselja til handhafa framkvæmdavalds, hvað þá til sveitarfélaga vald til að setja reglur sem ryðja til hliðar ákvæðum laga.

Kærandi lýsir aðkomu að Grenimel 6 þannig að í húsinu séu þrjár íbúðir og þrír eignarhlutar.  Sé stígur frá götu að tröppuuppgangi á vesturhlið hússins og breikki stígurinn úr 1 m í 1.7 m er fáir metrar séu ófarnir að uppganginum.  Dyr að íbúðum á fyrstu og annarri hæð séu hlið við hlið á tilgreindum tröppuuppgangi sem sé með 8 tröppum.  Telur kærandi að vafalaust sé að samkvæmt þeirri merkingu sem lögð sé í orðið sérinngangur sé um að ræða lýsingu eiginleika fasteigna hvort heldur sé í tengslum við fasteignaviðskipti eða í almennu tali sé sérinngangur að íbúð kæranda á 2. hæð að Grenimel 6.  Með hliðsjón af þeim staðháttum fáist því ekki staðist að telja að aðstæður við innganga íbúða að 1. og 2. hæð að Grenimel 6 séu með því móti að með umgengni hunds um tröppuuppganginn á leið að og frá íbúðinni á 2. hæð hljóti íbúar 1. hæðar að komast í slíka snertingu við dýrið að óþægindi myndu skapast.   Ítrekar kærandi enn á ný að með hliðsjón af tilgangi þeim sem að baki hafi búið við lögfestingu ákvæðis 13. tl. A-liðar 41. gr. l. nr. 26/1994 séu ekki fyrir hendi forsendur til að teygja svo úr hugtakinu “sameiginlegur inngangur” í skilningi ákvæðisins að það geti átt við um aðkomu að 1. og 2. hæð að Grenimel 6.

Kærandi ítrekar á ný að ekki liggi fyrir vitneskja um af hverju Umhverfis- og heilbrigðisstofa telji að aðstæður varðandi inngang íbúðar hans falli ekki undir kringumstæður  sem 2. mgr. 6. gr. samþykktar nr. 52/2002 taki til.  Telur því kærandi að ekki verði komið að endanlegum rökstuðningi varðandi efnishlið málsins fyrr en upplýst hafi verið um framangreind atriði.  Kærandi ítrekar og að um það hvenær hundahald í fjöleignarhúsum sé háð samþykki sameigenda gildi ákvæði 13. tl. A-liðar l. nr. 26/1994.   Í ljósi aðstæðna við inngang íbúða sjái kærandi ekki að hundahald í íbúð hans geti verið háð samþykki eigenda íbúðar á neðri hæð.  Kærandi kveður að starfsmenn sveitarfélaga geti ekki tekið sér það fyrir hendur að skýra hugtök eins og “sérinngangur “ að eigin geðþótta og sé þá um valdníðslu að ræða er þeir fari svo fram án þess að byggja á haldbærum rökum eða málefnalegum ástæðum.

III.

Eins og fyrr greinir sendi kærði svör, bréf dags. 4. apríl, 2005 ásamt tillögu að umsögn umhverfisráðs dags. 15. mars 2005, en gögnin bárust í bréfi sem er póststimplað 4. maí s.l.  Í bréfinu kemur fram að á fundi Umhverfisráðs  4. apríl hafi verið lögð fram drög að umsögn ráðsins og kæra kæranda til úrskurðarnefndar.  Tillagan að umsögn hafi verið samþykkt einróma.  Í tillögunni kemur fram að Umhverfisráð hafi kynnt sér kæru kæranda.  Telji Umhverfisráð rétt að taka fram að málsástæður kæranda hafi verið ítrekað ræddar af kærða þó ekki hafi verið talin ástæða til þess að fjalla um hverja málsástæðu í úrskurði nefndarinnar.  Að mati ráðsins hafi ekki komið fram ný efnisleg rök frá kæranda sem kalli á að ráðið fjalli sérstaklega um þau. Því vísar Umhverfisráð til tilgreinds úrskurðar kærða og þá sérstaklega til forsendna og niðurstöðu í úrskurði kærða, en þar komi eftirfarandi fram :

Um hundahald í Reykjavík gildi ákvæði samþykktar nr. 52/2002.  Þessi samþykkt sé sérstök heilbrigðissamþykkt sveitarfélags sett með stoð í 25. gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en hún veiti sveitarfélögunum heimild til að setja í samþykktir ítarlegri kröfur en fram komi í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir eða reglugerðum settum skv. þeim.  Skv. 1. tl. 1. mgr. 25. gr. l. nr. 7/1998 sé sveitarfélögum heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds.  Vísað er og til þess að samþykkt um hundahald í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur hafi næga lagastoð.

Vísað er til þess að skv. 2. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 sé hundahald bannað í Reykjavík.  Heimilt sé þó að veita einstaklingum undanþágur frá meginreglunni um bann við hundahaldi, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.  Fallast beri á það álit gagnaðila að túlka beri heimild til að veita undanþágu frá banni við hundahaldi þröngt.  Það feli í sér, að ríkar kröfur verði að gera hverju sinni til umsækjenda um undanþágu frá banni við hundahaldi og að þeir uppfylli öll skilyrði samþykktarinnar fyrir undanþágu.  Þá leiði af þröngri túlkun á undanþáguheimildinni að allur vafi um að umsækjandi uppfylli skilyrði samþykktarinnar beri að meta umsækjanda í óhag. Þá kemur og fram að kærandi krefjist þess að kærði staðfesti með úrskurði sínum að íbúð kæranda sé þannig að ekki sé þörf á leyfi sameigenda sbr. 2. mgr. 6. gr. samþykktar um hundahald.  Hljóði umrætt ákvæði svo :  “Þegar íbúð umsækjanda hefur sérinngang, þótt um sé að ræða annars konar sameiginlegt húsrými eða sameiginlega lóð þá er veiting undanþágu til hundahalds ekki háð samþykki annarra eigenda enda er öll viðvera og /eða umferð hundsins um slíkt rými stranglega bönnuð. “

Í máli þessu liggi fyrir að kærandi búi í húsi með þrem íbúðum og til þess að komast inn í íbúð kæranda þurfi að fara um lóð sem sé sameiginleg öllum þrem íbúðum hússins og tröppur og stigapall að dyrum, sem séu sameiginleg með íbúð kæranda og annars sameiganda.  Ekki verði séð að kærandi geti uppfyllt það skilyrði 2. mgr. 6. gr. samþykktar um hundahald að öll viðvera og/eða umferð hunds kæranda um sameiginlegt rými, hvort sem um ræðir lóð eða tröppur/stigapall verði stranglega bönnuð og beri honum því að skila inn samþykki sameigenda sinna.  Með vísan til ofanritaðs sé það niðurstaða kærða að kæranda beri að skila inn samþykki sameigenda sinna fyrir hundahaldi.  Drög þessi voru lögð fram í Umhverfisráði og var tillagan samþykkt einróma.

IV.

Krafa kæranda er að hinn kærði úrskurður um að kærandi skuli afla samþykkis beggja sameigenda sinna fyrir hundahaldi að Grenimel 6, verði ómerktur.  Til vara er þess rkafist að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og staðfest verði að Reykjavíkurborg sé ekki á grundvelli samþykktar um hundahald í Reykjavík fært að binda útgáfu leyfis til kæranda til að halda hund á efri hæð í fjöleignarhúsinu að Grenimel 6 í Reykjavík því skilyrði að sameigendur þar lýsi sig samþykka hundahaldinu.

Ekkert í gögnum málsins bendir til vanhæfis nefndarmanna kærða að lögum til að leysa úr því álitaefni sem hinn kærði úrskurður varðar.  Hvað varðar vísan kærða til þess að reifun málsástæðna sé ófullnægjandi og beinlínis röng verður að vísa til þess að niðurstaða í úrskurði er í samræmi við gildandi lög og reglugerðir og fyrirliggjandi úrskurði.  Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að kærði hafi látið hjá líða að fjalla um og taka afstöðu til málsmeðferðar Umhverfis- og heilbrigðisstofu verður að benda á að málsmeðferð sé ekki háð þeim annmörkum sem varði ómerkingu úrskurðar.  Þá verður ekki heldur talið að skuli valda ómerkingu úrskurðar þó reifun málsástæðna hafi ekki verið nægileg að mati kæranda.  Ljóst virðist af öllum gögnum málsins að öll sjónarmið kæranda hafi legið fyrir og kemur fram í svari Umhverfisráðs við kærunni að þó málsástæður kæranda hafi ekki verið teknar upp í úrskurði hafi þær verið margræddar.   Kærandi byggir málsástæðu á því að A liður 41. gr. laga um  fjöleignarhús nr. 26/1994 gangi framar samþykkt um hundahald í Reykjavík.    13. tl. A liðar 41. gr. l. nr. 26/1994 er svohljóðandi :

Við ákvarðanatöku um sameiginleg málefni í fjöleignarhúsum, sbr. 39. gr., gilda þessar reglur:

A. Til ákvarðana um eftirfarandi þarf samþykki allra eigenda:

13. Um að halda megi hunda og/eða ketti í húsinu. Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými.

Aðilar máls eru sammála um að túlka beru heimild til að veita undanþágu frá banni við hundahaldi þröngt.

Með tilvísan til framangreinds og í ljósi aðstæðna við fasteignina að Grenimel 6 í Reykjavík verður að telja að samþykki sameigenda neðri hæðar sem eru með sameiginlegan inngang með kæranda, sé fullnægjandi.

Er því kærður úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir kærða að taka málið til meðferðar að nýju.

ÚRSKURÐARORÐ:

  Úrskurður kærða er felldur úr gildi og lagt fyrir kærða að taka málið til meðferðar að nýju.

  Lára G. Hansdóttir

 Gísli Gíslason                      Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 10/4/05

7/2005 Úrskurður vegna kæru Jóns Otta Jónssonar gegn Bláskógabyggð.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005 föstudaginn 11. nóvember, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í ráðhúsi Reykjavíkur.  Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2005  Jón Otti Jónsson, Efstasundi 2 Reykjavík gegn Bláskógabyggð.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra Jóns Otta Jónssonar, Efstasundi 2, 104 Reykjavík er dags. 27. apríl, 2005.  Kærð er álagning Bláskógabyggðar á rotþróar- og sorpgjaldi vegna sumarhúss Jóns Otta,  B-gata lóð 19, í landi Miðdals í Bláskógabyggð. Jón Otti er hér eftir nefndur kærandi, en Bláskógabyggð kærði.  Kærða var sent afrit af gögnum kæranda með bréfi dags. 16. maí s.l. Svarbréf kærða er dags. 20. júní s.l. Var svarbréf það sent kæranda til umsagnar en hann svaraði því ekki. Stjórnsýslukæru fylgdu eftirfarandi gögn:

1)      Afrit af seðli um álagningu fasteignagjalda 2005.

2)      Afrit af bréfi Bláskógabyggðar, skýringar á álagningarreglum fasteignagjalda fyrir Bláskógabyggð árið 2005.

Greinargerð kærða fylgdu eftirfarandi gögn:

1)       Samþykkt Bláskógabyggðar, samþykkt Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 15. febrúar 2005 og auglýsing umhverfisráðuneytis í Stjórnartíðindum B53/2005.

2)       Gjaldskrá vegna seyrulosunar frá nóvember 2004, samþykkt Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 15. mars, 2005 og auglýsing í Stjórnartíðindum.

3)       Upplýsingar og staðreyndir, Umhverfisstofnun maí 2005.

4)       Gjaldskrá vegna sorphirðu í Bláskógabyggð.

II.

Í stjórnsýslukæru  dags. 27. apríl s.l. gerir kærandi þær kröfur að úrskurðarnefnd felli úr gildi stjórnvaldsákvörðun kærða um álagningu rotþróargjalds á kæranda vegna fasteignarinnar við B-götu lóð 19 fyrir árið 2005.  Þá er þess og krafist að sorpgjald verði lækkað og ákvarðað í samræmi við birta og gildandi gjaldskrá kærða.

Málavöxtum lýsir kærandi svo að hann sé eigandi sumarhúss í landi Miðdals.  Hafi honum fyrir nokkrum dögum borist í pósti ódagsettur álagningarseðill fasteignagjalda svo og rotþróar- og sorpgjalds.  Telji kærandi að sorphirðugjaldið hafi verið ákvarðað of hátt og ekki í samræmi við birta og gildandi gjaldskrá.  Aftur á móti telji kærandi að rotþróargjald verði ekki lagt á þar sem til þess skorti allar heimildir.  Gerir kærandi þær kröfur að kærði rökstyðji og leggi fram gildandi og birta gjaldskrá sem heimili kærða töku sorpgjalds og að fjárhæð sorpgjalds verði ekki ákveðin hærri en gjaldskrá segi til um. Krafist er ógildingar rotþróargjalds þar sem engin gild réttarheimild hafi verið til staðar til álagningar gjaldsins þegar það hafi verið lagt á.  Þannig hafði samþykkt um gjaldið staðfest af umhverfisráðherra ekki verið birt þegar gjaldið hafi verið lagt á. Á sama máta hafði gjaldskráin ekki verið birt í Stjórnartíðindum. Því fari þessi álagningarháttur í bága við skýr fyrirmæli 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 svo og 7. gr. l. nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldserinda.

Bendir kærandi á að fari svo að gjaldskráin verði birt áður en úrskurður í máli þessu sé uppkveðinn sé álagningin engu að síður ólögleg, þar sem hún sé þá afturvirk og taki til mánaða sem þegar séu liðnir.  Vísar kærandi um ólögmæti afturvirkra álagningu þjónustugjalda til dóms Hrd 1984:560.

Kærandi kveður að í öðru lagi sé því haldið fram að kærði hafi farið út fyrir valdheimildir sínar þegar hann hafi skyldað alla íbúa sveitarfélagsins til þess að kaupa af því þjónustu um seyrulosun.  Hvorki lög né reglugerðir geti leitt til þessarar niðurstöðu. Á hinn bóginn sé íbúum sveitarfélaga skylt að sjá til þess að seyrulosun sé í samræmi við lög og reglugerðir og hafi heilbrigðisfulltrúi og eftir atvikum starfsmenn sveitarfélaga löglegar heimildir til þess að hafa eftirlit með því og eftir atvikum að láta framkvæma seyrulosun á kostnað fasteignareiganda ef hann vanræki að kaupa að sér slíka þjónustu aðila sem hafi opinber leyfi til þess að sinna henni.

Kveður kærandi að hvernig sem á sé litið sé því álagning seyrulosunargjalds ólögleg og beri að ógilda hana.  Kærandi áskilur sé rétt til þess að koma að nýjum lagarökum og kröfum.  Ennfremur að koma að andmælum við þau gögn sem kærði kunni að leggja fram.

III.

Greinargerð kærða er dagsett 20. júní, 2005.  Vísar sveitarstjóri kærða til þess að sveitarstjórn kærða hafi rætt ítarlega um losun seyru úr rotþróm.  Vandamál þetta hafi farið vaxandi, en að auki hafi komið fram vitneskja um að losun hafi ekki verið sinnt og í kjölfar þess komið upp vandamál m.a. mengun vatnsbóla og sýkingar.  Hafi málið orðið flóknara þar sem bændur með haugsugur hafi ekki heimild til að sjá um losun og urðun seyru heldur þurfi til þess viðurkenndar aðferðir og tækjabúnað.  Til þess að uppfylla skyldur kærða hafi verið samþykktar reglur um seyrulosun, gjaldskrá og ennfremur hafi verkið verið boðið út og það tilkynnt sérstaklega með ýmsu móti.  Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi verið með í ráðum, enda þurfi samþykki þess til að koma að aflokinni umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjóri kærða kveður heimild kærða vera í 14. gr. rgl. um meðhöndlun seyru.  Skv. 25. gr. l. nr. 7/1998 sé sveitarstjórnum heimilt að setja samþykktir og gjaldskrá um meðferð úrgangs og skólps.  Sveitarstjóri kærða bendir á að þó sveitarfélög hafi skýrar heimildir til þess að leggja á seyrulosunargjöld sé ljóst að heimildir sveitarfélags nái ekki til annars en að leggja á gjöld fyrir  áföllnum kostnaði við þennan verkþátt. Er ennfremur bent á að ákvörðun kærða um seyrulosun sé tekin í ljósi brýnna heildarhagsmuna og í samræmi við lög og reglugerðir.  Bendir kærði á að gjaldskrá vegna seyrulosunar sé byggð á greiðsludreifingu til þriggja ára sem eigi að nægja fyrir einni losun.  Gjaldskrá kærða vegna næsta árs muni byggja á kostnaði vegna ársins 2005 og gjald vegna ársins 2007 á raunkostnaði áranna 2005 og 2006.  Bent er ennfremur á að um sé að ræða árgjald en ekki mánaðargjald þó greiðslu sé dreift og innheimt um leið og fasteignagjöld.  Sé framangreint skoðað í heild er það skoðun sveitarstjóra kærða að vísa skuli kröfum kæranda á bug, en til vara sé kærði tilbúinn til að greiða viðkomandi hlutfallslega af álögðu árgjaldi 2005 til þess tíma er auglýsing um gjaldskrá birtist í Stjórnartíðindum.

IV.

Ágreiningur máls þessa snýst um hækkun sorphirðugjalds annars vegar og hins vegar álagningu seyrulosunargjalds.  Gjaldskrá kærða um sorphirðu var birt 27. apríl 2005.  Gildistími hækkunar getur ekki verið fyrr en frá og með þeim tíma enda kemur fram í gjaldskrá fyrir 2005 að frá og með sama tíma falli úr gildi eldri gjaldskrá fyrir sorphirðu í Bláskógabyggð.

Í 14. gr rgl. nr. 799/1999 kemur fram að sveitarstjórnir skuli sjá til þess að komið sé að kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm.  Með tilvísan til þess og og með tilvísun til 25. gr. l. nr. 7/1998 er sveitarstjórnum heimilt að setja samþykktir og gjaldskrá um meðferð úrgangs og sorps. Eru því heimildir kærða í samræmi við gildandi lög og reglugerðir og álagning gjalda vegna seyrulosunar einnig.  Álögð gjöld mega þó aldrei vera hærri heldur en þjónusta sú sem veitt er.

Með tilvísan til framangreinds er það því niðurstaða nefndarinnar að kærða hafi ekki verið heimilt að krefja um hærri sorphirðugjöld fyrr en  auglýsing um gjaldskrá var birt.  Er því fallist á kröfu kæranda um að hækkun sé bundin birtingu gjaldskrár.

Eins og fram er komið eru álögð gjöld vegna seyrulosunar lögmæt.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfu kæranda um gildistíma auglýsingar um sorphirðugjald. Breyting á gjaldskrá tekur fyrst gildi með birtingu auglýsingar.  Ekki er fallist á kröfu kæranda um að kærða sé óheimilt að leggja á gjald fyrir seyrulosun.

Lára G. Hansdóttir

 Gunnar Eydal                   Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 11/25/05

4/2005 Úrskurður vegna kæru Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar ehf. gegn Umhverfisstofnun.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005,   föstudaginn  2. september kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Gísli Gíslason, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2005  Ölgerðin Egill Skallagrímsson gegn Umhverfisstofnun.   

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra  Helgu Melkorku Óttarsdóttur hdl. f.h. Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar ehf., hér eftir nefnd kærandi er dags. 11. apríl, 2005  og var móttekin 13. apríl.  Kærð er ákvörðun Umhverfisstofnunar, hér eftir nefnd kærði, um að skilyrða leyfi til vítamínbætingar á Kristal Plús.  Gögn sem kærunni fylgdu eru:

1)      Afrit af umsögn Lýðheilsustöðvar dags. 26. janúar, 2005 um umsókn kæranda um íblöndun bætiefna í léttkolsýrðan gosdrykk, Kristal plús ásamt afriti bréfs frá kærða til kæranda dags. 28. janúar, 2005 þar sem gefinn er kostur á andmælum.

2)      Afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 1. febrúar, 2005, athugasemdir við umsögn Lýðheilsustöðvar.

3)      Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 10. febrúar 2005, ákvörðun um leyfi til notkunar á nokkrum bætiefnum ásamt afriti af leyfi.

4)      Afrit af bréfi  kærða til kæranda dags. 21. febrúar, 2005, rökstuðningur kærða vegna ákvörðunar.

Afrit af gögnum kæranda var sent kærða sem skilaði greinargerð dags. 11.  maí, 2005.  Afrit af greinargerð kærða var send kæranda og skilaði kærandi andmælum sínum með bréfi dags. 27. maí, 2005.  Sérstök beiðni kærða var að andmæli yrðu send til að unnt yrði að gera athugasemdir.  Var slíkt gert með bréfi dags.  11. júlí s.l.  Engar frekari athugasemdir voru gerðar.

II.

Lögmaður kæranda kærir ákvörðun kærða um setningu skilyrðis fyrir leyfi til vítamínbætingar Kristal PLÚS.  Kröfur kæranda eru að fellt verði úr gildi skilyrði um eftirfarandi merkingu Kristal PLÚS :” Ekki ætlað til neyslu fyrir börn yngri en 7 ára.”

Kveður lögmaður kæranda að kærandi hafi hafið markaðssetningu vítamínsbætts vatnsdrykkjar, Kristal PLÚS í upphafi árs 2005.  Hinn 4. janúar s.l hafi Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur bannað dreifingu á drykknum þar sem ekki hefði verið sótt um leyfi til vítamínbætingar skv. 19. gr. rgl. nr. 285/2002.  Með úrskurði 2/2005 hafi úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt hefði verið að setja dreifingarbann á vöruna.  Kveður lögmaður að kærandi hafi sótt um leyfi til vítamínbætingar drykkjarins 11. janúar 2005 og hafi kærði veitt leyfið þann 10. febrúar s.l. með því skilyrði að merkingin :”Ekki ætlað til neyslu fyrir börn yngri en 7 ára” kæmi fram á umbúðum vörunnar eða áföstum merkimiða. Hafi kærandi óskað eftir skriflegum rökstuðningi fyrir skilyrði um sérstaka merkingu þann 15, febrúar s.l. og hafi svar kærða borist 21. febrúar s.l.

Um málsástæður vísar lögmaður kæranda til þess að skilyrði kærða fyrir leyfi til vítamínbætingar Kristal PLÚS sé hvorki málefnalegt né lögmætt.  Vísar kærandi til þess að fram komi í skriflegum rökstuðningi kærða að ákvörðun þeirra um skilyrðingu grundvallist á hugsanlegri hættu sem börnum innan 7 ára aldurs stafi af íblöndun fólasíns í drykki.  Kærandi hafnar því að hætta stafi af íblöndun fólasíns í drykkinn hvorki fyrir börn né aðra.  Vísar lögmaður kæranda til nýlegs dóms Evrópudómstólsins nr. C-41/02 þar sem fram komi að viðkomandi aðildarríki hefði ekki sýnt fram á með neinum vísindalegum gögnum að mönnum stafaði raunveruleg hætta af neyslu m.a. fólasíns, sama hve mikið það væri yfir ráðlögðum dagsskammti.  Vísar lögmaður kæranda til þess að hið sama eigi við í máli þessu ekki hafi verið sýnt fram á með vísindalegum gögnum að íblöndun fólasíns í því magni sem um ræðir hér þ.e. 30 µg í 100 ml., í vatnsdrykkinn Kristal PLÚS gæti falið í sér þá hættu fyrir börn að það réttlæti sérstaka merkingu hans.  Þar skipti meginmáli að neysla barna undir sjö ára aldri á vatnsdrykkjum s.s. umræddum drykk, sé lítil sem engin og fyrirsjáanlegt sé að hið sama muni eiga við um þennan drykk.  Þá kemur ennfremur fram að í nýlegri rannsókn kæranda, framkvæmdri af nemendum í markaðsrannsóknum við Tækniháskóla Íslands, komi fram að 93.4 % foreldra barna á aldrinum 4-12 ára velji drykki fyrir börn sín.  Ennfremur að 82.4 % foreldra velji frekar ókolsýrt vatn fyrir börnin.

Kveður lögmaður kæranda að í ákvörðun kærða og rökstuðningi sé ekki vikið einu orði að neyslu barna á vatni eða gosdrykkjum eða líklegri neyslu þeirra á Kristal PLÚS, þrátt fyrir að skilyrði um sérstaka merkingu grundvallist á því að börnum gæti stafað hætta af viðbætingu fólasíns í vatnsdrykk.  Telji kærandi ljóst að þegar af þessari ástæðu sé grundvöllur skilyrðasetningar kærða brostinn enda beri stjórnvöldum að eigin frumkvæði að gæta þess að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.  Vísar lögmaður til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 varðandi þetta.  Því skilji kærandi ekki hvernig hætta geti stafað af drykknum þegar engin gögn séu fyrir liggjandi um neyslu barna á sambærilegum drykkjum. Lögmaður kæranda bendir á að sérstaka áherslu verði að leggja á að í rökstuðningi kærða segi að ávallt sé framkvæmt áhættumat þegar fjallað sé um umsóknir um íblöndun bæriefna.  Áhættumatið sé sagt felast í mati á þeirri hættu sem neytendum kunni að stafa af neyslu vöru í því magni sem líklegt sé að hennar verði neytt.  Kærandi sjái hvergi að slíkt mat hafi verið framkvæmt af kæranda.  Telur kærandi hverfandi líkur á að 2-6 ára börn verði neytendur drykkjarins sem eingöngu sé seldur í hálfslítra umbúðum og verði töluvert dýrari en gosdrykkir.  Kærandi minnir á að umsögn Lýðheilsustöðvar miði við að börn neyti 7 flaskna á viku.  Kærandi kveður gera verði þá kröfu að kærði geri greinarmun á neyslu og ofneyslu fólasíns og ítrekar að í 100 ml. af  Kristal Plús séu 30 µg af viðbættu fólasíni eða 150 µg í hverjum 500 ml..  Vísindanefnd Evrópusambandsins hafi gefið út að efri mörk miðað við fólinsýru hjá börnum á aldrinum 1-6 ára séu 200-300 µg á dag.  Neysla á umræddum drykk sé því ekki skaðleg í sjálfu sér.

Lögmaður kæranda vísar til þess að ákvörðun kærða brjóti í bága við sjónarmið um jafnræði og samræmi sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga.  Samkvæmt upplýsingum kæranda virðist hann eini aðilinn sem hafi þurft að sæta slíku skilyrði um merkingu vöru sinnar, þó fólasíni sé bætt við fjölmargar vörur s.s. morgunkorn, hrísgrjón og.fl.  Telji því kærandi að þó um ólíkar vörur sé að ræða séu mál sambærileg sérstaklega hvað varði morgunkorn.  Í 100 gr af Cheerios séu til að mynda 666.7 µg af fólasíni þ.e. rúmlega tvöfaldur ráðlagður dagsskammtur fyrir 6 ára börn, en í 100 ml. af Kristal PLÚS, sé umtalsvert minna. Í samræmi við þetta mætti ætla að meiri ástæða væri til þess að vara sérstaklega við neyslu barna á morgunkorni.  Staðreyndin sé hins vegar sú að íslensk heilbrigðisyfirvöld geri enga kröfu til þessa.  Bent skal á að öll markaðssetning morgunkorns miðast við börn þó neysla 2 og 6 ára barna á fólasíni sé yfir efri mörkum.  Telji kærandi því að þessi stjórnsýsluframkvæmd geti ekki samræmst jafnræðisreglum og skilyrðing um sérstaka merkingu Kristal Plús sé því ólögmæt.

Lögmaður kæranda vísar til síðara málsliðs 12. gr. stjórnsýslulaga um að aðeins skuli taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem stefnt sé að verði ekki náð með öðru og vægara móti.  Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til.  Telji því kærandi að kærði hafi ekki gætt meðalhófs með fullnægjandi hætti við úrlausn málsins.  Ekki hafi verið nauðsynlegt að taka íþyngjandi ákvörðun um að skilyrða leyfi til vítamínbætingar.  Þá telji kærandi ennfremur að orðalag merkingarinnar sé strangara en tilefni sé til.  Ná hefði mátt markmiði um vernd heilsu barna með vægari hætti, t.d. með því að merkja sérstaklega hver sé ráðlagður dagskammtur fólasíns fyrir börn undir 7 ára aldri.  Hafa verði í huga áhrif merkingar á vöru með þessum hætti.  Hafi kærandi nú þegar orðið fyrir verulegum fjárhagslegum skaða vegna málsmeðferðar kærða.  Talið sé að merking sú sem kærði krefjist sé að ástæðulausu til þess fallin að skapa neikvæða ímynd af umræddri vöru.

Lögmaður kæranda bendir á að kærandi hafi ekki notið andmælaréttar vegna umrædds skilyrðis.  Telur lögmaður að þetta sé verulegur ágalli á málsmeðferð varðandi skilyrðissetninguna sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.  Kærandi hafi ekki átt von á slíku skilyrði enda virðist það einsdæmi í leyfisveitingum kærða á grundvelli 19. gr. rgl. nr. 285/2002.  Skilyrði sé íþyngjandi og mikilvægt atriði í málinu.  Þessi ágalli í málsmeðferð leiði til þess að skilyrðið sé ólögmætt.

Um lagagrundvöll skilyrðis kærða kveður kærandi að í 19. gr. rgl. nr. 285/2002 um aukefni í matvælum komi fram að þar til reglugerð um íblöndun bætiefna í matvæli hafi verið sett geti Umhverfisstofnun veitt leyfi til notkunar bætiefna.  Ekki sé vikið að setningu skilyrða og telji kærandi því að þessi vöntun veiti kærða ekki meira svigrúm við mat sitt á ákvarðanir heldur auki mikilvægi þess að hafið sé yfir allan vafa að málefnaleg og lögmæt sjónarmið liggi ákvörðun þess að öllu leyti til grundvallar.  Ennfremur telji kærandi ljóst að ákvörðun kærða um að merkja vöruna sérstaklega sé í ósamræmi við framkvæmd í öðrum Evrópuríkjum.  Sé í þessu sambandi rétt að vekja sérstaka athygli á því að í Austurríki, Sviss, Póllandi, Portúgal Spáni, Þýskalandi og Finnlandi sé að finna á markaði vítamínbætta vatnsdrykki með sama vítamíninnihaldi og hlutföllum, þ.á.m. fólínsýru,  Yfirvöld þessara landa geri ekki kröfu um sérstaka merkingu og því mætti samkvæmt reglunni um gagnkvæma viðurkenningu, flytja þessa vöru til Íslands og markaðssetja án merkingar. Lögmaður kæranda bendir á að í ákvörðun kærða sé vísað til 10.  og 30. gr. sbr. 9. gr. rgl. nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla.  Í 9. gr. komi fram með hvaða upplýsingum sé skylt að merkja matvæli m.a. notkunarleiðbeiningum.  Telji kærandi einsýnt að umrædd ákvæði veiti kærða ekki heimild til að skylda umbjóðanda sinn til að merkja Kristal Plús með umræddum hætti.  Tilgreind ákvæði beri með sér að eiga við um notkun og rétta meðhöndlun en ekki neyslu.  Ekkert komi fram í þessari reglugerð né sérreglugerð um merkingu næringargildis matvæla nr. 586/1993 um viðvaranir eða sérmerkingar sambærilegar við þær sem kærði geri nú kröfu um.

Lögmaður kæranda ítrekar kröfur sínar og bendir á :

1)      Viðbæting fólasíns í tilgreindum drykk skapi ekki hættu á heilsutjóni hvorki fyrir börn né aðra.  Ástæðulaust sé því að merkja hann sérstaklega.

2)      Kærði hafi ekki krafist þess að aðrar vörur, sem innihaldi jafnvel meira fólasín og séu sérstaklega markaðassettar fyrir börn séu merktar með sambærilegum hætti, því sé jafnræðisregla brotin.

3)      Meðalhófs hafi ekki verið gætt varðandi orðalag merkingar.

4)      Engin ákvæði virðist vera að finna í lögum eða reglugerðum um hliðstæðar sérmerkingar.

Lögmaður ítrekar því kröfur kæranda um að skilyrði um merkingar verði fellt úr gildi, enda fái það ekki staðist, hvorki að efni né formi til.

Lögmaður kæranda sendi andmæli dags. 27. maí  2005, við greinargerð kærða.

Ítrekar lögmaður þar að merking sú sem kærði hafi krafist gefi drykknum mjög neikvæða ímynd.  Lögmaður kæranda telur vafalaust að margumræddur drykkur sé ekki skaðlegur í sjálfu sér.  Bent er á að ekki hafi verið framkvæmt fullt áhættumat, miðað við eigin staðla kærða og komi það fram í greinargerð kærða.  Lögmaður mótmælir því að kærði bendi á að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn um skaðleg áhrif af ofneyslu barna á fólasíni.  Telur lögmaður kæranda með þessari yfirlýsingu orðin endaskipti á hlutverkum.  Þetta sé ekki í verkahring kæranda.  Er og bent á að viðurkennt sé m.a. í fjölda dóma EB-dómstólsins að hömlur við markaðssetningu vara með íblönduðum bætiefnum verði ekki settar nema að undangengnu ítarlegu áhættumati.  Slíkt hefur ekki verið framkvæmt.  Kærandi bendir á að gögn sem kærði bendi á séu ritgerðir háskólanema sem bendi til umtalsverðrar neyslu barna yngri en 7 ára á gosi.  Slíkt telur kærandi á engan máta sambærilegt.  Lögmaður kæranda bendir á að kærði kveðist byggja skilyrði sitt á því að börn neyti nú þegar of mikils fólasíns skv. upplýsingum frá Lýðheilsustöð og geti öll viðbót leitt til skaðlegrar ofneyslu.  Kærandi mótmælir þessari villandi einföldun á málinu og ítrekar að kærði hafi ekki sýnt fram á að framkvæmt hafi verið ítarlegt áhættumat. Jafnræði.  Lögmaður kæranda bendir á að kærði telur fullyrðingu kæranda um að skv. upplýsingum hans sé hann sá eini sem sætt hafi skilyrðingu um merkingu vera staðlausa stafi.  Kærandi bendir á að eina sambærilega varan sem finna megi á listum kærða um veitt leyfi (til fólasínsbætingar) sé River White Rice, þar sem ekki sé að sjá að sett hafi verið skilyrði um merkingar. Lögmaður kæranda mótmælir fullyrðingum kærða um að verði sótt um leyfi þá muni málsmeðferð kærða vera sú sama við alla.  Kveður lögmaður kæranda það fela í sér að kærandi njóti jafnræðis við þann aðila á markaði sem sé helsta uppspretta fólasínsneyslu barna, þegar, og ef, sá aðili hættir að markaðssetja vörur sínar í óleyfi.  Lögmaður ítrekar að fullyrðingar kæranda um að hann njóti ekki jafnræðis á markaði standi.

Meðalhóf. Lögmaður ítrekar að merking sú sem kærði hefur krafist sé að ástæðulausu til þess fallin að skapa neikvæða ímynd af vörunni.  Þá er því harðlega mótmælt að kærði hefði getað gengið skrefinu lengra og bannað íblöndunina ef litið sé til dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins.  Lögmaður kæranda telur þetta staðlausar fullyrðingar og sé ekki hægt að réttlæta aðgerðir sem gangi of langt, með því að benda á að heimilt hefði verið að ganga enn lengra.

Andmælaréttur.  Kærandi ítrekar þá skoðun að rétt hefði verið að veita honum færi á að tjá sig um skilyrði það sem kærði setti við leyfisveitinguna. Ekki hafi verið hægt að gera ráð fyrir því að kærandi hafi talið það “líklegt “ að íblöndun fólasíns yrði í “besta falli skilyrt” eins og kærði haldi fram eða að slíkt hafi verið “öllum ljóst”.  Bendir lögmaður kæranda á að andmælarétti sé einmitt ætlað að veita aðilum máls tækifæri til að tjá sig.

Lagagrundvöllur skilyrðis kærða.  Lögmaður bendir á að í umfjöllun kærða um lagagrundvöll vísi kærði í skilgreiningu dr. Páls Hreinssonar á matskenndum stjórnvaldsákvörðunum og segi :” Ákvörðun stofnunarinnar á grundvelli 19. gr. reglugerðarinnar er matskennd stjórnvaldsákvörðun þar sem lög og stjónvaldsfyrirmæli ákvarða ekki  þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi svo ákvörðun verði tekin í málinu.”  Lögmaður kæranda bendir á að kærða hafi yfirsést mikilvægur þáttur í skilgreiningunni en dr. Páll segi í tilvitnuðum fræðiritum að matskenndar stjórnvaldsákvarðanir séu ákvarðanir stjórnvalda þegar lög eða stjórnvaldsfyrirmæli ákvarða ekki að öllu leyti þau skilyrði sem þurfa  að vera fyrir hendi svo ákvörðun verði tekin og/eða veita stjórnvöldum að einhverju leyti  mat á því hvert efni ákvörðunar skuli vera.  Að þessu gefnu vilji kærandi undirstrika þá fullyrðingu sína að 19. gr. rgl. nr. 285/2002 sé verulega óskýrt ákvæði þar sem þar sé í engu lýst þeim viðmiðum sem kærða beri að fylgja við veitingu leyfa.  Kærandi kannist ekki við þá óskráðu meginreglu sem kærði vísi til  enda komi fram hjá dr. Páli Hreinssyni að margs sé að gæta þegar stjórnvald taki matskennda stjónrvaldsákvörðun en t.a.m. leiði það af lögmætisreglu stjórnsýslunnar að ákvarðanir verði að vera í samræmi við lög og eiga sér viðhlítandi stoð í þeim.  Ennfremur að þegar stjórnvöld taki íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir þá þurfi þær að eiga sér skýra lagastoð og séu slíkar ákvarðanir auðþekkjanlegar þar sem almennt eigi að vera skýr heimild í lögum fyrir slíkum ákvörðunum.  Lögmaður kæranda mótmælir tilvísun kærða til 10. og 30. gr. sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla og bendir enn á að þau ákvæði varði leiðbeiningar um notkun vöru, en ekki neyslu.  Telur kærandi að ákvæðin geti ekki verið grundvöllur skilyrðisins. Lögmaður kæranda víkur að ósk kærða til þess að fá að koma frekari sjónarmiðum á framfæri ef ástæða þyki til.  Kærandi telji að hann hafi ekki fært fram málsástæður og rökstuðning sem kærði þurfi að andmæla sérstaklega, enda sé ekki vani að stjórnvald geti haft uppi andmæli við andmælum, en áskilur sér sama rétt komi til þess að frekari andmæli berist.  Lögmaður ítrekar að fellt verði úr gildi skilyrði um merkingu Kristal PLÚS.

III.

Greinargerð kærða er dagsett 11. maí 2005.

Málavöxtum lýsir kærði á þann veg að þegar umsókn um leyfi hafi borist frá kæranda hafi hún verið send Lýðheilsustofnun til umsagnar.  Þá hafi kæranda gefist kostur að tjá sig um umsögn Lýðheilsustofnunar sem kærandi hafi gert með athugasemdum í bréfi dagsettu 1. febrúar 2005.

Eftir að hafa framkvæmt áhættumat fyrir vöru kæranda, farið yfir umsögn Lýðheilsustofnunar og athugasemdir kæranda við umsögninni hafi verið tekin ákvörðun um að veita kæranda leyfi fyrir vítamínbætingu að því tilskildu að notkunarleiðbeiningar um að varan væri ekki ætluð til neyslu fyrir börn yngri en 7 ára kæmu fram á umbúðum vörunnar eða á áföstum merkimiða.  Þetta kemur fram í ákvörðun kærða dagsettri 10. febrúar s.l.  Kærða hafi síðar borist ósk um rökstuðning fyrir ákvörðun og  komi sá rökstuðningur fram í bréfi dags. 21. febrúar s.l.

Málsástæður kæranda.

Í kæru er vísað til dóms Evrópudómstólsins nr. C-41/02 og fullyrt að í þessum dómi hafi viðkomandi aðildarríki ekki sýnt fram á með neinum vísindalegum rökum að raunveruleg hætta stafi af neyslu fólasíns, sama hve hátt það sé yfir ráðlögðum dagskammti.  Kærði kveðst benda á að skv. tilgreindum dómi og greinargerð með honum hafi helstu rök aðildarríkisins fyrir máli sínu verið landsreglur sem kveði á um að næringarfræðileg þörf fyrir íblöndun viðkomandi bætiefna þurfi að vera fyrir hendi til að aðildarríki leyfi íblöndum og hafi ekki verið gerð alvarleg tilraun til að sýna fram á hættu vegna neyslu einstakra bætiefna.  Tilvitnaður dómur fjalli því einkum um lögmæti þess að leggja til grundvallar næringarfræðilega þörf fyrir viðkomandi íblöndun bætiefna og hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki heimilt.  Það sjónarmið kveðst kærði ekki á nokkurn hátt hafa lagt til grundvallar við ákvörðun sína, enda hafa þessi og fyrri dómar Evrópudómstólsins staðfest að næringarfræðileg þörf sé ekki málefnalegt sjónarmið við ákvörðunartöku um að heimila eða hafna íblöndun bætiefna í matvæli.  Niðurstaða kærða vegna umsóknar kæranda um vítamínbætingu í Kristal PLÚS hafi þvert á móti byggst á mati á hverju bætiefni fyrir sig m.t.t. hættu sem stafað gæti af neyslu þeirra og niðurstaðan hafi orðið sú að hætta stafaði af fólasíni fyrir tilgreindan, en viðkvæman hóp neytenda þ.e. börn yngri en 7 ára.

Kærði kveðst algerlega ósammála því að hann hafi ekki sýnt fram á með vísindalegum gögnum að íblöndun fólasíns í Kristal PLÚS geti falið í sér hættu fyrir börn.  Kærði kveðst undrast slíka umræðu enda hafi það komið skýrt fram m.a. í skriflegum rökstuðningi kærða fyrir ákvörðun sinni hvaða málsþætti stofnun hafi haft mestar áhyggjur af. Í rökstuðningi kveður kærði að fram komi að afar ólíklegt sé að fólasín sem slíkt valdi beinum eituráhrifum, en að ofneysla á fólasíni gæti aftur á móti dulið einkenni B12 vítamínskorts sem haft gæti alvarlegar afleiðingar í för með sér, væri það látið afskiptalaust.  Þetta eigi við hvort heldur um sé að ræða barn eða fullorðinn sem þjáist af B12-vítamínskorti.  Þar sem hluti íslenskra barna fái nú þegar of mikið af fólasíni úr fæðunni hafi kærði skilyrt ákvörðun sína með notkunarleiðbeiningum.

Kærði vísar til þess að kærandi telji hann ekki hafa kannað neyslu barna á vatni eða gosdrykkjum.  Vísar kærði til þess að rétt sé að geta þess hvernig almennt áhættumat fari fram þegar sótt sé um leyfi fyrir íblöndun bætiefna í matvæli og sé því einnig lýst í skriflegum rökstuðningi sínum fyrir ákvörðun.

1)            afla þurfi upplýsinga um heildarneyslu þjóðarinnar og ákveðinna þjóðfélagshópa á þeim bætiefnum sem til standi að íblanda.  Þessar upplýsingar sé að finna hjá Lýðheilsustöð og því nauðsynlegt með vísan til rannsóknarreglu stjórnsýslurettar sbr. 10. gr. stjórnnsyslulaga nr. 37/1993 að leita umsagnar hennar áður en ákvörðun sé tekin í málinu.

Sé neysla á bætiefninu ástættanleg, sé næst litið til eftirfarandi :

2)            Leggja þurfi mat á þá hættu sem neytendum kunni að stafa af neyslu vörunnar í því magni sem líklegt sé að hennar verði neytt.

Kærði kveður að geta verði þess að þegar neysla þjóðarinnar sé skoðuð þá sé skoðaður sá hópur sem mest fái af viðkomandi bætiefni.    Samkvæmt vísindalegum aðferðum, skuli nota neyslu 95 hundraðshluta neytenda sem viðmiðun þannig að sé neysla stærsta hluta neytenda (95%) undir efri mörkum sé óhætt að bæta vítamíninu í matvælin.  Eins og áður hafi komið fram hafi verið sett efri mörk fyrir fólasín og séu þau gefin upp m.t.t. aldurs.  Fyrir mörg næringarefni skorti nægjanleg vísindaleg gögn til að setja efri mörk, en það eigi ekki við um fólasín.

Í umsögn Lýðheilsustofnunar sé getið um neyslu barna á fólasíni og þar sé vísað í niðurstöður rannsókna sem framkvæmdar hafi verið af Rannsóknarstofu í næringarfræði.  Neyslutölur sýni að ekkert rúm sé til frekari fólasínbætingar í matvæli sem ætlað sé að fara á íslenskan markað nema þess sé sérstaklega gætt að fólasínbættra matvæla verði ekki neytt af börnum yngri en 7 ára.  Til þess að kærði skoðaði þætti í skrefi númer 2 sem væri að kanna neyslu á vatni eða gosdrykkjum hefði þurft að vera svigrúm til íblöndunar fólasíns í drykkinn sem í þessu tilviki hafi ekki verið og þar af leiðandi hafi ekki verið skoðuð neysla á sambærilegum drykkjum við Kristal PLÚS.  Kærði bendir á að þess utan séu ekki sambærilegir drykkir við Kristal PLÚS hér á markaði, þ.e. orkusnauður drykkur sem sé vítamínbættur með 6 tegundum B-vítamíns.

Kærði vísar til markaðsrannsóknar sem kærandi nefni.  Komi þar fram að kærandi hafi látið framkvæma könnun sem gefið hafi niðurstöðu.  Kærði bendir á að hann geti ekki tjáð sig frekar um gögnin þar sem stofnunin hafi þau ekki undir höndum.  Þó verði að teljast undarlegt af hálfu kæranda að setja þessi gögn fram með þeim hætti sem gert er til að sýna að neysla á Kristal PLÚS sé mjög takmörkuð þegar komi að börnum, einkum í ljósi þess að í umsókn kæranda dagsettri 6. janúar s.l. og í umsókn sem lögð hafi verið fram sem viðbótargögn 11. janúar s.l. sé sérstaklega tekið fram að margumræddum drykk sé ætlað að koma í stað neyslu á gosdrykkjum.  Ekki sé minnst á að drykknum sé ætlað að koma í stað neyslu á öðru vatni.  Gosdrykkjaneysla íslenskra barna yngri en 7 ára sé umtalsverð og vísar kærði um það til mastersritgerðar Björns S. Gunnarssonar.  Telur kærði að reikna verði með neyslu fyrrgreinds aldurshóps á Kristal PLÚS ef kærandi nái yfirlýstu markmiði sínu.  Ekkert það sé í merkingu, auglýsingu og kynningu Kristals PLÚS sem geri það að verkum að foreldrar muni ekki velja drykkinn fyrir börn sín ef engar merkingar væru á umbúðum, með tilgreindum notkunarleiðbeiningum.  Þessari merkingu sé einmitt ætlað að ná til foreldra til að upplýsa þá um að þetta sé ekki heppilegur drykkur fyrir börn.  Mat kærða sé að þetta sé ein besta aðferðin til þess.

Skilyrði sitt kveðst kærði byggja á því að börn neyti nú þegar of mikils fólasíns skv. upplýsingum frá Lýðheilsustofnun og geti öll viðbót leitt til skaðlegrar ofneyslu.

Jafnræði. Kærði hafnar því að ekki hafi verið gætt jafnræðis við ákvörðunartöku um að leyfa eða hafna íblöndun bætiefna á grundvelli 19. gr. rgl. nr. 285/2002 um aukefni í matvælum með síðari breytingum, á grundvelli þeirra umsókna sem borist hafa stofnuninni til meðferðar.  Kveður kærði fjölmargar umsóknir berast sér á hverju ári um leyfi til íblöndunar bætiefna og sé ýmist veitt leyfi eða umsóknum hafnað eftir að áhættumat, eins og lýst sé að framan, hafi farið fram.  Fyrirtækjum hafi og verið sett skilyrði um merkingar matvæla.  Þannig hafi markaðssetning kalkbætts ávaxtasafa verið skilyrt árið 2000 og skilyrði sett um merkingu Benecols árið 2004.  Hafi skilyrði lotið að því að varan væri ekki ætluð börnum.  Því sé það staðlaus fullyrðing af hálfu kæranda að hann virðist vera sá eini sem hefur þurft að sæta skilyrðum um sérstaka merkingu vöru sinnar.  Kærði kveðst því í hvívetna hafa gætt jafnræðis sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga við meðferð umsóknar kæranda um leyfi til íblöndunar bætiefna.  Kærði kveður þó að skipulag matvælaeftirlits sé í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum með þeim hætti að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga fari með eftirlitið undir yfirumsjón kærða að því leyti sem það sé ekki falið öðrum.  Yfirumsjónarhlutverk kærða feli ekki í sér heimildir til að grípa til aðgerða svo sem stjórnvaldsþvingana, gagnvart þeim aðilum sem ekki sæki um leyfi til íblöndunar en kjósi í trássi við réttarreglur þar um að markaðssetja og dreifa vörum sínum án þess að hafa fyrst sótt um leyfi til kærða.  Raunar hafi kærandi í upphafi haft þann háttinn á.  Úrræðaleysi heilbrigðisnefnda geti ekki komið niður á ákvörðun kærða við afgreiðslu þeirra umsókna sem honum berist.

Kærði bendir á aðhann hafi gætt sérstaklega að því að kærandi hefði á hverjum tíma öll þau sömu gögn og kærði hafði undir höndum og byggði á við ákvörðunartöku.  Ítrekar kærði að ákvörðun um að binda leyfi til íblöndunar skilyrði í þessu tilviki hafi byggt á málefnalegum sjónarmiðum um jafnræði við ákvarðanatöku.

Meðalhóf.  Kærði kveðst telja að gætt hafi verið meðalhófs við ákvarðanatökuna.  Vísað er þegar til þess að börnum yngri en 7 ára gæti stafað hætta af neyslu drykkjarins  þar eð það magn sem þau fá af fólasíni úr fæðunni sé nú þegar yfir efri mörkum fyrir neyslu vítamínsins.  Ekki sé því frekara rúm fyrir viðbætingu þess.  Til að ná því lögmæta markmiði að vernda neytendur fyrir hættu samfara neyslu matvæla sem sé ein af meginreglum laga um matvæli nr. 93/1995 og finna megi stað m.a. í 3. og 10. gr. laganna, hafi verið nauðsynlegt að skilyrða heimild til íblöndunarinnar með þeim hætti sem gert sé í ákvörðun kærða og koma í veg fyrir hættu á því að tiltekinn neytendahópur yrði fyrir skaða af völdum drykkjarins.  Kærði telur ennfremur að ekki hefði verið unnt að ná tilgreindu lögmætu markmiði með öðru vægara móti en gert hafi verið.  Sú uppástunga kæranda að merkja drykkinn með ráðlögðum dagskammti fólasíns fyrir þennan aldurshóp hefði ekki náð tilvísuðu lögmætu neytendaverndarmarkmiði sem getið er að framan.   Skv. umsögn Lýðheilsustofnunar sé ekki rúm fyrir frekari fólasínbætingu matvæla sem neytt sé af börnum yngri en 7 ára og þá skipti engu máli hver sé ráðlagður dagskammtur vítamínsins fyrir þennan aldurshóp, því ráðlagður dagskammtur segi til um það magn sem æskilegt sé að einstaklingar fái á hverjum degi en ekkert um hættuna sem skapist af ofneyslu.

Andmælaréttur. Kærði hafnar því alfarið að ekki hafi verið gætt andmælaréttar með fullnægjandi hætti við meðferð málsins hjá stofnuninni og telur að efnislegur grundvöllur málsins hafi verið nægilega upplýstur áður en stofnunin hafi tekið efnislega rétta ákvörðun í málinu.  Kærði hafi leitað umsagnar Lýðheilsustofnunar þar sem manneldiskannanir hafi verið framkvæmdar af Manneldisráði, sem sé nú hluti af Lýðheilsustofnun og öll gögn um neyslu landsmanna á næringarefnum og matvælum séu vistuð þar.  Í áliti Lýðheilsustofnunar komi skýrt fram að stöðin hafi eingöngu áhyggjur af ofneyslu fólasíns en taldi að ekki þyrfti að hafa miklar  áhyggjur af ofneyslu annarra vítamína sem bætt sé í Kristal PLÚS.  Því var fólasín sérstaklega skoðað og álit gefur án nokkurs vafa til kynna að börnum 2 til 6 ára gæti stafað hætta af tilgreindum drykk. Kærði kveður að kæranda hafi verið gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum.  Hafi umsögn borist frá kæranda 1. febrúar.  Í athugasemdum takmarki kærandi umfjöllun við fólasín enda taldi kærandi líklegt að viðbæting annarra vítamína en fólasíns yrði heimiluð.

IV.

Lögmaður kæranda kærir ákvörðun  kærða um að veiting leyfis til vítamínbætingar Kristal PLÚS sé háð skilyrði um eftirfarandi merkingu drykkjarins : “Ekki ætlað til neyslu fyrir börn yngri en 7 ára.”   Telur lögmaður kæranda ekki lagastoð fyrir ákvörðun kærða og krefst þess að ákvörðun varðandi skilyrðingu verði felld úr gildi.  Kærði krefst þess að ákvörðun sín verði staðfest og vísar m.a. til rgl. 588/1993 svo og óskráðrar meginreglu íslensks stjórnsýsluréttar að matskenndar stjónrvaldsákvarðanir megi binda skilyrðum án þess að þess sé getið í lögum sérstaklega.  Slík skilyrði verði að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum, megi ekki vera verulega íþyngjandi m.t.t. aðalefnis ákvörðunar og hafa eðlileg efnisleg tengsl við aðalefni ákvörðunarinnar.

Í 19. gr. rgl. nr. 285/2000  kemur fram í ákvæði til bráðabirgða að þar til reglugerð um íblöndun bætiefna í matvæli hafi verið sett geti Hollustuvernd ríkisins veitt leyfi til notkunar bætiefna.  Um er að ræða heimildarákvæði sem aðeins varðar veitingu eða höfnun leyfis til íblöndunar bætiefna í matvæli.  Sérstök reglugerð varðandi íblöndun bætiefna í matvæli hefur ekki verið sett og er því ákvæði þetta í gildi. Í reglugerð nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla kemur fram sitthvað varðandi merkingu auglýsingu og kynningu matvæla.  Ekki er unnt að fallast á með kærða að ákvæði 10. og 30. gr þeirrar reglugerðar geti verið lagagrundvöllur skilyrðingarmerkingar á Kristal PLÚS.  Benda verður á að tilgreind reglugerð er sett áður en rgl. nr. 285/2000 með tilgreindu bráðabirgðaákvæði var sett.  Ekki verður heldur talið að IV. kafli rgl. um aukefni nr. 285/2002 eigi við um íblöndun bætiefna.  Með tilvísan til framangreinds er ekki  unnt að fallast á það með kærða að nægileg lagastoð sé fyrir skilyrðingu leyfis fyrir Kristal PLÚS.  Fallist er því á kröfur kæranda.  Í samræmi við framangreint er ógilt skilyrði um eftirfarandi merkingu Kristal PLÚS :  “Ekki ætlað til neyslu fyrir börn yngri en 7 ára.”.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfu kæranda.  Skilyrði kærða um eftirfarandi merkingu Kristal PLÚS : “Ekki ætlað til neyslu fyrir börn yngri en 7 ára “,  er fellt úr gildi.

                                                                                                                        Lára G. Hansdóttir

 Gísli Gíslason                      Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 10/4/05

7/2004 Úrskurður vegna kæru Þórðar Sigurjónssonar gegn Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005, föstudaginn 8. apríl, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Gísli Gíslason, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr.  7/2004  Þórður Sigurjónsson, Kleppsvegi 102, Reykjavík gegn Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I

Stjórnsýslukæra Helga Birgissonar hrl. f.h. Þórðar Sigurjónssonar, hér eftir nefndur kærandi er dags. 5. október, 2004, en barst úrskurðarnefnd 11. október, 2004. Kærð er ákvörðun Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, hér eftir nefnd kærði, um afturköllun á leyfi til hundahalds.

Gögn sem kærunni fylgdu eru :

1)      Afrit af bréfi kærða dags. 24. september 2004 um afturköllun leyfis til hundahalds..

2)      Afrit af bréfi lögmanns kæranda dags. 20. september, 2004.

3)      Afrit af bréfi kærða dags. 10. september 2004.

Afrit af gögnum kærenda var sent kærða með bréfi dags. 15. október, 2004.  Greinargerð kærða barst 15. mars, 2005 en er dagsett 28. október 2004. Ítrekunarbréf hafði verið sent kærða í lok desember og fyrirspurnir símleiðis.

II.

Lögmaður kæranda kærir ákvörðun kærða um staðfestingu á afturköllun kærða dags. 10. september 2004 á leyfi til að halda hundinn Tímon nr. 3875.  Krafist er að ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir kærða að afhenda kæranda hundinn Tímon.

Lögmaður kæranda greindir frá því að Umhverfis- og heilbrgðisnefnd hafi staðfest afturköllun kærða með þrem atkvæðum.  Minnihluti nefndarinnar hafi fallist á sjónarmið kæranda um að honum hafi ekki verið gefinn nægjanlegur kostur á að gæta hagsmuna sinna áður en ákvörðun um að svipta hann leyfinu hafi verið tekin og kveður lögmaður að því hafi verið beint til kærða að í framtíðinni yrðu áminningarbréf send með sannanlegum hætti.  Meirihluti hafi tekið undir nauðsyn þess að áminningarbréf yrðu send með þeim hætti að þau bærust örugglega hlutaðeigendum  en hafi samt talið með vísan til “ítrekaðra kvartana borgara vegna lausagöngu hundsins sem og þeirrar staðreyndar að eiganda hafi sannanlega borist eitt áminningarbréf vegna máls”, skylt að afturkalla umrætt leyfi til hundahalds.  Lögmaður kveður kæranda gera alvarlega athugasemd við þessa afgreiðslu meirihluta. Hann kannist ekki við að ítrekaðar kvartanir eigi við rök að styðjast.  Leyfisveitandi verði að sýna fram á réttmæti slíkra fullyrðinga ella væri einstaklingum í lófa lagið að gera hundeigendum skráveifu með röngum og óréttmætum kvörtunum.  Þá kannist kærandi ekki við að hafa borist nein áminningarbréf vegna málsins eins og haldið sé fram af meirihluta Umhverfis- og heilbrigðisnefndar, en nefndin hafi ekki séð ástæðu til að upplýsa nánar um hvaða bréf sé að ræða. Þá vísar lögmaður kæranda til frekari rökstuðnings í kæru sinni til Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar sem dagsett sé 20. september 2004.

Í kæru þeirri vísar lögmaður kæranda til afturköllunar leyfis til hundahalds og að rökin fyrir því hafi verið að með ítrekaðri lausagöngu hundsins Tímons hafi kærandi brotið gegn 13. gr. samþykkta um hundahald í Reykjavík.  Hafi kæranda verið send áminning skv. 26. gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með bréfi dags. 28.  júlí s.l.  Þar sem hundurinn hafi verið handsamaður í lausagöngu þann 10. september sé leyfið afturkallað.  Lögmaður kveður kæranda mótmæla framangreindri ákvörðun og krefjast þess að hún verði felld úr gildi og lagt verði fyrir kærða að afhenda honum þegar hundinn.  Lögmaður vísar til þess að ákvörun kærða byggi m.a. á því að kæranda hafi verið send áminning með bréfi þann 28. júlí s.l. og þar bent á að við endurtekið brot yrði leyfi hans afturkallað.  Lögmaður vísar til ákvæðis 26. gr. laga nr. 7/1998 sem sé svohljóðandi :

Til að knýja á um framkvæmd ráðsöfunar samkvæmt lögum þesusm reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum samkævmt þessum ákvæðum geta heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt eftirfarandi aægerðum :

1.      veitt áminningu

2.      veitt áminningu og  tilhlýðilegan frest til úrbóta.

Þá vísar lögmaður kæranda einnig til 30. gr. laganna þar sem fram komi :

Við meðferð mála samkvæmt þessum kafla skal fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga.

Telur lögmaður kæranda ljóst vera að áminning og frestur til að bæta úr sé almennt undanfari ráðstafana samkvæmt lögnunum og að málsmeðferð (við afturköllun) beri að haga eftir almennum reglum stjórnsýsluréttarins.  Þannig hafi borið að gera kæranda viðvart um að leyfi hans væri til skoðunar og gefa honum færi á að tjá sig og tækifæri til að bæta úr.  Umrætt áminningarbréf hafi hins vegar aldrei borist kæranda og eftirgrennslan hafi leitt í ljós að það hafi ekki verið sent honum með sannanlegum hætti.  Því hafi kæranda aldrei í raun verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna, bæta ráð sitt og koma að sjónarmiðum sínum áður en sú ákvörðun hafi verið tekin að svipta hann leyfinu.

Lögmaður kæranda vísar ennfremur til þess að hafi kvartanir borist vegna hundahalds kæranda stafi þær eingöngu frá einum nágranna sem virðist hafa horn í síðu kæranda.  Í flestum tilvikum hafi þessar kvartanir ekki átt við nein rök að styðjast.  Lögmaður vísar til 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þess að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti og ekki mismuna aðilum.  Kærandi viðurkenni að hafa orðið á mistök við gæslu hundsins Tímons.  Slíkt eigi einnig við  um flesta aðra hundaeigendur, að fyrir komi að dýr þeirra sleppi laus innan borgarmarkanna.  Þó að finna megi að kæranda sem hundaeiganda  telji hann að í samanburði hafi hann ekki staðið sig verr en margur hundaleyfishafi sem kærði hafi ekki talið sig þurfa að beita áminningum eða afturköllun hundaleyfis.  Hundaeftirlitsmenn borgarinnar geti væntanlega borið um þetta atriði og veki athygli að ekki skuli hafa verið talin ástæða til að kalla eftir upplýsingum frá þeim áður en gripið hafi verið til svo viðurhlutamikillar ákvörðunar sem afturköllun leyfis sé.  Kærandi hafi engar skýringar fengið á því hvers vegna hann fái ekki sambærilega meðhöndlun og aðrir leyfishafar hundahalds.

Vísar lögmaður kæranda til andmælareglu, rannsóknarreglu, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga auk annarra raka og krefst þess að afturköllun leyfis verði felld úr gildi.

Lögmanni kæranda var send greinargerð kærða.  Hann ítrekaði kröfur og málsástæður í fyrirliggjandi gögnum.

III.

Greinargerð kærða er dags. 28. október 2004, en barst nefndinni í tölvupósti 15. mars 2005 og var undirritað eintak sent formanni samdægurs.  Vísar kærði til þess að í kjölfar kvörtunar sem kærða hafi borist vegna lausagöngu hunds kæranda hafi kæranda verið sent bréf, dags. 30. mars, 2004 þar sem hann hafi verið minntur á ákvæði 13. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 sem kveði á um bann við lausagöngu hunda.  Hafi kæranda jafnframt verið bent á að ítrekuð brot á ákvæðum samþykktar um hundahald í Reykjavík gætu leitt til afturköllunar á leyfi til hundahalds, sbr. ákv. 20. gr. áðurnefndrar samþykktar.  Ekkert lát hafi orðið á lausagöngu hundsins og hafi kærða m.a. borist kvartanir þ. 6. maí, 9. og 26. júlí v. þessa. Hafi því kæranda verið send áminning skv. 26 gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, þann 28. júlí 2004 og honum tilkynnt að við endurtekið brot hyggðist kærði afturkalla leyfi hans til hundahalds.  Bréfið hafi ekki verið endursent kærða líkt og með bréf sem pósturinn komi ekki til skila.  Þá hafi kærða borist aftur kvörtun vegna lausagöngu hundsins þann 17. ágúst.  Rétt sé að taka það fram að kvartanir hafi borist frá fleiri en einum aðila í nágrenni kæranda.

Kærði kveður að þann 7. september 2004, hafi aftur verið kvartað til lögreglu vegna lausagöngu hundsins og hafi lögregla handsamað hundinn.  Þar sem kærandi hafi haft samband við lögreglu meðan á aðgerð stóð hafi hundinum verið ekið heim til kæranda í stað þess að fara í dýrageymslu.  Lögreglu hafi þá ekki verið kunnugt um að kærði hyggðist afturkalla leyfi kæranda til hundahalds gengi hundurinn laus.   Aftur hafi hundurinn gengið laus þann 10. september og hafi hundaeftirlitsmaður kærða þá handsamað hundinn.  Hann hafi þá verið færður í hundageymslu og kæranda tilkynnt með bréfi dags. 10. september s.l. að leyfi hans til hundahalds hafi verið afturkallað.  Hafi honum þá verið veitttur frestur til andmæla og jafnframt bent á að skv. 2. mgr. 1. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík gæti hann vísað ákvörðun kærða til úrskurðar Umhverfis- og heilbrigðisnefndar. Kærði lýsir því að með bréfi dags. 20. september 2004 hafi lögmaður kæranda vísað ákvörðun kærða um afturköllun á leyfinu til úrskurðar Umhverfis- og heilbrigðisnefndar.  Málið hafi verið tekið fyrir og afgreitt á fundi nefndarinnar þann 23. september 2004, eins og lýst sé í bréfi lögmanns kæranda.

Kærði bendir á að skv. lýsingu hafi kærandi ítrekað brotið ákvæði 13. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 um bann við lausagöngu og kærða hafi því verið heimilt skv. 20. gr. sömu samþykktar að afturkalla leyfi hans til hundahalds.  Með áðurnefndu bréfi dags. 30. mars .sl. hafi kæranda verið gert fullljóst að ítrekuð lausaganga myndi leiða til afturköllunar á leyfi til hundahalds.  Hafi því kærði ekki talið þörf á að veita frekari áminningu þó svo að kærandi telji sig ekki hafa fengið formlegt áminningarbréf sem sent hafi verið, heldur afturkallað leyfi til hundahalds.

Kærði vísar til tilvísunar kæranda um að stjórnsýslulög hafi verið brotin þar sem kæranda hafi ekki “sannanlega”  borist áminningarbréf  kærða vegna hundahalds  og hann hafi því ekki fengið færi á að tjá sig og bæta úr ástandinu.  Kærandi haldi því fram að áminning og frestur til að bæta úr ástandi sé almennt undanfari ráðstafana skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Kærði tekur fram af þessu tilefni að skv. tilgreindum lögum sé það ekki skilyrði til að knýja á um framkvæmd ráðstafana skv. lögunum að áminning og síðan áminning með tilhlýðilegum fresti til úrbóta sé undanfari ráðstafana.  Þvert á móti sé hægt að grípa án tafar til ráðstafana, án þess að til áminningar þurfi að koma  sérstaklega þegar hætta sé á að broti sé haldið áfram af viðkomandi.  Kveður kærði það liggja í hlutarins eðli að sumar ráðstafanir skv. lögunum séu þess eðlis að ekki sé unnt að fara þessa leið.  Hann kveður það vera viðtekna venju við eftirlit með hundum í borginn að þeir séu teknir án viðvörunar og undangenginnar áminningar þegar um lausagöngu sé að ræða, upp komi bitmál, veruleg óþægindi o.sv. frv.  Þar að auki kveður kærði að andmælaréttur kæranda hafi verið virkur, þar sem hann hafi átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum á framfæri bæði við kærða, Umhverfis- og heilbrigðisnefnd og nú síðast kærunefnd skv. l. nr. 7/1998.  Sé vandséð hver fleiri tækifæri eigi að veita aðila sem viðurkenni brot sín skv. hundasamþykkt, til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Jafnframt kveður kærði að meðalhófs hafi verið vandlega gætt í málinu þar sem hundurinn hafi ekki enn verið fjarlægður af heimili kæranda og því hafi ekki verið gengið lengra en nauðsyn hafi borið af hálfu kærða.  Rannsóknarreglum hafi verið sinnt þar sem staðfest hafi verið með rannsókn brot kæranda á samþykkt um hundahald í Reykjavík.

IV.

Krafa kæranda er að ákvörðun kærða um afturköllun leyfis til hundahalds verði

felld úr gildi. Kærði krefst staðfestingar á ákvörðun sinni.

Í VI. kafla laga nr.  7/1998 um valdsvið og þvingunaraðgerðir kemur fram að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar skv. lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt þeim aðgerðum að veita áminningu  og að veita áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta.  Í gögnum málsins kemur fram að  kæranda hafi ekki borist áminningarbréf það sem kærði kveðst hafa sent.  Kærði lýsir því yfir að áminnningarbréf hafi verið sent, en hefur ekki lagt fram neina staðfestingu á því.  Kærði verður að bera hallann af því að geta ekki sýnt fram á að áminningarbréf hafi verið sent með sannanlegum hætti. Fram kemur í gögnum málsins að venja sé  að senda áminningarbréf og verður kærði að bera ábyrgð á því að það berist hlutaðeigandi.   Ekki er unnt að fallst á sjónarmið kærða um að ítrekuð brot kæranda og meint viðurkenning á brotum sé næg ástæða til afturköllunar án áminningar og frests til úrbóta.  Verður því fallist á kröfur kæranda.  Afturköllun leyfis til hundahalds er  íþyngjandi ákvörðun og á kærandi því rétt að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en til ákvörðunar kemur sbr. ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  .  Ekki verður séð að þess hafi verið gætt í máli þessu.  Með tilvísan til framangreinds er fallist á kröfur kæranda  og er ákvörðun kærða felld úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfur kæranda.  Ákvörðun kærða um afturköllun leyfis til hundahalds fyrir hundinn Tímon er felld úr gildi.

Lára G. Hansdóttir

Gísli Gíslaon                             Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 4/18/05

2/2005 Úrskurður vegna kæru Ölgerðar Egils Skallagrímssonar hf. gegn Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005,  fimmtudaginn 17. mars,  kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Gísli Gíslason, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2005  Ölgerðin Egill Skallagrímsson gegn Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur.   

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra  Erlendar Gíslasonar hrl. f.h. Ölgerðar Egils Skallagrímssonar hf, hér eftir nefndur kærandi er dags. 11. janúar, 2005  og var móttekin samdægurs.  Kærð er ákvörðun Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, hér eftir nefnd kærði, um að stöðva drefingu tveggja bragðtegunda drykkja kæranda svo og synjun um að afturkalla dreifingarbannið. Gögn sem kærunni fylgdu eru:

1)      Afrit af bréfi kærða til kæranda um stöðvun dreifingar á Kristal plús dags. 4. janúar, 2005.

2)      Afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 6. janúar, 2005.

3)      Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 7. janúar, 2005.

Afrit af gögnum kæranda var sent kærða sem skilaði greinargerð dags. 17.

janúar, 2005.  Afrit greinargerðar kærða var send lögmanni kæranda sem skilaði

greinargerð dags. 26. janúar, 2005.

II.

Lögmaður kæranda kærir ákvörðun kærða dags. 4. janúar 2005 um að stöðva dreifingu tveggja bragðtegunda af drykknum Kristal plús og synjun á kröfu kæranda frá 6. janúar s.l. um að afturkalla dreifingarbannið.

Kærandi kveður málavexti þá að með bréfi kærða dags. 4. janúar s.l hafi kæranda verið tilkynnt að kærði krefðist stöðvunar á dreifingu tveggja bragðtegunda af drykknum Kristal plús.  Átti slík stöðvun á dreifingu að gilda þar til niðurstaða umsóknar skv. 19. gr. rgl. nr. 285/2002 um aukaefni í matvælum lægi fyrir.  Kærandi óskaði eftir því með bréfi dags. 6. janúar s.l að kærði afturkallaði kröfur sínar um að dreifing yrði stöðvuð.  Kærði hafnaði því með bréfi dags. 7. janúar s.l.  Kærandi byggir kröfur sínar á því að í ákvörðun kærða komi hvergi fram á hvaða lagagrundvelli ákvörðun kærða sé byggð.  Eina lagagreinin sem kærði vísi til sé 19. gr. rgl. nr. 285/2002 um aukaefni í matvælum. Í þeirri grein komi fram að þar til rgl. “um íblöndun bætiefna í matvæli” hafi verið sett geti Hollustuvernd ríkisins, nú Umhverfisstofnun, veitt leyfi til notkunar bætiefna.  Í 4. gr. sömu rgl. komi þó fram að vítamín og steinefni(bætiefni) notuð í þeim tilgangi að hafa áhrif á næringargildi matvæla, séu ekki aukaefni í skilningi reglugerðarinnar.  Réttarástandið sé því þannig að sækja þurfi um leyfi til Umhverfisstofnunar til notkunar bætiefna við framleiðslu matvæla, á grundvelli reglugerðar um aukaefni, sem taki ekki yfir bætiefni.  Kærða hafi ekki verið falið að veita leyfi til notkunar bætiefna, né að grípa til aðgerða, sé ekki sótt um slíkt leyfi.  Þegar löggjafinn hafi mælt fyrir um að fleiri en eitt stjórnvald skuli gegna hlutverki við töku ákvarðana í stjórnsýslu leiði það af aðgreiningarreglum stjórnsýsluréttar að hvert þeirra geti aðeins fjallað um það réttaratriði sem því sé sérstaklega falið með lögum.

Það sé því mat kæranda að tilvísun til 19. gr. rgl. nr. 285/2002 um aukaefni í matvælum, sýni að kærði sé að grípa til íþyngjandi ráðstafana á sviði sem falli utan valds stofnunarinnar og það sé ekki hennar hlutverk að grípa til ráðstafana þegar í gangi sé, eins og stofnuninni sé kunnugt, umsóknarferli fyrir íblöndun bætiefna í matvæli.  Því uppfylli ákvörðun kærða ekki lögmætisreglu stjórnsýslunnar.

Lögmaður kæranda bendir á að í 29. gr. laga nr. 93/1995 komi fram að eftirlitsaðila sé heimilt að stöðva eða takmarka framleiðslu og dreifingu matvæla og leggja hald á þau þegar rökstuddur grunur sé um að matvæli uppfylli ekki ákvæði laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Að mati kæranda er þetta ákvæðið sem kærði hefði átt að byggja á og vísa til í máli þessu.

Lögmaður kæranda bendir á að eins og sé með aðrar lögbundnar íþyngjandi stjórnvaldsheimildir, beri að túlka þetta ákvæði þröngt.  Að mati kæranda sé alls ekki um að ræða rökstuddan grun um að drykkurinn uppfylli ekki ákvæði matvælalaga, eða reglugerða sem á þeim eru byggðar.  Þvert á móti, enda hafi kærði aldrei haldið því fram að sú sé raunin.

Þá ræðir lögmaður kæranda í greinargerð inni um úttekt kæranda á drykkjarvörum sem innihaldi sömu og í mörgum tilvikum miklu fleiri bætiefni en umræddir drykkir kæranda.  Ekki verði séð að neinn þeirra drykkja hafi fengið útgefið leyfi á grundvelli 19. gr. rgl. nr. 285/2002 né að þeir hafi þurft að sæta dreifingarstöðvun.

Þá vísar lögmaður kæranda til viðtals við deildarstjóra hjá kæranda en í því hafi komið fram að þar sem frjálst flæði vitamínbættra vara sé innan Evrópska efnahagssvæðisins sé ekki skoðað hvort þær erlendu uppfylli allar íslenskar reglur áður en þær fari á markað.  Ennfremur að munur á innfluttum drykkjum og drykkjum kæranda sé sá að flestir þeir erlendu hafi fengið leyfi erlendra stjórnvalda.  Lögmaður kæranda bendir á að ekki sé kunnugt hvernig kærði hafi gengið úr skugga um hvort svo sé, en vill benda á að könnun kæranda hafi leitt í ljós að ekki hafi þurft leyfi stjórnvalda til markaðssetningar sambærilegs drykkjar og Kristals plús í sjö löndum þar sem kærandi hafi kannað stöðuna.  Dregur lögmaður þá ályktun af framangreindu að dreifingarstöðvun sé bara beitt gegn innlendri framleiðslu en ekki innfluttum vörum.  Í slíkri mismunun sé um að ræða brot á ákvæðum stjórnarskrár um að allir séu jafnir fyrir lögum.  Ennfremur sé um að ræða brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem geri þá kröfu að sambærileg tilvik skuli afgreidd með sambærilegum hætti. Þá bendir lögmaður kæranda á að erfitt sé að sjá hvernig ákvæðum 12 gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf sé gætt í kærðri ákvörðun.  Markmið dreifingarbannsins hljóti að vera að koma í veg fyrir að almannaheilbrigði sé stefnt í hættu enda komi slík sjónarmið fram í lögum nr. 93/1995 um matvæli.  Kærandi sé á þeirri skoðun að Kristal plús sé fjarri því að skapa neina hættu, enda sambærilegir drykkir á markaði víðsvegar í Evrópu án inngrips þarlendra stjórnvalda.  Mat íslenskra stjórnvalda hljóti líka að vera að sambærilegir innfluttir drykkir séu hættulausir enda markaðssetning þeirra látin átölulaus.  Dreifingarbannið sé því kæranda algerlega óskiljanlegt og nauðsyn þess í ljósi aðstæðna á huldu.  Ákvörðun sem ekki sé í samræmi við þau markmið sem að sé stefnt og ekki nauðsynleg til að ná gefnu markmiði, uppfylli ekki grunnkröfur meðalhófsreglu.

Þá gerir lögmaður kæranda grein fyrir því að kæran sé öðrum þræði reist á því að brot á jafnræðis- og meðalhófsreglu eigi jafnframt að leiða til þess að hin kærða ákvörðun sé úr gildi felld.

Að lokum vekur lögmaður kæranda athygli á því að aðgerðir kærða kunni, nái þær fram að ganga, að valda kæranda fjárhagslegu tjóni.  Því áskilji kærandi sér allan rétt til að krefja Reykjavíkurborg um skaðabætur.  Þá er þess óskað að málinu verði hraðað í ljósi hagsmuna kæranda.

Lögmaður kæranda sendi athugasemdir sínar eftir að hafa fengið greinargerð kærða í hendur.  Gerir hann athugasemdir við lýsingu kærða á því að kærandi hafi vísvitandi ekki sótt um leyfi, hafi sætt sig við reglur og að um ásetningsbrot á reglum sé að ræða.  Hafnar lögmaður kæranda þessum ályktunum kærða og lýsir furðu á því að kærði leyfi sér að draga slíkar ályktanir.

Þá kveður lögmaður kæranda, kæranda ennfremur hafna því sem fram komi í greinargerð kærða að “skv. 19. gr. rgl. nr. 285/2002 sé markaðssetning óheimil nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar.”  Lögmaður kæranda kveður kæranda enga stoð finna þessari ályktun kærða í greininni, en ályktun þessi sé síendurtekin í greinargerð kærða og byggt á henni.  Rétt sé að í greininni sem sé bráðabirgðaákvæði komi fram að Umhverfisstofnun geti veitt leyfi til íblöndunar bætiefna í matvæli.  Umsókn skuli skilað til þeirrar stofnunar ásamt leyfisgjaldi.  Rétt sé einnig að geta þess að ekkert leyfi þurfi til markaðssetningar vöru sem innihaldi aukefni þau sem heimiluð og tiltekin séu í margtilvitnaðri rgl. sem að frátöldu nefndu bráðabirgðaákvæði fjalli einungis um aukefni.

Lögmaður kæranda bendir á að kærði vísi til 16. gr. rgl. nr. 285/2002 til útskýringar á valdheimildum sínum.  Þau ákvæði vísi til XI. kafla laga nr. 93/1995 um matvæli.  Í þeim kafla sé að finna 29. gr. laganna sem kærði byggi á,  ásamt 19. gr. rgl. nr. 285/2002.  Kveður lögmaðurinn það í fyrsta lagi hljóti að teljast verulegur ágalli á íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun að geta ekki um á hvaða lagagrundvelli hún sé byggð fyrr en á þessu stigi.  Í öðru lagi kveður lögmaðurinn kæranda vilja benda á að ekki sé hægt að álykta svo að viðbrögð við því að ekki sé sótt um leyfi til íblöndunar bætiefnis til Umhverfisstofnunar geri það að verkum að 16. gr. reglugerðar nr. 285/2002 verði virk, en í henni kemur fram valdsvið og þvingunarúrræði varðandi aukefni í matvælum, sem sé efni reglugerðarinnar.  Ekkert sé minnst á 19. gr. eða íblöndun bætiefna í 16. gr. rgl. nr. 285/2002  og telur lögmaður kæranda kærða enn á ný á villigötum hvað varðar lagagrundvöll fyrir aðgerðum sínum.

Lögmaður kæranda lýsir því að greinargerð kærða hafi síður en svo varpað ljósi á lagaheimildir og forsendur fyrir dreifingarbanninu.  Ákveðin atriði séu að koma hér fram í fyrsta sinn, svo sem tilvísun til 29. gr. laga um matvæli nr. 93/1995 og 16. gr. rgl nr. 285/2002.  Kærandi haldi því enn fram að kærði hafi ekki lögbundið hlutverk þegar komi að leyfisveitingu fyrir íblöndun bætiefna né hafi honum verið falið að grípa til aðgerða, sé ekki sótt um slíkt leyfi.  Lögmaður kæranda ítrekar tilvísun til jafnræðisreglna og meðalhófs.  Fulljóst hljóti að vera miðað við lýsingar kærða að innlendir framleiðendur búi við mun ríkara eftirlit og harðari viðbrögð en innflytjendur, sérstaklega í ljósi þess sem fram sé komið að kærði telji að í 19. gr. rgl. nr. 285/2002 sé falið bann við markaðssetningu.  Þá vísar lögmaður til þess að vægari úrræðum hefði verið unnt að beita, eða áminningu.

III.

Greinargerð lögmanns kærða er dags. 17. janúar, 2005 og barst 19. janúar.  Kemur fram í greinargerð að kærði telji þurfa að bæta við málavaxtalýsingu kæranda sem taki einvörðungu til afskipta kærða frá og með 4. janúar, 2005.  Kærði lýsir því að kærandi hafi sett vöru sína, tvær bragðtegundir af Egils kristal, bættar með B-vítamíni á markað skömmu fyrir áramót 2004-2005.  Hafi kærandi vísvitandi ekki sótt um leyfi Umhverfisstofnunar fyrir markaðssetningu drykkjanna, þrátt fyrir að honum væri fullkunnugt um að óheimilt væri að setja vöruna á markað án leyfis.  Hafi kærandi haft reynslu af því banni þar sem hann hafi fyrr á árinu 2004 sótt um leyfi fyrir kalkbætingu sömu drykkjarvara og þá sótt um leyfi Umhverfisstofnunar til markaðssetningar en fengið synjun.  Kæranda hafi því verið fullkunnugt um að leyfi þyrfti til markaðssetningar vítamínbættra drykkja á Íslandi og hafi greinilega ætlað sér að fara að reglum í fyrra skiptið og sætt sig við reglurnar þá þar sem hann hafi hætt við markaðssetningu drykkjarins að fenginni synjun. Því hafi seinni markaðssetning drykkjarins af hálfu kæranda verið ásetningsbrot á reglum sem hann vissi um og þekkti og hafði áður virt.

Kærði lýsir því að vitneskja hafi borist um markaðssetningu drykkjarins með vítamínbætingu með ábendingum neytenda og fréttatilkynningu.  Ekki hafi orðið hjá því komist þegar markaðssetning kæranda á drykknum hófst að kanna hvort varan uppfyllti skilyrði laga og reglugerða.  Þegar í ljós hafi komið að ekki hafði verið aflað leyfis Umhverfisstofnunar til að markaðssetja vítamínbættan Egils kristal hafi verið sett dreifingarbann á vöruna.  Kærði vísar til þess að kærandi haldi því fram að ekki sé að finna lagaheimild fyrir dreifingarbanni kærða.  Bendir hann á að svo sem skýrt komi fram í bréfi kærða dags. 4. janúar s.l. byggist dreifingarbann stofunnar á því að ekki hafði verið aflað tilskilins leyfis fyrir markaðssetningu.  Vísar kærði til 19. gr. rgl. nr. 285/2002 og bendir á að markaðssetning sé óheimil nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar.  Í  sömu reglugerð sé að finna ákvæði um hvernig bregðast skuli við brotum á henni.  Tekur lögmaður kærða upp orðrétt ákvæði 16. og 19. gr. reglugerðarinnar og vísar til þess að kærði byggi ákvörðun sína á 19. gr. tilgreindrar reglugerðar og 29. gr. hennar ekki 28. gr.

Kærði vísar til þess að ekki sé að svo stöddu lagt mat á hvort hætta sé á að umrædd vara geti valdið heilsutjóni eða ekki, enda sé það ekki aðalatriði máls.  Brot kæranda sé alfarið gegn 19. gr. rgl. 285/2002 og öðrum ástæðum hafi ekki verið haldið fram af kærða.  Ekki þurfi rökstuddan grun til stuðnings þeirri skoðun, þegar brotið liggur fyrir, viðurkennt af kæranda, sem hafi beðist afsökunar á broti sínu, sbr. bréf kæranda til kærða dags. 6. janúar 2005.  Í sama bréfi viðurkenni  kærandi í raun að leyfisveiting sé forsenda fyrir markaðssetningu vöru sinnar og tilkynni kærða að hann hafi sótt um leyfi fyrir vörunni.

Kærði kveðst ekki fara út fyrir valdheimildir sínar í máli þessu eins og kærandi haldi fram.  Þvert á móti sinni stofan skyldu sinni skv. l. nr. 7/1998 með síðari breytingum og l. nr. 93/1995 og tekur upp 1. mgr. 22. gr. :”Heilbrigðisnefnd hefur undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar  opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla að svo miklu leyti sem það er ekki falið öðrum aðilum Umhverfisstofnun skráir nauðsynlegar upplýsingar um framleiðslu og dreifingu matvæla vegna matvælaeftirlits.  Þá er ráðherra, að höfðu samráði við svæðisnefndir á heilbrigðiseftirlitssvæðum heimilt að fela stofnuninni eftirlit með afmörkuðum þáttum“. Kveður kærði að þarna komi fram skýr verkaskipting stjórnvalda við matvælaeftirlit hér á landi sem ekki hafi verið véfengd til þessa.  Matvælaeftirlit starfi í umboði heilbrigðisnefndar sbr. 15. gr. l. nr. 7/1998.  Aðgreiningarregla stjórnsýsluréttar á þessu sviði hafi þannig verið skilgreind af löggjafarvaldinu sem skýr verkaskipting milli stjórnsýsluaðila.  Kærði  vísar til yfirlýsingar kæranda um 43 innfluttar bætiefnabættar drykkjarvörur sem séu fáanlegar með sömu innihaldsefnum og e.t.v. fleirum og drykkur kæranda.  Kærði hafi farið yfir lista og falli 14 drykkjanna undir sérreglugerðir, 5 séu í dreifingarbanni og fleiri skýringar eru hjá kærða í greinargerð.  Kærði bendir á að ekki hafi verið settar samræmdar reglur um bætiefnabætingu matvæla á Evrópska efnahagssvæðinu og flæði vörur frjálst milli landa á svæðinu sem og frá öðrum innflutningslöndum.  Innflutt matvæli séu því ekki alla jafna skoðuð af yfirvöldum áður en þau séu sett á markað og það sé ávallt á ábyrgð viðkomandi innflytjanda eða innlends framleiðanda að matvæli sem sett séu hér á markað uppfylli ákvæði þeirra laga og reglugerða sem um þær gildi.  Því verði kærði að stöðva vöru sem ekki uppfylli íslenskar reglur eftir að hún sé komin á markað.  Þeirri fullyrðingu kæranda að kærði beini aðgerðum sínum eingöngu gegn innlendum framleiðendum en ekki innfluttum vörum svarar kærði því að hann kanni allan markaðinn án tillits til upprunalands vöru eða framleiðanda.  Bendir hann á að stofan hafi stöðvað dreifingu á átta matvælategundum frá áramótum.  Því sé vandséð hvernig kærandi geti haldið þvi fram að kærði geri upp á milli innlendra og erlendra framleiðenda.  Þá vísar kærði til yfirlýsingar kæranda um brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.  Bendir hann á að úrræði stofunnar sé í 29. gr. laganna þar sem fram komi að stöðva megi eða takmarka framleiðslu og dreifingu matvæla og leggja hald á þau þegar rökstuddur grunur sé um að matvæli uppfylli ekki ákvæði laganna.  Því hafi kærði einmitt sinnt reglum um meðalhóf með því að velja vægustu aðferðir þ.e. að stöðva dreifingu hennar.  Vægari úrræði sé ekki að finna. Áskilnaði kæranda um kröfu um skaðabætur hafnar kærði alfarið og krefst þess að ákvörðun kærða um dreifingarbann verði staðfest.

IV.

Deilt er um dreifingarbann sem kærði setti á vítamínbætta drykki kæranda.  Lögmaður kærða kærir ákvörðun og telur að hana beri að ógilda enda hafi hún ekki lagastoð og sé í andstöðu við ákvæði stjórnsýslulaga.  Lögmaður kærða krefst staðfestingar á ákvörðun um dreifingarbann og vísar til 19. gr. rgl. nr. 285/2000 og 29. gr. l. nr. 93/1995.  Í 19. gr. tilgreindrar rgl.  kemur fram í ákvæði til bráðabirgða að þar til reglugerð um íblöndum bætiefna í matvæli hafi verið sett geti Hollustuvernd ríkisins veitt leyfi til notkunar bætiefna.  Um er að ræða heimildarákvæði. Umsóknir um leyfi skal senda Umhverfisstofnun sem  getur veitt slíkt leyfi.  Eigi verður séð að refsingar og viðurlög í reglugerð um aukefni í matvælum nr. 285/2000 með stoð í lögum um matvæli  11. kafla laga nr. 93/1995, eigi við um úrræði stjórnvalda um bætiefni í matvælum. Greinargerðin fjallar um aukefni og einvörðungu er í henni bráðabirgðaákvæði um bætiefni og umsóknir vegna þeirra.  Ekkert er frekar í lögum um matvæli sem styður aðgerðir kærða.  Verður því að fallast á það með kæranda að ekki hafi verið heimilt að setja dreifingarbann á vöruna Kristal plús.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfur kæranda um að óheimilt hafi verið að setja dreifingarbann á vöru kæranda.

Lára G. Hansdóttir

Gísli Gíslason                       Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 3/21/05

6/2004 Úrskurður vegna kæru Ólínu Birgisdóttur gegn Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005, þriðjudaginn 25. janúar,  kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2004.  Ólína Birgisdóttir gegn Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Erindi  Ólínu Birgisdóttur, hér eftir nefnd kærandi, Klettahrauni 10, 221 Hafnarfirði er dags. 21. júní 2004.   Litið er á erindið sem stjórnsýslukæru.  Afrit af kæru var sent Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, hér eftir nefndur kærði, með bréfi dags. 19. júlí 2004.  Greinargerð kærða er dags. 28. júlí, 2004.  Fyrirliggjandi gögn með greinargerð kærða eru :

1)      Afrit af bréfi Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis til Ólínu Birgisdóttur, dags. 7. apríl 2004.

2)      Afrit af tölvuskeyti kæranda til kærða frá 7. apríl, 2004.

3)      Afrit af skráningarskírteini fyrir hund kæranda frá 7. október 1999.

4)      Afrit af umsókn kæranda dags. 30. ágúst 1999 um leyfi fyrir hund í Hafnarfirði.

5)      Afrit af viðurkenningu um að Páll og hundurinn Lotta hafi lokið námskeið 1995.

6)      Afrit af viðurkenningu um að Páll og hundurinn Lotta hafi lokið unghundanámskeið 1995.

7)      Dreifibréf til allra eigenda skráðra hunda í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi dags. 29.mars, 2000.

8)      Útskrift úr banka um að kærandi hafi greitt eftirlitsgjald 04.05.2000.

9)      Útskrift úr banka um að kærandi hafi greitt eftirlitsgjald 26.02.2001

10)  Útskrift úr banka um að kærandi hafi greitt eftirlitsgjald 01.03.2002.

11)  Útskrift úr banka um að kærandi hafi greitt eftirlitsgjald 04.03.2003.

12)  Gjaldskrá nr. 162/2000 fyrir hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.

13)  Gjaldskrá nr. 933/2000 fyrir hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.

14)  Gjaldskrá nr. 919/2001 fyrir hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.

15)  Gjaldskrá nr. 847/2002 fyrir hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.

16)  Skilyrði heilbrigðiseftirlitsins til að öðlast viðurkenningu á grunnnámskeiði í hundauppeldi sbr. 6. gr. gjaldskrár nr. 182/2000.

17)  Skilyrði heilbrigðiseftirlitsins til að öðlast viðurkenningu á grunnnámskeiði í hundauppeldi sbr. gildandi gjaldskrá fyrir hundahald á höfuðborgarsvæðinu nr. 8. mars, 2004.

Afrit gagna kærða voru send kæranda og ítrekað að athugasemdir yrðu sendar, en ekki hafa borist  nein svör eða athugasemdir.

II.

Með tilvísun til erindis kæranda er krafa kæranda sú að hún fái endurgreiddan  hluta hundaeftirlitsgjalda sem henni hefur verið gert að greiða.  Lýsir kærandi því svo að henni hafi verið gert að greiða hundagjald sem við á þegar hundur hefur ekki farið á námskeið, en slíkt eigi ekki við um hund hennar Lottu nr. 471.  Kveður kærandi að fallist hafi verið á að hún greiddi lægra gjald fyrir árið 2004 þar eð öll gögn um hundanámskeið liggi fyrir hjá umræddri stofnun.  Kveður kærandi að hundurinn hafi flutt til Íslands aftur frá Evrópu á árinu 1999 og hafi þá verið skráður að nýju.  Á árinu 2000 hafi kærandi fengið upplýsingar um að unnt væri að greiða lægra gjald ef hundurinn hefði farið á viðurkennd námskeið og voru þá öll gögn send til kærða og þar með talið ljósrit af staðfestingu um að hundurinn hafi farið á námskeið á vegum Hundaræktarfélags Íslands.  Hafi því kærandi verið í góðri trú um að hún væri að greiða lægra gjaldið þar til annað kom í ljós og hún hafi uppgötvað að svo hafi ekki verið.  Hafi þá kærandi haft samband við skrifstofu kærða og hafi svörin sem hún fékk verið þau að ekki væri unnt að endurgreiða mismun hundagjaldsins aftur í tímann þar sem ekki væri skráð hjá stofnuninni hvenær gögn hafi borist.  Vísar kærandi til þess að skv. stjórnsýslulögum skuli ætíð skrá hvernær innsend gögn berist.  Telur kærandi að vafi í máli þessu sé túlkaður stofnuninni í hag sem hún geti ekki fallist á og vísi því málinu til nefndarinnar.

III.

Greinargerð kærða er dags. 28. júlí 2004.  Málavextir kærða eru þeir að með símtali og síðan tölvuskeyti 7. apríl 2004 hafi kærandi farið fram á leiðréttingu á eftirlitsgjaldi 2004 vegna hunds hennar Lottu.  Fallist hafi verið á þann þátt erindisins þar sem öll gögn vegna hundahalds hafi verið í lagi frá skráningu hundsins í september 1999 s.s. ormahreinsunarvottorð, greiðsla eftirlitsgjalda og jafnframt hafi heilbrigðiseftirlitið  ekki þurft að hafa afskipti vegna hundahaldsins á þeim tíma.  Jafnframt hafi kærandi fengið sent eintak af gildandi heilbrigðissamþykkt um hundahald nr. 154/2000 sbr. bréf kærða frá 7. apríl 2004.  Hafnað hafi verið því að lækka eftirlitsgjöld aftur í tímann.  Ósk um að metið yrði hvort fullnægt hafi verið skilyrðum um lækkun eftirlitsgjalda hafði ekki borist áður.

Fram kemur í greinargerð kærða að í umsókn um leyfi til hundahalds sem dags. er 30. ágúst 1999, sé  hundurinn Lotta sögð fædd 02.09. 1994.  Hafi umsókn og gögn verið móttekin á skrifstofu kærða og er móttaka skráð 6. september, 1999. Skráningarskírteini fyrir hund í Hafnarfirði skv. samþykkt um hundahald nr. 515/1991 hafi síðan verið útgefið 7. október 1999.  Eftirlitsgjald 2000 vegna hundahalds hafi verið greitt í banka 4. maí 2000.  Eftirlitsgjald vegna 2001 hafi verið greitt í banka 26.02. 2001, eftirlitsgjald vegna 2002 hafi verið greitt í banka 01.03. 2002 og eftirlitsgjald vegna 2003 hafi verið greitt í banka 04.03.2003.

Kveður kærði að breyting hafi verið gerð á framkvæmd eftirlits með hundahaldi í byrjun árs 2000 með setningu heilbrigðissamþykktar nr. 154/2000. Gjaldskrá stjtíð. B, nr. 162/2000 hafi verið sett í kjölfarið. Í 6. gr. gjaldskrárinnar hafi heilbrigðisnefnd verið í fyrsta sinn veitt heimild til lækkunar eftirlitsgjalds í Hafnarfirði, enda mæli ekki önnur atriði á móti því sbr. samþykkt um hundahald nr. 154/2000.  Sams konar heimild hafi síðan verið í gjaldskrám vegna hundahalds.  Í maí 2000 hafi skilyrði kærða til að öðlast viðurkenningu á grunnnámskeiði í hundauppeldi verið kynnt forsvarsmönnum hundaskóla. Hafi svipaðar reglur verið í gildi í Kópavogi frá 1997 og þá hafi starfsemi hundaskóla verið tekin út. Við sameiningu heilbrigðisnefnda á svæðinu eftir lagabreytingu 1998 hafi reglur verið samræmdar og reglur um hundahald færðar í átt til þess sem gilt hafði í Kópavogi.  Þeim sem vildu njóta lækkunar eftirlitsgjalda hafi verið gert að sækja um þá lækkun en málefnaleg rök hafi þótt fyrir því að þeir sem þegar höfðu fengið samþykkta lækkun í Kópavogi hafi ekki þurft að sækja um afslátt að nýju.  Nýverið hafi skilyrði til að öðlast viðurkenningu á grunnnámskeiði í hundauppeldi verið endurskoðuð og samræmd fyrir höfuðborgarsvæðið.  Sé þar áhersla lögð á að kennt verði um samþykktir um hundahald, ábyrgð hundeigenda, dýravernd og að eigandi hundsins sæki námskeið með hann.

Kærði kveður að ítarleg kynning hafi farið fram vegna breytinga á framkvæmd eftirlits með hundahaldi í byrjun árs 2000, m.a. með dreifibréfi til allra skráðra eigenda hunda.  Hafi starfsmaður kærða síðan kynnt tilgang þennan fyrir hundeigendum þegar hundur er skráður eða aflað er upplýsinga um framkvæmd hundahaldsins.  Afsláttur sé þá veittur frá þeim tíma sem gögnum sé skilað.  Fyrir árið 2000 hafi hundeigendur í Hafnarfirði, Garðabæ og Bessastaðahreppi ekki verið hvattir til að skila inn gögnum um að þeir hefðu sótt námskeið með hund sinn.  Kærði kveður að skráður eigandi hunds hafi undantekningarlaust þurft að óska eftir lækkun gjaldsins og hafi honum um leið verið kynntar reglur um hundahald og áréttað að afslátturinn tengist kröfum um að reglum um hundahald sé fylgt í hvívetna.  Kveður kærði að framkvæmd þessa ákvæði sé með þeim hætti að eigandi óski eftir lækkun og sé þá kannað hvernig skráning hundsins hafi gengið fyrir sig og hvort þurft hafi að hafa sérstök afskipti af hundahaldinu, s.s. með því að ganga eftir skráningu, greiðslu gjalda eða vegna kvartana undanliðin ár.  Áréttað sé að afslátturinn sé heimilaður sem viðleitni stjórnvalda til að draga úr umfangi og kostnaði við eftirlit með hundahaldi.  Ekki hafi verið fallist á að endurgreiða eftirlitsgjöld aftur í tímann með vísun í umrætt ákvæði.  Kveður kærði að í máli þessu sé ágreiningur um hvort hundeigandi eigi rétt á afslætti eftirlitsgjalda frá setningu gjaldskrár 162/2000 þar sem gögn höfðu fylgt umsókn 1999, um að “Páll” hafi með “Lottu” lokið tveim námskeiðum í Hundaskóla hundaræktarfélags Íslands á árinu 1995.  Gögn um eldri skráningu hundsins í Hafnarfirði frá 1994 sem getið er um í stjórnsýslukærunni fundust ekki.

IV.

Svo sem fram er komið snýst mál þetta um endurgreiðslu eftirlitsgjalda v. hundahalds fyrir árin 2000-2003.  Í greinargerð kærða kemur fram að breyting hafi orðið á framkvæmd eftirlits með hundahaldi í byrjun árs 2000 með setningu heilbrigðissamþykktar nr. 154/2000.  Gjaldskrá nr. 162/2000 var sett í kjölfarið.  Í 6. gr. gjaldskrárinnar var heilbrigðisnefnd í fyrsta sinn veitt heimild til lækkunar eftirlitsgjalds í Hafnarfirði, enda mæli ekki önnur atriði á móti því.  Hundurinn Lotta var skráð í Hafnarfirði árið 1999.  Skráningarskírteini fyrir hundinn er dags. 7. október, 1999.  Fram kemur í gögnum kærða að gögn um hundaskóla liggi fyrir hjá sér frá og með þeim tíma.  Eins og fyrr getur var það á árinu 2000 sem heimildarákvæði um lækkun eftirlitsgjald kom fram.  Þar sem um er að ræða heimildarákvæði ber að sækja sérstaklega um lækkun.  Kærði sendi sérstakt dreifibréf út á árinu 2000, þar sem kynntar voru nýjar reglur og með dreifibréfinu  var send út viðeigandi gjaldskrá. Benda má á að breytingu þá sem varð á eftirlitsgjaldi hefði mátt kynna betur  en ekki verður talið að skortur á því sé nægjanlegur til þess að samþykkja endurgreiðslu. Með tilvísan til framangreinds og þess að kærandi gerði ekki gangskör að umsókn um lækkun fyrr en á árinu 2004 verður að fallast á með kæranda að ekki séu rök til lækkunar hundaeftirlitsgjalds áranna 2000-2003.  Verður því ekki fallist á kröfur kæranda um lækkun eftirlitsgjalda áranna 2000-2003.  Ákvörðun kærða um neitun á niðurfellingu er staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ekki er fallist á kröfur kæranda um lækkun eftirlitsgjalda.  Ákvörðun kærða þar að lútandi er staðfest.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                                      Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 2/2/05

4/2004 Úrskurður vegna kæru Raimunds Bernhard Brockmeyer-Urbschat gegn Blönduósbæ.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005, þriðjudaginn 18. janúar, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2004  Raimund Bernhard Brockmeyer-Urbschat gegn Blönduósbæ.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra Raimunds Bernhard Brockmeyer-Urbschat,  Litla- Búrfelli, Svínavatnshreppi, hér eftir nefndur kærandi, er dags. 30. júní, 2004 og barst nefndinni í byrjun júlí.   Kærð er álagning Blönduóssbæjar á sorphirðugjaldi á íbúð kæranda að Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi.  Blönduósbær er hér eftir nefndur kærði.  Gerir kærandi þá kröfu að Blönduóssbæ verði gert að leiðretta álagningarreglur sínar og að sorphirðugjald á íbúð hans verði fellt niður.  Ennfremur kærir kærandi uppgjör vegna endurgreiðslu sorphirðugjalds fyrir árin 2002 og 2003.  Kæranda var sent afrit af svarbréfi kærða og svaraði hann með greinargerð dags.5. nóvember s.l.   Kæra ásamt meðfylgjandi gögnum var send kærða sem svaraði með bréfi dags. 30. ágúst s.l.  Kærði hafnar kröfu kæranda um breytingu eða niðurfellingu sorphirðugjalds og vísar til gjaldskrár sem staðfest hafi verið af umhverfisráðuneyti.  Áður hafði kærði sent nefndinni svarbréf í kjölfar þess að umhverfisráðuneyti sendi kærða afrit af kæru.  Þá sendi kærði afrit af gjaldskrá kærða um álagningu gjalds fyrir sorphirðu.

II.

Í kæru er kærð álagning kærða á sorphirðugjaldi á íbúð kæranda að Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi.  Um málavexti vísar kærandi til málavaxta í stjórnsýslukæru dags. 9 júní, 2002 en afrit kæru fylgir með. Kemur þar fram  að kærði hafi á undanförnum árum fellt niður sorphirðugjlad fyrir íbúð kærða að Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi.  Enginn hafi verið þar skráður með lögheimili undanfarin 7 ár og enginn hafi búið í íbúðinni.   Um lagarök vísar kærandi til :

1)      25. gr. l. nr. 7/1998 :  Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá um

innheimtu gjalda skv. 1. mgr. að fenginni umsögn hlutaðeigandi

heilbrigðisnefndar.  Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum

kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

Vísar kærandi til þess að þar sem enginn búi eða hafi búið íbúð hans á

Blönduósi falli ekki til kostnaður vegna sorphirðu og því óheimilt að

innheimta sorphirðugjald frá honum.

2)      11. gr. l.nr 805/1999 : “Gjald um meðhöndlun úrgangs.  Sveitarfélagi er einnig heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig.”

Vísar kærandi til þess að í húsinu nr. 4 við Hnjúkabyggð á Blönduósi séu 4 íbúðir þar af hafi 2 ekki verið í notkun í meira en 10 ár, hinar 2 heldur ekki í stöðugri notkun.  Fjöldi sorpíláta hafi í gegnum árin verið eitt stundum ekkert.  Þjónustustig sé því ekki mjög hátt við þetta heimilisfang og geti kærandi fullyrt að fyrir hans íbúð hafi hvorki verið til sorpílát né þjónusta í meira en 10 ár.  Telur hann því að óheimilt ætti að vera að innheimta sorphirðugjald frá honum.

3)      11. gr. rgl. nr. 805/1999 :” Sveitarstjórn er ábyrg fyrir reglubundinni tæmingu og flutningi heimilisúrgangs frá öllum íbúum á viðkomandi svæðum”

Telur kærandi að kærði hafi notfært sér þetta í málarekstri 2002 með því að segja að álagt sorpgjald sé lagt á allar íbúðir.  Telur kærandi að þessi”jafna” gangi ekki upp, íbúi og íbúð sé ekki það sama og verði ekki, sama hvernig kærði reyni að snúa málinu kæranda í óhag.Vísar kærandi til þess að það séu ekki íbúðir sem framleiði sorp heldur íbúar þeirra, ef einhverjir séu.  Kærandi ítrekar kröfur sínar um endurgreiðslu á sorphirðugjaldi ársins 2004 alls kr. 4.250,-.  Vísar kærandi til þess að fjárhæð kröfu sé ekki aðalatriði kæru heldur sú staðreynd að mati kæranda að kærði hafi ekki lagaheimild að leggja sorphirðugjald á hverja íbúð óháð því, hvort hún sé í notkun eða árum saman ekki í notkun.

III.

Í greinargerð kærða dags. 30. ágúst, 2004 kemur fram að með vísan í kæru dags. 30.júní ítreki kærði það sem fram komi í svarbréfi dags. 22. júlí s.l., þess efnis að kærða sé heimilt að leggja á sérstakt sorphirðugjald á hverja íbúð sbr. 2. gr. meðfylgjandi gjaldskrár.  Gjaldskrá hafi verið staðfest af umhverisráðuneyti 27. febrúar s.l  Hafnar kærði því breytingu eða niðurfellingu sorphirðugjalds.  Um frekari rökstuðning vísar kærði á fyrrum úrskurði úrskurðarnefndar skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir í áþekkum málum.  Í tilvitnuðu bréfi kærða dags. 22. júlí 2004, tilkynnir kærði að í janúar 2004 hafi gjaldskrá fyrir hirðingu og eyðingu sorps verið breyttt og fylgi hún með. Jafnframt getur kærði um það að uppgjör vegna máls 1/2002 hafi löngu farið fram

IV.

Í 9. gr. l. nr. 45/1998 kemur fram að sveitarstjórnir hafi ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélags og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélag annast, að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf.  Í 11. gr. rgl. um úrgang nr. 805/1999 kemur fram að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglubundinni tæmingu og flutningi heimilisúrgangs á viðkomandi svæðum.  Í 25. gr. l.nr.7/1998 segir m.a. að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim, enda falli þau undir lögin og síðar segir áfram að sveitarfélögum sé heimilt að setja gjaldskrá vegna leyfa, legu eða veittrar þjónustu en gjöld megi ekki vera hærri en nemur kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

Í samræmi við framangreint setti Blönduósbær sér gjaldskrá fyrir hirðu og eyðingu sorps í Blönduósbæ dags. í janúar 2004.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi telur ekki grundvöll fyrir álagningu sorphirðugjalds nú frekar en fyrr þar sem enginn búi eða hafi búið í íbúðinni að Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi og því falli ekkert sorp þar til.  Grundvöllur sorphirðugjalds skv. gjaldskrá Blönduóssbæjar sé að þjónusta sé veitt.

Nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 lítur svo á að sorphirðugjald sé bundið veittri þjónustu, þó ekki komi það fram í gjaldskrá kærða um sorphirðugjalds.  Ekki er ágreiningur milli aðila um að ekkert sorp falli til frá fasteign kæranda að Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi.  Ágreiningslaust er ennfremur að hvorki hefur neinn búið í íbúð kæranda né heldur verið þar með lögheimili á undanliðnum árum.

Hvað varðar kröfu kæranda um uppgjör vegna sorphirðugjalda áranna 2002 og 2003 er það ekki á verksviði nefndarinnar að fjalla um það.  Þeirri kröfu er því vísað frá.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfu kæranda um niðurfellingu sorphirðugjalds fyrir Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi fyrstu sex mánuði ársins 2004, enda mega gjöld sveitarfélags ekki vera hærri en þjónusta sú sem veitt er hverju sinni.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                           Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 2/2/05