Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

86/2018 Suðurgerði

Árið 2019, þriðjudaginn 26. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 86/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 15. maí 2018 um að samþykkja aðalskipulag Vestmannaeyjabæjar 2015-2035.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir A afgreiðslumáta, samskiptameðferð og brot á eignarétti umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar við afgreiðslu aðalskipulags Vestmannaeyjabæjar 2015-2035, sem samþykkt var í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar 15. maí 2018. Vísar kærandi nánar til bréfs skipulags- og byggingarfulltrúa þar sem tilkynnt var „afgreiðsla og niðurstaða sveitarfélagsins v/innsend bréf. Athugasemdir og úrvinnsla við auglýst aðalskipulagt Vestmannaeyja 2015-2035.“ Skilja verður kæruna svo að gerð sé krafa um að hið kærða aðalskipulag verði fellt úr gildi að svo miklu leyti sem það brjóti í bága við hagsmuni kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 25. júní 2018.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Með afsali, dags. 28. apríl 1971, afsalaði nánar tilgreint dánarbú „afnotarétti sínum að fyrirhugaðri lóð eftir væntanlegu skipulagi Vestmannaeyjakaupstaðar, er verður nr. 9 við Suðurgerði, í Vestmannaeyjum, allrar lóðarinnar eins og skipulag bæjarins segir til um“ til kæranda. Í afsali þessu kemur einnig fram að kærandi eignist með afsalinu túnréttindi úr Gerðistúni og að kæranda sé, afsalsgjafa vegna, heimilt að fá útgefinn lóðarleigusamning til sín frá Vestmannaeyjakaupstað fyrir húslóð. Á fundi byggingarnefndar Vestmannaeyjakaupstaðar 23. maí 1972 dró nefndin í efa að dánarbúið hefði rétt til að selja lóðarréttindi vegna Suðurgerðis 9. Nefndin samþykkti þó að mæla með að bæjarstjóra yrði heimilað að gefa út lóðarleigusamning til kæranda, enda hæfust framkvæmdir innan eins árs. Uppbygging á svæðinu frestaðist hins vegar vegna eldgossins í Vestmannaeyjum sem hófst 23. janúar 1973.

Kærandi sendi bréf til sveitarfélagsins, dags. 28. maí 1979, til að mótmæla fyrirhuguðu deiliskipulagi austurbæjar, þar sem skipulagið færi gegn eignarétti kæranda sem lóðareiganda að Suðurgerði 9. Hinn 8. maí 1985 ítrekaði kærandi með bréfi til bæjarins að hann teldi gengið á rétt sinn. Í fundargerð byggingarnefndar bæjarins frá 23. maí 1985 er tekið fram að hægt sé að fallast á ofangreind sjónarmið kæranda frá 8. maí 1985 þegar svæðið verði tilbúið til úthlutunar. Hinn 14. febrúar 1988 ritaði kærandi bæjarstjórn bréf þar sem sömu sjónarmið komu fram og áður. Kærandi taldi auglýsta deiliskipulagstillögu austurbæjar minnka þá lóð sem hann teldi sig eiga réttindi yfir og óskaði eftir því að hafa forgang á vali lóðar í stað lóðarinnar við Suðurgerði 9. Einnig fór kærandi fram á að mismunur á stærð lóðanna yrði annaðhvort greiddur kæranda eða dreginn frá gatnagerðargjöldum. Sömu athugasemdir komu fram í bréfi kæranda 16. janúar 1990 vegna tillögu að aðalskipulagi Vestmannaeyja 1988-2008.

Þegar aðalskipulag fyrir Vestmannaeyjar 2015-2035 var auglýst gerði kærandi athugasemdir, dags. 5. apríl 2018. Athugasemdir þessar voru sambærilegar athugasemdum við fyrri skipulagsáætlanir á svæðinu. Kærandi gerði þannig „athugasemd við auglýsingu um skipulag Vestmannaeyjabæjar 2015-2035, þar sem það brýtur í bága við rétt [kæranda] sem eiganda húslóðarinnar Suðurgerði 9 Vestmannaeyjum.“ Við úrvinnslu athugasemda við auglýst aðalskipulag Vestmannaeyja 2015-2035, dags. 9. maí 2018, var athugasemd kæranda flokkuð sem „almenn ábending“. Óskaði kærandi eftir skriflegum rökstuðningi við afgreiðslu athugasemdarinnar með tölvupósti 27. maí s.á. Honum var svarað 7. júní s.á. og bent á að lóðin Suðurgerði 9 væri ekki til og hefði ekki verið stofnuð af Vestmannaeyjabæ. Þá vísaði bærinn til þess að í afsali kæranda væri vísað til afnotaréttinda að fyrirhugaðri húslóð en ekki væri um að ræða afsal fyrir lóðaréttindum útgefnum af Vestmannaeyjabæ og að ekki lægju fyrir heimildir afsalsgjafa til þeirra réttinda sem afsöluð voru til kæranda. Að lokum hvatti Vestmannaeyjabær kæranda til að gera nánari grein fyrir réttindum sínum yfir lóðinni. Kærandi svaraði 12. júní s.á. þar sem fram kom saga samskipta kæranda við bæjaryfirvöld á á árunum 1971-1972, sem áður er fjallað um.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að aðalskipulag Vestmannaeyjabæjar 2015-2035 brjóti í bága við eignarrétt hans þar sem „nýtt skipulag fer inn á lóðarmörk“ hans við Suðurgerði 9. Bendi kærandi á að í stað þess að taka athugasemd sína við aðalskipulagið til afgreiðslu hafi Vestmannaeyjabær flokkað athugasemdina sem almenna ábendingu. Kærandi hafi óskað eftir skriflegu svari við athugasemd sinni en teldi afgreiðslu bæjarins ekki uppfylla þau skilyrði. Hann hafi óskað skriflegs rökstuðnings en einungis fengið þau svör að lóðin sé ekki til og hafi ekki verið stofnuð. Bendi kærandi á að ætlun sín sé einungis að standa vörð um lögmætan eignarrétt sinn, en sveitarfélagið hafi ekki boðið fram neina lausnir í málinu. Hafi kærandi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar af þess hálfu.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að samkvæmt 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fjalli aðalskipulag ekki um eignarréttindi að fasteignum heldur landnotkun, byggðaþróun o.s.frv. Athugasemd kæranda beinist að því að aðalskipulagið hafi með einhverjum hætti áhrif á eignaréttindi hans að umræddri fasteign. Ekki verði þó ráðið af athugasemdum kæranda á hverju sé byggt í því sambandi.

Aðalskipulag Vestmannaeyja 2015-2035 geri ráð fyrir að svæði það er kærandi vísar til sem Suðurgerði 9 sé skipulagt sem íbúðabyggð. Hvað framangreint svæði varði sé engin breyting gerð á þeirri landnotkun eða byggðamynstri er ákveðin hefði verið í því aðalskipulagi sem áður hafi gilt. Ekki verði því séð með hvaða hætti núverandi aðalskipulag hafi brotið gegn réttindum kæranda og sé það ekki útskýrt frekar af hans hálfu. Kröfugerð kæranda sé mjög óljós og ekki verði ráðið, hvorki af kærunni né athugasemdum kæranda, að hvaða ákvörðun kæran beinist eða hvaða réttindum kærandi telji að brotið sé gegn og með hvaða hætti. Af þessum sökum sé farið fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ella beri að hafna kröfum kæranda.

Suðurgerði 9 sé ekki til í núgildandi þinglýsingabókum, enda sé fasteignin ekki með fastanúmer og séu engar heimildir til staðar um stofnun eignarinnar. Sveitarfélagið hafi aldrei gefið út lóðaleigusamning vegna eignarinnar. Lóðin sé þó skipulögð sem íbúðalóð og sé laus til úthlutunar. Umsækjandi gæti þannig fengið úthlutuðum lóðarleigusamningi að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Sveitarfélagið telji samskiptum sínum við kæranda ekki áfátt. Með tölvupósti 7. júní 2018 hafi bærinn leitað eftir frekari upplýsingum frá kæranda um hvað málið snerist og hver réttindi hans væru. Almennt haggi aðalskipulag ekki við eða hafi áhrif á eignarréttindi aðila almennt. Því til viðbótar hafi engin breyting verið gerð á landnotkun eða byggðaskipulagi á því svæði sem athugasemdir kæranda hafi beinst að. Þá verði vart talið að skipulag umrædds svæðis til íbúðabyggðar sé í andstöðu við staðhæfingu kæranda um eignarréttindi að húslóð til íbúðabyggingar.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Samkvæmt 2. ml. 3. mgr. 32. gr. laganna tekur aðalskipulag gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Hið kærða aðalskipulag var samþykkt í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar 15. maí 2018, staðfest af Skipulagsstofnun 10. september s.á. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. september s.á. Samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar. Hið sama á við um hvern þann ágreining sem kann að vera til staðar vegna undirbúnings og málsmeðferð þeirrar ákvörðunar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá nefndinni. Þá skal á það bent að eignarréttarlegur ágreiningur verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni heldur heyrir hann undir lögsögu dómstóla.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.