Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

91/2018 Berserkseyri

Árið 2019, föstudaginn 1. mars tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 91/2018, kæra vegna aðgerðarleysis Grundafjarðarbæjar í tengslum við lagningu vatnslagnar í landi Berserkseyrar Ytri.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Blikaási 8, Hafnarfirði, aðgerðarleysi Grundarfjarðarbæjar í tengslum við lagningu vatnslagnar í landi Berserkseyrar Ytri. Er þess krafist að úrskurðarnefndin hlutist til um að landeigandinn að Berserkseyri fjarlægi vatnslögnina ásamt tilheyrandi lokunarbúnaði úr landi Berserkseyrar Ytri sem fyrst.

Gögn málsins bárust frá Grundafjarðarbæ 20. júlí 2018.

Málsatvik og rök: Eigendur jarðarinnar Berserkseyrar lögðu vatnslögn sem fór að hluta til inn á jörðina Berserkseyri Ytri. Samkvæmt fundargerð umhverfis– og skipualgsnefndar bæjarins samþykkt nefndin 1. febrúar 2018 breytt aðalskipulag Berserkseyrar og deiliskipulag þar sem m.a. var gert ráð fyrir vatnslögn um land Berserkseyrar Ytri að íbúðarhúsi að Berserkseyri. Þá var tekið fram að þegar til framkvæmda kæmi á deiliskipulagssvæðinu þyrfti að færa vatnslögn vegna frístundabyggðarinnar út fyrir byggingarreit að Berserkseyri Ytri á kostnað eigenda Berserkseyrar. Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu nefndarinnar hinn 8. febrúar 2018.

Kærendur benda á að þeir séu hluti erfingja að jörðinni Berskerseyri Ytri og sé ætluð sú landspilda sem nefnd vatnslögn muni liggja að hluta til um samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Eigi þeir því lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi legu lagnarinnar. Vatnslögn ásamt lokunarbúnaði hafi verið lögð yfir deiliskipulagt byggingarsvæði Berserkseyrar Ytri. Lagning umræddrar vatnslagnar hafi ekki verið gerð í samráði við sveitarfélagið. Eftir nokkur samskipti við bæjarstjóra og skipulags- og byggingarfulltrúa Grundarfjarðar hafi skipulags- og byggingarfulltrúi tilkynnt að samþykkt hefði verið í umhverfis- og skipulagsnefnd 1. febrúar 2018 að vatnslögnin ásamt lokunarbúnaði yrði fjarlægð þegar kærendur hæfu byggingarframkvæmdir á landinu. Telja kærendur að um lögbrot skv. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé að ræða þar sem ekki hafi fengist framkvæmdaleyfi frá sveitarfélaginu fyrir framkvæmdinni. Því beri að fjarlægja lögnina sem fyrst úr landi Berserkseyrar Ytri.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að vísa eigi kærunni frá af þeirri ástæður að kærendur séu ekki þinglýstir eigendur lands þess sem til umfjöllunar er. Því hafi þeir ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun líkt og krafa sé gerð um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þinglýstur eigandi sé móðir annars kæranda og virðist kæran, samkvæmt gögnum sem sveitarfélagið hafi undir höndum, vera í andstöðu við vilja hennar. Lagning vatnslagnarinnar hafi verið í fullu samráði við sveitarfélagið og stríði að mati þess ekki gegn skipulagsákvörðunum. Í samþykkti skipulags- og umhverfisnefndar Grundafjarðarbæjar frá 1. febrúar 2018 komi einnig skýrt fram að verði vatnslögnin fyrir á hinu skipulagða svæði þegar til framkvæmda komi muni hún verða færð á kostnað landeiganda Berserkseyrar.

 Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuna að gæta vegna kæranlegrar ákvörðunar.

Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskár Íslands telja kærendur hvorki til beinna né óbeinna eignarréttinda er tengjast landi Berserkseyrar Ytri og þar með því landi sem umdeild vatnslögn mun liggja um. Hafa þeir því engan lögvarinn rétt til íhlutunar um ráðstöfun eða notkun þess lands. Þótt annar kærenda væri lögerfingi eiganda umræddrar landsspildu veitir það honum ekki lögvarinn réttindi tengd umræddri eign fyrr en hún eftir atvikum félli í hans hlut við dánarbúskipti.

Með hliðsjón af framangreindu og þar sem ekki hafa komið fram aðrar ástæður af hálfu kærenda sem leitt geta til kæruaðildar þeirra samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður kærumáli þessu vísað frá  úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.