Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

141/2018 Brekkukot

Árið 2019, föstudaginn 1. mars tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 141/2018 kæra vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 31. október 2018 um breytingar á aðalskipulagi Mosfellsbæjar og framkvæmda í landi Brekkukots í Mosfellsdal

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. desember 2018, er barst nefndinni 12. s.m., kærir eigandi, Fífuhjalla 1, Kópavogi, ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 31. október 2018 um breytingu á Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 og framkvæmdir í landi Brekkukots í Mosfellsdal. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða aðalskipulagsbreyting verði felld úr gildi og greindar framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 18. febrúar 2019.

Málsatvik og rök: Hinn 31. október 2018 samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar breytingu á Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 vegna stakra íbúðarhúsa í Mosfellsdal. Í breytingunni fólst heimild til að byggja íbúðarhús til viðbótar þeim sem fyrir væru á landareignum/lóðum Móatúni, Brekkukoti, Sigtúni og Mosfelli í Mosfellsdal. Skipulagsstofnun staðfesti breytinguna 10. desember 2018 og var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 27. desember s.á.

Af hálfu kæranda er á það bent að engin grenndarkynning hafi farið fram á hinni kærða aðalskipulagsbreytingu, líkt og kveðið sé um í lögum. Skýrt sé tekið fram í afsali fyrir sumarhúsi kæranda sem liggi að lóðinni Brekkukoti að óheimilt sé að reisa nokkrar byggingar á melunum fyrir neðan landspilduna nema samþykki eigenda hennar komi til. Á lóðinni Brekkukoti hafi nú hins vegar risið mikið mannvirki sem virðist mun stærra en íbúðarhúsið að Brekkukoti og sé notað sem íbúðarhús þó eigandi kalli það geymslur.

Af hálfu Mosfellsbæjar er tekið fram að bærinn hafi ekki úthlutað neinum lóðum til búsetu í Brekkukotslandi enda sé Mosfellsbær ekki eigandi jarðnæðis á því svæði. Einungis hafi verið samþykkt breyting á aðalskipulagi sem sé almenns eðlis og taki til fleiri lóða en Brekkukots. Þá hafi hvorki byggingar- né framkvæmdaleyfi verið gefin út og hafi vettvangskannanir skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa á svæðinu ekki gefið til kynna að nýjar byggingarframkvæmdir hafi verið þar hafnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. ml. 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tekur aðalskipulag gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 2. ml. 3. mgr. 32. gr. nefndra laga. Hin kærða aðalskipulagsbreyting var staðfest af Skipulagsstofnun 10. desember 2018 og öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. s.m.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá liggur ekki fyrir að ákvarðanir um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum í landi Brekkukots hafi verið teknar sem kæranlegar eru til úrskurðar-nefndarinnar. Af þeim sökum verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.