Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

6/2006 Úrskurður vegna kæru Rafmagnsveitu ríkisins (RARIK) gegn Heilbrigðiseftirliti Austurlands.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2006 föstudaginn  15. desember, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.    Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2006  Rafmagnsveitur ríkisins (RARIK), Rauðarárstíg 10, Reykjavík, hér eftir nefndur kærandi  gegn Heilbrigðiseftirliti Austurlands (HAUST) Búðareyri 7, Reyðarfirði, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður :

I.

Stjórnsýslukæra Indriða Þorkelssonar hdl. f.h. RARIK er dags. 7. mars, 2006.  Kærð er ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST) frá 18. janúar 2006, sem kynnt var kæranda með bréfi dags. 26. janúar 2006.  Ákvörðun sú sem kærð er var þannig bókuð á fundi kærða: “ Rarik- kyndistöð í Neskaupstað.  ÁJÓ gerir grein fyrir málinu.  Unnið er að úrbótum í kjölfar hávaðamengunar í nóvember en greinargerðir hafa ekki borist í samræmi við kröfur HAUST.  Gögn verða send fljótlega.  Starfsemin er að mati HAUST starfsleyfisskyld, en RARIK ósammála.  Heilbrigðisfulltrúar vinni málið áfram í samræmi við ákvæði hollustuháttalaga”.

Krafa lögmanns kæranda er að ákvörðun kærða um að kærandi þurfi að sækja um starfsleyfi fyrir “kyndistöð” kæranda að Stekkjargötu 6, Neskaupstað verði felld úr gildi.

Fylgiskjöl með stjórnsýslukærunni eru :

1)      Afrit af skýrslu kærða til kæranda dags. 11. nóvember 2005.

2)      Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 11. nóvember 2005, kröfur um úrbætur.

3)      Afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 16. 11.2005.

4)      Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 26. janúar 2006.

II.

Lögmaður kæranda kveður málavexti þá að kærandi starfræki varaaflsstöð að Stekkjargötu 6, Neskaupstað.  Þar séu staðsettar 5 díselvélar þar af 3 gangfærar.  Starfsemi kæranda hafi falið í sér tilfallandi rekstur þessara díselvéla.  Vélarnar séu varaafl, þ.e. þær séu ekki í stöðugum rekstri heldur séu þær einungis gangsettar, ein eða fleiri, þegar nauðsyn krefji.  Það eigi einkum við ef skortur verði á framleiðslu raforku með hefðbundnum hætti og/eða skortur frá flutnings- og dreifikerfum Landsnets hf. og kæranda sem einkum geti orsakast af bilun eða vinnu við kerfið.   Við slíkar aðstæður sé möguleiki á að ræsa eina eða fleiri díselvélar eftir þörfum hverju sinni.

Lögmaður kæranda bendir á að í bréfi framkvæmdastjóra kærða til kæranda dags. 11. nóvember 2005 komi fram sú skoðun, að starfsemi kæranda að Stekkjargötu 6, Neskaupstað falli undir a-lið í gr. 9.1 í fylgiskjali 2 með reglugerð 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun.  Hafi það verið skoðun framkvæmdastjóra kærða að kæranda bæri að sækja um starfsleyfi fyrir þessa starfsemi.  Hafi kæranda verið gefinn 10 daga frestur til andmæla.  Hafi kærandi mótmælt þessu með bréfi dags. 16. nóvember 2005 og í bréfi fyrirtækisins komi m.a. fram að kærandi hafi óskað eftir frekari rökstuðningi kærða vegna þeirrar skoðunar að starfsemin væri starfsleyfisskyld.  Á fundi kæranda þann 18. janúar 2006 hafi ágreiningsmál þetta verið tekið fyrir og sé þá m.a. bókað að kærði telji starfsemi kæranda starfsleyfisskylda.  Hafi bókun þessi verið kynnt kæranda með bréfi dags. 26. janúar 2006.  Lögmaður kæranda kveður kæranda ekki fallast á þessa ákvörðun kærða sem fram komi í þeirri bókun sem gerð hafi verið á fundi þann 18. janúar 2006 og kæri því framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Lögmaður kæranda bendir á að kærandi telji að starfsemi þess að Stekkjargötu 6, Neskaupstað falli ekki undir þá skilgreiningu reglugerðarákvæðisins að vera “virkjun og/eða orkuveita” af stærðinni 2-10 MW.  Að mati kæranda er hvorki unnt að flokka rekstur díselvéla undir virkjun né orkuveitu.  Bendir lögmaður kæranda á að hugtakið “orkuveita” sé reyndar hvergi skilgreint en hafi verið notað sem sameiginlegt hugtak yfir starfsemi sem feli í sér rafveitu og hitaveitu.  Rekstur díselstöðvanna falli heldur ekki undir hugtakið “kyndistöð” en í einhverjum tilvikum virðist sem að það gæti einhvers misskilnings varðandi notkun þess orðs.

Bendir lögmaður kæranda á að í skýrslu kærða til kæranda fskj. nr. 1. komi fram að þann 8. nóvember 2005 hafi kyndistöð kæranda verið skoðuð.  Við þá skoðun hafi komið í ljós að af alls 5 díselvélum sem þar voru hafi 2 verið bilaðar.  Hafði önnur þeirra verið biluð lengi og ósennilegt að hin bilaða vél yrði gangsett að nýju.  Var því um að ræða þrjár gangfærar díselvélar þar af séu tvær innandyra.  Geti önnur þeirra afkastað 1450 KW en hin 1500-1900 KW.  Fimmta díselvélin sem sé utandyra sé olíukynnt færanleg gastúrbína sem sé í gámi á hjólum.  Standi gámurinn á lóð kæranda og sé vélin notuð þegar á þurfi að halda.  Eigi þessi vél að geta afkastað 1200 KW en að sögn forsvarsmanns kæranda sé hún aldrei keyrð á meira afli en 1000KW.  Þessi færanlega díselvél sé ekki bundin við starfsstöð kæranda á Neskaupstað, heldur sé unnt að færa hana eftir þörfum hvert sem er.  Sé um að ræða svokallað færanlegt varaafl.  Samkvæmt þessu nái engin díselvélanna því viðmiði sem fram komi í reglugerðarákvæðinu þ.e. að vera 2-10 MW.  Bendir lögmaður kæranda á að umrætt reglugerðarákvæði sé íþyngjandi ákvæði.  Leiki minnsti vafi á því hvort starfsemi kæranda að Stekkjargötu 6, Neskaupstað falli undir reglugerðarákvæðið beri að hafna því að kæranda beri að sækja um starfsleyfi.  Slík skylda verði ekki lögð á kæranda nema að fyrirmæli í lögum og reglugerð séu skýr og afdráttarlaus.

III.

Greinargerð kærða,  Heilbrigðisefitirlits Austurlands, er dags. 31. mars 2006.  Bendir framkvæmdastjóri kærða á að rökstuðningur kæranda um að ekki sé um starfsleyfisskylda starfsemi að ræða byggi fyrst og fremst á því að mat kæranda sé að hvorki sé unnt að flokka rekstur díselvélanna undir virkjun né orkuveitur og að samkvæmt þessu nái engin díselvélanna því viðmiði sem fram komi í reglugerðarákvæðinu þ.e. að vera 2-10 MW.

Kveður kærði og að nauðsynlegt sé að fram komi, að í kjölfar bréfs kæranda dags. 16.11.2005 þar sem mótmælt sé kröfu kærða um að sótt verði um starfsleyfi og óskað frekari rökstuðnings kærða vegna kröfunnar, hafi kærði sent bréf til Umhverfisstofnunar dags. 30.11.2005 og óskað túlkunar á reglugerðarákvæðinu.  Kveður kærði að svar hafi ekki borist frá Umhverfisstofnun og því hafi kærði ekki enn sent frekari rökstuðning.

Kærði óskar eftir að koma því á framfæri að hugtakið “kyndistöð” noti Norðfirðingar í daglegu tali í bland við hugtakið “rafstöð” um starfsstöð kæranda að Stekkjargötu í Neskaupstað og því sé ekki óeðlilegt að orðið sé notað í eftirlitsskýrslu burtséð frá skilgreiningum í laga- og reglugerðartexta.

Kærði bendir á að ekki verði komst hjá því að skilgreina varaaflstöðina sem orkuveitu, enda sé um framleiðslu á rafmagni að ræða og dreifingu þess inn á dreifikerfi Landsnets hf. og Rarik.  Kveður kærði að óumdeilt sé að í starfsstöðinni séu þrjár starfhæfar díselvélar auk tveggja sem nú séu bilaðar.  Afkastageta vélanna sé þannig að engin vélanna ein og sér afkasti meira en 2 MW. Samtals hafi vélarnar framleitt 4.5 MW þ.e. orkuframleiðslan hafi verið á bilinu 2-10 MW.

Um markmið starfsleyfis og eftirlitsskyldu vísar kærði til 1. gr. rgl. nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, en af því ákvæði megi ljóst vera að markmið með því að unnin séu starfsleyfi og viðhaft eftirlit, sé að koma í veg fyrir eða draga úr mengun t.d. þar sem hávaði af völdum véla eða magn olíu í starfsstöð geti haft í för með sér mengun í umhverfi. Kærði bendir á að ástæða þess að virkjanir og orkuveitur séu taldar upp í fylgiskjali 2 með rgl. nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun sé sú, að við starfsemina sé hætta á mengun, m.a. frá olíu sem notuð sé við vélakost. Kærandi bendir á að skv. upplýsingum frá RARIK séu á lóð starfsstöðvarinnar í Neskaupstað tveir 30.000 lítra olíugeymar og einn úrgangsolíugeymir auk dagtanks sem sé inni í aðstöðuhúsinu.  Jafnvel þótt aðeins annar stærstu tankanna sé að jafnaði notaður sé að jafnaði umtalsvert magn olíu í starfsstöðinni.  Telur kærði að óumdeilt sé að geymsla og meðhöndlun olíu í miklu magni geti haft í för með sér mengun.  Vegna þessa sé í gildi sérstök reglugerð þar um þ.e. rgl. nr. 35/1994 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi.  Í 82. gr. reglugerðarinnar komi fram að þar sem olíugeymar stærri en 10 m3 séu tengdir starfsleyfisskyldri starfsemi sem heilbrigðiseftirlit vinni starfsleyfi fyrir skuli heilbrigðiseftirlit fara með eftirlit með tönkunum.  Séu tankar ekki tengdir starfsleyfisskyldri starfsemi sé eftirlit með þeim í höndum Umhverfisstofnunar.  Kærandi bendir á að nú standi yfir vinna við endurskoðun reglugerðar um meðferð olíu.  Í drögum þeirrar reglugerðar sé gert ráð fyrir að allar olíugeymslur verði háðar starfsleyfi, annað hvort Umhverfisstofnunar eða heilbrigðiseftirlits.  Telur kærandi að ljóst sé af framansögðu að burtséð frá skilgreiningu starfsstöðvar kæranda í Neskaupstað sem orkuveitu eða ekki, geri löggjafinn ráð fyrir að eftirlit sé með starfsstöð vegna magns olíu sem sé á lóð starfsstöðvarinnar.

Ítrekar kærði að rök hafi verið færð fyrir því að starfsstöð kæranda við Stekkjargötu 6 í Neskaupstað sé orkuveitustöð með meira en 2ja MW framleiðslugetu.  Í samræmi við það beri kæranda að sækja um starfsleyfi fyrir starfsstöðina sbr. lið 9,1 í fylgiskjali 2 í reglugerð nr. 784/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun.

IV.

Ágreiningur máls þessa snýst um hvort starfsleyfi þurfi fyrir varaaflsstöð í Neskaupstað.  Krafa lögmanns kæranda er að ákvörðun kærða um að kærandi þurfi að sækja um starfsleyfi fyrir “kyndistöð” kæranda að Stekkjargötu 6, Neskaupstað verði felld úr gildi. Krafa kærða er að staðfest verði að kæranda beri að sækja um starfsleyfi.  Í reglugerð nr. 784/1999, lið 9,1 í fylgiskjali 2 kemur fram að sækja þurfi um starfsleyfi fyrir orkuveitur.  Líta verður svo á að þrátt fyrir þá orðnotkun að varaaflstöðin sé nefnd “kyndistöð” sé hér um að ræða orkuveitu í skilningi liðar 9,1 í reglugerð 784/1999.  Þá ber og að líta til þess að þrátt fyrir að hver díselvél nái ekki því viðmiði sem fram kemur í reglugerð þá er samanlögð afkastageta díselvélanna töluvert yfir þeim viðmiðum.   Með tilvísun til þessa er það niðurstaða nefndarinnar að starfsemi RARIK að Stekkjargötu 6, Neskaupstað sé starfsleyfisskyld.

ÚRSKURÐARORÐ:

Starfsemi RARIK að Stekkjargötu 6, Neskaupstað er starfsleyfisskyld samkvæmt reglugerð 784/1999.

  Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                    Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 12/28/06

12/2005 Úrskurður vegna kæru Dreifingar ehf. gegn Umhverfisstofnun.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2006, föstudaginn 15.desember 2006 kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.   Mætt voru  Steinunn Guðbjartsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Gísli Gíslason.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2005  Dreifing ehf., Vatnagörðum 8, Reykjavík gegn Umhverfisstofnun.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður :

I.

Stjórnsýslukæra Einars Arnar Davíðssonar hdl. f.h. Dreifingar ehf., hér eftir nefndur kærandi,  barst úrskurðarnefnd í mars 2005.  Kærð er synjun Umhverfisstofnunar, hér eftir nefnd kærði dags. 14. desember 2004 á umsókn kæranda um leyfi til notkunar á fullyrðingunum, “Lactose Free”, “Cholesterol Free” og “Low fat” á umbúðum vörunnar Veggie Slices.  Gerir lögmaður kæranda þær kröfur að kæranda verði heimilt að nota framangreindar fullyrðingar á Veggie Slices vörum.  Þá er þess krafist að í niðurstöðu úrskurðarnefndar verði kærða gert að greiða kostnað vegna málsins.

Fylgiskjöl með erindi kæranda eru:

1)      Afrit af bréfi kæranda dags. 11. nóvember 2004, til Umhverfisstofnunar, umsókn um leyfi til notkunar á fullyrðingum.

2)      Afrit af svarbréfi kærða dags. 14. desember 2004.

II.

Í stjórnsýslukæru lögmanns kæranda kemur fram að kærandi hafi um langt skeið flutt inn til landsins og selt ýmsar vörur og matvæli.  Meðal annars hafi kærandi flutt in vöruna VEGGIE SLICES sem sé jurtaostur.  Vegna athugasemda kærða við umræddar matvörur hafi kærandi lagt inn umsóknir til kærða um leyfi til notkunar á fullyrðingunum “Lactose Free”, Cholesterol Free” og Low Fat” á VEGGIE SLICES vörum sem fyrirtækið sé innflytjandi að og framleiddar séu af Galaxy Nutritional Foods í Orlando USA.  Kveður kærandi að varan VEGGIE SLICES sé jurtaostur sem sé framleiddur í Bandaríkjunum og seldur á öllum helstu mörkuðum.  Sé framleiðslan sérval þeirra sem neyta vilji jurtafæðu og sneiða hjá neyslu vöru framleiddri úr dýraríkinu.  Sé varan viðurkennd af USDA og US Health Association.  Lögmaður kæranda leiðréttir mistök í umsókn fylgiskjali 1 þar sem talað sé um ostlíki, en eigi að vera jurtaostur.

Í umsókn sinni, fylgiskjali nr. 1. lýsir kærandi vörunni svo að um sé að ræða ostlíki sem m.a. sé framleitt úr sojamjólk og sojapróteinum.  Þar sem varan innihaldi enga mjólk eða mjólkurafurð sé hún án laktósa og henti því vel einstaklingum með laktósaóþol.  Því sé fullyrðingin “Lactose Free” til þess fallin að vekja athygli á vörunni og að benda þeim einstaklingum, sem þurfi að forðast laktósa, á þennan valkost í stað venjulegs mjólkurosts.

Lögmaður kæranda bendir í kærunni á að krafa um að nota fullyrðinguna “Lactose Free” stafi af þeirri staðreynd að ekki sé notaður mjólkursykur við framleiðsluna.  Þar sem sambærilegir jurtaostar geti innihaldið mjólkursykursleifar sé nauðsynlegt að upplýsa neytendur sérstaklega um að varan sé “Lactose Free.”

Krafa um notkun á fullyrðingunni “Low Fat” sé vegna þeirrar staðreyndar að varan innihaldi allt að 76% minni fitu en feitir brauðostar.  “Low Fat” þýði hér lítil fita og með merkingunni sé ekki verið að gera annað en benda almenningi á þá staðreynd.  Engin fullyrðing sé um fituskerðingu (“reduced fat”).  Ekki sé verið að skerða fitu því varan sé einfaldlega framleidd með minni fitu en almennur brauð- eða mjólkurostur og framleiðandinn staðfesti það með þessari fullyrðingu “Low fat”.

Í umsókn, fylgiskjali nr. 1, segir kærandi að fullyrðingin “Low Fat” sé sambærileg við fullyrðinguna fituskert eða létt.  Skv. 36. gr. rgl. Nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvara sé heimilt að nota fullyrðinguna fituskert eða létt fyrir þær vörur þar sem fitu- og orkuskerðingin sé a.m.k. 25% miðað við sambærilega vöru.  Veggie ostlíkið sé þannig sambærilegt við fastan mjólkurost þar sem fituinnihald á osti sé 26%.  Fituinnihald í Veggie sé 10% og þar með sé bæði fitu- og orkuskerðingin meiri en 25% og því uppfylli varan skilyrði þess að geta kallast “Low Fat” eða fituskert.

Lögmaður kæranda kveður jurtaostinn seldan í Bretlandi og víðar með heimild til að nota fullyrðinguna “Cholesterol Free”.  Kveður hann og að Ísland vinni á sömu forsendum í heilbrigðis- og matvælamerkingum og Bretar og af þeirri ástæðu ætti ekki að vera staðið gegn þessum kröfum um merkingar. Kveður lögmaður kæranda fullyrðingar á umbúðum VEGGIE SLICES  nauðsynlegar upplýsingar til þess að hinn almenni neytandi fái vitneskju um staðreyndir og geti tekið upplýsta ákvörðun um hvaða vöru hann vilji neyta.  Bendir hann og á að stjórnvöld um allan heim leggi í síauknum mæli áherslu á heilbrigt mataræði og falli VEGGIE SLICES vörurnar vel að þeim áherslum.  Ekki verði heldur fram hjá því litið að sumir neytendur hreinlega verði heilsu sinnar vegna að varast lactosa, kólesteról  og fitu.  Telur kærandi að það sé, sérstaklega með þann hóp neytenda í huga, rangt að leyna staðreyndum um þessa vöru. Því sé nauðsynlegt að nefndin hafi í huga að það séu ekki allir neytendur sem geti veitt sér þann munað að borða mat sem innihaldi lactosa, kólesterol og fitu.

Lögmaður kæranda vísar til umsóknar kæranda til kærða  en þar kemur fram að umræddar fullyrðingar hafi gildi fyrir neytendur og taki mið af hagsmunum þeirra og vísar til skilyrða sem sett séu um fullyrðingar í 35. gr. rgl. um merkingu auglýsingu og kynningu matvæla.

Vísar kærandi til þess að kærði sjái ofangreindum upplýsingum til neytenda ýmislegt til foráttu, sbr. fylgiskjal 2.  Kærandi vilji hins vegar benda á að allar fullyrðingarnar séu til þess að upplýsa neytendur.  Fari kærandi að tilmælum kærða sé í raun verið að blekkja neytendur.  Þá væru rangar upplýsingar gefnar sem í raun teljist brot á VI. kafla samkeppnislaga nr. 8/1993.  Telur lögmaður kæranda að kærði hafi ekki litið til allra þátta við ákvörðun sína og að stofnunin hafi brotið 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kærandi vísar til meðfylgjandi umsókna sbr. fylgiskjal nr. 1 um efnisinnihald og aðrar staðreyndir um vöruna.  Þá vísar kærandi  til þess að kærði eigi ekki að leita strangari leiða í framkvæmd sinni en nauðsyn beri til og vísar um þetta til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.  Kveður kærandi að við framkvæmd skuli velja það úrræði sem vægast sé þar sem fleiri úrræða sé völ sem þjónað geti því markmiði sem að sé stefnt.   Ennfremur telur kærandi með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga sérstaklega 1.tl. 2. mgr. hafi kærði  ekki rökstutt ákvörðun sína nægilega.

Þá gerir kærandi þá kröfu að nefndin taki fram í niðurstöðu sinni að kærði beri kostnað kæranda við að hafa kæruna uppi.  Farið er fram á að nefndin ákvarði upphæð greiðslu kærða til kæranda við að hafa kæruna uppi og að fjárhæðin sé tiltekin í niðurstöðu nefndarinnar. Lögmaður kæranda vekur sérstklega athygli á að ekki sé um  mjólkurosta að ræða heldur jurtaost.  Varan sé fyrst og fremst valkostur þeirra sem ekki geta eða vilja neyta afurða úr dýraríki. Áskilinn er réttur til frekari málsreifana, málsástæðna og lagaraka sé þess krafist.

III.

Í greinargerð kærða dags. 30. maí 2005 vísar kærði til þess að borist hafi umsókn frá kæranda, á grundvelli 34. gr. rgl. nr. 558/1993 um merkingu auglýsingu og kynningu matvæla.  Með ákvörðun kærða sem birt hafi verið með erindi dags. 14.12.2004 hafi kæranda verið hafnað á grundvelli 34. sbr. 35. sbr. einnig 36. gr. reglugerðar nr. 588/1993 að nota fullyrðingarnar “Lactose free” og “Low fat” á vöruna “Veggie slices” sem fyrirtækið kallaði í umsókn sinni ostalíki og eru notuð í stað hefðbundinna mjólkurosta.

Kærði vísar til þess að í kæru komi fram að varan sé framleidd í Bandaríkjunum og að hún sé sérvara, viðurkennd af United States Department of Agriculture (USDA) og US Health Associations (USHA).  Kærði telur það málinu óviðkomandi að vara þessi sé framleidd í Bandaríkjunum og viðurkennd af ofangreindum þarlendum stofnunum þar sem í ríkjum Bandaríkja Norður-Ameríku gildi aðrar reglur en á markaðssvæði samningsins um Evrópska Efnahagssvæðið (EES).

Kærði kveðst hafa hafnað fullyrðingunni “Lactose Free” á Veggie slices” þar sem hún brjóti í bága við c-lið 35. gr. rgl. Nr. 588/1993 um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla en þar segi að ekki megi halda því fram að vara sé án ákveðins efnis þegar aðrar samskonar eða sambærilegar vörur séu líka án þessa efnis.  Efnið sem um ræði í þessu tilviki sé laktósi og sé það mat UST að samskonar eða sambærileg vara við jurtaosta séu hefðbundnir brauðostar unnir úr mjólk. Kærði bendir á að kærandi haldi því fram að fullyrðingin “Lactose Free” eða “án laktósa” geti staðið á umbúðum um “Veggie slices” vegna þess að aðrir jurtaostar geti innihaldið leifar af laktósa (mjólkursykri).  Í umsókn kæranda hafi ekki verið gerð nein tilraun til að sýna fram á að aðrir jurtaostar en Veggie slices innihaldi mjólkursykur.  Komi þar einungis fram samanburður við mjólkurost eins og sjá megi í eftirfarandi setningu : “Fullyrðingin “Lactose Free” er til þess fallin að vekja athygli á vörunni og benda þeim einstaklingum sem þurfa að forðast laktósa á þennan valkost í stað venjulegs mjólkurosts”.  Komi það fyrst fram í kærunni að bera skuli “Veggie slices” saman við aðra jurtaosta og hafnar kærði þeim samanburði.  Mat kærða sé að jurtaostar skuli bornir saman við hefðbundna brauðosta unna úr mjólk eins og fram hafi komið í umsókninni.  Með því að nota fullyrðinguna “án laktósa” á “Veggie slices” sé verið að segja að varan innihaldi ekki laktósa en hefðbundnir brauðostar unnir úr mjólk innihaldi heldur ekki laktósa.  Því sé verið að gefa í skyn með fullyrðingunni að varan sé einstök umfram aðrar samskonar og sambærilegar vörur sem hún sé ekki í þessu tilliti.

Kærði telur því að fullyrðingin “Lactose free” sé ekki í samræmi við ofangreind ákvæði rgl. nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla.  Sé það mat stofnunarinnar að sé þessi fullyrðing notuð um “Veggie slices” sé verið að villa um fyrir neytendum og sé því jafnframt um að ræða brot á a-lið 35. gr. ofangreindrar reglugerðar nr. 588/1993.

Fullyrðingin “Low fat”.  Kærði bendir á að kærandi krefjist þess einnig að fullyrðingin “Low fat” verði heimiluð á umbúðum “Veggie slices”.  Vert sé fyrst að skoða hvað þessi fullyrðing táknar.  Kærði kveður að samkvæmt upplýsingum frá íslenskri Málstöð þýði “Low fat” lítil fita eða lágt í fitu. Því sé um að ræða magn fitu í vörunni sjálfri og ekki um neinn samanburð við aðrar vörur að ræða.  Væri um að ræða samanburð við aðrar vörur og merkingin “Lower fat” (minni fita) eða “Reduced fat” (fituskert) hefði staðið á umbúðum vörunnar hefði varan uppfyllt skilyrði 36. gr. rgl. nr. 588/1993 um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla og kæranda hefði því verið heimilt að nota slíka fullyrðingu þar sem um sé að ræða 25% skerðingu eða meira á fitumagni í “Veggie slices” samanborið við sams konar eða sambærilegar vörur.  Kærði kveður ennfremur að í staðli Alþjóðlega staðalaráðsins, CODEX, megi finna reglur um merkingar matvæla sem kærði telji lögmætt og málefnalegt að taka mið af við mat sitt á því hvort fullyrðingar séu í samræmi við ákvæði í 5. sbr. og 35. gr. reglugerðarinnar.  Reglur um næringarfræðilegar fullyrðingar séu settar fram í staðli CAC/GL 23-1997.  Samkvæmt þessum staðli megi nota fullyrðinguna “Low fat” um matvæli ef fituinnihald sé að hámarki 3g af fitu í hverjum 100g af vöru eða að hámarki 1.5g í hverjum 100 ml af vöru.  Þessi sömu gildi séu í lokadrögum Evrópuþingsins og Evrópuráðsins(COM(2003)42 final) í reglugerð um næringar- og heilsufarsfullyrðingar sem nota megi um matvæli og sem væntanlega verði að reglum á EES svæðinu innan tíðar.  Merkingunni “ Low fat” sé þannig ætlað að gefa til kynna að  í viðkomandi matvælum sé minna en 3g af fitu í hverjum 100g af vöru.  Fitumagn í “Veggie slices” sé hins vegar 9 g. í hverjum 10g af vöru skv. upplýsingum á umbúðum vörunnar.  Telur kærði að yrði fullyrðingin leyfð myndi það leiða til þess að neytendur telji að umrædd vara sé fituminni en hún í raun sé.  Merkinginin sé þá blekkjandi. Því sé það óhögguð skoðun kærða að fullyrðingin “Low fat” á þessari vöru sé blekkjandi fyrir neytendur og samræmist því ekki ákvæðum 5. sbr. og 35. gr. rgl. nr. 588/1993 um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla.

Kærði bendir á að kærandi víki að fullyrðingunni “Cholesterol Free” eða “án kólesteróls” sem bent sé á að notað sé á Bretlandi.  Kæranda var ekki synjað um leyfi til notkunar á þessari fullyrðingu, eins og haldið er fram í kærunni í ákvörðun frá 14. desember 2004.

Kærði bendir á að í kærunni sé reifað hvernig fullyrðingar á umbúðum “Veggie slices” séu nauðsynlegar til þess að hinn almenni neytandi fái vitneskju um staðreyndir og hvernig hann geti tekið upplýsta ákvörðun um hvaða vöru hann vilji neyta.  Kærði sé því sammála að neytendur eigi að fá sem gleggstar upplýsingar um innihald matvæla.  Hins vegar geti kærði ekki stuðlað að því að villandi og blekkjandi upplýsingar nái til neytenda enda væri hann þá að vinna gegn markmiði laga nr. 93/1995 um matvæli og rgl. nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla.  Sé matvara ekki með lágt fituinnihald þá á hún ekki að vera merkt eða auglýst á þann hátt.  Sama gildi ef fullyrt sé að vara sé án laktósa ef sambærilegar vörur eru án laktósa.

Kærði bendir á að stjórnvöld hér á landi sem og annars staðar leggi sífellt meiri áherslu á heilbrigt líferni jafnt á heilbrigða hreyfingu sem og heilbrigt mataræði.  Þeir sem eru með mjólkursykuróþol ættu að varast mjólkursykur (laktósa) þeir sem eru með hátt hlutfall kólesteróls í blóði ættu að forðast fitu og kólesteról og þeir sem eru of feitir ættu að forðast mikla fitu frá matvælum.  Í innihaldslýsingu matvæla megi finna hver innihaldsefni þeirra séu.  Ef um sé að ræða næringargildismerkingu á umbúðum matvæla megi finna upplýsingar um magn innihaldsefna.    Þó svo að fullyrðinga um eiginleika matvæla s.s. “Low fat” njóti ekki við, geti neytendur auðveldlega lesið innihaldslýsingu og næringargildismerkingu til að fá hugmynd um samsetingu vörunnar og geti því tekið upplýsta ákvörðun um hvort umrædd matvara henti þeim.  Fullyrðingar sem settar séu fram með villandi hætti geri neytendum erfiðara fyrir að átta sig á eiginleikum vörunnar, bæði sem slíkrar og í samanburði við aðrar sams konar eða sambærilegar vörur.

Kærði hafnar athugasemdum kæranda um að stofnun sé að blekkja neytendur með því að synja kæranda um leyfi til notkunar á fullyrðingunni “Low fat”.  Þvert á móti kveðst kærði gæta hagsmuna neytenda með því að stuðla að því að réttar upplýsingar komist til neytenda um samsetningu matvæla og að þeir geti tekið rétta og upplýsta ákvörðun.

Kærði kveður að  kærandi telji í kæru að kærði hafi ekki tekið tillit til allra þátta sem fram hafi komið í umsókn kæranda og hafi kærði þar með brotið 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kærði hafnar slíkum ummælum alfarið enda taki kærði ávallt tillit til allra þeirra þátta sem hann telji sig geta til að taka efnislega rétta ákvörðun í málum sem hann sinni.  Í umsókn kæranda hafi einfaldlega verið þættir sem kærði hafi ekki getað tekið tillit til sbr. umfjöllun í greinargerð.

Einnig komi fram í kæru að kærði hafi ekki valið vægasta úrræðið sem kærði hafði til að ná fram markmiðum sínum og þar með hafi kærði brotið 12. gr. stjórnsýslulaga.  Kærði telur að ekki hafi verið hægt að ná fram því lögmæta markmiði að tryggja að neytendur verði ekki blekktir, sbr. 1. gr. og 3. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli sem og 5. gr. sbr. og 35. gr. rgl. nr. 588/1993 um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla með öðrum og vægari hætti en að hafna fullyrðingunum “Lactose free” og “Low fat” og er aftur vísað til umfjölllunar í greinargerð.  Leggi kærandi enda ekki neitt til í þeim efnum sjálfur sem líta mætti á sem vægara úrræði sem samt sem áður nái ofangreindu lögmætu markmiði.

Varðandi meint brot kærða á 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli tekið fram að kærði telji sig hafa rökstutt ákvörðun sína ítarlega í erindi dags. 14. des. 2004 og því ekki nauðsyn á að skýra kæranda frá heimild til að óska eftir því að fá ákvörðunina rökstudda í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga sbr. 2. mgr. 20. gr. s. l.  Hafi kærandi talið sig þurfa frekari skýringa við, hefði honum verið í lófa lagið að óska eftir slíku við kærða, en það hafi kærandi ekki gert.

Kærði hafnar því alfarið að bera kostnað af málatilbúnaði kæranda.  Ekkert í störfum kærða gefi tilefni til þess né heldur nein rök sett fram af hálfu kæranda kröfugerð sinni til stuðnings.  Þá séu ekki fordæmi fyrir slíku í úrskurðum nefndarinnar.

IV.

Deilt er í máli þessu um notkun fullyrðinga á vörur.  Hefur kærði ekki samþykkt notkun tveggja fullyrðinga sem kærandi vill nota.  Kærandi krefst þess að mega nota fullyrðingarnar “Lactose Free”,“Cholesterol Free” og Low fat” á umbúðum Veggie Slices vara.  Kærði hafnar notkun kæranda á fullyrðingunum “Lactose Free” og “Low fat”  á tilgreindum vörum, en hefur staðfest að kærandi megi nota fullyrðinguna “Cholesterol Free” á vöruna.

Kærði vísar til þess að  með því að nota fullyrðinguna “án laktósa” (lactose free) sé verið að segja að varan innihaldi ekki laktósa en hefðbundir brauðostar unnir úr mjólk innihaldi heldur ekki laktósa.  Brjóti því fullyrðing þessi í  bága við c-lið 35. gr. reglugerðar nr. 588/1993 þar sem fram komi að fullyrðing þurfi að uppfylla það skilyrði að aðrar sams konar og/eða sambærilegar vörur innihaldi efnið.  Varðandi fullyrðinguna “Low fat” megi nota hana um matvæli sé fituinnihald að hámarki 3 g. af fitu í hverjum 100g.  Fitumagn í Veggie slices sé hins vegar 9g af hverjum 100g. af vöru skv. merkingu á vörunni sjálfri.  Með tilvísun til þessa er hafnað kröfum kæranda í máli þessu um notkun fullyrðinganna ”Low fat” og ”Lactose free”.

Ekki er á valdsviði nefndarinnar að úrskurða um kostnað vegna mála fyrir nefndinni.  Þeirri kröfu er því vísað frá.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfum kæranda í máli þessu um notkun fullyrðinganna “Low Fat” og “Lactose Free” á umbúðir Veggie Slices vara.  Kröfu um úrskurð um kostnað vegna kærunnar er vísað frá.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gísli Gíslason                              Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 12/28/06

6/2005 Úrskurður vegna kæru Dreifingar ehf. gegn Umhverfisstofnun.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2006, föstudaginn 15.desember 2006 kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.   Mætt voru  Steinunn Guðbjartsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Gísli Gíslason.

Fyrir var tekið mál nr. 6 /2005  Dreifing ehf., Vatnagörðum 8, Reykjavík gegn Umhverfisstofnun.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður :

I.

Stjórnsýslukæra Einars Arnar Davíðssonar hdl. f.h. Dreifingar ehf., hér eftir nefndur kærandi,  barst úrskurðarnefnd í desember 2005.  Kærð er synjun Umhverfisstofnunar, hér eftir nefnd kærði dags. 2. september  2005 á umsókn kæranda um heimild til íblöndunar í Galaxy Veggies. (All Flavors).   Gerir lögmaður kæranda þær kröfur að ákvörðun kærða um að synja umsókn um heimild til íblöndunar í Galaxy Veggies (All flavors) verði felld úr gildi og að kæranda verði heimilt að nota umbeðin íblöndunarefni í Galaxy Veggies (All Flavors).  Þá gerir kærandi kröfu um að réttaráhrifum hinnar kærðu stjórnvaldsákvörðunar verði frestað meðan kæra sé til meðferðar hjá úrskurðarnefnd og að í niðurstöðu nefndarinnar verði kærða gert að greiða kostnað við að hafa kæruna uppi.

Fylgiskjöl með erindi kæranda eru:

1)      Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost Pepper Jack Flavor.

2)      Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost American Flavor.

3)      Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost Mozzarella Shredded.

4)      Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost Provolone Flavor

5)      Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost Caesar’s Parmessan.

6)      Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

Blue Cheese Flavor.

7)  Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

Veggie Parmessan.

8)  Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

Cheddar shredded.

9)  Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

Veggie Butter.

10)  Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

Cheddar Flavor sneiðar.

11)  Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

Swiss Flavor.

12)  Afrit af umsókn kæranra um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

Mozzarella Flavor.

13)  Afrit af umsókn kæranda um heimild til notkunar bætiefna í Galaxy jurtaost

Caesar´s Parmessan.

14)               Afrit af erindi Lýðheilsustöðvar daga. 9. september 2004 til Umhverfisstofnunar.

15)               Afrit af erindi Umhverfisstofnunar dags. 8. júlí 2005.

16)               Afrit af erindi Umhverfisstofnunar dags. 30.08. 2005

17)               Afrit af erindi Umhverfisstofnunar dags. 02.09.2005.

Afrit af stjórnsýslukæru og meðfylgjandi gögnum var sent kærða sem sendi greinargerð dags. 15. mars 2006.  Greinargerð sú var send kæranda.

II.

Í stjórnsýslukæru lögmanns kæranda kemur fram að kærandi hafi um langt skeið flutt inn til landsins og selt ýmsar vörur og matvæli.  Meðal annars hafi kærandi flutt inn jurtaostinn Galaxy Veggie Slices.  Hafi kærandi lagt inn umsóknir til kærða í nóvember 2004 sbr. fylgiskjöl 1-13.  Hafi kærði stutt ákvörðun sína við umsögn Lýðheilsustöðvar dags. 9. september 2004.  Hafi umsóknum kæranda verið hafnað sbr. fylgiskjal nr. 17.

Lögmaður kæranda kveður Galaxy Veggie Slices vera jurtaost framleiddan í Bandaríkjunum og seldan á öllum helstu mörkuðum.  Sé framleiðslan sérval þeirra sem vilji neyta jurtafæðu og sneiða hjá neyslu vöru framleiddri úr dýraríkinu. Sé varan viðurkennd af USDA og US Health Association.  Lögmaður kæranda gerir grein fyrir kröfum kæranda og vísar um frestun réttaráhrifa til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Til stuðnings kröfu þessari vísar lögmaður kæranda til þess að kæran sé í raun þýðingarlaus ef hinni kærðu ákvörðun er hrundið í framkvæmd áður en úrskurðarnefndin kemst að niðurstöðu í málinu.  Verði umræddar vörur kæranda teknar úr hillum matvörubúða sé nær tilgangslaust fyrir kæranda að nýta lögmæta heimild sína til að kæra ákvörðun kærða þar sem kærandi hafi þá þegar orðið fyrir tjóni.  Vísað er og til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.  Telur lögmaður kæranda að kærði eigi ekki að leita strangari leiða í framkvæmd sinni en nauðsyn beri til.  Vísar kærandi til þess að við framkvæmd ákvörðunar skuli velja það úrræði sem vægast sé þar sem fleiri úrræða sé völ er þjónað gætu því markmiði sem að er stefnt.  Ennfremur er vísað til þess að stjórnvald gæti hófs í beitingu þess úrræðis sem valið sé.

Lögmaður kæranda telur að kærði hafi ekki litið til allra þátta við ákvörðun sína og að stofnunin hafi brotið 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísar lögmaður kæranda til umsókna sbr. fylgiskjöl nr. 1-13 um efnisinnihald og aðrar staðreyndir um vörurnar.  Hafi verið sótt um leyfi fyrir 10 íblöndunarefni í vöruna en kærði hafi aðeins tekið fyrir áhættumat fyrir A-vítamín.  Magn A-vítamíns er 500 µg í 100 gr. og teljist það að sögn kærða 63% af ráðlögðum dagsskammti RDS, hvers venjulegs manns.  Kærandi byggi á því að við ákvörðun sína hafi kærði ekki tekið tillit til þess að Galaxy Veggie Slices sé jurtaostur og að varan sé vinsæl hjá ákveðnum hópi neytenda, þ.e. neytendum með mjólkurofnæmi og neytendum sem leggi mikið upp úr heilsufæði.  Bendir lögmaður kæranda á að það hljóti að teljast mikilvægur þáttur í mati kærða hvaða þjóðfélagshópur neyti þeirra vöru sem sé í áhættumati hverju sinni.  Við ákvörðun sína hafi kærði stuðst við gögn frá Lýðheilsustöð um neyslu landsmanna á A-vítamíni.  Gerir lögmaður kæranda athugasemdir við málsmeðferð kærða.  Leggur lögmaður kæranda á það áherslu að aðferðir kærða standist ekki almenna rökhugsun.  Byggi kærði upplýsingar um heildarneyslu þjóðarinnar á þeim bætiefnum sem sótt hafi verið um, á hæpnum forsendum sbr. umfjöllun um gildi tilgreindra upplýsinga.  Einnig tilgreini kærði að hann hafi aflað upplýsinga um ákveðna þjóðfélagshópa en líti ekki til þeirra þjóðfélagshópa sem varan höfði sérstaklega til, neytenda með mjólkuróþol og neytenda sem leggi áherslu á að neyta heilsufæðis.

Lögmaður kæranda bendir á að í ákvörðun kærða dags. 2. september sé vinnuregla kærða skýrð.  Byggi kærði á því að þar sem neysla 95% þjóðarinnar sé yfir tilgreindum mörkum sé ekki svigrúm fyrir vörur kæranda á markaði.  Samkvæmt vinnureglu kærða komi ákveðnir þjóðfélagshópar ekki einu sinni til skoðunar.  Bendir lögmaður kæranda á að formreglur kærða, sem að öllum líkindum séu innanhússreglur settar með það að markmiði að auðvelda störf, séu í þessu tilfelli að hamla eðlilegri efnislegri niðurstöðu. Byggi kærandi á að svo íþyngjandi regla þurfi í fyrsta lagi að byggjast á tilvísuðum réttarheimildum og í öðru lagi verði kærði að horfa til þess að við svo íþyngjandi ákvörðun verði að gera strangari kröfur til áreiðanleika þeirra heimilda sem ákvörðunin byggi á.  Kærði vísaði í ákvörðun sinni ekki til heimilda fyrir vinnureglum sínum og hafi því ekki byggt ákvörðun sína á áreiðanlegum heimildum.

Lögmaður kæranda dregur gildi upplýsinga sem kærði vísar til í efa og einnig þær ályktanir sem dregnar séu af þeim.  Telur lögmaður kæranda tilvitnaða  könnun “ Könnun á mataræði Íslendinga 2002” ekki uppfylla almenn skilyrði til þess að vera traustur grundvöllur fyrir svo veigamikilli ákvörðun.  Sér í lagi þegar íþyngjandi ákvörðun eins og hér um ræði sé á henni byggð.

Lögmaður kæranda vísar til eftirfarandi atriða.

1)  Áreiðanleiki könnunar og gildi upplýsinga hennar sé takmarkað sbr. bls. 12 í könnuninni sjálfri.  Könnunin sé eins konar nálgun á sannleikann, geti aldrei sýnt fullkomna mynd af raunverulegri neyslu fólks.

a)  Fólk muni ekki endilega allt sem það lætur ofan í sig.

b)  Upplýsingar skolast til í viðtali.

c)  Gagnagrunnar séu ekki fullkomnir.

d)  Ekki séu allir jafn fúsir að láta upplýsingar.

e) Engin viðmiðunarkönnun eða samanburðarrannsókn hafi veirð gerð. Ekki hafi sama aðferðarfræði verið notuð í könnun sem gerð hafi verið árið 1999 og því ekki sambærileg.

2.  Kærandi vísi einnig til þess sem áður greinir, að ekki sé við ákvörðun kærða litið til þeirra þjóðfélagshópa sem vara kæranda höfði til.

Vísar lögmaður kæranda til þess að gera þurfi strangari kröfur til áreiðanleika heimilda þegar svo íþyngjandi ákvörðun sé tekin.  Könnun Lýðheilsustöðvar uppfylli engan veginn kröfur til áreiðanleika og alls ekki þegar litið sé til þess að um mjög íþyngjandi ákvörðun sé að ræða og að niðurstaðan varði kæranda miklu.

Lögmaður kæranda byggir á því að einstaklingar sem hafi mjólkuróþol neyti Galaxy Veggie Slices og að rangt sé að setja neytendur með mjólkuróþol í sama flokk og þann hóp manna sem ekki hafi mjólkuróþol.  Neytendur með mjólkuróþol verði ástands síns vegna að sneiða hjá öllum mjólkurvörum og komi vara kæranda í stað venjulegs osts í mörgum tilfellum.  Sama megi segja um einstaklinga sem hugi almennt að heilsu sinni.  Þeir neyti vöru kæranda meðvitaðir um kosti hennar framar venjulegum mjólkurosti.

Lögmaður kæranda byggir á því að kærði geti ekki horft fram hjá því við ákvörðun sína, hverjum vara kæranda beinist sérstaklega að.  Einstaklingar sem hafi mjólkuróþol svo og einstaklingar sem hugi mjög að heilsu sinni geti notið Galaxy Veggie Slices meðvitaðir um kosti hennar framar venjulegum mjólkurosti.

Kærandi telur kærða ekki hafa litið til allra þátta við ákvörðun sína og að kærði hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þá vísar lögmaður til þess að kærði eigi ekki að leita strangari leiða í framkvæmd sinni en nauðsyn beri til.  Skuli við framkvæmd velja það úrræði sem vægast er þar sem fleiri úrræða er völ, er þjónað geti því markmiði sem að sé stefnt.  Þá telur lögmaður kæranda að gæta skuli hófs í beitingu þess úrræðis sem valið sé.  Kærandi telji ennfremur með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga sér í lagi 1. liðar 2. mgr. að kærði hafi ekki rökstutt ákvörðun sína nægilega.

Lögmaður kæranda gerir þá kröfu að kærði beri kostnað kæranda við að hafa kæruna uppi.  Farið sé fram á að nefndin ákvarði upphæð greiðslu kærða til kæranda við að hafa kæruna uppi og að fjárhæð verði tiltekin í niðurstöðu nefndarinnar.

Lögmaður kæranda telur kærða hafa með ákvörðun sinni brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, kærði eigi ekki að leita strangari leiða í framkvæmd sinni en nauðsyn beri til og við framkvæmd ákvörðunar skuli velja það úrræði sem vægast sé þar sem fleiri úrræða sé völ.

Lögmaður kæranda vekur sérstaka athygli á að ekki sé um mjólkurost að ræða heldur jurtaost.  Varan sé fyrst og fremst valkostur þeirra sem ekki geti eða ekki vilji neyta afurða úr dýraríki.

III.

Í greinargerð kærða dags. 15.mars, 2006 vísar kærði til þess að borist hafi umsókn frá kæranda, á grundvelli 19. gr. rgl. nr. 285/2002 um aukefni í matvælum, um leyfi til íblöndunar í Galaxy Veggie Slices (All Flavours).  Sótt hafi verið um leyfi fyrir íblöndun  á 10 bætiefnum í vöruna og hafi kærði lagt megináherslu á að framkvæma áhættumat fyrir A-vítamín sem sé í formi retínóls í vörunni.  Það hafi verið gert vegna þess að A-vítamín í umframmagni sé talið valda meira heilsutjóni en önnur bætiefni.  Magn A-vítamíns í vörunni sé 500 µg í 100 grömmum (63% af ráðlögðum dagskammti RDS). Kveður kærði að upplýsingar um neyslu landsmanna á A-vítamíni hafi verið sendar umsækjanda þann 8. júlí 2005 og honum kynnt það áhættumat sem notað er við umfjöllun á umsóknum um íblöndun bætiefna í matvæli.  Hafi umsækjanda verið gefinn frestur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri til 11. ágúst 2005.  Engar athugasemdir hafi borist kærða.  Kærði hafi  tekið ákvörðun á grundvelli 19. gr. reglugerðar nr. 285/2002 um aukefni í matvælum sbr. einnig 10. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, að heimila ekki íblöndun A-vítamíns í Galaxy Veggie Slices og hafi sú ákvörðun verið kynnt umsækjanda með bréfi dags. 2. september 2005.  Í bréfinu hafi verið vakin athygli á því að þegar ljóst var að ekki yrði hægt að veita heimild fyrir íblöndun á A-vítamíni í vöruna hafi verið ákveðið að taka ekki afstöðu til hinna bætiefnanna nema að þess yrði sérstaklega óskað af hálfu umsækjanda.  Engar athugasemdir hafi borist.  Kærði bendir á að kærandi leggi fram með kærunni 13 útfylltar umsóknir um heimild til notkunar á bætiefnum í ýmsar gerðir jurtaosta frá Galaxy.  Þessar umsóknir hafi aldrei borist kærða og ekki sé ljóst hvers vegna þær séu fylgiskjöl með kærunni.  Í greinargerð þessari einskorðaði kærði sig við umsóknina sem borist hafi henni þann 11. nóvember 2004 fyrir Galaxy Veggie Slices og hafi verið hafnað eins og áður er sagt þann 2. september 2005.  Kærði vekur athygli á því að séu einhverjar þessara 13 vara á íslenskum markaði sé það ólögmætt þar sem ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir íblöndun bætiefna í vörurnar til kærða.

Kærði bendir á að í kæru kæranda komi fram að að Galaxy Veggie Slices sé framleiddur í Bandaríkjunum og að varan sé viðurkennd af United States Department of Agriculture (USDA) og US Health Associations (USHA).  Kærði telur það málinu óviðkomandi að varan sé framleidd í Bandaríkjunum og viðurkennd af ofangreindum þarlendum stofnunum, þar sem í ríkjum Bandaríkja Norður-Ameríku gildi aðrar reglur en á Íslandi.

Kærði hafnar því að réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar verði frestað með vísan til 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga þar sem neytendum stafi hætta af neyslu vörunnar.  Við ákvörðun í málinu hafi að sjálfsögðu verið litið til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, 12. gr. stjórnsýslulaga.  Niðurstaða úr áhættumati stofnunar hafi verið að varan væri hættuleg til neyslu fyrir neytendur á Íslandi og því ekki um annað að ræða en að hafna umsókninni.  Engin vægari úrræði séu möguleg sem nái sama markmiði, þ.e. því lögmæta markmiði að vernda neytendur gegn skaðlegum matvælum.  Enda leggi kærandi ekkert til sem gæti náð sama markmiði, en með vægara úrræði.

Kærði vísar til umfjöllunar um hvernig staðið sé að áhættumati þegar ákvörðun sé tekin um að heimila eða synja íblöndun bætiefna í matvörur.  Jafnframt sé vísað til þess að leitað hafi verið umsagnar Lýðheilsustöðvar og kæranda gefið tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við stofnunina áður en endanleg ákvörðun var tekin í málinu.  Því hafi málið verið nægilega rannsakað og því ekki um brot á 10. gr. stjórnsýslulaga að ræða.  Þá vísar kærandi ennfremur í umsóknir, sbr. fylgiskjöl 1-13 máli sínu til stuðnings, þar sem því sé haldið fram að stofnunin hafi brotið 10. gr. stjórnsýslulaga.  Kærði hafnar þessu og bendir á að ofangreindar umsóknir hafi ekki verið sendar stofnuninni og hafi því ekki komið til álita við ákvarðanatöku.

Kærði bendir á að kærandi fjalli um að umrædd vara sé jurtaostur og því vinsæl vara hjá ákveðnum hópum neytenda m.a. hjá neytendum með mjólkurofnæmi.  Í sömu kæru sé einnig vísað í öðrum tilvikum til einstaklinga með mjólkuróþol.    Til að forðast allan misskilning vill kærði taka fram að mjólkuróþol og mjólkurofnæmi sé alls ekki sami hluturinn.  Einstaklingar með mjólkurofnæmi þoli alls ekki ákveðin mjólkurprótein en við neyslu þeirra komi ofnæmiseinkenni í ljós.   Fólk með ofnæmi þoli nær ekkert magn af ofnæmisvaldi til að fá einkenni.  Samkvæmt innihaldslýsingu fyrir tilgreinda vöru séu mjólkurprótein í henni og einnig komi fram viðvörun á henni þar sem segi m.a. að varan innihaldi innihaldsefni mjólkur.  Umrædd vara sé því ekki ætluð einstaklingum með mjólkurofnæmi.  Hvað varði mjólkuróþol þá geti einstaklingar með mjólkuróþol ekki brotið niður mjólkursykur vegna skorts á ensími (laktasi).  Meiri möguleiki sé á því að það sé laktósi í jurtaostinum en hefðbundnum mjólkurosti þar sem mjókurpróteinum sé bætt í jurtaostinn og með mjólkurpróteinum fylgi oft leifar af mjólkursykri.

Ekki eigi við nein rök að styðjast að einstaklingar með mjólkuróþol hafi ekki neinn annan valkost en jurtaost ef viðkomandi vill neyta osts sem áleggs og neytendur með mjólkurofnæmi séu beinlínis varaðir við neyslu sbr. tilgreinda aðvörun.  Þá kemur og fram í kæru að kærði hafi ekki litið til þess að varan sé vinsæl hjá neytendum sem leggi mikið upp úr heilsufæði.  Við meðhöndlun á umsóknum um íblöndun bætiefna í matvæli sé aðeins litið til þess að varan valdi ekki heilsutjóni sbr. 10. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli og þannig séu allar umsóknir meðhöndlaðar, þ.e. á grundvelli mögulegrar hættu gagnvart neytendum sbr. dóma Evrópudómstóls.

Kærði bendir á að kærandi geri athugasemdir við gögn sem kærði noti frá Lýðheilsustöð sem komi frá landskönnun um mataræði frá 2002.  Til að geta framkvæmt áhættumat fyrir matvæli sem sótt sé um að blanda bætiefnum í sé nauðsynlegt að hafa neyslutölur og noti kærði einungis upplýsingar sem fengnar eru með vísindalegum viðurkenndum aðferðum og af hinu opinbera sem hafi engra hagsmuna að gæta varðandi niðurstöður slíkra rannsókna.  Vegna athugasemda kæranda óskaði kærði eftir greinargerð frá Lýðheilsustöð um hvernig neyslutölur séu fengnar.  Sjá meðfylgjandi bréf frá Lýðheilsustöð dags. 6. mars 2006 þar sem finna megi mótrök gegn athugasemdum kæranda.

Kærði nefnir að kærandi vísi í vinnureglur sem kærði noti og sé lýst í ákvörðun kærða dags. 2. september s.l.  Þessar vinnureglur sem vísað sé í, séu í raun áhættumat sem stofnunin notar og er lýst ítarlega á heimasíðu kærða ásamt heimildum.  Til að fara yfir staðreyndir málsins ítrekar kærði hvernig allar umsóknir um íblöndun bætiefna í matvæli eru meðhöndlaðar hjá kærða.

1)       Sækja þurfi um leyfi fyrir íblöndun bætiefna (þ.e. vítamín, steinefni og lífsnauðsynlegar fitusýrur og amínósýrur) í matvæli til kærða skv. 19. gr. rgl. nr. 285/2002 um aukefni.  Í sömu grein segir einnig að stofnuninni sé heimilt að afturkalla leyfi til notkunar bætiefnis ef fram komi upplýsingar um að sú notkun efnisins sem leyfið tekur til geti valdið heilsutjóni.

Kærði kveðst meðhöndla allar umsóknir á sama máta hvort sem dreifingaraðili telur að vara sé vinsæl eða ekki.

2)       Grundvallaratriði við umfjöllun á umsóknum um íblöndun bætiefna í matvæli sé einmitt það að íblöndunin valdi ekki heilsutjóni og vísar kærði til 3. gr. l. nr. 93/1995 um matvæli svo og 10. gr. sömu laga.

3)       Þegar fjallað sé um umsóknir um íblöndun bætiefna í matvæli sé ávallt framkvæmt áhættumat, þ.e. mat á þeirri áhættu sem neytendum eða ákveðnum neytendahópum kann að stafa af neyslu vörunnar sem um ræði.  Ákveðin bætiefni séu skaðmeiri en önnur og því mikilvægt að úr því sé skorið hvort neysla geti skapað hættu fyrir neytendur.  A-vítamín í formi retínóla sé dæmi um bætiefni sem talið sé meiri skaðvaldur í umframmagni en önnur bætiefni.

4)       Við áhættumatið noti kærði upplýsingar um bætiefnin sjálf sem finna megi í niðurstöðum fjölda rannsókna.  Þá hafi ýmis samtök, rannsóknarstofnanir og yfirvöld tjáð sig um hin ýmsu bætiefni og séu þessar upplýsingar einnig nýttar við áhættumatið.  Upplýsingar sem kærði noti komi  frá hinum ýmsu stofnunum sem nánar eru tilgreindar í upptalningu.  Auk þess að skoða hvort bætiefnin sem sótt er um séu skaðlaus eða skaðleg í því magni sem sótt er um, fær kærði upplýsingar um heildarneyslu þjóðarinnar eða ákveðinna þjóðfélagshópa á þessum efnum.

5)       Kærði kveður að til að undirstrika að ekki sé unnt að gefa í skyn að opinber stofnun eins og kærði vinni í samræmi við það sem kærandi heldur fram að séu innanhússreglur með það að markmiði að auðvelda störf, er bent á að áhættumatið sem farið er eftir er byggt á vísindalegum aðferðum sem birst hafa í viðurkenndum vísindatímaritum.  Til að tryggja öryggi neytenda þurfi að meta hvort svigrúm sé til íblöndunar.  Með því að skoða neyslu 95 hundraðshluta þjóðarinnar og bera saman við efri mörk sem sett séu fyrir neyslu á viðkomandi bætiefni, sé verið að tryggja öryggi neytenda.  Kærði hafnar því alfarið að í þessu tilviki hafi þessi aðferð hamlað eðlilegri efnislegri niðurstöðu.

6)       Til að geta framkvæmt áhættumat fyrir umsóknir um íblöndun bætiefna í matvæli kveðst kærði þurfa að hafa neyslutölur.  Þessar tölur séu fengnar hjá Lýðheilsustöð sem hýsi gögn frá landskönnun um mataræði sem hafi verið framkvæmd árið 2002 af Manneldisráði Íslands.  Þetta séu einu gögnin sem unnt sé að nota fyrir neyslu á næringarefnum og matvælum meðal Íslendinga en fólk á aldrinum 15-80 ára hafi verið valið til þátttöku.  Engin önnur nýlegri rannsókn sé til sem byggi á úrtaki sem sé lýsandi fyrir alla þjóðina og mismunandi samfélagshópa innan hennar.  Þá sé ennfremur staðreynd að varan sé seld í helstu matvöruverslunum landsins þar sem allir geti keypt hana.  Ef vera skyldi að um væri að ræða vöru sem nauðsynleg væri einstaklingum með ákveðinn sjúkdóm, þá þyrfti hún að uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 605/2000 um matvæli til nota í sérstökum læknisfræðilegum tilgangi.  Matvæla sem falla undir þá reglugerð skal einungis neyta samkvæmt læknisráði.  Í þessu tilviki hefur verið rökstutt að Veggie Slices er ekki nauðsynleg einstaklingum með ákveðinn sjúkdóm eða sjúkdóma.

Kærði kveður að það sem sé mikilvægast í þessu tilviki sé að A-vítamíni sé bætt í vöruna.  Kærði bendir svo á staðreyndir um A-vítamín. Kveður kærði að A-vítamín sé samheiti yfir efni sem hafa sömu virkni og retínól.  Retínóleitrun sé mikið áhyggjuefni á Norðurlöndunum og þá sérstaklega á Íslandi þar sem neysla á A-vítamíni (í formi retínóls) sé tiltölulega há.  Þá kveður kærði vitað að A-vítamín í fæðubótarefnum og A-vítamín sem notað sé til íblöndunar hafi meiri eitrunaráhrif en A-vítamín sem komi náttúrulega fyrir hinum ýmsu matvælum.  Enn bendir kærði á að vísindanefnd Matvælaöryggisstofnunar Evrópu hafi sett efri mörk fyrir neyslu á A-vítamíni (í retínól formi) við 3000 µg á dag.  Fari neysla yfir þessi skilgreindu efri mörk sé hætta á óæskilegum áhrifum á heilsu manna.  Í þessu tilviki eru þessi mörk lág miðað við ráðlagðan dagsskammt sem er 800 µg fyrir fullorðna en rannsóknir hafa sýnt að fari neysla yfir efri mörkin veldur það fósturskaða hjá barnshafandi konum og við enn meiri neyslu sé hætta á lifrarskemmdum.  Efri mörkin eru lægri fyrir börn og unglinga.  Efri mörk fyrir konur eftir tíðarhvörf eru einungis 1500 µg á dag vegna aukinnar hættu á beinþynningu og þar af leiðandi á beinbrotum. Kærði vekur athygli á að efri mörk vísindanefndar Matvælaöryggisstofnunar Evrópu fyrir A-vítamín séu miðuð við það sem kemur samanlagt úr fæðu og úr fæðubótarefnum.  Neyslutölur sem kærði notar við áhættumatið innihalda ekki upplýsingar um neyslu á A-vítamíni t.d. frá fjölvítamínum og öðrum fæðubótarefnum að lýsi undanskildu.  Því kveður kærði nær öruggt að neysla á A-vítamíni sé mun meiri en það sem fram kemur í áhættumatinu.

Kærði bendir á að dómar Evrópudómstólsins geri ráð fyrir þvi að miða skuli við neyslumynstur þjóða en ekki vöruna sem verið sé að meta eina og sér þegar meta skuli hættu fyrir neytendur.  Neysla á A-vítamíni er mikil á Íslandi og skv. útskýrðu áhættumati er ekkert svigrúm til A-vítamínbætingar í matvæli hér á markaði.

Kærði hafnar kröfu kæranda um að hann verði látinn bera kostnað vegna málarekstursins og vísar máli sínu til stuðnings til úrskurðar nefndarinnar frá október 2005.  Kærði hafnar þvi að ákvörðun hafi ekki verið nægilega rökstudd í erindi kærða frá 2. september 2005.  Hafi kærandi talið að eitthvað skorti á rökstuðning stofnunarinnar hefði kærandi átt að óska eftir frekari rökstuðningi, en það gerði hann ekki.

Kærði kveðst í greinargerð hafa sýnt fram á að íblöndun A-vítamíns í vöruna Veggie Slices sé skaðleg neytendum geti neysla vörunnar m.a. valdið fósturskaða, lifrarskemmdum og beinþynningu.  Í ljósi þessa og á grundvelli 19. gr. reglugerðar nr. 285/2002 sbr. einnig 10. gr. laga nr. 93/1995 hafi kærði tekið þá ákvörðun að hafna umsókn kæranda um íblöndun.  Kærði kveðst hafa gert kæranda grein fyrir áhættumati í bréfi dags. 8. júlí 2005 og kynnt honum gögn sem stofnunin leggur til grundvallar við mat á umsóknum um heimild til notkunar bætiefna í matvæli. Hafi honum þá verið gefinn kostur á að tjá sig um aðferðafræðina og gögnin en hann hafi kosið að gera það ekki.  Kærði segir að áhættumatið sem hann noti við umfjöllun á tilgreindum umsóknum byggi á vísindalegum aðferðum þar sem nota skuli neyslu 95 hundraðshluta neytenda sem viðmiðun þannig að ef stærstur hluti neytenda (95%) sé undir efri mörkum í neyslu á umræddu bætiefni þá sé talið óhætt að bæta því í matvæli.  Hafi Lýðheilsustöð einnig stuðst við þessa aðferðafræði þegar hún gefi umbeðnar umsagnir.  Auk þessa hafi Danir notað áhættumat fyrir íblöndun í tæp 2 ár sem einnig byggi á skoðun neyslu 95 hundraðshluta landsmanna fyrir bætiefnið sem um ræði.

Í ljósi þess hve alvarlegar afleiðingar það hafi fyrir neytendur að fá of mikið af A-vítamíni, og í samanburði við áhættumat kærða, sé ljóst að ef vara kæranda er á markaði er raunveruleg hætta á heilsutjóni fyrir neytendur.  Byggði því kærði á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum við ákvörðun sína og gerir þá kröfu að niðurstaða úrskurðarnefndar verði sú að ákvörðun kærða verði metin gild að lögum.

IV.

Deilt er í máli þessu um synjun kærða á íblöndun aukefna í vöruna Galaxy Veggies (All Flavors).  Kröfur kæranda eru þær að ákvörðun kærða um að synja umsókn um heimild til íblöndunar í Galaxy Veggies verði felld úr gildi og að kæranda verði heimilt að nota umbeðin íblöndunarefni í Galaxy Veggies (All Flavors). Þá krefst kærandi þess að réttaráhrifum hinnar kærðu stjórnvaldsákvörðunar verði frestað meðan kæra er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd og enn krefst kærandi þess að kærða verði gert að greiða kostnað við að hafa kæruna uppi. Kærði kannast einungis við að hafa fengið eina umsókn um íblöndun.

Niðurstaða verður því bundin við þá umsókn kæranda.

Í 3. gr. reglugerðar um íblöndun bætiefna í matvæli nr.526/2006 kemur fram að íblöndun bætiefna sé háð leyfi Umhverfisstofnunar. Við ákvörðun sína skuli stofnunin einkum meta hvort neysla vörunnar, með viðkomandi bætiefni eða bætiefnum, sé til þess fallin að valda heilsutjóni.  Umhverfisstofnun er heimilt að skilyrða leyfi til íblöndunar bætiefna, svo sem um sérstaka merkingu vörunnar.  Reglugerð þessi er dagsett 14. júní 2006.  Með tilvísan til þessa svo og 10. gr laga nr. 93/1995 verður talið að synjun kærða um íblöndun A-vítamíns í Galaxy Veggies (All Flavors) hafi verið lögmæt.   Ekki er því fallist á kröfu kæranda í málinu um að ákvörðun kærða um að synja umsókn um heimild til íblöndunar í Galaxy Veggies verði felld úr gildi.

Ekki er á valdsviði úrskurðarnefndar að úrskurða um kostnað vegna mála fyrir nefndinni.  Er þeirri kröfu því vísað frá.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ekki er fallist á kröfu  kæranda í máli þessu.  Kröfu kæranda um úrskurð um málskostnað er vísað frá.

Steinunn Guðbjartsdóttir

                                                                                           Gísli Gíslason                                Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 12/28/06

2/2006 Úrskurður vegna kæru Impregilo SpA gegn Heilbrigðisnefnd og Heilbrigðiseftirliti Austurlands.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2006    föstudaginn   30.  júní, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7 í Reykjavík.    Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2006  Impregilo SpA, Ísland útibú, Laugarási Egilsstöðum, hér eftir nefnt kærandi   gegn Heilbrigðisnefnd og Heilbrigðiseftirliti Austurlands, Búðareyri 7, 730 Fjarðarbyggð, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður :

I.

Stjórnsýslukæra Þórarins V. Þórarinssonar hdl. f.h. Impregilo SpA er dagsett 11. janúar 2006 en barst úrskurðarnefnd 18. janúar. Kærandi kveður kærðu vera bæði Heilbrigðisnefnd Austurlands og Heilbrigðiseftirlit Austurlands. Í kæru er fjallað um aðgerðir hins síðargreinda og hann því nefndur kærði í úrskurði.  Kærð eru þau ákvæði í gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit Austurlands nr. 19/2004 frá 4. janúar 2004 og breyting á henni nr. 1083/2005 sem kveða á um að tímagjald við gjaldskylt eftirlit sé 30% hærra, “fyrir tímabundna starfsemi tengdri stóriðju og virkjunum” en gjald “fyrir hefðbundna starfsemi.”.  Þess er krafist að sérstakur gjaldskrárliður fyrir “ tímabundna starfsemi tengdri stóriðju og virkjunum” í hinni kærðu gjaldskrá verði felldur úr gildi frá þeim tíma sem þetta sérstaka ákvæði fyrst kom inn í gjaldskrána þann 1. janúar 2004.  Þá er þess krafist að kærða verði gert að endurgreiða kæranda Að lokum er þess krafist að kærðu greiði kæranda in solidum hæfilegan kostnað af því að hafa uppi kæru þessa.

Afrit kæru var sent kærða í byrjun febrúar. Óskað var eftir fresti vegna leyfis framkvæmdastjóra og var síðar  afrit ásamt gögnum sent kærða 4. mars.  Greinargerð kærða barst 21. mars og var send kæranda með bréfi dags. 29. mars.  Athugasemdir lögmanns kæranda við greinargerð kærða eru dagsettar 24. apríl s.l.

Gögn meðfylgjandi kæru eru :

1)       Afrit af gjaldskrá nr. 183 dags. 24. janúar 2002.

2)       Afrit af auglýsingu nr. 409 dags. 21. maí 2003,  um breytingu á gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit Austurlands nr. 182/2002

3)       Afrit af gjaldskrá nr. 19 dags. 4. janúar 2004 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit Austurlands.

II.

Málavöxtum lýsir lögmaður kæranda svo að kærandi stundi umfangsmiklar verkframkvæmdir við byggingu Kárahnjúkavirkjunar skv. verksamningum sem hann hafi gert við Landsvirkjun. Á hans vegum hafi starfað milli 1100 og 1200 manns að byggingu meginstíflu virkjunarinnar og gerð aðveituganga.  Við þessa framkvæmd hafi kærði, haft umfangsmikið eftirlit með öllu því sem lúti að heilbrigðiseftirliti í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998. Komi starfsmenn kærða mjög oft í eftirlitsferðir á starfsstöðvar kæranda og sé honum gerður reikningur fyrir allar vinnustundir starfsmanna kærða HAUST við það eftirlit svo og útlagðan kostnað fyrir akstur o.þ.h.  Hefði kærandi gengið út frá því að um þessi samskipti færi samkvæmt sömu reglum og gilti um önnur fyrirtæki, þannig að hvorki væri ástæða né svigrúm til að ræða um gjaldskrá eða greiðslur fyrir þjónustu kærða (HAUST) þótt umfang þjónustunnar væri tvímælalaust slíkt að í venjulegum viðskiptasamböndum hefði verið tilefni til magnafsláttar.  Það hafi því komið kæranda í opna skjöldu þegar honum hafi verið bent á að kærði (HAUST) hafi í upphafi árs 2004, tekið upp sérstakan gjaldflokk fyrir þá starfsemi sem hann stundi og að hann hafi innheimt tímagjald fyrir veitta þjónustu sem verið hafi 30% hærra en almennt hafi verið krafist af þeim sem atvinnurekstur stundi og sé skylt að þiggja eftirlit frá stofnuninni. Telji kærandi augljóst að honum og öðrum atvinnurekendum sem starfi að byggingu virkjana og stóriðjuframkvæmda, svo vitnað sé til skilgreiningar gjaldskrár kærða, sé mismunað herfilega og að krafa um hærra tímagjald á hendur þeim fyrir veitta þjónustu en öðrum atvinnurekendum sé án allrar lagaheimildar og fari í raun freklega í bága við ýmis lagaákvæði svo sem reifað verði.

Málsástæður og lagarök.  Þjónusta sú sem kærði veiti kæranda sé innt af hendi í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998.  Kærandi hafi ekkert um það að segja hvert umfang þjónustu sé heldur sé það alfarið á valdi kærða  að ákveða tíðni eftirlitsferða og úttekta.  Hafi kærði þannig sjálfdæmi um umfang viðskipta.  Heimild til gjaldtöku fyrir þessa þjónustu sé lögbundin í 2. mgr. 12. gr. tilvitnaðra laga.  Þar komi fram að sveitarfélögum sé heimilt að gefa út gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi.  Þessi heimild til gjaldtöku sé þó takmörkuð þar sem í 2. málslið 2. mgr. segi að upphæð gjaldsins skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggir á og megi gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður.  Telji kærandi augljóst að nýtt ákvæði í gjaldskrá kærða 4. janúar 2004 þar sem ákveðið sé að tímagjald fyrir vinnu í þágu tímabundinnar starfsemi tengdri stóriðju og virkjunum skuli vera kr. 8.580,- á sama tíma og vinna fyrir hefðbundna starfsemi skuli greidd með kr. 6.600 á tímann.  Álagið á fyrrgreinda flokkinn sé 30%.

Kærandi telji augljóst að engin rekstrar- eða málefnalegur grundvöllur sé fyrir þessari mismunun í gjaldskrá, sem hafi valdið því að kærandi hafi verið krafinn um verulegar fjárhæðir umfram það sem væri ef starfsemi hans tengdist ekki virkjunarframkvæmdum.  Það séu sömu starfsmenn kærða sem sinni eftirliti með þessari starfsemi kæranda og því sem nefnt sé hefðbundin starfsemi.  Verði því munur ekki réttlættur með dýrari mannskap eða sérfræðingum sem komi að starfsemi kæranda.  Þá bendir lögmaður kæranda á að sú aðgreining sem fram komi í gjaldskrá feli í sér brýnt brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þ.e. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 37/1993.  Þar komi beinlínis fram að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.  Lögmaður kæranda kveður að stór hluti af verkefnum kæranda sé gerð jarðgangna.  Fleiri geri göng á Austurlandi s.s. fyrir vegagerð og engar forsendur séu fyrir því að hafa mismunandi tímagjald við framkvæmd eftirlits með þessu tveim gerðum verkefna.  Enginn grundvöllur sé fyrir slíkum mismuni, nema sýnt sé fram á að verulegur munur sé vegna þátttöku sérhæfðra og dýrari starfsmanna í öðru verkefninu en ekki hinu.  Bendir lögmaður og á að hugsanlega hefði verið að fjarlægð frá byggð réttlætti hærri gjaldtöku vegna eftirlits en þau rök eigi eðlilega ekki við þegar borið sé saman tímagjald þar sem innheimt sé fyrir hverja greidda vinnustund.  Óhagræði af fjarlægð frá byggð komi þá beinlínis fram með hærri heildarreikningi eftirlitsaðila, svarandi til áhrifa fjarlægðar á fjölda greiddra tíma við hverja eftirlitsferð. Þá bendir lögmaður kæranda og á að hugtök sem nýtt séu til aðgreiningar í hinni kærðu gjaldskrá séu svo ónákvæm að það eitt út af fyrir sig ætti að leiða til ógildingar hins sérstaka og kærða gjaldskrárliðar.  Engin lagaleg skilgreining liggi fyrir á því hvað sé “stóriðja”, hvað þá hvað sé “tímabundin starfsemi” henni tengd.  Lögmaður kæranda bendir á að öllu virtu telji kærandi það hafið yfir vafa að kærandi hafi frá 4. janúar 2004 mismunað honum með ólögmætum hætti með því að krefja hann um hærra tímagjald vegna þjónustu starfsmanna kærða en þorra atvinnurekenda á svæðinu sé gert að greiða fyrir hliðstæða þjónustu á þann veg að í bága fari við tilvitnað ákvæði 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 12. gr. laga nr. 7/1998.  Á því byggist krafa kæranda.  Eins og fyrr greinir var greinargerð kærða send lögmanni kæranda og eru athugasemdir hans dags. 24. apríl 2006.  Kveður lögmaður kæranda að í hinum umfangsmiklu greinargerðum kærða sé leitast við að réttlæta mismunun á tímagjöldum kærða gagnvart kæranda og ótilteknum fjölda annarra fyrirtækja með eftirfarandi meginröksemdum:

1)          Að sveitarfélög hafi fullt frelsi til að ákveða mismunandi niðurgreiðslur á raunkostnaði við eftirlit og því fullt frelsi til að mismuna fyrirtækjum eftir pólitískum áherslum hverju sinni.

2)          Að ekki njóti við svonefndra “íbúaframlaga” sveitarfélaganna vegna eftirlits með tímabundinni starfsemi á hálendinu.

3)          Að gjaldskrá kærða hafi verið sett með lögformlegum hætti og að hvorki hafi borist athugasemdir frá umsagnaraðila né kæranda.

4)          Að útreikningur og innheimta eftirlitsgjalda sé í samræmi við gjaldskrá.

5)          Að eftirlitsgjöld séu ekki umfram raunverulegan kostnað.

Lögmaður kæranda kveðst hafa athugasemdir við allt framantalið og telji ekkert í greinargerðum kærða réttlæta þá grófu mismunun sem felist í hinni kærðu gjaldskrá.  Sveitarfélög séu bundin af jafnræðisreglu stjórnsýslulaga 11. gr. og sé með öllu óheimilt að láta sambærilega starfsemi greiða mismunandi þjónustugjöld að geðþótta hverju sinni.  Breyti umfangsmikil tilskrif kærða engu um það.

Rök kærða fyrir innheimtu hærra tímagjalds af “tímabundinni starfsemi tengdri stóriðju” virðist hafa komið fram í greinargerð kærða með gjaldskrártillögum haustið 2003 sem urðu að gjaldskrá sem birt var 4. janúar 2004.  Þetta sé rakið á bls. 5 í greinargerð kærða og séu rökin í þrem liðum :

a)        að framlag sveitarsjóða til reksturs kærða og sambærilegra stofnana nemi um 30% af kostnaði.  Þessu fylgi hugleiðingar sem sýnast eigi að færa að því rök að þessi kostnaðarþátttaka sveitarsjóða sé háð því að heilbrigðiseftirlitið létti störfum af byggingarfulltrúum.

b)        Að hagræði sé af því að láta kærða innheimta gjöld af tímabundinni starfsemi, en því fylgi kostnaður sem kærði þurfi að fá bættan.

c)        Að allmikil vinna felist í almennu eftirliti á athafnasvæðum, s.s. með fráveitum sorpi og umgengni, sem tengist framkvæmdunum almennt, þá segi :” Ekki er sanngjarnt að láta fyrirtæki í byggð eða almenning bera kostnað af þessu eftirliti heldur að dreifa kostnaðinum á þá aðila sem á svæðunum vinna”.

Niðurstaða tillöguflytjanda sé því næst orðuð þannig :  “Ekki þykir ósanngjarnt  að hver af punktunum hér að ofan kosti um 10% af hefðbundnu eftirlitsgjaldi. “

Kveður lögmaður kæranda að kærandi telji að ofangreindur grundvöllur að innheimtu sérstaks 30% hærra tímagjalds af starfsemi hans en almennt gildi fari freklega í bága við lög og hafi ekkert gildi sem efnislegur rökstuðningur af eftirgreindum ástæðum :

Ekkert liggi fyrir um það hvorki í lögum né samþykktum sveitarfélaga að framlög þeirra til kærða, svonefnd íbúaframlög undanskilji starfsemi í einhverjum nánar tilteknum hlutum sveitarfélaganna eða bindi framlagið við nánar tiltekna starfsemi.  Hugleiðingar um samhengi byggingarleyfa og heilbrigðiseftirlits eigi sér hvergi stoð annars staðar en í hugarheimi þess sem ritað hefur tilvitnaðar röksemdir fyrir tillögu að gjaldskrárhækkun kærða.  Þá sé einnig til þess að líta að á vegum kæranda séu hundruð manna með lögheimili í vinnubúðum hans á virkjunarsvæðinu og greiði þessir menn hundruð milljóna í útsvar til hlutaðeigandi sveitarfélaga á framkvæmdatímanum.  Þegar af þeirri ástæðu sé fjarstæða að líta á byggðirnar á svæðinu öðrum augum en aðra þéttbýliskjarna á starfssvæði kæranda eða að meðhöndla starfsemi þar með öðrum hætti en hliðstæða starfsemi í öðrum byggðakjörnum á Austurlandi.  Þessi liður fái ekki staðist skoðun.  Sama gildi raunar um b-liðinn.  Það að sveitarfélögum kunni að þykja hagræði af því að láta kærða annast innheimtu gjalda geti aldrei orðið lögmætur grundvöllur þess að hækka umrætt gjald.

Þá telur lögmaður kæranda að síðasti liðurinn sýnist byggja á þeim misskilningi að heilbrigðiseftirliti sé heimilt að hluta sveitarfélögin niður í landfræðilegar einingar og innheimta sérstakt eftirlitsgjald af þeim sem starfi á slíkum afmörkuðum svæðum.  Ekki verði séð á hvaða lögmætu sjónarmiðum slík ályktun sé grunduð.  Verði raunar almennt að ætla að kærða beri að annast slíkt almennt eftirlit á öllu starfssvæðinu.  Verði að ætla að það sé gert, enda kjarninn í starfsskyldum kærða.  Sé fjarstæða að mati lögmanns kæranda að unnt sé að innheimta sérstakt gjald af þeim sem starfi á einhverjum nánar afmörkuðum hlutum starfssvæðis en öðrum ekki.  Um þá ályktun að “ekki þyki ósanngjarnt að hver af punktunum hér að ofan kosti 10%” á ekki að þurfa að hafa mörg orð, svo augljóst sem það er, að enginn lögmætur grunnur er lagður að þeirri ályktun að kostnaður pr. vinnustund við starfsemi á virkjunarsvæðinu sé hærri en annars staðar á starfssvæði kærða.

Lögmaður kæranda vekur athygli á því að fram komin gögn frá kærða staðfesti að óljóst sé hvaða starfsemi falli undir þennan hækkaða gjaldskrárlið.  Virðist mega draga þá ályktun af greinargerð kæranda að í reynd hafi aðeins verið innheimt hið umdeilda “stóriðjutengda” tímagjald af starfsemi á virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka.  Þannig hafi verið innheimt lægra gjald af eftirliti með tímabundnum vinnubúðum og mötuneytum Bechtel í Reyðarfirði og sams komar starfsemi ÍSTAK hf. við gerð jarðgangna milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, meðan innheimt var hærra gjaldið af hliðstæðri starfsemi kæranda.   Telur lögmaður kæranda að fullt tilefni væri fyrir nefndina að ganga eftir því hjá kærða hvaða fyrirtæki hafi verið látin greiða skv. hinni hærri gjaldskrá og hvaða hliðstæð starfsemi hafi verið á starfssvæðinu sem hafi verið látin greiða skv. hinni lægri.

Lögmaður kæranda bendir á að kærði sýnist á einum stað í greinargerð sinni freista þess að færa að því töluleg rök að raunverulegur kostnaður á unna stund sé a.m.k. 30% hærri en svarar hinu almenna tímagjaldi útseldrar vinnu.  Þessari fullyrðingu er mótmælt, enda ekkert í lögum eða reglugerðum sem styður að sveitarfélögum sé ætlað að innheimta eftirlitsgjöld fyrir öllum kostnaði við starfsemi heilbrigðiseftirlits.  Þá er sérstök athygli vakin á því að kærði reynir hvergi í löngum greinargerðum sínum að færa fyrir því rök, hver raunkostnaður er á vinnustund þeirra starfsmanna hans sem hann selur út skv. gjaldskrá eða skýra hvernig það má vera að sá kostnaður sé mismunandi eftir því hvaða gjaldandi á í hlut.  Þögn kærða um þennan mikilvæga grundvöll kostnaðargreiningar feli í sér staðfestingu á þeim málsástæðum kæranda að mismunum í tímagjaldi eigi sér ekki efnislegan grundvöll heldur feli í sér mismunun milli fyrirtækja.

Lögmaður kæranda vekur athygli á að í umfjöllun kærða felist staðfesting á málsástæðu kæranda að hann hafi innheimt gjald fyrir allar vinnustundir vegna eftirlits með starfsemi kæranda.  Röksemdir um að umfang sé meira, skýrslugerðir flóknari o.fl. standist því ekki sem grunnur að ákvörðun um hærra tímagjald þar sem kærandi hefur sýnilega orðið að greiða allan tíma sem kærði hefur varið til eftirlits, ferða og skýrsluskrifa sbr. upplýsingar hans sjálfs.  Lögmaður kæranda mótmælir sem þýðingalausu að kærði hafi upplýst kæranda um gjaldtökuna og jafnan bent honum á möguleika á að andmæla ákvörðunum og reikningum, en engin slík andmæli hafi komið fram.  Þessi rök eru kærða haldlaus því hafi hann sem stjórnvald gefið út gjaldskrá sem ekki stóðst grundvallarreglur laga um jafnræði og efnislegan grundvöll þá verður sú gjaldskrá ekki gild við það eitt að kærandi varaði sig ekki á því strax að hann væri slíkum órétti beittur.  Lögmaður kæranda bendir á að kæranda sé fullkomlega ljóst að gjaldskrá kærða sé sett með formlega réttum hætti, um hana hafi verið fjallað af réttum aðilum og hún hafi verið birt eins og lög áskilja.  Þótt gætt hafi verið að formhlið málsins við setningu gjaldskrár breytir það engu um þá staðreynd að efnislega fær sú grófa mismunun, sem felst í sérákvæði gjaldskrárinnar um starfsemi kæranda og fáeinna annarra fyrirtækja ekki staðist.  Kærandi byggi ekki á að eitthvað hafi skort á um form ákvörðunarinnar heldur fari hið efnislega innihald í bága við lög.  Með vísan til þessa áréttar lögmaður kæranda kröfur sínar um það að ákvæði 2. gr. gjaldskrár fyrir heilbrigðis- og mengunareftirlit á Austurlandi, upphaflega frá 4. janúar 2004 um sérstakt tímagjald “fyrir tímabundna starfsemi tengda stóriðju og virkjunum” verði úrskurðað ógilt og að kærða verði gert að endurgreiða kæranda oftekin gjöld skv. því frá því að gjaldskrárákvæðið tók fyrst gildi.

III.

Svo sem fyrr kemur fram er greinargerð kærða, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, dags. 17. mars s.l.  Meðfylgjandi greinargerðinni er greinargerð frá lögmanni kærða.  Fyrst verður fjallað um greinargerð framkvæmdastjóra kærða.

Fylgiskjöl með þeirri greinargerð eru :

1)      Afrit af tilkynningu til fyrirtækja og stofnana á Austurlandi frá því í febrúar 2000.

2)      Afrit af leiðbeinandi reglum umhverfisráðherra um uppbyggingu gjaldskráa fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit.

3)      Afrit bréfs kærða frá 12. mars, 2003 vegna  málaflokka.

4)      Afrit bréfs kærða til fyrirtækja og stofnana sem kærði vinnur starfsleyfi fyrir frá því í janúar 2006.

Í upphafi greinargerðar lýsir framkvæmdastjóri kærða  markmiði kærða um þjónustu og gjaldtöku fyrir hana. Framkvæmdastjóri  lýsir því og yfir að kærði sé ekki rekið með hagnaði en stefnt sé að því að gjaldtaka standi undir rekstrarkostnaði.  Bæði gjaldskrár og fjárhagsáætlanir séu samdar af heilbrigðisnefnd.  Getur framkvæmdastjóri kærða þess að skv. bráðabigðauppgjöri fyrir árið 2005 sé rekstrarafgangur kærða um kr. sexhundruðþúsund.  Sé því augljóst að heildargjaldtaka vegna starfsemi kærða sé ekki umfram raunkostnað.  Þá víkur framkvæmdastjóri kærða að gerð gjaldskráa sem kærðar eru.  Vísað er til þess að við gerð gjaldskrár fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit Austurlands nr. 183/2002 hafi verið auk upphæðar gjalds gefin upp áætluð tíðni eftirlits í fyrirtækjaflokkum og þar miðað við eftirlit fjórða hvert ár, annað hvert ár og árlegt.  Þessi gjaldskrá hafi verið samþykkt af sveitarstjórnum á Austurlandi.  Breyting á gjaldskránni hafi verið vegna tímabundinnar starfsemi í tengslum við virkjanaframkvæmdir á Kárahnjúkasvæðinu.  Hafi þótt nauðsynlegt að tryggja með orðalagi í gjaldskránni að gjaldtaka væri heimil ef eðli starfsemi væri starfsleyfisskylt þótt um tímabundna starfsemi væri að ræða.  Í rökstuðningi kærða til sveitarstjórna og Hollustuháttaráðs kemur fram að sögn kærða að í ljós hafi komið að ekki sé unnt með núverandi flokkun í viðauka A með gjaldskrá kærða að innheimta sanngjarnt gjald af starfseminni.  Ekki sé viðunandi eða heimilt að láta aðra starfsemi standa undir kostnaði við þetta eftirlit og sé því nauðsynlegt að lagfæra gjaldskrána. Kostnaður sé meiri vegna meiri aksturskostnaðar, meiri undirbúnings vegna fundarhalda og bréfaskrifta, þörf fyrir tíðara eftirlit vegna örra mannaskipta,  og þá sé ennfremur um að ræða lengri notkunartíma vinnubúða en almennt gerist, malarnámur séu á víð og dreif og að hluta til notaðar af mismunandi aðilum.  Framkvæmdastjóri kærða gerir grein fyrir því að í gjaldskrá sé gert ráð fyrir gjaldtöku vegna starfsleyfisvinnslu fyrir endurnýjun starfsleyfa, vinnslu nýrra starfsleyfa og annarra starfsleyfa og leyfa sem ekki séu í eftirlitsáætlun t.d. tóbakssöluleyfis.  Ekki sé skýrt að unnt verði að nota þessi ákvæði í þeim tilvikum sem upp muni koma í tengslum við stórframkvæmdir, þar sem um tímabundna starfsemi sé að ræða svo sem vinnubúðir, vatnsveitur o.fl.,  Jafnvel gætu komið fram starfsleyfisumsóknir um líkamsræktarstöðvar, kvikmyndahús o.fl. á svæðinu.  Því sé nauðsynlegt að taka af öll tvímæli um að kærða sé heimilt að taka gjald sem standi undir þeim kostnaði sem sannanlega sé vegna vinnslu starfsleyfa. Þá getur kærði um að kostnaður vegna eftirlits með starfsemi tengdum stórframkvæmdum verði innheimtur af kærða en fari ekki til innheimtu hjá sveitarfélagi.  Vegna vinnsluhraða og örra mannaskipta verði um að ræða ríkari eftirlitsþarfir í samanburði við hefðbundna starfsemi. Ekki sé því svigrúm til að fella eftirlitsgjöld inn í fjárhagsáætlanir kærða og viðkomandi sveitarfélaga en vinnsla þeirra fari nú fram á tímabilinu frá ágúst til desember.  Sé áætluð tíðni eftirlits tilkynnt rekstraraðila bréflega sem og áætlaður kostnaður.

Framkvæmdastjóri kærða bendir á að seint á árinu 2003 hafi verið orðið ljóst að umsvif við virkjanaframkvæmdir hafi orðið mun umfangsmeiri en fyrirsjáanlegt hafði verið og þá hafi ennfremur verið farið að kalla til funda vegna undirbúnings framkvæmda á álverslóð.  Hafi hraði framkvæmda verið meiri en nokkurn hafði órað fyrir og dæmi um að starfsmannabúðir risu, væru rifnar, seldar og reistar á öðrum stað innan fjögurra mánaða.  Framkvæmdastjóri kærða bendir á að starfsmenn og heilbrigðisnefnd hafi lagt sig fram um að ná góðu samstarfi við verktaka og að upplýsa um hlutverk og eðli starfa kærða.  Hafi upplýsingar verið sendar til verktaka um leið og þeirra hafi orðið vart.  Kveður framkvæmdastjóri kærða að meginbreytingar sem óskað hafi verið eftir í nýrri gjaldskrá fyrir árið 2004 og varði gjöld fyrir tímabundna starfsemi séu að  á virkjanasvæði gildi sérlög sem feli í sér að starfsemi byggingarnefndar nái eingöngu til skipulagsmála.  Allmikil viðbótarvinna falli á kærða vegna fundahalda og kynninga með verktökum og að ganga eftir og yfirfara teikningar, koma ábendingum á framfæri og sinna eftirfylgni.  Þetta sé viðbótarvinna fyrir kærða.  Ennfremur sé mikil vinna fólgin í almennu eftirliti á athafnasvæðum, þ.e. eftirliti með fráveitum, sorpi og umgengni, sem ekki tengist einum verktaka frekar en öðrum, heldur framkvæmdum almennt.  Ekki sé sanngjarnt að láta fyrirtæki í byggð eða almenning bera kostnað af þessu eftirliti. Þá þyki liprara að innheimta gjalda sé á könnu kærða. Ekki þyki ósanngjarnt að hvert af þessum atriðum séu metið á 10% af hefðbundu eftirlitsgjaldi.  Hollustuháttaráð hafi gefið umsögn um tillöguna og þar komi fram að ráðið telji að gjaldskráin sé að mati þess í samræmi við ákvæði 12. gr. l. nr. 7/1998 og ennfremur að rekja megi tillögu um hækkun v. starfsemi tengdri stóriðju og virkjunum til þess að á virkjunarsvæði gildi sérlög sem feli í sér að starfsemi bygginganefnda nái eingöngu til skipulagsmála og því falli allmikil viðbótarvinna á kærða.

Um breytingu á gjaldskrá nr. 19/2004 kemur fram hjá framkvæmdastjóra kærða að almennar hækkanir verðlags og launa hafi haft í för með sér að kærði hafi þurft að hækka gjaldskrá sem í gildi hafði verið árin 2004 og 2005 til að geta sett saman rekstrar- og fjárhagsáætlun fyrir árið 2006, án taps.  Á fundi heilbrigðisnefndar í september 2005 hafi verið fjallað um drög að endurskoðaðri gjaldskrá ásamt drögum að fjárhagsáætlun fyrir árið 2006.  Komi þar fram í bókun að staðan um mitt ár 2005 virðist nokkuð góð miðað við áætlun.  Tillaga um fjárhagsáætlun hafi verið  lögð fram miðað við mismikla hækkun á gjaldskrá.  Framkvæmdastjóra kærða hafi verið falið að fara yfir áætlun á ný og endurskoða hana með það að markmiði að hækkun um 10% dekki fjárþörf ársins 2006.

Framkvæmdastjóri kærða kveður að allar gjaldskrár kærða og breytingar hafi verið auglýstar eins og vera ber.   Þá kveður framkvæmdastjóri kærða að við úgáfu starfsleyfa sendi kærði starfsleyfishöfum ætið upplýsingar um flokkun starfseminnar í samræmi við gildandi gjaldskrá, áætlaða tíðni eftirlitsheimsókna og upphæð gjalds.  Aðilum sé boðið að gera athugasemdir.

Þá svarar framkvæmdastjóri kærða framkomnum atriðum í bréfi kæranda.

A. Umfang þjónustu.  Vísar framkvæmdastjóri kærða því á bug að kærði hafi það alfarið á valdi sínu að ákveða tíðni eftirlitsferða og úttekta og að fyrirtæki hafi ekkert um umgangið að segja.  Vísar kærði til reglugerða nr. 941/2002, 786/1999, laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og fleira um starfsemi sína.

B. Gerð jarðgangna. Jarðgangnagerð sé ekki sérstaklega á könnu kærða, nema hvað varðar eftirlit með starfsmannabúðum, mötuneytum o. fl.

C. Innheimt fyrir hverja vinnustund.  Kveður framkvæmdastjóri kærða að reglubundið eftirlit með starfsleyfisskyldri starfsemi sé gjaldtekið í samræmi við gjaldskrá.  Tími í undirbúning, viðveru og úrvinnslu sé sá sami á virkjanasvæði og fyrir hefðbundna starfsemi.  Einungis akstur sé frábrugðinn.  Á sama hátt og fyrir hefðbundna atvinnustarfsemi sé ekki tekið sérstakt gjald fyrir vinnu við umsagnir um teikningar, leiðbeiningagjöf vegna starfsreglna, fundi með verktökum og starfsleyfishöfum o.fl. heldur sé tími sem í þesa vinnu fari innifalinn í 30% hærra gjaldi en fyrir hefðbundna starfsemi sé greitt með íbúaframlögum sveitarfélaga.  Á sama hátt og fyrir hefðbundna starfsemi sé vinna kærða sem ekki tengist starfsleyfisskyldri starfsemi, vinna vegna eftirfylgniferða í kjölfar brota á starfsleyfum eða reglugerðum, vinna vegna rökstuddra kvartana sem kalli á bréfaskriftir eða aðgerðir o.þ.h. gjaldtekin skv. tímagjaldi.  Sama gildi um vinnu við sýnatökur sem ekki séu inni í eftirlits og sýnatökuáætlun, t.d. sýnatökur af neysluvatni ef gæði í reglubundnu sýni reynast ekki standast ákvæði neysluvatnsreglugerðar.  Um þetta vísar framkvæmdastjóri kærða til heimildar í 5. gr. gjaldskrár kærða.

D.  Um ónákvæmni hugtaka “stóriðja” og “tímabundið”. Um þetta vísar framkvæmdastjóri kærða til gjaldskrár þar sem rætt sé um tímagjald fyrir tímabundna starfsemi tengda stóriðju og virkjunum.  Vísar framkvæmdastjóri og til rökstuðnings kærða fyrir 30% hærra gjaldi við eftirlitsstarfsemi tengdri stóriðju og virkjunum, en þar komi fram að á virkjanasvæði gildi sérlög sem feli í sér að starfsemi bygginganefnda nái eingöngu til skipulagsmála.  Þannig ætti að mati framkvæmdastjóra ekki að fara milli mála hvaða svæði átt sé við í tilfelli kæranda sem vinni alfarið innan skilgreinds virkjanasvæðis þar sem sérlög gildi.

Í lokin dregur framkvæmdastjóri kærða saman svörin :

1.  Kærði hafi í hvívetna farið að lögmætum leiðum við setningu og auglýsingu gjaldskráa.

2.  Kærði hafni því að gjaldskrár uppbygging þeirra og hvað í gjaldinu felist hafi ekki verið kynnt kæranda eða öðrum starfsleyfishöfum rækilega og þeim gefinn kostur á að koma að andmælum, bæði hvað varði flokkun starfsemi og tíðni eftirlits sem ráði upphæð eftirlitsgjalds.

3.  Rök fyrir 30% hærra tímagjaldi vegna tímabundinnar starfsemi í tengslum við stóriðju og virkjanir hafi verið færð fram til réttra aðila.  Þar til bærir umsagnaraðilar hafi ekki gert athugasemdir og þannig samþykkt gjaldskrárdrögin.

Í greinargerð lögmanns kærða koma fram lagasjónarmið varðandi gjaldskrár kærða.  Um heimildir til gjaldtöku vísar lögmaður til 3. mgr. 12. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Þannig hafi kærði sett gjaldskrá um heilbrigðiseftirlit á starfssvæði sínu og hafi að öllu leyti verið staðið rétt að setningu gjaldskráa.  Vísar lögmaður og til þess grundvallarsjónarmiðs sem gildi um innheimtu þjónustugjalda að ekki megi innheimta hærri gjöld en sem nemi rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu.  Heilbrigðiseftirlit sé hluti af starfsemi sveitarfélaga og verði við skoðun á starfsemi þeirra að horfa til grundvallarreglna sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  í 4. mgr. 7. gr. laganna komi fram meginregla um fjárstjórnarvald sveitarfélaga.  Kveður lögmaðurinn að í samræmi við heimild til töku þjónustugjalda skv. l. nr. 7/1998 og ákvæðum laga um fjárstjórnarvald sveitarfélaga sé það valkvætt fyrir sveitarfélög að hvaða leiti þau greiði niður heilbrigðiseftirlit með almennum skatttekjum og að hvaða leiti þau innheimti þjónustugjöld fyrir einstaka þætti heilbrigðiseftirlits.  Ákvörðun um slíkt sé í raun pólitísk og byggi jafnframt á grundvallarreglum um sjálfstjórnarvald sveitarfélaga sbr. 78. gr. stjórnarskrár.  Í samræmi við sjálfstjórnarvald sveitarfélaga hafi kærði verulegt forræði á því hvernig gjaldskrá sé byggð upp s.s. varðandi flokkun eftirlitsskyldrar starfsemi, uppbyggingu greiðslna o.fl.  Kærði hafi þessar heimildir en hafi jafnframt nýtt sér að byggja upp gjaldskrána í samræmi við leiðbeinandi reglur umhverfisráðuneytis enda ótvíræðir kostir því samfara að uppbygging gjaldskrár sé samræmd milli eftirlitssvæða.  Kærða sé rekið sem byggðasamlag sveitarfélaga á Austurlandi.  Hafi það verið rekið þannig að hluti tekna komi af þjónustugjöldum og hluti með beinum fjárframlögum aðildarsveitarfélaga af almennum skatttekjum þeirra í hlutfalli við íbúafjölda hvers sveitarfélags.  Skipting eftir íbúafjölda byggi væntanlega m.a. á þeim líkindum að eftirlitsskyld starfsemi nýtist íbúum aðildarsveitarfélaga með nokkuð jöfnum hætti og því sé eðlilegt að öll aðildarsveitarfélög leggi almennt skattfé fram við rekstur kærða eftir þeim hlutföllum. Hlutfall þess hvernig kostnaður af einstökum eftirlitsþáttum sé greiddur með þjónustugjöldum og hins vegar almennum skatttekjum sé mismunandi.  Með vísan til sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga og afleidds fjárstjórnarvalds sé sú skipan fyllilega lögmæt.  Hlutfall geti t.d. ráðist af möguleikum á innheimtu þjónustugjalds af einstökum tegundum starfsemi, áhrifa starfsemi á íbúa og pólitískum vilja til niðurgreiðslu á raunkostnaði við eftirlit s.s. með hliðsjón af því hvernig hin eftirlitsskylda starfsemi nýtist íbúum sveitarfélaga.  Vísar lögmaður kærða til þess að eins og fram komi í greinargerð kærða hafi eftirlitið staðið frammi fyrir umfangsmikilli aukningu á heilbrigðiseftirliti vegna tímabundinna stórframkvæmda á Austurlandi.  Hafi sú starfsemi lotið öðrum lögmálum varðandi áhrif á einstök sveitarfélög og þar með íbúa þeirra, enda í raun bundin við þrjú sveitarfélög á starfssvæði kærða.  Með hliðsjón af heimildum skv. sjálfsstjórnarrétti og fjárstjórnarvaldi sveitarfélaga hafi verið ákveðið að haga gjaldskrá kærða þannig að viðkomandi starfsemi greiddi því sem næst raunkostnaði við eftirlitsstarfsemina, þó án þess að innheimt yrðu hærri þjónustugjöld vegna viðkomandi eftirlitsþátta, en kostnaður af eftirliti væri.  Sú skipan sé fyllilega lögmæt.

Lögmaður kærða víkur þá að málsástæðum kæranda.

Um þá ástæðu að kærði hafi sjálfdæmi um umfang sé það rangt og vísast til laga og reglugerða þar að lútandi auk þess sem lögmaður tekur fram að kærði verði að taka mið af meðalhófsreglum varðandi tíðni og umfang eftirlits. Lögmaður kærða vísar til þess að kæra sé engum rökum studd varðandi óeðlilega eftirlitsstarfsemi á vegum kærða.  Vísar lögmaður til þess að við rekstur opinberrar starfsemi hafi reglur um töku þjónustugjalda það í för með sér að ekki sé heimilt að innheimta hærri gjöld en sem nemi raunkostnaði.

Lögmaður kærða bendir á að í kæru sé vísað til reglna um að þjónustugjald sem innheimt sé af eftirliti megi ekki vera hærra en kostnaður af eftirliti með viðkomandi starfsemi.  Kærandi byggi hins vegar ekki á því að umræddar reglur séu brotnar.  Lögmaður kveður upplýst að innheimta þjónustugjalda af þeim eftirlitsþætti sem kæra snerti, sé ekki umfram kostnað af þeirri eftirlitsstarfsemi.  Grundvallarskilyrði um innheimtu þjónustugjalds sé því uppfyllt.

Lögmaður kærða bendir á að kærandi telji gjaldskrá kærða fela í sér brot á jafnræðisreglu.  Kveður lögmaður að kjarni í þeirri málsástæðu virðist vera að enginn rekstarlegur og málefnalegur mismunur sé á því eftirliti sem falli undir liðinn tímabundin starfsemi í tengslum við stóriðju og hefðbundna starfsemi.  Sé og byggt á því að flokkun eftirlitsskyldrar starfsemi sé óljós og sambærileg eftirlitsstarfsemi geti fallið undir mismunandi eftirlitsflokka.  Þessu sé mótmælt.  Lögmaður vísar til umfjöllunar um sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga og bendir á að heimildir til að byggja upp gjaldskrá séu vissulega takmarkaðar af jafnræðisreglum, þannig að málefnaleg sjónarmið þurfi að liggja að baki gjaldskrárflokkum fyrir mismunandi eftirlitsstarfsemi.  Kveður lögmaður að lagareglur um fjárstjórnarvald feli í sér málefnalegar ástæður til þess að greiða misjafnlega niður einstaka flokka eftirlitsstarfsemi, enda sé sú grundvallarregla virt að innheimt þjónustugjöld af einni tegund eftirlitsstarfsemi verði ekki umfram kostnað við eftirlitið.  Séu þær grundvallarreglur virtar.  Bendir lögmaður á að í greinargerð kærða sé ítarlega fjallað um uppbyggingu gjaldskráa kærða.  Þar komi fram hvernig eftirlitskostnaður með ákveðinni starfsemi sé metinn út frá meðaltíma við eftirlit.  Við upphaf framkvæmda hafi kærði orðið þess var að kostnaður við eftirlit með tímabundinni stóriðjustarfsemi hafi verið mun hærri en numið hafi innheimtum þjónustugjöldum. Hafi því sú staða verið fyrirsjáanleg að tekjur af annarri starfsemi þ.e. þjónustugjöld og framlög sveitarfélaga af almennu skattfé færu í að greiða niður eftirlitið.  Kveður lögmaður kærða að í því sambandi beri að hafa í huga að við svo mikla aukningu eftirlitsstarfsemi deilist fastur kostnaður kærða út á fleiri eftirlitstilvik, þannig að kostnaður af öllu eftirliti lækki.  Við þessar aðstæður hafi verið nauðsynlegt að endurskoða gjaldskrá kærða, svo ekki kæmi til þeirrar ólögmætu stöðu að þjónustugjöld á einstökum eftirlitsþáttum rynnu í að greiða niður eftirlit vegna tímabundinnar starfsemi vegna stóriðjuframkvæmda.  Bendir lögmaður á að gjaldskrár heilbrigðiseftirlits feli í sér gjaldtöku fyrir ákveðna eftirlitsstarfsemi.  Því sé það mismunandi tegund og eðli eftirlitsstarfseminnar sem feli í sér málefnalegar heimildir til að innheimta mismunandi eftirlitsgjöld.  Eðli eftirlitsstarfsemi á virkjanasvæði og öðru stóriðjusvæði sé frábrugðið eðli eftirlitsstarfsemi á öðrum svæðum, jafnvel þó viðkomandi starfsemi gæti verið sambærileg.  Málefnaleg flokkun gjaldskrár kærða þurfi hins vegar að byggjast á eðli eftirlitsstarfseminnar og kostnaði við hana, en ekki einungis tegund starfsemi.  Munur á eftirliti á stóriðjutengdri starfsemi byggir á því að eftirlitsstarfsemi heilbrigðiseftirlits nái til verkefna sem séu annars staðar aðliggjandi starfssviði byggingarfulltrúa sveitarfélaga.  Á stóriðjusvæðum nái hlutverk bygginganefndar fyrst og fremst til skipulagsmála þ.e. hlutverk byggingarfulltrúa sé bundið við það.  Afmörkun á því hvort starfsemi falli undir gjaldflokk gjaldskrár kærða um tímabundna starfsemi vegna stóriðju byggi því á landfræðilegri afmörkun á skilgreindum stóriðju- og /eða virkjanasvæðum.  Sé því afmörkun skýr, einföld og ótvíræð á grundvelli málefnalegra sjónarmiða.  Útskýrir svo lögmaður mismun á eðli og umfangi heilbrigðiseftirlits á þessum svæðum og öðrum, en kærði gerði grein fyrir því í greinargerð sinni. Kveður lögmaður kærða að í samræmi við þessa umfjöllun sé ljóst að skipting gjaldskrárflokka í gjaldskrá kærða sé byggð á málefnalegum sjónarmiðum vegna mismunandi eftirlitsstarfsemi kærða á þeim svæðum sem framkvæmdaleyfi hafa verið gefin út og á öðrum svæðum. Byggi gjaldskrá kærða á því að sami fjöldi tímaeininga sé lagður til grundvallar við innheimtu þjónustugjalda af hverri tegund starfsemi á almennu starfssvæði kærða og þar sem fram fari tímabundin starfsemi vegna stóriðju á svæðum sem falla undir framkvæmdaleyfi.  Kostnaður bak við hverja tímaeiningu þjónustugjalds sé hins vegar hærri þar sem raunverulega liggi fleiri vinnustundir bak við hvern tíma auk annars sérstaks kostnaðar sem bundinn sé við eftirlit á svæðum þar sem fram fari tímabundin starfsemi vegna stóriðju.  Gjaldskrá kærða lúti að gjaldtöku fyrir ákveðna tegund heilbrigðiseftirlits en sé ekki bundin við útselda tíma einstakra starfsmanna.  Uppbygging gjaldskrár m.v. tímagjald sé því til skýringar og til að auka gegnsæi gjaldskrár, en sé ekki með neinu móti lögbundin leið sem takmarki heimildir til að innheimta þjónustugjöld fyrir raunkostnað þjónustu. Sé því framsetning í gjaldskrá fyllilega lögmæt enda sé grundvallarreglum um þjónustugjöld fylgt um að innheimta ekki hærri gjöld en raunkostnaður er af viðkomandi þjónustu. Enn bendi lögmaður kærða á að eðli eftirlitsstarfsemi og kostnaður við hana ráði heimildum til að innheimta mismunandi þjónustugjöld.   Eðli eftirlitsstarfsemi á svæðum sem tengd eru framkvæmdaleyfum fyrir stóriðjutengda starfsemi sé annað en á öðrum svæðum.  Því séu gjaldskrárákvæði kærða  fyllilega í samræmi við reglur um þjónustugjöld og jafnræðisreglur.

Ítrekar lögmaður kærða að lokum að tilhögun á innheimtu gjalda kærða sé fyllilega í samræmi við reglur um innheimtu þjónustugjalda

IV.

Ágreiningur máls þessa snýst um sérstakan  gjaldskrárlið í gjaldskrá kærða fyrir tímabundna starfsemi tengda stóriðju og virkjunum.  Tímagjald við gjaldskylt eftirlit er 30% hærra fyrir tímabundna starfsemi tengda stóriðju og virkjunum heldur en gjald fyrir hefðbundna starfsemi.  Krefst lögmaður kæranda ógildingar á umræddu ákvæði og endurgreiðslu á þeim gjöldum sem hann hefur greitt á grundvelli þessa ákvæðis.  Í gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit Austurlands nr. 183/2002 kemur fram að tímagjald sé kr. 5.600,-.  Í hliðstæðri gjaldskrá nr. 19/2004 kemur fram að tímagjald fyrir hefðbundna starfsemi sé kr. 6.000,- en komið er þar inn nýtt tímagjald kr. 7.800,- fyrir tímabundna starfsemi tengda stóriðju og virkjunum. Kærða er heimilt að setja mismunandi gjald eftir atvinnugreinum sbr.     Í gjaldtöku verður að gæta að jafnræðisreglum stjórnsýslulaga.  Með gjaldskrá nr. 19/2004 og beitingu hennar með hærra tímagjaldi fyrir tímabundna starfsemi tengdri stóriðju og virkjunum er brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.  Er því fallist á það með kærða að gjaldskráin brjóti gegn jafnræðisreglu í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Ekki er á valdsviði nefndarinnar að ógilda ákvæði í gjaldskrá.  Ekki er heldur á valdsviði nefndarinnar að úrskurða um endurgreiðslu til kæranda á gjöldum þeim sem tekin hafa verið skv. gjaldskrá nr. 19/2004.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á með kæranda að ákvæði í gjaldskrá um hærra gjald fyrir “tímabundna starfsemi tengda stóriðju og virkjunum” brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, enda sé gert ráð fyrir að ferðatími starfsmanna sé innheimtur skv. tímagjaldi.  Vísað er frá kröfum kæranda um ógildingu ákvæðisins, svo og kröfu um endurgreiðslu og ákvörðun kostnaðar vegna vinnu við að hafa kæruna uppi.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                                     Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 8/11/06

4/2006 Úrskurður vegna kæru Eggerts Kristjánssonar hf. gegn Umhverfissviði Reykjavíkurborgar.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2006    föstudaginn    30.  júní, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7 í Reykjavík.    Mætt voru  Guðrún Helga Brynleifsdóttir Gísli Gíslason og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2006  Eggert Kristjánsson hf., Sundagörðum 4, Reykjavík, hér eftir nefnt kærandi  gegn Umhverfissviði Reykjavíkurborgar, Skúlagötu 19, Reykjavík, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður :

I.

Stjórnsýslukæra Einars Arnar Davíðssonar hdl. f.h. kæranda er dags. 28. febrúar, 2006. Kærð er ákvörðun kærða dags. 29 nóvember 2005 um innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum.  Kærandi gerir eftirfarandi kröfur :

1.       Að ákvörðun kærða dags. 29. nóvember 2005 um innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum verði felld úr gildi eða ógilt.

2.       Að sú ákvörðun kærða að tilkynna fjölmiðlum um innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum grandvís um tilkynningu kæranda til fjölmiðla þessa efnis verði metin ólögmæt.

3.       Að í niðurstöðu Úrskurðarnefndar hollustuhátta- og mengunarmála verði kærða gert að greiða kostnað við að hafa kæruna uppi.

Afrit af stjórnsýslukæru og meðfylgjandi gögnum var sent kærða með bréfi dags. 13. mars, 2005 og barst greinargerð kærða hinn 2. apríl s.l..   Afrit greinargerðar var sent lögmanni kæranda sem skilaði athugasemdum með bréfi dags.   16. maí 2006.

Gögn meðfylgjandi kæru eru :

1)       Afrit af flæðiriti fyrir baunir, HACCP OERLEMANS FOOD.

2)       Afrit af skýrslu,  heimsókn vegna kvörtunar dags. 24.11. 2005.

3)       Afrit af rafpósti kærða, dreifingarbann og innköllun á Hátíðarblöndu frá Íslensku meðlæti hf. dags. 24. nóvember 2005.

4)       Rafpóstur kæranda, dreifingarbann og innköllun á Hátíðarblöndu frá Íslensku meðlæti hf. dags. 25. nóvember2005.

5)       Afrit af minnisblaði starfsmanns kærða.  Símtal við Svanhildi Árnadóttur starfsmann kæranda dags. 29. nóvember, 2005

6)       Afrit af minnisblaði starfsmanns kærða.  Innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum dags. 29. nóvember2005.

7)       Afrit af ákvörðun kærða.  Innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum, dags. 29. nóvember 2005.

8)       Afrit af framlögðum gögnum á fundi aðila 29. nóvember kl. 14:00.

9)       Afrit af fréttatilkynningu kæranda dags. 29. nóvember 2005 kl. 17:34.

10)   Afrit af myndsendisbréfi.  Tilkynning kæranda til kærða dags. 29.11.2005 og afrit rafpósts sama efnis.

11)   Afrit af erindi kærða.  Beiðni um upplýsingar og vottun á förgun á Euromixi, dags. 30. nóvember 2005.

12)   Afrit af frétt á fréttavef mbl.is dags. 30. nóvember 2005.

13)   Afrit af frétt á fréttavef ruv.is dags. 30. nóvember 2005.

14)   Afrit af athugasemdum vegna innköllunar á hátíðarblöndu frá neytendum og krafa um rökstuðning, dags. 13. desember 2005.

15)   Afrit af ítrekun um rökstuðning dags. 3. janúar 2006.

16)   Afrit af ítrekun á kröfu um rökstuðning og krafa um upplýsingar dags. 11. janúar 2006.

17)   Afrit af rökstuðningi kærða dags. 26. janúar, 2006.

II.

Lögmaður kæranda greinir frá því að fyrirtækið Eggert Kristjánsson hf. kærandi í málinu hafi verið stofnað 4. maí 1922 af Eggert Kristjánssyni og fjölskyldu hans.  Megintilgangur fyrirtækisins hafi alla tíð verið innflutningur matvöru.  Í dag selji fyrirtækið og dreifi matvöru og hreinlætisvöru til matvöruverslana, veitingastaða og mötuneyta.  Fyrirtækið hafi tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina og megi þar nefna að innflutningur á ferskum ávöxtum og grænmeti hafi um tíma verið umtalsverður þáttur í starfseminni, auk þess að fyrirtækið hefur átt og rekið innlend framleiðslufyrirtæki.  Þá lýsir lögmaður kæranda núverandi eigendum fyrirtækisins.  Hann bendir á að meðal þess sem kærandi hafi flutt inn til landsins og selt, sé frosið grænmeti frá hollenska framleiðandanum Oerlemans Food B.V., sem talið sé eitt af virtustu fyrirtækjum á sínu sviði og framleiði árlega u.þ.b. 120 þúsund tonn af frosnu grænmeti.  Fyrirtæki þetta sé með allar bestu vottanir sem unnt sé að fá fyrir slíkan iðnað.  Eftir heimsóknir kæranda til þessa framleiðanda og annarra sambærilegra fyrirtækja þar sem gæðaeftirlit í framleiðslu hafi verið sérstaklega skoðað hafi kærandi komist að þeirri niðurstöðu að gæðaeftirlit framleiðandans sé með því besta sem þekkist.  Kærandi telji óhætt að fullyrða að framleiðandi þessi teljist í það minnsta til þriggja bestu fyrirtækja í Evrópu þegar að því komi að fjarlægja aðskotahluti úr framleiðslu.  Meðfylgjandi, fylgiskjal nr. 1, sé flæðirit fyrir baunir þar sem meðal annars er sérstaklega merkt inn á hvar aðskotahlutir eru kannaðir og fjarlægðir.

Lögmaður kæranda kveður að hinn 24. nóvember 2005 hafi kærða borist kvörtun neytanda vegna aðskotahlutar í blöndu af frosnu grænmeti frá Hollandi svonefndri Hátíðarblöndu sem kærandi flytji inn og dreifi.  Hafi kærði heimsótt kæranda vegna kvörtunarinnar og hafi kærandi brugðist við með því að sýna kærða fram á hvert pakkaðri Hátíðarblöndu hafði þegar verið dreift, stöðvaði sölu á vörunni og innkallaði Hátíðarblöndu úr verslunum í samráði við kærða.  Þá hafi jafnframt í samráði við kærða verið ákveðið að innkallaðri vöru ásamt vöru sem til hafi verið á lager kæranda yrði fargað í viðurvist heilbrigðisfulltrúa.  Þennan sama dag kl. 16:31 hafi kærði sent rafpóst til kæranda þar sem tilkynnt var að kærði hygðist þann 25. nóvember senda kæranda formlega afgreiðslu málsins, sbr. fylgiskjal nr. 3.  Kærandi hafi svarað með rafpósti  25. nóvember og tilkynnt að innköllun væri að mestu lokið, aðeins ætti eftir að sækja vörur í tvær verslanir á Akranesi.  Hafi kærandi tekið fram í bréfi sínu að hann gerði ekki athugasemdir við innihald bréfs kærða þar sem aðilar höfðu í raun sameiginlega ákveðið að innkalla vöru úr búðum sbr. orðalag á kvörtunarskjali kærða sbr., fylgiskjal nr. 2 og orðalag formlegrar afgreiðslu kærða þar sem segir að dreifing pökkunarlotu skal stöðvuð og vara innkölluð af markaði, sbr. fylgiskjal nr. 3.

Mánudaginn 28. nóvember hafi kærandi sent kærða tilkynningar um gang mála.  Innkallaðri vöru hafði verið eytt í viðurvist fulltrúa kærða.  Þar sem aðilar höfðu haft samstarf um afgreiðslu málsins taldi kærandi sig hafa gert allt sem kærði krafðist af honum enda hafði kærandi stöðvað dreifingu á vörunni, innkallað hana úr búðum og eytt henni.  Eina sem eftir hafi staðið hafi verið að afla umbeðinna upplýsinga frá hollenska framleiðandanum.  Fyrir hádegi þriðjudaginn 29. nóvember 5 dögum eftir að aðskotahlutarins hafði orðið vart, hafi starfsmaður kærða hringt á skrifstofu kæranda og tilkynnt að kærði hefði ákveðið að varan yrði kölluð af markaði og að best væri fyrir kæranda að gera það sjálfur.  Hafi kæranda verið gefinn frestur til hádegis sama dag, sbr. fylgiskjal nr. 5.  Skömmu síðar sama dag hringdi starfsmaður kæranda í kærða og mómælti frekari aðgerðum af hálfu kærða.  Hafi starfsmaðurinn m.a. vísað til þess að aðilar hefðu í fullu samráði stöðvað dreifingu vörunnar og innkallað vöruna úr búðum eins og kærði hefði farið fram á við kæranda.  Starfsmaður kæranda hafi og bent á að umbeðnar upplýsingar frá hollenska framleiðandanum hefðu þegar borist og styddu þær enn frekar sjónarmið kæranda um að neytendum stafaði engin hætta af vörunni.  Starfsmaður kæranda fór formlega fram á fund með starfsmönnum kærða.  Með símtali starfsmanns kæranda við sviðsstjóra kærða var fundur aðila ákveðinn sama dag kl. 14:00 á skrifstofu kærða.

Á fundi þessum hafi kærði tilkynnt um þá ákvörðun sína að innkalla Hátíðarblöndu af markaði og frá neytendum með auglýsingu í fjölmiðlum, sbr. fylgiskjal nr. 7.  Hafi kærandi farið fram á að sú ákvörðun yrði endurskoðuð m.a. með tilvísun til þess hve alvarlegar afleiðngar slík tilkynning hefði fyrir vörumerki kæranda og hve litlir möguleikar væru á að einhver hluti vörunnar væri enn hjá neytendum.  Hafi kærandi lagt fram gögn máli sínu til stuðnings, þar sem fram hafi komið  að tölfræðilegar líkur á því að aðrir aðskotahlutir úr lotunúmeri því sem um var að ræða væru í höndum íslenskra neytenda væru hverfandi.  Kærandi hafði ekki afhent kærða umrædd gögn þegar kærði tók ákvörðun um innköllun frá neytendum og tilkynningu til fjölmiðla.  Kærandi benti á að gögnin skiptu verulegu máli við ákvarðanatöku kærða.  Án þess að ráða ráðum sínum upplýsti kærði að nýframkomin gögn væru aðeins til þess að styrkja þegar tekna ákvörðun.  Kærandi ítrekaði óskir sínar um endurskoðun þegar tekinnar ákvörðunar í ljósi nýrra upplýsinga, án árangurs. Á fundinum hafi kærði farið fram á að kærandi sendi fjölmiðlum tilkynningu um innköllun og fékk kæranda af því tilefni upplýsingar um innihald slíkrar tilkynningar og hvert beina ætti slíkri tilkynningu.

Kærandi sá sér ekki annað fært en að fara að skipunum kærða og til þess að takmarka mögulegt tjón sitt sendi kærandi síðar þann sama dag tilkynningu um innköllun til þeirra fjölmiðla sem kærði hafði tiltekið og innihélt tilkynningin þau efnisatriði sem kærði hafði tiltekið á fundi aðila fyrr um daginn. Kærða var tilkynnt um fréttatilkynningu  á sama tíma.  Þann 30. nóvember óskaði kærði eftir frekari upplýsingum um lotunúmer þeirrar sendingar sem aðskotahluturinn hafði verið í, EUROMIX blöndu með lotunúmerið 05052808.  Þeirra upplýsinga var aflað og þær sendar kærða.

Þrátt fyrir að kærandi hefði farið að kröfum kærða og tilkynnt innköllun vöru til þeirra fjölmiðla sem kærði hafði tilgreint og tilkynnt kærða um tilkynningar til fjölmiðla sá kærði ástæðu til þess að senda sjálfur sérstaka tilkynningu til fjölmiðla.  Vegna sérstakrar tilkynningar kærða birtust fréttir af innköllun á helstu fréttastöðvum landsins þar á meðal á fréttavef mbl og rúv.

Með bréfi dags. 13. desember 2005 gerði kærandi athugsemd við innköllun kærða á Hátíðarblöndu frá neytendum og krafðist með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rökstuðnings fyrir ákvörðuninni sbr. fylgiskjal nr. 14.  Krafa um rökstuðning var ítrekuð 3. janúar og aftur 11. janúar 2006.  Í athugasemdum við innköllun og kröfu um rökstuðning þann 13. desember 2005 vísaði kærandi til þess að ákvæði 26. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 sem kærði vísaði til í ákvörðun sinni um innköllun, fæli ekki í sér heimild til innköllunar vöru af markaði.  26. gr. heimilaði kærða að beita eftirfarandi aðgerðum:

1.      veita áminningu

2.      veita áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta

3.      stöðva eða takmarka viðkomandi starfsemi eða notkun þar með leggja hald á vörur og fyrirskipa förgun þeirra.

Fór kærandi fram á tilvísun til lagaheimilda fyrir heimild til innköllunar.  Kærandi fór þess á leit að kærði upplýsti um forsendur fyrir ákvörðun um innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum og þau gögn sem höfð hefðu verið til hliðsjónar við ákvörðun um innköllun á vörunni frá neytendum.  Einnig var farið fram á afrit þeirra gagna.  Kærandi fór fram á að kærði upplýsti um ný gögn sem kvæðu á um hraða og íþyngjandi ákvörðun. Það er að segja hvaða þættir, ný gögn eða nýjar upplýsingar í málinu sem ekki voru fyrir hendi dagana 24. og 25. nóvember leiddu til þess að þörf hafi verið á svo íþyngjandi ákvörðun þann 29. nóvember.  Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga krafðist kærandi rökstuðnings á ákvörðun kærða um innköllun á Hátiðarblöndu frá neytendum.  Krafðist kærandi þess að i rökstuðningi yrði tilgreint:

Hvort að kærði hafi við ákvörðun um innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum tekið tillit til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, andmælaréttar sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga og jafnframt hvernig þessara reglna hafi verið gætt við ákvarðanatöku.  Ennfremur hvort kærði hafi við ákvörðun um innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum tekið tillit til formlegrar tilkynningarskyldu sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafi svo verið hvernig formlegrar tilkynningarskyldu hafi verið gætt við þá ákvörðun að innkalla vöruna frá neytendum.

Rökstuðningur kærða fyrir ákvörðun um innköllun barst 1. febrúar 2006. Kærandi vísar til þess að rökstuðingur kærða uppfylli ekki almennar lágmarkskröfur sem gerðar séu til rökstuðnings fyrir ákvörðun stjórnvalds, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga.  Með vísan til krafna sem kærandi gerði til rökstuðnings kærða fyrir ákvörðun um innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum bendir kærandi úskurðarnefndinni á að í rökstuðningi kærða var ekki að finna :

1.      tilvísun til lagaheimilda fyrir heimild til innköllunar eins og kærandi fór fram á.

2.      forsendur fyrir ákvörðun um innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum né tilvísun til gagna sem höfð voru til hliðsjónar við ákvörðun um innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum.

3.      Upplýsingar um ný gögn sem kváðu á um hraða og íþyngjandi ákvörðun, þ.e.a.s. hvaða þættir, ný gögn eða nýjar upplýsingar í málinu sem ekki voru fyrir hendi dagana 24. og 25. nóvember leiddu til þess að þörf var á svo íþyngjandi ákvörðun 29. nóvember.

Þá kveður lögmaður kæranda að rökstuðningur kærða hafi ekki innihaldið með fullnægjandi hætti :

1.          Tilvísun kærða til þess hvort að kærði hafi við ákvörðun um innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum tekið tillit til rannsóknarreglu, jafnræðisreglu, meðalhófsreglu og gætt andmælaréttar skv. 10.-13. gr. laga nr. 37/1993 og hvernig hafi verið tekið tillit til þessara reglna við ákvörðunartökuna.

Kærandi gerir athugasemdir við rökstuðning kærða fyrir ákvörðun um innköllun á Hátíðarblöndu.   Kærandi bendir á að þrátt fyrir yfirlýsingu kærða hafi ákvarðanir hvorki verið teknar með né í samráði við fulltrúa kæranda þann 29. nóvember s.l. Allt fram til þess dags hafi fulltrúi kæranda lagt sig fram um að vinna með kærða, enda hafði kærandi talið að viðunandi árangur hefði náðst með aðgerðum sem kærandi og kærði höfðu sameiginlega staðið að.    Vegna ummæla í rökstuðningi kærða þess efnis að allar nauðsynlegar upplýsingar hafi verið veittar af kærða til að unnt yrði að taka viðeigandi ákvarðanir sé rétt að benda á að ákvörðun um innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum hafði þegar verið tekin áður en kærandi lagði fram mikilvægar upplýsingar sbr. fylgiskjal nr. 8.

Kærandi gerir eftirfarandi athugasemdir við þau ummæli kærða að hann hafi að rannsökuðu máli neyðst til að beita innköllun skv. 3., 10. og 29. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.

Kveður kærandi í fyrsta lagi að kærði hafi ekki þurft að beita kæranda svo íþyngjandi aðgerðum því sömu niðustöðu hefði mátt fá með vægari úrræðum.  Í öðru lagi kveður kærandi að aðstæður hafi ekki verið þannig að kærandi hafi neyðst til að bregðast frekar við þann 29. nóvember.  Engar þær upplýsingar hafi komið fram sem réttlættu íþyngjandi aðgerðir kærða og hafi því hvorki verið efni né ástæður til þess að beita svo harkalegum og íþyngjandi aðferðum.  Í þriðja lagi hafi ákvörðun ekki verið tekin að rannsökuðu máli þar sem ákvörðun kærða hafi verið tekin áður en kærði hafi lagt fram nauðsynleg gögn.  Þá gerir  kærandi athugasemd við ummæli kærða í rökstuðningi þar sem fram komi að hluti sendingar sem í hafði fundist hluti músar hafi verið í vörslum neytenda.  Bendir kærandi á að kærumál þetta snúist sérstaklega um þessa órökstuddu fullyrðingu kærða.  Hafi kærandi talið nær engar líkur á því að aðskotahlutir væru í vörslum neytanda og lagði fram haldbær gögn til stuðnings röksemdum sínum sbr. fylgiskjal nr. 8.  Telur kærandi rétt að ítreka að framlagning gagnanna hafi ekki haft áhrif á ákvarðanatöku kærða.  Þá er gerð athugasemd við ólögmætt og órökstutt mat kærða.  Kærandi gerir athugasemdir við ummæli kærða í rökstuðningi þar sem segir “og var það mat Umhverfissviðs að þar sem ekki var vitað um afdrif og ásigkomulag annarra hluta músarinnar að ekki væri hægt að fullyrða að fleiri pakkningar framleiðslulotunnar innihéldu ekki aðskotahlut af sama uppruna. Bendir kærandi á að í fyrsta lagi feli fullyrðing kærða það í sér að kærði hafi gefið sér þær staðreyndir án þess að hafa til þess nokkur rök að aðrir hlutar músarinnar hafi :

a)      farið inn í framleiðsluferli framleiðandans í Hollandi,

b)      og komist í gengum framleiðsluferli framleiðanda og eftirlitskerfi þar

c)      og verið í þeim hluta framleiðslulotunnar sem hafi komið hingað til lands

d)      og verið í þeim hluta framleiðslulotunnar sem hafi komið hingað til lands og ekki hafi verið búið að innkalla, þ.e. þeim hluta sem þegar hefði verið seldur neytendum.

Í öðru lagi bendir kærandi á að aldrei sé stærðfræðilega mögulegt að segja með fullri vissu að enginn aðskotahlutur sé í eins stórri framleiðslulotu og umrædd framleiðslulota hafi verið.  Tölfræðilega gæti aðskotahlutur farið í gegnum öll stig eftirlitsferils án þess að eftirlitsaðilar, háþróaðar vélar eða starfsmenn verði varir við aðskotahlutinn.  Verði niðurstaða kærunefndar sú að kærði hafi haft réttmætar ástæður til að telja að aðskotahlutur væri í þeim hluta sendingar sem þegar hafi verið seldur neytendum megi með sömu rökum stöðva allan innflutning á matvöru til landsins.

Kærandi gerir ennfremur athugasemd við umfjöllun kærða í rökstuðningi um hættulega sundurtætta líkamshluta músar.  Engin rök hafi legið að baki fullyrðingu kærða um hættulega sundurtætta líkamshluta músar og hafi því röksemdin hvorki verið marktæk né lögmæt við ákvarðanatöku um innköllun Hátíðarblöndu frá neytendum.  Með vísan til þess að kærði gaf sér forsendur sem engar haldbærar röksemdir vorur fyrir eigi ummælin ekki við.

Kærandi gerir og athugasemdir við tímasetningu ákvörðunar kærða um innköllun á vörunni.  Ákvarðanir kærða hafi ekki byggst á upplýsingum frá kæranda.  Upplýsingar frá kæranda hafi ekki verið lagðar fram af hálfu kæranda fyrr en hin kærða ákvörðun hafi legið fyrir.  Því hafi kærði ekki notið andmælaréttar áður en ákvörðunin hafi verið tekin heldur eftir það.  Með því hafi verið brotið gegn rannsóknarskyldu stjórnvalds.  Þá kveður lögmaður kæranda að það sé rangt sem fram komi í rökstuðningi kærða að rannsóknarreglu hafi verið gætt við ákvarðanatöku.  Hafði kærði þegar tekið ákvörðun um innköllun Hátíðarblöndu frá neytendum fyrir fund aðila þann 29. nóvember þegar kærandi hafi lagt fram mikilvæg gögn.  Þá hafi kærði leitað eftir gögnum hjá kæranda til að styðja ákvörðun sína þann 30. nóvember sbr. fskj. nr. 11.

Kærandi gerir athugasemdir við mat kærða á því hvort vara sem á þeim tímapunkti var í höndum neytenda kunni að innihalda aðskotahluti sem gætu talist hættulegir heilsu manna.    Hafi kærði í rökstuðningi tilkynnt að mat hans væri að þegar vara kunni að innihalda aðskotahluti sem gætu talist hættulegir heilsu manna beri að túlka allan vafa neytendum í hag og innkalla vörur án tafar.  Kærandi gerir eftirfarandi athugasemdir við mat kærða :

1)          Mat kærða er ekki rökstutt með vísan til lagaheimilda, reglna né annarra réttarheimilda.

2)          Kærandi bendir á að aldrei sé unnt með fullri vissu að staðhæfa að heil framleiðslulota frá framleiðanda innihaldi ekki aðskotahlut af neinu tagi því tölfræðilega sé alltaf möguleiki á því að aðskotahlutur komist í gegnum öll stig eftirlitsferis án þess að vart verði við hann.

3)          Kærandi bendir á að stjórnvald hljóti við mat á því hvort bráð hætta sé af aðskotahlut að taka mið af því tjóni sem aðskotaefni eða -hlutur  geti mögulega valdið neytendum. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun sé við mat í sambærilegum tilvikum tekið mið af því hve alvarlegar afleiðingar aðskotaefni eða aðskotahlutur hafi í matvælum.  Byggir kærandi á því að við ákvörðun kærða hefði átt að taka mið af því hve aðskotahluturinn gæti haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir neytendur.  Kærandi telur að af slíku hefði ákvörðun kærða átt að taka mið.  Kærandi bendir enn á að í þessu tilviki hafi stór hluti músar fundist í grófskornu grænmeti og hafi músarhlutinn verið vel aðgreinanlegur frá öðrum hlutum í Hátíðarblöndupokanum.  Byggi kærandi af þeirri ástæðu á því að ekki hafi verið um eins hættulegan aðskotahlut að ræða og til dæmis eitrað litarefni.  Telur kærandi augljóst með tilvísun m.a. til lögmætisreglu að svonefnt mat kærða byggist ekki á haldbærum né málefnalegum rökum og sé af þeirri ástæðu einni ekki málsmetandi ástæða fyrir ákvörðun kærða um innköllun frá neytendum.  Kærandi gerir einnig athugasemdir við tilvísanir kærða í rökstuðningi hans um hvernig kærði sinnti rannsóknarreglu, jafnræðisreglu, meðalhófsreglu og andmælarétti kæranda.  Vísar kærandi til tilvísunar kærða um hvernig andmælaréttar var gætt.  Kærandi bendir á að rangt sé það sem fram komi í rökstuðningi að fulltrúa fyrirtækisins ásamt lögmanni hafi verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum við innköllun, áður en ákvörðun hafi verið tekin.  Ákvörðun um innköllun á Hátíðarblöndu hafi þegar verið tekin er fundur málsaðila fór fram þann 29. nóvember.  Vegna tilvísunar kærða um hvernig andmælaréttar hafi verið gætt og því hafi ekki verið unnt að veita langan andmælafrest, bendir kærandi á að þessar röksemdir standist ekki.  Dagana 24. og 25. nóvember hafi kærði farið fram á að kærandi stöðvaði dreifingu á Hátíðarblöndu og að varan yrði innkölluð úr verslunum.  Kærði hefur að mati kæranda ekki enn sýnt fram á hvað olli afstöðubreytingu kærða og því að kærði hafi talið nauðsynlegt að innkalla Hátíðarblöndu frá neytendum og auglýsa þá innköllun með tilkynningu til fjölmiðla.

Lagaákvæði og röksemdir.  Kærandi byggir kröfur sínar á almennum meginreglum stjórnsýsluréttar.  Íslensk stjórnskipan byggist á lögmætisreglunni, þ.e. þeirri grundvallarreglu að stjórnsýsla sé bundin af lögum, en í henni felst að stjórnvöld geti almennt ekki tekið ákvarðanir sem séu íþyngjandi fyrir borgara nema hafa til þess heimild að lögum.  Jafnframt verði að ganga skýrt frá því í lögum hvaða kvaðir verði lagðar á borgara og lögaðila.  Byggir kærandi á því að vinnureglur kærða við mat hans hafi ekki stoð í lögum og fari gegn lögmætisreglu.  Byggi kærandi á því að við svo íþyngjandi ákvörðun sem innköllun frá neytendum sé, og tilkynning til fjölmiðla einnig þurfi í fyrsta lagi að byggja á tilvísuðum réttarheimildum og í öðru lagi að gera strangari kröfur til áreiðanleika þeirra heimilda sem ákvörðun byggi á.  Kærði hafi í ákvörðun sinni ekki vísað til heimilda fyrir vinnureglum sínum við mat og hafi ekki byggt ákvörðun sína á áreiðanlegum heimildum.  Þá telur kærandi að með töfum kærða á að veita rökstuðning fyrir ákvörðun sinni hafi hann brotið gegn 9. og 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Einnig telur kærandi að kærði hafi brotið gegn 10. gr. sömu laga með því að taka ákvörðun um innköllun á vörunni frá neytendum án þess að hafa séð til þess að málið hafi verið nægilega upplýst fyrir ákvarðanatöku.  Þá telur kærandi að kærði hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga  með því að hafa leitað strangari leiða í framkvæmd en nauðsyn hafi borið til.  Vísar kærandi til þess að við framkvæmd ákvörðunar skuli stjórnvald velja það úrræði sem vægast sé fyrir þann sem ákvörðun beinist gegn.  Máli sinu til stuðnings vísar kærandi til þess að innköllun kærða á Hátíðarblöndu frá neytendum hafi verið árangurslaus með öllu þar sem kæranda hafi ekki borist einn einasti poki af vörunni við innköllun.

Kærandi telur einnig að kærði hafi brotið gegn 12 gr. ssl. um meðalhóf með því að senda fjölmiðlum tilkynningu um innköllun eftir að send hafði verið fréttatilkynning um innköllun.  Þá telur kærandi að kærði hafi brotið gegn 13. gr. l. nr. 37/1993 með því að taka ákvörðun um innköllun án þess að kæranda væri fyrst gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum um ákvörðunina.  Kærandi vísar til þess að rökstuðningur kærða dags. 25. janúar s.l. uppfylli ekki almennar lágmarkskröfur sem gerðar séu til efnis rökstuðnings fyrir ákvörðun stjórnvalds sbr. 22. gr. ssl. nr. 37/1993.  Hafi kærði ekki vísað til annarra upplýsinga en ólögmæts og órökstudds mats hans sjálfs. Ekkert í rökstuðningi kærða frá 26. janúar gefi til kynna á hvaða gögnum kærði hafi byggt ákvörðun sína um innköllun á vörunni frá neytendum. Hann hafi ekki sett fram skýringar á ákvörðun sinni um tilkynningu til fjölmiðla.  Ítrekar kærði að gera verði strangar kröfur til áreiðanleika þeirra gagna sem svo íþyngjandi ákvörðun sé byggð á, sérstaklega þegar niðurstaða varði kæranda miklu.  Kærandi gerir og þá kröfu að nefndin taki fram í niðurstöðu sinni að kærði beri kostnað kæranda við að hafa kæruna uppi.  Farið er fram á að nefndin ákvarði fjárhæð greiðslu kærða til kæranda við að hafa kæruna uppi samkvæmt mati sínu og að fjárhæðin sé tiltekin í niðurstöðu nefndarinnar.  Kærandi tekur enn fram að mikilvægt sé að úrskurðarnefndin taki málið fyrir eins fljótt og verða megi.  Hafi kærandi eftir fremsta megni reynt að takmarka tjón sitt meðal annars þar sem slíkar aðgerðir séu skilyrði þess að krefjast megi bóta úr hendi kærða fyrir dómstólum.  Tjón kæranda vegna hinnar kærðu ákvörðunar sé þegar umtalsvert og hafi kærandi þurft að bregðast við með ýmsum kostnaðarsömum aðgerðum.  Byggi kærandi á því að aðgerðir kærða hafi verið ástæðulausar og árangurslausar með öllu þar sem hvorki kæranda né verslunum barst einn einasti poki af Hátíðarblöndu vegna innköllunar kærða.  Mikilvægt sé að úrskurðarnefndin hafi framferði kærða til hliðsjónar við ákvörðun sína, sér í lagi að kærði hefur tafið ferli málsins m.a. með því að hirða ekki um tímafresti í 21. gr. ssl. eða ákvæði 3. mgr. 9. gr. sömu laga.  Þá hafi kærði ekki farið að 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings.

Að lokum ítrekar lögmaður kæranda kröfur um ógildingu  ákvörðunar kærða og þá ákvörðun að tilkynna til fjölmiðla ólögmæta.

Í athugasemdum við greinargerð kærða í málinu gerir kærandi athugasemdir við lýsingu kærða um tilkynningu um innköllun.  Kveður kærandi að formleg innköllun á vörunni hafi farið fram með bréfi til kæranda og fréttatilkynningu til fjölmiðla að loknum fundi aðila hinn 29. nóvember s.l.   Kærandi gerir athugasemdir við tilkynningu kærða til fjölmiðla.

1)  Ákvörðun um sérstaka tilkynningu til fjölmiðla hafi byggst á ólögfestum og óbirtum innanhúsvinnureglum kærða sem ekki höfðu stuðning í réttarheimildum.

2)  Ákvörðun um sérstaka tilkynningu til fjölmiðla hafi verið mjög íþyngjandi fyrir kæranda og hefði kærði því átt að hafa hliðsjón af stjórnsýslulögum sérstaklega 12. gr. og krafna stjórnsýsluréttar við töku ákvarðana sem séu íþyngjandi fyrir þann sem ákvörðun beinist að.

3)  Engin skylda hafi verið á kærða að senda sérstaka tilkynningu til fjölmiðla heldur aðeins um að ræða innanhúsreglur stjórnvalds sem ekki hafi virt valdmörk sín.

Varðandi tilvísun kærða til 3.gr. 10.gr. og 29. gr. l. um matvæli nr. 93/1995,  til stuðnings ákvörðun um innköllun matvæla telur kærandi þessa tilvísun ekki fela í sér heimild til innköllunar.  Kærandi ítrekar að hann telji ekki heldur heimild til innköllunar matvæla í 29. gr. fyrrgreindra laga.  Þá kveður kærandi að samráð hafi verið milli sín og kærða um stöðvun á dreifingu vörunnar.   Bendir kærandi því á að með því sé ekki uppfyllt skilyrði 29. gr.  um að eftirlitsaðili stöðvi dreifingu.  Kærandi telur að einungis sé eftirlitsaðilum skylt að hafa samráð sín á milli og gera viðeigandi ráðstafanir.  Engin önnur skylda sé á eftirlitsaðilum skv. 3. mgr. 29. gr. l. nr. 93/1995. Telur kærandi ljóst af orðalagi að ekki felist í þeim heimild til handa kærða til að innkalla vörur frá neytendum og ekki heldur heimild til að auglýsa innköllun vöru í fjölmiðlum með þeim hætti sem kærði gerði.  Kærandi telur því að sönnunarbyrði fyrir lagaheimild kærða til að innkalla vörur af markaði og fyrir auglýsingu í fjölmiðlum um innköllun sé kærða.   Því telur kærandi að kærði hafi enn ekki vísað til lagaheimilda fyrir kærðum athöfnum. Kærandi bendir á að úrskurðarnefnd verði að hafa skýrt lagaákvæði sem kærði byggi ákvarðanir sínar á til hliðsjónar við mat sitt á lögmæti ákvarðana kærða og við mat á því hvort kærði hafi farið fram úr heimildum sínum.

Kærandi ítrekar að ákvarðanir kærða hafi hvorki verið teknar með né í samráði við fulltrúa kæranda þann 29. nóvember 2005 eða siðar.  Hafi kærði allt fram til þess dags aðeins krafist stöðvunar á dreifingu og innköllun á Hátíðarblöndu af markaði.  Skilningur kæranda um að aðeins væri um að ræða innköllun af markaði en ekki frá neytendum sé staðfest í fskj. nr. 4 en þar tilgreinir kærandi um innköllun frá tveim verslunum á Akranesi og þar með ljúki innkölluninni. Kærandi kveðst aldrei hafa tiltekið að innkalla eigi frá neytendum og kærði hafi engar athugasemdir gert vegna innköllunar kæranda sjálfs.  Hefði kærði ætlast til þess að innköllun dags. 24. nóvember s.l. næði einnig til innköllunar frá neytendum hefði kærði átt að taka það skýrt fram við formlega ákvörðun málsins og skýra rúma túlkun sína fyrir kæranda strax og kærði var grandvís um skilning kæranda.

Kveðst kærandi byggja á því að sá sem stjórnsýsluákvörðun beinist að eigi ekki að þurfa að hlíta því að stjórnvald geti nokkrum dögum eftir ákvörðun skýrt ákvörðun sína rýmra en samkvæmt orðanna hljóðan.  Þá verði kærði að bera hallann af óskýru orðalagi formlegrar ákvörðunar dags. 24. nóvember 2005.

Kærandi vekur athygli úrskurðarnefndar á því að kærði vísi til þess í greinargerð sinni að hann hafi ekki vitað hvort músarhlutar væru í þeim hluta sendingar sem enn hafi verið í vörslum neytenda þegar ákvörðun um innköllun hafi verið tekin.  Kveður kærandi að kærði virðist byggja á því að fullyrðing um að hluti sendingar hafi enn verið í vörslum neytenda hafi verið studd gögnum frá kæranda og á kærði við fylgiskjal nr. 8.  Bendir kærandi úrskurðarnefndinni á að kærði hafði þegar tekið ákvörðun um innköllun frá neytendum áður en hann fékk fskj. nr. 8 í hendur, enda tiltók kærði í greinargerð  sinni að upplýsingar i fylgiskjali hefðu ekki skipt máli varðandi ákvörðun um að innkalla vöru frá neytendum.  Hafi því kærði tekið ákvörðun um innköllun vöru frá neytendum áður en fylgiskjal þetta var lagt fram.

Kærandi svarar athugasemd kærða um orðhengilshátt.  Bendir á að nær engar líkur hafi verið á því að aðskotahlutur væri í þeim 159 pokum af Hátíðarblöndu sem neytendur höfðu keypt og að öllum líkindum þegar verið neytt þann  29. nóvember 2005.  Kærandi ítrekar að sömu líkur hafi verið á því að aðskotahlutir væru í þeim hluta sendingar sem ekki hafði verið innkölluð þann 29. nóvember og líkur á því að aðskotahlutur sé almennt í matvælum sem flutt séu til landsins.  Kærandi bendir á að rétt sé það sem fram komi í greinargerð kærða að kærandi hafi þurft að geta í þær fjölmörgu eyður sem séu í málflutningi kærða þar sem kærði hafi ekki farið að stjórnsýslulögum og rökstutt ákvarðanir sínar í samræmi við þau.  Teljist slíkt vart viðunandi í samskiptum fyrirtækja við yfirvöld í réttarríki.

Kærandi ítrekar enn að ekki hafi verið tekið tillit til jafnræðisreglu ssl., en hún hafi mesta þýðingu þegar um matskenndar stjórnsvaldsákvarðanir sé að ræða.  Við mat kærða sem leitt hafi til innköllunar á Hátíðarblöndu frá neytendum með þeim rökum að músarhlutar gætu “allt eins verið í þeim hluta sendingar, sem var í vörslum neytenda” hafi kærði brotið jafnræðisreglu ssl. Kærði hafi ekki innkallað aðrar matvörur frá neytendum sem fluttar séu inn til landsins þó svo að nákvæmlega sömu líkur væru á því að þær innihéldu aðskotahluti.  Kærandi kveður að ekki hafi verið tekið tillit til meðalhófsreglu 12. gr. ssl. með tilvísun til sömu röksemdar kærða og að ofan getur.  Með vísan til þeirrar reglu telur kærandi að kærði hefði ekki átt að fara strangar í sakir við framkvæmd sína en nauðsyn hafi borið til.  Telur kærandi að kærði hafi valið leið sem var mest íþyngjandi fyrir kærða.

Kærandi telur kærða ekki hafa leitað upplýsinga um líkur á aðskotahlut í matvöru og með því hafi hann ekki tekið tillit til rannsóknarreglu ssl.  Telur kærandi að samkvæmt stjórnsýslurétti fari það eftir eðli stjórnsýslumáls svo og réttarheimild þeirri sem sé grundvöllur ákvörðunar hvaða upplýsinga þurfi að afla svo rannsókn þess teljist fullnægjandi.  Þegar fram komi í lögum skilyrði sem uppfylla þurfi til þess að stjórnvaldsákvörðun verði tekin þurfi t.d. að afla upplýsinga um hvort umrædd lagaskilyrði séu fyrir hendi.  Kærandi telur upplýsingar sem kærði hafi byggt á ekki uppfylla almenn skilyrði til þess að vera traustur grundvöllur fyrir svo veigamikilli ákvörðun sem innköllun frá neytendum og auglýsing til fjölmiðla sé.  Vegna verulegrar vanrækslu kærða á rannsókn málsins vísi kærandi til þess að slík vanræksla geti leitt til þess að ákvörðun verði talin ógildanleg.  Kærandi gerir athugasemd við ákvörðunartöku kærða án þess að hafa allar upplýsingar. Telur kærandi að með orðalagi í greinargerð kærða sé komið í ljós að aðilar hafi í samráði innkallað Hátíðarblöndu úr búðum, sem stangist á við orðalag í greinargerð um að hann hafi sjálfur tekið ákvörðun um innköllun og dreifingarbann. Í rafpósti hafi kærði tilkynnt að innköllun væri að mestu lokið aðeins ætti eftir að sækja vörur í tvær verslanir á Akranesi.  Telur kærandi því að með þessu sé staðfest að kærði hafi einungis átt við innköllun úr verslunum en ekki frá neytendum.  Kærandi kveðst margsinnis hafa krafið kærða um skýringar á því hvað hafi orðið þess valdandi að kærði teldi nauðsynlegt að innkalla vöruna frá neytendum.  Kærandi bendir á að kærði hafi verið grandvís um að neytendur hafi keypt vöruna dagana fyrir innköllun og telur kærandi kærða ekki hafa lagt fram haldbærar skýringar á þeirri afstöðubreytingu sem varð á innköllun.  Kærandi gerir athugasemd við mat kærða á því að túlka beri allan vafa neytendum í hag og innkalla vörur án tafar án þess að sá sem stjórnvaldsákvörðun beinist að njóti réttinda samkvæmt stjórnsýslulögum. Ítrekar kærandi með vísan til lögmætisreglunnar að svonefnt mat kærða byggist ekki á haldbærum né málefnalegum rökum og af þeirri ástæðu einni sé það ekki málsmetandi ástæða fyrir ákvörðun kærða um innköllun frá neytendum.  Kærandi ítrekar í athugasemdum sínum ýmislegt sem áður er fram komið.

Um lagarök vísar kærandi til þess sem áður hefur fram komið Taka skal fram varðandi 12 gr. ssl. að kærandi bendir á að ákvörðun verði að vera til þess fallin að ná fram því markmiði sem stefnt sé að.  Telur kærandi markmið ákvörðunar kærða um innköllun hafa verið óljóst.  Hafi markmið kærða verið að vernda neytendur fyrir mögulegum aðskotahlut í vörum hefði slíku markmiði ekki verið náð með innköllun 29. nóvember s.l. þar sem allri Hátíðarblöndu sem hafði verið seld til neytenda hafði þegar verið neytt.  Af þessu tilefni vísar kærandi til rits Páls Hreinssonar Stjórnsýslulögin skýringarrit á bls. 150 en þar segi að íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem augljóslega sé ekki til þess fallin að ná því markmiði sem að sé stefnt sé ólögmæt.  Kærandi ítrekar kröfur sínar um brot á stjórnsýslulögum, og gerir grein fyrir kostnaði kæranda við málið.

III.

Greinargerð kærða er dags. 30. mars, 2006. Kemur þar fram að ekki geri kærði athugsemdir við málavaxtalýsingu kæranda fyrr en komi að frásögn af fundi kærða með kæranda 29. nóvember s.l.  Kveður kærði að ekki hafi verið tilkynnt um ákvörðun kærða um innköllun á Hátíðablöndu á þeim fundi heldur hafi kæranda verið kynnt sú ákvörðun löngu fyrr í samráðsferli um lausn málsins og með bréfi kærða hinn 24. nóvember, 2005 þar sem tilkynnt hafi verið ákvörðun um innköllun vörunnar af markaði.  Ekki hafði komið til formlegrar ákvörðunar kærða um opinbera innköllun hjá neytendum þar sem kærandi hafði sjálfur innkallað allar sínar vörur með voruheitinu Hátíðablanda, nema beint frá neytendum sem keypt höfðu vöruna í verslunum og höfðu hana hugsanlega á heimilum sínum.  Hafi fundurinn fyrst og fremst verið haldinn vegna andstöðu kæranda við að innkalla vöruna frá einstaklingum og hafi átt á þeim fundi að reyna að fá kæranda til að kalla inn vöruna sjálfur með eigin auglýsingu.  Kærandi hafi hins vegar neitað að gera það, nema fyrir lægi skrifleg ákvörðun um opinbera innköllun vörunnar af hálfu kærða.  Hafi kærði þá sagst fara að þeim tilmælum og innkalla vöruna með eigin fréttatilkynningu.  Þegar útséð hafi verið um það að kærandi hafi fengist til að halda málinu áfram og ljúka því sjálfur hafi kærði brugðist við með því að gefa út formlega innköllun á vörunni  með bréfi til kæranda og fréttatilkynningu til fjölmiðla.  Síðar þann sama dag eftir lokun skrifstofu kærða hafi síðan borist tilkynning kæranda um eigin fréttatilkynningu.

Kærði bendir á vegna athugasemda kæranda um sérstaka tilkynningu kærða til fjölmiðla um innköllunina hafi sú tilkynning verið í samræmi við starfsreglur kærða um innköllun á vöru og fylgi óhjákvæmilega formlegri ákvörðun um innköllun vöru.  Beri kærða skylda til að koma þeim upplýsingum á framfæri til þeirra neytenda sem hugsanlega hefðu vöruna undir höndum og verði ekki vikist frá þeirri skyldu þrátt fyrir að kærandi sjálfur kæmi tilkynningu til fjömiðla í kjölfar tilkynningar kærða.  Ítrekar kærði að á ofangreindum fundi hafi kærandi staðfastlega neitað að innkalla vöru sjálfur en hafi hins vegar gefið fyrirheit um að gera það ef fyrir lægi formleg ákvörðun kærða um innköllunina.

Hvað snerti athugasemdir kæranda við rökstuðning kærða fyrir ákvörðun sinni um innköllun bendir kærði á að hann hafi sent kæranda bréf dags. 27. janúar s.l. með rökstuðningi sínum.  Kærandi kjósi hins vegar í kæru sinni að líta fram hjá þeim rökstuðningi.  Hafi kæranda verið gerð grein fyrir lagaheimildum fyrir innköllun fyrst í bréfi dags. 24. nóvember s.l. þegar honum hafi verið tilkynnt um innköllun og dreifingarbann á umræddri vöru.  Kærandi hafi svarað því bréfi með tölvupósti sama dag og kveðst þar ekki gera athugasemdir við efni bréfisins.  Aftur hafi kæranda verið gerð grein fyrir lagaheimildum fyrir innköllun í bréfi með rökstuðningi kærða hinn 27. janúar s.l.  Hvernig kærandi hafi komist hjá því að sjá umrædda tilvitnun til matvælalaga í báðum bréfunum sé umhugsunarvert.  Í kafla 5 í kæru sinni endurtaki kærandi þá fullyrðingu að ekki hafi verið vísað til lagagreina þegar ákvörðun um innköllun hafi farið fram.  Verði það enn óskiljanlegra því í bréfi kærða hinn 27. janúar s.l. segi m.a. “þá skyndilega hætti samvinnan og neyddist Umhverfissvið, að rannsökuðu máli til að beita innköllun skv. 3. gr. 10. gr. og 29. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli….”.  Í bréfi kæranda dags. 24. nóvember s.l. segi m.a. “Með vísan til 29. gr. laga nr. 93/1995 skal dreifing á Hátíðarblöndu úr sömu pökkunarlotu stöðvuð nú þegar og skal innkalla vöruna af markaði ..”.  Að mati kærða ber ekki nauðsyn eða skylda til að vitna til tiltekinna greina stjórnsýslulaga um að ákvæða þeirra hafi verið gætt við stjórnsýsluákvörðun sem þessa.

Kærði bendir á að kærandi haldi því fram að rökstuðningur kærða fyrir ákvörðun sinni hafi ekki með fullnægjandi hætti innihaldið hvort rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið virt.  Í bréfi kærða hinn 27. janúar segir m.a. : “Rannsóknarreglu stjórnsýslulaga var sinnt með þeim hætti að kalla eftir og fá allar nauðsynlegar upplýsingar um afdrif vörunnar hjá Eggerti Kristjánssyni hf., sem hafði fram að ákvörðun um innköllun veitt allar umbeðnar upplýsingar án tafar og af fullum heilindum og ekki gefið tilefni til að véfengja þær upplýsingar”.  Það er mat kærða að hafi skort á upplýsingar til að taka ákvörðun í máli þessu, megi efast um heilindi kæranda til að aðstoða við að upplýsa málið.  Liggi fyrir eða hafi legið fyrir einhverjar meiri eða aðrar upplýsingar í máli þessu hjá kæranda hafi hann haldið þeim leyndum fyrir kærða og vandséð að hægt sé að kæra kærða fyrir það.

Enn bendir kærði á að kærandi haldi því fram að ekki hafi komið fram í rökstuðningi kærða hvernig jafnræðisreglu stjórnsýslulaga hafi verið gætt við hina kærðu ákvörðun.  Sé vísað til lokamálsgreinar rökstuðnings kærða í bréfi dags. 27. janúar s.l. varðandi þetta kæruatriði og sama gildi um umkvörtunarefni kæranda varðandi meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Þá vísar kærði til þess að kærandi telji að ekki hafi verið vísað til þess í rökstuðningi kærða hvernig kærandi fékk að gæta andmælaréttar síns.  Enn og aftur verði að vísa til bréfs kærða hinn 27. janúar s.l. þar sem ásökunum þessum sé svarað.  Sé jafnframt vísað til bréfs kærða hinn 24. nóvember s.l. þar sem tilkynnt sé um dreifingarbann og innköllun þar sem kæranda sé bent á að koma athugasemdum sínum að í máli þessu og svarbréf kæranda þar sem hann kveðst ekki gera athugasemdir við ákvörðunina.  Ekki aðeins hafi kæranda verið bent á andmælarétt sinn heldur hafi kærandi nýtt sér hann með þeim hætti að hann kvaðst ekki vilja gera athugasemdir við ákvörðunina.  Þá bendir kærði á að allan tímann sem málið hafi verið í meðförum kærða hafi kærði verið í daglegu samráði við kæranda um framkvæmd innköllunarinnar, sem ákveðin hafi verið hinn 24. nóvember 2005.

Athugasemdir við rökstuðning kærða.

Kærði bendir á að kærandi hafni því ekki að samráð og samvinna hafi verið með aðilum við lausn þessa máls fram til 29. nóvember s.l. og að hann hafi veitt allar nauðsynlegar upplýsingar að undanskildu fylgiskjali 8.  Kveður kærði rétt að fylgiskjal 8 hafi ekki verið lagt fram fyrr en 29. nóvember s.l. enda hafi þær upplýsingar ekki orðið til fyrr en á þeim degi. Þær upplýsingar hafi hins vegar ekki skipt máli varðandi ákvörðun þessa heldur staðfestu enn frekar þörfina á henni þar sem með því hafi verið leitt í ljós að innköllun kæranda sjálfs hafði ekki náð til allra aðila á matvælamarkaði.

Varðandi athugasemd kærða um að ákvörðun hafi verið tekin að órannsókuðu máli vísar kærði til þess að málið hafi verið unnið í samvinnu aðila og allar nauðsynlegar upplýsingar um vöruna hafi einungis getað komið frá kæranda sjálfum eða birgja hans.  Þá vísi kærandi ennfremur til þess að kærandi hafi ekki gefið neinar vísbendingar undir meðferð málsins um að frekari upplýsinga væri að vænta sem varpað gætu einhverju frekara ljósi á málið.  Það hafi ekki verið fyrr en kærandi hafi tregðast við að fara að ákvörðun um innköllun að hann hafi kosið að leggja fram upplýsingar sem að mati kæranda skiptu máli en að mati kærða skiptu engu máli við að framfylgja ákvörðun kærða öðru en því að renna frekari stoðum undir hana.

Athugasemd við fullyrðingu kærða um að hluti músar væri enn í vörslum neytenda.  Kærði kveðst aldrei hafa fullyrt að hluti músar væri enn í vörslum neytenda.  Sú fullyrðing sem kærandi vísi til hljóði svo:” Á þeim tíma var ljóst að hluti sendingar þar sem fundist hafði hluti músar, var enn í vörslum neytenda….”.  Kveður kærði að því verði ekki mótmælt af kæranda í þessu máli að í sendingu hafi fundist hluti músar.  Ekki verði því heldur mótmælt af kæranda að hluti sendingarinnar hafi enn verið í vörslum neytenda þar sem innköllun kæranda náði ekki til þeirra.  Fullyrðingin sem studd sé gögnum kæranda sjálfs sé að hluti sendingarinnar hafi enn verið í vörslum neytenda.  Hvort í þeim hluta sendingarinnar hafi verið músarhlutar eða ekki sé ekki fullyrt í bréfi kærða hinn 27. janúar sl.  Sé á hinn bóginn heldur ekki hægt að fullyrða að ekki hafi verið músarhluti eða hlutar í þeim hluta sendingarinnar sem enn hafi verið í vörslum neytenda.  Athugasemd þessari sé því mótmælt sem órökstuddum útúrsnúningi.

Athugasemd við ólögmætt og órökstutt mat kærða.  Kærði telur að í athugasemd kæranda sé talsverður orðhengilsháttur.  Kærði kveður því að sér sé vandi á höndum um svar öðruvísi en þannig að taka undir með kæranda að aldrei sé hægt að fullyrða að aðskotahlutur eða afgangur af mús hafi ekki verið í vöru.  Þegar af þeirri ástæðu hafi verið rík ástæða fyrir kærða að innkalla vöru frá neytendum.  Kærði kveðst hafa stuðst við þær staðreyndir að :

1)      Músarhluti hafi fundist í sendingu.

2)      Rannsókn hafi ekki leitt í ljós hvort fleiri músarhlutar væru í sendingunni eða ekki.

3)      Hluti sendingar var enn í vörslum neytenda skv. upplýsingum frá kæranda.

4)      Kærandi vildi ekki innkalla þann hluta sendingar sem enn var í vörslum neytenda.

Athugasemd við órökstuddar forsendur svarar kærði svo að hann hafi metið málið þannig að væru fleiri músarhlutar í sendingu gætu þeir allt eins verið í þeim hluta sendingar sem verið hafi í vörslum neytenda.  Stærð þess músarhlutar sem fundist hafði í sendingunni hafi gefið tilefni til að ætla að ef músarhlutar væru til staðar væru þeir af sömu stærð og músarhöfuðið, sem af eðlilegum ástæðum var af nákvæmlega sömu stærð og baunirnar í Hátíðarblöndunni voru að loknum skurði.  Músarbein eru af þeirri stærð að geta hæglega valdið hættu fyrir neytendur svo sem með þvi að festast í hálsi að ekki sé talað um smithættu.  Felist ekki rök í þessari forsendu falli ansi margar ákvarðanir í lífinu í þennan flokk kæranda þ.e. að teljast órökstudd forsenda.

Athugasemd kæranda um ákvörðunartöku án þess að hafa allar upplýsingar.  Svo sem kunnugt er tók kærði ákvörðun um innköllun og dreifingarbann 24. nóvember s.l.  Kærandi tók að sér að innkalla vöru og stöðva dreifingu.  Þegar lítill hluti sendingar var enn eftir á markaði og ekki unnt að gera grein fyrir honum vildi kærandi hætta að vinna í málinu.  Kærði taldi hins vegar nauðsynlegt að ljúka við innköllun til allra þeirra sem keypt höfðu umrædda vöru.  Lagði þá kærandi fram fylgiskjal nr. 8 sem hafði að geyma upplýsingar um afdrif vörunnar.  Hafi kærandi þar með staðfest að hluti vöru væri enn á markaði og hefði ekki verið innkallaður þrátt fyrir ákvörðun kærða 24. nóvember s.l. og samþykki kæranda við innköllun sama dag.  Höfðu því upplýsingar á fskj. nr. 8 ekki þau áhrif sem kærandi ætlaði heldur staðfestu enn frekar ákvörðun kærða um að innköllun bæri að ljúka.  Athugasemdir kæranda við órökstuddar tilvísanir í rökstuðningi.  Kærði bendir á að við ákvörðun um innköllun sem tilkynnt hafi verið bréflega 24. nóvember s.l. hafi kæranda verið bent á andmælarétt sinn.  Kærandi hafi talið ástæðu til að svara því til að hann gerði ekki athugasemd við efni ákvörðunarinnar.  Kærði bendir á að kærandi hafi undir allri málsmeðferðinni haft fullan aðgang að starfsmönnum kærða og hafi hvenær sem er getað komið athugasemdum á framfæri.  Kærði hafi þó ekki getað annað en unnið eftir þeirri meginástæðu í málinu að kærandi hafði sérstaklega tilkynnt að hann gerði ekki athugasemd við ákvörðun kærða um innköllun.  Þá kveðst kærði standa fyllilega við það mat sitt að í málum sem þessum sé ekki í öllum tilvikum unnt að veita langa fresti til andmæla sérstaklega ekki þegar almannaheill sé í húfi sem raunin hafi verið í máli þessu.  Kærandi telur að ákvörðun um dreifingarbann og innköllun vöru af markaði taki aðeins til þess hluta markaðar sem hann kýs.  Kærði vekur hins vegar athygli á að stærsti hluti svokallaðs matvælamarkaðar hér innanlands sé hinn almenni neytandi sem kaupir vörur sínar í matvöruverslunum.  Í ákvörðun kærða samþykktri af kæranda var dreifing pökkunarlotu stöðvuð og innköllun vöru af markaði ákveðin.  Þrátt fyrir að kærandi telji almenna neytendur ekki hluta af markaði geti kærði ekki leyft sér það enda byggist matvælaeftirlit á Íslandi og alls staðar annars staðar þar sem matvælaeftirlit er til staðar á því að tryggja öryggi og heilsu allra neytenda ekki hluta þeirra.

Kærði mótmælir þeirri fullyrðingu kæranda að hann hafi ekki vísað til lagaheimilda við ákvörðun sína.  Skilvíslega sé gerð grein fyrir þeim ákvæðum laga sem ákvörðun byggði á og komi fram í bréfum kæranda 24. nóvember s.l. og 27. janúar s.l.  Ennfremur telji kærði að hann hafi byggt ákvörðun sína á áreiðanlegum heimildum sem að vísu hafi flestar stafað frá kæranda sjálfum.

Kærði kveðst geta fallist á að nokkrar tafir hafi orðið á því að kærandi fengi svar við óskum sínum um rökstuðning ákvörðunar en mótmælir því að hafa valdið kæranda óþægindum eða tjóni með töfunum.

Kærði kveðst mótmæla harðlega fullyrðingu kæranda um að hann hafi brotið gegn 10-13. greinum stjórnsýslulaga. Kærði hafi aflað allra nauðsynlegra upplýsinga um málið í samvinnu og samráði við kæranda.  Varðandi brot á jafnræðisreglu bendir kærði á að kærandi meti jafnræði með þeim hætti að duga hefði átt að innkalla umrædda vöru aðeins af hluta markaðar, en skilja eftir þann hluta markaðar sem matvælaeftirliti hér á landi og annars staðar er ætlað að vernda. Þá kveður kærði það ófrávíkjanlega reglu þegar innköllun á matvælum eigi sér stað að innköllun sé auglýst opinberlega náist ekki til vöru með öðrum hætti.  Hvað varðar meðalhófsreglu bendi kærði á að þegar um almannaheill sé að ræða og hugsanlega hættulega vöru sé ekki val um margar aðferðir.  Lágmarksaðgerð sé að vara neytendur við hinni hættulegu vöru og innkalla það sem eftir kunni að vera af vöru í vörslum neytenda.  Allan vafa sem vera kunni í málum sem þessu beri að túlka neytendum í hag.  Kærði hafi beitt hófi í ákvörðun sinni og óskað eftir því og lýst sig reiðubúinn til samvinnu um að kærandi sjálfur innkallaði vöruna til þess að gefa honum færi á að kynna sig á markaði sem ábyrgan innflytjanda matvöru sem hefði hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi.  Hafi kærandi sjálfur kosið að kærði beitti opinberri innköllun í málinu og skipti engu máli þó kærandi hafi sent tilkynningu til fjölmiðla um innköllun, eftir að kærði hafði tilkynnt honum að send yrði tilkynning kærða.  Kærði kveðst vera búinn að gera grein fyrir hvernig andmælaréttur kæranda var virtur, kærandi hafi ekki gert athugasemd við ákvörðun kærða.  Kærði mótmælir enn fyllyrðingu kæranda um að rökstuðningur kærða fyrir ákvörðuninni sé ekki fullnægjandi og uppfylli ekki lágmarkskröfur.  Vísar kærði til þess sem áður hefur verið getið, en að auki vísar kærði til bréfs síns dags. 27. janúar 2006 þar sem ákvörðun sé rökstudd og spurningum kæranda svarað skilmerkilega og á fullnægjandi hátt.  Ítrekar kærði enn á ný að honum beri að tilkynna opinberlega svo óyggjandi sé þegar opinber innköllun á sér stað.

Kærði mótmælir að úrskurðarnefndin taki fram í niðurstöðu sinni að kærði beri kostnað af kæru kæranda í málinu.  Sé kæran með öllu tilefnislaus enda rétt og löglega að máli staðið hjá kærða.  Þá hafi kærandi ekki gert neina grein fyrir kostnaði í málinu og því útilokað fyrir nefndina að taka afstöðu til kærukostnaðar

Kærði kveðst mótmæla því harðlega að hafa valdið kæranda tjóni með innköllun á vöru sem metin hafi verið hættuleg almenningi. Vekur kærði athygli á því að kærandi hafi verið sömu skoðunar og kærði um nauðsyn þess að innkalla vöru og lögvilla kæranda um eðli innköllunar og undarlegs skilnings á því  hvaða aðilar teljist til matvörumarkaðar hér á landi sem og annars staðar geti ekki gert kærða ábyrgan fyrir hugsanlegu eða ímynduðu tjóni kæranda.

Kærði bendir á að kærandi telji að innköllun kærða hafi verið árangurslaus með öllu og að ekkert af vörunni hafi skilað sér í kjölfar innköllunar.  Með sömu rökum má halda því fram að árangur af innköllun hafi verið fullkominn þar sem í ljós hafi komið að enginn hafi beðið tjón af völdum vöru þar sem varað hafði verið við henni með innköllun.  Hafi kærandi orðið fyrir tjóni vegna opinberrar innköllunar kærða verði kærandi að gera grein fyrir því tjóni.  Þá ítrekar kærði enn á ný að tafir á því að rökstyðja ákvörðun hafi getað valdið kæranda tjóni.  Verður hvergi séð hvenig sá dráttur gat valdið kæranda tjóni.

Kærði krefst þess að úrskurðarnefndin staðfesti ákvörðun kærða um innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum.  Kærði krefst þess ennfremur að nefndin staðfesti ákvörðun kærða um opinbera innköllun og tilkynningu til fjölmiðla um hana.

Þá krefst kærði þess að nefndin vísi kröfu um kærukostnað frá.

Kærði bendir á að nefndinni beri fyrst og fremst að taka tillit til sjónarmiða í 1. og 3. gr. um matvæli nr. 93/1995.

Að lokum vill kærði taka fram að í greinargerð sinni sé mikið um endurtekningar, og sömu málsatriði oft margreifuð. Hafi hann kosið að svara kæranda á þennan máta lið fyrir lið, þrátt fyrir annmarka á kæru.  Aðalatriðin séu þau að kærði hafi tekið ákvörðun um dreifingarbann og innköllun á tiltekinni sendingu af frosnu grænmeti sem kærandi hafði flutt inn og selt á markað hér á landi. Hafi tilkynning um ákvörðun kæranda verið send honum með bréfi dags. 24. nóvember 2005 að undangengnu eftirliti á starfsstöð kæranda öflun gagna og mati á alvarleika máls.  Kærða hafi verið gefinn kostur á að koma að andmælum við ákvörðun kæranda, en hann hafi valið að samþykkja hana með yfirlýsingu um að hann gerði ekki athugasemd við ákvörðunina.  Kveður kærði að kærandi hafi átt val um að standa sjálfur fyrir innköllun í eigin nafni, en hafi krafist þess í stað að kærði stæði að innköllun.  Engu breyti í því efni þó kærandi hafi gefið fyrirheit um að auglýsa sjálfur innköllun um skyldu kærða sjálfs að tryggja að tilkynning um innköllun bærist til neytenda.

IV.

Ágreiningur máls þessa snýst um heimild kærða til innköllunar á vöru frá neytendum.  Kröfur kæranda eru þær að ákvörðun kærða dags. 29. nóvember 2005 um innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum verði felld úr gildi eða ógilt.

Að sú ákvörðun kærða að tilkynna fjölmiðlum um innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum grandvís um tilkynningu kæranda til fjölmiðla þessa efnis verði metin ólögmæt. Að í niðurstöðu Úrskurðarnefndar hollustuhátta- og mengunarmála verði kærða gert að greiða kostnað við að hafa kæruna uppi.

Kærandi telur að kærði hafi brotið 10-13. gr. ssl. með ákvarðanatöku sinni, en því mótmælir kærði.

Kröfur kærða eru að úrskurðarnefndin staðfesti ákvörðun kærða um innköllun á Hátíðarblöndu frá neytendum.  Kærði krefst þess ennfremur að nefndin staðfesti ákvörðun kærða um opinbera innköllun og tilkynningu til fjölmiðla um hana.

Þá krefst kærði þess að nefndin vísi kröfu um kærukostnað frá.

Í lögum um matvæli nr. 93/1995 er gerð sú krafa að tryggt sé að matvæli valdi ekki heilsutjóni sbr. 3. gr. og 10 gr.  Óumdeilt er að það sé á ábyrgð kærða að sjá til þess að þessum ákvæðum sé framfylgt.  Þá er í  29. gr. s.l. kveðið á um hver séu úrræði eftirlitsaðila en honum er m.a. heimilt að stöðva eða takmarka framleiðslu og dreifingu matvæla og leggja hald á þau þegar rökstuddur grunur er um að matvæli uppfylli ekki ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Þá er eftirlitsaðila heimilt að farga matvælum sem þeir leggja hald á.

Í máli því sem hér er til meðferðar fannst hluti músar í matvælum.  Óumdeilt virðist að samráð var með aðilum málsins við upphaf meðferðar málsins.  Svo virðist sem samráði hafi lokið við kröfu kærða um innköllun vörunnar frá neytendum en kærandi hafi verið ósammála því.  Með tilvísan til eðlis málsins og almannaheilla verður að telja að ákvörðun kærða um innköllun vörunnar frá neytendum og tilkynningu til fjölmiðla þar að lútandi hafi verið lögmæt. Ekki verður heldur talið að kærði hafi brotið gegn 10-13. gr. ssl. við  meðferð málsins.  Taka verður undir með kærða um að aðgerðir vegna aðskotahluta í matvælum verði að vinna hratt og því gefist ekki tími til að veita neina fresti til andmæla.  Ekki verður talið í ljósi eðlis málsins að aðgerðir kærða hafi verið svo íþyngjandi að þær yllu kæranda tjóni.

Ekki er á valdsviði úrskurðarnefndar að kveða á um kostnað við að hafa kæru uppi verður því að vísa þeirri kröfu frá.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ekki er fallist á kröfur kæranda í máli þessu.  Aðgerðir kærða í málinu er lögmætar.  Kröfu um greiðslu kostnaðar úr hendi kærða er vísað frá.

Lára G. Hansdóttir

Gísli Gíslason                                     Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 8/11/06

1/2006 Úrskurður vegna kæru Carls J. Eiríkssonar gegn Reykjavíkurborg.  

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2006, föstudaginn 30. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Guðrún Helga Brynleifsdóttir Gísli Gíslason og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2006 Carl J. Eiríksson, Skólagerði 47, 200 Kópavogi gegn Reykjavíkurborg vegna meintra oftekinna sorphirðugjalda að Ásgarði 22-24, Reykjavík.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Erindi Carls J. Eiríkssonar, Skólagerði 47, Kópavogi, hér eftir nefndur kærandi,  barst nefndinni með myndsendu bréfi hinn 3. janúar 2006.  Litið er á erindið sem stjórnsýslukæru.  Kærð er synjun Reykjavíkurborgar, hér eftir nefnd kærði,  um leiðréttingar á meintum ofteknum sorphirðugjöldum undanfarinna ára.  Er  tilgreint bréf kærða dags. 2. ágúst 2005, en kærandi kveðst hafa fengið það í hendur hinn 4. október 2005. Kærunni fylgdi á myndsendi afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 25. febrúar, 2005 svo og afrit af bréfi kærða dags. 2. ágúst 2005.   Kæranda var sent ítrekunarbréf um að skila frekari gögnum eins og hann boðaði í kæru sinni í janúar s.l.  Barst þá enn á myndsendi bréf hans dags. 14. febrúar 2006 ásamt afriti af bréfi til stjórnsýslu- og starfsmannasviðs kærða.  Er enn boðað að sendur verði frekari rökstuðningur á málinu sem fyrst eftir að tekist hafi að fá upplýsingar sem vanti.

II.

Í kæru kemur fram hjá kæranda að krafa sé gerð um leiðréttingar á meintum ofteknum sorphirðugjöldum. Telur kærandi að kærði rangtúlki lagagreinar sem vísað sé til að að ekki liggi fyrir heimild til þess að reikna út eignarhlut í fasteign eingöngu samkvæmt flatarmáli, heldur beri að reikna hann út samkvæmt rúmmáli o.fl. eins og fram komi í lögum. Kærandi kveður að þegar hann hafi keypt umrætt húsnæði hafi eignarhluti þess verið 2.9% af eigninni Ásgarði 22-24.  Áratugum síðar hafi verið gerður nýr eignaskiptasamningur og hafi kærandi þá fallist á, vegna þrýstings frá öðrum eigendum að hlutur hans yrði skráður 3.03% þótt það hafi þýtt meiri úgjöld fyrir sig í viðhaldskostnaði á eigninni.  Hafi þó húsnæði kæranda ekkert stækkað og telji hann því mjög ranglátt og reyndar fráleitt að það skuli seinna vera talið 5% af fasteigninni að Ásgarði 22-24.  Um það hafi hann ekkert fengið að vita.  Lýsir kærandi því yfir  að hann muni senda nánari rökstuðning þegar honum hafi tekist að fá svör kærða við bréfi sínu.

Með bréfi dags. í febrúar 2006  var ítrekað við kæranda að hann sendi frekari gögn og rökstuðnings til nefndarinnar.  Í svarbréfi kæranda kemur aftur fram að hann muni senda nánari rökstuðning í málinu sem fyrst eftir að hann hafi fengið þær upplýsingar sem vanti.  Meðfylgjandi svarinu sendi hann afrit af bréfi til Reykjavíkurborgar.

Enn hafa engin gögn borist úrskurðarnefndinni.

III.

Þrátt fyrir ítrekun hafa engin gögn borist nefndinni utan kæra í byrjun janúar svo og  svarbréf í febrúar þar sem kærandi boðar frekari rökstuðning í máli sínu.  Fram kemur í stjórnsýslulögum að veita skuli kæranda frest til að skila gögnum og var það gert.  Eins og málið liggur fyrir er það vanreifað.  Málinu er því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Málinu er vísað frá.

Lára G. Hansdóttir

                                                                                          Gísli Gíslason                                Guðrún Helga Brynleifsdóttir

 

Date: 8/11/06

10/2005 Úrskurður vegna kæru Kjartans Þórs Eimilssonar gegn Umhverfisráði Reykjavíkur.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2006, föstudaginn 30. júní, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík. Mætt voru Gísli Gíslason, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2005 Kjartan Þór Emilsson, Skógarseli 39, Reykjavík, gegn Umhverfisráði Reykjavíkur.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður :

I.

Stjórnsýslukæra Jóns Egilssonar hdl. f.h. Kjartans Þórs Emilssonar, hér eftir nefndur kærandi er dags. 3. júní 2005, en barst úrskurðarnefnd 10. júní 2005. Kærð er ákvörðun Umhverfisráðs Reykjavíkur, hér eftir nefnt kærði, um að hafna skráningu á hundinum Tarak í Reykjavík.

Gögn sem kærunni fylgdu eru :

1) Afrit af ákvörðun Umhverfisstofu kærða dags. 2. nóvember, 2004.

2) Afrit af andmælum við ákvörðun Umhverfisstofu dags. 16. nóvember, 2004.

3) Svör Umhverfisstofu við andmælum dags. 1. des. 2004.

4) Athugasemdir sendar Umhvefisstofu dags. 6. janúar, 2005.

5) Afrit af kæru ákvörðunar Umhverfisstofu dags. 28. janúar, 2005.

6) Afrit af ákvörðun kærða dags. 4. apríl, 2005.

7) Afrit af beiðni um endurupptöku dags. 20. apríl, 2005.

8) Afrit af fundargerð kærða, dags. 2. maí, 2005.

9) Afrit af ákvörðun kærða um synjun endurupptöku dags. 30. maí, 2005.

10) Afrit af gögnum um skráningu Taraks í Kópavogi.

11) Afrit af greiðslukvittun hundagjalda í Kópavogi 26. janúar, 2004.

12) Afrit af umsókn um hundaleyfi í Reykjavík og greiðsla 14. október 2004.

13) Afrit af frásögn Hörpu Karenar Hjaltadóttur vegna fyrra tilviks.

14) Afrit af lögregluskýrslu dags. 9. nóvember 2001.

15) Afrit af frásögn Önnu G. Ólafsdóttur blaðamanns vegna seinna tilviks.

16) Afrit af lögregluskýrslu dags. 10. ágúst 2004.

17) Afrit af skapgerðarmati Hönnu M. Arnórsdóttur dýralæknis.

18) Afrit af vottorði Katrínar Harðardóttur.

19) Afrit af áætlun og mati Ástu Dóru hjá hundaskólanum Galleríi Voff.

20) Afrit af bréfi Aprílar M. Frigge, dags. 23. desember, 2004.

21) Afrit af bréfi Maríu Priscilla Xanoria, dags. 29. desember, 2004.

Afrit af gögnum kæranda var sent kærða með bréfi dags. 9. júlí 2005. Greinargerð kærða barst í lok nóvember 2005 en er dagsett 9. nóvember. Spurst hafði verið fyrir um greinargerð símleiðis.

II.

Lögmaður kæranda kærir ákvörðun kærða um synjun á skráningu á hundinum Tarak í Reykjavík. Kveður lögmaður kæranda aðdraganda vera þann að hinn 2. nóvember 2004 hafi Umhverfisstofa tekið þá ákvörðun að eigin frumkvæði að aflífa skyldi hundinn Tarak. Þann 4. apríl 2005 hafi kærði fellt ákvörðun um aflífingu úr gildi en ákveðið að hundurinn fengi ekki leyfi til skráningar í Reykjavík. Farið hafi verið fram á endurupptöku málsins en 30. maí 2005 hafi kærði ákveðið að synja um endurupptöku málsins. Því sé ákvörðun kærða kærð til úrskurðarnefndar og þess krafist að hundruinn Tarak fái að búa hjá eigendum sínum í Reykjavík.

Lýsir lögmaður kæranda málsatvikum svo að Umhverfisstofa hafi farið fram á aflífun hundsins með vísan til 2. mgr. 19. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík, nr. 52/2002 en þar sé gert að skilyrði að leitað hafi verið álits sérfróðra aðila s.s. dýralæknis eða hundaþjálfara, sem viðurkenndur sé af Heilbirgðiseftirliti Reykjavíkur, áður en ákvörðun um aflífun sé tekin. Á þessum grundvelli hafi kærði farið fram á skapgerðarmat frá Hönnu M. Arnórsdóttur dýralækni. Segi dýralæknirinn í mati sinu að auðvelt sé að vinna á vanda Taraks og leggi hún þannig til að hundurinn fá tækifæri gegn því að kærendur taki athugasemdir alvarlega og geri sér jafnframt grein fyrir afleiðingum þess ef atvik sem þetta kæmi fyrir aftur. Þá komi fram hjá dýralækninum að auðvelt sé að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur þar sem auðvelt sé að greina þær aðstæður sem hundurinn sýni þessa hegðun við. Þannig mæli dýralæknirinn ekki með aflífun og verði ekki séð að unnt sé að byggja aflífun á 2. mgr. 19. gr. hundasamþykktar. Umhverfisstofa virðist réttlæta niðurstöðu sína með því að taka eina setningu úr álitinu þar sem dýralæknirinn segi að eigendur hundsins hafi sýnt kæruleysi þegar þeir leyfðu hundinum að vera meðal barnanna vitandi það að hann átti til að sýna slíka hegðun ef ágengni krakka í hann varð of mikil. Lögmaður kæranda bendir á að rangt sé hjá dýralækni að hundurinn hafi átt það til að sýna svona hegðun ef ágangur krakka í hann hafi verið of mikill. Aðeins einu sinni fyrir umrætt atvik hafði hundurinn glefsað til barns en það hafi verið við mjög sérstakar aðstæður þar sem barn hafi tekið hundinn kyrkingartaki. Kærandi bendir á að þessa setningu hafi dýralæknirinn ekki byggt á neinu mati heldur sé þarna um einhvers háttar misskilning að ræða. Þannig virðist Umhverfisstofa ekki byggja á niðurstöðu dýralæknis heldur ákveði að taka eina setningu úr matinu, setningu sem sé þess eðlis að hún byggist ekki á mati læknisins. Þá taki hún ekki tillit til þess sem einnig segi í áliti dýralæknisins að mjög auðvelt sé að koma í veg fyrir þessa hegðun hundsins. Kveður lögmaður kæranda að umbjóðendur sínir hafi tekið athugasemdir til greina og farið á sérstakt námskeið af því tilefni, en alrangt sé að hundurinn hafi átt til að sýna þessa hegðun við ágang barna. Með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefði Umhverfisstofa átt að fara eftir niðurstöðu þess sérfróða aðila sem óskað var álits frá. Þá sé þess krafist í 2. mgr. 19. gr. umræddrar samþykktar að hundur teljist hættulegur. Enginn sérfræðingur sem komið hafi að máli þessu hafi talið hundinn hættulegan.

Lögmaður kæranda kveður varðandi hið fyrra tilvik sem átt hafi sér stað í september 2001 liggi fyrir yfirlýsing stúlkunnar Hörpu Karenar Hjaltadóttur. Segi hún að hún hafi tekið fast um háls hundsins þannig að hann hafi ekki náð almennilega andanum og kurrhljóð komið frá honum. Hundurinn hafi brugðist svo við með því að veita henni litla rispu á kinn við að losa sig frá henni. Stúlkan hafi umgengist hundinn nánast daglega eftir þennan atburð og hafi hann aldrei sýnt annað en gott viðmót. Bendir lögmaður á að hundar séu dýr en ekki vélmenni og sýni því viðbrögð við aðstæðum líkt og menn. Telja verði því að þessi viðbrögð hundsins séu ekki óeðlileg miðað við aðstæður en þarna hafi lífslöngun haft ósjálfráð viðbrögð í för með sér. Þá hafi Umhverfisstofa byggt á lýsingu Önnu G. Ólafsdóttur blaðamanns varðandi atburðarrásina. Liggi fyrir skrifleg yfirlýsing hennar í gögnum málsins. Hafi verið um slys að ræða að mati hennar. Hundinum hafi virst sem stelpan ætlaði að hrifsa mat af honum. Sé þetta í samræmi við það sem aðrir viðstaddir hafi haft um málið að segja en Umhverfisstofa hafi kosið að ræða ekki við aðra viðstadda. Þannig sé aðdraganda slyssins ranglega lýst í ákvörðun kærða.

Lögmaðurinn lýsir því að kærði byggi á því að bitið hafi verið það alvarlegt að ígerð hafi komið í sárið. Bendir lögmaður á að menn verði að gera sér grein fyrir því að aðeins þurfi roða í húðþekju til að sýking geti komið í sár. Húð þurfi einungis að opnast lítillega til að af sýkingu geti orðið. Hér hafi ung stúlka farið á bráðamóttöku eftir “hundsglefs”. Þeir sem hlúð hafi að henni hafi ekki gefið henni stífkrampasprautu eins og algengast sé eftir hundsbit þar sem þeir hafi ekki talið hættu á sýkingu. Gera verði greinarmun á glefsi og hundsbiti. Lögmaðurinn kveður kærða byggja ranglega á því að hundurinn hafi verið óskráður og ótryggður þegar umrætt atvik hafi átt sér stað. Slíkt sé ekki rétt. Hundurinn hafi verið skráður hjá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá því hann var hvolpur fram til 3. desember 2004 þegar kærandi hafi flutt til Reykjavíkur, en þar sé aðstaða til hundahalds mjög góð. Kærandi hafi ávallt farið eftir samþykkt um hundahald og verið til fyrirmyndar. Hundurinn hafi verið skráður og tryggður eins og getið sé um í samþykkt um hundahald.

Ákvörðun Umhverfisstofu hafi verið kærð til kærða sem hafi réttilega úrskurðað að ekki þyrfti að aflífa hundinn. Kærði hafi hins vegar úrskurðað að hundurinn fengi ekki leyfi til að vera skráður í Reykjavík. Með hliðsjón af meðalhófs- og jafnræðisreglum stjórnsýslulaga sé þetta afar einkennileg ákvörðun. Hafi dýralæknar staðfest að auðvelt sé að koma í veg fyrir slys sem orðið hafi og kærandi hafi fengið sérstaka kennslu hjá virtum hundaþjálfara til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Hafi verið farið fram á að kærði endurupptæki málið, en þeirri beiðni hafi verið hafnað. Samkvæmt samtali við starfsmenn kærða segi þeir ákvörðun byggða á því að hundurinn hafi verið óskráður, sem sé ekki rétt.

Ítrekar lögmaður kæranda að rangt sé að hundurinn hafi verið óskráður og ótryggður, en að auki verði að líta til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Hafi kærandi greitt hundaeftirlitsgjald hinn 26. janúar 2004 í Kópavogi og þar hafi hundurinn verið skráður til 3. desember 2004. Eftir að eigendur hafi greitt lokagreiðslu af fasteign sinni þar sem þau nú búa hafi þau sent inn beiðni til að halda hundinn í Reykjavík og greitt þess vegna kr. 15.400,-. Þannig hafi þau greitt tvöfalt gjald og tvöfaldar tryggingar vegna hundsins fyrir árið 2004. Ekki sé hægt að fallast á það sem ámælisverð brot á hundasamþykkt þegar aðstaða sé með þessu móti. Gæta verði jafnræðis með þegnum. Ekki sé óalgengt að hundar séu árum saman óskráðir og þegar upp komist um brot sé eigendum gert að skrá hunda og borga gjald fyrir yfirstandandi ár, en engin önnur viðurlög.

Lögmaðurinn bendir á að í sjö stafliðum 3. gr. samþykktar nr. 52/2002 um hundahald í Reykjavík komi fram þau skilyrði sem uppfylla þurfi svo hundur fái leyfi til skráningar í Reykjavík. Uppfyllli kærandi og hundur þeirra öll þau skilyrði sem þar komi fram. Eigandi sé lögráða, umsækjandi hafi sótt námskeið um hundahald, eigandi búi i einbýlishúsi með stórum garði, í gildi sé ábyrgðartrygging vegna hundsins og hundurinn sé örmerktur. Í staflið c komi fram að heimilt sé að hafna umsókn hafi umsækjandi gróflega eða ítrekað gerst brotlegur við samþykktina eða lög um dýravernd. Ekki verði með nokkru móti séð að kærandi hafi ítrekað eða gróflega brotið gegn samþykkt. Hundurinnn hafi ávallt verið skráður og til mikillar fyrirmyndar að umræddum tveim slysum frátöldum. Kærandi hafi ávallt farið vel með hund sinn. Hann hafi aldrei verið laus utandyra. Aldrei hafi verið kvartað undan honum á þeim ellefu árum sem hann hafi lifað og hann hafi aldrei valdið ónæði að umræddum tveim slysum frátöldum. Ítreka verði að fyrra tilvikið hafi ekki gefið ástæðu til sérstakra viðbragða og það tilvik geti ekki talist dæmi um grimmd hundsins. Síðara tilvikið sé slys sem verði þegar verið sé að fæða hund og áverkar stúlkunnar sýni og sanni að hundurinn hafi ekki bitið hana því þá hefðu áverkar verið aðrir og meiri en raun varð. Megi því ljóst vera að hundurinn hafi ekki bitið en við ákveðnar aðstæður hafi hann brugðist við með glefsi.

Vísar lögmaðurinn til þess að kærandi hafi í samráði við dýralækni farið með hundinn á námskeið hjá Ástu Dóru sem sé einn helsti og virtasti kennari í tamningu hunda. Bæði hún og dýralæknririnn séu sammála um að hundur sé ekki grimmur og auðvelt verði að færa hann niður í virðingarstiganum og að góð tengsl séu milli hunds og eigenda. Það sem finna hafi mátt að sé að eigendur hafi verið of góð við hund sinn. Nú hafi verið tekið á því og sé hundurinn eins gallalaus og hundur geti orðið. Með vísan til þess að sérfræðingar telji hundinn ekki grimman og þess að kærandi og hundurinn hafi gengist undir 5-7 vikna námskeið sé gerð sú krafa að hundurinn fái að vera hjá eigendum sínum í Reykjavík. Þá er krafist frestunar á réttaráhrifun kærðrar ákvörðunar meðan kæran sé til meðferðar hjá nefndinni. Mæli aðstæður í máli þessu sérstakelga með því þar sem um sé að ræða ellefu ára gamlan hund.

Með bréfi dags. 27. október 2005 sendi lögmaður kæranda umfjöllun hundaþjálfara um hundinn. Komi þar fram að hundurinn hafi lært virðingarröð á heimili, að gelta ekki á gesti og fl. Sé það mat hundaþjálfara að hundurinn ætti að fá að eyða ævikvöldi í faðmi fjölskyldu. Hafi engar kvartanir borist frekar vegna hundsins.

Lögmanni kæranda var sent afrit af greinargerð kærða. Er svar lögmannsins dags. 13. febrúar s.l. Þar ítrekar lögmaður að hundurinn hafi verið skráður í Kópavogi. Bendir hann á það sem að framan er komið fram um námskeið hundsins og eigenda hjá hundaþjálfara. Ennfermur er til þess vísað að aldrei hafi borist kvartanir vegna hundsins eða lausagöngu hans. Gerir lögmaður kæranda athugsemdir við greinargerð kærða þar sem ekki sé upplýst um skráningarreglur hjá Reykjavíkurborg þegar tilkynnt sé um óskráðan hund í borginni. Bendir lögmaður á að ekki sé gætt jafnræðis í því hvernig kærði taki á óskráðum hundum sem finnist og þeim reglum sem beita eigi kæranda í máli þessu. Þá vísar lögmaður og til aldurs hundsins og þess að um sé að ræða dýr sem lendi í sérstakri aðstöðu og bregðist við sem slíkur, enda um dýr að ræða. Ítrekar lögmaður það sem áður er fram komið um viðbrögð dýrs í hættu. Kveður kæranda og fjölskyldu hans ekki geta sætt sig við þá niðurstöðu að þau séu ekki hæf til hundahalds og hafi þessi afstaða lagst þungt á fjölskyldu sem óréttmæt miðurstaða sem ekki fái staðist. Hundurinn sé ekki hættulegur, eigendur séu hæfir til hundahalds, langt sé um liðið síðan atvikið varð. Ítrekar lögmaður kröfur sínar um skráningu hundsins í Reykjavík.

III.

Greinargerð kærða er dags. 8. nóvember 2005. Kærði bendir á að ekki verði séð að í kæru komi fram neinar nýjar ástæður sem gefi tilefni til athugsemda sem ekki hafi þegar komið fram í málinu. Vísi kærandi einkum til þess að nú sé viðkomandi hundur orðinn því næst gallalaus og vísar á bug að eigandi hundsins hafi brotið gegn hundasamþykkt Reykjavíkur. Kærði bendir á að svo sem fram komi í gögnum málsins hafi viðkomandi hundur ekki verið skráður í Reykjavík skv. samþykkt um hundahald í Reykjavík. Skráning í öðru sveitarfélagi skipti engu máli varðandi ákvörðun kærða um að synja um skráningu á hundi í Reykjavík og skráning hunds í Kópavogi jafngildi ekki skráningu í Reykjavík. Vísar kærði til þess að synjun hans hafi byggt á því að viðkomandi hundaeigandi hafi gerst brotlegur við samþykkt um hundahald í Reykjavík með því að skrá ekki hundinn þar skv. reglum þar um sbr. 7., 8. og 20. gr. samþykktar nr. 52/2002 í Reykjavík. Þá sé einnig leitt í ljós í málinu að tvívegis hafi það hent að hundurinn hafi bitið menn og því ekki farið að fyrirmælum 2. mgr. 19. gr. samþykktarinnar. Kærandi hafi ekki mótmælt þeim atvikum en telji þau afsakanleg með tilliti til aðstæðna á hverjum tíma. Það að brot sé afsakanlegt dregur ekki úr alvarleika þess að mati kærða. Kærði vísar og til þess að kærandi telji að meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin í málinu. Kveður kærði að meðalhófsreglu hafi einmitt verið beitt í málinu þar sem kærði hafi beitt vægasta úrræði sem fyrir hendi hafi verið í málinu, þ.e. að synja um skráningu á hundinum í Reykjavík í stað þess að staðfesta ákvörðun um aflífun hundsins

IV.

Mál þetta snýst um skráningu hunds í Reykjavík. Krafa kæranda er að ákvörðun kærða um að hafna skráningu hundsins Taraks í Reykjavík verði felld úr gildi. Kærði krefst þess að niðurstaða hans um að hafna skráningu hundsins verði staðfest.

Svo sem kunnugt er, er bann við hundahaldi í Reykjavík, nema að fenginni undanþágu að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í samþykkt um hundahald í Reykjavík, nr. 52/2002. Í 3. gr. samþykktanna eru skilyrði fyrir undanþágu. Vísar kærði til 19. gr. hundasamþykktar um heimild til þess að hafna skráningu hundsins í Reykjavík. Vísa verður til þess að í málinu liggja fyrir umsagnir dýralæknis og hundaþjálfara vegna hundsins. Niðurstaða kærða er að staðfesta ekki úrskurð um aflífun. Ekkert í gögnum málsins styður þá ákvörðun að synja um skráningu hundsins. Verður því fallist á kröfu kæranda í málinu og lagt fyrir kærða að skrá hundinn Tarak.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfu kæranda í málinu. Lagt er fyrir kærða að skrá hundinn Tarak.

Lára G. Hansdóttir

Gísli Gíslason                               Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 8/11/06

3/2005 Úrskurður vegna kæru Karató ehf. vegna Hallarinnar gegn Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005, miðvikudaginn 27. apríl, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Guðrún Helga Brynleifsdóttir Gunnar Eydal og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2005  Karató ehf. gegn Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra Karató ehf. vegna Hallarinnar, hér eftir nefndur kærandi  er dagsett 6. febrúar 2005.  Kærð er ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um takmörkun á starfsemi Hallarinnar við opnunartíma til kl 01.00 alla daga frá og með 17. janúar s.l.  Heilbrigðiseftirlit Suðurlands er hér eftir nefnt kærði. Gögn sem kærunni fylgdu eru :

1)      Afrit af bréfi kærða dags. 7. desember  2004 um niðurstöðu mælinga og þvingunaraðgerðir.

2)      Afrit af bréfi kærða dags. 5. janúar, 2005, svar kærða við tölvupósti kæranda dags. 29. desember 2004.

Afrit af gögnum kæranda var sent kærða  sem svaraði með bréfi dags. 3. mars, 2005 og greinargerð ásamt eftirfarandi fylgiskjölum :

1)      Afrit af starfsleyfi til handa Höllinni- Karató útg. 27. júní, 2001.

2)      Afrit af starfsleyfi til handa Höllinni-Karató útg. 26. apríl, 2002.

3)      Afstöðumynd hússins ásamt brunavarnaruppdrætti, grunnmynd 2. hæðar.

4)      Afrit af greinargerð kærða v. hávaðamála, dags. 18. nóvember, 2002.

5)      Afrit bréf ásamt mæliskýrslum frá Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur v. Hallarinnar.

6)      Afrit af bréfi kærða til kæranda v. hávaðamælinga dags. 29. apríl, 2002.

7)      Afrit af bréfi kærða  dags. 24. maí 2002.

8)      Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 17. október 2002 ásamt bréfi kærða til kæranda dags. 8. janúar, 2003 og bréfi kæranda dags. 14. janúar, 2003 og 27. janúar 2003.

9)      Afrit af fundargerð fundar heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 5. febrúar 2003.

10)  Afrit af bréfi til kærða dags. 5. maí, 2003, v. hávaðamælinga við Höllina.

11)  Afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 6. maí, 2003.

12)  Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 27. maí, 2003 vegna hávaðavarna Hallarinnar.

13)  Bréf kærða til kæranda dags. 1. júlí 2003.

14)  Afrit af bréfi  Höskuldar Kárasonar dags. 12. júlí 2003 til kærða hávaðamæling.

15)  Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 29. september, 2003.

16)  Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 22. október, 2003 ásamt afriti af bréfi vegna hávaðamælingar, afriti af bréfi kæranda til kærða dags. 1. október, 2003 og afrit af svarbréfi kærða til kæranda dags. 7. október, 2003.

17)  Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 20.nóvember, 2003, tilkynning um ákvörðun.

18)  Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 23. febrúar, 2004 v. hávaðavarna Hallarinnar.

19)  Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 2. mars, 2004 v. hávaðavarna ásamt niðurstöðu hávaðamælinga 29. febrúar, 2004 og afriti af tölvupósti kæranda.

20)  Afrit af bréfi Höskuldar Kárasonar dags. 10. apríl, 2004 með niðurstöðum hávaðamælinga.

21)  Afrit af bréfi kærða dags. 13. apríl  2004 og afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 23. apríl  2004.

22)  Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 17. ágúst 2004, afrit af bréfi kæranda til kærða ódags. svo og afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 23. júlí 2004, bókun heilbrigðisnefndar Suðurlands.

23)  Afrit af bréfi Höskuldar Kárasonar dags. 28. nóvember 2004, hávaðamæling.

24)  Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 7. desember, 2004, afrit af bréfi Höskuldar Kárasonar dags. 28. nóvember 2004, hávaðamæling og afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 10. desember 2004.

25)  Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 15. desember 2004, tilkynning um þvingunaraðgerðir.

Afrit af gögnum kærða var sent kæranda sem svaraði með athugasemdum dags.

17. mars, 2005.

II.

Kæranda kærir ákvörðun kærða um þvingunaraðgerðir, sem komu til framkvæmda 17. janúar s.l. Þvingunaraðgerðirnar fólust í því að skerða opnunartíma Hallarinnar, skemmtistaðar kæranda  við kl. 01:00 hverja nótt vegna hávaða.  Kærandi vísar til þess að allt frá fyrstu skóflustungu hafi tveir nágrannar hússins kært starfsemi hússins vegna hljóðmengunar og matarlyktar.  Gerir kærandi grein fyrir því að húsið sé 1200 fermetrar að grunnfleti og skiptist m.a. í tæplega 700 fermetra aðalsal og 200 fermetra koníaksstofu.  Húsið hafi verið opnað í maí árið 2000 og hafi hýst helstu menningaratburði í Vestmannaeyjum síðan.  Á síðasta ári hafi verið alls 16 dansleikir og af þeim u.þ.b. 5 sem flokkist undir hávaðasamar hlómsveitir.  Dansleikjafjöldi þessi þyki mjög lítill á landsvísu þar sem flest hús séu með milli 4-8 dansleiki á mánuði. Kærandi kveðst ávallt hafa reynt að vinna að öllum þeim úrbótum sem heilbrigðisnefnd Suðurlands hafi óskað eftir.  Vísar kærandi til þess að talið hafi verið að hljóðleki hafi mestur verið út um mænisglugga sem um leið sé reyklosun og hafi verið sett sérpöntuð postulínshúð sem máluð hafi verið á glerið og talið hafi verið að myndi lækka hljóðið út þaðan um 40%. Síðar hafi verið ráðist í ennþá stærri og fjárfrekari framkvæmd.  Hafi geymsluherbergi verið smíðað á austurvegg hússins sem nýtist sem geymsla fyrir hljóðfæri, stativ og snúrur.  Hafi veggir verið einangraðir með 4 tommu steinull og gipsklæddir til betri einangrunar.  Þá hafi stórt fundarherbergi verið smíðað í norð-austurhorni hússins við hliðina á sviði.  Sama einangrun og tvöföld gipsklæðning hafi verið notuð.  Herbergið skermi af 4 stór gluggabil sem snúi að Fjólugötu 27.  Að auki hafi verið keyptur svokallaður hljóðvaki og settur á kerfi hússins.  Hljóðvakinn hafi verið settur upp og stilltur af viðurkenndum hljóðmanni.  Aðgerðir þessar hafi allar skilað miklum árangri að mati kæranda og hafi verið nokkur friður fyrst á eftir.  Hljóðvakinn hafi svo bilað s.l. haust og þá hafi kvartanir hafist aftur frá nágrönnum.  Hljóðvaki hafi þá verið lagfærður og endurstilltur. Heilbrigðisnefnd Suðurlands hafi svo látið hljóðmæla hinn 28. nóvember s.l. og í kjölfar þeirra mælinga hafi verið send tilkynning um þvingunaraðgerðir 17. janúar s.l.  Getur kærandi þess sérstaklega að stórhljómsveitin Sálin hans Jóns míns hafi spilað þetta kvöld.  Kærandi mótmælir fyrrgreindum mælingum, þó svo hann kveðist vita að meira heyrist frá stórhljómsveit eins og þeirri sem tilgreind er sem sé með mikinn sviðsbúnað og keyri músíkina þéttar en flestar hljómsveitir.  Kærandi kveður að þessa nótt hafi mikil umferð verið í bænum og veður ekki gott, mikil umhverfishljóð hafi því verið og ekki unnt að staðsetja meðalstyrk.  Kærandi kveður að vindhraði megi ekki vera skv. staðli yfir 5 m á sek. annars fari hávaði frá vindinum að hafa áhrif til hækkunar á mælinguna.  Blautar götur og aðrir fletir endurkasti meira hljóði en þurrar þannig að hávaði mælist meiri en við staðalaðstæður.  Þá kveður kærandi að vindur geti valdið truflun á mælingu innandyra, aðallega þegar mæld séu lágtíðnihljóð.  Sé hávaði frá vindi sem skelli á rúðum og húsi umtalsverður sé ekki hægt að framkvæma mælingar innandyra.  Meðan hljóðmælingar hafi verið gerðar hafi verið mikil bílaumferð í næsta nágrenni og alla leið niður við kirkju og hafi sá umferðarhávaði farið mjög hátt upp. Kveðst kærandi af þessum ástæðum kæra mælingarnar og óski eftir því að þvingunaraðgerðum verði aflétt tafarlaust.  Kærandi bendir á að hann hafi ásamt hljóðmanni hússins verið að skoða leiðir til lagfæringar eða lækkunar hljóðstyrks.  Hafi hátalarbox sem hengd voru í keðjur neðan í þakbitana verið tekin niður og færð niður á svið.  Telji kærandi að þetta skili strax árangri.  Þá hafi verið haft samband við bæjarstjóra um aðstoð við frekari aðgerðir og aðkomu að málinu.  Hafi bæjarstjóri tekið vel í málaleitan og sé allur af vilja gerður til að koma inn í málið með einhverjum framkvæmdum.  Hafi bæjarstjóri nefnt að hljóðhönnuður sé væntanlegur í bæinn vegna íþróttahússins og muni hann koma því við að sá skoði hús kæranda í leiðinni. Þá hafi bæjartæknifræðingur lofað aðstoð í málinu og sé verið að kanna svokölluð hljóðtjöld til að klæða sviðið innan.

Í athugasemdum við greinargerð og gögn kærða minnir kærandi á að í Vestmannaeyjum sé afar vindasamt.  Því hafi umhverfishljóð gífurlega mikil áhrif á mælitæki manna sem notuð séu við hljóðmælingar.  Telur kærandi að ekki hafi verið vandað nægilega til hljóðmælinga við Höllina og hafi kærandi aldrei fengið svör við því á hvern máta augljós umhverfishljóð hafi verið dregin frá í mælingum.  Kærandi vísar til þess að þegar starfsleyfi hafi verið veitt hafi legið fyrir umsagnir og afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar fyrir starfsemi hússins.  Í byrjun árs 2002 hafi verið settur upp hljóðvaki til að hindra að hávaði færi yfir ásættanleg mörk.  Hafi kerfið verið stillt fyrir 95dB og toppur á 110 dB.  Nýr vaki hafi verið keyptur í apríl, 2003.  Þá hafi lagfæringar verið gerðar á mænisglugga eftir endilöngu húsinu og einnig hafi verið sett upp herbergi í norðausturhluta salar til að loka af stór gluggabil næst íbúðabyggðinni austan og ofan við Höllina.  Kærandi vísar enn til þess að hávaði í bifreiðum hafi hækkað mælingu um 60-80 dB.  Hafi kærandi ítrekað gert athugasemdir við mælingar, en svarið hafi verið að tillit yrði tekið til þess, án þess að nokkur grein hafi verið gerð fyrir viðmiðunum.

Kærandi mótmælir greinargerð kærða.    Umsögn um að Höllin sé nær ballhúsi svarar kærandi svo að slíkar fullyrðingar séu alrangar.  Böll árið 2004 hafi alls verið 16.  Dansleikir með vinsælustu og öflugustu hljómsveitunum séu 4-5 á ári.  Mælingar hafi undantekningarlaust verið gerðar þegar stórhljómsveitir hafi verið að spila.   Þá bendir kærandi á þekkingarleysi kærða varðandi lausn á hljóðdreifingu þegar kærði tali um uppsetningu á mön undir glugga til að koma í veg fyrir að hljóð komi út  um mænisglugga.  Kveður kærandi að slíkt sé ekki framkvæmanlegt nema að mokað sé yfir húsið.  Kærandi bendir á aðkomu lögreglu að málinu vegna margvíslegra athugasemda.  Þá bendir kærandi á að þegar þvingunaraðgerðir hafi verið settar hafi hann enn verið að vinna að ýmsum þáttum í úrbótum til þess að stuðla að friði um Höllina og starfsemi hennar.  Einhvers staðar hljóti þó mörkin að vera.  Kærandi kveðst hafa verið í Reykjavík í mars, til þess að skoða hvað unnt væri að gera.  Óskað hafi verið álits á hljóðeinangrun hússins og fáist álit á næstu vikum.  Ræddir hafi verið möguleikar á stillingu og uppsetningu hljóðkerfa við færan sérfræðing á því sviði og fleiri möguleikar séu til skoðunar.  Þá hafi kærandi boðist til þess að kosta ísetningu á gleri í hús kvörtunarmanna, þreföldu gleri sem takmarka eigi hljómburð utan frá inn í húsin. Allt þetta sýni að kærandi hafi fullan vilja og sé enn að vinna að endurbótum.  Með tilvísan til alls þessa óskar kærandi eftir því að þvingunarbanni verði nú þegar aflétt.

III.

Bréf  kærða, sem greinargerð og gögn fylgdu, er dags. 3. mars, 2005. Greinir kærði frá því að fyrsta erindi sem borist hafi kærða vegna Hallarinnar veitingastaðar kæranda hafi verið 11. maí, 2000 beiðni um umsögn við teikningar frá byggingarfulltrúa.  15. júní, 2001 hafi borist umsókn um starfsleyfi frá forsvarsmönnum kæranda.  Sama dag sé umsögn veitt af sýslumanni, en þar komi fram að kærði geri ekki athugasemdir við að Höllin verði nýtt sem skemmtistaður “svo framarlega sem staðið sé við þær kröfur sem gerðar hafa verið s.s. í sambandi við þrifaáætlanir, fjölda gesta og hávaðatakmarkanir.”  Starfsleyfi hafi verið afgreitt 27. júní 2001 enda hafi legið fyrir afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins á málinu.  Veitt hafi verið leyfi vegna skemmtistaðar með veislu- og framleiðslueldhúsi.  Leyfið hafi verið endurnýjað 26. apríl, 2002 og þá vegna skemmtistaðar, veisluþjónustu og framleiðslu tilbúinna rétta.

Kveður kærði að fljótlega eftir að starfsemi hafi hafist hafi farið að bera á kvörtunum nágranna vegna hávaða frá samkomuhaldi í Höllinni.  Séu til margvísleg gögn um kvartanir yfir hávaða.  Kærði kveðst hafa unnið úr kvörtunum með eftirliti hjá kærða auk þess sem settar hafi verið fram kröfur til að fyrirbyggja meint ónæði sem íbúar hafi orðið fyrir.  Tekur kærði fram að einungis hafi verið gerðar alvarlegar athugasemdir er snerti hávaða frá starfseminni en aðbúnaður, umgengni oþh. hafi oftast verið í mjög góðu lagi.  Deilt hafi verið um hvort húsið í heild sinni sé heppilegt til dansleikja- og skemmtanahalds, en það sé grind úr límtrésbitum, með álklæðningu auk þess sem ein hlið hússins/salarins sé gler. Eftir endilöngu þaki hússins sé svo mænisgluggi sem talið hafi verið að “læki” hávaða.  Hafi íbúar við Smáragötu og Fjólugötu kvartað yfir hávaða og hafi mælingar verið gerðar við þessar götur.  Leitað hafi verið leiða bæði með forsvarsmönnum fyrirtækisins og íbúum í nágrenni þess til að ná fram settum markmiðum um hávaðatakmarkanir en þær hafi ekki náð tilætluðum árangri.  Málið sé búið að vera í nokkuð stöðugri meðferð hjá kærða alveg frá því starfsemi hófst.

Kærði gerir grein fyrir því að þegar heilbrigðisnefndir sveitarfélaga beiti sér vegna hávaða með atvinnustarfsemi gildi um það reglugerð nr. 933/1999 um hávaða, sbr. og reglugerð nr. 478/2003 um breytingu á fyrrgreindri reglugerð.  Skv. 1. gr. rgl. gildi hún um viðmiðunargildi fyrir hávaða og hávaðavarnir og eigi m.a. við um atvinnurekstur.  Þá sé að finna almennt ákvæði í rgl. nr. 941/2002 sem vísi jafnframt í hávaðareglugerð.  Þá vísar kærði til þess að byggingareglugerð gildi um hávaða sem berist með byggingum og byggingarhlutum og lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum um hávaða frá vinnustöðum.  Hafi því kærði stuðst við rgl. nr. 933/1999, rgl. nr. 941/2002 og l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir við meðferð málsins og ákvarðanatöku.  Í samræmi við 22. gr. áðurnefndrar hollustuháttareglugerðar hafi heilbrigðisnefnd Suðurlands sett fram ákvæði um hávaðatakmarkanir á samkomum.  Hafi verið samþykkt á fundi nefndarinnar 24. apríl, 2001 að miða jafngildishljóðstig við 95dB og hávaðatopp við 110 dB.  Hafi ákvörðunin tekið mið af þeim hávaðatakmörkunum sem Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafi sett  og séu gildin þau sömu og þar.  Sé þessi samþykkt um hávaðatakmarkanir enn í gildi.  Þar með hafi verið hægt að gera mælingar innandyra í Höllinni með það fyrir sjónum að meta hvort hávaði hafi verið of mikill eða ekki .  Auk þess hafi mælingar verið gerðar utandyra, í íbúðabyggð, þar sem tekið hafi verið mið af þeim kröfum sem gildi um hávaða í íbúabyggð að næturlagi skv. reglugerð umhávaða nr. 933/1999.  Ennfremur hafi verið gerðar mælingar inni í híbýlum íbúða, bæði meðan á dansleikjahaldi stóð og svo mæld “eðlileg” umhverfishljóð.

Þar sem kærði eigi ekki viðurkenndan mælibúnað fyrir hljóðmælingar hafi sú þjónusta verið keypt af Höskuldi Kárasyni, Vinnueftirliti ríkisins í Vestmannaeyjum og Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur.  Gerir kærði grein fyrir því sem máli skiptir vegna ákvörðunar nefndarinnar :

1)      Kærði hafi fengið sérfræðing Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur til að gera mælingar á hávaða 23. og 24. mars, 2002.  Í skýrslu komi fram að kvartanir íbúa vegna hávaða frá Höllinni séu á rökum reistar.  Að jafnaði hækki mæligildi innandyra um 4-10 dB án leiðréttingar við dansleikjahald en mun meira ef leiðrétt er fyrir högghljóðum.  Hins vegar séu ekki til í reglugerðum gildi fyrir leyfileg hljóðstig innandyra vegna hávaða frá atvinnustarfsemi en miðað sé við 25 dB til viðmiðunar.  Í skýrslunni komi fram hvert ríkjandi umhverfishljóð sé hverju sinni og tekið sé fram að greinilega hafi mátt heyra texta laga inni í herbergi íbúða.  Mælingar innandyra í Höllinni hafi sýnt að hljóðstig innandyra hafi verið of hátt miðað við gildandi  hávaðasamþykkt.  Mælingar utandyra í íbúabyggð hafi einnig verið yfir leyfilegum gildum.  Þá komi fram í skýrslunni að aðstæður hafi ekki verið heppilegar til mælinga vegna veðurs, en metin sé leiðrétting vegna vinds og endurkast hljóðs vegna bleytu.

2)      Í kjölfar skýrslu hafi kærði send kæranda bréf dags. 29. apríl 2002 þar sem farið hafi verið fram á endurstillingu hávaðatemprunarbúnaðar þannig að jafngildishljóðstig fari ekki upp fyrir 95 dB og toppur ekki yfir 110 dB

3)      24. maí 2002 hafi  kærði sent svarbréf til íbúa í nágrenninu sem sent höfðu inn skriflega kvörtun.  Komi fram í bréfinu m.a. að talið hafi verið að árangur hafi náðst með kröfum settum 29. apríl 2002 en kærði muni bregðast við kvörtunum með frekari kröfum.

4)      Kærði hafi farið fram á skriflegar upplýsingar um stöðu mála vegna úrbóta ásamt tímasettri framkvæmdaáætlun hinn 17. október  2002.  Ekki hafi verið orðið við því og hafi bréf verið sent 8. janúar 2003 þar sem upplýst hafi verið að kærði hygðist beita þvingunaraðgerðum með takmörkun opnunartíma til kl. 01.00 á hverju kvöldi.  Hafi kærandi sent svarbréf 14. janúar 2003 þar sem rakin hafi verið staða mála og í  bréfi kæranda dags. 27. janúar 2003 hafi verið tímasett framkvæmdaáætlun.

5)      Kærði fjallar um bréfin á fundi 5. febrúar 2003 og fer fram á að framkvæmdum verði hraðað og að fullu lokið fyrir 1. júlí 2003.

6)      Mælingar hafi farið fram 17. apríl að næturlagi (yfir mörkum), 29. apríl og 4. maí til stillingar á hljóðvaka, niðurstöður mælinga séu í bréfi dags. 5. maí.

7)      Kærandi hafi gert grein fyrir niðurstöðu hönnunar auk áætlaðra verkloka fyrir 1. júlí 2003 í bréfi sínu dags. 6. maí 2003.

8)      Ákveðið á fundi heilbrigðisnefndar 21. maí 2003 að meðan unnið sé að úrbótum skuli hávaðavaki stilltur neðar eða á jafngildið 92 dB og hávaðatopp 99 dB.

9)      Kærði fer fram á skýrslu um úrbætur ásamt niðurstöðum hávaðamælinga bæði innan- og utandyra, með bréfi dags. 1. júlí 2003.  Upplýsingum verði skilað fyrir 10. júlí.

10)  Mælingar gerðar 12. júlí 2003, hávaði enn yfir mörkum, engri skýrslu skilað.

11)  Samþykkt hafi verið af heilbrigðisnefndinni 19. ágúst 2003 að fá lögfræðilegt álit á málinu.  Álit hafi legið fyrir 22. september 2003 og í kjölfarið hafi kæranda verið sent bréf þar sem tilkynnt hafi verið um meðferð máls og gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

12)  Svarbréf kærða hafi borist 2. október 2003 með rökum forsvarsmanna kæranda og ósk um frekari mælingu.  Kærandi varð við beiðni og lét mæla 19. október þegar hljómsveit var í húsinu.  Niðurstöður mælingar á sama veg og áður mikið yfir leyfðum mörkum sem séu 40 dB.  Tilkynning hafi verið um ákvarðanatöku á grundvelli fyrirliggjandi gagna með bréfi dags. 22. október 2003.

13)  Á fundi heilbrigðisnefndar 19. nóvember, 2003 hafi verið tekin ákvörðun um að takmarka starfsemi Hallarinnar þannig að frá kl. 23:00-07:00 hvern dag skyldi lækka hljóðstyrk hljómtækja hússins svo að ákvæði hávaðareglugerðar væru uppfyllt.  Fallið var frá þessari ákvörðun.

14)  Svarbréf kæranda um að miklum endurbótum til hljóðeinangrunar á húsnæði væri lokið ásamt staðfestingu skipulags- og byggingafulltrúa.  Á grundvelli þessara upplýsinga hafi nefndin samþykkt að færa hávaðatakmarkanir til fyrra horfs, eða í jafngildið 95 dB og hávaðatopp í 110 dB.  Ennfremur hafi verið farið fram á að skilað yrði inn mælingum á næstu auglýstu dansleikjum.

15)  Mælingar gerðar 29. febrúar 2004 hafi sýnt að ekki hafi náðst tilætlaður árangur vegna hávaðavarna og hafi hávaði farið langt upp fyrir mörk við íbúðabyggð auk þess sem kærandi hafi ekki uppfyllt kröfur um hávaðatakmarkanir innandyra.  Hafi því verið farið fram á tafarlausa endurstillingu hávaðavaka og mælingu vegna endurstillingar.

16)  Hljóðvaki hafi verið endurstilltur 24. mars 2004 á tilskilin gildi og mæling aftur gerð 10. apríl, eða á næsta dansleik.  Niðurstöður mælinga voru á sömu leið, allt of milkill hávaði bæði innan-og utandyra.

17)  Í bréfi kærða dags. 13. apríl 2004 hafi verið tilkynnt ákvörðun um að takmarka starfsemi fyrirtækisins við opnunartíma 01:00 hverja nótt auk þess sem sérstaklega er óskað skýringa á því hvernig hávaði geti farið upp yfir stillingu hljóðvaka.  Kærandi hafi svarað 23. apríl og gefið hugsanlega skýringu að hljóðvaki hafi bilað.

18)  Á fundi heilbrigðisnefndarinnar 26. maí 2004 hafi verið farið fram á frekari staðfestingu á bilun hljóðvaka og að fyrir næsta dansleik yrði tæki endurstillt skv. fyrri kröfum og staðfestingu skilað til kærða.  Engin svör hafi borist og hafi kærði ítrekað fyrri bókun á næsta fundi 21. júlí 2004.  Erfitt hafi reynst að ná til aðila sem stilla hljóðvaka sbr. bréf og beiðni kæranda um frest dags. 13. ágúst 2004 m.a. vegna þess að ekkert dansleikjahald var í húsinu.  Frestur hafi verið veittur til 1. september 2004.

19)  Mælingar gerðar að nýju og hljóðvaki hafi verið stilltur 1. september.  Mælingar utandyra hafi ekki verið raunhæfar vegna umferðarþunga og hafi því verið mælt að nýju 28. nóvember 2004 við dansleikjahald.  Niðurstöður hafi enn verið langt fyrir ofan gildandi mörk.

20)  Kærði tilkynnir kæranda með bréfi dags. 7. desember 2004 að þrátt fyrir úrbætur og endurteknar mælingar hafi ekki náðst viðunandi úrbætur og kærði hafi til skoðunar að takmarka starfsemina við kl. 01:00 dag hvern.  Athugasemdir hafi borist 10. desember 2004.

21)  Kærði tekur ákvörðun um að takmarka opnunartíma staðar kæranda og skyldu þvingunaraðgerðir taka gildi 17. janúar s.l.

Kærði vísar til þess að hann hafi í störfum sínum og ákvarðanatöku tekið mið af stjórnsýslulögum 37/1999 auk áður tilgreindra laga og reglna.  Sérstaklega hafi nefndin haft til hliðsjónar 12. gr. laganna og leitast við að beita vægasta úrræðinu hverju sinni til að ná fram settum markmiðum.  Kærandi hafi gert úrbætur á húsnæðinu, en því miður hafi aðgerðir þeirra ekki náð tilætluðum árangri.  Hafi kærandi leitast við að koma til móts við sjónarmið kæranda en talið hafi verið fullreynt að unnt yrði að verða við kröfum hennar með vægari úrræðum en þeim sem gripið var til 14. desember s.l. og tóku gildi 17. janúar s.l.  Hafi kærði fyrst og fremst byggt ákvarðanir sínar á mælingum vegna brota á reglum um hávaða sbr. samþykkt um hávaðatakmarkanir en kærandi virðist geta farið fram hjá stillingum þrátt fyrir ítrekaðar endurstillingar.  Þá hafi kærði tekið mið af gildandi hávaðamörkum í íbúðabyggð sem skuli vera 40 dB að næturlagi.  Þyki sannað að hávaði sem berist frá fyrirtækinu valdi því að umrædd mörk náist ekki í skilgreindri íbúðabyggð.  Í kæru sé niðurstöðum mælinga sem gerðar hafi verið 28. nóvember s.l sérstaklega mótmælt vegna slæms veðurs og mikillar bílaumferðar.  Mæliskýrsla geti hins vegar um að veður hafi verið gott, logn og þurrt en það séu einmitt kjöraðstæður til mælinga.  Farið hafi að rigna um nóttina en sérstaklega hafi verið leiðrétt með tilliti til þess.  Þá kveður kærði rétt að benda á jafngildismælingu sem mæli meðaltalshljóð í mínútu.  Í öllum tilvikum hafi sú mæling verið of há og sé langt yfir mörkin í mælingu gerðri 28. nóvember s.l.  Með jafngildismælingu séu einnig lágmörkuð áhrif þeirra bíla sem keyri framhjá hverju sinni.  Rétt sé að benda á viðmiðunarmælingu í þessu sambandi þar sem umhverfishljóð á mælistöðum hafi verið 21.0-23.7 dB.

Kærði ítrekar að leitast hafi verið við að vinna með forsvarsmönnum fyrirtækisins að settu marki m.a. með því að verða við óskum um fresti, endurteknar mælingar og að taka tillit til úrbóta kæranda.  Telur kærði að með því hafi hann unnið skv. ákvæðum laga nr. 7/1998, 37/1999 til að ná fram settum markmiðum skv. rgl. nr. 941/2002 og nr. 933/1999.

IV.

Krafa kæranda er að ákvörðun kærða um þvingunaraðgerðum vegna skemmtistaðar kæranda Hallarinnar verði aflétt.

Í rgl. nr. 933/1999 kemur fram að reglugerðin gildi um viðmiðunargildi fyrir hávaða og hávaðavarnir hér á landi og eigi við um atvinnurekstur samgöngur og athafnir einstaklinga eins og við geti átt.  Í 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að heilbrigðisnefnd hafi eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar. Í 5. gr. reglugerðarinnar segir að hávaði skuli vera undir þeim viðmiðunarmörkum sem fram komi í viðauka sbr. þó 8. gr. þar sem heilbrigðisnefnd geti vegna sérstakra, óviðráðanlegra aðstæðna og að höfðu samráði við Hollustuvernd ríkisins leyft að á ákveðnum, afmörkuðum svæðum megi hávaði vera yfir viðmiðunarmörkum.  Reglugerðin er sett með stoð í 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Svo sem fram kemur í tilgreindum lögum og reglugerðum er það hlutverk kærða að sinna hávaðavörnum skv. rgl. 933/1999.   11. gr. rgl. 933/1999  er ákvæði um valdsvið og þvingunarúrræði og vísað til 26 gr. laga nr. 7/1998.  Ekki verður séð að kærði hafi farið út fyrir heimildir sínar  til athafna í málinu með vísan til fyrrgreinds lagaákvæðis.

Ekki verður annað séð en mælingar af hálfu kærða hafi verið í samræmi við hefðbundnar mælingar.  Er því hafnað málsástæðu kæranda um að mælingar hafi ekki verið marktækar.  Ekkert í gögnum málsins styður þá fullyrðingu.   Ljóst er að kærandi hefur unnið að margvíslegum úrbótum til þess að uppfylla kröfur  en benda verður á að það er á valdi kæranda sjálfs að endurheimta fyrra starfsleyfi með endurbótum sínum. Með tilvísan til framangreinds er hafnað kröfu um afléttingu þvingunaraðgerða kærða hjá kæranda vegna Hallarinnar.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfu kæranda um afléttingu þvingunaraðgerða af hálfu kærða.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                                         Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 8/11/06

09/2005 Úrskurður vegna kæru Félags hesthúsaeigenda á Varmárbakka, Mosfellsbæ gegn Mosfellsbæ.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2006 miðvikudaginn 8. febrúar kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns að Sölvhólsgötu 7 í Reykjavík.    Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2005  Félag hesthúsaeigenda á Varmárbakka,  Mosfellsbæ  gegn Mosfellsbæ.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra Félags hesthúsaeigenda á Varmárbakka  Mosfellsbæ er dags. 25. apríl, 2005.  Kærð er álagning Mosfellsbæjar á meintum ólöglegum holræsagjöldum af hesthúsum í Mosfellsbæ.  Félag hesthúsaeigenda í Mosfellsbæ er hér eftir nefnt kærandi, en Mosfellsbær kærði. Stjórnsýslukæra var send umhverfisráðuneyti, sem framsendi kröfuna til nefndarinnar.   Kærða var sent afrit af gögnum kæranda með bréfi dags. 16. maí s.l. og aftur ítrekað með bréfi dags. 9. júlí 2005.  Að fengnu síðara bréfinu óskaði kærði eftir fresti fram yfir mánaðamót vegna sumarleyfa starfsmanna og var það samþykkt.  Kærði svaraði 2. ágúst.  Var svarbréf það sent kæranda til umsagnar og sendi hann svarbréf .

1)      Afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 22. febrúar, 2005.

2)      Afrit af fasteignagjaldaseðli 2005.

3)      Afrit af skýringaseðli með álagningaseðli.

4)      Reglugerð um holræsagerð í Mosfellshreppi.

Afrit með bréfi kærða:

1)  Afrit af skipulags- og byggingarskilmálum v. hesthúsa á Varmárbökkum.

II.

Í stjórnsýslukæru gerir kærandi þær kröfur að staðfest verði að innheimt holræsagjöld séu ólögmæt og að álögð holræsagjöld undanfarinna ára verði endurgreidd til hesthúsaeigenda.

Vísar kærandi til þess að hinn 22. febrúar s.l. hafi kærandi sent bréf til kærða þar sem vakin hafi verið athygli á því að kærði væri að innheimta ólögleg holræsagjöld af hesthúsaeigendum í bænum.  Kveður kærandi sjónarmið byggð á ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923, sem séu megin lagaheimildin fyrir álagningu holræsagjalds, en þar komi fram í 1. mgr. 87. gr :”Bæjarstjórn er rétt að leggja gjald á hús og lóðir í kaupstaðnum til þess að standa straum af holræsakostnaði.  Gjald má miða við virðingarverð fasteigna eða við stærð lóða eða við hvorutveggja.”  Kveður kærandi að fram komi í 4. mgr. 87. gr. vatnalaga að holræsagjald skuli nánar ákveða í reglugerð.  Þá séu nánari fyrirmæli um efni og staðfestingu reglugerðar að finna í 89. og 90. gr. vatnalaga.  Vatnalög nr. 15/1923 mæli ennfremur fyrir um frekari skilyrði fyrir innheimtu holræsagjalds, sem ráðherra sé bundinn af við setningu reglugerðar, en í 1. mgr. 88. gr. segi :  “ Bæjarstjórn leggur holræsi svo, að lóðareigandi hver nái til þeirra í götu, vegi eða opnu svæði, er lóð hans telst til, enda verður maður eigi krafinn um holræsagjald fyrr en svo er”.  Kærandi vekur sérstaka athygli á þessu ákvæði.  Kveður hann að skv. skýru orðalagi sé skilyrði fyrir innheimtu  holræsagjalds vegna húsa og lóða að bæjarstjórn hafi þegar lagt holræsi sem lóðareigandi nái til í götu, vegi eða opnu svæði sem lóð hans nái til.  Vísar kærandi til þess að óumdeilt sé að ekkert holræsi sé í hesthúsahverfinu sem innheimta holræsagjaldsins tekur til. Telji kærandi því ótvírætt að enginn lagagrundvöllur sé fyrir álagningu holræsagjalds vegna hesthúsalóðanna á Varmárbökkum.  Innheimta gjaldsins fari gegn skýru ákvæði 1. mgr. 88. gr. vatnalaga nr. 15/1923.  Kærandi bendir á að fyrrnefnt bréf kæranda til bæjarstjórnar hafi verið afgreitt í bæjarstjórn án niðurstöðu og vísað til embættismanna.  Kærandi áréttar að í hesthúsahverfinu sem um ræði sé ekkert holræsi, en í þeim húsum sem hafi rotþró verði eigendur að sjá um losun á eigin kostnað.  Þá bendi kærandi og á að sú meginregla gildi, að stjórnvöld geti almennt ekki innheimt gjöld af þessu tagi nema þau hafi til þess skýra lagaheimild.  Vegna skilyrða í 1. mgr. 88. gr. vatnalaga um að gjaldið verði ekki innheimt fyrr en holræsi hefur verið lagt, sé ljóst að sveitarstjórn skorti lagaheimild til innheimtu gjaldsins í þessu tilviki  Að sögn kæranda  í stuttu máli : “Ekkert holræsi, ekkert gjald.“  Kærandi bendir á að álagning holræsagjalda á hesthús í Mosfellsbæ hafi átt sér stað árum saman og engum dottið í hug fyrr en nú að þetta væri í trássi við lög.  Bendir kærandi á að hinn 31 mars s.l. hafi verið gerð fyrirspurn um afgreiðslu bæjarstjórnar á holræsamáli hestamanna og svarið hafi verið að ekkert hafi verið gert og borið hafi verið við önnum. Kærandi bendir á að þann dag sem kæran er dagsett hafi ekkert heyrst frá bæjarstjórn kærða vegna málsins.  Telji kærandi að rök hafi verið færð fyrir því að innheimta gjaldsins standist ekki lög og að bæjarstjórn kærða beri að svara erindi og fella niður gjald eða að öðrum kosti lýsa á rökstuddan hátt afstöðu sinni til málsins.

Kærandi kveður að á álagningarseðli fasteignagjalda 2005 frá kærða komi fram að álagning holræsagjalds sé 0.15% af fasteignamati húss.  Hér sé gefið til kynna að innheimta holræsagjaldsins við þessar aðstæður sé lögleg og byggist á staðfestri reglugerð frá ráðherra sem hvíli á gildri lagastoð.  Telji kærandi að innheimta holræsagjalds vegna lóða þar sem ekki er tryggður aðgangur að holræsi, fái ekki  staðist vegna ákvæðis 1. mgr. 88. gr. vatnalaga nr. 15/1923.  Reglugerð sem vísað er til á álagningarseðli geti þar með ekki átt við hesthúsin og þær lóðir sem þau standa á, enda sé þar ekki um neitt holræsi að ræða.  Stjórn kæranda fari fram á að ráðuneyti gæti þess sem eftirlitsaðili, að efni reglugerðarinnar hafi næga lagastoð og sé í samræmi við lög og grundvallarreglur stjórnsýsluréttar og að ekki sé verið að innheimta gjald fyrir kostnaði af holræsagerð, sem aldrei hafi átt sér stað og engin lagastoð sé fyrir.  Þá fer kærandi fram á það að ráðuneyti staðfesti skilning á lögunum og taki undir þá sjálfsögðu kröfu að álögð holræsagjöld undanfarinna ára verði endurgreidd til hesthúsaeigenda enda hafi þau verið ólöglega af þeim heimt.  Svo sem fyrr greindi var kæra send til umhverfisráðuneytis sem framsendi hana til úrskurðarnefndar.  Kærandi ítrekaði kröfur sínar í bréfi dags. 22. júní s.l.  Í því bréfi var bent á að ekkert hafi frést af svörum kærða vegna fyrirspurnar kæranda og ennfremur að kærandi telji óásættanlegt að ekkert svar berist. Beðið er um að máli verði hraðað.  Í svarbréfi kæranda við gögnum kærða eru kröfur ítrekaðar.

III.

Greinargerð kærða er dagsett 2. ágúst, 2005.  Bendir kærði á að farið hafi verið yfir athugasemdir sem fram komi í stjórnsýslukæru kæranda um ólöglega innheimtu holræsagjalds.  Kærði upplýsir að á sínum tíma hafi verið lögð ræsi í allar götur í hesthúsahverfinu við Varmárbakka og hafi það verið gert í samræmi við skipulags- og byggingarskilmála sem samþykktir hafi verið í byggingarnefnd kærða í maí 1981.  Kærði kveður öll hesthús vera tengd þessu holræsi hvað varði yfirborðsvatn/afrennsli svo sem frá taðþróm, enda hafi það verið krafa skv. ofangreindum skilmálum.  Í tilgreindum byggingarskilmálum komi og fram að kostnaði við m.a. ræsi í hverfinu hafi verið jafnað út á leigutaka og reiknað sem “stofngjald” vegna tengingar við ræsið, en heimild til innheimtu tengigjalds sé að finna í 3. gr. gildandi reglugerðar um holræsi í Mosfellshreppi frá 10. ágúst 1980.  Því hafi  verið innheimt holræsagjald á ofangreindum forsendum, mótmælalaust um langan aldur, þó svo eigendur hesthúsa hafi ekki fengið að tengja salerni við ræsið heldur orðið að koma sér upp safntanki hafi þeir kosið að setja salerni í hús sin, enda strax í upphafi aðeins ætlast til þess að yfirborðsvatn/afrennsli og afrennsli frá gerðum og taðþróm væri tengt ræsinu.  Kærði vísar til þess að í reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999 sé skilgreining á hugtakinu “skólp” en þar segi í 3. gr. tl. 3.31 : “Skólp er húsaskólp og iðnaðarskólp eða blanda húsaskólps eða iðnaðarskólps og/eða ofanvatns.”   Kveður kærði því að ekki sé unnt að fallast á að ekkert holræsi sé í hesthúsahverfinu svo sem haldið sé fram í stjórnsýslukærunni og vísar til þess að álagning holræsagjalds eigi sér stoð í gildandi holræsareglugerð frá 1960.

IV.

Ágreiningur máls þessa snýst um álagningu holræsagjalds.  Kærandi telur álagningu holræsagjalds óheimila þar sem ekki séu fyrirliggjandi holræsi.  Kærði kveður holræsagerð vera í samræmi við skiplags- og byggingarskilmála fyrir hesthús á Varmárbökkum sem samþykkt hafi verið í byggingarnefnd 5. maí, 1981.  Þeir skilmálar gera ráð fyrir gerð aðalstofns fyrir jarðvatns- og regluvatnslagnir og nauðsynlegar lagnir í götur og stíga.  Þá gerir gjaldskrá ekki ráð fyrir mismunandi gjaldi miðað við mismunandi þjónustu.  Ekki verður því séð að innheimta holræsagjalda í máli þessu sé ólögmæt.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ekki er fallist á kröfur kæranda í máli þessu.

 Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                                Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 3/31/06

5/2005 Úrskurður vegna kæru Gunnars Más Sigfússonar gegn Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005, miðvikudaginn 23. nóvember kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru  Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Lára G. Hansdóttir og Gísli Gíslason.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2005  Gunnar Már Sigfússon gegn Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður :

I.

Erindi Gunnars Más Sigfússonar vegna dreifingarbanns á “Hollywoodkúrinn” barst úrskurðarnefnd í febrúar 2005.  Litið er á erindið sem stjórnsýslukæru og Gunnar Már hér eftir nefndur kærandi.  Kært er dreifingarbann á “Hollywoodkúrnum”.

Fylgjandi erindi kæranda var:

1)      Afrit af bréfi Lýðheilsustöðvar til Umhverfisstofnunar dags. 9. desember, 2004.

Vísaði kærandi í erindi sínu til Umhverfisstofnunar og var því afrit af gögnum kæranda sent þangað og óskað greinargerðar. Umhverfisstofnun benti á að ákvörðun um sölubann hefði verið tekin af Heilbrigðseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis er hér eftir nefnt kærði. Kærða var sent afrit af gögnum kæranda með bréfi dags. 27. apríl, 2005.  Svar kærða er dags. 4. maí 2005. Bréfi kærða fylgdu eftirtalin gögn:

1)       Afrit af bréfi Umhverfisstofnunar til heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga um ákvörðun vegna umsóknar um heimild til íblöndunar bætiefna í matvæli.

2)       Afrit af bréfi Umhverfisstofnunar dags. 6. janúar, 2005 vegna umsóknar um heimild til íblöndunar bætiefna í matvæli.

3)       Afrit af bréfi Umhverfisstofnunar til kærða dags. 15. 12. 2004, ásamt afriti af umsögn Lýðheilsustöðvar, vegna umsóknar um heimild til íblöndunar bætiefna í matvæli.

4)       Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 17. janúar, 2005 vegna 48 klukkustunda “Hollywoodkúrsins”.

5)       Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 20. janúar 2005 vegna kröfu kærða um að varan, 48 klukkustunda “Hollywoodkúrinn”, verði tekinn úr sölu.

6)       Afrit af bréfi Umhverfisstofnunar dags. 15. desember 2004 til kæranda vegna umsóknar um heimild til íblöndunar bætiefna í matvæli

7)       Afrit af tölvpóstsendingum milli Umhverfisstofnunar og kærða.

8)       Afrit af bréfi kæranda til Heilbrigðiseftirlits, dags. 19. janúar, 2005.

II.

Kærandi gerir þá kröfu að “Hollywoodkúrinn” verði ekki tekinn úr umferð strax, eins og gert hafði verið.  Lýsir hann því að þegar umsókn hans um vítamínbætingu “Hollywoodkúrsins” hafi verið send inn á sínum tíma í nóvember 2004 hafi verið unnið eftir þeim lögum og reglugerðum sem þá lágu fyrir og hafi verið unnið eftir upplýsingum af heimasíðu Lýðheilsustofnunar.  Þar sé skýrt tekið fram að hámarksskammtur A-vítamíns í formi retinols sé 7500 mg en ekki 3000 mg. eins og haldið sé fram í bréfi frá Lýðheilsustofnun.  Kveður kærandi að þegar þessi niðurstaða hafi legið fyrir hafi hann haft samband við Lýðheilsustofnun og lýst undrun sinni á því að farið væri eftir öðrum stöðlum en þeim sem séu í boði fyrir almenning. Hafi kæranda þá verið tjáð að nýverið hafi verið tekið annað viðmið fyrir A-vítamínið retinol og nýju reglurnar væru þær að hámarksskammturinn væri nú 3000 mg.  Ennfremur hafi sér verið tjáð að þetta væri svo nýtt að þetta væri ekki til á prenti í reglugerð eða á heimasíðu Lýðheilsustofnunar um hámarksskammta í matvælum.  Kærandi kveður að þar sem aðrar reglur hafi verið í gangi þegar sótt hafi verið um og þessar nýju reglur sé hvergi að finna þyki sér réttlætanlegt að hann fái að selja það magn sem eftir sé og hafi verið innkallað úr verslunum, eins og fordæmi sé fyrir hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar um nýjan vítamínbættan drykk þeirra en þeim hafi verið heimilað að selja það magn sem þegar hafi verið komið í dreifingu.  Kveður kærandi starfsmann Lýðheilsustöðvar hafa verið sammála þessu og hafi getað fallist á að það yrði selt sem þá þegar hafi verið komið í dreifingu.  Þetta hafi starfsmaðurinn tilkynnt sér.  Þess vegna finnist sér meira en furðulegt að Umhverfisstofnun geti tekið fram fyrir hendur þeirra og kippt vörunni úr sölu, þvert á ummæli starfsmanns Lýðheilsustöðvar.  Kveðst kærandi sáttur við að flytja vöruna ekki inn aftur vegna nýrra laga en óskar eftir því að fá að ljúka því magni sem þegar hafi verið komið í dreifingu.

III.

Eins og greint var frá var kæra send Umhverfisstofnun sem benti á að ákvörðun um sölubann hafi verið tekin af kærða.  Hins vegar upplýsti Umhverfisstofnun að hún hafi tekið þá ákvörðun 6. janúar s.l. að heimila ekki viðbætingu A-vítamíns í 48 klst. Hollywood kúrnum og sendi með gögn þar að lútandi.

Í greinargerð kærða kemur fram að kærði hafi tekið ákvörðun um að stöðva dreifingu á umræddri vöru þegar fyrir hafi legið að Umhverfisstofnun synjaði um heimild til A-vítamínbætingar sbr. fyrrgreint bréf stofnunarinnar.  Komi ákvörðun kærða fram í erindum til GM innflutnings dags. 17. janúar 2005 og 20. janúar s.á.  Vísar kærði til þess að samkvæmt ákvæðum 22. gr. laga um matvæli nr. 93/1995 hafi heilbrigðisnefnd undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla að svo miklu leyti sem það sé ekki falið öðrum aðilum.  Telji kærði sér skylt að fara að leiðbeiningum Umhverfisstofnunar í málum sem þessu. Skv. 29. gr. l. um matvæli hafi eftirlitsaðila verið heimilt að stöðva eða takmarka dreifingu vörunnar.  Að mati kærða sé ágreiningur sá sem vísað hafi verið til úrskurðar um hvort leyfa hefði átt innflytjanda að selja þær vörubirgðir sem hann átti eftir þegar afstaða Umhverfisstofnunar hafi legið fyrir.  Að mati kærða var ákvörðun um sölustöðvun tekin eftir vandaða málsmeðferð og hafi ekkert komið fram um að niðurstaðan hafi verið fengin á röngum forsendum.  Álit Umhverfisstofnunar hafi verið að hætta gæti skapast vegna ofneyslu A-vítamíns ef vítamínbætingin hefði verið heimiluð.  Vakin sé athygli á að afstaða Umhverfisstofnunar hafi verið tekin eftir að fyrir hafi legið upplýsingar sem stofnunin hafi óskað eftir svo að stofnunin gæti tekið rökstudda ákvörðun.  Sérstaklega hafi verið kannað með fulltrúa Umhverfisstofnunar hvort réttlætanlegt væri að verða við ósk innflytjanda um að fá að selja þær vörubirgðir sem til væru.  Kærði bendir á að lögð sé áhersla á að ákvörðun kærða um sölustöðvun hafi verið tekin eftir að Umhverfisstofnun hafi synjað fyrirtækinu um heimild til A-vítamínbætingar, sbr. bréf stofnunarinnar dags. 6. janúar 2005.  Áður hafi Umhverfisstofnun með bréfi dags. 15. desember 2004 gefið fyrirtækinu kost á að tjá sig um gögn og koma að andmælum. Frekari rökstuðningur Umhverfisstofnunar komi fram í tölvuskeyti til heilbrigðisfulltrúa þann 20. janúar, 2005.  Sé gerð grein fyrir ástæðum nánari skoðunar og frekari rökstuðnings.  Hafi fyrirtæki kæranda óskað eftir með erindi dags. 19. janúar, 2005 að fá að klára það magn sem komið hafi verið í dreifingu.  Af hálfu kærða hafi verið haft samráð við Umhverfisstofnun um möguleika á að breyta ákvörðun um sölustöðvun.  Með tölvuskeyti 20. janúar, 2005 hafi Umhverfisstofnun lagst gegn lengri fresti, þar sem varan hafði verið dæmd óhæf á markaði á grundvelli 10. gr. l. nr. 93/1995

Vísar kærði til þess að þar sem stjórnsýslukæran lúti að stöðvun dreifingar á þeim vörubirgðum sem til hafi verið hjá kæranda sé ekki talin ástæða til að senda afrit af fleiri gögnum.  Kærði bendir á að til séu eftirfarandi gögn sem snúi að samskiptum við fyrirtækið og um málefni þess sé óskað eftir þeim:

1)           Með tölvuskeyti frá 8. október 2004 hafi kærði fengið upplýsingar frá Umhverfis- og heilbrigðisstofu í Reykjavík um að á markað sé komin “megrunarvara” sem ekki uppfylli ákvæði þeirra reglugerða sem um slíkar vörur gildi.

2)           Eftir skoðun í verslun í Garðabæ 8. október 2004 hafi verið sent tölvuskeyti til innkaupadeildar Hagkaupa sem hafði vöruna til dreifingar þar sem innflytjandi var ekki þekktur.

3)           Innkaupadeild Hagkaupa sendi svarskeyti þann 13. október, 2004 og hafi þá upplýst innflytjanda um nauðsyn þess að hafa samband við kærða.

4)           Umsókn um starfsleyfi frá GM innflutningum ehf. móttekin 19. október 2004.

5)           Starfsleyfisumsókn tekin fyrir á fundi heilbrigðisnefndar 25. október 2004.

6)           Afgreiðsla starfsleyfisumsóknar tilkynnt með bréfi dags. 27. október, 2004.

7)           Fyrirspurn barst 27. október 2004 um “Hollywoodkúrinn” frá Umhverfisstofnun þar sem tvær vikur höfðu liðið án þess að umsókn um vítamínbætingu hefði borist.

8)           15. nóvember 2004, barst tölvuskeyti frá Umhverfisstofnun um að umsókn um vítamínbætingu hafi borist.

9)           Með bréfi dags. 6. janúar, 2005  barst ákvörðun Umhverfisstofnunar um að synja GM Innflutningi um heimild til A-vítamínbætingar í 48 klst. “Hollywoodkúrinn”.

10)       Tölvuskeyti Umhverfisstofnunar með upplýsingum frá Lýðheilsustöð.

11)       Tilkynning Umhverfisstofnunar til heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga um aðgerðir vegna sölustöðvunar.

IV.

Deilt er í máli þessu um dreifingarbann á vöru kæranda “Hollywoodkúrnum”.  Í 22. gr. laga um matvæli nr. 93/1995 hefur heilbrigðisnefnd undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla að svo miklu leyti sem það er ekki falið öðrum aðilum.  Skv. 19. gr. rgl. nr. 285/2002 getur Hollustuvernd ríkisins veitt leyfi til notkunar bætiefna þar til reglugerð um íblöndun bætiefna hefur verið sett.  Niðurstaða Hollustuverndar um umsókn um heimild til íblöndunar í máli þessu var sú að hafna varð því magni A-vítamíns sem í vörunni var. Var álit Umhverfisstofnunar að hætta gæti skapast vegna ofneyslu A-vítamíns ef vítamínbætingin hefði verið heimiluð.  Ákvörðun kærða um sölustöðvun var tekin eftir að Umhverfisstofnun synjaði fyrirtækinu um heimild til vítamínbætingarinnar.  Með tilvísan til framangreinds og 3. og 10. gr. laga um matvæli er ákvörðun kærða um dreifingarbann staðfest.

 ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun kærða um dreifingarbann á vöru kæranda “Hollywoodkúrnum” er staðfest.

Lára G. Hansdóttir

Gísli Gíslason                   Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 3/30/06