Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

158/2017 Egilsgata

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 158/2017, kæra á afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni kæranda um afhendingu gagna. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. september 2018, er barst nefndinni 27. s.m., óskaði Borgarbyggð þess að mál nr. 158/2017 yrði endurupptekið, en úrskurður í því var kveðinn upp 21. september 2018. Þar var til úrlausnar kæra Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, á afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni félagsins um afhendingu gagna sem honum hefði verið kynnt með bréfi, dags. 4. desember 2017. Var þess krafist að úrskurðarnefndin tæki málið til efnislegrar meðferðar og gerði sveitarfélaginu að afhenda umbeðin gögn á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að eftir að ákvörðun hefur verið tilkynnt aðila máls eigi hann rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Sveitarfélagið hefur ekki aðilastöðu í málinu og getur því ekki stutt endurupptökubeiðni sína með vísan til framangreinds ákvæðis. Hins vegar hefur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, líkt og stjórnvöld almennt, lögfesta heimild til afturköllunar að eigin frumkvæði þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila, sbr. 1. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga.

Í greinargerð sveitarfélagsins, dags. 15. febrúar 2018 í kærumáli nr. 158/2017 sagði að erindi kæranda til sveitarfélagsins, dags. 10. október 2017, þar sem óskað hefði verið tiltekinna gagna, hefði ekki enn verið svarað af hálfu sveitarfélagsins. Með bréfi sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar frá 25. september 2018 þar sem fram kemur að erindi kæranda frá 10. október 2017 hafi verið svarað með bréfi, dags. 31. s.m., hefur verið leitt í ljós að úrskurður í máli þessu byggði ranglega á því að erindinu hefði ekki verið svarað. Kærandi hefur einn aðilastöðu í málinu og í ljósi þess að hann telur svar sveitarfélagsins vera ófullnægjandi verður ekki séð að afturköllun úrskurðarins myndi vera til tjóns fyrir hann. Telur úrskurðarnefndin því rétt á grundvelli 1. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga að afturkalla úrskurð sinn sem kveðinn var upp 21. september 2018 í kærumáli nr. 158/2017 og verður málið nú tekið til úrskurðar að nýju.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 21. febrúar 2018 og viðbótargögn 25. september s.á.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur þrívegis lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna leyfisveitinga Borgarbyggðar fyrir breytingum á húsnæði að Egilsgötu 6, en kærandi hefur aðsetur að Egilsgötu 4. Með uppkvaðningu úrskurðar 24. september 2015 í kærumáli nr. 57/2013 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að breyta húsnæðinu á lóð nr. 6 við Egilsgötu og með úrskurði uppkveðnum 9. nóvember 2016 var vísað frá kröfum kæranda, sem einnig er kærandi þessa máls, en kröfur hans beindust að breyttri notkun húss að Egilsgötu 6 úr íbúð í gistiheimili. Var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um frávísun á því reist að ekki lægi fyrir lokaákvörðun sveitarfélagsins um breytta notkun, auk þess sem leyfi til rekstrar gistiheimilis væri ekki kæranlegt til nefndarinnar. Loks hefur kærandi kært ákvörðun byggingarfulltrúa að samþykkja endurnýjaða byggingarleyfisumsókn fyrir þremur stúdíóíbúðum á neðri hæð og breytingu á efri hæð hússins að Egilsgötu 6 í Borgarnesi. Er það kærumál nr. 93/2017 og var úrskurður í því kveðinn upp 21. september 2018.

Með bréfi til Borgarbyggðar, dags. 6. nóvember 2016, vísaði kærandi til fyrri samskipta við sveitarfélagið vegna beiðna sinna um afhendingu gagna. Ítrekaði kærandi í bréfinu beiðni sína um aðgang að nánar tilgreindum gögnum sem talin voru upp í bréfi hans. Erindið var tekið fyrir á fundi byggðarráðs 17. s.m. og var sveitarstjóra falið að svara því. Í svarbréfi sveitarstjóra, dags. 13. desember s.á., er vísað til beiðni kæranda um öll þau mál sem skráð hefðu verið hjá sveitarfélaginu frá 1. janúar 2010 til 1. nóvember 2016 vegna erinda kæranda. Í bréfi sveitarstjóra voru rakin svör við þeim liðum sem fram komu í erindi kæranda frá 6. nóvember 2016. Kom þar fram hvaða gögn hefðu þegar verið afhent og hvaða erindi væru í vinnslu hjá skipulags- og byggingarfulltrúa. Einnig kom fram að tilgreind erindi til skipulags- og byggingarfulltrúa, sem nú hefði látið af störfum, hefðu ekki verið skráð hjá sveitarfélaginu og væri því ekki hægt að bregðast við þeim en kæranda væri bent á þann möguleika að endursenda erindin til sveitarfélagsins. Í bréfinu var enn fremur hafnað beiðni kæranda um afhendingu gagna um samskipti og samninga sveitarfélagsins við nánar tilgreinda lögmannsstofu og vísað til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Jafnframt var í bréfinu upplýst um bókun byggðarráðs um þjónustu lögmannsstofunnar. Loks var, með vísan til einkahagsmuna, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, svo og umfangs beiðnarinnar, sbr. 15. gr. sömu laga, hafnað beiðni kæranda um afrit af öllum tölvubréfum og bréflegum samskiptum frá 2013 til og með 2016 og þá sérstaklega frá 24. september 2015 til 1. nóvember 2016, á milli sveitarfélagsins og forráðamanna gistihúss þess sem rekið er í næsta húsi við kæranda. Leiðbeint var um að synjun um afhendingu gagna væri kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Kærandi brást við bréfi sveitarstjóra með bréfi til byggðarráðs, dags. 11. janúar 2017, þar sem fram kom „Kvörtun – endurupptaka“  og var þess m.a. beiðst að ráðið hlutaðist til um að umbeðin gögn yrðu afhent kæranda á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Erindið var tekið fyrir á fundi byggðarráðs 26. s.m. og var afgreiðslu þess frestað en sveitarstjóra falið að undirbúa svar. Formaður byggðarráðs svaraði svo með bréfi, dags. 2. febrúar 2017, þar sem tekið var undir sjónarmið þau sem fram komu í bréfi sveitarstjóra frá 13. desember 2016. Með bréfi, dags. 18. apríl 2017, benti kærandi á að ekki væri að sjá af fundargerðum byggðarráðs að ráðið hefði samþykkt svör formannsins eða falið honum að svara kæranda og setti hann fram þá kröfu að byggðarráð afgreiddi erindi hans. Ítrekaði kærandi erindi sitt bréflega í júní og júlí s.á.

Með bréfi, dags. 10. október 2017, fór kærandi að nýju fram á afrit allra bréfa og tölvupósta, sem og upplýsingar um öll skráð samskipti sveitarfélagsins við eigendur áðurnefnds gistihúss, frá ársbyrjun 2013 til október 2017. Jafnframt var farið fram á afhendingu sambærilegra upplýsinga sem tengdust samskiptum sveitarfélagsins við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vegna kæru á rekstrarleyfi gistihússins. Var beiðni kæranda svarað með bréfi, dags. 31. október 2017, þar sem upp voru talin gögn í átta tölusettum liðum sem vörðuðu samskipti sveitarfélagsins við forráðamenn gistihússins. Fylgdi afrit gagnanna svarbréfinu til kæranda.

Með bréfi sveitarstjóra, dags. 4. desember 2017, var kærandi upplýstur um að þegar bréf hans, dags. 11. janúar s.á., hefði borist hefði sveitarstjóra verið falið að útbúa svarbréf, sbr. bókun þar um í fundargerð byggðarráðs frá 26. janúar 2017. Það hefði verið gert og slíkt bréf lagt fyrir formann byggðarráðs til yfirferðar. Hann hafi síðan sent bréfið í samræmi við nefnda samþykkt. Til að taka af allan vafa hafi byggðarráð ákveðið að bóka sérstaklega um afgreiðsluna á fundi sínum 23. nóvember s.á. Hefði ráðið þá tekið fyrir erindi kæranda frá 11. janúar 2017 og verið bókað að byggðarráð tæki fram að gefnu tilefni að þau sjónarmið sem kæmu fram í bréfi formanns byggðarráðs frá 2. febrúar 2017 nytu stuðnings byggðarráðs. Kom og fram í bréfi sveitarstjóra 4. desember 2017 að bréf hans væri ritað í framhaldi af og til staðfestingar á nefndri afgreiðslu ráðsins. Væru fyrri svör til kæranda ítrekuð.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi ítrekað beðið um aðgang að gögnum, m.a. ljósritum af tölvusamskiptum sveitarfélagsins við eiganda gistihúss í næsta húsi við kæranda, á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi kærandi rökstutt að um stjórnsýslumál væri að ræða en því hafi verið hafnað og honum verið tilkynnt að málsmeðferð beiðnar hans færi að ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærandi hafi farið fram á umrædd gögn þar sem þau séu hluti af stjórnsýslumáli og hafi m.a. verið fyrirhugað að senda þau með kærum sem hafi verið til meðferðar og sem nú séu til meðferðar fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ástæða sé til að ætla að umræddir tölvupóstar geti varpað frekara ljósi á málið og haft áhrif á úrlausn þess.

Í athugasemdum sínum við beiðni sveitarfélagsins um endurupptöku úrskurðarins segir kærandi að viðbrögð sveitarfélagsins í bréfi, dags. 31. október 2017, hafi ekki verið fullægjandi svar við beiðni hans um gögn frá 10. s.m. Til dæmis hafi vantað afrit allra samskipta forráðamanna hins umdeilda gistihúss við fyrrverandi byggingarfulltrúa sveitarfélagsins fyrir og eftir að úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi byggingarleyfi fyrir Egilsgötu 6, sem og við aðra skipulags- og byggingarfulltrúa og sveitarstjóra sem hafi starfað fyrir sveitarfélagið umrætt tímabil. Þá hafi vantað öll gögn er varði úttektir byggingarfulltrúa umrætt tímabil vegna Egilsgötu 6 allt frá árinu 2013 auk fleiri gagna tengdum framkvæmdum og leyfisveitingum, ef farið hafi verið að lögum og reglugerðum við afgreiðslu mála.

Málsrök Borgarbyggðar:
 Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að kæra í málinu sé óskýr og sé framsetning hennar með þeim hætti að óljóst sé hvaða gögn það séu nákvæmlega sem kærandi krefjist afhendingar á sem ekki hafi verið afhent honum nú þegar. Vísað sé til erinda sem enn hafi ekki verið svarað af hálfu sveitarfélagsins og liggi því ekki fyrir endanleg stjórnvaldsákvörðun þar um. Kærandi hafi sent sveitarfélaginu fjölda bréfa í gegnum tíðina, en tilefni þeirra hafi verið misjafnt. Kærandi skýri það ekki frekar og því geti úrskurðarnefndin varla tekið afstöðu til þess á hvaða grundvelli sé verið að krefjast gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi kærandi ekki sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá málið tekið fyrir hjá nefndinni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kæranda hafi með bréfi sveitarstjóra, dags. 13. desember 2016, verið leiðbeint um kæruleið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Hann hafi ekki sinnt því heldur kvartað til byggðarráðs sveitarfélagsins og síðar umboðsmanns Alþingis. Afstaða sveitarfélagsins hafi verið óbreytt allt frá 13. desember 2016. Hafi því verið liðið meira en ár frá því að kæranda hafi verið tilkynnt ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna kröfu hans um aðgang að gögnum þar til kæra hafi borist úrskurðarnefndinni. Sé því dregið í efa að kæran hafi komið fram innan lögákveðinna tímamarka.

Athygli úrskurðanefndarinnar sé jafnframt vakin á því að kærandi hafi sent samhljóða kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál en sveitarfélagið telji kæranda ekki geta lögum samkvæmt verið með sama ágreiningsefnið til úrlausnar fyrir tveimur kærunefndum í einu.

Hvað efni málsins varði ítreki sveitarfélagið að synjað hafi verið um afhendingu gagna er vörðuðu samskipti þess við forráðamenn gistiheimilis á næstu lóð við kæranda. Hefði það verið gert með vísan til 9. og 15. gr. upplýsingalaga, en þar sé annars vegar vísað til takmörkunar á rétti til upplýsinga vegna einkahagsmuna einstaklinga og hins vegar ef umfang umbeðinna gagna sé slíkt að ekki teljist fært af þeim sökum að verða við beiðninni. Heimfæra megi þessi sjónarmið undir ákvæði stjórnsýslulaga telji úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að sér beri að afgreiða kærumálið. Sé vísað til sömu lagaákvæða vegna synjunar sveitarfélagsins á beiðni kæranda um afhendingu gagna varðandi samskipti og samninga þess við tilgreinda lögmannsstofu.

Í bréfi sveitarfélagsins, dags. 25. september 2018, kemur fram að umbeðin gögn hafi verið send kæranda í pósti þann 31. október 2017 eða þremur vikum eftir að beiðni um fyrrgreind gögn hafi borist sveitarfélaginu. Þau séu tilgreind í svarbréfinu í átta tölusettum liðum. Gögnin séu frá árunum 2013-2017. Gögn hafi verið póstlögð á sama hátt og öll bréf með tilheyrandi gögnum sem hafi verið send af hálfu sveitarfélagsins til kæranda á undanförnum árum. Þess skuli þó getið að þau hafi ekki verið send með ábyrgðarpósti. Í ljósi framangreinds sé þess farið á leit við úrskurðarnefndina að úrskurður hennar í máli nr. 158/2017 vegna kvörtunar um að erindi kæranda frá 10. október 2017 hafi ekki verið svarað verði tekinn til endurskoðunar og niðurstaðan birt á jafn áberandi hátt og úrskurður nefndarinnar í málinu frá 21. september 2017.

Niðurstaða: Af gögnum málsins verður ráðið að í máli þessu sé deilt um synjun á afhendingu gagna sem varða samskipti Borgarbyggðar við aðila í næsta húsi við kæranda. Í því húsi er nú rekið gistiheimili og hefur kærandi átt aðild að þremur málum fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna leyfisveitinga tengdu því, svo sem nánar kemur fram í málavaxtalýsingu. Heldur kærandi því fram að sem aðila máls beri að afhenda honum gögnin á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en af hálfu sveitarfélagsins hefur honum verið leiðbeint um að upplýsingalög nr. 140/2012 gildi þar um.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Er tekið fram í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum að regla þessi sé forsenda þess að málsaðili geti tjáð sig um málefni svo fullt gagn sé að. Í almennum athugasemdum í nefndu frumvarpi er tekið fram: „Hugtakið „aðili máls“ kemur fyrir á nokkrum stöðum í frumvarpinu og ber að skýra það rúmt þannig að ekki sé einungis átt við þá sem eiga beina aðild að máli, svo sem umsækjendur um byggingarleyfi eða opinbert starf, heldur geti einnig fallið undir það þeir sem hafa óbeinna hagsmuna að gæta, svo sem nágrannar eða meðumsækjendur um starf. Ómögulegt er hins vegar að gefa ítarlegar leiðbeiningar um það hvenær maður telst aðili máls og hvenær ekki, heldur ræðst það af málsatvikum hverju sinni. Það sem ræður úrslitum í því efni er það hvort maður teljist hafa lögvarinna hagsmuna að gæta, en það ræðst m.a. af því um hvaða svið stjórnsýslunnar er að ræða.“

Ákvarðanir þær sem kærandi hefur kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eru til komnar vegna afgreiðslu sveitarfélagsins á umsóknum um byggingarleyfi vegna húss á næstu lóð við kæranda. Þegar sótt er um byggingarleyfi til sveitarfélags er almennt sá einn aðili málsins sem sækir um leyfið. Hins vegar er ljóst að veiting byggingarleyfis getur snert lögvarða hagsmuni annarra aðila, einkum nágranna, og hefur kæranda verið játuð kæruaðild á þeim grundvelli að málum fyrir úrskurðarnefndinni vegna ákvarðana um slíkar leyfisveitingar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í nefndri lagagrein er kæruréttur til úrskurðarnefndarinnar bundinn við lögvarða hagsmuni rétt eins og almennt er gerð krafa um í stjórnsýslurétti og vísað er til í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum. Verður með hliðsjón af framangreindu að telja kæranda einnig aðila máls á sveitarstjórnarstigi í skilningi 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga og á hann þar með rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er varða þær þrjár afgreiðslur sem síðar var skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Af gögnum málsins er ljóst að upphafleg krafa kæranda um gögn var afgreidd á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012, en hann gerði aftur kröfu um afhendingu gagna á grundvelli stjórnsýslulaga í bréfi sínu 6. nóvember 2016. Þeirri kröfu var synjað af sveitarstjóra með bréfi, dags. 13. desember s.á., og var enn vísað til upplýsingalaga. Því mótmælti kærandi með bréfi, dags. 11. janúar 2017, og var því svarað af formanni byggðaráðs með bréfi, dags. 2. febrúar 2017, þar sem tekið var undir sjónarmið sveitarstjóra. Verður að líta svo á að í bréfi kæranda hafi falist endurupptökubeiðni samkvæmt yfirskrift þess og að henni hafi verið hafnað með bréfi formannsins. Þegar kæra barst til úrskurðarnefndarinnar 28. desember 2017 var kærufrestur bæði vegna efnislegrar afgreiðslu sveitarstjórans og synjunar formanns byggðaráðs á endurupptöku málsins löngu liðinn, en samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Eðli máls samkvæmt hlýtur það stjórnvald sem er bært til að leysa úr máli og hefur umráð skjals almennt að vera það stjórnvald sem ákveður hvort veita eigi aðgang að upplýsingum. Í þeim málum sem kærandi hefur átt aðild að fyrir úrskurðarnefndinni hefur verið um að ræða leyfi sem byggingarfulltrúi veitir. Af svari sveitarstjóra frá 13. desember 2016 verður hins vegar ekki annað ráðið en að hann hafi haft umráð þeirra upplýsinga sem efnislegt svar hans laut að. Bar kæranda þá þegar, eða í öllu falli þegar endurupptökubeiðni hans var synjað, að hefjast handa við kæru án ástæðulauss dráttar. Þess í stað kaus hann að ítreka endurtekið erindi sem þegar hafði fengið efnislega afgreiðslu aðila sem ekki verður annað séð en að hafi verið til þess bær. Verður þessum hluta kærumálsins því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 28. gr. stjórnsýslulaga.

Hins vegar fór kærandi að nýju fram á með bréfi, dags. 10. október 2017, að fá afrit allra bréfa og tölvupósta, sem og upplýsingar um önnur samskipti sveitarfélagsins við eigendur gistihússins að Egilsgötu 6. Á þeim tíma var hann aðili að kærumáli nr. 93/2017 fyrir úrskurðarnefndinni, sem varðar sama mál og upplýsingabeiðni hans varðaði að hluta eða í heild. Réttur aðila máls til upplýsinga er nátengdur andmælarétti hans í málinu, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, en ljóst er að honum getur einnig borið nauðsyn til að fá aðgang að málsgögnum að því loknu, t.d. í því skyni að meta réttarstöðu sína. Var erindi kæranda svarað af hálfu sveitarfélagsins með bréfi, dags. 31. október 2017, svo sem áður hefur komið fram.

Beiðni kæranda frá 10. október 2017 um aðgang að gögnum var reifuð í þremur efnisgreinum. Í þeirri fyrstu var beiðst afrits af bréfi tilgreinds lögmanns, dags. 29. september 2017, vegna kærumáls nr. 93/2017. Í annarri efnisgreininni var farið fram á afrit allra bréfa, tölvupósta og upplýsingar um öll skráð samskipti sveitarfélagsins vegna Egilsgötu 6 og 8 í Borgarnesi við eigendur umdeilds gistihúss frá ársbyrjun 2013 til 10. október 2017. Þriðja efnisgrein erindis kæranda laut að beiðni hans um öll skráð samskipti og afrit allra tölvupósta og skjala er tengdust samskiptum sveitarfélagsins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins vegna kæru á rekstrarleyfi gistihússins. Sú kæra mun hafa verið til meðferðar hjá ráðuneytinu enda eru rekstrarleyfi ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Fellur það þar með utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að fjalla um aðgang að gögnum vegna þess kærumáls sem beiðst var í þriðju efnisgrein erindis kæranda.

Í svarbréfi sveitarfélagsins, dags. 31. október 2017, eru tilgreind í átta liðum sjö bréf og einn tölvupóstur og afrit þeirra látin kæranda í té. Í fyrsta töluliðnum er tilgreint bréf það sem kærandi beiddist í fyrstu efnisgrein sinni. Í töluliðum 2.-8. eru talin samskipti milli Borgarbyggðar og forráðamanna hins umdeilda gistihúss, s.s. farið var fram á af hálfu kæranda í annarri efnisgrein erindis hans. Hins vegar fylgdu engar frekari skýringar og var hvorki tiltekið hvort öll umbeðin gögn væru afhent né færður rökstuðningur fyrir því að svo væri ekki, sbr. 19. gr. stjórnsýslulaga, hafi svo verið. Getur svar sveitarfélagsins frá 31. október 2017 til kæranda því ekki talist vera fullnægjandi, enda felst ekki í því afstaða til alls erindis hans. Í því sambandi er rétt að benda á að kærandi bað ekki einungis um afrit allra bréfa og tölvupósta heldur líka um „upplýsingar um öll skráð samskipti Borgarbyggðar við eigendur…“. Lægju engar frekari upplýsingar fyrir bar sveitarfélaginu hið minnsta að greina frá því og þá af hverju það stafaði, t.d. að frekari samskipti hefðu ekki farið fram eða eingöngu farið fram símleiðis eða munnlega og ekki verið skráð.

Mál þetta á sér töluverðan aðdraganda svo sem að framan greinir. Nú eru liðnir rúmir 14 mánuðir frá því að kærandi lagði fram áðurnefnda beiðni um gögn með bréfi, dags. 10. október 2017, sem ekki hefur verið svarað með fullnægjandi hætti af hálfu bæjaryfirvalda. Að svo komnu verður að telja drátt á afgreiðslu málsins orðinn óhæfilegan, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Verður því lagt fyrir sveitarfélagið að taka þann hluta erindisins sem ósvarað er til afgreiðslu án frekari tafa. Skal í því sambandi áréttað að úrskurðarnefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að í skilningi 15. gr. stjórnsýslulaga njóti kærandi stöðu aðila að þeim málum sem hann hefur skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir Borgarbyggð að taka til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar þann hluta erindis kæranda frá 10. október 2017 um aðgang að gögnum sem fram kemur í annarri efnisgrein erindisins.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

126/2018 Káragerði

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2018, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 9. október 2018 um að stöðva ekki efnistöku úr árfarveginum við ána Affall í Vestur-Landeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. október 2018, er barst nefndinni 11. s.m., kæra A og B, þinglýstir eigendur jarðarinnar Bergþórshvols í Vestur-Landeyjum, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 9. október 2018 að stöðva ekki efnistöku án framkvæmdaleyfis í landi Bergþórshvols í Vestur-Landeyjum. Að auki er þess krafist að efnistaka á efnistökusvæðinu verði stöðvuð til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi eystra 31. október og 1. nóvember 2018.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings 30. júní 2011 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi á 5 ha svæði í landi Káragerðis með landnúmerið 163954. Samkvæmt fundargerð fyrrnefnds fundar tók deiliskipulagið til byggingarreits fyrir íbúðarhús, bílskúr og útihús. Aðkoma að svæðinu átti að vera um Landeyjaveg, um Bergþórshvolsveg og aðkomuveg að Káragerði. Kærendur, sem eru þinglýstir eigendur jarðanna Bergþórshvols I og II, komu á framfæri athugasemdum við meðferð málsins þar sem því var mótmælt að aðkoma að Káragerði yrði um aðkomuveg að Bergþórshvoli I og II. Skipulagsnefnd Rangárþings vísaði málinu til sveitarstjórnar Rangárþings eystra til frekari afgreiðslu. Á fundi sveitarstjórnar 8. september 2011 var tekið fram að sveitarstjórn tæki tillit til framkominna athugasemda eigenda Bergþórshvols I og II og mæltist til þess að aðkomu að Káragerði yrði fundinn nýr staður. Á sveitarstjórnarfundi 6. október s.á. var málið tekið fyrir að nýju til þess m.a. að skýra betur fyrri ákvörðun sveitarstjórnar frá 8. september vegna fyrirspurna sem fram höfðu verið bornar af hálfu eigenda Bergþórshvols vegna boðaðra lokana á heimreið að Káragerði. Af þessu tilefni var lögð fram í sveitarstjórn bókun sem samþykkt var samhljóða. Í bókuninni kom fram að sveitarstjórn staðfesti þá afstöðu sem fram kæmi í bréfi lögmanns sveitarfélagsins að lokun á heimreiðinni að Káragerði væri ekki samþykkt af hálfu þess. Þá var tekið fram að sveitarstjórn liti að öðru leyti svo á að um einkaréttarlegan ágreining milli eigenda Bergþórshvols og Káragerðis væri að ræða og að hún myndi ekki aðhafast frekar í málinu að óbreyttu. Var síðan ítrekað í bókuninni að fyrirliggjandi deiliskipulag íbúðarhúss, bílskúrs og útihúss að Káragerði væri samþykkt af hálfu sveitarfélagsins. Byggingarleyfi eigenda Káragerðis væri því án annarra skilyrða en þeirra sem fram kæmu í almennum lögum og reglum um framkvæmdir af því tagi sem um ræddi á svæðinu. Með bókun sinni frá 8. september 2011 hefði sveitarstjórn ekki verið að fella skipulagið úr gildi heldur hefði hún samþykkt deiliskipulagið. Hins vegar hefði sveitarstjórn viljað taka fram að ákveddu eigendur Káragerðis að sækja síðar um breytingu á legu heimkeyrslu að hinum nýbyggðu húsum á jörðinni myndi sveitarfélagið taka jákvætt í það, þrátt fyrir almennt ákvæði í aðalskipulagi um samnýtingu vega svo sem frekast væri kostur, enda félli væntanleg tillaga að skipulagi svæðisins að öðru leyti.

Deiliskipulagstillagan var samþykkt af sveitarstjórn Rangárþings eystra á fundi 8. september 2016. Hinn 28. mars 2017 birtist hún í B-deild Stjórnartíðinda og var tekið fram í greinagerð að aðkoma að Káragerði væri af Landeyjavegi nr. 252 um nýjan aðkomuveg að Káragerði.

Hinn 17. maí 2018 sendu kærendur bréf til skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra og kröfðust stöðvunar á framkvæmdum framkvæmdaaðila skv. 53. gr. skipulagslaga þar sem þeir töldu þær fela í sér framkvæmdaleyfisskylda efnistöku í landi Bergþórshvols. Að sögn kærenda var á þessum tíma hins vegar ekki þörf á frekari afskiptum sveitarfélagsins þar sem framkvæmdaaðilar hættu efnistökunni af sjálfsdáðum. Efnistakan hófst hins vegar aftur um haustið án þess að aflað hefði verið framkvæmdaleyfis og höfðu kærendur því samband við embætti skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins og kröfðust þess að nýju að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar. Skipulags- og byggingarfulltrúi synjaði beiðni kærenda 9. október 2018 með þeim rökum að þar sem efnistakan væri til einkanota væri hún ekki framkvæmdaleyfisskyld. Kærendur óskuðu þá eftir því að embættið endurskoðaði afstöðu sína til erindisins tafarlaust eða rökstyddi hana með fullnægjandi hætti. Tóku þeir fram að um framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd væri að ræða en efnistakan væri í landi kærenda þar sem að á þriðja tug sturtuvagna af möl hefðu verið fjarlægðir. Ekkert framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar lægi fyrir, líkt og skýrt og afdráttarlaust orðalag laganna gerði kröfu um, og bæri því skipulagsfulltrúa að stöðva þær framkvæmdir sem hafnar væru án leyfis skv. 53. gr. skipulagslaga. Lögmaður sveitarfélagsins staðfesti með skeyti 10. október 2018 fyrri afstöðu embættis skipulags- og byggingarfulltrúa. Tók hann fram að tilgangur laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu væri að tryggja að farið væri með löndum við nýtingu auðlinda í jörðu. Benti hann sérstaklega á að í a-lið 2. mgr. 8. gr. kæmi fram að minni háttar efnistaka væri ekki háð sérstöku framkvæmdaleyfi að mati sveitarfélagsins og um væri að ræða efnistöku til einkanota. Áréttaði hann síðan að lokum að viðkomandi malartekja væri ekki framkvæmd sem háð væri skilyrðum um framkvæmdaleyfi að mati sveitarfélagsins. Tók hann síðan fram að sveitarfélagið myndi ekki blanda sér með neinum hætti í þær deilur sem kynnu að vera uppi um málið á Bergþórshvoli og yrðu aðilar því að leita annarra úrræða til að leiða þær til lykta.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að samkvæmt 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 8. gr. a í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sé efnistaka að meginreglu háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Skilyrði undanþágu frá slíku leyfi komi fram í 2. mgr. fyrrnefnds ákvæðis þar sem segi að eiganda eða umráðamanni eignarlands sé heimil minni háttar efnistaka til eigin nota, án þess að aflað sé framkvæmdaleyfis. Af þessu leiði að afla þurfi framkvæmdaleyfis fyrir efnistöku ef eigandi eða umráðamaður efnistökusvæðis stendur ekki að framkvæmdinni, efnistakan sé minniháttar eða efnistakan sé ekki til einkanota.

Að mati kærenda ættu umrædd skilyrði fyrir undanþágu frá framkvæmdaleyfi ekki við um hina kærðu efnistöku. Efnistökusvæðið sé innan þinglýstra marka jarðar þeirra, Bergþórshvols, og hún hafi ekki verið til eigin nota framkvæmdaaðila þar sem efninu hafi verið ekið í veginn að Káragerði, sem sé héraðsvegur, sbr. c-lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007. Því hafi eigendur Káragerðis einungis borið helming kostnaðar við gerð vegarins á móti Vegagerðinni, sbr. 20. og 13. gr. vegalaga, og að lokum hafi framkvæmdin ekki með nokkru móti geta talist minni háttar í skilningi laganna, en kærendum hafi talist til að um 50 vörubílahlöss af möl hafi verið fjarlægð af efnistökusvæðinu á sólarhring. Þá sé efnistakan enn yfirstandandi og aukist jafnt og þétt. Af framangreindu blasi við að umrædd efnistaka sé framkvæmdaleyfisskyld og hafi því embætti skipulagsfulltrúa borið að lögum að grípa tafarlaust til aðgerða til að stöðva óleyfisframkvæmdina í samræmi við 53. gr. skipulagslaga.

Kærendur geri athugasemdir við þá fullyrðingu sveitarfélagsins að verkinu sé lokið. Hið rétta sé að aðeins hafi verið ekið efni í hluta af heimreiðinni að Káragerði og því standi allar líkur til þess að efnistökunni verði fram haldið í óþökk kærenda. Hafi vinnuvél á vegum eigenda Káragerðis staðið á efnistökusvæðinu svo ætla megi að áframhaldandi efnistaka sé þar yfirvofandi.

Við meðferð málsins og undirbúning ákvörðunarinnar hafi skipulagsfulltrúi ekki gætt nægilega vel að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum rannsóknarreglu 10. gr. þeirra, þar sem ákvörðun embættisins hafi verið tekin þegar hvorki hafi verið búið að staðreyna umfang efnistökunnar né hvort hún hafi verið til einkanota framkvæmdaaðila.

Málsrök Rangárþings eystra: Að hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að í kjölfar ábendingar kærenda varðandi umdeilda efnistöku hafi verið aflað upplýsinga um framangreint mál í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélagið hafi fengið þær upplýsingar frá framkvæmdaaðilum að kærendur hafi meinað þeim að nota sameiginlegan afleggjara jarðanna tveggja. Af þeim sökum hafi framkvæmdaaðilar ákveðið að bera ofan í afleggjara sem sé innan lands þeirra, Káragerðis, til að komast að húsi sínu. Til þess verks hafi framkvæmdaaðilar tekið óverulegt malarefni úr eignarlandi sínu. Eftir rannsókn sveitarfélagsins hafi það verið mat þess að umrædd efnistaka rúmaðist innan heimilda 2. mgr. 8. gr. a í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og að ekki hefði þurft framkvæmdaleyfi vegna hennar. Hafi því ekki verið tilefni til að stöðva efnistökuna auk þess sem verkinu hafi þá verið lokið. Framkvæmdaaðilar hafi ekki verið að útbúa nýjan veg heldur bera í veg sem hafi verið innan jarðar þeirra. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi farið á vettvang vegna málsins til að staðfesta magn efnistökunnar og um hafi veri að ræða 24 vagna, eða um 8 m3 efni í hverjum vagni, samanlagt tæplega 200 m3.

Athugasemdir framkvæmdaaðila: Af hálfu framkvæmdaaðila er vísað til þess að frá árinu 1998 hafi svæðið verið nýtt til efnistöku til heimanota. Efnistakan sem hér hafi farið fram hafi einnig verið til heimanota en efnið hafi verið nýtt til að bera ofan í bráðabirgða slóða sem nýttur séu eins og vegur vegna samskiptavanda við nágranna. Sé ljóst að þörf sé á frekari ofaníburði í þennan slóða og til þess muni hann sækja möl eftir þörfum úr landi sínu. Viðgengist hafi allt þar til nýlega að eigendur Káragerðis hafi getað farið um jörð Bergþórshvols og sótt möl úr Affalli eftir þörfum, en frjáls malartaka hafi tíðkast úr vatnasvæði Affallsins. Framkvæmdaaðilar hafi ekið um 25 vagna af möl úr hrúgu sem þegar hafi verið mokað upp í því skyni að leggja við hlið fyrirhugaðs vegstæðis í landi Káragerðis. Eigendur Káragerðis hafi brugðið á þetta ráð í ljósi þess að eigendur Bergþórshvols hafi lokað fyrir umferð eigenda, íbúa og gestkomandi að Káragerði. Malartakan hafi ekki verið meiri en þetta og séu rangar þær fullyrðingar eigenda Bergþórshvols að hún sé yfirstandandi og hafi aukist jafnt og þétt.

Andmæli kærenda við umsögn sveitarfélagsins:
 Kærendur mótmæla því að sameiginleg aðkoma sé að jörðunum Bergþórshvoli og Káragerði. Hið rétta sé að á meðan fyrrverandi eigandi Káragerðis hafi búið að Bergþórshvoli II hafi hann ekið frá íbúðarhúsi síðarnefndu jarðarinnar að Káragerði. Forsendur þeirrar aðkomu að jörðinni Káragerði um og frá landi Bergþórshvols hafi hins vegar liðið undir lok þegar fyrrverandi eigandi Bergþórshvols II hafi selt jörðina til kærenda.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé aðkoma að jörðinni Káragerði frá þjóðveginum innan þinglýstra marka þeirrar jarðar. Í greinagerð deiliskipulagsins og með deiliskipulags-uppdrættinum sjáist svo ekki verði um villst hvernig gert sé ráð fyrir heimreið að Káragerði frá Landeyjavegi nr. 252, en jafnframt hvernig heimreið í landi Bergþórshvols endi við íbúðarhúsið að Bergþórshvoli II. Deiliskipulagið sé fullgild réttarheimild sem stjórnvaldsfyrirmæli, sett af sveitarfélaginu og skuldbindandi fyrir bæði almenning og sveitarfélagið sjálft. Deiliskipulagið sé undirritað af núverandi sveitarstjóra og sæti því óneitanlega furðu að sveitarfélagið skuli fullyrða að allt annað fyrirkomulag sé í gildi á svæðinu en fram komi í deiliskipulaginu.

Því sé hafnað að efnistakan sem um ræði hafi verið óveruleg. Um 50 vörubílahlöss af malarefni hafi verið flutt af efnistökusvæðinu. Umfang efnistökunnar sé því langt umfram það sem geti talist óverulegt í skilningi 2. mgr. 8. gr. a í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Athygli veki að engin gögn fylgi bréfi sveitarfélagsins til stuðnings þeirri fullyrðingu þess að efnistakan falli undir það að vera óveruleg framkvæmd í skilningi laganna. Þá mótmæli kærendur þeirri fullyrðingu að framkvæmdaaðilar hafi tekið óverulegt malarefni úr eignarlandi sínu. Sú fullyrðing sé í hróplegu ósamræmi við þinglýsta yfirlýsingu eigenda jarðanna Káragerðis og Bergþórshvols, dags. 22. júní 2009, þar sem staðfest hafi verið landamerki á milli jarðanna. Á loftmynd með landamerkjum jarðanna sé augljóst að efnistökusvæðið sem sé næst Affallinu sé innan þinglýstra landamerkja Bergþórshvols. Þá sé gerð athugasemd við það að sveitarfélagið bregðist ekki við því sjónarmiði kærenda að efnistakan sé ekki til eigin nota framkvæmdaaðila. Ljóst sé að framkvæmdaaðilar muni ekki bera nema helming kostnaðar af gerð vegarins á móti Vegagerðinni í samræmi við 20. gr. vegalaga nr. 80/2008. Skilyrði tilvitnaðrar 2. mgr. 8. gr. a í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og 2. ml. 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um að framkvæmdin sé til einkanota séu því ekki uppfyllt.

Fullyrðingar sem fram komi í bréfi sveitarfélagsins séu í raun svo víðsfjarri staðreyndum og gögnum málsins að kærendur telja einsýnt að sveitarfélaginu hafi orðið á mistök við afgreiðslu þess. Raunar renni bréf sveitarfélagsins stoðum undir þá fullyrðingu kærenda, að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi við afgreiðslu á kröfu kærenda um stöðvun efnistökunnar ekki gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda ljóst að ekkert hafi verið aðhafst í málinu fyrr en ákvörðun embættisins hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Upplýsingaöflun sveitarfélagsins um málsatvik hafi síðan verið ófullnægjandi með öllu eins og ráða megi af efnistökum bréfsins.

Niðurstaða: Fram kemur í 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Þá er samkvæmt 2. mgr. 13. gr. öll efnistaka á landi, úr botni vatnsfalla og stöðuvatna og úr hafsbotni innan netlaga háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar að því undanskildu að eiganda eða umráðamanni eignarlands er heimil minni háttar efnistaka til eigin nota án leyfis nema um sé að ræða náttúruverndarsvæði. Er ákvæði þetta sambærilegt 8. gr. a í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Sé framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd hafin án þess að framkvæmdaleyfi sé fengið fyrir henni er eftir atvikum unnt að leita atbeina skipulagsfulltrúa um stöðvun framkvæmda, sbr. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga.

Í máli þessu greinir kærendur og framkvæmdaaðila á um eignarheimildir að landi því þar sem umdeild malartaka átti sér stað. Upplýst hefur verið að framkvæmdaaðilarnir hafa stefnt kærendum fyrir Héraðsdóm Suðurlands og farið fram á viðurkenningu á því að jörð þeirra Káragerði tilheyri þriðjungur af óskiptum hlunnindum Bergþórshvolstorfu, sem felur þá m.a. í sér þriðjungshlutdeild til malarnáms ásamt tilheyrandi umferðarrétti. Telja framkvæmdaaðilar sig því hafa rétt til efnistöku á svæðinu. Það er hvorki á valdi skipulagsfulltrúa né úrskurðarnefndarinnar að skera úr slíkum ágreiningi heldur á úrlausn hans eftir atvikum undir dómstóla. Er því óljóst hvernig eignarréttindi að umdeildu malartökusvæði er háttað.

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi er umrætt svæði ætlað til malarnáms og er þar tekið fram að malarnám skuli fyrst og fremst fara fram á slíkum stöðum þar sem árframburður jafni út áhrif námsins. Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur upplýst að umrædd malartaka hafi verið úr árfarvegi Affalls. Því má gera ráð fyrir að framburður árinnar upphefji áhrif malarnámsins að mestu og hefur malartakan því væntanlega takmörkuð áhrif á ásýnd lands. Samkvæmt upplýsingum skipulags- og byggingarfulltrúa var um að ræða tæplega 200 m3 malartekju, sem fallast má að ekki geti talist meiri háttar með tilliti til staðhátta. Þá verður ekki annað séð en að malartakan hafi verið ætluð til eigin nota framkvæmdaaðila, en ljóst er að vegurinn er heimkeyrsla að húsi í þeirra eigu og skiptir þá ekki máli þótt framkvæmdaaðilar hafi ekki staðið einir að kostnaði við gerð vegarins.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að fullnægjandi rök hafi verið færð fram fyrir hinni kærðu ákvörðun að synja beiðni kærenda um stöðvun umræddrar efnistöku. Slík ákvörðun felur í sér íþyngjandi réttarúrræði sem beita ber af varúð og einungis þegar ótvírætt er að lagaskilyrði teljist uppyllt. Verður kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra um að stöðva ekki efnistöku landeigenda Káragerðis úr árfarvegi árinnar Affalls í Vestur-Landeyjum skv. 53. gr. skipulagslaga.

117/2018 PCC Bakka umframgjald

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2018, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. september 2018 um álagningu umframgjalds fyrir vinnu við starfsleyfi PCC Bakka Silicon hf. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir PCC Bakki Silicon hf., Bakkavegi 2, Húsavík, ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. september 2018 um álagningu umframgjalds fyrir vinnu við starfsleyfi kæranda fyrir rekstri kísilverksmiðju. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara er þess krafist að gjaldið verði lækkað.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 23. og 26. október 2018.

Málavextir: Kærandi sótti um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar í september 2014 og fóru fram óformleg samskipti þeirra í milli í kjölfarið. Í bréfi, dags. 24. september 2015, var umsókninni veitt formleg viðtaka auk þess sem kærandi var upplýstur um að vinna stofnunarinnar við gerð starfsleyfa gæti reynst mun meiri en gert væri ráð fyrir í föstu leyfisgjaldi samkvæmt gjaldskrá fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi til handa kæranda 8. nóvember 2017 og var það birt 13. s.m. á heimasíðu stofnunarinnar. Með tölvuskeyti 15. s.m. var kæranda tilkynnt um viðbótarkostnað vegna vinnslu starfsleyfisins og tímaskýrsla send með. Loks var kæranda sent bréf, dags. 23. s.m., þar sem gerð var grein fyrir viðbótarkostnaði við vinnu starfsleyfisins að fjárhæð kr. 7.616.400 og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir við innheimtuna. Reikningur var gefinn út sama dag og sendur með bréfinu. Kærandi sendi bréf til Umhverfisstofnunar, dags. 29. nóvember 2017, þar sem innheimtu og fjárhæð viðbótargjaldsins var mótmælt. Umhverfisstofnun sendi kæranda bréf, dags. 21. ágúst 2018, þar sem fram kom að reikningur hefði verið gefinn út fyrir mistök samhliða því að bréf hefði verið sent með upplýsingum um umframkostnaðinn. Innheimta hefði þegar verið stöðvuð eftir ábendingu kæranda. Var forsendum fyrir nefndum umframkostnaði lýst nánar og jafnframt tekið fram að 56 tímar af þeim viðbótartímum sem gjald hefði verið innheimt fyrir hefðu verið unnir í tíð eldri gjaldskrár, þegar tímagjald hafi verið kr. 11.900 í stað kr. 13.200. Var upphæð viðbótargjaldsins lækkuð um kr. 72.800 og varð því heildarupphæð þess kr. 7.543.600. Kom fram að annar reikningur yrði gefinn út á næstu dögum og er sá reikningur frá 5. september 2018.

Málsrök kæranda: Kærandi mótmælir innheimtu viðbótargjalds og fjárhæð þess. Innheimta Umhverfisstofnunar á fastagjaldi vegna starfsleyfisumsókna og viðbótargjaldi byggi á fyrrgreindri gjaldskrá nr. 535/2015, sem sett hafi verið með stoð í 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þar sé mælt fyrir um að ráðherra setji, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni sé falið að annast eða taki að sér. Þurfi því innheimta stofnunarinnar eðli málsins samkvæmt að eiga sér stoð í fyrirmælum gjaldskrárinnar. Byggt sé á því að ekki sé stoð fyrir innheimtu umrædds viðbótargjalds í gjaldskrá stofnunarinnar, eins og hér hátti til. Í c-lið 2. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar segi að þegar ljóst sé að útgáfa leyfis hafi í för með sér umframvinnu skuli umsækjanda gerð grein fyrir umfangi þeirrar vinnu. Reikningur vegna frekari vinnu skuli gefinn út áður en starfsleyfi sé gefið út. Sams konar ákvæði hafi verið að finna í 4. gr. áðurgildandi gjaldskrár stofnunarinnar nr. 1281/2013.

Kæranda hafi hvorki verið gerð grein fyrir að útgáfa leyfis hefði í för með sér umframvinnu né fyrir umfangi þeirrar vinnu fyrr en eftir útgáfu starfsleyfis. Það sé bæði í andstöðu við skýrt orðalag gjaldskrárinnar þar sem gert sé ráð fyrir því að umsækjanda sé fyrir fram gert viðvart um umfang umframvinnu og eftir atvikum það sem fram hafi komið í bréfi Umhverfisstofnunar frá 24. september 2015, þ.e. að kæranda yrði sérstaklega tilkynnt ef til umframvinnu kæmi. Þar sem farið hafi verið gegn framangreindum fyrirmælum, sem sett hafi verið til að tryggja hagsmuni umsækjenda, geti innheimta umrædds viðbótargjalds ekki staðist.

Viðbótargjaldið nemi verulegri fjárhæð og sé umframvinna, eins og skilgreind sé, meira en 90% af heildarreikningi. Ekki hafi verið gerð grein fyrir umfangi þessarar vinnu fyrir fram eða umsækjanda gert viðvart um hana á annan hátt en með almennri tilkynningu sem send hafi verið við byrjun vinnu vegna umsóknarinnar. Þessi málsmeðferð standist ekki þær kröfur sem gerðar séu til stjórnvalds sem leyfisveitanda, enda beinlínis ráðgert að fyrir fram sé gerð grein fyrir umframvinnu í samræmi við sjónarmið um fyrirsjáanleika og réttaröryggi.

Markmiðið sé bersýnilega að umsækjandi hafi að minnsta kosti hugmynd um umfang vinnu og kostnað sem af henni hljótist áður en út í hana sé farið. Slíkt sé sérstaklega mikilvægt þegar viðbótargjaldtaka sé af þeirri stærðargráðu sem hér um ræði. Þá sé áréttað að meginreglan sé sú að borgarar verði ekki látnir bera kostnað af einstökum kostnaðarliðum við rekstur opinberra stofnana án lagaheimildar. Mælt sé fyrir um að Umhverfisstofnun þurfi að setja sér gjaldskrá sem innheimta byggist á. Stofnuninni sé því skylt að haga innheimtu til samræmis við fyrirmæli hennar, þar með skýr fyrirmæli c-liðar 2. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar um innheimtu viðbótargjalds, en því hafi ekki verið fylgt.

Hvað sem öðru líði sé byggt á því að skráður tímafjöldi vegna vinnu við útgáfu starfsleyfisins fari langt fram úr því sem eðlilegt geti talist, t.a.m. hafi verið varið um 297 klst. í vinnu við gerð tillögu.

Kærandi hafi óskað eftir upplýsingum hjá Umhverfisstofnun um skráðan tímafjölda við gerð starfsleyfa í sambærilegum málum. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 21. ágúst 2018, komi fram að skráður tímafjöldi í nýlegum starfsleyfum fyrir starfsleyfi í 1. flokki sé á bilinu 107-271 tími. Í rökstuðningi Umhverfisstofnunar fyrir skráðum tímafjölda komi t.a.m. fram að breytingar hafi verið gerðar á lögum nr. 7/1998 um mitt árið 2017, sem geri það að verkum að vinnsla starfsleyfisins hafi orðið tímafrekari en ella. Í engu sé gerð grein fyrir því hvernig lagabreyting hafi haft áhrif á útgáfu starfsleyfisins. Vísist einnig til bréfs, dags. 23. nóvember 2017.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu Umhverfisstofnunar er bent á að í 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir segi að ráðherra setji, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni sé falið að annast eða stofnunin taki að sér. Upphæð gjalds skuli taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið megi ekki vera hærra en sá kostnaður. Skuli birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

Í staðfestri gjaldskrá stofnunarinnar sé kveðið á um tímagjald í 1. gr. og gjald fyrir vinnslu starfsleyfa í 4. gr. Í c-lið 2. mgr. 4. gr. segi að fyrir frekari vinnu við gerð starfsleyfistillagna, vinnslu og afgreiðslu innsendra athugasemda og fyrir kynningu, þ.m.t. borgarafund um kynningu á starfsleyfistillögu, skuli greiða tímagjald samkvæmt 1. gr., ferðakostnað samkvæmt 2. gr. og annan útlagðan kostnað. Sjá megi á yfirliti tímaskráningar að vinnan við starfsleyfistillöguna hafi verið sundurliðuð í samræmi við framangreindar kröfur, m.a. gerð tillögu, yfirferð gagna, auglýsingu og kynningu. Þó nokkur vinna geti fallið til við afgreiðslu og lokavinnslu starfsleyfa, einkum fyrir umfangsmeiri starfsemi, eins og þá sem hér um ræði. Sé talið ljóst að tímaskráningar hafi verið í samræmi við ákvæði gjaldskrárinnar og 53. gr. laga nr. 7/1998.

Umhverfisstofnun hafi alltaf litið svo á að tilgangur ákvæðis gjaldskrár um að gefa skuli út reikning áður en starfsleyfi sé gefið út sé að tryggja að umsækjandi standi skil á gjaldinu og ekki séu veittar heimildir til losunar mengunarefna án þess að greiða þann kostnað sem leiði af vinnslu slíks leyfis. Reynslan sýni hins vegar að hverfandi hætta sé á að reikningur vegna vinnslu starfsleyfis innheimtist ekki og því ekki talin þörf á að láta rekstraraðila bíða eftir lokaniðurstöðu varðandi gjaldtöku áður en leyfið sé gefið út. Kærandi hafi lagt áherslu á útgáfu starfsleyfisins og hafi stofnunin litið svo á að kærandi hefði meiri hagsmuni af því að fá leyfið gefið út en að kostnaður væri gerður upp, enda hefði vinnsla starfsleyfisins tekið langan tíma. Hafi ekki verið talið tækt að láta kæranda bíða nokkrar vikur eftir útgáfu reiknings, enda gert ráð fyrir að umsækjandi hafi andmælarétt vegna áformaðrar innheimtu.

Tekið sé undir að sú regla að gerð sé grein fyrir umframkostnaði og umsækjanda sé gefinn kostur á að gera athugasemdir við fyrirhugaða innheimtu sé sett til að tryggja hagsmuni rekstraraðila. Áréttað sé að kæranda hafi verið gefinn sanngjarn og rúmur tími til að gera athugasemdir við fyrirhugaða innheimtu. Innheimtu reikningsins hafi verið frestað á ný vegna framkominnar kæru.

Hafa beri í huga að Umhverfisstofnun hefði sent reikning vegna umræddrar vinnu jafnvel þótt kærandi hefði óskað eftir því á lokastigi málsins að fá ekki útgefið starfsleyfi eða ef útgáfu starfsleyfis hefði verið synjað. Það sé í samræmi við greiðslureglu umhverfisréttarins, sem sé forsenda ákvæða um gjöld fyrir vinnslu starfsleyfis fyrir starfsemi sem geti haft í för með sér mengun. Um sé að ræða þjónustugjald, sbr. áðurnefnt ákvæði 53. gr. laga nr. 7/1998, en grundvöllurinn að baki þjónustugjöldum sé að greiddur sé raunkostnaður fyrir veitta þjónustu. Geri stofnunin því athugasemd við það sem fram komi í kæru að borgarar verði ekki látnir bera kostnað af einstökum kostnaðarliðum án lagaheimildar. Skýr heimild sé fyrir gjaldtöku vegna viðbótarkostnaðar vegna vinnslu starfsleyfis í gjaldskrá, staðfestri af ráðherra, sem byggi á heimild í 53. gr. laga nr. 7/1998. Engar röksemdir hafi komið fram um að ákvæði c-liðar í 2. mgr. 4. gr. í gjaldskránni hafi ekki lagastoð.

Þrátt fyrir bréf stofnunarinnar, dags. 24. september 2015, hafi engin fyrirspurn borist frá kæranda um áfallinn kostnað á vinnslutíma starfsleyfisins. Hefði kæranda mátt vera ljóst að í margvíslegum samskiptum hans og verkfræðistofu af hans hálfu við Umhverfisstofnun væri falin talsverð vinna af hálfu stofnunarinnar. Í tölvupósti stofnunarinnar, dags. 30. júní 2015, hafi t.d. verið kallað eftir viðbótargögnum, settar fram spurningar og bent á að vöktunaráætlun væri í rýni. Jafnframt hafi verið óskað eftir minnisblaði um lykt.

Umsókn um starfsleyfi til handa kæranda hafi borist Umhverfisstofnun í september 2014. Upphafleg drög að starfsleyfistillögu hafi verið send honum 2. nóvember 2015. Viðbrögð kæranda við þeirri tillögu hafi borist 20. mars 2016 og ýmis samskipti hafi átt sér stað við hann í kjölfarið. Eins og kæranda hafi verið gerð grein fyrir geti það leitt til viðbótarkostnaðar sé gert hlé á vinnslu máls þar sem ákveðinn tími fari í upprifjun þegar öðrum málum hafi verið sinnt í millitíðinni. Viðbrögð stofnunarinnar við athugasemdunum hafi verið send 24. maí 2016.

Í tímaskýrslu vegna vinnslu starfsleyfis kæranda séu teknir saman tímar sérfræðinga í starfsleyfisgerð, sérfræðings í loftgæðum, sérfræðings í fráveitum, lögfræðings, teymisstjóra og sviðsstjóra. Starfsemi kísilversins sé umfangsmikil og feli í sér losun bæði í loft og vatn og samvinna við sérfræðinga í þeim efnum því nauðsynleg. Fá starfsleyfi hafi verið gefin út á Íslandi fyrir sambærilega starfsemi. Um mitt árið 2017 hafi verið gerðar breytingar á lögum nr. 7/1998. Laga hafi þurft kröfur í starfsleyfi kæranda að breyttum kröfum í lögunum sem hafi m.a. falið í sér breytta skilgreiningu á bestu aðgengilegu tækni, breyttar kröfur um starfsleyfisskilyrði, þ.m.t. um vægi BAT-niðurstaðna, og breytt ákvæði um eftirlit. Áhrif nefndra breytinga megi sjá í starfsleyfinu, m.a. í ákvæði 3.1, þar sem einnig komi fram að nýjar BAT-niðurstöður hafi verið birtar á vinnslutíma starfsleyfisins. Af þessu leiði einnig að ekki hafi gilt sömu kröfur við útgáfu umrædds starfsleyfis og hafi gilt þegar síðustu starfsleyfi fyrir kísilverksmiðju hafi verið gefin út.

Við gerð starfsleyfisins hafi farið fram ítarleg skoðun á ákvæðum um þungmálma og á líkönum sem fjalli um dreifingu og mælingar, m.a. vegna óska kæranda um hærri heimild til losunar á blýi en Umhverfisstofnun hafi lagt upp með. Upplýsingar frá kærendum um gjallmyndun hafi jafnframt breyst. Vandamálið hafi reynst stafa af mismunandi skilgreiningum. Mikilvægt hafi verið að fara ítarlega yfir álitamálið með tilliti til forsendna mats á umhverfisáhrifum. Jafnframt hafi verið farið yfir áætlanir um mælingar og umhverfisvöktun við gerð starfsleyfisins, sbr. tölvuskeyti frá 23. maí 2017, þar sem fram hafi komið að í kjölfar fjögurra vinnufunda hafi starfsleyfistillaga verið uppfærð. Líti stofnunin svo á að með nefndu skeyti hafi jafnframt verið gerð grein fyrir umframvinnu við starfsleyfisgerð.

Vegna ófyrirséðra neikvæðra áhrifa reksturs kísilvers við Helguvík á loftgæði í íbúabyggð hafi við vinnslu starfsleyfis kæranda verið lögð sérstök áhersla á samanburð á tækni kísilvera með starfsleyfi á Íslandi til að skoða hvort sambærileg hætta væri á lyktarmengun og orðið hefði vart við í Helguvík. Hafi því verið óskað eftir aðstoð sérfræðinga í eftirlitsteymi stofnunarinnar við starfsleyfisgerðina. Hafi framangreindir þættir haft áhrif á umfang vinnu við gerð tillögu. Athugasemdir sem fram hafi komið á kynningartíma hafi kallað á sérstaka athugun m.a. hjá Skipulagsstofnun og hafi úrvinnsla athugasemda verið nokkuð tímafrek, sbr. skráningu á verkþáttinn úrvinnsla athugasemda og undirbúningur afgreiðslu. Vegna umfangs og eðlis starfseminnar hafi verið lögð áhersla á að vinna ítarlegt starfsleyfi með það að markmiði að stjórn mengunarvarna og eftirlit yrði sem allra best.

Niðurstaða: Kærandi lagði fram umsókn um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar í september 2014. Stofnunin sendi bréf til kæranda, dags. 24. september 2015, með titlinum „Tilkynning um móttöku umsóknar um starfsleyfi og upplýsingar um kostnað vegna vinnslu starfsleyfis.“ Í bréfinu kemur fram að starfsemin sem sótt sé um leyfi fyrir falli undir 1. eftirlitsflokk, sbr. 5. tölul. í fylgiskjali 1 og tölul. 2.5 í I. viðauka í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Kostnaður vegna móttöku, grunnvinnu við gerð starfsleyfistillögu, auglýsingar og útgáfu sé skv. 4. gr. gjaldskrár nr. 535/2015 fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar, kr. 636.000. Í niðurlagi bréfsins er vakin athygli á því að vinna stofnunarinnar við gerð starfsleyfa geti farið fram úr þeim forsendum sem notaðar séu til að reikna út kostnað í gjaldskránni. Því geti komið til þess að síðar verði innheimtur aukakostnaður samkvæmt verkbókhaldi stofnunarinnar. Ef til þess komi verði kærandi upplýstur um það og honum gefinn kostur á að koma að sínum sjónarmiðum áður en endanleg ákvörðun um innheimtu verði tekin. Reikningur verði sendur út síðar.

Samkvæmt framlögðum gögnum úr verkbókhaldi Umhverfisstofnunar vegna vinnu við starfsleyfið fór fram vinna við það frá því í febrúar 2015 og þar til leyfið var gefið út 8. nóvember 2017, með einhverjum hléum. Samkvæmt bréfi Umhverfisstofnunar til kæranda, dags. 23. nóvember 2017, er gert ráð fyrir 40 klst. vinnu við starfsleyfi samkvæmt föstu gjaldi, en ljóst er að vinna við starfsleyfi kæranda fór langt fram úr því. Samkvæmt framangreindu bréfi nam vinnan 617 klukkustundum og ákvað stofnunin að innheimta fyrir 577 klukkustunda vinnu, kr. 13.200 fyrir hverja klst., eða alls kr. 7.616.400. Síðar var ákveðið að lækka innheimtan kostnað vegna umfram vinnu um kr. 72.800, vegna eldri gjaldskrár og varð hann því kr. 7.543.600. Var þetta tilkynnt með bréfi Umhverfisstofnunar til kæranda, dags. 21. ágúst 2018 og var fyrri reikningurinn afturkallaður. Seinni reikningurinn er frá 5. september 2018.

Heimild til gjaldtöku Umhverfisstofnunar fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast eða stofnunin tekur að sér er í 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt ákvæðinu setur ráðherra, að fengnum tillögum stofnunarinnar, gjaldskrá fyrir þjónustuna. Skal upphæð gjalds taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt framangreindu eiga reglur er gilda um þjónustugjöld við um nefnda gjaldtöku.

Auglýsing um gjaldskrá fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar nr. 535/2015 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. júní 2015. Samkvæmt 1. gr. hennar er gjald fyrir útselda vinnu sérfræðings kr. 11.900 á hverja klukkustund fyrir verkefni og þjónustu sem stofnuninni eru falin í lögum og reglugerðum og sem heimilt er að taka gjald fyrir. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 4. gr. auglýsingarinnar er fastagjald fyrir móttöku umsóknar, grunnvinnu við gerð starfsleyfistillögu, auglýsingar og útgáfu kr. 636.000 fyrir 1. eftirlitsflokk. Samkvæmt b-lið 2. mgr. skal greiða tímagjald samkvæmt 1. gr., ferðakostnað samkvæmt 2. gr. og annan útlagðan kostnað fyrir frekari vinnu við gerð starfsleyfistillagna, vinnslu og afgreiðslu innsendra athugasemda og fyrir kynningu, þ.m.t. borgarafund um kynningu á starfsleyfistillögu. Með auglýsingu nr. 178/2016, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 25. febrúar 2016, var framangreindri gjaldskrá breytt, m.a. þannig að tímagjald fyrir vinnu sérfræðings varð kr. 13.200 og fast gjald fyrir starfsleyfi fyrir 1. eftirlitsflokk varð kr. 705.000. Eins og fram hefur komið var í seinni útgefnum reikningi hluti vinnu Umhverfisstofnunar reiknaður samkvæmt eldri gjaldskránni en eftir gildistöku auglýsingar nr. 178/2016 var innheimt samkvæmt henni.

Eins og að framan greinir hefur Umhverfisstofnun lagt fram gögn úr verkbókhaldi stofnunarinnar vegna vinnu við umrætt starfsleyfi og jafnframt gefið skýringar á því í hverju vinnan hafi falist og hvers vegna hún hafi orðið jafn mikil og raunin varð. Miðað við umfang starfseminnar sem um ræðir og þann tíma sem vinnsla leyfisins hefur tekið þykir ekki um óeðlilega marga tíma að ræða. Þegar hefur verið fjallað um ákvæði í gjaldskrá Umhverfisstofnunar um tímagjald fyrir sérfræðivinnu og starfsleyfisgerð. Ekki leikur vafi á að um lögmæta gjaldskrá er að ræða, sem var samin og birt í samræmi við 53. gr. laga nr. 7/1998. Var því með reikningi Umhverfisstofnunar verið að innheimta lögmætan kostnað fyrir unna vinnu í samræmi við heimild 53. gr.

Í niðurlagi b-liðar 2. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar segir að þegar ljóst sé að útgáfa leyfis hafi í för með sér umframvinnu skuli umsækjanda gerð grein fyrir umfangi þeirrar vinnu. Reikningur vegna frekari vinnu skuli gefinn út áður en starfsleyfi sé gefið út. Eins og fram hefur komið fór Umhverfisstofnun ekki eftir nefndum fyrirmælum við innheimtu umframgjaldanna. Kærandi var látinn vita fyrir fram að ef viðbótarvinna færi fram yrði innheimt fyrir hana samkvæmt gjaldskrá, en fékk ekki vitneskju um framgang vinnunnar við starfsleyfið á því tímabili sem hún fór fram. Gat kærandi því ekki gert sér grein fyrir þeim kostnaði sem skapaðist. Þegar kæranda var loks tilkynnt um umframkostnað með bréfi, dags. 23. nóvember 2017, eftir að starfsleyfi hafði verið gefið út, var útgefinn reikningur sendur með bréfinu, þrátt fyrir að í því kæmi fram að kæranda væri gefinn kostur á að tjá sig um innheimtuna og skyldi afstaða hans berast stofnuninni fyrir 30. s.m. Framangreint verklag var ekki í samræmi við fyrirmæli b-liðar 2. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar og var með þessu komið í veg fyrir að kærandi gæti neytt andmælaréttar síns áður en reikningur væri gefinn út og settur í innheimtu. Var um annmarka að ræða á ákvörðun stofnunarinnar hvað þetta varðaði.

Umhverfisstofnun hefur skýrt umrætt ferli sem svo að um mistök hafi verið að ræða og að umræddur reikningur hafi strax verið tekinn úr innheimtu, en nýr reikningur var ekki gefinn út fyrr en í september ári síðar, eftir að tilkynning um það hafði borist kæranda frá Umhverfisstofnun með bréfi, dags. 21. ágúst 2018. Verður að telja að með afturköllun ákvörðunar sinnar og þeim tíma sem leið frá því að reikningurinn var tekinn úr innheimtu og ný ákvörðun var tekin hafi Umhverfisstofnun bætt út þeim annmarka sem var á innheimtunni og veitt kæranda nægan frest til að gera athugasemdir við þá upphæð sem ákveðin var vegna umframvinnunnar. Er því ekki um galla að ræða sem valdið getur ógildingu ákvörðunarinnar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. september 2018 um álagningu umframgjalds fyrir vinnu við starfsleyfi PCC Bakka Silicon hf.

145/2017 PCC Bakka starfsleyfi

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 145/2017, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 8. nóvember 2017 um að veita starfsleyfi fyrir rekstri kísilmálmverksmiðju, með allt að 66.000 tonna ársframleiðslu af hrákísli, á iðnaðarsvæðinu á Bakka í Norðurþingi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. desember, er barst nefndinni 14. s.m., kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 8. nóvember 2017 um að veita starfsleyfi fyrir verksmiðju PCC Bakka Silicon hf. á Bakka við Húsavík til framleiðslu allt að 66 þúsund tonnum kísilmálmi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 26. janúar 2018.

Málavextir: 
Frummatsskýrsla um kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka í Norðurþingi var send Skipulagsstofnun til athugunar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum í febrúar 2013. Framkvæmdin og frummatsskýrslan voru auglýst 21. febrúar í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og staðarblaðinu Skránni. Skýrslan lá frammi til kynningar frá 22. febrúar til 5. apríl 2013 á bókasafni Húsavíkur, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun. Einnig var hún aðgengileg á veraldarvefnum. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Norðurþings, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Mannvirkjastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Vinnueftirlits ríkisins. Skipulagsstofnun bárust fimm athugasemdir á kynningartímanum. Stofnuninni barst matsskýrsla um verksmiðjuna 7. júní 2013 og var óskað eftir áliti hennar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit Skipulagsstofnunar er frá 3. júlí s.á. Í kafla um helstu niðurstöður segir:

„Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif kísilverksmiðju PCC á Bakka felist í ásýndarbreytingum og ónæði sem fyrirsjáanlegt er að verði fyrir ábúendur í nágrenni verksmiðjunnar en kísilmálmverksmiðjan verður hluti af enn frekari breytingum á landnotkun á svæðinu, sem fela í sér iðnaðarsvæði á Bakka.

Styrkur helstu losunarefna frá verksmiðjunni út í andrúmsloft verður undir viðmiðum viðeigandi reglugerða, meðal annars með tilliti til heilsuverndarsjónarmiða. Skipulagsstofnun telur að verksmiðjan muni engu að síður rýra loftgæði í nágrenni verksmiðjunnar og að áhrifin verði nokkuð neikvæð.

Skipulagsstofnun telur að starfsemin hafi óveruleg áhrif á hljóðvist utan verksmiðjulóðar.

Skipulagsstofnun telur að áhrif kísilverksmiðjunnar á menningarminjar verði nokkuð neikvæð og áhrif á gróður talsvert neikvæð. Áhrif á fugla verði óveruleg nema valkostur um sjókælingu verði fyrir valinu, en þá telur Skipulagsstofnun að áhrifin geti orðið verulega neikvæð ef framkvæmdir verða að vori til. Þá mun valkostur um sjókælingu geta haft í för með sér talsvert neikvæð áhrif á afmarkað haf- og strandsvæði við Bakkakrók.

Ljóst er að starfsemin mun auka nokkuð heildarlosun Íslands af gróðurhúsalofttegundum. Skipulagsstofnun telur því að áhrif af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda verði nokkuð neikvæð.

Skipulagsstofnun telur brýnt að áform framkvæmdaraðila um vöktunarrannsóknir um áhrif verksmiðjunnar á nærumhverfi sitt og til að sannreyna útreikninga mats á umhverfisáhrifum gangi eftir og þær verði unnar í góðu samstarfi við nágranna og aðra hagsmunaaðila. Er þetta þeim mun brýnna ef áform ganga eftir um að fleiri sambærilegar verksmiðjur muni starfa á svæðinu.

Skipulagsstofnun telur mjög brýnt að tímanlega sé hugað að hentugu urðunarsvæði sem nýtist starfseminni til framtíðar og þeim ráðstöfunum sem framkvæmdaraðili boðar til að draga úr áhættu vegna starfsemi kísilverksmiðjunnar.

Skipulagsstofnun telur að við leyfisveitingar þurfi að setja eftirfarandi skilyrði:

1.    Áhættumat sem framkvæmdaraðili boðar vegna starfseminnar verði byggt á nýjustu gögnum um jarðskjálftavá á svæðinu.
2.    Niðurstöður úr rannsóknum á lífríki haf- og strandsvæðis við Bakkakrók liggi fyrir áður en ráðist verður í framkvæmdir við sjókælingu, verði hún fyrir valinu.“

Varðandi tengdar framkvæmdir kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar að framkvæmdin sé háð öflun raforku og flutningi hennar til verksmiðjunnar. Raforku verði aflað frá jarðvarmavirkjunum á jarðhitasvæðum í Þingeyjarsýslu. Mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram fyrir flutningslínur frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka á Húsavík. Mat á umhverfisáhrifum Þeistareykjavirkjunar og Kröfluvirkjunar II hafi einnig farið fram.

Umsókn um starfsleyfi barst Umhverfisstofnun í september 2014. Auglýsing á starfsleyfistillögu fór fram á tímabilinu 20. júlí til 15. september 2017. Auglýst var í Lögbirtingablaðinu og Skránni á Húsavík auk þess sem tilkynningu var að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Haldinn var kynningarfundur um tillöguna á Húsavík 7. september 2017. Ein umsögn barst um tillöguna frá kæranda. Umhverfisstofnun bar einn lið athugasemdarinnar undir Skipulagsstofnun, en athugasemdin laut að því að tilteknum atriðum hefði verið sleppt í mati á umhverfisáhrifum. Þau væru í fyrsta lagi að ekki væri í áliti Skipulagsstofnunar fjallað um tengdar framkvæmdir og verksmiðjunni háðar. Í öðru lagi væri ekki í frummats- eða matsskýrslu gerð grein fyrir áhrifum nýtingar náttúruauðlinda á umhverfið, hvorki orku né land, þrátt fyrir ákvæði d-liðar 3. tölul. 2. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum. Í þriðja lagi væri gerð athugasemd við að ekki væru metin áhrif af gríðarlegum efnisflutningum á umhverfið og heldur ekki flutning á úrgangi, en fram kæmi að flutningur á kvarsít einu væri áætlaður 13.500 tonn á mánuði. Svar Skipulagsstofnunar var þess efnis að umfjöllun hennar hefði farið rétt fram samkvæmt lögum og teldi stofnunin ekki tilefni til sérstakra viðbragða vegna umsagnar kæranda að öðru leyti en því að athugasemdunum var svarað. Leyfishafi svaraði einnig athugasemdinni og var jafnframt fjallað um hana í greinargerð Umhverfisstofnunar með starfsleyfinu, sem gefið var út 8. nóvember 2017, eins og áður kom fram.

Starfsleyfið ásamt greinargerð var birt á heimasíðu Umhverfisstofnunar 13. nóvember 2017, sbr. ákvæði 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Einnig birtist auglýsing um starfsleyfið í B-deild Stjórnartíðinda 24. s.m. Í fylgiskjali 4 með starfsleyfinu er að finna greinargerð og afstöðu Umhverfisstofnunar til mats á umhverfisáhrifum. Jafnframt voru birt umhverfisvöktunaráætlun, mæliáætlun, minnisblað um gangsetningarferli, umsögn kæranda um starfsleyfisdrög, svar Skipulagsstofnunar við henni og viðbrögð leyfishafa vegna umsagnarinnar.

Losunarleyfi fyrir framkvæmd leyfishafa var gefið út af Umhverfisstofnun 2. febrúar 2018, en það hefur ekki verið kært til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður kæruaðild í málinu byggjast á 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Lúti kæran að ákvörðun sem falli undir b-lið ákvæðisins. Landvernd séu umhverfisverndarsamtök á landsvísu sem stofnuð hafi verið 1969. Meginhlutverk samtakanna sé verndun íslenskrar náttúru og umhverfis. Félagsmenn séu um 4.900 talsins. Samtökin séu opin fyrir almennri aðild, gefi út árskýrslur um starfsemi sína og hafi endurskoðað bókhald. Uppfylli samtökin því skilyrði 3. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Kæruefnið varði veitingu starfsleyfis fyrir stórfelldri kísilframleiðslu í nágrenni byggðar á Húsavík. Umrædd ákvörðun og málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum, sem hafi lokið með hinni kærðu ákvörðun Umhverfisstofnunar, séu andstæðar lögum. Á málsmeðferðinni séu bæði form- og efnisannmarkar sem eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Ekki hafi verið gætt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar að því er varði umfang starfsemi langt umfram það sem forsendur séu fyrir. Ekki hafi verið með nægilegum hætti tekin afstaða til fjölþættra athugasemda kæranda, m.a. um ósamræmi starfsleyfis við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um heildarlosun á gróðurhúsalofttegundum, en heildarlosun Íslands myndi aukast um 2,5-8% við starfsemina. Kærandi hafi jafnframt gert athugasemdir við annmarka á matsskýrslu PCC og á áliti Skipulagsstofnunar, dags. 3. júlí 2013, m.a. er varði tengdar framkvæmdir og umhverfisáhrif efnisflutninga.

Frekari rök vegna kæru komi fram í athugasemd kæranda sem gerð hafi verið við starfsleyfistillögu þá er auglýst hafi verið við málsmeðferð hinnar kærðu leyfisveitingar. Þar segi m.a. að Skipulagsstofnun telji í áliti sínu augljóst að útblástur mengunarefna frá verksmiðjunni muni rýra loftgæði í nágrenni verksmiðjunnar og að áhrif þess verði nokkuð neikvæð. Kærandi minni á gríðarlega erfiðleika við gangsetningu og rekstur annarrar verksmiðju í Helguvík og neikvæð áhrif lyktar- og loftmengunar á heilsu fólks í Reykjanesbæ.

Ekki sé í áliti Skipulagsstofnunar eða í starfsleyfistillögu Umhverfisstofnunar fjallað um tengdar framkvæmdir og verksmiðjunni háðar, þ.e. virkjun á Þeistareykjum eða orkuöflun til uppsetningar 104 MW af afli, 915 GWh árlegrar raforkunotkunar og háspennulínulögn til að flytja alla þá raforku sem um ræði. Ekkert komi fram hvernig orku yrði aflað í svo stóra verksmiðju sem matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar fjalli um, þ.e. alls 104 MW. Hafi ekki verið tekið tillit til nýtingar orkuauðlinda í matsskýrslu, áliti Skipulagsstofnunar eða í starfsleyfistillögu Umhverfisstofnunar. Nánar tiltekið sé hér átt við mat á sameiginlegum áhrifum þessara framkvæmda og sammögnunaráhrif með hinni fyrirhuguðu framkvæmd, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. og til hliðsjónar 2. viðauka laganna, lið 1.ii og IV. viðauka tilskipunar 2011/92/ESB, einkanlega lið 4. b) (nýting náttúruauðlinda). Skýra beri lög nr. 106/2000 með hliðsjón af ákvæðum tilskipunarinnar, sbr. einnig d-lið 3. tölul. 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, áður d-liður 3. tölul. 2. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1123/2005. Ekki hafi þannig verið í frummats- eða matsskýrslu gerð grein fyrir áhrifum nýtingar náttúruauðlinda á umhverfið, hvorki orku né lands. Í því samhengi sé einnig vísað til skyldu til þess að meta áhrifin saman samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, líkt og úrskurður umhverfisráðherra frá 31. ágúst 2008 hafi kveðið á um, en ljóst sé af öllum gögnum máls að framkvæmdirnar séu háðar hverri annarri í skilningi laga.

Loks séu áhrif af gríðarlegum flutningum efnis á umhverfið ekki metin og heldur ekki úrgangi, en fram komi að flutningur á kvarsít einu sé áætlaður 13.500 tonn á mánuði, en í starfsleyfisumsókn segi í 6. kafla að önnur umhverfisáhrif séu umferð flutningabíla og skipa sem ekki tengist rekstri kísilmálmverksmiðjunnar, sem kærandi verði að gera sérstaka athugasemd við að geti alls ekki verið sannleikanum samkvæmt í skilningi laga nr. 106/2000.

Í gr. 1.2 starfsleyfistillögu sé gert ráð fyrir að PCC verði heimilt að framleiða í fjórum ljósbogaofnum allt að 66.000 tonnum á ári af hrákísli og allt að 27.000 tonnum af kísildufti/kísilryki og 6.000 af málmleif og gjalli og 1.500 tonnum af forskiljuryki. Umfang þessarar framleiðslu sé helmingi meira en heimilað hafi verið og raforkumagn sem hvorki sé til né hafi verið samið um kaup á. Starfsleyfistillagan sé því í algeru ósamræmi við önnur leyfi, samninga og forsendur.

Gerð sé athugasemd við gr. 3.15 og 3.16 í starfsleyfistillögu þar sem virðist við fyrstu sýn gert ráð fyrir að spilliefni verði allt að 2.500 tonnum á ári, reiknað sem meðaltal síðustu fjögurra almanaksára, enda sé í síðustu málsgrein gr. 3.15 beinlínis vísað í gr. 3.16, sem fjalli um spilliefni. Spilliefni séu í lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skilgreind sem úrgangur sem innihaldi efni sem haft geti mengandi eða óæskileg áhrif á umhverfið hvort sem þau séu óblönduð eða hluti af öðrum efnum, vörum eða umbúðum sem komist hafi í snertingu við spilliefni og skráð séu á lista í reglugerð um úrgang. Í áliti Skipulagsstofnunar sé sagt að engin spilliefni falli til við framleiðsluna. Í matsskýrslu leyfishafa segi einnig svo í kafla 2.1, þrátt fyrir að í töflu 5 í sömu matsskýrslu sé raunar gert ráð fyrir að allt að 3 tonn af spilliefnum falli til á ári miðað við þá framleiðslu sem starfsleyfistillagan geri ráð fyrir, líkt og endurtekið sé í starfsleyfisumsókn leyfishafa og sé því innbyrðis ósamræmi í gögnum frá leyfishafa, sem álit Skipulagsstofnunar hafi ekki gert grein fyrir. Sé því sá galli á álitinu að það geri ekki ráð fyrir neinum spilliefnum. Gera verði þá lágmarkskröfu fyrir hverja þá starfsemi sem Umhverfisstofnun hyggist leyfa að skýr grein sé gerð fyrir öllu magni hverskyns aukaafurða og úrgangs, hvernig þessu sé fyrirkomið og fargað eftir atvikum og í hve miklu magni, og að spilliefni séu skýrlega aðgreind frá slíkum afurðum og úrgangi.

Í starfsleyfisumsókn sé tafla í kafla 7 yfir úrgangsefni, en textinn sem geri grein fyrir hvernig umrætt efni verði meðhöndlað sé óskýr. Þannig verði m.a. ekki séð hvað gert yrði við 24.000 tonn af kísildíoxíðryki, sem falla muni til á ársgrundvelli, heldur sé einungis vísað til þess í töflunni að það sé aukaafurð og það sé samkvæmt því ekki úrgangsefni samkvæmt skilgreiningu í lögum nr. 55/2003. Í áliti Skipulagsstofnunar sé í kafla 3.5 vísað til þess að förgun efnisins sé háð leyfi Umhverfisstofnunar. Þrátt fyrir það sé í starfsleyfistillögu engin tilraun gerð til þess að útskýra og setja skilyrði varðandi þennan úrgang. Þá sé sagt í umsókn um starfsleyfi að fastur úrgangur verði flokkaður eins og mögulegt sé og ef ekki sé hægt að endurnýta hann innan framleiðslunnar verði hann afhentur viðurkenndum þjónustuaðilum til meðhöndlunar, án þess að tilraun sé gerð til að gera grein fyrir því frekar í starfsleyfistillögu. Það sama eigi við um 680 tonn af svonefndu forskiljuryki og 1.400 tonn af gjalli.

Hráefni til framleiðslunnar og afurðir hennar eigi að fara í gegnum Húsavíkurhöfn samkvæmt umsókn PCC um starfsleyfi. Flutningar á landi eigi að verða eftir iðnaðarvegi sem leggja eigi frá höfn inn á iðnaðarsvæðið, m.a. í jarðgöngum í gegnum Húsavíkurhöfða. Þrátt fyrir þetta sé í starfsleyfistillögu ekkert fjallað um þann þátt hinnar leyfisskyldu starfsemi sem í þessu felist. Það sama eigi við um flutning úrgangs.

Í gr. 3.19 í starfsleyfistillögu segi að rekstraraðili skuli hafa ítarlegar verklagsreglur um bökun á fóðringum í ofnum og skuli kynna þær fyrir Umhverfisstofnun áður en verk hefjist. Einnig að nota skuli gott hráefni sem sé laust við rokgjörn efni og raka og aðferðir við verkið skuli vera þannig að það valdi hverfandi reykjarlykt utan iðnaðarsvæðis. Að mati kæranda vanti í fyrsta lagi skilgreiningu á því hvað sé átt við með bökun á fóðringum, þannig að almenningur skilji hvað átt sé við. Þá þurfi að koma fram hversu oft slík bökun fari fram og megi fara fram og hve lengi hún standi í hvert sinn og megi standa, svo almenningur geti áttað sig á eðli og umfangi þessa.

Þá skorti allar viðmiðanir um hvað sé „ítarlegt“ og hvernig það sé staðreynt og hvenær, hvað sé „gott hráefni“ og hvaða aðferðir séu nánar tiltekið þannig, að mati stofnunarinnar, að hverfandi reykjarlykt verði utan iðnaðarsvæðisins. Eigi þetta ekki síst við þar sem íbúðarbyggð sé í einungis 1.600 metra fjarlægð frá iðnaðarsvæðinu og umfangsmikil ferðaþjónusta sé rekin á hafnarbakkanum.

Í greinargerð vegna vinnslu starfsleyfistillögu segi að Umhverfisstofnun hyggist setja í starfsleyfi bein ákvæði um losun þungmálma, um bökun fóðringa og lyktarmengun. Þrátt fyrir það vanti öll viðmið í starfsleyfistillögu, svo unnt sé að gera sér grein fyrir því hvernig Umhverfisstofnun ætli sér að hafa raunverulegt eftirlit með áhrifum starfseminnar á umhverfið og beita lögmæltum úrræðum.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun fer fram á að ákvörðun stofnunarinnar frá 8. nóvember 2017 um veitingu starfsleyfis standi og kæru verði vísað frá. Kærandi hafi boðað framlagningu fylgiskjals með kærunni þar sem rök yrðu nánar rakin fyrir henni og fullyrðingum um að ákvörðun stofnunarinnar væri andstæð lögum og á henni væru bæði form- og efnisannmarkar. Það fylgiskjal hafi hvorki borist stofnuninni né úrskurðarnefndinni. Því verði að fjalla almennt um rök kæranda í samræmi við þá stuttu lýsingu sem fram komi í kærunni. Ein umsögn hafi borist um tillögu að starfsleyfi á auglýsingatíma hennar og hafi hún verið frá kæranda. Sé þeim athugasemdum svarað í greinargerð sem fylgt hafi starfsleyfinu.

Ekki sé í kæru gerð grein fyrir því hverjir séu meintir form- og efnisannmarkar á ákvörðun stofnunarinnar. Framkvæmdin hafi farið í mat á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Útgefið starfsleyfi sé í samræmi við niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar og hafi Umhverfisstonfun tekið rökstudda afstöðu til niðurstöðu álitsins í greinargerð sinni. Með almennum hætti í kafla 2 í greinargerðinni en einnig í kafla 3 þar sem farið sé nánar í einstök atriði í starfsleyfinu. Loks sé í kafla 4 farið í athugasemdir sem hafi borist á auglýsingartíma, þar sem fram komi atriði sem liggi einnig til grundvallar ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins.

Ekki sé ljóst við hvað sé átt með því að ekki hafi verið gætt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar við töku ákvörðunarinnar og hvernig það tengist umfangi umfram það sem forsendur hafi verið fyrir. Ekki sé heldur tilgreint hvaða forsendur vísað sé í. Í athugasemdum sem kærandi hafi skilað inn við auglýsingu starfsleyfistillögunnar hafi hann gert athugasemd um umfang starfsemi og sé þeim athugasemdum svarað í greinargerð þeirri sem áður hafi verið vísað til.

Í athugasemdum kæranda á auglýsingartíma hafi komið fram að kærandi sé mótfallinn starfsemi leyfishafa. Þar sé m.a. fjallað um heildarlosun gróðurhúsalofttegunda, um meinta annmarka á matsskýrslu leyfishafa og á áliti Skipulagsstofnunar er varði tengdar framkvæmdir og umhverfisáhrif efnisflutninga. Séu þessi atriði nú sett fram sem rök í kæru, þótt með knöppum hætti sé.

Losun gróðurhúsalofttegunda leyfishafa falli undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS), sem sé samevrópskt kvótakerfi með heimildir til losunar á gróðurhúsalofttegundum fyrir ákveðna iðnaðarstarfsemi og flugstarfsemi. Ísland taki þátt í viðskiptakerfinu til að uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Innan viðskiptakerfisins sé settur kvóti og unnið að minnkun losunar frá iðnaðarferlum, þ.m.t. frá leyfishafa. Markmið Evrópusambandsins ásamt Noregi og Íslandi sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 43% árið 2030 miðað við losun árið 2005 hvað varði losun frá iðnaðarferlum. Öll losun gróðurhúsalofttegunda sem falli undir viðskiptakerfið falli undir markmið þess, sem sé sameiginlegt markmið. Alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda fari því, hvað varði losun frá þessum iðnaðarferlum, í gegnum evrópska ETS kerfið. Umhverfisstofnun beri að tryggja rétta framkvæmd viðskiptakerfisins á Íslandi.

Þótt einstaka rekstraraðili sem falli undir viðskiptakerfið fái heimild til að losa gróðurhúsalofttegundir þá gangi það ekki gegn skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Rekstraraðili verði að afla sér heimilda innan kerfisins til að losa. Hann þurfi að fá útgefið sérstakt losunarleyfi vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í samræmi við ákvæði laga nr. 70/2012 um loftslagsmál og reglugerð nr. 70/2013 um losunarleyfi rekstraraðila í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Það losunarleyfi sé sérstök leyfisveiting og kæranleg ákvörðun út af fyrir sig.

Eftir athugasemd kæranda á auglýsingartíma starfsleyfistillögu, m.a. um tengdar framkvæmdir og umhverfisáhrif efnisflutninga, hafi Umhverfisstofnun ákveðið að senda Skipulagsstofnun beiðni um álit á athugasemdunum. Skipulagstofnun hafi talið að ekki væri tilefni til sérstakra viðbragða vegna þeirra. Stofnunin hafi bent á að fjallað væri um flutninga í matsskýrslu fyrir kísilverksmiðjuna. Í svari stofnunarinnar komi einnig fram að umfjöllun sé um tengdar framkvæmdir í áliti hennar um mat á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar. Þar komi fram að verksmiðjan muni afla raforku frá jarðvarmavirkjunum á jarðhitasvæðum í Þingeyjarsýslu. Mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram fyrir flutningslínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka á Húsavík. Mat á umhverfisáhrifum Þeistareykjavirkjunar (allt að 200 MW) hafi einnig farið fram. Ekki þurfi að fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum þótt framkvæmdir séu háðar hver annarri.

Samkvæmt framangreindu hafi Umhverfisstofnun tekið mið af athugasemd kæranda á auglýsingartíma, kannað forsendur hennar ítarlega og unnið að niðurstöðu með sanngjörnum hætti við vinnslu starfsleyfisins.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Þá kröfu byggir hann á því að kæran sé svo óljós og vanreifuð að ekki sé unnt að taka hana til efnislegrar meðferðar. Ekkert komi fram um það í kæru að hvaða leyti kærandi telji umfang starfseminnar hafa farið umfram forsendur, né hvaða forsendur sé um að ræða. Þá sé ekki fjallað um það hvaða alþjóðlegu skuldbindingar um losun gróðurhúsalofttegunda kærandi telji leyfisveitinguna brjóta gegn og ekki sé rökstutt eða lýst hvaða athugasemdir kæranda um tengdar framkvæmdir og umhverfisáhrif efnisflutninga skorti afstöðu til. Í kæru sé boðað að lagt verði fram fylgiskjal með nánari rökstuðningi fyrir kæru en það hafi ekki komið fram.

Málatilbúnaður og rökstuðningur kæranda sé samkvæmt framansögðu svo óljós að ómögulegt sé að átta sig á því á hvaða rökum krafa hans sé reist. Þá sé hvergi að finna tilvísanir til viðeigandi lagaákvæða sem kærandi byggi málatilbúnað sinn á. Gera verði þá lágmarkskröfu til kæranda að hann færi fram rök fyrir kröfu um ógildingu ívilnandi leyfisveitingar, sbr. lágmarks formkröfur 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Að þessu hafi kærandi ekki gætt og sé málið því vanreifað af hans hálfu og ekki úrskurðarhæft.

Verði kærunni ekki vísað frá sé þess krafist að kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað. Málatilbúnaður kæranda virðist vera af sama meiði og umsögn kæranda á auglýsingartíma leyfisins. Verði þeim athugasemdum því svarað.

Vísað sé til þess í umsögn kæranda að samkvæmt gr. 1.2 í starfsleyfistillögu sé umfang framleiðslu leyfishafa helmingi meira en nánar tilgreindir aðilar, sbr. upptalningu í sjö liðum, hafi heimilað og muni nota fjóra ljósbogaofna í stað tveggja. Því sé haldið fram að starfsleyfistillagan sé að þessu leyti í ósamræmi við önnur leyfi, samninga og forsendur. Þessu sé hafnað. Beinlínis sé gert ráð fyrir allt að 66 þúsund tonna framleiðslu í lögum nr. 52/2013 um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi. Þannig segi í 2. gr. laganna að kísilverið sé hannað til framleiðslu á allt að 33 þúsund tonnum af kísilmálmi á ári og með það fyrir augum að framleiðslugetan verði aukin upp í 66 þúsund tonn á ári þegar aðstæður leyfi. Jafnframt hafi verið gengið út frá þessu við mat á umhverfisáhrifum, en í áliti Skipulagsstofnunar, dags. 3. júlí 2013, komi fram að verksmiðjan muni framleiða um 33 þúsund tonn af kísilmálmi á ári samkvæmt 1. áfanga og verði aflnotkun um 52 MW vegna tveggja ljósbogaofna og annars framleiðslu- og stjórnbúnaðar. Verksmiðjan sé hönnuð með framtíðarstækkun í huga og feli 2. áfangi í sér tvo ofna af sömu stærð til viðbótar, sem auki framleiðslugetu í 66 þúsund tonn á ári. Starfsleyfið sé því að öllu leyti í samræmi við lög og rangt að einhvers konar ósamræmi sé til staðar.

Því sé mótmælt að hið kærða starfsleyfi brjóti í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um heildarlosun á gróðurhúsalofttegundum. Um losunarheimildir og evrópska viðskiptakerfið gildi lög nr. 70/2012 um loftslagsmál, sem hafi m.a. verið sett til innleiðingar á skuldbindingum samkvæmt tilskipun 2003/87/EB. Losunarheimildum vegna starfsemi leyfishafa verði því úthlutað af samevrópskum heimildum og muni fyrirtækið sækja um slíkar heimildir til Umhverfisstofnunar í samræmi við gildandi reglur. Íslenskum lögum og reglum verði því fylgt og alls óljóst hvernig unnt sé að staðhæfa að starfsemi leyfishafa samræmist ekki alþjóðlegum skuldbindingum.

Varðandi loftgæði þá sé í athugasemdum kæranda vísað til þess að fram komi í áliti Skipulagsstofnunar að augljóst sé að útblástur mengunarefna frá verksmiðju leyfishafa muni rýra loftgæði í nágrenni verksmiðjunnar og að áhrif þess verði nokkuð neikvæð. Þess sé hins vegar ekki getið að síðan segi í álitinu: „Niðurstöður útreikninga á styrk helstu efna sem losna út í andrúmsloft frá verksmiðjunni sýna að losunin verði hins vegar undir viðmiðum sem tilgreind eru í viðkomandi reglugerðum t.d. er varða losun á brennisteinsdíoxíði, köfnunarefnisdíoxíði, vetniskolefnum og þrávirkum lífrænum efnum.“ Það sé því álit Skipulagsstofnunar að losun efna út í andrúmsloftið vegna starfsemi leyfishafa muni samræmast þeim reglum sem við eigi, þ.e. að losunin sé undir þeim viðmiðum sem gerð sé grein fyrir í viðeigandi reglugerðum. Þá skuli áréttað að í matsskýrslu, sem og gögnum sem lögð hafi verið fram af hálfu leyfishafa á meðan á mati á umhverfisáhrifum hafi staðið, sé að finna upplýsingar og gögn sem sýni að losun verði undir viðmiðunarmörkum reglugerða.

Því sé hafnað að sá ágalli sé á áliti Skipulagsstofnunar að ekki sé fjallað um tengdar framkvæmdir sem séu verksmiðjunni háðar, þ.e. virkjun á Þeistareykjum eða orkuöflun til uppsetningar 104 MW af afli, 915 GWh árlegrar raforkunotkunar og háspennulínulögn til að flytja alla þá raforku sem um ræði í starfsleyfistillögu Umhverfisstofnunar. Leyfishafi telji að við meðferð málsins hafi verið tekið fullt tillit til tengdra framkvæmda. Umhverfisstofnun hafi ákveðið að bera nefndan lið umsagnar kæranda undir Skipulagsstofnun og í svari stofnunarinnar sé vísað til þess að fjallað hafi verið um tengdar framkvæmdir í áliti Skipulagsstofnunar. Segi stofnunin að svo virðist sem kæranda hafi yfirsést sá hluti álits hennar.

Í umsögn kæranda hafi verið vísað til þess að ekki hefðu verið metin áhrif af efnisflutningum á umhverfið, en fram komi að flutningur á kvarsít einu sé áætlaður um 13.500 tonn. Þessu sé mótmælt en fjallað hafi verið ítarlega um flutninga og áhrif þeirra á umhverfið í matsskýrslu, sbr. m.a. kafla 2.10 sem beri heitið „Flutningur og geymsla á efnum“. Fjallað hafi verið sérstaklega um flutning og geymslu á efnum miðað við 33.000 og 66.000 tonna ársframleiðslu. Þá hafi jafnframt verið lögð áhersla á að meta þau tímabundnu áhrif sem íbúar Húsavíkur og nærliggjandi svæða verði fyrir, m.a. vegna flutninga á byggingarefnum, þungra vinnuvéla og grundunarvinnu á iðnaðarsvæðinu. Lagðar hafi verið til ýmsar mótvægisaðgerðir.

Ekki verði séð að fordæmi sé fyrir því að fjallað sé sérstaklega um flutninga í starfsleyfi. Starfsemi leyfishafa hafi verið skilgreind sem innan viðkomandi lóðar. Hann hafi ekki með höndum rekstur utan lóðar eða þá uppbyggingu sem þar fari fram. Leyfishafi kaupi þjónustu af höfn og flutningsaðilum eins og hvert annað iðnfyrirtæki hér á landi, en þeir aðilar þurfi að sjálfsögðu að uppfylla kröfur laga og reglugerða sem varði efnaflutning.

Umsókn leyfishafa um starfsleyfi hafi hlotið ítarlega og vandaða málsmeðferð í samræmi við gildandi lög og engir efnis- eða formannmarkar séu á afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar sem leitt geti til ógildingar hennar. Umhverfisstofnun hafi því borið að veita leyfið og hefði hvorki verið lögmætt né málefnalegt að synja um það. Ekkert sem fram komi í kæru sé til þess fallið að breyta þeirri niðurstöðu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi kveður engu breyta þótt kísilmálmverksmiðjan heyri undir viðskiptakerfi ESB um útlosun frá ákveðinni mengandi starfsemi. Með starfseminni muni heildarlosun Íslands á gróðurhúsalofttegundum aukast sem um muni, sem brjóti í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, m.a. samkvæmt Parísarsamkomulaginu svo og stefnumörkun ríkisins í loftlagsmálum frá árinu 2007.

Þá sé umfjöllun um tengdar framkvæmdir með öllu ófullnægjandi til að uppfylla þau laga- og reglugerðarákvæði sem greini í athugasemdum kæranda, sbr. einkum 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Varðandi umfang framleiðslu þá sé tilvísun leyfishafa til 2. gr. laga nr. 52/2013 um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi haldlaus en ákvæðið feli í sér heimild til fjárfestingasamnings fyrir hönd ríkisstjórnarinnar vegna framleiðslu á „allt að 33 þúsund tonnum af kísilmálmi á ári“. Þótt tekið sé fram að hugsanlega verði sú framleiðslugeta aukin í 66 þúsund tonn þegar aðstæður leyfi þá séu slíkar aðstæður ekki fyrir hendi, enda sé engin reynsla komin á verkefnið. Hið umdeilda starfsleyfi sé fyrir 66 þúsund tonna framleiðslu, sem sé tvöfalt meira en heimilað hafi verið af hálfu Alþingis, ríkisstjórnar Íslands, Norðurþings og fleiri aðila.

Umhverfisstofnun hafi fallist á með kæranda að ákvæði í starfsleyfisdrögum varðandi úrgang væri of rúmt, þar sem það hefði gefið til kynna að afar mikið magn, eða 2.500 tonn á ári, myndi geta skapast af spilliefnum og hafi ákvæðinu verið breytt í kjölfarið. Sú breyting sem gerð hafi verið hafi falist í því að heimild til förgunar spilliefna sé lækkuð úr 2.500 tonnum í 900 tonn með heimild til hækkunar Umhverfisstofnunar í 2.500 tonn. Þá hafi tilvísun ákvæðisins til gr. 3.16, sem varði spilliefni, verið felld brott en efnislega sé ákvæðið enn hið sama, enda sé spilliefni samkvæmt gr. 3.16 eina tegundin af úrgangi sem skila þurfi á viðurkennda móttökustöð.

Í greinargerð leyfishafa sé því haldið fram að ekki sé um spilliefni að ræða þar sem mögulegt sé að selja efnin og nota sem aukaafurð. Sé þeim skilningi mótmælt enda breytist eðli viðkomandi spilliefna ekkert við það, auk þess sem ekkert liggi fyrir um hvort, og þá að hvaða marki, leyfishafa verði unnt að selja slík efni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um starfsleyfi sem gefið hefur verið út af Umhverfisstofnun vegna reksturs kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík. Framkvæmdin hefur sætt mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og er álit Skipulagsstofnunar vegna þess frá 3. júlí 2013. Einnig hefur farið fram mat á umhverfisáhrifum vegna flutningslína raforku frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka á Húsavík og fyrir Þeistareykjavirkjun og Kröfluvirkjun II, en raforka frá nefndum framkvæmdum verður nýtt við rekstur fyrirhugaðrar verksmiðju. Álit Skipulagsstofnunar vegna nefndra framkvæmda lágu öll fyrir 24. nóvember 2010 og sama dag lá fyrir álit stofnunarinnar á mati á umhverfisáhrifum álvers á Bakka, sem og á sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum álversins, háspennulínum og virkjunum í Kröflu og á Þeistareykjum. Fór það sameiginlega mat fram í kjölfar úrskurðar umhverfisráðuneytisins frá árinu 2008 sem kvað á um að það skyldi fram fara. Eftir að álit Skipulagsstofnunar lágu fyrir var horfið frá þeirri fyrirætlan að reisa álver á Bakka, en í stað þess var fyrirhuguð verksmiðja sú sem hér um ræðir.

Kærandi hefur m.a. bent á að í mati á umhverfisáhrifum hafi átt að fara fram sameiginlegt mat með öðrum framkvæmdum sem tengdar séu framkvæmd leyfishafa. Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 segir að í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd séu fyrirhugaðar á sama svæði eða framkvæmdirnar séu háðar hver annarri geti Skipulagsstofnun, að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur, ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega. Samkvæmt orðanna hljóðan er ekki um skyldu að ræða heldur heimild sem háð er mati Skipulagsstofnunar hverju sinni, en hagsmunaaðilum er ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja stofnunina til beitingar heimildarinnar. Verður og ekki séð af gögnum málsins að farið hafi verið fram á að nefndri heimild yrði beitt eða að það hafi komið til álita, enda er ljóst af því sem áður er rakið að það hefði vart komið til greina þar sem álit á tengdum framkvæmdum lágu fyrir á árinu 2010 en Skipulagsstofnun barst ekki tillaga að matsáætlun vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar fyrr en í lok desember 2011.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I-V, hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefa út, sbr. þó 8. gr. Samkvæmt 7. gr. laganna gefur Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur samkvæmt viðauka I-III við lögin, en svo er í þessu tilviki, sbr. e-lið 4.2, viðauka I. Starfsemi A. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 skal útgefandi starfsleyfis vinna tillögur að starfsleyfi skv. 1. mgr. og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur útgefanda starfsleyfis innan fjögurra vikna frá auglýsingu. Í 4. mgr. segir að útgefandi skuli innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögur að starfsleyfi rann út taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfis. Skal umsækjanda um starfsleyfi og þeim sem hafa gert athugasemdir tilkynnt um afgreiðsluna. Samkvæmt 5. mgr. skal útgefandi starfsleyfis auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa. Birting á vefsíðu útgefanda starfsleyfis telst vera opinber birting.

Samkvæmt gögnum málsins var starfsleyfistillagan auglýst á tímabilinu 20. júlí til 15. september 2017. Auglýst var í Lögbirtingablaðinu og staðarblaðinu Skránni á Húsavík, auk tilkynningar á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Haldinn var kynningarfundur um tillöguna á Húsavík 7. september 2017. Ein umsögn barst um tillöguna frá kæranda. Starfsleyfið var gefið út 8. nóvember s.á. og auglýst á heimasíðu Umhverfisstofnunar 13. s.m., sem og í B-deild Stjórnartíðinda 24. s.m. Tilkynningar, dags. 14. nóvember 2017, voru sendar leyfishafa og kæranda. Samkvæmt framangreindu var staðið að undirbúningi og útgáfu starfsleyfisins í samræmi við tilvitnuð ákvæði laga nr. 7/1998.

Starfsleyfið, sem gildir til 8. nóvember 2033, heimilar leyfishafa í gr. 1.2 að framleiða í fjórum ljósbogaofnum allt að 66 þúsund tonnum á ári af hrákísli og allt að 27 þúsund tonnum af kísildufti/kísilryki og 6 þúsund tonnum af málmleif og gjalli og 1.500 tonnum af forskiljuryki. Kærandi kveður ekki vera forsendur fyrir heimild til svo mikillar framleiðslu, enda standi samningar ekki til þess. Hvorki lög nr. 7/1998 eða lög nr. 106/2000 mæla fyrir um hámarksframleiðslu en starfsleyfi er veitt samkvæmt fyrrnefndu lögunum og fer mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar fram samkvæmt þeim síðari. Veitt var sérstök heimild til að gera fjárfestingarsamning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við leyfishafa, sbr. lög nr. 52/2013 um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi. Í 2. gr. laganna er fjallað um verkefni það sem lögin taka til og fela í sér byggingu og starfsemi kísilvers sem samkvæmt niðurlagi 2. gr. er hannað til framleiðslu á allt að 33 þúsund tonnum af kísilmálmi á ári og með það fyrir augum að framleiðslugetan verði aukin í 66 þúsund tonn þegar aðstæður leyfi. Er tilvitnað ákvæði í hinu kærða starfsleyfi í samræmi við nefnda framleiðslugetu. Þá verður ekki séð að aðrir þeir samningar sem kærandi hefur vísað til, s.s. um orkuöflun til starfseminnar, hafi neina þýðingu við starfsleyfisveitingu.

Þágildandi reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, var sett á grundvelli 5. gr. laga nr. 7/1998. Markmið reglugerðarinnar er m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum, sbr. gr. 1.1. Umhverfisstofnun er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðarinnar sem snúa að mengunarvörnum. Ber stofnuninni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og viðeigandi ákvæðum laga nr. 7/1998, sbr. það sem áður var rakið, og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá telst hið kærða starfsleyfi leyfi til framkvæmda, sbr. f-lið 3. gr. laga nr. 106/2000. Við leyfisveitinguna bar Umhverfisstofnun því m.a. að gæta að skilyrðum 2. mgr. 13. gr. þeirra laga, þess efnis að leyfisveitandi skuli kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.

Álit Skipulagsstofnunar er lögbundið en ekki bindandi fyrir leyfisveitanda. Það þarf skv. lögum nr. 106/2000 að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald og er það forsenda þess að leyfisveitandi geti tekið ákvörðun um umsókn um leyfi að álitið fullnægi þeim lagaskilyrðum. Lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar tekur því bæði til þess hvort að Umhverfisstofnun hafi tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar og þess hvort álitið sé fullnægjandi að þessu leyti, enda er það liður í lögmætisathugun hinnar kærðu leyfisveitingar.

Kærandi heldur því m.a. fram að í mati á umhverfisáhrifum hafi ekki verið fjallað um nýtingu náttúruauðlinda vegna framkvæmdarinnar. Varðandi slíka nýtingu gilti reglugerð nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum þegar slíkt mat fór fram og álit Skipulagsstofnunar var gefið í máli þessu. Sagði í d-lið 1. tölul. 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar að eftir því sem við ætti skyldi í frummatsskýrslu koma fram lýsing á helstu framleiðsluferlum og upplýsingar um nýtingu náttúruauðlinda, svo sem jarðefna, vatns, orku, annarra hráefna og mannaflaþörf á framkvæmda- og rekstrartíma. Í matsskýrslu, sem skal unnin á grundvelli frummatsskýrslu skv. 6. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000, er framleiðsluferli kísilmálms lýst í kafla 2.3. Í kafla 2.4 er fjallað um notkun hráefna, orku og kælivatns fyrir framleiðslu 33.000 til 66.000 tonna á ári. Þar eru tilgreindar magntölur fyrir kvarsít, kol, viðarkurl, koks, viðarkol og rafskaut, auk jarðgass og súrefnis. Í kafla 6.7.4 er fjallað um mannaflaþörf á byggingartíma og á rekstrartíma. Í kafla 2.9 kemur fram að heildarorkuþörf 1. áfanga sé metin 52 MW, eða 455 GWh á ári, fyrir 33.000 tonna ársframleiðslu. Verksmiðjan verði hönnuð með framtíðarstækkun í huga eða heildaraflþörf 104 MW eða 915 GWh á ári miðað við 66.000 tonna ársframleiðslu. Kemur jafnframt fram að viðræður séu í gangi við Landsvirkjun um öflun raforku til verksmiðjunnar en áður hafi verið fjallað um tengdar framkvæmdir sem mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram fyrir. Ein þeirra framkvæmda er Þeistareykjavirkjun og var í mati á umhverfisáhrifum gert ráð fyrir að hún yrði allt að 200 MWₑ sem reist yrði í 50 MWₑ einingum. Er samkvæmt framangreindu gerð fullnægjandi grein í áliti Skipulagsstofnunar fyrir þeim atriðum sem ráð er fyrir gert samkvæmt nefndu reglugerðarákvæði.

Því neikvæðari umhverfisáhrif sem verða af mengandi starfsemi, svo sem þeirri sem hér um ræðir, þeim mun ríkari ástæða er fyrir leyfisveitenda að færa bæði fullnægjandi rök fyrir leyfisveitingunni sem slíkri og eftir atvikum setja henni skilyrði sem dregið geta úr áhrifunum. Raktar eru í málavaxtalýsingu helstu niðurstöður álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Kemur þar fram að styrkur helstu losunarefna frá verksmiðjunni út í andrúmsloftið verði undir viðmiðum viðeigandi reglugerða. Engu að síður telji stofnunin að verksmiðjan muni rýra loftgæði í nágrenni hennar og að áhrifin verði nokkuð neikvæð. Jafnframt segir að ljóst sé að starfsemin muni auka nokkuð heildarlosun Íslands af gróðurhúsalofttegundum. Skipulagsstofnun telji því að áhrif af völdum þess verði nokkuð neikvæð. Lá fyrir Umhverfisstofnun að fjalla um og bregðast við þessu áliti Skipulagsstofnunar.

Afstaða Umhverfisstofnunar til mats á umhverfisáhrifum framkvæmdar leyfishafa og rökstutt mat stofnunarinnar á áhrifum hugsanlegar mengunar á umhverfið var birt sem hluti af fylgiskjali 4 með starfsleyfinu. Þar segir m.a. að í umsögn stofnunarinnar á meðan á matsferli stóð hafi komið fram að vegna umfangs og eðlis þeirrar starfsemi sem hér um ræddi teldi stofnunin að fyrirhuguð framkvæmd hefði talsvert neikvæð umhverfisáhrif í för með sér. Í umsögninni hafi verið fjallað um loftgæði, hljóðvist, gróður, fuglalíf, landslag og ásýnd. Niðurstaða stofnunarinnar hefði verið að með tilliti til þessara þátta yrðu áhrif framkvæmdarinnar talsvert neikvæð á loftgæði, landslag og ásýnd svæðisins. Bent hafi verið á að unnt væri að draga nokkuð úr áhrifum framkvæmdarinnar með mótvægisaðgerðum, sérstaklega á gróðurfar og loftgæði. Umhverfisstofnun hafi talið að loftgæði myndu versna umtalsvert en yrðu þó innan þeirra marka sem íslenskar reglugerðir settu. Þessu næst er vitnað til álits Skipulagsstofnunar, en helstu niðurstöður þess voru raktar í málavaxtalýsingu og eru nefndar í greinargerðinni. Varðandi valkosti segir að þeim hafi verið lýst í matsskýrslu í sambandi við kælingu á ofnum, reykhettum og steypuvélum. Borin hafi verið saman loftkæling með kæliturnum og sjókæling. Álit Skipulagsstofnunar hefði verið að sjókæling hefði neikvæð áhrif á Bakkakrók. Rekstraraðili hafi hætt við sjókælingu og því sé ekki hætta á þeim neikvæðu áhrifum sem lýst sé í álitinu. Þá hafi í matsskýrslunni verið fjallað um núllkost sem sé að byggja enga verksmiðju.

Í niðurlagi greinargerðarinnar segir að afstaða Umhverfisstofnunar, sem fram hafi komið í framangreindri umsögn hennar, sé óbreytt hvað varði mótvægisaðgerðir og að stofnunin hafi við gerð starfsleyfis lagt áherslu á markviss ákvæði í því sem dregið gætu úr umræddum neikvæðum áhrifum. Einnig hafi rekstraraðili, að beiðni stofnunarinnar, lagt fram áætlanir um gangsetningarferli og dreifingu þungmálmamengunar. Ákvörðun Umhverfisstofnunar sé byggð á afstöðu stofnunarinnar til málsins, reynslu af eftirliti með stærri iðjuverum auk álits Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum starfseminnar. Auk þessa komi afstaða Umhverfisstofnunar vel fram í þeim ákvæðum sem sett hafi verið í starfsleyfið.

Í gr. 2.1 í starfsleyfinu segir almennt um starfshætti og umhverfismarkmið að rekstraraðili skuli beita góðum starfsreglum við reksturinn. Í því felist aðgerðir til að draga úr hugsanlegum umhverfisáhrifum og að draga sem mest út því álagi á umhverfið sem starfsemi verksmiðjunnar valdi, þ.m.t. varðandi starfshætti, hávaða, alla meðferð úrgangs og förgun.

Í hinu kærða starfsleyfi er fjallað um vöktunarmælingar í gr. 4.2. Þar segir að rekstraraðili skuli standa fyrir eða taka þátt í vöktun á helstu umhverfisþáttum í nágrenni verksmiðjunnar í samræmi við umfang losunar fyrirtækisins í þeim tilgangi að meta það álag á umhverfið sem starfsemin valdi. Rekstraraðili skuli hafa vöktunaráætlun sem samþykkt sé af Umhverfisstofnun við útgáfu starfsleyfis, en sú áætlun var birt á heimasíðu Umhverfisstofnunar um leið og starfsleyfið. Segir varðandi umhverfisvöktun í gr. 4.2 að fylgjast skuli með loftgæðum, úrkomu, veðurfari, mengun í vatni, gróðri, jarðvegi og jarðvatni. Umhverfismörk loftgæða séu nánar tilgreind í reglugerðum um loftgæði. Skuli vöktunin taka mið af ákvæðum reglugerða þar sem finna megi ákvæði sem lúti almennt að umhverfisgæðum en takmarkist ekki við það. Um sé að ræða t.d. eftirfarandi reglugerðir: „Nr. 920/2016 um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu, styrk ósóns við yfirborð jarðar og um upplýsingar til almennings. Nr. 410/2008 um arsen, kadmíum, kvikasilfur, nikkel og fjölhringa arómatísk vetniskolefni í andrúmslofti.“ Í vöktunaráætlun skuli einnig leggja áherslu á vöktun þungmálma. Umhverfisstofnun geti tekið ákvörðun um að gera breytingar á fyrirkomulagi umhverfisvöktunar telji stofnunin að ástæða sé til. Birta skuli niðurstöður sjálfvirkra mælinga í rauntíma þannig að almenningur hafi að þeim aðgang.

Eins og áður kom fram var losunarleyfi vegna losunar gróðurhúsalofttegundarinnar koldíoxíðs (CO2) gefið út til leyfishafa af Umhverfisstofnun í febrúar 2018, sbr. ákvæði IV. kafla laga nr. 70/2012 um loftslagsmál og reglugerðar nr. 70/2013 um losunarleyfi rekstaraðila í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Hefur sú leyfisveiting ekki verið kærð og sætir því ekki lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar. Það skal þó tekið fram að helstu uppsprettur koldíoxíðs í framleiðslunni eru sagðar vera kol, viðarkurl, rafskaut, kalksteinn og fljótandi jarðolíugas en hugsanleg samlegðaráhrif með fleiri verksmiðjum komu ekki til nánari skoðunar þar sem hætt var við þær framkvæmdir.

Tók Umhverfisstofnun með framangreindum hætti rökstudda afstöðu í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 auk þess að bregðast við áliti Skipulagsstofnunar varðandi helstu neikvæðu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar með því að setja framkvæmdinni viðeigandi starfsleyfisskilyrði, t.a.m. hvað varðar loftgæði.

Svo sem áður hefur verið rakið taldi Skipulagsstofnun í áliti sínu að setja ætti við leyfisveitingar nánar tiltekin skilyrði vegna umræddrar framkvæmdar, en skv. 2. mgr. 11. gr. getur stofnunin tilgreint slík skilyrði í áliti sínu og fært rök fyrir þeim. Var í fyrsta lagi um að ræða að áhættumat sem framkvæmdaraðili boðaði vegna starfseminnar yrði byggt á nýjustu gögnum um jarðskjálftavá á svæðinu en í öðru lagi að niðurstöður úr rannsóknum á lífríki haf- og strandsvæðis við Bakkakrók lægju fyrir áður en ráðist yrði í framkvæmdir við sjókælingu, yrði hún fyrir valinu. Eins og áður kom fram var sá valkostur sem valinn var við framkvæmdina sá sem felur í sér loftkælingu og á seinna skilyrðið því ekki lengur við.

Hvað fyrra skilyrðið í áliti Skipulagsstofnunar varðar kemur fram í kafla 3.2.4 um áhættu og öryggi að skilyrðið þurfi að setja fyrir veitingu framkvæmda- og byggingarleyfa. Kemur fram í greinargerð Umhverfisstofnunar með hinu kærða starfsleyfi að í athugasemd kæranda sé m.a. gert að umræðuefni að ekki hafi verið gert mat á jarðskjálftavá, eins og fjallað sé um í áliti Skipulagsstofnunar. Segir nánar í greinargerðinni að jarðskjálftavá hafi verið skoðuð hjá skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings. Hjá því embætti hafi fengist þær upplýsingar að við veitingu framkvæmdaleyfis til jarðvinnu, dags. 29. október 2014, hafi verið ítrekað af hálfu Norðurþings að mannvirki lóðarinnar skyldu hönnuð miðað við nýjustu gögn um jarðskjálftavá á svæðinu. Þá hafi verið farið yfir burðarvirkishönnun með tilliti til jarðskjálftaáhrifa þegar komið hefði að byggingarleyfum einstakra húsa og loks hafi verið haft eftirlit með að burðarvirki væru byggð upp í samræmi við hönnun. Verður að telja að Umhverfisstofnun hafi með þessum hætti sinnt rannsóknarskyldu sinni og leitað viðeigandi upplýsinga hjá þeim leyfisveitanda sem skilyrðið laut fyrst og fremst að.

Kærandi vísar einnig til þess að ekki hafi, eða með ófullnægjandi hætti, verið fjallað um flutninga efnis og úrgangs auk meðhöndlunar þess síðarnefnda, þ. á m. spilliefna, í mati á umhverfisáhrifum og í hinu kærða starfsleyfi.

Í kafla 2.6 í matsskýrslu kemur fram að við framleiðslu kísilmálms myndist ýmis efni sem megi að mestu leyti endurvinna eða endurnýta innan framleiðslunnar eða selja til nokunar í öðrum iðnaði. Úrgangurinn samanstandi mestmegnis af málmgjalli sem myndist í framleiðsluferlinu og ryki sem safnist í hreinsivirki. Um 25-40 kg af gjalli myndist fyrir hvert tonn af kísilmálmi. Kísildíoxíðryk myndist í ofnunum og sé safnað í hreinsivirkjum verksmiðjunnar. Áætlað magn sé 12.000 tonn miðað við 33.000 tonna ársframleiðslu og 24.000 tonn miðað við 66.000 tonna ársframleiðslu. Kísildíoxíðrykið sé mikilvæg aukaafurð. Það megi nota sem uppistöðuefni í sérstökum steypublöndum, sem íblöndunarefni í eldföst efni og í einangrunarefni. Úrgangur sem til falli vegna tækjaviðhalds verði að stærstum hluta endurunninn. Sá úrgangur sem ekki sé hægt að endurnýta innan framleiðslunnar verði afhentur viðurkenndum þjónustuaðilum til meðhöndlunar. Í kafla 2.6.2 í matsskýrslu kemur fram að spilliefni sem til falli við framleiðsluna verði 1,5-3 tonn á ári miðað við 33.000-66.000 tonna ársframleiðslu og verði þau meðhöndluð hjá viðurkenndum þjónustuaðilum.

Í áliti Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin telji það jákvætt að framkvæmdaraðili stefni að hámarksendurvinnslu úrgangs. Mikilvægt sé að á öllum stigum sé litið á endurvinnanlegan úrgang sem verðmæt hráefni sem reynt sé af fremsta megni að finna not fyrir. Skipulagsstofnun bendir á að förgun fasts úrgangs frá kísilmálmverksmiðjunni sé háð leyfi Umhverfisstofnunar og mikilvægi þess að tímanlega verði hugað að hentugu förgunarsvæði sem geti tekið við því magni sem áætlað sé að þurfi að farga frá verksmiðjunni til framtíðar. Um úrgang er fjallað í gr. 3.14-3.17 í starfsleyfinu. Þar segir m.a. að rekstraraðili skuli skrá allan úrgang sem til falli við framleiðsluna, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 1040/2016 um skrá yfir úrgang og mat á hættulegum eiginleikum úrgangs. Úrgangsmeðhöndlun skuli samrýmast lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerð nr. 737/2003 sama heitis. Í greinargerð Umhverfisstofnunar með starfsleyfinu segir varðandi urðunarsvæði að starfsleyfi leyfishafa nái ekki til urðunarsvæða en á meðal gagna málsins sé yfirlýsing Gámaþjónustu Norðurlands um móttöku, meðhöndlun og flutning aukaafurða frá PCC og muni Gámaþjónustan hafa umsjón með öflun starfsleyfa fyrir hugsanlega urðunarstaði, móttöku og meðhöndlun spilliefna. Ljóst þykir að framangreind tilhögun á meðhöndlun úrgangs frá verksmiðjunni uppfylli tilvitnuð lög og reglugerðir.

Í áliti Skipulagsstofnunar segir að gert sé ráð fyrir að flutningur efna frá Húsavíkurhöfn verði með dráttarbílum sem flutt geti marga tengivagna í einu um nýjan iðnaðarveg og göng í gegnum Húsavíkurhöfða sem Vegagerðin muni leggja fyrir sveitarfélagið Norðurþing. Vegurinn beini efnisflutningum fram hjá þéttbýlinu á Húsavík. Ekki sé gert ráð fyrir geymslu efna við höfnina, ef frá sé talin tímabundin geymsla lausra efna ef töf verði á flutningi. Flutningalestirnar samanstandi af hæggengum ökutækjum sem séu gerð fyrir samgöngur á iðnaðarvegum. Í gr. 3.2 í starfsleyfi segir um móttöku og flutning hráefna að við uppskipun og flutning á hráefnum skuli rykmengun haldið í lágmarki, t.d. með því að væta efnið og hindra fok með yfirbreiðslum á bílum. Færibönd og flutningskerfi skuli vera yfirbyggð og fallhæð efna takmörkuð eins og kostur sé. Við móttöku hráefna skuli sömuleiðis gæta að því að hráefnið spillist ekki að óþörfu, brotni eða skemmist. Síló og aðrir mögulegir rykmyndunarstaðir skuli útbúin með afsogskerfi og ryksöfnunarbúnaði.

Verður ekki fallist á með kæranda að fjallað hafi verið um framangreind atriði með ónógum hætti við hina kærðu starfsleyfisveitingu eða í áliti Skipulagsstofnunar.

Loks bendir kærandi á að viðmið og skilgreiningar skorti í starfsleyfi hvað varði losun þungmálma, bökun fóðringa og lyktarmengun, en fyrir vikið eigi almenningur erfitt með að átta sig á innihaldi starfsleyfisins svo og eðli og umfangi hinnar umdeildu starfsemi.

Í 3. kafla fylgiskjals 4 með starfsleyfinu er fjallað nánar um ákvæði leyfisins og m.a. brugðist við greindum ábendingum kæranda. Kemur fram að Umhverfisstofnun hafi ákveðið að ákvæði um losunarmörk þungmálma til lofts verði í starfsleyfinu þrátt fyrir að ekki séu fyrir hendi tiltekin losunarmörk í lögum eða reglugerðum. Við ákvörðun sína um losunarmörk taki stofnunin mið af uppsöfnunaráhrifum þungmálma í umhverfinu á löngum tíma og nálægð verksmiðjunnar við byggð og kjósi að fara afar varlega gagnvart þessari mengun. Einnig sé höfð hliðsjón af ákvörðunum um losunarmörk þungmálma í sambærilegum málum. Jafnframt segir að Umhverfisstofnun hafi vegna reynslu af starfsemi í annarri verksmiðju með sambærilega framleiðslu sett inn ákvæði í starfsleyfið um lyktarmengun og bökun fóðringa. Einnig hafi leyfishafa verið gert að skila upplýsingum um gangsetningarferli, en bökun fóðringa sé hluti þess. Jafnframt kemur fram að í leyfinu séu sett losunarmörk fyrir rykútblástur frá ofnum sem séu lægri en í fyrri starfsleyfum Umhverfisstofnunar, eða 5,0 mg/Nm³. Þar sé litið til krafna sem fram komi í BAT-niðurstöðum. Í starfsleyfum hafi hingað til ekki verið farið niður fyrir 20 mg/Nm³ í kröfum til sambærilegs iðnaðar. Ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB um losun í iðnaði, hafi verið leidd í lög hér á landi 1. júlí 2017, með breytingu á lögum nr. 7/1998. Með þeim séu BAT-niðurstöður innleiddar í íslenskan rétt. Tekin hafi verið ákvörðun um að leyfishafi fái frest til 30. júní 2020 til að uppfylla framangreindar kröfur, en aðlögunartími til að standast kröfur tilvitnaðrar tilskipunar sé til sama tíma. Loks segir að ákvæði starfsleyfisins um hávaða og titring feli í sér tilvitnun í viðeigandi reglugerð um hávaða og auk þess séu nefnd dæmi um aðgerðir sem gætu komið til greina sem úrbótaverkefni ef talið sé að draga skuli úr hávaða frá verksmiðjunni.

Verður ekki annað séð en að Umhverfisstofnun hafi með viðeigandi hætti sett þau viðmið sem fyrirfinnast í gildandi lögum og reglugerðum, tekið tillit til aðstæðna og reynt að tryggja gagnsæi líkt og kostur var að teknu tilliti til þess að starfsleyfið tekur til margra mismunandi og sérhæfðra þátta, s.s. áskilið er í lögum nr. 7/1998 og reglugerð nr. 785/1999, sbr. nú reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað, enda hvorki fyrir hendi ágallar á áliti Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum hinnar umdeildu framkvæmdar né varðandi form eða efni hinnar kærðu leyfisveitingar Umhverfisstofnunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 8. nóvember 2017 um að veita starfsleyfi fyrir rekstri kísilmálmverksmiðju, með allt að 66.000 tonna ársframleiðslu af hrákísli, á iðnaðarsvæðinu á Bakka í Norðurþingi.

25/2017 Hundahald Álfabrekku

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2017, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 10. febrúar 2017 um að afturkalla leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. mars 2017, er barst nefndinni 8. s.m., kærir A, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 10. febrúar 2017 að afturkalla leyfi hans til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

Af hálfu kæranda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Reykjavíkurborg 17. mars 2017.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi fékk á árinu 2012 leyfi til að halda sex nánar tilgreinda hunda að Suðurlandsbraut 27. Á árinu 2014 voru leyfin afturkölluð af heilbrigðisnefnd Reykjavíkur og var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar. Með úrskurði kveðnum upp 8. maí 2014, í kærumáli nr. 18/2014, var nefnd ákvörðun felld úr gildi á þeim forsendum að kærandi hefði þegar ákvörðunin var tekin átt lögheimili að Suðurlandsbraut 27, auk þess sem ekki hefði verið gætt að tilteknum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt skýrslu um sérstakt eftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 9. febrúar 2017, fóru tveir menn 8. s.m. að dvalarstað kæranda að Fiskislóð og hittu þar fyrir kæranda. Hann hafi verið spurður um hvar hundar þeir sem hann hefði leyfi fyrir væru vistaðir og hann þá svarað að þeir væru að Suðurlandsbraut 27. Með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 10. febrúar 2017, var kæranda tilkynnt að heilbrigðisnefnd hefði á fundi sínum sama dag samþykkt að svipta hann leyfi til að halda hundana. Vísað er til þess að heilbrigðiseftirlitið hafi fengið staðfest að kærandi væri skráður óstaðsettur í hús og því ekki með lögheimili að Suðurlandsbraut 27 og byggi ekki heldur þar, en staðfest væri af félagsmálayfirvöldum að kærandi byggi í smáhýsi á vegum Reykjavíkurborgar. Eftirlitsgjöld hafi ekki verið greidd af hundunum síðan árið 2014. Samkvæmt 2. gr. a í samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 478/2012 sé leyfi persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda enda sé það ófrávíkjanlegt skilyrði að hundur sé skráður þar og haldinn. Í ljósi þessa hafi verið ákveðið að svipta kæranda leyfi til að halda tilgreinda sex hunda. Veitti kærandi bréfinu móttöku á dvalarstað sínum 14. febrúar 2017. Samkvæmt vottorði dýralæknis í Eyjafirði, dags. 17. s.m., var komið með sex hunda og lesið af örmerkjum þeirra. Var um sömu hunda að ræða og kærandi hafði haft leyfi fyrir í Reykjavík.

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2017, óskaði kærandi eftir gögnum málsins frá heilbrigðiseftirlitinu og jafnframt var farið fram á upplýsingar um hvaða brot á hundasamþykkt í Reykjavík kærði ætti að hafa framið og loks óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun um afturköllun hundaleyfanna. Kærandi skráði lögheimili sitt að Suðurlandsbraut 27 hjá Þjóðskrá Íslands 1. mars 2017. Með bréfi frá heilbrigðiseftirlitinu, dags. 3. s.m., var kærandi boðaður á fund hjá eftirlitinu 8. s.m. til þess að „fara yfir málin í sameiningu“. Kærandi skrifaði bréf sem móttekið var þann dag, þar sem hann kvaðst ekki geta setið fundinn þar sem umbeðin gögn hefðu ekki verið afhent.

Málsrök kæranda: Kærandi heldur því fram að við afturköllun sex hundaleyfa á hans nafni hafi hvorki verið gætt andmælaréttar né meðalhófs, auk þess sem rannsóknarregla og jafnræðisregla hafi verið brotnar, þar sem hundaleyfin hafi verið afturkölluð áður en kæranda hafi verið tilkynnt um það.

Hundaeftirlitsmenn hafi komið fyrr í febrúar og spurt kæranda hvenær hann hefði síðast séð hundana og hann svarað að liðin væri um vika síðan. Fimmtudaginn 14. febrúar 2017 hafi tveir hundaeftirlitsmenn, ásamt manni frá heilbrigðiseftirlitinu, afhent kæranda bréf um afturköllun sex hundaleyfa. Kærandi óski framvegis eftir öllum erindum heilbrigðiseftirlitsins í pósti að lögheimili hans að Suðurlandsbraut 27, Reykjavík. Kærandi hafi borið fram beiðni um afhendingu allra gagna og ítarlegan rökstuðning með bréfi, dags. 28. febrúar 2017, en hvorugt hafi borist honum. Heilbrigðiseftirlitið hafi verið ófáanlegt til að afhenda honum gögn þau er legið hafi fyrir fundi heilbrigðisnefndar 10. febrúar, þegar sviptingin hafi verið ákveðin. Umræddir hundar hafi ekki verið vistaðir innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur frá 28. mars 2014 til 10. febrúar 2017, en þeir hafi verið í vörslu annars aðila samkvæmt umboði.

Kæranda hafi ekki borist neinn greiðsluseðill vegna sex hundaleyfisgjalda fyrir árin 2015 og 2016 og hann hafi ekki heimabanka. Kæranda hafi ekki borist nein greiðsluáskorun frá heilbrigðiseftirlitinu vegna leyfisgjaldanna. Hann hafi ekki getað gert sér grein fyrir hversu há sex hundaleyfisgjöld væru. Lágmark hefði verið, samkvæmt meðalhófsreglu, að heilbrigðiseftirlitið birti kæranda greiðslukröfu til að gera honum grein fyrir greiðsluskyldu og beitti þannig vægasta stjórnsýsluúrræðinu í stað þess að beita strax ítrasta úrræði, afturköllun leyfanna. Þau gögn er kæranda hafi borist vegna þessara mála hafi verið boðsend af tveimur hundaeftirlitsmönnum og hægur vandi hefði verið að boðsenda umrædda greiðsluseðla, greiðsluáskorun eða tilkynningu um fyrirhugaða afturköllun hundaleyfanna. Annar kostur hefði verið að póstsenda umrædd gögn á Suðurlandsbraut 27, eins og margoft hafi verið beðið um.

Málsrök heilbrigðisnefndar Reykjavíkur: Af hálfu heilbrigðisnefndar Reykjavíkur er því haldið fram að hin kærða ákvörðun sé lögmæt að efni og formi til. Kæranda hafi verið kynnt ákvörðunin bréflega og hafi hann öll gögn málsins undir höndum.

Í a-lið 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 478/2012 um hundahald í Reykjavík segi að leyfi til hundahalds sé persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda, enda sé það ófrávíkjanlegt skilyrði að hundur sé skráður þar og haldinn. Í ljós hafi komið að kærandi sé óskrásettur í hús. Síðasta skráða lögheimili hans hafi verið að Álfabrekku við Suðurlandsbraut, en þeirri skráningu hafi verið breytt frá því að leyfin hafi verið veitt. Í kæru komi fram að kærandi eigi heimili að Fiskislóð sem séu smáhýsi á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Af þessu verði ekki önnur ályktun dregin en að kærandi viðurkenni í kæru að hann uppfylli ekki ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir hundahaldi skv. framangreindri 2. gr. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili segi að lögheimili manns sé sá staður þar sem hann hafi fasta búsetu.

Í kæru komi fram að hundarnir sem kærandi hafi verið sviptur leyfi fyrir séu ekki haldnir í Reykjavík heldur í Eyjafirði. Því til staðfestingar hafi fylgt yfirlýsing dýralæknis um að lesið hafi verið af örmerkjum umræddra hunda. Ekkert komi þar fram um að hundarnir séu haldnir í Eyjafirði.

Heilbrigðiseftirlitið mótmæli sem röngu að við málsmeðferð hafi ekki verið gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, líkt og komi fram í kærunni. Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi að aðili máls skuli eiga kost á að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun sé tekin í því. Andmælareglan sé náskyld rannsóknarreglunni í 10. gr. laganna, enda sé litið svo á að fái aðili máls ekki að tjá sig um efni fyrirhugaðrar ákvörðunar áður en hún sé tekin þá séu líkur fyrir að öll sjónarmið liggi ekki fyrir og rannsókn sé áfátt. Ljóst megi vera að kærandi hafi átt kost á að koma að andmælum á fundi starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins á heimili kæranda hinn 8. febrúar 2017. Kærandi hafi staðfest, jafnt á fundinum sem og í kæru, að hann haldi heimili við Fiskislóð en ekki að Álfabrekku við Suðurlandsbraut 27. Jafnframt hafi lögheimilis- og aðsetursskráningin verið könnuð í þjóðskrá. Loks hafni eftirlitið því sem röngu að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Ef stjórnvald hafi ekki val um leið við töku ákvörðunar eigi reglan ekki við. Í því máli sem hér um ræði sé ljóst að kærandi hafi ekki uppfyllt ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir leyfi til að halda hund, skv. samþykkt um hundahald í Reykjavík. Heilbrigðiseftirlitið hafi því ekki haft val um þá leið sem farin var til þess að framfylgja samþykktinni. Eftirlitið hafi ekki getað hlutast til um að kærandi færði lögheimili sitt aftur að Álfabrekku, enda séu lög nr. 21/1990 skýr um það hvað teljist vera lögheimili og aðsetur manna. Jafnframt komi fram í kærunni að með kærðri ákvörðun hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. laganna. Sú málsástæða sé órökstudd og því ómögulegt fyrir heilbrigðiseftirlitið að taka afstöðu til hennar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að því sé ranglega haldið fram í greinargerð heilbrigðiseftirlitsins að hann hafi kvittað fyrir móttöku á öllum gögnum málsins. Hið rétta sé að kæranda hafi aðeins borist bréf, dags. 10. febrúar 2017, um afturköllun hundaleyfa, og fundarboð, dags. 28. s.m. Annað hafi honum ekki borist frá heilbrigðiseftirlitinu.

Kærandi hafi búið að Suðurlandsbraut 27 með hléum síðan á sjöunda áratugnum. Hann hafi m.a. verið með lögheimili þar frá 25. júlí 1997 til 15. febrúar 2001 og einnig síðar, eins og fram hafi komið í úrskurði í máli nr. 18/2014 hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Undir rekstri þess máls hafi kærandi jafnframt lagt fram ljósmyndir frá árinu 1999, þar sem hann sinnti hundum sínum að Suðurlandsbraut 27. Hann hafi haft skráð lögheimili þar frá 1. mars 2017 en hafi ekki getað skráð það fyrr vegna þess að hann hafi ekki haft gild persónuskilríki. Heilbrigðiseftirlitið hefði ekki leiðbeint kæranda um að til sviptingar gæti komið vegna breyttrar lögheimilisskráningar.

Í greinargerð heilbrigðiseftirlitsins komi fram að kæranda hafi verið veittur kostur á að koma fram andmælum á fundi starfsmanna eftirlitsins á heimili kæranda 8. febrúar 2017. Í gögnum komi ekkert fram um að kæranda hafi verið tjáð um eða veittur kostur á að koma fram andmælum um fyrirhugaða leyfissviptingu, eða að þá hafi ákvörðun heilbrigðisnefndar um sviptingu hundaleyfis legið fyrir. Hið rétta sé að hundaeftirlitið hafi óskað eftir því að fá upplýsingar um hvar hundarnir sem skráðir hefðu verið á heimili hans væru vistaðir. Kærandi hafi svarað því.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var kærandi sviptur leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík. Voru þau rök færð fyrir ákvörðuninni að hann ætti ekki lögheimili á því heimilisfangi þar sem hann hefði fengið leyfi til að halda hundana og að leyfisgjöld hefðu ekki verið greidd frá árinu 2014. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2017, óskaði kærandi eftir „ítarlegum rökstuðningi“ fyrir ákvörðuninni, en þeirri beiðni var ekki sinnt. Í 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að aðili máls geti krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt. Verður að draga þá ályktun að hafi fullnægjandi skriflegur rökstuðningur fylgt ákvörðun sé ekki hægt að krefjast þess að hún sé rökstudd frekar. Í 1. mgr. 22. gr. laganna segir um efni rökstuðnings að í honum skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Í 2. mgr. segir að þar sem ástæða sé til skuli í rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Rakið var í málavaxtalýsingu hvað fram kom í tilkynningu til kæranda um ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, dags. 10. febrúar 2017. Þar kemur fram hvaða ákvæði samþykktar nr. 478/2012 um hundahald í Reykjavík kærandi teljist hafa brotið og hverju það varði að uppfylla ekki skilyrði leyfis fyrir hundahaldi. Að lokum kemur fram hvert efni ákvörðunarinnar sé ásamt leiðbeiningum um kæruleið. Telst framangreind ákvörðun uppfylla ákvæði 22. gr. um efni rökstuðnings þannig að ekki var skylt, skv. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, að veita nánari rökstuðning fyrir henni. Þó er rétt að taka fram að á stjórnvöldum hvílir sú almenna skylda að svara þeim erindum sem til þeirra er beint.

Samkvæmt samþykkt nr. 478/2012, sem sett var með heimild í þágildandi 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, nú 59. gr. laganna, er hundahald heimilað að fengnu leyfi og að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Kemur fram í a-lið 2. gr. samþykktarinnar að leyfi sé persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda, enda sé það ófrávíkjanlegt skilyrði að hundur sé skráður þar og haldinn. Einnig segir í 3. mgr. 9. gr. samþykktarinnar að hundaeiganda beri að tilkynna heilbrigðiseftirlitinu um aðsetursskipti. Fram er komið að kærandi var óstaðsettur í hús þegar hin kærða ákvörðun var tekin en bætti úr og skráði lögheimili sitt að Suðurlandsbraut 27 frá 1. mars 2017. Hann dvelst og hefur búsmuni sína í húsum á vegum Reykjavíkurborgar að Fiskislóð.

Í 12. gr. samþykktarinnar er fjallað um gjöld fyrir leyfi og kemur fram í 2. mgr. að dragist greiðsla lengur en mánuð fram yfir eindaga falli leyfið niður. Þá segir í 20. gr. samþykktarinnar að ef hundaeigandi brjóti gegn m.a. samþykkt þessari geti heilbrigðisnefnd afturkallað leyfi til hans og/eða bannað honum að vera með hund í lögsagnarumdæmi Reykjavíkurborgar. Ekki er fjallað um málsmeðferð þegar beita skal 20. gr. og fer því um hana eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ekkert liggur fyrir um að kæranda hafi verið tilkynnt um að til stæði að svipta hann umræddum leyfum til að halda hunda. Í skýrslu heilbrigðisfulltrúa um heimsókn til kæranda kemur ekkert fram um að honum hafi verið kynnt hvort eða hvenær ætlunin væri að taka mál hans fyrir, eingöngu að hann hafi verið spurður um geymslustað hundanna. Var honum fyrst kynnt ákvörðun heilbrigðisnefndar eftir að hún var tekin, en þá höfðu leyfin þegar verið afturkölluð. Kærandi fékk því ekki tækifæri til að tjá sig um málið fyrirfram og var því andmælaréttar hans ekki gætt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Jafnframt skorti á að meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins væri virt, sbr. 12. gr. laganna, en kærandi hefði getað bætt úr atriðum eins og lögheimilisskráningu og greiðslu gjalda hefði honum verið gefinn kostur á því með hæfilegum fresti til úrbóta áður en leyfin voru afturkölluð. Var enda bætt úr lögheimilisskráningu kæranda 20 dögum eftir að hin kærða ákvörðun var tekin fyrirvaralaust.

Fram kemur í gögnum málsins að með bréfi, dags. 28. febrúar 2017, fór kærandi fram á að fá afhent öll gögn sem lögð voru fyrir heilbrigðisnefnd 10. febrúar 2017 vegna afturköllunar hundaleyfa hans. Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 3. mars s.á., var tekið fram að ekki væri ljóst hvaða gagna væri óskað og var kærandi boðaður á fund til að fara yfir málið. Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls óskoraðan rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Er slíkur aðgangur nauðsynlegur til að tryggja að réttur aðila til að koma að skýringum og gera athugasemdir við framlögð gögn komi að fullu gagni. Ekki er hægt að telja beiðni kæranda óskýra og hefði verið rétt að veita honum aðgang að þeim gögnum er málið varðaði, eða rökstyðja takmörkun eða synjun á því. Boð um fund gat ekki komið í þess stað. Þegar kærandi afþakkaði fundarboðið, með bréfi sem móttekið var hjá Reykjavíkurborg fimm dögum síðar, hefði þurft að bregðast við og veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Fékk hann þó ekki afhent frekari gögn fyrr en málið hafði verið kært til úrskurðarnefndarinnar og honum bárust gögn málsins þaðan. Þykir þessi málsmeðferð af hálfu Reykjavíkurborgar ekki allskostar í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga um upplýsingarétt.

Samkvæmt því sem að framan er rakið skorti mjög á við meðferð málsins að gætt væri að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga hvað varðaði andmælarétt, meðalhóf og rétt aðila til upplýsinga. Með hliðsjón af því að um íþyngjandi ákvörðun var að ræða þykir málsmeðferðin hafa verið svo verulegum annmörkum háð að fella verði hina kærða ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 10. febrúar 2017 um að afturkalla leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

118/2018 Númerslaus bifreið Sandgerði

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 5. mars 2020, sjá hér.

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2018, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 8. ágúst 2018 um að fjarlægja bifreið af einkalóð í Sandgerði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Uppsalavegi 8, Sandgerði, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 8. ágúst 2018 að fjarlægja bifreið af einkalóð kæranda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 26. október 2018.

Málavextir: Hinn 8. ágúst 2018 límdi starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja miða á bifreið kæranda, þar sem fram kom að fjarlægja bæri bifreiðina hið fyrsta og var gefinn til þess frestur til einnar viku. Bifreiðin var síðan fjarlægð 30. s.m. og komið fyrir í geymsluporti Vöku í Reykjavík. Kærandi sætti sig ekki við þetta og bar fram kæru sem móttekin var 26. september s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður bifreiðina hafa verið á einkalóð sinni sem sé í langtímaleigu. Númerin hafi verið fjarlægð af bifreiðinni af og til, þegar ekki hafi verið þörf á henni, frá því hún hafi verið keypt árið 2011. Þetta hafi verið gert til að spara tryggingarkostnað af bifreiðinni. Ekkert hafi verið að bifreiðinni þegar hún hafi verið fjarlægð, hún hafi verið þvegin og bónuð reglulega þótt hún væri ekki á númerum. Ekkert ryð hafi verið á bifreiðinni fyrir utan einn lítinn blett og hún hafi verið ekin 96 þúsund km. Bifreiðin hafi síðast verið tekin af skrá 2016 og hafi ekki verið á skrá síðan. Ástæðan hafi verið sú að eiginmaður kæranda hafi átt erfitt með að aka henni en kærandi sé ekki með ökuréttindi. Ætlunin hafi verið að setja bifreiðina á númer á árinu 2019. Hún hafi verið gangsett á tveggja til þriggja mánaða fresti.

Eiginmaður kæranda hafi farið á sjúkrahús 17. ágúst 2018 og aftur 23. s.m. Hann hafi farið lítið út fyrir og eftir vistina. Kærandi sé mest innivið og hvorugt þeirra hafi haft hugmynd um að miði hefði verið límdur á bifreiðina. Þegar þriðji maður hefði komið í heimsókn 3. september s.á. hafi hann tekið eftir því að bifreiðin væri horfin og látið kæranda vita af því og hann haldið að henni hefði verið stolið. Haft hefði verið samband við lögreglu vegna þessa sem hefði gengið á milli húsa í nágrenninu til að spyrja hvort nágrannar hefðu séð eitthvað. Daginn eftir hefði lögreglumaður hringt og sagt frá því að heilbrigðiseftirlitið hefði látið fjarlægja bifreiðina. Eiginmaður kæranda hefði haft samband við heilbrigðiseftirlitið en hefði fengið þær einu leiðbeiningar að hann skyldi kæra atvikið til lögreglu. Það hafi verið reynt en lögreglan neitað að taka við kæru. Þá hafi kærandi farið til heilbrigðiseftirlitsins þar sem afhentar hefðu verið myndir og gögn vegna bifreiðarinnar og framkvæmdastjóra eftirlitsins afhentur spurningalisti sem hann hafi ætlað að svara. Þau svör hafi ekki borist. Einnig hafi bæjarstjóri sveitarfélagsins fengið beiðni um upplýsingar sem ekki hafi verið svarað.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Heilbrigðiseftirlitið fer aðallega fram á að kröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað.

Á viðvörunarmiða, sem límdur hafi verið á rúðu bílstjóramegin á ökutækinu, komi fram að ákvörðunin sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um eða mátt vera kunnugt um ákvörðunina. Af kæru verði ráðið að kærandi hafi verið heima þegar miðinn hafi verið límdur á bifreiðina og einnig vikurnar fram að því að bifreiðin hafi verið flutt á brott. Þar sem ekki hafi verið brugðist við viðvörun eða athugasemdir gerðar við ákvörðunina hafi hún verið framkvæmd. Samkvæmt gögnum máls hafi ákvörðunin verið tilkynnt með álímdum miða 8. ágúst 2018. Verði því ekki annað séð en að kærufrestur hafi verið liðinn fyrir allnokkru þegar ákvörðunin hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Af þeim sökum skuli vísa málinu frá nefndinni.

Bifreiðin hafi verið fjarlægð 22 dögum eftir að viðvörun hafi verið gefin með álímdum miða, eða 30. ágúst 2018. Á miðanum komi fram að athugasemdir skuli berast skriflega og þar veittar leiðbeiningar um kæruheimild. Þar sem engar skriflegar athugasemdir hafi borist innan frests og ekki hafi verið orðið við fyrirmælum heilbrigðiseftirlitsins hafi ökutækið verið fjarlægt á kostnað eiganda eins og boðað hafi verið.

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja starfi í umboði heilbrigðisnefndar skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heimild heilbrigðisnefndar til að beita þvingunarúrræðum byggist á XVII. kafla laga nr. 7/1998. Í 1. mgr. 60. gr. laganna sé kveðið á um til hvaða úrræða sé heimilt að grípa, þ.m.t. að haldleggja lausamuni og farga þeim vegna brota á lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 941/2001 um hollustuhætti sé bannað að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu og gildi það jafnt um smærri sem stærri hluti. Í 21. gr. reglugerðarinnar sé síðan kveðið á um að heilbrigðisnefnd sé heimilt að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs sé heilbrigðisnefnd einnig veitt heimild til að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun, t.d. með álímingarmiða með aðvörunarorðum og gildi sú heimild einnig um einkalóðir manna. Um þvingunarúrræði vísist til 66. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Þegar viðvörunarmiði hafi verið límdur á umrætt ökutæki hafi allt litið út fyrir að það stæði utan bílastæðis og teldist á almannafæri skv. 20. gr. reglugerðar nr. 941/2002, auk þess sem ákvæði reglugerðar nr. 737/2003 hafi átt við. Eins og áður sagði veitir 5. mgr. 17. gr. þeirrar reglugerðar heimild til að fjarlægja númerslausar bifreiðir af einkalóðum, en aðgerðir heilbrigðiseftirlits gagnvart ökutækjum sem ekki séu lengur í umferð byggist m.a. á markmiði 1. gr. laga nr. 7/1998 og lögum nr. 55/2003. Mengunarhætta stafi af gömlum ökutækjum sem ekki séu lengur í notkun og að mati eftirlitsins hafi ökutækið, eins og það hafi verið staðsett utan skilgreinds bílastæðis, verið til lýta fyrir umhverfið. Skyldur heilbrigðiseftirlitsins til að bregðast við séu og í samræmi við kröfur sveitarfélagsins sem gerðar séu til leigulóðarhafa, sbr. m.a. 7. gr. lóðarleigusamnings kæranda, sem sé á meðal gagna málsins. Fjöldi ökutækja, sem tekin séu úr notkun og lagt, geti auk þess skapað ýmis vandamál sem stemma þurfi stigu við skv. gildandi lögum og reglugerðum sem vísað hafi verið til. Af gögnum máls sé og ljóst að ökutækið hafi ekki verið á skrá í rúm tvö ár þegar það hafi verið fjarlægt.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun. Gerir Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja kröfu um frávísun í málinu á þeim grundvelli að lögbundinn mánaðar kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra var lögð fram. Miðar heilbrigðiseftirlitið upphaf kærufrests við þann dag sem tilkynning um yfirvofandi haldlagningu var límd á rúðu umræddrar bifreiðar. Að áliti úrskurðarnefndarinnar verður miða límdum á bílrúðu ekki jafnað við t.a.m. póstlagða tilkynningu á lögheimili. Mátti kærandi því ekki vita af umræddri ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá þeim tíma, sbr. fyrrnefnt lagaákvæði. Bifreiðin var fjarlægð 30. ágúst 2018 og af gögnum málsins verður ráðið að kæranda var það ljóst í síðasta lagi 3. september s.á. Kæra var lögð fram 26. s.m. og telst því nægilega snemma fram komin.

Heilbrigðisnefndir starfa samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt 47. gr. ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Gilda og stjórnsýslulög nr. 37/1993 um störf nefndarinnar. Samkvæmt 49. gr. laga nr. 7/1998 ráða heilbrigðisnefndir á hverju svæði heilbrigðisfulltrúa til að annast eftirlit sveitarfélaganna með þeim viðfangsefnum sem undir lögin falla. Heilbrigðisfulltrúar starfa í umboði heilbrigðisnefndar samkvæmt sama ákvæði.

Ákvæði um valdsvið og þvingunarúrræði eru í XVII. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 60. gr. geta heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt eftirfarandi aðgerðum til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum með stoð í þeim: 1. veitt áminningu, 2. veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta eða 3. stöðvað eða takmarkað viðkomandi starfsemi eða notkun, þar með lagt hald á vörur og fyrirskipað förgun þeirra. Samkvæmt 2. mgr. skal aðeins beita síðastnefnda úrræðinu í alvarlegri tilvikum, við ítrekuð brot eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests. Samkvæmt framangreindu er ljóst að heilbrigðisnefndir og heilbrigðiseftirlit hafa lagaheimildir fyrir þvingunaraðgerðum, sem m.a. fela í sér haldlagningu á lausamunum og förgun þeirra vegna brota á lögum nr. 7/1998 eða reglugerðum settum með stoð í þeim.

Reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti er sett með heimild í 4. gr. laga nr. 7/1998 og reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs er sett með heimild í 4. og 5. gr. sömu laga, sem og í 43. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Heimildir til að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök er að finna í ákvæðum 21. gr. reglugerðar um hollustuhætti og 17. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs. Í nefndri 21. gr. er að finna heimild heilbrigðisnefndar til að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum. Í áðurnefndri 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 segir m.a. að heilbrigðisnefnd sé heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun.

Samkvæmt gögnum málsins var umrædd bifreið kæranda staðsett á einkalóð og gat því ekki talist vera á almannafæri í skilningi 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Áðurnefnd 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 fjallar um almennan þrifnað utanhúss, m.a. á einkalóðum, og segir í 1. mgr. að umráðamönnum lóða sé skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. er heilbrigðisnefnd heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og af samhengi ákvæðisins má ráða að framangreint gildi um númerslausar bifreiðar á einkalóðum. Kemur fram í greinargerð heilbrigðiseftirlitsins að miði var límdur á bifreiðina 8. ágúst 2018 og eiganda gefinn viku frestur til að fjarlægja hana. Kom fram á nefndum miða að yrði bifreiðin ekki fjarlægð að útrunnum fresti yrði hún tekin í vörslu í einn mánuð og síðan fargað á kostnað eiganda. Kom einnig fram að hægt væri að hafa samband við fulltrúa heilbrigðiseftirlits í ákveðið símanúmer og einnig að hægt væri að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Bifreiðin var fjarlægð 30. ágúst, eða 22 dögum eftir að miðinn var límdur á hana.

Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki tekið eftir miðanum á bifreiðinni og ekki vitað að búið var að fjarlægja hana fyrr en kunningi lét hann vita af því. Bifreiðin stóð fyrir utan hús kæranda, inni á lóð hans, og verður að telja að heilbrigðiseftirlitið hafi verið í góðri trú um að full vitneskja væri um miðann og viðvörunina áður en bifreiðin var fjarlægð, sem gerðist ekki fyrr en 22 dögum síðar, eins og áður er komið fram. Verður því að telja að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi verið innan sinna valdheimilda þegar það lét fjarlægja bifreið kæranda. Þá var andmælaréttar kæranda gætt með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í 5. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 og fékk hann ráðrúm til að fjarlægja bifreiðina sjálfur áður en gripið yrði til frekari ráðstafana með tilheyrandi kostnaði.

Kærandi kveður bifreiðina hafa verið á númerum öðru hvoru síðastliðin ár og styðja gögn málsins það. Hins vegar voru liðin tvö ár og fjórir mánuðir frá því að númerin voru síðast leyst út og hafði bifreiðin staðið fyrir utan hús kæranda allan þann tíma. Þótt hún væri þvegin og bónuð öðru hvoru og sett í gang kemur það ekki í veg fyrir hugsanlega mengun frá ökutækinu, svo sem olíuleka. Verður því ekki annað séð en að hin kærða ákvörðun hafi stefnt að markmiðum 1. gr. laga nr. 7/1998 og 1. gr. reglugerðar nr. 737/2003 og þannig byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum. Var og málsmeðferð í samræmi við lög.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 30. ágúst 2018 um að fjarlægja bifreið af einkalóð í Sandgerði.

119/2017 Bíldshöfði

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 119/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 28. september 2017 um að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða vegna Bíldshöfða 18. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. október 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Riverside ehf. og Teiknir ehf., þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 28. september s.á. að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða vegna Bíldshöfða 18. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. október 2017.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 28. júní 2017 var samþykkt að auglýsa til kynningar og vísa til borgarráðs tillögu, dags. 8. júní s.á., um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða vegna Bíldshöfða 18. Í breytingunni fólst að leyfð yrði fjölbreytt blönduð atvinnustarfsemi í mannvirkjum á lóðinni, þ. á m. í formi gististaða í flokki I-III. Borgarráð samþykkti auglýsingu tillögunnar á fundi sínum 6. júlí s.á. Tillagan var auglýst til kynningar frá 14. júlí til 25. ágúst s.á. Á kynningartíma tillögunnar bárust 21 athugasemd og þar af voru 18 sameigendur að Bíldshöfða 18 með samhljóða athugasemdir. Þá skilaði annar kærenda þessa máls ódagsettum athugasemdum að loknum kynningartíma tillögunnar. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. september s.á. var breytingartillögunni hafnað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 28. ágúst 2017. Var málinu vísað til afgreiðslu borgarráðs, sem samþykkti afgreiðslu ráðsins 28. september s.á.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að í umsögn skipulagsfulltrúa sé lagt til grundvallar að samþykki meðeigenda um breytingu á hagnýtingu séreignar liggi ekki fyrir með vísan til 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Krafa kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs sé byggð á því að það sé ekki á forræði sveitarfélags að skera úr um hvort breyting á hagnýtingu séreignar sé heimil án samþykkis meðeigenda. Hin umrædda breyting sé ekki háð því hvort samþykki annarra eigenda að Bíldshöfða 18 liggi fyrir. Í skipulagslögum nr. 123/2010 sé ekki að finna ákvæði sem setji því skorður að hægt sé að verða við beiðni um breytingar á deiliskipulagi án samþykkis allra meðeigenda, enda sé ekki verið að breyta hagnýtingu séreignar með breytingu á deiliskipulagi.

Ef svo ólíklega vilji til að talið verið að samþykki allra meðeigenda þurfi til þess að breyting á deiliskipulagi geti átt sér stað sé vísað í 2. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga. Þar komi skýrt fram að eigandi geti ekki sett sig á móti breytingu á hagnýtingu séreignar ef sýnt sé að hún hafi ekki í för með sér neina röskum á lögmætum hagsmunum hans. Í frumvarpi því sem síðar hafi orðið að lögum nr. 26/1994 segi um 2. mgr. 27. gr. laganna að hér vegist á hagsmunir eiganda að geta hagnýtt eign sína á þann veg sem honum sýnist og hagsmunir annarra af því að fá notið sinna eigna í friði og án truflana. Hvoru tveggja séu gild sjónarmið sem verði að virða. Ákvæðið geri ráð fyrir að ákveðið hagsmunamat fari fram. Skipulagsfulltrúi virðist einungis hafa tekið til skoðunar hagsmuni annarra eigenda að Bíldshöfða 18 án þess að virða hagsmuni kærenda.

Þá hafi ekki verið gætt að andmæla- og upplýsingarétti kærenda. Niðurstaða skipulagsfulltrúa hafi legið fyrir 28. ágúst 2017. Annar kærenda þessa máls hafi komið að athugasemdum 30. ágúst s.á. Ljóst sé að tillaga skipulagsfulltrúa hafi legið fyrir áður en kærendur hafi komið að sínum sjónarmiðum. Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kveðið á um að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni. Ljóst sé að afstaða kærenda hafi ekki legið fyrir í gögnum málsins þegar skipulagsfulltrúi hafi komist að niðurstöðu 28. ágúst 2017. Í 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga sé kveðið á um að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varði. Þá segi í 1. mgr. 18. gr. laganna að stjórnvaldi sé heimilt að setja málsaðila ákveðinn frest til þess að kynna sér gögn máls og tjá sig um það. Tillaga kærenda að breytingu á deiliskipulagi hafi verið auglýst frá 14. júlí til og með 25. ágúst 2017. Athugasemdir hafi borist á kynningartíma tillögunnar en kærendur hafi ekki fengið að kynna sér athugasemdirnar fyrr en eftir að tillaga skipulagsfulltrúa hafi legið fyrir. Athugasemdirnar hafi falið í sér nýjar upplýsingar er skipulagsfulltrúi hafi litið til í niðurstöðum sínum. Réttast hefði verið að veita kærendum frest til þess að kynna sér athugasemdirnar og tjá sig um þær. Athugasemdirnar sem sendar hafi verið inn hafi gefið tilefni til að rannsaka nánar hvort þær ættu sér stoð í lögum eða gögnum. Ekki hafi verið gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Vegna framkominna athugasemda við kynningu skipulagstillögunnar sé tekið fram að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé Ártúnshöfði á miðsvæði M4b en ekki á athafnasvæði. Á svæðinu sé fyrst og fremst gert ráð fyrir rýmisfrekum verslunum, heildsölum og skrifstofum. Léttur iðnaður og verkstæði séu leyfð. Að öllu jöfnu sé ekki gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði, gistiheimilum eða hótelum nema það sé sérstaklega tilgreint í deiliskipulagi. Af orðalagi aðalskipulags sé ljóst að sú breyting sem kærendur hafi lagt til fari ekki gegn aðalskipulagi og sé í fullu samræmi við stefnu þess, líkt og kveðið sé á um í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Ótækt sé að hafna breytingu á deiliskipulagi fyrir heilt svæði einungis vegna þess að sambærileg starfsemi sé ekki í húsnæðinu. Nægi að taka fram að veitingastaðurinn Hamborgarabúllan og flugeldasala séu í húsnæðinu. Ekki hafi verið sýnt fram á með hvaða hætti fyrirhuguð starfsemi kærenda skerði lögmæta hagsmuni annarra í húsinu, en ein þeirra athugasemda sem borist hafi við kynningu tillögunnar hafi byggt á því að hávaði stafi af gistiheimili og einnig að gistiheimilið komi í veg fyrir að aðrir eigendur geti verið í hávaðasamri starfsemi. Ekki sé sýnt fram á að rekstur gistiheimilis teljist hávaðasöm starfsemi. Þá sé fráleitt að heimila kærendum ekki mögulega hávaðasama starfsemi vegna þess að hún gæti komið í veg fyrir hávaðasama starfsemi annarra eigenda fasteignarinnar. Ekki sé sýnt fram á með hvaða hætti fyrirhugaður rekstur kærenda hafi áhrif á aðra starfsemi í húsinu umfram rekstur skrifstofuhúsnæðis sem þar sé fyrir. Áréttað sé að breyting á deiliskipulagi sé ekki háð samþykki annarra eigenda.

Fyrirliggjandi eignaskiptayfirlýsing fyrir Bíldshöfða 18 geri ráð fyrir skrifstofum í eignarhluta kærenda. Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, mál nr. 115/2015, hafi verið talið að fjölgun hótelherbergja um 16 fæli ekki í sér meiri umferðaraukningu en búast mætti við á skilgreindu þéttbýlissvæði. Í aðalskipulagi sé almennt viðmið um fjölda bílastæða fyrir verslunar- og skrifstofuhúsnæði á umræddu svæði eitt bílastæði á hverja 35 m2. Þegar um annað atvinnuhúsnæði sé að ræða en verslunar- og skrifstofuhúsnæði geri aðalskipulagið ráð fyrir einu bílastæði á hverja 50 m2 á umræddu svæði. Aðalskipulagið geri því ráð fyrir að skrifstofu- og verslunarhúsnæði útheimti töluvert fleiri bílastæði en annars konar atvinnuhúsnæði á borð við gistiheimili. Þannig verði ekki séð að gistiheimili muni auka við þann bílastæðavanda sem þegar sé til staðar.

Með bréfi, dags. 20. desember 2016, hafi skipulagsfulltrúi tekið jákvætt í að heimila að láta vinna drög að deiliskipulagsbreytingu fyrir Bíldshöfða 8-18 til að heimila gististaði í flokki I-III. Áður hafi verið rekið gistiheimili á þróunarsvæði Þ89 við Viðarhöfða 2a og í dag sé rekið sambýli að Viðarhöfða 2 þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir íbúðabyggð eða hótelum á svæðinu. Þó svo að Bíldshöfði 18 sé á svokölluðu þróunarsvæði liggi fyrir fordæmi fyrir rekstri gistiheimilis og sambýlis, enda samræmist slík starfsemi stefnu sveitarfélagsins um að færa miðborgarstarfsemi til austurs.

Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir þróunarsvæði Þ89, miðsvæði M4b, segi að nánari upplýsingar um uppbyggingu og þróun svæðisins sé að finna í kaflanum Borgin við Sundin, um þróunarásinn Örfirisey-Keldur. Í þeim kafla sé Bíldshöfði á svokölluðu þéttingarsvæði, blönduð byggð. Eitt helsta markmið sveitarfélagsins sé að þróa miðborgarstarfsemi til austurs. Þá sé lögð áhersla á hjólastíga og greiðar og þægilegar leiðir fyrir gangandi vegfarendur á svæðinu. Í stefnu sveitarfélagsins sé gert ráð fyrir þéttri blandaðri byggð. Þó svo að Bíldshöfði 18 sé á þróunarsvæði verði ekki séð hvernig breytt deiliskipulag, eins og kærendur hafi lagt til, fari gegn þeirri stefnu sem sveitarfélagið hafi sett með gildandi aðalskipulagi, en rekstur gistiheimilis falli óumdeilanlega undir miðborgarstarfsemi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að það hafi verið mat skipulagsfulltrúa að ekki væri hægt að samþykkja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi í ljósi andstöðu mikils meirihluta eigenda fasteignarinnar að Bíldshöfða 18. Þrátt fyrir að ekki sé að finna ákvæði í skipulagslögum nr. 123/2010, sem beinlínis setji því skorður að hægt sé að verða við beiðni um breytingar á deiliskipulagi þegar samþykki allra meðeigenda liggi ekki fyrir, sé litið svo á að ekki sé æskilegt að verða við slíkum óskum skorti samþykki meðlóðarhafa fyrir tillögum um breytingar. Verði skipulagsyfirvöld í slíkum tilvikum að líta til afstöðu annarra lóðarhafa sem mótfallnir séu breytingunni. Áskilnaður um samþykki meðlóðarhafa eigi sér einnig stoð í 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, en um sé að ræða breytingu á nýtingu lóðarinnar frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í upphafi. Verði enn fremur að telja að ákvörðun um að breyta hagnýtingu lóðarinnar verði að taka á húsfundi samkvæmt fjöleignarhúsalögum, en svo hafi ekki verið gert að því best sé vitað. Samkvæmt eignaskiptasamningi séu kærendur einungis eigendur að litlum hluta lóðarinnar, eða tæplega 8%, og sé það ekki í samræmi við ákvæði fjöleignahúsalaga að lítill hluti eigenda geti knúið í gegn skipulagsbreytingar sem kunni að snerta hagsmuni annarra lóðarhafa gegn eindregnum mótmælum þeirra. Þá megi enn fremur benda á að breyting á nýtingu í gistiheimili kalli án efa á byggingarleyfisskyldar framkvæmdir, m.a. á sameign, en í tillögunni sé gert ráð fyrir að heimilt sé að fara með þakkanta, skyggni, skýli, svalir, stiga og lyftur út fyrir byggingarreit. Auk þess sé um breytingar að ræða varðandi girðingar á lóðarmörkum og vandséð að þær fengjust samþykktar í ljósi andstöðu mikils meirihluta meðeigenda.

Því sé enn fremur hafnað að ekki hafi verið gætt að andmæla- og upplýsingarétti. Dagsetning umsagnar skipulagsfulltrúa sé til komin vegna mistaka, en verkefnisstjóra hafi láðst að tilgreina rétta dagsetningu á umsögninni í stað þeirrar sem fyrir hafi verið á vinnuskjali sem síðar hafi orðið að umsögn. Þegar umsókninni hafi verið vísað til umsagnar verkefnisstjóra hjá skipulagsfulltrúa á fundi skipulagsfulltrúa 1. september 2017 hafi fyrrnefnt bréf annars kærenda þessa máls, dags. 30. ágúst s.á., legið fyrir í gögnum málsins. Enn fremur hafi það verið lagt fram á fundinum. Því hafi ekki verið búið að vinna neina umsögn í málinu 28. ágúst s.á., eins og dagsetning gefi til kynna. Ekki hafi þótt sérstök ástæða til að fjalla um eða svara bréfinu, enda hafi það borist eftir að fresti til athugasemda lauk. Við afgreiðslu málsins í umhverfis- og skipulagsráði hafi umrætt bréf einnig verið lagt fram og ráðið þannig upplýst um tilvist þess. Meðferð tillögunnar og afgreiðsla málsins hafi því að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Tillagan hafi verið auglýst, innsendar athugasemdir teknar til umfjöllunar lögum samkvæmt og ákvörðun um synjun tillögunnar tekin af umhverfis- og skipulagsráði en ekki skipulagsfulltrúa.

Skipulagsfulltrúi hafi enn fremur ekki talið æskilegt að setja fordæmi fyrir rekstri gistiheimila á svæðinu að svo stöddu fyrr en búið væri að vinna heildarstefnu fyrir nýtingu svæðisins. Samkvæmt skipulagslögum sé vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Í skipulagsáætlunum sé sett fram stefna skipulagsyfirvalda um þróun byggðar og landnotkun og teknar ákvarðanir um samgöngur og mannvirki sem þeim tengist. Sveitarstjórnum sé því gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags, en við beitingu þess valds beri þeim þó að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð séu í 1. gr. þeirra, m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Sveitarstjórnir séu enn fremur bundnar af lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, er feli m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt sé til að ná þeim markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafi sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað. Einstakir aðilar geti óskað eftir því við sveitarstjórn að deiliskipulagi sé breytt, en eiga þó almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda. Það sé vissulega rétt að skipulagsyfirvöld hafi verið jákvæð gagnvart því að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina en aðilar geti þó ekki tekið því sem sjálfgefnu að auglýstar breytingar verði samþykktar.

Varðandi tilvísun kærenda til sambýlis að Viðarhöfða 2 þá telji borgaryfirvöld það mál ekki vera sambærilegt, enda annað deiliskipulag í gildi þá. Árið 2000 hafi verið sótt um að fá að breyta skrifstofuhúsnæði á 2. hæð á lóðinni nr. 2 við Viðarhöfða í útleiguherbergi. Samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 hafi Viðarhöfði 2 verið á athafnasvæði með blandaðri landnotkun. Þar hafi mátt gera ráð fyrir félagsheimilum, hótelum og veitingastöðum. Samkvæmt aðalskipulaginu hafi mátt í jaðri athafnasvæða og íbúðarsvæða gera ráð fyrir íbúðum á efri hæðum atvinnubygginga ef aðstæður leyfðu. Hafi því breyting í gistiheimili þótt samræmast landnotkun svæðisins á þeim tíma.

Á árinu 2009 hafi svo verið auglýst breyting á deiliskipulagi Ártúnshöfða eystri vegna breytingu á nýtingu 3. hæðar Viðarhöfða 2 í sambýli. Með tillögunni hafi fylgt samþykki allra meðlóðarhafa. Í umsögn skipulagsfulltrúa vegna fyrirspurnarinnar hafi komið fram að um væri að ræða íbúðarhúsnæði/sambýli á svæðinu sem samkvæmt þágildandi aðalskipulagi hafi verið skilgreint sem miðsvæði. Þar sem aðstæður hafi leyft hafi mátt gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, sérstaklega á efri hæðum bygginga. Í gildandi deiliskipulagi hafi aftur á móti ekki verið gert ráð fyrir frekari fjölgun íbúða á svæðinu. Framangreind tillaga að deiliskipulagsbreytingu hafi þó aldrei tekið gildi. Samkvæmt núgildandi aðalskipulagi sé Viðarhöfði settur undir sömu skilmála og Bíldshöfði 18. Hvað varði þá málsástæðu að það sé stefna í aðalskipulaginu að færa gististarfsemi til austurs þá geti sú stefna ein og sér aldrei leitt til þess að verða beri við öllum óskum um slíkt, enda verði ávallt að líta til þeirra skilmála er gildi um viðkomandi svæði.

Niðurstaða: Lóð nr. 18 við Bíldshöfða er staðsett á svokölluðu þróunarsvæði Þ89 Höfðar-Vogur í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Svæðið er skilgreint sem miðsvæði, M4b, og um svæðið segir í aðalskipulaginu: „Fyrst og fremst gert ráð fyrir rýmisfrekum verslunum, heildsölum og skrifstofum. Léttur iðnaður og verkstæði eru leyfð. Að öllu jöfnu er ekki gert ráð fyrir gistiheimilum eða hótelum nema það sé sérstaklega tilgreint í deiliskipulagi.“ Í gildandi deiliskipulagi Ártúnshöfða frá árinu 1999 er ekki tilgreint sérstaklega hvaða starfsemi er leyfileg á lóðinni. Í tillögu kæranda að breytingu á deiliskipulagi fólst m.a. að leyfð yrði fjölbreytt blönduð atvinnustarfsemi í mannvirkjum á lóðinni, þ. á m. í formi gististaða í flokki I-III.

Sveitarfélagi er falið víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags, líkt og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga og er það í valdi sveitarstjórnar að samþykkja deiliskipulag, sbr. 40. til 42. gr. laganna. Gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Getur landeigandi óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað skv. 2. mgr. 38. gr. sömu laga, en ekki verður talið að landeigandi eigi lögvarða kröfu á grundvelli nefnds ákvæðis til þess að knýja á um breytingu á deiliskipulagi. Aftur á móti ber sveitarstjórn við meðferð slíkra tillagna að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar. Hin kærða ákvörðun var studd þeim rökum að vegna mótmæla lóðarhafa Bíldshöfða 18 lægi ljóst fyrir að ekki myndi nást samþykki meðlóðarhafa fyrir fyrirhuguðum breytingum, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Einnig var ekki talið æskilegt að setja fordæmi fyrir gistiheimili á svæðinu fyrr en búið yrði að vinna heildarstefnu um nýtingu þess.

Skipulagsvald sveitarstjórna er tæki þeirra til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Verður almennt að búast við því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema að nauðsyn beri til. Þá er í skipulagslögum kveðið á um að kynning og samráð eigi sér stað við gerð deiliskipulags, sbr. 40. gr., og að afstaða skuli tekin til athugasemda sem borist hafi, sbr. 3. mgr. 41. gr. laganna. Með hliðsjón af þessu verður það ekki talið ómálefnalegt af hálfu borgaryfirvalda að líta m.a. til þess að mikill meirihluta lóðarhafa umræddrar lóðar lýstu sig andvíga umsóttum breytingum á landnotkun. Skiptir hér ekki máli þótt samþykki meðeigenda skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga sé ekki gert að skilyrði fyrir breytingu á deiliskipulagi í skipulagslögum. Þótt áður hafi verið rekið gistiheimili á þróunarsvæði Þ89 og nú sé þar rekið sambýli að Viðarhöfða 2 verður að líta til þess að þrátt fyrir jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að við úrlausn mála skuli stjórnvald gæta samræmis og jafnræðis, getur verið réttlætanlegt til að ná fram skipulagsmarkmiðum að afgreiða sambærileg tilvik með ólíkum hætti. Verður ekki annað séð en að jafnræðis hafi verið gætt við töku hinnar kærðu ákvörðunar.
Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu jafnframt á því að andmæla- og upplýsingarréttar þeirra hafi ekki verið gætt þar sem niðurstaða skipulagsfulltrúa hafi legið fyrir 28. ágúst 2017, en annar kærenda þessa máls hafi komið að athugasemdum 30. ágúst s.á. Í embættisafgreiðslu skipulagsfulltrúa 1. september s.á. kemur fram að breytingartillögunni ásamt athugasemdum, þ. á m. athugasemdum annars kærenda frá 30. ágúst s.á., sé vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Með hliðsjón af þessu og þeim skýringum sem fram hafa komið af hálfu Reykjavíkurborgar að þessu leyti sýnist ljóst að um misritun á dagsetningu í niðurstöðu skipulagsfulltrúa var að ræða og að í henni hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem annar kærenda kom að. Verður því ekki fallist á að andmæla- og upplýsingaréttur kærenda hafi verið fyrir borð borinn við meðferð málsins.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 28. september 2017 um að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða vegna lóðarinnar Bíldshöfða 18.

121/2017 Birkigrund

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 13. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2017, kæra vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 20. september 2017 um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á lóðamörkum Birkigrundar 12 og 14. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 11. október 2017, er barst nefndinni 12. s.m., kærir eigandi, Birkigrund 14, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 20. september 2017 að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á lóðamörkum Birkigrundar 12 og 14. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 25. október 2017.

Málavextir: Hinn 24. júní 2016 sendi embætti byggingarfulltrúans í Kópavogsbæ bréf til lóðarhafa Birkigrundar 12 og afrit þess til lóðarhafa Birkigrundar 14. Bréfið varðaði deilu lóðarhafa um grindverk á lóðamörkum. Í bréfinu kom fram að samkvæmt 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 væri girðing eða skjólveggur á mörkum lóða alltaf háður samþykki beggja lóðarhafa óháð hæð girðingar eða skjólveggjar. Af því leiddi að allar þegar hafnar framkvæmdir á lóðamörkum sem ekki hefðu verið samþykktar af báðum lóðarhöfum væru óheimilar og þyrfti því að færa lóðirnar aftur í fyrra horf. Sáttafundur vegna deilunnar var haldinn 12. ágúst 2016 með starfsmönnum Kópavogsbæjar en án árangurs.

Byggingarfulltrúi sendi lóðarhafa Birkigrundar 12 bréf, dags. 7. febrúar 2017, og afrit þess til lóðarhafa Birkigrundar 14 vegna kvörtunar sem borist hafði frá kæranda vegna timburpalls og skjólveggjar sem byggður hafði verið á lóðamörkum. Þar kom fram að vettvangsskoðun starfsmanna byggingarfulltrúa hefði leitt í ljós að undirstöður vegna þessara framkvæmda næðu inn á lóð Birkigrundar 14. Áréttaði byggingarfulltrúi það sem fram hafði komið í bréfi hans, dags 24. júní 2016, um að samþykki beggja lóðarhafa hefði þurft áður en hafist var handa við framkvæmdina, sbr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð. Jafnframt benti hann á að samkvæmt gr. 2.3.5. í reglugerðinni mætti pallur úr brennanlegu efni ekki vera nær mörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m. Byggingarfulltrúi hvatti deiluaðila til að ná samkomulagi og tók fram að annars yrði að fjarlægja skjólveggi og timburpalla sem ekki uppfylltu fyrrgreind ákvæði gr. 7.2.3. og 2.3.5.

Hinn 4. september 2017 barst kæra frá fasteignareigendum Birkigrundar 14 til úrskurðarnefndarinnar þar sem farið var fram á að framkvæmdir á lóðamörkum yrðu stöðvaðar af þeirri ástæðu að þær brytu í bága við byggingarreglugerð og að ekki hefði verið veitt samþykki fyrir þeim. Erindið var framsent byggingaryfirvöldum Kópavogsbæjar 14. september s.á. þar sem kæruefnið ætti undir embætti byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi hafnaði kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða vegna umdeildra framkvæmda og tilkynnti honum þær málalyktir með bréfi, dags. 20. september 2017.

Málsrök kæranda: Kærandi álítur að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar hafi ekki fylgt eftir ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 122/2012, svo sem honum hafi verið skylt að gera, er hann synjaði beitingu þvingunarúrræða. Samkvæmt bréfi, dags. 7. febrúar 2017, hafi starfsmenn byggingarfulltrúa staðfest eftir vettvangsskoðun að undirstöður framkvæmda lóðarhafa Birkigrundar 12 næðu inn á lóð Birkigrundar 14. Jafnframt hafi þar verið tiltekið að pallur úr brennanlegu efni mætti ekki vera nær mörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m til að vera undanþeginn byggingarleyfi.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er tekið fram að hvorki hafi verið gefið út byggingarleyfi né um það sótt. Byggingarfulltrúi sjái um eftirlit með mannvirkjagerð og geti t.a.m. stöðvað framkvæmdir ef byggt sé á annan hátt en leyfi standi til. Í 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sé byggingarfulltrúa veitt heimild til að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 42/2016 komi fram að ákvörðun um beitingu umræddra þvingunaraðgerða sé háð frjálsu mati stjórnvaldsins hverju sinni. Í frumvarpi sem orðið hafi að mannvirkjalögum komi fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðisins sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verði fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim sem búi að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Einstaklingum sé hins vegar ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða, enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja einstaklingsbundna hagsmuni sína.

Starfsmenn embættis byggingarfulltrúa hafi farið á staðinn og skoðað aðstæður. Ekki hafi verið að sjá að umræddur skjólveggur hefði áhrif á umferðaröryggi, væri hættulegur heilsu eða hefði veruleg áhrif á skipulag svæðisins. Því væri ekki að sjá að gengið væri svo verulega gegn almannahagsmunum að réttlæta hefði mátt beitingu íþyngjandi þvingunarúrræða í málinu.

———-

Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum og sjónarmiðum sínum vegna kærumálsins en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogsbæ að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á lóðamörkum Birkigrundar 12 og 14. Sú ákvörðun byggingarfulltrúa er kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 8. gr. laga um mannvirki fer byggingarfulltrúi með eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi og er m.a. tekið fram í gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að byggingarfulltrúi skuli grípa til viðeigandi aðgerða samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar og 10. kafla mannvirkjalaga sé framkvæmd ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög, reglugerðir og byggingarlýsingu. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga getur byggingarfulltrúi stöðvað framkvæmdir ef byggt er án þess að leyfi sé fengið fyrir framkvæmdinni eða ef ekki er að öðru leyti fylgt eftir ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar er samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er að finna heimild fyrir byggingarfulltrúa til að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Þá heimilar 56. gr. byggingarfulltrúa að krefjast úrbóta að viðlögðum dagsektum. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð frjálsu mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða gagnvart þriðja aðila vegna einstaklingshagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja slíka hagsmuni.

Kópavogsbær rökstuddi synjun um beitingu þvingunarúrræða með þeim hætti að ekki væri að sjá að skjólveggurinn gengi svo verulega gegn almannahagsmunum að réttlæta mætti beitingu íþyngjandi þvingunarúrræða. Hvorki væri að sjá að hann drægi úr umferðaröryggi, væri hættulegur heilsu fólks né að hann hefði veruleg áhrif á skipulag svæðisins. Verður ekki annað séð en að það mat byggingarfulltrúa, að ekki væri tilefni til að beita þvingunarúrræðum, sé stutt efnisrökum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 20. september 2017 um að synja beiðni kæranda um beitingu þvingunarúrræða vegna framkvæmda á lóðamörkum Birkigrundar 12 og 14.

101/2017 Faxabraut

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 13. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2017, kæra á ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss um að heimila nýtingu lóðarinnar að Faxabraut 8, Ölfusi, undir heyrúllur. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Faxabrautar 6, Ölfusi, þá ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss að heimila nýtingu lóðarinnar að Faxabraut 8 undir heyrúllur. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðun um þá ráðstöfun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 4. október 2017.

Málavextir: Lóðin að Faxabraut 8 er staðsett á hesthúsasvæði í Þorlákshöfn og er í eigu Sveitarfélagsins Ölfuss. Bæjaryfirvöld heimiluðu Hestamannafélaginu Háfeta að nýta lóðina undir heyrúllur og geymslu á kerrum. Hinn 15. ágúst 2017 sendi kærandi Skipulagsstofnun bréf með ábendingu um að ráðstöfun sveitarfélagsins á lóðinni væri í ósamræmi við byggingarsamþykktir og skipulag sveitarfélagsins.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst telja að bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss þverbrjóti reglur um byggingarsamþykktir með því að heimila að settar séu heyrúllur á lóðina Faxabraut 8, sem sé hesthúsalóð í hesthúsahverfinu samkvæmt byggingarsamþykktum. Fer kærandi fram á að þetta verði leiðrétt og að bæjarstjórninni verði gert að fara eftir samþykktu skipulagi og úthluta annarri lóð undir heyrúllurnar í samræmi við byggingarsamþykktir og skipulag sveitarfélagsins.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: 
Af hálfu sveitarfélagsins er bent á unnið hafi verið deiliskipulag fyrir hesthúsahverfið í samvinnu við Hestmannafélagið Háfeta. Ekki sé á döfinni að gera nýtt rúllustæði, líkt og deiliskipulag geri ráð fyrir, á meðan hægt sé að nota önnur svæði. Þess sé gætt að heyrúllur séu ekki nær næstu húsum heldur en Brunavarnir Árnessýslu heimili, eða í 10 m fjarlægð. Þeir aðilar sem hafi fengið úthlutað lóðunum nr. 8 og 10 við Faxabraut hafi skilað þeim aftur til sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hafi heimilað hestamannafélaginu að nýta lóðirnar undir heyrúllur og geymslu á kerrum, enda verði það gert snyrtilega og fylgt reglum hestamannafélagsins um umgengni.

Niðurstaða: Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Slíkar stjórnvaldsákvarðanir verða jafnframt að binda endi á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Lóðin að Faxabraut 8 er í eigu Sveitarfélagsins Ölfuss og fyrir liggur að sveitarfélagið hefur heimilað Hestamannafélaginu Háfeta að geyma þar heyrúllur og kerrur. Samkvæmt upplýsingum frá skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins hafði kærandi átt í samskiptum annars vegar við Brunavarnir Árnessýslu, vegna nálægðar heyrúlla við hesthús hans, og hins vegar við fyrrverandi bæjarstjóra sveitarfélagsins, um að ráðstöfunin væri ekki í samræmi við deiliskipulag, en ekki liggur fyrir hvenær þau samskipti áttu sér stað. Verður ekki litið svo á að í nefndum samskiptum hafi falist beiðni um beitingu þvingunarúrræða á grundvelli 56. laga um mannvirki, þegar haft er í huga að slík úrræði geta verið íþyngjandi gagnvart þriðja aðila og haft lögfylgjur í för með sér. Verður af þeim sökum að liggja ótvírætt fyrir að skýr krafa hafi verið gerð um beitingu úrræðanna. Gögn málsins bera hvorki með sér að slík krafa hafi legið fyrir né að tekin hafi verið stjórnvaldsákvörðun af þar til bæru stjórnvaldi, sem feli í sér afstöðu til beitingar þvingunarúrræða á grundvelli laga um mannvirki. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

116 og 119/2018 Hafnarstétt

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 13. desember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2018, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 6. september 2018 um að óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skuli fjarlægðar og gengið frá röskuðu landi utan lóðamarka. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. september 2018, er barst nefndinni 18. s.m., kærir Gentle Giants – Hvalaferðir ehf., Túngötu 6, Húsavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 6. september 2018 að óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skuli fjarlægðar og gengið frá röskuðu landi fyrir 20. september s.m.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa frá 25. s.m. um að fjarlægja óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 á kostnað lóðarhafa.

Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að réttaráhrifum þeirra verði frestað á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður síðara kærumálið, sem er nr. 119/2018, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að kærunum. Er málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinna kærðu ákvarðana.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Norðurþingi 26. september og 8. október 2018.

Málavextir: Kærandi óskaði eftir leyfi 17. nóvember 2017 til að ganga frá svæði umhverfis húsið að Hafnarstétt 13 samkvæmt framlögðum teikningum. Þar sem beiðnin fól í sér frávik frá gildandi deiliskipulagi, m.a. vegna fyrirhugaðs veggjar yfir lóðarmörk, var erindið tekið fyrir í skipulags- og umhverfisnefnd 21. nóvember s.á. og samþykkt að lóðarfrágangur næði 2 m til norðurs frá húsvegg og 1 m til austurs frá stafni hússins. Ekki var fallist á beiðni um frágang lóðar til suðurs við lóðarmörk. Kærandi óskaði eftir endurskoðun á ákvörðuninni og var fyrri afgreiðsla málsins staðfest á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 13. desember s.á. Hinn 28. júní 2018 óskaði kærandi á ný eftir heimild til frágangs í samræmi við áður framlagða teikningu. Erindið var tekið fyrir í skipulags- og framkvæmdaráði 3. júlí 2018 og varð niðurstaðan sú að ekki var fallist á frágang samkvæmt teikningu við suður- og austurmörk lóðarinnar. Jafnframt var vísað til ákvarðana skipulags- og umhverfisnefndar frá 21. nóvember og 13. desember 2017.

Kærandi hóf framkvæmdir við hleðslu veggjar að Hafnarstétt 13 í ágúst 2018. Er byggingarfulltrúi fór í eftirlitsferð um framkvæmdasvæðið 17. s.m. taldi hann að byrjað væri að hlaða vegg utan við þau mörk sem sveitarfélagið hefði heimilað. Var það niðurstaða mælinga hans að veggurinn austan hússins næði rúmlega 1,7 m austur fyrir stafn, þ.e. 0,7 m umfram heimild, og að veggurinn norðan við húsið væri 2,35 m frá húsvegg, eða 0,35 m umfram það sem heimilað hafði verið. Tók byggingarfulltrúi ákvörðun um að stöðva verkið og sendi kæranda tölvupóst þess efnis sama dag. Kærandi mótmælti verkstöðvuninni og færði rök fyrir breyttri staðsetningu veggjarins með tölvupósti 18. ágúst s.á. Þar var tekið fram að bilið frá húsvegg að vegg austan við húsið væri 1,4 m, þar sem útilokað hefði verið að miða við 1 m vegna aðstæðna, og fyrir norðan húsið væru 2 m frá húsgafli í vegginn, þar sem þar hefði einnig þurft að stilla vegginn af m.t.t. lagna. Báðar aðgerðirnar hafi verið þaulskipulagðar m.t.t. til legu lagna o.fl. Yfirdrifið pláss væri utan við vegginn. Að lokum óskaði kærandi eftir afstöðu byggingarfulltrúa til legu veggjar sunnan hússins. Byggingarfulltrúi sendi kæranda tölvupóst 21. s.m. þar sem fram kom að hann féllist ekki á röksemdir kæranda fyrir færslu veggjarins og að kærandi hefði átt að hafa samráð við sveitarfélagið varðandi frávik. Ekki væri tilefni til afturköllunar á verkstöðvun. Var kærandi hvattur til að finna tíma til að ræða málið við byggingarfulltrúa og sveitarstjóra en málið yrði til umfjöllunar á næsta fundi skipulags- og framkvæmdaráðs hinn 28. s.m.

Byggingarfulltrúi óskaði eftir því við umhverfisstjóra að hann setti út nákvæma staðsetningu lóðarmarka Hafnarstéttar 13 samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi og var það gert 22. ágúst 2018. Að sögn byggingarfulltrúa kom þá í ljós að vinna væri hafin við undirbúning fyrir hleðsluvegg 0,55 m vestan við húsið, en ekki hefði verið sótt um leyfi fyrir þeirri framkvæmd. Var kæranda bent á þetta með tölvupósti sama dag og þess krafist að ekki yrði unnið áfram við vegginn í þeirri línu. Málið var rætt á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 28. ágúst 2018. Taldi meirihluti ráðsins brot kæranda þess eðlis að tilefni væri til að skipulags- og byggingarfulltrúi krefðist þess að óleyfisframkvæmdirnar yrðu fjarlægðar með vísan til 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Skipulags- og byggingarfulltrúi sendi kæranda bréf, dags 6. september 2018, þar sem vísað var til kröfu um verkstöðvun og tekið fram að ekki hefðu komið fram rök í málinu sem gæfu tilefni til að afturkalla verkstöðvunina. Framkvæmdirnar væru hvorki í samræmi við ákvæði deiliskipulags né þær heimildir sem skipulagsyfirvöld hefðu veitt kæranda. Að lokum var kæranda tilkynnt að með vísan til 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga færi skipulags- og byggingarfulltrúi fram á að óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 yrðu fjarlægðar og að gengið yrði frá röskuðu landi utan lóðarmarka til samræmis við það sem verið hefði áður en framkvæmdir hófust. Var þess krafist að búið yrði að fjarlægja hlaðna vegginn og ganga að öðru leyti snyrtilega frá svæðinu fyrir 20. s.m. Yrði ekki brugðist við með fullnægjandi hætti fyrir þann tíma eða um annað samið skyldi kærandi reikna með að sveitarfélagið léti vinna verkið á kostnað eiganda.

Kærandi óskaði eftir stöðuleyfi fyrir veggnum miðað við núverandi staðsetningu hans til næstu sex ára og var erindið tekið fyrir á skipulags- og framkvæmdaráðs 11. september 2018 þar sem beiðninni var hafnað. Jafnframt kom fram að meirihluti ráðsins teldi rétt að fara fram á að veggurinn yrði fjarlægður sem fyrst. Sendi skipulags- og byggingarfulltrúi kæranda bréf, dags. 17. september 2018. Þar kom fram að ekki hefðu borist skrifleg andmæli við bréfinu frá 6. s.m. og að ekki hefði verið brugðist við kröfu sveitarfélagsins um að óleyfisframkvæmdir yrðu fjarlægðar og gengið frá svæðinu. Var áréttuð krafa um að óleyfisframkvæmdirnar yrðu fjarlægðar án tafar. Jafnframt var hafnað beiðni um afturköllun ákvörðunarinnar þar sem ekki hefðu verið lögð fram nein gögn eða málsástæður sem réttlættu slíkt. Að lokum var áréttað að yrðu framkvæmdirnar ekki fjarlægðar fyrir 20. s.m., samið um annað eða embættinu borist skrifleg andmæli með öðrum sjónarmiðum eða nýjum gögnum sem leitt gætu til annarrar niðurstöðu, yrði tekin ákvörðun um að láta vinna verkið á kostnað lóðarhafa, sbr. 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga, án frekari viðvörunar.

Í bréfi lögmanns kæranda til sveitarfélagsins, dags. 18. september 2018, var vísað til afgreiðslu skipulags- og framkvæmdaráðs frá 11. s.m. varðandi beiðni um stöðuleyfi. Kom fram að kærandi teldi að framkvæmdin félli undir f-lið gr. 2.3.5. í byggingareglugerð nr. 112/2012 og væri því ekki háð byggingarleyfi samkvæmt mannvirkjalögum. Framkvæmdin rúmaðist innan þeirra leyfa sem veitt hefðu verið til framkvæmda á lóðinni, sbr. m.a. afgreiðslur skipulags- og umhverfisnefndar 21. nóvember og 13. desember 2017 og skipulags- og framkvæmdaráðs 3. júlí 2018. Engin gögn lægju fyrir um að framkvæmdin viki frá gildandi skipulagi og áður útgefnum leyfum og að því marki sem slík frávik kynnu að vera fyrir hendi væru þau óveruleg og rúmuðust innan gildandi skipulags og leyfa. Að lokum var óskað eftir rökstuddri ákvörðun ef sveitarfélagið teldi að um byggingarleyfisskylda framkvæmd væri að ræða eða að framkvæmdin samrýmdist ekki lögum. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til lögmanns kæranda, dags. 25. september 2018, var sú afstaða sveitarfélagsins ítrekuð að framkvæmdin væri utan lóðar kæranda og því háð samþykki sveitarfélagsins sem eiganda landsins. Þá væri framkvæmdin utan þess svæðis er sveitarfélagið hefði samþykkt að veggurinn yrði reistur á. Framkvæmdin væri byggingarleyfisskyld þar sem hún felli ekki undir undanþágu f-liðar gr. 2.3.5. í byggingareglugerð, auk þess sem óheimilt væri að breyta landhæð á lóðarmörkum án samþykkis sveitarfélagsins, sbr. e-lið sömu greinar. Frávikin frá samþykkt sveitarfélagsins væru veruleg í því umhverfi sem þarna væri og í raun óafsakanleg þar sem auðvelt væri að mæla út fjarlægðir. Þá var farið yfir gang málsins og með vísan til þess að staðreyndir málsins og sjónarmið aðila lægju fyrir teldi sveitarfélagið ekki þörf á frekari rannsókn þess. Fyrir lægi að umræddar óleyfisframkvæmdir hefðu ekki verið fjarlægðar. Að lokum var kæranda tilkynnt að með vísan til framangreinds, fyrirliggjandi gagna og fyrri samskipta myndi sveitarfélagið, án frekari viðvörunar, fjarlægja umræddan vegg utan lóðarmarka á kostnað kæranda með vísan til 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ákvörðunin hafi verið tekin án þess að málið hafi verið nægjanlega upplýst. Vísað sé til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunin hafi eingöngu verið reist á mælingum sem skipulags- og byggingarfulltrúi hafi framkvæmt að eigin sögn við vettvangsskoðun en engin önnur gögn liggi fyrir um þá skoðun. Þá sé óljóst hver lóðarmörkin séu samkvæmt deiliskipulagi og því ekki fullnægjandi að miða við þau mörk sem sveitarfélagið geri. Einnig hafi ákvörðunin verið tekin án þess að kæranda hafi verið gefin kostur á að tjá sig um efni hennar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Sveitarfélagið hafi ekki aflað gagna um grundvallaratriði málsins og kæranda ekki verið gefin kostur á að vera viðstaddur vettvangsathugunina. Það sé bæði þáttur í andmælarétti og rökstuðningsskyldu stjórnvalda að tekin sé afstaða til þeirra meginathugasemda og málsástæðna sem aðili færi fram. Kærandi hafi ítrekað bent sveitarfélaginu á að nauðsynlegt hafi verið að haga staðsetningu veggjarins með þeim hætti sem hann gerði en ómögulegt hafi verið að hafa vegginn á þeim stað sem sveitarfélagið krefjist. Hafi sveitarfélagið enga rökstudda afstöðu tekið til þessarar grundvallarmálsástæðu kæranda og því ekki uppfyllt skyldur sínar skv. 13., 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Jafnframt hafi rökstuðningurinn sem fylgt hafi ákvörðuninni verið haldinn verulegum annmörkum, en hann hafi ekki uppfyllt efniskröfur 22. gr. stjórnsýslulaga. Ákvörðunin sé reist á 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og í rökstuðningi hafi verið fullyrt að um óleyfisframkvæmd væri að ræða sem hvorki væri í samræmi við deiliskipulag né þau leyfi sem skipulagsyfirvöld hefðu veitt kæranda. Ekki hafi hins vegar verið gerð grein fyrir því að hvaða leyti umræddar framkvæmdir færu í bága við skipulagsáætlanir eða útgefin leyfi. Þannig hafi engin grein verið gerð fyrir því að samkvæmt niðurstöðu vettvangsathugunar skipulags- og byggingarfulltrúa væri veggurinn staðsettur annars vegar 1,7 m austur af húsinu og hins vegar 2,35 m norður af því. Þá hafi ekki verið vísað til þeirra afgreiðslna sveitarfélagsins sem framkvæmdirnar hafi verið taldar í ósamræmi við. Ekki sé fullnægjandi að upplýsingar um grundvallaratriði málsins komi einungis fram í tölvupóstum og fundargerðum sveitarfélagsins, sem ekki hafi fylgt ákvörðuninni. Ekki sé ljóst hvort sveitarfélagið líti svo á að veggurinn í heild sinni sé ólöglega staðsettur eða einungis hluti hans. Þá hafi ákvörðunin ekki verið í samræmi við meðalhófsreglu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Að engu leyti hafi verið gætt þeirrar skyldu sveitarfélagsins að kanna hvort vægari úrræði stæðu til boða m.t.t. fyrirliggjandi hagsmuna. Hafi borið að leggja rökstutt mat á það hvort unnt væri að ná þeim lögmætu markmiðum sem stefnt væri að með öðru og vægara úrræði, s.s. með því að gera breytingar á þykkt eða hæð veggjarins eða breyta honum með öðrum hætti. Engir hagsmunir krefjist þess að gripið sé til svo harkalegra aðgerða sem um ræði, en veggurinn fari að engu leyti inn á svæði í eigu annarra og skerði enga hagsmuni. Einungis sé um að ræða opið hafnarsvæði þar sem nóg sé af plássi og hinir umdeildu sentimetrar skipti engu máli fyrir ásýnd svæðisins, umferð eða annað. Jafnvel þótt litið yrði svo á að framkvæmdin færi út fyrir leyfð mörk sé um minniháttar frávik að ræða og framkvæmdin falli því undir f-lið gr. 2.3.5. í byggingareglugerð nr. 112/2012. Fjarlæging veggjarins vegna minniháttar annmarka sé bersýnilega ekki í samræmi við kröfur um meðalhóf. Jafnframt sé vísað til 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga varðandi hæfi til meðferðar máls. Málsaðili eigi ekki að þurfa að búa við óvissu um hvort þeir starfsmenn og kjörnu fulltrúar sem fari með opinbert vald séu óhlutdrægir í málinu, en kærandi telji sig búa við slíka óvissu. Þá bendi kærandi á að veggurinn sem hinar kærðu ákvarðanir sveitarfélagsins lúti að hafi ekki verið reistur á grundvelli deiliskipulagsins heldur á grundvelli sérstakrar undanþágu frá þeim heimildum sem sveitarfélagið hafi veitt kæranda. Þá megi benda á ýmsar aðrar framkvæmdir í Norðurþingi sem hafi fengið aðra meðferð en viðhöfð sé í máli þessu.

Málsrök Norðurþings:
 Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að kærandi hafi reist vegg utan lóðar í ósamræmi við það sem sveitarfélagið hafi samþykkt og megi sannreyna það með einföldum mælingum. Hin kærða ákvörðun sé byggð á stærð lóðar kæranda samkvæmt hnitasettum lóðaruppdrætti, skýrum afgreiðslum skipulagsyfirvalda um afmörkun framkvæmda, mælingum byggingarfulltrúa á frávikum og ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010. Þá liggi fyrir GPS-mælingar mælingarmanns sveitarfélagsins um staðsetningu veggjarins og séu þær í samræmi við mælingar kæranda sjálfs. Hefði kærandi talið að einhver málefnaleg sjónarmið stæðu til þess að breyta legu veggjarins hefði honum borið að sækja um það áður en hann réðist í framkvæmdir í andstöðu við ítrekaðar samþykktir sveitarfélagsins.

Þegar sett hafi verið fram krafa um stöðvun verksins hafi skýrlega verið kallað eftir sjónarmiðum kæranda varðandi lögmæti framkvæmda og verkstöðvunar og óskað eftir fundi með honum. Byggingarfulltrúi hafi ásamt sveitarstjóra fundað með kæranda 6. september 2018 þar sem staða málsins hafi verið rædd en ekki hafi fundist sameiginlegur flötur á lyktum þess. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa sama dag hafi kæranda því verið gefinn ríflegur tími til að fjarlægja vegginn og honum jafnramt tilkynnt að vænta mætti ákvörðunar um að veggurinn yrði að öðrum kosti fjarlægður af sveitarfélaginu á kostnað hans. Andmæli og sjónarmið kæranda, auk málavaxta, hafi því legið fyrir og viðurkennt hafi verið að veggurinn hafi ekki verið reistur á þeim stað sem sveitarfélagið hefði samþykkt. Krafa um að veggurinn yrði fjarlægður hafi verið áréttuð með bréfi sveitarfélagsins 17. september 2018 og hafi kærandi andmælt því að sveitarfélagið réðist í brottnám veggjarins með bréfi 18. s.m. Því bréfi hafi verið svarað 25. s.m. og kæranda tilkynnt að sveitarfélagið áskildi sér rétt til að fjarlægja framkvæmdirnar án frekari fyrirvara. Kærandi hafi ekki bent á nein atriði sem ekki hafi legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin um að veggurinn skyldi fjarlægður, sem hann hafi ekki getað komið að áður eða hefðu getað haft áhrif á ákvörðunina. Hafi  því verið gætt andmælaréttar kæranda við meðferð málsins.

Því sé mótmælt að verulegir annmarkar hafi verið á ákvörðuninni og að rökstuðningi hennar hafi verið áfátt. Í málinu hafi legið fyrir skýr gögn, þ.m.t. frá kæranda sjálfum, um að framkvæmdin væri ekki á þeim stað sem samþykkt hefði verið. Þá sé því hafnað að ekki hafi verið gætt meðalhófs í málinu. Líta verði til málsins í heild en það eigi sér langa forsögu. Til þess að koma til móts við sjónarmið kæranda og auka athafnarými hans, á kostnað almannarýmis og hagsmuna annarra húseigenda á svæðinu, hafi verið fallist á að leyfa honum að setja upp vegg utan lóðar á svæði sveitarfélagsins. Frávikin frá heimilaðri staðsetningu séu óafsakanleg og veruleg í því umhverfi sem þarna sé, sérstaklega þar sem mjög einfalt sé að setja vegginn nákvæmlega rétt út. Sé því mótmælt að sveitarfélagið hafi brotið gegn meðalhófi með því að gera kæranda að setja vegginn á réttan stað m.t.t. hagsmuna sveitarfélagsins og almennings. Þá hafi kæranda verið gefin kostur á að lagfæra framkvæmdirnar sjálfur en hann hafi kosið að gera það ekki. Ekki sé hægt að setja það fordæmi að með því að brjóta gegn ítrekuðum samþykktum sveitarfélagsins komist aðilar upp með slíka háttsemi á þeim forsendum að þeir hafi lagt í kostnað við ólögmætar framkvæmdir. Vægari úrræði en að færa vegginn á réttan stað séu ekki tæk að mati sveitarfélagsins. Hagsmunir kæranda séu ekki ríkari en sveitarfélagsins, en veggurinn sé staðsettur langt inni á landi þess án heimildar. Staðsetningin þrengi að umferð og gangi á almenningsrými og almannahagsmuni. Einnig felist almannahagsmunir í því að tekið sé með afgerandi hætti á tilvikum sem þessum, þ.e. þegar borgarar fara vísvitandi eða af gáleysi út fyrir þær heimildir sem þeim séu veittar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 6. september 2018 um að hlaðinn steinveggur utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skuli fjarlægður og gengið frá röskuðu landi og lögmæti ákvörðunar hans frá 25. s.m. um fjarlægja skuli nefndan vegg á kostnað lóðarhafa.

Samkvæmt mælingum sveitarfélagsins er ytri brún umrædds veggjar 2,33 m frá norðurhlið hússins að Hafnarstétt 13 og 1,74 m frá austurhlið þess. Kærandi hefur staðfest að innri brún veggjarins sé 2,0 m frá húsvegg norðan megin og 1,4 m frá húsvegg austan megin. Samkvæmt mælingum sveitarfélagsins er veggurinn 0,33 m á þykkt og verður ekki séð að kærandi hafi sérstaklega andmælt þeirri mælingu. Virðist því óumdeilt hversu langt hinn umdeildi veggur er frá húsvegg.

Samkvæmt deiliskipulagi miðhafnarsvæðis Húsavíkur, er tók gildi árið 2017 og tekur til umræddrar lóðar, eru mörk hennar 1,0 m frá norðurhlið hússins og 0-0,5 m frá austurhlið þess. Umdeildur veggur er því alfarið staðsettur utan marka lóðarinnar og allur inni á landi sveitarfélagsins. Hinn 21. nóvember 2017 heimilaði skipulags- og umhverfisnefnd að frágangur á lóðinni mætti ná 2 m í norður frá húsvegg og 1 m til austurs frá stafni hússins. Sú afgreiðsla var staðfest af skipulags- og umhverfisnefnd 13. desember s.á. og í skipulags- og framkvæmdaráði 3. júlí 2018. Því er ljóst að innri brún veggjarins er a.m.k. að hluta til utan samþykktra marka. Ytri brún veggjarins er hins vegar öll utan heimilaðrar staðsetningar. Veggurinn er því hvorki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins né áðurgreinda samþykkt skipulags- og umhverfisnefndar Norðurþings og er því um óleyfisframkvæmd að ræða. Var byggingarfulltrúa því heimilt að ákveða að hið ólöglega mannvirki skyldi fjarlægt og jarðrask afmáð, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, enda ljóst að sveitarfélagið var ekki tilbúið að veita kæranda frekari heimildir til að byggja utan lóðarmarka og inn á land sveitarfélagsins.

Ekki verður séð að rannsókn málsins hafi verið áfátt af hálfu byggingarfulltrúa eða að brotið hafi verið gegn andmælarétti kæranda við meðferð þess, enda var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum, sem og hann gerði. Þá verður heldur ekki fallist á að rökstuðningi fyrir ákvörðuninni hafi verið áfátt eða að ekki hafi verið gætt meðalhófs, þegar höfð er hliðsjón af málsatvikum.

Varðandi mögulegt vanhæfi í máli þessu getur eingöngu hæfi byggingarfulltrúa komið til skoðunar þar sem honum er falið lögum samkvæmt að taka ákvarðanir um beitingu þvingunarúrræða, sbr. 55. gr. laga um mannvirki. Ekki liggur annað fyrir en að ágreiningur aðila snúist um efnisleg álitamál á sviði skipulags- og byggingarmála. Verður ekki séð á sá ágreiningur snerti persónulega hagsmuni byggingarfulltrúa eða náinna vandamanna hans heldur er um að ræða beitingu úrræða til gæslu almannahagsmuna sem eiga sér skýra lagastoð. Þá verður ekki af málsframvindu ráðið neitt það sem renni stoðum undir ályktun um að óvild hafi ráðið för gagnvart kæranda við hinar kærðu ákvarðanir. Eins og rakið er í málavaxtalýsingu voru mikil samskipti milli kæranda og yfirvalda sveitarfélagsins vegna umdeilds veggjar er leiddu til þess að kæranda var heimilað að reisa vegginn að hluta til utan lóðar á landi sveitarfélagsins. Að þessu virtu verður ekki séð að byggingarfulltrúi hafi verið vanhæfur við töku hinna kærðu ákvarðana skv. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Kærandi hefur bent á ýmsar aðrar framkvæmdir í Norðurþingi sem hann telur að hafi fengið aðra meðferð hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum en viðhöfð hafi verið í hans tilviki. Hvað sem þessum leyfisveitingum líður geta þær ekki veitt kæranda rétt til að reisa mannvirki utan lóðar sinnar á landi sveitarfélagsins án þess leyfis, en slíkt leyfi hefur hann ekki fengið.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinna kærðu ákvarðana sem raskað geta gildi þeirra og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Norðurþings frá 6. september 2018 um að óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skuli fjarlægðar og gengið frá röskuðu landi utan lóðarmarka.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Norðurþings frá 25. september 2018 um að fjarlægja skuli óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 á kostnað lóðarhafa.