Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

37/2018 Vörðusund

Árið 2019, fimmtudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður og Ásgeir Magnússon dómstjóri. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2018, kæra á álagningu stöðuleyfisgjalds vegna tveggja vinnuskúra á lóðinni Vörðusundi 5, Grindavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Flagghúsið ehf. álagningu stöðuleyfisgjalds að fjárhæð kr. 51.665 vegna tveggja vinnuskúra á lóð félagsins að Vörðusundi 5, Grindavík. Er þess krafist að álagningin verði felld úr gildi.

Jafnframt er gerð krafa um ógildingu gjaldskrár nr. 161/2011 fyrir byggingarleyfis- og þjónustugjöld í Grindavíkurbæ og endurgreiðslu allra álagðra gjalda samkvæmt henni. Þá er þess krafist að úrskurðarnefndin veiti bæjarritara, bæjargjaldkera og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs áminningu svo og að byggingarfulltrúi Grindavíkurbæjar verði leystur frá störfum án tafar.

Gögn málsins bárust frá Grindavíkurbæ 6. apríl 2018 og í janúar og febrúar 2019.

Málavextir: Kærandi fékk sendan greiðsluseðil með bókunardegi 25. janúar 2018 frá Grindavíkurbæ að fjárhæð kr. 51.665 vegna stöðuleyfisgjalds. Í kjölfarið sendi fyrirsvarsmaður kæranda fyrirspurn til Grindavíkurbæjar, dags. 6. febrúar 2018, og óskaði eftir upplýsingum um þær forsendur sem lægju að baki innheimtu stöðuleyfisgjaldsins auk þess sem hann óskaði eftir skrá yfir þá sem stöðuleyfisgjöld í sveitarfélaginu hefðu verið innheimt hjá. Eftir ítrekanir kæranda svaraði sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs fyrirspurninni hinn 22. febrúar 2018 og upplýsti um að innheimta stöðuleyfisgjalds á lóð Vörðusunds 5 væri vegna lausafjármuna á lóðinni og ætti sér stoð í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Innheimt hefði verið eitt stöðuleyfisgjald þrátt fyrir að tveir stöðuleyfisskyldir lausafjármunir hefðu verið á lóðinni þar sem litið væri svo á að þeir féllu báðir undir sama stöðuleyfið. Í lok bréfsins var tekið fram að ef það yrði mat byggingarfulltrúa að viðkomandi hlutir væru ekki stöðuleyfisskyldir væri sjálfsagt að fella gjaldið niður, en í því tilviki myndi koma til skoðunar hvort viðkomandi lausar byggingar féllu undir að vera byggingarleyfisskyld mannvirki skv. 12. tölul. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 51. tl. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð.

Hinn 26. febrúar 2018 sendi kærandi að nýju fyrirspurn til bæjarins þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um ástæðu mismunandi álagningarfjárhæða stöðuleyfisgjalda milli aðila innan sama árs og dags samkvæmt álagningarskrá stöðuleyfisgjalda. Í svari Grindavíkurbæjar kom fram að ástæðan fyrir því væri að gjöld vegna stöðuleyfa miðuðust við byggingarvísitölu samkvæmt gjaldskrá fyrir byggingar- og þjónustugjöld í Grindavíkurbæ og væri gjaldskráin uppfærð fyrsta dag hvers mánaðar. Í framhaldi af þessu benti kærandi á að samkvæmt 4. gr. gjaldskrárinnar sem birst hefði í B-deild Stjórnartíðinda 22. febrúar 2011 ættu gjöld samkvæmt gjaldskránni að miðast við byggingarvísitölu 1. janúar 2009 og taka breytingum 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingar á vísitölunni. Grindavíkurbær samþykkti þetta og staðfesti að bærinn myndi endurreikna álögð gjöld sem hefðu tilvísun í gjaldskrána og endurgreiða það sem oftekið hefði verið í samræmi við lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Í framhaldi af þessu benti kærandi m.a. á að verðbreytingaviðmið gjaldskrárinnar væri ári áður en lög sem gjaldskráin sækti stoð í hefðu tekið gildi og að enginn byggingarvísitölugrunnur væri til með viðmið 2009. Barst kæra vegna álagningarinnar úrskurðarnefndinni 5. mars. 2018.

Hinn 31. janúar 2019 fór kærandi fram á endurgreiðslu á öllum álögðum stöðuleyfisgjöldum sem gjaldfærð hefðu verið á hann af Grindavíkurbæ. Ástæðan fyrir þeirri beiðni var svar Mannvirkjastofnunar við erindi hans, sem framsent hafði verið til stofnunarinnar, þar sem fram kom að ekki væri að finna heimild í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 til að krefjast umsóknar um stöðuleyfi vegna vinnuskúra og leggja gjald á samkvæmt því. Í greininni væri tæmandi talið hvaða lausafjármunir væru stöðuleyfisskyldir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Áliti Mannvirkjastofnun því að almennt væri ekki heimilt að innheimta stöðuleyfisgjöld vegna vinnuskúra á iðnaðarlóð á grundvelli gr. 2.6.1. í fyrrnefndri byggingarreglugerð. Slíkur vinnuskúr gæti talist mannvirki í skilningi 12. tölul. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki væri hann talinn jarðfastur eða varanlega skeyttur við jörð. Almennt væri því um byggingarleyfisskyld mannvirki að ræða, sem gæti þó verið háð undantekningum skv. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Grindavíkurbær hafnaði endurgreiðslubeiðni kæranda með þeim rökum að álit byggingarfulltrúa hefði ekki breyst um að umræddur lausafjármunur væri stöðuleyfisskyldur. Þá var tekið fram að vinnuskúrar væru einungis heimilir á lóð meðan á byggingarframkvæmdum stæði. Annar skúrinn á lóðinni gæti talist vinnuskúr.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að með álagningu stöðuleyfisgjalds vegna vinnuskúrs á lóð sinni hafi sveitarfélagið brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Í kafla 2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 séu með tæmandi hætti taldir þeir lausafjármunir sem hægt sé að rukka stöðuleyfisgjöld fyrir en kærandi hafi hvorki verið upplýstur um undir hvað vinnuskúr falli af því sem þar sé upptalið né hvor þeirra tveggja vinnuskúra sem séu á lóðinni sé stöðuleyfisskyldur. Í Grindavíkurbæ séu 25 vinnuskúrar víðsvegar um bæinn auk 245 annarra lausafjármuna sem teljist stöðuleyfisskyldir samkvæmt fyrrnefndu ákvæði byggingarreglugerðar. Vinnuskúr á lóð kæranda hafi verið eini vinnuskúrinn sem Grindavíkurbær hafi innheimt stöðuleyfisgjald vegna og að auki hafi einungis verið lögð á 67 stöðuleyfisgjöld árið 2018. Á öðrum lóðum innan sveitarfélagsins hafi einungis verið lagt á eitt stöðuleyfisgjald þrátt fyrir að á þeim lóðum hafi verið fleiri stöðuleyfisgjaldsskyldir lausafjármunir. Að auki megi bæta við að á lóðum embættismanna stjórnsýslu Grindavíkurbæjar séu óskattlögð stakstæð hús.

Ljóst sé af gögnum málsins að Grindavíkurbær hafi í gegnum árin hringlað með skilgreiningu sína á því hver af vinnuskúrunum á iðnaðarlóð kæranda að Vörðusundi 5 sé stöðuleyfisskyldur. Á lóðinni Vörðusund 5 séu nú tveir sérsmíðaðir og færanlegir vinnuskúrar. Hvorki vatn né rafmagn sé tengt þeim þar sem þeir séu geymdir á iðnaðarlóðinni til síðari verkefna. Á mynd af lóðinni frá byggingarfulltrúa frá 23. júlí 2015 séu tveir vinnuskúrar á lóðinni ásamt einum gámi. Samkvæmt álagningarseðli 2015 hafi þá verið lagt á stöðuleyfisgjald fyrir einn gám sem greitt hafi verið og gámurinn í framhaldi af því verið fjarlægður af lóðinni. Árið 2016 hafi hins vegar borist álagningarseðill vegna tveggja gáma á lóð kæranda. Athugasemdum kæranda vegna þessa hafi ekki verið svarað og hafi kærandi greitt stöðuleyfisgjald vegna 2016-2017. Á árinu 2018 hafi síðan verið lagt á vegna vinnuskúranna eitt ótilgreint stöðuleyfisgjald með þeim rökum að þótt um tvo stöðuleyfisskylda hluti væri að ræða væri litið svo á að þeir féllu undir sama stöðuleyfið. Í svari bæjarins við fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. janúar 2019, hafi vinnuskúrarnir á lóðinni síðan verið orðnir að byggingarleyfisskyldu mannvirki og stöðuleyfisskyldum gámi.

Gjaldskrá nr. 161/2011 fyrir byggingarleyfis- og þjónustugjöld í Grindavíkurbæ, sem hið kærða stöðuleyfisgjald byggi á, sæki stoð í 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Lögin hafi tekið gildi eftir gildistöku gjaldskrárinnar og því sé augljóst að ákvæði um heimild bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar til innheimtu byggingarleyfis og þjónustugjalda samkvæmt lögunum hafi ekki verið fyrir hendi á samþykktardegi hennar. Þá sé ljóst að heimildarákvæði gjaldskrárinnar hafi verið bætt inn í eftir að bæjarstjórn samþykkti hana sem veki upp grun um brot sem varðað geti við 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í 51. gr. laga um mannvirki sé kveðið á um að upphæð gjalds í gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa skuli taka mið af kostnaði við þjónustu og vera byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd séu þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldskráin sem samþykkt hafi verið af bæjarstjórn Grindavíkurbæjar í desember 2010 hafi ekki byggt á neinni rekstraráætlun. Fyrsta rekstararáætlun Grindavíkurbæjar hafi ekki litið dagsins ljós fyrr en í mars 2018 þar sem fram hafi komið að upphæð gjalds skyldi taka mið af kostnaði við þjónustu.

Kærandi geri kröfu um að byggingarfulltrúa Grindavíkurbæjar verði sagt upp vegna áðurnefnds ætlaðs hegningarlagabrots og vegna brots hans á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar við álagningu stöðuleyfisgjalda. Bæjarritara Grindavíkurbæjar eigi að áminna vegna óhóflegs dráttar á að svara fyrirspurn sem send var til hans 6. febrúar 2018, fjármálastjóra Grindavíkurbæjar eigi að áminna vegna rangs verðbótaviðmiðs í gjaldskrá fyrir byggingarleyfis- og þjónustugjöld og loks eigi að áminna sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs vegna ámælisverðrar hótunar í svari við fyrirspurn kæranda um hvaða forsendur lægju að baki rukkun um stöðuleyfi fyrir árið 2018.

Málsrök Grindavíkurbæjar: Af hálfu Grindavíkurbæjar er farið fram á að kærunni verði vísað frá í heild sinni þar sem hún uppfylli ekki skilyrði 1. og 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Að auki hafi eins mánaðar kærufrestur verið liðinn þegar kæran hafi verið send til úrskurðarnefndarinnar skv. 2. mgr. 4. gr. laganna. Greiðsluseðill fyrir stöðuleyfisgjaldinu hafi verið sendur kæranda 1. febrúar 2018 og verði því að telja að kæranda hafi frá þeim tíma mátt vera kunnugt um ákvörðunina.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfi á grundvelli fyrrnefndra laga um nefndina en samkvæmt 1. gr. þeirra sé hlutverk hennar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála. Því eigi að vísa frá kröfum kæranda sem varði það að byggingarfulltrúi Grindavíkurbæjar verði leystur frá störfum og að nefndum starfsmönnum bæjarins verði veitt áminning.

Gjaldskrá nr. 161/2011 fyrir byggingarleyfis- og þjónustugjöld í Grindavíkurbæ byggi á gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og hafi stöðuleyfisgjöld innan sveitarfélagsins því haft fullnægjandi lagastoð. Því sé hafnað að jafnræðis hafi ekki verið gætt við álagninguna en óljós tilvísun kæranda til annarra lausafjármuna á öðrum lóðum hafi ekki þýðingu, enda liggi ekki fyrir hvort skilyrði gr. 2.6.1. í fyrrnefndri byggingarreglugerð hafi átt við í þeim tilvikum. Málefnaleg sjónarmið kunni að liggja að baki þeim tölum sem kærandi vísi til í kæru sinni. Samkvæmt fyrrnefndu ákvæði í byggingarreglugerðinni beri aðila að sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda ef tilteknir lausafjármunir eiga að standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna. Sveitarfélagið hafi lagt á eitt stöðuleyfisgjald vegna tveggja vinnuskúra sem hafi verið á lóðinni Vörðusund 5. Gjaldið sé lögmætt enda hafi öll skilyrði fyrir því verið uppfyllt.

Sveitarfélagið mótmæli því að verðbreytingaákvæði 4. gr. fyrrnefndrar gjaldskrár bæjarins nr. 161/2011 sé ólögmætt. Gjaldskráin hafi tekið gildi við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda 22. febrúar 2011. Í framkvæmd hafi gjaldið tekið breytingum mánaðarlega í stað árlega eins og kveðið sé um í gjaldskránni. Hins vegar hafi verið brugðist við þessu, verklag bætt og þeim aðilum verið endurgreitt sem greitt hafi gjaldið miðað við mánaðarlegar breytingar í stað árlegrar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Að mati kæranda uppfyllir kæran öll skilyrði 1. og 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þess sé getið í leiðbeiningum kærumála að eigi kærumál ekki heima í viðkomandi úrskurðarnefnd eigi nefndin að beina henni til réttra aðila. Kæran hafi borist innan tímafrests, en sönnun þess sé að kærandi hafi sent tölvupóst til sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs Grindavíkurbæjar 6. febrúar 2018, sem hafi verið sama dag og greiðsluseðill stöðuleyfisgjalda hafi borist honum. Þrátt fyrir þessar tafir hafi kæra verið send til úrskurðarnefndarinnar 5. mars s.á. eða innan við einum mánuði frá því að greiðslukrafa Grindavíkurbæjar hafi borist kæranda og grunur um brot sveitarfélagsins vaknað.

Gjaldskrá sú sem staðfest hafi verið í bæjarráði 15. desember 2010 sé ekki sú sama og auglýst hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 22. febrúar 2011. Auglýsta gjaldskráin, nr. 161 fyrir byggingarleyfis- og þjónustugjöld í Grindavíkurbæ, sé með breytingum á texta ásamt því að gjaldliðum hafi verið breytt. Því sé gjaldskráin einfaldlega fölsuð og marklaus og álagning samkvæmt henni ómerk að öllu leyti. Þá geti verðskrá sem tekið hafi gildi 22. febrúar 2011 ekki haft verðbótaviðmið frá janúar 2009 og þaðan af síður verðbótagrunn frá 2009 sem ekki sé til sem opinber verðbótagrunnur Hagstofunnar. Vandséð sé hvernig fölsuð útgáfa af gjaldskránni, sem samþykkt hafi verið í bæjarráði 1. desember 2010, hafi heimild í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem gefin hafi verið út tveimur árum síðar.

Fullyrðing um að gámar séu á lóð kæranda sé röng því hvorugur vinnuskúrinn standist neina málasetningu staðlaðs flutningagáms, líkt og hann sé skilgreindur í 36. mgr. gr. 1.2.1. í fyrrnefndri byggingarreglugerð. Grindavíkurbær hafi hafnað beiðni um endurgreiðslu stöðuleyfisgjalda á þeirri forsendu að minni vinnuskúrinn sé stöðuleyfisskyldur lausafjármunur, þrátt fyrir að Mannvirkjastofnun hafi skorið úr um að vinnuskúrar væru ekki stöðuleyfisskyldir.

Grindavíkurbær hafi lagt fram frumrit tveggja misvísandi reikninga, sem hvorugur hafi komið áður fyrir sjónir kæranda. Ekki sé ljóst hvor þessara reikninga eigi að hafa verið sendur kæranda hinn 26. febrúar 2018. Ljóst sé að sveitarfélagið hafi haft frumrit reikninganna undir höndum. Staðfesti það að reikningarnir hafi aldrei verið sendir til kæranda þar sem annars væru þeir ekki til sem frumrit hjá sveitarfélaginu. Þaðan af síður sem tvö misvísandi eintök sama reiknings, sem jafnframt sé ábending um fölsun sönnunargagna.

—–

Frekari rök og sjónarmið kæranda liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Af þessum sökum fellur það utan valdheimilda nefndarinnar að hafa almennt eftirlit með störfum starfsmanna sveitarfélaga, mæla fyrir um uppsögn þeirra eða veita þeim áminningu. Verður þeim kröfum kæranda því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hin kærða gjaldskrá nr. 161/2011 fyrir byggingarleyfis- og þjónustugjöld í Grindavíkurbæ tók gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 22. febrúar 2011. Samkvæmt 4. gr. hennar var hún sett með heimild í 51. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 ásamt 20. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fyrrnefnd lög tóku gildi 1. janúar 2011 og höfðu því tekið gildi þegar gjaldskráin tók gildi. Gerir kærandi kröfu um ógildingu gjaldskrárinnar og endurgreiðslu allra gjalda á hennar grundvelli. Kæruheimild er að finna í 59. gr. mannvirkjalaga þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Gjaldskráin er almenn stjórnvaldsfyrirmæli og beinist að ótilteknum fjölda manna. Hún felur í sér réttarreglur og er því ekki til staðar kæruheimild vegna þessa kæruatriðis.

Hins vegar telst álagning á grundvelli gjaldskrárinnar til stjórnvaldsákvarðana og verður því að skilja kröfu kæranda á þann hátt að kærð sé álagning stöðuleyfisgjalda vegna lóðar kæranda á grundvelli gjaldskrárinnar. Fram kemur í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 að frestur til að kæra ákvörðun til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Hvað varðar álagningu eldri stöðuleyfisgjalda á grundvelli gjaldskrárinnar, áður en til álagningar kom vegna ársins 2018, er ljóst að kærufrestur var löngu liðinn þegar kæra barst 5. mars 2018. Sætir það kæruefni því ekki lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar auk þess sem ekki er á hennar valdsviði að mæla fyrir um endurgreiðslu álagðra gjalda samkvæmt gjaldskránni frá upphafi ásamt dráttarvöxtum. Verður þessum þætti málsins því einnig vísað frá úrskurðarnefndinni.

Fari aðili fram á rökstuðning fyrir ákvörðun hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur honum skv. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 , að því gefnu að beiðni hafi borist innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 3. mgr. 21. gr. laganna. Hið umdeilda stöðuleyfisgjald fyrir árið 2018 var lagt á 25. janúar það ár. Líkt og fram hefur komið sendi kærandi fyrirspurn til Grindavíkurbæjar 6. febrúar 2018 og óskaði eftir frekari upplýsingum um álagninguna og var honum svarað 22. s.m. Að framangreindu virtu barst kæran innan kærufrests hvað varðar þann lið hennar sem snýr að álagningu stöðuleyfisgjalds fyrir árið 2018.

Fjallað er um stöðuleyfi í kafla 2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Um veitingu stöðuleyfis segir í gr. 2.6.1. að ef lausafjármunum sem upptaldir séu í ákvæðinu sé ætlað að standa í lengri tíma en tvo mánuði utan svæða þar sem sérstaklega sé gert ráð fyrir geymslu þeirra skuli sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda. Umsókn um stöðuleyfi á að vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðarmanni viðkomandi hlutar og á henni að fylgja samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað er að lausafjármunirnir standi á. Þá skal í umsókn gera grein fyrir tilgangi og lengd stöðuleyfis og henni eiga að fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausafjármunanna. Í gr. 2.6.2. er fjallað um heimild leyfisveitanda til að fjarlægja lausafjármuni. Skal leyfisveitandi krefja eiganda um að fjarlægja lausafjármun sem er án stöðuleyfis innan eðlilegs frests, þó aldrei lengri frests en eins mánaðar, að öðrum kosti verði það gert á kostnað eiganda.

Samkvæmt því sem fram hefur komið er forsenda þess að eigandi stöðuleyfisskylds lausafjármunar fái útgefið stöðuleyfi að hann sæki um slíkt leyfi til leyfisveitanda og skili inn ákveðnum gögnum. Geri hann það ekki á leyfisveitandi þess kost að krefja eigandann um að fjarlægja hlutinn eða að öðrum kosti getur hann gert það á kostnað hans. Ekkert í málinu bendir hins vegar til að svo hafi verið gert heldur mun stöðuleyfi hafa verið veitt án umsóknar, en fyrir því er ekki heimild í byggingarreglugerð, sbr. það sem áður er rakið. Blasir þá við að sveitarfélaginu var jafnframt óheimilt að krefja kæranda um greiðslu gjalds vegna stöðuleyfis sem hann hafði ekki sótt um. Þegar af þeirri ástæðu verður að telja hina kærðu álagningu stöðuleyfisgjalds vegna ársins 2018 háða slíkum annmörkum að það varði ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning stöðuleyfisgjalds að fjárhæð kr. 51.665 fyrir árið 2018 vegna tveggja vinnuskúra á lóðinni Vörðusundi 5, Grindavíkurbæ.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.