Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

11/2019 Ægisíða

Árið 2019, fimmtudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2019 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu norðan við einbýlishús á lóð nr. 44 við Ægisíðu og breyta innra skipulagi þess.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. febrúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir TD á Íslandi ehf., Starhaga 16, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2019 að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu norðan við einbýlishús á lóð nr. 44 við Ægisíðu og breyta innra skipulagi þess. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar­­­­nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunar­kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. febrúar 2019.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 11. september 2018 var tekin fyrir umsókn eiganda um leyfi til að byggja steinsteypta viðbyggingu norðan við hús og til að breyta innra skipulagi einbýlishúss á lóð nr. 44 við Ægisíðu. Var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa sem ákvað á fundi sínum 14. s.m. að umsóknin skyldi grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum. Athugasemdir bárust á kynningartíma umsóknarinnar, m.a. frá kæranda. Umhverfis- og skipulagsráð afgreiddi hina grenndarkynntu umsókn 12. desember 2018 með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 16. nóvember s.á. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. janúar 2019 var byggingarleyfisumsóknin samþykkt og staðfesti borgarráð­ þá afgreiðslu 17. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi telur uppbyggingu á lóðinni ekki vera í samræmi við sýn upphaflegs hönnuðar eða borgaryfirvalda, skv. teikningum frá 1952, 1955 og 1992. Teikning af svæðinu frá 1955 sýni að gert hafi verið ráð fyrir bílskúr vestan megin við íbúðarhúsið að Ægisíðu 44. Deiliskipulag fyrir Starhaga og Þormóðsstaðaveg geri hins vegar ekki ráð fyrir bílskúr við fyrrgreint hús. Fyrirhuguð viðbygging samræmist ekki byggðamynstri og hafi meiri áhrif á götumynd Starhaga en götumynd Ægisíðu. Viðbyggingin verði í beinni sjónlínu frá gluggum í norðvesturhorni húss kæranda að Starhaga 16, þ.e. bæði frá kjallara og miðhæð hússins. Fyrirhuguð viðbygging muni því draga verulega úr útsýni og upplifun frá rýmunum auk þess sem hún muni þrengja að innkeyrslu að bílskúr að Starhaga 16.

Ekki hafi verið óskað eftir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar vegna uppbyggingar á lóðarmörkum í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 þar að lútandi. Ljóst sé að samþykki beggja lóðarhafa aðliggjandi lóða þurfi fyrir því að reisa girðingu á mörkum lóðanna, sé girðingin 1,8 m að hæð. Óski kærandi eftir að svæðið í heild sinni verði deiliskipulagt eða að lögð verði fram ný teikning þar sem tekið verði tillit til athugasemda hans. Óskað sé m.a. eftir því að nýbyggingin verði höfð í beinni línu við bílskúr kæranda á lóðinni við Starhaga 16.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld fallast ekki á þau rök kæranda að viðbygging við aðalbyggingu á baklóð Ægisíðu 44 sé ekki í samræmi við gamlar teikningar eða áætlanir. Teikningin frá 1955 sýni vissulega bílskúr vestan megin við húsið að Ægisíðu 44 en þar sé húsið á Starhaga 16 einnig sýnt mun minna en það sé nú. Þótt þessi teikning sé til þá sé svæðið ódeiliskipulagt. Rétt sé að deiliskipulagsuppdráttur fyrir Starhaga og Þormóðsstaða­veg sýni engan bílskúr á lóð við Ægisíðu 44, en það deiliskipulag fjalli ekki um lóðirnar norðan við Starhaga eða Ægisíðu 44 og sýni eingöngu það ástand sem þar hafi verið árið 1992.

Byggðamynstur fyrir Starhaga og Ægisíðu einkennist af því að íbúðarhús séu framarlega eða á miðri lóð og bílskúrar í aukahlutverki á baklóð. Engin byggingarlína sé til fyrir hús á baklóðum og teljist staðsetning og stærð heimilaðrar byggingar falla að því byggðamynstri sem einkenni hverfið. Jafnframt sé ekki hægt að fallast á röksemdir um að viðbygging á baklóð Ægisíðu 44 skerði útsýni úr gluggum í kjallara húss við Starhaga 16 eða úr gluggum sem snúi út að baklóð. Ekki séu sannfærandi röksemdir fyrir skertu útsýni þegar hæð frá gólfi í glugga sé 1,8 m auk þess sem bílskúr á lóð Starhaga 16 sé í sjónlínu og skerði útsýni úr gluggum úr kjallara og úr gluggum hússins sem snúi út að baklóð. Íbúar í þéttri byggð geti ávallt vænst þess að einhverjar breytingar verði í nágrenni þeirra sem geti haft áhrif á grenndarhagsmuni þeirra, en réttur til útsýnis sé ekki lögbundinn.

Í lögum eða reglugerðum sé ekki gerður áskilnaður um samþykki eigenda aðlægra lóða þegar byggt sé á lóðarmörkum skv. gr. 7.2.3. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Vísað sé í þessu sambandi til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í kærumáli nr. 58/2011.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir viðbyggingu á baklóð Ægisíðu 44 sem liggja mun að vesturmörkum lóðar kæranda að Starhaga 16, en ekki er í gildi deiliskipulag er tekur til lóðarinnar Ægisíðu 44.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar er kveðið á um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdarfresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og kom kærandi að athugasemdum sínum við grenndarkynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði og hún samþykkt auk þess sem afstaða var tekin til framkominna athugasemda. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingarleyfis­umsóknina á grundvelli ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 17. janúar 2019.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin við Ægisíðu 44 á svæði merktu ÍB-3 Hagar í borgarhluta 01 Vesturbæ. Um svæðið segir að byggð þess sé fastmótuð og hafi svæðið verið fullbyggt um 1970. Byggð sé heilsteypt að stærstum hluta. Samkvæmt aðalskipulaginu má í fastmótaðri byggð gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Í ljósi þessa verður ekki séð að umrætt leyfi fari gegn framangreindum markmiðum aðalskipulags.

Húsið á lóðinni Ægisíðu 44 er 200 m² að stærð samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en á samþykktum aðaluppdráttum er fyrirhuguð viðbygging 73,2 m². Nýtingarhlutfall lóðarinnar eftir stækkun telst því 0,31. Til samanburðar má nefna að nýtingarhlutfall lóðarinnar Ægisíðu 46 er 0,42 og nýtingarhlutfall lóðar kæranda er 0,47. Þá er nýtingarhlutfall samkvæmt deiliskipulagsskilmálum Ægisíðu, sem var samþykkt árið 2005, að jafnaði á bilinu 0,5–0,6 en þar er hámarksnýtingarhlutfall 0,65. Nýtingarhlutfall aðliggjandi lóða er því töluvert hærra en lóðar byggingarleyfishafa. Við götuna Starhaga og Ægisíðu eru bílskúrar staðsettir innarlega á lóð, eða þar sem lóðamörk eru við baklóðir Lynghaga, og hafa þeir því óveruleg áhrif á götumynd. Þá eru dæmi þess á sambærilegum lóðum í nágrenni við lóð byggingarleyfishafa að reist hafi verið bakhús eða viðbyggingar á baklóðum til þess að nýta lóðirnar sem best. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að byggðamynstur eða yfirbragð byggðar breytist við tilkomu viðbyggingar á baklóð byggingarleyfishafa.

Samkvæmt framangreindu liggur ekki annað fyrir en að málsmeðferð byggingarleyfis-umsóknarinnar hafi verið lögum samkvæmt enda hin leyfða byggingarframkvæmd í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Voru því skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga uppfyllt og heimilt að grenndarkynna hina umþrættu umsókn.

Kærandi heldur því fram að með hinu kærða byggingarleyfi sé með ólögmætum hætti gengið gegn grenndarhagsmunum hans vegna útsýnisskerðingar, m.a. frá gluggum í norðvestur horni Starhaga 16, bæði frá kjallara og miðhæð hússins. Þar að auki muni viðbyggingin þrengja að bílskúr kæranda. Samkvæmt fyrirliggjandi uppdráttum mun fyrirhuguð viðbygging að stærstum hluta liggja samsíða bílskúr kæranda sem liggur að lóðarmörkum Ægisíðu 44 og er í ­sjónlínu­­ frá framangreindum rýmum í húsi kæranda. Útsýni er því þegar skert frá húsi kæranda til norðvesturs vegna bílskúrsins en umdeild viðbygging verður í sambærilegri hæð. Verður því ekki séð að heimilaðar breytingar raski grenndarhagsmunum kæranda að nokkru marki vegna skerðingar á útsýni. Þá verður viðbyggingin staðsett inni á lóð leyfishafa og mun hún því ekki þrengja að bílskúr á lóð kæranda. Ekki er fallist á með kæranda að byggingarleyfishafi þurfi að afla samþykkis kæranda fyrir heimilaðri byggingarframkvæmd samkvæmt gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, enda tekur ákvæðið samkvæmt efni sínu einungis til skjólveggja eða girðinga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2019 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu norðan við einbýlishús að Ægisíðu 44 og breyta innra skipulagi þess.