Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

148 og 157/2017 Fylkisvegur

Árið 2019, fimmtudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 148/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 26. október 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi íþróttasvæðis Fylkis að Fylkisvegi 6.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. desember 2017, er barst nefndinni 21. s.m., kæra eigendur, Brekkubæ 40, eigendur, Brekkubæ 38, eigendur, Brekkubæ 34, eigendur, Brekkubæ 32, eigendur, Brekkubæ 31, eigendur, Brekkubæ 33, eigendur, Brekkubæ 35, og eigendur, Brekkubæ 37, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 26. október 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi íþróttasvæðis Fylkis að Fylkisvegi 6.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. desember 2017, er barst nefndinni 28. s.m., kæra eigendur, Deildarási 4, og eigendur, Deildarási 6, fyrrgreinda ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur með vísan til sömu raka og málsgagna sem fram koma í fyrrgreindri kæru. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður greint kærumál, sem er nr. 157/2017, sameinað máli þessu. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. febrúar 2018.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 1. febrúar 2017 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi íþróttasvæðis Fylkis að Fylkisvegi 6. Í breytingunni fólst m.a. að leggja gervigras á keppnisvöll og setja upp fjögur 24,4 m há ljósamöstur við hann. Samþykkti ráðið að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt var samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að upplýsa íbúa í nágrenninu sérstaklega um auglýsinguna. Afgreiðsla skipulagsráðs var samþykkt í borgarráði 9. febrúar 2017 og var tillagan auglýst frá 15. s.m. til og með 29. mars s.á. Bárust sjö athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 18. október 2017 voru nefndar athugasemdir lagðar fram ásamt greinargerð löggilts raflagnahönnuðar frá 28. ágúst s.á. og ódagsettum umgengnisreglum Fylkis á aðalleikvangi. Samþykkti ráðið tillöguna með þeim breytingum og skilyrðum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. október 2017, þar sem lagt var til að reist yrði sérstök hljóðgirðing og að greinargerð löggilts raflagnahönnuðar og umgengnisreglur Fylkis yrðu hluti af skilmálum deiliskipulagsins. Var sú afgreiðsla samþykkt í borgarráði 26. s.m. og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnar­tíðinda 24. nóvember s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar hafi verið verulega ábótavant. Í gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segi að ef „tillaga að deiliskipulagi eða tillaga að breytingu á því tekur til svæðis sem liggur að lóðamörkum, landamörkum eða sveitarfélagamörkum skal haft samráð við eiganda þess lands, lóðarhafa eða viðkomandi sveitarfélag áður en tillagan er samþykkt til auglýsingar. Kostnaður sem hlýst af kynningu í aðliggjandi sveitarfélagi greiðist af því sveitarfélagi sem ber ábyrgð á tillögunni.“ Lóðirnar við Brekkubæ sem liggi að keppnisvelli Fylkis séu eignarlóðir. Í engu hafi verið gætt að þessari samráðsskyldu sem augljóslega sé ekki aðeins að formi til heldur eigi hún að hafa raunhæfa þýðingu fyrir hlutaðeigandi. Eitt og sér feli þetta í sér að auglýsing deiliskipulagstillögunnar hafi verið ólögmæt. Samráðið verði að eiga sér stað áður en slík tillaga sé lögð fram. Í svörum skipulagsfulltrúa frá 13. október 2017 segi að deiliskipulags­tillagan liggi ekki að lóðarmörkum athugasemdaraðila og því eigi gr. 5.2.1. ekki við. Lóðir kærenda, sem séu eignarlóðir, séu u.þ.b. 14 m frá húsvegg að þeim göngustíg sem liggi á milli lóðanna og íþróttavallarins. Samtals séu það u.þ.b. 6 m sem falli undir göngustíginn, þ.e. frá lóðarmörkum kærenda að íþróttavellinum. Það mæli gegn allri skynsemi að komast að þeirri niðurstöðu að deiliskipulagssvæðið liggi ekki að lóðarmörkum athugasemdaraðila. Með ákvæðinu sé beinlínis verið að gæta hagsmuna þeirra lóðareigenda sem liggi að því svæði sem deiliskipulagið snúist um. Það yrði beinlínis í andstöðu við gr. 5.2.1. ef túlkun ákvæðisins ætti að vera með því móti sem komi fram í svörum skipulagsfulltrúa.

Kynningargögn, uppdrættir og forsendur tillögunnar séu ófullnægjandi, byggi á röngum forsendum og standist hvorki skipulagslög né skipulagsreglugerð. Í fyrsta lagi hafi ekki verið getið um það í texta eða skilmálum tillögunnar að hún heimilaði lagningu gervigrass á keppnisvelli, en í því felist viðamikil breyting á mögulegri nýtingu vallarins. Engir fyrirvarar séu gerðir um hámarksnýtingu í tillögunni og deiliskipulagsbreytinginni muni því fylgja verulega aukin umferð og ónæði. Í öðru lagi sé ekki gert ráð fyrir fjölgun bílastæða þrátt fyrir breytingu á nýtingu mannvirkja. Þá séu þær forsendur sem lýst séu í skipulaginu fyrir þeirri ráðstöfun að fjölga ekki bílastæðum beinlínis rangar. Í þriðja lagi sé ekkert fjallað um áhrif lýsingar eða aukinnar nýtingar á nærliggjandi íbúðabyggð. Það sé í andstöðu við ýmis ákvæði gr. 5.3. í skipulagsreglugerð og geri íbúum í nágrenninu mjög erfitt um vik að vita hverju þeir eigi von á. Við samþykkt tillögunnar segi að Fylkir skuli eiga samráð við íbúa um fram­kvæmd og nýtingu vallarins. Fylkir hafi ekki séð sig knúinn til að ræða við íbúa að neinu leyti fram til þessa.

Fyrirhugaður veggur umhverfis Fylkisvöll sé ekki útfærður að nokkru leyti í deiliskipulags­tillögunni. Veggurinn muni hafa veruleg áhrif á nýtingu eigenda við Brekkubæ á lóðum sínum. Í samþykktri tillögu segi um þetta atriði: „Lagt er til að sett verði upp sérstök hljóðgirðing sem afmarkar keppnisvöll gagnvart görðum og húsum íbúa við Brekkubæ 29-39 og 32-44. Útlit, lengd og hæð girðingar skal unnin í góðu samstarfi Fylkis við íbúa. Auk þess er ekki heimilt að vera með auglýsingaskilti á umræddri hljóðgirðingu sem snýr að lóðum og húsum við Brekkubæ.“ Hér sé um algjörlega ófullnægjandi upplýsingar að ræða, en slíkt sé í andstöðu við gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð þar sem kveðið sé á um að í deiliskipulagi skuli tilgreina með nákvæmum hætti hvernig þær byggingar sem leyfðar séu skuli vera að hæð og útliti. Það varði eigendur við Brekkubæ verulega hvernig veggurinn komi til með að líta út, hver hæð hans verði, þykkt og útlit að öðru leyti. Á fundi sem íbúar hafi mætt til með fyrirsvarsmönnum Fylkis í kjölfar þess að tillagan hafi verið kynnt íbúum í upphafi hafi komið fram að fyrirhugað væri að umræddur veggur yrði 4 m á hæð. Það sé gert ráð fyrir því í skipulagreglugerð að allar byggingar séu tilgreindar með nákvæmum hætti í deiliskipulagi en það geti ekki staðist að það verði háð samkomulagi á milli einhverra hvernig byggingin eigi að líta út.

Gildandi deiliskipulag fyrir svæðið sé frá árinu 2010. Í deiliskipulagsákvörðunum fyrir svæðið hafi verið afmarkað til hvaða afnota hver af hinum þremur knattspyrnuvöllum sé. Þar hafi líka ávallt verið tekið fram hvaða völlur sé gervigrasvöllur. Aldrei hafi verið ýjað að því að við þessa velli skyldi koma flóðlýsing, að undanskildum gervigrasvelli sem standi við sundlaug. Í ljósi þess komi það mjög á óvart að nú skuli Fylkir, í samráði við Reykjavíkur­borg, gera ráð fyrir að breyta keppnisvelli sínum í gervigrasvöll með flóðlýsingu. Engar forsendur um nýtingu svæðisins og tilgang nýtingarinnar hafi breyst, hvorki frá 2007 né 2010. Það sé ólíðandi misbeiting á skipulagsvaldi og skortur á yfirsýn og fagleika að breyta skipulagi svo ört. Þessi framkvæmd gangi gegn tilgangi skipulagsáætlana og raski mjög réttaröryggi fasteignaeigenda á svæðinu. Það gangi ekki upp að framkvæmdaraðilum sé heimilt að dulbúa risastórar framkvæmdir og breytingar á nýtingu fasteigna með því að taka fjölda minni skrefa og breyta deiliskipulagi ítrekað með örfárra missera millibili. Í 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að með þeim reglum sem þar komi fram sé tryggt réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Í greinargerð með ákvæðinu segi að með lögunum sé ætlunin að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu svæðis þannig að íbúum sé skapað réttaröryggi um það hverju þeir geti átt von á í þéttbýli. Það sé í andstöðu við markmið laganna að samþykkt sé nýtt deiliskipulag í hvert sinn sem lóðarhafi vilji gera breytingar.

Hvorki af hálfu framkvæmdaraðila né borgarinnar hafi komið fram hvaða þörf fyrirhuguð flóðlýsing sé ætlað að mæta. Skipulag íþróttasvæðisins hljóti að sæta eðlilegum takmörkunum af réttmætum hagsmunum íbúa Brekkubæjar á að nýta hús og garða sína sem hefðu risið áður en uppbygging íþróttamannvirkjanna hófst. Þetta eigi einnig við um hagsmuni þeirra sem hafi keypt hús á svæðinu á síðustu árum. Ekkert í nánast nýjum skipulagsákvörðunum hafi bent til þess að sú tillaga sem nú liggi fyrir væri á döfinni. Ef tilgangurinn sé sá að breyta nýtingu íþróttasvæðisins þá hljóti það að þurfa að koma fram í skipulaginu eða forsendum þess, enda myndi slík breyting ekki hafa minni áhrif en tillaga um ljósamöstur. Ekkert slíkt hafi komið fram. Ekkert hafi staðið því í vegi hingað til að Fylkir keppi í efstu deild í knattspyrnu án flóðlýsingar. Það hljóti að vera lágmarkskrafa að það liggi fyrir röksemdir fyrir svo verulegum breytingum á deiliskipulagi.

Í samþykktri tillögu á deiliskipulagi komi fram að keppnisvelli skuli breytt og gerður að gervigrasvelli. Kærendur telji að ef breyta eigi nýtingu vallarins með svo verulegum hætti þá þarfnist slíkt mikillar umræðu og samráðs við íbúa í Brekkubæ um mótvægi við ónæði, hávaða, umferð, umferðaröryggi, bílastæði og sambærilega þætti. Ekkert mat á þessum þáttum hafi farið fram. Þá verði heldur ekki unað við það ósamræmi sem sé á milli skipulags­tillögunnar sjálfrar sem skilgreini umræddan völl sem keppnisvöll annars vegar og yfirlýsinga Fylkis í fjölmiðlum um aukna nýtingu vallarins hins vegar. Þær yfirlýsingar auk hugmynda um flóðlýsingu bendi til að ætlun félagsins sé að stórauka nýtingu vallarins. Slíkt sé í andstöðu við skipulagstillöguna sem tali um keppnisvöll, fyrri skipulagsákvarðanir og rétt­mæta hagsmuni íbúa í nágrenni vallarins.

Jafnvel þótt Fylkir gæti sýnt fram á einhverja hagsmuni af umræddum breytingum þá séu hagsmunir íbúa í Brekkubæ þeim yfirsterkari. Samkvæmt tillögunni verði sett upp flóðlýsing við lóðamörk kærenda. Um sé að ræða tvö 24,4 m há ljósamöstur sem verði um 6-7 m frá lóðamörkum og um 20-25 m frá stofu- og svefnherbergisgluggum. Möstrin muni gnæfa yfir raðhúsalengjurnar tvær og lýsa beint niður í garða við húsin. Hæð mastranna sé svipuð og fjarlægð þeirra frá húsalengjunum. Þá verði tvö 24,4 m há ljósamöstur einnig sett upp við suðurenda keppnisvallarins en ljós frá þeim muni lýsa beint í átt að raðhúsalengjunum. Skerðing sem af þessu hljótist sé langt um fram það sem íbúar í íbúðahverfi í þéttbýli geti með nokkru móti búist við eða þurft að sættast á, jafnvel þótt þeir búi í nágrenni íþróttamannvirkis. Engar kvaðir séu settar í skipulagstillöguna um nýtingu ljósanna og ekkert í fyrirliggjandi skipulagsáætlunum eða skýringaruppdráttum útskýri hver ljósmengunin verði, hvert hún muni berast eða hver verði áhrif hennar á raðhúsalengjurnar. Slíkt sé óásættanlegt. Skýringarmyndir sem kærendur hafi sjálfir útbúið útskýri alvarleika málsins.

Áhyggjur kærenda lúti ekki einvörðungu að flóðlýsingu heldur einnig að aukinni nýtingu keppnisvallarins. Mikilvægt sé að setja takmörk á nýtingu keppnisvallarins en það hafi ekki verið gert við samþykkt tillögunnar, heldur hafi verið sett inn sú breyting að Fylkir skuli eiga í góðu samstarfi við íbúa um umgengni og reglur um nýtingu vallarins. Reykjavíkurborg komi sér undan því að afgreiða málið með eðlilegu móti og í staðinn varpi ábyrgðinni yfir á Fylki. Slík afgreiðsla geti ekki staðist ákvæði skipulagslaga og reglugerða.

Þegar leikin sé knattspyrna á keppnisvelli Fylkis fylgi því hætta af boltaspyrnum sem berist inn í garða við enda vallarins. Þar séu iðulega börn að leik sem ekki séu að fylgjast með viðkomandi knattspyrnuleik. Það sé hætta fólgin í því fyrir börn og fullorðna að fá sér að óvörum bolta í höfuðið. Þessi áhætta sé ásættanleg þegar jafn fáir leikir og æfingar fari fram á vellinum eins og hafi verið. Við aukna nýtingu vallarins muni þessi áhætta aukast að sama skapi.

Skipulagstillagan geri ráð fyrir breytingu á keppnisvellinum sem gefi möguleika á verulega aukinni nýtingu hans. Ef viðburðum, æfingum, mótum eða sambærilegu fjölgi þá muni það hafa í för með sér verulega aukningu á bílaumferð. Reynslan sýni að svæðið ráði engan veginn við þá bílaumferð sem slíkum viðburðum fylgi. Það væri óforsvaranlegt, ekki síst út frá öryggissjónarmiðum, að auka umferð án tilheyrandi framkvæmda til mótvægis. Nauðsynlegt hefði verið að taka á heildaráhrifum sem geti orðið af svo veigamikilli breytingu á nýtingu svæðisins að öllu leyti.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að breyting á auglýstri tillögu fyrir Fylkissvæðið hafi verið auglýst á grundvelli 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ásamt því að vera auglýst samkvæmt skipulagslögum hafi verið sent bréf til hagsmunaaðila í hverfinu sem sé umfram lagaskyldu. Deiliskipulagstillagan lúti ekki að svæði er liggi að lóðarmörkum athugasemdaraðila og því eigi samráðsskylda skv. skipulagsreglugerð ekki við. Vakin sé þó athygli á að tillagan geri ráð fyrir samráði við íbúa varðandi ýmsa þætti. Málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar hafi því verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Ekki sé talin þörf á að breyta deiliskipulagi sérstaklega ef breyta eigi yfirborði á íþróttasvæði úr venjulegi grasi í gervigras, enda einungis um yfirborðsfrágang að ræða sem ekki sé byggingarleyfisskyldur. Hvað varði „vegginn“ sem um ræði í kæru þá sé um að ræða hljóðgirðingu sem sett hafi verið í deiliskipulag að mætti reisa í samráði við íbúa. Litið sé svo á að samþykki þeirra sé forsenda fyrir girðingunni. Ekkert liggi fyrir um að Fylkir geti einhliða ákveðið hæð eða gerð hennar.

Stjórn Fylkis hafi samþykkt umgengisreglur um notkun á keppnisvelli Fylkis og ákveðin sérákvæði hafi verið sett inn í skilmála deiliskipulagsins, sbr. uppfærðan skipulagsuppdrátt frá 13. október 2017. Í þeim skilmálum komi fram að Fylkir skuli eftir fremsta megni haga skipulagi þannig að ónæði verði lágmarkað eftir kl. 20:00 alla daga. Æfinga- og keppnislýsing í yngri flokkum verði að hámarki 200 lúx en keppnislýsing 300 lúx hjá meistaraflokki félagsins, auk þess sem miðað sé við fulla lýsingu 500 lúx að hámarki þrisvar á ári og þá eingöngu tengt sjónvarpsleikjum og landsleikjum. Eingöngu sé um að ræða notkun flóð­lýsingar frá 15. ágúst til 1. apríl þar sem flóðlýsing verði ekki notuð að sumri til. Enn fremur skuli Fylkir eiga í góðu samstarfi við útfærslur á girðingum, framkvæmdum tengdum flóðlýsingu og umgengisreglum við nágranna svæðisins þannig að allir geti vel við unað, enda eigi framkvæmdirnar ekki að hafa neikvæð grenndaráhrif í för með sér.

Lýsing á vellinum sé í samræmi við greinargerð ráðgjafa sem jafnframt sé hluti af gögnum deiliskipulags og skuli miðað við þá ráðgjöf við útfærslu lýsingar. Helstu forsendur í henni séu þær að grenndaráhrif vegna lýsingar séu talin óveruleg eða engin skv. þeim útreikningum á lýsingu sem liggi fyrir. Um sé að ræða LED flóðlýsingu sem veiti góða afskermingu og sé auðvelt að stýra, auk þess sem minni sjónmengun sé af þeim heldur en hefðbundinni flóðlýsingu. Ekki komi beint fram á skipulagsuppdrætti eða kynningargögnum þörf Fylkis fyrir flóðlýsingu og bætta nýtingu á svæðinu, en hagsmunir félagsins séu þeir að efla starf þess og bæta aðstöðuna í heild til framtíðar þar sem núverandi æfingasvæði anni ekki þörfum félagsins. Iðkendum sé að fjölga og þ.a.l. fjölgi æfingum á svæðinu. Jafnframt standi til að hætta alfarið æfingum á svæðinu við Hraunbæ-Bæjarháls og muni allar æfingar og keppni í fótbolta fara fram innan Fylkissvæðisins. Auðveldi það allt skipulag og utanumhald að hafa alla aðstöðuna á einu svæði.

Heimildir fyrir flóðlýsingu á svæðinu komi fram í aðalskipulagi, en séu nánar útfærðar í deiliskipulagi. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 segi: „ÍÞ. Íþróttasvæði Fylkis. Íþróttasvæði. Gert er ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu og þróun svæðisins til íþrótta- og kappleikja. Íþróttasvæði innan þéttbýlis sem þjóna einu hverfi eða borgarhluta eru merkt með ÍÞ á uppdrætti en eru einnig skilgreind sem opin svæði (OP), sem almennt útivistarsvæði innan þéttbýlis. Á íþróttasvæðum er gert ráð fyrir allri þeirri starfsemi sem tengist íþróttum og íþróttaiðkun þar sem m.a. er gert ráð fyrir aðstöðu og skipulagðri starfsemi íþróttafélaganna í borginni. Íþróttasvæði þjóna einum eða fleiri borgarhlutum. Sundlaugar flokkast almennt undir íþróttastarfsemi en eru einnig heimilar á opnum svæðum (OP). Á íþróttasvæðum má gera ráð fyrir öllum mannvirkjum sem tengjast starfsemi viðkomandi svæðis s.s. flóðlýsingu, gervigrasvöllum, stúkubyggingum og íþróttahöllum, sundlaugum, sundhöllum og líkams­ræktarstöðvum, samkomusölum, félagsaðstöðu o.s.frv. Gera má ráð fyrir veitingaaðstöðu og íþróttavöruverslun á íþróttasvæðum.“

Ekki sé talið að flóðlýsing og lagning gervigrass muni auka bílastæðaþörf og/eða umferð. Umferð muni dreifast betur yfir daginn og fram á kvöld en um sé að ræða að mestu hverfis­tengda starfsemi sem gera megi ráð fyrir að öllu jöfnu sé sótt og nýtt af íbúum í hverfinu og þá sérstaklega börnum og unglingum sem komi gangandi eða hjólandi. Eins og á flestum íþróttasvæðum þegar mót eða stærri viðburðir fari fram þá verði bílastæðaþörf leyst með samnýtingu bílastæða í hverfinu, s.s. við skóla, kirkju og/eða við verslunar- og þjónustukjarna við Rofabæ. Ekki sé heldur fallist á að með breytingunni sé aukin hætta á slysum vegna knattiðkunar.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. nóvember 2017. Mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra frá íbúum Deildaráss 4 og 6 barst úrskurðarnefndinni 28. desember s.á. eða eftir að kærufresti lauk. Verður kæru þeirra því vísað frá úrskurðarnefndinni, enda verður ekki talið að undantekningarákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga eigi við í máli þessu eins og atvikum er háttað. Kæra íbúa við Brekkubæ barst úrskurðarnefndinni hins vegar innan lögmælts kærufrests og verður hún tekin til efnislegrar meðferðar.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til íþróttasvæðis Fylkis að Fylkisvegi 6 og felur m.a. í sér að gert er ráð fyrir gervigrasi á keppnisvelli og að reist verði fjögur 24,4 m há ljósamöstur við hann. Standa hús kærenda við Brekkubæ í um 30 m fjarlægð frá umræddum keppnisvelli.

Samkvæmt 3. mgr. 5.2.1. gr. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skal haft samráð við lóðarhafa ef tillaga að breytingu á deiliskipulagi tekur til svæðis sem liggur að lóðamörkum þeirra áður en tillagan er auglýst til kynningar. Það ákvæði á samkvæmt orðanna hljóðan ekki við í tilfelli kærenda, enda liggur göngu- og hjólreiðastígur á milli hins deiliskipulagða svæðis og lóða þeirra. Bar Reykjavíkurborg því ekki skylda til að hafa sérstakt samráð við kærendur skv. nefndu ákvæði áður en tillagan var samþykkt til auglýsingar. Deiliskipulagstillagan var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og fyrir liggur að kærendur komu að athugasemdum sínum við tillöguna á kynningartíma hennar. Afstaða var tekin til framkominna athugasemda í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga og var tillagan afgreidd í skipulagsnefnd að kynningu lokinni ásamt svörum við athugasemdum er borist höfðu. Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Var málsmeðferð hinnar kærðu skipulags­ákvörðunar því lögum samkvæmt.

Við beitingu skipulagsvalds ber þess að gæta að breytingar á deiliskipulagi rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með breytingunni. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin að Fylkisvegi 6 á skilgreindu íþróttasvæði. Um íþróttasvæði Fylkis segir í aðalskipulaginu að gert sé ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu og þróun svæðisins til íþrótta- og kappleikja. Í kaflanum Landnotkun – skilgreiningar í bindandi hluta aðalskipulagsins er kveðið á um að á íþróttasvæðum megi gera ráð fyrir öllum mannvirkjum sem tengist starfsemi viðkomandi svæðis, s.s. flóðlýsingu og gervigrasvöllum. Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu kemur fram að meðal forsendna uppbyggingar á svæðinu séu óskir um betri almenna aðstöðu fyrir félagsstarf og fjölbreyttari aðstöðu til íþróttaiðkana. Að framangreindu virtu var áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana fullnægt auk þess sem ekki verður annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. sömu laga.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga og gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Sveitarstjórnir eru enn fremur bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum.

Kærendur telja að hagsmunir þeirra muni skerðast vegna ljósmengunar frá flóðljósum, aukinnar nýtingar á keppnisvelli, hættu af boltaspyrnum inn í garða fasteigna þeirra og aukinnar bílaumferðar. Ljóst er að flóðlýsing keppnisvallar með fjögur 24,4 m há möstur í um 30 m fjarlægð frá raðhúsalengjum við Brekkubæ mun hafa í för með sér grenndaráhrif í formi ljósmengunar. Í skilmálum deiliskipulagsbreytingarinnar er að finna samþykktar umgengnisreglur Fylkis þar sem notkun flóðljósanna er takmörkuð og mun sú viðbót hafa komið til í kjölfar athugasemda á kynningartíma tillögunnar. Þá liggur fyrir greinargerð löggilts raflagnahönnuðar þar sem fram kemur að uppstilling og útreikningar á lýsingu miði að því að lágmarka áhrif í nánasta umhverfi vallarins. Breytingar þær sem heimilaðar eru með umdeildri skipulagsbreytingu eru til þess fallnar að auka notagildi keppnisvallarins og verður íþróttaaðstöðu, sem verið hefur við Hraunbæ/Bæjarháls, sinnt á skipulagssvæðinu. Má ætla að umferð aukist eitthvað af þessum sökum en umferð að og frá íþróttasvæðinu fer þó ekki um íbúðargötu kærenda. Verða grenndaráhrif þau sem umdeildum breytingum kann að fylgja ekki talin vera umfram það sem íbúar í nágrenni skipulagðra íþróttasvæða mega vænta af starfsemi sem þar fer fram. Að framangreindu virtu verður ekki talið að umrædd skipulagsbreyting sé slík að réttur kærenda sé fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Rétt þykir þó að benda á að geti þeir sem eiga hagsmuna að gæta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi geta þeir eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Fram kemur í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu að forsendur uppbyggingar á svæðinu séu óskir um betri almenna aðstöðu fyrir félagsstarf og fjölbreyttari aðstöðu til íþróttaiðkana. Þá verði uppfylltar kröfur KSÍ og knattspyrnusambands Evrópu um aðbúnað leikmanna og áhorfenda á leikjum keppnisliða í efstu deild. Með hliðsjón af því verður talið að efnisleg og lögmæt markmið hafi búið að baki hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu auk þess sem tekið var mið af fyrrgreindri stefnu aðalskipulags um frekari uppbyggingu svæðisins.

Samkvæmt gr. 5.3.2.2. í skipulagsreglugerð skal í deiliskipulagi m.a. setja skilmála um frágang við lóðarmörk og girðingar. Í skilmálum hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar, svo sem þeim var breytt í kjölfar athugasemda á kynningartíma tillögunnar, kemur fram að lagt sé til að reist verði sérstök hljóðgirðing sem afmarki keppnisvöll gagnvart görðum og húsum íbúa við Brekkubæ. Útlit, lengd og hæð girðingar skuli unnin í samstarfi Fylkis við íbúa nærliggjandi húsa. Af þessum skilmálum verður ekki ráðið hvert umfang fyrirhugaðrar hljóðgirðingar muni verða. Slík girðing verður hins vegar ekki reist án þess að byggingarleyfi verði veitt, sem eftir atvikum er kæranlegt til úrskurðar­nefndarinnar. Að teknu tilliti til þess, sem og yfirlýsingar borgaryfirvalda í máli þessu um að samþykki íbúa nærliggjandi húsa sé forsenda fyrir girðingunni, þykir þó ekki ástæða til að ógilda heimild skipulagsins fyrir hljóðgirðingunni.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda að Deildarási 4 og 6 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu annarra kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 26. október 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi íþróttasvæðis Fylkis að Fylkisvegi 6.