Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36/2018 Brimslóð

Árið 2019, föstudaginn 5. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2018, kæra á afgreiðslu skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar Blönduósbæjar á umsóknum vegna lóðanna nr. 10a og 10c við Brimslóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur ákvarðanir skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar Blönduósbæjar vegna lóða sinna nr. 10a og 10c við Brimslóð. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að felld verði úr gildi afgreiðsla skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar frá 7. febrúar 2018 á umsóknum kærenda er varða lóðirnar og framkvæmdir á þeim.

Gögn málsins bárust frá Blönduósbæ 10. apríl og 1. júní 2018. Viðbótarupplýsingar bárust frá sveitarfélaginu í mars 2019.

Málsatvik og rök: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Af gögnum málsins verður ráðið að kærendur hafi átt í samskiptum við Blönduósbæ allt frá árinu 2005, ýmist vegna umsókna þeirra um breytta notkun á húsnæðinu við Brimslóð 10a eða hugmynda þeirra um stækkun greindrar lóðar. Í nóvember 2017 tók skipulags-, umhverfis- og umferðarnefnd Blönduósbæjar fyrir ósk kærenda um viðræður um stækkun lóðanna Brimslóðar 10a og 10c og byggingarreita innan þeirra. Í svari nefndarinnar kom fram að vinna við „verndarsvæði í byggð“ stæði yfir og ekki yrðu teknar neinar ákvarðanir um byggingar á svæðinu fyrr en þeirri vinnu væri lokið. Í janúar 2018 tók nefndin á ný fyrir fyrirspurnir kærenda um stækkun lóðanna og byggingarreita innan þeirra og var erindið afgreitt á sömu lund auk þess sem á það var bent að uppfylla þyrfti skipulagslög og fylgja þeim við úrlausn erindisins.

Með bréfum, dags. 1. febrúar 2018, sendu kærendur inn umsóknir um stækkun lóðanna við Brimslóð 10a og 10c, um niðurrif á geymsluhúsnæði á lóðinni við Brimslóð 10c og um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu í stað eldri byggingar á lóðinni. Á fundi skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar 7. febrúar 2018 var bókað að nefndin legðist ekki gegn því að undirbúningi yrði haldið áfram með þeim fyrirvara að endanlegri afgreiðslu yrði frestað þar til afgreiðslu tillögu um verndarsvæði í byggð væri lokið. Þá kom fram að nefndin væri jákvæð fyrir því að taka til skoðunar byggingarhugmyndir og stækkun lóðanna við Brimslóð 10a og 10c en í því sambandi þyrfti að hafa hliðsjón af niðurstöðu vinnu um verndarsvæði í byggð. Sem áður þyrfti að uppfylla skipulagslög og fylgja þeim við úrlausn erindisins.

Kærendur halda því m.a. fram að Blönduósbær hafi torveldað uppbyggingu fyrirtækis þeirra og komið í veg fyrir fyrirhugaðar áætlanir um frekari uppbyggingu þess. Brot sveitarfélagsins felist nánar tiltekið í því að ekki hafi verið staðið við loforð um stækkun lóðar, ekki hafi verið lögð fram tillaga um lóðarmörk af hálfu bæjarins auk þess sem hafnað hafi verið að veita leyfi fyrir stækkun lóða á þeim forsendum að unnið væri að verndarsvæði í byggð. Þá hafi nefndarmenn skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar bæjarins verið vanhæfir við afgreiðslu máls kærenda 7. febrúar 2018.

Sveitarfélagið vísar til þess að samkvæmt 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skuli koma fram hvaða ákvörðun er kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru. Verulega skorti á að það komi fram með skýrum hætti hvers sé krafist, hvaða ákvörðun sé kærð og hvaða rök búi að baki. Ómögulegt sé fyrir sveitarfélagið að svara kærunni með nákvæmum hætti og gerð sé sú krafa að kærunni verði vísað frá. Jafnframt hljóti kærufrestur að vera löngu liðinn í málinu og kæran sé því ekki tæk til meðferðar af þeirri ástæðu. Vert sé að benda á að skipulags-, umhverfis- og umferðarnefnd bæjarins hafi ekki tekið neinar endanlegar ákvarðanir vegna fasteigna kærenda og því sé erfitt að gera sér grein fyrir hvaða ákvarðanir séu til umfjöllunar fyrir úrskurðarnefndinni. Þá mótmæli Blönduósbær meintu vanhæfi nefndarmanna, enda séu tengsl þeirra við málefni varðandi Brimslóð 10 of langsótt til þess að valda vanhæfi þeirra.

—–

Kærendur hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða breyta því nema að fengnu byggingarleyfi sem byggingarfulltrúi veitir skv. 2. mgr. nefndrar 9. gr. laganna. Þá er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélaga í höndum sveitarstjórna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og er samkvæmt 48. gr. laganna óheimilt að breyta landamerkjum og lóðarmörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu sóttu kærendur um stækkun lóðanna við Brimslóð 10a og 10c og um byggingarleyfi fyrir annars vegar nýbyggingu í stað eldri byggingar á lóðinni við Brimslóð 10c og hins vegar til niðurrifs geymsluhúsnæðis á sömu lóð. Voru allar umsóknirnar dagsettar 1. febrúar 2018. Á fundi skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar Blönduósbæjar 7. s.m. voru umsóknir kærenda teknar fyrir. Nefndin bókaði m.a. að erindi kærenda yrðu skoðuð samhliða vinnunni um verndarsvæði í byggð. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá sveitarfélaginu hafa umsóknir kærenda enn ekki verið afgreiddar efnislega til samþykktar eða synjunar. Hefur sveitarfélagið og upplýst að  verndarsvæði í byggð sé enn í vinnslu vegna svæðisins. Sveitarfélagið hafi sent málið til viðeigandi ráðuneytis til staðfestingar en því sé ekki lokið.

Samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga um mannvirki er endanleg ákvörðun um afdrif umsóknar um byggingarleyfi á hendi byggingarfulltrúa. Þá þarf samþykki sveitarstjórnar að koma til ef breyta á lóðarmörkum samkvæmt áður greindu ákvæði skipulagslaga. Afgreiðsla hvorugs þessara aðila liggur fyrir í málinu. Er þannig ljóst að ekki liggur fyrir úrskurðarnefndinni ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þegar svo háttar ber að vísa máli frá skv. fyrirmælum 1. mgr. ákvæðisins.  Í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er þó sérstök heimild til að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til æðra stjórnvalds og ber að beina slíkri kæru til þess stjórnvalds sem stjórnvaldsákvörðun í málinu verður kærð til, en skv. 59. gr. mannvirkjalaga og 52. gr. skipulagslaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Verður að svo komnu máli að líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls skv. fyrrgreindu ákvæði 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þrátt fyrir að enn standi yfir vinna um verndarsvæði í byggð er til þess að líta að rúmt ár er liðið frá kæru og af henni verður ekki annað ráðið en að vilji kærenda standi til að fá úrlausn sinna mála. Þá er óljóst hvenær þeirri vinnu sem vísað hefur verið til lýkur samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað. Að þeim atvikum virtum er það mat úrskurðarnefndarinnar að rétt sé af byggingarfulltrúa og sveitarstjórn að taka umsóknir kærenda til efnislegrar afgreiðslu án frekari dráttar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúann á Blönduósi að taka til efnislegrar afgreiðslu, án ástæðulauss dráttar, umsókn kærenda, dags. 1. febrúar 2018, um byggingarleyfi á lóðinni við Brimslóð 10c, og umsókn kærenda, dags. s.d., um niðurrif á geymsluhúsnæði á sömu lóð.

Lagt er fyrir sveitarstjórn Blönduósbæjar að taka til efnislegrar afgreiðslu, án ástæðulauss dráttar, umsókn kærenda, dags. 1. febrúar 2018, um stækkun lóðanna við Brimslóð 10a og 10c.