Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2010 Úrskurður vegna kæru Marel Food Systems hf., gegn Umhverfisstofnun vegna um skylduaðildar að skilakerfi framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja.

Með

Mál nr. 2/2010.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2010, mánudaginn 14. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2010 Marel Food Systems hf., nú Marel hf., Austurhrauni 9, 210 Garðabæ,  hér eftir nefndur kærandi, gegn Umhverfisstofnun, Suðurlandsbraut 24, Reykjavík, hér eftir nefndur kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 1. febrúar 2010, kærði Árni Sigurjónsson, hdl. f.h. Marel Food Systems hf.únbogason HH hf.   (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Umhverfisstofnunar, (hér eftir nefnd kærði) frá 30. október 2009 um skyldu kæranda til að eiga aðild að skilakerfi framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja í samræmi við 22. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Er aðallega gerð sú krafa af hálfu kæranda að framangreind ákvörðun kærða verði felld úr gildi en til vara að ákvörðunin verði ógild.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 1. febrúar 2010 ásamt fylgiskjölum.

2. Athugasemdir kærða dags. 9. mars 2010 ásamt fylgiskjölum.

3. Athugasemdir kæranda dags. 14. apríl 2010.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd 10. febrúar 2010.  Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

III. Málsatvik

Í desember 2008 sendi kærði fyrirspurn til kæranda þess efnis hvort kærandi flytti inn til landsins eða framleiddi raf- og rafeindatæki sem féllu undir viðauka I. við lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Tilkynnti kærði að ef svo væri þyrfti kærandi að eiga aðild að skilakerfi, sameiginlegu kerfi eða reka eigið skilakerfi a.m.k 15 dögum áður en varan, sem fellur undir I. viðauka laganna, er markaðssett hér á landi. Kærandi svaraði kærða með bréfi þann 13. janúar 2009 á þá leið að starfsemi kæranda félli utan þeirra vara sem væru skráningarskyldar skv. 22. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 og þyrfti því ekki að eiga aðild að eða setja á laggirnar sérstakt skilakerfi. Kærði féllst ekki á þau sjónarmið kæranda og vakti athygli á því með bréfi dags. 12. mars 2009 að kærandi flytti inn vörur sem féllu undir viðauka I. við lög nr. 55/2003 og væri skylt að eiga aðild að skilakerfi skv. 22. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Kærandi svaraði bréfi kærða þann 18. mars 2009 þar sem kærandi upplýsti kærða um að þær vörur sem kærði vísaði til væru íhlutir sem væru undanþegnir skráningarskyldu sbr. vöruflokk nr. 6 í viðauka I. við lög 55/2003. Í framhaldinu funduðu aðilar þar sem m.a. var farið yfir rafeindaframleiðslu kæranda. Kæranda barst svo bréf frá kærða dags. 30. október 2009 þar sem kæranda er tilkynnt sú ákvörðun kærða að honum sé skylt að reka á eigin kostnað skilakerfi eða gerast aðili að sameiginlegu skilakerfi framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja, sbr. 22. gr. laga nr. 55/2003. Kærandi kærði framangreinda ákvörðun kærða til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir með kæru dags. 1. febrúar 2010.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi bendir á, til stuðnings kæru sinni, orðalag 22. gr. laga nr. 55/2003 að þar sé ekki að finna skilgreiningu á þeim vörum sem falla undir viðauka I við lögin, heldur sé aðeins að finna upptalningu á tíu yfirflokkum. Þar er einungis að finna rýra upptalningu á eðli þeirra vara sem falla undir viðaukann við lögin. Viðaukinn telji aðeins upp yfirflokka og erfitt sé að átta sig á því hvaða vörur falli þar undir. Kærandi bendir á að í reglugerð nr. 1104/2008 um raf- og rafeindaúrgang, sbr. tilskipun nr. 2002/96/EB sé að finna mun ítarlegri upptalningu á því hvers konar vörur falli undir viðauka I. við lög 55/2003, sbr. viðauki B við reglugerðina. Kærandi kveður kærða aðallega vísa til flokka nr. 3 og nr. 9 í viðauka I. við lög nr. 55/2003 í samskiptum sínum við kæranda. Kærandi telur að fyrir hendi sé misskilningur af hálfu kærða sem kærandi hefur reynt að leiðrétta, m.a. með því að funda með kærða í apríl 2009. Kærandi leggur mikla áherslu á að umhverfisvernd skipti meginmáli í framleiðslu hans og því megi ekki skilja efni kærunnar á þann veg að kærandi sé að koma sér undan lögbundnum skyldum sínum í þeim efnum. Kærandi telur staðreynd málsins hins vegar vera að hann framleiði föst tæki til iðnaðar sem eru sérstaklega undanþegin skráningarskyldu skv. undantekningarflokki nr. 6 í viðauka I við lög nr. 55/2003. Kærandi bendir jafnframt á að ekki sé að finna skilgreiningu á því í lögum um meðhöndlun úrgangs hvað eru föst tæki til iðnaðar. Kærandi telur eðlilegt að við mat á því hvað séu föst tæki til iðnaðar, sem falla undir undanþáguflokk laganna, sé  tekið tillit til þess að með föstum tækjum til iðnaðar kunni að finnast íhlutir sem falli undir undanþágu laganna annars falli engin framleiðandi undir þá undanþágu sem skýrt er kveðið á um í framangreindri réttarheimild.

Kærandi vísar sérstaklega til þess að félagið framleiði ekki tæki á sviði upplýsingatækni- og fjarskiptabúnaðar sem falla undir flokk nr. 3 í viðauka I. við lög 55/2003. Kærandi fær ekki séð hvernig tiltekin tollskráningarnúmer verða þess valdandi að þau teljist falla undir ákvæði laga nr. 55/2003 um skilakerfi. Kærandi vísar til ákvörðunar kærða þar sem sérstaklega er fjallað um vogir og stillibúnað sem falla undir flokk nr. 9 við viðauka I. við lög nr. 55/2003. Kærandi bendir á að félagið framleiði ekki vogir eða stillibúnað fyrir heimili eða rannsóknarstofur heldur eingöngu í tengslum við tæki til matvælaframleiðslu.

Ógildingarkrafa kæranda er rökstudd á þá leið að hann telur ákvörðun kærða ekki nægilega rökstudda eða upplýsta. Þá hafi kærði ekki tekið tillit til þeirra sjónarmiða og röksemda sem kærandi hefur haft uppi frá upphafi máls þessa. Kærandi telur framangreint andstætt 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi taldi sig hafa upplýst kærða á fundi sem haldinn var þann 1. apríl 2009 með fullnægjandi hætti og taldi málið niður fallið þar sem ekkert hafði heyrst frá kærða í um hálft ár áður en ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 30. október 2009.  Kærandi telur ákvörðun kærða einnig matskennda og því hafi þurft að taka sérstaklega til skoðunar 11. gr. stjórnsýslulaga og ólögfestar meginreglur stjórnsýsluréttarins, að matskenndar ákvarðanir verða að vera byggðar á málefnalegum sjónarmiðum sem beitt er á forsvaranlegan hátt. Á grundvelli framangreinds telur kærandi ákvörðun kærða frá 30. október 2009 vera byggða á misskilningi um eðli þeirra rafeindatækja sem framleidd eru af félaginu. Kærandi framleiðir föst tæki til iðnaðar sem falla undir undanþáguflokk nr. 6 í viðauka I. við lög nr. 55/2003. Því beri að fella ákvörðun kærða úr gildi. Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda krefst kærandi þess til vara að ákvörðun kærða verði ógild þar sem hún sé matskennd, illa upplýst og órökstudd sem sé í andstöðu við ákvæði stjórnsýslulaga.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða vill kærandi ítreka þá skoðun sína að ákvörðun kærða sé andstæð grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins. Ákvörðunin hafi ekki verið skýr að efni til og henni ekki beint að réttum aðila máls. Kærandi telur að ef einhver vafi er fyrir hendi skuli skýra þann vafa málsaðila í hag. Til stuðnings framangreindu vísar kærandi til álits umboðsmanns Alþingis nr. 4315 frá árinu 2005. Kærandi telur ákvörðun kærða ekki nægilega upplýsta áður en hún var tekin og því ekki í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur einnig að kærði hafi ekki gætt að framangreindum meginreglum og ákvæðum stjórnsýslulaga við undirbúning ákvörðunar frá 30. október 2009. Ákvörðuninni hafi verið beint að röngum aðila, þ.e. að Marel hf. en ekki Marel ehf. þrátt fyrir ábendingar um það. Ábyrgð á slíkum mistökum hlýtur að liggja hjá viðkomandi stjórnvaldi fremur en kæranda.

Að lokum telur kærandi það skjóta skökku við að kærði telji kæranda ekki réttan aðila til að kæra ákvörðun kærða á þeim forsendum að henni var ekki beint að kæranda heldur dótturfélagi í eigu kæranda, Marel ehf. sem nú heitir Marel Iceland ehf. Kærandi bendir á að kæran sé í fullu samræmi við þær leiðbeiningar sem kærði gaf kæranda í bréfi sínu til hans þann 30. október 2009. Kærandi telur því frávísunarkröfu kærða afar mótsagnarkennda.

Varðandi ógildingarkröfu kæranda ítrekar kærandi þá skoðun sína að kærði hafi ekki fylgt ákvæði 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða við meðferð málsins. Kærandi bendir á að kærði hafi viðurkennt seinagang málsins í greinargerð sinni til nefndarinnar. Kærandi telur því ljóst að málið hafi ekki verið upplýst nægilega vel og kærði ekki í stakk búinn til að upplýsa málið á fullnægjandi máta áður en ákvörðunin var er tekin. Kærandi telur að vandleg skoðun þurfi að fara fram áður en kæranda er gert skylt að reka eigið skilakerfi. Kærandi getur ekki fallist á þá túlkun kærða að tollanúmer vöru leiði sjálfkrafa til þess að kæranda sé skylt að eiga aðild að skilakerfi. Þá telur kærandi að ákvörðun kærða sé byggð á mati kærða og vísar í því sambandi til orðalags í greinargerð kærða. Kærandi bendir á að meiri kröfur séu gerðar til matskenndra ákvarðana stjórnvalda en lögbundinna athafna þeirra.

Kærandi ítrekar að félagið skilji ekki þá túlkun kærða að fella framleiðslulínu kæranda undir flokk nr. 1 í viðauka I. við lög nr. 55/2003 en ekki undanþáguflokk nr. 6. í viðauka I. við lögin. Kærandi hefur frá upphafi haldið fram þeirri skoðun sinni að það sé einmitt sá flokkur sem framleiðsla þessi tilheyri. Kærandi telur það fjarri að félagið framleiði tæki sem notuð eru til eldunar, heldur er félagið í fararbroddi í framleiðslu margvíslegra stórra tækja fyrir matvælaiðnaðinn. Kærandi vísar í þessu samhengi til greinargerðar kærða en þar segir kærði að íhlutir stórra fastra tækja til iðnaðar þurfi ekki endilega að leiða sjálfkrafa til þess að framleiðandi eða innflytjandi þurfi að gerast aðilar að skilakerfi. Hins vegar segir að sá flokkur sé undanþáguflokkur sem lúti þröngri lögskýringu. Kærandi telur vandséð á hvaða forsendum slík lögskýring fer fram.

Kærandi vísar að öðru leyti til kæru sinnar og framlögð gögn í málinu og ítrekar þær kröfur sem þar koma fram.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði telur aðallega að vísa beri frá kæru kæranda, Marel Food Systems hf., þar sem ákvörðun kærða var ekki beint að Marel Food Systems hf. heldur Marel ehf.

Verði ekki fallist á frávísunarkröfu kærða bendir kærði til nýlegra breytinga á lögum nr. 55/2003. Breytingin hafði í för með sér að aukin ábyrgð var lögð á framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja og á rafeindaúrgangi. Frá og með 1. janúar 2009 bera framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja ábyrgð á þess konar tækjum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn hingað til lands og falla undir viðauka I. í lögum nr. 55/2003. Kærði kveður breytinguna vera tilkomna vegna innleiðingar á tilskipun Evrópuráðsins og Ráðsins nr. 2002/96/EB um raf- og refeindaúrgang og tilskipun Evrópuráðsins nr. 2003/108/EB um breytingar á tilskipun nr. 2002/96/EB. Markmið tilskipunar Evrópuráðsins er að draga úr rafeindaúrgangi, endurnýtingu og endurnotkun á slíkum úrgangi og vinna að aukinni umhverfisvitund þeirra sem koma að vörunni á lífsferli hennar.

Kærði byggir ákvörðun sína á skilgreiningu í 3. gr. laga nr. 55/2003. Þar segir að framleiðandi eða innflytjandi raf- eða rafeindatækis sé sá sem selur raf- og rafeindatæki undir eigin vörumerki, sem endurselur raf- og rafeindatæki undir eigin vörumerki sem aðrir birgjar framleiða, eða flytur raf- og rafeindatæki inn eða út úr landinu í atvinnuskyni. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 55/2003 skal stýrinefnd raf- og rafeindatækjaúrgangs tilkynna til kærða ef nefndin telur framleiðanda eða innflytjanda raf- og rafeindatækis sem fellur undir viðauka I. við lög nr. 55/2003 án þess að vera aðili að skilakerfi skv. 22. gr. sömu laga. Kærði fékk tilkynningu frá stýrinefnd þann 19. desember 2008 þess efnis að kærandi væri ekki aðili að skilakerfi sem lögin gera að skilyrði. Kærði sendi kæranda bréf þann 22. desember 2008 þar sem kæranda var gefinn kostur á því að tjá sig um hvort það framleiddi eða flytti inn raf- og rafeindatæki. Kærði áréttar að bréfið var fyrir mistök stílað á Marel hf. en átti að berast til Marel ehf. Kærandi svaraði bréfi kærða þann 13. janúar 2009 f.h. Marel ehf. þar sem kærandi taldi sig framleiða vörur sem féllu utan við viðauka I. við lög nr. 55/2003.

Við undirbúning ákvörðunar kærða var óskað eftir upplýsingum frá Tollstjóra um innflutning á raf- og rafeindatækjum kæranda hér á landi. Þá skoðaði kærði einnig allan innflutning kæranda árið 2009. Kærði telur að framangreind rannsókn hafi staðreynt að tilkynning stýrinefndarinnar væri á rökum reist og kæranda sé skylt að skrá sig í skilakerfi framleiðanda og innflytjanda skv. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 55/2003. Þá fóru fulltrúar kærða á fund með kæranda í apríl 2009 þar sem framleiðsla kæranda var skoðuð. Kærði áréttar að eftir þann fund var fulltrúum kæranda tilkynnt að kærði myndi halda áfram að kanna málið og taka endanlega ákvörðun í framhaldinu. Kærði vill benda á að ástæða seinkunar við ákvörðunartöku í málinu hafi verið vegna stærðar málaflokksins hjá kærða. Kærði bendir á að til meðferðar hjá kærða á sama tíma og mál kæranda voru um 1500 lögaðilar og aðeins tveir fulltrúar kærða sem sjá um þennan málaflokk. Því hafi ekki verið unnt að taka endanlega ákvörðun fyrr en í október 2009.

Kærði byggir ákvörðun sína einnig á túlkun laganna hver sé innflytjandi eða framleiðandi raf- og rafeindatækja, sbr. 3. gr. laga nr. 55/2003. Kærandi byggir einnig á 1. mgr. 22. gr. laga nr. 55/2003 en þar segir að framleiðandi og innflytjandi raf- og rafeindatækja beri ábyrgð á þeim raf- og rafeindatækjum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn og falla undir viðauka I. við lög nr. 55/2003. Kærði telur að framleiðendur og innflytjendur eigi að uppfylla lagalegar skyldur sínar með því að reka eigin skilakerfi eða eiga aðild að sameiginlegu skilakerfi fleiri framleiðenda og innflytjenda skv. 22. gr. laga nr. 55/2003. Kærði telur að kærandi sé innflytjandi og framleiðandi raf- og rafeindatækja í skilningi 3. gr. laga nr. 55/2003 og að kærandi flytji inn raf- og rafeindatæki til landsins í atvinnuskyni og falli þar af leiðandi undir lið iii. í 3. gr. laganna. Því beri kæranda að eiga aðild að skilakerfi innflytjanda og framleiðanda raf- og rafeindatækja, sbr. 22. gr. laga nr. 55/2003.

Kærði bendir á að samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóra hefur kærandi flutt inn til landsins frá 1. janúar 2009 til 30. september 2009 alls 29.024 kg. af vörum á 68 tollskrám. Í ákvörðun kærða frá 30. október 2009 hafi verið í dæmaskyni nefndir af handahófi hitastillar sem falla undir vöruflokk nr. 9 í viðauka I. við lög nr. 55/2003 að mati kærða. Kærði bendir á að ekki sé að finna í lögum nr. 55/2003 eða reglugerð nr. 1104/2008 ákveðið lágmark sem verði til þess að skylda skv. 22. gr. laga nr. 55/2003  stofnist. Kærði telur nóg að kærandi hafi flutt inn vörur sem falla undir viðauka I. við lögin. Það verði til þess að kæranda sé skylt að gerast aðili að skilakerfi skv. 22. gr. laganna. Þá bendir kærði á að kærandi hafi flutt inn fleiri vörur en nefnda hitastilla sem falli undir viðauka I. við lögin. Kærði telur því ljóst að kærandi hafi flutt inn vörur sem falli undir viðauka I. og þurfi annað hvort að reka eigið skilakerfi eða gerast aðili að sameiginlegu skilakerfi skv. 22. gr. laga nr. 55/2003.

Hvað varðar þann lið í stjórnsýslukæru kæranda að vörur sem kærandi flytur inn falli í sérstakan undanþáguflokk í flokki nr. 6 í viðauka I. við lög nr. 55/2003 vill kærði benda á að flokkur nr. 6 í viðauka I. við lög 55/2003 undanskilur stór föst tæki til iðnaðar. Kærði telur ekki unnt að fallast á túlkun kæranda og fella alla vörulínu kæranda undir flokk nr. 6 í  viðauka I. við lögin. Um sé að ræða undanþágu laganna sem beri að túlka þröngt.   Kærði bendir á að kærandi hafi flutt inn raf- og rafeindatæki til landsins í atvinnuskyni og þar af leiðandi eigi hann að eiga aðild að skilakerfi skv. 22. gr. laga nr. 55/2003 en hvorki í lögum nr. 55/2003 eða reglugerð nr. 1104/2008 er gert ráð fyrir undantekningu frá þeirri skyldu eftir að vörurnar hafa verið tollafgreiddar. Kærði bendir á að skilgreining á hugtakinu raf- og rafeindabúnaður skv. 3. gr. laga nr. 55/2003 er búnaður sem þarf rafstraum eða rafsegulsvið til að geta starfað á réttan hátt og búnaður til að framleiða, flytja og mæla slíkan rafstraum og rafsegulsvið. Af þessu megi ráða að það sé ekki einungis eiginlegur rafeindabúnaður raf- og rafeindatækis sem falli undir I. viðauka laganna heldur einnig allir íhlutir þess undireiningar og aukahlutir sem eru hluti af raf- og rafeindatækinu. Kærði bendir jafnframt á að í greinargerð með lögum nr. 73/2008 um breytingu á lögum nr. 55/2003 segi: „Raf- og rafeindatækjaúrgangur er skilgreindur sem úrgangur, þ.m.t. allir íhlutir, undireiningar og aukahlutir sem eru hluti af vörunni þegar henni er fleygt. Mikilvægt er að allir þeir hlutar raf- og rafeindatækja sem eru hluti af vörunni þegar hún er seld falli undir að vera raf- og rafeindatækjaúrgangur þegar varan er orðin að úrgangi.“ Framangreind skilgreining er studd við skilgreiningu tilskipunar Evrópuþingsins og Ráðsins í tilskipun nr. 75/442/EEC. Kærði telur að með vísan til þess að innflutningur á raf- og rafeindaúrgangi leiði af sér skyldu til að gerast aðili að skilakerfi enda hafi tilgangurinn með lagasetningunni verið sá að tryggja að allir hlutar raf- og rafeindatækjabúnaðar falli undir ábyrgð framleiðanda og innflytjenda í 22. gr. laga nr. 55/2003.

Varðandi ógildingarhluta í kæru kæranda vill kærði benda á að fulltrúar kærða bentu fulltrúum kæranda á það á fundi aðilanna í apríl 2009 að innflutningur á íhlutum raf- og rafeindatækja leiði til þess að innflytjandinn verði að gerast aðili að skilakerfi skv. 22. gr. laga nr. 55/2003. Kærði hafi ætlað að kanna málið betur og taka ákvörðun í framhaldinu. Sú könnun hafi leitt í ljós skylduaðild kæranda að skilakerfi. Sú ákvörðun hafi verið tekin þann 30. október 2009. Kærði hafnar því að hann hafi ekki tekið tillit til skýringar kæranda heldur hafi þvert á móti kannað það sem kom fram á fundinum og aflað frekari upplýsinga. Kærði telur einnig að stofnunin hafi fylgt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem upplýsinga hafi verið aflað áður en ákvörðun var tekin í málinu m.a. um innflutning kæranda og gagna aflað frá Tollstjóra. Þá síðast telur kærði ekki unnt að fallast á þá fullyrðingu kæranda að kærandi hafi mátt ætla að málið væri niður fallið. Kærði bendir á að skýrt hafi verið áréttað eftir fund milli aðila 1. apríl 2009 að fulltrúar kærða myndu kanna frekar innflutning kæranda og taka í kjölfarið málið til skoðunar og taka ákvörðun. Kærði bendir jafnframt á að kærandi hafi getað óskað eftir frekari rökstuðningi skv. 21. gr. stjórnsýslulaga en kærða hafi ekki borist þess konar beiðni frá kæranda heldur tilkynning um að ákvörðunin yrði kærð til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Síðast áréttar kærði að kærandi sé ekki réttur aðili til að kæra ákvörðun kærða frá 30. október 2009. Ákvörðuninni hafi ekki verið beint að Marel Food Systems hf. heldur Marel ehf. og beri því að vísa kærunni frá.

Verði ekki fallist á þá kröfu kærða krefst hann þess að ákvörðunin frá 30. október 2009 verði staðfest og að hún hafi verið í fullu samræmi við lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs sem og stjórnsýslulög nr. 37/1993.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Kæruheimild vegna málsins er að finna í 39. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 31. gr. laga nr. 7/1998 segir að ágreiningur er varðar framkvæmd laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim eða um ákvarðanir yfirvalda er heimilt að vísa til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Fyrst ber að fjalla um frávísunarkröfu kærða. Krafan er byggð á þeim forsendum að kærandi sé ekki réttur aðili til að kæra ákvörðun kærða þar sem henni hafi ekki verið beint að kæranda heldur dótturfélagi í eigu þess, Marel ehf. Kærði hafi fyrir mistök beint ákvörðun sinni að kæranda. Hugtakið aðili er skýrt rúmt innan stjórnsýsluréttarins og er nóg að aðili eigi óbeina hagsmuni af úrlausn máls svo hann teljist aðili þess. Mistök kærða að beina ákvörðun sinni að kæranda en ekki dótturfélagi í eigu þess veldur ekki frávísun málsins. Ljóst er að kærandi hefur hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og er einnig bær til að koma fram fyrir hönd Marel ehf. sem er að fullu í eigu kæranda. Þar að auki er tilgangur kæranda, samkvæmt stofnsamþykkt félagsins, sem og dótturfélagsins Marel ehf., að framleiða, kaupa og selja rafeindatæki. Ákvörðun kærða snertir því hagsmuni kæranda og hefur félagið því beinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Með vísan til alls þessa er það mat nefndarinnar að hafna frávísunarkröfu kærða.

Mál þetta varðar ágreining um hvort kæranda sé skylt að reka eigið skilakerfi eða eiga aðild að sameiginlegu skilakerfi í samræmi við 22. gr. laga nr. 55/2003 og hvort íhlutir sem kærandi framleiðir og flytur inn til landsins falli undir undanþáguflokk nr. 6 í viðauka I. við lög nr. 55/2003 og þurfi kærandi því ekki að eiga aðild að skilakerfi.

Markmið laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og mengi ekki vatn, jarðveg né andrúmsloft, svo og að draga úr hættu sem förgun úrgangs getur haft á heilsu manna og dýra. Í 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á því hver er framleiðandi og innflytjandi í skilningi laganna. Þar segir að framleiðandi og/eða innflytjandi sé sá er framleiðir og selur raf- og rafeindatæki undir eigin vörumerki eða flytur raf- og rafeindatæki inn eða út úr landinu í atvinnuskyni. Í sama lagaákvæði er hugtakið raf- og rafeindatæki skilgreint sem búnaður sem þarf rafstraum eða rafsegulsvið til að geta starfað á réttan hátt og búnaður til að framleiða, flytja og mæla slíkan rafstraum og rafsegulsvið þeirra vara sem falla undir viðauka I. við lög nr. 55/2003. Raf- og rafeindatækjaúrgangur er einnig skilgreindur í 3. gr. lagana á þann hátt að um sé að ræða raf- og rafeindatæki sem er úrgangur þ.m.t. allir íhlutir, undireiningar og aukahlutir sem eru hluti af búnaðinum. Með lögum nr. 73/2008 var nýjum kafla bætt við lög nr. 50/2003. Þar er kveðið á um raf- og rafeindatækjaúrgang og í 22. gr. laganna er kveðið á um ábyrgð framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja á rafeindatækjaúrgangi, sbr. 2. gr. laga nr. 73/2008. Ábyrgðin sem 22. gr. laga nr. 55/2003 kveður á um er sú að framleiðendum og innflytjendum raf- og rafeindatækja er gert skylt að fjármagna og tryggja meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs þeirra vara sem falla undir viðauka I. við lögin. Skyldan sem lögin kveða á um er skylduaðild að sameiginlegu skilakerfi eða fjármögnun eigin skilakerfis. Framleiðendum og innflytjendum raf- og rafeindatækja er gert skylt að skrá sig í skráningarkerfi samkvæmt 27. gr. laga nr. 55/2003, sbr. 2. gr. laga nr. 72/2008, a.m.k. 15 dögum áður en vara sem fellur undir viðauka I. við lög nr. 55/2003 er markaðssett hér á landi.

Í viðauka I. við lög nr. 55/2003, sbr. viðauki A og B við reglugerð nr. 1104/2008, eru listaðir upp vöruflokkar sem skylda framleiðanda eða innflytjanda til að reka eigið skilakerfi eða eiga aðild að sameiginlegu skilakerfi. Meðal þeirra vara sem eru listaðar upp í flokki nr. 6 í viðauka I. við lög 55/2003 eru raf- og rafeindatæki en flokkur nr. 6 undanskilur stór föst tæki til iðnaðar. Undanþágan undanskilur ekki frekari tæki eða aukahluti eða íhluti fastra tækja til iðnaðar. Hvorki lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, viðauki I. við lögin eða reglugerð nr. 1104/2008 um raf- og rafeindatækjaúrgang undanskilja íhluti fastra tækja skylduaðild að skilakerfi. Þvert á móti er skýrt kveðið á um að framleiðendum og innflytjendum raf- og rafeindatækja er gert skylt að eiga aðild að skilakerfi. Tilgangurinn með lagasetningunni var að fella raf- og rafeindatæki undir lögin og þar af leiðandi tryggja að framleiðendur og innflytjendur ættu aðild að skilakerfi. Verður því að telja íhluti og aukahluti fastra tækja til iðnaðar sem raf- og rafeindatæki og fella þau tæki utan við undanþáguflokk nr. 6 í viðauka I. við lög nr. 55/2003.

Í 1. mgr. 28. gr. laga um meðhöndlun úrgangs er skýrlega kveðið á um það að kærði skeri úr um hvaða raf- og rafeindatæki falli undir lögin. Í sama lagaákvæði segir ennfremur að kærði hafi heimild til að taka ákvörðun um hvort leggja skuli fyrir viðkomandi framleiðanda eða innflytjanda að skrá sig í skilakerfi í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs. Verður af framangreindu ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að ákvörðun kærða hafi grundvallast af mati sem valda eigi ógildingu ákvörðunarinnar þar sem lögin fela kærða það vald að skera úr um hvaða vörur falli undir viðauka I. við lög nr. 55/2003.

Af öllu framangreindu er það niðurstaða nefndarinnar að framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja beri lagalega skyldu til að reka eigið skilakerfi eða eiga aðild að sameiginlegu skilakerfi framleiðenda eða innflytjenda raf- og rafeindatækja. Lögin kveða aðeins á um eina undantekningu frá framangreindri skyldu, ef um er að ræða stór föst tæki til iðnaðar. Hvorki lög um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 eða reglugerð nr. 1104/2008 kveða á um að íhlutir eða aukahlutir stórra fastra tækja til iðnaðar séu undanþegnir skyldu laganna og falli í sama undanþáguflokk og stór tæki til iðnaðar. Ekki verður fallist á þá túlkun kæranda að svo sé, þar sem undantekningarflokkur laganna nær aðeins yfir stór föst tæki til iðnaðar en ekki aukahluti eða íhluti. Því falla aukahlutir og íhlutir raf- og rafeindatækja undir viðauka I. við lög nr. 55/2003 og kæranda er skylt að eiga aðild að skilakerfi í samræmi við 22. gr. laga nr. 55/2003.

Hvað varðar ógildingarkröfu kæranda verður ekki fallist á að ákvörðunin frá 30. október 2009 hafi verið haldin svo miklum annmörkum að það valdi ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Ekki er fallist á frávísunarkröfu kærða. Aðal- og varakröfu kæranda er hafnað. Ákvörðun kærða frá 30. október 2009 um skyldu kæranda til að eiga aðild að skilakerfi samkvæmt 22. gr. laga nr. 55/2003 er staðfest.

Date: 6/22/10

1/2010 Úrskurður vegna kæru Friðbjarnar Ó. Valtýssonar gegn Heilbrigðisnefnd Suðurlands vegna starfsleyfis til handa Höllinni í Vestmannaeyjum.

Með

Mál nr. 1/2010.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2010, mánudaginn 13. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2010, upphaflega nr. 3/2009, Friðbjörn Ó. Valtýsson, Smáragötu 2, Vestmannaeyjum, hér eftir nefndur kærandi, gegn Heilbrigðisnefnd Suðurlands, Austurvegi 56, 800 Selfoss, hér eftir nefndur kærði. Uppkvaðning úrskurðar á endurupptöku málsins hefur tafist vegna anna nefndarmanna.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 23 febrúar 2009, kærði Friðbjörn Ó. Valtýsson únbogason HH hf.   (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands, (hér eftir nefnd kærði) frá 25. nóvember 2008 um útgáfu starfsleyfis til handa Höllinni í Vestmannaeyjum.

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að starfsleyfið verði fellt úr gildi og nýtt stafsleyfi verði ekki veitt fyrr en tryggt er að starfsemin standist skilyrði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 23. febrúar 2009 ásamt fylgiskjölum.

2. Athugasemdir kærða dags. 20. apríl  2009.

3. Bréf Umhverfisráðuneytis dags. 2. júlí 2009.

4. Bókun kærða dags. 31. ágúst 2009.

5. Greinargerð kærða dags. 4. febrúar 2010.

6. Andmæli kæranda dags. 18. febrúar 2010.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Stjórnsýslukæra barst þann 27. mars 2009. Kveðinn var upp úrskurður í málinu þann 11. júní 2009 þar sem kæru kæranda var vísað frá. Tilmæli bárust frá Umhverfisráðuneyti um endurupptöku málsins þann 2. júlí 2009 og féllst úrskurðarnefndin á endurupptöku málsins. Greinargerð kærða barst þann 4. febrúar 2010 og andmæli kæranda þann 18. febrúar s.á. Kæruheimild er í 4. gr. a, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

III. Málsatvik

Þann 20. nóvember 2008 var skemmtistaðnum Höllinni í Vestmannaeyjum veitt starfsleyfi. Í því er staðurinn skilgreindur sem krá og kaffihús. Kærandi kvartaði undan ákvörðun kærða um að veita Höllinni framangreint starfsleyfi með tölvupósti þann 30. nóvember 2008 og óskaði eftir frekari upplýsingum sem lágu til grundvallar ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar. Kærði svaraði þeirri fyrirspurn kæranda með tölvupósti þann 1. desember 2008. Kærandi telur hávaða frá skemmtistaðnum óeðlilega mikinn og kveðst hafa kvartað mikið undan hávaða og ónæði sem má rekja til skemmtistaðarins.

Með stjórnsýslukæru dags. 23. febrúar 2009 kærði kærandi framangreinda ákvörðun kærða um veitingu starfsleyfis til handa Höllinni í Vestmannaeyjum til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kæruheimild er í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Kærða var með bréfi dags. 27. mars 2009 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 20. maí 2009. Úrskurður var kveðinn upp 11. júní s.á. Málið var endurupptekið í júlí og barst greinargerð kærða 4. febrúar 2010 og andmæli kæranda 19. febrúar sama ár.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi er íbúi í efsta hverfi Vestmannaeyja sem er staðsett upp undir Helgafelli. Kærandi kveður mikinn hávaða stafa frá skemmtanahaldi í Höllinni og telur óásættanlegt að skemmtanaleyfi sé veitt til skemmtistaðar sem staðsettur er inni í friðsælu íbúahverfi, en húsveggur Hallarinnar er í um 45 m. fjarlægð frá íbúðarhúsnæði kæranda.

Kærandi telur sig hafa orðið fyrir miklu ónæði vegna skemmtistaðarins og kveður rafmagnaða rokktónlist sem spiluð sé á staðnum verulega mikla og valdi áberandi miklu ónæði. Þá telur kærandi húsnæðið sem skemmtistaðurinn Höllin er til húsa í vera mjög óvandað, sérstaklega sem skemmtistaður, og bendir á niðurstöðu mælinga sem framkvæmdar voru árið 2002 af Steindóri Guðmundssyni verkfræðingi. Niðurstöðurnar voru á þá leið að hávaði frá starfseminni væru yfir viðmiðunarmörkum reglugerðar um hávaða og að nauðsynlegar úrbætur yrðu að fara fram á húsnæðinu til að koma í veg fyrir hljóðmengun.

Kærandi telur hávaða frá starfsemi Hallarinnar vera langt umfram það sem telst vera ásættanlegt fyrir íbúa innan íbúahverfis. Kærandi mótmælir harðlega þeim svörum sem borist hafa frá kærða varðandi það að ónæði frá starfseminni valdi ekki ónæði umfram það sem þegar er fyrir í umhverfinu.

Kærandi kærði útgáfu starfsleyfis til handa Höllinni frá 20. nóvember 2008 og krefst þess að starfsleyfið verði fellt úr gildi. Kærandi krefst þess að ekki verði gefið út nýtt stafsleyfi fyrr en tryggt er að starfsemi skemmtistaðarins Hallarinnar uppfylli ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða.

Við endurupptöku málsins bárust andmæli frá kæranda dags. 18. febrúar 2010. Þar kveður kærandi enga aðra truflun vera fyrir hendi en starfsemi skemmtistaðarins. Kærandi bendir á að hann búi í sveit og að engin utanaðkomandi hávaðamengun sé fyrir hendi. Kærandi kveður mikið ónæði vera á kvöldin og um helgar þegar dansleikir eru í Höllinni en hávaði sé einnig vegna umferðar bifreiða og gangandi vegfaranda vegna dansleikjanna.

Kærandi bendir á að hávaðamengun sé skaðleg fyrir þá sem fyrir henni verða. Kærandi telur með öllu óskiljanlegt af hverju reglugerð um hávaða sé túlkuð starfsleyfishafa í hag en ekki í hag nærliggjandi íbúum.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði telur sig hafa uppfyllt rannsóknarskyldur sínar samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er varðar mælingar á hávaða frá starfseminni áður en starfsleyfi var veitt. Kærði studdi mælingar sínar við norræna staðla sem Umhverfisstofnun samþykkti að yrðu notaðir við mælingar á hávaða.

Kærði bendir á að mælingar á bakgrunnsgildum sýndu fram á að þau fara niður fyrir 40 dB seint á kvöldin og á nóttunni en fara yfir 70 dB þegar bifreið keyrir framhjá. Niðurstöður mælinga sem kærði hefur látið framkvæma sýna að átta mælingar af 13 eru undir viðmiðunarmörkum reglugerðar um hávaða, en þá sé bakgrunnsgildið einnig yfir viðmiðunarmörkum. Kærði telur  miðað við þær mælingar á hávaða frá skemmtistaðnum að þá hafi hávaði frá honum minnkað.

Kærði taldi ekki réttlætanlegt að synja skemmtistaðnum um endurnýjun á starfsleyfi á þeim forsendum að fimm mælingar af 13 fóru yfir 40 dB í ljósi þess að hávaði frá umhverfinu mælist á sama tíma vera yfir viðmiðunarmörkum, óháð atburðum sem fóru fram í Höllinni.

Kærði bendir á að ný skilyrði hafi verið sett í samræmd starfsleyfi fyrir þess konar starfsemi sem eiga að koma í veg fyrir hávaða. Skilyrðin kveða á um sérstakan hljóðvaka sem verður að vera til staðar innanhúss. Hljóðvakinn slær út tónlist ef hávaði fer yfir 95 dB sem er skilgreint hámark á hávaða sem má stafa frá skemmtistað samkvæmt ákvæðum reglugerðar um hávaða. Kærði bendir á að starfsleyfishafi hafi einnig sett sér verklagsreglur til að koma í veg fyrir hávaða.  Kærði telur hvorki sanngjarnt né eðlilegt að synja um útgáfu á starfsleyfi á þeim forsendum að starfsleyfishafi eigi að tryggja lágmarkshljóðstig í nálægri íbúðarbyggð, þegar ljóst er að umhverfishljóð fara auðveldlega yfir þau viðmiðunarmörk. Kærði telur að starfsleyfishafi geti ekki einn borið ábyrgð á því að lækka hávaða sem fyrir hendi er í umhverfinu.

Kærði kveður hávaðamengun frá starfsemi Hallarinnar vera líklega til að vera innan viðmiðunarmarka í íbúðabyggð samkvæmt niðurstöðu þeirra mælinga sem hafa verið  framkvæmdar.

Kærði telur ástand hússins ekki eiga undir verksvið kærða heldur eigi ástand hússins undir byggingarfulltrúa og byggingarreglugerð og ber að vísa kröfum um einangrun húsnæðisins til þess embættis. Kærði telur nálgun sína aðeins varða hávaða sem stafar frá starfsleyfishafa en ekki húsbyggingunni. Kærði bendir hins vegar á að margvíslegar úrbætur hafi verið gerðar á húsnæðinu frá því 2002 til að koma í veg fyrir hávaðamengun.

Kærði bendir á að „ríkjandi tónn“ sé ekki skilgreindur í hávaðareglugerð nr. 724/2008 né öðrum íslenskum reglugerðum. Leitaði kærði til annarra heilbrigðisnefnda um túlkun á framangreindu orðalagi. Í svörum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafi „ríkjandi tón- eða högghljóð“ verið skilgreint sem hljóð frá vélbúnaði eins og hávaði frá kælipressum og loftræstingu. Var það niðurstaða kærða að bæta ekki 5dB við mæligildið eins og um ríkjandi tón væri að ræða, en samkvæmt svörum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur er það aðeins gert í algerum undantekningartilvikum. Dæmi um slíkt er stöðugur trommusláttur við afró-danskennslu í Kramhúsinu. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur bendir á að venjulegur tónlistarflutningur innihaldi sjaldnast ríkjandi tón- eða högghljóð.

Kærði bendir á að útreikningar á hávaða verði að vera þeir sömu hvort sem um er að ræða  Vestmannaeyjar eða höfuðborgarsvæðið samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í samræmi við framangreint hafi 5 dB ekki verið bætt við mæligildi þar sem þær voru í samræmi við reglugerð, staðla og jafnréttissjónarmið.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði synjað.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Mál þetta snýst um útgáfu á starfsleyfi til handa skemmtistaðnum Höllinni í Vestmannaeyjum útg. af kærða þann 25. nóvember 2008.

Almenna kæruheimild til ráðherra er að finna í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Kæruheimild til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarir er að finna í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir en þar segir að rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða ákvarðanir yfirvalda sé heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskuðarnefndar.

Stjórnsýslukæru kæranda var upphaflega beint til úrskurðarnefndar sem taldi málið ekki eiga undir valdsvið hennar, þar sem kærð var útgáfa starfsleyfis og vísaði kæru kæranda frá með vísan til 2. ml. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998. Umhverfisráðuneytið taldi að ágreiningurinn ætti undir úrskurðarvald hennar samkvæmt 4. gr. a og 6. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og taldi rétt að endurupptaka málið. Féllst úrskurðarnefndin á endurupptöku með bréfi til kæranda þann 14. júlí 2009.

Í 1. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 kemur fram að markmið laganna sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnareftirlits er kveðið á um setningu reglugerðar um hávaða og titring í 5. gr. laga nr. 7/1998 þar sem fram eiga að koma viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða og titring með hliðsjón af umhverfishávaða, sbr. 15. tl. 5. gr. sömu laga.  Í 13. gr. laga nr. 7/1998 er svo skýrlega kveðið á um það að heilbrigðisnefndir beri ábyrgð á því að ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða settra samkvæmt þeim sé fylgt eftir. Eftirlitsskylda kærða er svo ítrekuð í 10. og 11. gr. reglugerðar um hávaða. Í 10. gr. segir að heilbrigðisnefnd eigi að tryggja með nánar tilteknum hætti að hávaði frá skemmtistöðum sé lágmarkaður. Í 11. gr. er svo kveðið á um að heilbrigðisnefndir skuli tryggja framkvæmd reglugerðarinnar við eftirlitsmælingar á hávaða ef þurfa þykir.

Kæra kæranda er tvíþætt. Hún varðar annars vegar húsnæðið sem hýsir skemmtistaðinn Höllina og hins vegar hávaða frá starfseminni. Af gögnum málsins er húsnæði Hallarinnar lýst svo að húsið sé byggt sem límtrésskemma með veggi en þak þess er úr „yleiningum“ frá Límtré hf. Gluggar eru með tvöföldu og þreföldu einangrunargleri. Veggir hússins séu klæddir með 13 mm gipsplötum á grind án steinullar. Framkvæmdir fóru fram árið 2008 þar sem m.a. veggir voru klæddir með gipsi og einangraðir með steinull, þá var loft og þakgluggar klæddir með tvöföldu gipsi og einangrað með steinull. Þá kemur einnig fram að hljóðkerfi hússins hafi verið endurbætt  þannig að hægt er að stjórna betur hljóðstigi innanhúss. Af framangreindu er ljóst að úrbætur hafa átt sér stað á húsnæðinu sem eru allar til þess fallnar að koma í veg fyrir eða a.m.k. takmarka hljóðmengun. Framangreint er í samræmi við 8. gr. reglugerðar um hávaða. Þá verður að fallast á það með kærða að ágallar á húsnæðinu eiga undir byggingarfulltrúa og byggingarreglugerð og kemur það því ekki frekar til skoðunar hér.

Í viðauka við reglugerð nr. 724/2008 um hávaða er að finna töflu nr. III um viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða frá atvinnustarfsemi. Viðmiðunarmörk hávaða við húsvegg íbúðarhúss eru 50 dB, inni í húsi 30 dB og yfir nótt 40 dB.  Í sama viðauka er að finna töflu nr. V er varðar viðmiðunarmörk fyrir hávaða frá samkomum þar sem fólk dvelur í skamman tíma. Í töflu V. má jafngildishljóðstig inni á skemmtistaðnum ekki vera hærri en 95 dB og hámarkshljóðstig má ekki vera yfir 110 dB.  Í gögnum málsins kemur fram að mælingar hafi verið framkvæmdar af kærða í og við Höllina. Þar kemur fram að úti við heimili kæranda hafi hávaði verið mældur mestur 60,9 dB og minnstur 35,6 dB. Inni á skemmtistaðnum hafi hávaði minnstur 83,3 dB og mestur 103 dB. Samkvæmt framangreindri töflu má hljóðmengun á skemmtistað ekki fara yfir 95 dB. Af gögnum málsins má ráða að eitt skipti hafi hávaðinn farið umfram 95 dB. Í gögnum kærða kemur fram að hljóðmælingar voru framkvæmdar við hús kæranda í nokkur skipti árið 2008 og einnig í og við Höllina. Mældist jafngildishljóðstig 44,0 dB og hámarkshljóðstig 50,8 en voru hljóð frá hljómsveit og bílaumferð ríkjandi hljóð við mælinguna. Af framangreindum mælingum er ljóst að hávaði vegna starfsemi Hallarinnar fer ekki fram úr viðurkenndum lágmarksviðmiðum reglugerðar um hávaða. Til að takmarka enn frekar hávaða frá skemmtistaðnum hafa verklagsreglur verið settar fyrir skemmtistaðinn. Þær kveða á um skyldu hljóðmanns um að stilla hljóðvaka og hljóðkerfi þannig að skilyrði reglugerðar um hávaða séu uppfyllt. Þá hafa einnig verið sett samræmd starfsskilyrði fyrir samkomuhús, þar sem skýrlega er kveðið á um það að hljóðkerfi skuli ætíð að vera þannig tengt við hljóðvaka að hljóð verði aldrei meira en 95 dB, sem er hámark samkvæmt títtnefndri reglugerð um hávaða. Allt framangreint er til þess fallið að takmarka hávaða og hávaðamengun og uppfylla þannig skilyrði reglugerðar um hávaða og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki fallist á kröfur kæranda um að fella ákvörðun kærða um útgáfu á starfsleyfi til handa Höllinni Vestmannaeyjum úr gildi. Er það gert á þeim forsendum að hávaði frá skemmtistaðnum Höllinni fer ekki yfir viðmiðunarmörk reglugerðar um hávaða. Úrbætur hafa farið fram á húsnæði Hallarinnar, verklagsreglur og samræmdar reglur um starfsskilyrði hafa verið settar, allt til að takmarka hávaða. Með því verður að telja að kröfum kæranda í stjórnsýslukæru sé mætt um að starfsleyfi Hallarinnar uppfylli ákvæði reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.

Úrskurðarorð: 

Ekki er fallist á kröfur kæranda um að starfsleyfi til handa skemmtistaðnum Höllinni Vestmannaeyjum verði fellt úr gildi.

Date: 6/22/10

8/2009 Úrskurður vegna kæru Landsambands sumarhúsaeigenda gegn Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð.

Með

Mál nr. 8/2009.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2010, mánudaginn 13. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2010 Landsamband sumarhúsaeigenda, Suðurlandsbraut 30, Reykjavík, hér eftir nefndur kærandi, gegn Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð, Selfossi, hér eftir nefndur kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags 27. október 2009, kærði Sveinn Guðmundsson, hrl. f.h. Landsambands sumarhúsaeigenda únbogason HH hf.  (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Grímsnes- og Grafningshrepps og Bláskógabyggðar (hér eftir nefnd kærði) frá 3. desember 2009 um breytingu á gjaldskrá á sorphirðu í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að ákvörðun um breytingu á sorphirðugjaldi verði felld úr gildi og að kærða verði gert skylt að hafa sorpílát opin og staðsett þannig að þau uppfylli ákvæði reglugerðar um meðhöndlun úrgangs.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 27. október 2009.

2. Athugasemdir kærða dags. 7. janúar 2010.

3. Athugasemdir kæranda dags. 19. janúar 2010.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd með bréfi Umhverfisráðuneytisins dags. 16. desember 2009.  Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

III. Málsatvik

Í desember 2009 var ákvörðun tekin um breytingar á sorphirðugjaldi fyrir frístundahúsabyggð í Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð.

Með stjórnsýslukæru dags. 27. október 2009 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Kærða var með bréfi dags. 21. desember 2009 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 7. janúar 2010.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 7. janúar 2010 og bárust athugasemdir þann 17. janúar s.l.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi telur ákvörðun um hækkun sorphirðugjalda hafa verið einhliða án þess að fyrirliggjandi gjaldskrá hafi runnið sitt skeið á enda. Kærandi telur að gjaldskrá sem þegar hefur verið sett verði að fá að renna sitt skeið á enda áður en henni er breytt, eins og gildir með fasteignagjöld, þar sem sorphirðugjald er innheimt árlega samhliða fasteignagjöldum.

Kærandi telur einhliða ákvörðun um hækkun sorphirðugjalda vera ólöglega en þjónusta hefur einnig verið takmörkuð á þann hátt að móttökustöðvum hefur verið fækkað og gjaldskylda sett á úrgang sem ekki ber úrvinnslugjald. Kærandi telur alveg ljóst að þar sem móttökustöðvum hefur verið fækkað og opnunartími þeirra styttur sé ljóst að eigendur sumarhúsa í frístundabyggð Grímsnes- og Grafningshrepps og Bláskógabyggðar verði að fara með sorp með sér til þess byggðarlags þar sem það á lögheimili og því fargað þar.

Kærandi bendir á að reglugerð um meðhöndlun úrgangs nr. 737/2003 kveði á um skyldur sveitastjórna um að sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem falli til í sveitarfélaginu. Þá bendir kærandi á að kærða sé skylt samkvæmt nefndri reglugerð að farga sorpi frá öllum heimilum viðkomandi sveitarfélags og skuli  sjá til þess að staðsetning sorpíláta sé þannig að aðgangur að þeim sé góður. Þá bendir kærandi á  að í reglugerðinni sé sérstaklega vikið að sumarhúsahverfum varðandi sorpílát og staðsetningu þeirra n.t.t. í 6. gr. en þar segir að aðgengi að sorpílátum eigi að vera þannig að staðsetning sé hentug til að losa í þau þegar farið er frá svæðinu. Þau skuli vera opin þegar almennt er dvalið í sumarhúsunum í hverfinu og að aðgangur að þeim eigi að vera greiður.  Kærandi kveður suma frístundaíbúa þurfa að ferðast langar leiðir með sorp og að á sumum stöðum séu sorpstöðvar aðeins opnar yfir sumarmánuðina. Kveður kærandi framangreint ekki í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 737/2003.

Kærandi bendir á að kærði hafi byrjað að framfylgja samþykktum, reglum um takmörkun á þjónustu og hækkun á sorphirðugjaldi áður en þær voru endanlega samþykktar af hálfu Umhverfisráðuneytisins og að enn eigi eftir að auglýsa þær í B deild Stjórnartíðinda. Hann telur að með framangreindum hætti hafi mismunun átt sér stað milli fasteignaeigenda, en þar að auki mun gjaldtakan ekki endurspegla þjónustu sem kærendur fá við sorphirðu.

Þá bendir kærandi á að um 1800 frístundahús séu í hvoru sveitarfélagi eða samtals um 3600 og því um mikla hagsmuni að ræða, mikilvægt sé að aðgengi að sorpílátum sé gott en ekki takmarkað eins og nú er. Þá ítrekar kærandi skyldu kærða um staðsetningu sorpíláta í nánd við sumarhúsahverfi, en kærandi telur að þetta ákvæði reglugerðar um meðhöndlun úrgangs hafi aldrei verið uppfyllt.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði bendir á að sveitarfélögin hafi staðið sameiginlega að setningu nýrra reglna og útboði á sorphirðu. Kærði gekk til samninga sumarið 2009 við lægstbjóðanda, Gámþjónustuna hf. Kærði kveður breytingar á gjaldskrá hafa verið samþykktar hjá hvoru sveitarfélagi þann 3. og 8. desember 2009 og þær samþykktar af Heilbrigðisnefnd Suðurlands. Breytingarnar séu nú til afgreiðslu hjá Umhverfisráðuneytinu.

Kærði bendir á að þegar stjórnsýslukæra kæranda barst hafi umrædd gjaldskrá ekki tekið gildi, en gildistími hennar er upphaf árs 2010. Kærði bendur á að gjaldskráin sé enn til meðferðar hjá Umhverfisráðuneytinu og endanleg ákvörðun liggi því ekki fyrir. Kærði leggur áherslu á það sjónarnmið að þjónusta við fjærbúa hafi ekki tekið breytingum árið 2009 og að gámar hafi ekki verið fjarlægðir. Þar að auki sé gámaþjónusta opin á ákveðnum tímum og ekkert gjald innheimt fyrir móttöku á sorpi árið 2009. Verður það ekki innheimt fyrr en nýjar reglur hafa tekið formlega gildi. Kærði telur kæru kæranda varða kynningu á fyrirhuguðum breytingum sem höfðu ekki tekið gildi þegar kæran var lögð fram.

Kærði telur því að vísa beri stjórnsýslukæru kæranda frá, þar sem þau atriði er kæran varðar höfðu ekki tekið gildi þegar kæran var lögð fram. Þá hafi enginn aukakostnaður verið lagður á íbúa sveitarfélagsins árið 2009.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Kæruheimild til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnar er að finna í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sem og 1. mgr. 39. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Kæra kæranda er tvíþætt. Annars vegar ákvörðun kærða um hækkun á gjaldtöku vegna sorphirðu og hins vegar krafa um staðsetningu sorpíláta í sumarhúsabyggð.

Lög um meðhöndlun úrgangs hafa það að markmiði að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, sbr. 1. gr. laganna. Reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs er sett með stoð í 4. og 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Markmið reglugerðarinnar er það sama og laga nr. 55/2003.

Varðandi fyrri hluta kæru kæranda um hækkun á gjaldtöku vegna sorphirðu þá kemur fram í gögnum málsins að breytingarnar voru kynntar á sveitarstjórnarfundi fyrir íbúum sveitarfélagsins í desember 2009 og einnig fyrir Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Heilbrigðiseftirlitið samþykkti breytingarnar án athugasemda. Reglurnar voru sendar Umhverfisráðuneytinu til staðfestingar og auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. Var gjaldskráin staðfest af ráðuneytinu með nr. 70/2010.

Í 10. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs nr. 737/2003 er að finna ákvæði um gjaldtöku. Í ákvæðinu segir að rekstraraðila förgunarstaðar sé skylt að innheimta gjald fyrir förgun úrgangs.  Eina viðmið ákvæðins um fjárhæð gjalds er að gjaldið eigi að nægja fyrir förgun úrgangs, þar með talin uppsetningu og rekstri viðkomandi förgunarstaðar.  Í 2. mgr. 10. gr. segir að sveitarfélagi sé heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangsog tengda starfsemi sem samræmist því markmiði laga um meðhöndlun úrgangs um að draga úr óæskilegum áhrifum úrgangs á umhverfið. Í ákvæðinu segir að sveitarfélagi sé heimilt að miða gjaldtöku við magn úrgangs, gerð, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Þá kemur fram í niðurlagi ákvæðisins að kærða sé einnig heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Þá sé skylt að birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

Af framangreindu ákvæði má ráða að kærða er heimilt að leggja sorpgjald á vegna meðhöndlunar úrgangs. Þá kveður ákvæðið á um heimild til að hækka gjald svo fremi sem það sé í samræmi við kostnað á förgun úrgangs. Ekkert hefur komið fram af hálfu kæranda um að ákvörðun um hækkun á sorphirðugjaldi sé í ósamræmi við 10. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs. Þar sem kærða er heimilt að setja á sorpeyðingargjald og heimilt að kveða á um hækkun þess, verður ekki fallist á kröfu kæranda um að ákvörðun kærða um breytingu á sorpeyðingargjaldi verði felld úr gildi.

Varðandi seinni hluta kæru kæranda um staðsetningu á sorpílátum í sumarhúsabyggð, þá kemur fram í gögnum málsins að frá og með 1. október 2009 séu þrjár móttökustöðvar fyrir úrgang í sveitarfélögunum Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð starfandi, nánar tiltekið á Laugarvatni, í Reykholti og í Grímsnes- og Grafningshreppi. Ljóst er að opnunartími stöðvanna er skammur, ekki er opið alla daga vikunnar og opið skamman tíma í senn, yfirleitt um tvær til fjórar klukkustundir. Af 6. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs er ljóst að kærða ber að halda úti móttöku- og söfnunarstöðvum fyrir útgang sem fellur til í sveitarfélaginu. Í 4. mgr. 6. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs er sérstaklega kveðið á um fyrirkomulag sorpíláta í sumarhúsahverfi en þar segir að staðsetning sorpíláta skuli vera sem næst hverfinu og/eða þannig að hentugt sé að losa í það á leið frá hverfinu. Í niðurlagi ákvæðisins segir að sorpílátin skulu vera til staðar á því tímabili sem almennt er dvalist í húsunum í hverfinu og skal gætt að því að aðgangur sé greiður að sorpílátum, m.t.t. tegundar úrgangs. Af framangreindu er ljóst að kærða er skylt að hafa sorpílát í nánd við sumarhúsahverfi. Af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu og með þeirri breytingu sem kærði gerði á sorpmálum voru ákvæði 6. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs brotin, bæði að því er varðar opnunartíma og staðsetningu þeirra, þannig að hentugt sé að losa í þau þegar farið er frá svæðinu. Ber því að fallast á þann hluta í kröfu kæranda.

Úrskurðarorð:

Ekki er fallist á kröfur kæranda um ógildingu á ákvörðun kærða um breytingu á gjaldskrá sorpeyðigjalds. Fallist er á kröfur kæranda að staðsetning sorpíláta í sumarhúsabyggð Grímsnes- og Grafningshrepps og Bláskógarbyggð sé andstæð 6. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Date: 6/22/10

7/2009 Úrskurður vegna kæru Vigdísar Rutar Andersen gegn Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar

Með

Mál nr. 7/2009.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2010, mánudaginn 14. júní, kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2009, Vigdís Rut Andersen, Þórðarsveig 6, Reykjavík, hér eftir nefnd kærandi, gegn Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar, Borgartúni 10-12,  Reykjavík, hér eftir nefnt kærði. Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna anna. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags 30. júlí 2009, kærði Hildur Sólveig Pétursdóttir, hrl., f.h. Vigdísar Rutar Andersenúnbogason HH hf.   (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Umhverfis- og samgöngusviðs, (hér eftir nefnt kærði) frá 2. júní 2009, að kæranda sé óheimilt að halda hund á heimili sínu að Þórðarsveig 6, Reykjavík.

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að framangreind ákvörðun Umhverfis- og samgöngusviðs verði felld úr gildi.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 30. júlí 2009 ásamt fylgiskjölum, merkt 1-9.

2. Greinargerð kærða vegna stjórnsýslukæru dags. 18. september 2009 ásamt fylgiskjölum.

3. Athugasemdir kæranda dags. 30. nóvember 2009.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd hinn 8. ágúst 2009.  Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

III. Málsatvik

Árið 2003 festi kærandi kaup á íbúð á jarðhæð að Þórðarsveig 6 í Reykjavík. Fyrir kaupin hafði kærandi aflað sér upplýsinga, m.a. hjá kæranda, hvort samþykki annarra eigenda þyrfti til að halda hund í húsinu, en á þeim tíma átti kærandi tvo hunda. Kærandi kveður hundaeftirlitsmann Reykjavíkurborgar og starfsmenn kærða hafa tjáð sér að ekki þyrfti samþykki annarra, þar sem umrædd íbúð væri með sérinngang. Kærandi telur framangreint hafa verið forsendu þess að hún undirritaði kaupsamning og fékk eignina að Þórðarsveig 6 afhenta í apríl 2004.

Þegar kærandi hugðist skrá hundana að Þórðarsveig 6 fékk hún þær upplýsingar hjá starfsmönnum kærða að til þess þyrfti hún að afla samþykkis frá öllum eigendum hússins, þvert á þær upplýsingar sem kærandi fékk stuttu áður hjá starfsmönnum kærða.

Kærandi bendir á í kæru sinni að hundahald að Þórðarsveig 2-6 hafi verið bannað á húsfundi sem haldinn var stuttu eftir að kærandi flutti inn í eign sína, að undanskildum þeim íbúðum sem væru á jarðhæð, þar sem almennur skilningur þeirra sem sóttu fundinn  var sá að samþykki allra íbúa fyrir hundahaldi næði ekki yfir eignir á jarðhæð með sérinngang.

Kærandi kveður engin afskipti hafa verið af málinu fyrr en í nóvember 2006 og svo ekki aftur fyrr en þremur árum síðar, eða árið 2009. Þá hafi borist bréf frá kærða þar sem kæranda var gefinn mánuður til að koma hundum sínum fyrir á öðru heimili. Kærandi kveðst hafa orðið við því og skráð hund sinn á annað heimili hinn 3. júlí 2009. Á þessum tímapunkti var aðeins um einn hund að ræða.

Með stjórnsýslukæru dags. 30. júlí 2009 kærði kærandi framangreinda ákvörðun kærða til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Kærða var með bréfi dags. 8. ágúst 2009 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum, varðandi kæruna, og bárust þau hinn 18. september 2009.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða og bárust athugasemdir hinn 30. nóvember 2009.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Til stuðnings kröfu sinni bendir kærandi á 2. mgr. 6. gr. hundasamþykktar Reykjavíkurborgar frá 17. janúar 2002 nr. 52/2002. Kærandi telur að skýrt sé kveðið á um það þegar sótt sé um leyfi til að halda hund í fjöleignarhúsi, þar sem íbúð er með sérinngang, þótt um annars konar sameiginlegt húsrými eða sameiginlega lóð sé að ræða, þá sé veiting skráningarleyfis ekki háð samþykki annarra eigenda. Kærandi ítrekar sérstaklega að sérinngangur sé að hennar íbúð og hún þurfi ekki að fara yfir sameiginlegt rými að íbúðinni. Kærandi telur það uppfylla framangreint ákvæði hundasamþykktarinnar.

Kærandi bendir einnig á að hundurinn hafi aldrei farið inn á sameignlega lóð eða inn í önnur sameiginleg rými. Kærandi kveðst aðeins hafa sett hundinn út á séreignarlóð sína sem fylgir hennar íbúð. Kærandi kveðst reyndar hafa hætt því eftir að nágranni hennar óskaði eftir því. Þá hafi kærandi einnig útbúið viljayfirlýsingu þar sem m.a. kemur fram að hundurinn muni ekki fá að fara inn á sameiginleg rými og muni ekki fara út á séreignarhluta hennar, sbr. fylgiskjal nr. 8. Kærandi ítrekar að hún vilji umfram allt lifa í sátt við nágranna sína.

Kærandi vísar sérstaklega til athugasemda sem fylgdu A-lið 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Þar kemur fram að markmið ákvæðisins sé að vernda ofnæmis- og astmasjúkt fólk. Ákvæðið eigi ekki við um ónæði eða skoðanir fólks á dýrahaldi. Kærandi bendir á að ákvæðið takmarki eigna- og ráðstöfunarrétt einstaklinga og beri að túlka þröngt.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða áréttar hann fyrri röksemdir sínar. Kærandi bendir á að sérinngangur sé að íbúð hennar og því þurfi hún ekki samþykki annarra eigenda hússins. Hundurinn þurfi aldrei að fara um sameiginlegt rými hússins. Kærandi áréttar ennfremur að hún uppfylli skilyrði hundasamþykktar Reykjavíkurborgar nr. 52/2002 og sé því heimilt að halda hund og fá hann skráðan. Því til stuðnings vísar kærandi í úrskurð nefndarinnar frá 16. desember 2008 nr. 7/2008 en þar var ákvörðun umhverfis- og samgöngusviðs staðfest um að synja heimild til að skrá hund með þeim rökum að leyfi allra eigenda væri nauðsynlegt. Kærandi bendir á að í því máli hafi eigandi þurft að fara með hund sinn um sameiginlegan tröppugang sem sé sameiginlegt rými og undanþága 2. mgr. 6. gr. hundasamþykktarinnar sé ekki fyrir hendi. Það sé ekki þannig hjá kæranda og því hafi sá úrskurður ekki fordæmisgildi í þessu máli.

Kærandi ítrekar að túlkun umhverfis- og samgöngusviðs á 41. gr. laga nr. 26/1994 og 6. gr. hundasamþykktar Reykjavíkurborgar sé ekki rétt, þ.e. að ef eitthvert rými er sameiginlegt þá þurfi samþykki allra. Kærandi telur þvert á móti að ákvæði 2. ml. 13. tl. 41. gr. laganna og 2. mgr. 6. gr. samþykktarinnar gætu ekki verið skýrari, en þar segir að ef umsækjandi sé með sérinngang, þá þurfi ekki leyfi annarra eigenda, þótt um sé að ræða annað sameiginlegt húsrými á lóð.  Kærandi bendir á að túlkun kærða sé ekki í samræmi við lög og samþykktir sem kveða á um hundahald og því ríki mikil réttaróvissa um hundahald í fjölbýli.

Þá ítrekar kærandi framkomnar kröfur og óskar eftir að málinu verði flýtt eftir fremsta megni.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði, Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar gerir þá kröfu að ákvörðun frá 2. júní 2009 verði staðfest þar sem kæranda var synjað um leyfi til hundahalds.

Kærði bendir á að kærandi hafi aldrei fengið leyfi til að halda hund, þar sem skilyrði um samþykki allra eigenda hússins hafi ekki verið uppfyllt og kveður að kærandi hafi aldrei skilað inn þeim gögnum sem þarf til að fá hund skráðan. Kærði bendir á að kvartanir annarra íbúa hafi borist vegna hunds kæranda. Kvartanir hafi verið á þá leið að óþrifnaður og ónæði sé vegna hundsins og að íbúar hússins hafi lýst yfir mikilli óánægju með hundahald kæranda. Vegna kvartana voru hundaeftirlitsmenn sendir til kæranda. Þá hafi kærandi verið með fjóra óleyfishunda og einn kött. Önnur dýr hafi ekki verið í íbúð kæranda. Í kjölfar þessa hafi það verið ítrekað fyrir kæranda að afla samþykkis hjá sameigendum hússins. Það hafi hins vegar ekki fengist og upplýst af formanni húsfélagsins, Jóhönnu Guðbrandsdóttur, að samþykki myndi ekki fást hvorki frá íbúum né frá húsfélagi. Kærandi hafi verið upplýst um kæruleiðir þegar ljóst var að samþykki fengist ekki fyrir hundinum.

Kærði bendir einnig á úrskurð nefndarinnar frá 16. desember 2008 nr. 7/2008 en þar hafi nefndin staðfest túlkun kærða á 6. gr. hundasamþykktar Reykjavíkurborgar nr. 52/2002 að leyfi allra eigenda fjöleignarhúss þyrfti til að halda hund, þótt fyrir hendi væri sérinngangur, en annað sameiginlegt rými væri fyrir hendi. Kærði bendir á að ruslageymsla sé á sameiginlegri lóð og að bílageymsla, hjóla- og vagnageymsla hússins sé í sameign.  Kærði telur þá málsástæðu kæranda, að enginn astma- eða ofnæmissjúklingur sé í húsinu og því eigi að fást leyfi fyrir hundinum, ekki breyta túlkun kærða né afstöðu sameigenda kæranda. Kærði bendir á að sameigendur hússins hafi rétt til að synja beiðni um hundahald, hvort sem viðkomandi er astma- eða ofnæmissjúklingur. Kærði leggur áherslu á að ákvæði um hundahald sé einnig sett til að vernda hagsmuni annarra en hundaeigenda.

Að lokum vísar kærði í ákvæði reglugerðar nr. 941/2002 [í greinargerð er vísað til reglugerðar nr. 941/1998, brottfallin] um hollustuhætti, sérstaklega 14. gr. og 56. gr. reglugerðarinnar. Í fyrra ákvæðinu er kveðið á um þá skyldu fólks að halda lóðum sínum hreinum. Í síðara ákvæðinu er kveðið á um þá skyldu gæludýraeigenda að gæludýr þeirra valdi ekki hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði. Kærði telur að kærandi hafi ekki virt framangreind ákvæði, þar sem sameigendur hússins hafi almennt verið ósáttir með hundahald kæranda. Því til stuðnings bendir kærði á að aðeins einn íbúi hússins hafi skrifað undir yfirlýsingu um úrbætur frá kæranda með því að strika út hluta hennar, sbr. fylgiskjal nr. 7 með kæru.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Ágreiningur í máli þessu snýst um skilgreiningu á 13. tl. A-liðar 1. mgr. 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og 2. mgr. 6. gr. hundasamþykktar Reykjavíkurborgar frá 17. janúar 2002 nr. 52/2002.

Um hundahald í Reykjavík gilda ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og ákvæði hundasamþykktar Reykjavíkurborgar nr. 52/2002 sem sett var með stoð í 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt 2. gr. hundasamþykktarinnar er  hundahald að meginreglu bannað. Heimilt er að fá undanþágu frá banninu ef skilyrði samþykktarinnar eru uppfyllt.

Reglur um töku ákvarðana í fjöleignarhúsum er að finna í 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Samkvæmt 1. ml. 13. tl. A-liðar 41. gr. laganna þarf samþykki allra eigenda til að halda hunda og/eða ketti í fjöleignarhúsi. Í 2. ml. sama ákvæðis segir: „Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými.“ Í ákvæðinu er kveðið á um undanþágu frá reglunni um samþykki allra, og nóg að fá samþykki þeirra sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými með þeim sem hyggst halda hund eða kött.  Af gögnum málsins er ljóst að kærandi er með sérinngang en hjóla- og vagnageymsla, ásamt bílgeymslu eru í sameiginlegu rými hússins. Kærandi þarf ekki að fara inn um sameiginlegan stigagang, inngang, sameign eða sameiginlegan tröppugang til að komast inn í íbúð sína, heldur er gengið beint inn í íbúð kæranda af bílastæði. Í 2. mgr. 6. gr. hundasamþykkar Reykjavíkurborgar segir: „Þegar íbúð umsækjanda hefur sérinngang, þótt um sé að ræða annars konar sameigin­legt húsrými eða sameiginlega lóð, þá er veiting leyfis til hundahalds ekki háð samþykki annarra eigenda…“ Af tilvitnuðum ákvæðum er ljóst að kærandi þarf ekki leyfi annarra eigenda til að fá leyfi til hundahalds. Til að fá leyfið verður kærandi að uppfylla öll skilyrði hundasamþykktar Reykjavíkurborgar. Gögn málsins bera það með sér að nokkuð barst af kvörtunum frá sameigendum kæranda vegna hundsins, sbr. fylgiskjöl með greinargerð kærða. Kvartanir sameigenda varða óþrifnað og ónæði af hundinum. Af gögnum málsins má einnig sjá að kærandi hefur komið til móts við kvartanir og t.a.m. hætt að setja hundinn út á séreignarlóð sína til að koma í veg fyrir að úrgangur og gelt frá hundinum valdi óþrifum eða ónæði. Framangreint er í samræmi við skyldur gæludýraeigenda, sbr. 13. gr. hundasamþykktar Reykjavíkurborgar og 56. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002, en þar segir að gæludýraeigandi skuli gæta þess að dýr valdi ekki hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði. Gera verður kröfu þess efnis að kvartanir sameigenda um óþægindi og óþrifnað af dýri séu studdar haldbærum gögnum og að óþrifnaður og óþægindi séu ítrekuð og umfram það sem venjulegt og eðlilegt er, sbr. 3. mgr. 6. gr. hundasamþykktar Reykjavíkurborgar. Ekki hafa verið lögð fram gögn í málinu sem fullnægja þeim áskilnaði.

Ber því að fallast á kröfu kæranda.

 Úrskurðarorð:   

Ákvörðun Umhverfis- og samgöngusviðs frá 2. júní 2009 um synjun á hundahaldi þar sem samþykki allra sameigenda er ekki fyrir hendi, er felld úr gildi.

Date: 6/22/10

1/2009 Úrskurður vegna kæru á útgáfu starfsleyfis fyrir Flugklúbb Selfoss gegn Heilbrigðisnefnd Suðurlands

Með

Mál nr. 1/2009.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2010, mánudaginn 14. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7, Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir formaður, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2009 Helga Jóhannesdóttir og Hannes Stefánsson, Vogi, Ölfusi, 801 Selfoss, Gunnar M. Friðþjófsson, Árbæjarhverfi, Ölfusi, Hildur Hákonardóttir og Þór Vigfússon, Straumum, 801 Selfossi, hér eftir nefnd kærendur, gegn Heilbrigðisnefnd Suðurlands, Austurvegi 56, 800 Selfoss, hér eftir nefnt kærði. Nefndin fékk málið framsent frá Umhverfisráðuneytinu með bréfi dags. 23. desember 2008. Úrskurður í málinu hefur tafist í umsagnarferli og vegna anna nefndarmanna. Aðilum málsins var tilkynnt um fyrirséða töf málsins.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukærum, dags. 11. mars 2007 kærði Guðjón Ármannsson hdl. til ráðherra f.h. Hildar Hákonardóttur og Þórs Vigfússonar útgáfu starfsleyfis til handa Flugklúbbi Selfoss frá 12. febrúar 2007 vegna mikils ónæðis snertilendinga á Selfossflugvelli. Þann 10. og 15. apríl 2008, kærðu Gunnar Friðþjófsson, Helga Jóhannesdóttir og Hannes Stefánsson sömu ákvörðun kærða og töldu eftirlit kærða með Selfossflugvelli ófullnægjandi. Krafa kærenda um ógildingu á útgáfu starfsleyfis til handa Flugklúbbi Selfoss fékk meðferð Umhverfisráðuneytisins með úrskurði dags. 22. desember 2008. Í máli þessu verður úrskurðað um ágreining milli aðila er varðar eftirlit kærða með Selfossflugvelli.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukærur dags. 11. mars 2007, 10.  og 15. apríl 2008 ásamt fylgiskjölum.

2. Úrskurður Umhverfisráðuneytisins dags. 22. desember 2008.

3. Athugasemdir kærða dags. 22. júní 2009.

4. Athugasemdir kærenda dags. 9. ágúst 2009.

5. Ítrekun um andmælarétt til kærenda dags. 19. október 2009.

6. Tilkynning um töf á uppkvaðningu úrskurðar dags. 24. febrúar 2010.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Stjórnsýslukærur kærenda voru áframsendar til úrskurðarnefndar með bréfi dags. 23. desember 2008. Voru þær sendar kærða til umsagnar með bréfi 27. mars 2009.  Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

III. Málsatvik

Þann 19. febrúar 2008 tók Heilbrigðiseftirlit Suðurlands ákvörðun um útgáfu á starfsleyfi til handa Flugklúbbi Selfoss til reksturs flugvallar með eldsneytisafgreiðslu á Selfossi. Kærendum var birt ákvörðun kærða með bréfi dags. 26. og 28. febrúar 2008.

Með stjórnsýslukærum dags. 11. mars 2007, 10. og 15. apríl 2008 kærðu kærendur framangreinda ákvörðun til Umhverfisráðuneytisins. Kveðinn var upp úrskurður þann 22. desember 2008. Í úrskurðinum taldi ráðuneytið að ágreiningur um skort á eftirliti varðaði framkvæmd laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skv. 1. ml. 1. mgr. 31. laganna. Var sá hluti ágreinings aðila framsendur úrskurðarnefndinni í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærða var með bréfi dags. 27. mars 2009 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau 22. júní 2009. Erindi kærða var sent kærendum til umsagnar með bréfi dags. 14. júlí s.á. Umsögn barst frá einum kæranda. Erindi nefndarinnar var ítrekað með bréfi dags. 19. október 2009 og veittur viðbótarfrestur til andmæla. Ekki bárust andmæli frá kærendum.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærendur búa allir í námunda við flugvöllinn og telja að af honum stafi óásættanlegt ónæði sem orsakist aðallega af yfirflugi og snertilendingum. Kærendur telja að kærði hafi ekki sinnt þeirri eftirlitsskyldu sem honum bar að sinna samkvæmt fyrra starfsleyfi Flugklúbbs Selfoss. Kærendur kveða mikinn hávaða samfara því  þegar flugvélar taka á loft eða lenda á Selfossflugvelli en þær fljúgi mjög nálægt og rétt yfir heimilum kærenda með tilheyrandi hávaða. Kærendur telja því augljóst að mikil hávaðamengun sé fyrir hendi og að það ónæði sem þau þurfa að þola vegna flugvallarins sé langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Kærendur telja óeðlilegt að engar takmarkanir séu fyrir hendi í endurnýjuðu starfsleyfi Flugklúbbs Selfoss en slíkar takmarkanir voru fyrir hendi í fyrra starfsleyfi útg. 12. febrúar 2007. Þær takmarkanir hafi aðallega varðað bann við flugumferð á ákveðnum tímum sólarhrings sem og á almennum frídögum. Þá hafi einnig verið að finna skorður við snertilendingum og sérstök fyrirmæli hafi verið um flugtaks- og akstursstefnur. Hafi framangreindar takmarkanir átt að tryggja að flugumferð yrði í lágmarki vegna nærliggjandi íbúðarbyggðar.

Kærendur telja að ekkert eftirlit hafi verið viðhaft um takmarkanir og bann við flugumferð sem kveðið var á um í fyrra starfsleyfi Flugklúbbs Selfoss. Kærendur kveða aðflug yfir íbúðarhúsum þeirra vera á öllum tímum sólarhringsins og þar með hafi öll ákvæði laga og reglugerða um hávaða nr. 399/1999 (núg. 724/2008)  verið þverbrotin.

Kærendur krefjast þess að ákvörðun kærða frá 19. febrúar 2008 um útgáfu á starfsleyfi til handa Flugklúbbi Selfoss verði felld úr gildi. Verði fallist á útgáfu starfsleyfisins krefjast kærendur þess að mælt verði fyrir um nauðsynlegar takmarkanir á aðflugi.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði kveður reglugerð nr. 399/1999 um hávaða hafa verið í gildi þegar starfsleyfi til handa Flugklúbbi Selfoss var gefið út, sem og ákvæði reglugerðar um mengunarvarnareftirlit nr. 386/1999. Kærði bendir á að samkvæmt reglugerð nr. 386/1999 er meðaltíðni eftirlits með flugvöllum ólíkt og miðar við eðli þeirra, stærð og hvort þar sé eldsneytisafgreiðsla. Þá kveður kærði að eftirlit með flugvöllum sé ólíkt þar sem mikill munur sé á ómönnuðum flugvöllum eins og Selfossflugvelli og alþjóðlegum flugvelli eins og Keflavíkurflugvelli.

Kærði bendir á að Selfossflugvöllur hafi fengið það eftirlit sem eftirlitsáætlun fyrir þess konar flugvöll kveður á um, sem er annað hvert ár. Í greinargerð kærða er bent á að eftirlit hafi síðast verið framkvæmt þann 30. maí 2007 og hafi það verið án athugasemda. Eftirlit sé næst á árinu 2009. Kærði bendir á að gera verði greinarmun á lögbundnu eftirliti samkvæmt reglugerð um mengunarvarnareftirlit og kvartana vegna hávaða frá starfseminni.

Við mat á hávaða styðst kærði við ákvæði reglugerðar um hávaða nr. 724/2008. Kærði kveður kærur kærenda hafa varðað hávaða frá starfsemi Selfossflugvallar og að hann hafi verið yfir þau mörk sem eðlileg eru og því brot gegn ákvæðum í framangreindri reglugerð um hávaða. Kærði bendir á að hann hafi beint tillögum til sveitarfélags Árborgar um að takmarka og banna snertilendingar sem voru samþykktar. Snertilendingar eru nú aðeins heimilar virka daga milli kl. 07:00 – 18:00 á daginn og bannaðar alla daga frá kl. 23:00-07:00 nema í neyðartilfellum.

Kærði bendir á að nýlegar mælingar sem framkvæmdar voru í júní 2009 frá flugvél hafi ekki gefið tilefni til aðgerða eða athugasemda varðandi starfsemi flugvallarins. Mælingar voru gerðar í 16 mínútur meðan flugvél fór nokkra hringi yfir svæðið og tók tvær snertilendingar. Mælingar voru gerðar við nærliggjandi íbúðarhús í Árbæjarhverfi sem eru næst flugvellinum. Mælingarnar voru undir þeim viðmiðunarmörkum sem er að finna í ákvæði reglugerðar um hávaða. Kærði telur að flugumferð yfir Selfossflugvöll fari ekki yfir framangreind viðmiðunarmörk miðað við umferð um völlinn, þar sem flugumferð er bönnuð að næturlagi. Þá síðast bendir kærði á að íbúar Selfoss séu nær Selfossflugvelli en íbúar Árbæjarhverfis þar sem kærendur búa. Kærði bendir á að sveitarfélagið Árborg hafi gert hljóðvistarkort sem sýni að íbúar Árbæjarhverfis ættu ekki að verða fyrir ónæði vegna hávaða af völdum flugvallarins umfram það sem leyfilegt er samkvæmt reglugerð um hávaða.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Mál þetta snýst um hvort kærði hafi framkvæmt fullnægjandi eftirlit með Selfossflugvelli og hvort kærendur hafi orðið fyrir hávaðamengun vegna starfsemi flugvallarins.

Almenna kæruheimild til ráðherra er að finna í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.  Kæruheimild til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarir er að finna í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir en þar segir að rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða ákvarðanir yfirvalda, sé heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskuðarnefndar. Stjórnsýslukæru kærenda var upphaflega beint til Umhverfisráðuneytisins og varðaði útgáfu á starfsleyfi til handa Flugklúbb Selfoss og annmarka við veitingu þess. Leyst var úr þeim ágreiningi með úrskurði ráðuneytisins dags. 22. desember 2008. Ágreiningur um eftirlit kærða með Selfossflugvelli og hvort hávaði frá flugvellinum sé brot gegn ákvæði reglugerðar um hávaða nr. 724/2008 kemur hér til skoðunar.

Í 1. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram að markmið laganna sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Í 2. mgr. 6. gr. sömu laga kemur fram að heilbrigðisnefndir gefi út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Í 13. gr. er svo skýrt kveðið á um það að heilbrigðisnefndir beri ábyrgð á því að ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða settra samkvæmt þeim sé fylgt eftir. Eftirlitsskylda sem hvílir á kærða er ítrekuð í 6. gr. reglugerðar um hávaða nr. 724/2008 en þar segir að heilbrigðisnefnd beri að tryggja að kröfur og skilyrði í starfsleyfum sem hún gefur út og veiting þeirra sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða þar að lútandi.

Samkvæmt gögnum málsins voru á bæjarráðsfundi þann 15. nóvember 2007 samþykktar tillögur kærða um takmarkanir á flugtökum og lendingum. Fólu tillögurnar í sér bann við flugtaki og lendingu alla daga milli kl. 23:00 – 07:00 nema neyðartilvik sé fyrir hendi en þá skuli skrá það sérstaklega. Þá var einnig lagt til að snertilendingar yrðu aðeins leyfðar milli kl. 07:00 – 18:00 virka daga. Verður að telja að framangreindar tillögur kærða og samþykki þeirra fullnægi þeirri skyldu sem lögð er á kærða í 6. gr. reglugerðar um hávaða og að starfsleyfi Flugklúbbs Selfoss sé í samræmi við lög og reglugerð um hávaða, en kærendur hafa ekki sýnt fram á að þær hafi verið virtar að vettugi.

Í 1. gr. reglugerðar um hávaða segir að markmið hennar sé að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum af völdum hávaða en samkvæmt 2. gr. tekur hún til hávaða af mannavöldum. Í 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að heilbrigðisnefndir séu eftirlitsaðilar og eigi að hafa eftirlit með atvinnurekstri sem geti haft í för með sér mengun. Í sömu grein er hávaði skilgreindur sem mengun, sbr. liður 3.10.  Við mat á því hvað sé óeðlilegur hávaði er samkvæmt reglugerð um hávaða stuðst við mælingar í desíbelum sem líkja eftir næmni eyrans. Í 4. gr. reglugerðarinnar segir að við mat á því hvað sé heilsuspillandi hávaði verði að miða við þau viðmiðunarmörk sem er að finna í viðauka við reglugerðina. Í viðaukanum er að finna í töflu nr. II viðmiðunarmörk fyrir flugumferð. Í töflunni kemur fram að hávaði frá flugumferð megi mælast allt að 65 dB eða meiri utan við húsvegg, ef tryggð er bein aðfærsla útlofts um hljóðgildrur, íbúðarhúsnæðis í nágrenni við þegar starfandi flugvöll. Að nóttu til má hljóðmengun nema allt að 90 dB og allt að 30 dB inni í íbúðarhúsnæði. Af 6. gr. reglugerðar um hávaða er kærða skylt að sjá til þess að hávaði frá Selfossflugelli fari ekki yfir framangreind viðmiðunarmörk. Í gögnum málsins kemur fram að kærði framkvæmdi mælingar þann 18. júní 2009 á flugtaki, flugumferð, lendingum og snertilendingum. Af þeim er ljóst að hávaðinn fer ekki umfram framangreind viðmiðunarmörk reglugerðar um hávaða. Niðurstöður mælinganna reyndust vera 50,5 dB. Með vísan til þess verður ekki talið að hávaði frá starfsemi Selfossflugvallar sé í andstöðu við ákvæði reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.

Um eftirlitsskyldu kærða á starfsemi Selfossflugvallar gilda ákvæði reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnareftirlit. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar er markmið hennar að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstri með því að tryggja að mengunarvarnareftirlit sé með þeim hætti að mengun valdi ekki óæskilegum og skaðlegum áhrifum, m.a. á heilsufar almennings. Samkvæmt 2. gr. gilda ákvæði hennar um mengun á landi og í lofthelgi. Samkvæmt lið 3.5 í 3. gr. reglugerðarinnar eru heilbrigðisnefndir eftirlitsaðilar með atvinnustarfsemi sem getur valdið mengun vegna hávaða. Samkvæmt 3. gr. ber kærða að viðhafa eftirlit sem er til þess fallið að fyrirbyggja eða draga úr hávaðamengun frá Selfossflugvelli. Í 12. gr. reglugerðarinnar er að finna ákvæði um reglubundið mengunarvarnareftirlit. Þar segir að eftirlit skuli vera reglubundið en tíðni þess er mismunandi eftir nánari flokkun reglugerðarinnar. Samkvæmt viðauka við reglugerðina n.t.t. í fylgiskjali nr. 2 fellur Selfossflugvöllur undir eftirlitsflokk númer 3. Samkvæmt þeirri flokkun skal eftirlit fara fram einu sinni á ári og eftirlitsmælingar framkvæmdar tíunda hvert ár. Samkvæmt gögnum málsins fór eftirlit fram af hálfu kærða í maí 2009 og eftirlitsmælingar framkvæmdar í júní sama ár. Engar athugasemdir voru gerðar við eftirlit og mælingar sýndu fram á að hávaði var undir viðmiðunarmörkum reglugerðar um hávaða.

Með vísan til alls framangreinds er ekki fallist á kröfur þess efnis að eftirlit kærða með Selfossflugvelli hafi verið vanrækt og í andstöðu við reglugerð um mengunarvarnareftirlit nr. 386/1999. Þá verður ekki talið að hávaði frá flugvellinum sé brot gegn ákvæðum reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.

Úrskurðarorð:

Ekki er fallist á kröfur kærenda Helgu Jóhannesdóttur og Hannesar Stefánssonar, Vogi, Ölfusi, 801 Selfossi, Gunnars M. Friðþjófssonar, Árbæjarhverfi, Ölfusi, Hildar Hákonardóttur og Þórs Vigfússonar, Straumum, 801 Selfossi, að kærði hafi vanrækt eftirlitsskyldur sínar varðandi starfsemi Selfossflugvallar og að hávaði frá starfseminni hafi verið í andstöðu við ákvæði reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.

Date: 6/22/10

5/2009 Úrskurður vegna kæru Innnes heildsölu ehf., gegn Matvælastofnun.

Með

Mál nr. 5 /2009.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2009, 11. nóvember, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2009 Innnes heildverslun ehf., Fossaleyni 21, Reykjavík, hér eftir nefndur kærandi, gegn Matvælastofnun, Austurvegi 56, 800 Selfoss, hér eftir nefndur kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags 20. mars 2009, kærði Innnes heildsala ehf. únbogason HH hf.   (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Matvælastofnunar, (hér eftir nefnd kærði) frá 9. desember 2008 um synjun á heimild til notkunar á aukaefninu annatto (E160b) í ostalíki.

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að ákvörðun Matvælastofnunar frá 9. desember 2008 sé felld úr gildi.

Kærði gerir þá aðalkröfu að kröfu kæranda sé vísað frá, en til vara að ákvörðun kærða frá 9. desember 2008 verði staðfest.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 20 mars 2009 ásamt fylgiskjölum.

2. Greinargerð vegna stjórnsýslukæru dags. 30 apríl 2009.

3. Athugasemdir kærða dags. 5. júní 2009.

4.  Athugasemdir kæranda dags. 7. ágúst 2009.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd 22. mars 2009.  Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

III. Málsatvik

Hinn 30. október 2008 sótti kærandi um heimild til notkunar á aukaefninu annatto (E160b) í ostlíki til kærða með rafrænni umsókn. Með bréfi dags. 9. desember 2008 var framangreindri umsókn kæranda synjað með þeim röksemdum að aukaefnið annatto (E160b) væri að finna í aukaefnalista í viðauka II við reglugerð nr. 285/2002 um aukaefni í matvælum og sé því óheimilt að veita bráðabirgðaleyfi á umræddu efni m.v.t. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 285/2002. Efnið megi aðeins nota í ákveðin matvæli sem þar eru listuð upp, t.d. í æta ostskorpu allt að 20 mg/kg.

Með stjórnsýslukæru dags. 20. mars 2009 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Kærða var með bréfi dags. 20. maí 2009 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 5. júní 2009.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða og bárust athugasemdir þann 7. ágúst 2009.

IV. Málsástæður og rök kæranda 

Til stuðnings kröfu sinni bendir kærandi á að í fyrsta lagi hafi kærði ekki farið eftir skýru ákvæði 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með ákvörðun sinni 9. desember 2008. Þar sé aðeins að finna leiðbeiningar um kæruleiðir en ekki kærufrest. Það fari gegn skýru ákvæði 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga sem og meginreglum stjórnsýsluréttarins um skýrleika ákvarðana stjórnvalda. Kærandi telur að kærða hafi borið að fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaganna við undirbúning og meðferð ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Kærða hafi þannig borið að leiðbeina kæranda við meðferð málsins, sbr. 7. gr. og rannsaka málið til hlýtar áður en ákvörðun var tekin, sbr. 10. gr. Kærandi telur því að leiðbeiningar kærða hafi verið mjög ábótavant og því beri úrskurðarnefndinni að taka kæruna til meðferðar, skv. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi bendir á að ákvörðun kærða sé óljós og illskiljanleg og telur ógjörning að átta sig á hvað felst nákvæmlega í ákvörðun kærða. Kærandi vísar til þess að synjun kærða á umsókn kæranda sé byggð á 11. gr. reglugerðar um aukaefni í matvælum nr. 285/2002, þ.e. að aukaefnið annatto (E160b) sé að finna í aukaefnalista í viðauka II við reglugerð um aukaefni í matvælum og því sé ekki unnt að fallast á umsókn kæranda. Kærandi telur ákvörðun kærða því mjög óljósa.

Kærandi bendir einnig á að tilgangur umsóknarinnar hafi verið að fá leyfi fyrir aukaefninu annatto (E160b) í ostlíki. Umsókninni hafi þannig verið ætlað að heimila innflutning á vöru sem inniheldur aukaefnið annatto (E160b) í ostlíki en vara kæranda sé  brædd ostlíki í sérpökkuðum sneiðum. Kærandi bendir einnig á að miklir hagsmunir séu í húfi um fá leyfi fyrir framangreindu og að varan verði felld í flokk með bræddum osti fremur en ostlíki enda eigi varan meira í ætt við bræddan ost en ostlíki en annatto aukaefnið sé leyfilegt aukaefni í bræddan ost og í aukaefnalista í viðauka II við reglugerð nr.  285/2002 um aukaefni í matvælum.

Kærandi telur síðan að kærði taki ekki afstöðu til umsóknar kæranda og hafi á engan hátt upplýst málið með það að markmiði að komast að niðurstöðu. Þá telur kærandi ekki rétt af kærða að leiðbeina kæranda um að beina umsókn sinni til framkvæmdastjórnar Evrópu (European Commission) og telur það hvergi koma fram í reglugerð nr. 285/2002 að framsal hafi átt sér stað á ákvörðunarvaldi.

Í bréfi sem barst úrskurðarnefndinni þann 7. ágúst 2009 koma fram sjónarmið kæranda við greinargerð kærða. Þar ítrekar kærandi að málið eigi að fá efnislega umfjöllun af úrskurðarnefndinni með vísan til 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaganna. Ákvæðið sé skilyrðislaust og telur kærandi það hvorki skipta máli að kærandi sé einkahlutafélag eða að hann hafi notið liðsinnis lögmanns við kærugerð.

Kærandi ítrekar kröfu sína að heimilt sé að veita bráðabirgðaleyfi til notkunar aukaefna samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 285/2002. Í nefndu ákvæði komi ekkert fram um að endanlegt ákvörðunarvald sé á herðum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Kærandi ítrekar að tilgangur umsóknar sinnar um heimild til notkunar á annatto (E160b) í ostlíki, bræddum ostsneiðum, hafi verið til að innflutningur á vörunni Whitehall Specialites ostlíki væri mögulegur. Því séu miklir hagsmunir að baki þess að kærandi fái umrætt leyfi útgefið á grundvelli  11. gr. reglugerðar nr. 285/2002. Hagsmunir kæranda um að fá leyfið séu verulegir en sala og dreifing vörunnar hefur verið stöðvuð af heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Þá ítrekar kærandi framkomnar kröfur.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði, Matvælastofnun, telur aðallega að vísa eigi málinu frá úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kæran sé of seint fram komin. Til vara krefst kærði þess að ákvörðun dags. 9. desember 2008 verði staðfest.

Kærði bendir á að þegar ákvörðun kærða var tekin um að synja umsókn um heimild til notkunar á aukaefninu annatto (E160b) í ostlíki, hafi leiðbeiningar um kærurétt fylgt ákvörðuninni. Kæranda var leiðbeint að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir m.v.t. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kærði bendir á að almennur kæruréttur innan stjórnsýsluréttarins sé þrír mánuðir. Kærandi sé stór matvælaheildverslun sem annist influtning á matvöru og eigi ekki að leiðbeina sérstaklega um kærufrest eins og um einstakling væri að ræða. Kærði telur einnig að kærandi hafi notið liðsinnis lögmanns við kærugerð sína og því þurfi ekki sérstakar leiðbeiningar við. Með víasn til þess eigi að vísa málinu frá nefndinni.

Til vara krefst kærði þess að ákvörðun dags. 9. desember 2008 verði staðfest. Umsókn kæranda hafi borist kærða þann 30. október 2008. Þar óskar kærandi eftir leyfi til að nota aukaefnið annatto (E160b) í ostlíki. Umsókninni var synjað á þeim forsendum að aukaefnið sé óheimilt í ostlíki samkvæmt aukaefnalista í viðauka II við reglugerð nr. 285/2002 um aukaefni í matvælum.

Kærði bendir einnig á að heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi lagt sölubann á Whitehall Specialties ostlíki þar sem það innihéldi aukaefnið annatto (E160b) en aukaefnið sé aðeins heimilt í ætri ostskorpu. Þar sem Whitehall Specialties hafi ekki ostskorpu sé óheimilt að það innihaldi aukaefnið annatto (E160b).  Kæranda var kynntur kæruréttur til úrskruðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur en nýtti ekki þann kærurétt.

Kærði bendir á að umsókn á grundvelli 10. gr. reglugerðar nr. 285/2002 verði að vera mjög ítarleg og miklar kröfur séu gerðar svo hægt sé að fallast á umsókn. Kærandi hafi því haft samband við kærða í umsóknarferlinu og þar hafi kærði beint því til kæranda að aukaefnið annatto (E160b) sé óheimilt aukaefni í ostlíki nema aðeins 20 mg/kg og aðeins í æta ostskorpu. Kærandi vissi þar af leiðandi að annatto (E160b) aukaefnið væri óheimilt í ostlíki.

Kærði bendir á að reglugerð nr. 285/2002 um aukaefni í matvælum með síðari breytingum sé sett með stoð í 18. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, sbr. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengnunarvarnir. Með reglugerðinni voru innleiddar nokkrar tilskipanir Evrópusambandsins, aðallega tilskipun nr. 94/36/EB um notkun litarefna og nr. 95/45/EB um hreinleikaskilyrði. Framangreindar tilskipanir kveða á um að aukaefnalistinn í viðauka II við reglugerðina verði að vera eins á öllu EES svæðinu. Aukaefnalistanum sé því ekki hægt að breyta einhliða, þ.e að bæta við eða breyta. Allar breytingar verða að fara fram af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þar af leiðandi hafi kæranda verið leiðbeint um að sækja sérstaklega um hjá framkvæmdastjórninni þar sem kærði synjaði umsókn hans.

Kærði bendir á að samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 285/2002 sé litarefni aukaefni og við undirbúning og framleiðslu matvæla sé aðeins heimilt að nota aukaefni sem sé að finna í aukaefnalista í viðauka II við reglugerðina. Matvæli mega því ekki innihalda aukaefni, eitt eða fleiri, eða í meira magni en viðauki II segir til um, sbr. 7. gr. reglugerðarinnar. Innlendir framleiðendur séu ábyrgir fyrir því að matvæli þeirra innihaldi aukaefni sem séu í samræmi við viðauka II við reglugerð nr. 285/2002, sbr. 9. gr.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Almenna kæruheimild til ráðherra er að finna í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.

Í 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga kemur fram stjórnsýslulögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taki ákvarðanir um rétt eða skyldur manna.

Það telst vera stjórnvaldsákvörðun þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds.  Um stjórnvaldsákvörðun er því aðeins að ræða að stjórnvald hafi tekið ákvörðun í skjóli stjórnsýsluvalds.

Kæruheimild til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnar er að finna í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þar segir í 1. ml. 1. mgr. 31. gr. að ágreiningur sem varðar framkvæmd laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim er heimilt að vísa til úrskurðarnefndarinnar. Ekki er að finna sérstaka kærufresti í umræddu ákvæði og ber því að fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í þeim efnum. Almenn regla um kærufresti innan stjórnsýsluréttarins er þrír mánuðir. Í 2. tl. 2. mgr. 20. gr.  segir að með ákvörðun stjórnvalds skuli vera leiðbeiningar um kærufresti. Í ákvörðun kærða dags. 9. desember 2008 var ekki að finna leiðbeiningar um kærufrest eins og 20. gr. stjórnsýslulaganna kveður á um enda er ekki er ekki lögð sú skylda á aðila máls að þeim sé kunnugt um kæruleiðir, kærufresti eða kærugjöld. Stjórnvaldi er því skylt að veita leiðbeiningar um framangreind atriði þegar ákvörðun er birt, sé kæruheimild til staðar. Með vísan til alls þessa verður fallist á kröfu kæranda um að kæran verði tekin til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni á grundvelli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem ekki voru veittar fullnægjandi upplýsingar um kærufrest í stjórnsýsluákvörðun kærða.

Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort ákvörðun kærða um synjun á heimild til notkunar á aukaefninu annatto (E160b) í Whitehall Specialtiesostlíki sé röng og verði þar af leiðandi felld úr gildi.

Í reglugerð nr. 285/2002 (breytt með reglugerð nr. 500/2005) um aukaefni í matvælum er að finna reglur er varða aukaefni í matvælum, aukaefni ætluðum til notkunar í matvælum eða sölu til neytenda sbr. 1. gr. reglugerðarinnar. Hugtakið aukaefni er skilgreint í 2. gr. reglugerðarinnar þannig að aukaefni er efni sem aukið er í fæðu til þess að hafa áhrif á geymsluþol, lit, lykt, bragð eða aðra eiginleika matvæla. Í 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að litarefni flokkast sem aukaefni og er skilgreint þannig að þau gefa matvælum lit eða skila aftur lit matvæla og meðal þeirra eru náttúruleg innihaldsefni matvæla og náttúruleg efni sem alla jafnan er ekki neytt sem matvæla og eru ekki notuð sem einkennandi hráefni í matvæli. Í a-o lið 4. gr. reglugerðarinnar eru talin upp með tæmandi hætti efni sem ekki teljast aukaefni.  Í o-lið 4. gr. segir að litarefni sem notuð eru til að lita óæta húð á matvælum teljist ekki til aukaefna. Þar er listað upp ostskorpa og pylsuskænir. Því er aukaefnið annatto (E 160b) heimilt í húð á ostlíki en ekki í ostlíkinu sjálfu. Í 5. gr. kemur fram meginreglan um að við tilbúning og framleiðslu matvæla er einungis heimilt að nota þau aukaefni sem fram koma í viðauka II (aukaefnalisti) við reglugerðina og með þeim skilyrðum sem þar koma fram en framleiðendur og dreifingaraðilar bera ábyrgð á því að vörutegundir séu í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar, sbr. 9. gr. Því er ljóst að aukaefnið annatto (E 160b) er aukaefni sem aðeins er heimilt að nota í húð á ostlíki.

Ágreiningur aðila varðar skilgreiningu á vörunni, þ.e. hvort varan falli í undirflokk nr. 1.6.4 með yfirskriftinni bræddir ostar eða í undirflokk nr. 1.6.5 með yfirskriftinni ostlíki sem eru að finna í viðauka II við reglugerð nr. 285/2002. Undirflokkur 1.6.4 heimilar annattolausnir (E160b) 15 mg/kg en undirflokkur 1.6.5 heimilar annattolausnir (E160b) 20 mg/kg í æta ostskorpu.

Kærandi telur að varan Whitehall Specialtiesostlíki sé meira í ætt við bræddann ost og því eigi hún að falla í undirflokk nr. 1.6.4 bræddur ostur en þar eru annattólausnir (E160b) heimilar. Kærandi hafi verulega hagsmuni af því að varan sé staðsett í þann undirflokk. Í viðauka II við reglugerð nr. 285/2002 um aukaefni í matvælum, með síðari breytingum, kemur skýrt fram að aukaefnið annattolausnir (E160b) sé óheimilt aukaefni í ostlíki en ljóst er að ostlíki og bræddur ostur eru ekki samkynja vörur og falla ekki undir sama undirflokk í aukaefnalista í viðauka II við reglugerðina. Í umsókn kæranda dags. 30.10.2008 til kærða er berlega tekið fram, oftar en einu sinni, að sótt sé um aukaefnið annatto (E 160b) í ostlíki, ekki í bræddum osti. Umsóknin er rökstudd á þá leið að með því að heimila umrætt aukaefni verði ostlíkið sölulegra fyrir neytendur, varan meira aðlaðandi, girnilegri og lystugri fyrir neytendur. Er því ekki unnt að fallast á þá málsástæðu kæranda að vara hans sé í ætt við bræddan ost þegar sótt er um heimild til að nota aukaefni í ostlíki. Þar sem aukaefnið annatto (E 160b) sé óleyfilegt aukaefni og listað upp í viðauka II við reglugerð nr. 285/2002 gat kærði ekki tekið umsókn kæranda til greina enda væri það í bága við skýrt orðalag 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 285/2002, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 500/2005 að heimilt sé að að veita bráðabirgðaleyfi til notkunar aukaefna, sem ekki eru skráð í aukaefnalista í viðauka II. Þá segir ennfremur að slík leyfi skuli aðeins veitt á grundvelli almennra skilyrða í viðauka I við reglugerð nr. 285/2002.

Í viðauka I við reglugerð nr. 285/2002 er skýrt kveðið á um það að einungis sé heimilt að veita leyfi til notkunar aukaefna þegar sannað er að neytendum standi ekki hætta af efninu og það sé hægt að sanna á grundvelli tæknilegra upplýsinga. Þá verður einnig að sýna fram á sannarlegan ávinning fyrir neytendur, þ.e. að sýnt sé fram á þörf á notkun aukaefnanna. Hvorugt er hér fyrir hendi. Aukaefnið annatto er að finna í aukaefnalista í viðauka II við reglugerð 285/2002 og því ekki heimilt að veita bráðabirgðaleyfi á grundvelli 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 285/2002 sem kærandi sótti um 30.10.2008. Þá hefur hvorki verið sýnt fram á skilyrðin í viðauka I við reglugerð nr. 285/2002 séu uppfyllt né að varan sé réttilega bræddur ostur en ekki ostlíki en kærandi sótti um leyfi fyrir ostlíki ekki bræddan ost.

Með vísan til alls framangreinds verður talið að kærða hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um notkun á aukaefninu annatto (E160b) í ostlíki og ber því að fallast á varakröfu kærða.

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun Matvælastofnunar frá 9. desember 2008 um synjun á heimild til notkunar á aukaefninu annatto (E160b) í ostlíki er staðfest.

Date: 11/24/09

4/2009 Úrskurður vegna kæru BSI á Íslandi ehf. gegn Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Með

Mál nr. 4/2009.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2009, miðvikudaginn 11. nóvember kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2009 BSI á Íslandi ehf., Skúlagötu 19, Reykjavík, hér eftir nefndur kærandi, gegn heilbrigðiseftirliti Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis, Garðatorgi 7, 210 Garðabæ, hér eftir nefndur kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags 16. desember 2008, kærði BSI á Íslandi ehf. únbogason HH hf.   (hér eftir nefndur kærandi) útgáfu sex starfsleyfa af hálfu heilbrigðisnefndar Hafnafjarðar og Kópavogs, (hér eftir nefnd kærði) útgefin 7. mars 2008 til Hvaleyrarskóla kt. 570890-2049, 28. ágúst 2008 til Kjarrsins okkar, kt. 550808-0210, 31. október 2008 til Skólar ehf., kt. 630800-2930, 19. desember 2008 til Bjargir leikskólar ehf., kt. 430408-0890, 23. desember 2008 til Hjallastefnunnar ehf. kt. 540599-2039 og 22. janúar 2009 til leikskólans Kató kt. 590169-7579. Kærandi telur útgáfu starfsleyfanna ekki uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti og reglugerðar nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að útgáfa ofangreindra starfsleyfa verði felld úr gildi.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 16. desember 2008.

2. Framsending kærunnar frá Umhverfisstofnun dags. 22. desember 2008.

3. Framsending kærunnar frá Umhverfisráðuneytinu dags. 17. febrúar 2009.

4. Athugasemdir kærða dags. 5. maí 2009.

3. Athugasemdir kæranda dags 10. júní 2009.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd þann 27. mars 2009. Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

III. Málsatvik

Kærandi er faggildur aðili fyrir aðalskoðanir leiksvæða. Þann 16. desember 2008 kærði kærandi útgáfu starfsleyfa til handa leik- og grunnskólum í Hafnafirði og Kópavogi þar sem kærandi taldi þau ekki uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti og reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og eftirlit með þeim. Kærandi sendi kæruna til Umhverfisstofnunar á þeim grundvelli að Umhverfisstofnun hefur í samræmi við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga samræmt starfsleyfisskilyrði fyrir starfsleyfisskyldar atvinnugreinar.

Kæran var framsend frá Umhverfisstofnun til umhverfisráðuneytisins með bréfi dags. 22. desember 2008 þar sem erindið var sett fram sem kæra. Kæran var svo framsend frá umhverfisráðuneytinu til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir á þeim grundvelli að kæran ætti undir nefndina með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kæran barst úrskurðarnefndinni þann 27. mars 2009.

Kærða var með bréfi dags. 27. mars 2009 gefinn kostur á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi kæruna og bárust þau 5. maí 2009.

Kæranda var veittur kostur á því að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 20 maí 2009 og bárust athugasemdir þann 10. júní 2009.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Til stuðnings kröfu sinni bendir kærandi á að starfsleyfi fyrir leikskóla og skóla falli undir reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim. Kærandi bendir á að samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar verði aðalskoðun að fara fram með 12 mánaða millibili að hámarki. Kærandi telur að aðalskoðun sé hluti af starfsleyfisskilyrðum þar sem aðalskoðun er hluti af innra eftirliti. Þá bendir kærandi jafnframt á að með reglugerð nr. 607/2005 um breytingu á reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirliti með þeim, megi aðeins þeir sem hlotið hafa faggildingu framkvæma aðalskoðun.

Kærandi telur að þar sem aðalskoðun hafi ekki farið fram megi álykta að um ásetning og/eða stórfellt gáleysi sé að ræða af hálfu heilbrigðiseftirlits Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis, þar sem starfsleyfi hafi verið gefin út án þess að aðalskoðun hafi farið fram, en slíkt sé brot gegn ákvæðum reglugerðar nr. 942/2002. Þá telur kærandi að aðalskoðanir margra annarra leiksvæða þessara sömu sveitarfélaga hafi ekki farið fram og hugsanlega eigi það einnig við um önnur heilbrigðisumdæmi.

Í greinargerð kærða kemur fram að kærði telur kæranda ekki hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Svarbréf kæranda v. greinargerðar kærða er dags. 10. júní s.l. Þar kemur fram að kærandi er faggild skoðunarstofa á sviði öryggis leikvallatækja og leikvalla og hefur hann viðhaldið faggildingu á þessu sviði og borið af því kostnað frá árinu 2005. Kærandi telur því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að farið sé eftir ákvæðum reglugerðar nr. 942/2002 og þeim reglum sem gilda um slíkar skoðanir og að þær séu framkvæmdar.

Kærandi bendir á að fjölmargir Hæstaréttardómar og álit umboðsmanns Alþingis hafi staðfest að fyrirtæki eigi lögvarða hagsmuni af því að farið sé að lögum og reglum á sviði sem varðar starfsemi fyrirtækisins og vísar til Hæstaréttardóms nr. 83/2003.

Kærandi bendir einnig á að valdsvið úrskuðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir skv. 31 gr. laga nr. 7/1998 sé augljóslega ætlað að vera mjög rúmt. Nefndinni sé augljóslega ekki aðeins ætlað að fjalla um stjórnvaldsákvarðanir heldur um allan ágreining um framkvæmd laganna, reglugerðir, heilbrigðissamþykktir sveitarfélaga og aðrar ákvarðanir yfirvalda og ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 takmarki því ekki aðild að úrskurðarnefndinni.  Með þessum rökum hafnar kærandi röksemdum kærða um frávísun málsins frá nefndinni á þeim forsendum að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.

Í svarbréfi kæranda ítrekar kærandi framkomnar kröfur, að starfsleyfisskilyrði reglugerðar nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leikvalla og reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti,  hafi ekki verið fyrir hendi þar sem aðalskoðun hafi ekki farið fram en hana megi aðeins faggildir aðilar framkvæma.

V.  Málsástæður og rök kærða

Kærði, heilbrigðiseftirlit Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis telur að þeir einir eigi kæruheimild í máli sem eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn þess, ef ekki er kveðið á um annað í lögum. Kærði telur að gögn málsins beri það með sér að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af starfsleyfisveitingum þeim sem kærðar eru og bendir á að í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 komi fram að aðili máls sé sá sem hafi heimild til að kæra stjórnvaldsákvörðun. Kærði telur að með vísan til þessa beri að vísa málinu frá.

Kærði telur þó að ef úrskurðarnefnd telji rétt að taka umrætt erindi til nánari skoðunar með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, þá beri að staðfesta útgáfu starfsleyfanna þar sem fylgt hafi verið ákvæðum laga og reglugerða.

Kærði bendir á að heilbrigðisnefnd Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis afgreiði umsóknir um starfsleyfi á reglulegum fundum eftir að heilbrigðisfulltrúi hefur farið í vettvangsferð og skoðað aðstæður og rætt við forsvarsmenn um þær kröfur sem gerðar eru til hollustuverndar. Auk þessa er jafnframt haft samráð við byggingarfulltrúa og það embætti upplýst um starfsemina áður en umsókn um starfsleyfi er frágengin. Með vísan til þessa telur kærði að undirbúningur og veiting starfsleyfa og töku ákvarðana því samfara, hafi verið viðhafðir vandaðir stjórnsýsluhættir.

Kærði telur að rekstraraðili sé ábyrgur fyrir því að leiksvæði og leikvallatæki þess sé í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 942/2002 sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Ábyrgðin sé ekki á kærða, en kærði beri ábyrgð á því að rekstraraðili sinni innra eftirliti sínu og fari að ákvæðum reglugerðarinnar sbr. 11. gr. Kærði bendir á að aðalskoðun sé hluti af innra eftirliti og því ekki skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis. Kærði bendir jafnframt á að kærandi hafi ekki leitað eftir upplýsingum eða leiðbeiningum varðandi kærð starfsleyfi eða annað það sem mál þetta varðar, heldur látið nægja að skoða lauslega fundargerðir kærða og kært út frá þeim upplýsingum sem þar koma fram. Kærði bendir á að við undirbúning og afgreiðslu kærðra starfsleyfa hafi ekkert komið fram sem bendir til þess að afgreiðsla þeirra hafi verið gegn ákvæðum reglugerðar nr. 941/2002 og 942/2002 og vekur það furðu kærða að í kæru komi fram ásakanir um brot með ásetningi og/eða stórfelldu gáleysi starfsmanna kærða við veitingu starfsleyfa.

Kærði bendir á að á næstu mánuðum muni vera gerð heildarúttekt á öryggi leiksvæða og leikvallatækja þ.m.t. á framkvæmd innra eftirlits með leiklóðum og leikvallatækjum í umdæminu.

Þá síðast leggur kærði áherslu á að við útgáfu starfsleyfanna hafi ákvæðum 4. gr. a í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir verið fylgt, varðandi almenn atriði starfsleyfa og ákvæða um innra eftirlit og öryggisrástafanir eftir því sem við á hverju sinni og starfsleyfin því í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 og reglugerða settum skv. þeim.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar 

Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og hvort útgáfa starfsleyfa til grunn- og leikskóla hafi uppfyllt skilyrði reglugerða nr. 941/2002 um hollustuhætti og reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.

Kærði telur að kærandi hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins með vísan til 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.

Það telst vera stjórnvaldsákvörðun þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds. Um stjórnvaldsákvörðun er því aðeins að ræða að stjórnvald hafi tekið ákvörðun í skjóli stjórnsýsluvalds.

Innan stjórnsýsluréttarins er ekki að finna skilgreiningu á því hver er aðili máls heldur er byggt á hinni almennu skilgreiningu stjórnsýsluréttarins; aðili máls getur verið m.a. félög eða stofnanir sem átt geta réttindi og borið skyldur að landslögum og aðrir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls. Í ljósi þess að kærandi er faggildur aðili fyrir aðalskoðanir leiksvæða og hefur borið kostnað af henni frá 2005 verður að telja að úrlausn málsins varði hagsmuni hans. Verður því fallist á að kærandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins.

Reglugerð nr. 942/2002 um eftirlit með leikvallatækjum og leiksvæðum er sett samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, og lögum nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu að höfðu samráði við viðskiptaráðherra. Þá er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998. Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að öryggi barna og annarra með því að tryggja að leikvallatæki og leiksvæði séu hönnuð, frágengin og þeim viðhaldið á öruggan og viðurkenndan hátt sbr. 1. gr. reglugerðar 942/2002.

Grunn- og leikskólar eru starfsleyfisskyldir samkvæmt I viðauka við reglugerð 942/2002 en skv. 5. gr. eru rekstraraðilar ábyrgir fyrir öryggi leikvallatækja og leiksvæða og að eftirlit sé í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Í 12 gr. segir að heilbrigðisnefndir skuli gera kröfu í starfsleyfi um innra eftirlit á leiksvæðum og með leikvallatækjum en þar segir að rekstraraðili beri ábyrgð á innra eftirliti. Í 12. gr. kemur einnig fram að innra eftirlit  greinist í reglubundna yfirlitsskoðun, rekstrarskoðun og aðalskoðun, þá segir að aðalskoðun skuli framkvæmd af hæfum aðila.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 942/2002 kemur fram að aðalskoðun sé skoðun sem sé ætlað að staðfesta öryggi tækis, undirstöðu þess og umhverfi. Aðalskoðun er svo nánar skilgreind í viðauka III við reglugerð nr. 942/2002. Þar segir að með ástandsskoðun sé gerð heildarúttekt á öryggi leikvallatækja, yfirborðsefna, m.a. yfirborðsefna til dempunar falls, og undirstaða undir leikvallatækjum (stöðugleikapróf), til dæmis vegna áhrifa veðrunar eins og ryðs og rotnunar á leikvallatæki og á yfirborðsefni. Einnig allar breytingar er geta haft áhrif á öryggi leikvallatækja. Þar má nefna áhrif viðgerða eða ísetningu nýrra hluta og uppsetningu nýrra tækja á leiksvæðum. Í reglugerð nr. 607/2005 sem breytti reglugerð nr. 942/2002 kemur fram að aðalskoðun skuli framkvæmd af aðila sem hlotið hefur faggildingu til þess og skal hún fara fram með 12 mánaða millibili sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 942/2002.

Af framangreindu verður ekki talið að aðalskoðun sé skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis. Í reglugerð 942/2002 er gerð krafa um innra eftirlit í starfsleyfi sem rekstaraðili beri ábyrgð á, kærði ber aftur ábyrgð á því að rekstaraðili framkvæmi innra eftirlit. Reglugerð 942/2002 kveður á um að aðalskoðun skuli framkvæmd af hæfum aðila og skuli framkvæmd með 12 mánaða millibili en gerir aðalskoðun ekki að skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis.

Í greinargerð kærða kemur fram að heildarúttekt verði gerð í umdæminu á öryggi leiksvæða og leikvallatækja á næstu mánuðum. Þar sem kærð starfsleyfi eru gefin út árið 2008 og 2009 verður að telja slíkt nægilegt, enda kveður reglugerð nr. 942/2002  á um að aðalskoðun skuli fara fram  með 12 mánaða millibili, og er kærði því innan þeirra tímamarka.

Samkvæmt framansögðu er kröfu kæranda hafnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, BSI á Íslandi ehf, er hafnað.

Date: 11/24/09

11/2008 Úrskurður vegna kæru Erlings Ellingsen, gegn Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.

Með

Mál nr. 11/2008.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2009, fimmtudaginn 11. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2008. Erling Ellingsen, hér eftir nefndur kærandi, gegn Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, hér eftir nefnt kærði. Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 08.10.2008 kærði Erling Ellingsen umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, frá 10 apríl 2008 þar sem fram kemur að teknu tilliti til barna væri húsnæðið að Dalbraut 4, Laugarvatni óíbúðarhæft.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1.      Stjórnsýslukæra dags. 08.10.2008 ásamt fylgiskjölum.

2.      Athugasemdir kærða dags. 06.11.2008 ásamt fylgiskjölum.

3.      Athugasemdir kæranda dags. 16.01.2009 ásamt fylgiskjölum.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Kæran barst úrskurðarnefndinni 08.10.2008.  Þegar umsögn barst frá kærða var hún send til kæranda og honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Athugasemdir kæranda bárust 16.01.2009.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna anna.

III. Málsatvik

Að beiðni leigjanda í fasteigninni að Dalbraut 4, Bláskógarbyggð skoðaði Heilbrigðiseftirlit Suðurlands húsnæðið.  Ástæða þess var að leigjandi taldi húsnæðið hugsanlega heilsuspillandi, en nýfædd dóttir hans hafði verið veik.

Heilbrigðiseftirlitið skoðaði húsnæðið 9. apríl og veitti leigjanda umsögn dagsetta 10. apríl 2008.  Í umsögninni kemur fram að viðhaldi húsnæðisins sé verulega ábótavant.  Greinileg merki séu um raka í íbúð og þarfnist húsið gagngerra endurbóta.  Að teknu tilliti til barna sé húsnæðið óíbúðarhæft.

Með bréfi dags. 08.10.2008 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar.

Kærða var með bréfi dags. 28.10.2008 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 06.11.2008.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 16.12.2008.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að úttektin verði úrskurðuð ógild í heild sinni, þar sem hún byggi ekki á réttum forsendum.  Meðal annars sé því haldið fram að húsnæðið sé minna en það í raun er, lofthæð sé minni, einfalt gler sé í gluggum auk fleiri atriða sem ekki standist.

Kærandi telur að í bréfi kærða dagsettu 10. apríl 2008 felist stjórnsýsluákvörðun.  Í bréfinu segi: „að teknu tilliti til barna er húsnæðið óíbúðarhæft“.  Kærandi telur að með þessu sé í raun verið að segja að óheimilt sé að leigja húsnæðið út og /eða búa þar með börn.  Þá bendir hann á að málið hafi verið tekið til umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni og felist í því staðfesting á að málið sé kæruhæft.

Kærandi hefur fært frekari rök fyrir kærunni. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga er ekki ástæða til að gera frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði tekur fram að umrætt mál sé ekki kæra heldur umsögn.  Í bréfi kærða hafi því hvorki verið veittur andmælaréttur né upplýst um kæruleiðir samkvæmt stjórnsýslulögum.  Í umsögninni komi fram mat heilbrigðiseftirlitsins á ástandi húsnæðisins en ekki ákvörðun um bann á afnotum þess.  Í umsögninni komi fram atriði sem hægt er að bæta/laga þannig að koma íbúðinni í betra ástand.

Kærði hefur fært frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum og hefur úrskurðarnefnd haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar 

Í 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna.

Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt.  Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.

Um stjórnvaldsákvörðun er samkvæmt því að ræða þegar starfsmaður eða starfsmenn heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga kveða einhliða á um rétt og/eða skyldur tiltekins aðila í ákveðnu máli.

Í bréfi kærða dags. 10. apríl 2008 kemur skýrlega fram að um sé að ræða umsögn sem látin sé í té að undangenginni álitsumleitan.  Umsögn sem þessi er ekki stjórnvaldsákvörðun að mati úrskurðanefndar.  Í bréfinu er ekki lagt bann við notkun húsnæðisins heldur kemur einungis fram það álit að húsnæðið sé óíbúðarhæft með tilliti til barna, miðað við þær forsendur sem taldar eru upp í bréfinu.

Í samræmi við stjórnsýslulög var málið sent til umsagnar til málsaðila.  Í því fólst engin afstaða til kæruefnisins.

Að mati úrskurðarnefndar verður krafa kæranda um að úttekt á húsnæðinu að Dalbraut 4, Bláskógarbyggð verði úrskurðuð ógild í heild sinni ekki kærð til úrskurðarnefndar og verður af þeim sökum að vísa kæru hans frá nefndinni.

Kæru Erling Ellingsen er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru Erling Ellingsen er vísað frá úrskurðarnefndinni .

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                 Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/26/09

3/2009 Úrskurður vegna kæru Friðbjörns Ó. Valtýsssonar, Vestmannaeyjum gegn Heilbrigðisnefnd Suðurlands.

Með

Mál nr.3/2009.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2009, fimmtudaginn 11. júní  kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2009 Friðbjörn Ó. Valtýsson, Smáragötu 2, Vestmannaeyjum, hér eftir nefndur kærandi, gegn heilbrigðisnefnd Suðurlands, Austurvegi 56, 800 Selfossi, hér eftir nefndur kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 23 febrúar 2009, kærði Friðbjörn Ó. Valtýsson únbogason HH hf.   (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands, (hér eftir nefnd kærði) frá 25. nóvember 2008 um útgáfu starfsleyfis til handa Millet ehf. kt. 640908-0760, Höllinni Vestmannaeyjum vegna of mikils hávaða þar sem húsnæði Hallarinnar uppfylli ekki skilyrði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða.

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að starfsleyfið verði fellt úr gildi og nýtt starfsleyfi verði ekki veitt fyrr en tryggt sé að húsnæði Hallarinnar standist skilyrði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 23. febrúar 2009 ásamt fylgiskjölum.

2. Athugasemdir kærða dags. 20. apríl  2009.

3. Rannsókn frá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins dags. 2. desember 2002.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd 27. mars 2009. Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

III. Málsatvik

Millet ehf. er rekstararaðili skemmtistaðarins Hallarinnar í Vestmannaeyjum en um er að ræða veislu- og ráðstefnuhús. Íbúar sem búa í námunda við skemmtistaðinn hafa kvartað mikið undan hávaða sem þeir telja að berist frá Höllinni. Rannsókn var gerð á hávaða frá Höllinni dags. 2. desember 2002. Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu til kynna að endurbætur á þaki og þakglugga væru nauðsynlegar þar sem hávaði sem frá húsinu stafaði væri  langt umfram þau mörk sem sett eru fram í reglugerðum um hávaða. Þann 25. nóvember 2008 veitti heilbrigðisnefnd Suðurlands Millet ehf. starfsleyfi til handa Höllinni í Vestmannaeyjum. Kærandi kvartaði undan ákvörðun nefndarinnar með tölvupósti þann 30. nóvember 2008 og óskaði eftir frekari upplýsingum sem lágu til grundvallar ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar. Kærði svaraði þeirri fyrirspurn kæranda með tölvupósti þann 1. desember 2008.

Með stjórnsýslukæru dags. 23. febrúar 2009 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Kærða var með bréfi dags. 27. mars 2009 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 20. maí 2009.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi málsins, Friðbjörn Ó. Valtýsson, er íbúi í efsta hverfi Vestmannaeyja sem staðsett er upp undir Helgafelli. Kærandi telur að óásættanlegt sé að hafa skemmtistað staðsettan innan friðsæls íbúahverfis sem staðsett sé langt frá athafnarsvæði bæjarins.

Kærandi telur sig hafa orðið fyrir miklu ónæði vegna skemmtistaðarins og telur að um sé að ræða mjög óvandaða byggingu hússins til þeirrar notkunar sem um er rætt.

Til stuðnings kröfu sinni bendir kærandi á að hávaði af völdum tónlistar frá Höllinni sé langt umfram það sem telst vera ásættanlegur fyrir íbúa innan íbúahverfis.

Þá telur kærandi túlkun heilbrigðisnefndar Suðurlands vera alranga þ.e. að túlka  rafmangnaða rokktónlist þannig að ekki sé um að ræða ríkjandi tón eða högghljóð sem falli þar af leiðandi ekki undir ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða.

Kærandi telur að niðurstaða heilbrigðisnefndar Suðurlands sem kveður á um að ekkert ónæði sé frá dansleikjum í Höllinni umfram það sem fyrir er í hverfinu, sé alröng og telur hana vera „grátbroslegt yfirklór“.  Kærandi bendir á að ástæða þess að kvartað er undan skemmtistaðnum, sé ófullnægjandi húsnæði sem skemmtistaðurinn er staðsettur í. Það að verklagsreglur séu settar fram í starfsleyfi sé ekki vandamálið sem hér sé deilt um.

Kærandi telur sig því verða að kæra útgáfu starfsleyfis frá 20. nóvember 2008 af hálfu heilbrigðisnefndar Suðurlands, til skemmtistaðarins Hallarinnar og krefst þess að stafsleyfið verði fellt út gildi á grundvelli reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða og ekki gefið út nýtt starfsleyfi fyrr en tryggt sé að húsnæðið standist kröfur um hljóðmengun.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði, heilbrigðisnefnd Suðurlands telur að málið eigi ekki undir úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem kæra kæranda varði útgáfu á starfsleyfi en samkvæmt 32. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal leggja allan ágreining er varðar útgáfu starfsleyfis fyrir ráðherra.  Kærði telur því að fella eigi málið niður fyrir úrskurðarnefndinni.

Kærði bendir á að þegar kæranda var tilkynnt ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands um útgáfu starfsleyfis með bréfi dags. 25.11.2008 var hann upplýstur, fyrir mistök, um kæruheimild til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir í stað Umhverfisráðuneytis, þar sem um útgáfu á starfsleyfi var að ræða. Þegar þessi mistök urðu ljós hafði kærði samband við úrskurðarnefnd og upplýsti um framangreind mistök.

Kærði telur að kærur sem borist hafa úrskurðarnefndinni eigi að framsenda til Umhverfisráðuneytsins í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar 

Mál þetta snýst um útgáfu á starfsleyfi til Hallarinnar Vestmannaeyjum af heilbrigðisnefnd Suðurlands þann 25. nóvember 2008 og hvort mál þetta eigi undir úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Almenn kæruheimild til ráðherra er að finna í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.

Kæruheimild til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og megunarvarir er að finna í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 1. mgr. 31. gr. laganna segir að rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda sé heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskuðarnefndar. Í síðari málslið 1. mgr. 31. gr. segir að framangreint gildi þó ekki þegar umhverfisráðherra fari með úrskurðarvald samkvæmt lögunum, sbr. ákvæði 32. gr., eða þegar ágreiningur rís vegna ákvörðunar um útgáfu starfsleyfis samkvæmt ákvæði 6. gr. laganna.

Ágreiningur aðila varðar ekki eftirlit eða skort á eftirliti með stafsemi Hallarinnar eða framkvæmd laganna sem þá ætti undir úrskurðarnefndina sbr. 1. ml. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998. Sjórnsýslukæra kæranda ber það skýrt með sér að kærð er ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands um útgáfu á stafsleyfi til handa Höllinni Vestmannaeyjum. Ágreiningur er varðar ákvörðun um útgáfu starfsleyfi á réttilega undir umhverfisráðherra samkvæmt nefndri 32. gr., ekki úrskurðarnefnd. Þá hefur umhverfisráðuneytið ekki kveðið upp úrskurð varðandi þennan ágreining.

Kæranda var tilkynnt með bréfi kærða dags. 25. nóvember 2008 að kæruheimild í málinu væri til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir í stað Umhverfisráðuneytis þar sem um útgáfu starfsleyfis var að ræða. Kærði leiðrétti framangreind mistök um leið og þau urðu ljós með því að setja sig í samband við úrskurðarnefndina og tjáði henni að málið ætti réttilega undir Umhverfisráðuneytið, sbr. ákvæði stjórnsýslulaga. Ber að fallast á þær röksemdir kærða.

Það er afstaða úrskurðarnefndar að vísa beri frá kæru Friðbjörns Ó Valtýssonar.

Úrskurðarorð:     

Kæru Friðbjörns Ó. Valtýssonar er vísað frá úrskurðanefndinni.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal               Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/26/09

15/2008 Úrskurður vegna kæru Dreifingar ehf. gegn Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Með

Mál nr. 15/2008.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2009, fimmtudaginn 11. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2008 Dreifing ehf., Vatnagörðum 8, 104 Reykjavík, hér eftir nefnt kærandi gegn Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Fyrir nefndinni liggur kæra Dreifingar ehf. dagsett 15. desember 2008 þar sem ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dagsett 11. nóvember 2008 er kærð. Með þeirri ákvörðun var kæranda gert að innkalla og hætta sölu frá og með 1. janúar 2009 á McCain Pizza Crescendo Rising Crust Pizza 4 Cheese og McCain Pizza Crescendo Rising Crust Pizza Pepperoni vegna notkunar aukefnisins E 541 í þeim.

Framangreind ákvörðun var kærð þann 15. desember 2008.  Í kærunni var þess einnig krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað þar til nefndin kvæði upp fullnaðarúrskurð í málinu. Úr þeirri kröfu var leyst með úrskurði nr. 14/2008.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 15.12.2008 ásamt fylgiskjölum 1-4.

2. Athugasemdir kærða dags. 30.12.2008 ásamt fylgiskjölum.

3. Athugasemdir kæranda dags. 23.01.2009 ásamt fylgiskjölum.

II.    Málsatvik 

Kærandi flytur inn McCain pizzubotna. Honum var send ákvörðun kærða með bréfi dagsettu 11.11.2008.  Í ákvörðun kærða kemur fram að við athugun á innihaldi pizzubotna hafi komið í ljós notkun á aukaefninu E 541, sem sé óheimilt að mati kærða. Var kæranda gert að innkalla og hætta sölu frá og með 1. janúar 2009.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi hefur verið umboðsmaður McCain á Íslandi síðastliðin 35 ár. Hann hefur flutt inn þá pizzubotna sem málið snýst um frá árinu 1997 án þess að vandamál eða kvartanir hafi komið upp vegna þeirra.  Í bréfi kæranda til nefndarinnar kemur fram að í ágúst 2008 hafi kærði haft samband og óskað eftir fundi við kæranda þar sem við athugun á innihaldi pizzubotnanna hafi m.a. komið í ljós að þar væri að finna aukefnið E 541 sem sé óleyfilegt að mati kærða.  Þessu til stuðnings vísaði kærði til reglugerðar nr. 285/2002, með síðari breytingum um aukaefni í matvælum og að umræddir botnar falli undir lið 7.1 í aukaefnalista við nefnda reglugerð.

Umræddur fundur var haldinn á starfsstöð kæranda hinn 19.08.2008.  Þar var farið yfir málið og var það skilningur kæranda að ekki væri að vænta frekari aðgerða af hálfu kærða.  Sú varð þó ekki raunin og með bréfi dags. 21.08.2008 var kæranda gert skylt að stöðva þá þegar dreifingu varanna innkalla þær af markaði og þá mættu vörurnar ekki vera til sölu eftir 21.10.2008.

Kærandi mótmælti þessari ákvörðun kærða og sendi honum ódagsett bréf þar sem m.a. var bent á að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins nr. 95/2/EC væri heimilt að nota efnið í skonsur. Að mati kærða ættu pizzubotnarnir undir þá skilgreiningu.

Kærandi bendir á að efnið geti ekki verið hættulegt mönnum þar sem það sé heimilt í skonsum, sé magnið innan heimilaðra marka, sem ágreiningslaust er að raunin sé í botnunum.

Með bréfi dags. 21.10.2008 hafnaði kærði þessu, m.a. með þeim rökum að ger væri notað í botnana og því féllu þeir undir lið 7.1. í reglugerð 285/2002 með síðari breytingum.

Kærandi sendi kærða frekari gögn máli sínu til stuðnings þann 29.10.2008 þar sem bent var á að skonsur innihaldi oft ger þannig að ekki gæti það ráðið úrslitum í máli þessu.

Kærandi segir að kærði hafi þrátt fyrir það ákveðið að breyta ekki fyrri afstöðu.  Forsendan hafi verið sú að mati kæranda að það væri álit kærða að pizzubotnar geti ekki flokkast undir það sem á ensku kallist fine bakery wares.

Kærandi bendir á að í aukaefnalista reglugerðar nr. 285/2002 sé jákvæð upptalning, þannig að það efni sem er ekki á listanum er bannað.  Kærandi bendir á að listinn sé í sífeldri þróun og mörg dæmi þess að efnum hafi verið bætt á hann.  Kærandi leggur áherslu á að það sé álitamál hvar eigi að staðsetja umrædda pizzubotna. Kærandi telur að varan sé deig með áleggi, nánar tiltekið lyftideigsbotn en ekki pizza. Þá leggur kærandi enn fremur áherslu á að vara hans hafi annað tollanúmer (1901-2023 og 1901-2024) en hefðbundnar pizzur (1905-9051 og 1905- 9059) sem sýni að ekki er um samskonar vörur að ræða.

Kærandi telur að kærði hafi ekki fylgt meginreglum stjórnsýsluréttar. Mikilvæg meginregla innan stjórnsýsluréttarins er andmælaréttur aðila máls sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur að hann hafi ekki verið virtur. Kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum áður en umdeilt ákvörðun var tekin. Ákvörðun kærða var tilkynnt kæranda með bréfi dags. 21.08.2008 og þá hafði kæranda ekki gefist kostur til neinnar gagnaöflunar eða útskýringa á sjónarmiðum sínum og ekki er fallist á af hans hálfu að óformlegur fundur haldinn tveimur dögum fyrir dagsetningu umrædds bréfs fullnægi skilyrðum laga að þessu leyti.

Þá telur kærandi að kærði hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem ekkert bendi til þess að kærði hafi framkvæmt sjálfstæða rannsókn á innihaldi vörunnar, en þar sem um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun. Skoðun utan á pakkningar vöru sé ekki nóg til að uppfylla skilyrði rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Þá telur kærandi að kærði hafi ekki fylgt meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sbr. 12. gr. en samkvæmt henni skuli farið varlega í beitingu íþyngjandi ákvarðana

Að mati kæranda er það álitamál hvar nákvæmlega eigi að staðsetja pizzubotnana í þeim reglugerðarákvæðum sem komi til skoðunar.  Að mati kæranda verði að gera þær kröfur að stjórnvald sem beitir jafn róttækri ákvörðun og sölubanni og innköllun hafi fast land undir fótum að þessu leyti.  Það nægi ekki að til grundvallar sé lagt álit eða skoðun.  Vissa þurfi að vera fyrir hendi og um hana sé ekki að ræða í máli þessu.

Samkvæmt bréfi kærða dags. 11.11. 2008 er ákvörðun kærða byggð á 5. gr. rgl. 285/2002, 26. gr. l. 7/1998 og 29. gr. l. 93/1995.  Að mati kæranda er engin heimild í ákvæðunum til sölubanns og innköllunar og bendir á að í 2. mgr. 26. gr. l. 7/1998 segi:  „Stöðvun starfsemi og förgun á vörum skal því aðeins beitt að um alvarlegri tilvik eða ítrekað brot sé að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Sé um slík brot að ræða getur heilbrigðisnefnd afturkallað starfsleyfi viðkomandi reksturs.“ Kærandi telur útilokað að fallast á að eitthvað af því sem þarna er rakið, þ.e. alvarlegt tilvik, ítrekað brot eða úrbótum ekki sinnt, eigi við.

Þá fellst kærandi ekki á að 29. gr. l . 93/1995 eigi við enda ekki um það að ræða að fyrir liggi rökstuddur grunur um að matvæli uppfylli ekki ákvæði laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim.  Kærandi telur einnig með vísan til matvælalaganna nr. 93/1995 að áherslan að þessu leyti liggi á því hvort aukefni geti talist hættuleg neytendum.  Ekkert slíkt mat hafi farið fram varðandi það álitamál sem hér er uppi og þaðan af síður að fram hafi farið íslenskt áhættumat. Kærandi telur því að ekki hafi verið sýnt fram á það af hálfu eftirlitsins að ákvæði reglugerðar  nr. 285/2002, með síðari breytingum sbr. reglugerð nr. 500/2005 heimili þær róttæku aðgerðir sem hér er gripið til.

Kærandi telur einnig að hér sé vegið að atvinnufrelsi hans m.a. með vísan til 75. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og slíkar aðgerðir geti aldrei verið heimilar sé minnsti vafi á lögmæti þeirra eins og hér er vafalaust raunin.

Þá bendir kærandi að framleiðandinn McCain foods ætli frá og með 1. janúar 2010 hætt að nota lyftiefnið E 541 og í stað þess notast við E450i.

Í ljósi framanritaðs krefst kærandi þess að ákvörðun kærða verði úr gildi felld.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði mótmælir því að um ranga ákvörðun sé að ræða pizzubotnar geti ekki talist vera skonsur þrátt fyrir að það henti kæranda að líta svo á málið. Kærði telur að það sé útilokað að fella pizzubotna undir önnur lagaákvæði eða reglur en gert er í bréfi kærða dags. 21.08.2008 þar sem rækilega er gert ráð fyrir þeim vanköntum sem séu á vörum kæranda. Kærði bendir á, að kæranda var veittur andmælaréttur með bréfi kærða dags. 21. ágúst s.l. og enn á ný í bréfi kæranda 21. október s.l. Því er alröng sú fullyrðing kæranda, að hann hafi ekki notið andmælaréttar, enda neytti hann réttarins með ódags. bréfi sínu, sem fylgir kæru hans.

Kærandi heldur því fram að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin.  Sú fullyrðing er þó órökstudd að mati kærða. Hann sinni matvælaeftirliti á markaði sem fram fóru með viðurkenndum aðferðum við matvælaeftirlit þ.e. að sýna var aflað og varan rannsökuð af kærða. Sú rannsókn beindist að merkingum á vörunni, sem voru ófullnægjandi og gáfu jafnframt til kynna, að í vörunni væru óleyfileg aukaefni,  sem ekki eru leyfð í pizzubotnum hér á landi og rækilega er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í bréfi kærða 21. ágúst s.l.  Frekari rannsókna var ekki þörf til að komast að niðurtöðu varðandi vöruna

Kærði heldur því fram að meðalhófsregla hafi verið brotin með því að kærði fallist ekki á að kalla pizzubotna skonsur.  Matavælalöggjöfin og reglur um merkingar matvæla veita ekki svigrúm til svo rúmrar túlkunar. Merkingar vöru eru annað hvort í lagi eða ekki í lagi og eina úrræðið varðandi vörur, sem ekki uppfylla kröfur um merkingar og innihald vöru, er að taka þær af markaði.  Það er í langflestum tilvikum gert með góðri samvinnu við framleiðendur og dreifendur matvæla og þá jafnframt veittir rúmir frestir til aðgerða.  Áður en aðgerða er krafist, er þó ávallt reynt til þrautar að leysa mál með samkomulagi við dreifendur. Gerir það málsmeðferðartíma oft mjög rúman til hagsbóta fyrir dreifandann. Önnur úrræði en að innkalla vöruna eru ekki fyrir hendi, auk þess sem kærði verður að gæta jafnræðis við matvælaeftirlit. Kærði telur það vera ófrávíkjanlega reglu að ranglega merktar vörur eru innkallaðar og merktar á ný, oftast í góðri samvinnu við ábyrga matvælainnflytjendur.

Kærði  vill þessu til viðbótar taka fram eftirfarandi:

Í málavaxtalýsing kæranda vísar hann til fundar með kærða hinn 19. ágúst s.l. , þar sem farið hafi verið yfir málin. Þar telur kærði að kærandi fari ekki með rétt mál og vísar þar til meðfylgjandi minnisblaðs um fundinn, sem kæranda var sent að loknum fundi og hann hefur ekki gert athugasemdir við. Kærði telur að á  fundinum komi einmitt fram, að rætt hafi verið um ýmsar vörur kærða og sérstaklega rætt bréf kærða vegna  McCain pizzubotna, sem innihaldi efnið E541.  Á fundinum kvaðst fulltrúi kæranda ætla að reyna að fá framleiðendur til að hætta notkun efnisins. Alls ekki kom fram á  fundinum, að ekki væri að vænta frekari aðgerða vegna pizzubotnana.

McCain pizzubotnar eru seldir víða í Evrópu.  Þar eru merkingar skv. Evrópureglum og samkvæmt meðfylgjandi innihaldslýsingu frá Danmörku komi einmitt fram, að framleiðandinn notar ekki E541 í pizzubotnana, heldur annað lyftiefni.  Þannig virðist framleiðandinn geta tekið tillit til Evrópureglna við sölu til annarra landa en Íslands og notað leyfileg aukaefni í framleiðslu sína.

Kærandi heldur því fram, að 2. mgr. 26. gr. l. 7/1998 eigi ekki við um innköllun McCain pizzubotna, þar sem ekki sé um að ræða alvarlegt tilvik, ítrekað brot eða úrbótum ekki sinnt.  Kærði bendir hins vegar á, að heimild til notkunar ákvæðisins er einmitt í þeim tilvikum, sem úrbótum er ekki sinnt innan tiltekins frests, auk hinna alvarlegu og ítrekuðu tilvika.  Fullyrðing kæranda er því röng.

Kærandi heldur því fram, að kærði hafi ekki vissu um málstað sinn, þar sem orðalag í bréfi sé „álit eftirlitsins“ hvar staðsetja eigi pizzubotna.  Ekki skiptir máli í þessu tilviki, hvaða orðalag notað er, þar sem niðurstaða kærða liggur ljós fyrir.  Kærði hefði allt eins geta notað orðið „mat“, eða „skoðun“ eða „niðurstaða“ og í öllum tilvikum er niðustaða kærða kæranda fullkomlega ljós og ekki fallin til þess að valda misskilningi.

Kærði bendir á, varðandi það að kærandi fallist ekki á að 29. gr. l.93/1995 eigi hér við, þar sem ekki liggi fyrir að viðkomandi aukaefni geti talist hættulegt neytendum, að við samingu aukefnalista reglugerðar 500/2005 sbr. 285/2002 fór þetta slíkt fram og var unnið af sérfræðingum Evrópusambandsins.  Íslensk áhættumat hefur af þeim sökum ekki farið fram. Ákvæðið um bann við notkun E541 er skýrt og enginn vafi á því sbr. aukefnalista og leiðbeiningum með reglugerð nr. 285/2002 um aukaefni matvælum. Kærði telur því að sá vafi sem kærandi vísar til sé ekki fyrir hendi.

Kærði bendir á, varðandi það að kærandi telur innköllun og sölubann brjóta gegn stjórnarskrárvörðum rétti sínum sbr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, að ákvæðinu megi setja skorður með lögum. Hæstiréttur hefur metið það svo að það sé mat löggjafans að meta hvenær rétt sé að takmarka atvinnuréttindi manna en það sé þó aðeins gert með settum lögum frá Alþingi. Þetta er áréttað í dómi Hæstaréttar frá 15. desember 1988.

Það er mat kærða, að með setningu laga um matvæli nr. 93/1995 og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerða settum samkvæmt þeim, hafi löggjafinn framkvæmt umrætt mat um takmarkanir atvinnufrelsins sem séu innan ramma 75. gr. stjórnarskrárinnar og fullyrðing kæranda því röng.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort ákvörðun kærða um innköllun á vörunum McCain Pizza Crescendo Rising Crust Pizza 4 Cheese og McCain Pizza Crescendo Rising Crust Pizza Pepperoni, sé röng.

Í reglugerð nr. 285/2002 (br. með 500/2005) um aukaefni í matvælum er að finna reglur er varða aukaefni í matvælum og aukaefni ætluðu til notkunar í matvælum eða sölu til neytenda sbr. 1. gr. reglugerðarinnar. Hugtakið aukaefni er skilgreint í 2. gr.: „Aukefni eru efni sem aukið er í fæðu til þess að hafa áhrif á geymsluþol, lit, lykt, bragð eða aðra eiginleika matvæla, eins og nánar er kveðið á um í viðauka 4. Í fullunninni vöru eru aukefni til staðar að öllu leyti eða að hluta, í breyttri eða óbreyttri mynd.“ Í 3. gr. sömu reglugerðar kemur fram að lyftiefni flokkist sem aukaefni.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 285/2002 með síðari breytingum kemur fram meginregla. Þar segir að við tilbúning og framleiðslu matvæla er einungis heimilt að nota þau aukaefni sem fram koma í viðauka II (aukaefnalisti) við reglugerðina og með þeim skilyrðum sem þar koma fram. Í 9. gr. er kveðið á um ábyrgð framleiðanda og dreifanda en framleiðandi og dreifandi, þegar um innflutta vöru er að ræða, eru ábyrgir fyrir því að vörutegundir séu í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Ágreiningur aðila varðar skilgreiningu á þeim vörunum þ.e. hvort varan falli í undirflokk 7.1 eða 7.2 í aukaefnalista reglugerðar 285/2002, með síðari breytingum. Undirflokkur 7.1 ber yfirskriftina bökunarvörur (brauð, annað matbrauð og gerbakstur). Þar er lyftiefnið sem um er deilt, natríumálfosfat E 541, ekki listað upp. Í undirflokki númer 7.2 sem ber yfirskriftina annar bakstur, kökur og smjördeigsbrauð er lyftiefnið E 541 listað upp, með takmörkunum.

Kærandi telur að vörurnar eigi að falla undir flokk 7.2 þar sem varan sem um er deilt sé ekki pizza heldur deig með áleggi, nánar tiltekið lyftideigsbotn og leggur áherslu á að efnið sem um er deilt sé notað í svipaðar vörur sem falla í flokk 7.2, eins og skonsur. Kærandi telur að samkvæmt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga verði að velja sértækari kostinn umfram þann almenna. Kærði telur að pizzubotnar geti alls ekki talist vera skonsur og því útilokað að fella þá undir önnur ákvæði reglugerðarinnar.

Í leiðbeiningum með reglugerð nr. 285/2002 um aukaefni í matvælum, með síðari breytingum segir að pizzur falli undir flokk 7.1. Þar er pizza ekki felld undir flokk 7.2. Í athugasemdum við undirflokk 7.2 í nefndum aukaefnalista reglugerðarinnar segir að natríumálfosfat E 541 sé aðeins leyfilegt í lagkökur, rúllutertur og líkum vörum (fine bakary wares). Ber því að fallast á skilgreiningu kærða að um sé að ræða pizzu sem samkvæmt reglugerð nr. 285/2002 og leiðbeiningum með henni er felld í undirflokk 7.1 enda leyfa ákvæði matvælalöggjafarinnar ekki svo rúma túlkun að pizzue flokkist með rúllutertum og álíka vörum. Ekki hefur verið sýnt fram á af kæranda með haldbærum gögnum að vörurnar falli réttilega undir flokk 7.2.

Samkvæmt 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir hefur heilbrigðisfulltrúi heimild til að beita þvingunarúrræðum til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laganna segir að heilbrigðisfulltrúi geti lagt hald á vörur og fyrirskipað förgun þeirra. Í 29. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli er eftirlitsaðila heimilt að stöðva eða takmarka framleiðslu og dreifingu matvæla og leggja hald á þau þegar rökstuddur grunur er um að matvæli uppfylli ekki ákvæði laganna og eða reglugerða settra samkvæmt þeim.

Því ber að fallast á það með kærða að umdeildar vörur innihaldi óleyfilegt aukaefni, lyftiefnið E 541. Bann við notkun efnisins er skýrt í aukaefnalista með reglugerð nr. 285/2002, með síðari breytingum sem Heilbrigðiseftirlitinu er heimilt að innkalla og farga samkvæmt l. 7/1998 og 93/1995. Fallast ber á það með kæranda að almenningi stafi ekki bráð hætta af því efni sem hér um ræðir en aukaefnið er eftir sem áður óleyfilegt samkvæmt nefndu reglugerðar- og lagaákvæðum.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 11.11.2008 er staðfest.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                         Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/26/09