Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2019 Svínabú að Torfum

Árið 2019, miðvikudaginn 10. júlí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 49/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 28. mars 2019 um að samþykkja deiliskipulag svínabús að Torfum og á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að framkvæmdir vegna svínabúsins skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júní 2019, er móttekið var hjá nefndinni sama dag, kæra landeigendur að jörðunum Grund I og IIa og Finnastöðum, Eyjafjarðarsveit, ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 28. mars 2019 um að samþykkja deiliskipulag svínabús að Torfum og ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. s.m. um að framkvæmdir vegna svínabúsins skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinna kærðu ákvarðana. Jafnframt er farið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, séu þær hafnar eða yfirvofandi. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök: Hinn 28. mars 2019 samþykkti sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar deiliskipulag fyrir svínabú í landi Torfa skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Deiliskipulagið tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 22. maí s.á. Tiltekið er í auglýsingunni að skipulagssvæði sé 15 ha spilda sunnan Finnastaðarár sem skilgreint sé sem landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins. Skipulagið taki til byggingar tveggja gripahúsa, samtals u.þ.b. 5.700 m² að stærð, auk tilheyrandi fóðursílóa, hauggeymslu og starfsmannahúss. Ráðgert sé að á hverjum tíma verði fjölda grísa í eldi 2.400 og fjöldi gylta 400. Framkvæmdin falli undir lið 1.10 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og liggi fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 12. mars 2019, um að framkvæmdin skuli ekki sæta mati á umhverfisáhrifum.

Kærendur taka fram að krafa þeirra um stöðvun framkvæmda eigi við um báðar hinar kærðu ákvarðanir. Sé vísað til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og tekið fram að vegna hinna gríðarlegu miklu áhrifa sem fyrirséð sé að koma svínabúsins muni hafa í för með sér séu kærendur nauðbeygðir til að nýta sér þetta réttarúrræði. Málsmeðferð hjá Skipulagsstofnun og Eyjafjarðarsveit hafi verið verulega ábótavant og því fyrirséð að frekari rannsókn á málunum kunni mögulega að leiða í ljós þarfar aðgerðir eða forsendubrest fyrir núverandi deiliskipulagi og framkvæmdum.

Sveitarfélagið Eyjafjarðarsveit bendir á að því sé fjarri að starfsemi sé að hefjast í svínabúinu eða hún sé yfirvofandi. Byggingarframkvæmdir séu ekki hafnar, en umsækjandi hafi sótt um framkvæmdar­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­leyfi og sveitar­­stjórn heimilað útgáfu þess. Málsmeðferð hafi á öllum stigum málsins verið í samræmi við lög og reglur og vandaða stjórnsýsluhætti. Kærendur hafi enga hagsmuni af því að stöðva fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir, þar sem langur vegur sé frá því að gefið verði út framkvæmdaleyfi til bygginga til þess að gefið verði út starfsleyfi til reksturs svínabús með öllum þeim kröfum sem til þess verði gerðar og áhrifa af starfsemi þess.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Gildistaka deiliskipulags eða ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum fela ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þurfa til að koma sérstakar stjórnvaldsákvarðanir, m.a. um samþykkt byggingarleyfis, framkvæmdaleyfis eða starfsleyfis, sem geta sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010, 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í kærumáli vegna slíkra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 1230/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi ákvarðana sem veita ekki heimild til þess að framkvæmdir hefjist. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Rétt er að benda á að samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Eyjafjarðarsveit samþykkti sveitarstjórn á fundi sínum 20. júní 2019, með stoð í hinu kærða deiliskipulagi, að veita framkvæmdaleyfi vegna vegtengingar, borunar eftir neysluvatni og breytinga á árfarvegi Finnastaðaár. Önnur leyfi munu ekki hafa verið veitt.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli hinna kærðu ákvarðana er hafnað.