Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

82/2018 Lónabraut

Árið 2019, fimmtudaginn 27. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 82/2018, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps frá 30. apríl 2018 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir strandblakvelli á lóðinni Lónabraut 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 11. júní 2018, kæra eigandi, Lónabraut 7, eigendur, Hafnarbyggð 25, eigendur, Hafnarbyggð 23, og eigendur, Hafnarbyggð 29, Vopnafirði,  þá ákvörðun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps frá 30. apríl 2018 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð strandblakvallar á lóðinni Lónabraut 4. Verður að skilja málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vopnafjarðarhreppi 26. júní 2018.

Málavextir: Skipulags- og umhverfisnefnd Vopnafjarðar samþykkti í ágúst 2015 umsókn Vopnafjarðarhrepps um heimild til að gera strandblakvöll á lóðinni Lónabraut 4. Framkvæmdin var grenndarkynnt fyrir íbúum í næsta nágrenni við völlinn í júní 2016. Í ágúst s.á. samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd að ljúka við framkvæmdir á núverandi stað og var afgreiðsla nefndarinnar samþykkt á fundi hreppsnefndar 1. september s.á. Ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 13. s.m., sem kvað upp úrskurð 20. desember 2016 í kærumáli nr. 125/2016, þar sem fyrrnefnd ákvörðun var felld úr gildi. Í niðurstöðu úrskurðarins segir að hvorki hafi verið fullnægt kröfum 3. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, um að sá sem óski framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum, né kröfum 3. tl. 2. mgr. og 3. mgr. 7. gr. nefndrar reglugerðar um nauðsynleg fylgigögn með umsókn um framkvæmdaleyfi. Samkvæmt því hafi undirbúningi hins kærða leyfis verið verulega áfátt og skilyrði því ekki til staðar fyrir veitingu þess.

Á fundi sveitarstjórnar 23. mars 2017 var fjallað um fyrirhugaðan strandblakvöll og samþykkt að vinna áfram í málinu samkvæmt leiðbeiningum byggingarfulltrúa. Hinn 29. s.m. óskaði sveitarstjóri eftir umsögn skipulags- og umhverfisnefndar vegna framkvæmdarinnar. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 5. febrúar 2018 var samþykkt að grenndarkynna framkvæmdina og fór hún í kynningu 20. s.m. Á fundi nefndarinnar 9. apríl s.á. var bókað um svör við athugasemdum er borist höfðu á kynningartíma og samþykkt að leggja til við sveitarstjórn að gefa út framkvæmdaleyfi. Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 30. apríl 2018 fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar frá 9. s.m. og að gefið yrði út framkvæmdaleyfi fyrir strandblakvelli á lóðinni Lónabraut 4. Hinn 7. maí s.á. tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi kærendum um ákvörðun sveitarstjórnar og gaf hann út framkvæmdaleyfi 28. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að grenndarkynning framkvæmdarinnar hafi verið ólögmæt. Þannig hafi hún verið send til of fárra og ekki innan einhverrar tiltekinnar fjarlægðar frá vellinum. Þannig hafi kynningin verið send íbúum öðrum megin við tiltekna götu en ekki hinum megin og ekki jafn langt í allar áttir. Þetta sé ekki samkvæmt reglum að mati skipulagsfræðings sem þau hafi leitað til. Kærendur hafi áhyggjur af sandfoki og eignatjóni vegna bolta og leikmanna sem komi til með að nálgast bolta sem fari út af vellinum og inn í garða. Nú þegar hafi hlotist tjón af boltum sem fari út fyrir girta lóð sparkvallar sem sé við fyrirhugaðan blakvöll.

Málsrök Vopnafjarðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að skipulags- og umhverfisnefnd hafi lagt mat á það hverjir gætu hugsanlega orðið fyrir grenndaráhrifum og hafi allir þeir fasteignaeigendur fengið kynninguna senda. Nefndin hafi ekki talið ástæðu til að senda fleiri aðilum kynninguna enda hafi ekki komið fram athugasemd frá aðila sem ekki hafi fengið send gögn um grenndarkynninguna varðandi það að þeir teldu að þeir ættu hagsmuna að gæta eða óskuðu eftir að koma á framfæri athugasemdum.

Varðandi áhrif framkvæmdarinnar sé vísað til samþykktar hreppsnefndar um mótvægisaðgerðir enda hafi það verið tekið með sem hluti af framkvæmdaleyfinu við útgáfu þess.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um framkvæmdaleyfi fyrir gerð strandblakvallar á lóðinni Lónabraut 4, sem samþykkt var af sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 30. apríl 2018.

Í 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Í 3. mgr. sömu greinar kemur fram að sá sem óskar framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skuli kveða á um í reglugerð. Þá skal sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir við útgáfu framkvæmdaleyfis, sbr. 4. mgr. 13. gr laganna.  Að lokum kemur fram í 5. mgr. 13. gr. að þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu, sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag varðandi landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Meðal gagna málsins er grenndarkynning strandblakvallar frá arkitektastofu frá því í janúar 2018. Er þar að finna lýsingu á framkvæmdinni, afstöðumynd, hnitsetta í mælikvarðanum 1:500, umfjöllun um skilgreiningu svæðisins í Aðalskipulagi Vopnafjarðar 2006-2026 ásamt yfirlitsmynd af svæðinu úr þéttbýlisuppdrætti aðalskipulagsins. Fram kemur í útgefnu framkvæmdarleyfi að meðal framlagðra gagna sé umsókn um framkvæmdaleyfi frá 29. mars 2017. Nefnt gagn er bréf sveitarstjóra til skipulags- og umhverfisnefndar þar sem óskað er eftir umsögn nefndarinnar vegna veitingar framkvæmdaleyfisins. Verður því ekki ráðið hvaða gagn lá til grundvallar sem umsókn fyrir umþrættu framkvæmdaleyfi. Þykir annmarki þessi þó ekki vera þess eðlis að leiða beri til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar enda lágu fyrir gögn um umfang og eðli framkvæmdarinnar.

Á fundi sveitarstjórnar 30. apríl 2018, þar sem samþykkt var að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir strandblakvellinum, var ekki vikið að því hvort framkvæmdin væri í samræmi við skipulagsáætlanir. Í grenndarkynningu þeirri sem lá til grundvallar samþykkt sveitarstjórnar er rakið að lóðin sé á svæði sem skilgreint sé sem „Svæði fyrir þjónustustofnanir“ og að nálægð vallarins við núverandi mennta- og þjónustustofnanir auki notagildi hans. Þá segir í útgefnu framkvæmdaleyfi að framkvæmdir skuli að öllu leyti vera í samræmi við Aðalskipulag Vopnafjarðarhrepps 2006-2026. Þrátt fyrir að sveitarstjórn hafi ekki með berum orðum tekið afstöðu til samræmis framkvæmdarinnar við skipulagsáætlanir verður að líta svo á, eins og atvikum máls þessa er háttað, að hún hafi í reynd tekið afstöðu til þess þegar hún samþykkti útgáfu framkvæmdaleyfisins.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga getur sveitarstjórn eða sá aðili sem hefur heimild til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi framkvæmdaleyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Fjallað er um framkvæmd grenndarkynningar í 2. mgr. 44. gr. Þar kemur fram að grenndarkynning felist í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta leyfisumsókn og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar. Fjallað er um hagsmunaaðila við grenndarkynningu í gr. 5.9.3. í skipulagsreglugerð nr. 30/2013. Þar segir að skipulagsnefnd skuli leggja mat á hverjir geti talist hagsmunaaðilar. Hvorki í skipulagslögum né skipulagsreglugerð er gerð sú krafa að grenndarkynning nái jafnlangt í allar áttir. Teikningar af fyrirhuguðum strandblakvelli og umsókn framkvæmdaleyfis voru sendar eigendum 24 lóða í nágrenni við Lónabraut 4. Miðað við fyrirliggjandi gögn og með hliðsjón af eðli umþrættrar framkvæmdar virðist sem öllum þeim sem hagsmuna áttu að gæta hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um framkvæmdina.

Á fundi sveitarstjórnar 30. apríl 2018 var bókað um mótvægisaðgerðir til að koma til móts við sjónarmið nágranna er gerðu athugasemdir við framkvæmdina. Mótvægisaðgerðir þessar eru hluti framkvæmdaleyfisins og eru þríþættar. Í fyrsta lagi að sandur sem notaður verði í völlinn sé sambærilegur sandi sem notaður sé í slíka velli um allt land og sé samþykktur af Blaksambandi Íslands. Sá sandur skuli hafa lítið fokgildi. Í öðru lagi að breitt verði yfir völlinn við ákveðnar aðstæður og sé það gert til að hindra enn frekar að sandur berist frá vellinum. Í þriðja lagi verði leitast við, eins og hægt sé, að mæta sjónarmiðum íbúa varðandi skerðingu á útsýni við frekari hönnunarvinnu. Þá verði einnig haft samráð við nágranna um lokafrágang framkvæmdar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinu kærða framkvæmdaleyfi sem leiða eiga til ógildingar þess og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps frá 30. apríl 2018 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð strandblakvallar á lóðinni Lónabraut 4.