Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

56/2018 Gagnheiði

Árið 2019, föstudaginn 28. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 56/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir ÞGÁ trésmíði slf., eigandi fasteignarinnar að Gagnheiði 19, Selfossi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 19. mars 2018 að leggja fyrir kæranda að fjarlægja tengibyggingu við hús hans að því marki sem hún nær inn fyrir sökkul húss að Gagnheiði 17. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 14. maí 2018.

Málsatvik og rök: Hinn 19. mars 2018 lagði byggingarfulltrúi Árborgar fyrir kæranda að fjarlægja tengibyggingu milli húss hans að Gagnheiði 19 og Gagnheiðar 17 að því marki sem tengibyggingin færi inn fyrir sökkul húss sem veitt hafði verið byggingarleyfi til að endurreisa  á lóðinni Gagnheiði 17.

Kærandi bendir á að útveggur sá sem hafi verið á húsinu að Gagnheiði 17, sem hafi orðið eldi að bráð, hafi verið gaflveggur á tengibyggingu kæranda. Hafa verði í huga að eignin með fastanúmerinu 229-0097 hafi verið skeytt við Gagnheiði 17. Gaflveggur tengigangs og Gagnheiðar 17 sé í eigu kæranda. Um sé að ræða eign sem kærandi hafi eignast með kaupsamningi og afsali á árunum 2005-2006. Þar komi efnislega fram að ytra byrði hússins, þak, gaflar, sökklar o.fl. séu sameign. Með hliðsjón af því sé ljóst að sökklar séu í sameign lóðarhafa Gagnheiðar 17 og kæranda.

Bæjaryfirvöld benda á að óumdeilt sé að tengibyggingin, sem hafi verið byggð án samráðs við eiganda Gagnheiðar 17, hafi verið byggð inn á byggingarreit Gagnheiðar 17 enda nái hún inn fyrir sökkul. Í ljósi þessa hafi eiganda tengibyggingar milli Gagnheiðar 17 og 19 verið gert að fjarlægja hana að því marki sem hún nái inn fyrir sökkul mannvirkis að Gagnheiði 17.

Niðurstaða: Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í veðbandsyfirliti frá Þjóðskrá Íslands hafa orðið eigendaskipti að umræddri tengibyggingu milli fasteignar kæranda að Gagnheiði 19 og Gagnheiðar 17. Í afsali, þinglýstu 29. mars 2019, lýsti kærandi Sveitarfélagið Árborg réttan og lögmætan eiganda tengibyggingarinnar sem stendur á lóðinni Gagnheiði 17. Upplýst hefur verið af hálfu Sveitarfélagsins Árborgar að nefnd tengibygging hafi þegar verið fjarlægð á vegum sveitarfélagsins og hafi því hinni kærða ákvörðun ekki verið fylgt eftir gagnvart kæranda. Muni sveitarfélagið ekki gera frekari kröfur um þvingunaraðgerðir vegna tengibyggingarinnar.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Lögvarðir hagsmunir kæranda í máli þessu voru tengdir réttarstöðu hans sem eiganda áðurnefndrar tengibyggingar og skyldu þeirri sem á hann var lögð sem eiganda að fjarlægja hluta hennar. Liggur nú fyrir að Sveitarfélagið Árborg varð eigandi tengibyggingarinnar samkvæmt áðurgreindu afsali og lét síðan fjarlægja hana.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir að kærandi eigi lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.