Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2011 Úrskurður vegna kæru Jóns Inga Cæsarssonar gegn Akureyrarkaupstað vegna framkvæmdar sorphirðu.

Með

Mál nr. 17/2011.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, fimmtudaginn 10. nóvember, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2011 Jón Ingi Cæsarsson,  Ránargötu 30, Akureyri gegn Akureyrarkaupstað.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 26. júlí 2011, kærði Jón Ingi Cæsarsson (hér eftir nefndur kærandi) framkvæmd sorphirðu af hálfu Akureyrarkaupstaðar (hér eftir nefndur kærði), sem feli í sér ?að láta fólk ganga með heimilisúrgang í gámastöðvar.? Kærði krefst þess aðallega að kæru málsins verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfu kæranda verði hafnað, hvort tveggja vegna þess að kærandi byggi mál sitt á reglum sem gildi ekki fyrir Akureyrarkaupstað.

II. Málsmeðferð

Kærandi málsins beindi kæru sinni til umhverfisráðuneytisins sem framsendi erindið úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi, dags. 17. ágúst 2011. Kæran byggir á kæruheimild í 1. mgr. 39. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 22. ágúst 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 29. ágúst 2011. Úrskurðarnefndin kynnti kæranda greinargerð kærða og gaf honum kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum af sinni hálfu. Auk þess fór úrskurðarnefndin þess á leit að kærandi gerði nefndinni grein fyrir hvort samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Akureyrarkaupstað nr. 670/2011 breytti á einhvern hátt umkvörtunarefni hans. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 12. september 2011 og voru þær kynntar fyrir kærða með bréfi, dags. 15. september 2011. Frekari gögn hafa ekki borist.

III. Málstæður og rök kæranda

Í kæru kveðst kærandi hafa verið gagnrýninn á þann hluta úrgangsmála á Akureyri sem gangi út á að láta fólk ganga með heimilisúrgang í gámastöðvar og það í sumum tilvikum langa leið. Heldur kærandi því fram að þar með sé brotið ákvæði í samþykktum sveitarfélaga um fyrirkomulag sorphirðu. Kveður kærandi það vera sitt mat að ekkert undanþáguatriði sé í reglugerð sem heimili Akureyrarkaupstað að víkjast undan að sækja allan heimilisúrgang að heimilum og þar með telji hann að notkun og uppsetning gámastöðva í hverfum bæjarins sé brot á reglum bæjarins og annarra sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Vísar kærandi í kæru sinni til 3. gr. samþykktar um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra nr. 541/2000.

Í athugasemdum við greinargerð kærða kveður kærandi að þær reglur sem hann hafi vísað til hafi verið á heimasíðu Akureyrarkaupstaðar sem fullgilt gagn í ágúst 2011. Hann kveður að það fyrirkomulag að íbúar bæjarins hafi verið skikkaðir til að fara með hluta af úrgangi á gámastöðvar hafi ríkt frá því seinni hluta árs 2010 og því hafi íbúar mánuðum saman verið að framkvæma gjörning sem hafi verið óheimill. Einnig kveður kærandi að íbúum á Akureyri hafi verið gróflega mismunað því öll sveitarfélög sem tekið hafi upp flokkunarfyrirkomulag á Íslandi bjóði upp á tunnu við heimahús þar sem flokkaður úrgangur sé sóttur að heimilum fólks. Það að skikka fólk til að fara verulegar vegalengdir með úrgang sinn í flokkunarstöðvar dragi úr árangri flokkunar, auki mengun og slysahættu og sé því veruleg skerðing á þeim möguleikum sem umhverfi og náttúra njóti með flokkun úrgangs. Þá kveður kærandi að íbúar sem vilji flokka við heimahús eigi þann kost að leigja sér tunnu til að hafa við heimili sitt en því fylgi verulegur viðbótarkostnaður sem bætist við úrgangsgjald sem bærinn leggi á íbúana.

IV. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að árið 2000 hafi verið sett samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, nr. 541/2000 og hafi samþykktin gilt um Byggðasamlög um sorpeyðingu og sveitarsjórnir þeirra sveitarfélaga sem ekki voru aðilar að slíkum byggðasamlögum. Akureyrarkaupstaðar hafi á þeim tíma verið í Sorpeyðingu Eyjafjarðar bs., en hafi sagt sig úr byggðasamlaginu árið 2007 og það sama ár hafi verið ákveðið að slíta því. Þá segir í greinargerðinni að þann 26. apríl 2011 hafi umhverfisráðuneytið samþykkt breytingu á samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra nr. 541/2000 þess efnis að heiti samþykktarinnar varð ?Samþykkt um sorphirðu eftirtalinna sveitarfélaga á Norðurlandi eystra: Dalvíkurbyggðar, Hörgárbyggðar, Eyjafjarðarsveitar, Svalbarðsstrandarhrepps, Grýtubakkahrepps, Þingeyjarsveitar, Skútustaðahrepps, Norðurþings, Tjörneshrepps og Svalbarðshrepps?. Akureyrarbær sé því ekki lengur aðili að þeirri samþykkt sem kærandi vísi til og sem kærandi telji kærða vera að brjóta með sorpfyrirkomulagi sínu.

Þá segir í greinargerðinni að samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Akureyrarkaupstað, nr. 670/2011, hafi verið samþykkt í bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar þann 19. október 2011 [innskot: á að vera 2010], staðfest af ráðherra 22. júní 2011 og birt í Stjórnartíðindum þann 6. júlí 2011. Með hinni nýju samþykkt hafi verið gerð sú breyting að Akureyrarkaupstaður sjái um söfnun og meðhöndlun heimilisúrgangs frá heimilum í sveitarfélaginu og sjái til þess að reknar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir almennan neysluúrgang, annan en hefðbundinn heimilisúrgang.

V. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 5. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 er kveðið á um að sveitarstjórn skuli ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í viðkomandi sveitarfélagi. Enn fremur er þar kveðið á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skuli sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem falli til í sveitarfélaginu. Jafnframt að sveitarstjórn geti sett sveitarfélaginu sérstaka samþykkt þar sem tilgreind séu atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem greinir í lögum um meðhöndlun úrgangs og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þá er tekið fram að í slíkri samþykkt sé m.a. heimilt að kveða á um skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang.

Um gerð og staðfestingu samþykkta um meðhöndlun úrgangs fer samkvæmt 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunavarnir nr. 7/1998. Í 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er m.a. kveðið á um að sveitarstjórnum sé heimilt að setja sér eigin samþykkt sem varði meðferð úrgangs og skolps. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. sömu laga skal heilbrigðisnefnd semja drög að samþykktum og leggja fyrir viðkomandi sveitarstjórn sem afgreiðir þau í formi samþykktar til ráðherra. Samkvæmt 4. mgr. 25. gr. sömu laga skulu samþykktir sveitarfélaga birtar í B-deild Stjórnartíðinda á kostnað hlutaðeigandi sveitarfélaga.

Í málatilbúnaði sínum vísar kærandi til 3. gr. samþykktar um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og heldur því fram að kærði hafi brotið gegn þeirri samþykkt. Kærði var um tíma eitt þeirra sveitarfélaga sem var aðili að samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Í dag er málum hins vegar háttað á annan veg og hefur verið sett sérstök samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Akureyrarkaupstað. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til að sú samþykkt hafi ekki verið sett með lögformlegum hætti samkvæmt framangreindum ákvæðum 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, en hún var samþykkt af hálfu umhverfisráðuneytisins þann 22. júní 2011 og birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 6. júlí 2011.

Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Akureyrarkaupstað nr. 670/2011 tók gildi við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda þann 6. júlí 2011 og var hún því í gildi þegar kæra barst frá kæranda máls þessa. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. þeirrar samþykktar skal setja úrgang sem fellur til daglega við venjulegt heimilishald í sorpílát sem nánar er fjallað um í 8. gr. samþykktarinnar. Gera verður ráð fyrir að því ákvæði hafi verið fylgt enda hefur öðru ekki verið haldið fram og af málatilbúnaði kæranda verður ekki ráðið að hann telji kærða hafa brotið gegn gildandi samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Akureyrarkaupstað. Af þeim sökum sér úrskurðarnefndin sér ekki annað fært en að vísa kæru máls þessa frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru Jóns Inga Cæsarssonar varðandi sorphirðu í Akureyrarkaupstað er vísað frá úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal Arndís                        Soffía Sigurðardóttir

Date: 11/21/11

13/2011 Úrskurður vegna kæru I.Á. hönnunar ehf. gegn Orkuveitu Reykjavíkur vegna ákvörðunar um álagningu fráveitugjalds á fasteign við Krókatún 22-24, Akranesi.

Með

Mál nr. 13/2011.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, mánudaginn 14. nóvember, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2011 I.Á. hönnun ehf., Sóleyjargötu 14, Akranesi gegn Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1, Reykjavík.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 8. júní 2011, kærði Ólafur Hvanndal Ólafsson, hdl., f.h. I.Á. hönnunar ehf. (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur (hér eftir nefnd kærði) um álagningu fráveitugjalds á 2.434 fermetra fasteign við Krókatún 22-24, Akranesi (fastanúmer 210-1212).

Kærandi gerir þá kröfu aðallega að álagning fráveitugjalds á umrædda fasteign verði felld niður. Til vara krefst kærandi þess að álagning fráveitugjalds verði lækkuð og hún miðuð við 751,5 fermetra fasteign. Kærði telur að hafna beri kröfum kæranda og staðfesta hina kærðu ákvörðun um álagningu fráveitugjalds.

II. Málsmeðferð

Kærandi málsins beindi kæru sinni til umhvefisráðuneytisins, sem framsendi erindið úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi, dags. 20. júní 2011. Barst kæran úrskurðarnefndinni þann 21. júní 2011 og byggir hún á kæruheimild í 22. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Meðfylgjandi kæru voru álagningarseðill vegna vatns- og fráveitugjalda 2011, bréf kæranda til kærða, dags. 14. mars 2011 vegna innheimtu fráveitugjalds og svarbréf kærða til kæranda, dags. 29. mars 2011. Enn fremur fylgdi kærunni umboð frá Lýsingu hf., sem er þinglýstur eigandi fasteignarinnar. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 21. júní 2011, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum með greinargerð, dags. 21. júlí 2011. Greinargerð kærða var kynnt kæranda með bréfi, dags. 11 ágúst 2011. Sendi kærandi úrskurðarnefndinni athugasemdir, dags. 30. ágúst 2011, við greinargerð kærða. Voru athugasemdir kæranda kynntar kærða með bréfi, dags. 6. september 2011 og sendi kærði athugasemdir af sinni hálfu, dags. 8. september 2011. Í október 2011 var af hálfu úrskurðarnefndarinnar haft samband við lögmann kæranda og honum veitt tækifæri til að leggja fram gögn til staðfestingar á fullyrðingum í málatilbúnaði kæranda þess efnis að hluti húseigna á lóðinni Krókatúni 22-24, Akranesi, væri ekki tengdur fráveitu kærða. Þau svör bárust frá kæranda að hann gæti ekki lagt fram skrifleg gögn þess efnis. Úrskurðarnefndin fór þess á leit, með bréfi dags. 1. nóvember 2011, að kærði gerði úrskurðarnefndinni sérstaka grein fyrir afstöðu sinni til fullyrðinga kæranda um að hluti húseigna á lóðinni Krókatúni 22-24, Akranesi, væri tengdur annarri fráveitu en fráveitu sveitarfélagsins. Jafnframt fór úrskurðarnefndin þess á leit að kærði sendi nefndinni teikningar, ef til væru, sem sýndu fráveitulagnir frá umræddum húsum. Umbeðin gögn bárust 8. nóvember 2011.

III. Málsavik

Kærandi leigir fasteignina Krókatún 22-24, Akranesi, fastanúmer 210-1212, af Lýsingu hf. samkvæmt fjármögnunarleigusamningi og er greiðandi lögbundinna gjalda vegna hennar. Á lóðinni Krókatúni 22-24 munu, samkvæmt gögnum málsins, vera fjögur samtengd hús sem eru skilgreind í Fasteignaskrá Íslands sem iðnaðarhús 1018,4 fermetrar að stærð, renniverkstæði 233,1 fermetri að stærð, rafmagnsverkstæði/lager sem er 435,2 fermetrar að stærð og iðnaður sem er 751,4 fermetrar að stærð. Í janúar 2011 sendi kærði út álagningu fráveitugjalds vegna 2.434,3 fermetra húseignar á lóðinni Krókatúni 22-24 að fjárhæð 488.918 kr. Kærandi gerði athugasemdir við álagningu fráveitugjalda á framangreinda fasteign, auk annarra fasteigna, í bréfi til kærða, dags. 14. mars 2011. Kærði svaraði athugasemdum kæranda með bréf, dags. 29. mars 2011, þar sem m.a. kom fram sú afstaða að álagning fráveitugjalds vegna fasteignarinnar Krókatúns 22-24 væri í samræmi við lög um fráveitur.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi beint erindi til kærða í kjölfar álagningar fráveitugjalda á nokkrar fasteignir á Akranesi, þar sem hann taldi það orka tvímælis að greiða bæri fráveitugjöld á grundvelli álagningar. Byggði kærandi á því að lagnakerfið sem flytti frárennsli frá fasteignunum væri hvorki í eigu sveitarfélagsins Akraness né kærða, heldur væri það að mestu í eigu félaga sem ættu eða hefðu umráð viðkomandi fasteigna. Kvað kærandi að umrætt lagnakerfi flytti frárennsli frá viðkomandi fasteignum beint út í miðlunarlón án þess að tengjast fráveitu kærða.

Í kærunni segir að í 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 sé kveðið á um að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Enn fremur sé í 4. mgr. 14. gr. sömu laga kveðið á um að gjöld skuli ákveðin í gjaldskrá. Þá bendir kærandi á að í 9. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga nr. 982/2010 komi fram að heimilt sé að setja sérstaka gjaldskrá innan fráveitusvæðis fyrir einstök hús eða þyrpingu húsa, sem ekki séu tengd fráveitukerfinu en njóti þjónustu fráveitu sveitarfélagsins, og að í slíkum tilvikum skuli gjald miðast við áætlaðan raunkostnað við þjónustuna.

Kærandi heldur því fram að aðeins hluti af fasteigninni Krókatúni 22-24 sé tengdur fráveitu kærða. Hann bendir á að álagningarseðill kærða beri með sér að álagt fráveitugjald sé miðað við heildarstærð fasteignarinnar eða 2.434 fermetra en aðeins lítill hluti fasteignarinnar sé tengdur fráveitu kærða, þ.e. 751,5 fermetra viðbygging. Heldur kærandi því fram að eldri hlutar bygginga séu ekki tengdir fráveitu kærða heldur lagnakerfi í eigu félaga sem eigi fasteignina eða hafi umráðarétt að henni. Kveðst kærandi telja að það sé ekki í samræmi við lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna að taka fullt fráveitugjald fyrir fasteignina sem mál þetta varðar. Réttara sé að miða fráveitugjald vegna fasteignarinnar við fermetrafjölda viðbyggingarinnar og leggja eingöngu á fráveitugjöld fyrir þann hluta fasteignarinnar sem tengdur sé fráveitu kærða. Vísar kærandi í þessu sambandi til framangreindrar 9. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga og kveðst telja rétt að gjaldtaka vegna umræddrar fasteignar verði felld niður eða eftir atvikum lækkuð.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða hafnar kærandi túlkun kærða á 9. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga og heldur því fram að samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að setja sérstaka gjaldskrá fyrir einstök hús eða þyrpingu húsa sem ekki séu tengd fráveitukerfi sveitarfélags. Þá ítrekar kærandi að aðeins eitt af fjórum húsum á lóðinni Krókatúni 22-24 sé tengt fráveitukerfi kærða og sé þar um að ræða 751,4 fermetra iðnaðarhús. Heldur kærandi því fram að það að eitt húsa á lóðinni sé tengt fráveitukerfi kærða eigi ekki að leiða til þess að kærða sé stætt á að miða álagningu fráveitugjalda við heildarflatarmál allra húsa á lóðinni og þar með innheimta fráveitugjöld af þremur húsum sem séu samtals 1.686,7 fermetrar og ótengd fráveitu kærða.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 eigi eigandi eða rétthafi lóðar við götu, gönguleið eða opið svæði þar sem fráveitulögn liggi, rétt á að fá tenginu við fráveitukerfi. Þá segir að samkvæmt 2. mgr. 12. gr. sömu laga sé eigendum húseigna þar sem fráveita liggi skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Enn fremur segir að lagaskylda framangreindrar 1. mgr. 11. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna hafi verið uppfyllt með því að lóðin Krókatún 22-24 sé tengd við fráveitukerfið og tekið fram að lagning heimæða innan lóðar sé á ábyrgð eiganda fasteignarinnar.

Í greinargerðinni segir jafnframt að samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna sé heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Þrátt fyrir að einstakar fasteignir eða matshlutar á lóðinni kunni að vera ótengdar fráveitu eða frárennsli veitt annað en í fráveitukerfi, veiti það ekki undanþágu frá greiðsluskyldu samkvæmt lögunum, enda séu lagnir og tengingar innan lóðar á ábyrgð fasteignareiganda en ekki fráveitu. Þá segir að kærði telji að 9. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga eigi ekki við í hinu kærða tilviki, þar sem ákvæðið eigi við fasteignir sem ekki séu tengdar fráveitukerfi en njóti samt sem áður þjónustu fráveitu sveitarfélagsins, t.d. við hreinsun rótþróa. Fasteignin Krókatún 22-24 sé hins vegar tengd fráveitukerfi Akraness.

Í athugasemdum sem bárust frá kærða, dags. 8. september 2011, er ítrekaðar tilvísanir í 1. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna og ítrekuð sú afstaða að ákvæði 9. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga eigi ekki við í hinu kærða tilviki þar sem óumdeilt sé að fasteignin Krókatún 22-24 sé tengd fráveitukerfi Akraness.

Í svari kærða við beiðni úrskurðarnefndarinnar um að kærði taki afstöðu til fullyrðinga kæranda um að hluti húseigna á lóðinni Krókatúni 22-24, Akranesi, sé tengdur annarri fráveitu en fráveitu sveitarfélagsins, kemur m.a. fram að samkvæmt mynd, sem fylgdi svarinu, „virðist hluti frárennslis frá húsinu, þ.e. frá þvottahúsi, leitt út í sjó“. Síðan segir að hins vegar sé ekkert því til fyrirstöðu af hálfu kærða að veita frárennsli frá þvottahúsinu út í kerfi kærða eins og gert sé með annað frárennsli frá húsinu.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í máli þessu er deilt um álagningu fráveitugjalds á 2.434 fermetra húseign á lóðinni Krókatúni 22-24 á Akranesi. Samkvæmt gögnum málsins samanstendur umrædd húseign af fjórum samtengdum húsum sem ætluð eru til atvinnurekstrar.

Lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 hafa í II. kafla að geyma ákvæði sem varða fráveitur sveitarfélaga, en í III. kafla þeirra eru ákvæði sem varða aðrar fráveitur. Ákvæði um gjaldtöku eru í V. kafli laganna og varðar 14. gr., fráveitugjald. Í 1. mgr. 14. gr. er kveðið á um að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags.

Í frumvarpi til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi Alþingis, var lagt til að 1. mgr. 14. gr. laganna heimilaði að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar væru eða gætu tengst fráveitu sveitarfélags.

Í nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna segir að fram hafi komið ábending um að orðalag 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins væri of víðtækt með því að heimila innheimtu fráveitugjalds af fasteignum sem gætu tengst fráveitu. Tók nefndin undir ábendinguna og lagði til þá orðalagsbreytingu að heimildin næði til fasteigna sem væru tengdar eða myndu tengjast fráveitu sveitarfélags. Voru lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna samþykkt með því orðalagi.

Í framangreindu nefndaráliti segir jafnframt að ákvæðum frumvarps til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna um gjaldtöku sé ætlað að tryggja að gjaldheimta sé í samræmi við þá þjónustu sem veitt sé.

Í 10. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga nr. 982/2010, sem sett var með stoð í 21. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, er kveðið á um fráveitugjald. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum, þ.m.t. óbyggðum lóðum sem tengdar séu, muni tengjast fráveitu sveitarfélags eða njóti þjónustu hennar.

Í 1. tölulið 3. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna er frárennsli skilgreint sem rennsli frá mannvirkjum, götum, lóðum, gönguleiðum eða opnum svæðum, svo sem ofanvatn og/eða skólp og vatn frá upphitunarkerfum mannvirkja sem veitt sé í fráveitur.

Skilgreiningu á fráveitu er að finna í 2. tölulið 3. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna þar sem segir:

„Leiðslukerfi og búnaður til meðhöndlunar og hreinsunar skólps. Til fráveitu telst allt lagnakerfi sem flytur frárennsli frá heimilum, stofnunum, atvinnufyrirtækjum, götum, gönguleiðum, lóðum og opnum svæðum, svo sem tengingar við einstakar fasteignir, niðurföll, svelgir, brunnar, safnkerfi, tengiræsi, sniðræsi, stofnlagnir, yfirföll og útræsi. Til fráveitu teljast einnig öll mannvirki sem reist eru til meðhöndlunar eða flutnings á frárennsli, svo sem hreinsivirki, dælu- og hreinsistöðvar og set- og miðlunartjarnir.“

Fyrir liggur í gögnum málsins að kærandi sendi kærða erindi í mars 2011 þar sem óskað var niðurfellingar fráveitugjalda vegna húseigna þeirra sem mál þetta varðar, svo og annarra tilgreindra húseigna á Akranesi. Byggði kærandi á því í erindinu að langakerfi sem flytti frárennsli frá viðkomandi húseignum væri í eigu þeirra sem hefðu umráð húseignanna og flytti það lagnakerfi frárennsli frá húseignunum beint út í miðlunarlón án þess að tengjast fráveitu kærða. Féllst kærði á erindi kæranda varðandi fasteignir á tveimur tilteknum lóðum en hafnaði því varðandi fasteignir á tveimur öðrum tilteknum lóðum, þ. á m. þeirri lóð sem húseignir þær sem mál þetta varðar standa á.

Kærandi heldur því fram að þrjú af þeim fjórum samtengdu húsum, sem standa á lóðinni Krókatúni 22-24, séu ekki tengd fráveitu kærða og er viðurkennt af hálfu kærða að svo virðist sem hluti frárennslis frá húsunum sé ekki leitt í fráveitu kærða. Heldur kærði því hins vegar fram að þó vera kunni að á lóð, sem sé tengd fráveitukerfi sveitarfélags, séu einstakar fasteignir eða matshlutar sem séu ótengdir fráveitu eða frárennsli frá þeim veitt annað en í fráveitukerfi, veiti það ekki undanþágu frá greiðsluskyldu fráveitugjalds. Vísar kærði í málatilbúnaði sínum til 1. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Þar er annars vegar kveðið á um að eigandi eða rétthafi lóðar við götu, gönguleið eða opið svæði þar sem fráveitulögn liggi eigi rétt á að fá tengingu við fráveitukerfi og hins vegar að eigendum húseigna þar sem fráveita liggi sé skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi.

Samkvæmt gögnum málsins má ætla að kærði hafi uppfyllt lagaskyldu sína samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Þá hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa að kærandi hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna þó frárennsli hluta húseignar hans sé ekki tengt fráveitu kærða. Snýst ágreiningur máls þessa þess í stað um það hvort frárennsli frá hluta húseigna á viðkomandi lóð sé tengt eða muni tengjast fráveitu viðkomandi sveitarfélags, þ.e. fráveitu kærða og þar með hvort heimilt sé að innheimta fráveitugjald vegna þeirra samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

Úrskurðarnefndin telur að í tilviki því sem hér er til úrlausnar, þar sem fyrir liggur að húseign er a.m.k. að hluta tengd annarri fráveitu en fráveitu sveitarfélags, megi ljóst vera að sá hluti húseignarinnar sé hvorki tengdur fráveitu sveitarfélagsins né fyrirsjáanlegt að hann muni tengjast því fráveitukerfi og þ.a.l. verði ekki lagt á þann hluta húseignarinnar fráveitugjald.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að heimvísa skuli málinu til nýrrar álagningar fráveitugjalds og skal við álagningu miðað við hve stór hluti húseigna á lóðinni Krókatúni 22-24, Akranesi, sé tengdur fráveitu kærða.

Úrskurðarorð:

Málinu er heimvísað til nýrrar álagningar fráveitugjalds og skal álagningin miðast við hve stór hluti húseigna á lóðinni Krókatúni 22-24, Akranesi, sé tengdur fráveitu Orkuveitu Reykjavíkur.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal Arndís                       Soffía Sigurðardóttir

Date: 11/21/11

14/2011 Úrskurður vegna kæru íbúa á Akureyri gegn Akureyrarkaupstað vegna setningar samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011.

Með

Mál nr. 14/2011.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, fimmtudaginn 10. nóvember, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2011 íbúi á Akureyri gegn Akureyrarkaupstað.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 29. júní 2011, kærði íbúi (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Akureyrarkaupstaðar (hér eftir nefndur kærði), sem fólst í setningu samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011, sem m.a. hefur að geyma ákvæði sem bannar hundahald í Grímsey. Kærandi krefst þess að ákvæði það sem bannar hundahald í Grímsey verði úrskurðað ógilt og heldur því fram að ekki hafi verið gætt að skilyrðum laga og góðrar stjórnsýslu við setningu samþykktarinnar. Kærði krefst þess aðallega að kæru málsins verði vísað frá úrskurðarnefndinni vegna óskýrleika krafna kæranda og/eða skorts á lögvörðum hagsmunum hans. Til vara krefst kærði þess að kröfu kæranda verði hafnað vegna aðildarskorts og/eða sökum þess að ákvæði í samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað, sem banni hundahald í Grímsey, sé lögmætt og málefnalegt og hafi auk þess hlotið löglegu meðferð.

II. Málsmeðferð

Kæra málsins er dagsett 29. júní 2011 og byggir hún á kæruheimild í 4. mgr. 19. gr. samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Í kæru gerir kærandi grein fyrir að hann hafi einnig sent bréf til umhverfisráðuneytisins og sé innihald þess í megindráttum sama efnis og kæran. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 14. júlí 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 11. ágúst 2011. Úrskurðarnefndin kynnti kæranda greinargerð kærða og gaf honum kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum af sinni hálfu. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 2. september 2011. Úrskurðarnefndin kynnti athugasemdir kæranda fyrir kærða með bréfi, dags. 9. september 2011. Þann 16. september 2011 barst tölvupóstur frá kærða þar sem áréttuð voru þau sjónarmið sem kærði hafði gert grein fyrir í greinargerð sinni og tekið fram að ekki yrðu gerðar frekari athugasemdir af hans hálfu.

III. Málsatvik

Akureyrarkaupstaður og Grímseyjarhreppur sameinuðust í eitt sveitarfélag 1. júní 2009. Við sameiningu sveitarfélaganna var í gildi samþykkt um hundahald á Akureyri nr. 360/2001. Formleg ákvörðun um hundahald í Grímsey liggur ekki fyrir meðal gagna málsins, en af gögnum má draga þá ályktun að það hafi verð útbreidd vissa manna að hundahald væri bannað í eynni. Þann 28. mars 2011 birtist í B-deild Stjórnartíðinda samþykkt um hundahald í hinu sameinaða sveitarfélagi, nr. 321/2011, sem samþykkt hafði verið í umhverfisráðuneytinu 14. mars 2011. Í samþykktinni segir í 2. gr. að hundahald sé bannað í Grímsey og þar megi hundar hvorki dvelja né koma í heimsóknir, en hundahald sé heimilað annars staðar í Akureyrarkaupstað að fengnu leyfi og að uppfylltum skilyrðum samþykktarinnar.

IV. Málstæður og rök kæranda

Í kæru gerir kærandi grein fyrir því að hann telji að kærði hafi gróflega brotið gegn rétti hans til þess að eiga hund og ferðast um Ísland. Kveður kærandi konu sína vera frá Grímsey og þar eigi þau fjölskyldu og vini, sem þau heimsæki að jafnaði nokkrum sinnum á ári og dvelji hjá m.a. á stórhátíðum og í sumarleyfum. Þá kveður kærandi að hundur hans hafi alltaf komið með í Grímseyjarferðirnar og þá ávallt verið í taumi eða bíl og aldrei til vandræða. Vegna banns við hundahaldi í Grímsey, sem feli í sér að þar megi hundar hvorki dvelja né koma í heimsóknir, sé komin upp sú staða eða ekki sé lengur hægt að heimsækja fjölskylduna með sama hætti og áður.

Kærandi heldur því fram að bann við hundahaldi í Grímsey brjóti gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og heldur því fram að erfitt sé að sjá hvers vegna ekki nægi að hafa sömu reglur í Grímsey og á Akureyri, þar sem lausaganga hunda sé bönnuð. Þá óskar kærandi eftir að tekið sé á því hvort með framangreindu banni hafi verið brotið gegn jafnræðisreglum. Hann kveður að ekki sé að sjá að sambærilegt bann sé í gildi í öðrum sveitarfélögum og heldur því jafnframt fram að bann við hundum í fjölbýlishúsum sé ekki sambærilegt við það að banna gestkomandi hunda í heilu bæjarfélagi.

Þá heldur kærandi því fram að í aðdraganda kosninga um hundahald í Grímsey hafi kosningin verið kynnt sem könnun á afstöðu eyjaskeggja til ?áframhaldandi? banns við hundahaldi. Af hálfu bæjarfulltrúa hafi því verið haldið fram að kosningin væri fyrst og fremst hugsuð sem könnun en ekki væri ætlunin að láta hana ráða tilhögun hundabanns af eða á. Kærandi kveðst telja að kærði hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að kynna málið með viðunandi hætti, auk þess sem kærði hafi ranglega haldið því fram að bann við hundahaldi hafi verið í gildi í Grímsey í 50 ár. Heldur kærandi því fram að ákvörðun um eldra bann hafi hvorki verið auglýst né samþykkt með lögformlegum hætti og því sé rangt að halda því fram að ekki sé um nýtt bann við hundahaldi í Grímsey að ræða.

Kærandi vísar til ákvæðis 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og kveðst telja að sveitarfélögum og ráðherra sé óheimilt að takmarka eða banna gæludýrahald hafi umsagnar Umhverfisstofnunar ekki verið leitað.

Þá gerir kærandi í kæru sinni ýmsar athugasemdir við vinnubrögð kærða, m.a. að kærði svari ekki skriflegum erindum frá kæranda.

Í athugasemdum við greinargerð kærða segir kærandi, vegna frávísunarkröfu kærða: ?Það er ekkert óskýrt við að benda á að meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin með þeirri lögleysu sem tók gildi með auglýsingu Nr. 321/2011 í B-Stjórnartíðindum. Sömuleiðis er ekkert óskýrt þegar bent er á að Akureyrarbær hafi ekki gætt jafnræðis þegna sinna með setningu þessarar samþykktar um hundahald?. Þá kveðst kærandi í athugasemdunum ekki eingöngu fara fram á að 1. mgr. 2. gr. framangreindrar samþykktar verði úrskurðuð ógild, því frá upphafi hafi verið ljóst að samþykktin í heild væri stórgölluð og ekki í samræmi við góða stjórnsýslu. Það að banna gestkomandi að heimsækja Grímsey með hunda sína þrátt fyrir að þeir séu í bandi sé brot á jafnræðis- og meðalhófsreglunni og það sama eigi við um samþykktina um hundahald í Grímsey. Engin raunveruleg ástæða sé til þess að hundahald í Grímsey sé með öðrum hætti en á Akureyri eða annars staðar á landinu.

Þá kveður kærandi að lögvarðir hagsmunir hans í málinu felist m.a. í því að þriðjungur fjölskyldunnar búi í Grímsey og þó hann eigi sjálfur ekki lögheimili þar falli þar með ekki niður réttur hans og maka hans til að ferðast með hund þeirra til Grímseyjar eða annarra sveitarfélaga. Þá kveðst kærandi hafa ríkra hagsmuna að gæta vegna ljósmyndunar í Grímsey. Hafi hann haft tekjur af ljósmyndun þar og kveður að stærsta myndasafn landsins af og frá Grímsey sé að finna á vef á hans vegum, auk þess sem hann hafi í smíðum bók um Grímsey. Kveðst kærandi því eiga mikla hagsmuni falda í því að geta haldið áfram að heimsækja Grímsey, bæði persónulega og fjárhagslega.

Kærandi ítrekar í athugasemdum sínum að hann telji ákvæðið sem bannar hundahald í Grímsey vera nýmæli og því hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar fyrir setningu þess.

Þá gerir kærandi í athugasemdum sínum athugasemd við kosningar um hundahald sem fram fóru í Grímsey vorið 2010 og heldur því fram að þá hafi ekki verið kosið um bann við gestkomandi hundum í eynni og hafi íbúum Grímseyjar ekki verið bent á að einnig stæði til að banna gestkomandi hunda.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að samhliða sveitarstjórnarkosningum árið 2006 hafi farið fram atkvæðagreiðsla í Grímsey um tillögu um að afnema bann við hundahaldi sem gilt hefði í eynni í 50 ár. Atkvæði hafi fallið þannig að hlynntir því að leyfa hundahald hafi verið 18 en 41 á móti og því hafi bann við hundahaldi verið áfram í gildi í Grímsey. Síðan segir að þegar Akureyrarkaupstaður og Grímsey hafi sameinast í eitt sveitarfélag á árinu 2009 hafi samþykktir og reglur Akureyrarkaupstaðar tekið gildi í hinu sameinaða sveitarfélagi samkvæmt ákvörðun ráðuneytis sveitarstjórnarmála og hafi engir sérstakir fyrirvarar verið gerðir á hundasamþykkt Akureyrarkaupstaðar við sameininguna. Þá segir að á fundi samráðsnefndar Grímseyjar í sameiningarferli við Akureyrarkaupstað þann 26. janúar 2010 hafi verið bent á að rétt gæti verið að íbúar í Grímsey kysu aftur um hunda- og kattahald í eynni. Undir það hafi verið tekið af hálfu framkvæmdaráðs Akureyrarkaupstaðar á fundi þann 19. febrúar 2010 og á fundi bæjarráðs Akureyrarkaupstaðar þann 12. maí 2010 hafi spurningar á atkvæðaseðil verið samþykktar. Jafnhliða sveitarstjórnarkosningum þann 29. maí 2010 hafi farið fram atkvæðagreiðsla samkvæmt 5. mgr. 104 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 meðal íbúa Grímseyjar þess efnis hvort leyfa ætti hundahald í Grímsey. Hafi niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verið sú að 33 voru andvígir hundahaldi en 20 samþykkir hundahaldi. Jafnframt segir að í kjölfar niðurstöðu kosninganna hafi verið gerð drög að nýrri hundasamþykkt fyrir hið sameinaða sveitarfélag. Hafi ný samþykkt verið rædd á fundum framkvæmdaráðs Akureyrarkaupstaðar, sem fari með málefni hundahalds í umboði heilbrigðiseftirlitsins, þann 3. og 17. september 2010 og drög að nýrri samþykkt verið send heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra til samþykktar. Samþykkt um hundahald hafi síðan verið afgreidd frá framkvæmdaráði þann 17. nóvember 2010 og aftur þann 10. desember 2010 eftir breytingar í bæjarstjórn. Tvær umræður hafi farið fram um samþykktina í bæjarstjórn, sú fyrri 7. desember 2010 en hin síðari 21. desember 2010 og hafi samþykktin þá verið samþykkt. Umrædd samþykkt hafi síðan verið send umhverfisráðuneytinu til samþykktar og ráðherra samþykkt hana þann 14. mars 2011. Þann 28. mars 2011 hafi samþykktin verið birt í B-deild Stjórnartíðinda og þar með tekið gildi.

Um frávísunarkröfu sína segir kærði í greinargerðinni að ekki komi fram með skýrum hætti hvaða kröfur kærandi geri, t.d. hvort hann sé að fara fram á ógildingu ákvæðis 1. mgr. 2. gr. samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011. Meðan svo hátti til eigi kærði erfitt með að móta kröfur sínar og koma fram með málsástæður gegn kröfum kæranda. Þá heldur kærði því fram að ekki verði séð að kærandi hafi lögvarða hagmuni af banni á hundahaldi í Grímsey. Kærandi hafi ekki lögheimili í Grímsey og hafi ekki átt atkvæðarétt í þeirri atkvæðagreiðslu meðal íbúa Grímseyjar um málefni þeirra, sem fram hafi farið 29. maí 2010. Þrátt fyrir að kærandi heimsæki Grímsey og maki hans eigi þar ættingja eigi hann ekki beina, verulega, sérstaka eða lögvarða hugsmuni af því að fá skorið úr um málið.

Um varakröfu sína um að hafna skuli kröfu kæranda vegna aðildarskorts, vísar kærði til framkomins rökstuðnings fyrir frávísunarkröfu hans á gundvelli þess að ekki sé um lögvarða hagsmuni að ræða.

Í greinargerð kærða segir síðan að samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað hafi farið löglegan feril innan stjórnsýslu bæjarins samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og hafi hún verið samþykkt af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda. Samþykktin hafi hlotið þá löglegu meðferð sem krafist sé samkvæmt sveitarstjórnarlögum og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

Þá segir í greinargerðinni að samkvæmt 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir geti sveitarfélög sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin. Heimilt sé að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Samkvæmt 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 skuli sveitarfélög sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveði. Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir veiti því sveitarfélögum ákveðið svigrúm hvaða kröfur þau geri í samþykktum sínum. Í samræmi við 25. gr. og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga sé mat á kröfum lagt í hendur sveitarstjórna. Verði ekki við þeim kröfum hróflað enda styðjist þær við lögmæt sjónarmið og séu í samræmi við lög að öðru leyti. Þá segir jafnframt að kærða sé því heimilt að leggja bann við húsdýrahaldi í samþykktum sínum ef bannið styðjist við lögmæt sjónarmið eins og atkvæðagreiðslu meðal íbúanna samkvæmt 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga. Með vísan til niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar hafi bann við hundahaldi í Grímsey verið sett í nýja samþykkt um hundahald, sem staðfest hafi verið af umhverfisráðuneytinu 14. mars 2011 og tekið gildi við birtingu í Stjórnartíðindum 28. mars 2011. Þá er tekið fram að bann við hundahaldi í Grímsey styðjist við langa hefð og hafi hundahald verið bannað þar í 50 ár.

Vegna fullyrðinga kæranda um að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu segir í greinargerð kærða að samkvæmt meðalhófsreglunni verði málefnaleg sjónarmið að liggja til grundvallar ákvörðun. Meginsjónarmið að baki meðalhófsreglunni sé að stjórnvaldi sé ekki aðeins skylt að líta til þess markmiðs sem starf þess stefni að, heldur beri því einnig að taka tillit til hagmuna og réttinda þeirra aðila sem athafnir stjórnvaldsins beinist að. Þannig verði efni ákvörðunar að vera til þess fallið að ná því markmiði sem að sé stefnt. Kveður kærði að með vísan til vilja íbúa Grímseyjar, sem m.a. hafi komið fram á borgara- og samráðsfundum í sameiningarferli, hafi verið óskað eftir að atkvæðagreiðsla færi fram um hundahald í Grímsey, jafnhliða sveitarstjórnarkosningum. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hafi verið skýr og til að ná fram því markmiði hafi umrætt ákvæði verið sett í samþykkt um hundahald í hinu sameinaða sveitarfélagi. Afstaða meirihlutans hafi því ráðið í málinu og til þess að verða við þeim vilja hafi verið nauðsynlegt að banna hundahald, að öðrum kosti hefði verið gengið framhjá vilja meirihluta íbúa Grímseyjar.

Vegna fullyrðinga kæranda um brot á jafnræðisreglum vísar kærði til þess sem hann gerði grein fyrir varðandi meðalhófsregluna og auk þess til 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þar sé kveðið á um að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin. Heimilt sé auk annars að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds og kveður kærði að mismunandi reglur um hundahald hafi stoð í umræddu ákvæði.

Varðandi athugasemdir kæranda við atkvæðagreiðsluna í Grímsey í maí 2010 segir í greinargerð kærða að fyrir atkvæðagreiðsluna hafi öllum þeim sem höfðu lögheimili í Grímsey verið send gögn til kynningar um atkvæðagreiðsluna ásamt þeirri spurningu sem lögð yrði fyrir þá jafnhliða sveitarstjórnarkosningunum og þeir beðnir um að kynna sér málið vel.

Þá segir í greinargerðinni að rétt sé að bann við hundahaldi, sem verið hafi í Grímsey í 50 ár, hafi ekki verið sett í sérstaka samþykkt sem birt hafi verið í Stjórnartíðindum. Þess vegna hafi verið nauðsynlegt að verða við vilja íbúanna um að láta fara fram nýja atkvæðagreiðslu árið 2010, þrátt fyrir að atkvæðagreiðsla sama efnis hafi farið fram árið 2006, og setja sérstakt ákvæði í nýja samþykkt um hundahald þar sem vilji meirihluta íbúanna hafi verið hafður að leiðarljósi.

Varðandi hvort leita hafi átt umsagnar Umhverfisstofnunar vísar kærði til þess að umhverfisráðuneytið hafi ekki stöðu kærða í málinu.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 4. mgr. 19. gr. samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011 er kveðið á um að um málskot fari samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Í 1. málslið 1. mgr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir segir að rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda sé heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar.

Í máli því sem hér er til úrlausnar varðar kæra málsins ákvörðun kærða um að setja samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011 á grundvelli 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þar segir í 1. mgr. að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin. Þar segir jafnframt að heimilt sé auk annars að setja í slíkar samþykktir ákvæði m.a. um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds.

Kærði hefur óskað frávísunar málsins hvort tveggja vegna þess að kröfur kæranda séu óskýrar og sökum þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni.

Úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir telur málatilbúnað kæranda í kæru vera skýran að því leyti að krafa hans sé að ákvæði 1. mgr. 2. gr. framangreindrar samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað, sem varðar bann við dvöl og komu hunda til Grímseyjar, verði fellt úr gildi. Í athugasemdum við greinargerð kærða tók kærandi skýrt fram að hann færi ekki eingöngu fram á að 1. mgr. 2. gr. framangreindrar samþykktar yrði úrskurðuð ógild, heldur teldi hann einnig umrædda samþykkt ekki vera í samræmi við góða stjórnsýslu. Telur úrskurðarnefndin því ljóst að kæruefnið varði það hvernig staðið hafi verið að setningu samþykktar nr. 321/2011, svo og gildi ákvæðis 1. mgr. 2. gr. samþykktarinnar. Þar með telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að vísa málinu frá vegna óskýrleika krafna.

Hvorki í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 né stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er mælt fyrir um hverjir eigi kæruaðild. Verður því að líta til almennra sjónarmiða um aðila máls þegar til athugunar kemur hver geti átt aðild að kærumáli. Hugtakið aðili máls er ekki skilgreint í stjórnsýslulögunum en í 2. gr. frumvarps til stjórnsýslulaganna er svohljóðandi skilgreiningu að finna: ?Sá sem hefur lögmætra hagsmuna að gæta varðandi stjórnvaldsákvörðun?. Varðandi málsaðild verður því að líta til þess hvort hlutaðeigandi eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins og meta heildstætt hversu verulegir hagsmunirnir eru og hversu náið þeir tengjast úrlausn málsins. Almennt virðist tilhneigingin vera sú að setja kæruaðild ekki þröngar skorður.

Varðandi það hvort kærandi hafi lögvarðra hagsmuna að gæta í máli því sem hér er til úrlausnar er fyrst til þess að líta að kærandi býr í Akureyrarkaupstað og á þar hund og verður hann því að teljast hafa lögvarða hagsmuni af því að fá úr því leyst hvort samþykkt nr. 321/2011 hafi verið sett með lögmætum hætti. Þá varðar umrætt ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktarinnar ekki aðeins íbúa Grímseyjar heldur einnig þá sem þangað hafa hug á að koma í heimsókn með hund með sér, þ.á m. kæranda máls þessa, sem hefur í kæru sinni rökstutt ítarlega hagsmuni sína af því að fara með hund til Grímseyjar. Telur úrskurðarnefndin því að kærandi kunni að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 hafi verið sett á lögmætum grundvelli. Þar með telur úrskurðarnefndin hvorki tilefni til að vísa málinu frá vegna skorts á lögmætum hagsmunum né hafna kröfum kæranda á grundvelli aðildarskorts, eins og krafist hefur verið af hálfu kærða.

Eins og að framan greinir er sveitarstjórnum heimilt að setja sér eigin samþykktir m.a. sem varða bann eða takmörkun gæludýra- og húsdýrahalds, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. sömu laga skal heilbrigðisnefnd semja drög að samþykktum og leggja fyrir viðkomandi sveitarstjórn sem afgreiðir þau í formi samþykktar til ráðherra. Sé um nýmæli að ræða í samþykktum sveitarfélaga skal ráðherra leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en hann staðfestir samþykktina. Samkvæmt 4. mgr. 25. gr. sömu laga skulu samþykktir sveitarfélaga birtar í B-deild Stjórnartíðinda á kostnað hlutaðeigandi sveitarfélaga.

Framkvæmdaráð kærða fer með málefni er tengjast hundahaldi í umboði heilbrigðisnefndar. Samkvæmt gögnum málsins voru drög að framangreindri samþykkt nr. 321/2011 hvort tveggja rædd á fundum framkvæmdaráðs kærða og bæjarstjórnar kærða. Var samþykktin samþykkt af hálfu umhverfisráðuneytisins þann 14. mars 2011 og hún birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 28. mars 2011. Í málinu er um það deilt af hálfu málsaðila hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011, sem bannar hundahald í Grímsey, sé nýmæli eða ekki og þar með hvort ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en hann staðfesti samþykktina, sbr. ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, eða ekki. Úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir telur sig ekki vera bært stjórnvald til að úrskurða um hvort ráðherra, sem æðsta stjórnvald á viðkomandi sviði, hafi verið skylt að leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en ráðuneyti hans staðfesti umrædda samþykkt um hundahald vegna mögulegra nýmæla í samþykktinni. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að vísa skuli frá nefndinni ágreiningi málsaðila um hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 hafi að geyma nýmæli og hvort ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar fyrir staðfestingu þess. Úrskurðarnefndin hefur engar athugasemdir við framkvæmd setningar samþykktar nr. 321/2011 og telur að gætt hafi verið þeirra formskilyrða sem sett eru fyrir setningu slíkra samþykkta í 1. málslið 2. mgr. og 4. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og heyrt geta undir úrskurðarvald nefndarinnar.

Kærandi heldur því fram að framangreint ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011, sem kveður á um að hundahald sé bannað í Grímsey og að þar megi hundar hvorki dvelja né koma í heimsóknir, brjóti gegn jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.

Jafnræðisregluna er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga. Þar segir að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Enn fremur er þar kveðið á um að óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.

Meðalhófsregluna er að finna í 12. gr. stjórnsýslulaga. Þar segir að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Einnig er þar kveðið á um að þess skuli gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til.

Ákvörðun kærða um að banna hundahald byggir hvort tveggja á stoð í framangreindu ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, svo og ákvæði 1. mgr. 30. gr. reglugerðar um lögreglusamþykktir nr. 1127/2007, sem gerir að meginreglu að hundahald sé bannað í þéttbýli en veitir sveitarstjórnum heimild til að kveða á um annað fyrirkomulag í sérstökum samþykktum á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Á grundvelli framangreindra ákvæða, svo og undangenginna kosninga meðal íbúa Grímseyjar um hundahald, getur úrskurðarnefndin ekki fallist á að ákvörðun kærða um staðbundið bann við hundahaldi, sem feli hvort tveggja í sér að bannað sé að hundar dvelji og komi til Grímseyjar, brjóti gegn meðalhófsreglunni. Þá getur úrskurðarnefndin ekki fallist á að umrætt bann brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, enda nær bannið til allra.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að staðfesta þá ákvörðun kærða að banna alfarið hundahald í Grímsey í samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011.

Þess skal að lokum getið að úrskurðarnefndin telur, með vísan til framangreinds ákvæðis 1. mgr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, að ágreiningur sá sem uppi er um hvernig staðið hafi verið að kosningum meðal íbúa Grímseyjar um hundahald, sé ekki úrlausnarefni sem eigi undir nefndina. Er þeim þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni. Þá telur úrskurðarnefndin sig ekki vera rétta stjórnvaldið til að taka til úrlausnar ásakanir kæranda á hendur kærða varðandi vinnubrögð hans, þ.á m. drátt á að svara erindum frá kæranda.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Akureyrarbæjar um að banna hundahald í Grímsey með þeim hætti að hvort tveggja sé bannað að þar dvelji hundur og að þangað komi hundur í heimsókn. Staðfest er að gætt hafi verið þeirra formskilyrða fyrir setningu samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011 sem heyra undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Vísað er frá úrskurðarnefndinni ágreiningi um hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra skuli leita umsagnar Umhverfisstofnunar og ágreiningi er varðar kosningar um hundahald í Grímsey.

Date: 11/21/11

12/2011 Úrskurður vegna kæru Olíudreifingar ehf. gegn Umhverfisstofnun vegna ákvörðunar um að verksmiðjuolía Olíudreifingar ehf flokkist sem úrgangsolía.

Með

Mál nr. 12/2011.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, fimmtudaginn 10. nóvember, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2011 Olíudreifing ehf. gegn Umhverfisstofnun.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 22. október 2010, kærði Gestur Guðjónsson, f.h. Olíudreifingar ehf. (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Umhverfisstofnunar (hér eftir nefnd kærði) sem gerð var grein fyrir í bréfi, dags. 20. október 2010, þar sem segir: ?er það niðurstaða Umhverfisstofnunar að verksmiðjuolía sem Olíudreifing hefur boðið uppá fellur undir flokkinn úrgangsolía og brennsla hennar skal vera skv. ákvæðum um sambrennslu í reglugerð nr. 739/2003, um brennslu úrgangs.? Kærandi gerir þá kröfu að framangreind ákvörðun kærða verði felld úr gildi, en kærði telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

II. Málsmeðferð

Kærandi málsins beindi kæru sinni til umhverfisráðuneytisins sem framsendi erindið úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi, dags. 9. mars 2011. Kæran byggir á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Meðal þeirra ganga sem úrskurðarnefndinni bárust frá umhverfisráðuneytinu með kæru málsins voru afrit af bréfi kærða til kæranda, dags. 23. maí 2006, bréfi kæranda til kærða, dags. 28. apríl 2010, bréfi kærða til kæranda, dags. 20. október 2010, bréfi lögmanns kæranda til kærða, dags. 22. nóvember 2010 og bréfum lögmanns kæranda til umhverfisráðuneytisins, dags. 11. janúar 2010 [innskot: á að vera 2011] og 21. febrúar 2010 [innskot: á að vera 2011]. Ennfremur fylgdi kærunni umsögn Úrvinnslusjóðs til umhverfisráðuneytisins, dags. 11. nóvember 2010. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 6. apríl 2011, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum með greinargerð, dags. 17. maí 2011, sem kynnt var kæranda með bréfi, dags. 23. maí 2011. Af hálfu kæranda voru gerðar athugasemdir við greinargerð kærða í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 31. maí 2011. Athugasemdir kæranda voru kynntar kærða með bréfi, dags. 9. júní 2011. Viðbótargreinargerð, dags. 30. júní 2011, barst frá kærða sem úrskurðarnefndin kynnti kæranda með bréfi, dags. 19. júlí 2011. Frekari athugasemdir, dags. 11. ágúst 2011, bárust frá kæranda og voru þær kynntar kærða með bréfi, dags. 15. ágúst 2011. Frekari gögn hafa ekki borist.

III. Málsatvik

Málsatvik má rekja til ársins 2006. Þann 2. mars 2006 ritaði kærandi kærða bréf varðandi breytingu á móttöku úrgangsolíu í Örfirisey. Kærði svaraði því bréfi með bréfi, dags. 23. maí 2006, þar sem kom fram að stofnunin teldi breytingar kæranda vera í samræmi við ákvæði starfsleyfis og kölluðu ekki á neinar breytingar á því.

Þann 28. apríl 2010 sendi kærandi bréf til kærða varðandi nýtingu afurða frá vinnslu úrgangsolíu. Í bréfinu óskaði kærandi eftir staðfestingu kærða á því að olía sem unnin væri í úrgangsolíuvinnslu kæranda í Örfirisey, svokölluð verksmiðjuolíu, teldist a.m.k. grunnolía samkvæmt skilgreiningu reglugerðar um olíuúrgang nr. 809/1999. Í 5. mgr. 3. gr. þeirrar reglugerðar er grunnolía skilgreind sem olía sem verður til við endurmyndun úrgangsolíu. Ennfremur óskaði kærandi eftir því í sama bréfi að kærði staðfesti að nýting verksmiðjuolíu í stað svartolílu, að öllu leiti eða sem íblöndun í svartolíu, kallaði ekki á frekari starfsleyfisskilyrði umfram nýtingu svartolíu.

Kærði svaraði framangreindu erindi kæranda með bréfi, dags. 20. október 2010. Þar var beiðni kæranda, þess efnis að verksmiðjuolía teldist til grunnolíu, hafnað og tekið fram að niðurstaða kærða væri að verksmiðjuolía, sem kærandi hefði boðið upp á, félli undir flokkinn úrgangsolía og að um brennslu hennar skyldi fara samkvæmt ákvæðum um sambrennslu í reglugerð um brennslu úrgangs nr. 739/2003. Jafnframt sagði að ákvæði, eins og krafa væri gerð um í þeirri reglugerð, þurfti að vera í starfsleyfisskilyrðum fyrirtækja sem brenndu verksmiðjuolíu.

Meðal gagna málsins er umsögn Úrvinnslusjóðs, dags. 11. nóvember 2010, sem umhverfisráðuneytið kallaði eftir áður en ráðuneytið framsendi málið úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í umsögn Úrvinnslusjóðs segir að Úrvinnslusjóður hafi á sínum tíma fallist á að hreinsunarstöð kæranda á smurolíuúrgangi í Örfirisey væri ráðstöfunaraðili. Hafi Úrvinnslusjóður byggt þá ákvörðun sína á upplýsingum fengnum frá kæranda þess efnis að hreinsuð smurolía hefði jafnvel betri gæði en meðalsvartolía. Þá kemur og fram að Úrvinnslusjóður hafi talið mikinn ávinning vera af endurvinnslu smurolíuúrgangs. Jafnframt segir í umsögn Úrvinnslusjóðs: ?Frá sjónarhóli Úrvinnslusjóðs er meginatriðið það að framleidd verksmiðjuolía virðist uppfylla gæðakröfur. Ekki má hengja sig um of í orðalag. Efnasamsetning segir mest um notkunargildi verksmiðjuolíunnar?.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Eins og að framan greinir beindi kærandi kæru málsins, dags. 22. október 2010, til umhverfisráðuneytisins. Í bréfi, dags. 11. janúar 2010 [innskot: á að vera 2011], sem kærandi beindi einnig til ráðuneytisins er gerð ítarlegri grein fyrir rökstuðningi kæranda en gert var í kæru hans. Í bréfinu segir m.a. að í hinni kærðu ákvörðun hafi kærði komist að þeirri niðurstöðu að tilskipanir Evrópuráðsins nr. 75/439/EBE og 87/101/EBE hafi verið ranglega innleiddar í landsrétt þar sem hugtök þeirra hafi verið ranglega skilgreind í reglugerð um olíuúrgang nr. 809/1999 og sé það niðurstaða kærða að framleiðsla verksmiðjuolíu í starfsstöð kæranda í Örfirisey skuli ekki lengur teljast grunnolía heldur úrgangsolía og að starfsemi kæranda rýmdist því ekki innan núgildandi starfsleyfis. Kveðst kærandi vera þessu algjörlega ósammála og heldur því fram að texti reglugerðarinnar hljóti að gilda umfram túlkun kærða á því hvernig hafi átt að innleiða tilskipanirnar. Þá heldur kærandi því fram að fullyrðingar kæranda þess efnis að tilskipanirnar hafi verið innleiddar á rangan hátt standist ekki.

Í bréfi kæranda til ráðuneytisins segir jafnframt að samkvæmt niðurstöðu kærða hafi við innleiðingu á tilskipunum verið gerð þrenn mistök. Í fyrsta lagi með því að þýða orðið ?refine? með almenna hugtakinu hreinsun, í öðru lagi með því að taka út úr reglugerð hvað felist í hugtakinu hreinsun og í þriðja lagi með rangri skilgreiningu á hugtakinu grunnolía. Kærandi kveðst hafa farið ítarlega í gegnum innleiðingu tilskipananna og sé hann alfarið ósammála því mati kærða að mistök hafi átt sér stað við innleiðingu þeirra sem leiði til þess að breyta þurfi núgildandi reglugerð til að makmiði þeirra verði náð.

Varðandi þýðingu á orðinu ?refine? kveðst kærandi vera algerlega ósammála kærða um að mistök hafi verið gerð með því að þýða það sem hreinsun. Bendir kærandi á að í hvorugri tilskipananna sé að finna skilgreiningu á hugtakinu ?refine?. Einungis sé fjallað um orðið ?refine? innan skilgreiningar á hugtakinu ?regneration? eða ?endurmyndun?, sbr. 1. gr. tilskipunar nr. 87/101/EBE. Innan þeirrar skilgreiningar sé svo útskýrt nánar í hverju ?refining? felist sbr. orðin: ?in particular by removing the contaminants, oxidations products and additives contained in such oils?, sem þýdd hafi verið sem ?einkum með því að fjarlægja óhreinindi, oxaðar afurðir og aukaefni úr henni.? Kveðst kærandi telja alveg skýrt, bæði í hinum enska frumtexta og í hinni íslensku þýðingu, hvað átt sé við með hugtakinu ?regneration/endurmyndum? og því geti kærandi ekki fallist á að þýðing á orðinu ?refine? sem ?hreinsun? valdi því að nokkur munur sé á hinum íslenska og enska texta sem talist geta fallið undir mistök við innleiðingu.

Þá segir kærandi að óskiljanleg sé sú röksemd kæranda að við innleiðingu tilskipananna hafi þau mistök verið gerð að tekið hafi verið út hvað felist í hugtakinu hreinsun, því í hvorugri tilskipuninni sé að finna skilgreiningar eða skýringar á því hvað felist í hugtakinu hreinsun.

Varðandi fullyrðingar kærða um að mistök hafi átt sér stað við innleiðingu tilskipananna sem felist í því að hugtakið ?grunnolía? eða ?base oil? hafi ekki verið rétt skilgreint segir kærandi að í hvorugri tilskipananna sé að finna skilgreiningu á ?base oil? og því vandséð að mistök hafi verið gerð við innleiðinguna.

Kveðst kærandi telja að á grundvelli framangreinds sé ljóst að ákvörðun kærða, þess efnis að röng innleiðing á tilskipunum eigi að leiða til þess að framleiðsla verksmiðjuolíu í starfsstöð kæranda rúmist ekki innan núgildandi starfsleyfis, eigi ekki við rök að styðjast og því geti kærandi ekki skilið að kærði ætli að kúvenda afstöðu sinni gagnvart vinnslu kæranda á grundvelli rangrar innleiðingar tilskipananna.

Í framangreindu bréfi kæranda til umhverfisráðuneytisins segir einnig að hin svokallaða verksmiðjuolía sé unnin í birgðastöð kæranda í Örfirisey og sé að grunni til úrgangsolía sem safnað hafi verið frá smurstöðum, skipum og annarri starfsemi. Við móttöku í Örfirisey sé úrgangsolíunni fyrst dælt inn á móttökugeymi, þar sem fríu vatni sé tappað undan og olían hituð með afgangshita. Því næst sé hún hituð og leidd í gegnum 3ja fasa skilvindu, decanter, þar sem megnið af vatninu og föstu efnunum sé skilið frá fyrir skilvindu, sem taki síðasta fría vatnið úr olíunni og þau föstu efni sem náist með. Í ferlinu sé íblöndunarefnum bætt í olíuna, sem bindist vatninu og auki virkni skilvindanna. Eftir skilvinduferlið sé bundið vatn og léttari olíur fjarlægðar með þurrkara, þar sem köldu, þurru lofti sé blásið í gegnum heita hringrás olíunnar. Við það hitni loftið og dragi í sig rakann og léttu olíurnar úr olíunni. Þegar það sé svo kælt aftur falli rakinn og léttu olíurnar út og hringrásin hefjist á ný. Þá segir að hreinsaða úrgangsolían sé kölluð verksmiðjuolía og kveðst kærandi telja að hún falli undir skilgreiningu á grunnolíu í 3.5-lið 3. gr. reglugerðar nr. 809/1999, en samkvæmt þeirri grein sé grunnolía olía sem verði til við endurmyndun úrgangsolíu.

Í bréfi sínu til umhverfisráðuneytisins ber kærandi saman mun á brennslu á hreinni IFO30 svartolíu, svartolíu blandaðri með verksmiðjuolíu, svo og verksmiðjuolíu. Einnig gerir kærandi grein fyrir umhverfisáhrifum og segir að umhverfisleg áhrif við að brenna blöndu af verksmiðjuolíu og IFO-380 séu góð þar sem brennisteinslosun minnki, sem og að flutningur með eldsneyti. Eigi það bæði við um innflutning á þeirri svartolíu sem hún komi í staðinn fyrir og flutning á úrgangsolíu úr landi. Kærandi bendir á að samkvæmt alþjóðasamningum beri Íslandi að vinna allan sinn úrgang innanlands. Annað fyrirkomulag, eins og sá útflutningur á úrgangsolíu sem stundaður hafi verið, sé háður undanþágum frá þeim samningum. Kveður kærandi vinnslu sína því vera til þess fallna að ekki þurfi að sækja um slíkar undanþágur og bendir á að í tilskipunum Evrópuráðsins nr. 75/439/EBE og 87/101/EBE sé lögð sú skylda á ríki að þau tryggi að endurvinnsla á úrgangsolíu sé eins mikil og mögulegt sé. Jafnframt bendir kærandi á að tiltekið sé í 5. gr reglugerðar nr. 809/1999 að draga skuli eins og unnt sé úr myndun olíuúrgangs og stuðla að endurmyndun og annarri endurnýtingu. Kveður kærandi að ljóst sé að vinnsla hans sé í samræmi við tilgang umræddra ákvæða og að því sé undarlegt ef koma eigi í veg fyrir hana.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða segir að kærandi hafni því að misskilnings hafi gætt af hans hálfu varðandi bréf kærða frá 23. maí 2006 og að ekki hafi verið staðfest að um verksmiðjuolíu væri að ræða. Heldur kærandi því fram að í bréfi hans, dags. 2. mars 2006, sem fyrrnefnda bréfið var svar við, hafi komið skýrt fram að ætlun kæranda væri að selja umrædda olíu sem íblöndun í svartolíu og því hafi það verið alveg ljóst hvaða vinnsla myndi eiga sér stað. Bendir kærandi á að orðið ?verksmiðjuolía? sé söluheiti hans á hreinsaðri úrgangsolíu, sem hann telji vera grunnolíu. Þá heldur kærandi því fram að í lögum og reglugerðum sé ekki að finna neina skilgreiningu á því hvað teljist vera verksmiðjuolía og því sé útúrsnúningur af hálfu kærða að halda því fram að ekki hafi verið staðfest að um verksmiðjuolíu væri að ræða eða hvaða vinnsla færi fram hjá kæranda.

Þá kveður kærandi í athugasemdum sínum gefa lítið fyrir þær skýringar að kærða þyki það miður að hafa ekki nefnt í ákvörðun sinni að nýjar reglur hefðu tekið gildi um hámarksgildi tiltekinni mengunar efna og að æskilegt hefði verið að kærði hefði vakið athygli kæranda á nauðsyn þess að viðskiptavinir hans hefðu gilt starfsleyfi fyrir sambrennslu. Slíkt hafi hvorki verið tilgreint í bréfi kærða frá 23. maí 2006 né að notkunin væri háð skilyrðum og heldur kærandi því fram að telja verði að kærði hafi borið skylda til þess hafi það verið ætlunin og vísar í því sambandi til III. kafla stjórnsýslulaga nr. 97/1993.

Í athugasemdunum hafnar kærandi enn fremur skýringum kærða á því hvernig orðið ?refine? skuli túlkað og bendir á að hvergi komi fram að hreinsun þurfi að uppfylla alla þá þætti sem taldir séu upp í 1. gr. tilskipunar nr. 87/101/EBE heldur sé þar einungis um upptalningu á aðferðum að ræða. Heldur kærandi því fram að af orðinu ?einkum? eða ?in particular? í tilskipuninni sjáist skýrlega að ekki sé um tæmandi talningu á aðferðum að ræða. Af hálfu kæranda er einnig á það bent að hvergi komi neitt fram um að hugtakið ?refining? sé eiming og því sé ekkert sem segi að ekki sé um að ræða endurmyndun olíunnar og þar með um grunnolíu að ræða. Orðið ?refining? sé ekki einskorðað við olíuhreinsunarstöðvar, eins og tilkipunin vísi til, enda séu ?Oil refinery? umtalsvert flóknari verksmiðjur, sem inniberi eimingu, krökkun, blöndun, geymslu og aðra ferla.

Í athugasemdum við greinargerð kærða kveðst kærandi einnig ítreka að reglur EES-réttar gildi ekki fyrir íslenska aðila fyrr en þær hafi verið innleiddar í íslenskan rétt. Heldur kærandi því fram að einkennilegt sé að kærði taki að sér að túlka efni reglugerðar nr. 809/1999 umfram það sem í henni standi á grundvelli þess að hana beri að skýra til samræmis við EES-samninginn og kveður kærandi slíkt vera andstætt EES-samningnum sjálfum. Þá bendir kærandi á að kærði hafi ekki fengið framselt vald til að setja stjórnvaldsreglur á grundvelli þeirra laga sem reglugerð nr. 809/1999 grundvallist á og geti ekki ákveðið að haga ákvörðunum sínum eftir því hvernig stofnunin telji ákvæði reglugerðarinnar vera. Stjórnvaldsákvarðanir stofnunar verði samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýsluréttar aðeins byggðar á þeim réttarheimildum sem séu í gildi þegar þær séu teknar.

Þá bendir kærandi á að ef hin kærða ákvörðun standi muni úrgangsolían, sem um ræði, enda sem olíuúrgangur og hafi það þá þýðingu að viðskiptamenn kæranda þurfi að bæta ?úrgangseyðingu? inn í sína starfsemi, en það kveðst kærandi telja afar óeðlilegt.

Í lok athugasemda sinna bendir kærandi á að kærða hafi verið fullkunnugt um bennslu hinnar svokölluðu verksmiðjuolíu hjá fiskimjölsverksmiðjum án þess að gera nokkra athugasemd við hana og því sé undarlegt ef kærði telji allt í einu að þessi vinnsla falli ekki undir starfsleyfi. Kveður kærandi að ef breyta eigi regluverki eða fallast á túlkun kærða verði að minnsta kosti að veita aðilum markaðarins hæfilegan frest til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum, svo þeir geti gert ráðstafanir til að hætta notkun verksmiðjuolíunnar í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Í athugasemdum kæranda við viðbótargreinargerð kærða kveðst kærandi hafna útskýringum kærða varðandi hugtakið refining og bendir á að innflutt svartolía, sem verksmiðjuolían komi í stað fyrir, sé úrgangur frá hráolíuvinnslu, sem á sama hátt og verksmiðjuolían og hafi ekki eimast, heldur sé botnfall úr eimingu. Því ætti öll brennsla svartolíu að vera starfsleyfisskyld sem úrgangsolía samkvæmt þröngri túlkun kærða, en það sé hún hvergi.

Í athugasemdum við viðbótargreinargerð kærða hafnar kærandi einnig þeirri lögskýringu kærða að viðurkennt sé að leita til ESB reglna um nánari skýringu á óljósum ákvæðum og að slíkt eigi sér stoð í 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Vissulega beri ríkjum að gæta að ákvæði 3. gr laga nr. 2/1993 en sú regla geti þó aldrei verið túlkuð íþyngjandi gagnvart einstaklingum og félögum, enda hafi Evrópudómstóllinn tekið skýra afstöðu þess efnis að skyldan til að túlka landsrétt til samræmis við EB-rétt megi ekki verða til þess að leggja skyldu á einstaklinga samkvæmt tilskipun sem ekki hafi verið innleidd. Þá heldur kærandi því fram að afstaða kærða í hinni kærðu ákvörðun eigi sér ekki skýra stoð í tilskipun 87/101/EBE. Í lok athugasemdanna vekur kærandi sérstaka athygli á að reglugerð nr. 809/1999 um olíuúrgang hafi verið breytt í kjölfar stjórnsýslukæru hans, sbr. reglugerð nr. 673/2011.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða er því haldið fram að í kæru gæti nokkurs misskilnings af hálfu kæranda. Nefnir kærði þar í fyrsta lagi að ekki hafi verið staðfest í bréfi hans til kæranda á árinu 2006 að um verksmiðjuolíu hafi verið að ræða. Þar hafi verið fjallað um úrgangsolíu til brennslu og staðfest af hálfu kærða að umræddur mengunarvarnabúnaður rúmaðist innan gildandi starfsleyfis. Í því samhengi hafi hvorki verið fjallað um verksmiðjuolíu né grunnolíu. Svar kærða við erindi kæranda hafi annars vegar falið í sér að hinn nýji búnaður rúmaðist innan starfsleyfis og hins vegar að olían uppfyllti skilyrði reglugerðar nr. 809/1999 um olíuúrgang. Í bréfi kæranda, dags. 28. apríl 2010, hafi kærandi á hinn bóginn leitað staðfestingar á því frá kærða að sú olía sem kærandi kalli verksmiðjuolíu teljist a.m.k. grunnolía í skilningi reglugerðar nr. 809/1999. Kærði kveður að í bréfi kæranda til kærða á árinu 2006 komi vissulega fram að ætlunin sé að nýta olíuna til íblöndunar til brennslu og þyki kærða miður að á þeim tíma hafi það ekki verið nefnt í ákvörðun hans að nýjar reglur hefðu tekið gildi 28. desember 2005 með niðurfellingu á 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 809/1999 ásamt viðauka, þar sem tilgreind voru hámarksgildi tiltekinni mengunarefna. Þá hefði reglugerð um brennslu úrgangs nr. 739/2003 tekið gildi og því hefði verið æskilegt að kærði hefði vakið athygli kæranda á því að nauðsynlegt væri fyrir viðskiptavini hans að hafa gilt starfsleyfi fyrir sambrennslu, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 739/2003. Tekur kærði fram að hann samþykki ekki að í hinni kærðu ákvörðun felist breytt afstaða af hans hálfu eða brot á jafnræðisreglu.

Þá kveður kærði jafnframt í greinargerðinni að samkvæmt hans mati sé það misskilningur af hálfu kæranda að kærði telji meðhöndlun á úrgangsolíu, sem fram fari í starfsstöð kæranda í Örfirisey, ekki samýmast starfsleyfi kæranda. Sú sé ekki raunin heldur sé kærði þeirrar skoðunar að sé ætlunin að endurmynda olíu með hreinsun (e. refinery) í skilningi reglugerðar nr. 809/1999 teljist slíkt til olíuhreinsunar sem sé starfsleyfisskyld starfsemi, sbr. 20. tl. fylgiskjals 1 með reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun og rúmist ekki innan núverandi starfsleyfis kæranda.

Varðandi þýðingu á sértæka orðinu ?refine? segir í greinargerð kærða að samkvæmt hugtakasafni þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins sé orðið ?refine? þýtt sem ?hreinsun? og að ekki virðist vera til nákvæmara orð í íslensku sem lýsi betur þeim kröfum sem gerðar séu til slíkrar hreinsunar sem enska orðið lýsi. Í sama hugtakasafni sé ?oil refinery? þýtt sem ?olíuhreinsunarstöð?. Heldur kærði því fram að séu þessar tvær orðmyndanir skoðaðar í samhengi megi betur ráða í hvað átt sé við með orðinu ?hreinsun? í þýðingu tilskipunar 87/101/EBE. Olíuhreinsun (e. oil refine) sé viðurkennt ferli sem breyti hráolíu í nýtanlega olíu. Þegar um sé að ræða endurmyndun olíu samkvæmt reglugerð nr. 809/1999 hljóti að vera átt við sambærilegt ferli. Þær aðferðir sem lýst sé í ferli kærða séu ekki sambærilegar við slíka olíuhreinsun og geti því, að mati kærða, ekki falið í sér endurmyndun. Í reglugerðinni sé skilgreiningin á orðinu ?endurmyndun? svo almenn að kærði hafi metið það svo að leita þyrfti nánari skýringar í þeirri tilskipun sem hafi verið innleidd með reglugerðinni. Síðan segir að tilgangur reglugerðar um olíuúrgang sé að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt EES-samningum. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið beri að skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Til að leita skýringar á merkingu ákvæða sé venja að leita í danska eða enska þýðingu tilskipunar. Í enskum texta sé orðið ?refine? notað um tiltekna aðferð hreinsunar.

Í greinargerð kærða segir jafnframt að þótt orðið hreinsun (e. refine) sé hvorki skilgreint í reglugerð nr. 809/1999 né í tilskipun sé þó að finna í tilskipun nánari skilyrði um hvað hreinsun þurfi að uppfylla, sbr. skilgreiningu á orðinu ?endurmyndun? í tilskipun þar sem segi: ?… hreinsun olíuúrgangs, einkum með því að fjarlægja óhreinindi, oxaðar afurðir og aukaefni úr henni?. Skilningur kærða sé sá að olíuhreinsun á úrgangsolíu skuli sérstaklega uppfylla þessa þætti, sem ekki séu nefndir í reglugerð nr. 809/1999 og eigi kærði við það þegar hann í úrskurði sínum segi að tekið hafi verið út hvað felist í hugtakinu ?hreinsun? við innleiðingu á tilskipun 87/101/EBE með reglugerð nr. 809/1999.

Þá segir í greinargerð kærða að það sé rétt sem haldið sé fram í kæru að hugtakið ?grunnolía? (e. base oil) sé hvorki skilgreint í tilskipun 75/439/EBE né í tilskipun 87/101/EBE. Hins vegar sé það skilgreint í reglugerð nr. 809/1999 sem sett hafi verið til innleiðingar á tilskipunum. Þar sé grunnolía skilgreind sem olía sem verði til við endurmyndun úrgangsolíu. Kærði kveðst telja að um misskilning sé að ræða við skilgreiningu hugtaksins og vísar í því sambandi til ákvörðunar sinnar um að orðið grunnolía sé heiti yfir grunneiningar olíublandna. Slíkar grunneiningar myndist ekki aðeins með endurmyndun úrgangsolíu heldur geti grunnolía t.d. einnig verið hrein jarðolía og skilgreining reglugerðar því villandi um merkingu orðsins.

Í viðbótargreinargerð kærða kveðst hann ekki fallast á túlkun kæranda á orðinu ?refine? og kveður það í fyrsta lagi varða skýringu kæranda á orðinu ?einkum? (e. in particular). Kveður kærandi orðið ?einkum? hafa sömu merkingu og orðið ?aðallega? og vísi það til þess að það geti verið fleiri sambærileg starfsemi en sú sem upp sé talin, en ekki einungis hluti upptalningar eins og kærandi haldi fram. Heldur kærði því fram að í slíku tilfelli hefði verið notað orðalag á borð við ?svo sem?, auk þess sem upptalningunni lyki þá með ?eða? en ekki ?og?.

Í öðru lagi gerir kærði athugasemdir við að kærandi haldi því fram að hvergi komi fram að hugtakið ?refining? feli í sér eimingu og að hvergi sé tiltekið að ekki sé um að ræða endurmyndun olíunnar og því sé um grunnolíu að ræða. Kveður kærði að ferlið miði að því að búa til grunnolíu úr úrgangsolíu. Jafnframt gerir hann grein fyrir að skilgreining á grunnolíu í tilskipun (þ.e. verði til við endurmyndun olíu) sé óljós um eðli grunnolíu, því verði að leita annarra skýringa hvað þetta varði og að enska orðið yfir grunnolíu (base oil) afmarki það. Kveður kærði að grunnolía sé grunneining olíu, sem blönduð sé saman við aðrar grunnolíur, íblöndunarefni og sérstök efni sem miði að því að ná fram endanlegum eiginleikum þeirrar olíu sem síðan sé sett á markað og notuð. Eftir notkun sé mismunandi úrgangsolíum blandað saman í móttöku til endurmyndunar og feli endurmyndun úrgangsolíu í sér að fá aftur fram grunnolíu, þ.e. grunnolía verði til við endurmyndun olíu og eina leiðin til þess sé að eima og hreinsa olíuna með ákveðnu ferli (refining) þar til eftir standi framangreindar grunneiningar hennar, þ.e. mismunandi grunnolíur aðskildar frá íblöndunarefnum og óhreinindum. Kveður kærði að einfaldari meðhöndlun á úrgangolíu, eins og meðhöndlun kæranda, nái þessu ekki og heldur kærði því fram að þar með hljóti að vera ljóst að í þessu tilfelli feli endurmyndun/hreinsun úrgangsolíu í sér eimingu.

Þá segir í viðbótargreinargerðinni að reglugerð um olíuúrgang nr. 809/1999 byggi á tilskipun 87/101/EBE og að það sé viðurkennd lögskýringaraðferð að leita þangað til nánari skýringar á óljósum ákvæðum í reglugerð. Heldur kærði því fram að slík lögskýring sé í samræmi við 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Til að leita nánari skýringa á merkinu ákvæða í íslenskum rétt, sem eigi sér stoð í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sé venja að lesa upprunalegt ákvæði eins og það hafi verið þýtt yfir á íslensku í samhengi við danska eða enska þýðingu ákvæðisins til þess að ákvarða nánar hvaða merking verði lögð í orð samkvæmt íslenskum rétt. Kveður kærði að í þessu felist ekki brot af hans hálfu á lögmætisreglu né að hann sé að taka sér vald til að setja stjórnvaldsreglugerð á grundvelli þeirra laga sem reglugerð nr. 809/1999 grundvallist á.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er kveðið á um að til þess að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits setji ráðherra í reglugerð almenn ákvæði m.a um úrgangsefni. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur verið sett reglugerð um olíuúrgang nr. 809/1999. Þeirri reglugerð var breytt með reglugerð nr. 673/2011, sem tók gildi í júní 2011. Í máli því sem hér er til úrlausnar verða lagðar til grundvallar þær reglur sem voru í gildi þegar hin kærða ákvörðun var tekin í október 2010. Í 2. mgr. 17. gr. reglugerðar um olíuúrgang er tekið fram að reglugerðin sé sett með hliðsjón af 26. tölulið XX. viðauka EES-samningsins (tilskipun ráðsins nr. 75/439/EBE, sbr. 87/101/EBE).

Framangreind reglugerð um olíuúrgang hefur að geyma ýmsar skilgreiningar sem varða olíuúrgang. Þar er m.a. grunnolía skilgreind sem olía sem verði til við endurmyndun úrgangsolíu, sbr. 5. mgr. 3. gr. og endurmyndun skilgreind sem aðgerð til að hreinsa úrgang svo að hann eða hluti hans komist í svipað eða sama form og hann var upphaflega, sbr. 4. málslið 6. mgr. 3. gr.

Ágreiningur máls þess sem hér er til úrlausnar snýst um það hvort framleiðsla kæranda á svokallaðri verksmiðjuolíu, sem unnin er úr olíuúrgangi sé endurmyndun úrgangsolíu og jafnframt hvort olían sem sú framleiðsla gefur af sér, þ.e. verksmiðjuolían, sé grunnolía. Heldur kærandi því fram að verksmiðuolían sé grunnolía en kærði hafnar þeim skilningi kæranda og heldur því fram að verksmiðjuolían sé úrgangsolía.

Samkvæmt þeim upplýsingum og gögnum sem fyrir liggja mun framleiðsla kæranda á verksmiðjuolíu fara fram með þeim hætti að úrgangsolía, sem safnað hefur verið saman frá smurstöðvum, skipum og annarri starfssemi, er móttekin í birgðastöð kæranda. Þar er úrgangsolíunni dælt inn á móttökugeymi, þar sem fríu vatni er tappað undan og olían hituð með afgangshita. Eftir hitun er olían leidd í gegnum 3ja fasa skilvindu þar sem megnið af vatninu og föstu efnunum er skilið frá fyrir skilvindu sem tekur síðasta fría vatnið úr olíunni og þau föstu efni sem nást með. Í ferlinu er íblöndunarefnum bætt í olíuna, sem bindast vatninu og auka virkni skilvindanna. Eftir skilvinduferlið er bundið vatn og léttari olíur fjarlægðar með þurrkara, þar sem köldu og þurru lofti er blásið í gegnum heita hringrás olíunnar. Við það hitnar loftið og dregur í sig rakann og léttu olíurnar úr olíunni. Þegar það er kælt aftur falla rakinn og léttu olíurnar út og hringrásin hefst á ný.

Það er skilningur úrskurðarnefndarinnar að framangreind framleiðsla feli í sér aðgerð til að hreinsa úrgang svo hann eða hluti hans komist í svipað eða sama form og hann var í upphaflega. Þar með er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að framleiðsla kæranda á verksmiðjuolíu sé endurmyndun samkvæmt skilgreiningu 4. málsliðar 6. mgr. 3. gr. reglugerðar um olíuúrgang og jafnframt að verksmiðjuolían sem til verði við endurmyndunina sé grunnolía, sbr. 5. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Eins og að framan er getið er í 2. mgr. 17. gr. reglugerðar um olíuúrgang tekið fram að reglugerðin sé sett með hliðsjón af 26. tölulið XX. viðauka EES-samningsins (tilskipun ráðsins nr. 75/439/EBE, sbr. 87/101/EBE). Í 3. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 er kveðið á um að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Í máli því sem hér er til úrlausnar er um það deilt hvort framangreindar skilgreiningar 3. gr. reglugerðar um olíuúrgang séu í samræmi við þær tilskipanir Evrópuráðsins sem reglugerðin var sett með hliðsjón af.

Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að framangreindar skilgreiningar á grunnolíu og endurmyndun séu orðaðar með skýrum hætti í reglugerð um olíuúrgang og verði því ekki vikið til hliðar á grundvelli 3. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið. Einnig er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að viðkomandi stjórnvald geti ekki túlkað ákvæði í reglugerð, gegn orðanna hljóðan, með íþyngjandi hætti.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að framleiðsla kæranda á svonefndri verksmiðjuolíu hafi verið endurmyndum sem hafi gefið af sér grunnolíu samkvæmt skilgreiningum í reglugerð um olíuúrgang og þar með skuli þegar af þeirri ástæðu hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er felld er úr gildi.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                          Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 11/21/11

15/2011 Úrskurður um frestun réttaráhrifa vegna kæru Önnu Margrétar Kristinsdóttur gegn heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis vegna ákvörðunar um að hundurinn Golíat nr. 5126 verði aflífaður.

Með

Mál nr. 15/2011. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, mánudaginn 26. september, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2011 Anna Margrét Kristinsdóttir, Haukanesi 14, Garðabæ, gegn heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Vegna kröfu í málinu um frestun réttarárifa hinnar kærðu ákvörðunar er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 5. september 2011, kærði Anna Margrét Kristinsdóttir (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis (hér eftir nefnt kærði) frá 29. ágúst 2011, sem kynnt var með bréfi dags. 30. ágúst 2011, þar sem þess er krafist að hundurinn Golíat nr. 5126 verði aflífaður. Í kærunni er þess óskað að úrskurðarnefndin taki ákvörðun um að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

II. Málmeðferð

Kæra málsins er dagsett 5. september 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 9. september 2011. Óskaði úrskurðarnefndin í því bréfi hvort tveggja eftir greinargerð kærða í málinu og afstöðu hans til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum til beiðni um frestun réttaráhrifa með greinargerð, dags. 16. september 2011.

III. Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda, þann 14. júlí 2010, veitt leyfi til hundahalds í Garðabæ nr. 5126 vegna hundsins Golíat. Var leyfið veitt í kjölfar þess að hundurinn hafði verið fangaður óskráður og fluttur í hundagæslu. Á fundi heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, sem haldinn var 29. ágúst 2011, ákvað heilbrigðiseftirlitið að krefjast þess að viðkomandi hundur yrði aflífaður. Var það gert með svohljóðandi bókun: ?Heilbrigðisnefnd telur að hundurinn Golíat nr. 5126 hafi sýnt af sér verulega hættulegt atferli. Ólíðandi sé að hundur sé haldinn sem glefsi til og bíti vegfarendur þegar hann er laus úr gæslu. Með vísun til ákvæða 11. gr. samþykktar um hundahald nr. 154/2000 krefst nefndin þess að dýrið verði aflífað.? Frá því kæranda var veitt leyfi fyrir umræddum hundi og fram að því að kærði tók hina kærðu ákvörðun hafði kærða borist eftirfarandi kvartanir vegna hundsins og kærði haft eftirfarandi afskipti af honum, sbr. framlögð gögn. Þann 19. ágúst 2010 var kvartað undan því að viðkomandi hundur og annar hundur í eigu kæranda gengju of mikið lausir í götunni við heimili þeirra og að Golíat hefði náð að glefsa til manns veturinn á undan. Þann 26. maí 2011 var kvartað undan lausagöngu hunda kæranda og því að Golíat hefði náð að glefsa í gangandi vegfarendur. Þann 31. maí 2011 ritaði kærði kæranda bréf og gerði kröfu um að umræddur hundur færi í skapgerðarmat og að kærandi kæmi í kjölfarið til fundar við kærða. Engin viðbrögð höfðu átt sér stað vegna bréf þessa þegar næst var kvartað undan lausagöngu hundsins sem var þann 9. júní 2011. Í þeirri kvörtun kom fram að sá sem kvartaði hefði fjórum sinnum áður komið óformlegum kvörtunum á framfæri. Þann 24. júlí 2011 beit Golíat, sem þá var laus, í kálfa á konu, sem var á göngu. Kærði sendi kæranda bréf, dags. 3. ágúst 2011, þar sem henni var gert kunnugt um að hundahald hennar yrði tekið fyrir á fundi kærða sem fyrirhugaður væri 29. ágúst 2011. Þann 3. ágúst 2011 barst einnig kvörtun um lausagöngu hundsins, svo og þann 9. ágúst 2011. Þá var Golíat fangaður af dýraeftirlitsmanni sem kom honum fyrir í geymslu. Þann 15. ágúst 2011 var jafnframt tilkynnt til kærða að viku fyrr hefði Golíat glefsað í aftanverðan kálfa á manni, sem var á göngu. Sonur kæranda hafði samband við kærða þann 10. ágúst 2011 sökum þess að hann saknaði hundsins og var hann þá upplýstur um stöðu mála. Upplýsti sonur kæranda þá að kærandi væri erlendis en væntanleg til landsins um miðjan ágústmánuð. Þann 16. ágúst 2011 mætti kærandi til fundar hjá kærða vegna Golíats og var þá ákveðið að kæranda mynndi láta fara fram skapgerðarmat á hundinum. Þann 24. ágúst 2011 barst kærða skapgerðarmat Katrínar Harðardóttur dýralæknis vegna umrædds hunds og þann 25. ágúst 2011 barst kærða bréf frá kæranda þar sem hún gerði grein fyrir sínum sjónarmiðum. Hundahald kæranda var síðan rætt á fundi kærða þann 29. ágúst 2011, eins og að framan greinir.

IV. Málstæður og rök kærenda

Eins og að framan er nefnt hefur kærandi farið þess á leit að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað. Ekki er að finna beinan rökstuðning fyrir þeirri kröfu í kæru málsins.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að hafa verði öryggissjónarmið almennra borgara í fyririrúmi. Þar er upplýst að hundurinn sé í vörslu kærðu og að greidd hafi verið trygging að fjárhæð kr. 50.000 vegna kostnaðar við að hafa hann í geymslu. Þá tekur kærði fram að fallist úrskurðarnefndin á kröfu kæranda um að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar leggi kærði áherslu á að hundurinn verði áfram í gæslu og að frekari tryggingar verði settar fyrir geymslukostnaði.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um réttaráhrif kærðrar ákvörðunar. Þar er í 1. mgr. kveðið á um þá meginreglu að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en í 2. mgr. er lögfest undantekningarheimild fyrir æðra stjórnvald til að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan mál er til meðferðar í þeim tilvikum þegar ástæður mæla með því. Í athugasemdum við frumvarp til gildandi stjórnsýslulaga kemur fram varðandi ákvæði 2. mgr. 29. gr. laganna að nauðsynlegt hafi þótt að lögin geymdu heimild til að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan mál væri til meðferðar þar sem kæruheimild gæti í raun orðið þýðingarlaus ef æðra stjórnvald hefði ekki heimild til þess að fresta réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum við frumvarpið segir jafnframt að ávallt verði að vega og meta í hverju tilviki fyrir sig hvort réttlætanlegt sé að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og að við slíkt mat beri að líta til réttmætra hagsmuna hjá öllum aðilum málsins. Enn fremur segir að líta beri til þess hversu langt sé um liðið frá því hin kærða ákvörðun var tilkynnt aðilum, en einnig til þess hversu líklegt það sé að ákvörðuninni verði breytt. Þá segir auk þess í athugasemdum við frumvarpið að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta eða ef til staðar séu mikilvægir almannahagsmunir, t.d. þar sem ákvörðun hafi að markmiði að koma í veg fyrir hættuástand. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum tjóni. Þá segir að þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi. Loks megi svo nefna þau tilvik þar sem kæruheimild yrði í raun þýðingarlaus yrði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Í 11. gr. samþykktar um hundahald á Álftanesi, í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000 segir: ?Hafi eigandi ástæðu til að ætla að hundur hans sé grimmur eða varasamur skal hann sjá til þess að hundur hans sé ávallt mýldur utan heimilis síns. Hafi hundur bitið mann og/eða er hættulegur getur eftirlitsaðili, tjónþoli eða forráðamaður hans krafist þess að hundurinn verði aflífaður. Óski hundeigandi þess skal leita álits sérfróðs aðila, dýralæknis eða hundaþjálfara sem Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis viðurkennir áður en ákvörðun um aflífum er tekin.? Þá segir í 14. gr. sömu samþykktar: ?Sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykkt þessari að ræða eða sinni hundeigandi eða umráðamaður hunds ekki fyrirmælum eftirlitsaðila um úrbætur eða breytingu á hegðan hunds getur heilbrigðisnefnd afturkallað skráninguna, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert hundeiganda eða umráðamanni að koma hundi fyrir á öðrum stað, viðurkenndum af eftirlitsaðila eða látið fjarlægja hundinn.? Fyrir liggur í máli þessu að kærði tók þann 29. ágúst 2011 ákvörðun um að krefjast þess að hundurinn Golíat yrði aflífaður. Var sú ákvörðun tekin á grundvelli heimildar í 11. gr. framangreindar samþykktar um hundahald. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin lá fyrir álit frá dýralækni þar sem m.a. kom fram að dýralæknirinn teldi að glefs Golíats stafaði frekar af hegðunarvandamáli en grimmd og að það væri álit dýralæknisins að hundurinn hefði ekki fengið nægilegt uppeldi og nægilega þjálfun. Þá tók dýralæknirinn fram að til að minnka áhuga hundsins á að strjúka af heimilinu ætti að gelda hann. Komi til þess að hinni kærðu ákvörðun verði framfylgt og hundur kærða aflífaður áður en úrskurðarnefndin hefur kveðið upp efnislegan úrskurð í málinu má ljóst vera, komist úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að fella skuli úr gildi hina kærðu ákvörðun, að ekki verði unnt að ráða bót á því tjóni sem hafi orðið. Í ljósi þessa, svo og á grundvelli þess að hundurinn er í öruggri gæslu, telur úrskurðarnefndin rétt að fresta réttaráhrifum ákvörðunar kærða um að krefjast þess að hundurinn Golíat, nr. 5126, verði aflífaður.

Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um að krefjast þess að hundurinn Golíat, nr. 5126, verði aflífaður, þar til efnisleg úrlausn úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 liggur fyrir.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                        Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 10/24/11

11/2011 Úrskurður vegna kæru Helgu Nínu Heimisdóttur gegn heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur vegna ákvörðunar um að takmarka starfsleyfi fyrir daggæslu barna í heimahúsi, sem starfrækt er að Baldursgötu 24, við 6 börn.

Með

Mál nr. 11/2011. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, föstudaginn 9. september, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2011 Helga Nína Heimisdóttir, Baldursgötu 24, Reykjavík gegn heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 25. maí 2011, kærði Helga Nína Heimisdóttir (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur (hér eftir nefnt kærði) um að takmarka starfsleyfi fyrir daggæslu barna í heimahúsi, sem starfrækt er að Baldursgötu 24, við 6 börn. Krefst kærandi þess að veitt verði starfsleyfi fyrir daggæslu í viðkomandi húsnæði fyrir 8 börn. Kærði krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

II. Málmeðferð

Kæra málsins er dags. 25. maí 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 27. maí 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Greinargerð kærða, dags. 10. júní 2011, barst úrskurðarnefndinni þann 16. júní 2011 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 20. júní 2011. Úrskurðarnefndinni bárust athugasemdir, dags. 3. júlí 2011, frá kæranda og voru þær kynntar kærða með bréfi, dags. 6. júlí 2011. Þann 21. júlí 2011 bárust úrskurðarnefndinni viðbótarathugasemdir frá kærða. Frekari gögn hafa ekki borist vegna málsins.

III. Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um starfsleyfi til kærða fyrir tvo dagforeldra til daggæslu allt að 10 barna í húsnæði að Baldursgötu 24, Reykjavík, en áður hafði henni verið veitt starfsleyfi fyrir daggæslu 5 barna. Með bréfi kærða til kæranda, dags. 28. febrúar 2011, var kæranda kynnt að kærði gæti gefið út starfsleyfi til kæranda sem takmarkaðist við að fjöldi barna yrði 6. Í bréfinu er vísað til 2. mgr. 40. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2000 og tekið fram að við eftirlit heilbrigðisfulltrúa hafi komið í ljós að leikrými í húsnæði kæranda mældist að hámarki vera 20 fermetrar og að sérstök hvíldaraðstaða í íbúðarherbergjum væri ekki til staðar. Segir þar jafnframt að að sögn kæranda sofi börnin í vögnum á lóð og skýli. Þá segir í bréfinu að niðurstaða kærða sé að húsnæði það sem kærandi ætli fyrir starfsemina uppfylli ekki kröfur framangreinds reglugerðarákvæðis varðandi leikrými fyrir 10 börn, heldur sé í húsnæðinu einungis leikrými fyrir 6 börn og því geti kærði einungis gefið út starfsleyfi með takmörkun á fjölda barna við 6 börn.

IV. Málstæður og rök kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að í kjölfar hinnar kærðu ákvörðunar hafi kærandi kynnt sér aðstöðu að Freyjukoti á Freyjugötu sem sé í eigu borgaryfirvalda en hafi verið leigt út til tveggja dagforeldra með 10 börn. Hafi kærandi gert samanburð á teikningum, sem samþykktar hafi verið af byggingarnefnd annars vegar vegna Freyjukots og hins vegar vegna Baldursgötu 24. Samkvæmt teikningunum sé heildarflatarmál neðri hæðar að Baldursgötu 24, þar sem daggæslan fari fram, 40,64 fermetrar þar af séu forstofa og baðherbergi 4 fermetrar, en leiksvæði 27 fermetrar. Hvíldaraðstaða sé í rými sem merkt sé stofa á teikningunum auk þess sem börn sofi í barnavögnum á lóð og í skýli. Heildarflatarmál Freyjukots sé hins vegar 42,77 fermetrar, þ.e. 2,13 fermetrum stærra en flatarmál Baldursgötu 24. Þar sé flatarmál forstofu og baðherbergis 19 fermetrar en flatarmál leikrýmis 23 fermetrar. Síðan segir að hvíldaraðstaða á Freyjukoti sé sambærileg því sem sé á Baldursgötu 24. Kveðst kærandi vera ósátt við hina kærðu ákvörðun og heldur því fram að aðbúnaður á Baldursgötu 24 sé töluvert betri en í Freyjukoti. Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða kemur fram að krafa hennar er að gefið verði út leyfi fyrir daggæslu á Baldursgötu 24 fyrir 8 börn. Þar segir að kærandi hafi mælt leikrýmið upp í samráði við tækniteiknara og borið saman við löggiltar teikningar frá byggingarnefnd. Samkvæmt því hafi leikrýmið reynst vera 27 fermetrar. Síðan segir að þau viðmið sem kærði fari eftir þegar tveir dagforeldrar starfi saman virðist taka að mestu leyti mið að leikskólum, nema þegar komi að rýmismælingum þá sé leiksvæði dagforeldra ætlað að vera að lágmarki 3 fermetrar en leiksvæði leikskóla að lágmarki 2,1 fermetri. Meðfylgjandi athugasemdum kæranda voru teikningar, samþykktar af byggingarfulltrúa, vegna Barónsborgar, Njálsgötu 70. Kveður kærandi að á teikningunum séu merkt þrjú leiksvæði eitt 28,7 fermetrar sem ætlað sé 12 börnum, annað 25,5 fermetrar sem ætlað sé 12 börnum og það þriðja 25,1 fermetri sem ætlað sé 10 börnum. Í athugasemdunum bendir kærandi á að þrátt fyrir mikla leit og upplýsingaöflun hafi henni ekki tekist að finna út nánari skýringu á því hvað felist í hugtakinu fullnægjandi íbúðarherbergi, engu að síður telji hún leikrými á Baldursgötu 24 vera í fullnægjandi íbúðarherbergjum. Þá tekur kærandi auk þess fram að úrbætur hafi verið gerðar á skiptiaðstöðu hjá henni.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða kemur fram að í tilefni umsóknar kæranda um starfsleyfi fyrir daggæslu allt að 10 barna að Baldursgötu 24 hafi heilbrigðisfulltrúar frá kærða farið í úttekt á húsnæðinu og m.a. mælt væntanlegt leiksvæði barna auk þess sem húsnæðið hafi verið skoðað með tilliti til hollustuhátta og öryggisatriða. Við skoðun þeirra hafi komið í ljós að leiksvæði reyndist vera að hámarki 20 fermetrar. Leikrými í stofu hafi mælst vera 16,1 fermetri, en eldhús og hol sé sameiginlegt og nýtist því aðeins að hluta sem leiksvæði. Þá er í greinargerðinni vísað í ákvæði 2. mgr. 40. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2000 og tekið fram að á grundvelli þess og framangreindra mælinga hafi kærði metið leiksvæði barna að Baldursgötu 24 einungis duga fyrir 6 börn. Vegna samanburðar kæranda á Baldursgötu 24 og Freyjukoti segir í greinargerðinni að húsnæðið á Freyjugötu 19 sé 43 fermetrar, það hafi upphaflega verið hannað sem leiksvæði barna og nýtist því allt fyrir daggæslustarfsemina. Innra skipulag þar sé þannig að það nýtist betur sem leiksvæði samanborið við húsnæðið að Baldursgötu 24, leikrými og gangur sé rúmlega 29 fermetrar, auk þess sem gott leiksvæði sé fyrir utan húsið. Síðan segir að húsnæðið sem nýta eigi undir starfssemina að Baldursgötu 24 sé minna og sé innra skipulag þar þannig að rými sem nýtist sem leiksvæði sé mun minna en á Freyjugötu 19. Þá fari hluti húsnæðisins undir annað, t.d. stiga upp á aðra hæð. Í greinargerðinni er jafnframt bent á að við mat á húsnæði fyrir daggæslu barna sé öruggi og heilnæmi barnanna í fyrirrúmi og að tekið hafi verið tillit til þess í hinni kærðu ákvörðun, auk þess sem athygli var vakin á samræmdum starfsleyfisskilyrðum fyrir dagvistun 6-10 barna í heimahúsum.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Með stoð í 34. gr. laga um félagslega þjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, hefur verið sett reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum nr. 907/2005. Þar segir í 7. gr. að starfsemi dagforeldra sé háð leyfisveitingu félagsmálanefndar um þau atriði sem falli undir reglugerðina og starfsleyfi heilbrigðisnefndar sveitarfélags í samræmi við reglugerð um hollustuhætti, nr. 941/2002, sé um að ræða daggæslu með sex börn eða fleiri. Ákvæði 13. gr. reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsum varðar skilyrði leyfisveitingar og þar segir í 6. tölulið 1. mgr. varðandi húsakynni: ?Húsakynnin skulu uppfylla ákvæði reglugerðar um hollustuhætti, nr. 941/2002. Leiksvæði fyrir hvert barn innandyra skal að lágmarki vera 3 fm á gólffleti fyrir hvert barn. Bæði leikrými og hvíldaraðstaða skal vera í fullnægjandi íbúðarherbergjum. Baðherbergi, eldhús og svefnaðstaða heimilisfólks telst ekki til leikrýmis barna. Heimilt er að leita umsagnar heilbrigðisnefndar, hvað húsnæði varðar, ef ástæða þykir til. Sé um að ræða daggæslu með sex börn eða fleiri þarf að liggja fyrir starfsleyfi heilbrigðisnefndar sveitarfélags í samræmi við reglugerð um hollustuhætti, nr. 941/2002.? Í 4. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, segir að til þess að stuðla að framkvæmd hollustuverndar setji ráðherra í reglugerð almenn ákvæði um atriði sem þar eru talin upp í 23 töluliðum. Á grundvelli 13. töluliðar 4. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir hefur verið sett reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002, sem tekur m.a. til daggæslu í heimahúsum. Ákvæði 40. gr. reglugerðar um hollustuhætti varðar húsakynni daggæslu í heimahúsum. Þar segir: ?Eldhús skal búið fullnægjandi innréttingu og tækjum. Lágmarkstæki eru eldavél, kæliskápur og uppþvottavaskur. Leiksvæði fyrir hvert barn innandyra skal vera a.m.k. 3 m² að gólffleti á hvert barn. Leiksvæði og hvíldaraðstaða skal vera í fullnægjandi íbúðarherbergum. Um leikvallatæki, leikföng og lóð gilda ákvæði 35. gr., eftir því sem við á. Ákvæði 5. mgr. 14. gr. um aðskilnað á ekki við um starfsemi daggæslu í heimahúsum nema hvað svefnaðstaða heimilisfólks telst ekki til leikrýmis barna.? Samkvæmt framlagðri teikningu af Baldursgötu 24 mun heildarflatarmál af húsnæði því sem kærandi hefur til daggæslu í heimahúsi vera 40,6 fermetrar. Flatarmál einstakra rýma húsnæðisins er tilgreint þannig að forstofa sé 2 fermetrar, baðherbergi 3,1 fermetri, eldhús og hol sem eru í sama rými 12 fermetrar og stofa 17,8 fermetrar, eða samtals 34,9 fermetrar. Samkvæmt framangreindu ákvæði 6. töluliðs 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsum telst baðherbergi og eldhús ekki til leikrýmis barna. Leiksvæði barna í húsnæði kæranda að Baldursgötu 24 getur því verið rýmið sem merkt er á framlagðri teikningu sem stofa og sá hluti rýmisins sem merkt er eldhús/hol og sem ætla má að sé hol. Ætla verður samkvæmt framlagðri teikningu að verulegur hluti þess rýmis sem merktur er eldhús/hol nýtist sem eldhús, auk þess þess sem hluti þessa rýmis fer í stiga sem liggur upp á næstu hæð hússins og nýtist því ekki sem leiksvæði. Þá verður að ætla að tveggja fermetra anddyri nýtist ekki sem leiksvæði. Á grundvelli framlagðrar teikningar telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið farið of varlegt af hálfu kærða að meta í eftirlisferð að leikrými umrædds húsnæðis að Baldursgötu 24 væri að hámarki 20 fermetrar. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, að rétt hafi verið af hálfu kærða að ákveða að leikrými fyrir börn í daggæslu að Baldursgötu 24 væri 20 fermetrar, staðfestir úrskurðarnefndin þá ákvörðun kærða að takmarka starfsleyfi til daggæslu barna í húsnæðinu við 6 börn. Úrskurðarnefndin vill taka fram að þó jafnræðis skuli gætt við útgáfu starfsleyfa þá getur það ekki veitt kæranda rýmri rétt en veittur er í laga- og reglugerðarákvæðum þó öðrum aðila kunni að hafa verið veitt starfsleyfi án þess að uppfyllt væru skilyrði laga- og reglugerðarákvæða. Því telur úrskurðarnefndin ekki tilefni fyrir nefndina til að bera saman teikningar af húsnæði kæranda og öðru húsnæði ætluðu til daggæslu barna. Komi hins vegar fram kæra þess efnis að aðila hafi verið veitt leyfi til daggæslu fyrir of stóran barnahóp yrði það tekið til sjálfstæðrar uppfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að takmarka starfsleyfi til daggsælu barna að Baldursgötu 24, Reykjavík, við 6 börn.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                               Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 9/19/11

10/2011 Úrskurður vegna kæru Dalsnestis ehf. gegn heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis vegna álagningar á eftirlitsgjöldum, svo og framkvæmd eftirlits með tóbakssölu.

Með

Mál nr. 10/2011. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, mánudaginn 26. september, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2011 Dalsnesti ehf., kt. 570305-0420, gegn heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 22. apríl 2011, kærði Sigurður Lárusson, f.h. Dalsnestis ehf., (hér eftir nefnt kærandi) álagningu heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis (hér eftir nefnt kærði) á eftirlitsgjöldum, svo og framkvæmd eftirlits með tóbakssölu. Af hálfu kæranda er farið fram á lækkun eftirlitsgjalda, auk þess sem gerðar eru athugasemdir við framkvæmd eftirlits með tóbakssölu. Af hálfu kærða er þess krafist að álagning eftirlitsgjalda verði staðfest, auk þess sem hann gerir grein fyrir að hann telji tóbakssölueftirlitið ekki aðfinnsluvert.

II. Málmeðferð

Kæra málsins var móttekin 28. apríl 2011 og byggir hún á kæruheimild í 4. mgr. 17. gr. laga um tóbaksvarnir, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 28. apríl 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Greinargerð kærða, dags. 16. maí 2011, barst úrskurðarnefndinni þann 18. maí 2011 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 20. maí 2011. Úrskurðarnefndinni bárust athugasemdir, dags. 2. júní 2011, frá kæranda og voru þær kynntar kærða með bréfi, dags. 9. júní 2011. Sama dag framsendi úrskurðarnefndin Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu til úrlausnar þann hluta af kæru málsins sem varðar álagningu eftirlitsgjalds vegna matvælaeftirlits. Þann 27. júní 2011 barst úrskurðarnefndinni viðbótargreinargerð kærða, sem kynnt var kæranda með bréfi, dags. 27. júní 2011. Kærandi sendi úrskurðarnefndinni afrit af athugasemdum sem hann sendi Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, dags. 21. og 30. júlí 2011. Þann 9. september 2011 var af hálfu úrskurðarnefndarinnar haft símasamband við kærða og óskað eftir frekari gögnum frá honum, sem bárust rafrænt sama dag. Þann 9. september 2011 sendi úrskurðarnefndin einnig bréf til kærða og óskaði annars vegar eftir því að kærði veitti nefndinni nánari rökstuðning fyrir útreikningi eftirlitsgjalds og hins vegar eftir því að kærði gerði nefndinni grein fyrir því hvort breyting hefði orðið á umfangi og framkvæmd eftirlits með tóbakssölu á síðustu árum. Kærði sendi úrskurðarnefndinni umbeðnar upplýsingar með bréfi, dags. 16. september 2011. Voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi dags. sama dag og þann 22. september 2011 bárust athugasemdir frá kæranda, dags. 20. september 2011.

III. Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins veitti kærði kæranda leyfi fyrir smásölu á tóbaki þann 21. júlí 2005 til fjögurra ára, en með leyfisbréfi frá 14. ágúst 2009 var leyfið framlengt til ársins 2013. Í útgefnum leyfisbréfum var tekið fram að eftirlitsgjöld yrðu innheimt samkvæmt þágildandi lögum um tóbaksvarnir. Einnig veitti kærði kæranda leyfi til að starfrækja söluturn þann 5. október 2005 til tólf ára. Í leyfisbréfi fyrir starfrækslu söluturns var tekið fram að eftirlitsgjöld yrðu innheimt samkvæmt þágildandi lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í mars 2011 var kæranda sendur gíróseðill af hálfu kærða þar sem hann var gert að greiða hvort tveggja um eftirlitsgjald vegna tóbakssölu að fjárhæð kr. 36.000 og eftirlitsgjald vegna lítillar matvöruverslunar að fjárhæð kr. 31.500, eða samtals kr. 65.700. Af gögnum málsins má ráða að fram að því hafi kærandi aðeins verið krafinnum eitt eftirlitsgjald vegna starfsemi sinnar. Kærandi sendi kærða bréf, dags. 5. mars 2011, þar sem hann gerði athugasemdir við álagningu eftirlitsgjalda samkvæmt framangreindum gíróseðli. Í bréfi hans segir m.a.: ?Það vekur furðu hve mikil hækkun hefur orðið á eftirlitsgjöldum. Einnig vekur það furðu að nú skuli rukkað fyrir tvöföld eftirlitsgjöld þ.e. fyrir eftirlit með tóbakssölu og jafnframt fyrir ?matvöruverslun, lítil.? Eftirlitsgjald vegna tóbakssölu virðist vera nýr gjaldstofn. … Um eftirlit með tóbakssölu er það að segja að Æskulýðs og tómstundaráð Hafnarfjarðar virðist hafa tekið það að sér án beinnar heimildar í lögum. … Ég mótmæli því harðlega að taka þátt í greiðslu kostnaðar við slíkt eftirlit.? Kærði svaraði athugasemdum kæranda með bréfi, dags. 29. mars 2011, þar sem segir m.a.: ?Rekstraraðilar sem dreifa matvælum ber nú að greiða eftirlitsgjöld vegna matvælaeftirlits svo sem fram kemur í 25. gr. matvælalaga nr. 93/1995, með síðari breytingum. Ákvæðum 25. gr. matvælalaganna var breytt með lagabreytingu nr. 143 frá 28. desember 2009, sem tók gildi 1. mars 2010. Er nú gerð krafa um innheimtu eftirlitsgjalds vegna matvælaeftirlits. Áður voru eftirlitsgjöld sveitarfélaga vegna matvælaeftirlits innheimt samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, en þar var sveitarfélögunum heimilað en ekki skylt að innheimta eftirlitsgjöldin. Við endurskoðun á gjaldskrá heilbrigðiseftirlitsins nr. 1105/2010 bar að taka fullt tillit til þessarar lagabreytingar. Samkvæmt ákvæðum 8. gr. tóbaksvarnalaga nr. 6/2002, með síðari breytingum er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir leyfi og eftirlit með starfsemi leyfishafa að fenginni umsögn heilbrigðisnefnda. Um gjaldtöku fer samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hafnarfjarðarkaupstaður nýtir þessa heimild í fyrsta sinn með gjaldskrá heilbrigðiseftirlitsins nr. 1105/2010. Tóbaksvarnaeftirlit hefur verið að jafnaði tvisvar á ári undanfarin ár í smásöluverslunum sem selja tóbak. Samkvæmt eftirlitsáætlun er ekki reiknað með að draga úr því eftirliti og telst eftirlitið ekki óverulegt í umfangi að mati heilbrigðisnefndar sem réttlæti að fella það niður. Breyting milli ára felur í sér að sveitarfélögin innheimta nú eftirlitsgjald sem heimilt hefur verið að innheimta samkvæmt lögum og gjaldskrá. … Auk eftirlitsferða á sölustaði tekur heilbrigðiseftirlitið við kvörtunum frá almenningi vegna tóbakssölu og vinnur úr þeim eftir því sem við á. Það sama á við um kvartanir sem berast frá forvarnarfulltrúa Æskulýðs- og tómstundafulltrúa Hafnarfjarðar sem vísað er til.?

IV. Málstæður og rök kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að kærandi furðar sig á mikilli hækkun eftirlitsgjalda, þar sem eftirlitsgjald vegna tóbakssölu sé nýr gjaldstofn. Kveður kærandi að um 20 ára skeið hafi gjaldtaka eftirlitsgjalda miðast við að starfsemi hans væri ?matvöruverslun lítil?. Hann kveður mikla breytingu hafa orðið á samsetningu vöruflokka í verslun hans á þessu 20 ára skeiði og að sala tóbaks og fylgihluta því tengdu sé orðin tæplega 95% af heildarveltu fyrirtækisins. Vísar kærandi til 8. gr. gjaldskrár fyrir matvæla-, heilbrigðis- og mengunareftirlit í sveitarfélaginu Álftanesi, Garðabæ, Hafnarfjarðarkaupstað og Kópavogsbæ nr. 1105/2010 og segir að honum þyki ekki óeðlilegt að miða innheimtu eftirlitsgjalds eingöngu við eftirlit með tóbakssölu, þar sem sala matvæla sé óverulegur hluti af heildarveltu fyrirtækisins. Þá tekur kærandi fram að ekki verði séð að umfang eftirlits hafi aukist á undanförnum árum. Í kærunni segir einnig að í umdæmi kærða hafi forvarnarfulltrúi á vegum Æskulýðs- og tómstundaráðs tekið upp á því að senda unglinga, sem ekki hafi aldur til að kaupa tóbak, sem tálbeitur í tilraunum til að hanka kaupmenn til lögbrota. Kveður kærandi að ekki verði séð á tóbaksvarnarlögum að heilbrigðisnefndir geti framselt lögbundnar skyldur sínar til annarra og spyr hvort það teljist lögbrot að notast við tálbeitur án sérstaks leyfis frá þar til bærum yfirvöldum. Þá tekur kærandi fram að ef tóbakseftirlit eigi að fara fram með slíkum hætti mótmæli hann harðlega að taka þátt í greiðslu kostnaðar þess. Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða segir varðandi álagningu eftirlitsgjalda að álögð eftirlitsgjöld á kæranda hafi hækkað um 288% frá árinu 1999 og í ár vilji kærði innheimta eftirlitsgjöld samkvæmt tveimur flokkum. Ítrekar kærandi að hann telji, með hliðsjón af veltu fyrirtækisins, að eðlilegra væri að miða álagningu eftirlitsgjalda eingöngu við eftirlit með tóbakssölu. Jafnframt kveðst kærandi telja að kærði hafi ekki fært viðhlítandi rök fyrir auknum gjaldtökum vegna eftirlits og heldur því fram að eftirlit hafi ekki aukist af hálfu réttmætra aðila. Þá kveður kærandi að hann hafi staðið í þeirri trú að eftirlitsgjöld ættu að endurspegla raunkostnað en ekki vera skattstofn. Varðandi eftirlit með tóbakssölu kveðst kærandi vilja benda á samstarf, sem virðist vera fyrir hendi, milli kæranda annars vegar og Æskulýðs- og tómstundaráðs Hafnarfjarðar hins vegar. Kveður kærandi að ekki sé deilt um að kærði hafi lögum samkvæmt eftirlitsskyldu í umræddum málaflokki en það veki undrun hans og vonbrigði að Æskulýðs- og tómstundaráð Hafnarfjarðar skuli leyft að komast upp með afskipti af málum sem það hafi ekki með að gera samkvæmt lögum. Kveður kærandi mjög sterkar vísbendingar vera um samstarf og samráð kæranda og Æskulýðs- og tómstundaráðsins og vísar í því sambandi til þess að í fyrrnefndu bréfi kærða til kæranda, dags. 29. mars 2011, segi m.a. ?Auk eftirlitsferða á sölustaði tekur heilbrigðiseftirlitið við kvörtunum frá almenningi vegna tóbakssölu og vinnur úr þeim eftir því sem við á. Það sama á við um kvartanir sem berast frá forvarnarfulltrúa Æskulýðs- og tómstundafulltrúa Hafnarfjarðar sem vísað er til.? Í athugasemdum kæranda, dags. 20. september 2011, kemur fram að hann telji ásættanlegt að kostnaður vegna eftirlits með sölu tóbaks sé kr. 36.000 á ári, en jafnframt að hann telji ekki rétt að á hann sé einnig lagt eftirlitsgjald vegna sölu matvæla, sem sé u.þ.b. 0,7% af heildarveltu fyrirtækisins.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að kærandi hafi hvort tveggja fengið útgefið leyfi til reksturs söluturns með óvarin matvæli og til smásölu á tóbaki. Þá segir í greinargerðinni að 1. mars 2010 hafi ákvæðum 25. gr. matvælalaga verið breytt með lögum nr. 143/2009. Sé nú gerð krafa um innheimtu eftirlitsgjalds vegna matvælaeftirlits og að tekið hafi verið tillit til þess við setningu gjaldskrár nr. 1105/2010 fyrir matvæla-, heilbrigðis- og mengunareftirlit í umdæmi kærða. Enn fremur segir að samkvæmt ákvæðum 8. gr. tóbaksvarnalaga nr. 6/2002 sé sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir leyfi og eftirlit með starfsemi leyfishafa að fenginni umsögn heilbrigðisnefnda og að um gjaldtökuna fari samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hafnarfjarðarkaupstaður hafi nýtt þessa heimild í fyrrnefndri gjaldskrá nr. 1105/2010. Varðandi tóbakssölueftirlit af hálfu kærða segir í greinargerðinni að það hafi að jafnaði verið tvisvar á ári í smásöluverslunum sem selji tóbak og að samkvæmt eftirlitsáætlun sé ekki reiknað með að draga úr því. Segir að eftirlitsgjaldið sé reiknað út samkvæmt því eftirliti sem eigi sér stað og jafnframt bent á að auk eftirlitsferða á sölustaði taki kærði við kvörtunum frá almenningi vegna tóbakssölu og vinni úr þeim eftir því sem við eigi. Þá er í greinargerðinni vísað til 8. gr. framangreindrar gjaldskrár nr. 1105/2010 og tekið fram að matvörueftirlitið og tóbakssölueftirlitið hafi slíkt umfang að ekki sé réttlætanlegt að fella eftirlitsgjöld vegna þeirra niður. Í greinargerðinni tekur kærði fram að starfsemi forvarnarfulltrúa Æskulýðs- og tómstundaráðs Hafnarfjarðar sé ekki hluti af eftirliti kærða og alls ekki kostuð af eftirlitsgjöldum hans. Í viðbótargreinargerð kærða segir að eftirlitsgjald með tóbakssölu sé innheimt til að mæta kostnaði við lögbundið eftirlit og bent á að heilbrigðisnefndir hafi eftirlit með útsölustöðum tóbaks og fylgist með því í umdæmum sínum að virt séu ákvæði II. og III. kafla laga um tóbaksvarnir nr. 6/2002. Þá er mótmælt þeim skilningi kæranda að eftirlitsgjöld endurspegli ekki raunkostnað heldur séu skattstofn. Einnig er tekið fram að kærði sé að framfylgja lögbundnu hlutverki sínu með því að halda úti eftirliti með smásölu á tóbaksvörum og að eftirlitsgjöldin byggi á skýrri heimild í lögum, sbr. 8. gr. laga um tóbaksvarnir. Þá segir að um gjaldtökuna fari samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og tekið fram að sveitarfélögum sé ekki ætlað að standa undir kostnaði við eftirlit með tóbakssölu af öðrum eftirlitsgjöldum eða tekjum. Í viðbótargreinargerðinni segir enn fremur að um algjöran misskilning kæranda sé að ræða varðandi samstarf kærða og Æskulýðs- og tómstundaráðs Hafnarfjarðar. Þá fylgdi viðbótargreinargerðinni yfirlit yfir bréfasamskipti og eftirlitsskráningar vegna eftirlits kærða með starfsemi kæranda frá árinu 2005. Auk þess að vísa til ákvæða XVI. kafla reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 varðandi framkvæmd og skipulag eftirlits tekur kærði fram að samkvæmt eftirlitsáætlun séu áætlaðar tvær eftirlitsferðir og 4 klukkustundir alls að jafnaði á ári í eftirlit með hverjum útsölustað sem selji tóbak í smásölu og hafi tímagjald á klukkustund árið 2011 verið ákveðið kr. 9.000. Þá tekur kærði fram að við gerð eftirlitsáætlunar og útfærslu gjaldskrár hafi verið fylgt leiðbeinandi reglum umhverfisráðherra um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit nr. 254/1999. Kveður kærði að útreikningur tímagjalds byggist á áætluðum tíma við undirbúning eftirlitsferðar, ferð að og frá eftirlitsstað, viðdöl við eftirlit, frágangi að loknu eftirliti og tíðni eftirlitsferða. Í viðbótargreinargerðinni er jafnframt tekið fram að eftirlitsþegar verði oftast að sæta því að greiða eftirlitsgjald sem nemi þeirri fjárhæð sem almennt kosti að veita viðkomandi þjónustu. Heilbrigðisnefnd meti það svo að þeir sem selji tóbak í smásölu séu með það líka starfsemi að kostnaður við hverja eftirlitsferð verði svipaður. Algengt sé að aðili sem selji tóbak samkvæmt tóbakssöluleyfi hafi á boðstólum lítils háttar vöruúrval af öðrum neysluvarningi sem falli undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og eigi það t.d. við um fegrunar- og snyrtiefni eða vörur sem innihaldi hættuleg efni og eiturefni. Heimilt sé samkvæmt 8. gr. framangreindrar gjaldskrár að sameina eftirlitsgjöld í eitt eftirlitsgjald samkvæmt þeim flokki sem hæstur sé, en skilyrt sé að umfang í eftirliti sé óverulegt. Í slíkum tilfellum sé tóbakssala oftast hæsti flokkurinn. Heilbrigðisnefnd líti á að umrætt ákvæði og framkvæmd þess sé sanngirnissjónarmið og alls ekki til þess fallið að skaða þann sem eftirlit beinist að. Í gögnum þeim sem kærði sendi úrskurðarnefndinni umbeðinn með tölvupósti þann 9. september 2011, kom m.a. fram að kærði fór þann 19. ágúst 2011 í eftirlitsferð til kæranda og voru þá eftirfarandi þættir teknir til athugunar; ásýnd lóðar og umgengni, almenn þrif, úrgangur og flokkun, tóbaksmál og umgengngi um umbúðargeymslu. Þá sendi kærði úrskurðarnefndinni drög að eftirliti með tóbakssölu þar sem segir að tilgangur eftirlits sé m.a. að sjá til þess að markmiðum og tilgangi tóbaksvarnarlaga sé framfylgt, sinna upplýsingagjöf og veita forvarnargildi. Þá segir einnig að eftirlitsmaður á vegum kærða hafi farið á sölustaði tóbaks í umdæmi kærða í ágúst 2011 og hafi þá einkum verið hafðar til hliðsjónar þær meginreglur hvort leyfishafar væru með merkingar sem segðu til um aldurstakmark kaupenda, hvort umbúðir og pakkningar tóbaks væru sýnilegar viðskiptavinum og hvort starfsmenn hefðu aldur til þess að selja og afhenda tóbak. Í viðbótargreinargerð kærða, dags. 16. september 2011, er ítrekað að við útreikning eftirlitsgjalds vegna tóbakssölu í fyrrnefndri gjaldskrá 1105/2010, hafi verið farið eftir leiðbeinandi reglum umhverfisráðherra um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit nr. 254/1999. Meðfylgjandi viðbótargreinargerðinni voru gögn kærða sem fylgdu tillögu að fjárhagsáætlun og gjaldskrá til sveitarfélaga. Kveður kærði að í gögnum þessum komi fram greining ársverka og kostnaðarliða, svo og að notast sé við þekkta stærð varðandi virkar vinnustundir. Þá kveður kærði að útreiknað tímagjald vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits sé kostnaður sem tengist tímagjaldi, deilt með samanlögðum virkum vinnustundum við reglubundið eftirlit, tilfallandi eftirlit og eftirlit sem ekki sé í eftirlitsáætlun og hafi það reynst vera kr. 10.422. Árlegt eftirlitsgjald hvers fyrirtækjaflokks megi aldrei vera hærra en sem nemi reiknuðum kostnaði þess flokks, þ.e. margfeldi tímagjalds. Enn fremur segir í viðbótargreinargerðinni að eftirlitsáætlun feli í sér áætlaðan tíma í undirbúning, ferð, viðdvöl, frágang og tíðni. Er tiltekið að vegna eftirlits með tóbakssölu sé áætlaður tími við undirbúning 0,5 klst., við ferð 0,5 klst., við viðdvöl 0,5 klst. og við frágang 0,5 klst. eða samtals 2 klst. Tíðni eftirlitsins sé áætluð 2 skipti á ári og sé því samtals um 4 klst. á ári að ræða. Tekur kærði fram að af hans hálfu sé talið að virku eftirliti í samræmi við ákvæði tóbaksvarnalaga verði ekki sinnt nema með eftirliti a.m.k. tvisvar á ári á hvern smásölustað. Þá segir enn fremur í viðbótargreinargerðinni að sveitarstjórnir á starfssvæði kærða hafi samþykkt tillögur kærða að fjárhagsáætlun og að tímagjald yrði kr. 9.000. Við ákvörðun á tímagjaldi hafi þess verið gætt að árleg álagning eftirlitsgjalds hvers fyrirtækjaflokks væri ekki hærri en sem næmi reiknuðum kostnaði. Segir að ákvörðun sveitarstjórnanna byggi á ákvæðum 12. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, þar sem kveðið sé á um heimild til að setja gjaldskrá og innheimta eftirlitsgjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga, sbr. og 8. gr. laga um tóbaksvarnir. Í viðbótargreinargerð kærða segir jafnframt að breyting hafi orðið á umfangi og framkvæmd eftirlits með tóbakssölu á síðustu árum. Þar segir að umfang og framkvæmd alls eftirlits á vegum kærða hafi verið í stöðugri endurskoðun og þróun. Hafi áhersla kærða á árinu 2011 verið lögð á að bæta yfirsýn og auka eftirfylgni varðandi matvælaeftirlit og tóbakssölueftirlit. Hafi heilbrigðisnefnd lagt áherslu á þessa framkvæmd með auknu vinnuframlagi kærða til að sinna matvælaeftirliti og tóbakssölueftirliti. Hafi grundvallarbreyting sem gerð hafi verið á lögum um matvæli m.a. kallað á þessa forgangsröðun. Þá kveður kærði að áherslubreytingu, sem felist í áherslu á eftirlit á vettvangi, megi rekja til ársins 2005 og að verulega aukið vinnuframlag í tóbakssölueftirliti hafi orðið árið 2007. Kostnaður vegna þessa hafi ekki verið innheimtur sérstaklega með eftirlitsgjöldum heldur fjármagnaður af framlagi sveitarfélaga. Við gerð gjaldskrár nr. 1294/2007 hafi verið ákveðið að taka inn í lista með gjaldskránni tóbakssölu þar sem eftirlit með tóbakssölu krefðist verulegs vinnuframlags. Síðan segir að við gerð áætlunar fyrir árið 2009 hafi verið tekin sú ákvörðun vegna fjárhagsaðstæðna í landinu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga að draga úr öllum kostnaði og fresta tímabundið þeim verkefnum sem hægt væri að geyma í stuttan tíma. Eftirlit með smásölu tóbaks það ár hafi því verið minna en til stóð en eðli máls samkvæmt hafi ekki verið hægt að upplýsa um þá stöðu fyrirfram. Eftirlitið hafi þá farið fram með öðru eftirliti, auk þess sem kvörtunum og utanaðkomandi ábendingum hafi verið sinnt. Árið 2010 hafi tóbakssölueftirlitið verið aukið á ný án þess að innheimt væri eftirlitsgjald og segir að skýring þess væri sú að ekki hafi verið ljóst hvort nægur vinnukraftur væri til staðar svo hægt yrði að sinna eftirlitinu svo vel færi. Kærði kveður jafnframt að frá og með árinu 2011 hafi verið ljóst að auka þyrfti matvælaeftirlit verulega vegna breytinga á matvælalögum og innleiðingu evrópskra reglna í íslenskan rétt. Jafnframt hafi verið komin fyrirmæli í lög um að innheimta bæri eftirlitsgjöld vegna matvælaeftirlits sem áður hafi verið heimiluð samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Eftirlit með smásölu tóbaks sem fylgt hefði hefðbundnu eftirliti kærða með veitingastöðum og matvöruverslunum hafi því orðið að breytast. Þá kveður kærði að fáar verslanir sem ekki séu matvöruverslanir hafi tóbakssöluleyfi og selji tóbak. Einnig séu til matvöruverslanir sem ekki selji tóbak. Kveður kærði að rök fyrir skiptingu eftirlitsgjaldanna hafi því verið tímabær og hafi jafnræðissjónarmið vegið þar þungt. Þá segir í viðbótargreinargerðinni að sölustaðir þurfi ennfremur að uppfylla kröfur reglugerðar um hollustuhætti varðandi húsnæði og lóðir.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 1. mgr. 17. gr. laga um tóbaksvarnir nr. 6/2002, sbr. 27. gr. laga nr. 164/2002, segir að heilbrigðisnefndir, undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, hafi eftirlit með útsölustöðum tóbaks og fylgist með því í umdæmi sínu að virt séu ákvæði laganna sem varða merkingar, auglýsingar og sölu tóbaks. Í 1. málslið 11. mgr. 8. gr. tóbaksvarnalaga segir að til að selja tóbak í smásölu þurfi leyfi heilbrigðisnefndar á viðkomandi eftirlitssvæði, en í 5. og 6. málslið sömu málsgreinar segir m.a. að sveitarfélögum sé heimilt að innheimta gjald fyrir eftirlit með starfsemi leyfishafa að fenginni umsögn heilbrigðisnefnda og að um gjaldtöku fari samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 3. mgr. 12. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 59/1999, segir að sveitarfélögum sé heimilt að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, svo sem fyrir eftirlit, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Enn fremur segir þar að leita skuli umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar áður en gjaldskrá sé sett og að upphæð gjaldsins skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á og megi gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Jafnframt er þar kveðið á um að hvert eftirlitssvæði skuli hafa sameiginlega gjaldskrá og skuli hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd láta birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Þá skal Umhverfisráðherra, samkvæmt ákvæðinu, gefa út leiðbeinandi reglur um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga. Umhverfisráðherra hefur gefið út slíkar leiðbeinandi reglur nr. 254/1999. Þann 5. janúar 2011 var birt í B-deild Stjórnartíðinda gjaldskrá fyrir matvæla-, heilbrigðis- og mengunareftirlit í sveitarfélaginu Álftanesi, Garðabæ, Hafnarfjarðarkaupstað og Kópavogsbæ, nr. 1105/2010. Þar er í 2. gr. kveðið á um að tímagjald fyrir eftirlit skuli nema kr. 9.000 og í viðauka við gjaldskrána er m.a. kveðið á um að tíðni eftirlitsferða vegna tóbakssölu skuli vera 2 á ári og að gjald fyrir eftirlitið skuli vera kr. 36.000. Í 8. gr. gjaldskrárinnar segir: ?Þegar sami aðili rekur fleiri en eina tegund starfsemi sem fellur undir gjaldskrá þessa, á einum og sama stað, skal eftir eðli og umfangi starfseminnar leggja saman eftirlitsgjöld vegna viðeigandi starfsemi. Heimilt er þó að innheimta eitt árlegt eftirlitsgjald, þá í þeim flokki sem hæstur er ef aukning umfangs í eftirliti er óveruleg.? Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum er ljóst að gjaldtaka fyrir eftirlit með tóbakssölu er heimil. Á grundvelli þeirra gagna sem lögð hafa verið fram í málinu er að mati úrskurðarnefndarinnar ekki tilefni til annars en að ætla að gætt hafi verið allra formlegra lagaskilyrða fyrir setningu framangreindrar gjaldskrár nr. 1105/2010, sbr. 3. mgr. 12. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Við ákvörðun á upphæð eftirlitsgjalds ber að líta til framangreinds ákvæðis 3. mgr. 12. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og skal þess gætt að upphæð gjalda byggi á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á og má gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Kærði krafði kæranda um eftirlitsgjöld á árinu 2011 hvort tveggja fyrir eftilit með smásölu tóbaks og sölu matvæla. Samkvæmt framangreindu ákvæði 8. gr. gjaldskrár nr. 1105/2010 er meginreglan sú að reki sami aðili fleiri en eina tegund starfsemi sem fellur undir gjaldskrána þá skuli leggja saman eftirlitsgjöld vegna viðeigandi starfsemi. Undantekningarreglu er að finna í síðari málslið 8. gr. gjaldskrárinnar þar sem heimilað er að innheimta eitt árlegt eftirlitsgjald þegar sami aðili rekur fleiri en eina tegund starfsemi sem fellur undir gjaldskrána og aukning umfangs í eftirliti er óveruleg. Skal eftirlitsgjald þá innheimt í þeim gjaldflokki sem er hæstur. Kærði hefur gert grein fyrir því að áður hafi eftirlit vegna sölu tóbaks fylgt hefðbundnu eftirliti með veitingastöðum og matvöruverslunum. Kærði fullyrðir hins vegar að umfang eftirlits með tóbakssölu hafi aukist og kveður að jafnframt hafi verið ljóst að auka þyrfti matvælaeftirlit frá og með árinu 2011. Því hafi verið tímabært að skipta eftirlitsgjöldum vegna smásölu tóbaks og sölu matvæla. Kærandi byggir málatilbúnað sinn á því að samanlögð eftirlitsgjöld vegna sölu tóbaks og sölu matvæla árið 2011 séu óeðlilega há. Hann hefur í raun ekki athugasemdir við álagningu eftirlitsgjalds vegna eftirlits kærða með tóbakssölu hans en vill að álagning eftirlitsgjalds vegna sölu matvæla verði felld niður. Úrskurðarnefndin telur eins og mál þetta er vaxið hafi ekkert komið fram í málinu sem gefi tilefni til að fella eftirlitsgjald vegna tóbakssölu niður á grundvelli undantekningarheimildar 2. mgr. 8. gr. gjaldaskrár nr. 1105/2010. Hvort tilefni sé til að fella niður eftirlitsgjald vegna sölu kæranda á matvælum er hins vegar úrlausnarefni Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og hefur sá þáttur málsins verið framsendur ráðuneytinu. Vegna athugasemda kæranda við framgöngu fulltrúa Æskulýðs- og tómstundaráðs Hafnarfjarðar skal tekið fram að úrskurðarnefndin getur ekki fallist á að í orðum kærða í bréfi til kæranda, dags. 29. mars 2011, felist að kærði hafi á einhvern hátt framselt Æskulýðs- og tómstundaráðinu eftirlitsskyldu sína. En í því bréfi segir að auk eftirlitsferða taki kærði við kvörtunum frá almenningi vegna tóbakssölu og vinni úr þeim og að það sama eigi við um kvartanir sem berist frá Æskulýðs- og tómstundaráði. Þá telur úrskurðarnefndin að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að álögðum gjöldum vegna tóbakssölueftirlits hafi verið ráðstafað til þess eftirlits með tóbakssölu sem Æskulýðs- og tómstundaráð sveitarfélagsins kunni að hafa framkvæmt. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri ákvörðun kærða um að leggja á kæranda eftirlitsgjald á árinu 2011 að fjárhæð kr. 36.000 vegna tóbakssölu.

Úrskurðarorð:

Staðfest er álagning heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis á eftirlitsgjaldi á árinu 2011 að fjárhæð kr. 36.000 vegna tóbakssölu Dalsnestis ehf.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                      Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 10/24/11

3/2011 Úrskurður vegna kæru Margrétar Hallgrímsdóttur og Jónasar Páls Þorlákssonar gegn Akraneskaupstað vegna afturköllunar leyfis kærenda til hundahalds í kaupstaðnum.

Með

Mál nr. 3/2011 endurupptekið. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, föstudaginn 9. september, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2011 Margrét Hallgrímsdóttir og Jónas Páll Þorláksson, bæði til heimilis að Jaðarsbraut 15, Akranesi gegn Akraneskaupstað.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 25. febrúar 2011, kærðu Margrét Hallgrímsdóttir og Jónas Páll Þorláksson (hér eftir nefnd kærendur) ákvörðun Akraneskaupstaðar (hér eftir nefndur kærði) frá 15. febrúar 2011, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 21. febrúar 2011, þess efnis að ekki væri tilefni til að endurskoða ákvörðun kaupstaðarins frá 23. ágúst 2010 um afturköllun leyfis kærenda til hundahalds í kaupstaðnum og því skyldi sú ákvörðun standa óhögguð.

II. Málmeðferð

Kæra málsins er dagsett 25. febrúar 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Í kæru var jafnframt sett fram krafa um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 9. mars 2011. Óskaði úrskurðarnefndin í því bréfi hvort tveggja eftir greinargerð kærða í málinu og afstöðu hans til beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum til beiðni um frestun réttaráhrifa með tölvupósti þann 14. mars 2011 og hafnaði þar þeirri beiðni. Þann 24. mars 2011 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð um að fresta skyldi réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Þann 29. mars 2011 bárust úrskurðarnefndinni gögn frá kærða er varða málið. Með bréfi, dags. 7. apríl 2011, fór úrskurðarnefndin þess ítrekað á leit við kærða að hann sendi úrskurðarnefndinni greinargerð þar sem gerð væri grein fyrir sjónarmiðum hans í málinu. Greinargerð kærða, dags. 20. apríl 2011, barst úrskurðarnefndinni og var hún send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 28. apríl 2011. Athugasemdir kærenda við greinargerð kærða bárust úrskurðarnefndinni þann 13. maí 2011 og voru kynntar kærða með bréfi, dags. sama dag. Viðbótargreinargerð barst frá kærða þann 31. maí 2011 og var hún kynnt kærendum með bréfi, dags. 7. júní 2011. Þann 20. júlí 2011 var kveðinn upp efnislegur úrskurður í málinu, en þann 10. ágúst 2011 kom í ljós að athugasemdir kærenda dags. 20. júní 2011 höfðu misfarist og ekki legið fyrir úrskurðarnefndinni er úrskurðurinn var kveðinn upp. Af þeim sökum ákvað úrskurðarnefndin að endurupptaka málið. Voru athugasemdir kærenda frá 20. júní 2011 kynntar kærða með bréfi, dags. 16. ágúst 2011 og þann 25. ágúst 2011 bárust upplýsingar ásamt athugasemdum frá kærða, dags. 23. ágúst 2011. Athugasemdir kærða voru kynntar kærendum með bréfi, dags. 25. ágúst 2011 og þann 5. september 2011 bárust enn frekari athugasemdir frá þeim.

III. Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins var kærendum, í júlí 2007, veitt leyfi, nr. 137, fyrir hundi af tegundinni French Mastiff í Akraneskaupstað. Með bréfi, dags. 23. ágúst 2010, var leyfið hins vegar afturkallað á þeirri forsendu að um ítrekuð brot á samþykkt um hundahald á Akranesi væri að ræða og farið fram á að kærendur annað hvort fjarlægðu hundinn úr kaupstaðnum eða létu aflífa hann. Áður hafði kærendum verið sent bréf, dags. 4. maí 2010, þar sem þeim var tilkynnt að formleg kvörtun hefði borist vegna hundsins sem umrætt leyfi var fyrir. Í bréfinu var þess óskað að kærendur gerðu ráðstafanir til að fyrirbyggja að slík tilvik gerðust aftur. Í tilefni af afturköllun leyfis til hundahalds sendu kærendur bréf til kærða, dags. 2. september 2010, þar sem gerð var grein fyrir sjónarmiðum þeirra og óskað eftir endurskoðun ákvörðunar kærða um afturköllun leyfis til hundahalds. Á fundi framkvæmdaráðs kærða þann 21. september 2010 staðfesti framkvæmdaráðið afturköllun leyfisins. Var kærendum kynnt sú ákvörðun með bréfi framkvæmdastjóra framkvæmdastofu kærða, dags. 22. september 2010. Var þess og krafist í bréfinu að umræddur hundur yrði fjarlægður úr bæjarfélaginu innan 10 daga frá dagsetningu þess. Kærendur sendu kærða tölvupóst þann 30. september 2010 þar sem þau kröfðust þess að ákvörðun kærða um afturköllun leyfis til hundahalds yrði afturkölluð á þeim grundvelli að brotið hefði verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga við töku ákvörðunarinnar og að á henni væru verulegir form- og efnisannmarkar. Með bréfi, dags. 13. desember 2010, gerði kærði kærendum grein fyrir að þó kærði gæti ekki fallist á staðhæfingar kærenda um brot á stjórnsýslulögum, væri þeim gefinn kostur á að koma að upplýsingum og gögnum sem leitt gætu til endurupptöku málsins. Var kærendum veittur frestur í þessu skyni til 21. desember 2010, en með bréfi, dags. 22. desember 2010, framlengdi kærði frest kærenda til 3. janúar 2011. Í millitíðinni, þ.e. milli þess að kærendur sendu áðurnefndan tölvupóst 30. september 2010 og áður en kærði veitti þeim frest til gagnaframlagningar vegna hugsanlegrar endurupptöku, sendi kærði kærendum bréf, dags. 18. október 2010, til áminningar um ógreitt hundaleyfisgjald fyrir árið 2010, svo og bréf, dags. 3. desember 2010 vegna ormahreinsunar. Þann 3. janúar 2011 sendu kærendur kærða tölvupóst þar sem þau óskuðu eftir að fá annað tækifæri til að hafa hundinn. Kærði svaraði kærendum með bréfi, dags. 5. janúar 2011, og í því bréfi segir að samkvæmt mati kærða hafi engar upplýsingar eða gögn komið fram í málinu sem gefi tilefni til endurupptöku þess og því skuli ákvörðun um afturköllun leyfis til hundahalds standa óröskuð. Eftir að hafa leitað til bæjarstjóra kærða skutu kærendur málinu til framkvæmdaráðs kærða með tölvupósti, dags. 30. janúar 2011, þar sem þau gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu. Málið var í framhaldinu tekið fyrir á fundi framkvæmdaráðs kærða þann 15. febrúar 2011, sem synjaði um endurupptöku málsins og staðfesti afturköllun leyfis kærenda til hundahalds í Akraneskaupstað. Var kærendum kynnt sú ákvörðun með bréfi, dags. 21. febrúar 2011, og þeim veittur sjö daga frestur til að fjarlægja umræddan hund úr Akraneskaupstað. Meðal gagna málsins liggja fyrir útprentanir úr dagbók lögreglustjórans á Akranesi, dags. 20. janúar og 1. febrúar 2009, svo og 8. apríl og 9. ágúst 2010, sem bera með sér að leitað hafi verið til lögreglu vegna hunds kærenda máls þessa. Samkvæmt dagbók lögreglu var henni tilkynnt þann 20. janúar 2009 að deginum áður hefði hundur kærenda ráðist á mann við Innri Hólm, bitið í föt hans og rifið gat á úlpu. Kvaðst sá sem varð fyrir árás hundsins hafa náð að verjast hundinum, slá hann frá sér og forða sér inn í bíl. Þá var hringt til lögreglu þann 1. febrúar 2009 og tilkynnt um að er hjón hafi verið að ganga Jaðarsbraut á móts við hús nr. 15 hafi komið æðandi að þeim hundur, sem var laus og varð fólkið mjög hrætt. Þann 8. apríl 2010 tilkynnti íbúi, sem býr í sama húsi og kærendur, til lögreglu að hundur þeirra hefði bitið hana. Kvaðst íbúinn hafa verið að fara út með rusl og gengið fyrir horn þegar hundurinn, sem þá var bundinn í garðinum, hafi allt í einu stokkið á hana og bitið hana í hægri höndina svo hún hlaut sár af. Jafnframt tilkynnti nágranninn um að hundurinn væri oft geymdur í sameign hússins, þangað sem hún þyrfti að geta komist en þyrði ekki vegna hans. Í fjórðu dagbókarfræslunni kemur fram að tilkynnt hafi verið um að hundur kærenda hafi glefað í 9 ára stúlku þegar hún hafi verið að fara heim með tveggja ára gamlan son kærenda eftir að hafa verið að leika við hann. Kvað stúlkan að hundurinn hefði verið í bandi er hann glefsaði í hana.

IV. Málstæður og rök kærenda

Kærendur kveða að framkvæmdastjóri framkvæmdastofu kærða hafi í bréfi, dags. 21. febrúar 2011, tekið þá ákvörðun að þau skyldu fjarlægja hund þeirra úr kaupstaðnum innan sjö daga. Segja þau ákvörðunina vera löglausa og halda því fram í greinargerð sinni að um geðþóttaákvörðun starfsmanns kærða sé að ræða. Þá segja kærendur að þeim hafi verið tilkynnt um sams konar ákvörðun 23. ágúst 2010. Þau hafi mótmælt henni og í kjölfarið hafi ákvörðuninni ekki verið fylgt eftir. Halda kærendur því fram að ákvörðunin hafi því verið felld niður og að niðurfellingin hafi verið staðfest með bréfum kærða, dags. 18. október 2010, þar sem rukkað var fyrir hundaleyfisgjald og 3. desember 2010, þar sem gerð var krafa um ormahreinsunarvottorð. Kveða kærendur þessar kröfur kærða vera í mótsögn við það að leyfi þeirra til hundahalds hafi verið afturkallað og halda því fram að þar með hafi ákvörðunin um afturköllun leyfis til hundahalds verið felld niður og að ekki sé hægt að endurupptaka hana nema að uppfylltum skilyrðum stjórnsýslulaga, sem ekki hafi verið gert. Kærendur halda því einnig fram að kærði hafi brotið allar form- og efnisreglur stjórnsýslulaga við málsmeðferðina. Kveðast þau aldrei hafa fengið tilkynningar um kvartanir, þau hafi engan andmælarétt fengið, kærði hafi ekki rannsakað málið og meðalhófs hafi ekki verið gætt. Því sé um löglausa ákvörðun að ræða. Benda kærendur á að engar nýjar kvartanir hafi borist vegna hundsins og kveðast þau telja að engin málefnalega rök séu fyrir nýrri ákvörðun kærða um afturköllun hundaleyfis eftir niðurfellingu fyrri ákvörðunarinnar. Í athugasemdum kærenda sem bárust í kjölfar greinargerðar kærða í málinu segir að kærði hafi þann 23. ágúst 2010 tekið stjórnvaldsákvörðun og afturkallað leyfi þeirra til hundahalds, án þess að þeim hafi verið veitt tækifæri til að gæta andmælaréttar. Enn fremur hafi rannsóknarreglan verið brotin, svo og meðalhófsreglan. Halda þau því fram að brot á slíkum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar eigi að leiða til þess að stjórnvaldsákvörðunin sé ógild. Þá halda kærendur því fram að eftir að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin sé ekki hægt að lagfæra galla á ákvörðuninni með því að veita andmælarétt eftir á. Segja kærendur að svo virðist sem kærði rugli saman andmælarétti annars vegar og skilyrðum fyrir endurupptöku og afturköllun ákvörðunar hins vegar. Með bréfi, dags. 13. desember 2010, hafi kærði veitt kærendum færi á að ?koma að upplýsingum og gögnum sem þú kannt að búa yfir og ekki lágu fyrir þegar umrædd ákvörðun um afturköllun hundahalds var tekin og eiga eða geta, að þínu mati, leitt til þess að rétt sé að endurupptaka málið, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.? Halda kærendur því fram að í þessari fullyrðingu liggi grundvallarmisskilningur á stjórnsýslureglum. Ef ákvörðun sé tekin án þess að gætt sé málsmeðferðarreglna, líkt og andmælaréttar, sé ákvörðun ógildanleg skv. 25. gr. stjórnsýslulaga. Við þær aðstæður beri stjórnvaldi að afturkalla ákvörðun sína. Kveða kærendur að sú regla gangi framar reglum um endurupptöku og að stjórnvald geti ekki lagfært ákvörðun sína með því að veita ?andmælarétt? eftir að ákvörðun hafi verið tekin. Halda kærendur því fram að borgarar þurfi ekki að sæta því að stjórnvaldsákvörðun sé tekin án þess að form- eða efnisreglum stjórnsýslulaga sé fylgt, og sanna svo fyrir stjórnvaldinu að skilyrði fyrir endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga séu uppfyllt. Kærendur segja að kærði hafi hvorki afturkallað né endurupptekið ákvörðun sína frá 23. ágúst 2010 og að erfitt sé að staðsetja stjórnsýslulega þá málsmeðferð sem fram hafi farið af hálfu kærða eftir að ákvörðunin var tekin. Halda kærendur því fram að í málsmeðferðinni hafi ekki falist endurupptaka, ekki afturköllun og ekki veiting andmælaréttar. Annmarkar sem hafi verið á ákvörðuninni frá 23. ágúst 2010 hafi því ekki verið lagfærðir og þar af leiðandi beri að fella ákvörðunina úr gildi. Kærendur mótmæla því sem haldið er fram af hálfu kærða að þau hafi ekki gripið til ráðstafana vegna hundsins og benda á að frá því ákvörðunin var tekin í ágúst 2010 hafi engin kvörtun borist vegna hundsins og halda þau því fram að efnisleg skilyrði fyrir sviptingu leyfisins séu því ekki til staðar. Jafnframt benda þau á að hundurinn hafi aldrei sýnt merki þess að eitthvað væri að honum, heldur sé um varðhund að ræða og sé eðli hans að verja heimili sitt og fjölskyldu. Að auki kveða kærendur að hundurinn hafi engan bitið alvarlega og hafi auk þess róast mjög mikið. Í athugasemdum kærenda við viðbótargreinargerð kærða kveða kærendur það vera rangt, sem kærði haldi fram, að þau hafi ekki gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að fyrirbyggja atvik eins og það sem tilkynnt var til lögreglu í apríl 2010. Kveðast kærendur í kjölfar þess atburðar hafa flutt hundinn úr herbergi tengdu þvottahúsi í sameign hússins upp í íbúð þeirra og því þurfi íbúi á neðri hæð ekki að hitta hundinn. Einnig kveðast kærendur hafa flutt keðju sem hundurinn sé bundinn með baka til þar sem enginn umgangur eigi að vera. Þá kveðast kærendur hafa upplýst kærða um þessar ráðstafanir með því að hafa sagt hundaeftirlitsmanni kaupstaðarins frá þeim þegar eftirlitsmaðurinn og annar kærenda tóku tal saman fyrir utan heimili kærenda. Kveða kærendur að í því samtali hafi komið fram að þar sem hundurinn væri kominn upp í íbúð þeirra og búið að færa keðju hans væru allir sáttir og málið leyst. Varðandi atvikið sem tilkynnt var til lögreglu í apríl 2010, kveða kærendur það ofaukið að tala um að hundurinn hafi bitið nágrannakonuna frekar hafi verið um glefs að ræða. Lýsa þau atvikum með eftirfarandi hætti: ?… þá var myrkur úti og hundurinn bundinn og Margrét var úti með honum. Konan á neðri hæðinni var að fara út með ruslið og kemur snögglega fyrir húshornið þar sem við stóðum og bregður okkur öllum og voru þetta greinilega ósjálfráð viðbrögð hans en ekki gert af grimmd, því að hundurinn bakkaði strax og skammaðist sín mjög.? Varðandi atvikið þegar hundurinn glefsaði í barn í ágúst 2010 segjast kærendur hafa beðið viðkomandi barn um að láta hundinn í friði þegar hann væri úti í garði því að hann væri af varðhundakyni og væri alltaf ?í vinnunni við að passa garðinn?. Þau kveðast oft hafa þurft að stoppa stúlkuna af í því að atast í hundinum þrátt fyrir ítrekaðar áminningar um að láta hann vera. Síðan segir: ?… þá 9. ágúst kemur Villa bakvið hús og sér þar sem sonur okkar sem er 3 ára er að leika við hundinn og kemur inn að hundinum þar sem þeir voru að leika og ætlar að taka strákinn upp, hundinum lýst illa á það og geltir á hana og ýtir henni frá með hausnum og narrar með framtönnunum í mjöðmina á henni þar sem hann var að ýta og hún fær marblett.? Þá taka kærendur fram að það hafi aldrei staðið á þeim að vilja bæta úr því sem hafi verið ábótavant, en geta þess jafnframt að allt kosti fjármuni og verði kærði að átta sig á því að þau hafi ekki farið út í framkvæmdir eins og að girða í kringum húsið eftir að búið hafi verið að afturkalla leyfi þeirra til hundahalds. Í athugasemdum sem bárust frá kærendum 5. september 2011 ítreka þau að þau hafi alltaf verið tilbúin til að fara út í hvaða framkvæmdir sem væri til að fá leyfi til hundahalds aftur. Halda þau því fram að þau séu ítrekað búin að bjóðast til að gera ráðstafanir, eins og að smíða grindverk í kringum húsið eða setja múl á hundinn, en slíkt hafi verið hunsað og þar sem slíkar framkvæmdir kosti peninga muni þau ekki framkvæma þær fyrr en þau hafi fengið leyfi fyrir hundinum á ný. Þá segir í athugasemdunum að fyrrum framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs kærða hafi viljað láta mál þeirra kyrrt liggja og ekki hafa meiri samkipti vegna þess heldur sent ítrekanir og rukkanir um ormahreinsun og hundaleyfisgjald. Þrír mánuðir hafi liðið og enginn haft samband eða fylgt ákvörðuninni um afturköllun leyfis þeirra til hundahalds. Þegar annar kærenda hafi ætlað að inna framkvæmdastjórann um svar hafi þeim sinnast og halda kærendur því fram að þá hafi framkvæmdastjórinn sagt að þau hafi átt á líta á það sem tækifæri að fara með hundinn í ormahreinsun og borga hundaleyfisgjaldið en nú ætli hann að setja það í flýtimeðferð að koma hundinum burtu. Enn fremur kveða kærendur að það sé grátlegt að hundurinn skuli vera látinn gjalda fyrir framangreint ósætti með lífi sínu. Hægt sé að leyfa hundinum að lifa, hann sé orðinn 5 ára gamall og hafi róast mikið, enginn hafi kvartað undan honum í eitt og hálft ár, hann sé aldrei einn úti í keðju, kærendur telji sig vera búna að taka málið föstun tökum og að ekki stafi meiri ógn af hundinum.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða er gerð grein fyrir því að kærendum hafi þann 4. maí 2010 verið tilkynnt um formlega kvörtun sem borist hefði vegna hunds þeirra. Samkvæmt kvörtuninni hefði hundurinn bitið íbúa á neðri hæð hússins sem kærendur búi í, auk þess sem kvartað hefði verið yfir því að hundurinn væri geymdur í sameiginlegu rými í húsinu þannig að íbúar treystu sér ekki til að nota rýmið. Í bréfinu hafi af hálfu kærða verið óskað eftir að gerðar yrðu viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að slíkt endurtæki sig ekki og jafnframt bent á hugsanlegar afleiðingar af endurteknum brotum. Í byrjun ágúst hafi kærða borist þær upplýsingar að hundurinn hefði bitið barn. Í ljósi alvarleika þess atburðar og þess að um ítrekað brot á samþykkt um hundahald á Akranesi hafi verið að ræða hafi af hálfu framkvæmdastjóra framkvæmdastofu kærða verið ákveðið að afturkalla leyfi kærenda til að halda umræddan hund í kaupstaðnum. Hafi þess verið óskað af hálfu kærða að hundurinn yrði fjarlægður úr kaupstaðnum eða hann aflífaður og hafi kærendum verið gefinn 10 daga frestur til að gera nauðsynlegar ráðstafanir. Svar, dags. 2. september 2010, hafi borist frá kærendum og málið í kjölfar þess verið lagt fyrir framkvæmdaráð kærða til umfjöllunar 21. september 2010. Hafi framkvæmdaráðið ákveðið að staðfesta umrædda ákvörðun framkvæmdastjóra framkvæmdastofu kærða og gert þá kröfu að hundurinn yrði fjarlægður úr bæjarfélaginu eigi síðar en 2. október 2010. Kærði hafi þann 13. desember 2010 ritað kærendum bréf, þar sem tilkynnt var að þrátt fyrir að kærði gæti ekki fallist á staðhæfingar og kröfur kærenda, sem fram komu í tölvupósti 30. september 2010, varðandi meinta annmarka á stjórnsýslulegri meðferð málsins væri þeim veittur frestur til 21. desember 2010 til að koma á framfæri upplýsingum og gögnum sem gætu leitt til þess að málið yrði endurupptekið. Hafi sá frestur kærenda síðar verið framlengdur til 3. janúar 2011. Þann 5. janúar 2011 hafi framkvæmdastjóri framkvæmdastofu kærða ritað kærendum bréf þar sem þeim var tilkynnt að samkvæmt mati kærða hefðu engin gögn eða upplýsingar borist sem gæfu tilefni til endurupptöku málsins. Hafi athygli kærenda í því bréfi verið vakin á rétti þeirra til að fá ákvörðunina endurskoðaða af framkvæmdaráði kærða sem og að kæra hana til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Á fundi framkvæmdaráðs kærða 15. febrúar 2011 hafi beiðni kærenda frá 30. janúar 2011, um endurskoðun ákvörðunar um afturköllun umrædds leyfis til hundahalds, verið tekin fyrir og ákvörðun um afturköllun leyfis til hundahalds verið staðfest. Þá segir í greinargerðinni að í samþykkt um hundahald á Akranesi sé kveðið á um að sveitarstjórn geti bannað aðila að halda hund ef brotið hafi verið gegn reglum. Það sé mat kærða að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum liggi fyrir að hundur sá sem málið varði hafi ítrekað veist að fólki með mjög ógnandi hætti og vakið hjá því mikinn ótta, auk þess sem hann hafi ítrekað bitið eða glefsað til fólks. Þrátt fyrir að kærendur hafi vitað af þessu hafi þau ekki getað gripið til ráðstafana til að tryggja að af hundinum stafaði ekki hætta eða ógn fyrir nágranna sem og aðra íbúa bæjarins. Heldur kærði því fram að um mikla hagsmuni bæjarbúa sé að ræða sem hljóti að vega mjög þungt í málinu, svo og réttur bæjarbúa til að geta dvalist í bænum og farið um hann án þess að þurfa að þola ógn af völdum hunda sem hafi ítrekað sýnt í verki að þeim verði ekki treyst. Segir að samkvæmt mati kærða liggi fyrir að umræddur hundur hafi sýnt af sér slíka háttsemi sem hljóti að leiða til þeirrar ályktunar að honum sé ekki treystandi að þessu leyti og því sé ekki forsvaranlegt að halda hann í þéttbýli. Jafnframt heldur kærði því fram að kærendur hafi ekki sýnt í verki að þau geti tryggt að af hundinum stafi ekki hætta eða ógn fyrir bæjarbúa þó þau hafi fengið mikil og ítrekuð tækifæri til að koma rökum og upplýsingum af sinni hálfu á framfæri við meðferð málsins hjá kærða. Í viðbótargreinargerð kærða er bent á, vegna athugasemda kærenda um að það sé rangt sem haldið var fram af hálfu kærða í greinargerð þess efnis að kærendur hafi ekki gripið til ráðstafana vegna hundsins, að í bréfi kærða til kærenda, dags. 4. maí 2010, hafi verið óskað eftir að gerðar yrðu nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að það yrði ekki endurtekið að hundurinn biti eða ógnaði fólki. Þá hafi þess verið óskað í bréfinu að framkvæmdastofa kærða og hundaeftirlitsmaður yrðu upplýst innan tiltekins tíma í hverju þær ráðstafanir fælust. Síðan segir að ekkert svar hafi borist frá kærendum vegna þessara tilmæla og tekið fram að hafi kærendur gripið til einhverra ráðstafana án þess að upplýsa kærða um í hverju þær væru fólgnar hafi þær ráðstafanir ekki komið í veg fyrir að hundurinn biti barn þann 9. ágúst 2010. Þá er í viðbótargreinargerðinni vísað til tölvupósts kærenda til kærða frá 3. janúar 2011 og því haldið fram að af efni tölvupóstsins megi ráða að kærendur hafi á þeim tíma enn ekki gripið til sérstakra ráðstafana til að tryggja öryggi íbúa gagnvart hundinum. Einnig kemur fram í viðbótargreinargerðinni að kærði telji það ekki nauðsynlegt að fyrir liggi nákvæm vísindaleg greining á því hvaða ástæður liggi að baki þeirri háttsemi hundsins sem leiddi til þeirrar ákvörðunar kærða að afturkalla leyfi kærenda til hundahalds í því skyni að verja aðra íbúa kaupstaðarins fyrir þeirri hættu og ógn sem af honum hafi stafað og stafi. Bent er á að fyrir liggi að hundurinn hafi ítrekað bitið og glefsað til fólks og er því haldið fram að sú háttsemi hundsins og sú staðreynd að hann sé stór leiði eðlilega til þess að hann veki mikinn ótta hjá mörgum íbúum kaupstaðarins. Þá er því haldið fram að mikill skaði geti orðið af biti slíks hunds og sagt að íbúar kaupstaðarins eigi rétt á að bæjaryfirvöld verji þá fyrir þeirri hættu og ógn. Jafnframt segir að það sé vitað og viðurkennt að ef hundur hafi bitið fólk sé mikil hætta á að hann geri það aftur. Í viðbótargreinargerðinni segir jafnframt að það sé rangt sem haldið sé fram af hálfu kærenda að tölvupósti þeirra til kærða, dags. 30. september 2010, hafi ekki verið svarað. Umræddum tölvupósti hafi verið svarað með bréfi framkvæmdastofu kærða, dags. 13. desember 2010. Enn fremur vísar kærði á bug fullyrðingum kærenda þess efnis að stjórnsýsla kærða hafi verið haldinn ýmsum annmörkum í málinu, sem leitt gætu til ógildingar á þeirri ákvörðun kærða að afturkalla leyfi kærenda til að halda umræddan hund í kaupstaðnum. Er því haldið fram að kærendur hafi í ferli málsins fengið full og ítrekuð tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum, skýringum og athugasemdum á framfæri við kærða og hafi verið litið til þeirra eigi síður en til annarra gagna málsins við meðferð þess á öllum stigum, undirbúning og töku ákvörðunar. Hafi einhverjir annmarkar verið á stjórnsýslulegri meðferð málsins á einhverju stigi þess hafi verið úr því bætt. Ákvörðun kærða sé byggð á traustum grundvelli sem lagður hafi verið samkvæmt rannsóknarreglu, andmælareglu, meðalhófsreglu og öðrum meginreglum stjórnsýsluréttarins. Þá segir að samkvæmt mati kærða séu alls engin efni til að úrskurðarnefndin hnekki hinni kærðu ákvörðun. Hún byggist á fullnægjandi upplýsingum og gögnum og gildum rökum og sjónarmiðum og sé nauðsynleg til að verja rétt annarra íbúa í kaupstaðnum til að þurfa ekki að búa við hættu og ótta af völdum hunds sem hafi sýnt í verki að óforsvaranlegt og of áhættusamt sé að leyfa að hann verði haldinn innan kaupstaðarins. Í athugasemdum sem bárust frá kærða eftir endurupptöku málsins segir að hundaeftirlitsmaður Akraneskaupstaðar hafni því að hafa samþykkt þær aðgerðir sem kærendur kveðast hafa gripið til og kynnt honum. Þá er áréttað af hálfu kærða að ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til þess að ákvörðun kærða um afturköllun leyfis til hundahalds verði hnekkt og að það sé skylda kærða að verja íbúa kaupstaðarins fyrir hættu af hundum og ótta sem þeir kunni með réttu að vekja hjá þeim. Heldur kærði því fram að hundur kærenda hafi án vafa gefið fullt tilefni til slíks ótta og að mati kærða sé það óásættanlegt að aðrir íbúar þurfi að búa við þá ógn og ótta sem hann valdi. Líta verði til þess að það sé viðurkennt að hafi hundur sýnt af sér ákveðna ógnandi háttsemi þá sé því aldrei að treysta að það endurtaki sig ekki með ófyrirséðum afleiðingum.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti kærði kærendum um ákvarðanir er vörðuðu leyfi þeirra til hundahalds á Akranesi, með bréfum, dags. 23. ágúst og 22. september 2010, svo og bréfum, dags. 5. janúar og 21. febrúar 2011. Í bréfinu frá 23. ágúst 2010 segir að hundaleyfi kærenda sé afturkallað og farið fram á að þau annað hvort fjarlægi hundinn úr kaupstaðnum eða láti aflífa hann. Var kærendum í bréfinu gefinn 10 daga frestur til að fjarlægja hundinn og skyldi framkvæmdastofa kærða látin vita til hvaða ráðstafana yrði gripið af þeirra hálfu. Í bréfinu frá 22. september 2010 var kærendum tilkynnt um að framkvæmdaráð kærða hefði fjallað um mál þeirra og komist að þeirri niðurstöðu að hundurinn skyldi fjarlægður úr bæjarfélaginu innan 10 daga frá dagsetningu þess bréfs. Í hvorugu þessara bréfa var kærendum leiðbeint um kæruheimild eða kærufrest. Í bréfinu frá 5. janúar 2011 segir að samkvæmt mati kærða hafi engar upplýsingar eða gögn komið fram í málinu sem gefi tilefni til endurupptöku þess samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er tekið fram að ákvörðun frá 23. ágúst 2010 um afturköllun leyfis til hundahalds standi óhögguð. Í bréfinu frá 21. febrúar 2011 segir að það sé mat framkvæmdaráðs kærða að ekki hafi komið fram neinar þær upplýsingar sem gefi tilefni til að ákvörðun kærða frá 23. ágúst 2010 verði endurskoðuð og er kærendum tilkynnt að ákvörðun um afturköllum leyfisins standi því óhögguð. Þessi síðari bréf hafa að geyma leiðbeiningar um kæruheimild til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, svo og varðandi kærufrest. Í kjölfar ákvörðunarinnar sem kærði kynnti kærendum með bréfi, dags. 21. febrúar 2011, beindu kærendur kæru til úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Ákvæði 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur að geyma almenna reglu um kærufrest, sem á við um kærur til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þar er kveðið á um að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Ljóst er að ákvarðanir þær sem kærði kynnti kærendum með bréfum, dags. 23. ágúst og 22. september 2010, voru ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar innan hins lögboðna kærufrests. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um hvernig fara skuli með kæru sem berst að liðnum kærufresti. Þar segir: ?Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema: 1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða 2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.? Þegar litið er til þess hvernig mál þetta er vaxið og þess að ekki var gætt að leiðbeiningarskyldu um kæruheimild við tilkynningu ákvarðana kærða í bréfum til kærenda, dags. 23. ágúst og 22. september 2010, þykir rétt að víkja frá kærufresti í máli þessu varðandi þær ákvarðanir. Af tölvupósti kærenda til kærða, dags. 30. september 2010, verður á hinn bóginn ráðið að þeim hafi þá verið kunnugt um hina almennu kæruheimild 26. gr. stjórnsýslulaga. Engu að síður þykir rétt, þegar litið er til samskipta málsaðila frá 30. september 2010 og fram að því að kærði tók ákvörðun í málinu í febrúar 2011, sem nánar verður vikið að, að taka allar framangreindar ákvarðanir kærða til úrlausnar í úrskurði þessum og málsmeðferðina í heild sinni. Á árinu 2010 var í gildi samþykkt um hundahald á Akranesi nr. 282/2004. Þar er í 1. gr. kveðið á um að hundahald sé bannað í bænum, en í 2. gr. segir að bæjarstjórn sé heimilt að veita einstaklingum búsettum í bænum undanþágu til hundahalds að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Á grundvelli þessarar heimildar hafði kærendum verið veitt leyfi til að halda hund þann sem mál þetta varðar á Akranesi. Í 2. málslið 3. gr. framangreindrar samþykktar er kveðið á um að sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykktinni að ræða skuli afturkalla viðkomandi undanþágu til hundahalds. Með bréfi, dags. 4. maí 2010, tilkynnti kærði kærendum að formleg kvörtun hefði borist vegna hunds þeirra. Ber bréfið með sér kvörtunarefni sem tilkynnt var til lögreglu 8. apríl 2010, sbr. framlagt afrit úr dagbók lögreglustjórans á Akranesi. Um er að ræða tilkynningu um að hundurinn hafi bitið konu sem býr í sama húsi og kærendur, svo og að hundurinn sé oft geymdur í sameign hússins þannig að nágranni þori ekki að nýta það rými. Í bréfinu var þess óskað að kærendur gerðu nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja að slík tilvik kæmu fyrir aftur og tekið fram að yrði um frekari brot að ræða mætti búast við afturköllun leyfis til hundahalds. Samkvæmt gögnum málsins hafði einnig verið tilkynnt til lögreglu um atvik tengd umræddum hundi þann 20. janúar og 1. febrúar 2009. Þann 9. ágúst 2010 barst lögreglu enn á ný tilkynning vegna umrædds hunds og þá þess efnis að hann hefði glefsað í 9 ára gamalt barn. Í framhaldi af þessari tilkynningu til yfirvalda sendi kærði kærendum, þann 23. ágúst 2010, bréf þar sem tilkynnt var um að leyfi þeirra til hundahalds væri afturkallað og farið fram á að hundurinn yrði annað hvort fjarlægður úr kaupstaðnum eða hann aflífaður innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins. Kærendur sendu kærða tölvupóst áður en framangreindur 10 daga frestur var liðinn og gerðu þar grein fyrir sjónarmiðum sínum vegna kröfu kærða um að hundurinn yrði fjarlægður úr kaupstaðnum eða aflífaður. Í þeim tölvupósti óskuðu kærendur m.a. eftir að hundinum yrði veitt annað tækifæri. Af hálfu kærða var litið til þeirra athugasemda sem kærendur gerðu grein fyrir í framangreindum tölvupósti og var málið tekið fyrir á fundi framkvæmdaráðs kærða þann 21. september 2010. Þann 22. september 2010 sendi kærði kærendum bréf þar sem gerð var grein fyrir niðurstöðu fundarins þess efnis að framkvæmdaráðið staðfesti afturköllun leyfis þeirra til hundahalds á Akranesi. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að samkvæmt framangreindu hafi kærendum verið tilkynnt um að mál tengt hundi þeirra væri til meðferðar hjá kærða og þeim verið gefinn kostur á að tjá sig um efni málsins áður en kærði tók endanlega ákvörðun í því og að þar með hafi verið uppfylltar þær skyldur sem lagðar eru á stjórnvöld í 13. gr. stjórnsýslulaga, varðandi andmælarétt og 14. gr. sömu laga varðandi tilkynningu með meðferð máls. Við mat á því hvort gætt hafi verið meðalhófs við ákvarðanatöku kærða, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, verður að líta til þess að kærði veitti kærendum tækifæri til úrbóta í bréfi, dags. 4. maí 2010 og gerði þeim þá jafnframt grein fyrir að búast mætti við afturköllun leyfis til hundahalds yrði um frekari brot á samþykkt um hundahald á Akranesi að ræða. Í sama bréfi óskaði kærði eftir að kærendur tilkynntu honum um þau úrræði sem þau myndu grípa til innan 10 daga. Kærendur halda því fram að þau hafi gripið til ákveðinna ráðstafna, sem þau hafi kynnt í samtali fyrir hundaeftirlitsmanni á vegum kærða og að þar með ætti málið að vera leyst. Hundaeftirlitmaðurinn hafnar því að hafa samþykkt umræddar ráðstafanir. Engin gögn liggja fyrir um samskipti kærenda og hundaeftirlitsmannsins og ljóst að þau fóru ekki fram með formlegum hætti. Þær ráðstafanir sem kærendur höfðu gripið til dugðu hins vegar ekki þegar hundur þeirra glefsaði í barn í ágúst 2010. Í kjölfar þess atburðar tilkynnti kærði kærendum að leyfi þeirra til hundahalds væri afturkallað og gaf þeim 10 daga frest til að fjarlægja hundinn úr kaupstaðnum. Með vísan til framangreinds ferils telur úrskurðarnefndin að gætt hafi verið meðalhófs í málinu af hálfu kærða. Þá getur úrskurðarnefndin með vísan til þess sem að framan er rakið ekki fallist á það með kærendum að við málsmeðferðina hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Eins og að framan greinir er meginregla samþykktar um hundahald á Akranesi, sem í gildi var á árinu 2010, sú að hundahald sé bannað í kaupstaðnum. Í samþykktinni er hins vegar bæjarstjórn veitt heimild til að veita einstaklingum undanþágur til hundahalds. Samkvæmt almennum lögskýringarreglum skal skýra undantekningarreglur þröngt. Í ljósi þess og þess sem að framan er rakið varðandi meðalhóf og andmælarétt, svo og með vísan til framangreinds 2. málsliðar 3. gr. samþykktar um hundahald á Akranesi, telur úrskurðarnefndin ekki vera tilefni til að gera athugasemdir við þá ákvörðun kærða sem kynnt var kærendum í bréfi dags. 22. september 2010. Eftir að sú ákvörðun hafði verið tilkynnt kærendum sendi kærði þeim hins vegar tvö annars konar bréf, dags. 18. október og 3. desember 2010. Í fyrra bréfinu var kærendum gerð grein fyrir því að samkvæmt bókun kærða væri hundaleyfisgjald þeirra fyrir árið 2010, kr. 12.000, komið í vanskil. Samkvæmt gildandi gjaldskrá þess tíma var gjald fyrir leyfi til hundahalds kr. 12.000 á ári. Í síðara bréfinu var athygli kærenda vakin á því að dýraeftirliti bæjarins hefði ekki borist vottorð um að hundur þeirra hefði verið ormahreinsaður. Voru bréf þessi undirrituð af sama starfsmanni kærða og kærendur höfðu fram til þess tíma staðið í bréfaskiptum við vegna ákvörðunar kærða um að afturkalla leyfi þeirra til hundahalds. Þegar kærendum bárust framangreind bréf var staða mála sú milli aðila máls þessa að kærendur höfðu sent kærða tölvupóst, dags. 30. september 2010, þar sem þau fóru þess á leit að ákvörðun kærða um afturköllun leyfis til hundahalds yrði felld úr gildi vegna brota á stjórnsýslulögum og var því bréfi enn ósvarað af hálfu kærða. Kærði svaraði framangreindu erindi kærenda frá 30. september 2010 með bréfi, dags. 13. desember 2010. Í því bréfi var kærendum gefinn kostur á að koma að upplýsingum og gögnum sem gætu leitt til þess að rétt væri að endurupptaka málið samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga. Var kærendum veittur frestur í því skyni til 21. desember 2010. Þann 22. desember 2010 ritaði kærði á ný bréf til kærenda þar sem m.a. kom fram að kærði hefði ákveðið að framlengja gefinn frest til 3. janúar 2011. Kærendur sendu kærða tölvupóst, dags. 3. janúar 2011, þar sem þau báðu um tækifæri til að fá að hafa hundinn og tóku fram að þau teldu sig hæf til að koma í veg fyrir að undan honum yrði kvartað. Kærði svaraði erindi kærenda með bréfi, dags. 5. janúar 2011, þar sem endurupptöku málsins var hafnað á þeim grundvelli að samkvæmt mati kærða hefðu engar upplýsingar eða gögn komið fram sem gæfu tilefni til endurupptöku málsins. Kærendur skutu þá málinu til framkvæmdaráðs kærða sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 15. febrúar 2011. Var það mat framkvæmdaráðsins að engar upplýsingar hefðu komið fram sem gæfu tilefni til að ákvörðun kærða frá 23. ágúst 2010 yrði endurskoðuð og staðfesti framkvæmdaráðið þar með fyrri ákvörðun um afturköllun leyfis til hundahalds. Úrskurðarnefndin getur fallist á það með kærendum að framangreind bréf kærða til þeirra, dags. 18. október og 3. desember 2010, kunni að hafa vakið upp óvissu hjá þeim og spurningar um stöðu málsins. Hins vegar telur úrskurðarnefndin að kærendum hafi mátt vera ljóst er þeim barst bréf kærða, dags. 13. desember 2010, að ekki hefði verið tekin ákvörðun af hálfu kærða að fella niður fyrri ákvörðun um afturköllun leyfis þeirra til hundahalds. Að auki kom það skýrlega fram í bréfi kærða, dags. 5. janúar 2011. Að mati úrskurðarnefndarinnar veitir sú óvissa, sem kærendur kunna að hafa verið í um stöðu málsins frá 18. október 2010 til 13. desember 2010, þeim ekki aukinn rétt umfram þann sem kærði veitti þeim með því að gefa þeim kost á að leggja fram upplýsingar og gögn sem leitt gætu til endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur halda því fram að þau séu reiðubúin til að grípa til frekari ráðstafana til að fyrirbyggja hættu sem kunni að stafa af hundi þeirra, en þar sem slíkar ráðstafanir séu kostnaðarsamar, séu þau ekki reiðubúin til að grípa til þeirra fyrr en fyrir liggi að þau fái áframhaldandi leyfi til að hafa hundinn. Úrskurðarnefndin telur að ekki sé hægt að líta á slíkar yfirlýsingar um framkvæmdir, án þess að grípa til framkvæmdanna, sem ný gögn eða upplýsingar sem leiða eigi til endurupptöku málsins. Verður því ekki séð að kærendur hafi lagt fyrir kærða nein ný gögn eða upplýsingar varðandi efnisþátt málsins og af þeim sökum telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið forsendur til að endurupptaka málið á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga og því beri að staðfesta ákvörðun kærða sem tilkynnt var með bréfi, dags. 21. febrúar 2011. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hvort tveggja ákvörðun kærða um að afturkalla leyfi kærenda til hundahalds í Akraneskaupstað og ákvörðun kærða um að synja um endurupptöku málsins.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Akraneskaupstaðar um að afturkalla leyfi Margrétar Hallgrímsdóttur og Jónasar Páls Þorlákssonar nr. 137 til hundahalds í kaupstaðnum, svo og ákvörðun Akraneskaupstaðar um að synja um endurupptöku málsins.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                         Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 9/19/11

8/2011 Úrskurður vegna kæru Margrétar Óskar Tómasdóttur gegn Akraneskaupstað vegna afturköllunar þriggja leyfa hennar til hundahalds í kaupstaðnum

Með

Mál nr. 8/2011. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, fimmtudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2011 Margrét Ósk Tómasdóttir gegn Akraneskaupstað.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 19. apríl 2011 kærði Auður Björg Jónsdóttir, hdl., f.h. Margrétar Óskar Tómasdóttur (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Akraneskaupstaðar (hér eftir nefndur kærði) frá 17. nóvember 2010 um afturköllun þriggja leyfa hennar til hundahalds í kaupstaðnum. Krefst kærandi þess að vikið verði frá kærufresti í málinu og að hin kærða ákvörðun verði felld niður. Kærði krefst frávísunar málsins á þeirri forsendu að kærufrestur sé liðinn en að öðrum kosti verði hin kærða ákvörðun staðfest.

II. Málmeðferð

Kæra málsins er dagsett 19. apríl 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 28. apríl 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 10. maí 2011. Úrskurðarnefndin kynnti kæranda greinargerð kærða og gaf henni kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum af sinni hálfu. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi lögmanns hennar, dags. 27. maí 2011. Þá leitaði úrskurðarnefndin upplýsinga frá Íslandspósti hf. vegna afhendingar ábyrgðarbréfs og fékk senda útprentun um feril þess.

III. Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda veitt leyfi til hundahalds í Akraneskaupstað nr. 233, 234 og 235 þann 9. september 2009. Ári síðar eða þann 9. september 2010 sendi heilbrigðiseftirlit Vesturlands kæranda bréf vegna kvörtunar sem borist hafði vegna hunda hennar. Þann 28. september 2010 sendi heilbrigðiseftirlitið bréf til kærða þar sem lagt var til að leyfi kæranda til hundahalds yrðu afturkölluð vegna brota á samþykkt kaupstaðarins um hundahald. Þann 30. september 2010 sendi kærði kæranda bréf þar sem henni var gerð grein fyrir að fyrirhugað væri að afturkalla leyfi hennar til hundahalds. Kærandi lagði fram andmæli vegna fyrirhugaðrar sviptingar leyfa til hundahalds. Andmæli hennar eru ódags., en stimpluð móttekin hjá kærða þann 11. október 2010. Með bréfi, dags. 17. nóvember 2010, gerði kærði kæranda grein fyrir að leyfi hennar til hundahalds á Akranesi væru afturkölluð frá og með 25. nóvember 2010.

IV. Málstæður og rök kærenda

Í kæru er því haldið fram að kæranda hafa verið ókunnugt um ákvörðun kærða um afturköllun leyfa til hundahalds í Akraneskaupstað þar til í mars 2011 og óskar kærandi þess að vikið verði frá kærufresti. Í rökstuðningi kæranda segir að hún hafi leitað til lögmanns eftir að þriggja mánaða kærufrestur hafi verið liðinn, en á þeim tímapunkti hafi henni ekki verið kunnugt um að hundaleyfin hafi þá þegar verið afturkölluð. Þá segir að kærandi hafi í tvígang fengið bréf frá heilbrigðiseftirliti Vesturlands þar sem fram hafi komið krafa heilbrigðiseftirlitsins um afturköllun hundaleyfa hennar og bréf frá kærða vegna málsins. Kærandi hafi falið lögmanni sínum að svara bréfi kærða, það hafi lögmaðurinn gert og þá hafi komið í ljós að leyfi kæranda til hundahalds hafi verið afturkallað með bréf, dags. 17. nóvember 2010. Fram kemur að kærandi velti fyrir sér hvort bréf kærða um afturköllun hundaleyfa hafi verið sent henni og að hún telji ljóst að þar sem bréfið hafi aldrei borist henni skuli kærufrestur ekki byrja að líða fyrr en 17. mars 2011 þegar kærði dagsetti bréf til lögmanns hennar þar sem fram kom að leyfið hefði verið afturkallað. Í athugasemdum við greingerð kærða er ítrekað af hálfu kæranda að hún kannist ekki við að hafa móttekið bréf kærða frá 17. nóvember 2010. Þá bendir kærandi á að kvittun fyrir móttöku ábyrgðarbréfs, sem kærði lagði fram í málinu, sé stimpill um ítrekun, dags. 25. nóvember 2009. Kærandi vísar enn fremur til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og kveður að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kveður kærandi að í því sambandi verði að hafa í huga að tilgangur þriggja mánaða kærufrests sé að stuðla að því að stjórnsýslumál verði til lykta leidd svo fljótt sem auðið sé. Tilgangurinn sé ekki að koma í veg fyrir að borgarar njóti réttar síns til að fá ákvörðun endurskoðaða hjá æðra stjórnvaldi. Líta verði til þess að hin kærða ákvörðun varði kæranda eina og þannig hafi meðferð kærunnar ekki áhrif á neinn annan borgara, sem leiði til þess að ekki megi túlka skilyrði 28. gr. stjórnsýslulaga þröngt. Um sé að ræða afar veigamikið mál fyrir kæranda, sem skipti hana mjög miklu máli enda varði málið hvort hún geti haldið hunda á heimili sínu. V. Málsástæður og rök kærða Í greinargerð kærða er rakin forsaga þess að leyfi kærandi til hundahalds hafi verið afturkallað. Þar segir m.a. að kærandi hafi þann 9. september 2009 fengið þau þrjú leyfi til hundahalds sem málið varðar. Vegna kvartana um hávaða frá hundum kæranda o.fl. hafi heilbrigðiseftirlit Vesturlands sent kæranda bréf þann 9. september 2010. Í því bréfi hafi m.a. komið fram að yrði um frekari brot að ræða á samþykkt um hundahald á Akranesi og ekki farið að tilmælum heilbrigðiseftirlitsins myndi verða farið fram á það við kærða að leyfi kæranda til hundahalds yrðu afturkölluð. Athugasemdir hafi borist frá kæranda 11. október 2010, sem ekki hafi breytt afstöðu heilbrigðiseftirlitsins og það farið þess á leit við kærða að leyfi kæranda til hundahalds yrðu afturkölluð. Kærði kveðst í greinargerðinni hafa tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 17. nóvember 2010, að leyfi hennar til hundahalds á Akranesi, þ.e. leyfi nr. 233, 234 og 235, hafi verið afturkölluð frá og með 25. nóvember 2010. Þá segir að í bréfinu hafi kæranda verið gerð grein fyrir því að hún gæti freistað þess að fá ákvörðunina endurskoðaða með því að bera hana undir framkvæmdaráð kærða og einnig hafi henni verið leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, svo og kærufrest í því sambandi. Í tilefni þess að kærandi heldur því fram að bréf kærða til hennar, þar sem tilkynnt var um afturköllun leyfa til hundahalds, hafi aldrei borist kæranda segir í greinargerðinni að samkvæmt útskrift frá Íslandspósti hf. hafi umrætt bréf verið afhent 25. nóvember 2010 og sé ljósrit af útskriftinni meðal fylgigagna greinargerðarinnar. Kveðst kærði telja að leggja verði til grundvallar að umrædd ákvörðun hans um afturköllun leyfa til hundahalds hafi verið birt kæranda með fullnægjandi hætti þann 25. nóvember 2005 [innskot; á líklega að vera 2010]. Kveður kærði að því sé kæra til úrskurðarnefndarinnar of seint fram komin og kveðst telja að úrskurðarnefndinni beri að vísa kærunni frá.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Ákvæði 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur að geyma almenna reglu um kærufrest, sem á við um kærur til úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Þar er kveðið á um að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um hvernig fara skuli með kæru sem berst að liðnum kærufresti. Þar segir: ?Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema: 1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða 2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.? Í máli því sem hér er til úrlausnar snýr kæruefnið að ákvörðun kærða sem tekin var í nóvember 2010. Kærði kveðst hafa kynnt kæranda ákvörðunina með bréfi, dags. 17. nóvember 2010. Meðal gagna málsins er afrit af óundirrituðu bréfi kærða til kæranda, dags. 17. nóvember 2010, þar sem segir m.a. að leyfi kæranda til hundahalds á Akranesi nr. 233, 234 og 235 séu afturkölluð frá og með 25. nóvember 2010. Þá er í bréfinu leiðbeint um kæruheimild og kærufrest. Einnig hefur verið lagt fram afrit af kvittun fyrir afhendingu ábyrgðarbréfs. Ber kvittunin með sér að kærði hafi sent kæranda ábyrgðarbréf í nóvember 2010, sem hún hafi kvittað fyrir móttöku á. Á framangreindri kvittun stendur m.a.: ?Ítrekun um póstsendingu Komud./Prentd. 18.11.10 / 25.11.10 Endursendist 18.12.10? Þá er á kvittuninni stimpill þar sem stendur: ?Íslandspóstur hf. 25. NÓV 2009 ÍTREKAÐ? Vegna misræmis ártala á umræddri kvittun leitaði úrskurðarnefndin upplýsinga frá Íslandspósti hf. og fékk senda skráningu á ferli ábyrgðarbréfsins, sem hin framlagða kvittun varðar. Samkvæmt ferilsskráningu póstlagði kærði þann 17. nóvember 2010 ábyrgðarbréf til kæranda, þ.e. sama dag og bréf um afturköllun hundaleyfa er dagsett. Þann 18. nóvember 2010 fór ábyrgðarbréfið á aksturslista frá pósthúsi og þann 19. nóvember 2010 var skilin eftir tilkynning um bréfið, sem ítrekuð var 25. nóvember 2010. Þann 26. nóvember 2010 var bréfið afhent og samkvæmt framlagðri kvittun kvittaði kærandi fyrir móttöku þess. Með vísan til framangreindra gagna og upplýsinga telur úrskurðarnefndin að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi borist ákvörðun kærða um afturköllun leyfa til hundahalds í Akraneskaupstað þann 26. nóvember 2010. Þar með er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærufrestur vegna hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið þrír mánuðir frá 26. nóvember 2010 að telja og því staðið til 26. febrúar 2011. Kæra málsins barst úrskurðarnefndinni þann 28. apríl 2011 eða u.þ.b. tveimur mánuðum eftir að kærufresti lauk og heldur kærandi því fram að henni hafi verið ókunnugt um ákvörðun kærða þar til í mars 2011. Hafi henni borist vitneskja um ákvörðunina í kjölfar þess að lögmaður hennar sendi bréf, dags. 10. mars 2011, til kærða vegna málsins, en því bréfi hafi kærði svarað með bréfi, dags. 17. mars 2011, og gert þá m.a. grein fyrir að leyfi kæranda til hundahalds hefðu verið afturkölluð í nóvember 2010. Með vísan til þess sem að framan er rakið getur úrskurðarnefndin ekki fallist á þennan málatilbúnað kæranda og telur ótvírætt að tilkynning um afturköllun hundaleyfa hafi borist henni þann 26. nóvember 2010. Þá telur nefndin ekkert hafa komið fram í málinu sem bendi til þess að undantekningarákvæði 1. og 2. tö1uliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga eigi við í tilviki kæranda. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir að vísa skuli kæru málsins frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir kæru Margrétar Óskar Tómasdóttur, sem varðar ákvörðun Akraneskaupstaðar um að afturkalla leyfi er henni höfðu verið veitt til hundahalds í kaupstaðnum nr. 233, 234 og 235.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                 Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 7/4/11

7/2011 Úrskurður vegna kæru Gunnars Rafns Einarssonar gegn Orkuveitu Reykjavíkur vegna ákvörðunar um álagningu fráveitugjalds vegna 486,0 fermetra fasteignar við Hringbraut í Reykjavík (fastanúmer 200-2302).

Með

Mál nr. 7/2011. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, fimmtudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2011 K. Steindórsson sf., Hofgörðum 18, Seltjarnarnesi gegn Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1, Reykjavík.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 22. mars 2011, kærði Gunnar Rafn Einarsson, löggiltur endurskoðandi, f.h. K. Steindórssonar sf. (hér eftir nefnt kærandi) ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur (hér eftir nefnd kærði) um álagningu fráveitugjalds vegna 486,0 fermetra fasteignar við Hringbraut í Reykjavík (fastanúmer 200-2302). Kærandi gerir þær kröfur að álagning fráveitugjalds á umrædda húseign, sem hvorki hafi vatnslögn né frárennslislögn, verði felld niður. Kærði telur að hafna beri kröfum kæranda og staðfesta hina kærðu ákvörðun um álagningu fráveitugjalds.

II. Málmeðferð

Kæra málsins barst úrskurðarnefndinni þann 25. mars 2011 og byggir hún á kæruheimild í 22. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Meðfylgjandi kæru voru álagningarseðill vegna vatns- og fráveitugjalda 2011 og svar kærða, dags. 24. febrúar 2011, við athugsemd kæranda vegna vatns- og fráveitugjalda fyrir árið 2011. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 6. apríl 2011, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum með greinargerð, dags. 27. apríl 2011. Greinargerð kærða var kynnt kæranda með bréfi, dags. 3. maí 2011. Sendi kærandi úrskurðarnefndinni athugasemdir, dags. 11. maí 2011, við greinargerð kærða. Voru athugasemdir kæranda kynntar kærða með bréfi, dags. 17. maí 2011. Frekari gögn hafa ekki borist.

III. Málsavik

Kærandi er eigandi húseignar við Hringbraut í Reykjavík, fastanúmer 200-2302. Er þar um að ræða 486,0 fermetra vörugeymslu/skemmu. Í janúar 2011 sendi kærði kæranda álagningu fráveitugjalds vegna húseignarinnar að fjárhæð 101.732 kr.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að umrædd fasteign kæranda sé óeinangruð bárujárnsskemma, byggð árið 1938 og í henni sé engin vatnslögn og hvorki frárennslislögn né annað fráveitukerfi. Kærandi kveður skemmuna hafa verið án þessara lagna frá upphafi eða í 73 ár og að því muni ekki verða breytt þar sem til standi að rífa skemmuna. Kærandi vísar til 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna og segir að lagaheimild til álagningar fráveitugjalds nái ekki til umræddrar fasteignar sem sé ekki tengd fráveitu, hafi aldrei verið tengd fráveitu og muni ekki tengjast slíkri veitu um ókomna framtíð. Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða segir m.a. að ekki falli meiri úrkoma á þak mannvirkisins, en sem hefði án tilvistar þess fallið á yfirborð jarðar. Því vatni, sem þar falli sé vissulega veitt með rennum í niðurfallsrör niður með hlið mannvirkisins, en aðeins niður að yfirborði jarðar þar sem jarðvegur taki við með sama hætti og hann hefði gert án tilvistar mannvirkisins. Um enga tengingu við fráveitu sé að ræða. Þá kveður kærandi að ekki sé fyrirhugað að koma slíkri tengingu á, þar sem gert sé ráð fyrir að rífa mannvirkið. Vegna tilvísunar kærða til athugasemda með 14. gr. frumvarps að lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna gerir kærandi í athugasemdum sínum að umtalsefni hver geti verið merking orðsins ?hjallur?. Kveður kærandi að tilvísuð athugasemd með lagafrumvarpinu taki til allra húsa sem séu án tengingar við vatnsveitur og að þar séu ?hjallar? aðeins nefndir sem dæmi um slík hús. Segir kærandi að væntanlega sé þakflötur með rennum og niðurfallsrörum á flestum ?hjöllum?, hvort sem þau rör séu tengd fráveitu eða ekki.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að samkvæmt 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna sé heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Þá er vísað til athugasemda með 14. gr. frumvarps þess sem varð að gildandi lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, þar sem segir að ekki sé gert ráð fyrir að hús þar sem engu vatni sé veitt inn og ekkert frárennsli sé frá, svo sem hjallar sem svo um hátti, greiði fráveitugjald. Kveðst kærði telja að fasteign sú sem mál þetta varðar falli ekki undir að vera ?hjallur?, þar sem í fasteignaskrá segi að um sé að ræða vörugeymslu, byggða úr timbri. Þá kveðst kærði telja að allar líkur séu á að vatni sé veitt af þaki hússins um rennur í fráveitukerfið, eins og venja sé til og að umrætt hús nýti því fráveitu og tengist henni.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í máli þessu er deilt um álagningu fráveitugjalds á 486,0 fermetra húseign við Hringbraut í Reykjavík. Húseignin mun vera vörugeymsla eða skemma og er ekki tengd vatni, hvorki köldu né heitu. Í 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 er kveðið á um fráveitugjald og þar segir að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Í frumvarpi til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi Alþingis, var lagt til að 1. mgr. 14. gr. laganna heimilaði að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar væru eða gætu tengst fráveitu sveitarfélags. Í athugasemdum við þetta ákvæði sagði jafnframt í frumvarpinu að ekki væri gert ráð fyrir að hús, þar sem engu vatni væri veitt inn og ekkert frárennsli væri frá, greiddi fráveitugjald og eru hjallar nefndir þar í dæmaskyni. Í nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna segir að fram hafi komið ábending um að orðalag 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins væri of víðtækt með því að heimila innheimtu fráveitugjalds af fasteignum sem gætu tengst fráveitu. Tók nefndin undir ábendinguna og lagði til þá orðalagsbreytingu að heimildin næði til fasteigna sem væru tengdar eða myndu tengjast fráveitu. Voru lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna samþykkt með því orðalagi. Í framangreindu nefndaráliti segir jafnframt að ákvæðum frumvarps til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna um gjaldtöku sé ætlað að tryggja að gjaldheimta sé í samræmi við þá þjónustu sem veitt sé. Í 10. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga nr. 982/2010, sem sett var með stoð í 21. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, er kveðið á um fráveitugjald. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum, þ.m.t. óbyggðum lóðum sem tengdar séu, muni tengjast fráveitu sveitarfélags eða njóti þjónustu hennar. Frárennsli er skilgreint í 1. tölulið 3. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna sem ?Rennsli frá mannvirkjum, götum, lóðum, gönguleiðum eða opnum svæðum, svo sem ofanvatn og/eða skólp og vatn frá upphitunarkerfum mannvirkja sem veitt er í fráveitur.? Kærandi heldur því fram að húseign hans sé ekki tengd fráveitu Reykjavíkurborgar og muni ekki tengjast fráveitu borgarinnar. Af hálfu kærða hafa ekki verið lögð fram gögn sem staðfesta að umrædd húseign sé tengd fráveitu eða nýti hana. Fullyrðingum kæranda um að húseign hans sé ekki tengd vatnslögn hefur ekki verið mótmælt af hálfu kærða. Þá hefur kærði ekki sýnt fram á að húseignin sé tengd fráveitu og að rennsli frá henni vegna t.d. ofanvants sé veitt í fráveitu. Með vísan til orðalags 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna og þeirra breytinga sem gerðar voru á orðalagi þess frá því sem lagt var til í upphaflegu frumvarpi að lögunum, sbr. það sem að framan er rakið, telur úrskurðarnefndin að til þess að heimild til álagningar fráveitugjalds eigi við verði að vera verulegar líkur á að viðkomandi fasteign tengist eða muni tengjast fráveitu viðkomandi sveitarfélags. Ekki hefur verið sýnt fram á það í máli þessu að umrædd húseign sé tengd eða muni tengjast fráveitu Reykjavíkurborgar, heldur má þvert á móti ætla að um sé að ræða húseign, sem engu vatni sé veitt inn og ekkert frárennsli sé frá. Því telur úrskurðarnefndin að fallast verði á kröfu kæranda og gera kærða að fella niður álagningu fráveitugjalds á 486,0 fermetra vörugeymslu/skemmu kæranda sem stendur við Hringbraut í Reykjavík.

Úrskurðarorð:

Felld er niður álagning Orkuveitu Reykjavíkur á fráveitugjaldi á 486,0 fermetra vörugeymslu/skemmu í eigu K. Steindórssonar sf. við Hringbraut í Reykjavík, fastanúmer 200-2302.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                   Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 7/4/11