Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

98/2018 Klapparstígur

Árið 2019, fimmtudaginn 12. september 2019 kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2018, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 2. maí 2018 um að breyta skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur 2.-4. hæðar Klapparstígs 29 þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 2. maí 2018 að breyta skilmálum deiliskipulags Brynju­reits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. nóvember 2018.

Málavextir: Hinn 27. júní 2017 var óskað eftir breytingu á gildandi deiliskipulagi Brynjureits, staðgreinireits 1.172.0, sem afmarkast af Klapparstíg, Hverfisgötu, Laugavegi og Vatnsstíg. Í breytingunum fólst að heimilað yrði að hafa veitingastað í flokki II á jarðhæð Klapparstígs 29. Óskað var eftir breytingunni fyrir hönd eiganda jarðhæðar hússins. Skipulagsfulltrúi grenndar­kynnti umsótta breytingu fyrir eigendum nærliggjandi húsa og gaf þeim kost á að tjá sig um hana. Breytingartillagan var síðan samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 30. ágúst 2017 en orðalagi um opnunartíma til kl. 23 virka daga og kl. 01 um helgar var fellt út þar sem fyrirhugað var að breyta aðalskipulagi borgarinnar á þann veg að þau skilyrði kæmu þar fram. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 7. september 2017 og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 13. október s.á. Fól skipulagsbreytingin í sér heimild fyrir veitingastað í flokki II á jarðhæð Klapparstígs 29 í stað rakarastofu. Kærendur máls þessa kærðu þá deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með bréfi, dags. 19. mars 2018. Töldu þeir grenndarkynningu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar ólöglega þar sem hún hafi ekki náð til eigenda fasteigna í húsinu að Klapparstíg 29 og þannig hafi verið brotið á andmælarétti þeirra.

Skipulagsfulltrúi sendi tilkynningu til kærenda 20. mars 2018 þess efnis að boðað væri til annarrar grenndarkynningar vegna málsins með fresti til athugasemda frá 22. mars 2018 til og með 19. apríl s.á. og sendu kærendur inn athugasemdir innan þess frests. Lagði skipulagsfulltrúi til í umsögn sinni, dags. 27. apríl 2018, að hin grenndarkynnta tillaga að breytingu á skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðarinnar að Klapparstíg 29 yrði samþykkt án breytinga. Var tillagan samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. maí 2018 og öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní s.á.

Með úrskurði uppkveðnum 29. júní 2018 var fyrra máli kærenda vísað frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem hin kærða ákvörðun hafði ekki réttarverkan að lögum eftir að hin nýja breyting á deiliskipulagi vegna Klapparstígs 29 tók gildi. Kærendur skutu síðan ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. maí 2018 um að breyta skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hina kærðu deiliskipulagsbreytingu vera í andstöðu við sérstök ákvæði Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 um miðbæ Reykjavíkur og atvinnu­starfsemi við Klapparstíg. Finna megi sérstök ákvæði um starfsemi, takmarkanir og frávik frá almennri skilgreiningu landnotkunar varðandi götuhliðar í miðborginni. Ljóst sé að Klappar­stígur, á milli Hverfisgötu og Laugavegs, sé ætlaður smávöruverslun og skuli hlutfall hennar nema að lágmarki 50%. Því sé hin umrædda deiliskipulagsbreyting, sem heimili rekstur veitingastaðar í flokki II, í andstöðu við aðalskipulag. Þegar af þeirri ástæðu sé breytingin ólögmæt, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.1.2. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Í þessu samhengi vísa kærendur einnig til afgreiðslu umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dags. 7. janúar 2016, vegna starfsemi Hard Rock Café við Lækjargötu og sambærilegs máls vegna veitingastaðarins NAM á Laugavegi 18b.

Skipulagsbreytingin sé einnig í andstöðu við lög um fjöleignarhús nr. 26/1994. Ágreiningur málsins snúist m.a. um hvort breyting á rekstri hársnyrtistofu í rekstur kráar eða veitingarekstur með vínveitingaleyfi, feli í sér breytta hagnýtingu séreignar í skilningi 27. gr. fjöleignarhúsalaga en sjónarmiði eigenda jarðhæðar Klapparstígs 29 um að ekki þurfi samþykki meðeigenda fyrir breytingunni séu röng.

Í 27. gr. fjöleignarhúsalaga sé hvergi gerður áskilnaður um að hin meinta breytta hagnýting verði að snúa að sameign hússins, þvert á móti fjallar ákvæðið um þau tilfelli þegar breyting á hagnýtingu séreignar „frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi“ hefur í för með sér „verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum […]“. Í slíkum tilvikum sé breytingin háð samþykki allra eigenda hússins, jafnvel þótt breytingin varði einungis séreignarhluta eins eiganda hússins. Í almennum athugasemdum um 27. gr. fjöleignarhúsalaga, sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögunum, segi m.a. að „við það [sé] miðað að breyting á hagnýtingu séreignar sé alltaf háð samþykki annarra eigenda, ýmist allra ef breyting er veruleg, sbr. 1. mgr., eða einfalds meirihluta miðað við fjölda og eignarhluta ef hún telst ekki veruleg, sbr. 3. mgr. [Sé] það ótvírætt eðlilegri og réttlátari tilhögun en nú [sé]“.

Fyrir liggi að kærendur hafi ekki veitt samþykki sitt fyrir veitingahúsa-, skemmtistaða- eða kráarrekstri á jarðhæð húsnæðisins að Klapparstíg 29. Þá sé mjög skýrt með tilliti til laganna og lögskýringargagna að breyting á hagnýtingu séreignar sé alltaf háð samþykki annarra eigenda, ýmist allra eða einfalds meirihluta. Hvorugt sé fyrir hendi í máli þessu þar sem einungis sjálfur eigandi jarðhæðarinnar sé samþykkur breytingum á eigin eignarhluta.

Samkvæmt greinargerð með frumvarpi því er varð að fjöleignarhúsalögum komi skýrlega fram í almennum athugasemdum um 27. gr. laganna að áhersla sé lögð á að eigendur fái notið eigna sinna í friði og án truflunar. Kærendum þyki ljóst að rekstur kráar muni hafa veruleg áhrif á þá og valda þeim alls kyns ónæði, röskun og óþægindum. Þessi eðlisbreyting á sambýli kærenda ætti ekki að ná fram að ganga án þeirra samþykkis. Í umsögn skrifstofu sviðsstjóra frá 26. júní 2018 komi fram að hin breytta hagnýting séreignar jarðhæðarinnar, þ.e. úr rekstri hársnyrtistofu í rekstur kráar, sé svo veruleg að breyta þyrfti sameign hússins, m.a. lögnum og ytra byrði þess sem jafnframt sé háð samþykki allra kærenda.

Af öllu framangreindu sé ljóst að hin umrædda deiliskipulagsbreyting sé í andstöðu við lög um fjöleignarhús þar sem hún feli í sér breytingu á annars vegar hagnýtingu séreignar jarð­hæðarinnar og hins vegar sameign hússins án samþykkis kærenda, sbr. m.a. 6.og 8. gr. og 1. og 3. mgr. 27. gr. laganna.

Kærendur telji jafnframt að málsmeðferð Reykjavíkurborgar hafi verið í andstöðu við skipulagslög, stjórnsýslulög nr. 37/1993 og upplýsingalög nr. 140/2012. Reykjavíkurborg hafi metið breytinguna óverulega og því ekki talið ástæðu til málsmeðferðar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, heldur skyldi breytingin grenndarkynnt. Í 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga segi að grenndarkynning felist í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum sem taldir séu geta átt hagsmuna að gæta leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests sem skuli vera a.m.k. fjórar vikur. Kærendum, sem hafi sannarlega mesta hagsmuni af deiliskipulagsbreytingunni, hafi upphaflega ekki fengið tillöguna senda til kynningar í samræmi við lög. Þess í stað hafi Reykjavíkurborg kynnt eigenda nærliggjandi íbúða umrædda breytingu. Í stað þess að viðurkenna að um mistök hafi verið að ræða hafi Reykjavíkurborg haldið því fram að kærendur hefðu ekki lögvarða hagsmuni af breytingunni en boðuðu þá síðar til annarrar grenndarkynningar.

Breytingin á deiliskipulaginu hafi verið veruleg og ljóst að rekstur kráar með a.m.k. opnunar­tíma lengur en til kl. 23 á virkum dögum og kl. 01 um helgar muni hafa veruleg áhrif á eigendur og íbúa efri hæða Klapparstígs 29. Í því sambandi sé vísað til þess að verslun hafi verið starfrækt á jarðhæð hússins í áratugi. Véla- og járnvöruverslun hafi starfað í húsinu fram yfir 1970 en undanfarna áratugi hafi verið rekin þar rakarastofa. Rekstur kráar með mjög rúman opnunartíma fæli í sér algjöra eðlisbreytingu frá þeim rekstri til verulegs óhagræðis fyrir kærendur.

Af málsmeðferðinni og samskiptum kærenda við Reykjavíkurborg megi sjá að brotið hafi verið gegn leiðbeiningarskyldu, upplýsingaskyldu og skyldu til að rökstyðja ákvörðun, sbr. 7., 15. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi verið brotið gegn andmælarétti þeirra skv. meginreglum stjórnsýsluréttar sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, þar sem þeim hafi verið haldið utan við afgreiðslu málsins og hafi ekki fengið þau gögn, upplýsingar, rökstuðning eða leiðbeiningar sem þeir leituðu eftir til að gæta hagsmuna sinna.

Einnig er vísað til þess að breytingin á deiliskipulaginu sé ekki í samræmi við tillöguna sem hafi verið grenndarkynnt þar sem í hinni samþykktu breytingu hafi verið felldar út takmarkanir á opnunartíma og virðist sem Reykjavíkurborg undirbúi breytingar á reglum sínum sem miði að því að hann verði enn lengri en kynntur hafi verið í grenndarkynningunni.

Að lokum byggja kærendur á því að undirbúningur og rannsókn málsins hafi verið í andstöðu við skipulagslög og meginreglur stjórnsýslulaga. Í því sambandi sé vísað til þess að ekki hafi verið rannsakað hvort breytingin teldist óveruleg breyting á deiliskipulagi. Í grenndar­kynningunni hafi ekki verið að finna rökstuðning fyrir málsmeðferðinni líkt og gr. 5.9.2.  skipulagsreglugerðar kveði á um. Ekki hafi verið rannsakað hvaða áhrif breytingin hefði á nærliggjandi umhverfi, hljóðvist, íbúðarbyggð og þá atvinnustarfsemi sem fram fari við götuna. Þá hafi ekki verið rannsakað hvort breytingin hafi verið í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkurborgar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að samkvæmt miðborgarkafla aðalskipulags Reykjavíkurborgar sé umrætt húsnæði á skilgreindu hliðar­verslunarsvæði 16 þar sem gert sé ráð fyrir 50% smásöluverslun að lágmarki á jarðhæðum húsa innan götusvæðisins. Í dag sé hlutfall smásöluverslunar 20% og hafi verið það síðan að starfsemiskvóti hafi verið settur á svæðinu með gildistöku aðalskipulagsins í febrúar 2014.

Áður hafi verið rekin rakarastofa á jarðhæð við Klapparstíg 29, sem flokkist undir „skrifstofur og fagleg þjónusta“, en ekki „smásöluverslun“. Það myndi því ekki hafa áhrif á starfsemiskvóta fyrir smávöruverslun á götuhliðum jarðhæða á svæðinu ef húsnæðinu yrði breytt úr rakarastofu í veitingastað, þ.e. hlutfall smásöluverslunar myndi haldast í 20% en ekki fara minnkandi. Frá því að starfsemiskvótar á götusvæðum í miðborg Reykjavíkurborgar tóku gildi um og upp úr aldamótum hafi vinnureglan við afgreiðslu á umsóknum um breytingu á starfsemi verið sú að ef starfsemi falli ekki undir smásöluverslun eða matvöruverslun þá hafi ekki verið gerð athugasemd við breytingu á starfseminni þrátt fyrir að smásöluverslun sé undir starfsemiskvóta á tilteknu götusvæði ef smásöluverslun minnki ekki.

Sú breyting á hagnýtingu, þ.e. að reka veitingastað í stað rakarastofu, sé ekki þess háttar breyting á hagnýtingu sem ákvæði 27. gr. fjöleignarhúsalaga taki til. Ljóst sé að samkvæmt gildandi skipulagi fyrir það svæði þar sem umrædd húseign standi sé heimilt að reka veitingahús. Þegar hagnýtingu séreignar sé hliðrað með þessum hætti úr þjónustu í veitingarekstur telji borgaryfirvöld að einkum hljóti að reyna á hvort aðili sem um slíkt sæki uppfylli fagleg skilyrði laga til að mega reka veitingahús á viðkomandi stað og hvort slíkt sé heimilt vegna gildandi skipulags. Því sé vísað á bug að breytingin sé í andstöðu við lög um fjöleignarhús nr. 26/1994.

Ekki hafi verið farið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við meðferð málsins enda hafi málsmeðferð við deiliskipulagið alfarið verið í samræmi við skipulagslög, skipulagsreglugerð og stjórnsýslulög. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga skuli fara með breytingu á deili­skipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða með því fráviki að ekki sé skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. laganna. Sú undantekning sé gerð í 2. mgr. 43. gr. að telji sveitar­stjórn að gera þurfi breytingar á gildandi deiliskipulagi, sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins, skuli fara fram grenndarkynning. Grenndar­kynning sé því undantekning frá meginreglunni. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærileg ákvæði sé að finna í gr. 5.8.2. skipulags­reglugerðar, en jafnframt sé þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Deiliskipulagstillaga sú sem hér um ræði hafi verið talin minni háttar breyting á notkun og hafi því verið grenndarkynnt öðrum lóðarhöfum og nágrönnum, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Við afgreiðslu deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið ákveðið að fella opnunartíma út þar sem opnunartími veitingastaða sé ekki lengur ákvarðaður í lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Á þeim forsendum hafi verið gerð breyting á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar þar sem opnunartími veitingastaða sé ákvarðaður. Í aðalskipulagsbreytingu sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. mars 2018 hafi verið sett almennt viðmið um opnunartíma veitingastaða í flokki II, sem miðist við til kl. 23 á virkum dögum og kl. 01 um helgar. Hafi þótt rétt að hafa heimildina í aðalskipulagi fremur en deiliskipulagi.

Lóðin klapparstígur 29 sé skráð sem viðskipta- og þjónustulóð hjá Þjóðskrá Íslands og heimilt sé að stunda þar viðskipti og þjónustu. Óeðlilegt sé að takmarka í deiliskipulagi starfsemi við eina iðngrein líkt og gert hafi verið í eldra skipulagi. Því hafi verið gerð breyting til að opna á þær heimildir sem gildi á svæðinu skv. aðalskipulagi.

Málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga og stjórnsýslulaga.

———-

Eigendum jarðhæðar að Klapparstíg 29 var gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri vegna kærumálsins en hafa ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felst að í stað orðalags í skilmálum deili­skipulagsins um að Rakarastofan á Klapparstíg 29 verði á jarðhæð komi heimild til að opna veitingastað í flokki II á jarðhæð hússins á sama stað. Að auki er tekið fram að ekki megi byrgja fyrir glugga í umræddu húsnæði og að ytri byrði hússins haldist óbreytt. Skilmálar skipulagsins haldast að öðru leyti óbreyttir.

Í 19. tl. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er skipulagsáætlun skilgreind sem áætlun um markmið og ákvarðanir viðkomandi stjórnvalda um framtíðarnotkun lands. Þar sé gerð grein fyrir því að hvers konar framkvæmdum sé stefnt og hvernig þær falli að landnotkun á tilteknu svæði. Í 2. mgr. 12. gr. sömu laga er jafnframt kveðið á um að í skipulagsáætlunum sé mörkuð stefna um landnotkun og byggðaþróun. Þar séu sett fram stefnumið um einstaka þætti er varða t.d. íbúðarbyggð og atvinnusvæði. Skv. 1. mgr. 37. gr. laganna er deiliskipulag skilgreint sem skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa, sbr. einnig 6. tl. 1. mgr. 2. gr. sömu laga. Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér ákvörðun um heimilaða notkun húsnæðis á fyrstu hæð hússins að Klapparstíg 29, en skv. 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er m.a. óheimilt að breyta notkun húss nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa. Skipulagsáætlanir breyta því ekki hagnýtingu séreignar einar og sér heldur þarf að liggja fyrir byggingarleyfi fyrir breyttri notkun húsnæðis sem rúmast innan heimilda gildandi skipulags. Í ljósi þess var ekki þörf á að afla samþykkis annarra eigenda fjöleignar­hússins að Klapparstíg 29 skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga við greinda deiliskipulagsbreytingu. Við samþykki byggingarleyfis fyrir breyttri notkun séreignar getur hins vegar eftir atvikum þurft slíkt samþykki, sbr. 10. gr. laga um mannvirki og 27. gr. fjöleignarhúsalaga.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umræddur reitur á miðborgarsvæði M1a. Samkvæmt miðborgarkafla aðalskipulagsins er Klapparstígur 29 á hliðarverslunargötusvæði 16. Á því svæði er gert ráð fyrir að hlutfall smásöluverslunar sé að lágmarki 50%. Heimildir til annarrar starfsemi en smásöluverslunar geti því ekki verið umfram 50% og forsenda fyrir því að samþykkt sé breytt notkun á jarðhæð sé sú að hlutfall smásöluverslunar fari ekki undir 50% við þá götuhlið sem um ræðir. Jafnframt segir í miðborgarkafla aðalskipulagsins að við breytta starfsemi í götu með „götuhliðarstýringu“ skuli stuðlað að því að auka hlutfall virkra götuhliða. Ekki sé heimilt að breyta núverandi atvinnu- og þjónustuhúsnæði á jarðhæðum í íbúðir. Umrædd deiliskipulagsbreyting er innan landnotkunarheimilda aðalskipulags enda er ekki verið að minnka hlut smásöluverslunar á skipulagssvæðinu.

Hina kærða deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt í samræmi við ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Í því ákvæði er kveðið á um að sveitarstjórn skuli láta fara fram grenndarkynningu telji hún að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. á að taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar er að auki tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almanna­hagsmuni. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að skipulagslögum eru nefnd dæmi um óverulegar deiliskipulagsbreytingar. Í dæmaskyni er nefnt að til óverulegra framkvæmda teljist þegar iðnaðarhúsnæði er breytt í íbúðarhúsnæði, glerjun útisvala, skyggni yfir útidyr, dúkkuhús sem sett eru í garð o.s.frv. Dæmi þessi eiga það sameiginlegt að hafa óveruleg grenndaráhrif. Við túlkun á heimild sveitarfélaga til að grenndarkynna deiliskipulagsbreytingu ber einnig að hafa í huga að um undantekningarákvæði er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og ber því að túlka heimildina þröngt.

Fyrir liggur að umdeild skipulagsbreyting heimilar rekstur veitingastaðar í flokki II með opnunartíma til kl. 23 á virkum dögum og til kl. 01 um helgar í stað rakarastofu sem rekin hafði verið að Klapparstíg 29 um árabil. Rekstur veitingastaða var heimill á skipulagssvæðinu fyrir breytinguna en ástæða hennar mun hafa verið sú að í deiliskipulagi hafi verið kveðið á um að í húsnæðinu væri áfram rekin rakarastofa. Víkur deiliskipulagsbreytingin ekki frá almennt heimilaðri landnotkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi skipulagssvæðisins. Ekki er um fordæmis­gefandi ákvörðun að ræða þar sem á skipulagssvæðinu eru þegar reknir veitingastaðir.

Kærendum var send tilkynning um grenndarkynningu 20. mars 2018. Frestur til að senda inn athugasemdir var frá og með 22. mars til 19. apríl s.á. Sá frestur er fjórar vikur og því í samræmi við 1. málsl. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og var athugasemdum kærenda svarað 27. apríl s.á. í samræmi við 2. málsl. sömu málsgreinar. Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 2. maí 2018 og birtist auglýsing um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní s.á. Framangreind málsmeðferð var því í samræmi við kröfur skipulags­laga. Þó verður ekki séð að rökstuðningur fyrir málsmeðferð skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga komi fram í bréfi sem sent var til kærenda, dags. 20. mars 2018, líkt og kveðið er á um í gr. 5.9.2. skipulagsreglugerðar. Slíkur annmarki á málsmeðferð varðar þó ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, þar sem kærendur fengu notið andmælaréttar.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Rétt þykir að benda á að þeir sem geta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi eiga eftir atvikum rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 2. maí 2018 um að breyta skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg.