Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

107/2018 Grunnvatn í Reykjarfirði

Árið 2019, fimmtudaginn 29. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2018, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 8. júní 2018 um að samþykkja umsókn um nýtingarleyfi á grunnvatni í landi Reykjarfjarðar í Súðavíkurhreppi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júlí 2018, er barst nefndinni 8. ágúst s.á., kærir eigandi jarðarinnar Reykjarfjarðar í Súðavíkurhreppi, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 8. júní 2018 að samþykkja umsókn um nýtingarleyfi á grunnvatni í landi Reykjarfjarðar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 27. ágúst 2018.

Málavextir: Í Reykjanesi milli Ísafjarðar og Reykjarfjarðar í Ísafjarðardjúpi var lengi rekinn héraðsskóli. Á sjöunda áratug síðustu aldar var neysluvatn skólans fengið með því að leggja slöngu úr vatnsbóli í svokallaðri Borgarlág í landi jarðarinnar Reykjarfjarðar yfir Reykjarfjörð að Reykjanesi. Vatnið sem fékkst með þessari vatnsveitu var yfirborðsvatn. Ekki var gerður formlegur samningur um þessa vatnsnýtingu. Eftir að skólahald lagðist af voru skólabyggingar seldar og í dag er þar rekin ferðaþjónusta á vegum Ferðaþjónustunnar Reykjanesi ehf.

Með bréfi til Orkustofnunar, dags. 28. febrúar 2018, sótti ferðaþjónustan um nýtingarleyfi fyrir 3 l/s af grunnvatni úr landi Reykjarfjarðar, nánar tiltekið Borgarlág. Með bréfi, dags. 5. mars s.á., var kærandi upplýstur um framkomna umsókn og honum veittur frestur til andmæla. Voru andmæli af hans hálfu sett fram með bréfi, dags. 12. apríl s.á. Hinn 31. maí var umsækjanda tilkynnt að nýtingarleyfið yrði gefið út gegn greiðslu leyfisgjalds og var leyfið síðan gefið út 8. júní 2018. Í þeirri ákvörðun var ekki tekin afstaða til andmæla kæranda.

Að beiðni kæranda tók Orkustofnun málið til endurskoðunar í byrjun júlí 2018 og tók þá andmæli hans til umfjöllunar. Var niðurstaða Orkustofnunar sú, með bréfi dags. 12. s.m.,  að andmælin breyttu engu og var kæranda leiðbeint um kæruleið og kærufrest.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann telji nýtingarleyfið í raun vera markleysu þar sem það sé ekki í samræmi við beiðni leyfishafa. Beiðnin hafi lotið að því að fá að nýta vatn í Borgarlág. Í nýtingarleyfinu sé veitt heimild til nýtingar „á svæði við áður óhnitsett vatnsból í aðalskipulagi Súðavíkurhrepps“. Sé það vatnsból við sporð brúarinnar yfir Reykjarfjörð og í um 1,6 km fjarlægð frá vatnsbólinu í Borgarlág.

Ljóst sé að Orkustofnun hafi ekki gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993,  en samkvæmt ákvæðinu beri stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Með athugasemdum kæranda til Orkustofnunar hafi fylgt minnisblað frá verkfræðistofu sem tekið hafi verið saman 14. mars 2016. Hafi minnisblaðið komið til vegna þess að kærandi hefði tilkynnt leyfishafa um að hann ætlaði að hefja vatnsnotkun úr vatnsbólinu í Borgarlág, en þaðan hafi leyfishafi fengið vatn án þess að ljá máls á því að greiða fyrir vatnsafnotin. Aukin vatnsnotkun kæranda hafi verið talin geta leitt til neysluvatnsvandræða fyrir leyfishafa.

Málsrök Orkustofnunar: Af hálfu Orkustofnunar er tekið fram að mat hennar sé það að hin kærða ákvörðun hafi byggst á lögmætum sjónarmiðum sem samræmist markmiðum laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum úr jörðu, að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða. Nýtingin sé hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði til að tryggja nauðsynlegan aðgang að grunnvatni vegna þarfa atvinnutengdrar ferðaþjónustu í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, einnig að teknu tilliti til mögulegrar nýtingar kæranda sem ætla megi að geti hafist í næsta nágrenni við nýtingarsvæðið.

Hin kærða ákvörðun feli í sér heimild til nýtingar, ekki framkvæmda, á grunnvatni á tilteknu afmörkuðu svæði á leyfistímanum. Leyfishafi skuli samkvæmt hinni kærðu ákvörðun fylgja þeim skilmálum sem tilgreindir séu í ákvörðuninni og einnig náttúruverndarlögum, skipulagslögum og öðrum lögum sem varði rannsóknir og nýtingu lands og landsgæða.

Gætt hafi verið að rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þannig að málið hafi verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun Orkustofnunar hafi verið tekin, en stofnunin hafi m.a. yfir að ráða fagþekkingu á sviði grunnvatnsmála. Þá sé bent á ákvæði 7. gr. laga nr. 57/1998 sem kveði skýrt á um að leyfishafi þurfi að ná samkomulagi við landeiganda, kæranda í máli þessu, um endurgjald fyrir vatnsréttindin eða að hafa aflað sé heimildar til eignarnáms áður en vinnsla í eignarlandi hefjist, sbr. og 9. gr. hins kærða leyfis.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu skal nýtingarleyfishafi hafa náð samkomulagi við landeiganda um endurgjald fyrir auðlindina eða fengið heimild til eignarnáms og óskað eftir mati samkvæmt ákvæðum 29. gr. laganna áður en vinnsla hefst. Hafi hvorki náðst samkomulag um endurgjaldið né eignarnáms verið óskað innan 60 daga frá útgáfu nýtingarleyfis fellur það niður. Í 9. gr. hins kærða leyfis er vísað til framangreindra lagaákvæða.

Rúmir fjórtán mánuðir eru síðan hið kærða leyfi var gefið út og samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá landeiganda, kæranda þessa máls, liggur ekki fyrir samkomulag milli hans og leyfishafa. Hefur úrskurðarnefndin jafnframt fengið staðfest að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hafi ekki borist beiðni um eignarnám á auðlindinni. Með vísan til þessa og framangreindra lagaákvæða verður að telja að leyfið sé þar með fallið úr gildi. Hefur hin kærða ákvörðun því ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.