Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

74/2019 Grandagarður

Árið 2019, fimmtudaginn 29. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. apríl 2019 um að veita byggingarleyfi til að innrétta neyðarskýli fyrir heimilislausa vímuefnaneytendur að Grandagarði 1A.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Grandagarðs 1B, 3, 5, 7, 9, 11 og 13, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita byggingarleyfi til að innrétta neyðarskýli fyrir heimilislausa vímuefnaneytendur að Grandagarði 1A. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. ágúst 2019.

Málsatvik og rök: Hinn 9. apríl 2019 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík byggingarleyfi til að innrétta neyðarskýli fyrir heimilislausa vímuefnaneytendur í húsnæði að Grandagarði 1A, koma fyrir hvíldaraðstöðu á 2. hæð, nýrri pallalyftu milli hæða, svölum með hringstiga og nýju bílastæði á lóð. Sú ákvörðun var staðfest í borgarráði 2. maí s.á. og var byggingarleyfi gefið út hinn 3. júlí s.á.

Kærendur vísa til þess að framkvæmdirnar muni hafa óafturkræf áhrif á svæðinu, auk þess sem þær muni valda óþægindum á byggingartíma vegna hljóð-, sjón- og rykmengunar. Séu verulegar líkur á að leyfið verði fellt úr gildi. Verði framkvæmdir ekki stöðvaðar sé réttur kærenda til að bera mál sitt undir úrskurðarnefndina í raun að engu hafður, þar sem framkvæmdum verði annars lokið þegar málið verði tekið fyrir.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er byggt á því að allar framkvæmdir innanhúss séu afturkræfar og að innrétting rýmisins hafi engin áhrif á kærendur umfram það sem almennt geti talist. Ónæði sem hljótist af framkvæmdum sé ekki umfram það sem almennt megi gera ráð fyrir.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og séu heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi til að innrétta neyðarskýli fyrir heimilislausa vímuefna-neytendur og felur leyfið í sér heimild til breytinga innanhúss og til fyrirhugaða notkunar húsnæðisins. Liggur ekkert fyrir um það í málinu sem styður þá staðhæfingu kærenda að tímabundnar framkvæmdir innanhúss við Grandagarð 1A raski á einhvern hátt grenndarhagsmunum þeirra og einfalt væri að hætta heimilaðri notkun umrædds húsnæðis ef nauðsyn krefði.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda á meðan á meðferð málsins stendur fyrir úrskurðarnefndinni. Hins vegar eru framkvæmdirnar á áhættu byggingar-leyfishafa um lyktir málsins.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa samkvæmt hinni kærðu ákvörðun er hafnað.