Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

81/2018 Fitjar

Árið 2019, föstudaginn 13. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2018, kæra á beiðni skipulagsfulltrúa Skorradalshrepps frá 23. janúar 2018 þess efnis að kærendur leggi fram breytingu á Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2018, er barst nefndinni 7. s.m., kæra eigendur lóðarinnar Fitja, Skorradalshreppi, beiðni skipulagsfulltrúa Skorradalshrepps frá 23. janúar 2018 um að kærendur leggi fram breytingu á Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Er þess krafist að staðfest verði að máls­meðferð Skorradalshrepps hvað varðar skipulagskröfur vegna „aukahúss á bújörð“ sé óhófleg og að byggingarfulltrúi, skipulagsfulltrúi, skipulagsnefnd og hreppsnefnd hafi brugðist leiðbeiningarskyldu sinni skv. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt er þess krafist að staðfest verði að á grundvelli Aðalskipulags Skorradalshrepps 2010-2022 og skipulagslaga sé eðlilegast að landeigendur sæki um byggingarleyfi þegar um er að ræða „aukahús á bújörð“.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 18. júlí 2018.

Málavextir: Á árinu 2017 áttu kærendur í samskiptum við Skorradalshrepp vegna stofnunar íbúðalóða í landi Fitja. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 12. desember s.á. var tekin fyrir ósk kærenda um gerð deiliskipulags fyrir tvær íbúðalóðir í landi Fitja. Hafnaði nefndin beiðninni þar sem að hún samræmdist ekki stefnu Aðalskipulags Skorradalshrepps 2010-2022 en í aðalskipulaginu kom fram að innan annarrar íbúða­lóðarinnar væri skilgreint svæði fyrir verslun og þjónustu. Annar kærandi þessa máls sendi skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins tölvupóst 18. janúar 2018 þar sem óskað var leiðbeininga um hvort kærendur ættu að sækja um byggingarleyfi fyrir aukahúsi í landi Fitja eða hvort óska ætti eftir óverulegri breytingu á aðalskipulagi sem fælist í því að svæði fyrir verslun og þjónustu á Fitjum yrði fellt út. Í tölvupósti skipulagsfulltrúa 23. s.m. kemur m.a. fram að svo málið verið tekið fyrir hjá skipulags- og byggingarnefnd verði kærandinn að leggja fram óverulega breytingu á aðalskipulagi og samhliða því mætti senda inn deiliskipulags­tillögu íbúðalóðanna.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að í Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 segi í kafla 5.2 um íbúðarsvæði að heimilt sé að reisa þrjú stök íbúðarhús á hverri jörð, óháð búrekstri, án þess að aðalskipulagi sé breytt. Með lögum nr. 7/2016 um breytingu á skipulags­lögum nr. 123/2010 hafi verið gerð breyting á 44. gr. skipulagslaga. Eftir breytinguna segi í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag, en deiliskipulag liggi ekki fyrir, geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis komi fram að markmið þeirra breytinga sem lagðar séu til í frumvarpinu sé að sveitarfélög geti veitt leyfi til einstakra framkvæmda, m.a. á svæðum utan þegar byggðra hverfa, án þess að deiliskipuleggja svæðið.

Ekki sé hægt að gera þá kröfu til almennra borgara að þeir þekki lög og reglur til hlítar og því verði stjórnvöld að sinna leiðbeiningarskyldu sinni. Annar kærandi þessa máls hafi í byrjun janúar 2018 haft samband við Skipulagsstofnun til að ræða muninn á breytingu aðalskipulags og óverulegri breytingu aðalskipulags og í kjölfarið talið að lag væri að leggja fram óverulega breytingu aðalskipulags. Þessi kærandi hafi farið með þær upplýsingar á fund skipulagsfulltrúa og formanns skipulagsnefndar 16. janúar s.á. og hafi niðurstaðan orðið sú að kærandi skyldi senda inn slíka beiðni. Hvorki skipulagsfulltrúi né formaður skipulagsnefndar minntust á að komast mætti hjá skipulagsferli í málinu, þ.e. að sækja mætti um byggingarleyfi fyrir húsinu. Kærandi hafi síðar fengið þær upplýsingar frá öðrum fulltrúa í skipulagsnefnd sveitarfélagsins að ekki þyrfti að fara í neinar skipulags­breytingar þegar um væri að ræða „aukahús á bújörð“.

Í viðbótarathugasemdum kærenda er frekari framgangur málsins rakinn og er m.a. vísað til þess að skipulags- og byggingarnefnd hafi á fundi sínum 7. júní 2018 talið þörf á lýsingu deiliskipulags. Telja kærendur að falla hefði mátt frá lýsingu deiliskipulags á grundvelli 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga auk þess sem hægt hefði verið að auglýsa deiliskipulagstillögu samhliða óverulegri aðalskipulagsbreytingu.

Málsrök Skorradalshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þar sem fjallað er um efni kæru til nefndarinnar, segi m.a. að í kæru skuli koma fram hvaða ákvörðun það sé sem verið sé að kæra. Efni kærunnar varði ekki tiltekna lokaákvörðun sveitarfélagsins eða skipulagsfulltrúa þess í afmörkuðu stjórnsýslumáli eins og áðurnefnt lagaákvæði kveði á um. Kröfur kærenda lúti allar að því að nefndin staðfesti skilning kærenda sjálfra á því hvað sé óhófleg og/eða eðlileg málsmeðferð og einnig að staðfest verði að nefndir og starfsmenn hreppsins hafi ekki gætt að leiðbeiningarskyldu við meðferð umrædds skipulagsmáls. Í málinu sé þannig að mati hreppsins ekki gerð nein krafa um að tilteknar lokaákvarðanir séu felldar úr gildi. Jafnframt segi í 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Það vísi til þess áskilnaðar laganna að til þess að nefndin geti tekið mál til úrskurðar þurfi að kæra tiltekna ákvörðun eða ákvarðanir. Enn fremur sé kæran óskýr og ruglingsleg hvað varðar hin kærðu atriði og geri þannig mun erfiðara að svara þeim atriðum sem fram komi í kærunni. Þar sem engin lokákvörðun sé kærð sé þess krafist að kærunni verði vísað frá.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og ágreiningsmála vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála efir því sem mælt er fyrir um í lögunum. Er slíka kæruheimild að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Slíkar stjórnvaldsákvarðanir verða jafnframt að binda enda á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svo sem nánar er lýst í málavöxtum sóttu kærendur um gerð deiliskipulags vegna tveggja íbúðalóða í landi Fitja í Skorradalshreppi. Átti annar kærandi í sam­skiptum við starfsmenn sveitarfélagsins vegna málsins. Fór svo að sá kærandi sendi skipulags­fulltrúa sveitarfélagsins tölvupóst 18. janúar 2018 þar sem óskað var eftir leiðbeiningum um hvort kærendur ættu að sækja um byggingarleyfi eða óska eftir óverulegri breytingu á aðalskipulagi. Í svari skipulagsfulltrúa 23. s.m. er kærendum leiðbeint um að leggja verði fram óverulega breytingu á aðalskipulagi til þess að málið verði tekið fyrir hjá skipulags- og byggingarnefnd.

Með vísan til þessa verður hin kærða beiðni skipulagsfulltrúa Skorradalshrepps ekki talin fela í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og er hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.