Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2018 Hraunhella

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2018, kæra vegna framkvæmda á lóðinni nr. 19 við Hraunhellu, Selfossi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra fasteignaeigendur að Tjaldhólum 8, 18, 20 og að Hraunhellu 16 og 17, Selfossi, framkvæmdir við lóðina Hraunhellu 19. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að felldar verði úr gildi ákvarðanir  skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 1. mars 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Hraunhellu 19 á Selfossi og um breytta staðsetningu innkeyrslu á nefnda lóð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 13. apríl 2018.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 1. mars 2017 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa Hraunhellu 19, Selfossi, um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð. Umsóknin var samþykkt með fyrirvara um að brugðist yrði við athugasemdum nefndarinnar. Á sama fundi nefndarinnar var samþykkt umsókn lóðarhafa um­ breytta­­ staðsetningu innkeyrslu á greinda lóð. Eiganda var tilkynnt um þessa niðurstöðu með bréfi, dags. 3. mars 2017. Ákvarðanir þessar voru staðfestar á fundi bæjarstjórnar Árborgar 15. mars 2017.

Síðla árs 2017 kom í ljós að byggingarframkvæmdir á lóðinni nr. 19 við Hraunhellu voru ekki í samræmi við samþykktar teikningar, lóðarblað, byggingarleyfi og deiliskipulagsskilmála. Frá þeim tíma hélt eigandi fasteignarinnar að sér höndum með frekari framkvæmdir á lóðinni vegna þessara mistaka. Í kjölfarið kom beiðni frá eigandanum, dags. 22. nóvember 2017, um breytingu á deiliskipulagsskilmálum vegna lóðarinnar þess efnis að gerð yrði undanþága frá skilmálunum og leyfi gefið fyrir því að hluti byggingarinnar yrði hærri en sú hámarkshæð sem þar er tilgreind. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 15. desember 2017 var tekin ákvörðun um að grenndarkynna erindið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Gögn vegna grenndarkynningarinnar voru send út 17. desember 2017 til íbúa að Hraunhellu 16 og 17 og Tjaldhólum 6, 8, 18, 20 og 34. Athugasemdir bárust frá nágrönnum 11. janúar 2018. Í athuga­­semdunum kom m.a. fram mikil andstaða þeirra gagnvart breytingum og framkvæmdum við umrædda lóð. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar, sem haldinn var 17. janúar 2018, var fyrrgreindu erindi eiganda lóðarinnar hafnað og honum tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 22. janúar 2018.

Kærendur halda því  fram að með framkvæmdunum hafi verið vikið frá gildandi skipulagi með því að aðkomu að lóðinni hafi verið breytt. Þá verði heimiluð bygging á lóðinni fullar tvær hæðir, auk kjallara, en ganga megi út frá því að þar sé aðeins heimiluð ein hæð. Loks sé bent á að brotið sé gegn ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um mænishæð og með framkvæmdunum sé vikið frá meginforsendum sem settar voru í skipulagi um hæðarsetningu.

Sveitarfélagið vísar til þess að rétt hafi verið staðið að afgreiðslu málsins þar sem uppfylltar hafi verið kröfur form- og efnisreglna, sem því hafi borið að fara eftir, við meðferð umsóknar um hið kærða byggingarleyfi og um breytingu á innkeyrslu umræddrar lóðar. Ákvörðun í málinu hafi verið tekin á grundvelli deiliskipulagsskilmála fyrir Gráhellu á Selfossi, sem gildi á umræddu svæði, og annarra lagareglna sem við eigi. Þá sé ljóst að eins mánaðar kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi verið liðinn er kæran hafi borist  úrskurðarnefndinni. Kærendum hafi mátt vera kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir í síðasta lagi þegar gögn vegna grenndarkynningar á umsókn um undanþágu frá deiliskipulagsskilmálum á hámarkshæð umræddrar byggingar hafi verið send út hinn 17. desember 2017.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Gögn málsins bera með sér að byggingar­framkvæmdir á lóðinni nr. 19 við Hraunhellu hafi verið vel á veg komnar fyrir árslok 2017, en í nóvember s.á. fór eigandi lóðarinnar þess á leit við Sveitarfélagið Árborg að veitt yrði undanþága frá deiliskipulagsskilmálum og leyfi gefið fyrir því að hluti byggingarinnar á lóðinni yrði hærri en tilgreind hámarkshæð í deiliskipulagsskilmálum. Kærendum, sem búa á næstu lóðum við lóð leyfishafa, mátti vera ljóst af framkvæmdum á umræddri lóð á árinu 2017 að leyfi hefðu verið veitt fyrir þeim og gátu þeir þá þegar aflað sér upplýsinga um efni hinna kærðu ákvarðana hjá bæjaryfirvöldum. Þá liggur fyrir að grenndarkynningargögn vegna lóðarinnar Hraunhellu 19 voru send kærendum 17. desember 2017. Í ljósi þessa verður við það að miða að kærufrestur í málinu hafi í síðasta lagi byrjað að líða þann dag. Var kærufrestur því liðinn þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni.

Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Skal og á það bent að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga þar sem brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra, áður en ágreiningur um þær verði ljós, skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Að þessu virtu verður ekki talið að undantekningarákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga eigi hér við.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

82/2017 Hveravellir

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 21. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 82/2017, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2017 um endurskoðun matsskýrslu vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum, Húnavatnshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júlí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Hveravallafélagið ehf. þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2017 að endurskoða skuli matsskýrslu vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum.  Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að einungis beri að endurskoða hluta umræddrar matsskýrslu. Þá er farið fram á að úrskurðarnefndin ákveði að Skipulagsstofnun verði gert að greiða kostnað kæranda við kæru samkvæmt mati nefndarinnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 4. september 2017.

Málavextir: Hveravellir á Kili liggja í um 600 m hæð á milli Hofsjökuls og Langjökuls. Eru hverirnir á Hveravöllum ásamt næsta nágrenni friðlýst sem náttúruvætti, sbr. auglýsingu nr. 217/1975 í B-deild Stjórnartíðinda, og er mannvirkjagerð öll og jarðrask á svæðinu háð leyfi Umhverfisstofnunar. Þar eru nokkur mannvirki, m.a. tveir gistiskálar Ferðafélags Íslands, baðlaug og tjaldsvæði. Á árunum 1995-1997 fór fram mat á umhverfisáhrifum uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum á grundvelli þágildandi laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum.

Frumathugun skipulagsstjóra ríkisins lauk með úrskurði 7. mars 1996. Var niðurstaða hans sú að ráðast skyldi í frekara mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda. Í kjölfar þessa var lögð fram matsskýrsla og í úrskurði skipulagsstjóra 27. ágúst 1997 segir svo um kynnta framkvæmd: „Bygging allt að 640 m² ferðamannamiðstöðvar að hálfu innan friðlýsta svæðisins en að mestu í hvarfi frá aðalhverasvæðinu á Hveravöllum, ásamt nýjum aðkomuvegi, bílastæði og tjaldsvæði. Einnig er fyrirhugað að girða af hluta friðlýsta svæðisins, leggja um það göngustíga og græða upp svæði innan girðingarinnar. Gert er ráð fyrir hitaveitu, neysluvatnsveitu og fráveitu. Einnig er fyrirhugað að reisa rafstöð (að hámarki 10 m²) og birgðageymslu fyrir bensín og olíur.“ Jafnframt kom fram að nánar tilgreind mannvirki yrðu fjarlægð auk núverandi aðkomuvegar og bílastæða. Eftir stæðu af mannvirkjum steinhlaðið sæluhús, reist 1922, eldri skáli Ferðafélags Íslands, reistur 1938, og veðurathugunarstöð Veðurstofu Íslands, reist 1965. Í úrskurðinum er áformaðri ferðamannamiðstöð lýst með eftirfarandi hætti: „Í ferðamannamiðstöðinni er gert ráð fyrir mótttöku með veitingasölu og möguleika á sölu á íslenskum handiðnaði, gistirými fyrir 80 manns í þremur 15 manna svefnskálum og þriggja og fimm manna herbergjum, eldhúsi, hreinlætisaðstöðu, geymslum, aðstöðu fyrir hestamenn og vélsleða á vetrum, þjónustu við tjaldsvæði, húsnæði fyrir 5 starfsmenn og heitri útilaug.“ Féllst skipulagsstjóri ríkisins á fyrirhugaðar framkvæmdir með tilteknum skilyrðum er fólust m.a. í því að samráð yrði haft við Náttúruvernd ríkisins um endanlega hönnun þjónustumiðstöðvar. Staðfesti umhverfisráðherra greindan úrskurð 19. desember 1997.

Nýtt deiliskipulag Hveravalla tók gildi árið 2002. Í því kemur m.a. fram að í svæðisskipulagi miðhálendis Íslands sé gert ráð fyrir því að Hveravellir verði ein af sjö hálendismiðstöðum landsins. Þá er tiltekið að í aðalskipulagi sé ráðgert að framtíðarþjónustan á Hveravöllum miðist við þá þjónustu sem nú þegar sé veitt en að öll aðstaða verði bætt. Í nefndu deiliskipulagi er og tekið fram að stefnt sé að því að fækka mannvirkjum. Gert sé ráð fyrir nýju þjónustuhúsi og bílastæði á svæðinu. Þá verði ný tjaldstæði ræktuð upp í norðanverðum dalnum.

Ekki hefur verið ráðist í þær framkvæmdir sem kynntar voru í áðurnefndri matsskýrslu. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum skal viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda er veitt, ef framkvæmdir hefjast ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Í samræmi við þetta óskaði Húnavatnshreppur eftir því í bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 13. júní 2016, að stofnunin tæki ákvörðun um hvort endurskoða þyrfti áðurnefnda matsskýrslu í heild eða að hluta vegna fyrirhugaðra áforma um að reisa nú allt að 1.710 m² hálendismiðstöð á Hveravöllum. Í greinargerð framkvæmdaraðila, dags. 25. nóvember 2016, er framkvæmdinni nánar lýst. Er þar m.a. tilgreint að umrætt mannvirki verði á sama stað og áður hefði verið ráðgert í mati á umhverfisáhrifum. Breytingar væru frá fyrri áformum varðandi fjölda gistirýma, fyrirkomulag bílastæða og staðsetningu rafstöðvar.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Húnavatnshrepps, Ferðamálastofu, forsætisráðuneytisins, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Vegagerðarinnar um hvort endurskoða bæri fyrrnefnda matsskýrslu. Var þess sérstaklega óskað að tekin yrði afstaða til þess hvort forsendur hefðu breyst verulega frá fyrri úrskurðum Skipulagsstofnunar, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000. Málið var einnig kynnt með auglýsingu í fjölmiðlum og á vefsíðu Skipulagsstofnunar. Veittur var frestur til að koma að athugasemdum og bárust athugasemdir frá Landvarðafélagi Íslands, Landvernd, Ungum umhverfissinnum og Samtökum ferðaþjónustunnar.

Töldu Ferðamálastofa, forsætisráðuneytið, Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun að endurskoða bæri matsskýrsluna. Erindi Skipulagsstofnunar var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Húnavatnshrepps 12. desember 2016. Taldi nefndin að verulegar breytingar hefðu orðið á landnotkun svæðisins með stóraukinni umferð ferðamanna en að ekki hefðu orðið umtalsverðar breytingar á náttúrufari. Væru fyrirhugaðar framkvæmdir jákvæðar þar sem þær væru utan friðaða svæðisins og byggingarsvæðið ógróinn melur. Ekki væri þörf á því að endurskoða umrædda matsskýrslu. Vegagerðin tók fram að forsendur hefðu ekki breyst verulega og að ekki væri þörf á því að endurskoða matsskýrsluna út frá hagsmunum Vegagerðarinnar. Í umsögn Minjastofnunar kom fram að fyrir lægju upplýsingar um fornleifar á Hveravöllum. Hins vegar væru engar fornleifar skráðar á því svæði sem afmarkað væri fyrir þjónustuhús, bílastæði og tjaldsvæði. Þyrfti að mati stofnunarinnar ekki að endurskoða matsskýrsluna að því gefnu að farið yrði að nánar tilgreindum kröfum Minjaverndar varðandi fornminjar. Þá taldi Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra fyrirhugaðar framkvæmdir jákvæðar en óskaði greinarbetri upplýsinga um fráveitubúnað og fráveitumannvirki. Umsagnir ásamt athugasemdum voru sendar framkvæmdaraðila, sem brást við þeim bréflega 28. febrúar 2017. Fylgdi bréfinu greinargerð frá mars 2013 um áhrif vatns- og gufuvinnslu á hverasvæðið á Hveravöllum.

Með ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2017 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að meta þyrfti umhverfisáhrif uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum að nýju. Í ákvörðuninni kemur m.a. eftirfarandi fram: „Tuttugu ár eru liðin frá því mat á umhverfisáhrifum uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum fór fram. Þau framkvæmdaáform sem Hveravallafélagið hefur kynnt eru talsvert breytt frá þeim uppbyggingaráformum sem Svínavatnshreppur og Torfalækjarhreppur lögðu fram við mat á umhverfisáhrifum á árunum 1995-1997. Það varðar bæði umfang mannvirkjagerðar og eðli og umfang áformaðrar starfsemi. Þá hefur lagaumgjörð og stefna stjórnvalda breyst mikið. Helst ber þar að nefna ný náttúruverndarlög nr. 60/2013 sem fela í sér ýmis nýmæli, svo sem verndarmarkmið og meginreglur um meðal annars varúðarregluna og reglu um mat á heildarálagi. Þá hafa ný skipulagslög og lög um mat á umhverfisáhrifum leyst af hólmi þá löggjöf sem í gildi var þegar umhverfismatið fór fram 1995-1997, en núgildandi skipulagslög og lög um mat á umhverfisáhrifum fela í sér miklar breytingar á markmiðum, efnistökum og málsmeðferð frá því sem var samkvæmt skipulags- og umhverfismatslöggjöf á þeim árum. Jafnframt hefur verið mörkuð stefna um skipulagsmál á miðhálendinu með samþykkt Alþingis á Landsskipulagsstefnu 2015-2026 en þar er að finna stefnu um verndun landslags og náttúru miðhálendisins og mannvirkjagerð og ferðaþjónustu á hálendinu. Á þeim tíma sem liðinn er frá því umhverfisáhrif uppbyggingar ferðaþjónustu voru metin hefur einnig orðið þróun í verklagi við umhverfismat. Í umhverfismatinu 1995-1997 var ekki sérstaklega lagt mat á áhrif framkvæmdanna á landslag, en nú er slíkt mat ófrávíkjanlegur hluti umhverfismats mannvirkjagerðar á miðhálendingu og til staðar mótaðar og viðteknar aðferðir við slíkt mat. Jafnframt hafa forsendur breyst frá því umhverfismatið fór fram hvað það varðar að ferðamannastraumur til Hveravalla er meiri en gert var ráð fyrir í umhverfismatinu 1995-1997, auk þess sem ferðamannastraumur til landsins hefur margfaldast á undanförnum árum.“

Enn fremur segir: „Í fjórða kafla [ákvörðunarinnar] er fjallað um áhrifamat með tilliti til landslags, ferðaþjónustu og útivistar, jarðhita- og hverasvæðisins sem er friðlýst sem náttúruvætti, neysluvatns og fráveitu og gróðurs og dýralífs. Ljóst er að þessir umhverfisþættir tengjast náið og valda gagnvirkum og afleiddum áhrifum hver á annan. Þannig er mat á áhrifum fyrirhugaðrar ferðaþjónustuuppbyggingar á landslag nátengt mati á áhrifum þeirra áforma á ferðaþjónustu og útivist, sem aftur tengist áhrifamati á jarðhita- og hverasvæðið, náttúruvættið Hveravelli og gróður á svæðinu þar sem aukin og breytt ferðaþjónustuumsvif á Hveravöllum kunna að auka ágang og álag á svæðið. Einnig er óvissa um áhrif vatnstöku og fráveitu miðað við núverandi uppbyggingaráform. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum getur Skipulagsstofnun ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu ef forsendur hafa breyst verulega frá því að matið fór fram, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina. Í ljósi þess sem að framan er rakið og gerð er nánari grein fyrir í köflum 3 og 4 að framan er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að endurskoða skuli matsskýrslu um uppbyggingu ferðaþjónustu á Hveravöllum í heild sinni. Fara skal með endurskoðunina samkvæmt 8.-11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.“

Málsrök kæranda: Kærandi telur að Skipulagsstofnun skorti heimild til að kveða á um endurskoðun matsskýrslu enda séu skilyrði 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum ekki uppfyllt. Forsendur matsins hafi ekki breyst verulega. Það að langur tími hafi liðið frá því að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram réttlæti ekki endurskoðun á matsskýrslu í heild sinni. Breytingar á forsendum þurfi að vera svo miklar að hugsanlega hefði niðurstaða mats orðið önnur á grundvelli hinna breyttu forsendna. Endurskoðun á matsskýrslu sé íþyngjandi og verði af þeim sökum að túlka ákvæðið þröngt. Með hliðsjón af meginreglu stjórnsýsluréttarins um meðalhóf, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skuli tryggt að ekki sé gengið lengra en nauðsyn krefji. Þótt breytingar hafi orðið á nálgun og aðferðum við mat á umhverfisáhrifum þá geti það ekki talist verulega breyttar forsendur. Verklag við slíkt mat hljóti eðli málsins samkvæmt að vera í sífelldri þróun.

Engin eðlisbreyting sé á þeim framkvæmdum sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum 1995-1997 og þeirri hálendismiðstöð sem fyrirhuguð sé. Miði bæði framkvæmda­áformin að því að bæta aðstöðuna á Hveravöllum. Séu núverandi áform að öllu leyti sambærileg við fyrri áform með þeirri einu breytingu að gert sé ráð fyrir gistiaðstöðu fyrir 120 manns í einu húsi. Ekki sé um neina breytingu á staðsetningu að ræða eða aðrar viðameiri breytingar sem kalli á verulega breyttar forsendur. Hér sé ekki um nýja framkvæmd að ræða heldur aðkallandi breytingar til að mæta betur þörfum ferðamanna ásamt því að gæta betur að Hveravallasvæðinu.

Ekki sé rétt sú fullyrðing Skipulagsstofnunar að með  fyrirhugaðri framkvæmd verði öll gisting hótelgisting. Um þriðjungur gistirýma verði hótelgisting en tveir þriðju hlutar gistiframboðsins verði fjöldagistirými fyrir hópa sem vilji upplifa hefðbundna fjallaskálavist. Sé það sambærileg uppbygging og áður hafi verið gert ráð fyrir. Þá þurfi ekki að meta samlegðaráhrif og gagnvirk áhrif vegna uppbyggingar ferðaþjónustu í Kerlingarfjöllum en um áratugaskeið hafi verið starfrækt ferðaþjónusta á báðum þessum stöðum. Hafi það í för með sér að álagi sé dreift betur og því óljóst hvaða tilgangi það þjóni að láta meta þennan þátt sérstaklega.

Þrátt fyrir að einhverjar breytingar hafi orðið á löggjöf um umhverfismál feli þær ekki í sér slíkar breytingar á forsendum að réttlæti endurskoðun á matsskýrslu í heild sinni. Engar breytingar hafi orðið á alþjóðlegum skuldbindingum eða tækniþróun hvað varði hinar fyrirhuguðu framkvæmdir. Engin breyting hafi átt sér stað á náttúrufari eða landnotkun á Hveravöllum á undanförnum 20 árum. Sé vísað til tveggja rannsóknarskýrslna um náttúrufar á Hveravöllum frá árinu 2009 þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að ekki hafi orðið neinar teljandi breytingar á náttúrufari svæðisins, nema til batnaðar. Stafi það af aðgerðum kæranda til að stýra umferð og ágangi ferðamanna betur um svæðið, með vernd Hveravallasvæðisins í huga.

Þá hafi engin breyting orðið á forsendum umhverfismatsins um áhrif framkvæmdanna á neysluvatn og fráveitu. Búið sé að grafa nýja vatnsveitu sem engin áhrif hafi á friðlýsta hverasvæðið. Einnig hafi kærandi í samvinnu við Umhverfisstofnun sett upp nýja og afkastamikla rotþró, sem sé að öllu leyti fullnægjandi til að anna þeim framkvæmdaráformum sem fyrirhuguð séu. Loks hafi engar breytingar orðið á framkvæmdaráformum sem haft geti áhrif á jarðhita- og hverasvæðið miðað við það sem gert hafi verið ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum 1995-1997. Telji Skipulagsstofnun að svipað eigi við um umhverfisþáttinn gróður- og dýralíf.

Mat á umhverfisáhrifum með tilliti til landslags geti átt við á svæðum þar sem engin mannvirki hafi verið reist. Hveravellir séu ekki ósnortið víðerni. Þar sé starfrækt ferðaþjónusta. Séu níu mannvirki á víð og dreif ásamt stóru bílastæði, akstursleiðum og tjaldsvæði inn á friðlýsta svæðinu sem muni hverfa með tilkomu hálendismiðstöðvarinnar. Hafi miðstöðin verið hönnuð með það að leiðarljósi að falla vel að náttúru og landslagi svæðisins og muni ásýnd þess breytast verulega til batnaðar með tilkomu hennar. Sé hægt að sýna þetta með innsetningu á ljósmyndum. Engin þörf sé á því að meta þennan umhverfisþátt sérstaklega á ný.

Gert sé ráð fyrir hálendismiðstöð í Landsskipulagsstefnu 2015-2026 og uppfylli fyrirhuguð framkvæmd öll skilyrði stefnunnar um hálendismiðstöðvar. Staðfesting umhverfisráðherra 19. desember 1997 á úrskurði skipulagsstjóra ríkisins hafi m.a. verið bundin þeim skilyrðum að endanleg hönnun þjónustumiðstöðvarinnar og annarra mannvirkja yrði í samráði við Náttúruvernd ríkisins og að þjónusta í miðstöðinni yrði í samræmi við þá stefnu sem mörkuð yrði í svæðisskipulagi miðhálendisins.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Bent sé á að hin áformaða umfangsaukning uppbyggingar og þjónustustarfsemi á Hveravöllum, og breytingar á löggjöf og verklagi hafi haft þýðingu fyrir niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Það hversu langur tími hafi verið liðinn frá því að mat á umhverfisáhrifum fór fram hafi ekki haft verulega þýðingu fyrir niðurstöðuna, en aðeins hafi verið vakin athygli á þeim tíma í upplýsingaskyni.

Fyrirhuguð áform séu umfangsmeiri en þau sem sætt hafi mati á árunum 1995-1997. Eingöngu sé fyrirhugað að hafa 2ja-8 manna herbergi, með sérsnyrtingu og án eldunaraðstöðu. Þótt hluti herbergjanna séu átta manna herbergi breyti það því ekki að ekki sé þar gert ráð fyrir eldunaraðstöðu eða öðrum íverurýmum á þeim tíma árs sem hótelið sé opið, eins og gera verði ráð fyrir í fjallaskálum. Falli áformin best að skilgreiningu á hóteli, sbr. skilgreiningar á tegundum gististaða í gr. 4-13 í reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Geti uppbyggingin ekki samrýmst því að gisting sé almennt í gistiskálum í hálendismiðstöðvum, eins og gengið sé út frá í greinargerð með landsskipulagsstefnu.

Umhverfisáhrif uppbyggingar á Hveravöllum hafi verið metin á fyrstu árum formlegs umhverfismats, þegar aðferðir og nálgun hafi enn verið í mótun, en síðan hafi aðferðum við slíkt mat fleygt fram. Þannig sé almennt gengið út frá því að við mat sé lögð fram greining á landslagsgerðum, flokkun í landslagsheildir, metið gildi landslags og áhrif framkvæmda á landslag. Sýnileiki mannvirkja sé metinn og lagt mat á áhrif þeirra á ásýnd lands. Jafnframt sé nú í löggjöf og stefnu stjórnvalda lögð meiri áhersla á landslag og landslagsvernd en þegar matið hafi farið fram. Feli þessi þróun á verklagi og nefndar breytingar í sér verulega breyttar forsendur. Fullyrðing um að mat á umhverfisáhrifum með tilliti til landslags eigi aðeins við á svæðum þar sem engin mannvirki hafi verið reist sé ekki studd haldbærum rökum.

Hvað það varði að meta þurfi sérstaklega samlegðaráhrif og gagnvirk áhrif vegna uppbyggingar ferðaþjónustu í Kerlingarfjöllum sé skírskotað til 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem segi að í frummatsskýrslu skuli m.a. tilgreina samvirk áhrif sem fyrirhuguð framkvæmd og starfsemi sem henni fylgi kunni að hafa á umhverfi. Með samvirkum áhrifum sé t.d. átt við sammögnunar- eða samlegðaráhrif framkvæmdar með öðrum framkvæmdum.

Settar hafi verið fram hugmyndir um breytt fyrirkomulag á öflun gufu og heits vatns. Ekki hafi verið lagðar fram upplýsingar sem skýri að fullu hversu mikil þörf sé fyrir heitt vatn og gufu, miðað við núverandi uppbyggingaráform, samanborið við fyrri áform. Geti aukið umfang mannvirkja og starfsemi haft í för með sér önnur og meiri áhrif á jarðhita- og hverasvæðið og hið friðlýsta svæði vegna heitavatns- og gufuöflunar og ágangs ferðamanna.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé ekki tekin endanleg afstaða til þess hvort forsendur umhverfismatsins hafi breyst verulega með tilliti til neysluvatns og fráveitu heldur sé bent á að það sé vafa undiropið hvort svo sé. Ekki sé því tekin efnisleg ákvörðun um að það þurfi að endurskoða þennan umhverfisþátt. Kunni aukin og breytt ferðaþjónustuumsvif að auka ágang og álag á svæðið. Undir það falli m.a. umhverfisþættirnir gróður og dýralíf.

Skipulagsstofnun bendir loks á að ekki sé fyrir hendi lagaheimild fyrir úrskurðarnefndina til að leggja þá skyldu á stofnunina að greiða málskostnað kæranda.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Skipulagsstofnunar: Kærandi áréttar fyrri sjónarmið sín. Markmið uppbyggingarinnar sé að stuðla að þjónustu við ferðamenn á Hveravöllum og vernd náttúruverðmæta svæðisins með því að flytja núverandi umsvif og byggingar út fyrir verndarsvæðið. Mat á umhverfisáhrifum slíkrar uppbyggingar hafi þegar farið fram og hafi engar breytingar orðið á svæðinu nema til batnaðar.

Ítrekað sé að ekki sé um hótel að ræða og að fyrirhuguð uppbygging uppfylli að öllu leyti skilyrði þess að flokkast sem hálendismiðstöð. Þannig sé fyrirhugað að boðið verði upp á blandaða gistingu í samræmi við ákvæði Landsskipulagsstefnu 2015-2026 um gistimöguleika í hálendismiðstöðvum. Svo sem sjá megi af uppdrætti af miðstöðinni þá standi eldunaraðstaða öllum gestum til boða, hvort sem þeir gisti innandyra eða í tjöldum. Í miðstöðinni verði rými, svo sem matsalur, sem ávallt verði opin fyrir gesti svæðisins. Forsenda Skipulagsstofnunar hvað þetta varði sé því röng og af þeim sökum beri að ógilda ákvörðun stofnunarinnar varðandi þennan þátt málsins.

Engin veruleg breyting hafi átt sér stað á landslagi, landslagsgerð eða landslagsheild á Hveravöllum síðan mat á umhverfisáhrifum fór fram. Ásýnd svæðisins hafi batnað og kærandi hafi komið vatnsveitu- og fráveitumálum í gott horf. Þannig hafi landslagsvernd aukist og fyrirhuguð uppbygging leiði af sér að enn betur verði gert í þessum efnum. Í ljósi staðsetningar verði tryggt að mannvirki verði látlaus, leyfi umhverfinu að njóta sín og taki mið af byggingarlagi og byggingarefnum áningarstaða á miðhálendinu. Hafi kærandi verulega hagsmuni af því að standa vel að uppbyggingu á svæðinu. Séu fyrirhuguð áform að öllu leyti í samræmi við þá stefnu sem mörkuð sé í svæðisskipulagi miðhálendisins. Muni kærandi haga uppbyggingu á svæðinu í samráði við Umhverfisstofnun.

Blöndulón sé í rúmlega 40 km fjarlægð til norðurs. Næsti áningarstaður til suðurs sé ferðaþjónustan í Kerlingarfjöllum og sé rúmlega klukkustundar akstur þangað við bestu aðstæður. Komi ferðamenn aðallega til Kerlingarfjalla til að ganga um svæðið og þurfi að gista til að komast á eftirsóknarverðustu staðina. Ferðamenn á Hveravöllum stoppi flestir stutt á leið sinni yfir Kjöl. Hluti þeirra noti laugarnar á staðnum og lítill hluti, eða um 13%, gisti yfir nótt. Ekki verði séð hvernig uppbygging á þessum stöðum geti haft samvirkniáhrif, sem hægt sé að leggja mat á. Geti slíkt mat aldrei orðið annað en getgátur.

Ekki fáist séð að spurningar um hitunarþörf byggingarinnar feli í sér svo verulega breyttar forsendur að það kalli á endurskoðun á mati á umhverfisáhrifum vegna þess þáttar. Um sé að ræða úrlausnarefni sem haldist í hendur við hönnun byggingarinnar. Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) hafi rannsakað vatns- og gufuöflun úr borholu á Breiðamel, sem sé 2 km fyrir norðan friðlýsta hverasvæðið, en áformað sé að beisla gufu til upphitunar hálendismiðstöðvarinnar úr þeirri borholu. Í skýrslu ÍSOR komi fram að nýting borholunnar eigi ekki að geta valdið neinum merkjanlegum breytingum á hveravirkni á Hveravöllum, ekki síst vegna þess að Breiðimelur sé í afrennsli frá friðlýsta hverasvæðinu. Jafnframt sé bent á að Hveravallasvæðið sé öflugt jarðhitakerfi og heildarafl þess sé metið 9 MW og orkugeta 72 GWst á ári í 50 ár. Aflþörf til húshitunar hálendismiðstöðvarinnar yrði á bilinu 0,5% til 1% af heildarorkugetu svæðisins. Í upphaflegum tillögum um uppbyggingu á Hveravöllum hafi verið gert ráð fyrir rafmagnsframleiðslu á staðnum og að til þess yrðu keyrðar dísilvélar, eins og verið hafi. Sú jákvæða breyting hafi orðið á þessum áformum að rekstraraðilar á sunnanverðum Kili hafi lagt upp með samstarf um að fá rafmagn með jarðstreng frá Bláfellshálsi, sem RARIK myndi leggja. Aðilar séu vongóðir um að þessi áform gangi eftir og að strengurinn verði lagður næsta vor eða sumar. Ljóst sé að tilkoma þessa rafstrengs yrði afar jákvætt innlegg í þá náttúruupplifun sem ferðamenn sækist eftir á Hveravöllum. Þá sé með dælingu á heitu vatni eða gufu utan frá hægt að hætta núverandi heitavatnstöku á friðlýsta hverasvæðinu.

Ferðamönnum hafi fjölgað á Hveravöllum í takt við fjölgun ferðamanna til Íslands. Hafi þeir sótt Hveravelli heim þrátt fyrir þá takmörkuðu og úr sér gengu aðstöðu sem þar sé að finna. Kærandi hafi gert sitt besta til að mæta þessari fjölgun ferðamanna og tryggja að hún hafi ekki neikvæð áhrif á náttúruvættið. Hafi kærandi þannig fjárfest fyrir 100 milljónir króna í nýrri fráveitu, nýrri kaldavatnslögn og uppsetningu salernisaðstöðu til bráðabirgða, auk annarra úrbóta. Árangur kæranda af þessum aðgerðum hafi verið mikill og hafi Umhverfisstofnun tekið Hveravelli af svonefndum rauðum lista um náttúruverndarsvæði í hættu. Sé fyrirhuguð uppbygging hálendismiðastöðvar gagngert hugsuð til að minnka álag og ágang á friðlýsta svæðinu.

—–

Færðar hafa verið fram frekari röksemdir í máli þessu sem ekki verða raktar nánar en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2017 að endurskoða skuli matsskýrslu um uppbyggingu ferðaþjónustu á Hveravöllum, en með úrskurði skipulagsstjóra ríkisins 27. ágúst 1997 var fallist á fyrirhugaðar framkvæmdir á Hveravöllum með nánar tilgreindum skilyrðum.

Þegar mat á umhverfisáhrifum þjónustuhúss á Hveravöllum fór fram á árunum 1995-1997 voru í gildi lög nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum, en núgildandi lög nr. 106/2000 um mat á umhverfishrifum leystu þau lög af hólmi. Gerð er grein fyrir markmiðum síðarnefndu laganna í 1. gr. þeirra. Eiga þau m.a. að tryggja að fram hafi farið mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar sem kunni vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgi, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif áður en leyfi sé veitt fyrir viðkomandi framkvæmd. Jafnframt er það markmið laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Enn fremur er það markmið að stuðla að samvinnu hagsmunaaðila eða þeirra sem láta sig málið varða sem og að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir. Fjallað er um endurskoðun matsskýrslu í 12. gr. laga nr. 106/2000. Kemur þar fram í 1. mgr. að ef framkvæmdir hefjist ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum lá fyrir skuli viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar stofnunarinnar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu áður en leyfi til framkvæmda er veitt. Samkvæmt 2. mgr. getur stofnunin ákveðið að slík endurskoðun fari fram ef forsendur hafa breyst verulega frá því að álitið lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina.

Skýra verður ákvæði 12. gr. laga nr. 106/2000 á þann veg að markmiðum laganna verði sem best náð með þessari endurskoðunarheimild. Henni verður þó ekki beitt nema uppfyllt sé skilyrði 2. mgr. 12. gr. um að forsendur hafi breyst og það verulega. Leiðir sérhver forsendubreyting þannig ekki til þess að skilyrði séu til að ákveða að endurskoða skuli matsskýrslu framkvæmdar heldur verður að vera um verulega breytingu að ræða. Ekki eru í ákvæðinu tæmandi taldar þær forsendur sem til greina koma, en nokkrar eru nefndar í dæmaskyni, svo sem áður greinir. Er og tekið fram í athugasemdum með ákvæði 2. mgr. 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 106/2000 að eitt dæmi um verulega breyttar forsendur sé að tækniþróun hafi breytt möguleikum til að minnka neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdar. Forsendubreyting getur því hvort sem er leitt til þess að umhverfisáhrif verði minni eða meiri, jákvæðari eða neikvæðari. Aðrar breytingar á forsendum, sem geta komið til greina, eru t.d. aukin þekking, enda getur skortur á grunnþekkingu við mat á umhverfisáhrifum ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að frekara mat á umhverfisáhrifum fari ekki fram komi fram vísbendingar um að þess þurfi. Annað væri í andstöðu við grunnhugsunina að baki varúðarreglunni. Eftir sem áður yrði að vera um verulega breytingu að ræða, sbr. 2. mgr. 12. gr. nefndra laga.

Í matsskýrslu framkvæmdaraðila við mat á umhverfisáhrifum uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum á árunum 1995-1997 var fyrirhugaðri framkvæmd lýst, en eins og áður segir var  m.a. gert ráð fyrir allt að 640 m² ferðamannamiðstöð, að hálfu innan friðlýsta svæðisins, ásamt nýjum aðkomuvegi, bílastæði og tjaldsvæði. Í fyrrnefndum úrskurði skipulagsstjóra ríkisins um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er að finna umfjöllun um nánar tilgreinda þætti og afstöðu skipulagsstjóra til þeirra. Er þar um að ræða vatnstöku og varmanám á jarðhitasvæðinu, öflun kalds neysluvatns, gróðurfar og dýralíf, þörf fyrir uppgræðslu, umhverfisvöktun sem og spá um fjölda ferðamanna og þörf fyrir þjónustu á Hveravöllum. Jafnframt er vikið að umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar uppbyggingar og þau borin saman við óbreytta þjónustu á Hveravöllum en þar kemur fram að framlagðar tillögur geri ráð fyrir talsverðum breytingum frá því sem verið hafi og að aðstaða fyrir ferðamenn muni gjörbreytast. Var niðurstaða skipulagsstjóra sú að fyrirhuguð framkvæmd hefði ekki í för með sér umtalsverð neikvæð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir eða samfélag, að uppfylltum nánar settum skilyrðum.

Í greinargerð kæranda til Skipulagsstofnunar, dags. 25. nóvember 2016, er m.a. greint frá breytingum á framkvæmdaráformum og fjallað um hvort breytingar hafi orðið á staðháttum eða aðstæðum sem haft gætu áhrif á fyrirhugaða framkvæmd. Lagt er mat á það hvort nýjar rannsóknir, breyttir staðhættir, lagaumhverfi eða áhrif vegna framkvæmda muni hafa áhrif á hvern umhverfisþátt umfram það sem mat á umhverfisáhrifum frá árinu 1997 hafi leitt í ljós og ef svo sé í hverju þau áhrif felist. Enn fremur eru tilgreindir þeir þættir í umhverfinu sem helst eru taldir geta orðið fyrir umhverfisáhrifum og tekið fram að þeir séu valdir í samráði við Skipulagsstofnun. Um eftirfarandi umhverfisþætti sé að ræða, jarðhita- og hverasvæði, neysluvatn, gróðurfar og dýralíf, sem og ferðamennska. Eiga þessir þættir sér samsvörun við þá þætti sem fyrra mat á umhverfisáhrifum laut að. Er það mat kæranda að fyrirhuguð framkvæmdaráform muni í heild sinni hafa í för með sér óveruleg áhrif á umhverfið. Áhrif verði á umhverfisþáttinn ferðamennska þar sem breyting muni verða á þeirri aðstöðu sem í boði verði á Hveravöllum en áhrif á aðra umhverfisþætti eru talin óveruleg.

Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar laut að því að meta hvort og að hvaða leyti endurskoða skyldi matsskýrslu kæranda. Var við þá ákvörðun litið til áhrifa hinna fyrirhuguðu áforma á landslag, ferðaþjónustu og útivist, jarðhita- og hverasvæðið og náttúruvættið Hveravelli, á neysluvatn og fráveitu og gróður og dýralíf, sem og til hvaða áhrifa breytt framkvæmdaráform leiða. Telur stofnunin að kynnt áform séu umfangsmeiri en þau sem áður höfðu sætt mati, bæði hvað varðar mannvirkjagerð og eðli og umfang áformaðrar starfsemi, og að það eitt og sér geti kallað á að umhverfisáhrifin verði metin að nýju. Þurfi að hafa í huga hvernig uppbyggingin samræmist Landsskipulagsstefnu 2015-2026 hvað varði mannvirkjagerð og ferðaþjónustu á miðhálendinu. Lagaumgjörð og stefna stjórnvalda hafi breyst mikið og þróun orðið í verklagi við mat á umhverfisáhrifum. Þá er bent á að forsendur hafi breyst hvað varði fjölda ferðamanna er komi til Hveravalla, en hann sé meiri en áður hafi verið gert ráð fyrir. Varðandi einstaka þætti, þ.e. landslag, ferðaþjónustu og útivist og jarðhita- og hverasvæðið og náttúruvættið Hveravelli, var niðurstaða stofnunarinnar sú að breyttar forsendur kölluðu á að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar yrði endurskoðað hvað þá varðaði. Taldi stofnunin ljóst að þessir umhverfisþættir tengdust náið og myndu valda gagnvirkum og afleiddum áhrifum hver á annan. Þá ríkti óvissa um áhrif vatnstöku og fráveitu miðað við núverandi uppbyggingaráform. Var það því niðurstaða stofnunarinnar að endurskoða skyldi matsskýrslu um uppbyggingu ferðaþjónustu á Hveravöllum í heild sinni.

Óumdeilt er að uppbygging ferðaþjónustu á Hveravöllum hefur áhrif á umhverfið, en deilt er um hvort mat á þeim áhrifum þurfi að fara fram að nýju. Kærandi telur að þrátt fyrir stækkun miðstöðvarinnar sé engin eðlisbreyting á þeim framkvæmdum sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum á árunum 1995-1997. Áformin lúti að samskonar uppbyggingu og áður, um  sömu staðsetningu sé að ræða og starfsemi. Fyrir liggur að í stað allt að 640 m² ferðamannamiðstöðvar er nú áformuð allt að 1.710 m² hálendismiðstöð, sem fyrr að hálfu innan friðlýsta svæðisins en að mestu í hvarfi frá aðalhverasvæðinu. Þá gera bæði framkvæmdaáform ráð fyrir því að nánar tilgreind mannvirki verði fjarlægð, gerður verði nýr aðkomuvegur og útbúin ný tjaldsvæði. Hluti friðlýsta svæðisins verði girtur af og lagðir um það göngustígar og svæði innan girðingarinnar grætt upp. Áður var gert ráð fyrir móttöku með veitingasölu og möguleika á sölu á íslenskum handiðnaði, gistirými fyrir 80 manns í þremur 15 manna svefnskálum og þriggja og fimm manna herbergjum, eldhúsi, hreinlætisaðstöðu, geymslum, aðstöðu fyrir hestamenn og vélsleða á vetrum, þjónustu við tjaldsvæði, húsnæði fyrir 5 starfsmenn og heitri útilaug. Nú er samkvæmt greinargerð kæranda áformuð allt að 1.710 m² bygging með gistingu fyrir um 120 manns í tveggja, þriggja og fjögurra til átta manna herbergjum, öllum með sérbaðherbergjum. Í byggingunni verður m.a. veitingastaður og verslun og gistiaðstaða fyrir 12 starfsmenn. Einnig eru gerðar breytingar frá fyrri áformum varðandi fjölda og fyrirkomulag bílastæða, rútustæða og húsbílastæða og staðsetningu rafstöðvar. Liggur þannig fyrir að nú er gert ráð fyrir miklu mun meira byggingarmagni en áður, um helmings fjölgun gesta og tvöföldun starfsmanna. Er framkvæmdin þannig töluvert breytt frá því sem áður var en ekki er hægt að telja að breytingin sé svo mikil að eðli eða umfangi að þegar af þeirri ástæðu sé um svo verulega breytta forsendu að ræða í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 að mat þurfi í heild sinni að fara fram að nýju.

Eins og fyrr greinir voru lög nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum í gildi þegar fram fór mat á umhverfisáhrifum á árunum 1995-1997. Núgildandi lög eru nr. 106/2000 og hefur þeim verið margsinnis breytt frá þeim tíma, m.a. voru viðamiklar breytingar gerðar með lögum nr. 74/2005. Einnig hafa verið gerðar breytingar á lögum um náttúruvernd og eru núgildandi lög nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að þeim lögum eru raktar helstu breytingar sem frumvarpið fól í sér frá fyrri lögum nr. 44/1999 sama heitis. Var tekið fram að þau innihéldu ítarlegri markmiðsákvæði og nokkrar meginreglur sem leggja bæri til grundvallar við framkvæmd laganna í heild. Meðal annars væru þar útfærðar nokkrar af helstu meginreglum umhverfisréttar, t.d. varúðarreglan og greiðslureglan. Ákvæði um friðun vistkerfa, vistgerða og tegunda væru ítarlegri en í gildandi lögum. Við setningu nýrra laga var þannig lögð áhersla á að um ítarlegri ákvæði væri að ræða um margt og útfærslu meginreglna umhverfisréttar. Skipulagslög nr. 123/2010 hafa leyst af hólmi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Í skipulagslögum er kveðið á um landsskipulagsstefnu en í henni skal ávallt vera uppfærð stefna um skipulagsmál á miðhálendi Íslands og er henni þannig ætlað að koma í stað svonefnds svæðisskipulags miðhálendisins samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Þá er á meðal markmiða skipulagslaga að tryggja vernd landslags auk þess sem landslag er skilgreint, en sambærilegt markmið og skilgreiningu var ekki að finna í skipulags- og byggingarlögum.

Þrátt fyrir að þannig sé ljóst að ýmsar breytingar hafi orðið á lagaumhverfinu öllu frá því að mat á umhverfisáhrifum fór fram á árunum 1995-1997 verður réttarþróun sú sem átt hefur sér stað ekki talin svo veruleg breyting á forsendum í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 að vegna hennar þurfi að endurskoða matsskýrslu vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum í heild sinni. Hins vegar getur komið til álita hvort þróunin hafi verið slík varðandi einhverja þætti sérstaklega að endurskoða þurfi matsskýrsluna vegna þess hluta.

Verður nú fjallað um niðurstöðu Skipulagsstofnunar varðandi hvern og einn þeirra þátta sem umfjöllun hennar tók til, m.a. að teknu tilliti til þess sem áður er rakið.

Landslag

Í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er tekið fram að lítil umfjöllun hafi verið í mati á umhverfisáhrifum um áhrif framkvæmdarinnar á landslag og þau sjónrænu áhrif sem uppbyggingin myndi hafa í för með sér. Skírskotar stofnunin til þess að nú sé gert ráð fyrir nær þreföldun á stærð ferðamannamiðstöðvarinnar og kunni áhrif hennar á landslag því að vera önnur en þeirrar framkvæmdar sem til umfjöllunar hafi verið í mati á umhverfisáhrifum á árunum 1995-1997. Aðferðum við mat á áhrifum framkvæmda á landslag hafi fleygt fram frá þeim tíma og lagaumgjörð og stefna stjórnvalda um landslag og landslagsvernd tekið breytingum.

Með lögum nr. 74/2005 var lögum nr. 106/2000 breytt og meðal nýmæla var að Skipulagsstofnun skyldi gefa út leiðbeiningar um mat á umhverfisáhrifum. Var það og gert, en á árinu 2005 voru gefnar út Leiðbeiningar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og Leiðbeiningar um flokkun umhverfisþátta, viðmið, einkenni og vægi umhverfisáhrifa. Í síðarnefndu leiðbeiningunum eru skilgreindir átta megin umhverfisþættir sem fjalla skal um við mat á umhverfisáhrifum og er einn þeirra landslag. Ljóst er að ekki var fjallað um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á landslag við mat á umhverfisáhrifum hennar í samræmi við nefndar leiðbeiningar og að verklag hvað það varðar hefur vegna breytinga á löggjöf breyst mikið frá því að mat fór fram, en auk þess er fyrirhuguð framkvæmd töluvert breytt. Verður því fallist á að um verulegar breytingar á forsendum sé að ræða í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 og er hafnað kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun um að endurskoða þurfi matsskýrslu hvað þennan þátt varðar. Í þessu sambandi leggur úrskurðarnefndin áherslu á að þótt ásýnd svæðisins muni mögulega breytast til batnaðar þá verða áhrif framkvæmdarinnar önnur en áður var talið, auk þess sem þau áhrif voru ekki metin nema að takmörkuðu leyti í upphafi.

Ferðaþjónusta og útivist

Hvað varðar áhrif á ferðaþjónustu og útivist vísar Skipulagsstofnun til umsagna Ferðamálastofu, Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar og forsætisráðuneytisins, sem og til athugasemda sem bárust. Er það álit fyrrnefndra aðila að endurskoða þurfi matsskýrslu í heild sinni að teknu tilliti til ýmissa þátta. Forsendur séu gjörbreyttar og fyrirhugaðar framkvæmdir séu til þess fallnar að auka enn frekar álag á viðkvæman gróður og hveramyndanir. Jafnframt þurfi að líta til staðsetningar og þess hvort framkvæmdaráform samræmist landsskipulagsstefnu. Þá er bent á áform ríkisstjórnarinnar um verndun miðhálendisins. Er niðurstaða Skipulagsstofnunar á þá leið að sú mikla fjölgun ferðamanna til landsins sem orðin sé, stefna stjórnvalda og sú reynsla sem byggja megi á varðandi viðhorf ferðamanna og ferðaþjónustuaðila feli í sér breyttar aðstæður sem líta verði á sem verulega breyttar forsendur í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga 106/2000. Stofnunin vísar um þá niðurstöðu sína einnig til þeirra breytinga sem orðið hafi á framkvæmdaráformum og í forsendum vegna þessa er tekið fram að samkvæmt framlögðum gögnum framkvæmdaraðila sé miðað við að öll gisting í nýrri þjónustumiðstöð verði hótelgisting og telji stofnunin þau áform ekki í samræmi við ákvæði Landsskipulagsstefnu 2015-2026 um hálendismiðstöðvar.

Í Landsskipulagsstefnu 2015-2026 er gert ráð fyrir níu hálendismiðstöðvum og eru Hveravellir og Kerlingarfjöll þeirra á meðal. Þjónustustarfsemi á fyrst og fremst að felast í rekstri gistingar og tjaldsvæða, auk fræðslu og eftirlits, en einnig getur verið um einhvern verslunar- og veitingarekstur að ræða. Gisting er almennt í gistiskálum, sbr. lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, en þau eru nr. 85/2007, og reglugerð nr. 585/2007, auk tjaldsvæða. Einnig er tekið fram að möguleiki sé á að bjóða upp á hótel- og gistiheimilagistingu, sbr. reglugerð nr. 585/2007, enda sé slík gisting aðeins hluti gistiframboðs á viðkomandi stað og falli að öllu leyti að kröfum um óbyggðaupplifun. Reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald hefur leyst eldri reglugerð nr. 585/2007 af hólmi, en hótel og gistiskálar eru skilgreind með sambærilegum hætti og áður. Þannig er hótel gististaður þar sem gestamóttaka er aðgengileg allan sólarhringinn, veitingar af einhverju tagi framleiddar á staðnum og skal fullbúin baðaðstaða vera með hverju herbergi, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1277/2016. Samkvæmt sömu grein er gistiskáli skilgreindur sem gisting í herbergjum eða svefnskálum og falla hér undir farfuglaheimili (hostel). Samkvæmt nefndri 4. gr. getur hver einstök tegund gististaða fallið undir fleiri en einn flokk gististaða.

Svo sem fram hefur komið er áður áformaðri ferðamannamiðstöð lýst svo í úrskurði skipulagsstjóra að m.a. sé gert ráð fyrir mótttöku með veitingasölu og gistirými fyrir 80 manns í þremur 15 manna svefnskálum og þriggja og fimm manna herbergjum. Breytt framkvæmdaráform gera ráð fyrir gistirými fyrir 120 manns í einu húsi í tveggja, þriggja og fjögurra til átta manna herbergjum, sem öllum fylgir sérsnyrting. Á mynd 6 í greinargerð framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar er að finna teikningu sem sýnir frumdrög að þjónustuhúsi og lýsingu á því. Þar kemur fram að í álmu fyrir gistirými verði 20 herbergi fyrir 40-60 manns, þar af 14 venjuleg tveggja manna herbergi, fjögur herbergi með aðgengi fyrir hjólastóla og tvær svítur. Í annarri álmu er að finna gistirými fyrir hópa og því lýst að þar sé um að ræða 10 herbergi, öll með snyrtingu, fyrir samtals 40-80 gesti, þ.e. fjögurra til átta manna herbergi. Í framhaldi af þeirri álmu er m.a. sýndur matsalur með eldhúsi fyrir tjaldsvæði og er ekkert sem bendir til þess að gestum, öðrum en þeim er nýta tjaldsvæðið, verði meinaður aðgangur að þeirri aðstöðu. Verður ekki séð af þessari lýsingu að án frekari rökstuðnings eða rannsóknar hafi verið hægt að draga svo afdráttarlausa ályktun að ekki yrði um að ræða gistingu í gistiskála að neinu leyti og að þar með væri ekki uppfyllt krafa landsskipulagsstefnu um að blönduð gisting verði í boði í hálendismiðstöðvum.

Hvað sem því líður verður þó ekki fram hjá því litið að fjölgun ferðamanna á Íslandi síðustu ár hefur verið mjög mikil og miklum mun meiri en fyrirséð var. Sést þess og stað í fjölda heimsókna til Hveravalla, en í úrskurði skipulagsstjóra frá 1997 var tekið fram að í spá um fjölda sumargesta á Hveravöllum væri gert ráð fyrir að yfir sumartímann (70 daga) gætu gistinætur orðið allt að 8.500 og heildarfjöldi daggesta allt að 23.000. Í greinargerð framkvæmdaraðila kemur fram að árlegur fjöldi gesta á Hveravöllum sé um 35.000 og sé gert ráð fyrir að þeim fjölgi um 5-10% á ári. Ekki liggi fyrir upplýsingar um fjölda gistinátta á svæðinu. Í svörum framkvæmdaraðila við framkomnum umsögnum og athugasemdum kemur  fram að samkvæmt könnun á vegum Ferðamálastofu árin 2011, 2014 og 2016 hafi erlendum ferðamönnum á Hveravöllum fjölgað á fimm árum úr um 30.000 í ríflega 60.000. Tekið er fram að ekki sé óvarlegt að áætla að a.m.k. 80.000 gestir hafi komið til Hveravalla árið 2016 og 13% þeirra gist. Þrátt fyrir að upplýsingar um fjölda ferðamanna séu nokkuð á reiki er að mati úrskurðarnefndarinnar um svo mikla breytingu að ræða að telja verði það verulega breytta forsendu í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000, að teknu tilliti til markmiða 1. gr. laganna. Er enda ekki tæmandi talið í nefndu lagaákvæði um hvaða forsendur geti verið að ræða. Með tilliti til þessa verður hafnað ógildingarkröfu kæranda vegna þess þáttar er lýtur að ferðaþjónustu og útivist.

Skipulagsstofnun telur einnig að í nýju mati á umhverfisáhrifum sé tilefni til umfjöllunar um möguleg gagnvirk áhrif og samlegðaráhrif, m.a. með uppbyggingu í Kerlingarfjöllum, en kærandi fær ekki séð um hvers konar samvirk áhrif geti verið að ræða sem hægt sé að leggja mat á. Bendir úrskurðarnefndin í þessu sambandi á að í þessu orðalagi felist fyrst og fremst forsendur stofnunarinnar fyrir því að endurskoða þurfi matsskýrslu hvað ferðaþjónustu og útivist varðar. Er enda ekki gert ráð fyrir því í lögum nr. 106/2000 að í ákvörðun um hvort endurskoða þurfi matsskýrslu verði grunnur lagður að nýju mati heldur verði það gert í matsáætlun sem framkvæmdaraðili getur eftir atvikum kært til úrskurðarnefndarinnar.

Jarðhita- og hverasvæðið, náttúruvættið Hveravellir

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar er greint frá því að í greinargerð framkvæmdaraðila komi fram að ekki sé gert ráð fyrir breytingum á framkvæmdaráformum sem haft geti áhrif á jarðhita- og hverasvæðið, miðað við það sem gert hafi verið ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum á árunum 1995-1997. Þó séu uppi hugmyndir um að sækja heitt vatn í borholu á Breiðamel sem sé utan við verndarsvæði hveranna. Gert sé ráð fyrir að lagnir liggi að svæðinu og að vatnið verði nýtt bæði til húshitunar og framleiðslu á rafmagni fyrir svæðið, í stað díselknúinna ljósavéla með tilheyrandi hljóð- og loftmengun.

Skipulagsstofnun bendir í ákvörðun sinni á að hverasvæðið á Hveravöllum sé friðlýst náttúruvætti og að hverahrúður í kringum hverina sé viðkvæmt og njóti sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Vísar stofnunin til þeirra breytinga sem orðið hafi á lögum um náttúruvernd og bendir á að meðal meginreglna sem settar séu þar fram séu varúðarreglan og regla um mat á heildarálagi. Þá tekur Skipulagsstofnun fram að þótt ekki sé talið að miklar breytingar hafi orðið á náttúrufari svæðisins telji stofnunin að sá tími sem liðinn sé frá mati á umhverfisáhrifum gefi tilefni til að áformuð uppbygging ásamt nýjustu upplýsingum um náttúrufar og umhverfisáhrif séu kynnt hagsmunaaðilum að nýju. Einnig er vikið að því að hafa þurfi m.a. í huga þau markmið laga nr. 106/2000 að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hagsmuna eigi að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmda sem falli undir ákvæði laganna. Vísar Skipulagsstofnun og til þess að breytingar hafi orðið á framkvæmdaráformum og að settar hafi verið fram hugmyndir um breytt fyrirkomulag á öflun gufu og heits vatns. Er það niðurstaða stofnunarinnar að aukið umfang mannvirkja og starfsemi geti haft í för með sér önnur og meiri áhrif vegna heitavatns- og gufuöflunar og ágangs ferðamanna. Telur Skipulagsstofnun að fyrirhuguð áform og þær breytingar sem orðið hafi á löggjöf feli í sér verulegar breytingar á forsendum og kalli á að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar verði endurskoðað hvað þetta varðar.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur takmarkaða þýðingu í þessu samhengi að skerpt hafi verið á meginreglum umhverfisréttar í nýjum náttúruverndarlögum eða að langur tími hafi liðið frá upphaflegu mati, enda er tekið fram í niðurstöðu Skipulagsstofnunar að ekki sé talið að miklar breytingar hafi orðið á náttúrufari svæðisins. Skal og á það bent að í ákvörðun Skipulagsstofnunar er tekið fram að ekki hafi verið lagðar fram upplýsingar sem skýri að fullu hve mikil þörf fyrir heitt vatn og gufu sé miðað við núverandi uppbyggingaráform samanborið við fyrri áform. Hefði eftir atvikum verið rétt af því tilefni að Skipulagsstofnun leitaði upplýsinga hvað þetta varðaði, enda gátu þær upplýsingar haft þýðingu við mat stofnunarinnar á því hvort endurskoða bæri matsskýrslu. Hins vegar ber til þess að líta að ráð er fyrir því gert að hálendismiðstöðin verði staðsett að hluta til innan friðlýsta svæðisins. Ljóst er einnig að staðsetning byggingarinnar og töluverð stækkun hússins frá því sem áður var gert ráð fyrir geta aukið álag á jarðhitasvæðið. Þá er stóraukinn fjöldi ferðamanna og tilheyrandi umgangur um svæðið til þess fallinn að valda enn auknu álagi á viðkvæmt svæðið. Að teknu tilliti til framangreinds verða ágallar á rökstuðningi Skipulagsstofnunar ekki látnir varða ógildingu niðurstöðu hennar um að endurskoða þurfi matsskýrslu hvað varðar áhrif framkvæmdarinnar á jarðhita- og hverasvæðið sem friðað er sem náttúruvætti.

Gróður og dýralíf

Hvað umhverfisþáttinn gróður og dýralíf varðar þá er það mat Skipulagsstofnunar að svipað eigi þar við og um jarðhita- og hverasvæðið og náttúruvættið Hveravelli, þ.e. að talsverðar breytingar hafi orðið á náttúruverndarlöggjöf og að langt sé liðið frá mati á umhverfisáhrifum. Gefi það tilefni til að áformuð uppbygging ásamt nýjustu upplýsingum um náttúrufar og umhverfisáhrif séu kynnt hagsmunaaðilum að nýju. Álit úrskurðarnefndarinnar er sem áður að þessi atriði hafi takmarkaða þýðingu. Þannig skiptir t.a.m. tímalengdin ein og sér ekki máli heldur hefur löggjafinn ákveðið að skoða þurfi hverju sinni hvort forsendur hafi breyst og það verulega, sbr. 12. gr. laga nr. 106/2000. Þá voru tilvitnaðar meginreglur náttúruverndarlaga vel þekktar í umhverfisrétti þegar mat fór fram. Rökstuðningi Skipulagsstofnunar er að þessu leyti áfátt.

Líkt og fram hefur komið er þó gert ráð fyrir að stærra svæði fari undir mannvirki en áður var talið. Þá má vegna fjölgunar ferðamanna búast við meiri ágangi á gróður og dýralíf. Þótt gróður breytist hægt á hálendi Íslands er ekki óeðlilegt að farið sé fram á að lagt sé til nýrra mat, ekki síst þar sem ljóst er að landnýting hefur mikil áhrif á gróður og jarðveg á Hveravöllum. Í þessu sambandi er rétt að árétta sérstaklega að þótt framkvæmdaraðili telji stækkun framkvæmdar fara inn á gróðursnauð svæði og bendi á að bæði miðstöðin og bílastæði verði staðsett á mel þá hefur þekking og skilningur á vistfræðilegum ferlum á lítt grónum svæðum aukist mjög á þeim tíma sem liðinn er frá mati á umhverfisáhrifum. Verður að telja að forsendur hafi breyst í verulegum mæli hvað varðar aukna þekkingu, aukið umfang framkvæmda og fjölgun ferðamanna, en á síðarnefndu atriðunum byggði Skipulagsstofnun lokaniðurstöðu sína. Krafa kæranda um ógildingu þessa hluta ákvörðunar stofnunarinnar er því ekki tekin til greina.

Skal og á það bent að í úrskurði skipulagsstjóra kemur fram að smádýralíf hafi ekki verið rannsakað eða dýralífskönnun farið fram á Hveravöllum vegna mats á umhverfisáhrifum. Þá er ljóst að uppgræðsla með innlendum staðartegundum gegndi stóru hlutverki í áætlunum framkvæmdaraðila og í matsskýrslu hans þá og í greinargerð hans nú kemur fram að græða eigi upp 3,5 ha lands. Það er þó ekki að fullu ljóst með hvaða hætti þetta muni verða framkvæmt eða hvernig tilhögun tjaldsvæða verði á meðan á uppgræðslu stendur, t.a.m. hvort um nokkurra ára skeið verði boðið upp á eldri tjaldsvæðin eða tjaldsvæði á ógrónu svæði til bráðabirgða.

Neysluvatn og fráveita

Í umfjöllun Skipulagsstofnunar er tekið fram að samkvæmt greinargerð framkvæmdaraðila sé öflun neysluvatns óbreytt og að borað hafi verið eftir köldu vatni við Hvannavallakvísl árið 2012. Með þeirri borholu sé ekki talin þörf á frekari öflun vatns vegna fyrirhugaðra byggingar- og rekstraráforma á Hveravöllum. Vísar Skipulagsstofnun til umsagnar Ferðamálastofu er telur að forsendur um m.a. nýtingu heits og kalds vatns, úrgangslosun, frárennsli og efnislosun séu gjörbreyttar og kalli á nýtt mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt vísar Skipulagsstofnun til umsagnar Umhverfisstofnunar þar sem fram komi að með breyttum áherslum varðandi umfang mannvirkjagerðar og aukin umsvif á Hveravöllum ætti við mat á umhverfisáhrifum að fjalla ítarlega um mögulegar lausnir í fráveitumálum á svæðinu í samræmi við kröfur í reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Loks er tekið fram að framkvæmdaraðili bendi á í svörum sínum að umfangsmikil endurnýjun hafi fram árið 2013 á fráveitu svæðisins og að staðhæft sé að sú fráveita muni anna þeirri starfsemi sem félagið áformi.

Er niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að það sé vafa undirorpið hvort forsendur mats á umhverfisáhrifum varðandi áhrif á neysluvatn og fráveitu hafi breyst verulega. Varði það bæði umfangsaukningu og eðlisbreytingu áformaðra mannvirkja og þjónustu og hugmyndir um breytt fyrirkomulag á vatnsöflun. Kemst Skipulagsstofnun þannig ekki að því í þessum kafla að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um að forsendur hafi breyst verulega. Allt að einu er það lokaniðurstaða stofnunarinnar að endurskoða skuli matsskýrslu um uppbyggingu á Hveravöllum í heild sinni. Í forsendum lokaniðurstöðu sinnar tiltekur stofnunin þær breytingar á lögum er áður hafa verið raktar, nýja landsskipulagsstefnu, aukið umfang framkvæmdarinnar og breyttar forsendur um fjölda ferðamanna. Einnig að umhverfisþættirnir tengist náið og valdi gagnvirkum og afleiddum áhrifum hver á annan. Skýrir stofnunin það nánar hvað varðar alla þættina utan vatnstöku og fráveitu, en þar færir stofnunin engin frekari rök fram en að um þau áhrif sé uppi óvissa. Skortir verulega á að rökstuðningur þessi sé svo skýr og greinargóður að ljóst sé af hverju meta þurfi áhrif vegna neysluvatns og fráveitu að nýju. Er sú niðurstaða raunar óskýr að efni til, enda bendir Skipulagsstofnun í athugasemdum sínum til úrskurðar­nefndarinnar á að hún taki „ekki efnislega ákvörðun um að það þurfi að endurskoða þennan umhverfisþátt.“ Er það ekki í samræmi við þá lagaskyldu sem hvílir á stofnuninni að taka ákvörðun í samræmi við fyrirmæli 12. gr. laga nr. 106/2000.

Í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins kemur fram að kalds neysluvatns verði aflað með borun við Hvannavallakvísl. Svo sem áður kom fram var svo gert árið 2012. Í úrskurðinum kemur enn fremur fram um tilhögun fráveitumála að notast verði við rotþró og siturlögn. Nánari lýsingu á því hvernig fráveitumálum er nú háttað á svæðinu má finna í fyrrnefndum svörum framkvæmdaraðila. Þar er tekið fram að árið 2013 hafi hann hafið umfangsmikla endurnýjun á fráveitu svæðisins í nánu samstarfi við Umhverfisstofnun. Sett hafi verið niður 60.000 lítra rotþró langt fyrir utan friðlýsta svæðið og fráveituvatn frá henni lagt í 800 m² siturbeð. Tilhögun framkvæmdar hvað þessa þætti varðar er því sambærileg við það sem fyrirhugað var við mat á umhverfisáhrifum.

Reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp tók gildi að loknu mati á umhverfisáhrifum, en skv. lið 3.14 í 3. gr. reglugerðarinnar telst það tveggja þrepa hreinsun þegar notuð er rotþró með siturlögn við hreinsun skólps. Í reglugerðinni er m.a. fjallað um við hvaða aðstæður heimilt er að hreinsa skólp með þeim hætti. Þannig er tekið fram í lið 7.1 í 7. gr. að hreinsa skuli skólp með tveggja þrepa hreinsun eða sambærilegri hreinsun áður en því sé veitt í viðtaka, en þó skal hreinsa skólp með ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa ef viðtaki er viðkvæmur eða nýtur sérstakrar verndar vegna nytja af ýmsu tagi, lífríkis, jarðmyndana eða útivistar, auk annarra sérstakra vatnsverndunarsvæða, sbr. svo breyttan lið 7.2 í sömu grein. Þá segir m.a. í 13. gr. sömu reglugerðar, lið 13.3, að fráveituvatni einstakra húsa, þ.m.t. íbúðarhúsa lögbýla, frístundahúsa og fjallaskála, sem ekki verði veitt í fráveitur skuli veitt um rotþró og siturleiðslu, samkvæmt ákveðnum leiðbeiningum og fyrirmælum, eða um annan sambærilegan búnað. Verður ekki ráðið að tilkoma nefndrar reglugerðar hafi verið verulega breytt forsenda í skilningi 2. mgr.12. gr. laga nr. 106/2000, en Skipulagsstofnun vék ekki heldur að reglugerðinni í ákvörðun sinni að öðru leyti en því að vísa til umsagnar Umhverfisstofnunar. Í áðurgreindum svörum sínum til Skipulagsstofnunar vísaði framkvæmdaraðili m.a. til þess að teknir hefðu verið úr rotþrónni um 11.000 lítrar í september 2016 og var það mat þjónustuaðilans að ef um mikla umferð yrði að ræða þyrfti að taka úr henni aftur eftir eitt ár, annars annað hvert ár. Verður að telja að ástæða hafi verið til að taka afstöðu til þessa, eftir atvikum með því að bera þessar upplýsingar undir Umhverfisstofnun og kanna nánar að teknu tilliti til þeirra, hvað lá að baki umsögn hennar þess efnis að kanna þyrfti mögulegar lausnir í fráveitumálum. Er vegna þess rétt að benda á að Umhverfisstofnun hafði komið að endurnýjun á fráveitu svæðisins auk þess sem hún hefur umsjón með svæðinu, líkt og fram hefur komið. Var málið þannig ekki rannsakað og upplýst með þeim hætti að unnt væri að fullyrða að óvissa væri um hvort forsendur hefðu breyst hvað þennan þátt varðaði.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að undirbúningi, skýrleika og rökstuðningi þess þáttar hinnar kærðu ákvörðunar er lýtur að neysluvatni og fráveitu hafi verið svo ábótavant að ógildingu varði.

——-

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar í heild sinni hafnað, en telja verður hana slíkum annmörkum háða hvað varðar þann þátt hennar er lýtur að neysluvatni og fráveitu að ógildingu varði að þeim hluta. Að öðru leyti stendur hin kærða ákvörðun óröskuð. Loks skal þess getið að þar sem lagaheimild skortir til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni kemur krafa kæranda þar um ekki til álita.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2017 um að endurskoða skuli matsskýrslu vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum að öðru leyti en því að felldur er úr gildi sá hluti ákvörðunarinnar sem lýtur að áhrifum á neysluvatn og fráveitu.

20/2018 Seiðaeldi í Þorlákshöfn

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2018, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 um að veita rekstrarleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9, Þorlákshöfn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. febrúar, er barst nefndinni 12. s.m., kæra Veiðifélag Árnesinga, Náttúruverndarsamtök Íslands og náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 að gefa út rekstrarleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9, Þorlákshöfn. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 17. apríl 2018, var synjað kröfu um frestun réttaráhrifa hins kærða rekstrarleyfis á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Matvælastofnun 21. febrúar 2018.

Málavextir: Hinn 21. maí 2016 tilkynnti Laxar fiskeldi ehf. Skipulagsstofnun um framkvæmd sína í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og lið 1.11 í 1. viðauka laganna. Í tilkynningunni kemur fram að stefnt sé að framleiðslu 500 tonna af laxaseiðum á ári í Þorlákshöfn. Farið var með tilkynninguna í samræmi við lög nr. 106/2000 og í niðurstöðukafla ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 3. ágúst 2016 kemur fram sú niðurstaða stofnunarinnar að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í tilkynningunni kemur fram að þar sem um landeldi í kerjum sé að ræða sé enginn möguleiki á að fiskur sleppi eða að dauður fiskur fari úr stöðinni, t.d. með affallsvatni. Frárennsli stöðvarinnar fari í gegnum stálgrindur sem komi í veg fyrir að fiskur sleppi. Seiði verða flutt með brunnbáti frá stöð félagsins í Þorlákshöfn austur í Reyðarfjörð. Framkvæmdaraðilar hafa töluverða reynslu af seiðaflutningum og noti almenna og viðurkennda flutningsaðferð sem notuð er þar sem eldi sé stundað. Vísað er til ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá apríl 2014 vegna matsskyldu framkvæmdar er laut að framleiðsluaukningu Eldisstöðvarinnar Ísþórs, en í þeirri ákvörðun var vísað til umsagnar Matvælastofnunar. Í þeirri umsögn kom fram að eldi muni ekki hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang villtra laxastofna sem fyrir séu í nálægu vistkerfi. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar kemur fram að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði vegna næringarefnalosunar í sjó, en viðtakinn sé Atlantshafið og teljist því síður viðkvæmur og því ekki líkur á að næringarefni safnist upp að neinu ráði vegna mikils dýpis og áhrifa strauma á stórbrimasömu strandsvæði.

Með umsókn, dags. 10. ágúst 2016, sótti Laxar fiskeldi ehf. um rekstrarleyfi vegna seiða-eldisstöðvar sinnar. Með umsókninni fylgdu upplýsingar um eignaraðild, fagþekkingu, gæðakerfi o.s.frv. í samræmi við 8. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Hinn 13. nóvember 2017 veitti Matvælastofnun hið kærða rekstrarleyfi.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir telji sig eiga mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki sé stefnt í hættu lífríki Ölfusár og vatnakerfis hennar, þ. á m. hinum villtu laxa- og silungastofnum vatnakerfisins, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun frá erlendum og framandi laxastofni, sem fáir mótmæli að muni sleppa eða „leka“ í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu seiðaeldi við Þorlákshöfn. Víst sé að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár á Suðurlandi, Faxaflóa og jafnvel víðar um land og setja þar í hættu laxa- og silungsstofna, svo að ekki sé minnst á stórfellda saur- og fóðurleifamengun í nágrenni eldisstöðvarinnar.

Málsrök Matvælastofnunar: Af hálfu Matvælastofnunar er bent á að af þeim gögnum sem fyrir liggi eftir málsmeðferð hjá Skipulagsstofnun og Matvælastofnun verði ekki séð að ann-markar séu á þeirri ákvörðun stofnunarinnar að gefa út rekstrarleyfi. Um sé að ræða landeldi í kerjum og litlar sem hverfandi líkur á að fiskur sleppi eða að dauður fiskur skili sér út úr stöðinni með t.d. affallsvatni, þar sem frárennsli til sjávar fari í gegnum stálgrindur sem varni slíku. Í rekstrarleyfinu sé þannig sett það skilyrði að stöðin verði með tvöfaldar varnir gegn því að fiskur komist úr kerjum og út í umhverfið. Annars vegar verði búnaður sem komi í veg fyrir að fiskur sleppi úr eldiskerfi og hins vegar viðbótaröryggisbúnaður staðsettur í frárennsli stöðvarinnar, sem einnig fangi fisk. Fyrir liggi að seiðastöðin sé hönnuð þannig að full stýring sé fyrir hendi á lykilþáttum, s.s. vatnsnotkun, meðhöndlun fisks og frárennslis. Áhersla sé lögð á varnir gegn smiti.

Eldið muni því ekki hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang villtra fiskistofna sem fyrir séu í nálægu vistkerfi. Þar sem leyfishafi hafi lagt fram þau gögn sem kveðið sé á um í lögum um fiskeldi og engin málefnaleg sjónarmið hafi mælt á móti útgáfu leyfisins hafi Matvælastofnun gefið leyfið út 18. nóvember 2017, sbr. 10. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Hið kærða rekstrarleyfi hafi verið gefið út af Matvælastofnun á grundvelli III. kafla laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Í þeim lögum séu engar sérreglur um birtingu slíkra rekstrarleyfa. Gildi þá meginregla stjórnsýsluréttar um að slík ákvörðun sem útgáfa rekstrarleyfis sé hafi réttaráhrif frá því að hún hafi verið tilkynnt aðila máls. Rekstrarleyfið hafi verið tilkynnt leyfishafa 13. nóvember 2017, eða sama dag og það hafi verið gefið út. Engum öðrum aðilum hafi verið til að dreifa sem tilkynna hafi þurft um útgáfu þess.

Á því sé byggt í kæru að kæranda hafi ekki verið kunnugt um útgáfu hins kærða leyfis fyrr en hann hafi sjálfur haft samband við Matvælastofnun 12. febrúar 2018. Ekki stoði að þræta við kæranda um hvenær hann hafi sjálfur ákveðið að senda tölvupóst til Matvælastofnunar. Hins vegar sé ljóst að kæranda hafi mátt vera kunnugt um útgáfu rekstrarleyfisins töluvert fyrr. Í starfsleyfi Umhverfisstofnunar, sem gefið hafi verið út sama dag og rekstrarleyfi Matvæla-stofnunar, eða 13. nóvember 2017, hafi verið vísað til hins kærða rekstrarleyfis og tekið fram að leyfin tækju gildi samtímis við afhendingu rekstrarleyfis til leyfishafa. Starfsleyfi hafi verið birt opinberlega á vef stofnunarinnar 17. nóvember s.á. og í Stjórnartíðindum 24. s.m. Kærandi, sem einnig hafi kært útgáfu starfsleyfis Umhverfisstofnunar 21. desember 2017, hafi því vitað eða mátt vita af tilvist rekstrarleyfisins eigi síðar en þann dag og sennilega einhverju fyrr, svo sem þegar starfsleyfi Umhverfisstofnunar hafi verið birt á vef hennar 17. nóvember s.á.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 að gefa út rekstrarleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9, Þorlákshöfn.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Aðrir kærendur þurfa hins vegar að uppfylla framangreind skilyrði kæruaðildar. Eins og fram kemur í kæru eru kærendur annars vegar náttúruverndarsamtök og hins vegar Veiðifélag Árnesinga.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er talið upp að hvaða ákvörðunum umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geti átt kæruaðild án þess að þau þurfi að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Er þar m.a. um að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sbr. a-lið 3. mgr., og ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið 3. mgr. Í athugasemdum með nefndri 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er m.a. tekið fram að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Með vísan til þess sem að framan er rakið uppfylla náttúruverndarsamtök ekki skilyrði til kæruaðildar að máli þessu enda liggur fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. ágúst 2016 um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Verður kæru náttúruverndarsamtakanna af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Veiðifélag Árnesinga rökstyður lögvarða hagsmuni sína í málinu með því að það eigi mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki viðkomandi veiðiár og þar með hinum villtu laxa- og silungastofnum hennar, enda sé víst að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár á Suðurlandi, Faxaflóa og jafnvel víðar um land. Á sviði umhverfisréttar er oft álitamál hvern telja beri aðila máls. Verður við úrlausn þess atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Við mat á því hvort viðkomandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er mjög virkt úrræði til að tryggja réttar-öryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Verður því almennt að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Ber þannig að jafnaði ekki að vísa frá málum vegna þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni hans að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu.

Seiðaeldið, sem hin kærða ákvörðun lýtur að, mun fara fram á landi í um 10 km fjarlægð frá Ölfusárósi. Í tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar kemur fram að þar sem um landeldi sé að ræða í kerjum sé enginn möguleiki á að fiskur sleppi eða að dauður fiskur skili sér út úr stöðinni, t.d. með affallsvatni. Frárennsli stöðvarinnar muni fara í gegnum stálgrindur sem varni sleppingum. Í starfsleyfi Umhverfisstofnunar, sem liggur fyrir úrskurðarnefndinni, kemur fram að rekstraraðili skuli tryggja viðunandi hreinsun frárennslisvatns með settjörn, tromlusíu eða öðrum sambærilegum eða betri búnaði, sem gróflega hreinsi frárennslið. Í svörum framkvæmdaraðila við spurningum Matvælastofnunar við meðferð rekstrarleyfisumsóknar hans kom fram að þegar seiði hefðu náð tilætlaðri stærð yrði þeim fleytt í gegnum 315 mm lögn frá botni kerja í brunnbát. Um væri að ræða 300-400 m vegalengd. Ekki verði hægt að flytja seiði í brunnbát nema veður sé gott og verði útbúin aðstaða fyrir bátinn þar sem hann verði festur kirfilega með lóðum sem verði komið fyrir á sjávarbotni, auk ankera og stroffa sem verði festar í land.

Í 3. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi er að finna skilgreiningu á m.a. kvíaeldi, sem sé fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu, sjókvíaeldi, sem sé eldi á fiski í netbúrum sem komið er fyrir í sjó eða söltu vatni, strandeldi, sem sé eldi fiska til slátrunar í tönkum eða kerjum á landi, sem og á skiptieldi, sem sé eldi á fiski í strandeldi upp í 250 til 1.000 g og framhaldseldi í sjókvíum upp í markaðsstærð. Einnig er að finna þá skilgreiningu á seiðaeldi í 3. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi að um sé að ræða klak og eldi á fyrstu stigum lífsferils fiska. Þá er strandeldi skilgreint þar sem eldi fisks í eldiskerum eða jarðtjörnum á landi þar sem sjó eða ísöltu vatni sé dælt í eldiseininguna. Loks er kví þar skilgreind sem netpoki sem hangi í fljótandi grind eða sé festur á grind sem komið sé fyrir undir eða við yfir­borð lagar.

Ljóst er að eldi í kerjum á landi er ekki sambærileg framkvæmd við eldi í sjókvíum þótt um fiskeldi sé að ræða í báðum tilvikum. Framkvæmd sú sem hér um ræðir felst í eldi seiða í kerjum á landi. Þegar seiðin hafa náð ákveðinni lágmarksstærð er þeim dælt úr kerjunum í brunnbát og þau flutt í sjókvíar þar sem þau verða alin upp í markaðsstærð. Óumdeilt er að á Íslandi, líkt og annars staðar, sleppur fiskur úr sjókvíum þrátt fyrir að fylgt sé norskum staðli, NS 9415:2009 (Flytende oppdrettsanleg), eða öðrum sambærilegum alþjóðlegum stöðlum, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1170/2015. Skilur enda eingöngu net að þegar um sjókvíaeldi er að ræða. Í landeldi því sem hér er til umfjöllunar er fiskurinn hins vegar í kerjum á landi og er komið í veg fyrir að hann sleppi í gegnum fráveitu með grindum á kerjum og á frárennsli, auk þess sem frárennslisvatn verður hreinsað með settjörn, tromlusíu eða öðrum sambærilegum eða betri búnaði. Er helst að seiði sleppi ef óhöpp verða við dælingu í brunnbát, en eðli máls samkvæmt fer slík dæling eingöngu fram þegar seiði hafa náð ákveðinni stærð og eru afhent til brottflutnings. Þá er því ekki saman að jafna að seiði sleppi, sem e.t.v. eru ekki lífvænleg, eða fullvaxta fiskur. Að öllum þessum atriðum virtum er það mat úrskurðarnefndarinnar ekki hafi raunhæft gildi fyrir lögvarða hagsmuni veiðifélagsins að fá leyst úr ágreiningi um lögmæti þeirrar ákvörðunar Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 að gefa út rekstrarleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9. Þar sem hagsmunir veiðifélagsins, sem reisir aðild sína á því að lífríki Ölfusár og vatnsvæðis hennar verði stefnt í hættu, teljast ekki svo verulegir að skapað geti því kæruaðild verður kæru þess einnig vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

155/2017 Seiðaeldi í Þorlákshöfn

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 155/2017, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 8. nóvember 2017 um að gefa út starfsleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9, Þorlákshöfn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. desember 2017, er barst nefndinni 22. s.m., kæra Veiðifélag Árnesinga, Náttúruverndarsamtök Íslands og náttúruverndarfélagið Laxinn lifi þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 8. nóvember 2017 að gefa út starfsleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9, Þorlákshöfn. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 6. febrúar 2018, var synjað kröfu um frestun réttaráhrifa hins kærða starfsleyfis á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 9. febrúar 2018.

Málavextir: Hinn 21. maí 2016 tilkynnti Laxar fiskeldi ehf. Skipulagsstofnun um framkvæmd sína í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og lið 1.11 í 1. viðauka laganna. Í tilkynningunni kemur fram að stefnt sé að framleiðslu 500 tonna af laxaseiðum á ári í Þorlákshöfn. Farið var með tilkynninguna í samræmi við lög nr. 106/2000 og í niðurstöðukafla ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 3. ágúst 2016 kemur fram að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í tilkynningunni kemur fram að þar sem um landeldi í kerjum sé að ræða sé enginn möguleiki á að fiskur sleppi eða að dauður fiskur skili sér úr stöðinni, t.d. með affallsvatni. Frárennsli stöðvarinnar fari í gegnum stálgrindur sem komi í veg fyrir að fiskur sleppi. Seiði verði flutt með brunnbáti frá stöð félagsins í Þorlákshöfn austur í Reyðarfjörð. Framkvæmdaraðilar hafi töluverða reynslu af seiðaflutningum og noti almenna og viðurkennda flutningsaðferð þar sem eldi sé stundað. Vísað er til ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá apríl 2014 vegna matsskyldu framkvæmdar er laut að framleiðsluaukningu Eldisstöðvarinnar Ísþórs, en í þeirri ákvörðun var vísað til umsagnar Matvælastofnunar þar sem fram kom að eldi myndi ekki hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang villtra laxastofna sem fyrir væru í nálægu vistkerfi. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar kemur fram að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði vegna næringarefnalosunar í sjó en viðtakinn sé Atlantshafið og teljist því síður viðkvæmur. Því séu ekki líkur á að næringarefni safnist upp að neinu ráði vegna áhrifa mikils dýpis og strauma á stórbrimasömu strandsvæði.

Með umsókn, dags. 10. ágúst 2016, sótti Laxar fiskeldi um starfsleyfi vegna seiðaeldisstöðvar sinnar. Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi 5. júlí 2017 með athugasemdafresti til 31. ágúst s.á., ásamt því að óska eftir umsögnum tiltekinna aðila, t.d. viðkomandi heilbrigðisnefndar. Engar efnislegar athugasemdir bárust á auglýsingatíma. Hinn 8. nóvember 2017 veitti Umhverfisstofnun hið kærða starfsleyfi og í greinargerð með leyfinu er tekið fram að það taki á mengunarþætti eldisins á grunni reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Starfsleyfið geri ítarlegar kröfur um takmörkun á mengun, eftirlit og mælingar á starfstíma. Í greinargerðinni er enn fremur vísað til þess að Skipulagsstofnun hafi metið það svo að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum, Umhverfisstofnun hafi veitt umsögn við þá málsmeðferð Skipulags­stofnunar og talið að framkvæmdin myndi ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir telji sig eiga mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki sé stefnt í hættu lífríki Ölfusár og vatnakerfis hennar, þ. á m. hinum villtu laxa- og silunga­stofnum vatnakerfisins, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun frá erlendum og framandi laxastofni, sem fáir mótmæli að muni sleppa eða „leka“ í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu seiðaeldi við Þorlákshöfn. Víst sé að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár á Suðurlandi, Faxaflóa og jafnvel víðar um land og setja þar í hættu laxa- og silungsstofna, svo að ekki sé minnst á stórfellda saur- og fóðurleifamengun í nágrenni eldisstöðvarinnar.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er hafnað málatilbúnaði kærenda og farið fram á að staðfest verði ákvörðun hennar um útgáfu starfsleyfis. Er tekið fram að hún telji, líkt og fram komi í niðurstöðu Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, að þar sem viðtaki frárennslis stöðvarinnar verði opið Atlantshafið, þar sem aðstæður séu með öðrum hætti en í fjörðum, verði áhrif hennar takmörkuð. Jafnframt að með þeim hreinsibúnaði sem rekstraraðili muni notast við verði næringarefnalosun í viðtakann takmörkuð.

Sótt hafi verið um starfsleyfi vegna seiðaeldisstöðvar leyfishafa og taki starfsleyfi Umhverfis­stofnunar á mengunarþætti eldisins á grunni reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Stofnunin hafi kynnt sér tilkynningu umsækjanda og ákvörðun Skipulagsstofnunar og geri starfsleyfið ítarlegar kröfur um tak­mörkun á mengun, eftirlit og mælingar á starfstíma.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa kemur fram að í kæru sé gert nokkuð úr því að notast sé við „framandi og kynbættan norskan laxastofn“ og að ekki hafi verið fjallað sérstaklega um það í umsögnum og ákvörðunum þar til bærra stjórnvalda. Hið rétta sé að allt laxeldi í sjókvíum við Ísland notist við sama laxastofninn af Saga-kyni og sé það kunnara en að frá þurfi að segja. Stjórnvöld á Íslandi hafi á undanförnum árum staðið að viðamikilli stefnumótun um sjókvíaeldi við landið, m.a. í þeim tilgangi að koma í veg fyrir erfðablöndun eldislaxa við villta laxastofna, fullmeðvituð um hvaða laxastofn skyldi notaður við það eldi. Almennar reglur sem stjórnvöld hafi sett um laxeldi á Íslandi endurspegli það mat og þá afstöðu að ekki sé þvílík hætta á erfðablöndun eða sjúkdómum vegna þeirrar starfsemi, svo lengi sem hún sé innan þeirra almennu marka sem stjórnvöld ákveði á hverjum tíma. Þá skuli ítrekað að við veitingu starfsleyfis á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir hafi Umhverfisstofnun ekki verið hið bæra stjórnvald til að taka afstöðu til meintra umhverfisáhrifa, enda hefði áður verið tekin ákvörðun um matsskyldu vegna mats á umhverfisáhrifum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 8. nóvember 2017 að gefa út starfsleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9, Þorlákshöfn.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Aðrir kærendur þurfa hins vegar að uppfylla framangreind skilyrði kæruaðildar. Eins og fram kemur í kæru eru kærendur annars vegar náttúruverndar­samtök og hins vegar Veiðifélag Árnesinga.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er talið upp að hvaða ákvörðunum umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga kæruaðild án þess að þau þurfi að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Er þar m.a. um að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu fram­kvæmda, sbr. a-lið 3. mgr., og ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið 3. mgr. Í athugasemdum með nefndri 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er m.a. tekið fram að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Með vísan til þess sem að framan er rakið uppfylla náttúruverndarsamtök ekki skilyrði til kæruaðildar að máli þessu, enda liggur fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. ágúst 2016 um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Verður kæru náttúruverndarsamtakanna af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Veiðifélag Árnesinga rökstyður lögvarða hagsmuni sína í málinu með því að það eigi mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki viðkomandi veiðiár og þar með hinum villtu laxa- og silungsstofnum hennar, enda sé víst að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár á Suðurlandi, Faxaflóa og jafnvel víðar um land. Á sviði umhverfisréttar er oft álitamál hvern telja beri aðila máls. Verður við úrlausn þess atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Við mat á því hvort viðkomandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er mjög virkt úrræði til að tryggja réttar­öryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Verður því almennt að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Ber þannig að jafnaði ekki að vísa frá málum vegna þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni hans að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu.

Seiðaeldið, sem hin kærða ákvörðun lýtur að, mun fara fram á landi í um 10 km fjarlægð frá Ölfusárósi. Í tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar kemur fram að þar sem um landeldi sé að ræða í kerjum sé enginn möguleiki á að fiskur sleppi eða að dauður fiskur skili sér út úr stöðinni, t.d. með affallsvatni. Frárennsli stöðvarinnar muni fara í gegnum stálgrindur sem varni sleppingum. Í hinu kærða starfsleyfi kemur fram að rekstraraðili skuli tryggja viðunandi hreinsun frárennslisvatns með settjörn, tromlusíu eða öðrum sambærilegum eða betri búnaði sem gróflega hreinsar frárennslið. Í svörum framkvæmdaraðila við spurningum Matvæla­stofnunar vegna umsóknar um rekstrarleyfi, sem liggja fyrir hjá úrskurðarnefndinni, kemur fram að þegar seiði hafi náð tilætlaðri stærð verði þeim fleytt í gegnum 315 mm lögn sem sé í botni kerja í brunnbát. Um sé að ræða 300-400 m vegalengd. Ekki verði hægt að flytja seiði í brunnbát nema veður sé gott og verði útbúin aðstaða fyrir bátinn þar sem hann verði festur kirfilega með lóðum sem komið verði fyrir á sjávarbotni, auk ankera og stroffa sem verði festar í land.

Í 3. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi er að finna skilgreiningu á m.a. kvíaeldi, sem sé fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu, sjókvíaeldi, sem sé eldi á fiski í netbúrum sem komið er fyrir í sjó eða söltu vatni, strandeldi, sem sé eldi fiska til slátrunar í tönkum eða kerjum á landi, sem og á skiptieldi, sem sé eldi á fiski í strandeldi upp í 250 til 1.000 g og framhaldseldi í sjókvíum upp í markaðsstærð. Einnig er að finna þá skilgreiningu á seiðaeldi í 3. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi að um sé að ræða klak og eldi á fyrstu stigum lífsferils fiska. Þá er strandeldi skilgreint þar sem eldi fisks í eldiskerum eða jarðtjörnum á landi þar sem sjó eða ísöltu vatni er dælt í eldiseininguna. Loks er kví þar skilgreind sem netpoki sem hangir í fljótandi grind eða er festur á grind sem komið er fyrir undir eða við yfir­borð lagar.

Ljóst er að eldi í kerjum á landi er ekki sambærileg framkvæmd við eldi í sjókvíum þótt um fiskeldi sé að ræða í báðum tilvikum. Framkvæmd sú sem hér um ræðir felst í eldi seiða í kerjum á landi. Þegar seiðin hafa náð ákveðinni lágmarksstærð er þeim dælt úr kerjunum í brunnbát og þau flutt í sjókvíar þar sem þau verða alin upp í markaðsstærð. Óumdeilt er að á Íslandi, líkt og annars staðar, sleppur fiskur úr sjókvíum þrátt fyrir að fylgt sé norskum staðli, NS 9415:2009 (Flytende oppdrettsanleg), eða öðrum sambærilegum alþjóðlegum stöðlum, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1170/2015. Skilur enda eingöngu net að þegar um sjókvíaeldi er að ræða. Í landeldi því sem hér er til umfjöllunar er fiskurinn hins vegar í kerjum á landi og er komið í veg fyrir að hann sleppi í gegnum fráveitu með grindum á kerjum og á frárennsli, auk þess sem frárennslisvatn verður hreinsað með settjörn, tromlusíu eða öðrum sambærilegum eða betri búnaði. Er helst að seiði sleppi ef óhöpp verða við dælingu í brunnbát, en eðli máls samkvæmt fer slík dæling eingöngu fram þegar seiði hafa náð ákveðinni stærð og eru afhent til brottflutnings. Þá er því ekki saman að jafna að seiði sleppi, sem e.t.v. eru ekki lífvænleg, eða fullvaxta fiskur. Að öllum þessum atriðum virtum, sem og vegna þess að líkur á uppsöfnun næringarefna eru litlar vegna aðstæðna, er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi raunhæft gildi fyrir lögvarða hagsmuni veiðifélagsins að fá leyst úr ágreiningi um lögmæti þeirrar ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 8. nóvember 2017 að gefa út starfsleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9. Þar sem hagsmunir veiðifélagsins, sem reisir aðild sína á því að lífríki Ölfusár og vatnasvæðis hennar verði stefnt í hættu, teljast ekki svo verulegir að skapað geti því kæruaðild verður kæru þess einnig vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

111/2017 Seiðaeldi á Árskógssandi

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 12. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 111/2017, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2017 um að eldi á allt að 1.200 tonnum af seiðum á ári á Árskógssandi í Dalvíkurbyggð skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. september 2017, er barst nefndinni 2. október s.á., kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Veiðifélag Fnjóskár og Veiðifélag Eyjafjarðarár, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2017 að eldi á allt að 1.200 tonnum af seiðum á ári á Árskógssandi í Dalvíkurbyggð skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 2. nóvember 2017.

Málavextir: Aðdragandi máls þessa er sá að 31. janúar 2017 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá framkvæmdaraðila um fyrirhugaða seiðaeldisstöð við Þorvaldsdalsárós, Dalvíkurbyggð, samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 1.11 í 1. viðauka laganna. Stefnt var að framleiðslu á allt að 1.200 tonnum af sjógönguseiðum og/eða unglaxi á ári. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Dalvíkurbyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Orkustofnunar, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar. Umsagnir bárust í febrúar og mars 2017. Hinn 7. apríl 2017 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að hin fyrirhugaða framkvæmd væri háð mati á umhverfisáhrifum. Byggði niðurstaðan m.a. á eðli framkvæmdar, sbr. 1. tl. í 2. viðauka, að teknu tilliti til þess að upplýsingar hefði vantað um ýmsa þætti framkvæmdarinnar sem hefðu getað ráðið miklu um hvaða áhrif hún myndi hafa á einstaka umhverfisþætti. Skort hefði upplýsingar um útfærslu og umfang ýmissa þátta framkvæmdarinnar, s.s. aðkomuvegar, flóðvarna, hreinsun frárennslis og afhendingu seiða. Niðurstaðan var einnig reist á viðmiðum um staðsetningu framkvæmdar, sbr. 2. tl. í 2. viðauka. Var tiltekið að framkvæmdin hefði verið fyrirhuguð á svæði sem væri hverfisverndað sem útivistarsvæði í aðalskipulagi. Einnig hefði verið óljóst hvernig vatnstöku myndi vera háttað og hvaða áhrif hún myndi hafa á vatnsból og getu þeirra til endurnýjunar. Þá hefði vantað upplýsingar um áhrif framkvæmda á Þorvaldsdalsá, bakka árinnar og lífríki.

Hinn 3. maí 2017 barst Skipulagsstofnun að nýju tilkynning frá framkvæmdaraðila skv. 6. gr. laga nr. 106/2000. Laut hún að fyrirhugaðri seiðaeldisstöð við Árskógssand, Dalvíkurbyggð. Þar kemur fram að framkvæmdin feli í sér tvo áfanga. Í fyrstu sé ætlunin að byggja ferskvatnshlutann, sem kallist seiðadeildin, í einni byggingu, sem eigi að hýsa klakdeild, startfóðursdeild, seiðadeild o.fl. Þessi hluti eldisins muni aðeins nota ferskvatn en ekki sjó og verði staðsettur á hluta lóðarinnar Öldugötu 31. Hinn hlutinn, sjógönguseiðadeild, sem sé síðari byggingaráfanginn, verði á þar til gerðri fyllingu sem verði næst höfninni. Lagnir fyrir frárennsli og flutning seiða þurfi að liggja frá seiðadeild og niður í sjógöngudeild og þaðan til sjávar. Gengið sé út frá því að borað verði eftir fersku vatni á tveimur til þremur völdum stöðum. Einnig liggi fyrir heimild til að koma fyrir drenlögn við bakka Þorvaldsdalsár og að teknir verði 100 l/s í febrúar, mars og apríl ár hvert og allt að 180 l/s aðra mánuði ársins svo að tryggt verði að ekki muni skorta ferskvatn ef borholurnar gefi minna en vonast sé eftir. Sótt verði um svæði og lóð til þess að reka eldi á laxaseiðum og sjógönguseiðum af Sagastofni frá Stofnfiski hf., sem síðan fari í sjókvíar eða áframeldi á landi í öðrum eldisstöðvum, innanlands eða utan. Miðað sé við að hægt verði að framleiða allt að 1.200 tonn af lífmassa sjógönguseiða og/eða unglaxa á ári. Aðkoma að svæðinu verði um Hafnargötu, sem sé þjóðvegurinn niður á Árskógssand, liggi um Öldugötu þar sem seiðastöðin muni verða, og svo áfram niður á hafnarsvæðið. Gert sé ráð fyrir að landfylling verði um 6.750 m2 og að sjóvarnargarður sem fyrir sé verði færður út allt að 45 m á u.þ.b. 200 m kafla þegar fyllingin verði gerð.

Gert sé ráð fyrir að allt ferskvatn komi úr landi Dalvíkurbyggðar, sem nái um 1,5 km frá strönd og ósum Þorvaldsdalsár og upp með ánni að vestanverðu. Gert sé ráð fyrir að vatnsöflun fari fram á svæðum merktum A, B og C. Á svæði A verði sett niður drenlögn í malarjarðveg nálægt ánni, en á þessu svæði sé möl í miklum mæli. Á svæðum B og C séu mýrarkeldur með uppsprettum og því talið vænlegt að bora þar eftir vatni. Allar vatnslagnir verði grafnar í jörðu, þannig að þær verði ekki sýnilegar og að framkvæmdum loknum verði lítil ummerki um jarðrask. Við hámarksframleiðslu, 1.200 tonna lífmassa á ári, verði meðalheildarrennsli á ári að hámarki 300 l/s og hönnun vatnskerfisins muni taka mið af því. Þar af sé áætlað að 120 l/s verði hreinn sjór og 180 l/s samtals teknir úr borholum og ánni. Ekki hafi tekist að finna haldbærar upplýsingar um veiði í ánni þrátt fyrir fund með Veiðifélagi Þorvaldsdalsár. Þorvaldsdalsárfoss sé um 1,8 km fyrir ofan ósinn og sé ekki fiskgengur. Fyrir ofan fossinn sé náttúrulegur bleikjustofn og áður fyrr hafi verið náttúrulegur sjóbleikjustofn fyrir neðan fossinn, en hann virðist að mestu horfinn. Samkvæmt heimamönnum hafi ekki orðið vart við lax í ánni síðustu ár. Áin sé því fátæk af fiski enda meðalhitastig hennar lágt, ekki sé náttúrulegur villtur laxastofn í ánni og lítið hafi sést til bleikju síðustu ár fyrir neðan foss. Tekjur af veiði séu þar litlar eða engar. Rennslismælir sýni að rennsli árinnar geti sveiflast frá u.þ.b. 50.000 l/s yfir sumartímann niður í 418 l/s yfir vetrartímann, á mælingarstað fyrir ofan foss, um 2 km fyrir ofan ós. Vatnstakan hafi augljóslega engin áhrif á ána og lífríki hennar fyrir ofan foss og erfitt sé að sjá að hún geti haft einhver neikvæð áhrif á lífríki árinnar þennan síðasta u.þ.b. 1,5 km sem eftir sé til sjávar enda lítið um fisk á þessum slóðum. Vatnsmagnið sem áætlað sé að taka sé um 10% af heildarrennsli árinnar að meðaltali og geti í einstaka toppum nálgast 25%.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila kom enn fremur fram að öll ker verði útbúin með fiskhelda rist sem passi stærð viðkomandi seiða og til viðbótar verði allt frárennsli frá öllum deildum leitt í gegnum fiskhelda rist eða ristar, sem verði útbúnar þannig að aðskotahlutir í vatninu yfir ákveðinni stærð komist ekki í gegnum þær og afl straumsins ýti aðskotahlutnum út fyrir ristarsvæðið þar sem vatnið streymi í gegn. Svona frágangur komi í veg fyrir að ristin geti stíflast og sé hann til staðar í nokkrum strandeldisstöðvum á Íslandi. Útilokað sé að fiskur af sjógönguseiðastærð komist í gegn um slíkar ristar. Að auki sé áformað að allt frárennsli fari í gegnum tromlur sem fjarlægi korn stærri en 1/1000 úr millimetra. Laxaseiði muni ekki komast í gegnum ofangreindan þrefaldan öryggisbúnað.

Munur á fóðri fyrir seiði og fyrir eldislax sé nær eingöngu sá að próteinþörfin minnki og fituþörfin aukist eftir því sem laxinn verði stærri. Þetta hafi nánast engin áhrif við útreikning á hlutdeild lífrænna efna, sem gegni lykilhlutverki í vexti gróðurs og svifs í hafinu eins og köfnunarefni (nitur) og fosfór, enda komi langstærsti hluti úrgangsins frá seiðunum í formi þvags og saurs. Sá hreinsibúnaður sem sé áformaður muni hreinsa nánast allt fóðrið sem fari út úr kerjum, stóran hluta af saur en lítið af þvagi. Hreinsunarhlutfallið sé aðallega spurning um þörf fyrir hreinsun, tæknistig og kostnað, en síður um getu. Við útreikningana sé ekki skilið á milli úrgangsefna frá fiskinum og fóðurleifa og sé miðað við þekktar forsendur um næringarefnainnihald laxafóðurs. Miðað við að lágmarki 50% verði hreinsað fari ekki meira en 78 tonn af lífrænum úrgangsefnum á ári í sjóinn. Tromlur verði notaðar sem sigti allan hringinn og sé gefið upp að hreinsitæknin geti fjarlægt korn sem séu allt niður í 1/1000 mm í þvermál. Frárennsli verði leitt í lögn sem nái 20 til 80 m út frá stórstraumsfjöruborði í norðausturátt niður á 6 til 8 m dýpi.

Skipulagsstofnun leitaði umsagna Dalvíkurbyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Orku-stofnunar, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar. Umsagnir bárust í maí 2017. Taldi Vegagerðin ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og sama sinnis var Minjastofnun að því gefnu að samráð yrði haft við stofnunina um legu vatnslagna frá vatnstökustaðnum að seiðaeldisstöðinni. Veðurstofa Íslands benti á að mikilvægt væri að kanna hvort sprungur eða misgengi leyndust undir eða við byggingarreitinn. Samgöngustofa tók ekki afstöðu til þess hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum en tók fram að upplýsa þyrfti Sjómælingar Íslands þegar framkvæmdir hæfust og gera grein fyrir nánar tilgreindum atriðum.

Dalvíkurbyggð taldi í umsögn sinni að gerð væri fullnægjandi grein fyrir áhrifum stöðvarinnar á næstu byggð og umhverfi í tilkynningunni. Í umsögn Matvælastofnunar, dags. 17. maí 2017, kom fram að hún teldi ekkert fram koma í tilkynningu um framkvæmdina sem gæfi tilefni til nauðsynjar á mati á umhverfisáhrifum þegar horft væri til útgáfu rekstarleyfis, rekstrarleyfisskilyrða eða sjúkdómavarna. Í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 22. maí 2017, kom fram að stofnunin teldi ekki líklegt að umrædd framkvæmd myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, dags. 16. maí 2017, kom fram að eftirlitið teldi að gera þyrfti ítarlegri grein fyrir ýmsum þáttum í tilkynningu umsækjanda með fyrirhugaðri framkvæmd, s.s. fyrirkomulagi mannvirkja og mótvægisaðgerðum gegn hugsanlegri sjónmengun af völdum lausamuna sem tilheyri starfseminni. Umferð til og frá sjógönguseiðadeild, þ. á m. umferð vörubíla með tengivagn, muni fara í gegnum bílastæði sem sé ætlað farþegum Hríseyjarferjunnar og skapa hugsanlega hættu þar. Einnig teldi eftirlitið að gera þyrfti ítarlegri grein fyrir hreinsun frárennslis og meðferð lífræns úrgangs úr tromlum ásamt því að huga að hugsanlegri lyktarmengun frá söfnunartanki. Þá væri það álit heilbrigðiseftirlitsins að rekstur sjógönguseiðastöðvar með framleiddan 1.200 tonna lífmassa á ári og losun a.m.k. 78 tonna af lífrænum úrgangi í sjó á ári væri háður mati á umhverfisáhrifum.

Í umsögn Orkustofnunar, dags. 23. maí 2017, kom fram að stofnunin teldi til verulegra bóta þær breytingar sem gerðar hefðu verið á tilkynningu um fyrirhugað seiðaeldi frá fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar. Var tekið fram að umsókn framkvæmdaraðila um leyfi til nýtingar grunnvatns væri í biðstöðu hjá Orkustofnun á meðan umsækjandi endurskoðaði hana, m.a. með tilliti til vatnsbóla og sjóhola og með tilliti til þess magns af fersku og söltu grunnvatni sem sótt væri um nýtingu á. Í tilkynningunni þyrftu að vera nánari upplýsingar um aðra starfsemi á hafnarsvæðinu og hvernig fyrirhugað seiðaeldi samrýmdist þeirri starfsemi.

Vísað var til umsagnar við fyrri tilkynningu framkvæmdaraðila í umsögn Fiskistofu, dags. 23. maí 2017, og kom þar fram að sömu atriði skiptu enn máli. Búnaður þyrfti að vera þannig gerður að ekki yrði hætta á því að fiskur slyppi lifandi frá stöðinni með frárennsli eða vegna dælingar í brunnbát. Tryggja þyrfti að frárennsli verði með þeim hætti sem lýst sé í tilkynningunni. Það fyrirkomulag ætti að koma í veg fyrir að seiði myndu berast lifandi með frárennsli stöðvarinnar, en óhöpp geti orðið við dælingu seiða í brunnbát. Eins og Fiskistofa hafi nefnt í fyrri umsögn sinni mætti læra af reynslu Norðmanna við að meta áhættu af starfseminni. Taka verði mið af því þegar metið verði hvort framkvæmdin þurfi að undirgangast mat á umhverfisáhrifum, eins og Fiskistofa hafi bent á í fyrri umsögn sinni vegna málsins.

Í umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 15. maí 2017, kom fram að miðað við framkomnar tölur um vatnstöku úr Þorvaldsdalsá væri full ástæða til að þær forsendur yrðu kannaðar frekar, líkt og áður hefði komið fram hjá Orkustofnun, en vatnsnotkun væri ein stærsta forsenda framkvæmdarinnar. Þá væri eindregið mælt með því að gerð yrði rannsókn á fiskistofnum í fiskgenga hluta Þorvaldsdalsár svo meta mætti hvað þar gæti verið í húfi. Ekki kæmi fram áætlun um vöktun á áhrifum frárennslis. Þeir þættir sem settir hefðu verið fram gætu talist sem neikvæð áhrif fyrir viðkomandi framkvæmd og full ástæða væri til að upplýsa frekar um þá með mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaraðili hefði lagt til að aldrei yrði tekið meira en 25% af rennsli árinnar til að vernda lífríki hennar. Í frekari umsögn Hafrannsóknastofnunar, sem veitt var í tölvupósti 26. júlí 2017, var bent á að minnsta mælda rennsli í ánni á árinu 2016 hefði verið 416 l/s í mars og vetrarrennsli væri almennt lítið og að í fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar hefði verið greint frá efasemdum Orkustofnunar um að fyrirhuguð vatnstaka væri möguleg á umræddu svæði. Hver sem framleiðsla, þéttleiki og tegundasamsetning væri á neðsta hluta Þorvaldsdalsár mætti gera ráð fyrir að 25% vatnstaka í lágrennsli hefði áhrif á lífríki. Ef af framkvæmdum og vatnstöku yrði gæti verið full ástæða til að koma á reglulegri vöktun á þessu svæði og mati á áhrifum vatnstöku á lífríkið. Í tölvupóstinum var enn fremur bent á að þrátt fyrir búnað á frárennsli væri möguleiki á að fiskar slyppu úr eldisstöðvum. Vísbendingar væru um að greinst hefðu laxar af norskum uppruna í á í nágrenni seiðaeldisstöðvar, þar sem boðað hefði verið að notaður yrði búnaður á allt frárennsli þegar metin hefðu verið möguleg umhverfisáhrif. Skipti því miklu að búnaður væri virkur og umhirða og eftirlit skilvirkt.

Framkvæmdaraðili veitti frekari upplýsingar og svaraði framkomnum umsögnum með tölvupóstum í maí, júlí og ágúst 2017. Í svörum sínum við umsögn Fiskistofu áréttaði framkvæmdaraðili þær upplýsingar sem fram kæmu í tilkynningu hans um öryggisbúnað til að tryggja að seiði slyppu ekki. Áréttaði framkvæmdaraðili jafnframt að einungis sjógönguseiði að lágmarki 60 g að þyngd ættu möguleika á að lifa það af að fara með frárennsli til sjávar og að slík seiði leituðu ekki í ferskvatn heldur til hafs og væru ólíkleg til að snúa þaðan. Hvað varðaði dælingu seiða í brunnbát benti framkvæmdaraðili á að litið væri til reynslu Norðmanna og væru dæmi um slysasleppingar þar vandfundin við þessar aðstæður. Ástæðan væri sú að um staðlaðan búnað væri að ræða sem væri algjörlega lokaður. Hvergi væri opið nema þar sem seiðin fari í lestar bátsins. Seiði myndu ekki geta sloppið frá stöðinni, hvorki með frárennsli né við afhendingu sjógönguseiða, eða á nokkurn annan hátt. Ef það myndi gerast sé ítrekað að óseltuvanin seiði deyi í sjó og ef sjógönguseiði sleppi þá fari þau til hafs og dvelji þar í 2 til 4 ár, eða þar til þau verði kynþroska. Þessir eldislaxar væru mun ólíklegri til að snúa til baka upp í ferskvatnsá en villtir laxar. Nánast öll tilvik þar sem kynþroska eldislax hefði gengið í á væru þegar um væri að ræða eldislax sem hefði sloppið meira eða minna fullvaxta og ekki þurft að aðlagast fullkomlega villtu umhverfi til að geta vaxið og þroskast. Nánast ómögulegt væri að sjógönguseiði af eldislaxastofni sem slyppu úr landeldisstöð lifðu slíkt af. Með bréfi, dags. 5. júlí 2017, veitti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun einnig nánari upplýsingar um fyrirhugaða efnistöku í sjó vegna landfyllingar þar sem m.a. var vísað til skýrslu um botndýrarannsóknir við Árskógssand í Eyjafirði.

Hinn 31. ágúst 2017 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð seiðaeldisstöð á Árskógssandi væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif að teknu tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. þau viðmið sem tilgreind séu í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Kom fram í niðurstöðu stofnunarinnar að færi rennsli árinnar undir 500 l/s þá yrði vatnstakan að hámarki 20 l/s og færi aldrei yfir tilgreindar magntölur, sem fram kæmu í ákvörðuninni, óháð því hvort vatn fengist úr borholum eða ekki. Þá myndi framkvæmdaraðili halda skrá yfir rennslismælingar og um vatnstöku sem aðgengileg yrði eftirlitsaðilum.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að umrædd framkvæmd, sem falli undir B-flokk í tölulið 1.11 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar, sbr. 1. viðauka við sömu lög og viðmiðanir við mat á framkvæmdum í B-flokki, sbr. 2. viðauka við sömu lög. Slíkt valdi ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar. Sé um þetta vísað til a-liðar 1. gr. laga nr. 106/2000, þar sem segi að markmið laganna sé „að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar.“

Vísað sé til fyrri ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 7. apríl 2017 þar sem stofnunin hafi komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Margar af forsendum fyrri ákvörðunar séu enn óbreyttar, svo sem „að huga þurfi sérstaklega að því hvort líkur séu á því að slys geti orðið við dælingu seiða í brunnbát“ og „að framkvæmdaaðili geri vel grein fyrir því hvernig afhending seiða fari fram“. Þá segi að í umsögn Hafrannsóknastofnunar komi fram að stofnunin telji að ekki sé ljóst hver raunveruleg losun næringarefna til sjávar verði og að uppleyst næringarefni muni ekki minnka að ráði þó svo vatnslosun minnki með endurnýtingu eldisvatns. Síðan segi að það sé álit Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Þá segi að Orkustofnun hafi sett umsókn framkvæmdaraðila um nýtingarleyfi fyrir 120 l/s af grunnvatni vegna seiðaeldisins í biðstöðu og bendi sú stofnun síðan á að yfirfall úr rotþróm gæti haft áhrif á gæði vatns sem tekið yrði neðarlega úr áreyrum. Í fyrri ákvörðun sinni fjalli Skipulagsstofnun um náttúruvá, svo sem um ábendingu Veðurstofu Íslands um að mikilvægt sé að kanna hvort sprungur eða misgengi leynist undir eða við fyrirhugað byggingarsvæði. Einnig sé nefnt hugsanlegt tjón af völdum jarðskjálfta, sem og að framkvæmdin sé ekki í samræmi við aðalskipulag Dalvíkurbyggðar. Ekki sé minnst á náttúruvá í síðari ákvörðun Skipulagsstofnunar.

Framkvæmdin falli undir B-lið í tölulið 1.11 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000, eins og áður hafi komið fram. Undir þann lið falli þauleldi á fiski, þar sem ársframleiðslan sé 200 tonn eða meira og fráveita sé til sjávar. Í þessu máli sé um að ræða 1.200 tonna framkvæmd, sem sé langt yfir 200 tonna lágmarksmörkum, sem eitt og sér gefi tilefni til ákvörðunar um að framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum. Enn fremur sé vísað til hins gífurlega seiðamagns framkvæmdarinnar, sem verði allt að 5 milljón seiði í eldi samtímis miðað við 1.200 tonna ársframleiðslu. Skipulagsstofnun „telur litlar líkur á að seiði sleppi til sjávar úr kerjum“, en segi svo „[s]tofnunin telur ekki vera hægt að útiloka að óhöpp geti átt sér stað þannig að seiði sleppi við dælingu seiða í brunnbát.“ Þá segi Skipulagsstofnun „[h]afa ber í huga að eldisfiskur getur synt upp í ár í hundraða kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem hann slapp frá. Næsta laxveiðiá við fyrirhugaða eldisstöð er Fnjóská sem er í um 13 km fjarlægð í beinni loftlínu en minni laxastofna er einnig að finna í öðrum ám í Eyjafirði. Þá eru einnig þekktar laxveiðiár sem renna í Skjálfanda og Húnaflóa.“ Þessu til viðbótar sé rétt að geta um Hörgá í 21 km fjarlægð og Eyjafjarðará í 35 km fjarlægð frá fyrirhugaðri eldisstöð. Framkvæmdaraðili áætli að stöðin muni losa allt að 78 tonn af lífrænum efnum í viðtaka á ári. Þetta magn sé alrangt. Alkunna sé að árlegur úrgangur saurs og fóðurleifa frá fiskeldi nemi um helmingi ársframleiðslunnar. Hér nemi hann 600 tonnum miðað við 1.200 tonna ársframleiðslu. Enda þótt takist að hreinsa helming þessa magns úr frárennsli stöðvarinnar, sem Hafrannsóknastofnun dragi reyndar í efa, nemi úrgangurinn 300 tonnum. Það magn jafngildi skolpfrárennsli frá 5.000 manna byggð.

Í umsögn sinni frá 15. maí 2017 segi Hafrannsóknastofnun m.a. að full ástæða sé til að forsendur vatnstöku verði kannaðar frekar eins og fram hafi komið hjá Orkustofnun. Enn fremur mæli stofnunin eindregið með því að gerð verði rannsókn á fiskistofnum á fiskgenga hluta Þorvaldsdalsár. Loks segi stofnunin að þrátt fyrir búnað á frárennsli og góð fyrirheit sé sú hætta fyrir hendi að lifandi fiskar „leki“ frá eldisstöðvum. Reynslan hér á landi hafi sýnt að svo sé í einhverjum mæli. Þá hafi það svæði sem um ræði í Eyjafirði ekki verið nýtt til eldis á norskum eldislaxi áður og þurfi að huga að áhrifum þess sérstaklega. Niðurstaða Hafrannsóknastofnunar sé þannig: „Þeir þættir sem hér hafa verið settir fram geta talist sem neikvæð áhrif fyrir viðkomandi framkvæmd og full ástæða til að skoða og upplýsa frekar með mati á umhverfisáhrifum.“ Í umsögn sinni 16. maí 2017 segi Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra að gera þurfi ítarlegri grein fyrir ýmsum þáttum í tilkynningu umsækjanda um fyrirhugaða framkvæmd og að það sé álit eftirlitsins að rekstur sjógönguseiðastöðvar með 1.200 tonna lífmassa á ári sé háður mati á umhverfisáhrifum. Í umsögn sinni frá 23. maí 2017 segi Fiskistofa að óhöpp geti orðið við dælingu seiða í brunnbát og vísi í fyrri umsögn um að læra megi af reynslu Norðmanna í því efni til að meta áhættu af starfseminni. Taka verði mið af því þegar metið verði hvort framkvæmdin þurfi að undirgangast mat á umhverfisáhrifum. Í umsögn Orkustofnunar frá 23. maí 2017 vísi hún til fyrri ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 7. apríl s.á. um að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Við mat á því hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af því hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, m.a. með tilliti til þeirrar landnotkunar sem fyrir sé. Hin tilkynnta framkvæmd hafi nú verið flutt annars vegar á iðnaðarlóð í þéttbýli byggðarlagsins og hins vegar á risavaxna 47.000 m3 og 6.750 m2 nýja stranduppfyllingu við hafnarsvæði byggðarinnar með grjótvörn sjávarmegin. Bent sé á að hluti framkvæmdarinnar sé enn á hverfisverndarsvæði fyrir útivist. Enn sé óljóst hvernig vatnstöku verði háttað og hvaða áhrif hún kunni að hafa á vatnsból. Ekki liggi fyrir leyfi Orkustofnunar til nýtingar á grunnvatni, enda rannsóknum ábótavant m.a. varðandi gæði ferskvatnsins. Hvorki liggi fyrir leyfi til nýtingar á jarðhita, eins og framkvæmdaraðili áætli, né leyfi til töku malar og sands af hafsbotni. Engar upplýsingar liggi fyrir um staðsetningu og stærð fyrirhugaðs efnistökusvæðis á hafsbotni. Að auki hafi Hríseyjarhreppur veitt leyfi árið 2001 til töku á allt að 20.000 m3 af möl og sandi af hafsbotni utan netlaga á allt að 40.000 m2 svæði út af ósum Þorvaldsdalsár. Framkvæmdaraðili fyrirhugi að lögn vegna afhendingar á sjógönguseiðum í brunnbát verði lögð og grafin eða plægð niður í botn hafnarinnar. Sú framkvæmd setji möguleika á síðari dýpkun hafnarinnar í óvissu. Þá kunni eldisstarfsemi á hafnarsvæðinu að trufla umferð og daglegar siglingar Hríseyjarferjunnar. Loks virðist ekki liggja fyrir heimild til vatnstöku úr Þorvaldsdalsá frá eigendum árinnar og formaður veiðifélagsins hafi lýst áhyggjum sínum af væntanlegri framkvæmd og áhrifum hennar á lífríki árinnar.

Ljóst sé af framansögðu að sjálfstæðum rannsóknum Skipulagsstofnunar hafi verið mjög ábótavant, sem og rökstuðningi niðurstöðu um fyrirhugaða framkvæmd. Hvað varði rannsóknar- og rökstuðningsskyldu Skipulagsstofnunar sé vísað sérstaklega til b-liðar 1. mgr. 9. gr. tilskipunar 2011/92/ESB enda sé meðferð málsins hjá Skipulagstofnun hluti af leyfisveitingarferli framkvæmdarinnar. Þá sé vísað til margvíslegra síðari leyfisumsókna og síðara „samráðs“ sem framkvæmdaraðili vísi til á mörgum stöðum í tilkynningu sinni að muni verða viðhaft. Vegna þessara annmarka og upplýsingaleysis sé enginn grundvöllur fyrir þeirri staðhæfingu að framkvæmdin muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif.

Miðað við þá þætti sem þó liggi fyrir varðandi framkvæmdina sé hins vegar hægt að slá því föstu að framkvæmdin kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því háð mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun hafi reyndar komist að þeirri niðurstöðu í fyrri ákvörðun sinni 7. apríl 2017.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er ekki tekið undir að margar af forsendum fyrri ákvörðunar standi enn óbreyttar. Hin fyrirhugaða framkvæmd sé ekki á sama stað og sú sem fjallað hafi verið um í fyrri ákvörðuninni. Einn hluti framkvæmdarinnar, sjógönguseiðadeildin, verði á landfyllingu sem næst höfninni, eins og vikið sé að á bls. 4 í tilkynningu framkvæmdaraðila, dags. 18. apríl 2017. Fyrri tilkynning framkvæmdaraðila hafi ekki gert ráð fyrir slíkri tilhögun heldur hafi verið gert ráð fyrir að mannvirki yrðu á bökkum Þorvaldsdalsár. Færsla mannvirkja af árbakka og yfir á athafnasvæði annars vegar og á landfyllingu við höfnina hins vegar hafi breytt forsendum umtalsvert. Meðal annars hafi ekki lengur verið gert ráð fyrir því að dæla seiðum um borð í brunnbát sem myndi leggjast að festubóli við ós Þorvaldsdalsár. Þess í stað myndi brunnbátur leggjast að höfninni. Hafi Skipulagsstofnun talið þá tilhögun mun tryggari og draga verulega úr hættu á slysasleppingum. Að auki hafi verið óljóst hvaða þýðingu hætta á flóðum og klakahlaupi í Þorvaldsdalsá myndi hafa á endanlega útfærslu framkvæmdarinnar. Til að mynda hafi framkvæmdaraðili nefnt að hugmyndir hafi verið uppi um að færa farveg árinnar. Jafnframt hafi verið óljóst hvernig aðkomu að seiðaeldisstöðinni myndi verða háttað og áhrif vegagerðar á landslag og gróður. Þá hafi fyrirætlanir framkvæmdaraðila varðandi vatnstöku verið breyttar frá fyrri ákvörðun. Í fyrri framkvæmd hafi staðið til að taka vatn úr borholum en ákveðin óvissa hafi verið uppi um hvort mögulegt væri að fá nægt vatn með þeim hætti. Framkvæmdaraðili hafi nú tilgreint hvernig hann muni taka vatn úr Þorvaldsdalsá ef ekki gangi að taka vatn úr borholunum. Þar af leiðandi hafi Skipulagsstofnun ekki talið óvissu ríkja um vatnsöflun líkt og áður. Varðandi rök kærenda sem lúti að náttúruvá bendi stofnunin á að við vinnslu fyrri ákvörðunarinnar hafi hún talið rétt að leita umsagnar Veðurstofu Íslands vegna mögulegrar flóðahættu í Þorvaldsdalsá eftir að Hafrannsóknastofnun hafi vakið athygli á að fyrirhuguð framkvæmd væri innan þess svæðis sem teldist til farvegs árinnar. Veðurstofan hafi hins vegar ekki fjallað um flóðahættu í sinni umsögn heldur um jarðskjálftahættu. Í hinni kærðu ákvörðun hafi Skipulagsstofnun ekki talið tilefni til að víkja að náttúruvá þar sem flóðahætta hafi ekki lengur verið atriði sem horfa þyrfti til og jarðskjálftahætta hafi ekki haft þýðingu við úrlausn málsins.

Umfang framkvæmdarinnar geti ekki leitt til þess að um matskylda framkvæmd sé að ræða. Í því sambandi þurfi að hafa í huga að framkvæmdin þurfi að uppfylla það skilyrði að geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Með slíkum áhrifum sé átt við „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“, sbr. p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Stofnunin fái ekki séð að framangreint sé uppfyllt þegar litið sé til umfangs framkvæmdarinnar.

Kærendur láti þess ógetið að í ákvörðun stofnunarinnar segi að litlar líkur séu á að seiði sleppi til sjávar úr kerjum „enda verði ker útbúin með fiskheldum ristum sem hæfa stærð viðkomandi seiða, einnig verði allt frárennsli leitt í gegnum fiskheldar ristar auk þess að fara í gegnum tromlur sem fjarlægja korn yfir 1/1000 úr millimetra.“ Enn fremur láti kærendur þess ógetið, í tengslum við umfjöllun Skipulagsstofnunar um útilokun á óhöppum, að í ákvörðun stofnunarinnar segi að „unnt [sé] að í starfsleyfi sé kveðið á um að notaður verði besti fáanlegi búnaður við flutning seiða yfir í brunnbát og að virkt eftirlit verði haft með búnaði sem notaður verði við flutning seiða.“ Ítrekað sé það sem fram komi í ákvörðun stofnunarinnar að þrátt fyrir að ástæða sé til að gæta fyllstu varúðar við laxeldi þá sé ekki raunhæft að vegna þeirrar framkvæmdar sem hér um ræði verði lagt í umfangsmiklar rannsóknir á lífríki í straumvötnum í Eyjafirði og víðar. Hin fyrirhugaða framkvæmd sé í meginatriðum staðsett á landi en ekki í sjó. Hætta á sleppingum seiða og að þau syndi upp í veiðiár sé töluvert minni en í sjókvíaeldi.

Um losun á lífrænum efnum sé bent á að í kafla 5.3 í tilkynningu framkvæmdaraðila sé um það fjallað og möguleg áhrif þessa á umhverfið. Þar komi fram að miðað við að lágmark 50% verði hreinsað fari ekki meira en 78 tonn af lífrænum úrgangsefnum á ári í sjóinn. Framkvæmdaraðili byggi útreikninga sína um losun næringarefna á grein Wang o.fl., frá árinu 2012, en algengt sé að styðjast við þá grein þegar komi að slíkum útreikningum. Skipulagsstofnun hafi farið yfir útreikninga framkvæmdaraðila með tilliti til umræddrar greinar Wang o.fl. 2012 ásamt því að bera framsettar losunartölur saman við áætlaða losun frá öðru fiskeldi. Hafi það verið mat Skipulagsstofnunar að ekki væri ástæða til að efast um þær tölur sem framkvæmdaraðili hefði sett fram. Þá bendi Skipulagstofnun á að kærendur vísi ekki til neinna heimilda sem renni stoðum undir þá fullyrðingu að alkunna sé að árlegur úrgangur saurs og fóðurleifa frá fiskeldi muni nema um helmingi ársframleiðslu. Þá sé í umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar, dags. 22. maí 2017, ekki að finna sjónarmið sem styðji umrædda fullyrðingu.

Skipulagsstofnun sé ekki bundin af umsögn Hafrannsóknastofnunar heldur leggi sjálfstætt mat á það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Að afla umsagna annarra stjórnvalda sé liður í rannsókn máls áður en matsskylduákvörðun sé tekin. Í ljósi þess sem fram hafi komið í umræddri umsögn Hafrannsóknastofnunar og þess sem hafi komið fram í svarbréfi framkvæmdaraðila vegna umsagnarinnar hafi Skipulagsstofnun með tölvupósti 14. júlí 2017 óskað eftir afstöðu stofnunarinnar og hvort hún teldi áætlun framkvæmdaraðila um að taka aldrei meira en 25% af rennsli árinnar ásættanleg viðbrögð til að tryggja nægilegt rennsli Þorvaldsdalsár yfir veturna. Í svari Hafrannsóknastofnunar frá 26. s.m. sé vikið að því að hver sem framleiðsla, þéttleiki og tegundasamsetning í neðsta hluta árinnar sé mætti gera ráð fyrir því að 25% vatnstaka í lágrennsli myndi hafa áhrif á lífríki og gilti það einnig yfir veturinn. Ekki lægi fyrir þekking á því hversu mikið það geti orðið og sé vandséð að hægt væri að áætla slíkt með nákvæmni. Mögulega væri það hlutfallslegt við það svæði sem færi á þurrt. Ef um einstaka atburði væri að ræða geti áhrifin verið staðbundin og tímabundin en líklegt sé að þau verði meiri eftir því sem lágrennsli og þurrir kaflar séu lengri og tíðari. Ef af framkvæmdum og vatnstöku verði geti verið full ástæða til að koma á reglulegri vöktun á svæðinu og mati á áhrifum vatnstöku á lífríkið. Í tölvupósti Skipulagsstofnunar til framkvæmdaraðila 14. ágúst 2017 hafi m.a. verið óskað eftir upplýsingum um hversu mikið vatn að hámarki yrði tekið úr Þorvaldsdalsá fengi framkvæmdaraðili ekki leyfi til að taka vatn úr borholum. Í tölvupósti framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar sama dag segi að ef framkvæmdaraðili fengi ekki slíkt leyfi þá myndi að hámarki verða teknir 180 l/s úr ánni þegar rennslið í henni væri u.þ.b. 1000 l/s eða meira, eins og það sé megnið af árinu. Ef rennsli færi niður í u.þ.b. 400 l/s þá yrðu teknir að hámarki 20 l/s, sem væri þá 5% af rennsli árinnar. Byrjað yrði að minnka vatnstökuna við 800 l/s. Af gögnum að dæma myndi ekki vera raunhæft að álíta að rennsli færi mikið lægra en í 400 l/s.

Með tilliti til þess að vatnsþörf seiðaeldisins verði mest 20 l/s við lágrennsli, og þess að boðaðar mótvægisaðgerðir í Þorvaldsdalsá séu fullnægjandi að mati Skipulagsstofnunar, sé fyrirhuguð vatnstaka ekki líkleg til að hafa umtalsverð áhrif á lífríki árinnar. Í ljósi orða Hafrannsóknastofnunar um rannsókn á fiskstofnum í fiskgenga hluta árinnar þá telji Skipulagsstofnun ekki þörf á slíkri rannsókn með tilliti til framangreindrar vatnsþarfar miðað við lágrennsli og þess að samkvæmt umsögn Fiskistofu til Skipulagsstofnunar 23. maí 2017 sé Þorvaldsdalsá ekki mikil veiðiá. Þessi afstaða sé í fullu samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf, sem hafi m.a. verið lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Skipulagsstofnun sé ekki heldur bundin af umsögn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Stofnunin leggi sjálfstætt mat á það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Umrædd umsögn sé ekki studd haldbærum rökum, þ.e. engan rökstuðning sé að finna fyrir þeirri afstöðu að mat á umhverfisáhrifum eigi að fara fram. Kærendur vitni til umsagnar Fiskistofu frá 23. maí 2017 þar sem segi að óhöpp geti orðið við dælingu seiða í brunnbát. Af þessu tilefni bendi Skipulagstofnun á að í ákvörðun hennar segi að ekki sé hægt að útiloka að óhöpp geti átt sér stað þannig að seiði sleppi við dælingu seiða í brunnbát. Síðan segi: „Unnt er að lágmarka áhættuna með því að nota þann búnað og viðhafa það verklag sem framkvæmdaraðili lýsir, þ.e. staðlaðan búnað sem er hvergi opinn nema þar sem hann tengist lest brunnbátsins. Mikilvægt er að í starfsleyfi sé kveðið á um að notaðir verði besti fáanlegi búnaður við flutning seiða yfir í brunnbát og að virkt eftirlit verði haft með búnaði sem notaður verður við flutning seiða.“

Eins og fram komi í hinni kærðu ákvörðun muni áhrif framkvæmdarinnar á verndarsvæði vera óveruleg, þar sem einungis sé um að ræða borholur og lagnir sem grafnar verði í jörðu á hverfisverndarsvæðinu. Framkvæmdirnar séu því hvorki til þess fallnar að hafa neikvæð áhrif á landslag né rýra útivistargildi svæðisins. Skipulagsstofnun fái ekki séð að önnur atriði, sem vikið sé að á bls. 4 í kærunni, geri það að verkum að hin fyrirhugaða framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Fyrirhuguð landfylling og eldisstöð muni óumflýjanlega breyta ásýnd hafnarsvæðisins, auk þess sem fyrirhugaðri uppbyggingu fylgi aukin umferð um höfnina. Hinar fyrirhuguðu framkvæmdir og starfsemi falli hins vegar vel að þeirri landnotkun sem fyrir sé, enda um að ræða hafnarsvæði þar sem gera megi ráð fyrir sambærilegri starfsemi. Vegna þeirra orða kærenda að engar upplýsingar liggi fyrir um staðsetningu og stærð fyrirhugaðs efnistökusvæðis á hafsbotni bendi Skipulagsstofnun á svarbréf framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar frá 5. júlí 2017. Í bréfinu hafi verið gerð grein fyrir þremur mögulegum efnistökusvæðum, staðsetningu þeirra og stærð.

Loks hafni Skipulagsstofnun því að sjálfstæðum rannsóknum hennar hafi verið ábótavant. Ákvörðun stofnunarinnar beri með sér að efni rökstuðnings fullnægi kröfum 22. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi stofnunin sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslu-laga. Þau gögn sem fylgi með þessari kæruumsögn leiði það í ljós. Nægi að láta við það sitja að nefna tölvubréfasamskipti stofnunarinnar við Hafrannsóknastofnun, sem og samskipti við framkvæmdaraðila vegna umsagnar síðarnefndu stofnunarinnar. Varðandi tilvísun til b-liðar 1. mgr. 9. gr. tilskipunar 2011/92/ESB, þá taki umrædd grein til yfirvalds sem sjái um leyfisveitingar. Þar segi að þegar ákveðið hafi verið að „veita leyfi til framkvæmda eða synja um það“ skuli lögbært yfirvald eða yfirvöld tilkynna almenningi um það í samræmi við viðeigandi málsmeðferð. Hin kærða ákvörðun lúti ekki að leyfisveitingu heldur að matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar. Málsmeðferð sem fari fram áður en slík ákvörðun sé tekin sé ekki hluti af leyfisveitingarferli framkvæmdarinnar.

Skipulagsstofnun hafi litið svo á að sjódælubrunnur á hafsbotni undir fyrirhugaðri landfyllingu væri ekki vinnsla á grunnvatni í skilningi laga nr. 106/2000. Þar af leiðandi hafi verið talið að framkvæmdin fæli í sér vinnslu á allt að 180 l/s af grunnvatni og félli þar af leiðandi undir lið 10.25 í 1. viðauka laganna. Við mat á umhverfisáhrifum hafi fyrst og fremst verið horft til þess hvort nægt grunnvatn væri til staðar án þess að möguleiki til öflunar neysluvatns væri skertur. Forsaga málsins sé sú að Skipulagsstofnun hafi áður tekið ákvörðun um seiðaeldi á Árskógsströnd á vegum sama aðila. Í því tilviki hafi ákvörðun Skipulagsstofnunar verið sú að framkvæmdin væri matsskyld. Í því máli hefði verið uppi óvissa um vatnsöflun. Þar hefði legið fyrir að Orkustofnun hefði sett umsókn framkvæmdaraðila um nýtingarleyfi á grunnvatni við ósa Þorvaldsdalsár í biðstöðu, en stofnunin hefði talið ólíklegt að hægt væri að afla þess magns af ferskvatni sem sótt hefði verið um, þ.e. 120 l/s, á þeim svæðum þar sem það hefði verið fyrirhugað. Ekki hefði verið fjallað sérstaklega um áhrif á grunnvatnsvinnslu í matsskylduákvörðuninni. Þess í stað hefði verið horft til þess að framkvæmdaraðili hefði ætlað að rannsaka grunnvatnsástand áður en að framkvæmdum kæmi og yrði ekki nóg vatn til staðar þá fari vatnsöflum fram með þeim hætti að drenlögnum yrði komið fyrir í Þorvaldsdalsá. Vegna þessa hefði Skipulagsstofnun talið afar ólíklegt að framkvæmdin myndi skerða möguleika til öflunar neysluvatns á svæðinu.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila kemur fram hann telji Skipulagsstofnun hafa vandað mjög til verka og hafa farið í ítarlega greiningarvinnu þar sem fjöldinn allur af fagaðilum, stofnunum og sérfræðingum hafi verið kallaður til. Taki framkvæmdaraðili undir málsrök Skipulagsstofnunar.

Sá munur sé á forsendum fyrri ákvörðunar Skipulagsstofnunar og þeirrar seinni að uppruna-lega hafi verið fyrirhugað að seiðaeldisstöðin myndi vera byggð á bökkum Þorvaldsdalsár. Ætla megi að ástæða kæru sé sú að kærendur telji að fyrirhuguð framkvæmd sé líkleg til að valda þeim einhverskonar skaða. Sú staða komi vart upp nema sjógönguseiði, sem sé lokaafurð framleiðslunnar, sleppi lifandi út í fjörðinn í stórum stíl. Vísað sé til útskýringa í umsögn Skipulagsstofnunar í gr. 2.2. á bls 2. Við þær útskýringar megi bæta að því stærri sem seiðin séu því minni líkur séu á að þau komist fram hjá rist í keri, hreinsibúnaði sem síi fast efni úr frárennslisvökva, og svo rist í frárennsli. Það sé einungis lokaafurðin, þ.e. sjógönguseiðin, sem geti lifað í sjó og þau séu sjaldan minni en 40 g að þyngd en oftast nær 100 g.

Mikil umræða hafi átt sér stað í íslensku þjóðfélagi um að eldi verði fært upp á land til að koma í veg fyrir að laxeldi valdi villtum laxastofnum skaða því tiltölulega auðvelt sé að búa svo um hnútana að útilokað megi teljast að lifandi eldislaxar geti sloppið út í umhverfið frá eldisstöðvum á landi. Fyrirhuguð framkvæmd varði eldisstöð á landi og það verði vissulega búið þannig um hnútana að laxar geti ekki sloppið út í umhverfið. Verði það enda skilyrði í rekstrarleyfi Matvælastofnunar og muni eftirlitsaðilar frá þeirri stofnun taka framkvæmdina út áður en leyfi verði formlega gefið út.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2017 að allt að 1.200 tonna seiðaeldi á ári á Árskógssandi sé ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Aðrir kærendur þurfa hins vegar að uppfylla framangreind skilyrði kæruaðildar. Eins og fram kemur í kæru eru kærendur annars vegar náttúruverndarsamtök, sem fallist er á að uppfylli framangreind skilyrði um kæruaðild í lögum nr. 130/2011, og hins vegar Veiðifélag Fnjóskár og Veiðifélag Eyjafjarðarár. Veiðifélögin rökstyðja lögvarða hagsmuni sína í málinu með því að þau eigi mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki viðkomandi veiðiáa og þar með hinum villtu lax- og silungsstofnum þeirra, enda sé víst að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár í Eyjafirði og á Norðurlandi og jafnvel víðar um land.

Á sviði umhverfisréttar er oft álitamál hvern telja beri aðila máls. Verður við úrlausn þess atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eiga verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Við mat á því hvort viðkomandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er mjög virkt úrræði til að tryggja réttaröryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Verður því almennt að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Ber þannig að jafnaði ekki að vísa frá málum vegna þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni hans að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu.

Seiðaeldið sem hin kærða matsskylduákvörðun lýtur að mun fara fram á landi við Árskógssand í Eyjafirði. Ár þær sem nefndar eru í kæru renna í Eyjafjörð. Árós Fnjóskár er í um 12 km fjarlægð frá fyrirhugaðri seiðaeldisstöð og árós Eyjafjarðarár í um 35 km fjarlægð. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar kemur fram að hún telji litlar líkur á að seiði sleppi til sjávar úr kerjum, enda verði ker útbúin með fiskheldum ristum sem hæfi stærð viðkomandi seiða. Þá verði allt frárennsli leitt í gegnum fiskheldar ristar, auk þess að fara í gegnum tromlur sem fjarlægi korn að stærð yfir 1/1.000 úr millimetra. Ekki sé hægt að útiloka að óhöpp geti átt sér stað með þeim hætti að seiði sleppi við dælingu seiða í brunnbát. Í tilkynningu framkvæmdaraðila komi fram að lögn til að flytja seiði í brunnbát verði grafin eða plægð ofan í botn hafnarinnar og muni liggja að gámi á bryggju norðvestan við fyrirhugaða landfyllingu. Unnt sé að lágmarka áhættuna með því að nota þann búnað og viðhafa það verklag sem framkvæmdaraðili lýsi, þ.e. staðlaðan búnað sem sé hvergi opinn nema þar sem hann tengist lest brunnbátsins. Mikilvægt sé að í starfsleyfi sé kveðið á um að notaður verði besti fáanlegi búnaður við flutning seiða yfir í brunnbát og að virkt eftirlit verði haft með búnaði sem notaður verði við flutning seiða. Var það niðurstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa umtalsverð neikvæð áhrif á aðra fiskistofna. Réði þar einna mest að um væri að ræða eldisstöð á landi þar sem hætta á að seiði slyppu væri töluvert minni en í sjókvíaeldi.

Í 3. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi er að finna skilgreiningu á m.a. kvíaeldi sem er fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu, sjókvíaeldi sem er eldi á fiski í netbúrum sem komið er fyrir í sjó eða söltu vatni, strandeldi sem er eldi fiska til slátrunar í tönkum eða kerum á landi, sem og á skiptieldi þ.e. eldi á fiski í strandeldi upp í 250 til 1.000 g og framhaldseldi í sjókvíum upp í markaðsstærð. Einnig er að finna skilgreiningar í 3. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi og er seiðaeldi þar skilgreint sem klak og eldi á fyrstu stigum lífsferils fiska og strandeldi skilgreint sem eldi fisks í eldiskerum eða jarðtjörnum á landi þar sem sjó eða ísöltu vatni er dælt í eldiseininguna. Þar er kví enn fremur skilgreind sem netpoki sem hangir í fljótandi grind eða er festur á grind sem komið er fyrir undir eða við yfir­borð lagar.

Ljóst er að eldi í kerjum á landi er ekki sambærileg framkvæmd við eldi í sjókvíum þótt um fiskeldi sé að ræða í báðum tilfellum. Framkvæmd sú sem hér um ræðir felst í eldi seiða í kerjum á landi. Þegar seiðin hafa náð ákveðinni lágmarksstærð er þeim dælt úr kerjunum í brunnbát og þau flutt til kaupanda, sem elur þau áfram í markaðsstærð, eftir atvikum í sjókvíum. Óumdeilt er að á Íslandi, líkt og annars staðar, sleppur fiskur úr sjókvíum þrátt fyrir að fylgt sé norskum staðli, NS 9415:2009 (Flytende oppdrettsanleg), eða öðrum sambærilegum alþjóðlegum stöðlum, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1170/2015. Skilur enda eingöngu net að þegar um sjókvíaeldi ræðir, en í landeldi því sem hér er til umfjöllunar er fiskurinn í kerjum á landi og komið í veg fyrir að hann sleppi í gegnum fráveitu með tveimur ristum og tromlu. Er helst að seiði sleppi ef óhöpp verða við dælingu í brunnbát, en eðli máls samkvæmt fer slík dæling eingöngu fram þegar seiði hafa náð ákveðinni stærð og eru afhent til brottflutnings. Þá er því ekki saman að jafna sleppi seiði, sem e.t.v. eru ekki lífvænleg, eða fullvaxta fiskur. Að öllum þessum atriðum virtum er það mat úrskurðarnefndarinnar að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni veiðifélaganna að fá leyst úr ágreiningi um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar að 1.200 tonna seiðaeldi á Árskógssandi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þar sem hagsmunir veiðifélaganna, sem reisa kæruaðild sína á því að lífríki umræddra veiðiáa verði stefnt í hættu, teljast ekki svo verulegir að skapi þeim kæruaðild verður kæru þeirra vísað frá úrskurðarnefndinni.

Þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita er til sjávar eða þar sem ársframleiðsla er 20 tonn eða meiri og fráveita er í ferskvatn fellur undir flokk B í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna skulu framkvæmdir í þeim flokki háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., og tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar. Segir þar nánar að ákvörðun skuli taka innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn hafi borist, við ákvörðunina skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og að áður skuli leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni. Í samræmi við 2. mgr. 6. gr. tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd. Í tilkynningunni kemur fram að fyrirhugað sé að framleiða allt að 1.200 tonn af laxaseiðum á ári í seiðastöð á Árskógssandi. Reist verði 3.200 m² skemma á lóð nr. 31 við Öldugötu og muni hún meðal annars hýsa klak-, startfóðurs- og seiðaeldisdeildir ásamt lager, verkstæði og starfsmannaaðstöðu. Jafnframt verði gerð landfylling við höfnina þar sem koma eigi fyrir palli með 10 lokuðum kerjum.

Samkvæmt þeim ákvæðum 6. gr. laga nr. 106/2000, sem áður er lýst, ræðst matsskylda af því hvort framkvæmd getur haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í p-lið 3. gr. laganna eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Í 3. mgr. nefndrar 6. gr. segir að við ákvörðun um matsskyldu skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka við lögin, en þar eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tölul. 2. viðauka. Undir hverjum tölulið eru svo taldir upp fjöldi annarra liða.

Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hver þeirra atriða sem tiltekin eru í 1.-3. tölul. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngra en önnur við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Það leiðir þó ekki sjálfkrafa til matsskyldu að einhver þeirra atriða eigi við um fyrirhugaða framkvæmd. Þótt eitt af viðmiðunum um matsskyldu sé eðli framkvæmdar, m.a. með tilliti til stærðar og umfangs hennar, þá veldur stærð eldisins ein og sér ekki matsskyldu, enda hefur löggjafinn ákveðið að metið verði hverju sinni hvort eldi af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir sé líklegt til að valda svo umtalsverðum áhrifum að mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar er fjallað um fyrirhugaða framkvæmd miðað við tilkynningu framkvæmdaraðila og önnur framlögð gögn, einkum þau er varða fyrirhugaða vatnsöflun til framkvæmdarinnar. Er ljóst af þeirri umfjöllun, sem og af umsögnum umsagnaraðila, s.s. Hafrannsóknastofnunar og Orkustofnunar, að um breytta staðsetningu og tilhögun fram-kvæmdar við vatnstöku sé að ræða og að þær breytingar séu til bóta. Forsendur hinnar kærðu ákvörðunar voru því ekki þær sömu og við fyrri ákvörðun stofnunarinnar vegna seiðaeldis framkvæmdaraðila.

Í hinni kærðu ákvörðun er enn fremur fjallað um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar hvað varðar vatnsöflun, áhrif vatnstöku á rennsli og lífríki Þorvaldsdalsár, áhrif á fiskistofna, áhrif frárennslis og efnistöku á botndýralíf og gróður, áhrif á landnotkun og ásýnd, sem og áhrif á menningarminjar. Þá er að finna umfjöllun um skipulag og leyfisveitingar og tiltekur Skipulagsstofnun hvaða leyfum framkvæmdin er háð og hverjar breytingar þurfi að gera á skipulagsáætlunum, auk þess að benda á atriði sem tilefni væri til að kveða á um í slíkum áætlunum og samráð sem viðhafa þurfi. Í inngangi að niðurstöðu sinni vísar stofnunin til þess að við ákvörðunartöku sína beri henni að líta til viðmiða um eðli og staðsetningu fram-kvæmdar, sem og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar. Um niðurstöður sínar vísar stofnunin einkum til atriða er lúta að eðli og staðsetningu framkvæmdarinnar.

Um eðli framkvæmdar tiltekur Skipulagsstofnun að m.a. skuli taka mið af eðli og umfangi framkvæmdar, samlegð með öðrum framkvæmdum, úrgangsmyndun, mengun og ónæði, sbr. 1. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000, og fjallar svo nánar um áhrif frárennslis, áhrif á fiskistofna og áhrif landfyllingar og efnistöku á samfélög botndýra. Um það síðastnefnda tekur stofnunin fram að áhrif landfyllingar og efnistöku á samfélög botndýra verði staðbundið nokkuð neikvæð, en bendir jafnframt á að verndargildi þeirra hafi verið kannað og að niðurstaða þeirrar rannsóknar sé sú að um sé að ræða algengar tegundir sem finna megi á grunnsævi um allt land. Sér þess og stað við málsmeðferð stofnunarinnar, en svo sem lýst er í málavöxtum veitti framkvæmdaraðili henni nánari upplýsingar um fyrirhugaða efnistöku í sjó vegna landfyllingar, þar sem m.a. var vísað til skýrslu um botndýrarannsóknir við Árskógssand í Eyjafirði.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila kemur fram að losun lífrænna næringarefna til sjávar yrði að hámarki 105 tonn af kolefni, 45 tonn af köfnunarefni og 7 tonn af fosfór. Miðað við að lágmark 50% yrði hreinsað færi ekki meira en 78 tonn efnanna á ári í sjóinn. Við umsögn Umhverfisstofnunar var miðað við losun á 45 tonnum af köfnunarefni og 7 tonnum af fosfór, en framkvæmdaraðili miðaði við að losun yrði helmingur þess þegar tillit væri tekið til hreinsunar. Allt að einu taldi Umhverfisstofnun ekki ástæðu til að mat á umhverfisáhrifum færi fram. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar er við það miðað að við hámarksframleiðslu sé áætlað að stöðin losi allt að 78 tonn af lífrænum efnum í viðtaka á ári, en talið sé að frárennsli frá stöðinni muni þynnast út í 1.000.000 m3 af sjó á sólarhring. Bendir stofnunin á að botndýralíf hafi ekki verið kannað þar sem affall frá stöðinni renni út í sjó og ekki liggi fyrir vöktunaráætlun, en framkvæmdaraðili muni hins vegar í samráði við Umhverfisstofnun koma á vöktunaráætlun og ákveða endanlega staðsetningu útrásar frárennslis. Vísar Skipulagsstofnun til umsagnar Umhverfisstofnunar og telur með hliðsjón af henni að vegna þynningaráhrifa séu litlar líkur á því að næringarefni safnist upp í einhverjum mæli og litlar líkur á að áætluð losun valdi verulegum spjöllum á umhverfinu, s.s. botndýralífi og gróðri, sem ekki sé hægt að bæta úr með mótvægisaðgerðum, til dæmis með því að færa útrás frárennslis eða fjölga útrásum. Í umsögn sinni frá maí 2017 gerir Hafrannsóknastofnun ekki athugasemdir við útreikninga á losun í tilkynningu framkvæmdaraðila en bendir á að í lögum um stjórn vatnamála, sem eru nr. 36/2011, sé gert ráð fyrir að meta skuli ástand út frá stöðu lífríkis á viðkomandi svæði og að mikilvægt sé að lífríki við frárennsli sé vaktað svo það valdi ekki óásættanlegri rýrnun vatnsgæða. Ekki hefur verið samþykkt vatnaáætlun á grundvelli greindra laga, en í þeirri áætlun er gert ráð fyrir að sett verði umhverfismarkmið fyrir vatnshlot. Þá mun, svo sem áður er rakið, verða komið á vöktunaráætlun í samráði við Umhverfisstofnun, sem fer með framkvæmd laganna. Bendir ekkert í gögnum málsins til þess að losun næringarefna verði meiri en að framan getur og hefur kærandi ekki stutt gögnum þá fullyrðingu sína að svo verði.

Fram kemur í umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 15. maí 2017, að þrátt fyrir búnað á frárennsli og góð fyrirheit sé sú hætta fyrir hendi að lifandi fiskar „leki“ frá seiðaeldisstöðvum. Það svæði sem um ræði í Eyjafirði hafi ekki áður verið nýtt til eldis á norskum eldislaxi og þurfi að huga að áhrifum þess sérstaklega. Í umsögn Fiskistofu veittri 23. s.m. er lögð á það áhersla að búnaður þurfi að vera með þeim hætti að ekki verði hætta á að fiskur sleppi lifandi frá stöðinni með frárennsli eða vegna dælingar í brunnbát, en jafnframt að það fyrirkomulag frárennslis sem lýst sé í tilkynningu framkvæmdaraðila ætti að koma í veg fyrir að seiði berist lifandi með því. Svo sem áður hefur komið fram var það niðurstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa umtalsverð neikvæð áhrif á aðra fiskistofna og réði þar einna mestu að um væri að ræða eldisstöð á landi þar sem hætta á að seiði slyppu væri töluvert minni en í sjókvíaeldi. Áður hefur verið rakið úr tilkynningu framkvæmdaraðila og hinni kærðu ákvörðun hvernig áformað er að koma í veg fyrir að seiði sleppi. Úrskurðarnefndin hefur enn fremur bent á að því sé ekki saman að jafna að seiði sleppi, sem e.t.v. eru ekki lífvænleg, eða fullvaxta fiskur, auk þess sem dæling seiða í brunnbát fari ekki fram að staðaldri heldur eingöngu við afhendingu seiða. Að þessu virtu verður ekki fallist á með kæranda að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar á fiskistofna geti orðið umtalsverð.

Um staðsetningu framkvæmdar tekur Skipulagsstofnun fram að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af því hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, m.a. með tilliti til landnotkunar sem fyrir sé, magns, gæða og getu til endurnýjunar náttúruauðlinda og verndarsvæða samkvæmt 2. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Vegna staðsetningarinnar rekur Skipulagsstofnun að fyrirhuguð landfylling og eldisstöð muni óumflýjanlega breyta ásýnd hafnarsvæðisins, auk þess sem fyrirhugaðri uppbyggingu fylgi aukin umferð um höfnina. Mögulega muni einhver lykt fylgja söfnunartanki en frágangur á honum verði með þeim hætti að lykt ætti að vera í lágmarki. Einnig segir að starfseminni fylgi ekki lausamunir sem geymdir verði utandyra, bílastæði sjógönguseiðadeildar verði austan við bílastæði fyrir farþega Hríseyjarferju og gestir sjógönguseiðadeildar muni ekki þurfa að aka í gegnum síðarnefndu bílastæðin. Loks fjallar stofnunin nánar um vatnstöku og hverfisvernd.

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar nýtur svæðið Brúarhvammur, Svínakeldur við Þorvaldsdalsá, sem er vítt gil og hefst um brúna, og Þorvaldsárfoss, hverfisverndar. Svæðið er tæplega 60 ha og nýtur verndar vegna sérstakra landslagsgerða, jarðmyndana, stórbrotins landslags og fjölbreyttra náttúruminja. Svæðið var áður skilgreint sem útivistarsvæði. Í hinni kærðu ákvörðun kom fram hverrar verndar svæðið nyti og í hverju sá hluti framkvæmdarinnar sem félli innan svæðisins fælist. Að því virtu væru framkvæmdirnar hvorki til þess fallnar að hafa neikvæð áhrif á landslag né rýra útivistargildi svæðisins. Má og á það fallast, þegar horft er til eðlis framkvæmda innan verndarsvæðisins, sem felast í gerð borhola og lagna gröfnum úr þeim, svo og með hliðsjón af því að gert er ráð fyrir að frágangi verði þannig háttað að þess sjáist lítil merki. Þá kemur fram að framkvæmdaraðili muni hafa samráð við minjavörð Norðurlands eystra um endanlega staðsetningu vatnslagna til að koma í veg fyrir rask á fornleifum.

Hvað vatnstöku varðar þá kemur fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar að Orkustofnun hafi sett umsókn framkvæmdaraðila um leyfi til nýtingar á 120 l/s af grunnvatni í biðstöðu. Framkvæmdaraðili muni í samráði við Orkustofnun og sveitarfélagið kanna frekar forsendur vatnstöku úr borholum áður en framkvæmdir hefjist. Komi í ljós að vatn úr borholum muni ekki fullnægja vatnsþörf framkvæmdaraðila verði vatn tekið úr Þorvaldsdalsá. Framkvæmdaraðili hafi sett fram áætlun um vatnstöku, sem geri ráð fyrir því að vatnsrennsli í Þorvaldsdalsá verði vaktað og vatnstöku hagað eftir rennsli í ánni, en með því að endurnýta vatn muni vatnsþörf seiðaeldisins verða mest 20 l/s við lágrennsli. Varð það niðurstaða Skipulagsstofnunar að boðaðar mótvægisaðgerðir við lágrennsli í Þorvaldsdalsá væru fullnægjandi og fyrirhuguð vatnstaka ekki líkleg til að hafa umtalsverð áhrif á lífríki árinnar. Orkustofnun telur í umsögn sinni að breytt tilhögun frá áður tilkynntri framkvæmd sé til bóta, en Hafrannsóknastofnun bendir í sinni umsögn á að minnsta mælda lágrennsli í Þorvaldsdalsá sé 418 l/s og að mikilvægt sé að tryggja að vatnstakan hafi ekki áhrif. Hafi vatnstakan áhrif til mikillar minnkunar á vatnsrennsli eða ef farvegurinn þorni geti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir lífríki árinnar. Fyrir liggur að við málsmeðferð Skipulagsstofnunar tóku áætlanir framkvæmdaraðila um vatnsöflun til framkvæmdarinnar nokkrum breytingum. Stofnunin bar undir Hafrannsóknastofnun hvort breyttar áætlanir, sem fælu í sér að aldrei yrði tekið meira en 25% af rennsli árinnar, væru ásættanlegar til að tryggt yrði nægilegt rennsli í ánni yfir veturna. Í svari Hafrannsóknastofnunar var tekið fram að gera mætti ráð fyrir að 25% vatnstaka í lágrennsli hefði áhrif á lífríki og gilti það einnig yfir veturinn. Enn tóku áætlanir framkvæmdaraðila breytingum og kemur skýrlega fram í umfjöllun Skipulagsstofnunar um framkvæmdina hvert hámark vatnstöku er miðað við rennsli í Þorvaldsdalsá hverju sinni. Verður hámark vatnstöku 20 l/s við vatnsrennsli undir 500 l/s, eða innan við 5% af þekktu lágmarksrennsli árinnar. Gáfu fyrirliggjandi upplýsingar því ekki tilefni til þeirrar ályktunar að um umtalsverð umhverfisáhrif gæti orðið að ræða af þessum sökum.

Við meðferð málsins óskaði Skipulagsstofnun frekari upplýsinga frá framkvæmdaraðila vegna fyrirhugaðrar efnistöku og eins og fram kemur í málavaxtalýsingu bárust þær 5. júlí 2017. Þar var gerð grein fyrir því að efnistaka um 30.000 tonna til fyllinga á landi væri fyrirhuguð á sjávarbotni á um 3,5 ha svæði, enn fremur að 6.000-8.000 m³ minna magn verði tekið en ella vegna fyrirhugaðra eldistanka, en tilkynning framkvæmdaraðila gerði grein fyrir þörf fyrir um 47.000 m³ af fyllingarefni. Skilgreind voru þrjú svæði þar sem efnistaka gæti farið fram og gerð grein fyrir botnsvæði þar. Var þannig upplýst um staðsetningu og stærð fyrirhugaðs efnistökusvæðis.

Kærandi tekur fram að ekki sé minnst á náttúruvá í ákvörðun Skipulagsstofnunar, svo sem gert hafi verið í fyrri ákvörðun hennar. Í Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020 er m.a. tekið á atriðum varðandi náttúruvá. Kemur þar fram að skjálftasvæðum Íslands hafi verið skipt niður í fimm hönnunarhröðunarsvæði og flokkist Dalvíkurbyggð að hluta í hæsta áhættuflokk, þar sem beri að miða við ákveðna hönnunarhröðun. Við hönnun á mannvirkjum beri að notast við hönnunarhröðun hvers svæðis. Af sveitarfélagsuppdrætti verður ráðið að hin fyrirhugaða framkvæmd verður staðsett þar sem áhættan er í hæsta flokki og að þar með verði að nota þá hönnunarhröðun sem þar á við þegar að hönnun mannvirkja komi. Hins vegar kemur það fyrst og fremst til skoðunar við veitingu byggingarleyfis og verður ekki séð að nauðsyn hafi borið til að fjalla sérstaklega um þetta atriði við ákvörðun um matsskyldu fyrirhugaðrar framkvæmdar, auk þess sem ekki er sérstaklega vikið að náttúruvá varðandi þá þætti er skoða ber við slíka ákvörðun.

Að virtum aðstæðum öllum er það mat úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi við ákvörðun sína litið til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000 og tekið til þeirra afstöðu að teknu tilliti til framkominna umsagna. Skal áréttað í því sambandi að stofnunin er ekki bundin af afstöðu umsagnaraðila til matsskyldu. Af gögnum málsins og því sem áður hefur verið rakið verður jafnframt ráðið að Skipulagsstofnun hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni og rökstutt ákvörðun sína með viðhlítandi hætti. Verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kærum Veiðifélags Fnjóskár og Veiðifélags Eyjafjarðarár.

Hafnað er kröfu annarra kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2017 um að eldi á allt að 1.200 tonnum af seiðum á ári á Árskógssandi í Dalvíkurbyggð skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

140/2017 Arnarholt

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 140/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 20. október 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóð nr. 15B í landi Arnarholts.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. nóvember 2017, er barst nefndinni 1. desember s.á., kæra eigendur jarðarinnar Hlöðutúns, Borgarbyggð, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Borgarbyggð frá 20. október 2017 að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóð nr. 15B í landi Arnarholts. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 20. desember 2017.

Málavextir: Á árinu 1994 keyptu núverandi eigendur jörðina Arnarholt. Sama ár voru gerð drög að landskiptagerð milli eigenda Arnarholts og Hlöðutúns. Á árinu 1996 hófst deiliskipulagsgerð fyrir jörðina Arnarholt að frumkvæði eigenda hennar. Var deiliskipulagið samþykkt af bæjarstjórn Borgarbyggðar 11. febrúar 1998, yfirfarið af Skipulagsstofnun 12. mars s.á. og tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 31. s.m. Með umræddu deiliskipulagi var landinu skipt upp í 40 byggingarreiti, hver að stærð 500 m2. Hinn 5. júní 2003 undirrituðu eigendur Arnarholts stofnskjal lóða og voru greindir byggingarreitir gerðir að sérstökum fasteignum. Stofnskjalið var móttekið til þinglýsingar 23. s.m. Hinn 28. júní 2007 var lóð nr. 15B í landi Arnarholts afsalað til byggingarleyfishafa. Var afsalið móttekið til þing­lýsingar 31. mars 2008.

Með bréfi til sýslumannsins á Vesturlandi, dags. 6. september 2017, óskaði annar kærandi þess máls að afmáð yrði úr þinglýsingabókum embættisins fyrrnefnt stofnskjal lóða í landi Arnarholts þar sem það fengist ekki samrýmst öðrum þinglýstum skjölum jarðanna Arnarholts og Hlöðutúns. Hinn 8. desember 2017 hafnaði sýslumaður beiðni kæranda um að afmá greint stofnskjal úr þinglýsingarbók. Sama dag þinglýsti embættið yfirlýsingu um að jarðirnar Arnarholt og Hlöðutún í Borgarbyggð ættu sér sameiginlegt land (sameiginlegt óskipt beitiland) og að upplýsingar um það hafi ekki komið nægilega skýrt fram í þinglýsingarbók.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar 20. október 2017 var samþykkt umsókn leyfishafa um byggingarleyfi fyrir sumarhúsi að Arnarholti 15b.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að í kaupsamningi núverandi eigenda Arnarholts frá árinu 1993 sé tekið fram að landamerki jarðarinnar séu samkvæmt þinglýstri landamerkja­lýsingu frá 21. maí 1890, en þar sé lýst sameiginlegum landamerkjum jarðanna Hlöðutúns og Arnarholts. Á árinu 1915 hafi jörðin Hlöðutún verið seld með útskiptu landi en að auki hafi fylgt jörðinni beitiland sameiginlegt með jörðinni Arnarholti. Það land hafi því verið í óskiptri sameign jarðanna. Frá árinu 1994 hafi ítrekað verið reynt án árangurs að ná samkomulagi um landskipti milli jarðanna varðandi það land sem sé í óskiptri sameign.

Fyrir liggi að sú bygging sem hið kærða byggingarleyfi taki til sé á óskiptu landi Hlöðutúns og Arnarholts. Ekkert samkomulag sé á milli eigenda landsins um nýtingu eða afnot af því. Ekki sé heimilt að gefa út byggingarleyfi fyrir byggingu sem rísa eigi í óskiptu landi jarðanna nema fyrir liggi samþykki allra meðeigenda. Skipti engu máli þótt fyrir hendi sé deiliskipulag og að fyrirhuguð bygging verði í samræmi við gildandi skipulag.

Fram komi í gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að með umsókn um byggingarleyfi skuli m.a. fylgja gögn sem hafi að geyma samþykki meðeigenda og annarra aðila eftir atvikum. Skilja beri ákvæðið með þeim hætti að áður en byggingarleyfi sé gefið út liggi fyrir samþykki meðeigenda lands eða lóðar varðandi þá byggingu sem þar eigi að rísa. Þó svo að byggingin kunni að vera í samræmi við gildandi skipulag breyti það því ekki að ekki sé heimilt að gefa út byggingarleyfi nema fyrir liggi samþykki landeigenda, en slíkt samþykki liggi ekki fyrir. Ekki sé um það deilt að sumarhúsið sem byggingarleyfið taki til og fyrirhugað sé að reisa sé í óskiptu landi Hlöðutúns og Arnarholts.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að áður en komið hafi til samþykktar byggingarleyfisins fyrir sumarhúsi að Arnarholti 15B hafi verið leitað til fulltrúa sýslumannsins á Vesturlandi til staðfestingar á því  hver væri lögmætur eigandi lóðarinnar. Í svari fulltrúans við fyrirspurninni hafi komið fram að stofnun lóðarinnar byggði á þinglýstum gerningi sem ekki hefði verið felldur úr gildi. Samkvæmt því sé leyfishafi eigandi lóðarinnar.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að ekkert land sé í óskiptri sameign jarðanna Hlöðutúns og Arnarholts fyrir utan land undir tvö sumarhús, líkt og eigendur jarðanna hafi samið um á fundum 10. september og 8. október 1994. Þegar núverandi eigandi Arnarholts hafi keypt landið með kaupsamningi 17. september 1994 hafi því í reynd verið búið að skipta því landi sem kærendur og þáverandi eigendur Arnarholts hafi talið vera sameiginlegt land. Kærendur hafi formlega samþykkt þessa skiptingu landsins með bréfi til skipulagsnefndar Borgarbyggðar, dags. 23. september 1996, þar sem fram komi að hjá kæranda hafi dregist „að ganga endanlega frá landamerkjum frekar en að um nokkurn ágreining sé að ræða.“ Landspilda sú sem leyfishafar eigi og hafi fengið byggingarleyfi fyrir sé því á landi sem óumdeilanlega hafi fallið til Arnarholts við samningsgerðina.

Telja verði að úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 72/2013, sem einnig hafi varðað útgáfu byggingarleyfis á grundvelli gildandi deiliskipulags fyrir Arnarholt, marki fordæmi í máli þessu, sem úrskurðarnefndinni sé skylt að fara eftir. Leyfishafar fari með ráðstöfunarrétt yfir fasteign sinni og séu eðli málsins samkvæmt einir til þess bærir að sækja um byggingarleyfi á mannvirkjum á lóð sinni. Byggingarfulltrúa hafi verið heimilt að samþykkja umsókn þinglýsts eiganda lóðarinnar um byggingu frístundahúss, enda liggi ekki annað fyrir en að greind byggingaráform séu í samræmi við gildandi skipulag svæðisins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um hvort heimiluð bygging samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi sé reist í landi sem sé í óskiptri sameign kærenda og leyfishafa og því háð samþykki kærenda.

Fasteignareigendur fara með ráðstöfunarrétt yfir fasteignum sínum og eru eðli máls samkvæmt einir til þess bærir að sækja um byggingarleyfi fyrir mannvirkjum á lóð sinni. Líkt og greinir í málavöxtum varð leyfishafi þinglýstur eigandi umræddrar lóðar þegar afsali þess efnis var þinglýst árið 2008. Þinglýsingum fylgir tiltekinn áreiðanleiki að lögum og verða þær lagðar til grundvallar við töku stjórnvaldsákvarðana. Þá liggur fyrir að 8. desember 2017 þinglýsti sýslumaðurinn á Vesturlandi yfirlýsingu á lóðina um að jarðirnar Arnarholt og Hlöðutún í Borgarbyggð eigi sér sameiginlegt land og að upplýsingar um það hafi ekki komið nægilega skýrt fram í þinglýsingarbókum. Í þinglýsingarákvörðun sýslumannsins sama dag kemur jafnframt fram að „Þinglýsingardeild getur því ekki verið visst um hvort það svæði sem umrætt skjal (stofnskjal lóða í landi Arnarholts þinglýsingarnúmer skjal nr. 413-M-001028/2003) tekur til sé að einhverju leyti innan hins sameiginlega lands.“ Þar af leiðandi verður, þrátt fyrir hina þinglýstu yfirlýsingu, að leggja til grundvallar að leyfishafi sé einn eigandi lóðar 15B í landi Arnarholts.

Ágreiningur um eignarréttindi, sem kann að stafa af óvissu um hvar mörk hins sameiginlega óskipta lands liggja, verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni, enda á slíkur ágreiningur eftir atvikum undir dómstóla. Að teknu tilliti til framangreinds var byggingarfulltrúa Borgarbyggðar rétt að samþykkja umsókn þinglýsts eiganda fyrrgreindrar lóðar um byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni í samræmi við heimildir gildandi deiliskipulags.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 20. október 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóð nr. 15B í landi Arnarholts.

136/2017 Villingavatn

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 14. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 136/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 18. október 2017 um að synja kærendum um sameiningu tveggja lóða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 17. nóvember 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Selvogsgrunni 16, Reykjavík, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 18. október 2017 að synja beiðni þeirra um sameiningu tveggja lóða úr landi Villingavatns. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 19. janúar 2018.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar uppsveita 9. mars 2017 var umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir 74 m2 viðbyggingu við sumarhús þeirra á lóð úr landi Villingavatns nr. 170947 tekin fyrir. Heildarstærð hússins eftir stækkun hefði orðið 165,5 m2 og 508,8 m3. Hafnaði nefndin umsókninni með þeim rökum að stækkunin væri ekki í samræmi við almennar reglur sem giltu um stærðir frístundahúsa í sveitarfélaginu. Almennt hefði verið miðað við að nýtingarhlutfall lóða væri 0,03 með þeirri undantekningu að á vissum svæðum hefði verið miðað við að á lóðum sem væru minni en 0,5 ha gæti byggingarmagn á lóð verið allt að 120 m2. Á umræddri lóð væru þegar skráð mannvirki sem væru samtals um 123 m2. Sveitarstjórn staðfesti niðurstöðu skipulagsnefndar á fundi sínum 15. mars 2017 með sömu rökum og skipulagsnefnd.

Í framhaldi af framangreindri afgreiðslu sveitarstjórnar lögðu kærendur fram fyrirspurn um mögulega stækkun umræddrar lóðar um 3.500 m2. Skipulagsnefnd uppsveita mælti ekki með að sveitarstjórn samþykkti stækkun lóðarinnar miðað við fyrirliggjandi gögn þar sem lóðin virtist fara yfir aðkomuveg að a.m.k. einni annarri lóð. Sveitarstjórn tók erindið fyrir á sveitar­stjórnarfundi 19. apríl 2017 og staðfesti niðurstöðu skipulagsnefndar.

Hinn 24. september 2017 skiluðu kærendur inn umsókn til Grímsnes- og Grafningshrepps þar sem þau óskuðu eftir því að lóðir þeirra nr. 170947 og 170952 úr landi Villingavatns yrðu sameinaðar. Á fundi skipulagsnefndar uppsveita 12. október 2017 var umsókn kærenda tekin fyrir. Í niðurstöðu skipulagsnefndar kom fram að hún mælti ekki með að lóðirnar yrðu sameinaðar þar sem þær lægju ekki saman og á milli þeirra væri vegur sem lægi að öðrum lóðum innan hverfisins. Þá tók nefndin fram að það væri almenn stefna hennar að vera ekki að sameina eða skipta lóðum í þegar byggðum frístundahverfum. Var kærendum tilkynnt um ákvörðun skipulagsnefndar 17. s.m. og tekið fram að sá fyrirvari væri á tilkynningunni að sveitarstjórn staðfesti hana á næsta fundi. Á fundi sveitarstjórnar 18. október 2017 var sameiningu lóðanna hafnað með þeim rökum að lóðirnar lægju ekki saman og á milli þeirra væri vegur sem lægi að öðrum lóðum innan hverfisins. Framangreind synjun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að ákvörðun sveitarfélagsins um synjun á beiðni þeirra um sameiningu lóða hafi aldrei verið kynnt þeim með formlegum hætti eða þeim leiðbeint um kærurétt eða kærufrest.

Skipulagsnefnd uppsveita hafi árið 2012 samþykkt sameiningu tveggja lóða austanmegin við lóð kærenda. Hér sé því um að ræða þveröfuga afgreiðsla á tveimur sambærilegum umsóknum þar sem eigendur tveggja lóða, sem standi hlið við hlið í sömu frístundabyggð, fái mismunandi úrlausn. Það að einfaldur vegur sé á milli lóða kærenda geti eitt og sér ekki skýrt mismunandi afgreiðslu. Umrætt frístundasvæði hafi þegar verið byggt árið 2012 en engar meiriháttar breytingar hafi orðið síðan þá. Óútskýrt sé því hvers vegna mál kærenda hljóti allt aðra meðferð. Með þessu hafi verið brotið gróflega gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hinni almennu óskráðu jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins og jafnræðisreglu 65. gr. Stjórnarskrárinnar. Því beri að fella ákvörðunina úr gildi.

Kærendur telja að synjun á sameiningu lóða hljóti að þurfa að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og efnislegum rökum. Það sé ekki málefnalegt sjónarmið eitt og sér að hafa þá almennu stefnu að synja um sameiningu lóða í frístundabyggð. Slíkar synjanir séu í reynd takmarkanir á stjórnarskrárvörðum eignarrétti einstaklinga og því hljóti að þurfa að byggja á veigamiklum rökum og nauðsyn ef synja eigi um slíkt. Að auki sé því mótmælt að það sé almenn stefna skipulagsnefndarinnar að sameina ekki lóðir í þegar byggðum frístundahverfum. Mörg dæmi séu um það að samþykkt hafi verið að sameina lóðir í slíkum hverfum, sem og annar staðar, án þess að nefndin hafi hreyft við nokkrum athugasemdum. Árið 2015 hafi nefndin samþykkt sameiningu lóða við Austurveg í útjaðri Selfoss. Tillagan hafi m.a. falið í sér kvöð um aðkomurétt annarra eigenda. Um slíka kvöð hefði vel mátt ræða í máli kærenda en í stað þess að leita að slíku meðalhófi hafi skipulagsnefndin kosið að hafna umsókn kærenda með öllu. Þá hafi sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps einnig endurtekið samþykkt sameiningu lóða. Árið 2005 hafi verið samþykkt að breyta deiliskipulagi frístundabyggðarinnar Miðengis og sameina fjórar lóðir í tvær. Tilgangurinn með þeirri sameiningu hafi verið að byggja á óbyggðum byggingarreitum stærri sumarhús en skipulag gerði ráð fyrir. Í tilviki kærenda sé þeim hins vegar synjað um sameiningu lóðanna þó að fyriráætlun þeirra sé sú ein að stækka við sumarhúsið á nyrðri lóðinni en láta syðri lóðina vera óraskaða. Þá brjóti fyriráætlanir kærenda ekki gegn neinu deiliskipulagi, líkt og í umræddu máli frá 2005, enda hafi ekkert deiliskipulag verið gert um svæðið. Einnig hafi sveitarstjórn samþykkt árið 2015 sameiningu lóða þar sem vegur hafi legið á milli lóðanna, auk þess sem lóðareigandinn hafi ætlað að leggja í jörð rotþrær fyrir sumarhús á annarri lóð. Engu að síður hafi sameiningin verið samþykkt athugasemdalaust. Þá virðist í öðru máli frá 2016 sem tilgangur sameiningar þriggja lóða hafi verið að byggja stærri hótelbyggingu og önnur hús. Þó í því máli hafi verið um að ræða íbúðarhúsalóðir samkvæmt skipulagi standi íbúðarhúsin í grennd við fjölda sumarhúsa í frístundabyggð og megi því fullkomlega jafna því fyrirkomulagi við frístundabyggð. Einnig hafi sveitarstjórn vísað til þess í málum sem varði sameiningu lóða að nágrannar hafi ekki komið með athugasemdir vegna sameiningarinnar. Í því máli sem hér um ræði hafi sveitarfélagið hins vegar ekki kannað hug annarra eigenda í frístundabyggðinni. Af samtölum sem annar kæranda hafi átt við aðra eigendur hafi þeir ekki virst setja sig að neinu leyti upp á móti sameiningunni og séu kærendur tilbúnir til að afla skriflegrar staðfestingar þeirra afstöðu ef þörf krefji.

Þar sem ekki hafi verið byggt á málefnalegum sjónarmiðum telji kærendur að brotið hafi verið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Það að lóðirnar séu aðskildar með vegi geti ekki talist málefnalegt eitt og sér heldur þurfi efnisleg- og málefnaleg rök að koma þar til viðbótar. Alkunna sé að víða á Íslandi séu lóðir skornar í tvennt, eða jafnvel í fleiri hluta, með vegum. Þannig geti sama lóðin verið í tvennu lagi eða jafnvel í mörgum aðskildum hlutum án þess að með því skapist sérstök vandamál. Því sé ekkert því til fyrirstöðu að tveir eða fleiri hlutar einnar lóðar séu aðskildir. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands geti landareign verið í mörgum bútum sem snertist ekki. Eðlilega muni aðrir eigendur hafa umferðarrétt um veginn og geti kærendur ekki takmarkað þann stjórnarskrárvarða umferðarrétt þótt lóðirnar yrðu sameinaðar. Tilvist vegarins á milli lóðanna geti því ekki verið málefnaleg ástæða fyrir því að ekki megi sameina þær. Álíti kærendur að málið hafi ekki verið rannsakað nægilega vel og því sé um brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ræða. Virðist synjun sveitarfélagsins með óljósum hætti byggð á því að vegurinn liggi að eignum annarra í hverfinu, þrátt fyrir að ekki hafi verið kannaður hugur þeirra eigenda til sameiningar. Að auki telji kærendur að sveitarfélagið hafi brotið gegn óskráðri meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga með ákvörðun sinni. Sveitarfélagið hefði getað óskað eftir því við kærendur að þinglýst yrði kvöð á hina sameinuðu lóð um hvernig fara skyldi með syðri lóðina og jafnframt hefði þannig verið hægt að undirstrika umferðarrétt annarra um veginn, sem þó sé ótvíræður. Þannig hefði sveitarfélagið getað náð markmiði sínu með vægari úrræðum.

Þótt frístundabyggðin telji nú 40 frístundalóðir séu engin knýjandi sjónarmið sem hnígi til þess að halda þeirri tölu óbreyttri um ókomna tíð og engin knýjandi nauðsyn sem standi því í vegi að lóðunum sé fækkað um eina með sameiningu tveggja lóða. Sérstaklega eigi þetta við þegar litið sé til þess að fram til þess að kærendur hafi fest kaup á syðri lóðinni hafi hún verið í niðurníðslu og hús þar látin drabbast niður.

 Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að megin­ástæða þess að sameiningu lóðanna hafi verið hafnað hafi byggst á sama grunni og fyrri ákvarðanir skipulagsnefndar uppsveita og sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps, sem eigi fulltrúa í sameiginlegri skipulagsnefnd. Megi þar vísa í kærumál til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 15/2010 og kærumál til úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 57/2012 og nr. 16/2014.

Rökstuðningur sveitarfélagsins vegna fyrrnefndra mála nr. 57/2012 og 16/2014, eigi einnig við í þessu máli, en þar komi fram að undanfarin ár hafi nokkuð verið um að óskað væri eftir sameiningu sumarhúsalóða í sveitarfélaginu. Í sumum tilvikum hafi það verið heimilað en ekki í öðrum. Hafi þær ákvarðanir byggst á mismunandi aðstæðum hverju sinni og stundum á niðurstöðu grenndarkynningar. Hafi beiðnum um sameiningu lóða fjölgað frá því sem áður hafi verið og því hafi verið ákveðið að skoða almennt hvort sameining lóða innan sumarhúsahverfa væri æskileg. Niðurstaðan hafi orðið sú að almennt væri ekki æskilegt að heimila sameiningu lóða innan sumarhúsahverfa þar sem það breytti forsendum uppbyggingar hverfisins m.t.t. vegagerðar, lagningu veitna o.s.frv. Slíkt þýði ekki að slíkum beiðnum sé alltaf hafnað, en dæmi geti komið upp þar sem skipulagsnefnd telji að fyrir liggi málefnaleg rök fyrir sameiningu frístundahúsalóða, sem teljist þó til undantekninga. Í því máli sem hér sé til skoðunar liggi lóðirnar ekki saman og miðað við fyrri umsókn kærenda um byggingarleyfi virðist vera sem markmið sameiningarinnar sé að fá leyfi til að byggja stærra hús á því svæði sem lóð með landnúmerið 170947 nái yfir. Ef sameining yrði heimiluð mætti segja að verið væri að fara framhjá þeim meginreglum sem miðað sé við varðandi byggingarheimildir á sumarhúsalóðum. Rétt sé að landareign geti verið í mörgum hlutum, líkt og fjölmörg dæmi séu um, en þau dæmi eigi nánast eingöngu við um jarðir og stærri spildur en ekki sumarhúsalóðir.

Nauðsynlegt sé að ákveðinn stöðugleiki ríki í skipulagsmálum. Byggingarmagn í flestum sumarhúsahverfum miðist við ákveðið nýtingarhlutfall og myndi sameining lóða gera það að verkum að heimilt yrði að byggja mun stærra hús á sameinaðri lóð en á öðrum lóðum í kring.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að fram komi í 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að stjórnvöldum skuli veittur allt að 30 daga frestur til að skila gögnum og umsögn. Úrskurðarnefndin hafi óskað eftir því við Grímsnes- og Grafningshrepp að gögn og umsögn um málið yrði sent nefndinni innan 30 daga frá bréfi nefndarinnar, sem dagsett hafi verið 21. nóvember 2017. Greinagerð og gögn frá sveitarfélaginu hafi hins vegar í fyrsta lagi borist nefndinni 12. janúar 2018, sem sé 22 dögum eftir þann lokafrest sem stjórnvaldinu hefði verið veittur og sé lögbundinn skv. 5. mgr. 4. gr. laga um nefndina. Því krefjist kærendur þess að horft verði framhjá framkominni greinagerð og gögnum sveitarfélagsins í málinu. Líta verði til þess að strangur eins mánaðar kærufrestur gildi fyrir kærendur í málum þessum, sbr. 2. mgr. 4. gr. fyrrnefndra laga. Sé því óhjákvæmilegt að gera einnig strangar kröfur til stjórnvaldsins og að því verði ekki leyft að njóta lengri frests en lögbundið sé skv. 5. mgr. 4. gr. laganna.

Því sé harðlega mótmælt að með sameiningu lóðanna sé reynt að fara framhjá reglum er varði nýtingarhlutfall sumarhúsalóða og að slíkar óskráðar reglur standi í vegi fyrir sameiningu lóða. Fyrst beri til þess að líta að engar reglur gildi um nýtingarhlutfall lóða í þeim hluta frístundabyggðarinnar sem hér um ræði. Fyrir liggi að nýtingarhlutfall á annarri sambærilegri lóð í frístundabyggðinni sé 0,047 og því langt yfir þeim mörkum sem sveitarfélagið telji að eigi að gilda um lóðir kærends. Eigandi fyrrnefndrar lóðar hafi fengið það samþykkt að byggja nýtt 135,5 m2 sumarhús og 23,2 m2 gestahús á lóðinni ásamt því að rífa núverandi sumarhús og bátaskýli. Í kjölfarið hafi eigandinn fengið samþykki fyrir því að sameina lóðina annarri lóð. Teikningum að húsinu hafi verið breytt og húsið orðið í heild sinni 217,2 m2. Bátaskúrinn hafi aldrei verið rifinn og stendur því enn. Ef hann yrði rifinn yrði nýtingarhlutfallið 0,043. Hafi þetta nýtingarhlutfall verið samþykkt og látið óátalið af hálfu sveitarfélagsins.

Kærendur bendi á að þeir hafi ekki hug á að byggja á sameinaðri lóð þannig að nýtingarhlutfall hennar verði umfram 0,03. Hús kærenda eftir stækkun yrði 165 m2, sem sé mun minna en byggingarmagnið á fyrrnefndri nágrannalóð. Málefnaleg sjónarmið geti því ekki staðið því í vegi að kærendur fái að sameina sínar lóðir og byggja síðan við hús sitt, þannig að nýtingar­hlutfall verði 0,03 eða minna á hinni sameinuðu lóð og að syðri lóðin verði án bygginga. Að auki væri það brot á jafnræðisreglu að standa í vegi fyrir sameiningu lóða kærenda á grundvelli sjónarmiða um nýtingarhlutfall, þegar eiganda lóðarinnar við hliðina sé heimilað nýtingar­hlutfall sem sé langt umfram það sem sveitarfélagið haldi fram að gildi á svæðinu.

Kærendur telji að þeir úrskurðir sem sveitarfélagið vísi til í greinargerð sinni séu ekki sambæri­legir því máli sem hér sé til skoðunar. Í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 15/2010 hafi framkvæmd verið stöðvuð vegna athugasemda nágranna í grenndarkynningu, ásamt því að deiliskipulag hafi gilt um svæðið. Í þessu máli hafi aftur á móti hvorki farið fram grenndarkynning né nágrannar gert athugasemdir. Þá sé ekki í gildi deiliskipulag um þann hluta frístundabyggðarinnar sem lóð kærenda standi á. Sama eigi við um úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 57/2012 og 16/2014 þar sem niðurstaðan virðist hafa ráðist af því að deiliskipulag gilti um svæðið.

Málsrök sveitarfélagsins fyrir úrskurðarnefndinni séu þau sömu og lögð hafi verið fyrir nefndina vegna mála nr. 16/2014 og 57/2012. Því sé ljóst að um a.m.k. sex ára gamlan rök­stuðning sé að ræða sem tæpast hafi gildi í máli kærenda. Ekkert liggi fyrir um að umsóknum um sameiningu hafi fjölgað síðan árið 2012, þegar umræddur rökstuðningur hafi fyrst verið lagður fram. Sameining lóða kærenda breyti engu um forsendur uppbyggingar hverfisins og slík sjónarmið séu óútskýrð af hálfu sveitarfélagsins. Auk þess hafi sameining lóðanna hvorki áhrif á vegagerð né lagningu veitna. Ekki verði séð hvernig stöðugleika í skipulagsmálum yrði stefnt í hættu ef af sameiningu yrði. Fjölmörg dæmi séu um að sveitarfélagið hafi samþykkt sameiningu lóða bæði í frístundabyggðum sem og annars staðar. Þá sé óútskýrt hvers vegna sveitarfélagið hafi ekki framkvæmt grenndarkynningu í máli kærenda, eins og því hafi verið í lófa lagið að gera.

Á lóð nr. 218211 í sömu frístundabyggð standi 172 m2 hús byggt árið 2015. Lóðin sé 6.100 m2 og nýtingarhlutfallið 0,028. Hús þetta sé stærra en hús kærenda yrði eftir stækkun og standi á lóð sem sé minni en lóð kærenda yrði eftir sameiningu.

Niðurstaða: Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er stjórnvald og gilda því reglur stjórnsýsluréttarins um meðferð mála fyrir nefndinni. Samkvæmt 10. gr stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Liður í því er að óska eftir gögnum og upplýsingum frá því stjórnvaldi sem á í hlut. Stjórnvaldinu er skylt að láta nefndinni í té öll gögn og upplýsingar sem tengjast málinu og nefndin telur þörf á að afla, sbr. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Því verður ekki litið fram hjá þeim upplýsingum sem sveitar­félagið skilaði inn þótt það hafi verið gert að liðnum þeim fresti sem veittur var í því skyni.

Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 17. október 2017, var kærendum tilkynnt um afgreiðslu skipulagsnefndar uppsveita á umsókn þeirra um sameiningu lóða. Gerður var sá fyrirvari í bréfinu að afgreiðslan væri háð staðfestingu sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps. Staðfesti sveitarstjórn afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 18. október 2017 og hafnaði erindi kærenda. Verður hvorki séð að kærendum hafi verið tilkynnt um þá afgreiðslu né leiðbeint um kæruheimild eða kærufrest, líkt og áskilið er í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kemur það þó ekki að sök þar sem kæra barst innan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Samkvæmt 48. gr. laganna er óheimilt að skipta jörðum, löndum, lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Svo sem fram kemur í málsrökum sveitarfélagsins varð stefnubreyting fyrir nokkrum árum varðandi sameiningu lóða, sem má skilja á þann hátt að frá árinu 2012 hafi það verið stefna sveitarfélagsins að draga úr sameiningu lóða í frístundahúsahverfum af þeirri ástæðu að það breyti forsendum uppbyggingar hverfisins m.t.t. vega og veitna.

Leyfi fyrir sameiningu lóða nr. 220844 og 170953 við Villingavatn var samþykkt án athuga­semda af hálfu skipulagsnefndar uppsveita 23. ágúst 2012 og var sú afgreiðsla staðfest í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps 5. september s.á. Hins vegar hefur sveitarfélagið, eins og áður er rakið, breytt um stefnu varðandi sameiningu lóða frá þeim tíma sem þær lóðir voru sameinaðar. Verður ekki annað séð en að skipulagsrök og málefnaleg sjónarmið hafi legið því til grundvallar. Þannig hefur sveitarfélagið teflt fram þeim efnisrökum því til stuðnings að ekki sé í máli þessu ástæða til að veita undanþágu frá stefnu sveitarfélagsins ásamt því að umræddar lóðir liggi ekki saman. Þá liggur ekki fyrir að nýlegt fordæmi sé til staðar þar sem sameining lóða hafi verið samþykkt í umræddri frístundahúsabyggð þar sem vegur hafi legið á milli lóðanna. Af framangreindu verður hvorki séð að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi sveitarfélagið brotið gegn skráðum né óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins. Þá raskar synjunin ekki stjórnarskrárvörðum eignarrétti kærenda, en einstaklingar eiga ekki lögvarða kröfu um sameiningu lóða í þeirra eigu.

Að öllu framangreindur virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafnings­hrepps frá 18. október 2018 um að synja umsókn þeirra um sameiningu frístundahúsalóða nr. 170947 og 170952 í landi Villingavatns.

149 og 150/2018 Bæjargarður

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 14. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 149/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 18. október 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs vegna upp­setningar á ljósamöstrum við íþróttavöll.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. desember 2018, er barst nefndinni 24 s.m., kærir eigandi, Túnfit 1, Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 18. október 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi. Bæjargarðs vegna uppsetningar á lýsingu fyrir íþróttavöll. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að sveitarfélaginu verði gert að stöðva allar framkvæmdir á Bæjargarðssvæðinu þar til fullunnin og samþykkt hönnunargögn liggi fyrir. Þá er þess krafist að úrskurðarnefndin geri alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð bæjarritara Garðabæjar og áminni hann fyrir rangfærslur.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. desember 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 30. nóvember s.á. um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir ljósamöstrum við íþróttavöll í Bæjargarði. Er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og jafnframt að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða. Með hliðsjón af því að sami aðili stendur að báðum kærumálunum, og að hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar, verður síðara kærumálið, sem er nr. 150/2018, sameinað máli þessu.

Með tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar frá 8. febrúar 2019 fóru eigendur, Túnfit 2, Garðabæ, fram á að þeim verði heimilað að gerast meðkærendur í fyrrgreindu máli vegna breytingar á deiliskipulagi Bæjargarðs.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 10. og 24. janúar 2019.

Málavextir: Deiliskipulag Bæjargarðs er frá árinu 2007 og samkvæmt greinargerð þess var gert ráð fyrir opnu svæði með stígum, trjá- og runnagróðri, sem og fjölbreytilegri leikja- og útivistaraðstöðu. Hinn 3. mars 2017 tók gildi breyting á deiliskipulaginu, sem fól í sér að gert var ráð fyrir „sérútbúnum boltaflötum“. Í kjölfarið samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar 18. maí 2017 umsókn bæjarverkfræðings, sem fól m.a. í sér gerð gervigrasvallar í Bæjargarði.

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 3. júlí 2018 var samþykkt tillaga skipulagsnefndar um að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs. Í breytingunni fólst að gert yrði ráð fyrir sex 9,15 m háum ljósamöstrum við völlinn. Tillagan var auglýst til kynningar 26. s.m. með fresti til athugasemda til 6. september s.á. Alls bárust níu athugasemdir, m.a. frá kæranda. Að kynningu lokinni var tillagan lögð að nýju fram á fundi skipulagsnefndar 17. september s.á. ásamt innsendum athugasemdum. Var málinu vísað til tækni- og umhverfissviðs til nánar úrvinnslu. Hinn 5. október s.á. tók tækni- og umhverfissvið saman umsögn með svörum við nefndum athugasemdum og var skipulagstillagan samþykkt á fundi bæjarstjórnar 18. s.m. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 23. nóvember 2018.

Hinn 30. nóvember 2018 samþykkti byggingarfulltrúinn í Garðabæ umsókn tækni- og umhverfissviðs bæjarins um byggingarleyfi fyrir ljósamöstrum við gervigrasvöll í Bæjargarði. Á fundi bæjarráðs 4. desember s.á. var afgreiðsla byggingarfulltrúans samþykkt og mun byggingarleyfi hafa verið gefið út sama dag.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að í áraraðir hafi staðið til að byggja bæjargarð á svæði sunnan Hraunholts og hafi svæðið síðan gengið undir nafninu Bæjargarður. Á árinu 2016 hafi Garðabær kynnt breytingar á deiliskipulagi svæðisins þar sem tvær boltaflatir hafi verið afmarkaðar á aðaluppdrætti, en önnur boltaflötin hefði þá verið notuð af börnum um margra ára skeið. Sveitarfélagið hafi fullyrt að hin boltaflötin yrði til almenningsnota og í skriflegum svörum sveitarfélagsins til íbúa hafi komið fram að hvorki væri gert ráð fyrir lýsingu né girðingu umhverfis flötina. Hvorki kærandi né aðrir hafi því séð ástæðu til að gera athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna.

Vorið 2017 hafi Garðabær borið út einblöðung í hús í nágrenninu til þess að vara við ónæði vegna framkvæmda við nýjan „minni knattspyrnuvöll“ í Bæjargarði. Sveitarfélagið hafi hafið framkvæmdir samdægurs. Við eftirgrennslan hafi íbúar komist að því að sveitarfélagið hafi staðið fyrir útboði þremur mánuðum fyrr á „nýjum æfingavelli“ við „[í]þróttasvæði í Ásgarði“. Samkvæmt gögnum útboðsins hafi verið áætlað að reisa upphitaðan gervigrasvöll sem yrði lýstur upp með sex 15 metra háum ljósamöstrum. Völlurinn hafi verið kyrfilega skilgreindur sem „æfingavöllur“ fyrir „íþróttasvæði Stjörnunnar í Ásgarði“ og átt að „uppfylla sameiginlegar kröfur FIFA [Alþjóða knattspyrnusambandsins] og UEFA [Knattspyrnusambands Evrópu] um knattspyrnugrasvelli“. Sveitarfélagið hafi því ætlað sér að reisa alþjóðlegan knattspyrnuvöll í Bæjargarðinum.

Framkvæmdir hafi hafist áður en hönnun lýsingar og girðingar hafi legið fyrir. Sé það brot á 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, en þar segi: „Heimilt er að samþykkja og gefa út framkvæmdaleyfi fyrir matsskyldri framkvæmd þótt nákvæm hönnunargögn liggi ekki fyrir varðandi alla áfanga framkvæmdarinnar. Í framkvæmdaleyfinu skal þá koma fram að fullunnin og samþykkt hönnunargögn skuli liggja fyrir áður en hefja megi framkvæmdir við einstaka áfanga framkvæmdarinnar.“ Íbúar hafi kært framkvæmdaleyfið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem farið hafi verið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. Úrskurðarnefndin hafi hafnað stöðvunarkröfunni á þeim forsendum að um jarðvegs- og yfirborðsframkvæmdir væri að ræða og hægt væri að „koma umræddu svæði í fyrra horf án mikillar fyrirhafnar“. Þetta hafi reynst rangar forsendur. Í greinargerð Garðabæjar í málinu hafi því verið haldið fram að í hugtakinu „boltaflöt“ felist „augljóslega heimild fyrir upphituðum, afgirtum og upplýstum gervigrasvelli eins og hér um ræðir“. Þá hafi því verið haldið fram að boltaflötin sé í „almenningsgarði og verði opin fyrir almenningi á sama tíma og hann verði einnig notaður fyrir skipulagðar æfingar barna og ungmenna í bæjarfélaginu.“ Rangfærsla sveitarfélagsins sé endanlega ljós í samningi bæjarins við Ungmennafélagið Stjörnuna, en þar sé félaginu veitt full yfirráð yfir vellinum, hann verði aflæstur og félaginu verði heimilt að leigja hann út til þriðja aðila sér til tekjusköpunar. Allt verði það á kostnað aðgangs almennings að boltaflötinni.

Hinn 17. október 2017 hafi Garðabær gefið út framkvæmdaleyfi fyrir ljósabúnaði við boltaflötina. Kærandi hafi kært framkvæmdaleyfið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Tæpu ári síðar hafi úrskurðarnefndin kveðið upp frávísunarúrskurð þar sem sveitarfélagið hafi breytt áætlunum sínum í millitíðinni. Allan þann tíma hafi Garðabær fengið að halda áfram óáreittur við framkvæmdir í Bæjargarði án þess að íbúar fengju rönd við reist því dráttur úrskurðarnefndarinnar hafi haldið málinu í gíslingu. Hinn 8. janúar 2018 hafi fengist staðfesting frá Skipulagsstofnun á því að ljósamöstrin krefðust breytingar á deiliskipulagi, en Garðabær hafi hunsað þá niðurstöðu. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi sveitarfélaginu borið að afhenda gögn til úrskurðar­nefndarinnar innan 30 daga frá því að kæra var lögð fram, en sveitarfélagið hafi tekið rúmlega fjóra mánuði til þess.

Ljóst sé að auglýsing deiliskipulagstillögunnar uppfylli ekki kröfur laga. Garðabær hafi auglýst fyrirhugaða breytingu á deiliskipulagi 26. júlí 2018, en hinn 5. september s.á. hafi sveitarfélagið bætt við sérstökum skýringaruppdrætti þar sem fram komi mikilvæg atriði sem ekki hafi áður komið fram. Meðal annars hafi loftmynd verið breytt, lögun á mönum verið bætt við uppdrátt ásamt nákvæmum sniðmyndum af áhrifum ljósamastra á nágrennið. Frestur hafi verið óbreyttur eða til næsta dags. Auglýsingin brjóti því í bága við skipulagslög, sem geri kröfur um að auglýsing sé birt með nauðsynlegum gögnum og sex vikur veittar til að gera athugasemdir.

Í athugasemdum Skipulagsstofnunar frá 20. janúar 2017 sé fjallað um breytingar Garðabæjar á deiliskipulagi Ásgarðs. Athugasemdirnar nái m.a. til ljósamastra, en þar segi: „Skipulagsstofnun hefur farið yfir framlögð gögn og gerir athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda sbr. eftirfarandi atriði: […] Skilmála vantar fyrir ljóskastara á möstrum, um skermum og takmarkanir sem við geta átt (s.s. á hvaða tímum sólarhrings notkun er heimil).“ Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé ekkert fjallað um takmarkanir notkunar á ljósamöstrum og íþróttavellinum, s.s. á hvaða tímum sólarhrings notkun sé óheimil. Þá hafi Garðabær ekki sent öll nauðsynleg gögn til Skipulagsstofnunar þegar stofnunin hafi fjallað um auglýsinguna vegna deiliskipulagsbreytinganna. Sveitarfélagið hafi þannig hvorki sent þangað athugasemdir kæranda né annarra íbúa og því hafi stofnunin ekki getað vitað af efni þeirra. Þetta sé brot á kröfum laga um meðferð deiliskipulagsbreytinga.

Í Aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015 hafi verið kynntar hugmyndir um svokallaðan Bæjargarð. Í gildandi aðalskipulagi séu áform um Bæjargarð staðfest. Í greinargerð deiliskipulags Bæjargarðs frá 2007 segi m.a. að gert sé ráð fyrir stígum, trjá- og runnagróðri, sem og fjölbreytilegri leikja- og útivistarstöðu. Þá sé gert ráð fyrir mótun lands, svo sem útsýnishæð, áhorfenda- og sleðabrekku og frágangi á lækjarbökkum, sérstaklega í námunda við félagsheimili Stjörnunnar. Ljóst sé að áform um að reisa upphitaðan, upplýstan knattspyrnuvöll með gervigrasi, sex 9,15 m ljósamöstrum og 2 m hárri læstri stálvírsgirðingu, sem uppfylli kröfur Alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA og Knattspyrnusambands Evrópu, samræmist ekki aðalskipulaginu, en þar sé svæðið skilgreint sem opið svæði. Slíka velli sé eingöngu heimilt að reisa á skilgreindum íþróttasvæðum. Þá falli Bæjargarður innan svokallaðra „Grænna geira“ samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016, sem tengi byggð við upplands- og strandsvæði í Gálgahrauni, en þar komi fram að samkvæmt svæðisskipulagi skuli ekki reisa neinar byggingar eða mannvirki sem dragi úr tengslum upplandsins við ströndina. Ljósamöstrin og girðingin séu mannvirki samkvæmt skilgreiningu laga, enda þurfi að gefa út byggingarleyfi fyrir þeim. Bæði ljósamöstrin og knattspyrnuvöllurinn dragi úr tengslum upplandsins við ströndina, enda sé mikill farartálmi af slíkum velli þar sem girðingar hindri umferð og ljósamöstrin verði áberandi hluti af ferðlagi hvers þess sem ferðist um svæðið.

Við gerð deiliskipulags sé skylt lögum samkvæmt að fjalla um áhrif deiliskipulagsbreytinga á umferð og öryggi. Með breytingu á boltaflöt í íþróttaflöt verði aukin umferð um Bæjargarðssvæðið og þörf á aðgengi fyrir fatlaða o.þ.h. Engin umfjöllun sé um þetta í auglýsingu Garðabæjar eða öðrum gögnum. Gera verði kröfu um að sveitarfélagið fjalli um slíkt.

Með núverandi áformum um deiliskipulagsbreytingar sé Garðabær að viðurkenna að bærinn hafi brotið gegn gildandi deiliskipulagi og sé að reyna að bjarga málum eftir á. Slíkt sé brot á stjórnsýslulögum og efni mögulegrar stjórnsýslukæru. Í fyrri greinargerðum sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar hafi verið færð ítarleg rök fyrir því að hinn alþjóðlegi knattspyrnuvöllur falli innan þágildandi deiliskipulags. Í svari sveitarfélagsins við fyrirspurnum kæranda segi að það sé skoðun þess að ekki þurfi í deiliskipulagi að gera sérstaka grein fyrir lýsingu vallarins. Sveitarfélagið hafi ekki fært nein rök fyrir því að breyta þurfi deiliskipulaginu og því beri að hafna henni.

Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi sé gerð krafa um að fullunnin og samþykkt hönnunargögn liggi fyrir áður en hefja megi framkvæmdir. Kærandi fari fram á að allar framkvæmdir við Bæjargarðssvæðið verði stöðvaðar þar til ákvæði nefnds reglugerðarákvæðis sé uppfyllt. Þá hafi Garðabær orðið uppvís að því að afvegaleiða úrskurðarnefndina í tveimur greinargerðum bæjarins frá 19. júní 2017 og 22. mars 2018. Sé þessi málatilbúnaður þess eðlis að úrskurðarnefndin geti ekki látið hann óátalinn. Sé því farið fram á að úrskurðarnefndin geri alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð bæjarritara Garðabæjar og áminni hann fyrir rangfærslurnar.

Að því er varði kröfu kæranda um að fella byggingarleyfi fyrir ljósamöstrunum úr gildi vísar kærandi til þess að í athugasemdum Skipulagsstofnunar komi fram að í skilmálum þurfi að koma fram takmarkanir sem eigi við um notkun ljósamastara. Byggingarleyfið hafi ekki að geyma þá skilmála sem Skipulagsstofnun geri ráð fyrir. Ekki sé að sjá á gögnum frá byggingarfulltrúa að fjallað hafi verið um þessar kröfur. Einnig komi fram í nefndum athugasemdum stofnunarinnar að gera þurfi grein fyrir áhrifum ljósamastra á umhverfið, þ. á m. gagnvart íbúum í nágrenninu. Í gögnunum sé að finna myndir af „blanket spill“, sem sýni áhrif á allra næsta nágrenni vallarins en nái ekki til næstu íbúðarhúsa við Túnfit. Þá sé birtumagn samkvæmt gögnum frá byggingarfulltrúa langt umfram heimildir í deiliskipulagi. Samkvæmt deiliskipulaginu verði birtumagn lýsingar 200 lúx en í gögnum frá byggingarfulltrúa komi fram að birtustig sé miklu meira, eða allt að 354 lúx. Vegna þessa atriðis hafi kærandi sent fyrirspurn til Skipulagsstofnunar og svar hennar, dags. 14. janúar 2019, hafi verið á þann veg að „líta beri til 200 lux sem hámarkslýsingar.“ Byggingarleyfið uppfylli því ekki skilyrði laga og beri að fella úr gildi.

Varðandi fullyrðingu Garðabæjar um að 200 lúx lýsing sé „sambærileg við götulýsingu“ þá hafi bæði Veitur og HS Veitur hafnað því. Götulýsing á Íslandi sé byggð á ÍST EN 13201 staðlinum um veglýsingu, sem gefinn sé út af Staðlaráði Íslands. Ljóstæknifélag Íslands hafi staðfest að samkvæmt staðlinum sé lýsing við götustíga að jafnaði 5-10 lúx. Sú lýsing sem Garðabær áformi sé því 20-40 sinnum meiri en götulýsing.

Engin dæmi finnist frá öðrum sveitarfélögum um að sambærilegt íþróttamannvirki sé reist á skilgreindu opnu svæði samkvæmt aðalskipulagi. Til samanburðar sé bent á deiliskipulagsbreytingu Reykjavíkurborgar á útivistarsvæði í Úlfarsárdal frá júní 2008. Í greinargerð deiliskipulags þess svæðis komi fram að íþróttavöllur sem þar um ræði sé á skipulögðu íþróttasvæði en ekki opnu svæði. Lýsing á vellinum sé frá 200 lúx og skilgreind sem flóðlýsing. Þá sé skýrt kveðið á um það hvenær lýsing verði á svæðinu, þ.m.t. á hvaða tímum ársins og klukkan hvað.

Frekari rök og sjónarmið kæranda liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að krafa kæranda um stöðvun allra framkvæmda á Bæjargarðssvæðinu, þar til fullunnin og samþykkt hönnunargögn liggi fyrir, feli ekki í sér kröfu um stöðvun framkvæmda á grundvelli 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þar sem krafan sé ekki bundin við framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar. Krafist sé miklu víðtækari stöðvunar, auk þess sem henni sé ætlað að vara þar til fullunnin og samþykkt hönnunargögn liggi fyrir, en ekki aðeins þar til úrskurður gengur í málinu. Hvergi sé að finna heimild í lögum til þess að úrskurðarnefndin stöðvi framkvæmdir með þeim hætti sem hér sé krafist. Þá sé krafa kæranda um að úrskurðarnefndin geri athugasemdir við vinnubrögð bæjarritara og áminni hann ekki studd neinum haldbærum rökum. Úrskurðarnefndin hafi engar slíkir heimildir og valdsvið hennar sé afmarkað með skýrum hætti í 1. gr. laga nr. 130/2011. Fyrrnefndum kröfum beri að vísa frá.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé einungis veitt heimild til að setja upp lýsingu við íþróttavöll sem eigi sér stoð í gildandi deiliskipulagi fyrir umrætt svæði. Kærandi reyni að koma að ýmsum málsástæðum sem lúti að gildi deiliskipulags svæðisins frá 2007, með þeirri breytingu sem gerð hafi verið haustið 2016, þegar samþykkt hafi verið ákvæði í deiliskipulagi svæðisins um íþróttavöll þann sem hér um ræði. Megi raunar segja að flestar málsástæður kæranda varði ekki hina kærðu ákvörðun heldur lúti að gildi þess deiliskipulags sem fyrir hafi gilt á svæðinu. Geti þær því ekki komið til álita við úrlausn málsins.

Framsetning umræddrar skipulagstillögu í auglýsingu hafi verið fullnægjandi og breyti engi þótt skýringarmynd hafi verið sett fram síðar, umfram skyldu. Samkvæmt 4. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli skipulagstillaga sett fram á uppdrætti og í greinargerð. Í hinni kærðu skipulagsbreytingu sé á uppdrætti gerð grein fyrir staðsetningu fyrirhugaðra ljósamastra og í greinargerð á uppdrættinum komi fram hæð mastranna, hámarksbirtumagn lýsingar og áskilið að lampar séu með stefnuvirkri LED-lýsingu, þannig að auðveldara sé að stýra birtu og minnka þannig áhrif lýsingarinnar á nærliggjandi byggð. Tillagan varði aðeins umrædda lýsingu en ekki önnur atriði, svo sem frágang vallarins eða landmótun, og hafi ekki verið gerð athugasemd við hana við yfirferð Skipulagsstofnunar, sbr. bréf hennar frá 14. nóvember 2018. Af því megi ráða að stofnunin hafi ekki talið að í skilmálum þyrfti að greina takmarkanir á notkun ljósamastranna, svo sem um notkunartíma ljósanna. Fái því ekki staðist sú málsástæða kæranda að skipulaginu sé áfátt að þessu leyti. Sé ekki heldur hægt að leggja að jöfnu þær kröfur sem gera verði til skilmála um lýsingu þá sem hér um ræði annars vegar og um lýsingu á íþróttasvæðinu við Ásgarð hins vegar, þar sem á Ásgarðssvæðinu sé um að ræða allt að 22 m há möstur með lömpum sem séu 500 lux á móti 9,15 m háum möstrum með lömpum allt að 200 lúx. Augljóst megi vera að mannvirki þessi séu langt frá því að vera sambærileg, eins og berlega megi ráða af mismunandi afstöðu Skipulagsstofnunar til þeirra. Þá sé einnig vísað til þess að fyrir liggi reglur um notkun umrædds vallar þar sem fram komi takmarkanir á notkun hans og eins tímatakmarkanir á notkun lýsingar.

Að því er varði þá málsástæðu kæranda að Garðabær hafi ekki sent Skipulagsstofnun tilskilin gögn, svo sem athugasemdir kæranda og annarra íbúa, þá sé ljóst að flestar athugasemdirnar hafi ekki átt við um tillöguna. Í umsögn sveitarfélagsins hafi skilmerkilega verið greint frá því að hverju athugasemdirnar hafi lotið. Síðan sé hverjum lið svarað fyrir sig og hafi engin athugasemd verið gerð af hálfu Skipulagsstofnunar við þetta verkleg. Ekki verði séð að skort hafi á fullnægjandi gögn að þessu leyti.

Kærandi virðist telja að með hinni kærðu ákvörðun hafi fyrst og fremst verið tekin ákvörðun um að gera umræddan íþróttavöll í Bæjargarði. Svo sé ekki heldur hafi völlurinn verið settur inn í deiliskipulag með breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs árið 2016. Engin breyting hafi verið gerð á stærð eða staðsetningu vallarins með hinni kærðu ákvörðun og ekki felist nokkur efnisbreyting í því þótt hann sé nefndur íþróttavöllur í stað boltaflatar. Einungis hafi verið um það að ræða að samþykkja heimild fyrir lýsingu við völlinn til að taka af öll tvímæli um réttmæti þeirrar framkvæmdar. Garðabæ hafi verið heimilt að setja í skipulagið heimild fyrir lýsingu við völlinn óháð því hvort framkvæmdin væri háð skipulagi eða ekki. Málsástæður sem lúti að því að völlurinn rúmist ekki innan aðalskipulags hefði þurft að koma fram þegar heimild fyrir gerð vallarins hafi verið sett í skipulag á árinu 2016 og geti þau álitaefni ekki komið til umfjöllunar í þessu máli. Af þeim sökum beri að hafna þessari málsástæðu og þurfi því ekki að færa rök fyrir því að nefndur völlur falli innan heimilda aðalskipulags. Af sömu ástæðu verði að hafna því sem kærandi haldi fram að skort hafi á umfjöllun um umferð og öryggismál, enda eigi engin breyting sér stað varðandi þessa þætti þótt til komi lýsing við umræddan völl.

Hið kærða byggingarleyfi sé útgefið af byggingarfulltrúa 4. desember 2018 í samræmi við ákvæði 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en byggingaráform hafi verið samþykkt á fundi bæjarráðs sama dag, sbr. 2. gr. samþykktar um afgreiðslur byggingarnefndar Garðabæjar nr. 863/2011. Við útgáfu byggingarleyfis hafi þess verið gætt að umrædd framkvæmd væri í samræmi við deiliskipulag Bæjargarðs og séu engin efni til að fallast á kröfu kæranda um ógildingu leyfisins.

Nauðsynlegt sé að taka fram að ekki sé um að ræða keppnislýsingu eða flóðlýsingu við umræddan boltavöll í Bæjargarði heldur svokallaða punktlýsingu, eins og algengt sé á minni gervigrasvöllum til að auka notagildi þeirra í svartasta skammdeginu. Lýsingin sé þannig hönnuð að hún muni valda óverulegum grenndaráhrifum ef nokkrum. Styrkleiki lýsingarinnar sé stillanlegur, en samkvæmt skipulagi sé miðað við að birtumagn sé stillt á 200 lúx. Almennt séu slíkir vellir lýstir og geti það engan veginn hafa komið kæranda á óvart að til uppsetningar slíkrar lýsingar kæmi við völlinn. Gervigrasvöllurinn muni verða nýttur til skipulegs íþróttastarfs fyrir börn og ungmenni og einnig muni völlurinn nýtast almenningi. Telja verði að hagsmunir almennings til að fá upplýstan völl gangi framar meintum hagsmunum kæranda í málinu.

Garðabær hafi gert samkomulag við Ungmennafélagið Stjörnuna um afnot að gervi­grasvellinum og þar komi fram að völlurinn skuli ekki nýttur til æfinga eftir kl. 21:00 á kvöldin. Með því sé verið að koma í veg fyrir hugsanlegt ónæði frá vellinum gagnvart næsta nágrenni. Rétt þyki að taka fram að samningur bæjarins við félagið hafi engin áhrif á að bæjaryfirvöld fari með fullt forræði yfir vellinum og muni ávallt tryggja að notkun hans valdi ekki ónæði fyrir næsta nágrenni umfram það sem eðlilegt geti talist. Ekki sé um keppnisvöll að ræða heldur almennan íþróttavöll með takmarkaðri lýsingu. Þar sem ekki sé um keppnislýsingu eða flóðlýsingu að ræða sé ekki ástæða til að setja ákvæði um almennar notkunarreglur í deiliskipulagsskilmála frekar en almennt gerist um upplýst leiksvæði.

Verði fallist á að um frávik frá skilmálum sé að ræða þá sé það svo óverulegt að falla myndi undir heimiluð frávik í 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga, sbr. einnig gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, og hefði því allt að einu verið heimilt að veita leyfið, svo sem gert hafi verið.

Vettvangsskoðun: Úrskurðanefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 31. janúar 2019 að viðstöddum fulltrúum málsaðila og fulltrúum bæjaryfirvalda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs í Garðabæ, þar sem gert er ráð fyrir sex 9,15 m háum ljósamöstrum við íþróttavöll, og um veitingu byggingarleyfis fyrir þeim ljósamöstrum.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar og samkvæmt 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 telst sá dagur sem fresturinn er talinn frá ekki með í frestinum. Hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 18. október 2018 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. nóvember s.á. Var því lokadagur kærufrests vegna umræddrar ákvörðunar 24. desember 2018, en beiðni íbúa að Túnfit 2 um að gerast aðilar að fyrirliggjandi kæru vegna deiliskipulagsbreytingarinnar barst úrskurðarnefndinni 8. febrúar 2019, eða um einum og hálfum mánuði eftir að kærufrestur rann út. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um að vísa beri kæru frá, berist hún að liðnum kærufresti. Þar sem ekki verður séð að þær ástæður séu fyrir hendi sem heimila að taka mál til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt nefndu lagaákvæði verður ekki fallist á að játa nefndum aðilum kæruaðild að kærumáli þessu vegna deiliskipulagsbreytingarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Fellur það utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að hafa eftirlit með vinnubrögðum einstakra starfsmanna sveitarfélaga og þ. á m. að veita þeim áminningu. Að sama skapi fellur það utan valdheimilda nefndarinnar að taka ákvörðun um stöðvun allra framkvæmda á tilteknu svæði þar til fullunnin og samþykkt hönnunargögn liggi fyrir, enda einskorðast heimild úrskurðarnefndarinnar til stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða við þann tíma sem kærumál er til meðferðar hjá nefndinni, sbr. 5. gr. fyrrgreindra laga. Verða þessar kröfur kæranda því ekki teknar til efnislegrar meðferðar.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu tók gildi breyting á deiliskipulagi Bæjargarðs 3. mars 2017 þar sem gert er ráð fyrir „sérútbúnum boltaflötum“. Það skipulag sætir ekki lögmætisathugun í máli þessu, enda eins mánaðar kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 löngu liðinn. Málsástæður kæranda er varða lögmæti íþróttavallarins sjálfs, sem gerður var á grundvelli skipulagsbreytingarinnar frá árinu 2017, geta því ekki komið til skoðunar hér.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fara sveitarfélög með vald til gerðar deiliskipulagsáætlana. Við beitingu þess valds ber m.a. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þó svo að hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Í skipulagsvaldi sveitarfélaga felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna. Þessu valdi eru aðallega settar skorður með kröfu um samræmi við aðalskipulagsáætlanir og lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins.

Samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030, sem tók gildi 4. maí 2018, er svæðið Bæjargarður á skilgreindu opnu svæði, merkt 3.02 Op. Í 1. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er tekið fram að sé gert ráð fyrir landnotkun á sama reit sem fellur undir fleiri en einn landnotkunarflokk skuli sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem sé ríkjandi en umfang annarrar landnotkunar tilgreint í skilmálum. Í greinargerð gildandi aðalskipulags er fjallað um landnotkun opinna svæða í kafla 3.15 og kemur þar fram að Bæjargarður verði nýttur í tengslum við íþróttamiðstöðina í Ásgarði. Þá er rakið í kafla 6.2, um breytingar á landnotkun frá fyrra aðalskipulagi, að heimild fyrir íþróttavelli hafi verið sett í ákvæði um Bæjargarðinn. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að hin umdeilda deiliskipulagsbreyting, sem einungis heimilar áðurnefnd ljósamöstur við boltavöllinn, gangi gegn fyrrgreindri stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana því fullnægt.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem hann og gerði. Raskar það ekki gildi auglýsingarinnar að skýringaruppdráttur við tillöguna hafi bæst við í lok kynningar­tímans, enda telst hann ekki hluti hinnar kærðu ákvörðunar, sem sett er fram á skipulagsuppdrætti og í skipulagsgreinargerð, sbr. 4. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Samþykkt tillaga, ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við athugasemdum, var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. skipulagslaga og gerði stofnunin ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt skipulagsins. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. nóvember 2018. Verður því ekki annað séð en að málsmeðferð tillögunnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Þótt fallist sé á það með kæranda að lýsing umdeilds íþróttasvæðis geti haft töluverð grenndaráhrif gagnvart fasteignum í næsta nágrenni getur það ekki eitt og sér raskað gildi umdeildrar deiliskipulagsbreytingar, en í 51. gr. skipulagslaga er kveðið á um bótarétt þeirra sem sýna fram á fjártjón af völdum skipulags eða breytinga á skipulagi.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Í skipulagsskilmálum umræddrar deiliskipulagsbreytingar er tekið fram að birtumagn lýsingar frá ljósamöstrum við boltavöllinn í Bæjargarði verði 200 lúx og til að tryggja að lýsing trufli ekki íbúðarbyggð í nágrenni við völlinn skuli lampar vera með stefnuvirkri LED-lýsingu. Fram kemur í samþykktri umsókn um byggingarleyfi að upplýsingar um ljósamöstur megi sjá í deiliskipulagi. Þá segir í útgefnu byggingarleyfi fyrir ljósamöstrunum frá 4. desember 2018 að öll framkvæmd skuli unnin eftir samþykktum aðal- og séruppdráttum, byggingar- og verklýsingum og gildandi lögum og reglugerðum um skipulags- og byggingarmál. Samkvæmt samþykktum uppdráttum byggingarleyfisins er staðsetning mastranna í samræmi við gildandi deiliskipulagsuppdrátt. Var hið kærða byggingarleyfi því í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við töku ákvörðunar um hið umdeilda byggingarleyfi, verður gildi leyfisins ekki raskað.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 18. október 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs vegna uppsetningar á ljósamöstrum við íþróttavöll.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 30. nóvember 2018 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir ljósamöstrum við íþróttavöll í Bæjargarði.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

136/2018 Digranesvegur

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 12. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 136/2018, kæra vegna dráttar á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi til breyttrar notkunar Digranesvegar 12, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem barst nefndinni 23. nóvember 2018, kærir eigandi, Digranesvegi 12, Kópavogi, drátt á afgreiðslu umsóknar sinnar, dags. 21. ágúst 2018, um byggingarleyfi til breyttrar notkunar Digranesvegar 12. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að lagt verði fyrir Kópavogsbæ að taka fyrrgreint erindi kæranda til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 21. desember 2018.

Málavextir: Með byggingarleyfisumsókn, dags. 29. ágúst 2017, óskaði kærandi eftir leyfi til að breyta notkun fasteignarinnar að Digranesvegi 12. Kærandi sóttist eftir því að fá húsnæðinu breytt úr skrifstofu í íbúðarhúsnæði. Þar sem ekkert deiliskipulag var í gildi fyrir svæðið vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsráðs á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi skipulagsráðs 16. október 2017 var því hafnað að grenndarkynna erindið og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 24. s.m. Hafnaði byggingarfulltrúi byggingarleyfisumsókninni á afgreiðslufundi sínum 10. nóvember 2017.

Með erindi, dags. 20. desember 2017, óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins. Á fundi bæjarráðs 8. febrúar 2018 var samþykkt að endurupptaka málið og var því vísað aftur til skipulagsráðs. Var erindið lagt fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 5. mars 2018 þar sem samþykkt var að grenndarkynning á því færi fram. Á fundi skipulagsráðs 7. maí s.á. var afgreiðslu erindisins frestað og því vísað til skipulags- og byggingardeildar til umsagnar, þar sem athugasemdir hefðu borist á kynningartíma. Á fundi skipulagsráðs 4. júní s.á. var erindinu hafnað með þeim rökum að æskilegt væri að fá heildarsýn og hefja vinnu við að deiliskipuleggja svæðið. Á fundi bæjarstjórnar 26. júní s.á. var afgreiðslu skipulagsráðs hafnað og samþykkti bæjarstjórn breytta notkun á húsnæðinu við Digranesveg 12. Var málinu vísað aftur til afgreiðslu byggingarfulltrúa 11. júlí 2018.

Í kjölfarið áttu sér stað nokkur samskipti milli byggingarfulltrúa og kæranda. Mun kærandi m.a. hafa sótt viðtalstíma hjá byggingarfulltrúa oftar en einu sinni og uppfært gögn sem síðan var skilað til byggingarfulltrúa í ágúst og september 2018. Meðal þeirra gagna var ný byggingarleyfisumsókn kæranda, dags. 21. ágúst 2018. Með tölvupósti til hönnuðar kæranda 3. október 2018 upplýsti byggingarfulltrúi að hönnuður þyrfti að vera með gæðakerfi, senda þyrfti inn hönnunartryggingu hönnuðar, íbúð þyrfti að hólfa frá öðrum húshlutum með EI 90 veggjum og hæðaskilum, sýna þyrfti björgunarop í útliti og merkja inn stærðir og gera þyrfti grein fyrir hugsanlegri sambrunahættu af öðrum hæðum, væru þær fyrir hendi. Þá var bent á að útlitsmyndir húss vantaði, sem og byggingarlýsingu sem lýsti lagnaleiðum, klæðningum o.fl. Með tölvupósti til kæranda 25. s.m. ítrekaði byggingarfulltrúi að hann teldi sig og kæranda hafa farið yfir hvað stæði út af vegna samþykktar íbúðar að Digranesvegi 12 og ítrekaði fyrri athugasemdir. Tók hann fram að lagfæra þyrfti teikningar að íbúðinni að teknu tilliti til athugasemdanna, auk þess sem hönnuðurinn þyrfti að uppfylla lagaskilyrði til að leggja inn teikningar. Var kæranda boðið að hitta byggingarfulltrúa á viðtalstíma vegna þessa. Svaraði kærandi því til í tölvupósti  29. s.m. að hann væri ekki sáttur við stöðu mála og áréttaði hverjar athugasemdir hann hefði við kröfur byggingarfulltrúa. Teldi hann þeim ýmist vera ofaukið, þegar verið fullnægt eða þær ekki eiga sér stoð í lögum eða byggingarreglugerð. Þá flækti byggingarfulltrúi saman kröfum er sneru að  byggingaráformum annars vegar og útgáfu byggingarleyfis hins vegar. Óskaði kærandi eftir því að kröfurnar yrðu teknar til endurskoðunar. Í svari byggingarfulltrúa í tölvupósti s.d. er reifað að gróflega hefði verið farið yfir teikningar og athugasemdir gerðar í upphafi en eftir yfirferð skipulagsyfirvalda hefði málið farið í hefðbundna yfirferð hjá byggingarfulltrúa og slökkvilið þá einnig farið yfir teikningarnar. Athugasemdir hefðu svo verið gerðar við þær.

Enn áttu kærandi og byggingarfulltrúi tölvupóstsamskipti 12. nóvember 2018, þar sem kærandi óskaði eftir því að mál hans yrði tekið til afgreiðslu og skilmerkilega yrði útskýrt í þeirri niðurstöðu hvaða gögnum hann þyrfti að standa skil á til að byggingarleyfisumsókn hans yrði samþykkt. Áréttaði byggingarfulltrúi og endurtók fyrri athugasemdir. Tók hann og fram að þær kröfur væru í samræmi við byggingarreglugerð og þyrftu allir að uppfylla þær til að fá teikningar samþykktar. Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni 23. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi fer fram á að mál hans verði tekið til efnislegrar afgreiðslu hjá byggingarfulltrúa. Gagnrýnir hann málsmeðferð sveitarfélagsins og telur að honum hafi ekki  verið veittar fullnægjandi leiðbeiningar. Lögð sé áhersla á að bæjarstjórn Kópavogsbæjar hafi tekið undir það á fyrri stigum málsins að kærandi hefði sætt ómálefnalegri meðferð af hálfu bæjarins og sé í því sambandi vísað til fundargerða bæjarstjórnar.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er tekið fram að við samþykkt byggingaráforma sé byggingarfulltrúa skylt að ganga úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði mannvirkjalaga nr. 160/2010 og gildandi byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Eðli máls samkvæmt geti byggingarfulltrúi ekki samþykkt byggingaráform séu aðaluppdrættir ekki í samræmi við gildandi lög og reglur. Samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa sé enn eftir að lagfæra atriði, svo hægt sé að samþykkja byggingaráform. Hönnuður þurfi að vera með hönnunartryggingu og gæðastjórnunarkerfi, sbr. 23. og 24. gr. mannvirkjalaga, útlitsmynd hússins vanti, sbr. gr. 4.3.1. í byggingarreglugerð, og sama eigi við um byggingarlýsingu, sbr. gr. 4.3.9. í sömu reglugerð. Þá hafi slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu gert athugasemdir sem kærandi hafi ekki brugðist við. Byggingarfulltrúi hafi ítrekað bent kæranda á að ekki sé hægt að afgreiða byggingarleyfisumsókn hans fyrr en búið sé að lagfæra þessi atriði. Því sé hafnað að málsmeðferð hafi dregist fram úr hófi. Ef kærandi hefði brugðist strax við athugasemdum byggingarfulltrúa væri málinu lokið. Það sé ekki ásetningur byggingarfulltrúa að koma í veg fyrir útgáfu byggingarleyfis, en hins vegar sé honum óheimilt að gefa út leyfi sem ekki samræmist gildandi lögum og reglum.

Viðbótarathugasemdir kæranda:  Kærandi leggur áherslu á að umsókn hans um byggingarleyfi verði tekin til afgreiðslu. Hann hafi misst hönnuð sinn, en á fyrri stigum málsins hafi byggingarfulltrúi ekki svarað því til, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, hvaða afleiðingar það hefði fyrir umsókn kæranda, fái hann annan hönnuð. Kærandi geri athugasemdir við að á seinni stigum krefjist byggingarfulltrúi þess að með umsókn fylgi útlitsmynd hússins. Byggingarfulltrúa sé í sjálfsvald sett að krefjast þess, en kærandi dragi í efa að slík krafa standist reglur um meðalhóf.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er meginreglan sú að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Á því er þó að finna tilteknar undantekningar og er í 4. mgr. 9. gr. laganna að finna eina slíka. Samkvæmt nefndri grein er heimilt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til æðra stjórnvalds og ber að beina slíkri kæru til þess stjórnvalds sem stjórnvaldsákvörðun í málinu verður kærð til. Kemur fram í 59. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda, eins og greinir í málavaxtalýsingu. Upphaflegri byggingarleyfisumsókn kæranda, dags. 29. ágúst 2017, var hafnað af byggingarfulltrúa 10. nóvember s.á. Kærandi óskaði í kjölfarið eftir endurupptöku málsins og var á það fallist. Samþykkti bæjarstjórn Kópavogsbæjar 26. júní 2018 tillögu kæranda um breytta notkun húsnæðis hans við Digranesveg 12. Málinu var í kjölfarið vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa og hefur byggingarleyfisumsókn kæranda verið þar til meðferðar frá 11. júlí 2018, eða á sjöunda mánuð.

Eins og að framan greinir hefur byggingarfulltrúi ítrekað upplýst kæranda hvaða gagna sé krafist til þess að unnt sé að samþykkja umsókn hans um byggingarleyfi. Þau atriði sem þar koma fram eru meðal þeirra atriða sem tiltaka þarf á aðaluppdrætti að mannvirki, en aðaluppdrættir ásamt byggingarlýsingu eru nauðsynleg fylgigögn með umsókn um byggingarleyfi, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki, sbr. einnig gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Á aðaluppdrætti skal ekki einungis sýna grunnflöt heldur einnig m.a. mismunandi sneiðar húss, sbr. gr. 4.3.1. í reglugerðinni. Skulu brunavarnir koma fram á aðaluppdráttum í samræmi við gr. 4.3.3. og skal þar greina frá atriðum eins og skiptingu mannvirkis í brunahólf, brunamótstöðu aðalburðarvirkja og flóttaleiðum, þ.m.t. björgunaropum, sbr. 2. mgr. nefnds reglugerðarákvæðis. Skal byggingarlýsing og taka til ákveðinna þátta, sbr. gr. 4.3.9. í reglugerðinni. Þá kemur skýrlega fram í 23. og 24. gr. mannvirkjalaga að hönnuðir sem fengið hafa löggildingu skuli gera aðal- og séruppdrætti og  hafa ábyrgðartryggingu og gæðastjórnunarkerfi. Er því ekki unnt að fallast á það með kæranda að kröfur byggingarfulltrúa eigi sér ekki laga- eða reglugerðarstoð, þótt e.t.v. hefði verið skýrara að vísa til þeirra laga- og reglugerðarákvæða sem við áttu.

Eðli máls samkvæmt geta stjórnvöld ekki borið ábyrgð á þeim töfum sem verða af völdum málsaðila, t.d. þar sem dregið er að afhenda umbeðin gögn og veita upplýsingar sem nauðsynlegar eru við úrlausn máls. Þrátt fyrir að meira en hálft ár sé liðið frá því að byggingarleyfisumsókn kæranda var vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa verður með hliðsjón af því sem að framan er rakið að telja að á því séu viðhlítandi skýringar. Þegar af þeirri ástæðu er ekki fallist á að meðferð byggingarleyfisumsóknar kæranda hjá byggingarfulltrúa hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Á hitt er að líta að kærandi fór fram á afgreiðslu erindis síns 12. nóvember 2018 og hefur hann einnig lagt áherslu á að svo verði gert í kæru sinni og frekari athugasemdum til úrskurðarnefndarinnar. Að þeim atvikum virtum er það mat úrskurðarnefndarinnar að rétt sé af byggingarfulltrúa að taka umsókn kæranda til efnislegrar afgreiðslu án frekari dráttar á grundvelli þeirra gagna sem byggingarfulltrúa hafa borist og kunna að berast, þótt það kunni að leiða til synjunar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúann í Kópavogi að taka til efnislegrar afgreiðslu, án ástæðulauss dráttar, umsókn kæranda, dags. 21. ágúst 2018, um byggingarleyfi til breyttrar notkunar Digranesvegar 12, Kópavogi.

28/2018 Lækjargata

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 12. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2018, kæra vegna ákvörðunar skipulagsráðs Akureyrar­kaupstaðar frá 24. janúar 2018 um að synja beiðni um breytta skráningu Lækjargötu 4, Akureyri, í atvinnuhúsnæði til sölu gistingar.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Matador ehf. ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarkaupstaðar frá 24. janúar 2018 um að synja umsókn kæranda um leyfi til breyttrar skráningar fasteignarinnar að Lækjargötu 4 á Akureyri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 14. mars 2018 og 30. janúar 2019.

Málavextir og rök: Húsið að Lækjargötu 4 er einbýlishús og stendur á deiliskipulögðu svæði, sem ætlað er undir íbúðarbyggð samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Fyrri eigandi fasteignarinnar var með rekstrarleyfi til sölu gistingar, sem gilti til ársins 2020. Við eigendaskipti kom í ljós að endurnýja þurfti rekstrarleyfið og sótti nýr eigandi um rekstrarleyfi hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra 11. desember 2017. Hinn 13. desember s.á. óskaði sýslumaður eftir umsögn byggingarfulltrúa um umsókn um rekstrarleyfi fyrir gistingu í húsinu að Lækjargötu 4, en samkvæmt reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald er hann einn umsagnaraðila við veitingu slíks leyfis. Hinn 9. janúar 2018 barst svar frá byggingarfulltrúanum og var þar bent á að kærandi þyrfti að sækja um breytta notkun fasteignarinnar til skipulagsráðs bæjarins svo eignin gæti flokkast sem atvinnuhúsnæði. Í kjölfarið sótti kærandi um leyfi til breyttrar skráningar fasteignarinnar að Lækjargötu 4 í atvinnuhúsnæði, svo veita mætti rekstrarleyfi til starfrækslu gististaðar þar.

Á fundi skipulagsráðs 24. janúar 2018 var bókað að ráðið synjaði erindinu þar sem atvinnuhúsnæði til sölu gistingar teldist ekki þjóna íbúum svæðisins og félli því ekki undir leyfða starfsemi á íbúðarsvæðum samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu skipulagsráðs með bréfi sviðsstjóra skipulagssviðs, dags. 26. s.m., og fylgdu leiðbeiningar um það hvernig óska mætti rökstuðnings vegna hennar, endurupptöku eða setja fram kæru. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi ráðsins, sem barst honum með bréfi sviðsstjóra þess, dags. 23. febrúar 2018. Var þar bent á kæruleið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og kærði kærandi synjun skipulagsráðs sama dag.

Kærandi bendir á að útleiga á einbýlishúsinu að Lækjargötu 4 falli að núgildandi aðalskipulagi Akureyrarbæjar. Í aðalskipulagi segi m.a. að á íbúðarsvæði skuli fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði. Þar megi þó einnig gera ráð fyrir starfsemi sem eðlilegt sé að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslunum, hreinlegum iðnaði, handiðnaðarfyrirtækjum, þjónustustarfsemi og leiksvæðum eða annarri starfsemi sem hvorki verði ætlað að muni valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega mikla umferð. Falli útleiga á einbýlishúsi hluta úr ári undir slíka starfsemi. Sönnunarbyrði um að svo sé ekki hvíli á Akureyrarbæ sem verði að sýna fram á að einhver þessara atriða eigi við um skammtímaútleigu einbýlishúss.

Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að ákvæði aðalskipulagsins hafi verið skýrð svo að önnur starfsemi sem hvorki verði ætlað að muni valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega mikla umferð, verði einnig að þjóna hagsmunum íbúanna, rétt eins og verslanir, hreinlegur iðnaður, handiðnaðarfyrirtæki, þjónustustarfsemi og leiksvæði, sem talin séu upp í skilmálunum. Það hafi því verið mat skipulagsráðs að gististaðir geti ekki talist til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, enda þjóni gististaðir fyrst og fremst ferðamönnum en ekki íbúum hverfa.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun skipulagsráðs Akureyrarkaupstaðar frá 24. janúar 2018 á umsókn kæranda um leyfi til breyttrar skráningar fasteignarinnar að Lækjargötu 4 á Akureyri.

Umsókn kæranda laut að byggingarleyfisskyldum framkvæmdum, en skv. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er m.a. óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða fengnu leyfi Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Sé mannvirki háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skal hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. laganna. Samkvæmt sömu grein skal umsókn um byggingarleyfi ásamt hönnunar–gögnum send hlutaðeigandi byggingarfulltrúa, sem fer yfir umsóknina, gengur úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna, og reglugerða settra samkvæmt þeim, og tilkynnir umsækjanda eftir atvikum um samþykkt byggingaráforma hans, sbr. 11. gr. nefndra laga.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum segir að um sé að ræða nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Lögð sé til sú grundvallarbreyting að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu til ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa, auk þess sem lagt er til að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar. Loks er tekið fram í athugasemdunum að sveitarstjórnir komi að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti. Í eðli sínu séu byggingarmál tæknileg mál og þess vegna sé eðlilegt að framkvæmd þeirra sé í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var umsókn kæranda synjað á fundi skipulagsráðs 24. janúar 2018. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá sveitarfélaginu var sviðsstjóri skipulagssviðs á þessum tíma bæði skipulags- og byggingarfulltrúi og sat sem skipulagsfulltrúi fundi skipulagsráðs, m.a. þann fund sem hér um ræðir. Hann kom hins vegar að öðru leyti ekki að ákvörðuninni þótt hann hafi tilkynnt kæranda um hana. Af hálfu Akureyrarbæjar er tekið fram að þrátt fyrir að byggingarfulltrúi fari með lögbundið vald til fullnaðarákvörðunar samkvæmt mannvirkjalögum geti hann alltaf nýtt sér ákvæði 3. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og framselt vald til fullnaðarafgreiðslu til viðkomandi fastanefndar, í þessu tilfelli skipulagsráðs. Akureyrarbær hafi því litið svo á að bókun skipulagsráðs 24. janúar 2018 hafi verið stjórnvaldsákvörðun og falið í sér lokaákvörðun.

Samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki og athugasemdum í lögskýringargögnum, sem að framan eru rakin, er endanleg ákvörðun um afdrif umsóknar um byggingarleyfi á hendi byggingarfulltrúa. Sveitarstjórn er þó heimilt, með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. laganna, að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Akureyrarbær hefur ekki sett sér slíka samþykkt og er ekki að finna í mannvirkjalögum heimild til handa byggingarfulltrúa til að framselja vald það sem honum er fengið samkvæmt þeim. Í 42. gr. sveitarstjórnarlaga er fjallað um framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála og skv. 3. mgr. nefndrar lagagreinar getur starfsmaður sem fengið hefur framselt vald til fullnaðarafgreiðslu mála úr hendi sveitarstjórnar skv. 2. mgr. ávallt óskað eftir að m.a. viðkomandi fastanefnd taki ákvörðun í máli. Í þessu sambandi skal á það bent að framangreind valdheimild byggingarfulltrúa er byggð á ákvæðum mannvirkjalaga og kemur 42. gr. sveitarstjórnarlaga því ekki til álita hér.

Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið er ljóst að ákvörðun skipulagsráðs gat ekki bundið enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur var hún liður í að upplýsa hvort hin umsótta breyting væri í samræmi við skipulag, sbr. 2. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga. Eftir sem áður þurfti að koma til sjálfstæð ákvörðun byggingarfulltrúa, en ákvörðun hans liggur ekki fyrir í málinu. Kærandi verður þó ekki látinn bera hallann af því og verður að svo komnu máli að líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Með hliðsjón af því að Akureyrarbær telur málinu lokið, auk þess sem tæpt ár er liðið frá kæru og enn liggur ekki fyrir afgreiðsla byggingarfulltrúa í málinu, verður lagt fyrir hann að taka erindi kæranda til efnislegrar meðferðar án frekari tafa í samræmi við 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga. Þegar ákvörðun byggingarfulltrúa vegna erindis kæranda liggur fyrir er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. sömu laga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

 Lagt er fyrir byggingarfulltrúa Akureyrarkaupstaðar að taka til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun fasteignarinnar að Lækjargötu 4 á Akureyri.