Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2019 Svínabú að Torfum

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 10. júlí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 49/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 28. mars 2019 um að samþykkja deiliskipulag svínabús að Torfum og á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að framkvæmdir vegna svínabúsins skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júní 2019, er móttekið var hjá nefndinni sama dag, kæra landeigendur að jörðunum Grund I og IIa og Finnastöðum, Eyjafjarðarsveit, ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 28. mars 2019 um að samþykkja deiliskipulag svínabús að Torfum og ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. s.m. um að framkvæmdir vegna svínabúsins skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinna kærðu ákvarðana. Jafnframt er farið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, séu þær hafnar eða yfirvofandi. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök: Hinn 28. mars 2019 samþykkti sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar deiliskipulag fyrir svínabú í landi Torfa skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Deiliskipulagið tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 22. maí s.á. Tiltekið er í auglýsingunni að skipulagssvæði sé 15 ha spilda sunnan Finnastaðarár sem skilgreint sé sem landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins. Skipulagið taki til byggingar tveggja gripahúsa, samtals u.þ.b. 5.700 m² að stærð, auk tilheyrandi fóðursílóa, hauggeymslu og starfsmannahúss. Ráðgert sé að á hverjum tíma verði fjölda grísa í eldi 2.400 og fjöldi gylta 400. Framkvæmdin falli undir lið 1.10 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og liggi fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 12. mars 2019, um að framkvæmdin skuli ekki sæta mati á umhverfisáhrifum.

Kærendur taka fram að krafa þeirra um stöðvun framkvæmda eigi við um báðar hinar kærðu ákvarðanir. Sé vísað til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og tekið fram að vegna hinna gríðarlegu miklu áhrifa sem fyrirséð sé að koma svínabúsins muni hafa í för með sér séu kærendur nauðbeygðir til að nýta sér þetta réttarúrræði. Málsmeðferð hjá Skipulagsstofnun og Eyjafjarðarsveit hafi verið verulega ábótavant og því fyrirséð að frekari rannsókn á málunum kunni mögulega að leiða í ljós þarfar aðgerðir eða forsendubrest fyrir núverandi deiliskipulagi og framkvæmdum.

Sveitarfélagið Eyjafjarðarsveit bendir á að því sé fjarri að starfsemi sé að hefjast í svínabúinu eða hún sé yfirvofandi. Byggingarframkvæmdir séu ekki hafnar, en umsækjandi hafi sótt um framkvæmdar­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­leyfi og sveitar­­stjórn heimilað útgáfu þess. Málsmeðferð hafi á öllum stigum málsins verið í samræmi við lög og reglur og vandaða stjórnsýsluhætti. Kærendur hafi enga hagsmuni af því að stöðva fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir, þar sem langur vegur sé frá því að gefið verði út framkvæmdaleyfi til bygginga til þess að gefið verði út starfsleyfi til reksturs svínabús með öllum þeim kröfum sem til þess verði gerðar og áhrifa af starfsemi þess.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Gildistaka deiliskipulags eða ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum fela ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þurfa til að koma sérstakar stjórnvaldsákvarðanir, m.a. um samþykkt byggingarleyfis, framkvæmdaleyfis eða starfsleyfis, sem geta sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010, 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í kærumáli vegna slíkra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 1230/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi ákvarðana sem veita ekki heimild til þess að framkvæmdir hefjist. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Rétt er að benda á að samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Eyjafjarðarsveit samþykkti sveitarstjórn á fundi sínum 20. júní 2019, með stoð í hinu kærða deiliskipulagi, að veita framkvæmdaleyfi vegna vegtengingar, borunar eftir neysluvatni og breytinga á árfarvegi Finnastaðaár. Önnur leyfi munu ekki hafa verið veitt.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli hinna kærðu ákvarðana er hafnað.

39/2019 Strandarvegur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 4. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2019, beiðni um að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úrskurði um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 á Seyðisfirði teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. maí 2019, er barst nefndinni 3. júní s.á., fór skipulags- og byggingarfulltrúi Seyðisfjarðar, f.h. bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar, fram á, með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, að úrskurðað verði um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 á Seyðisfirði teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi.

Gögn málsins bárust frá Seyðisfjarðarkaupstað 3. júní 2019.

Málsatvik: Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkti á fundi sínum 16. apríl 2019 að óska eftir ofangreindri málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar með vísan til 4. mgr. 9. gr. mannvirkja-laga nr. 160/2010, þar sem uppi væri verulegt álitamál um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála er hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Fram kemur í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Sú undantekning er gerð í 4. mgr. 9. gr. laganna að leiki vafi á því hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi eða falli undir 2. eða 3. mgr. ákvæðisins skuli leita niðurstöðu úrskurðarnefndar skv. 59. gr. laganna. Er í slíkum málum því tekin afstaða til þess hvort gerð tiltekins mannvirkis eða breyting á því sé háð byggingarleyfi.

Í máli þessu er ekki leitað niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um byggingarleyfisskyldu vegna gerðar tiltekins mannvirkis eða breytinga á því heldur er leitað álits nefndarinnar á því hvort samþykkt tiltekinnar reyndarteikningar af innra skipulagi Strandarvegar 21 feli í sér ákvörðun um byggingarleyfi. Slík lögspurning verður ekki borin undir úrskurðarnefndina á grundvelli 4. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga heldur verður einungis tekin afstaða til þess álitaefnis í kærumáli þar sem ágreiningur er uppi um gildi eða þýðingu áritunar svonefndrar reyndarteikningar.

Af framangreindum ástæðum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Beiðni bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar, um að úrskurðarnefndin úrskurði um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 á Seyðisfirði teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

108/2018 Krókatún

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 4. júlí kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2018, kæra á ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 12. júlí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grenja hafnarsvæðis vegna Krókatúns 22-24.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. ágúst 2018, er barst nefndinni 12. ágúst s.á., kæra eigendur, Krókatúni 18, og eigendur, Krókatúni 20 á Akranesi, þá ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grenja hafnar­svæðis vegna Krókatúns 22-24. Verður að skilja málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Með tölvupósti 22. ágúst 2018 gerðu kærendur kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 10. september s.á.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akraneskaupstað 30. ágúst 2018.

Málavextir: Deiliskipulag Grenja hafnarsvæðis er frá janúar 2013, en á skipulagssvæðinu er rekið iðnfyrirtæki á lóðinni nr. 22-24 við Krókatún. Á fundi skipulags- og umhverfisráðs Akraneskaupstaðar 16. apríl 2018 var fjallað um erindi Grenja ehf. um heimild til að reisa efnisgeymslu á fyrrgreindri lóð. Samþykkti ráðið að grenndarkynna tillögu að breytingu á deiliskipulagi varðandi útlit og umfang efnisskýlisins fyrir eigendum fasteigna við Krókatún 8, 12, 14, 15, 16, 18 og 20 sem óverulega breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 43. gr., sbr. 44. gr., skipulagslaga nr. 123/2010. Í breytingunni fólst að byggingarreitur á lóðinni yrði stækkaður til norðausturs um 5 m og þar yrði reist viðbygging við eldra hús. Húsagerð og skil­málar héldust óbreyttir að öðru leyti. Hámarksbyggingarmagn á lóðinni ykist um 321 m², eða úr 4.808 m² í 5.129 m², og nýtingarhlutfall færi úr 0,64 í 0,69.

Deiliskipulagstillagan var send út til kynningar með bréfi, dags. 25. apríl 2018, með athugasemdafresti til 30. maí s.á. Andmæli bárust gegn tillögunni á kynningartíma, m.a. frá kærendum. Tillagan var tekin fyrir á fundi skipulags- og umhverfisráðs 9. júlí 2018 og var umsögn sviðstjóra um athugasemdir, dags. 14. júní s.á., samþykkt og lagt til við bæjarráð að tillagan yrði samþykkt. Bæjarráð samþykkti skipulagstillöguna ásamt umsögn sviðsstjóra á fundi sínum 12. júlí 2018. Þeim aðilum sem gerðu athugasemdir við deiliskipulagstillöguna var tilkynnt um afgreiðsluna með bréfi, dags. 16. s.m. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. júlí 2018.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeir hafi gert alvarlegar athugasemdir við deiliskipulagstillöguna. Færð hafi verið rök fyrir því að framkvæmdin sé ekki minniháttar og hafi umtalsverð áhrif á eignir í nágrenninu og því svæði sem almenningi er ætlað á svæðinu. Eigendur fasteignar við Krókatún 20 bendi einnig á að framkvæmdin muni hafa mikil og neikvæð áhrif á fasteignina. Ljóst sé að skipulagsyfirvöld og eigendur fasteigna á áhrifasvæði framkvæmdarinnar séu ekki sammála um mat á umfangi og áhrifum hennar á umhverfið.

Bent sé á að heimiluð stækkun sé í fermetrum meiri en samanlagður grunnflötur fasteigna kærenda að Krókatúni 18 og 20. Bygging upp á 300 m² að grunnfleti og 6,5 m á hæð geti varla talist óveruleg í örfárra metra fjarlægð frá næstu húsum. Ljóst sé að vafi leiki á því hvort framkvæmdin teljist óveruleg og því hefði Akraneskaupstaður átt að draga grenndarkynninguna til baka og auglýsa breytt deiliskipulag þegar í stað. Kærendur geri einnig athugasemdir við að athugasemdum þeirra hafi verið svarað í bréfi frá sviðsstjóra umhverfissviðs bæjarins með rangfærslum eða án rökstuðnings. Til dæmis sé fullyrt í bréfi sviðsstjóra að 6,8 m fjarlægð sé frá fyrirhuguðum húsvegg að gangstíg sem ætlaður sé almenningi. Hið rétta sé að þessi fjarlægð sé sennilega um 3 m. Í svarbréfi sviðsstjóra sé einnig sagt að ólíklegt sé að framkvæmdin muni hafa áhrif á verðmæti fasteigna kærenda án þess þó að því fylgi rökstuðningur. Sé þetta ámælisvert af hálfu stjórnvaldsins. Það sé ljóst að deiliskipulagsbreytingin og þeirri framkvæmd sem henni tengist muni hafa veruleg og neikvæð áhrif á umhverfi framkvæmdarinnar. Deili­skipulagið sé jafnframt illa unnið enda ljóst að það hafi verið unnið á skömmum tíma.

Málsrök Akraneskaupstaðar: Bæjaryfirvöld hafni því að fara hefði þurft með deiliskipulags­tillöguna sem verulega breytingu á skipulagi. Breytingin sé óveruleg bæði ef litið sé til umfangs hennar og eins áhrifa. Umfang breytingarinnar felist í því að stækka byggingarreit á lóðinni Krókatúni 22-24 um 5 m til norðausturs, eða frá byggðinni og að sjó þar sem engin byggð sé. Byggingarmagn sé aukið um 321 m², í húsi sem sé í heild 5.129 m². Nýtingarhlutfall hækki úr 0,64 í 0,69. Grenndaráhrif stækkunarinnar séu mjög óveruleg enda snúi hún að langmestu leyti frá byggðinni. Vegna stöðu sinnar og legu byggðar á svæðinu hafi stækkunin heldur engin áhrif á skuggavarp. Einu grenndaráhrifin á byggðina og kærendur séu einhver sjónræn áhrif og mögulega óveruleg skerðing á útsýni fyrir einhverja hagsmunaaðila. Þá valdi breytingin hvorki aukinni umferð né auknu ónæði á nokkurn hátt, enda um að ræða efnisgeymslu sem byggð sé til hagræðingar fyrir núverandi starfsemi. Breytingin sé því að mati bæjaryfirvalda ekki í neinum skilningi veruleg. Um sé að ræða iðnaðarhúsnæði á hafnarsvæði, en á slíkum svæðum megi almennt gera ráð fyrir meiri breytingum á umhverfi en í fastmótaðri íbúðabyggð. Jafnframt sé á það bent að það hafi engin áhrif haft á hagsmuni kærenda hvort breytingin hafi verið grenndarkynnt sem óveruleg breyting eða hvort litið hefði verið á hana sem verulega og hún auglýst til kynningar. Kærendur hafi fengið kynningu á tillögunni og hafi komið að sjónarmiðum sínum og andmælum. Öllum athugasemdum hafi verið svarað á lögmætan og málefnalegan hátt og í umsögn sviðstjóra segi að „við hornið fjær Krókatúni er bilið frá fyrirhuguðum vegg efniskýlisins að línu fyrir göngustíg um 5,6 metrar.“ Greindar vegalengdir hafi verið mældar á staðnum.

Að öðru leyti sé vísað til svara bæjarins við athugasemdum, umfjöllunar um áhrif deiliskipulagsbreytingarinnar í greinargerð og upplýsinga til lóðarhafa um áhrif tillögunnar. Bæjaryfirvöld árétti það mat sitt að mjög ólíklegt verði að telja að breytingin leiði til rýrnunar á verðmæti íbúðarhúsa á svæðinu. Breytingin hafi líklega frekar jákvæð áhrif. Órökstuddri fullyrðingu um að deiliskipulagið sé illa unnið sé mótmælt með vísan til skipulagsins sjálfs og fyrirliggjandi gagna.

Niðurstaða: Eins og fram er komið ákvað umhverfis- og skipulagsráð Akraneskaupstaðar að nýta sér heimild sem er að finna í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til að viðhafa grenndarkynningu á umræddri skipulagstillögu í stað þeirrar almennu málsmeðferðar við breytingu á deiliskipulagi sem áskilin er í 1. mgr. ákvæðisins. Í fyrrgreindu undantekningar­ákvæði 2. mgr. 43. gr. kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Skuli við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.

Með hinni kærðu breytingu á umræddu skipulagi færist norðausturhluti byggingarreits lóðarinnar Krókatúns 22-24 til norðausturs um 5,0 m í átt frá byggð til sjávar. Hámarksbyggingar­­­­­­magn á lóðinni eykst úr 4.808 m² í 5.129 m², eða um 321 m², og nýtingarhlutfall fer úr 0,64 í 0,69 sem verður að telja óverulega aukningu. Um er að ræða heimild fyrir byggingu við eldra hús á hafnarsvæði en nýtingarhlutfallið 0,69 er ekki óalgengt á atvinnu­­lóðum. Viðbyggingin fylgir útlínum bakhliðar eldra húss og rís ekki hærra en það. Með tilliti til þessara aðstæðna og umfangs heimilaðrar breytingar og gildandi landnotkunar svæðisins verður talið að heimilt hafi verið að grenndarkynna hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Verður ekki séð að heimiluð bygging hafi grenndaráhrif á nágrenni sitt að marki að öðru leyti en því að hún mun að einhverju leyti hafa áhrif á útsýni frá fasteignum kærenda til norðvesturs vegna greindrar stækkunar hússins á lóðinni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki liggja fyrir þeir annmarkar á máls­meðferð hinnar kærðu ákvörðunar sem áhrif geta haft á gildi hennar verður kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 12. júlí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grenja hafnarsvæðis vegna Krókatúns 22-24.

88/2018 Háaleitishlað

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 4. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 88/2018, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar frá 23. mars 2018 um að samþykkja deiliskipulag Keflavíkurflugvallar austursvæðis – Háaleitishlaðs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir N1 hf., lóðarhafi lóðarinnar Háaleitishlaðs 6, þá ákvörðun skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar frá 23. mars 2018 að samþykkja deiliskipulag Keflavíkurflugvallar austursvæðis – Háaleitishlaðs. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar 27. júní 2018.

Málavextir: Hinn 5. febrúar 2015 gerðu kærandi og Isavia ohf. með sér lóðarleigusamning vegna lóðarinnar Háaleitishlaðs 6 á svæði A á Keflavíkurflugvelli og var lóðin leigð kæranda til fimm ára frá 1. janúar 2014. Í bréfi Isavia ohf. til kæranda, dags. 14. desember 2016, kom fram að ekki væru forsendur til að endurnýja eða framlengja lóðarleigusamninginn þar sem unnið væri að því að endurskipuleggja svæðið og óvissa væri um hvernig skipulagið yrði og hvaða starfsemi yrði leyfð þar. Var kærandi hvattur til að fylgjast með þróun skipulagsmála á svæðinu og huga að því í tíma að flytja starfsemi sína af lóðinni.

Á fundi skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar 18. ágúst 2017 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Háaleitishlaðs. Fól tillagan m.a. í sér að fjöldi mannvirkja myndi víkja af svæðinu, þ. á m. mannvirki á lóðinni Háaleitishlaði 6. Tillagan var auglýst til kynningar 4. september s.á. með fresti til athugasemda til 18. október s.á. Tillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 27. s.m. þar sem bókað var um svör við framkomnum athuga-semdum og tillagan samþykkt með breytingum vegna athugasemda og ábendinga. Með bréfi Skipulagsstofnunar til skipulagsnefndar, dags. 12. desember s.á., var gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda, m.a. þar sem ekki hefði verið fjallað um gildi þeirra bygginga sem heimilt væri að rífa. Á fundi skipulagsnefndar 23. mars 2018 var lagt fram erindi Minjastofnunar Íslands um varðveislugildi mannvirkja á svæðinu og deiliskipulagstillagan samþykkt. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 18. maí s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi haft væntingar um að samráð yrði haft við hann varðandi framtíðarskipan deiliskipulagssvæðisins í ljósi eignarhalds hans að mannvirki á lóðinni Háaleitishlaði 6 auk þess sem verkefnisstjóri Isavia ohf. hafi í tölvupósti til hans 23. desember 2013 tekið fram að samráð yrði haft við hann um skipulag og notkun lóðarinnar til frambúðar. Deiliskipulagstillagan, sem geri ráð fyrir að mannvirki að Háaleitishlaði 6 víki af svæðinu, hafi komið kæranda mjög í opna skjöldu en ekkert sérstakt samráð hafi verið haft við hann þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar fulltrúa Isavia ohf.

Kærandi átti sig ekki á nauðsyn þess að umrætt mannvirki víki af svæðinu en samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar 2013-2030 standi það innan svokallaðs flug-þjónustusvæðis, Háaleitishlaðs, sem ætlað sé til nota undir flugstöðvarbyggingar, flughlöð, flugskýli og þjónustu þeim tengdri auk vörugeymsla. Í deiliskipulagi svæðisins sé mannvirki kæranda ranglega tilgreint sem skrifstofuhúsnæði einvörðungu, en frá upphafi hafi það verið tengt þjónustu við flugrekstur auk þess sem meirihluti rýma þess sé skilgreint sem verkstæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Notkun mannvirkisins samræmist því fyllilega skilmálum aðalskipulags og engar forsendur séu til að það verði látið víkja umfram önnur mannvirki á svæðinu. Þá sé bent á að deiliskipulagið geri ráð fyrir að skrifstofuhúsnæði í eigu Isavia ohf. standi áfram innan deiliskipulagssvæðisins í næsta nágrenni við mannvirki kæranda, sem og ýmis önnur mannvirki sem eigi það öll sameiginlegt að vera í eigu Isavia ohf.

Skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar hafi ekki gert neina sérstaka rannsókn á núverandi notkun mannvirkis kæranda m.t.t. þess hvort hún samræmdist skilgreindri landnotkun svæðisins samkvæmt skipulagsáætlunum eða hvort raunveruleg nauðsyn stæði til þess að láta það víkja. Fullt tilefni hafi verið til að rannsaka það í ljósi yfirlýsts áhuga kæranda á gerð nýs lóðarleigusamnings og áframhaldandi notkun mannvirkisins í þágu flugrekstrar. Nefndin hafi því ekki gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt sé bent á að Isavia ohf. annist lóðaúthlutun og innheimtu lóðarleigugjalds, gatnagerðargjalds o.fl. á svæðinu samkvæmt 9. gr. laga nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. Nái deiliskipulagið fram að ganga muni félagið því standa vörð um eigin mannvirki á svæðinu en láti kæranda rýma mannvirki sitt með tilheyrandi kostnaði. Rík aðgæsluskylda hafi hvílt á nefndinni í ljósi stjórnarskrárvarinna eignarréttinda kæranda á svæðinu. Henni hafi því borið að gæta sérstaklega að því hvort starfsemi kæranda á skipulags-svæðinu væri möguleg eða gefa kæranda kost á að breyta nýtingu lóðarinnar og mannvirkisins til samræmis við skilmála deiliskipulagsins.

Þá hafi skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar verið vanhæf við töku hinnar kærðu ákvörðunar samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Í 8. gr. laga nr. 76/2008 sé fjallað um skipulagsmál og í 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. sé fjallað um hlutverk Isavia ohf. Þar segi að félagið kosti og annist gerð deili- og aðalskipulagstillagna fyrir flugvallarsvæðið og leggi fyrir skipulagsnefnd til afgreiðslu. Ákvæðið sé hér um bil samhljóða 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem sé undantekning frá meginreglu laganna um að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags. Í reynd sé algengt að einkaaðilar kosti gerð deiliskipulags í þéttbýli í samræmi við ákvæðið en deiliskipulagið fari í framhaldi í málsmeðferð á vegum sjálfstæðra sveitarstjórna þar sem skipulagsfulltrúar þeirra séu ráðgefandi um athugasemdir sem fram komi á auglýsingartíma skipulagsáætlunar. Athygli veki að gögn málsins beri með sér að viðkomandi skipulagsfulltrúi sé starfsmaður Isavia ohf. og að lögfræðingur félagsins hafi verið skipulagsnefndinni til ráðgjafar um viðbrögð við kæru þessa máls. Sérfræðiráðgjöf skipulagsnefndarinnar komi því fyrst og fremst frá starfsmönnum Isavia ohf. Félagið hafi mikilla hagsmuna að gæta á flugvallarsvæðinu og hagsmunir þess kunni að rekast á við hagsmuni annarra aðila, s.s. vegna eignaréttar að mannvirkjum og lóðaréttindum. Aðstöðu þessari megi líkja við það að skipulagsráð sveitarfélags óski eftir umsögn lögfræðings byggingarverktaka vegna kæru á deiliskipulagi sem byggingarverktaki hafi kostað og annast gerð á og sveitarfélagið samþykkt. Með hliðsjón af því hafi nefndina skort sérstakt hæfi til að taka ákvarðanir, sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, þar sem þessar aðstæður séu til þess fallnar að draga óhlutdrægni nefndarinnar í efa með réttu. Engu máli skipti þó svo að þessi tilhögun kunni að vera í samræmi við starfsreglur nefndarinnar eða samninga sem gerðir hafi verið við Isavia ohf. enda séu starfsreglur eða slíkir samningar réttlægri skipulagslögum og stjórnsýslulögum.

Athugasemd sé gerð við að lýsing skipulagsverkefnisins hafi verið auglýst á vefsíðu Isavia ohf. og sýni það hversu hlutdræg málsmeðferðin sé gagnvart félaginu. Eðlilegri málsmeðferð hefði verið að auglýsa breytinguna á heimasíðum þeirra þriggja sveitarfélaga sem séu á flugvallarsvæðinu. Þá hafi skipulagsnefndinni borið að hafa samráð við kæranda þar sem hann hafi átt sérstakra og einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta. Honum hafi ekki verið kunnugt um deiliskipulagsvinnuna enda hafi komið fram í bréfi Isavia ohf. til hans að samráð yrði haft við hann. Ekki skipti máli þótt félag sem sé að hluta í eigu kæranda hafi sent athugasemdir um deiliskipulagið á meðan það hafi verið í kynningu.

Málsrök skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar: Skipulagsnefndin vísar til þess að hið kærða deiliskipulag hafi verið í vinnslu frá því snemma árs 2016, að hluta til samhliða vinnu við aðalskipulag Keflavíkurflugvallar. Í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi verið tekin saman lýsing á skipulagsverkefninu og auglýst í Víkurfréttum 21. janúar 2016 með fresti til 2. febrúar s.á. til að koma á framfæri athugasemdum. Samtímis hafi lýsingin verið send ýmsum umsagnaraðilum og birt á heimasíðu Isavia ohf. Hinn 25. október s.á. hafi verið haldinn samráðsfundur þar sem farið hafi verið yfir drög að deiliskipulaginu. Í samræmi við 41. gr. skipulagslaga hafi svo deiliskipulagstillagan verið auglýst í Lögbirtingablaðinu og Fréttablaðinu 4. september 2017 og í Víkurfréttum 7. s.m., auglýst á heimasíðu Isavia ohf., verið til kynningar á skrifstofu Isavia ohf. og send út til helstu umsagnaraðila. Nokkrar athugasemdir hafi borist, m.a. frá Olíudreifingu ehf., sem sé að stórum hluta í eigu kæranda. Í framhaldi af því hafi smávægilegar breytingar og lagfæringar verið gerðar á deiliskipulaginu áður en það hafi verið sent Skipulagsstofnun, sbr. 42. gr. skipulagslaga. Skipulagsstofnun hafi gert tillögur til úrbóta og við því hafi verið brugðist, m.a. með því að gera húsakönnun. Deiliskipulagið hafi aftur verið sent til Skipulagsstofnunar sem hafi ekki gert athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt þess.

Stefna Isavia ohf. í skipulagsmálum á svæðinu hafi m.a. verið að gera ráð fyrir stórum byggingum, s.s. flugskýlum og öðrum byggingum, austan við Háaleitishlað. Samkvæmt deili-skipulaginu sé Háaleitishlað 6 víkjandi mannvirki en flest önnur mannvirki sem séu víkjandi séu í eigu Isavia ohf. Því verði ekki séð að ákvörðun um að láta umrædd mannvirki víkja beinist sérstaklega að kæranda.

Í bréfi Isavia ohf. til kæranda frá því í desember 2016 komi fram að óvissa sé um hvert skipulag svæðisins verði og kærandi hvattur til að flytja starfsemi sína af lóðinni. Því hafi niðurstaða deiliskipulagsins ekki átt að koma honum á óvart. Að því er varði rannsókn á núverandi notkun mannvirkis kæranda sé bent á að í húsakönnun vegna deiliskipulagsins sé getið um húsið eins og aðrar byggingar á svæðinu en almennt sé ekki skoðað nákvæmlega hvaða starfsemi hafi farið fram í húsum á skipulagssvæðinu á þeim tíma sem skipulagið var í vinnslu. Mest sé þó um vert að lóðarleigusamningur vegna Háaleitishlaðs 6 hafi runnið út 1. janúar 2019 og ekki hafi staðið til að eiga neitt við hús eða lóð fram að þeim tíma.

Niðurstaða: Deiliskipulag það sem um er deilt í þessu máli er á flugvallarsvæði Keflavíkur-flugvallar, svonefndu flugþjónustusvæði Háaleitishlaðs. Í deiliskipulaginu er m.a. gert ráð fyrir að tiltekin mannvirki á svæðinu víki, þ. á m. mannvirki kæranda á lóðinni Háaleitishlaði 6, og stendur ágreiningur málsins fyrst og fremst um þann þátt skipulagsins.

Í lögum nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. er mælt fyrir um heimild ráðherra til að stofna opinbert hlutafélag um rekstur Keflavíkurflugvallar en það félag heitir í dag Isavia ohf. Hlutverk félagsins er m.a. að annast uppbyggingu Keflavíkurflugvallar, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og samkvæmt 2. mgr. 8. gr. kostar félagið og annast gerð deiliskipulags á flugvallarsvæðinu en skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar sér um samþykki þess. Samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins setur ráðherra nefndinni starfsreglur en að öðru leyti eiga ákvæði skipulagslaga og reglugerða settra samkvæmt þeim við um störf nefndarinnar eftir því sem við getur átt. Ráðherra hefur sett starfsreglur fyrir skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar nr. 1086/2008, sem birtust í B-deild Stjórnartíðinda 28. nóvember 2008. Í 1. mgr. 7. gr. starfsreglna skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar kemur fram að Keflavíkurflugvöllur ohf., nú hluti Isavia ohf., leggi skipulagsnefndinni til fundaraðstöðu. Félagið skuli leggja nefndinni til aðstöðu til varðveislu gagna sem og almenna skrifstofuþjónustu. Þá hefur fulltrúi félagsins heimild til að sitja fundi skipulagsnefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt. Í 2. mgr. 7. gr. kemur fram að félagið haldi úti heimasíðu og útvegi skipulagsnefndinni rými á síðunni til kynningar á auglýstum skipulagstillögum og öðrum atriðum er varða starfsemi nefndarinnar. Af framangreindu má ráða að löggjafinn hefur mælt fyrir um tiltekna sérstöðu skipulagsmála á flugvallarsvæðinu sem verður ekki að fullu jafnað við skipulagsmál sveitarfélaga á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010. Er og ljóst að gert er ráð fyrir ákveðnu samstarfi á milli Isavia ohf. og skipulagsnefndarinnar við meðferð deiliskipulags á flugvallarsvæðinu. Verður því ekki fallist á að það fyrirkomulag að skipulagsfulltrúi Keflavíkurflugvallar sé jafnframt starfsmaður Isavia ohf. og að sú staðreynd að skipulagsnefnd hafi notið sérfræðiaðstoðar Isavia ohf. leiði til vanhæfis nefndarinnar við meðferð skipulagstillagna á flugvallarsvæðinu skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar að auki liggur fyrir að endanleg ákvörðun um að samþykkja deiliskipulag var tekin af skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar í samræmi við 2. mgr. 8. gr. laga nr. 76/2008.

Skipulagslýsing vegna hinnar umdeildu deiliskipulagstillögu var tekin saman, umsagna um hana leitað og hún kynnt almenningi í samræmi við 40. gr. skipulagslaga. Hún var auglýst til kynningar með almennum hætti og að lokinni kynningu var framkomnum athugasemdum svarað, sbr. 41. gr. laganna. Var Skipulagsstofnun tilkynnt um samþykkt deiliskipulagsins og gerði stofnunin athugasemd við birtingu þess í B-deild Stjórnartíðinda. Vegna þeirra athugasemda lét skipulagsnefndin gera húsakönnun áður en deiliskipulagið var samþykkt að nýju. Þá verður ekki talið að skipulagsnefndinni hafi borið að hafa sérstakt samráð við kæranda vegna deiliskipulags svæðisins en fyrir liggur að í bréfi Isavia ohf. til kæranda, dags. 14. desember 2016, var honum tilkynnt að ekki væru forsendur til að endurnýja eða framlengja lóðarleigusamning við hann. Verður því ekki fallist á að skipulagsnefndin hafi ekki gætt að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þegar ákvörðun var tekin um að skilgreina tiltekin mannvirki sem víkjandi. Skipulagsstofnun gerði síðan ekki athugasemd við samþykkt skipulagsins og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð hinnar kærðu skipulagsákvörðunar því lögum samkvæmt.

Við gerð deiliskipulags ber að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðalskipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum.

Hið kærða deiliskipulag er á skilgreindu flugvallarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar 2013-2030. Er gert ráð fyrir í aðalskipulaginu að á flugþjónustusvæði Háaleitishlaðs sé starfsemi sem þarfnist ekki nálægðar við flugstöð millilandaflugs. Þá segir að ekki liggi fyrir frekari áform um nýtingu Háaleitishlaðs en líklegt sé að það skýrist þegar uppbygging hefjist við flugskýli og við frekari þróun flugþjónustu og vöxt í farþegaflugi. Fram kemur í kafla um forsendur flugþjónustusvæða að vegna þess að þarfir flugvallar og flugrekstraraðila séu ekki allar fyrirsjáanlegar þurfi aðalskipulag að veita nægilegt svigrúm fyrir þróun svæðisins. Með hliðsjón af framangreindu svigrúmi verður það ekki talið ganga gegn stefnu aðalskipulags að kveða á um það í hinu kærða deiliskipulagi að tilteknar byggingar skuli vera víkjandi jafnvel þótt notkun þeirra samræmist skilgreindri landnotkun svæðisins enda má í deiliskipulagi skilgreina landnotkun þrengri en í aðalskipulagi, sbr. 2. mgr. gr. 5.3.2. og 3. mgr. gr. 6.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Sem fyrr greinir felur deiliskipulagið í sér að fjöldi bygginga á skipulagssvæðinu skuli víkja og er jafnframt að finna sérákvæði í skipulagsskilmálum um þær byggingar sem eiga að koma í staðinn. Er sú skipulagsákvörðun í samræmi við þann tilgang deiliskipulagsins að staðfesta byggðamynstur svæðisins. Lágu því lögmæt og efnisleg sjónarmið að baki hinu kærða deili-skipulagi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar frá 23. mars 2018 um að samþykkja deiliskipulag Keflavíkurflugvallar austursvæðis – Háaleitishlaðs.

56/2018 Gagnheiði

Með

Árið 2019, föstudaginn 28. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 56/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir ÞGÁ trésmíði slf., eigandi fasteignarinnar að Gagnheiði 19, Selfossi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 19. mars 2018 að leggja fyrir kæranda að fjarlægja tengibyggingu við hús hans að því marki sem hún nær inn fyrir sökkul húss að Gagnheiði 17. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 14. maí 2018.

Málsatvik og rök: Hinn 19. mars 2018 lagði byggingarfulltrúi Árborgar fyrir kæranda að fjarlægja tengibyggingu milli húss hans að Gagnheiði 19 og Gagnheiðar 17 að því marki sem tengibyggingin færi inn fyrir sökkul húss sem veitt hafði verið byggingarleyfi til að endurreisa  á lóðinni Gagnheiði 17.

Kærandi bendir á að útveggur sá sem hafi verið á húsinu að Gagnheiði 17, sem hafi orðið eldi að bráð, hafi verið gaflveggur á tengibyggingu kæranda. Hafa verði í huga að eignin með fastanúmerinu 229-0097 hafi verið skeytt við Gagnheiði 17. Gaflveggur tengigangs og Gagnheiðar 17 sé í eigu kæranda. Um sé að ræða eign sem kærandi hafi eignast með kaupsamningi og afsali á árunum 2005-2006. Þar komi efnislega fram að ytra byrði hússins, þak, gaflar, sökklar o.fl. séu sameign. Með hliðsjón af því sé ljóst að sökklar séu í sameign lóðarhafa Gagnheiðar 17 og kæranda.

Bæjaryfirvöld benda á að óumdeilt sé að tengibyggingin, sem hafi verið byggð án samráðs við eiganda Gagnheiðar 17, hafi verið byggð inn á byggingarreit Gagnheiðar 17 enda nái hún inn fyrir sökkul. Í ljósi þessa hafi eiganda tengibyggingar milli Gagnheiðar 17 og 19 verið gert að fjarlægja hana að því marki sem hún nái inn fyrir sökkul mannvirkis að Gagnheiði 17.

Niðurstaða: Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í veðbandsyfirliti frá Þjóðskrá Íslands hafa orðið eigendaskipti að umræddri tengibyggingu milli fasteignar kæranda að Gagnheiði 19 og Gagnheiðar 17. Í afsali, þinglýstu 29. mars 2019, lýsti kærandi Sveitarfélagið Árborg réttan og lögmætan eiganda tengibyggingarinnar sem stendur á lóðinni Gagnheiði 17. Upplýst hefur verið af hálfu Sveitarfélagsins Árborgar að nefnd tengibygging hafi þegar verið fjarlægð á vegum sveitarfélagsins og hafi því hinni kærða ákvörðun ekki verið fylgt eftir gagnvart kæranda. Muni sveitarfélagið ekki gera frekari kröfur um þvingunaraðgerðir vegna tengibyggingarinnar.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Lögvarðir hagsmunir kæranda í máli þessu voru tengdir réttarstöðu hans sem eiganda áðurnefndrar tengibyggingar og skyldu þeirri sem á hann var lögð sem eiganda að fjarlægja hluta hennar. Liggur nú fyrir að Sveitarfélagið Árborg varð eigandi tengibyggingarinnar samkvæmt áðurgreindu afsali og lét síðan fjarlægja hana.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir að kærandi eigi lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

17/2019 Austurkór

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 27. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2019, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. febrúar 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum við gerð sparkvallar, afgirtum að hluta, og stíga við Austurkór, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2019, er barst nefndinni 4. mars s.á, kærir eigandi Austurkórs 90, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. febrúar 2019 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð sparkvallar, afgirtum að hluta, og stíga við Austurkór, Kópavogi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með tölvupósti frá 31. maí 2019 fór kærandi fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 21. mars 2019.

Málavextir: Í apríl 2018 hóf Kópavogsbær framkvæmdir við boltavöll, göngustíg og bætta aðkomu að fráveitulögnum í næsta nágrenni við íbúð kæranda. Ekki var gefið út sérstakt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdunum skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 heldur var á því byggt að nægilegt væri að framkvæmdirnar ættu stoð í samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið. Kærandi í máli þessu kærði þær framkvæmdir til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði uppkveðnum 15. nóvember 2018 í kærumáli nr. 103/2018 vísaði málinu frá þar sem ekki lá fyrir kæranleg stjórnvalds­ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis. Í úrskurðinum var á því byggt að framkvæmd bæjaryfirvalda við boltavöllinn hefði verið framkvæmdaleyfisskyld en að framkvæmdir við göngustíg á svæðinu væru ekki háðar slíku leyfi.

Í kjölfar úrskurðar nefndarinnar var málið lagt fyrir skipulagsráð Kópavogsbæjar, sem samþykkti á fundi sínum 4. febrúar 2019 framkvæmdaleyfi fyrir gerð sparkvallar og stígum norðan og vestan við Austurkór 76-92. Sparkvöllurinn verði afgirtur að hluta með tveggja til þriggja metra hárri stálgirðingu. Var sú afgreiðsla staðfest af bæjarstjórn 12. s.m. og var hið kærða framkvæmdaleyfi gefið út 14. febrúar 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 103/2018 og ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Sérstaklega sé vísað til e-liðar gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sem mæli m.a. fyrir um að ekki sé heimilt að breyta hæð lóðar innan hennar þannig að það valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni, t.d. vegna útsýnis. Það sé augljóst að mannvirkið liggi of hátt í landinu. Leiði það til skertra lífsgæða nágranna vegna lakara útsýnis sem og þess að í framkvæmdaleyfinu sé kveðið á um að heimilt sé að reisa tveggja til þriggja metra háar girðingar.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Hið kærða framkvæmdaleyfi sé í fullu samræmi við skipulag svæðisins og málsmeðferð hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Jafnframt verði ekki séð að sparkvöllurinn muni skerða útsýni eða hafa önnur neikvæð grenndaráhrif.

Athugasemdir kæranda við umsögn Kópavogsbæjar: Kærandi vísar m.a. til þess að máls­meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar þar sem komist sé m.a. að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin sé veruleg og þar af leiðandi leyfisskyld. Einnig sé dregið í efa að ákvæði byggingarreglugerðar hafi verið uppfyllt en ekki verði séð að á neinu stigi málsins hafi byggingarfulltrúi átt aðkomu að málinu.

Sú fullyrðing að sparkvöllurinn skerði ekki útsýni eða hafi önnur neikvæð grenndaráhrif sé ósönnuð. Ekki hafi verið gerð tilraun af hálfu skipulagsyfirvalda til að ræða við þá íbúa sem málið snerti, heimsækja þá eða kynna íbúum málið á vettvangi áður en framkvæmdir hæfust. Vettvangsskoðun úrskurðarnefndarinnar og niðurstaða hennar um að framkvæmdin sé veruleg og hafi verið háð framkvæmdaleyfi staðfesti að framkvæmdin sé viðamikil og að þörf hafi verið á frekari skoðun málsins.

Svo virðist sem að við framkvæmdina hafi ekki verið fylgt  ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012, en í reglugerðinni og lögum sé m.a. mælt fyrir um nágrannarétt, grenndarkynningar og skerðingu útsýnis. Þá sé hvergi að finna í fundargerðum skipulagsnefndar Kópavogsbæjar umfjöllun um úrskurð úrskurðarnefndarinnar, sem hljóti að vera mjög undarleg stjórnsýsla. Þá megi spyrja hvernig Kópavogsbær hefði farið með þetta mál ef óskyldur aðili hefði sótt um framkvæmda- og byggingarleyfi fyrir verkefnið.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Að lokum kemur það fram í 5. mgr. 13. gr. að þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu, sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag varðandi landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar.

Með hinu kærða framkvæmdaleyfi var heimiluð gerð 30×15 m sparkvallar, sem verður að hluta girtur af með tveggja til þriggja  metra hárri stálgirðingu og afmarkaður af stíg norðan og vestan við Austurkór 76 til 92 í Rjúpnahæð. Jafnframt var heimilað að leggja göngustíg að sparkvellinum milli lóðanna við Austurkór 82, 84, 86, 88 og 90.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Rjúpnahæð – Vesturhluta er gert ráð fyrir boltavelli norðan lóðanna Austurkórs 88-92. Deiliskipulagið var upphaflega samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs 13. mars 2007 og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. maí s.á. Með deiliskipulagsbreytingu, sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 24. maí 2011 og öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní s.á., var gerð breyting á deiliskipulaginu. Er þar heimilað að boltavöllurinn verði færður fjær lóðunum við Austurkór 88-92 og að hluta til út fyrir mörk þess svæðis sem skipulagið nær til. Aðrar upplýsingar um boltavöllinn en um staðsetningu hans er ekki að finna í skipulagi. Á deiliskipulagsuppdrætti er göngustígur vestan lóðanna Austurkórs 76-86, en ekki er þar gert ráð fyrir lagnastíg eða öðrum stíg norðan lóðanna Austurkórs 88-104. Heimilaður boltavöllur liggur innan þess svæðis sem gildandi deiliskipulag tekur til og ætlað er undir boltavöll. Áður en hinar umdeildu framkvæmdir hófust var á svæðinu slóði að fráveitulögnum og hefur hann nú verið breikkaður og hækkaður og tengist hann nú áðurnefndum göngustíg, sem gert er ráð fyrir á deiliskipulagsuppdrætti og myndar aðkomuleið að boltavellinum.

Verður að telja með hliðsjón af framangreindu að heimilaðar framkvæmdir við stígagerð og boltavöll eigi stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis og bar því ekki nauðsyn til að grenndarkynna þær framkvæmdir, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga.

Sé tekið mið af fyrirhugaðri staðsetningu boltavallarins gagnvart íbúðar kæranda verður ráðið að grenndaráhrif með tilliti til útsýnis verði þar ekki veruleg. Ljóst er að vellinum fylgir umferð gangandi fólks um svæðið, auk þess sem honum munu fylgja allnokkur áhrif á næsta umhverfi, svo sem með tilliti til hljóðvistar vegna boltaleikja, en líta verður til þess að boltavöllur hefur verið ráðgerður á greindum stað í deiliskipulagi um árabil með þeim grenndaráhrifum sem slíkum velli fylgir.

Þær framkvæmdir sem heimilaðar eru með umræddu framkvæmdaleyfi fela m.a. í sér að boltavöllurinn verður girtur af að hluta með tveggja til þriggja metra hárri stálgirðingu. Er slík girðing háð byggingarleyfi sem byggingarfulltrúi veitir skv. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og gr. 2.3.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, enda fellur slík girðing ekki undir undanþáguákvæði f-liðar 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Er hið kærða framkvæmda­leyfi því ekki viðhlítandi stoð fyrir gerð áðurnefndrar girðingar.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað að öðru leyti en því er varðar heimild fyrir áðurnefndri girðingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. febrúar 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum við gerð sparkvallar og stíga í Kópavogi, að öðru leyti en því er varðar leyfi til að reisa tveggja til þriggja metra háa stálgirðingu við völlinn.

82/2018 Lónabraut

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 27. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 82/2018, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps frá 30. apríl 2018 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir strandblakvelli á lóðinni Lónabraut 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 11. júní 2018, kæra eigandi, Lónabraut 7, eigendur, Hafnarbyggð 25, eigendur, Hafnarbyggð 23, og eigendur, Hafnarbyggð 29, Vopnafirði,  þá ákvörðun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps frá 30. apríl 2018 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð strandblakvallar á lóðinni Lónabraut 4. Verður að skilja málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vopnafjarðarhreppi 26. júní 2018.

Málavextir: Skipulags- og umhverfisnefnd Vopnafjarðar samþykkti í ágúst 2015 umsókn Vopnafjarðarhrepps um heimild til að gera strandblakvöll á lóðinni Lónabraut 4. Framkvæmdin var grenndarkynnt fyrir íbúum í næsta nágrenni við völlinn í júní 2016. Í ágúst s.á. samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd að ljúka við framkvæmdir á núverandi stað og var afgreiðsla nefndarinnar samþykkt á fundi hreppsnefndar 1. september s.á. Ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 13. s.m., sem kvað upp úrskurð 20. desember 2016 í kærumáli nr. 125/2016, þar sem fyrrnefnd ákvörðun var felld úr gildi. Í niðurstöðu úrskurðarins segir að hvorki hafi verið fullnægt kröfum 3. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, um að sá sem óski framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum, né kröfum 3. tl. 2. mgr. og 3. mgr. 7. gr. nefndrar reglugerðar um nauðsynleg fylgigögn með umsókn um framkvæmdaleyfi. Samkvæmt því hafi undirbúningi hins kærða leyfis verið verulega áfátt og skilyrði því ekki til staðar fyrir veitingu þess.

Á fundi sveitarstjórnar 23. mars 2017 var fjallað um fyrirhugaðan strandblakvöll og samþykkt að vinna áfram í málinu samkvæmt leiðbeiningum byggingarfulltrúa. Hinn 29. s.m. óskaði sveitarstjóri eftir umsögn skipulags- og umhverfisnefndar vegna framkvæmdarinnar. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 5. febrúar 2018 var samþykkt að grenndarkynna framkvæmdina og fór hún í kynningu 20. s.m. Á fundi nefndarinnar 9. apríl s.á. var bókað um svör við athugasemdum er borist höfðu á kynningartíma og samþykkt að leggja til við sveitarstjórn að gefa út framkvæmdaleyfi. Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 30. apríl 2018 fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar frá 9. s.m. og að gefið yrði út framkvæmdaleyfi fyrir strandblakvelli á lóðinni Lónabraut 4. Hinn 7. maí s.á. tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi kærendum um ákvörðun sveitarstjórnar og gaf hann út framkvæmdaleyfi 28. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að grenndarkynning framkvæmdarinnar hafi verið ólögmæt. Þannig hafi hún verið send til of fárra og ekki innan einhverrar tiltekinnar fjarlægðar frá vellinum. Þannig hafi kynningin verið send íbúum öðrum megin við tiltekna götu en ekki hinum megin og ekki jafn langt í allar áttir. Þetta sé ekki samkvæmt reglum að mati skipulagsfræðings sem þau hafi leitað til. Kærendur hafi áhyggjur af sandfoki og eignatjóni vegna bolta og leikmanna sem komi til með að nálgast bolta sem fari út af vellinum og inn í garða. Nú þegar hafi hlotist tjón af boltum sem fari út fyrir girta lóð sparkvallar sem sé við fyrirhugaðan blakvöll.

Málsrök Vopnafjarðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að skipulags- og umhverfisnefnd hafi lagt mat á það hverjir gætu hugsanlega orðið fyrir grenndaráhrifum og hafi allir þeir fasteignaeigendur fengið kynninguna senda. Nefndin hafi ekki talið ástæðu til að senda fleiri aðilum kynninguna enda hafi ekki komið fram athugasemd frá aðila sem ekki hafi fengið send gögn um grenndarkynninguna varðandi það að þeir teldu að þeir ættu hagsmuna að gæta eða óskuðu eftir að koma á framfæri athugasemdum.

Varðandi áhrif framkvæmdarinnar sé vísað til samþykktar hreppsnefndar um mótvægisaðgerðir enda hafi það verið tekið með sem hluti af framkvæmdaleyfinu við útgáfu þess.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um framkvæmdaleyfi fyrir gerð strandblakvallar á lóðinni Lónabraut 4, sem samþykkt var af sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 30. apríl 2018.

Í 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Í 3. mgr. sömu greinar kemur fram að sá sem óskar framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skuli kveða á um í reglugerð. Þá skal sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir við útgáfu framkvæmdaleyfis, sbr. 4. mgr. 13. gr laganna.  Að lokum kemur fram í 5. mgr. 13. gr. að þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu, sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag varðandi landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Meðal gagna málsins er grenndarkynning strandblakvallar frá arkitektastofu frá því í janúar 2018. Er þar að finna lýsingu á framkvæmdinni, afstöðumynd, hnitsetta í mælikvarðanum 1:500, umfjöllun um skilgreiningu svæðisins í Aðalskipulagi Vopnafjarðar 2006-2026 ásamt yfirlitsmynd af svæðinu úr þéttbýlisuppdrætti aðalskipulagsins. Fram kemur í útgefnu framkvæmdarleyfi að meðal framlagðra gagna sé umsókn um framkvæmdaleyfi frá 29. mars 2017. Nefnt gagn er bréf sveitarstjóra til skipulags- og umhverfisnefndar þar sem óskað er eftir umsögn nefndarinnar vegna veitingar framkvæmdaleyfisins. Verður því ekki ráðið hvaða gagn lá til grundvallar sem umsókn fyrir umþrættu framkvæmdaleyfi. Þykir annmarki þessi þó ekki vera þess eðlis að leiða beri til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar enda lágu fyrir gögn um umfang og eðli framkvæmdarinnar.

Á fundi sveitarstjórnar 30. apríl 2018, þar sem samþykkt var að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir strandblakvellinum, var ekki vikið að því hvort framkvæmdin væri í samræmi við skipulagsáætlanir. Í grenndarkynningu þeirri sem lá til grundvallar samþykkt sveitarstjórnar er rakið að lóðin sé á svæði sem skilgreint sé sem „Svæði fyrir þjónustustofnanir“ og að nálægð vallarins við núverandi mennta- og þjónustustofnanir auki notagildi hans. Þá segir í útgefnu framkvæmdaleyfi að framkvæmdir skuli að öllu leyti vera í samræmi við Aðalskipulag Vopnafjarðarhrepps 2006-2026. Þrátt fyrir að sveitarstjórn hafi ekki með berum orðum tekið afstöðu til samræmis framkvæmdarinnar við skipulagsáætlanir verður að líta svo á, eins og atvikum máls þessa er háttað, að hún hafi í reynd tekið afstöðu til þess þegar hún samþykkti útgáfu framkvæmdaleyfisins.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga getur sveitarstjórn eða sá aðili sem hefur heimild til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi framkvæmdaleyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Fjallað er um framkvæmd grenndarkynningar í 2. mgr. 44. gr. Þar kemur fram að grenndarkynning felist í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta leyfisumsókn og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar. Fjallað er um hagsmunaaðila við grenndarkynningu í gr. 5.9.3. í skipulagsreglugerð nr. 30/2013. Þar segir að skipulagsnefnd skuli leggja mat á hverjir geti talist hagsmunaaðilar. Hvorki í skipulagslögum né skipulagsreglugerð er gerð sú krafa að grenndarkynning nái jafnlangt í allar áttir. Teikningar af fyrirhuguðum strandblakvelli og umsókn framkvæmdaleyfis voru sendar eigendum 24 lóða í nágrenni við Lónabraut 4. Miðað við fyrirliggjandi gögn og með hliðsjón af eðli umþrættrar framkvæmdar virðist sem öllum þeim sem hagsmuna áttu að gæta hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um framkvæmdina.

Á fundi sveitarstjórnar 30. apríl 2018 var bókað um mótvægisaðgerðir til að koma til móts við sjónarmið nágranna er gerðu athugasemdir við framkvæmdina. Mótvægisaðgerðir þessar eru hluti framkvæmdaleyfisins og eru þríþættar. Í fyrsta lagi að sandur sem notaður verði í völlinn sé sambærilegur sandi sem notaður sé í slíka velli um allt land og sé samþykktur af Blaksambandi Íslands. Sá sandur skuli hafa lítið fokgildi. Í öðru lagi að breitt verði yfir völlinn við ákveðnar aðstæður og sé það gert til að hindra enn frekar að sandur berist frá vellinum. Í þriðja lagi verði leitast við, eins og hægt sé, að mæta sjónarmiðum íbúa varðandi skerðingu á útsýni við frekari hönnunarvinnu. Þá verði einnig haft samráð við nágranna um lokafrágang framkvæmdar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinu kærða framkvæmdaleyfi sem leiða eiga til ógildingar þess og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps frá 30. apríl 2018 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð strandblakvallar á lóðinni Lónabraut 4.

77/2018 Nesjavellir

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 27. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2018, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. apríl 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístunda­lóða við Þingvallavatn í landi Nesjavalla.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. maí 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra lóðarhafi lóðarinnar Nesjavalla 6, og lóðarhafi lóðarinnar Nesjavalla 7, Grímsnes- og Grafningshreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. apríl 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundalóða við Þingvallavatn í landi Nesjavalla. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 5. júlí 2018.

Málavextir: Deiliskipulag frístundalóða við Þingvallavatn í landi Nesjavalla er frá árinu 1999 og samkvæmt greinargerð þess eru tíu leigulóðir á svæðinu og fól deiliskipulagið í sér heimild til að byggja eitt sumarhús innan byggingarreits á lóð nr. 10.

Á fundi skipulagsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps 10. nóvember 2016 var lögð fram tillaga um breytingu á nefndu deiliskipulagi. Fól breytingin í sér færslu á lóðamörkum og leiðréttingu á uppgefnu flatarmáli lóða. Afgreiðslu málsins var frestað en fært var til bókar að skýra þyrfti betur hvort og þá með hvaða hætti standa mætti að endurnýjun húsa á svæðinu m.t.t. fjarlægðar frá Þingvallavatni. Gerð var breyting á tillögunni 11. október 2017 þar sem bætt var við skilmálum um fráveitu og að ekki væri gert ráð fyrir nýbyggingum eða stækkun húsa á skipulagssvæðinu. Einnig var tekið fram að forsenda deiliskipulagsbreytingarinnar væri sú að stefnt væri að því að hætta nýtingu lands innan skipulagssvæðisins fyrir frístundabyggð. Endurskoðuð tillaga var samþykkt á fundi nefndarinnar 12. október 2017 og var að mati nefndarinnar um að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Hinn 20. s.m. var tillagan ásamt teikningum send lóðarhöfum innan deiliskipulagsvæðisins til grenndarkynningar. Að lokinni grenndarkynningu var tillagan tekin fyrir á fundi skipulags­nefndar 7. desember s.á., en afgreiðslu málsins frestað þar til viðbrögð landeiganda lægju fyrir. Í umsögn landeiganda frá 9. mars 2018 sagði m.a. að stefna hans væri að frístundabyggð viki vegna vatnsverndarhagsmuna og útivistar almennings. Tillagan var svo samþykkt á fundi skipulagsnefndar 21. s.m. og skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum sem borist höfðu með vísan í umsögn landeiganda. Samþykkti sveitarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 4. apríl s.á. og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 27. apríl 2018.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að í Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 sé skipulagssvæðið á skilgreindu svæði fyrir frístundabyggð. Þar sé hvergi vikið að því að hætta skuli nýtingu lands innan svæðisins fyrir frístundabyggð eða að frístundabyggð á svæðinu skuli víkja vegna vatnsverndarhagsmuna og útivistar almennings. Sveitarfélög séu við skipulagsgerð bundin af fyrirmælum 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um rétthæð og innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana. Deiliskipulag skuli vera í samræmi við stefnu aðalskipulags, sbr. einnig 6. mgr. 32. gr. laganna. Forsenda deiliskipulagsbreytingarinnar finni sér engan hljómgrunn í fyrirliggjandi aðalskipulagi og sé beinlínis í ósamræmi við þá stefnu sem þar sé mörkuð varðandi frístundabyggð á Nesjavöllum. Í forsendu deiliskipulagsins felist ákvörðun um framtíðarnotkun lands á skipulagssvæðinu eða a.m.k. bindandi ráðagerð um framtíðarnotkun þess. Heimild til að skilgreina landnotkun eða takmarkanir á henni þrengra í deiliskipulagi en gert sé í aðalskipulagi feli ekki í sér heimildir til að marka stefnu um landnotkun í deiliskipulagi sem sé í ósamræmi við gildandi aðalskipulag.

Þá sé óeðlilegt og ólögmætt að deiliskipulagsbreyting sé samþykkt af sveitarstjórn á grundvelli „stefnu“ landeiganda. Framangreindir annmarkar séu efnislegir og alvarlegir og eigi með réttu að leiða til ógildingar ákvörðunarinnar nema sérstaklega sé sýnt fram á önnur atriði sem réttlæti að ógilda hana ekki. Engin slík réttlætingarsjónarmið séu fyrir hendi.

Hin umdeilda skipulagsbreyting hafi ekki verið óveruleg í skilningi 2. mgr. 43. skipulagslaga. Samkvæmt ákvæðinu skuli við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist veruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé að finna sambærilegt ákvæði en þar sé einnig tekið fram að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða. Í fundargerð skipulagsnefndar frá 12. október 2017 komi fram að ekki væri heimilt að fara í neinar aðrar framkvæmdir en hefðbundið viðhald á þeim húsum sem fyrir væru á lóðunum. Framangreind afstaða virðist hafa ráðið því mati nefndarinnar að breytingin teldist óveruleg. Þannig hafi skipulagsyfirvöld staðið í þeirri trú að engar nýtingarheimildir hafi verið á lóðunum. Í leigusamningi frá 1965, sem enn sé í gildi, sé m.a. mælt fyrir um að heimilt sé að byggja geymsluhús við hvert sumarhús og að endurbyggja sumarbústaði. Þá liggi fyrir að umsókn annars kærenda þessa máls um viðbyggingu við sumarhús á lóð nr. 6 hafi verið samþykkt af byggingarnefnd Árnessýslu árið 2008. Að því virtu liggi fyrir að hin umdeilda skipulags­breyting skerði nýtingarheimildir á lóðunum og því sé um fordæmisgefandi breytingu að ræða með hliðsjón af umsögn landeiganda sem sveitarfélagið hafi gert að sinni. Í umsögninni sé tekið fram að frístundabyggð skuli vera víkjandi vegna útivistar almennings og virðist þarna vera vísað til stefnu aðalskipulagsins um að tryggja verði frjálsa umferð fótgangandi á vatnsbakka. Þær röksemdir kunni að eiga við um allar frístundalóðir sem liggi að Þingvallavatni. Það sé meginregla skipulagsréttar að túlka skuli allar breytingar á skipulagsáætlunum þröngt. Af því leiði að sé vafi fyrir hendi um hvort deiliskipulagsbreyting sé óveruleg beri að líta svo á að hún sé veruleg.

Í fyrrnefndum leigusamningi sé tekið fram að heimilt sé að endurbyggja sumarbústaði. Fjárhagsleg verðmæti hafi verið falin í þeim heimildum og óeðlilegt sé að sveitarfélagið kunni að hafa bakað sér bótaskyldu í málinu vegna brota á einkaréttarlegum samningi. Það skjóti  skökku við að landeigandi sé að kalla eftir deiliskipulagsbreytingum sem séu í andstöðu við skuldbindingar samkvæmt leigusamningi. Einnig sé óeðlilegt að heimildir fasteignareigenda á svæðinu séu takmarkaðir á þeim grundvelli að frístundabyggð skuli víkja þegar fyrir liggi að leigusamningur renni út árið 2064.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er því hafnað að í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi falist breytt landnotkun. Samkvæmt aðalskipulagi sé skipulagssvæðið á skilgreindu svæði fyrir frístundabyggð, F2, auk þess sem hverfisverndar­svæði, H8, nái inn á skipulagssvæðið að hluta til. Með deiliskipulagsbreytingunni hafi mörk tiltekinna lóða verið færð og breyting gerð á skráðri stærð þriggja lóða. Þá hafi verið áréttað að ekki væri gert ráð fyrir nýbyggingum eða stækkun húsa á skipulagssvæðinu, en í því felist ekki breyting á gildandi deiliskipulagi enda hafi engir afmarkaðir byggingarreitir verið til staðar. Hvergi sé kveðið á um að hætta skuli nýtingu lands innan svæðisins fyrir frístundabyggð þó fram komi að stefnt sé að því síðar meir. Skipulagsbreytingin breyti því engu um landnotkun á svæðinu. Þá sé sveitarfélaginu heimilt lögum samkvæmt að skilgreina landnotkun og takmarkanir á henni þrengra í deiliskipulagi en gert sé í aðalskipulagi, t.d. með því að kveða á um mismunandi notkun og starfsemi á einstökum lóðum, lóðarhlutum eða byggingarhlutum, sbr. 2. mgr. gr. 5.3.2. og 3. mgr. gr. 6.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Landnotkun aðalskipulags gildi ekki fortakslaust á öllum lóðum innan deiliskipulagssvæðisins enda væru þá þýðingarlaus framangreind ákvæði um nánari útfærslu landnotkunar aðalskipulags við gerð deiliskipulags, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 106/2016.

Hin umdeilda breyting feli einvörðungu í sér minni háttar breytingu á lóðamörkum og skráðri stærð tiltekinna lóða á svæðinu. Vandséð sé að einhver grenndaráhrif verði af umræddri breytingu. Breytingin teljist því óveruleg í skilningi skipulagslaga, enda sé með breytingunni nánast að engu marki vikið frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti eða formi viðkomandi svæðis. Hafi því sveitarfélaginu verið heimilt að fara með umdeilda breytingu samkvæmt málsmeðferð sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Hvað varði málsástæður sem byggi á leigusamningi þá sé um einkaréttarlegan samning að ræða sem bindi ekki hendur sveitarfélagsins við skipulagsgerð, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Efni samningsins hafi því engin áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Ágreining um þann meinta rétt sem kærendur telji sig hafa eignast á grundvelli samningsins verði þeir að bera undir hina almennu dómstóla, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingar­mála í málum nr. 5/1998, 69/2003 og 56/2007. Á því hafi verið byggt í íslenskum rétti að almennar og bindandi ákvarðanir um landnotkun sem birtist í skipulagsáætlunum falli í flokk almennra takmarkana á eignarráðum sem fasteignareigandi, sé ekki annað ákveðið t.d. með lögum, þurfi að þola bótalaust. Skipulagslög geri beinlínis ráð fyrir því að skipulag eða breyting á skipulagi geti leitt til verulegrar skerðingar á verðmæti fasteignar, umfram það sem eigi við um eignir í næsta nágrenni, án þess að ógildingu varði, sbr. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. apríl 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundalóða við Þingvallavatn í landi Nesjavalla.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitar­stjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. skipulagslaga, en þess ber þó að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. áðurnefndra laga, og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með breytingunni. Við gerð deiliskipulags skal auk þess byggt á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi svæði eða reit, sbr. 3. mgr. 37. gr. laganna.

Samkvæmt Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 er hið umdeilda deiliskipulagssvæði að mestu leyti á skilgreindu svæði fyrir frístundabyggð, F2, en einnig á skilgreindu hverfisverndarsvæði, H8. Í skilmálum umræddrar deiliskipulagsbreytingar kemur fram að forsenda breytingarinnar sé sú að stefnt sé að því að hætta nýtingu lands innan skipulagssvæðisins fyrir frístundabyggð. Sú stefnuyfirlýsing er ekki bindandi hluti skipulags­breytingarinnar enda er þar áfram gert ráð fyrir frístundabyggð á skipulagssvæðinu. Gengur hin umdeilda deiliskipulagsbreyting því ekki gegn fyrrgreindri stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana því fullnægt. Af umsögn landeiganda verður ráðið að markmið breytingar­innar hafi komið til af vatnsverndarhagsmunum sem og hagsmunum almennings til útivistar á svæðinu. Verður því að telja að efnisleg og lögmæt markmið hafi búið að baki umræddri breytingu á deiliskipulagi.

Málsmeðferð hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar fór eftir 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en þar er tekið fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndar­­­kynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. á að taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar er jafnframt tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni.

Kærendur telja að deiliskipulagsbreytingin feli í sér skerðingu á nýtingarheimildum auk þess sem hún sé fordæmisgefandi fyrir aðrar frístundalóðir í nágrenni Þingvallavatns með hliðsjón af umsögn landeiganda. Í hinni kærðu skipulagsbreytingu felst færsla á lóðamörkum og breyting á stærðum lóða, en jafnframt er kveðið á um að ekki sé gert ráð fyrir nýbyggingum eða stækkun húsa á skipulagssvæðinu. Ekki er tiltekið í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga að við mat á því hvort um óverulega breytingu sé að ræða skuli taka tillit til þess hvort vikið sé frá nýtingarheimildum á svæðinu. Þá verður ekki séð að þær breytingar sem felast í hinni kærðu ákvörðun feli í sér fordæmisgefandi breytingar fyrir aðrar frístundalóðir í nágrenni Þingvalla­vatns, en umsögn landeiganda á einu skipulagssvæði getur ekki sett skipulagsvaldi sveitar­félags á öðru skipulagssvæði skorður. Einnig er ekki að sjá að breytingin víki að nokkru marki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti eða formi svæðisins. Var því heimilt að grenndarkynna skipulagstillöguna í samræmi við ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og var málsmeðferð hennar lögum samkvæmt.

Deiliskipulag eða breyting á því felur hvorki í sér ráðstöfun beinna eða óbeinna eignarréttinda né breytir gildandi leigusamningum um sumarhúsalóðir á umræddu skipulagssvæði og verða ágreiningsefni um slík réttindi ekki til lykta leidd fyrir úrskurðarnefndinni þar sem það er utan valdsviðs hennar að skera úr slíkum ágreiningi. Rétt þykir þó að benda á að þeir sem telja sig  eiga hagsmuna að gæta, og sýnt geta fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi, eiga eftir atvikum rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sem varðað geta ógildingu hennar og verður kröfu þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafnings­hrepps frá 4. apríl 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundalóða við Þingvalla­vatn í landi Nesjavalla.

51/2018 Eyrarvegur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 27. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 51/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar frá 21. febrúar 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjarins á Selfossi að því er varðar lóðina Eyraveg 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2018, er barst nefndinni 27. s.m., kærir Knútsborg ehf. þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar frá 21. febrúar 2018  að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjarins á Selfossi er varðar lóðina Eyraveg 5. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að því er varðar fyrrgreinda lóð.

Kærandi fór jafnframt fram á stöðvun framkvæmda til bráðbirgða skv. heimild í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 18. apríl 2018.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 18. apríl 2018.

Málavextir: Tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjarins á Selfossi var auglýst frá 18. júlí 2017 með athugasemdarfresti til 29. ágúst s.á. Athugasemdir bárust á auglýsingartíma tillögunnar, m.a. frá kæranda. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 16. febrúar 2018 var tekin afstaða til framkominna athugasemda. Á fundi bæjarstjórnar 21. s.m. var skipulagstillagan samþykkt og hún send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsstofnun fór yfir framlögð gögn og gerði m.a. athugasemdir við að á lóðum við Eyraveg væru byggingar sem mætti fjarlægja. Þar mætti einnig byggja nýbyggingar en skýra þyrfti hvort heimildir fyrir nýbyggingum væru að einhverju leyti háðar því að núverandi byggingar vikju. Þörf væri á því að setja kvöð um aðkomu að baklóðum Eyravegar 5 og 5a og þyrfti sveitarstjórn að bregðast við endurtekinni athugasemd kæranda um stærð leigulóðar hans við Kirkjuveg. Þá þyrfti að lagfæra skýringarmynd þannig að hún sýndi raunveruleg mörk lóðanna nr. 3, 5 og 5a við Eyraveg.

Skipulags- og byggingarnefnd og bæjarstjórn tóku athugasemdirnar til umræðu 22. ágúst 2018. Hvað varðaði athugasemdir Skipulagsstofnunar um heimildir fyrir nýbyggingum á lóðum við Eyraveg vísuðu bæjaryfirvöld til kafla 4.2. í greinargerð deiliskipulagstillögunnar, þar sem fram kom að heimilt væri að endurbyggja þar tilgreind hús við Eyraveg að hluta eða öllu leyti innan byggingarlínu. Við breytingar og endurbætur á húsunum og/eða endurbyggingu þeirra skyldi upphafleg gerð þeirra virt, s.s. byggingarstíll og hlutföll. Á deiliskipulagsuppdrátt hefði verið bætt við örvum sem táknuðu kvöð um aðkomu að Eyravegi 5 og 5a og þá hefði verið tiltekið í kafla 2.3. í greinargerð skipulagstillögunnar að stærð leigulóðar kæranda við Kirkjuveg væri sett fram með fyrirvara um rétt leigutaka. Ekki hefði hins vegar verið unnt að fallast á ósk lóðarhafa um stækkun byggingarreits þar sem yfirbragð byggðar réði nýtingarhlutfalli í skipulagi en ekki stærð lóða. Hvað varðaði athugasemd Skipulagsstofnunar um lóðamörk á skýringaruppdrætti var vísað til þess að í greinargerð skipulagsins kæmi fram að lóðamörk væru sýnd á skipulagsuppdrætti og stærðir lóða skráðar. Upplýsingarnar væru til viðmiðunar en nánar væri gerð grein fyrir lóðamörkum, málsetningu lóða og stærðum þeirra á mæliblaði. Þar sem um misræmi væri að ræða gilti mæliblað.

Bæjarstjórn tilkynnti Skipulagsstofnun 23. ágúst 2018 að brugðist hefði verið við athugasemdum hennar. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 27. ágúst s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að athugasemdum hans við hina kærðu deiliskipulags­­breytingu hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Hins vegar hafi verið haft samráð við aðra lóðarhafa á svæðinu. Þá hafi fulltrúi Sigtúns þróunarfélags ehf., sem eigi hagsmuna að gæta í málinu, setið fund skipulagsnefndar Árborgar þegar umfjöllun og atkvæðagreiðsla um deiliskipulagið hafi farið fram, en slíkt hafi ekki verið við hæfi.

Stærð lóðar kæranda á deiliskipulagi sé sýnd minni en samkvæmt kauptilboði sem sveitarfélagið hafi gert í lóðina árið 2006. Kærandi bendir jafnframt á „að hlutfall byggingarreita við Eyraveg 5 sé umtalsvert minni en á lóðunum í kring eða innan við ¼ af sameiginlegri stærð eignar- og leigulóðar“ kæranda. Þá sé ekki gert ráð fyrir byggingu á lóðinni, en það hafi hins vegar verið gert samkvæmt deiliskipulagi frá 2014. Engar tölulegar upplýsingar liggi fyrir um hve stór hluti lóðarinnar sé skilgreindur sem byggingarreitur en samkvæmt upplýsingum í greinargerð deiliskipulagsins megi áætla að einungis ¼ lóðarinnar sé skilgreindur sem slíkur. Stærsti hluti lóðarinnar virðist skilgreindur sem grænt svæði, sem rýri mjög verðmæti eignarinnar. Engin rök séu fyrir því að stærsti hluti lóðarinnar sé skilgreindur sem grænt svæði sem óheimilt sé að byggja á og án samráðs við eigendur.

Kærandi hafi gert í júní 1983 samning til 50 ára um leigu á 853 m² reit á suðurhluta lóðarinnar Kirkjuvegar 9. Í leigusamningnum sé gert ráð fyrir auknu aðgengi að eignarlóðinni Eyravegi 5. Hins vegar sé í deiliskipulaginu gert ráð fyrir að Sigtún þróunarfélag geti byggt sunnanmegin við mörk leigulóðarinnar, sem komi í veg fyrir aðgengi að lóðinni og rýri verðmæti eignar- og leigulóðar kæranda. Jafnframt komi fram í greinargerð deiliskipulagsins að nýtingarhlutfall lóðarinnar Eyravegar 5 sé 1,5, sem sé talsvert minna en lóðanna í kring. Að lokum áskilji kærandi sér rétt til að krefja Sveitarfélagið Árborg um skaðabætur í samræmi við 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 ef nauðsyn krefji.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um að kærunni verði vísað frá nefndinni þar sem hún uppfylli ekki skilyrði 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kröfugerðin sé mjög óljós og ekki sé hægt að henda reiður á hvaða kröfur séu gerðar fyrir nefndinni sem tækar séu til meðferðar. Því sé farið fram á að nefndin vísi kærunni frá í heild sinni.

Að öðru leyti sé þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Komið hafi verið til móts við athugasemdir hans eins og frekast hafi verið unnt með breytingum á deiliskipulagstillögunni áður en hún hafi hlotið samþykki. Hin kærða ákvörðun sveitarfélagsins um breytingu á deili­skipulagi fyrir miðbæ Selfoss hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum.

Eigendur hafi ekki upplýst með fullnægjandi hætti hvernig breytingar á deiliskipulagi rýri eignarrétt þeirra, en hafi slíkt átt sér stað leiði það til þess að kærandi eigi rétt til þess að fá tjón sitt bætt á grundvelli 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Það leiði hins vegar ekki til ógildingar skipulagsins enda hafi ákvörðun um breytingu skipulagsins verið í samræmi við áskilnað skipulagslaga. Hvað varði fullyrðingar í kæru um að aldrei hafi verið haft samráð við kæranda við gerð deiliskipulagstillögunnar sé rétt að taka fram að tillagan hafi verið auglýst fyrst sumarið 2016 þar sem fram hafi komið athugasemdir lögmanns kæranda sem kærandi hafi síðan vísað til á auglýsingartíma tillögunnar. Afstaða og athugasemdir kæranda hafi því legið fyrir við deiliskipulagsvinnuna auk þess sem fyrirhugaður framkvæmdaraðili hafi verið í sambandi við kæranda án þess að af hans hálfu hafi komið fram skýrar hugmyndir um framkvæmdir á lóðinni. Komið hafi verið til móts við kröfur kæranda eftir því sem frekast hafi þótt unnt enda hæð og annað umfang leyfilegra mannvirkja á lóðinni í samræmi við nærliggjandi lóðir. Fulltrúi Sigtúns þróunarfélags sem vísað sé til í kæru fari ekki með eignarhlut í félaginu, en um hafi verið að ræða höfund skipulagstillögunnar, sem hafi verið til meðferðar á fundi skipulags- og byggingarnefndar. Til þess að tryggja vandaða stjórnsýsluhætti og fullnægjandi rannsókn hafi tíðkast um langt skeið að boða aðila sem komi að viðkomandi verkefnum á fundi nefndarinnar. Umræddur fulltrúi hefði vikið af fundi áður en til atkvæðagreiðslu hafi komið.

Í kæru sé fullyrt að engar tölulegar upplýsingar liggi fyrir um hve stór hluti lóðarinnar sé skilgreindur sem byggingarreitur. Þessu sé mótmælt enda komi fram á skipulagsuppdrætti að lóðin sé 1.453 m² að stærð og að nýtingarhlutfall hennar sé 1,5. Á lóðinni sé heimilt að byggja hús upp á þrjár hæðir með risi auk kjallara. Byggingarreitur sé merktur með gulu í samræmi við skýringar á uppdrættinum, sem hafi þá þýðingu að kærandi skuli staðsetja fyrirhugaðar byggingar á lóðinni innan þess reits. Byggingarreiturinn sé í samræmi við byggingarreiti á nærliggjandi lóðum, þ.e. hvað varði stærð og lögun. Nýtingarhlutfallið sé misjafnt sökum þess að lóðirnar sjálfar séu ólíkar að stærð og lögun. Í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir að nýtingar­hlutfallið á lóðinni, sem staðsett sé á miðsvæði, sé milli 1 og 2. Nýting lóðarinnar Eyravegar 5, þ.e. þeim hluta hennar sem fari ekki undir byggingarreit, hafi ekki breyst við deiliskipulagsbreytinguna, en um sé að ræða svokallað garðsvæði. Notkun lóðarinnar Kirkjuvegar 9 hafi heldur ekki breyst en kærandi hafi áfram umferðarrétt um þá lóð að baklóð Eyravegar 5.

Rétt sé að árétta að ekki standi til að hrófla við byggingum sem fyrir séu á lóðinni Eyravegi 5, þótt þær séu í hinu nýsamþykkta deiliskipulagi tilgreindar sem víkjandi. Jafnframt sé rétt að halda því til haga að verði fallist á kröfu kæranda um að nýsamþykkt deiliskipulagstillaga verði ógilt, hvað varði Eyraveg 5, þá verði réttarstaða kæranda sú að byggingarreiturinn á lóðinni minnki, enda rakni þá við eldra deiliskipulag sem hafi verið í gildi fyrir þá breytingu sem nú hafi verið gerð.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar sveitarfélagsins Árborgar frá 21. febrúar 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjarins á Selfossi og gerir kærandi athugasemdir við málsmeðferð og efni ákvörðunarinnar hvað varðar lóð hans Eyraveg 5.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sem annast og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga, og sætir ákvörðun um aðalskipulag ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 52. gr. skipulagslaga. Við gerð deiliskipulags ber að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr skipulagslaga, og í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðalskipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Sveitarstjórnir eru enn fremur bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Árborgar 2010-2030 er lóðin Eyravegur 5 á svæði sem skilgreint er sem miðsvæði. Í aðalskipulaginu segir m.a. um miðsvæði að í miðbæ Selfoss séu nú blönduð svæði verslunar, þjónustu, stofnana og íbúða. Þá sé miðsvæðið í góðum tengslum við önnur verslunar- og athafnasvæði við Eyraveg svo og önnur helstu atvinnusvæði. Á miðsvæði sé reiknað með nýtingarhlutfalli á bilinu 1,0-2,0.

Samkvæmt uppdrætti umdeildrar skipulagsbreytingar er nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 5 við Eyraveg 1,5. Lóðin er 1.453 m² að stærð og heimilt er að byggja þar þriggja hæða hús með risi auk kjallara. Skipulagsuppdrátturinn ber með sér að byggingarreitur nefndrar lóðar sé í samræmi við stærð og lögun byggingarreita á nærliggjandi lóðum. Þótt fram komi í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu að þær byggingar sem standi á lóðinni Eyravegi 5 megi víkja felst ekki  í því ákvörðun um skyldu lóðarhafa til niðurrifs mannvirkja á lóðinni. Í samhengi við skilmála hins breytta skipulags felur yfirlýsingin í sér heimild lóðarhafa til niðurrifs eldri mannvirkja þegar og ef til uppbyggingar kemur á lóðinni í samræmi við heimildir skipulagsins. Verður ekki talið að hin umdeilda deiliskipulagsbreyting gangi gegn stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana því fullnægt.

Eins og nánar greinir í málavaxtalýsingu var deiliskipulagsbreytingin auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem og hann gerði. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna, sem bæjarstjórn  brást við og tók afstöðu til. Ekki liggur fyrir að aðkoma fulltrúa Sigtúns þróunarfélags á fundi  skipulags- og byggingarnefndar hafi verið óeðlileg eða ekki við hæfi í ljósi þess að um var að ræða höfund þeirrar skipulagstillögu sem til umræðu var á þeim fundi. Fulltrúinn vék síðan af fundi nefndarinnar áður en atkvæðagreiðsla um tillöguna fór fram. Hafa verður og í huga að það er í verkahring sveitarstjórnar að samþykkja deiliskipulag og breytingar á því, sbr. 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 28. ágúst 2018. Var málsmeðferð skipulagstillögunnar samkvæmt framansögðu lögum samkvæmt.

Í skipulagslögum er gert ráð fyrir að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignarréttindum. Sé sýnt fram á að gildistaka skipulags valdi fasteignareiganda tjóni getur viðkomandi eftir atvikum leitað réttar síns og krafist skaðabóta í samræmi við 51. gr. laganna, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar. Þá verður ágreiningur um bein eða óbein eignarréttindi, svo sem um mörk lóða, ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni heldur eftir atvikum fyrir dómstólum. Þá er rétt að taka fram að deiliskipulag getur ekki ráðstafað eignarréttindum manna nema að undangengnum samningi eða eftir atvikum eignarnámi, séu talin skilyrði til þess.

Að öllu framangreindu virtu er hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem áhrif geta haft á gildi hennar. Verður kröfu um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar frá 21. febrúar 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjarins á Selfossi, að því er varðar lóðina Eyraveg 5.

100/2018 Kvistavellir

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 19. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðar-nefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 100/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2018, er barst nefndinni 18. s.m., kæra eigendur, Kvistavöllum 48,  Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 27. mars 2018 að samþykkja með skilyrðum leyfisumsókn fyrir skjólvegg á lóðarmörkum Kvistavalla 48 og bæjarlands. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 19. júlí 2018 og í maí og júní 2019.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 27. mars 2018 var tekin fyrir umsókn kærenda um leyfi fyrir skjólvegg sem stendur á mörkum lóðar þeirra við Kvistavelli og lands í eigu bæjarins. Umsóknin var samþykkt að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett voru fram í umsögn arkitekts, dags. s.d. Í umsögninni kemur m.a. fram að grindverkið sé mjög hátt og myndi langan vegg. Lækka þurfi grindverkið út mót götu niður í 140 cm. Kærendum barst tilkynning um afgreiðslu byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 18. febrúar 2019, þar sem beðist var velvirðingar á því að tilkynning um afgreiðsluna hafi ekki borist fyrr.

Kærendur vísa til þess að þau hafi upphaflega byggt 180 cm hátt grindverk, en vilji sættast á að hafa það 160 cm. Bæjaryfirvöld vilji það hins vegar ekki og gangi út frá að grindverkið verði að vera 140 cm að hæð. Aðrir eigendur íbúða í umræddu raðhúsi hafi þegar reist grindverk sín og séu þau frá 140 cm og upp í 160 cm.

Bæjaryfirvöld benda á að með umsókn óski kærendur eftir leyfi fyrir grindverki sem þegar sé reist við lóðarmörk sem liggi að bæjarlandi og gangstétt. Óski kærendur eftir að reisa 180 cm grindverk. Verklag sem unnið sé eftir af hálfu bæjaryfirvalda sé að samþykkja 140 cm há grindverk almennt að bæjarlandi, en leyfa 160 cm grindverk við umferðargötur þar sem sé strætisvagnaumferð. Hæð sé miðuð við G tölur á útgefnum hæðarblöðum. Einnig þurfi að passa upp á götuhorn og innkeyrslur inn á lóðir vegna útsýnis og slysahættu.

Niðurstaða: Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands urðu eigendaskipti að fasteign kærenda í húsinu að Kvistavöllum 48 með kaupsamningi, dags. 29. nóvember 2018, sem þinglýst var 10. desember s.á. Var afsal fyrir eigninni til kaupenda þinglýst 15. júní 2019.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Lögvarðir hagsmunir kærenda í máli þessu voru tengdir réttarstöðu þeirra sem handhafa fasteignaréttinda í húsinu að Kvistavöllum 48. Eins og fyrr er rakið eiga kærendur ekki lengur réttindi tengda umræddri fasteign og eiga því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.