Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

25/2017 Hundahald Álfabrekku

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2017, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 10. febrúar 2017 um að afturkalla leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. mars 2017, er barst nefndinni 8. s.m., kærir A, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 10. febrúar 2017 að afturkalla leyfi hans til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

Af hálfu kæranda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Reykjavíkurborg 17. mars 2017.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi fékk á árinu 2012 leyfi til að halda sex nánar tilgreinda hunda að Suðurlandsbraut 27. Á árinu 2014 voru leyfin afturkölluð af heilbrigðisnefnd Reykjavíkur og var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar. Með úrskurði kveðnum upp 8. maí 2014, í kærumáli nr. 18/2014, var nefnd ákvörðun felld úr gildi á þeim forsendum að kærandi hefði þegar ákvörðunin var tekin átt lögheimili að Suðurlandsbraut 27, auk þess sem ekki hefði verið gætt að tilteknum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt skýrslu um sérstakt eftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 9. febrúar 2017, fóru tveir menn 8. s.m. að dvalarstað kæranda að Fiskislóð og hittu þar fyrir kæranda. Hann hafi verið spurður um hvar hundar þeir sem hann hefði leyfi fyrir væru vistaðir og hann þá svarað að þeir væru að Suðurlandsbraut 27. Með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 10. febrúar 2017, var kæranda tilkynnt að heilbrigðisnefnd hefði á fundi sínum sama dag samþykkt að svipta hann leyfi til að halda hundana. Vísað er til þess að heilbrigðiseftirlitið hafi fengið staðfest að kærandi væri skráður óstaðsettur í hús og því ekki með lögheimili að Suðurlandsbraut 27 og byggi ekki heldur þar, en staðfest væri af félagsmálayfirvöldum að kærandi byggi í smáhýsi á vegum Reykjavíkurborgar. Eftirlitsgjöld hafi ekki verið greidd af hundunum síðan árið 2014. Samkvæmt 2. gr. a í samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 478/2012 sé leyfi persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda enda sé það ófrávíkjanlegt skilyrði að hundur sé skráður þar og haldinn. Í ljósi þessa hafi verið ákveðið að svipta kæranda leyfi til að halda tilgreinda sex hunda. Veitti kærandi bréfinu móttöku á dvalarstað sínum 14. febrúar 2017. Samkvæmt vottorði dýralæknis í Eyjafirði, dags. 17. s.m., var komið með sex hunda og lesið af örmerkjum þeirra. Var um sömu hunda að ræða og kærandi hafði haft leyfi fyrir í Reykjavík.

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2017, óskaði kærandi eftir gögnum málsins frá heilbrigðiseftirlitinu og jafnframt var farið fram á upplýsingar um hvaða brot á hundasamþykkt í Reykjavík kærði ætti að hafa framið og loks óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun um afturköllun hundaleyfanna. Kærandi skráði lögheimili sitt að Suðurlandsbraut 27 hjá Þjóðskrá Íslands 1. mars 2017. Með bréfi frá heilbrigðiseftirlitinu, dags. 3. s.m., var kærandi boðaður á fund hjá eftirlitinu 8. s.m. til þess að „fara yfir málin í sameiningu“. Kærandi skrifaði bréf sem móttekið var þann dag, þar sem hann kvaðst ekki geta setið fundinn þar sem umbeðin gögn hefðu ekki verið afhent.

Málsrök kæranda: Kærandi heldur því fram að við afturköllun sex hundaleyfa á hans nafni hafi hvorki verið gætt andmælaréttar né meðalhófs, auk þess sem rannsóknarregla og jafnræðisregla hafi verið brotnar, þar sem hundaleyfin hafi verið afturkölluð áður en kæranda hafi verið tilkynnt um það.

Hundaeftirlitsmenn hafi komið fyrr í febrúar og spurt kæranda hvenær hann hefði síðast séð hundana og hann svarað að liðin væri um vika síðan. Fimmtudaginn 14. febrúar 2017 hafi tveir hundaeftirlitsmenn, ásamt manni frá heilbrigðiseftirlitinu, afhent kæranda bréf um afturköllun sex hundaleyfa. Kærandi óski framvegis eftir öllum erindum heilbrigðiseftirlitsins í pósti að lögheimili hans að Suðurlandsbraut 27, Reykjavík. Kærandi hafi borið fram beiðni um afhendingu allra gagna og ítarlegan rökstuðning með bréfi, dags. 28. febrúar 2017, en hvorugt hafi borist honum. Heilbrigðiseftirlitið hafi verið ófáanlegt til að afhenda honum gögn þau er legið hafi fyrir fundi heilbrigðisnefndar 10. febrúar, þegar sviptingin hafi verið ákveðin. Umræddir hundar hafi ekki verið vistaðir innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur frá 28. mars 2014 til 10. febrúar 2017, en þeir hafi verið í vörslu annars aðila samkvæmt umboði.

Kæranda hafi ekki borist neinn greiðsluseðill vegna sex hundaleyfisgjalda fyrir árin 2015 og 2016 og hann hafi ekki heimabanka. Kæranda hafi ekki borist nein greiðsluáskorun frá heilbrigðiseftirlitinu vegna leyfisgjaldanna. Hann hafi ekki getað gert sér grein fyrir hversu há sex hundaleyfisgjöld væru. Lágmark hefði verið, samkvæmt meðalhófsreglu, að heilbrigðiseftirlitið birti kæranda greiðslukröfu til að gera honum grein fyrir greiðsluskyldu og beitti þannig vægasta stjórnsýsluúrræðinu í stað þess að beita strax ítrasta úrræði, afturköllun leyfanna. Þau gögn er kæranda hafi borist vegna þessara mála hafi verið boðsend af tveimur hundaeftirlitsmönnum og hægur vandi hefði verið að boðsenda umrædda greiðsluseðla, greiðsluáskorun eða tilkynningu um fyrirhugaða afturköllun hundaleyfanna. Annar kostur hefði verið að póstsenda umrædd gögn á Suðurlandsbraut 27, eins og margoft hafi verið beðið um.

Málsrök heilbrigðisnefndar Reykjavíkur: Af hálfu heilbrigðisnefndar Reykjavíkur er því haldið fram að hin kærða ákvörðun sé lögmæt að efni og formi til. Kæranda hafi verið kynnt ákvörðunin bréflega og hafi hann öll gögn málsins undir höndum.

Í a-lið 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 478/2012 um hundahald í Reykjavík segi að leyfi til hundahalds sé persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda, enda sé það ófrávíkjanlegt skilyrði að hundur sé skráður þar og haldinn. Í ljós hafi komið að kærandi sé óskrásettur í hús. Síðasta skráða lögheimili hans hafi verið að Álfabrekku við Suðurlandsbraut, en þeirri skráningu hafi verið breytt frá því að leyfin hafi verið veitt. Í kæru komi fram að kærandi eigi heimili að Fiskislóð sem séu smáhýsi á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Af þessu verði ekki önnur ályktun dregin en að kærandi viðurkenni í kæru að hann uppfylli ekki ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir hundahaldi skv. framangreindri 2. gr. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili segi að lögheimili manns sé sá staður þar sem hann hafi fasta búsetu.

Í kæru komi fram að hundarnir sem kærandi hafi verið sviptur leyfi fyrir séu ekki haldnir í Reykjavík heldur í Eyjafirði. Því til staðfestingar hafi fylgt yfirlýsing dýralæknis um að lesið hafi verið af örmerkjum umræddra hunda. Ekkert komi þar fram um að hundarnir séu haldnir í Eyjafirði.

Heilbrigðiseftirlitið mótmæli sem röngu að við málsmeðferð hafi ekki verið gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, líkt og komi fram í kærunni. Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi að aðili máls skuli eiga kost á að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun sé tekin í því. Andmælareglan sé náskyld rannsóknarreglunni í 10. gr. laganna, enda sé litið svo á að fái aðili máls ekki að tjá sig um efni fyrirhugaðrar ákvörðunar áður en hún sé tekin þá séu líkur fyrir að öll sjónarmið liggi ekki fyrir og rannsókn sé áfátt. Ljóst megi vera að kærandi hafi átt kost á að koma að andmælum á fundi starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins á heimili kæranda hinn 8. febrúar 2017. Kærandi hafi staðfest, jafnt á fundinum sem og í kæru, að hann haldi heimili við Fiskislóð en ekki að Álfabrekku við Suðurlandsbraut 27. Jafnframt hafi lögheimilis- og aðsetursskráningin verið könnuð í þjóðskrá. Loks hafni eftirlitið því sem röngu að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Ef stjórnvald hafi ekki val um leið við töku ákvörðunar eigi reglan ekki við. Í því máli sem hér um ræði sé ljóst að kærandi hafi ekki uppfyllt ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir leyfi til að halda hund, skv. samþykkt um hundahald í Reykjavík. Heilbrigðiseftirlitið hafi því ekki haft val um þá leið sem farin var til þess að framfylgja samþykktinni. Eftirlitið hafi ekki getað hlutast til um að kærandi færði lögheimili sitt aftur að Álfabrekku, enda séu lög nr. 21/1990 skýr um það hvað teljist vera lögheimili og aðsetur manna. Jafnframt komi fram í kærunni að með kærðri ákvörðun hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. laganna. Sú málsástæða sé órökstudd og því ómögulegt fyrir heilbrigðiseftirlitið að taka afstöðu til hennar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að því sé ranglega haldið fram í greinargerð heilbrigðiseftirlitsins að hann hafi kvittað fyrir móttöku á öllum gögnum málsins. Hið rétta sé að kæranda hafi aðeins borist bréf, dags. 10. febrúar 2017, um afturköllun hundaleyfa, og fundarboð, dags. 28. s.m. Annað hafi honum ekki borist frá heilbrigðiseftirlitinu.

Kærandi hafi búið að Suðurlandsbraut 27 með hléum síðan á sjöunda áratugnum. Hann hafi m.a. verið með lögheimili þar frá 25. júlí 1997 til 15. febrúar 2001 og einnig síðar, eins og fram hafi komið í úrskurði í máli nr. 18/2014 hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Undir rekstri þess máls hafi kærandi jafnframt lagt fram ljósmyndir frá árinu 1999, þar sem hann sinnti hundum sínum að Suðurlandsbraut 27. Hann hafi haft skráð lögheimili þar frá 1. mars 2017 en hafi ekki getað skráð það fyrr vegna þess að hann hafi ekki haft gild persónuskilríki. Heilbrigðiseftirlitið hefði ekki leiðbeint kæranda um að til sviptingar gæti komið vegna breyttrar lögheimilisskráningar.

Í greinargerð heilbrigðiseftirlitsins komi fram að kæranda hafi verið veittur kostur á að koma fram andmælum á fundi starfsmanna eftirlitsins á heimili kæranda 8. febrúar 2017. Í gögnum komi ekkert fram um að kæranda hafi verið tjáð um eða veittur kostur á að koma fram andmælum um fyrirhugaða leyfissviptingu, eða að þá hafi ákvörðun heilbrigðisnefndar um sviptingu hundaleyfis legið fyrir. Hið rétta sé að hundaeftirlitið hafi óskað eftir því að fá upplýsingar um hvar hundarnir sem skráðir hefðu verið á heimili hans væru vistaðir. Kærandi hafi svarað því.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var kærandi sviptur leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík. Voru þau rök færð fyrir ákvörðuninni að hann ætti ekki lögheimili á því heimilisfangi þar sem hann hefði fengið leyfi til að halda hundana og að leyfisgjöld hefðu ekki verið greidd frá árinu 2014. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2017, óskaði kærandi eftir „ítarlegum rökstuðningi“ fyrir ákvörðuninni, en þeirri beiðni var ekki sinnt. Í 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að aðili máls geti krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt. Verður að draga þá ályktun að hafi fullnægjandi skriflegur rökstuðningur fylgt ákvörðun sé ekki hægt að krefjast þess að hún sé rökstudd frekar. Í 1. mgr. 22. gr. laganna segir um efni rökstuðnings að í honum skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Í 2. mgr. segir að þar sem ástæða sé til skuli í rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Rakið var í málavaxtalýsingu hvað fram kom í tilkynningu til kæranda um ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, dags. 10. febrúar 2017. Þar kemur fram hvaða ákvæði samþykktar nr. 478/2012 um hundahald í Reykjavík kærandi teljist hafa brotið og hverju það varði að uppfylla ekki skilyrði leyfis fyrir hundahaldi. Að lokum kemur fram hvert efni ákvörðunarinnar sé ásamt leiðbeiningum um kæruleið. Telst framangreind ákvörðun uppfylla ákvæði 22. gr. um efni rökstuðnings þannig að ekki var skylt, skv. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, að veita nánari rökstuðning fyrir henni. Þó er rétt að taka fram að á stjórnvöldum hvílir sú almenna skylda að svara þeim erindum sem til þeirra er beint.

Samkvæmt samþykkt nr. 478/2012, sem sett var með heimild í þágildandi 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, nú 59. gr. laganna, er hundahald heimilað að fengnu leyfi og að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Kemur fram í a-lið 2. gr. samþykktarinnar að leyfi sé persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda, enda sé það ófrávíkjanlegt skilyrði að hundur sé skráður þar og haldinn. Einnig segir í 3. mgr. 9. gr. samþykktarinnar að hundaeiganda beri að tilkynna heilbrigðiseftirlitinu um aðsetursskipti. Fram er komið að kærandi var óstaðsettur í hús þegar hin kærða ákvörðun var tekin en bætti úr og skráði lögheimili sitt að Suðurlandsbraut 27 frá 1. mars 2017. Hann dvelst og hefur búsmuni sína í húsum á vegum Reykjavíkurborgar að Fiskislóð.

Í 12. gr. samþykktarinnar er fjallað um gjöld fyrir leyfi og kemur fram í 2. mgr. að dragist greiðsla lengur en mánuð fram yfir eindaga falli leyfið niður. Þá segir í 20. gr. samþykktarinnar að ef hundaeigandi brjóti gegn m.a. samþykkt þessari geti heilbrigðisnefnd afturkallað leyfi til hans og/eða bannað honum að vera með hund í lögsagnarumdæmi Reykjavíkurborgar. Ekki er fjallað um málsmeðferð þegar beita skal 20. gr. og fer því um hana eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ekkert liggur fyrir um að kæranda hafi verið tilkynnt um að til stæði að svipta hann umræddum leyfum til að halda hunda. Í skýrslu heilbrigðisfulltrúa um heimsókn til kæranda kemur ekkert fram um að honum hafi verið kynnt hvort eða hvenær ætlunin væri að taka mál hans fyrir, eingöngu að hann hafi verið spurður um geymslustað hundanna. Var honum fyrst kynnt ákvörðun heilbrigðisnefndar eftir að hún var tekin, en þá höfðu leyfin þegar verið afturkölluð. Kærandi fékk því ekki tækifæri til að tjá sig um málið fyrirfram og var því andmælaréttar hans ekki gætt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Jafnframt skorti á að meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins væri virt, sbr. 12. gr. laganna, en kærandi hefði getað bætt úr atriðum eins og lögheimilisskráningu og greiðslu gjalda hefði honum verið gefinn kostur á því með hæfilegum fresti til úrbóta áður en leyfin voru afturkölluð. Var enda bætt úr lögheimilisskráningu kæranda 20 dögum eftir að hin kærða ákvörðun var tekin fyrirvaralaust.

Fram kemur í gögnum málsins að með bréfi, dags. 28. febrúar 2017, fór kærandi fram á að fá afhent öll gögn sem lögð voru fyrir heilbrigðisnefnd 10. febrúar 2017 vegna afturköllunar hundaleyfa hans. Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 3. mars s.á., var tekið fram að ekki væri ljóst hvaða gagna væri óskað og var kærandi boðaður á fund til að fara yfir málið. Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls óskoraðan rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Er slíkur aðgangur nauðsynlegur til að tryggja að réttur aðila til að koma að skýringum og gera athugasemdir við framlögð gögn komi að fullu gagni. Ekki er hægt að telja beiðni kæranda óskýra og hefði verið rétt að veita honum aðgang að þeim gögnum er málið varðaði, eða rökstyðja takmörkun eða synjun á því. Boð um fund gat ekki komið í þess stað. Þegar kærandi afþakkaði fundarboðið, með bréfi sem móttekið var hjá Reykjavíkurborg fimm dögum síðar, hefði þurft að bregðast við og veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Fékk hann þó ekki afhent frekari gögn fyrr en málið hafði verið kært til úrskurðarnefndarinnar og honum bárust gögn málsins þaðan. Þykir þessi málsmeðferð af hálfu Reykjavíkurborgar ekki allskostar í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga um upplýsingarétt.

Samkvæmt því sem að framan er rakið skorti mjög á við meðferð málsins að gætt væri að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga hvað varðaði andmælarétt, meðalhóf og rétt aðila til upplýsinga. Með hliðsjón af því að um íþyngjandi ákvörðun var að ræða þykir málsmeðferðin hafa verið svo verulegum annmörkum háð að fella verði hina kærða ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 10. febrúar 2017 um að afturkalla leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

118/2018 Númerslaus bifreið Sandgerði

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 5. mars 2020, sjá hér.

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2018, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 8. ágúst 2018 um að fjarlægja bifreið af einkalóð í Sandgerði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Uppsalavegi 8, Sandgerði, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 8. ágúst 2018 að fjarlægja bifreið af einkalóð kæranda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 26. október 2018.

Málavextir: Hinn 8. ágúst 2018 límdi starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja miða á bifreið kæranda, þar sem fram kom að fjarlægja bæri bifreiðina hið fyrsta og var gefinn til þess frestur til einnar viku. Bifreiðin var síðan fjarlægð 30. s.m. og komið fyrir í geymsluporti Vöku í Reykjavík. Kærandi sætti sig ekki við þetta og bar fram kæru sem móttekin var 26. september s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður bifreiðina hafa verið á einkalóð sinni sem sé í langtímaleigu. Númerin hafi verið fjarlægð af bifreiðinni af og til, þegar ekki hafi verið þörf á henni, frá því hún hafi verið keypt árið 2011. Þetta hafi verið gert til að spara tryggingarkostnað af bifreiðinni. Ekkert hafi verið að bifreiðinni þegar hún hafi verið fjarlægð, hún hafi verið þvegin og bónuð reglulega þótt hún væri ekki á númerum. Ekkert ryð hafi verið á bifreiðinni fyrir utan einn lítinn blett og hún hafi verið ekin 96 þúsund km. Bifreiðin hafi síðast verið tekin af skrá 2016 og hafi ekki verið á skrá síðan. Ástæðan hafi verið sú að eiginmaður kæranda hafi átt erfitt með að aka henni en kærandi sé ekki með ökuréttindi. Ætlunin hafi verið að setja bifreiðina á númer á árinu 2019. Hún hafi verið gangsett á tveggja til þriggja mánaða fresti.

Eiginmaður kæranda hafi farið á sjúkrahús 17. ágúst 2018 og aftur 23. s.m. Hann hafi farið lítið út fyrir og eftir vistina. Kærandi sé mest innivið og hvorugt þeirra hafi haft hugmynd um að miði hefði verið límdur á bifreiðina. Þegar þriðji maður hefði komið í heimsókn 3. september s.á. hafi hann tekið eftir því að bifreiðin væri horfin og látið kæranda vita af því og hann haldið að henni hefði verið stolið. Haft hefði verið samband við lögreglu vegna þessa sem hefði gengið á milli húsa í nágrenninu til að spyrja hvort nágrannar hefðu séð eitthvað. Daginn eftir hefði lögreglumaður hringt og sagt frá því að heilbrigðiseftirlitið hefði látið fjarlægja bifreiðina. Eiginmaður kæranda hefði haft samband við heilbrigðiseftirlitið en hefði fengið þær einu leiðbeiningar að hann skyldi kæra atvikið til lögreglu. Það hafi verið reynt en lögreglan neitað að taka við kæru. Þá hafi kærandi farið til heilbrigðiseftirlitsins þar sem afhentar hefðu verið myndir og gögn vegna bifreiðarinnar og framkvæmdastjóra eftirlitsins afhentur spurningalisti sem hann hafi ætlað að svara. Þau svör hafi ekki borist. Einnig hafi bæjarstjóri sveitarfélagsins fengið beiðni um upplýsingar sem ekki hafi verið svarað.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Heilbrigðiseftirlitið fer aðallega fram á að kröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað.

Á viðvörunarmiða, sem límdur hafi verið á rúðu bílstjóramegin á ökutækinu, komi fram að ákvörðunin sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um eða mátt vera kunnugt um ákvörðunina. Af kæru verði ráðið að kærandi hafi verið heima þegar miðinn hafi verið límdur á bifreiðina og einnig vikurnar fram að því að bifreiðin hafi verið flutt á brott. Þar sem ekki hafi verið brugðist við viðvörun eða athugasemdir gerðar við ákvörðunina hafi hún verið framkvæmd. Samkvæmt gögnum máls hafi ákvörðunin verið tilkynnt með álímdum miða 8. ágúst 2018. Verði því ekki annað séð en að kærufrestur hafi verið liðinn fyrir allnokkru þegar ákvörðunin hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Af þeim sökum skuli vísa málinu frá nefndinni.

Bifreiðin hafi verið fjarlægð 22 dögum eftir að viðvörun hafi verið gefin með álímdum miða, eða 30. ágúst 2018. Á miðanum komi fram að athugasemdir skuli berast skriflega og þar veittar leiðbeiningar um kæruheimild. Þar sem engar skriflegar athugasemdir hafi borist innan frests og ekki hafi verið orðið við fyrirmælum heilbrigðiseftirlitsins hafi ökutækið verið fjarlægt á kostnað eiganda eins og boðað hafi verið.

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja starfi í umboði heilbrigðisnefndar skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heimild heilbrigðisnefndar til að beita þvingunarúrræðum byggist á XVII. kafla laga nr. 7/1998. Í 1. mgr. 60. gr. laganna sé kveðið á um til hvaða úrræða sé heimilt að grípa, þ.m.t. að haldleggja lausamuni og farga þeim vegna brota á lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 941/2001 um hollustuhætti sé bannað að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu og gildi það jafnt um smærri sem stærri hluti. Í 21. gr. reglugerðarinnar sé síðan kveðið á um að heilbrigðisnefnd sé heimilt að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs sé heilbrigðisnefnd einnig veitt heimild til að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun, t.d. með álímingarmiða með aðvörunarorðum og gildi sú heimild einnig um einkalóðir manna. Um þvingunarúrræði vísist til 66. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Þegar viðvörunarmiði hafi verið límdur á umrætt ökutæki hafi allt litið út fyrir að það stæði utan bílastæðis og teldist á almannafæri skv. 20. gr. reglugerðar nr. 941/2002, auk þess sem ákvæði reglugerðar nr. 737/2003 hafi átt við. Eins og áður sagði veitir 5. mgr. 17. gr. þeirrar reglugerðar heimild til að fjarlægja númerslausar bifreiðir af einkalóðum, en aðgerðir heilbrigðiseftirlits gagnvart ökutækjum sem ekki séu lengur í umferð byggist m.a. á markmiði 1. gr. laga nr. 7/1998 og lögum nr. 55/2003. Mengunarhætta stafi af gömlum ökutækjum sem ekki séu lengur í notkun og að mati eftirlitsins hafi ökutækið, eins og það hafi verið staðsett utan skilgreinds bílastæðis, verið til lýta fyrir umhverfið. Skyldur heilbrigðiseftirlitsins til að bregðast við séu og í samræmi við kröfur sveitarfélagsins sem gerðar séu til leigulóðarhafa, sbr. m.a. 7. gr. lóðarleigusamnings kæranda, sem sé á meðal gagna málsins. Fjöldi ökutækja, sem tekin séu úr notkun og lagt, geti auk þess skapað ýmis vandamál sem stemma þurfi stigu við skv. gildandi lögum og reglugerðum sem vísað hafi verið til. Af gögnum máls sé og ljóst að ökutækið hafi ekki verið á skrá í rúm tvö ár þegar það hafi verið fjarlægt.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun. Gerir Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja kröfu um frávísun í málinu á þeim grundvelli að lögbundinn mánaðar kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra var lögð fram. Miðar heilbrigðiseftirlitið upphaf kærufrests við þann dag sem tilkynning um yfirvofandi haldlagningu var límd á rúðu umræddrar bifreiðar. Að áliti úrskurðarnefndarinnar verður miða límdum á bílrúðu ekki jafnað við t.a.m. póstlagða tilkynningu á lögheimili. Mátti kærandi því ekki vita af umræddri ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá þeim tíma, sbr. fyrrnefnt lagaákvæði. Bifreiðin var fjarlægð 30. ágúst 2018 og af gögnum málsins verður ráðið að kæranda var það ljóst í síðasta lagi 3. september s.á. Kæra var lögð fram 26. s.m. og telst því nægilega snemma fram komin.

Heilbrigðisnefndir starfa samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt 47. gr. ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Gilda og stjórnsýslulög nr. 37/1993 um störf nefndarinnar. Samkvæmt 49. gr. laga nr. 7/1998 ráða heilbrigðisnefndir á hverju svæði heilbrigðisfulltrúa til að annast eftirlit sveitarfélaganna með þeim viðfangsefnum sem undir lögin falla. Heilbrigðisfulltrúar starfa í umboði heilbrigðisnefndar samkvæmt sama ákvæði.

Ákvæði um valdsvið og þvingunarúrræði eru í XVII. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 60. gr. geta heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt eftirfarandi aðgerðum til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum með stoð í þeim: 1. veitt áminningu, 2. veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta eða 3. stöðvað eða takmarkað viðkomandi starfsemi eða notkun, þar með lagt hald á vörur og fyrirskipað förgun þeirra. Samkvæmt 2. mgr. skal aðeins beita síðastnefnda úrræðinu í alvarlegri tilvikum, við ítrekuð brot eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests. Samkvæmt framangreindu er ljóst að heilbrigðisnefndir og heilbrigðiseftirlit hafa lagaheimildir fyrir þvingunaraðgerðum, sem m.a. fela í sér haldlagningu á lausamunum og förgun þeirra vegna brota á lögum nr. 7/1998 eða reglugerðum settum með stoð í þeim.

Reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti er sett með heimild í 4. gr. laga nr. 7/1998 og reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs er sett með heimild í 4. og 5. gr. sömu laga, sem og í 43. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Heimildir til að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök er að finna í ákvæðum 21. gr. reglugerðar um hollustuhætti og 17. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs. Í nefndri 21. gr. er að finna heimild heilbrigðisnefndar til að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum. Í áðurnefndri 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 segir m.a. að heilbrigðisnefnd sé heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun.

Samkvæmt gögnum málsins var umrædd bifreið kæranda staðsett á einkalóð og gat því ekki talist vera á almannafæri í skilningi 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Áðurnefnd 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 fjallar um almennan þrifnað utanhúss, m.a. á einkalóðum, og segir í 1. mgr. að umráðamönnum lóða sé skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. er heilbrigðisnefnd heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og af samhengi ákvæðisins má ráða að framangreint gildi um númerslausar bifreiðar á einkalóðum. Kemur fram í greinargerð heilbrigðiseftirlitsins að miði var límdur á bifreiðina 8. ágúst 2018 og eiganda gefinn viku frestur til að fjarlægja hana. Kom fram á nefndum miða að yrði bifreiðin ekki fjarlægð að útrunnum fresti yrði hún tekin í vörslu í einn mánuð og síðan fargað á kostnað eiganda. Kom einnig fram að hægt væri að hafa samband við fulltrúa heilbrigðiseftirlits í ákveðið símanúmer og einnig að hægt væri að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Bifreiðin var fjarlægð 30. ágúst, eða 22 dögum eftir að miðinn var límdur á hana.

Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki tekið eftir miðanum á bifreiðinni og ekki vitað að búið var að fjarlægja hana fyrr en kunningi lét hann vita af því. Bifreiðin stóð fyrir utan hús kæranda, inni á lóð hans, og verður að telja að heilbrigðiseftirlitið hafi verið í góðri trú um að full vitneskja væri um miðann og viðvörunina áður en bifreiðin var fjarlægð, sem gerðist ekki fyrr en 22 dögum síðar, eins og áður er komið fram. Verður því að telja að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi verið innan sinna valdheimilda þegar það lét fjarlægja bifreið kæranda. Þá var andmælaréttar kæranda gætt með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í 5. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 og fékk hann ráðrúm til að fjarlægja bifreiðina sjálfur áður en gripið yrði til frekari ráðstafana með tilheyrandi kostnaði.

Kærandi kveður bifreiðina hafa verið á númerum öðru hvoru síðastliðin ár og styðja gögn málsins það. Hins vegar voru liðin tvö ár og fjórir mánuðir frá því að númerin voru síðast leyst út og hafði bifreiðin staðið fyrir utan hús kæranda allan þann tíma. Þótt hún væri þvegin og bónuð öðru hvoru og sett í gang kemur það ekki í veg fyrir hugsanlega mengun frá ökutækinu, svo sem olíuleka. Verður því ekki annað séð en að hin kærða ákvörðun hafi stefnt að markmiðum 1. gr. laga nr. 7/1998 og 1. gr. reglugerðar nr. 737/2003 og þannig byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum. Var og málsmeðferð í samræmi við lög.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 30. ágúst 2018 um að fjarlægja bifreið af einkalóð í Sandgerði.

119/2017 Bíldshöfði

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 119/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 28. september 2017 um að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða vegna Bíldshöfða 18. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. október 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Riverside ehf. og Teiknir ehf., þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 28. september s.á. að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða vegna Bíldshöfða 18. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. október 2017.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 28. júní 2017 var samþykkt að auglýsa til kynningar og vísa til borgarráðs tillögu, dags. 8. júní s.á., um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða vegna Bíldshöfða 18. Í breytingunni fólst að leyfð yrði fjölbreytt blönduð atvinnustarfsemi í mannvirkjum á lóðinni, þ. á m. í formi gististaða í flokki I-III. Borgarráð samþykkti auglýsingu tillögunnar á fundi sínum 6. júlí s.á. Tillagan var auglýst til kynningar frá 14. júlí til 25. ágúst s.á. Á kynningartíma tillögunnar bárust 21 athugasemd og þar af voru 18 sameigendur að Bíldshöfða 18 með samhljóða athugasemdir. Þá skilaði annar kærenda þessa máls ódagsettum athugasemdum að loknum kynningartíma tillögunnar. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. september s.á. var breytingartillögunni hafnað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 28. ágúst 2017. Var málinu vísað til afgreiðslu borgarráðs, sem samþykkti afgreiðslu ráðsins 28. september s.á.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að í umsögn skipulagsfulltrúa sé lagt til grundvallar að samþykki meðeigenda um breytingu á hagnýtingu séreignar liggi ekki fyrir með vísan til 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Krafa kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs sé byggð á því að það sé ekki á forræði sveitarfélags að skera úr um hvort breyting á hagnýtingu séreignar sé heimil án samþykkis meðeigenda. Hin umrædda breyting sé ekki háð því hvort samþykki annarra eigenda að Bíldshöfða 18 liggi fyrir. Í skipulagslögum nr. 123/2010 sé ekki að finna ákvæði sem setji því skorður að hægt sé að verða við beiðni um breytingar á deiliskipulagi án samþykkis allra meðeigenda, enda sé ekki verið að breyta hagnýtingu séreignar með breytingu á deiliskipulagi.

Ef svo ólíklega vilji til að talið verið að samþykki allra meðeigenda þurfi til þess að breyting á deiliskipulagi geti átt sér stað sé vísað í 2. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga. Þar komi skýrt fram að eigandi geti ekki sett sig á móti breytingu á hagnýtingu séreignar ef sýnt sé að hún hafi ekki í för með sér neina röskum á lögmætum hagsmunum hans. Í frumvarpi því sem síðar hafi orðið að lögum nr. 26/1994 segi um 2. mgr. 27. gr. laganna að hér vegist á hagsmunir eiganda að geta hagnýtt eign sína á þann veg sem honum sýnist og hagsmunir annarra af því að fá notið sinna eigna í friði og án truflana. Hvoru tveggja séu gild sjónarmið sem verði að virða. Ákvæðið geri ráð fyrir að ákveðið hagsmunamat fari fram. Skipulagsfulltrúi virðist einungis hafa tekið til skoðunar hagsmuni annarra eigenda að Bíldshöfða 18 án þess að virða hagsmuni kærenda.

Þá hafi ekki verið gætt að andmæla- og upplýsingarétti kærenda. Niðurstaða skipulagsfulltrúa hafi legið fyrir 28. ágúst 2017. Annar kærenda þessa máls hafi komið að athugasemdum 30. ágúst s.á. Ljóst sé að tillaga skipulagsfulltrúa hafi legið fyrir áður en kærendur hafi komið að sínum sjónarmiðum. Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kveðið á um að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni. Ljóst sé að afstaða kærenda hafi ekki legið fyrir í gögnum málsins þegar skipulagsfulltrúi hafi komist að niðurstöðu 28. ágúst 2017. Í 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga sé kveðið á um að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varði. Þá segi í 1. mgr. 18. gr. laganna að stjórnvaldi sé heimilt að setja málsaðila ákveðinn frest til þess að kynna sér gögn máls og tjá sig um það. Tillaga kærenda að breytingu á deiliskipulagi hafi verið auglýst frá 14. júlí til og með 25. ágúst 2017. Athugasemdir hafi borist á kynningartíma tillögunnar en kærendur hafi ekki fengið að kynna sér athugasemdirnar fyrr en eftir að tillaga skipulagsfulltrúa hafi legið fyrir. Athugasemdirnar hafi falið í sér nýjar upplýsingar er skipulagsfulltrúi hafi litið til í niðurstöðum sínum. Réttast hefði verið að veita kærendum frest til þess að kynna sér athugasemdirnar og tjá sig um þær. Athugasemdirnar sem sendar hafi verið inn hafi gefið tilefni til að rannsaka nánar hvort þær ættu sér stoð í lögum eða gögnum. Ekki hafi verið gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Vegna framkominna athugasemda við kynningu skipulagstillögunnar sé tekið fram að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé Ártúnshöfði á miðsvæði M4b en ekki á athafnasvæði. Á svæðinu sé fyrst og fremst gert ráð fyrir rýmisfrekum verslunum, heildsölum og skrifstofum. Léttur iðnaður og verkstæði séu leyfð. Að öllu jöfnu sé ekki gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði, gistiheimilum eða hótelum nema það sé sérstaklega tilgreint í deiliskipulagi. Af orðalagi aðalskipulags sé ljóst að sú breyting sem kærendur hafi lagt til fari ekki gegn aðalskipulagi og sé í fullu samræmi við stefnu þess, líkt og kveðið sé á um í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Ótækt sé að hafna breytingu á deiliskipulagi fyrir heilt svæði einungis vegna þess að sambærileg starfsemi sé ekki í húsnæðinu. Nægi að taka fram að veitingastaðurinn Hamborgarabúllan og flugeldasala séu í húsnæðinu. Ekki hafi verið sýnt fram á með hvaða hætti fyrirhuguð starfsemi kærenda skerði lögmæta hagsmuni annarra í húsinu, en ein þeirra athugasemda sem borist hafi við kynningu tillögunnar hafi byggt á því að hávaði stafi af gistiheimili og einnig að gistiheimilið komi í veg fyrir að aðrir eigendur geti verið í hávaðasamri starfsemi. Ekki sé sýnt fram á að rekstur gistiheimilis teljist hávaðasöm starfsemi. Þá sé fráleitt að heimila kærendum ekki mögulega hávaðasama starfsemi vegna þess að hún gæti komið í veg fyrir hávaðasama starfsemi annarra eigenda fasteignarinnar. Ekki sé sýnt fram á með hvaða hætti fyrirhugaður rekstur kærenda hafi áhrif á aðra starfsemi í húsinu umfram rekstur skrifstofuhúsnæðis sem þar sé fyrir. Áréttað sé að breyting á deiliskipulagi sé ekki háð samþykki annarra eigenda.

Fyrirliggjandi eignaskiptayfirlýsing fyrir Bíldshöfða 18 geri ráð fyrir skrifstofum í eignarhluta kærenda. Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, mál nr. 115/2015, hafi verið talið að fjölgun hótelherbergja um 16 fæli ekki í sér meiri umferðaraukningu en búast mætti við á skilgreindu þéttbýlissvæði. Í aðalskipulagi sé almennt viðmið um fjölda bílastæða fyrir verslunar- og skrifstofuhúsnæði á umræddu svæði eitt bílastæði á hverja 35 m2. Þegar um annað atvinnuhúsnæði sé að ræða en verslunar- og skrifstofuhúsnæði geri aðalskipulagið ráð fyrir einu bílastæði á hverja 50 m2 á umræddu svæði. Aðalskipulagið geri því ráð fyrir að skrifstofu- og verslunarhúsnæði útheimti töluvert fleiri bílastæði en annars konar atvinnuhúsnæði á borð við gistiheimili. Þannig verði ekki séð að gistiheimili muni auka við þann bílastæðavanda sem þegar sé til staðar.

Með bréfi, dags. 20. desember 2016, hafi skipulagsfulltrúi tekið jákvætt í að heimila að láta vinna drög að deiliskipulagsbreytingu fyrir Bíldshöfða 8-18 til að heimila gististaði í flokki I-III. Áður hafi verið rekið gistiheimili á þróunarsvæði Þ89 við Viðarhöfða 2a og í dag sé rekið sambýli að Viðarhöfða 2 þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir íbúðabyggð eða hótelum á svæðinu. Þó svo að Bíldshöfði 18 sé á svokölluðu þróunarsvæði liggi fyrir fordæmi fyrir rekstri gistiheimilis og sambýlis, enda samræmist slík starfsemi stefnu sveitarfélagsins um að færa miðborgarstarfsemi til austurs.

Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir þróunarsvæði Þ89, miðsvæði M4b, segi að nánari upplýsingar um uppbyggingu og þróun svæðisins sé að finna í kaflanum Borgin við Sundin, um þróunarásinn Örfirisey-Keldur. Í þeim kafla sé Bíldshöfði á svokölluðu þéttingarsvæði, blönduð byggð. Eitt helsta markmið sveitarfélagsins sé að þróa miðborgarstarfsemi til austurs. Þá sé lögð áhersla á hjólastíga og greiðar og þægilegar leiðir fyrir gangandi vegfarendur á svæðinu. Í stefnu sveitarfélagsins sé gert ráð fyrir þéttri blandaðri byggð. Þó svo að Bíldshöfði 18 sé á þróunarsvæði verði ekki séð hvernig breytt deiliskipulag, eins og kærendur hafi lagt til, fari gegn þeirri stefnu sem sveitarfélagið hafi sett með gildandi aðalskipulagi, en rekstur gistiheimilis falli óumdeilanlega undir miðborgarstarfsemi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að það hafi verið mat skipulagsfulltrúa að ekki væri hægt að samþykkja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi í ljósi andstöðu mikils meirihluta eigenda fasteignarinnar að Bíldshöfða 18. Þrátt fyrir að ekki sé að finna ákvæði í skipulagslögum nr. 123/2010, sem beinlínis setji því skorður að hægt sé að verða við beiðni um breytingar á deiliskipulagi þegar samþykki allra meðeigenda liggi ekki fyrir, sé litið svo á að ekki sé æskilegt að verða við slíkum óskum skorti samþykki meðlóðarhafa fyrir tillögum um breytingar. Verði skipulagsyfirvöld í slíkum tilvikum að líta til afstöðu annarra lóðarhafa sem mótfallnir séu breytingunni. Áskilnaður um samþykki meðlóðarhafa eigi sér einnig stoð í 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, en um sé að ræða breytingu á nýtingu lóðarinnar frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í upphafi. Verði enn fremur að telja að ákvörðun um að breyta hagnýtingu lóðarinnar verði að taka á húsfundi samkvæmt fjöleignarhúsalögum, en svo hafi ekki verið gert að því best sé vitað. Samkvæmt eignaskiptasamningi séu kærendur einungis eigendur að litlum hluta lóðarinnar, eða tæplega 8%, og sé það ekki í samræmi við ákvæði fjöleignahúsalaga að lítill hluti eigenda geti knúið í gegn skipulagsbreytingar sem kunni að snerta hagsmuni annarra lóðarhafa gegn eindregnum mótmælum þeirra. Þá megi enn fremur benda á að breyting á nýtingu í gistiheimili kalli án efa á byggingarleyfisskyldar framkvæmdir, m.a. á sameign, en í tillögunni sé gert ráð fyrir að heimilt sé að fara með þakkanta, skyggni, skýli, svalir, stiga og lyftur út fyrir byggingarreit. Auk þess sé um breytingar að ræða varðandi girðingar á lóðarmörkum og vandséð að þær fengjust samþykktar í ljósi andstöðu mikils meirihluta meðeigenda.

Því sé enn fremur hafnað að ekki hafi verið gætt að andmæla- og upplýsingarétti. Dagsetning umsagnar skipulagsfulltrúa sé til komin vegna mistaka, en verkefnisstjóra hafi láðst að tilgreina rétta dagsetningu á umsögninni í stað þeirrar sem fyrir hafi verið á vinnuskjali sem síðar hafi orðið að umsögn. Þegar umsókninni hafi verið vísað til umsagnar verkefnisstjóra hjá skipulagsfulltrúa á fundi skipulagsfulltrúa 1. september 2017 hafi fyrrnefnt bréf annars kærenda þessa máls, dags. 30. ágúst s.á., legið fyrir í gögnum málsins. Enn fremur hafi það verið lagt fram á fundinum. Því hafi ekki verið búið að vinna neina umsögn í málinu 28. ágúst s.á., eins og dagsetning gefi til kynna. Ekki hafi þótt sérstök ástæða til að fjalla um eða svara bréfinu, enda hafi það borist eftir að fresti til athugasemda lauk. Við afgreiðslu málsins í umhverfis- og skipulagsráði hafi umrætt bréf einnig verið lagt fram og ráðið þannig upplýst um tilvist þess. Meðferð tillögunnar og afgreiðsla málsins hafi því að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Tillagan hafi verið auglýst, innsendar athugasemdir teknar til umfjöllunar lögum samkvæmt og ákvörðun um synjun tillögunnar tekin af umhverfis- og skipulagsráði en ekki skipulagsfulltrúa.

Skipulagsfulltrúi hafi enn fremur ekki talið æskilegt að setja fordæmi fyrir rekstri gistiheimila á svæðinu að svo stöddu fyrr en búið væri að vinna heildarstefnu fyrir nýtingu svæðisins. Samkvæmt skipulagslögum sé vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Í skipulagsáætlunum sé sett fram stefna skipulagsyfirvalda um þróun byggðar og landnotkun og teknar ákvarðanir um samgöngur og mannvirki sem þeim tengist. Sveitarstjórnum sé því gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags, en við beitingu þess valds beri þeim þó að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð séu í 1. gr. þeirra, m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Sveitarstjórnir séu enn fremur bundnar af lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, er feli m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt sé til að ná þeim markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafi sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað. Einstakir aðilar geti óskað eftir því við sveitarstjórn að deiliskipulagi sé breytt, en eiga þó almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda. Það sé vissulega rétt að skipulagsyfirvöld hafi verið jákvæð gagnvart því að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina en aðilar geti þó ekki tekið því sem sjálfgefnu að auglýstar breytingar verði samþykktar.

Varðandi tilvísun kærenda til sambýlis að Viðarhöfða 2 þá telji borgaryfirvöld það mál ekki vera sambærilegt, enda annað deiliskipulag í gildi þá. Árið 2000 hafi verið sótt um að fá að breyta skrifstofuhúsnæði á 2. hæð á lóðinni nr. 2 við Viðarhöfða í útleiguherbergi. Samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 hafi Viðarhöfði 2 verið á athafnasvæði með blandaðri landnotkun. Þar hafi mátt gera ráð fyrir félagsheimilum, hótelum og veitingastöðum. Samkvæmt aðalskipulaginu hafi mátt í jaðri athafnasvæða og íbúðarsvæða gera ráð fyrir íbúðum á efri hæðum atvinnubygginga ef aðstæður leyfðu. Hafi því breyting í gistiheimili þótt samræmast landnotkun svæðisins á þeim tíma.

Á árinu 2009 hafi svo verið auglýst breyting á deiliskipulagi Ártúnshöfða eystri vegna breytingu á nýtingu 3. hæðar Viðarhöfða 2 í sambýli. Með tillögunni hafi fylgt samþykki allra meðlóðarhafa. Í umsögn skipulagsfulltrúa vegna fyrirspurnarinnar hafi komið fram að um væri að ræða íbúðarhúsnæði/sambýli á svæðinu sem samkvæmt þágildandi aðalskipulagi hafi verið skilgreint sem miðsvæði. Þar sem aðstæður hafi leyft hafi mátt gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, sérstaklega á efri hæðum bygginga. Í gildandi deiliskipulagi hafi aftur á móti ekki verið gert ráð fyrir frekari fjölgun íbúða á svæðinu. Framangreind tillaga að deiliskipulagsbreytingu hafi þó aldrei tekið gildi. Samkvæmt núgildandi aðalskipulagi sé Viðarhöfði settur undir sömu skilmála og Bíldshöfði 18. Hvað varði þá málsástæðu að það sé stefna í aðalskipulaginu að færa gististarfsemi til austurs þá geti sú stefna ein og sér aldrei leitt til þess að verða beri við öllum óskum um slíkt, enda verði ávallt að líta til þeirra skilmála er gildi um viðkomandi svæði.

Niðurstaða: Lóð nr. 18 við Bíldshöfða er staðsett á svokölluðu þróunarsvæði Þ89 Höfðar-Vogur í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Svæðið er skilgreint sem miðsvæði, M4b, og um svæðið segir í aðalskipulaginu: „Fyrst og fremst gert ráð fyrir rýmisfrekum verslunum, heildsölum og skrifstofum. Léttur iðnaður og verkstæði eru leyfð. Að öllu jöfnu er ekki gert ráð fyrir gistiheimilum eða hótelum nema það sé sérstaklega tilgreint í deiliskipulagi.“ Í gildandi deiliskipulagi Ártúnshöfða frá árinu 1999 er ekki tilgreint sérstaklega hvaða starfsemi er leyfileg á lóðinni. Í tillögu kæranda að breytingu á deiliskipulagi fólst m.a. að leyfð yrði fjölbreytt blönduð atvinnustarfsemi í mannvirkjum á lóðinni, þ. á m. í formi gististaða í flokki I-III.

Sveitarfélagi er falið víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags, líkt og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga og er það í valdi sveitarstjórnar að samþykkja deiliskipulag, sbr. 40. til 42. gr. laganna. Gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Getur landeigandi óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað skv. 2. mgr. 38. gr. sömu laga, en ekki verður talið að landeigandi eigi lögvarða kröfu á grundvelli nefnds ákvæðis til þess að knýja á um breytingu á deiliskipulagi. Aftur á móti ber sveitarstjórn við meðferð slíkra tillagna að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar. Hin kærða ákvörðun var studd þeim rökum að vegna mótmæla lóðarhafa Bíldshöfða 18 lægi ljóst fyrir að ekki myndi nást samþykki meðlóðarhafa fyrir fyrirhuguðum breytingum, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Einnig var ekki talið æskilegt að setja fordæmi fyrir gistiheimili á svæðinu fyrr en búið yrði að vinna heildarstefnu um nýtingu þess.

Skipulagsvald sveitarstjórna er tæki þeirra til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Verður almennt að búast við því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema að nauðsyn beri til. Þá er í skipulagslögum kveðið á um að kynning og samráð eigi sér stað við gerð deiliskipulags, sbr. 40. gr., og að afstaða skuli tekin til athugasemda sem borist hafi, sbr. 3. mgr. 41. gr. laganna. Með hliðsjón af þessu verður það ekki talið ómálefnalegt af hálfu borgaryfirvalda að líta m.a. til þess að mikill meirihluta lóðarhafa umræddrar lóðar lýstu sig andvíga umsóttum breytingum á landnotkun. Skiptir hér ekki máli þótt samþykki meðeigenda skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga sé ekki gert að skilyrði fyrir breytingu á deiliskipulagi í skipulagslögum. Þótt áður hafi verið rekið gistiheimili á þróunarsvæði Þ89 og nú sé þar rekið sambýli að Viðarhöfða 2 verður að líta til þess að þrátt fyrir jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að við úrlausn mála skuli stjórnvald gæta samræmis og jafnræðis, getur verið réttlætanlegt til að ná fram skipulagsmarkmiðum að afgreiða sambærileg tilvik með ólíkum hætti. Verður ekki annað séð en að jafnræðis hafi verið gætt við töku hinnar kærðu ákvörðunar.
Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu jafnframt á því að andmæla- og upplýsingarréttar þeirra hafi ekki verið gætt þar sem niðurstaða skipulagsfulltrúa hafi legið fyrir 28. ágúst 2017, en annar kærenda þessa máls hafi komið að athugasemdum 30. ágúst s.á. Í embættisafgreiðslu skipulagsfulltrúa 1. september s.á. kemur fram að breytingartillögunni ásamt athugasemdum, þ. á m. athugasemdum annars kærenda frá 30. ágúst s.á., sé vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Með hliðsjón af þessu og þeim skýringum sem fram hafa komið af hálfu Reykjavíkurborgar að þessu leyti sýnist ljóst að um misritun á dagsetningu í niðurstöðu skipulagsfulltrúa var að ræða og að í henni hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem annar kærenda kom að. Verður því ekki fallist á að andmæla- og upplýsingaréttur kærenda hafi verið fyrir borð borinn við meðferð málsins.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 28. september 2017 um að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða vegna lóðarinnar Bíldshöfða 18.

121/2017 Birkigrund

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 13. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2017, kæra vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 20. september 2017 um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á lóðamörkum Birkigrundar 12 og 14. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 11. október 2017, er barst nefndinni 12. s.m., kærir eigandi, Birkigrund 14, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 20. september 2017 að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á lóðamörkum Birkigrundar 12 og 14. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 25. október 2017.

Málavextir: Hinn 24. júní 2016 sendi embætti byggingarfulltrúans í Kópavogsbæ bréf til lóðarhafa Birkigrundar 12 og afrit þess til lóðarhafa Birkigrundar 14. Bréfið varðaði deilu lóðarhafa um grindverk á lóðamörkum. Í bréfinu kom fram að samkvæmt 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 væri girðing eða skjólveggur á mörkum lóða alltaf háður samþykki beggja lóðarhafa óháð hæð girðingar eða skjólveggjar. Af því leiddi að allar þegar hafnar framkvæmdir á lóðamörkum sem ekki hefðu verið samþykktar af báðum lóðarhöfum væru óheimilar og þyrfti því að færa lóðirnar aftur í fyrra horf. Sáttafundur vegna deilunnar var haldinn 12. ágúst 2016 með starfsmönnum Kópavogsbæjar en án árangurs.

Byggingarfulltrúi sendi lóðarhafa Birkigrundar 12 bréf, dags. 7. febrúar 2017, og afrit þess til lóðarhafa Birkigrundar 14 vegna kvörtunar sem borist hafði frá kæranda vegna timburpalls og skjólveggjar sem byggður hafði verið á lóðamörkum. Þar kom fram að vettvangsskoðun starfsmanna byggingarfulltrúa hefði leitt í ljós að undirstöður vegna þessara framkvæmda næðu inn á lóð Birkigrundar 14. Áréttaði byggingarfulltrúi það sem fram hafði komið í bréfi hans, dags 24. júní 2016, um að samþykki beggja lóðarhafa hefði þurft áður en hafist var handa við framkvæmdina, sbr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð. Jafnframt benti hann á að samkvæmt gr. 2.3.5. í reglugerðinni mætti pallur úr brennanlegu efni ekki vera nær mörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m. Byggingarfulltrúi hvatti deiluaðila til að ná samkomulagi og tók fram að annars yrði að fjarlægja skjólveggi og timburpalla sem ekki uppfylltu fyrrgreind ákvæði gr. 7.2.3. og 2.3.5.

Hinn 4. september 2017 barst kæra frá fasteignareigendum Birkigrundar 14 til úrskurðarnefndarinnar þar sem farið var fram á að framkvæmdir á lóðamörkum yrðu stöðvaðar af þeirri ástæðu að þær brytu í bága við byggingarreglugerð og að ekki hefði verið veitt samþykki fyrir þeim. Erindið var framsent byggingaryfirvöldum Kópavogsbæjar 14. september s.á. þar sem kæruefnið ætti undir embætti byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi hafnaði kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða vegna umdeildra framkvæmda og tilkynnti honum þær málalyktir með bréfi, dags. 20. september 2017.

Málsrök kæranda: Kærandi álítur að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar hafi ekki fylgt eftir ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 122/2012, svo sem honum hafi verið skylt að gera, er hann synjaði beitingu þvingunarúrræða. Samkvæmt bréfi, dags. 7. febrúar 2017, hafi starfsmenn byggingarfulltrúa staðfest eftir vettvangsskoðun að undirstöður framkvæmda lóðarhafa Birkigrundar 12 næðu inn á lóð Birkigrundar 14. Jafnframt hafi þar verið tiltekið að pallur úr brennanlegu efni mætti ekki vera nær mörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m til að vera undanþeginn byggingarleyfi.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er tekið fram að hvorki hafi verið gefið út byggingarleyfi né um það sótt. Byggingarfulltrúi sjái um eftirlit með mannvirkjagerð og geti t.a.m. stöðvað framkvæmdir ef byggt sé á annan hátt en leyfi standi til. Í 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sé byggingarfulltrúa veitt heimild til að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 42/2016 komi fram að ákvörðun um beitingu umræddra þvingunaraðgerða sé háð frjálsu mati stjórnvaldsins hverju sinni. Í frumvarpi sem orðið hafi að mannvirkjalögum komi fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðisins sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verði fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim sem búi að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Einstaklingum sé hins vegar ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða, enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja einstaklingsbundna hagsmuni sína.

Starfsmenn embættis byggingarfulltrúa hafi farið á staðinn og skoðað aðstæður. Ekki hafi verið að sjá að umræddur skjólveggur hefði áhrif á umferðaröryggi, væri hættulegur heilsu eða hefði veruleg áhrif á skipulag svæðisins. Því væri ekki að sjá að gengið væri svo verulega gegn almannahagsmunum að réttlæta hefði mátt beitingu íþyngjandi þvingunarúrræða í málinu.

———-

Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum og sjónarmiðum sínum vegna kærumálsins en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogsbæ að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á lóðamörkum Birkigrundar 12 og 14. Sú ákvörðun byggingarfulltrúa er kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 8. gr. laga um mannvirki fer byggingarfulltrúi með eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi og er m.a. tekið fram í gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að byggingarfulltrúi skuli grípa til viðeigandi aðgerða samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar og 10. kafla mannvirkjalaga sé framkvæmd ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög, reglugerðir og byggingarlýsingu. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga getur byggingarfulltrúi stöðvað framkvæmdir ef byggt er án þess að leyfi sé fengið fyrir framkvæmdinni eða ef ekki er að öðru leyti fylgt eftir ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar er samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er að finna heimild fyrir byggingarfulltrúa til að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Þá heimilar 56. gr. byggingarfulltrúa að krefjast úrbóta að viðlögðum dagsektum. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð frjálsu mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða gagnvart þriðja aðila vegna einstaklingshagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja slíka hagsmuni.

Kópavogsbær rökstuddi synjun um beitingu þvingunarúrræða með þeim hætti að ekki væri að sjá að skjólveggurinn gengi svo verulega gegn almannahagsmunum að réttlæta mætti beitingu íþyngjandi þvingunarúrræða. Hvorki væri að sjá að hann drægi úr umferðaröryggi, væri hættulegur heilsu fólks né að hann hefði veruleg áhrif á skipulag svæðisins. Verður ekki annað séð en að það mat byggingarfulltrúa, að ekki væri tilefni til að beita þvingunarúrræðum, sé stutt efnisrökum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 20. september 2017 um að synja beiðni kæranda um beitingu þvingunarúrræða vegna framkvæmda á lóðamörkum Birkigrundar 12 og 14.

101/2017 Faxabraut

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 13. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2017, kæra á ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss um að heimila nýtingu lóðarinnar að Faxabraut 8, Ölfusi, undir heyrúllur. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Faxabrautar 6, Ölfusi, þá ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss að heimila nýtingu lóðarinnar að Faxabraut 8 undir heyrúllur. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðun um þá ráðstöfun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 4. október 2017.

Málavextir: Lóðin að Faxabraut 8 er staðsett á hesthúsasvæði í Þorlákshöfn og er í eigu Sveitarfélagsins Ölfuss. Bæjaryfirvöld heimiluðu Hestamannafélaginu Háfeta að nýta lóðina undir heyrúllur og geymslu á kerrum. Hinn 15. ágúst 2017 sendi kærandi Skipulagsstofnun bréf með ábendingu um að ráðstöfun sveitarfélagsins á lóðinni væri í ósamræmi við byggingarsamþykktir og skipulag sveitarfélagsins.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst telja að bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss þverbrjóti reglur um byggingarsamþykktir með því að heimila að settar séu heyrúllur á lóðina Faxabraut 8, sem sé hesthúsalóð í hesthúsahverfinu samkvæmt byggingarsamþykktum. Fer kærandi fram á að þetta verði leiðrétt og að bæjarstjórninni verði gert að fara eftir samþykktu skipulagi og úthluta annarri lóð undir heyrúllurnar í samræmi við byggingarsamþykktir og skipulag sveitarfélagsins.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: 
Af hálfu sveitarfélagsins er bent á unnið hafi verið deiliskipulag fyrir hesthúsahverfið í samvinnu við Hestmannafélagið Háfeta. Ekki sé á döfinni að gera nýtt rúllustæði, líkt og deiliskipulag geri ráð fyrir, á meðan hægt sé að nota önnur svæði. Þess sé gætt að heyrúllur séu ekki nær næstu húsum heldur en Brunavarnir Árnessýslu heimili, eða í 10 m fjarlægð. Þeir aðilar sem hafi fengið úthlutað lóðunum nr. 8 og 10 við Faxabraut hafi skilað þeim aftur til sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hafi heimilað hestamannafélaginu að nýta lóðirnar undir heyrúllur og geymslu á kerrum, enda verði það gert snyrtilega og fylgt reglum hestamannafélagsins um umgengni.

Niðurstaða: Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Slíkar stjórnvaldsákvarðanir verða jafnframt að binda endi á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Lóðin að Faxabraut 8 er í eigu Sveitarfélagsins Ölfuss og fyrir liggur að sveitarfélagið hefur heimilað Hestamannafélaginu Háfeta að geyma þar heyrúllur og kerrur. Samkvæmt upplýsingum frá skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins hafði kærandi átt í samskiptum annars vegar við Brunavarnir Árnessýslu, vegna nálægðar heyrúlla við hesthús hans, og hins vegar við fyrrverandi bæjarstjóra sveitarfélagsins, um að ráðstöfunin væri ekki í samræmi við deiliskipulag, en ekki liggur fyrir hvenær þau samskipti áttu sér stað. Verður ekki litið svo á að í nefndum samskiptum hafi falist beiðni um beitingu þvingunarúrræða á grundvelli 56. laga um mannvirki, þegar haft er í huga að slík úrræði geta verið íþyngjandi gagnvart þriðja aðila og haft lögfylgjur í för með sér. Verður af þeim sökum að liggja ótvírætt fyrir að skýr krafa hafi verið gerð um beitingu úrræðanna. Gögn málsins bera hvorki með sér að slík krafa hafi legið fyrir né að tekin hafi verið stjórnvaldsákvörðun af þar til bæru stjórnvaldi, sem feli í sér afstöðu til beitingar þvingunarúrræða á grundvelli laga um mannvirki. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

116 og 119/2018 Hafnarstétt

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 13. desember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2018, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 6. september 2018 um að óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skuli fjarlægðar og gengið frá röskuðu landi utan lóðamarka. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. september 2018, er barst nefndinni 18. s.m., kærir Gentle Giants – Hvalaferðir ehf., Túngötu 6, Húsavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 6. september 2018 að óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skuli fjarlægðar og gengið frá röskuðu landi fyrir 20. september s.m.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa frá 25. s.m. um að fjarlægja óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 á kostnað lóðarhafa.

Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að réttaráhrifum þeirra verði frestað á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður síðara kærumálið, sem er nr. 119/2018, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að kærunum. Er málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinna kærðu ákvarðana.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Norðurþingi 26. september og 8. október 2018.

Málavextir: Kærandi óskaði eftir leyfi 17. nóvember 2017 til að ganga frá svæði umhverfis húsið að Hafnarstétt 13 samkvæmt framlögðum teikningum. Þar sem beiðnin fól í sér frávik frá gildandi deiliskipulagi, m.a. vegna fyrirhugaðs veggjar yfir lóðarmörk, var erindið tekið fyrir í skipulags- og umhverfisnefnd 21. nóvember s.á. og samþykkt að lóðarfrágangur næði 2 m til norðurs frá húsvegg og 1 m til austurs frá stafni hússins. Ekki var fallist á beiðni um frágang lóðar til suðurs við lóðarmörk. Kærandi óskaði eftir endurskoðun á ákvörðuninni og var fyrri afgreiðsla málsins staðfest á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 13. desember s.á. Hinn 28. júní 2018 óskaði kærandi á ný eftir heimild til frágangs í samræmi við áður framlagða teikningu. Erindið var tekið fyrir í skipulags- og framkvæmdaráði 3. júlí 2018 og varð niðurstaðan sú að ekki var fallist á frágang samkvæmt teikningu við suður- og austurmörk lóðarinnar. Jafnframt var vísað til ákvarðana skipulags- og umhverfisnefndar frá 21. nóvember og 13. desember 2017.

Kærandi hóf framkvæmdir við hleðslu veggjar að Hafnarstétt 13 í ágúst 2018. Er byggingarfulltrúi fór í eftirlitsferð um framkvæmdasvæðið 17. s.m. taldi hann að byrjað væri að hlaða vegg utan við þau mörk sem sveitarfélagið hefði heimilað. Var það niðurstaða mælinga hans að veggurinn austan hússins næði rúmlega 1,7 m austur fyrir stafn, þ.e. 0,7 m umfram heimild, og að veggurinn norðan við húsið væri 2,35 m frá húsvegg, eða 0,35 m umfram það sem heimilað hafði verið. Tók byggingarfulltrúi ákvörðun um að stöðva verkið og sendi kæranda tölvupóst þess efnis sama dag. Kærandi mótmælti verkstöðvuninni og færði rök fyrir breyttri staðsetningu veggjarins með tölvupósti 18. ágúst s.á. Þar var tekið fram að bilið frá húsvegg að vegg austan við húsið væri 1,4 m, þar sem útilokað hefði verið að miða við 1 m vegna aðstæðna, og fyrir norðan húsið væru 2 m frá húsgafli í vegginn, þar sem þar hefði einnig þurft að stilla vegginn af m.t.t. lagna. Báðar aðgerðirnar hafi verið þaulskipulagðar m.t.t. til legu lagna o.fl. Yfirdrifið pláss væri utan við vegginn. Að lokum óskaði kærandi eftir afstöðu byggingarfulltrúa til legu veggjar sunnan hússins. Byggingarfulltrúi sendi kæranda tölvupóst 21. s.m. þar sem fram kom að hann féllist ekki á röksemdir kæranda fyrir færslu veggjarins og að kærandi hefði átt að hafa samráð við sveitarfélagið varðandi frávik. Ekki væri tilefni til afturköllunar á verkstöðvun. Var kærandi hvattur til að finna tíma til að ræða málið við byggingarfulltrúa og sveitarstjóra en málið yrði til umfjöllunar á næsta fundi skipulags- og framkvæmdaráðs hinn 28. s.m.

Byggingarfulltrúi óskaði eftir því við umhverfisstjóra að hann setti út nákvæma staðsetningu lóðarmarka Hafnarstéttar 13 samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi og var það gert 22. ágúst 2018. Að sögn byggingarfulltrúa kom þá í ljós að vinna væri hafin við undirbúning fyrir hleðsluvegg 0,55 m vestan við húsið, en ekki hefði verið sótt um leyfi fyrir þeirri framkvæmd. Var kæranda bent á þetta með tölvupósti sama dag og þess krafist að ekki yrði unnið áfram við vegginn í þeirri línu. Málið var rætt á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 28. ágúst 2018. Taldi meirihluti ráðsins brot kæranda þess eðlis að tilefni væri til að skipulags- og byggingarfulltrúi krefðist þess að óleyfisframkvæmdirnar yrðu fjarlægðar með vísan til 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Skipulags- og byggingarfulltrúi sendi kæranda bréf, dags 6. september 2018, þar sem vísað var til kröfu um verkstöðvun og tekið fram að ekki hefðu komið fram rök í málinu sem gæfu tilefni til að afturkalla verkstöðvunina. Framkvæmdirnar væru hvorki í samræmi við ákvæði deiliskipulags né þær heimildir sem skipulagsyfirvöld hefðu veitt kæranda. Að lokum var kæranda tilkynnt að með vísan til 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga færi skipulags- og byggingarfulltrúi fram á að óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 yrðu fjarlægðar og að gengið yrði frá röskuðu landi utan lóðarmarka til samræmis við það sem verið hefði áður en framkvæmdir hófust. Var þess krafist að búið yrði að fjarlægja hlaðna vegginn og ganga að öðru leyti snyrtilega frá svæðinu fyrir 20. s.m. Yrði ekki brugðist við með fullnægjandi hætti fyrir þann tíma eða um annað samið skyldi kærandi reikna með að sveitarfélagið léti vinna verkið á kostnað eiganda.

Kærandi óskaði eftir stöðuleyfi fyrir veggnum miðað við núverandi staðsetningu hans til næstu sex ára og var erindið tekið fyrir á skipulags- og framkvæmdaráðs 11. september 2018 þar sem beiðninni var hafnað. Jafnframt kom fram að meirihluti ráðsins teldi rétt að fara fram á að veggurinn yrði fjarlægður sem fyrst. Sendi skipulags- og byggingarfulltrúi kæranda bréf, dags. 17. september 2018. Þar kom fram að ekki hefðu borist skrifleg andmæli við bréfinu frá 6. s.m. og að ekki hefði verið brugðist við kröfu sveitarfélagsins um að óleyfisframkvæmdir yrðu fjarlægðar og gengið frá svæðinu. Var áréttuð krafa um að óleyfisframkvæmdirnar yrðu fjarlægðar án tafar. Jafnframt var hafnað beiðni um afturköllun ákvörðunarinnar þar sem ekki hefðu verið lögð fram nein gögn eða málsástæður sem réttlættu slíkt. Að lokum var áréttað að yrðu framkvæmdirnar ekki fjarlægðar fyrir 20. s.m., samið um annað eða embættinu borist skrifleg andmæli með öðrum sjónarmiðum eða nýjum gögnum sem leitt gætu til annarrar niðurstöðu, yrði tekin ákvörðun um að láta vinna verkið á kostnað lóðarhafa, sbr. 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga, án frekari viðvörunar.

Í bréfi lögmanns kæranda til sveitarfélagsins, dags. 18. september 2018, var vísað til afgreiðslu skipulags- og framkvæmdaráðs frá 11. s.m. varðandi beiðni um stöðuleyfi. Kom fram að kærandi teldi að framkvæmdin félli undir f-lið gr. 2.3.5. í byggingareglugerð nr. 112/2012 og væri því ekki háð byggingarleyfi samkvæmt mannvirkjalögum. Framkvæmdin rúmaðist innan þeirra leyfa sem veitt hefðu verið til framkvæmda á lóðinni, sbr. m.a. afgreiðslur skipulags- og umhverfisnefndar 21. nóvember og 13. desember 2017 og skipulags- og framkvæmdaráðs 3. júlí 2018. Engin gögn lægju fyrir um að framkvæmdin viki frá gildandi skipulagi og áður útgefnum leyfum og að því marki sem slík frávik kynnu að vera fyrir hendi væru þau óveruleg og rúmuðust innan gildandi skipulags og leyfa. Að lokum var óskað eftir rökstuddri ákvörðun ef sveitarfélagið teldi að um byggingarleyfisskylda framkvæmd væri að ræða eða að framkvæmdin samrýmdist ekki lögum. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til lögmanns kæranda, dags. 25. september 2018, var sú afstaða sveitarfélagsins ítrekuð að framkvæmdin væri utan lóðar kæranda og því háð samþykki sveitarfélagsins sem eiganda landsins. Þá væri framkvæmdin utan þess svæðis er sveitarfélagið hefði samþykkt að veggurinn yrði reistur á. Framkvæmdin væri byggingarleyfisskyld þar sem hún felli ekki undir undanþágu f-liðar gr. 2.3.5. í byggingareglugerð, auk þess sem óheimilt væri að breyta landhæð á lóðarmörkum án samþykkis sveitarfélagsins, sbr. e-lið sömu greinar. Frávikin frá samþykkt sveitarfélagsins væru veruleg í því umhverfi sem þarna væri og í raun óafsakanleg þar sem auðvelt væri að mæla út fjarlægðir. Þá var farið yfir gang málsins og með vísan til þess að staðreyndir málsins og sjónarmið aðila lægju fyrir teldi sveitarfélagið ekki þörf á frekari rannsókn þess. Fyrir lægi að umræddar óleyfisframkvæmdir hefðu ekki verið fjarlægðar. Að lokum var kæranda tilkynnt að með vísan til framangreinds, fyrirliggjandi gagna og fyrri samskipta myndi sveitarfélagið, án frekari viðvörunar, fjarlægja umræddan vegg utan lóðarmarka á kostnað kæranda með vísan til 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ákvörðunin hafi verið tekin án þess að málið hafi verið nægjanlega upplýst. Vísað sé til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunin hafi eingöngu verið reist á mælingum sem skipulags- og byggingarfulltrúi hafi framkvæmt að eigin sögn við vettvangsskoðun en engin önnur gögn liggi fyrir um þá skoðun. Þá sé óljóst hver lóðarmörkin séu samkvæmt deiliskipulagi og því ekki fullnægjandi að miða við þau mörk sem sveitarfélagið geri. Einnig hafi ákvörðunin verið tekin án þess að kæranda hafi verið gefin kostur á að tjá sig um efni hennar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Sveitarfélagið hafi ekki aflað gagna um grundvallaratriði málsins og kæranda ekki verið gefin kostur á að vera viðstaddur vettvangsathugunina. Það sé bæði þáttur í andmælarétti og rökstuðningsskyldu stjórnvalda að tekin sé afstaða til þeirra meginathugasemda og málsástæðna sem aðili færi fram. Kærandi hafi ítrekað bent sveitarfélaginu á að nauðsynlegt hafi verið að haga staðsetningu veggjarins með þeim hætti sem hann gerði en ómögulegt hafi verið að hafa vegginn á þeim stað sem sveitarfélagið krefjist. Hafi sveitarfélagið enga rökstudda afstöðu tekið til þessarar grundvallarmálsástæðu kæranda og því ekki uppfyllt skyldur sínar skv. 13., 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Jafnframt hafi rökstuðningurinn sem fylgt hafi ákvörðuninni verið haldinn verulegum annmörkum, en hann hafi ekki uppfyllt efniskröfur 22. gr. stjórnsýslulaga. Ákvörðunin sé reist á 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og í rökstuðningi hafi verið fullyrt að um óleyfisframkvæmd væri að ræða sem hvorki væri í samræmi við deiliskipulag né þau leyfi sem skipulagsyfirvöld hefðu veitt kæranda. Ekki hafi hins vegar verið gerð grein fyrir því að hvaða leyti umræddar framkvæmdir færu í bága við skipulagsáætlanir eða útgefin leyfi. Þannig hafi engin grein verið gerð fyrir því að samkvæmt niðurstöðu vettvangsathugunar skipulags- og byggingarfulltrúa væri veggurinn staðsettur annars vegar 1,7 m austur af húsinu og hins vegar 2,35 m norður af því. Þá hafi ekki verið vísað til þeirra afgreiðslna sveitarfélagsins sem framkvæmdirnar hafi verið taldar í ósamræmi við. Ekki sé fullnægjandi að upplýsingar um grundvallaratriði málsins komi einungis fram í tölvupóstum og fundargerðum sveitarfélagsins, sem ekki hafi fylgt ákvörðuninni. Ekki sé ljóst hvort sveitarfélagið líti svo á að veggurinn í heild sinni sé ólöglega staðsettur eða einungis hluti hans. Þá hafi ákvörðunin ekki verið í samræmi við meðalhófsreglu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Að engu leyti hafi verið gætt þeirrar skyldu sveitarfélagsins að kanna hvort vægari úrræði stæðu til boða m.t.t. fyrirliggjandi hagsmuna. Hafi borið að leggja rökstutt mat á það hvort unnt væri að ná þeim lögmætu markmiðum sem stefnt væri að með öðru og vægara úrræði, s.s. með því að gera breytingar á þykkt eða hæð veggjarins eða breyta honum með öðrum hætti. Engir hagsmunir krefjist þess að gripið sé til svo harkalegra aðgerða sem um ræði, en veggurinn fari að engu leyti inn á svæði í eigu annarra og skerði enga hagsmuni. Einungis sé um að ræða opið hafnarsvæði þar sem nóg sé af plássi og hinir umdeildu sentimetrar skipti engu máli fyrir ásýnd svæðisins, umferð eða annað. Jafnvel þótt litið yrði svo á að framkvæmdin færi út fyrir leyfð mörk sé um minniháttar frávik að ræða og framkvæmdin falli því undir f-lið gr. 2.3.5. í byggingareglugerð nr. 112/2012. Fjarlæging veggjarins vegna minniháttar annmarka sé bersýnilega ekki í samræmi við kröfur um meðalhóf. Jafnframt sé vísað til 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga varðandi hæfi til meðferðar máls. Málsaðili eigi ekki að þurfa að búa við óvissu um hvort þeir starfsmenn og kjörnu fulltrúar sem fari með opinbert vald séu óhlutdrægir í málinu, en kærandi telji sig búa við slíka óvissu. Þá bendi kærandi á að veggurinn sem hinar kærðu ákvarðanir sveitarfélagsins lúti að hafi ekki verið reistur á grundvelli deiliskipulagsins heldur á grundvelli sérstakrar undanþágu frá þeim heimildum sem sveitarfélagið hafi veitt kæranda. Þá megi benda á ýmsar aðrar framkvæmdir í Norðurþingi sem hafi fengið aðra meðferð en viðhöfð sé í máli þessu.

Málsrök Norðurþings:
 Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að kærandi hafi reist vegg utan lóðar í ósamræmi við það sem sveitarfélagið hafi samþykkt og megi sannreyna það með einföldum mælingum. Hin kærða ákvörðun sé byggð á stærð lóðar kæranda samkvæmt hnitasettum lóðaruppdrætti, skýrum afgreiðslum skipulagsyfirvalda um afmörkun framkvæmda, mælingum byggingarfulltrúa á frávikum og ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010. Þá liggi fyrir GPS-mælingar mælingarmanns sveitarfélagsins um staðsetningu veggjarins og séu þær í samræmi við mælingar kæranda sjálfs. Hefði kærandi talið að einhver málefnaleg sjónarmið stæðu til þess að breyta legu veggjarins hefði honum borið að sækja um það áður en hann réðist í framkvæmdir í andstöðu við ítrekaðar samþykktir sveitarfélagsins.

Þegar sett hafi verið fram krafa um stöðvun verksins hafi skýrlega verið kallað eftir sjónarmiðum kæranda varðandi lögmæti framkvæmda og verkstöðvunar og óskað eftir fundi með honum. Byggingarfulltrúi hafi ásamt sveitarstjóra fundað með kæranda 6. september 2018 þar sem staða málsins hafi verið rædd en ekki hafi fundist sameiginlegur flötur á lyktum þess. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa sama dag hafi kæranda því verið gefinn ríflegur tími til að fjarlægja vegginn og honum jafnramt tilkynnt að vænta mætti ákvörðunar um að veggurinn yrði að öðrum kosti fjarlægður af sveitarfélaginu á kostnað hans. Andmæli og sjónarmið kæranda, auk málavaxta, hafi því legið fyrir og viðurkennt hafi verið að veggurinn hafi ekki verið reistur á þeim stað sem sveitarfélagið hefði samþykkt. Krafa um að veggurinn yrði fjarlægður hafi verið áréttuð með bréfi sveitarfélagsins 17. september 2018 og hafi kærandi andmælt því að sveitarfélagið réðist í brottnám veggjarins með bréfi 18. s.m. Því bréfi hafi verið svarað 25. s.m. og kæranda tilkynnt að sveitarfélagið áskildi sér rétt til að fjarlægja framkvæmdirnar án frekari fyrirvara. Kærandi hafi ekki bent á nein atriði sem ekki hafi legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin um að veggurinn skyldi fjarlægður, sem hann hafi ekki getað komið að áður eða hefðu getað haft áhrif á ákvörðunina. Hafi  því verið gætt andmælaréttar kæranda við meðferð málsins.

Því sé mótmælt að verulegir annmarkar hafi verið á ákvörðuninni og að rökstuðningi hennar hafi verið áfátt. Í málinu hafi legið fyrir skýr gögn, þ.m.t. frá kæranda sjálfum, um að framkvæmdin væri ekki á þeim stað sem samþykkt hefði verið. Þá sé því hafnað að ekki hafi verið gætt meðalhófs í málinu. Líta verði til málsins í heild en það eigi sér langa forsögu. Til þess að koma til móts við sjónarmið kæranda og auka athafnarými hans, á kostnað almannarýmis og hagsmuna annarra húseigenda á svæðinu, hafi verið fallist á að leyfa honum að setja upp vegg utan lóðar á svæði sveitarfélagsins. Frávikin frá heimilaðri staðsetningu séu óafsakanleg og veruleg í því umhverfi sem þarna sé, sérstaklega þar sem mjög einfalt sé að setja vegginn nákvæmlega rétt út. Sé því mótmælt að sveitarfélagið hafi brotið gegn meðalhófi með því að gera kæranda að setja vegginn á réttan stað m.t.t. hagsmuna sveitarfélagsins og almennings. Þá hafi kæranda verið gefin kostur á að lagfæra framkvæmdirnar sjálfur en hann hafi kosið að gera það ekki. Ekki sé hægt að setja það fordæmi að með því að brjóta gegn ítrekuðum samþykktum sveitarfélagsins komist aðilar upp með slíka háttsemi á þeim forsendum að þeir hafi lagt í kostnað við ólögmætar framkvæmdir. Vægari úrræði en að færa vegginn á réttan stað séu ekki tæk að mati sveitarfélagsins. Hagsmunir kæranda séu ekki ríkari en sveitarfélagsins, en veggurinn sé staðsettur langt inni á landi þess án heimildar. Staðsetningin þrengi að umferð og gangi á almenningsrými og almannahagsmuni. Einnig felist almannahagsmunir í því að tekið sé með afgerandi hætti á tilvikum sem þessum, þ.e. þegar borgarar fara vísvitandi eða af gáleysi út fyrir þær heimildir sem þeim séu veittar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 6. september 2018 um að hlaðinn steinveggur utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skuli fjarlægður og gengið frá röskuðu landi og lögmæti ákvörðunar hans frá 25. s.m. um fjarlægja skuli nefndan vegg á kostnað lóðarhafa.

Samkvæmt mælingum sveitarfélagsins er ytri brún umrædds veggjar 2,33 m frá norðurhlið hússins að Hafnarstétt 13 og 1,74 m frá austurhlið þess. Kærandi hefur staðfest að innri brún veggjarins sé 2,0 m frá húsvegg norðan megin og 1,4 m frá húsvegg austan megin. Samkvæmt mælingum sveitarfélagsins er veggurinn 0,33 m á þykkt og verður ekki séð að kærandi hafi sérstaklega andmælt þeirri mælingu. Virðist því óumdeilt hversu langt hinn umdeildi veggur er frá húsvegg.

Samkvæmt deiliskipulagi miðhafnarsvæðis Húsavíkur, er tók gildi árið 2017 og tekur til umræddrar lóðar, eru mörk hennar 1,0 m frá norðurhlið hússins og 0-0,5 m frá austurhlið þess. Umdeildur veggur er því alfarið staðsettur utan marka lóðarinnar og allur inni á landi sveitarfélagsins. Hinn 21. nóvember 2017 heimilaði skipulags- og umhverfisnefnd að frágangur á lóðinni mætti ná 2 m í norður frá húsvegg og 1 m til austurs frá stafni hússins. Sú afgreiðsla var staðfest af skipulags- og umhverfisnefnd 13. desember s.á. og í skipulags- og framkvæmdaráði 3. júlí 2018. Því er ljóst að innri brún veggjarins er a.m.k. að hluta til utan samþykktra marka. Ytri brún veggjarins er hins vegar öll utan heimilaðrar staðsetningar. Veggurinn er því hvorki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins né áðurgreinda samþykkt skipulags- og umhverfisnefndar Norðurþings og er því um óleyfisframkvæmd að ræða. Var byggingarfulltrúa því heimilt að ákveða að hið ólöglega mannvirki skyldi fjarlægt og jarðrask afmáð, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, enda ljóst að sveitarfélagið var ekki tilbúið að veita kæranda frekari heimildir til að byggja utan lóðarmarka og inn á land sveitarfélagsins.

Ekki verður séð að rannsókn málsins hafi verið áfátt af hálfu byggingarfulltrúa eða að brotið hafi verið gegn andmælarétti kæranda við meðferð þess, enda var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum, sem og hann gerði. Þá verður heldur ekki fallist á að rökstuðningi fyrir ákvörðuninni hafi verið áfátt eða að ekki hafi verið gætt meðalhófs, þegar höfð er hliðsjón af málsatvikum.

Varðandi mögulegt vanhæfi í máli þessu getur eingöngu hæfi byggingarfulltrúa komið til skoðunar þar sem honum er falið lögum samkvæmt að taka ákvarðanir um beitingu þvingunarúrræða, sbr. 55. gr. laga um mannvirki. Ekki liggur annað fyrir en að ágreiningur aðila snúist um efnisleg álitamál á sviði skipulags- og byggingarmála. Verður ekki séð á sá ágreiningur snerti persónulega hagsmuni byggingarfulltrúa eða náinna vandamanna hans heldur er um að ræða beitingu úrræða til gæslu almannahagsmuna sem eiga sér skýra lagastoð. Þá verður ekki af málsframvindu ráðið neitt það sem renni stoðum undir ályktun um að óvild hafi ráðið för gagnvart kæranda við hinar kærðu ákvarðanir. Eins og rakið er í málavaxtalýsingu voru mikil samskipti milli kæranda og yfirvalda sveitarfélagsins vegna umdeilds veggjar er leiddu til þess að kæranda var heimilað að reisa vegginn að hluta til utan lóðar á landi sveitarfélagsins. Að þessu virtu verður ekki séð að byggingarfulltrúi hafi verið vanhæfur við töku hinna kærðu ákvarðana skv. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Kærandi hefur bent á ýmsar aðrar framkvæmdir í Norðurþingi sem hann telur að hafi fengið aðra meðferð hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum en viðhöfð hafi verið í hans tilviki. Hvað sem þessum leyfisveitingum líður geta þær ekki veitt kæranda rétt til að reisa mannvirki utan lóðar sinnar á landi sveitarfélagsins án þess leyfis, en slíkt leyfi hefur hann ekki fengið.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinna kærðu ákvarðana sem raskað geta gildi þeirra og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Norðurþings frá 6. september 2018 um að óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skuli fjarlægðar og gengið frá röskuðu landi utan lóðarmarka.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Norðurþings frá 25. september 2018 um að fjarlægja skuli óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 á kostnað lóðarhafa.

125/2017 Hornbrekkubót

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 13. desember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 125/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 13. september 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Hornbrekkubót, Ólafsfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimnes Hótel ehf., Bylgjubyggð 2, Ólafsfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 13. september 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Hornbrekkubót, Ólafsfirði, sem fól í sér breytta legu göngustígs á svæðinu. Er þess krafist að stígurinn verði ekki lagður á leigulandi kæranda. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjallabyggð 16. október 2017.

Málavextir: Kærandi gerði samning við Ólafsfjarðarbæ 19. júní 1998 um afnotarétt af landi þar sem m.a. var vísað til deiliskipulags sem unnið hefði verið af svæðinu, en 18. s.m. hafði verið lögð fram í bæjarstjórn Ólafsfjarðar tillaga að deiliskipulagi fyrir Hornbrekkubót. Tillagan hlaut hins vega aldrei samþykki bæjarstjórnar og tók því ekki gildi. Hinn 24. febrúar 2012 tók gildi deiliskipulag fyrir Hornbrekkubót, sem mun hafa verið byggt á skipulagstillögunni frá 1998. Á fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar 13. september 2017 var staðfest samþykki skipulags- og umhverfisnefndar frá 11. s.m. varðandi breytingu á því deiliskipulagi, að undangenginni grenndarkynningu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kærandi gerði athugasemdir við tillöguna og var þeim svarað af hálfu sveitarfélagsins. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 28. september 2017.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting felur í sér að legu göngustígs innan svæðisins var breytt frá áðurgildandi skipulagi þannig að hann var færður nær Ólafsfjarðarvegi, en skyldi þó vera í a.m.k. 3-4 m fjarlægð frá veginum. Jafnframt var sett kvöð um trjágróður vestan við stíginn. Þá var göngubrú og göngustígur að henni felldur út.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann reki hótel og átta sumarbústaði sem standi við Ólafsfjarðarvatn á landi sem hann hafi afnotarétt af samkvæmt samningi við sveitarfélagið frá árinu 1998, er gildi til ársins 2097. Hagsmunir kæranda séu þeir að landið verði látið sem næst ósnert og að gangandi umferð verði haldið sem lengst frá sumarbústöðunum. Truflun sé af gangandi umferð sem takmarka mætti með því að leggja göngustíginn fjær bústöðunum. Jafnframt komi staðsetning göngustígsins í veg fyrir mögulega nýtingu kæranda á lóðinni í framtíðinni. Eðlilegra væri að stígurinn lægi upp við Ólafsfjarðarveg þar sem ná mætti því markmiði að auðvelda gangandi umferð um svæðið. Skiptir lega hans og fjarlægð frá vegi engu þar um. Stjórnvöldum beri að gæta meðalhófs við ákvarðanatöku af þessu tagi og velja það úrræði sem tryggi markmið framkvæmda, þannig að sem skemmst sé gengið gegn hagsmunum annarra, s.s. afnotaréttarhafa. Göngustígurinn þurfi ekki að vera 3-4 m frá vegbrún til að öryggis gangandi umferðar sé gætt, en lítil umferð sé um Ólafsfjarðarveg og leyfður hámarkshraði á þessum stað 50 km/klst. Jafnframt sé hafnað þeirri afstöðu Fjallabyggðar að gangbraut við veginn muni hafa neikvæð áhrif á upplifun íbúa og gesta, auk þess sem slíkir hagsmunir séu léttvægir miðað við hagsmuni kæranda í málinu. Vegna einkaafnotasamningsins sé sveitarfélaginu, óháð deiliskipulagi, óheimilt að framkvæma á svæðinu án samþykkis kæranda. Núverandi skipulag byggi á eldri hugmyndum um frekari göngustíga um svæðið, m.a. vegna tengingar við brú og við bryggju sem á svæðinu sé, og því þurfi ekki að miða legu göngustígar við slíkar tengingar heldur aðeins að gangandi umferð komist um svæðið á malbikuðum göngustíg. Þá hafi ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 ekki verið fylgt við setningu áðurgildandi deiliskipulags varðandi samráð við hagsmunaaðila, sbr. 40. gr. laganna. Einnig sé það fásinna að halda því fram að sveitarfélagið sé að einhverju leyti bundið af meintum vilja forsvarsmanna kæranda þegar vilji þeirra til hins gagnstæða sé nú skýr.

Málsrök Fjallabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að það hafi vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélagsins samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Við beitingu þess valds beri sveitarfélaginu að fylgja markmiðum skipulagslaga auk þess að fylgja lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Þá verði ákvörðun að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Að þessu gættu hafi sveitastjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi framangreindum reglum verið fylgt í hvívetna. Hin kærða ákvörðun sé hvorki haldin form- né efnisgöllum. Þá geti málsmeðferð sveitarfélagsins við gerð áðurgildandi deiliskipulags ekki komið til skoðunar nú, rúmum fimm árum eftir gildistöku þess. Jafnframt hafni sveitarfélagið því að málsmeðferðin hafi á einhvern hátt farið gegn ákvæðum skipulagslaga.

Skipulagsvald sveitarfélagsins sé óháð eignarhaldi á landi eða samningum um óbein eignarréttindi. Sveitarfélaginu sé því heimilt að breyta skipulagi hins umrædda svæðis óháð umræddum afnotaréttarsamningi, auk þess sem ágreiningur um óbein eignarréttindi verði ekki leystur fyrir úrskurðarnefndinni. Jafnframt sé vísað til 2. gr. afnotasamningsins þar sem fram komi að kærandi áformi að vinna svæðið samkvæmt deiliskipulagi sem hafi verið unnið fyrir það. Hafi samþykkt tillögunnar, sem m.a. hafi gert ráð fyrir göngustíg á svæðinu, verið forsenda fyrir gerð samningsins af hálfu kæranda samkvæmt nefndri grein. Þá segi í 3. gr. samningsins að göngustígur samkvæmt skipulagi liggi um svæðið og að kæranda sé óheimilt með öllu að leggja nokkrar hömlur á gangandi umferð um stíginn. Loks komi fram í 7. gr. samningsins að sveitarfélagið kosti göngustíga og hljóðmanir sem gerðar verði á svæðinu. Því sé ljóst að sveitarfélagið sé ekki að brjóta umræddan afnotaréttarsamning með því að leggja göngustíg með þeim hætti sem fyrirhugað sé, enda hafi ávallt verið gert ráð fyrir stíg um svæðið.

Í raun sé verið að minnka grenndaráhrif stígsins gagnvart uppbyggingarsvæði kæranda með því að færa stíginn fjær byggingarlóðunum, fella niður brú og ákveða að tré skuli gróðursett milli stígsins og vatnsins. Sveitarfélagið telji sig því hvorki þurfa sérstaka heimild frá kæranda fyrir skipulagsbreytingunni né þeim framkvæmdum sem sveitarfélagið hyggist ráðast í á grundvelli þess. Þá sé í deiliskipulaginu ekki gert ráð fyrir fleiri bústöðum á svæðinu og því geti hugsanleg fjölgun þeirra engin áhrif haft. Hafnað sé málsástæðu kæranda varðandi skort á meðalhófi. Í tillögu að deiliskipulagi frá 1998 og áðurgildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir göngustígnum meðfram Ólafsfjarðarvatni að austanverðu. Með deiliskipulagsbreytingunni hafi umræddur göngustígur verið færður töluvert fjær bústöðum kæranda miðað við deiliskipulagið frá 2012. Staða kæranda sé því betri en fyrir umdeilda deiliskipulagsbreytingu. Göngustígnum sé ætlað að tengja saman þéttbýli og dreifbýli í Ólafsfirði og efla útivist, en umræddur göngustígur sé vinsæl gönguleið meðal íbúa. Markmiðið með stígnum myndi ekki nást ef fallist hefði verið á kröfu kæranda varðandi það að gera stíginn að gangstétt meðfram Ólafsfjarðarvegi, auk þess sem eðlismunur sé á göngustíg og gangstétt meðfram götu. Ákvörðun um staðsetningu göngustígsins sé byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Þá hafi sveitarfélagið lagt sig fram við að leita sátta við kæranda. Til að koma til móts við sjónarmið kæranda hafi upphaflegri tillögu verið breytt áður en hún hafi verið lögð fram í bæjarráði 11. júlí 2017. Hafi m.a. verið ákveðið að gróðursetja trjágróður vestan við göngustíginn til þess að sjónlína gangandi vegfarenda yrði ekki beint á sumarbústaði kæranda. Samkvæmt þessu sé ljóst að ekki sé gengið á hagsmuni kæranda með deiliskipulagsbreytingunni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi fyrir Hornbrekkubót, þar sem er gert ráð fyrir að göngustígur samkvæmt áðurgildandi deiliskipulagi sé færður nær Ólafsfjarðarvegi og trjágróður gróðursettur vestan við stíginn.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breyting rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga, og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með breytingunni.

Í 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er tekið fram að hlutverk nefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum á því sviði. Ágreiningur um bein eða óbein eignarréttindi og túlkun samninga í því sambandi, svo sem um lóðarleiguréttindi, verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni, enda á slíkur ágreiningur eftir atvikum undir dómstóla. Ekki verður því tekin afstaða til heimildar sveitarfélagsins til framkvæmda á deiliskipulagssvæðinu á grundvelli afnotaréttarsamnings sveitarfélagsins og kæranda í máli þessu.

Áðurgildandi deiliskipulag fyrir Hornbrekkubót tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 24. febrúar 2012. Þar sem kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar er löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sætir það deiliskipulag ekki endurskoðun í máli þessu.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með grenndarkynningu í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, afgreidd af skipulags- og umhverfisnefnd að kynningu lokinni og staðfest í bæjarstjórn lögum samkvæmt. Framkomnum athugasemdum var svarað og Skipulagsstofnun tilkynnt um deiliskipulagsbreytinguna. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 28. september 2017. Ekki verður séð að staða kæranda sé verri en að óbreyttu skipulagi í ljósi þess að umræddur göngustígur er færður fjær sumarhúsalóðum kæranda með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Með vísan til alls þess sem að framan er raki liggja ekki fyrir þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 13. september 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hornbrekkubótar, Ólafsfirði.

127 og 133/2018 Nýtingarleyfi jarðhita Reykjanesi, Ísafjarðardjúpi

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 6. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 127/2018, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 8. október 2018 um að veita leyfi til nýtingar á jarðhita í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, Súðavíkurhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. október 2018, er barst nefndinni 24. s.m., kærir Orkubú Vestfjarða þá ákvörðun Orkustofnunar frá 8. október 2018 að veita leyfi til nýtingar á jarðhita í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 9. nóvember 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Ísafjarðarbær fyrrgreinda ákvörðun Orkustofnunar. Gerð er sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hennar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður greint kærumál, sem er nr. 133/2018, sameinað máli þessu.

Verður nú tekin afstaða til framkominnar frestunarkröfu kærenda.

Málavextir:
 Með bréfi er barst Orkustofnun 8. maí 2018 sótti Ferðaþjónustan Reykjanesi, Rnes ehf., um leyfi til nýtingar á jarðvarma í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Var umsóknin kynnt 20. júní 2018 og leitað umsagna, m.a. frá Ísafjarðarbæ og Orkubúi Vestfjarða. Í umsögn Orkubús Vestfjarða, sem barst 8. ágúst s.á., er útgáfu leyfisins mótmælt þar sem orkubúið sé og hafi verið eigandi allra jarðhitaréttinda á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp frá stofnun þess 1977. Umsögn Ísafjarðarbæjar barst 13. september s.á. og lagðist sveitarfélagið gegn veitingu nýtingarleyfisins m.a. með vísan til óvissu um eignarhald á jarðhita svæðisins. Nýtingarleyfið var gefið út af Orkustofnun 8. október 2018.

Málsrök kærenda: Af hálfu Orkubús Vestfjarða er bent á að fullyrðing um að á svæðinu sé nægilegt vatn til sjálfrennslis til að standa undir fyrirhugaðri nýtingu sé röng. Það stuðli ekki að hagkvæmri nýtingu jarðhita í Reykjanesi að veita einstökum húseigendum nýtingarleyfi á umræddri jarðhitaauðlind, auðlind sem nú þegar sé virkjuð af Orkubúi Vestfjarða í þágu allra notenda á svæðinu. Þannig blasi við að nýtingarheimild til fleiri aðila á sömu auðlind muni skarast og valda ófyrirsjáanlegum erfiðleikum, ef ekki tjóni á auðlindinni sjálfri. Hið kærða leyfi heimili leyfishafa nýtingu á heitu vatni í þeim mæli og með þeim hætti að nýting þess geri Orkubúi Vestfjarða hugsanlega ómögulegt að standa við eigin skuldbindingar. Nýting leyfisins á grundvelli forsendna þess í leyfinu sjálfu og fylgibréfi Orkustofnunar með því sé til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á nýtingu kærandans á auðlindinni og síðast en ekki síst að skaða auðlindina sjálfa. Nýting hins kærða leyfis sé yfirvofandi.

Af hálfu Ísafjarðarbæjar kemur fram að talið sé nauðsynlegt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar í ljósi þess að nýting samkvæmt leyfinu sé yfirvofandi en kunni að hafa í för með sér ófyrirséðar afleiðingar, sbr. m.a. sjónarmið um óvissu varðandi mælingar.

Málsrök Orkustofnunar:  Orkustofnun bendir á að nái krafa kærenda fram að ganga, um að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað, muni það að líkindum hafa í för með sér umtalsvert tjón fyrir leyfishafa, ferðaþjónustu hans, lagnakerfi hótels og húsa o.fl. Yrði honum óheimilt að nýta þann jarðhita til húshitunar sem hin kærða ákvörðun taki til, m.a. að nýta jarðhita úr hver við og undir aðalbyggingu hótelsins. Krafa kærenda sé úr samhengi við allt sem kallast geti meðalhóf og eigi sér enga lagastoð, svo ekki sé dýpra tekið í árinni. Frestun réttaráhrifa, komi til þess, sé ekki til þess fallin að firra kærendur tjóni á nokkurn hátt, svo séð verði, né geti skert hagsmuni þeirra.

Bent sé að krafa um stöðvun framkvæmda, með þeim rökum að yfirvofandi nýting kunni að hafa í för með sér ófyrirséðar afleiðingar, m.a. að því er varði óvissu varðandi mælingar, lýsi vanþekkingu á aðstæðum og efni hinnar kærðu ákvörðunar. Um sé að ræða staðfestingu á jarðhitanýtingu sem hafi verið í Reykjanesi síðan 1934 og hafi engar ófyrirséðar afleiðingar, m.a. að því er varði óvissu varðandi mælingar eftir rúmlega átta áratuga jarðhitanýtingu þar. Slík krafa sé auðvitað fráleit.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að fráleitt sé að halda því fram að skilyrði séu til að fresta réttaráhrifum vegna þess að framkvæmdir séu hafnar eða yfirvofandi, enda verði því úrræði fyrst og fremst beitt til þess að koma í veg fyrir tjón eða óafturkræfar framkvæmdir. Allt frá því að leyfishafi hafi keypt fasteignir sínar í Reykjanesi árið 2003 og til aprílmánaðar 2018 hafi hann nýtt það heita vatn sem leyfisbréfið lúti að með þeim búnaði sem fyrir hendi hafi verið. Í aprílmánuði hafi hins vegar orðið sú breyting á að í fullkomnu heimildarleysi hafi Orkubú Vestfjarða gripið til þess ráðs að rjúfa tengingu leyfishafa. Þær framkvæmdir sem vísað sé til af hálfu framangreinds kæranda felist einfaldlega í því að koma á sömu nýtingu og hafi verið fyrir hendi í vel á annan áratug.

Tilvísanir kærandans þess efnis að nýtingarleyfið geri honum hugsanlega ómögulegt að standa við skuldbindingar sínar verði vart skildar öðruvísi en svo að til þess sé vísað að kærandinn geti ekki afhent öðrum ætluðum notendum heitt vatn, en kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þeirri staðhæfingu sinni. Í því sambandi skuli áréttað að í fyrsta lagi eigi kærandi ekki jarðhitaréttindi á svæðinu og reki þar ekki neina hitaveitu. Í öðru lagi sé eina hitaveitan sem um sé að tefla sú sem tilheyri leyfishafa beinlínis og lúti að fasteignum hans og sé hann eini notandinn. Í þriðja lagi bendi leyfishafi á þá staðreynd að nýtingarheimildir samkvæmt leyfisbréfinu miðist við sömu notkun og hafi tíðkast um áratugaskeið, þ.e. 9,01 l/s meðalnýtingu á ársgrundvelli og 12,00 l/s hámarksnýtingu.

Leyfishafi leggi að öðru leyti áherslu á að ef réttaráhrifum yrði frestað myndi það leiða til frekara tjóns en þegar hafi orðið. Í því sambandi vísist til þess að hitakerfið í Reykjanesi tengist mikið innbyrðis og allar breytingar á einum stað hafi áhrif á annan. Ef lokað sé fyrir eða rennsli minnkað úr borholu aukist þrýstingur úr sprungum sem séu víða á þessu svæði og margar við eða undir fasteignum. Ef lokað sé fyrir borholu lengur en sólarhring leiði það til þess að upp komi heitt vatn víða í kjöllurum fasteigna leyfishafa, sem eins og gefi að skilja valdi ómældu tjóni.

Frá því að kærandi hafi rofið flæði á heitu vatni til leyfishafa í aprílmánuði 2018 hafi hann þurft að ráðast í aðgerðir til þess að safna heitu vatni undan og frá húsum ferðaþjónustu sinnar á tank og dæla því inn á kerfi sín. Slíkt hafi með naumindum dugað til kyndingar fasteigna heitari mánuði ársins, en leyfishafi hafi ekki getað nýtt sundlaug sína neitt af þessum sökum. Af því hafi þegar hlotist tjón, enda sé hún eitt aðalaðdráttarafl svæðisins. Ef réttaráhrifum nýtingarleyfis verði frestað þar til úrskurður liggi fyrir megi reikna með að verulegt tjón hljótist á bæði fasteignum og sundlaug þar sem vetur sé genginn í garð og lítill tími til stefnu. Auk þess sé fyrirsjáanlegt að rekstrartjón leyfishafa aukist til muna verði á kröfuna fallist.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hennar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi, þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa undantekning frá nefndri meginreglu, sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga sé tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Einnig að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um ákvörðun Orkustofnunar um að veita leyfi til nýtingar jarðhita í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Jarðhitanýting á jörðinni Reykjanesi hefur átt sér stað í áratugi og hefur vatni verið veitt til leyfishafa um nokkurt skeið úr umþrættri borholu, en lokað var fyrir flæði á heitu vatni til leyfishafa í apríl 2018. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að hefjist vatnstaka að nýju samkvæmt hinu kærða leyfi muni hún hafa þau áhrif á auðlindina að hætta sé á slíku óafturkræfu tjóni fyrir kærendur að kæra yrði þýðingarlaus yrði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Hins vegar myndi slík frestun hafa í för með sér tjón fyrir leyfishafa. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og efnis hins kærða nýtingarleyfis verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa þess á meðan á meðferð málsins stendur fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa samkvæmt hinni kærðu ákvörðun er hafnað.

72/2018 Veltusund

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 6. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2018, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 25. apríl 2018 um að staðfesta neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa á fyrirspurn. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. maí 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Balance ehf., eigandi fasteignarinnar Veltusunds 3b, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 25. apríl 2018 að staðfesta neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa á fyrirspurn um „leiðréttingu á skilmálum um banni á skammtímaleigu í Veltusundi 3B.“ Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. júní 2018.

Málavextir: Hinn 3. janúar 2018 sendi kærandi inn erindi með yfirskriftinni „Fyrirspurn til skipulagsfulltrúa“. Í stuttri lýsingu á erindinu sagði m.a.: „Fyrirspurn um leiðréttingu á skilmálum um banni á skammtímaleigu í Veltusundi 3B.“ Með bréfi, dags. 22. janúar 2018, var kæranda tilkynnt um að á fundi skipulagsfulltrúa 19. s.m. hefði hann tekið neikvætt í fyrirspurnina þar sem hún samræmdist ekki skipulagi. Vísaði skipulagsfulltrúi til umsagnar sinnar frá 17. s.m. Í umsögninni sem fylgdi nefndu bréfi kom fram að lögð væri fram fyrirspurn um breytingu á skilmálum deiliskipulags Kvosarinnar vegna lóðarinnar nr. 3b við Veltusund. Í niðurstöðu umsagnarinnar segir að neikvætt sé tekið í að heimila gististað í flokki II að Veltusundi 3b þar sem starfsemin sé ekki í samræmi við landnotkun í aðalskipulagi og  gildandi deiliskipulag.

Með bréfi, dags. 22. mars s.á., fór kærandi fram á að umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur myndi endurskoða ákvörðun skipulagsfulltrúa. Í bréfinu sagði að fordæmi væru fyrir því að deiliskipulagi hefði verið breytt vegna rekstrarlegra forsendna þar sem rekstur annarrar starfsemi hefði verið talinn óhagstæður í tilteknu húsnæði. Var óskað eftir að umhverfis- og skipulagsráð myndi veita kæranda leyfi fyrir breyttri notkun húsnæðisins til samræmis við fyrri loforð starfsmanna í gegnum árin. Á fundi sínum 25. apríl s.á. staðfesti umhverfis- og skipulagsráð afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 19. janúar s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að upphaf málsins megi rekja til fyrirspurnar frá 30. apríl 2007 um breytt deiliskipulag tiltekinna lóða, m.a. lóðar nr. 3b við Veltusund, þar sem áætlað hefði verið að reka gistiþjónustu í húsinu. Í svari skipulagsfulltrúa borgarinnar frá 29. maí s.á. hafi jákvæð umsögn verið veitt nema hvað varðaði hækkun húsanna og umfang framkvæmda. Viðurkennt sé í stjórnsýslurétti að yfirlýsingar starfsmanna stjórnsýslunnar geti leitt til þess að hjá borgurunum skapist málefnalegar væntingar, sem stjórnvöldum geti eftir atvikum verið skylt að taka tillit til við meðferð mála. Kallist þetta meginreglan um réttmætar væntingar. Kærandi hafi haft huglægar væntingar vegna jákvæðrar umsagnar borgarinnar um að rekin yrði gistiþjónusta í húsinu. Hann hafi verið í góðri trú um að athafnir og yfirlýsingar starfsmanna borgarinnar væru bindandi, enda hafi úrbótum á húsnæðinu verið hrint í framkvæmd eftir tilmælum frá starfsmönnum skipulagsyfirvalda. Telja verði eðlilegt og réttmætt eftir hlutlægum mælikvarða að kærandi hafi bundið traust við framangreindar athafnir og yfirlýsingar starfsmanna borgarinnar.

Líta verði til staðsetningar og gerðar fasteignarinnar, en hún takmarki verulega notkun hennar. Húsnæðið hafi verið skipulagt sem íbúðarhúsnæði með fimm litlum stúdíóíbúðum á tveimur efri hæðum. Eftirspurn eftir svo smáum leigurýmum til langtímaleigu sé hverfandi. Ekki sé raunhæft út frá rekstrarlegum forsendum að setja íbúðirnar í langtímaleigu, líkt og deiliskipulagið geri nú ráð fyrir. Þá mæli samkeppnissjónarmið með því að honum verði heimilað að reka gistiþjónustu á efri hæðum hússins. Hann hafi mikla hagsmuni af því að nýta húsnæðið, líkt og staðið hafi til frá árinu 2007, enda hafi hann lagt í gríðarlegar fjárfestingar vegna verkefnisins.

Skilyrði séu fyrir hendi til þess að kæranda verði heimilaður rekstur gistiþjónustu á tveimur efri hæðum hússins að Veltusundi 3b. Fyrir því séu fordæmi að deiliskipulagi hafi verið breytt vegna rekstrarlegra forsendna þar sem rekstur annarrar starfsemi hafi verið talin óhagstæður í tilteknu húsnæði.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, þar sem ekki sé um stjórnvaldsákvörðun að ræða, en ella að kröfum kæranda verði hafnað. Ekki sé búið að taka stjórnvaldsákvörðun í máli því sem hafi byrjað með erindi kæranda, dags. 3. janúar 2018. Með tölvubréfi 28. apríl s.á. hafi kæranda einungis verið kynnt niðurstaða í málinu hjá umhverfis- og skipulagssviði vegna fyrirspurnar, en ekki verið tekin formleg stjórnsýsluákvörðun.

Athugasemdir kæranda vegna frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar: Kærandi bendir á að með stjórnvaldsákvörðun sé almennt vísað til þess þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds. Í málinu hafi Reykjavíkurborg tekið einhliða ákvörðun um réttindi kæranda til þess að mega nýta eign sína með tilteknum hætti.

Með bréfi kæranda, dags. 22. mars 2018, hafi þess beinlínis verið óskað með skýlausu orðalagi að umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur veitti kæranda leyfi fyrir breyttri notkun hússins að Veltusundi 3b. Þess hafi beinlínis verið krafist að tekin yrði stjórnvaldsákvörðun í málinu. Umhverfis- og skipulagsráð hafi afgreitt erindið með því að staðfesta fyrri afgreiðslu, eins og það sé orðað í fundargerð ráðsins frá 25. apríl s.á. Með því hafi erindinu verið synjað, enda hafi ekki verið fallist á beiðni kæranda um að fá leyfi fyrir breyttri notkun húsnæðisins.

Því sé mótmælt að erindi kæranda frá 22. mars 2018 hafi verið fyrirspurn. Efni bréfsins sé skýrt og skorinort. Vísun til fyrirspurnar kæranda frá 3. janúar s.á. breyti þar engu um. Þegar kærandi hafi leitað til borgarinnar í janúar þá hafi hann ekki notið liðsinnis lögmanns og því hafi starfsmönnum borgarinnar borið að veita honum leiðbeiningar um hvernig hann gæti leitað réttar síns innan stjórnsýslu borgarinnar. Verði borgin að bera hallann af því að leiðbeiningar hafi ekki verið betri en svo að kærandi hafi ekki fengið efnislega meðferð á erindi sínu. Þá verði einnig að líta til efnis erindis en ekki heitis. Þótt erindið kunni að hafa fengið heitið fyrirspurn þá hafi það falið í sér beiðni um breytta notkun fyrir húsnæði sem myndi heimila kæranda að reka þar gististað. Neikvæð umsögn skipulagsfulltrúa hafi falið í sér synjun á erindinu efnislega. Erindi hans til skipulagsfulltrúa hafi þó engin áhrif á erindi hans til umhverfis- og skipulagsráðs, enda fari ráðið með fullnaðarafgreiðslu erinda á skipulagssviði borgarinnar.

Líta verði til verkefna og hlutverks umhverfis- og skipulagsráðs, en ráðið starfi eftir umboði borgarinnar í samræmi við 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2011. Ákvæðið heimili sveitarstjórn að fela skipulagsnefnd fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum. Þá segi í samþykktum umhverfis- og skipulagsráðs að ráðið taki ákvarðanir um mál er varði verksvið þess og hafi eftirlit með því að samþykktum og stefnumörkum þess sé fylgt. Af þessu sé ljóst að umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar annist fullnaðarafgreiðslu mála á þessu sviði fyrir Reykjavíkurborg og taki ákvarðanir um réttindi og skyldu aðila í skjóli þess stjórnsýsluvalds.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Reykjavíkurborgar frá 25. apríl 2018 þar sem staðfest var af umhverfis- og skipulagsráði neikvætt svar skipulagsfulltrúa við fyrirspurn um „leiðréttingu á skilmálum um banni á skammtímaleigu í Veltusundi 3B.“ Kom það svar til vegna erindis sem beint var til skipulagsfulltrúa sem fyrirspurn í gegnum vefsvæði Reykjavíkurborgar. Bókun skipulagsfulltrúa og umsögn hans bera þess enda merki að um afgreiðslu á fyrirspurn væri að ræða. Í erindi kæranda til umhverfis- og skipulagsráðs 22. mars s.á. var beðið um „endurskoðun/upptöku umsóknar“ og þar m.a. vísað til þess að fordæmi væru fyrir því að deiliskipulagi hefði verið breytt. Var þess og óskað að umhverfis- og skipulagsráð endurskoðaði málið og veitti kæranda leyfi fyrir breyttri notkun húsnæðis þess sem um ræðir. Af tilvitnuðu orðalagi og yfirskrift erindisins verður ekki annað séð en að kærandi hafi öðrum þræði óskað eftir endurskoðun á fyrra erindi sínu, sem hann hafi jafnframt litið á sem umsókn sem hann óskaði efnislegrar afgreiðslu á. Kom enda fram í hinu nýrra erindi kæranda að málið varðaði synjun á breytingu skilmála deiliskipulags Kvosarinnar vegna fasteignar hans. Afgreiddi umhverfis- og skipulagsráð erindi kæranda með þeim hætti að staðfest var fyrri afgreiðsla skipulagsfulltrúa frá 19. janúar 2018.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega umsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Sama á við um synjun á endurupptöku á afgreiðslu fyrirspurnar. Er því ljóst að sú ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur að staðfesta neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa vegna fyrirspurnar kæranda fól ekki í sér lokaákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli. Verður kærumáli þessu að því leytinu til vísað frá úrskurðarnefndinni.

Þrátt fyrir að erindi kæranda frá 3. janúar 2018 hafi verið í formi fyrirspurnar ber beiðni hans um endurupptöku frá 22. mars s.á. með sér að gerð var sjálfstæð krafa um að breytt yrði skilmálum deiliskipulags. Var rík ástæða fyrir Reykjavíkurborg til að beina málinu í þann farveg með hliðsjón af því sem fram kemur í 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að landeigandi eða framkvæmdaraðili geti óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að skipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Þótt ekki hafi verið vísað til þess að beiðnin væri lögð fram á grundvelli 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga er til þess að líta að á stjórnvöldum hvílir rík leiðbeiningarskylda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, og að þar sem eingöngu var um skilmálabreytingu að ræða stóð skortur á fullnaðargögnum vart efnislegri afgreiðslu í vegi. Hefði borgaryfirvöldum, með vísan til 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga, að lágmarki borið að ganga úr skugga um hvort skilja bæri erindi kæranda sem beiðni um endurupptöku á afgreiðslu á fyrirspurn eða umsókn og leiðbeina þar um, enda gaf orðalag erindisins tilefni til þess. Ljóst er að ekki liggur fyrir lokaákvörðun hvað varðar þann hluta erindis kæranda sem líta verður á sem umsókn um breytingu á deiliskipulagi, enda hefur henni hvorki verið synjað né hún samþykkt. Af því verður kærandi þó ekki látinn bera halla. Verður að svo komnu að líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Með hliðsjón af því að borgaryfirvöld telja að málinu sé lokið af sinni hálfu og að ríflega hálft ár er frá því að kæra barst úrskurðarnefndinni verður lagt fyrir skipulagsyfirvöld í Reykjavík að taka þann hluta erindis kæranda frá 22. mars 2018 sem laut að skilmálabreytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar til efnislegrar meðferðar án frekari tafa.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. apríl 2018, um að staðfesta neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa á fyrirspurn, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Lagt er fyrir skipulagsyfirvöld í Reykjavík að taka umsókn kæranda frá 22. mars 2018, um breytingu á skilmálum deiliskipulags Kvosarinnar vegna lóðar nr. 3b við Veltusund, til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

43/2018 Rannsóknarleyfi Hvalárvirkjun

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 6. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2018, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 31. janúar 2017 um að framlengja rannsóknarleyfi vegna áætlana um Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, Árneshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir einn eigenda jarðarinnar Seljaness á Ströndum, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 31. janúar 2017 að framlengja rannsóknarleyfi vegna áætlana um Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, Árneshreppi. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 10. apríl 2018.

Málavextir: Hinn 31. janúar 2015 sótti VesturVerk ehf. um leyfi til Orkustofnunar til rannsóknar á svæðum í Ófeigsfirði og á Ófeigsfjarðarheiði. Í umsókninni kom fram að markmiðið væri að rannsaka hagkvæmni þess að nýta rennsli Hvalár og Rjúkanda í einu þrepi úr Hvalárvatni og allt að því niður að sjávarmáli við Ófeigsfjörð í Árneshreppi. Leyfi var veitt 30. mars s.á. í samræmi við III. kafla laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, með vísan til 40. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Kom fram að gildistími leyfisins væri frá 31. mars 2015 til 31. mars 2017.

Með bréfi, dags. 26. janúar 2017, óskaði leyfishafi eftir framlengingu greinds rannsóknarleyfis til tveggja ára. Í bréfinu kom fram að öllum fyrirhuguðum rannsóknum væri lokið nema kjarnaborun í jarðgangaleiðir og staðfestingu magns jökulruðnings með greftri könnunarhola. Þær rannsóknir hafi leyfishafi ekki talið forsvaranlegar vegna kostnaðar fyrr en afstaða Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu virkjunar lægi fyrir, sem og ákvörðun Landsnets og Orkustofnunar um afhendingarstað raforku í Ísafjarðardjúpi. Einnig var tekið fram að til þess að koma jarðbor til rannsókna á Ófeigsfjarðarheiði þyrfti m.a. að lagfæra vegi í Ingólfsfirði og Ófeigsfirði. Með bréfi, dags. 31. janúar 2017, féllst Orkustofnun á að framlengja rannsóknarleyfið frá 31. mars 2017 til 31. mars 2019.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að vegur sem notaður verði til að flytja vinnuvélar og búnað á rannsóknarsvæði liggi með strandlengjunni í Ingólfsfirði, fyrir Seljanes innan við 100 m frá sumarhúsi á jörð kæranda og rúmum 200 m frá íbúðarhúsum. Frá Seljanesi sé útsýni til Hvaláróss og yfir á Ófeigsfjarðarheiði. Eigi kærandi því mikilla hagsmuna að gæta af leyfi því sem honum hafi nýlega orðið ljóst að Orkustofnun hafi veitt til mikils rasks upp frá Hvalárósum og um Ófeigsfjarðaheiði alla. Vegna hinna heimiluðu rannsókna þurfi að flytja tæki og búnað og líklega vinnubúðir á staðinn og til baka. Við það bætist og efnisflutningar tengdir þessum rannsóknarframkvæmdum. Verði farið um land kæranda í því skyni. Kæranda hafi ekki verið kunnugt um að rannsóknarleyfi hafi verið veitt fyrr en hann hafi fengið vitneskju um að á heimasíðu leyfishafa í mars 2018 hefði birst sú frétt að kæru Landverndar vegna sama leyfis hefði verið vísað frá úrskurðarnefndinni.

Málsrök Orkustofnunar: Orkustofnun tekur fram að hin kærða ákvörðun hafi verið birt á vefsíðu stofnunarinnar í desember 2015 og í lok janúar 2017, auk þess sem umrætt leyfi hafi verið í opinberri umræðu í fleiri misseri. Kæranda hafi því mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrir margt löngu. Kæra málshefjanda sé dagsett 12. mars 2018 og móttekin hjá úrskurðarnefndinni þann sama dag. Kærufrestur sé því liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að skv. 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi, þ.e. kæruaðild sé byggð á svokallaðri „hagsmunareglu“. Tíðum kunni þó að vera vandasamt að ákvarða hvorum megin hryggjar álitaefni um aðild falli. Þegar um sé að ræða grenndarrétt hafi almennt verið litið til þess hvort hagnýtingarmöguleikar kæranda á eign hans skerðist með einhverri breytingu sem leiði af hinni kærðu ákvörðun. Því fjær sem kærandinn búi frá þeim stað þar sem einhver mannvirkjagerð sé fyrirhuguð, því minni líkur séu á að viðkomandi verði talinn eiga einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni sem veiti honum kæruaðild á grundvelli grenndarréttar.

Þær rannsóknir sem leyfi hafi verið veitt fyrir kalli á lítilsháttar aðstöðusköpun og hafi því í deiliskipulagstillögum verið gert ráð fyrir reit fyrir vinnubúðir. Vinnubúðirnar muni verða í ca. 4 km fjarlægð í beinni loftlínu frá Seljanesi. Þar í milli sé að finna aðra byggð þannig að hvorki sé um ósnortið land né víðerni að ræða. Þótt kærandi geti hugsanlega séð til granna sinna í vinnubúðunum í norðri frá hlaðinu í Seljanesi og telji það skerða útsýni sitt þá takmarki það í engu nýtingarmöguleika Seljanesjarðarinnar og varði í engu hina kærðu ákvörðun, sem snúist eingöngu um tímabundna framlengingu rannsóknarheimildar.

Fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar verði ekki á landi kæranda og snerti hvorki vatnasvið jarðarinnar Seljaness né Dranga og skerði í engu hagnýtingarmöguleika eigenda þessara jarða. Þá sé og rétt að geta þess til skýringar að beinn og óbeinn eignarhluti kæranda í nefndum jörðum virðist samkvæmt skráðum heimildum vera innan við 10% í hvorri jörð fyrir sig og að sameigendur hans, sem fari þá með meira en 90% hagsmuni í hvorri jörð fyrir sig, hafi ekki mótmælt fyrirhuguðum framkvæmdum.

Til að komast frá Ingólfsfirði í Ófeigsfjörð sé farið m.a. yfir land Seljaness. Þar sé hins vegar farið eftir þjóðvegi F649, Ófeigsfjarðarvegi, sem liggi þannig samkvæmt þjóðvegaskrá Vegagerðarinnar: „Af Strandavegi hjá Melum í Árneshreppi, um Eyri í Ingólfsfirði, fyrir Ingólfsfjörð, um Seljanes, að Hvalá í Ófeigsfirði“. Vegagerðin sé veghaldari á þessum vegi í skilningi vegalaga nr. 80/2007 og hafi þannig forræði yfir vegi og vegsvæði og annist vegagerð, þjónustu og viðhald vega. Samkvæmt 46. gr. vegalaga sé öllum frjáls för um slíka vegi, nema sérstakar takmarkanir séu settar á umferð, oftast þá vegna veðurs eða náttúruatburða. Eigendur þeirra jarða sem vegir liggi um geti hins vegar ekki ráðið hverjir fari um þá.

Niðurstaða: Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var við hina kærðu framlengingu rannsóknarleyfis einungis ólokið rannsóknum sem lutu að kjarnaborun í jarðgangaleiðir og staðfestingu magns jökulruðnings með greftri könnunarhola. Til þess að koma jarðbor til þessara rannsókna á Ófeigsfjarðarheiði lá fyrir að lagfæra þyrfti vegi í Ingólfsfirði og Ófeigsfirði. Rannsóknir þær sem um ræðir eru ekki fyrirhugaðar í landi kæranda, en um land það sem hann á að hluta liggur vegur að rannsóknarsvæðinu. Heldur kærandi því fram að hann verði fyrir ónæði við flutning vinnuvéla og búnaðar um veginn. Við mat á því hvort kærandi eigi hagsmuna að gæta vegna þessa verður að líta til þess að nefndur vegur, F649, er landsvegur samkvæmt Aðalskipulagi Árneshrepps 2005-2025. Telst hann því til þjóðvega, sbr. d-lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna eru þjóðvegir þeir vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar, haldið er við af fé ríkisins og upp eru taldir í vegaskrá. Vegagerðin er veghaldari þjóðvega skv. 13. gr. vegalaga og er landeiganda skylt að láta af hendi land sem þarf til þjóðvegagerðar og hvers kyns veghalds, sbr. 37. gr. laganna. Rannsóknarleyfið var gefið út snemma árs 2015 og það framlengt með hinni kærðu ákvörðun í janúar 2017. Samkvæmt útgefnum umferðartölum Vegagerðarinnar var árdagsumferð um veginn, þ.e. sá fjöldi bifreiða sem að jafnaði fara þar um á hverjum degi, á bilinu sex til átta frá árinu 2010 til 2017. Vetrardagsumferð hefur haldist óbreytt á þessu tímabili en sumardagsumferð aukist nokkuð, en hún var 12-14 bílar árin 2010-2015 og 17 árin 2016-2017. Á sama tímabili hefur orðið mikil aukning ferðamanna á landinu. Þrátt fyrir að um fáfarinn veg sé að ræða og um hann verði flutt tæki og búnaður til þeirra rannsókna sem enn er ólokið er það álit úrskurðarnefndarinnar að öllu virtu að það tímabundna ónæði sem af því hljótist snerti ekki einstaklega og lögvarða hagsmuni kæranda í þeim mæli að hann geti átt aðild að kæru vegna hins umdeilda rannsóknarleyfis.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kæruaðild kæranda hvorki byggð á eignarréttarlegum grunni né grenndarhagsmunum og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.