Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

9/2019 Kaldá og Ásdalsá í Jökulsárhlíð

Árið 2019, þriðjudaginn 22. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2019, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 4. janúar 2019 um að veita rannsóknarleyfi vegna áætlana um að virkja Kaldá og Ásdalsá í Jökulsárhlíð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 30. janúar 2019, kæra eigendur jarðarinnar Surtsstaða í Jökulsárhlíð ákvörðun Orkustofnunar frá 4. janúar 2019 um að veita Orkusölunni ehf. rannsóknarleyfi vegna áætlana um að virkja Kaldá og Ásdalsá í Jökulsárhlíð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Orkustofnun 31. janúar 2019.

Málavextir: Hinn 26. október 2018 sótti Orkusalan ehf. um rannsóknarleyfi til Orkustofnunar vegna áætlana um virkjun fallvatns Kaldár og Ásdalsár í Jökulsárhlíð. Í rannsóknaráætlun sem fylgdi umsókninni kom fram að tilgangur rannsóknarinnar væri að kanna hagkvæmni þess að nýta fallvatn Kaldár og Ásdalsár til virkjunar og afla þekkingar á aðstæðum á svæðinu, m.a. með jarðfræðirannsóknum sem fælu í sér gerð könnunargryfja.

Með bréfum, dags. 14. nóvember 2018, óskaði Orkustofnun eftir umsögnum frá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands í samræmi við 4. mgr. 5. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 23. nóvember 2018, eru  ekki gerðar athugasemdir við þær rannsóknir sem hafi ekki rask í för með sér, s.s. rennslis- eða landmælingar. Varðandi jarðvegsrannsóknir taldi stofnunin að leggja ætti áherslu á vandaðan frágang rannsóknargryfja með það í huga að skilja við landið í sem bestu ástandi ef ekki verði af virkjanaframkvæmdum. Gera ætti grein fyrir því hvort leit að nýtanlegum jarðefnum til mannvirkjagerðar kynni að ná út fyrir skilgreint rannsóknarsvæði. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar, dags. 13. desember 2018, kom fram að stofnunin gerði ekki athugasemdir við að leyfi yrði veitt til rannsókna sem ekki hefðu í för með sér rask á landi. Þótt um væri að ræða litla virkjun taldi stofnunin að líta ætti til sömu viðmiða hvað varðaði leyfisveitingar vegna orkurannsókna fyrir minni virkjanir og finna mætti í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun, þ.e. að rannsóknirnar væru ekki leyfisskyldar og framkvæmdir vegna þeirra ekki matsskyldar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum eða hugsanlega háðar mati á umhverfisáhrifum. Einnig að rannsóknir færu ekki í bága við lög nr. 60/2013 um náttúruvernd, s.s. ákvæði um akstur utan vega. Þá benti stofnunin á að land það sem um væri að ræða virtist að mestu ósnortið og því væri eðlilegt að fyrst yrðu heimilaðar rannsóknir sem engu raski yllu, s.s. rennslismælingar, sem gæfu m.a. til kynna hvort um væri að ræða hagkvæman kost eða ekki, og bíða með rannsóknir sem valda myndu raski.

Í samræmi við III. kafla laga nr. 57/1998, sbr. 40. gr. raforkulaga nr. 65/2003, veitti Orkustofnun umsótt leyfi 4. janúar 2019 og kom fram í því að það að gilti til 3. janúar 2026. Var tekið fram í fylgibréfi með leyfinu að þar sem viðkomandi landeigendum væri kunnugt um umsóknina hefði ekki verið leitað umsagna þeirra, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök kærenda: Kærendur halda því fram að skortur hafi verið á samráði við þá af hálfu leyfishafa, verkfræðistofu hans og Orkustofnunar, sem ekki hafi leitað umsagnar kærenda áður en rannsóknarleyfi til virkjunar Kaldár og Ásdalsár var veitt.

Útibússtjóri verkfræðistofunnar hafi komið að máli við kærendur í nóvember 2018 og greint frá áhuga Orkusölunnar ehf. á að kanna möguleika á virkjun Kaldár. Í kjölfarið hafi verið settur upp rennslismælir í ánni í landi kærenda. Hafi kærendur verið tilbúnir til áframhaldandi viðræðna og staðið í þeirri trú, eftir samtal við útibússtjórann, að samráð yrði haft við þá um framhaldið. Ekkert hafi þó heyrst frá honum eða talsmönnum Orkusölunnar. Kærendur hafi frétt frá utanaðkomandi aðilum hinn 7. janúar 2019 að Orkustofnun hefði veitt rannsóknarleyfi á svæðinu til sjö ára.

Fyrirhuguð virkjun, eins og henni sé lýst í rannsóknarleyfinu, sé alls ekki í samræmi við þær hugmyndir sem útibússtjóri verkfræðistofunnar hafi rætt um við kærendur í upphafi verkefnisins. Kærendur bendi á að uppistöðulón muni færa í kaf stálbitabrú yfir Ásdalsá sem byggð hafi verið fyrir u.þ.b. 50 árum. Girðingarhólf og fjárrétt, sem notuð séu af bændum a.m.k. fimm jarða á hverju hausti við smalamennsku í Kaldártungum, muni einnig þurfa að víkja. Ármót Kaldár og Ásdalsár sem eru í 30-40 m djúpu og þröngu gili sé einn fallegasti staðurinn í Kaldártungum. Af hálfu kærenda hafi það aldrei verið inni í myndinni að leyfa slíkar framkvæmdir á þessum stað.

Málsrök Orkustofnunar: Orkustofnun bendir á að hlutverk hennar sé m.a. að standa fyrir rannsóknum á orkulindum landsins þannig að unnt sé að meta þær og veita stjórnvöldum ráðgjöf um skynsamlega og hagkvæma nýtungu þeirra og safna gögnum um m.a. orkulindir og miðla upplýsingum til stjórnvalda og almennings, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 87/2003 um Orkustofnun.

Stofnuninni sé heimilt, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, að hafa frumkvæði að og/eða láta rannsaka og leita að auðlindum í jörðu hvar sem sé á landinu. Skipti þá ekki máli þótt landeigandi hafi sjálfur hafið slíka rannsókn eða leit, eða heimilað það öðrum, nema viðkomandi aðili hafi gilt rannsóknarleyfi samkvæmt lögum nr. 57/1998, en svo hafi ekki verið í þessu máli. Með sama hætti geti Orkustofnun heimilað öðrum rannsóknir og leit og skuli þá gefa út rannsóknarleyfi til viðkomandi. Ákvæðið sé í samræmi við það hlutverk stofnunarinnar. Rannsóknarleyfi skuli veita einum aðila á hverju svæði, sbr. 2. mgr. 5. gr. nefndra laga.

Landeigendur séu ekki lögbundnir umsagnaraðilar um rannsóknarleyfisumsóknir, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 57/1998. Með vísan til 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi Orkustofnun kynnt landeigendum slíkar umsóknir um rannsóknarleyfi og gefið þeim kost á að tjá sig um þær, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða þeirra og rök eða slíkt sé augljóslega óþarft, sbr. 13. gr. laganna. Að mati Orkustofnunar hafi legið fyrir að kærendur þekktu til og hafi átt viðræður við fulltrúa leyfishafa, m.a. um staðsetningu rennslismæla. Með vísan til nefndra ákvæða 4. gr. laga nr. 57/1998 og 2. gr. laga nr. 87/2003 hefði afstaða kærenda líklega ekki haft áhrif á niðurstöðu Orkustofnunar, m.a. að teknu tilliti til umsóknar leyfishafa og sambærilegrar málsmeðferðar vegna annarra rannsóknarleyfisveitinga. Umsagnir og athugasemdir landeigenda, ef þær skipti máli, hafi almennt einkum áhrif á skilyrði leyfa sem varði hagsmuni landeigenda sérstaklega, s.s. vegna nýtingar á landsvæði og/eða vegna hlunninda jarða, t.d. ræktunar, æðavarps, veiðitímabils eða annarra slíkra atriða sem ástæða sé að taka tillit til. Engum slíkum hagmunum sé hér til að dreifa.

Kærendur virðist leggja áherslu á að rannsóknarleyfið varði heimild til framkvæmda, og eftir atvikum virkjun árinnar í þeirra landi, gegn þeirra hagsmunum, og að ekki hafi verið gætt andmælaréttar þeirra vegna þessa. Þetta sé misskilningur kærenda. Stefnt sé að því að rannsaka hagkvæmni þess að nýta fallvatn Kaldár og Ásdalsár í landi kærenda, en slíkur virkjunarkostur þurfi að uppfylla m.a. skilyrði skipulagslaga nr. 123/2010 og eftir atvikum þurfi mat á umhverfisáhrifum framkvæmda að koma til áður en virkjunarleyfis verði óskað. Þá þurfi samningar við landeigendur, kærendur, að liggja fyrir um nýtingu vatnsréttinda komi til virkjunar. Rannsóknarleyfið feli ekki í sér heimild til nýtingar á auðlind eða fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi eða virkjunarleyfi komi til mögulegrar nýtingar á auðlindinni. Orkustofnun ítreki það sem segi í 2. mgr. 1. gr. leyfisins að leyfið veiti ekki heimild til nýtingar á jarðrænum auðlindum eða virkjunarleyfi.

Bendi Orkustofnun á mikilvægi samráðs við landeigendur á gildistíma leyfis og við rannsóknir. Einnig að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða eftir fremsta megni þannig að sjónrænum áhrifum af rannsóknum verði haldið í lágmarki. Enn fremur ítreki stofnunin að leyfishafi gæti ákvæða 5., 7. og 8. gr. leyfisins við framkvæmd þess. Sótt hafi verið um rannsóknarleyfi til sjö ára. Á þau tímamörk hafi verið fallist að virtri rannsóknaráætlun leyfishafa, einkum fyrirhugaðra rennslismælinga yfir lengri tíma eða sjö ár.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að með rannsóknarleyfi, útgefnu 4. janúar 2019, hafi Orkustofnun veitt honum heimild til að framkvæma mælingar og rannsóknir á tilteknu svæði í samræmi við fyrirliggjandi rannsóknaráætlun vegna virkjunar fallvatns Kaldár og Ásdalsár. Rannsóknarleyfið sé veitt á grundvelli 4. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sbr. og 40. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

Rannsóknarsvæði það sem leyfið taki til nái m.a. yfir jörð kærenda og við hvers konar rannsóknir, sem kunni að vera gerðar innan jarðarinnar, muni leyfishafi í hvívetna fara að skilmálum rannsóknarleyfisins og virða eignarrétt kærenda.

Ráða megi af athugasemdum kærenda að áhyggjur þeirra snúi einkum að því raski sem virkjun kunni að hafa á jörð þeirra. Afar mikilvægt sé að sjónarmið landeigenda komi fram og vilji leyfishafi gjarnan eiga samtal við landeigendur til að fá fram sjónarmið um fýsileika virkjunar. Hins vegar beri að hafa í huga að útgáfa rannsóknarleyfis sé einungis þáttur í því ferli að kanna möguleika og fýsileika virkjunarframkvæmda. Í því felist ekki leyfi til að ráðast í virkjun með því raski sem landeigendur lýsi. Forsenda þess að ráðist verði í virkjun, að því gefnu að slíkt yrði metið fýsilegt, sé m.a. útgáfa nýtingarleyfis samkvæmt IV. kafla laga nr. 57/1998, sbr. og 40. gr. laga nr. 65/2003. Forsenda nýtingarleyfis sé m.a. að nýtingarleyfishafi njóti réttar til þeirrar auðlindar sem um ræði, sbr. 7. gr. laga nr. 57/1998.

Með hliðsjón af framangreindu telji leyfishafi ekki ástæðu til að gera frekari athugasemdir vegna þeirra sjónarmiða sem fram komi í kæru.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í hinni kærðu leyfisákvörðun komi fram að landeiganda eða umráðamanni lands sé skylt að veita leyfishafa óhindraðan aðgang að eignarlandi því sem um ræði og beri landeiganda eða umráðamanni að hlíta hvers konar afnotum af landi, takmörkun á umráðarétti og óþægindum sem nauðsynleg séu vegna rannsóknar í samræmi við leyfið. Leyfisákvörðun teljist vera stjórnvaldsákvörðun og þurfi ekki frekari sönnunar við að ákvörðunin hafi áhrif á lögvarða hagsmuni kærenda. Því hafi bæði verið skylt og brýnt að gæta andmælaréttar þeirra og gefa þeim þannig kost á að gæta hagsmuna sinna við ákvörðunina, sbr. 13. gr.-15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur hefðu ekki verið látnir vita af því að beiðni um rannsóknarleyfi væri til skoðunar.

Í athugasemdum Orkustofnunar komi fram að landeigendur séu ekki lögbundnir umsagnaraðilar, en með vísan til 14. gr. stjórnsýslulaga hafi stofnunin kynnt landeigendum slíkar umsóknir um rannsóknarleyfi og gefið þeim kost á að tjá sig um þær. Í þessu tilviki hafi verið vikið frá þessari stjórnsýsluframkvæmd án þess að nokkur rök hafi verið fyrir því. Þá sé í athugasemdum Orkustofnunar bætt við „að mati Orkustofnunar, lá fyrir að kærendur þekktu til eða höfðu átt í viðræðum við fulltrúa leyfishafa, m.a. um staðsetningu rennslismæla.“ Ekki verði annað séð en að þetta mat Orkustofnunar sé úr lausu lofti gripið. Ekkert í umsókn leyfishafa gefi stofnuninni tilefni til að álykta á þennan veg og hafi hún ekki haft fyrir því að kanna afstöðu kærenda sem hafi verið alls ókunnugt um rannsóknarleyfisbeiðnina. Hafi leyfishafi heldur ekki átt neinar viðræður við kærendur um slíkt rannsóknarleyfi. Þá hafi kærendur ekki átt í neinum samskiptum við leyfishafa um rennslismæli í Kaldá. Tilgreind verkfræðistofa hafi haft samband við kærendur og óskað eftir að fá að koma þar fyrir rennslismæli. Hafi kærendur samþykkt það og ákveðið staðsetningu mælisins með fulltrúum stofunnar. Frekari samskipti hafi þó ekki verið á milli aðila og fráleitt sé að sú staðreynd að kærendur hafi samþykkt að verkfræðistofa kæmi fyrir rennslismæli leiði til þess að ekki þurfi að gæta hagsmuna þeirra við meðferð leyfisumsóknar, en leyfisumsóknin hafi ekki borist í tal þegar rennslismælinum hafi verið komið fyrir.

Orkustofnun haldi því fram að ólíklegt sé að afstaða kærenda hefði haft áhrif á niðurstöðu hennar. Þessu séu kærendur ósammála. Reglur stjórnsýslulaga um andmælarétt og um rannsókn á grundvelli rannsóknarreglu séu meginreglur í stjórnsýslurétti. Brot gegn þeim teljist vera meiriháttar annmarki á meðferð máls og leiði til ógildingar á viðkomandi stjórnvaldsákvörðun. Kærendur bendi á eftirfarandi atriði sem Orkustofnun hefði þurft að taka alvarlega áður en leyfið væri veitt. Í fyrsta lagi sé bent á mögulega staðsetningu virkjunar. Sá virkjunarkostur sem komi til greina í landi Surtsstaða sé að mati kærenda u.þ.b. 1,5 til 2 km neðar í Kaldá en sá sem lýst sé í rannsóknarleyfinu, en virkjun á þeim stað myndi ekki valda skaða á landi og mannvirkjum kærenda. Ekki sé fjallað um þetta í framkomnum athugasemdum Orkustofnunar eða leyfishafa. Í öðru lagi sé einungis einum aðila veitt rannsóknarleyfi samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 57/1998 og þar með aðrir útilokaðir frá því að fá leyfi á svæðinu. Gildistími leyfisins sé sjö ár og sé það óvenjulega langur tími en í athugasemdum Orkustofnunar segi um gildistímann að hann sé svo langur aðallega vegna þarfa á að kanna rennsli í ánum á löngum tíma. Af þessu tilefni bendi kærendur á að ef það hefði verið þörfin þá hefðu kærendur samþykkt að rennslismæli yrði komið fyrir. Formlegt rannsóknarleyfi hefði ekki þurft til þess.

Kærendur hefðu viljað koma öllum sínum sjónarmiðum skýrt á framfæri við Orkustofnun þannig að stjórnvaldið hefði getað myndað sér sjálfstæða afstöðu með tilliti til allra sjónarmiða sem máli skiptu. Það sé ekki hlutverk úrskurðarnefndar að taka efnislega afstöðu til atriða sem lægra setta stjórnvaldið hafi ekki metið enda væri þá nefndin að taka sér það hlutverk sem Orkustofnun sé ætlað lögum samkvæmt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Orkustofnunar frá 4. janúar 2019 að veita rannsóknarleyfi vegna áætlana um að virkja Kaldá og Ásdalsá í Jökulsárhlíð, en rannsóknarsvæðið nær m.a. til hluta jarðar kærenda.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu gefur Orkustofnun út rannsóknarleyfi til rannsóknar og leitar að auðlindum í jörðu, en um veitingu leyfis, efni þess og afturköllun fer nánar eftir VIII. kafla laganna, sbr. og 1. mgr. 5. gr. þeirra. Landeiganda eða umráðamanni lands er skylt að veita rannsóknarleyfishöfum óhindraðan aðgang að eignarlandi því sem í hlut á, sbr. 1. mgr. 26. gr. nefndra laga, og skv. 2. mgr. ákvæðisins ber landeiganda eða umráðamanni skv. 1. mgr. að hlíta hvers konar afnotum af landi, takmörkun á umráðarétti og óþægindum sem nauðsynleg eru vegna rannsóknar í samræmi við viðkomandi leyfi. Loks getur landeigandi krafist bóta vegna tjóns sem hann verður sannanlega fyrir vegna veitingar leyfis til leitar og rannsóknar á auðlind innan eignarlands vegna röskunar eða skemmda á landi og mannvirkjum og náist ekki samkomulag um bætur skal ákveða þær með eignarnámsmati, sbr. 28. gr. laganna.

Af framangreindum lagaákvæðum er ljóst að þegar rannsókn og leit að auðlindum í jörðu fer fram verða landeigendur að þola ákveðnar takmarkanir á eignarrétti sínum hvað varðar umráð og afnot eigna sinna. Svo sem áður segir er í lögum nr. 57/1998 fjallað um veitingu leyfis, efni þess og afturköllun, en að öðru leyti verður Orkustofnun við málsmeðferð sína, rétt eins og önnur stjórnvöld, að fara að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og viðhafa vandaða stjórnsýsluhætti. Felst í því m.a. að veita skal landeigendum tækifæri til að koma að athugasemdum sínum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga.

Hið kærða leyfi felur samkvæmt 5. gr. laga nr. 57/1998 í sér heimild til handa leyfishafa til að framkvæma mælingar og rannsóknir á viðkomandi svæði á leyfistímanum og ber að haga þeim í samræmi við rannsóknaráætlun, svo sem fram kemur í 3. gr. leyfisins. Er tekið fram í 1. gr. leyfisins að það feli hvorki í sér heimild til nýtingar eða virkjunar á vatnasviði rannsóknarsvæðisins né forgang til slíkrar nýtingar eða fyrirheit um virkjunarleyfi. Einnig kemur fram í leyfinu að komi til nýtingar þurfi leyfishafi að sækja um sérstakt virkjunarleyfi og ná samkomulagi við umráðahafa vatnsréttinda á svæðinu um endurgjald fyrir auðlindina eða afla sér eignarnámsheimildar. Í rannsóknaráætlun þeirri sem lögð er til grundvallar umsókn leyfishafa, dags. 26. október 2018, kemur m.a. fram að á svæðum þar sem fyrirhuguð séu mannvirki, þ.e. í stíflustæði, á pípuleið og við stöðvarhús, sé gert ráð fyrir því að gera skuli könnunargryfjur til að meta dýpi niður á fast og eiginleika bergs. Fjöldi og staðsetning gryfja ráðist af athugun á jarðfræði yfirborðs. Ekki sé gert ráð fyrir lengri tíma en tveimur dögum í gryfjugröft en eitt ár sé áætlað til að ganga frá rannsóknum og setja þær í samhengi við aðrar rannsóknir. Þá segir að fyllt verði upp í gryfjur sem gerðar verði og gengið frá landinu í sem næst upprunalegt horf strax að rannsóknum loknum. Í fylgibréfi með rannsóknarleyfinu, dags. 4. janúar 2019, kemur m.a. fram að Orkustofnun leggi áherslu á mikilvægi samráðs við landeigendur og eftir atvikum Umhverfisstofnun vegna svæða þar sem rannsóknir feli í sér umtalsvert jarðrask. Liggur þannig fyrir að hið umdeilda rannsóknarleyfi heimilar ekki eingöngu yfirborðsrannsóknir heldur einnig framkvæmdir sem geta haft í för með sér slíkt rask.

Andmælaregla 13. gr. stjórnsýslulaga kveður á um að stjórnvald skuli að jafnaði gefa aðilum máls kost á að tjá sig um efni þess áður en ákvörðun er tekin. Í þessu felst að málsaðilar geti komið á framfæri athugasemdum sínum eða sjónarmiðum varðandi það sem máli skiptir svo mál sé að fullu upplýst. Svo sem fram kemur í fylgibréfi með hinu kærða leyfi taldi Orkustofnun að landeigendum, þ.m.t. kærendum, væri kunnugt um umsókn leyfishafa. Vegna þessa var ekki leitað umsagna þeirra og af því tilefni var vísað til 13. gr. stjórnsýslulaga. Orkustofnun hefur og í skýringum sínum til úrskurðarnefndarinnar bent á að afstaða kærenda hefði líklega ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins. Þrátt fyrir ótvíræð ákvæði laga nr. 57/1998 um þær takmarkanir sem landeigendur verða að þola og áður er gerð grein fyrir ljóst að ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga leiða ekki til þess að almennt sé óþarft að veita þeim rétt til andmæla við útgáfu rannsóknarleyfa. Hið kærða leyfi heimilar jarðfræðirannsóknir sem felast m.a. í gerð könnunargryfja sem geta haft í för með sér verulegt jarðrask í landi kærenda, svo sem áður greinir. Hefði því átt að gæta meginreglna stjórnsýslulaga um andmælarétt, tilkynna kærendum um að umsókn væri til meðferðar og veita þeim færi á að tjá sig um hana, en ekki er útilokað að athugasemdir þeirra hefðu getað haft áhrif á mat Orkustofnunar um það hvort eða með hvaða skilyrðum veita ætti leyfi. Þá er rétt að benda á að í rannsóknaráætlun þeirri sem fylgdi umsókn um rannsóknarleyfi voru tilteknar upplýsingar um landeigendur á rannsóknarsvæðinu, m.a. kærendur, og var tekið fram að umsóknin væri gerð með vitund þeirra. Hins vegar gat möguleg vitneskja kærenda ekki leitt til þess að Orkustofnun væri rétt að virða að vettugi andmælarétt þeirra.

Með vísan til þess sem að framan er rakið var andmælaréttur kærenda ekki virtur við meðferð og útgáfu hins kærða rannsóknarleyfis og leiðir sá annmarki til ógildingar. Með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins verður leyfið þó eingöngu fellt úr gildi hvað varðar þær rannsóknir sem fela í sér jarðrask á jörðinni Surtsstöðum í Jökulsárhlíð.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Orkustofnunar frá 4. janúar 2019 um að veita rannsóknarleyfi vegna áætlana um að virkja Kaldá og Ásdalsá í Jökulsárhlíð að því marki sem það felur í sér heimild til rannsókna sem fela í sér jarðrask innan jarðarinnar Surtsstaða í Jökulsárhlíð.