Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

98/2019 Langeyrarvegur

Árið 2019, föstudaginn 11. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 á lóðarhafa Langeyrarvegs 4 frá og með 9. september 2019.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2019, er barst  nefndinni 24. september s.á., kærir eigandi, Langeyravegi 4, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 um álagningu dagsekta á kæranda. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 1. október 2019.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 10. júlí 2019, barst kæranda tilkynning frá byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar þar sem boðuð voru áform embættisins um að leggja dagsektir á kæranda með heimild í 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Kom og fram að samkvæmt samþykktum teikningum eigi að vera bílskúrshurð á bílskúr við framhlið húss kæranda, en samkvæmt þinglýstum leigusamningi sé rýmið leigt út sem íbúð. Þá væri ekki gert ráð fyrir timburklæðningu utan á byggingunni. Með bréfi byggingar­fulltrúa, dags. 22. ágúst, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun að beita kæranda 20.000 króna dagsektum frá og með 9. september 2019 vegna breytinga á útliti og fjölgun „eigna“ sem ekki væri heimild fyrir.

Kærandi vísar til þess að byggingarfulltrúi hafi ekki gætt reglna stjórnsýsluréttar þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Ekki hafi verið tekin framkvæmanleg og rökstudd stjórnvalds­ákvörðun í aðdraganda ákvörðunar um dagsektir. Dagsektarákvörðuninni sé ætlað að knýja á um athafnir og sé íþyngjandi ákvörðun. Verði efni slíkrar ákvörðunar að vera skýrt, fram­kvæmanlegt og stutt málefnalegum rökum. Kærandi geti ekki með ótvíræðum hætti gert sér grein fyrir því hvers krafist sé af honum þar sem hann hafi fylgt því sem embætti byggingar­fulltrúa hafi gert athugasemdir við. Athugasemdir byggingarfulltrúa sem hafi leitt til dagsekta teljist til minniháttar framkvæmda sem séu undanþegnar byggingarleyfi samkvæmt gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Til þess beri að líta að eignarhluti kæranda hafi alltaf verið klæddur en teikningar hússins hafi aldrei gefið vísbendingar um leyfilegar eða óleyfilegar klæðningar. Ákvörðun um að skipta um eldri klæðningu falli þannig að mati kæranda undir c-lið gr. 2.3.5. reglugerðarinnar sem viðhald bygginga að utan þegar notað sé eins eða sambæri­legt efni og frágangur þannig að útlit byggingar sé ekki breytt.

Af hálfu bæjaryfirvalda er m.a. vísað til þess að samkvæmt 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 sé byggingarfulltrúa heimilt að stöðva framkvæmdir hafi leyfi ekki verið fengið fyrir þeim. Sömu reglu sé að finna í gr. 2.9.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Til að byggingarfulltrúi geti rækt sitt eftirlitshlutverk og fylgt eftir ákvörðunum sínum séu í 56. gr. sömu laga og í gr. 2.9.2. reglugerðarinnar ákvæði um heimildir til að knýja fram úrbætur með álagningu dagsekta. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 beri eigandi húsnæðis ábyrgð á því að við hönnun byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laga og reglugerða. Fyrir liggi að kærandi hafi breytt m.a. útliti húsnæðis án heimildar. Byggingarfulltrúi hafi þess vegna beitt framan­greindum úrræðum í málinu, þ. á m. dagsektum. Verði ekki annað séð en að meðferð málsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði laga og reglugerða sem vísað hafi verið til og gætt hafi verið að öllum meginreglum stjórnsýsluréttarins við meðferð málsins.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram sú meginregla að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og sé um að ræða ákvörðun sem ekki felur í sér heimild til framkvæmda geti úrskurðarnefndin frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.

Ágreiningur í máli þessu snýst í grundvallaratriðum um hvort kæranda hafi borið að afla byggingarleyfis fyrir ætluðum breytingum á húsnæði hans og breyttri notkun þess samkvæmt ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Kærandi telur að athugasemdir byggingarfulltrúa sem hafi leitt til álagningar dagsekta snúist um minniháttar fram­­­kvæmdir, sem séu undanþegnar byggingarleyfi samkvæmt gr. 2.3.5. byggingar­reglugerðar.

Hin kærða ákvörðun felur í sér að lagðar eru á kæranda 20.000 króna dagsektir til að knýja hann til athafna og er um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Kærandi hefur nýtt sér lögbundinn rétt sinn til að bera undir úrskurðarnefndina réttarágreining um lögmæti kröfu byggingarfulltrúa að afla skuli byggingarleyfis vegna breytinga á útliti húss kæranda og breyttri notkun þess. Eins og málsatvikum er háttað, þykir rétt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar enda liggja ekki fyrir knýjandi ástæður sem gera það að verkum að varhugavert sé að bíða niðurstöðu úrskurðar­nefndarinnar um ágreiningsefni máls þessa.

Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 á lóðarhafa Langeyrarvegs 4 frá og með 9. september 2019.