Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

103/2019 Austurey

Með

Árið 2019, föstudaginn 18. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III og ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019 um að samþykkja byggingar­leyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. september 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Austureyjar II, Bláskógabyggð, ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III, og ákvörðun byggingar­fulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III. Er krafist ógildingar hinna kærðu ákvarðana og að úrskurðar­nefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunar­kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 10. október 2019.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag frístundabyggðar í landi Austureyjar I og III frá 7. júní 2002. Með umsókn, dags. 1. apríl 2019, sótti landeigandi Austureyjar III um breytingu á nefndu deiliskipulagi. Í umsókninni fólst skilmálabreyting fyrir heildarsvæðið varðandi nýtingarhlutfall lóða sem yrði 0,03 í stað ákvæðis um hámarksstærð bygginga í fer­metrum. Heimilað yrði að reisa á hverri frístundalóð eitt frístundahús og eitt smáhýsi/aukahús. Auk þess yrði frístundalóðin Eyrargata 9 stækkuð úr 5.444 m² í 7.177 m² ásamt stækkun byggingarreits. Tilgreint var að byggingarreitur væri 50 m frá vatnsbakka og 10 m frá lóðarmörkum og að gert yrði ráð fyrir 5 m belti fyrir göngustíg milli lóðanna Eyrargötu 7 og 9 í framhaldi af aðkomuvegi.

Á fundi skipulagsnefndar Bláskógabyggðar 10. apríl 2019 var mælst til þess að sveitarstjórn samþykkti framkomna breytingatillögu og að hún yrði auglýst samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags­­laga nr. 123/2010. Sveitarstjórn samþykkti að auglýsa tillöguna til kynningar á fundi sínum 9. maí 2019 og var hún kynnt á tímabilinu frá 22. maí til 3. júlí s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna á fundi sínum 22. ágúst 2019 og tók afstöðu til framkominna athugasemda. Skipulagsfulltrúi sendi athugasemdaaðilum svör bæjarstjórnar með bréfi, dags. 4. september s.á.

Með erindi, dags. 5. september 2019, sendi Bláskógabyggð Skipulagsstofnun deiliskipulags­breytinguna til lögboðinnar umfjöllunar og tilkynnti stofnunin með bréfi, dags. 18. s.m., að hún gerði ekki athugasemd við að auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Tók deiliskipulags­breytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2019.

Með umsókn, dags. 10. september 2019, sótti landeigandi Austureyjar III um byggingarleyfi fyrir 183,7 m² sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9. Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. september s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að ekki hafi verið aflað álits Umhverfisstofnunar og Náttúruverndarnefndar á umdeildri deiliskipulagsákvörðun eða samþykktu byggingarleyfi. Með þeim framkvæmdum sem nú eigi sér stað í Austurey III sé verið að raska vistkerfi Apa­vatns. Það sé skýrt samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd að við slíkar framkvæmdir beri að afla umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndar­­nefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir samkvæmt 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggi fyrir. Hvorki við samþykkt deili­skipulags né byggingarleyfis hafi þessara álita verið aflað og því beri að ógilda byggingarleyfið og taka deiliskipulagið til endurskoðunar.

Telji úrskurðarnefndin aftur á móti að afgreiðsla sveitarstjórnar hafi að þessu leyti átt við rök að styðjast og að ákvæði náttúruverndarlaga felli ekki úr gildi samþykkt deiliskipulagsins telji kærandi engu að síður að byggingarleyfið brjóti gegn lögum nr. 61/2006 um lax- og silungs­veiði en samkvæmt 33. gr. þeirra sé ekki heimilt að gefa út byggingarleyfi fyrr en leyfi hafi fengist hjá Fiskistofu. Þá hafi ekki verið óskað eftir áliti Veiðifélags Apavatns og umsagnar sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmda á lífríki vatnsins.

Kærandi byggir jafnframt á því að ekki hafi verið fylgt ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 og skipulagslaga nr. 123/2010 við samþykkt deiliskipulagsins. Ekki hafi verið leitað samráðs við hagsmunaaðila, sbr. gr. 5.2.1. reglugerðarinnar. Þannig hafi ekki verið haft samband við Veiðifélag Apavatns eða Náttúrufræðistofnun Íslands þrátt fyrir að framkvæmdirnar snerti viðkvæmt lífríki Apavatns sem hafi verið tilnefnt til B-hluta Náttúruminjaskrár árið 2018. Ekki sé í deiliskipulagi að finna skilgreindar takmarkanir á landnotkun sökum náttúruvár, en ljóst sé af myndum frá 2006 að mikil flóðahætta sé á svæðinu. Myndir af flóðum hafi verið sendar til sveitarstjórnar en hafi ekki fengið efnislega meðferð.

Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarstjórn byggir á því að málsmeðferðin hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við lög. Samkvæmt deiliskipulagi frá 2002 sé gert ráð fyrir byggingarreit á lóðinni Eyrargötu 9 á þeim stað þar sem hann sé í dag. Með deiliskipulags­breytingunni sé reiturinn stækkaður til austurs og suðurs og lóðin stækkuð um 1.735 m². Bent sé á að samkvæmt upphaflegu deiliskipulagi sé þegar gert ráð fyrir byggingu á staðnum og að stækkun lóðarinnar hafi engin áhrif á vistkerfi eða náttúru svæðisins enda sé ekki gert ráð fyrir mannvirkjum á þeim stöðum sem stækkunin taki til. Byggingarreiturinn sé í 50 m fjarlægð frá vatnsbakka en málsástæða kæranda, um að ekki megi byggja í meira en 100 m fjarlægð frá vatnsbakka þar sem svæðið sé tilnefnt í B-hluta Náttúruminjaskrár, sé hafnað þar sem svæðið sé ekki enn komin inn á skrána með þeim réttaráhrifum sem því fylgi.

Því sé hafnað að ákvæði 61. og 68. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd eigi við í málinu enda sé byggingarreitur í meira en 50 m fjarlægð frá vatnsbakka en það sé Apavatn sjálft sem njóti verndar, sbr. a-lið 1. mgr. 61. gr. laganna. Þá sé gert ráð fyrir byggingarreit á umræddum stað í skipulagi sem hafi hlotið lögmælta afgreiðslu og geti lög nr. 60/2013 ekki verið afturvirk. Heimiluð bygging samkvæmt umræddu byggingarleyfi hafi ekki áhrif á fiskigengd Apavatns og eigi 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði ekki við í máli þessu. Við vatnið séu fjöldamörg önnur sumarhús sem ekki hafi verið talið að hafi slík áhrif.

Deiliskipulagsbreytingin hafi verið í samræmi við markmið skipulagslaga og ákvæði skipulags­reglugerðar. Hún hafi verið auglýst og hafi öllum sem hafi átt hagsmuna að gæta gefist tækifæri til að koma að athugasemdum. Hvað varði þau málsrök kæranda að ekki hafi verið skilgreind takmörkun landnotkunar vegna náttúruvár sé til þess að líta að Aðalskipulag Bláskógabyggðar 2015-2027 hafi verið samþykkt 25. maí 2018. Við gerð þess hafi farið fram mat á því hvaða svæði féllu undir náttúruvá.

Að lokum sé því hafnað að skilyrði séu til staðar til þess að fella úr gildi ákvörðun um að samþykkja byggingaráform og veita byggingarleyfi. Samþykkt byggingaráform hafi verið í samræmi við skipulag og málsmeðferð að öðru leyti í samræmi við lög. Ekki hafi verið talið að framkvæmdir gætu haft í för með sér röskun á þeim landslagsgerðum sem verndaðar væru samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að fyrir liggi að hluti úr landi Austureyjar III hafi verið skipulagður sem frístundasvæði árið 2002, þar með talin lóðin Eyrargata 9, og hafi verið heimilt að byggja 163 m² á lóðinni fyrir breytingu. Sumarhúsið sem sé nú í byggingu verði 183,7 m². Ólíklegt sé að stækkun á sumarhúsi um 20 m² muni valda frekara raski eða hafa úrslitaáhrif um verndun Apavatns. Fyrirhugað sumarhús sé í eins og hálfs km fjarlægð frá Austurey III og er jörðin að Austurey I á milli. Mun því fyrirhugað sumarhús hvergi vera í sjónlínu frá landi kæranda.

Ekki sé verið að raska óröskuðu landi. Nú þegar hefur verið framkvæmt á svæðinu, en bæði séu frístundahús staðsett á lóðinni Eyrargötu 7 og jarðhiti hefur verið virkjaður. Fuglavarp á lóðinni að Eyrargötu 9 og umhverfis hana sé í engu ríkara en annars staðar í landi Austureyjar nema síður sé og til að mynda verpi engir andfuglar á lóðinni eða í námunda við hana.

Niðurstaða: Samkvæmt Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 teljast jarðirnar að Austurey I og III til frístundasvæðis. Í lýsingu aðalskipulagsins segir m.a. um frístundasvæði að á þeim skuli lóðir að jafnaði vera ½ til 1 ha að stærð og nýtingarhlutfall skuli ekki vera hærra en 0,03. Í ákveðnum tilfellum geti frístundalóðir þó verið minni og nýtingarhlutfall allt að 0,05. Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér skilmálabreytingu heildarsvæðisins varðandi nýtingarhlutfall sem breytist í 0,03. Heimilt verði að reisa eitt frístundahús og eitt smáhýsi/aukahús og þá verði lóðin að Eyrargötu 9 stækkuð úr 5.444 m² í 7.177 m². Fer hin umdeilda deiliskipulagsbreyting því ekki gegn stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulags­áætlana því fullnægt.

Umdeild deiliskipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem hann og gerði. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. sömu laga. Með bréfi, dags. 18. september 2019, tilkynnti stofnunin að hún hefði farið yfir framlögð gögn og gerði ekki athugasemdir við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulags­breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagssvæðið er ekki á B-hluta náttúruminjaskrár, sbr. lög nr. 60/2013 um náttúruvernd, því bar sveitarfélaginu ekki að leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar og viðkomandi náttúruverndar­­nefndar samkvæmt 68. gr. laganna. Með vísan til alls framangreinds liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð skipulags­­breytingarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Með hinu kærða byggingarleyfi er leyfishafa veitt heimild að byggja 183,7 m² sumarhús á lóðinni Eyrargötu 9 í landi Austureyjar III, en fyrir hina kærðu deiliskipulagsbreytingu mátti reisa á lóðinni byggingar, samtals 163 m² að stærð.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðar­nefndarinnar. Fyrirhugað sumarhús verður í nokkur hundrað metra fjarlægð frá landi kæranda. Verður ekki séð að stækkun heimilaðrar byggingar um 20,7 m² samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi muni hafa áhrif á grenndarhagsmuni kæranda vegna þeirrar fjarlægðar sem er á milli lands hans og fyrirhugaðs húss. Á kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti byggingarleyfisins svo sem áskilið er í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar en kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III.

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019, um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

102/2019 Freyjubrunnur

Með

Árið 2019, föstudaginn 11. október tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 102/2019 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2019, er barst nefndinni 29. s.m., kæra eigendur lóðarinnar Freyjubrunns 25-27, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Úlfársdals vegna lóðarinnar nr. 23 við Freyjubrunn. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik: Auglýsing um gildistöku breytingar á deiliskipulagi Úlfársdals vegna lóðarinnar nr. 23 við Freyjubrunn var birt í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst 2019. Var tekið fram að í breytingunni fælist m.a. fjölgun á íbúðum í húsinu á nefndri lóð úr 5 í 8, undantekningar vegna byggingarhluta sem megi skaga út fyrir byggingarreit og að hámarksvegghæð þriggja hæða bygginga verði 9,5 m frá gólfkóta fyrstu íbúðarhæðar ef þök séu flöt.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Gildistaka deiliskipulags eða deiliskipulagsbreytingar felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, svo sem samþykkt byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Er því almennt ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun.

98/2019 Langeyrarvegur

Með

Árið 2019, föstudaginn 11. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 á lóðarhafa Langeyrarvegs 4 frá og með 9. september 2019.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2019, er barst  nefndinni 24. september s.á., kærir eigandi, Langeyravegi 4, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 um álagningu dagsekta á kæranda. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 1. október 2019.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 10. júlí 2019, barst kæranda tilkynning frá byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar þar sem boðuð voru áform embættisins um að leggja dagsektir á kæranda með heimild í 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Kom og fram að samkvæmt samþykktum teikningum eigi að vera bílskúrshurð á bílskúr við framhlið húss kæranda, en samkvæmt þinglýstum leigusamningi sé rýmið leigt út sem íbúð. Þá væri ekki gert ráð fyrir timburklæðningu utan á byggingunni. Með bréfi byggingar­fulltrúa, dags. 22. ágúst, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun að beita kæranda 20.000 króna dagsektum frá og með 9. september 2019 vegna breytinga á útliti og fjölgun „eigna“ sem ekki væri heimild fyrir.

Kærandi vísar til þess að byggingarfulltrúi hafi ekki gætt reglna stjórnsýsluréttar þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Ekki hafi verið tekin framkvæmanleg og rökstudd stjórnvalds­ákvörðun í aðdraganda ákvörðunar um dagsektir. Dagsektarákvörðuninni sé ætlað að knýja á um athafnir og sé íþyngjandi ákvörðun. Verði efni slíkrar ákvörðunar að vera skýrt, fram­kvæmanlegt og stutt málefnalegum rökum. Kærandi geti ekki með ótvíræðum hætti gert sér grein fyrir því hvers krafist sé af honum þar sem hann hafi fylgt því sem embætti byggingar­fulltrúa hafi gert athugasemdir við. Athugasemdir byggingarfulltrúa sem hafi leitt til dagsekta teljist til minniháttar framkvæmda sem séu undanþegnar byggingarleyfi samkvæmt gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Til þess beri að líta að eignarhluti kæranda hafi alltaf verið klæddur en teikningar hússins hafi aldrei gefið vísbendingar um leyfilegar eða óleyfilegar klæðningar. Ákvörðun um að skipta um eldri klæðningu falli þannig að mati kæranda undir c-lið gr. 2.3.5. reglugerðarinnar sem viðhald bygginga að utan þegar notað sé eins eða sambæri­legt efni og frágangur þannig að útlit byggingar sé ekki breytt.

Af hálfu bæjaryfirvalda er m.a. vísað til þess að samkvæmt 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 sé byggingarfulltrúa heimilt að stöðva framkvæmdir hafi leyfi ekki verið fengið fyrir þeim. Sömu reglu sé að finna í gr. 2.9.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Til að byggingarfulltrúi geti rækt sitt eftirlitshlutverk og fylgt eftir ákvörðunum sínum séu í 56. gr. sömu laga og í gr. 2.9.2. reglugerðarinnar ákvæði um heimildir til að knýja fram úrbætur með álagningu dagsekta. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 beri eigandi húsnæðis ábyrgð á því að við hönnun byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laga og reglugerða. Fyrir liggi að kærandi hafi breytt m.a. útliti húsnæðis án heimildar. Byggingarfulltrúi hafi þess vegna beitt framan­greindum úrræðum í málinu, þ. á m. dagsektum. Verði ekki annað séð en að meðferð málsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði laga og reglugerða sem vísað hafi verið til og gætt hafi verið að öllum meginreglum stjórnsýsluréttarins við meðferð málsins.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram sú meginregla að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og sé um að ræða ákvörðun sem ekki felur í sér heimild til framkvæmda geti úrskurðarnefndin frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.

Ágreiningur í máli þessu snýst í grundvallaratriðum um hvort kæranda hafi borið að afla byggingarleyfis fyrir ætluðum breytingum á húsnæði hans og breyttri notkun þess samkvæmt ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Kærandi telur að athugasemdir byggingarfulltrúa sem hafi leitt til álagningar dagsekta snúist um minniháttar fram­­­kvæmdir, sem séu undanþegnar byggingarleyfi samkvæmt gr. 2.3.5. byggingar­reglugerðar.

Hin kærða ákvörðun felur í sér að lagðar eru á kæranda 20.000 króna dagsektir til að knýja hann til athafna og er um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Kærandi hefur nýtt sér lögbundinn rétt sinn til að bera undir úrskurðarnefndina réttarágreining um lögmæti kröfu byggingarfulltrúa að afla skuli byggingarleyfis vegna breytinga á útliti húss kæranda og breyttri notkun þess. Eins og málsatvikum er háttað, þykir rétt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar enda liggja ekki fyrir knýjandi ástæður sem gera það að verkum að varhugavert sé að bíða niðurstöðu úrskurðar­nefndarinnar um ágreiningsefni máls þessa.

Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 á lóðarhafa Langeyrarvegs 4 frá og með 9. september 2019.

147/2018, 1 og 2/2019 Vatnsendablettur

Með

Árið 2019, föstudaginn 11. október kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 147/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 25. september 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda, svæðis milli vatns og vegar, að því er varðar Vatnsendablett 730-739.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. desember 2018, er barst nefndinni 21. s.m., kæra tíu íbúar við Vatnsenda, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 25. september 2018 að samþykkja breytingu á deili­skipulagi Vatnsenda, svæðis milli vatns og vegar, fyrir Vatnsendablett 730-739. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, að úrskurðarnefndin kveði upp bráðabirgðaúrskurð um frestun réttaráhrifa ákvörðunar­­innar og að allar framkvæmdir, hvort sem þær eru hafnar eða yfirvofandi, verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðarnefndin hafi málið til umfjöllunar.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. janúar 2019, sem bárust úrskurðarnefndinni sama dag, kæra annars vegar eigandi, Elliðahvammi við Vatnsenda, Kópavogi og hins vegar A og B, erfingjar að 1/15 hluta dánarbús sem hefur á hendi beinan eignarrétt að jörðinni Vatnsenda, einnig fyrrgreinda ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, að úrskurðarnefndin kveði upp bráðabirgðaúrskurð um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar og að allar framkvæmdir, hvort sem þær eru hafnar eða yfirvofandi, verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðarnefndin hafi málið til umfjöllunar. Þar sem hin síðari kærumál, sem eru nr. 1 og 2/2019, varða sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verða þau sameinuð máli þessu.

Kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa var hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 24. janúar 2019.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 25. janúar 2019.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Vatnsenda, svæðis milli vatns og vegar, frá maí 2001. Hinn 4. desember 2017 samþykkti skipulagsráð Kópavogsbæjar að auglýsa tillögu um breytingu á nefndu deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 730-739 við Vatnsendablett. Í tillögunni fólst fjölgun íbúða og tilfærsla á byggingarreitum. Gert yrði ráð fyrir sjö parhúsum, fjórbýlis­húsi og fjölbýlishúsi með fimm íbúðum. Alls væri um að ræða fjölgun íbúða um 13 á skipulagssvæðinu. Bæjarstjórn samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi sínum 12. desember 2017 og var tillagan kynnt á tímabilinu frá 20. janúar 2018 til 12. mars s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Skipulags- og byggingardeild bæjarins brást við athuga­semdum kærenda með umsögn, dags. 20. ágúst 2018, og bæjarstjórn samþykkti deiliskipulags­­­­­­­tillöguna á fundi sínum 25. september 2018.

Með erindi, dags. 26. september 2018, sendi Kópavogsbær Skipulagsstofnun deiliskipulags­breytinguna til lögboðinnar umfjöllunar. Með bréfi, dags. 10. október s.á., tilkynnti stofnunin að hún gæti ekki tekið afstöðu til efnis deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem ekki lægi fyrir umsögn heilbrigðiseftirlitsins um færslu byggingarreita nær hænsnabúinu í Elliðahvammi, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Í umsögn skipulags- og byggingardeildar, tl. 7.3, um athugasemdir hagsmunaaðila vegna deiliskipulagstillögunnar, væri fjallað um mögulega lykt frá hænsnabúinu. Segi þar að setningu um það yrði bætt við greinargerð en það hefði ekki verið gert og jafnframt segði í umsögninni að möguleiki væri á að skoða staðsetningu vatnsbrunns til vara norðan girðingar við Elliðahvamm, en ekki væri ljóst af gögnum hvort það hefði verið gert. Skipulagsstjóri tók fyrir athugasemdir stofnunarinnar með erindi, dags. 6. nóvember 2018. Með bréfi, dags. 15. s.m., tilkynnti Skipulagsstofnun að þar sem umsögn Heilbrigðiseftirlitsins lægi nú fyrir og brugðist hefði verið við ábendingum stofnunar­innar, gerði hún ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulags­­breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda og tók hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 28. nóvember 2018.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulags­­breytingar hafi í veigamiklum atriðum vikið frá þeim málsmeðferðar­reglum sem skipulagslög nr. 123/2010, skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og stjórnsýslulög nr. 37/1993 mæli fyrir um. Greinargerð með skipulagstillögunni hafi verið ábótavant, en af lestri upphaflegrar greinar­gerðar með tillögunni sé ljóst að mikið skorti á að hún uppfylli kröfur gr. 5.8.5.2. skipulagsreglugerðar, sem fjalli nánar um hvert inntak greinargerðar með skipulagstillögu skuli vera. Kærendum hafi ekki verið send umsögn sveitar­félagsins um athugasemdir sínar fyrr en með bréfum, dags. 27. nóvember 2018, sem bárust 30. s.m. Hefði þá skipulagsbreytingin þegar verið auglýst og kærufrestur vegna málsins tekinn að líða. Þetta verklag sveitarfélagsins hafi ekki samrýmst 1. mgr.  42. gr. skipulagslaga, sem mæli samkvæmt orðanna hljóðan fyrir um að umsagnir hefðu átt að sendast kærendum samhliða því að sveitarstjórn sendi Skipulagsstofnun samþykkt deiliskipulag, sbr. 2. málslið ákvæðisins. Kærendum hafi samkvæmt framansögðu ekki gefist færi á að kynna sér afstöðu Kópavogsbæjar til framkominna athugasemda fyrr en hinn mánaðarlangi kærufrestur vegna ákvörðunar um deiliskipulag hafi byrjað að líða. Aðrir ágallar hafi orðið á meðferð málsins. Samkvæmt gr. 5.7.12. skipulagsreglugerðar beri sveitar­stjórn að tilgreina kæruheimildir í auglýsingu um niðurstöðu sína hvað varði breytingu á deili­skipulagi. Af þeim gögnum sem kærendur hafi undir höndum verði ekki séð að slíkar almennar kæruleiðbeiningar hafi verið veittar. Þá hafi samþykkt deiliskipulag ekki verið sent Skipulags­stofnun innan lögbundins frests samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.

Hin umþrætta deiliskipulagsbreyting feli í sér gjörbreytingu á uppbyggingu Vatnsendabletts bæði hvað varði byggingarmagn, svipmót og eðli byggðar. Íbúafjöldi reitsins muni rúmlega tvöfaldast og reitanýtingarhlutfall fari úr 0,23 í 0,42. Samkvæmt því sem fram komi í umsögn Kópavogsbæjar sé reitanýting á aðliggjandi svæðum sex íbúðir á hektara en með breytingunni verði nýting Vatnsendabletts 15 íbúðir á hektara. Þéttleiki byggðar yrði því í algeru ósamræmi við nærliggjandi byggð. Svipmót byggðarinnar yrði sömuleiðis á skjön við þá byggð sem fyrir sé enda sé ráðgert að í stað einbýlishúsa komi annars vegar sjö parhús og hins vegar tvö fjölbýlishús meðan aðliggjandi reitir einkennist af lágreistum einbýlishúsum. Breytingin muni því kollvarpa heildaryfirbragði byggðar í kvosinni næst Elliðavatni. Af framansögðu sé ljóst að um sé að ræða róttæka breytingu á deiliskipulagi reitsins sem þurfi að eiga skýra stoð í aðalskipulagi. Af umsögn Kópavogsbæjar verði ráðið að sveitarfélagið rökstyðji samræmi deiliskipulagsbreytingarinnar við aðalskipulag með þrenns konar rökum. Í fyrsta lagi sé vísað til þess að gildandi aðalskipulag innihaldi áherslur um þéttingu byggðar. Í öðru lagi sé vísað til athugasemda í greinargerð með aðalskipulaginu um fram komnar hugmyndir að breyttri nýtingu reitsins. Loks sé vísað til stefnu bæjaryfirvalda um fjölgun íbúða. Að mati kærenda feli ekkert framangreindra sjónarmiða í sér víðhlítandi lagagrunn fyrir hinni umdeildu deiliskipulags­breytingu.

Til viðbótar framangreindum sjónarmiðum um ósamræmi við aðalskipulag sé deiliskipulags­breytingin haldin veigamiklum efniságalla enda brjóti hún gegn fyrirmælum gildandi stjórnvalds­­­­­reglna varðandi hollustuhætti. Aðliggjandi Vatnsendabletti sé alifuglabúið að Elliða­hvammi. Meðal þess sem deiliskipulagsbreytingin hafi í för með sé að byggingarreitir fyrir­hugaðrar íbúðabyggðar séu færðir nær alifuglabúinu en áður hafi verið, í bága við fyrirmæli stjórnvaldsreglna um hollustuvernd og mengunarvarnir. Samkvæmt 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, sbr. reglugerð 578/2017, skuli hæfileg fjarlægð vera á milli mannabústaða og matvælafyrirtækja annars vegar og mengandi atvinnustarfsemi og annarrar starfsemi sem valdið geti óþægindum hins vegar. Sé tekið fram að þar sem kveðið sé á um fjarlægðarmörk í öðrum reglugerðum eða í skipulagi skuli taka tillit til þeirra marka. Bæri því sveitarstjórn bæði að taka rökstudda afstöðu til hæfilegrar fjarlægðar nýrrar byggðar frá þeirri starfsemi sem fyrir sé á svæðinu og eins að gæta að ófrávíkjanlegum lágmarkskröfum í þessum efnum. Að því er varði alifuglabú sé slíkar lágmarkskröfur að finna í reglugerð um eldishús alifugla, loðdýra og svína nr. 520/2015. Í 6. gr. reglugerðarinnar sé að finna efnisleg fyrirmæli um fjarlægðir eldishúsa frá öðrum mannvirkjum sem sveitarstjórn skuli ákvarða í skipulags­áætlunum. Fram komi í ákvæðinu að sveitarstjórn skuli ákvarða fjarlægðir með hliðsjón af hugsanlegum umhverfisáhrifum en fjarlægðir megi þó aldrei vera minni en segi í ákvæðinu. Að því er varði eldishús fyrir alifuglabú ætluð fyrir 40.000 til 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 40.000 til 60.000 stæði fyrir hænur skuli umrædd fjarlægð aldrei vera minni en 50 metrar. Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar eigi framangreindar fjarlægðarreglur við þegar um sé að ræða nýbyggingu eldishúsa, meiriháttar breytingar eða stækkun þeirra og breytta notkun í eldishús sem geti valdið auknum óþægindum. Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar sé hins vegar tekið fram að fjarlægðarmörkin sem fram komi í 1. mgr. gildi einnig þegar um sé að ræða nýbyggingu mannvirkja sem teljist mannabústaðir eða vinnustaðir, meiriháttar breytingar eða stækkanir á þeim og þegar um sé að ræða breytta notkun. Með öðrum orðum beri sveitarstjórn við útfærslu skipulagsákvarðana að gæta fyrrnefndra fjarlægðarmarka þegar um sé að ræða nýja byggð í grennd við eldishús. Þetta hafi hins vegar ekki verið gert.

Ýmis ummæli í umsögn Kópavogsbæjar gefi til kynna að undirbúningi deiliskipulags­breytingarinnar hafi verið áfátt hvað varði rannsókn máls, efnislegt mat og rökstuðning niðurstöðu. Hinn rauði þráður í athugasemdum íbúa hafi verið sá að benda á að hið verulega aukna byggingarmagn myndi eyðileggja hið sérstaka yfirbragð svæðisins sem einkennist af strjálli og lágreistri byggð. Í umsögninni sé að mestu leyti sneitt hjá þessum umkvörtunarefnum og að mestu einblítt á afmörkuð atriði eins og útsýni og skuggavarp. Sjónarmiðum íbúa um skerðingu á lífsgæðum og verðmætisrýrnun eigna sé eingöngu svarað með vísan í bótaákvæði skipulagslaga. Slík rök séu ekki boðleg enda beri sveitarfélagi að vinna skipulagstillögur í samræmi við markmið skipulagslöggjafar.

Kópavogsbær virðist hafa, með nýsamþykktri deiliskipulagsbreytingu sem gangi mun lengra í aukningu byggingarmagns en fyrri tillögur sem hafnað hafi verið, gengið þvert gegn eigin fyrri framkvæmd varðandi skipulag á Vatnsendabletti. Engar haldbærar skýringar hafi verið gefnar á breyttu mati bæjarins. Afgreiðsla sveitarfélagsins sé á skjön við það innbyrðis samræmi við framkvæmd skipulags sem íbúar eigi rétt á og brjóti gegn réttmætum væntingum þeirra.

Þá halda þeir kærendur, sem annars vegar gera tilkall til jarðarinnar Elliðahvamms í Vatnsenda og hins vegar erfingjar að dánarbúi Sigurðar Hjaltested, því fram að hið umdeilda deiliskipulag verði aldrei knúið í gegn af bæjaryfirvöldum nema að höfðu samráði og með samþykki þeirra.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 sé umrætt skipulagssvæði skilgreint sem íbúðarsvæði Kórar, Hvörf, Þing, ÍB-5. Samkvæmt aðalskipulagi sé svæðinu lýst sem byggð einbýlishúsa, raðhúsa og fjölbýlishúsa. Þá komi fram að helsta uppbyggingarsvæðið í Vatnsenda á skipulagstímabilinu verði í Vatnsendahlíð, þar sem gert sé ráð fyrir 900 íbúðum. Hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag.

Því sé hafnað að óverulegir annmarkar á greinargerð skipulagsuppdráttarins hafi komið í veg fyrir að hagsmunaaðilar hefðu getað gert sér grein fyrir því í hverju breytingartillagan hafi falist. Óumdeilt sé að deiliskipulagsbreytingunni hafi ítarlega verið lýst í greinargerð á kynntum skipulagsuppdrætti. Umrædd viðbót við greinargerðina hafi lotið að skilgreiningu og mark­miðum gildandi aðalskipulags, þ.e. að tillagan væri í samræmi við skilgreiningu svæðisins og meginmarkmið aðalskipulags. Þá sé rétt að benda á að skýringarmynd aðalskipulagsins, uppdráttur gildandi deiliskipulags og hinnar kynntu skipulagstillögu haldist óbreytt. Hér sé því ekki um að ræða breytingu á grundvallaratriðum og því ekki ástæða til þess að auglýsa skipulags­tillöguna að nýju, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt beri að nefna að Skipulagsstofnun hafi ekki gert frekari athugasemdir við deiliskipulagið eftir að búið hafi verið að bregðast við athugasemdum stofnunarinnar.

Því sé hafnað að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila. Deiliskipulagsbreytingin hafi verið auglýst og öllum þeim sem töldu sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að tjá sig um hana. Einnig sé bent á að meginforsendur umræddrar deiliskipulagsbreytingar liggi fyrir í gildandi aðalskipulagi. Þá hafi þeim aðilum sem gerðu athugasemdir á kynningartíma verið svarað. Það sé á valdi skipulagsyfirvalda að meta hvort framlagðar athugasemdir séu þess eðlis að nauðsynlegt sé að bregðast við þeim. Samráð við hagsmunaaðila á vinnslutíma feli ekki í sér þátttöku í ákvarðanatöku í skipulagsmálum.

Hvað varði þá athugasemd kærenda að samþykkt deiliskipulag hafi verið sent til Skipulags­stofnunar að liðnum lögbundnum sex mánaða fresti, sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga, þá verði að telja greinda seinkun óverulega. Athugasemdarfrestur hafi runnið út 12. mars 2018 og hafi því frestur til að senda samþykkt deiliskipulag til Skipulagsstofnunar verið til og með 12. september s.á. Skipulagsráð hafi samþykkt deiliskipulagsbreytinguna innan lögbundins frests, þ.e. 20. ágúst 2018, og hafi hún verið send Skipulagsstofnun innan sólarhrings frá því að bæjarstjórn samþykkti tillöguna, 25. september 2018. Ýmsar óviðráðanlegar ástæður hafi legið að baki því að málið hafi ekki verið tekið aftur fyrir hjá skipulagsráði fyrr en í lok sumars, s.s. sveitarstjórnar­­­­kosningar, sumarleyfi og myndun nýs skipulagsráðs.

Þeirri málsástæðu kærenda sé hafnað að skort hafi á kæruleiðbeiningar. Öllum aðilum sem hafi gert athugasemdir hafi verið send tilkynning um lok máls, dags. 27. nóvember 2018, þar sem gerð hafi verið grein fyrir kæruleiðum. Hvað varði nálægð fyrirhugaðrar byggðar við eldishús á næstu lóð þá hafi heilbrigðiseftirlitið ekki gert athugasemdir við það í umsögn sinni um deiliskipulagsbreytinguna. Í greindri umsögn komi fram að reglugerð nr. 520/2015 um eldishús, alifugla, loðdýra og svína leggi hömlur á byggingu nýrra eldishúsa nærri íbúðarbyggð. Reglugerðin banni hins vegar ekki byggingu nýrra íbúðarhúsa nærri eldishúsum. Verði að telja það verulega íþyngjandi ef fjarlægðartakmarkanir eigi að eiga við nýbyggingar á næstu lóð. Með því takmarkist nýtingarmöguleikar lóðarinnar þegar eldishúsi sé komið fyrir alveg við lóðarmörk aðliggjandi lóðar. Sé reglugerðarákvæðinu ætlað að hafa áhrif á staðsetningu og fjarlægð nýbyggingu næstu lóðar yrði að gera þá kröfu að eldishús séu staðsett 50 m eða 100 m frá aðliggjandi lóðarmörkum, eftir því sem eigi við hverju sinni m.v. fjölda fugla.

—–

 Frekari rök og sjónarmið liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér, en úrskurðar­nefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagsbreytingar fyrir Vatnsendablett 730-739, sem felur m.a. í sér fjölgun íbúða og tilfærslu byggingarreita á lóðunum.

Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 teljast lóðirnar Vatnsendablettur 730-739 til íbúðarbyggðar, merkt ÍB-5 Vatnsendi (Kórar, Hvörf, Þing). Í lýsingu aðalskipulags segir um svæðið að þar sé blönduð byggð einbýlishúsa, raðhúsa og fjölbýlishúsa. Helsta uppbyggingar­svæðið á Vatnsenda á skipulagstímabilinu verði í Vatnsendahlíð, þar sem gert sé ráð fyrir 900 íbúðum. Nánari umfjöllun um Vatnsenda er að finna í rammahluta aðalskipulags um Vatnsenda. Þar segir um Vatnsendablett 730-739 að í samþykku deiliskipulagi fyrir Vatnsenda, milli vatns og vegar, komi fram að á svæðinu eigi aðeins eftir að byggja 10 einbýlishús á Vatnsenda­bletti 730-739 og að fram hafi komið hugmyndir um að breyta einbýlishúsunum að hluta í parhús. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir sjö parhúsum, fjórbýlishúsi og fjölbýlishúsi með fimm íbúðum. Alls er það fjölgun um 13 íbúðir sem tekur til 1,5 ha svæðis, en skipulagssvæðið í heild er um 37 ha. Verður ekki séð að tilvísun aðalskipulagsins í gildandi deiliskipulag fyrir lóðirnar Vatnsendablett 730-739 geri það að verkum að hin kærða deili­skipulagsbreyting fari í bága við bindandi hluta aðalskipulags, en eitt af markmiðum þess sé þétting byggðar og einskorðist það ekki við skilgreind þróunarsvæði í aðalskipulagi. Fer hin umdeilda deiliskipulagsbreyting því ekki gegn stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana því fullnægt.

Hið kærða deiliskipulag var auglýst til kynningar lögum samkvæmt og áttu kærendur þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem þeir og gerðu. Í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um að senda skuli Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð, ásamt athugasemdum og umsögnum um þær, innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Var sá frestur liðinn þegar Skipulagsstofnun var send umrædd deiliskipulagsbreyting ásamt nefndum fylgigögnum. Í nefndu ákvæði er einnig tekið fram að sveitarstjórn skuli jafnframt senda þeim aðilum er athugasemdir gerðu umsögn sína um þær. Fyrir liggur að kærendum bárust ekki svör við athugasemdum sínum fyrr en með bréfum, dags. 27. nóvember 2018, en Kópavogsbær sendi Skipulags­stofnun deiliskipulagsbreytinguna til yfirferðar með erindi, dags. 26. september s.á. Hefði verið rétt, með hliðsjón af orðalagi nefndrar 42. gr. að kærendum hefði verið send svör við athugasemdum þeirra við deiliskipulagstillöguna á sama eða svipuðum tíma og svörin voru send Skipulagsstofnun til afgreiðslu. Eru þessir annmarkar á málshraða þó ekki þess eðlis að þeir geti raskað gildi hinnar kærðu ákvörðunar enda höfðu þeir ekki áhrif á efni hennar og urðu kærendur ekki fyrir réttarspjöllum af þessum sökum.

Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína skal sveitarstjórn ákvarða fjarlægðir slíkra húsa frá mannabústöðum með hliðsjón af hugsanlegum umhverfis­áhrifum en fjarlægðir samkvæmt b-lið I. liðar 1. mgr. ákvæðisins skulu vera 50 m fyrir bú ætluð fyrir 40.000 til 85.000 stæði fyrir kjúklinga. Eggja- og kjúklingabúið að Elliða­hvammi er með starfsleyfi sem gildir til 25. september 2021. Leyfið tekur til framleiðslu á 180 tonnum af eggjum og 70 tonna af sláturfugli á ári í eggja- og kjúklingahúsum með allt að 13.000 stæðum fyrir alifugla. Því er ljóst að umrætt bú er talsvert undir stærðarviðmiðum tilvitnaðs b-liðar reglugerðarinnar. Í málinu liggur fyrir að fjarlægð frá hænsnabúinu að fyrirhuguðum byggingarreit íbúðarhúss þar sem hún er minnst, er 27,3 m. Að mati bæjaryfirvalda var talið að 27,3 m væri hæfileg fjarlægð milli byggingarreita og alifuglabúsins með hliðsjón af 24. gr. reglugerðar nr. 951/2002 um hollustuhætti, þar sem fram kemur að hæfileg fjarlægð skuli vera á milli mannabústaða og matvælafyrirtækja. Ekki eru efni til að hrófla við því mati.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga bera sveitarstjórnir ábyrgð á og annast gerð deiliskipulagsáætlana í sínu umdæmi. Hvergi í lögum er það áskilið að sveitarstjórn afli samþykkis landeiganda vegna skipulagsákvarðana er taka til lands í einkaeigu enda verður beinum eða óbeinum eignarréttindum ekki ráðstafað með skipulagsáætlunum. Í kærumáli þessu takmarkast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar við hina kærðu skipulagsbreytingu, en það er ekki á færi nefndarinnar að taka afstöðu til álitaefna um ætluð bein eða óbein eignarréttindi kærenda á skipulagssvæðinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og þess víðtæka skipulagsvalds sem sveitar­stjórnum er veitt í skipulagslögum verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 25. september 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda, svæðis milli vatns og vegar, að því er varðar Vatnsendablett 730-739.

152/2018 Miðdalur

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 9. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 152/2018, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 23. nóvember 2018 um að synja erindi Miðdals ehf. um efnistöku í Hrossadal í landi Miðdals.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Miðdalur ehf., Vínlandsleið 16, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 23. nóvember 2018 að synja erindi félagsins um efnistöku í Hrossadal í landi Miðdals. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins og athugasemdir bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 29. janúar og 9. ágúst 2019.

Málsatvik og rök: Kærandi sótti  um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar vegna efnistöku, nánar tiltekið grjótnámi, í landi Miðdals sem er í eigu kæranda. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 23. nóvember 2018 var erindi kæranda synjað „þar sem framkvæmdin samræmist ekki gildandi aðalskipulagi“. Á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar 10. janúar 2019 var erindi kæranda endurupptekið og skipulagsnefnd falið að taka það fyrir að nýju. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 1. febrúar s.á. Í niðurstöðu nefndarinnar var vísað til þess að bæjarstjórn hefði á fundi sínum 3. október 2018 tekið ákvörðun um að ráðast í endurskoðun aðalskipulags Mosfellsbæjar. Frá þeim tíma hafi beiðnum um breytingu aðalskipulags almennt verið vísað til endurskoðunar aðalskipulagsins. Með hliðsjón af framangreindu samþykkti skipulagsnefnd að vísa erindi kæranda til endurskoðunar aðalskipulags.

Kærandi byggir á því að rökstuðningur fyrir ákvörðun bæjaryfirvalda hafi ekki verið fullnægjandi og hafi hvorki stuðst við lögmæt né málefnaleg sjónarmið. Þar sem umsókn og erindi kæranda hafi lotið að því að fá tilgreinda breytingu á aðalskipulagi dugi ekki að halda því fram að erindið hafi ekki samrýmst skipulagi. Beri að taka efnislega afstöðu til erindisins út frá viðurkenndum skipulagssjónarmiðum. Hvers kyns takmarkanir á hagnýtingu eignarréttar verði að styðjast við lagaheimild og þegar stjórnvöldum sé falið að taka matskenndar ákvarðanir verði þau að gera það á grundvelli faglegra og málefnalegra sjónarmiða.

Af hálfu bæjaryfirvalda  er vísað til þess að mistök hafi verið gerð og fallist hafi verið á að taka málið til meðferðar að nýju. Upphafleg krafa kæranda um að hin kærða ákvörðun sé felld úr gildi sé því ekki lengur tæk til meðferðar. Með ákvörðun skipulagsnefndar 1. febrúar 2019 hafi verið brugðist við athugasemdum kæranda sem fram hafi komið í kæru og ný ákvörðun verið tekin sem fullnægi kröfum skipulagslaga nr. 123/2010, sem og stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um málsmeðferð og rökstuðning.

Niðurstaða: Svo sem nánar er lýst í málavöxtum sótti kærandi um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar vegna efnistöku í landi sínu í Miðdal. Erindi kæranda var synjað af skipulagsnefnd á þeim forsendum að það samrýmdist ekki gildandi aðalskipulagi.  Fallist var á að sú afgreiðsla hefði ekki verið fullnægjandi og var málið endurupptekið. Urðu lyktir þær að samþykkt var á fundi skipulagsnefndar 1. febrúar 2019 að vísa erindi kæranda til endurskoðunar aðalskipulags Mosfellsbæjar, en heildarendurskoðun þess stendur nú yfir. Mun erindið því enn vera til meðferðar hjá sveitarfélaginu. Úrskurðarnefndin hefur í ljósi atvika leitað eftir afstöðu kæranda til kæruefnisins, en þær umleitanir hafa ekki borið árangur. Með hliðsjón af því að kæruefnið er ekki lengur fyrir hendi verður kærandi ekki talinn eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá skorið úr um úrlausn þess, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamál. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

45/2018 Ostrur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 8. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2018, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 19. febrúar 2018 um að synja umsókn um leyfi til innflutnings á einni milljón risaostra (Crassostrea gigas) á ári til þriggja ára til áframræktunar við Kaldárós við Faxaflóa.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Litla-Hraun ehf. þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 19. febrúar 2018 að synja umsókn um leyfi til að flytja inn eina milljón þrílitna ostra á ári til þriggja ára, alls þrjár milljónir ostra, til áframræktunar í tilraunaskyni á jörðinni Litla-Hrauni við Kaldárós við Faxaflóa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að kæranda verði heimilaður innflutningur á einni milljón þrílitna ostra á ári í þrjú ár, þ.e. á samtals þremur milljónum ostra.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 18. apríl 2018 og 3. júní 2019.

Málavextir: Í janúar 2017 veitti Matvælastofnun kæranda tilraunaleyfi til þriggja ára með nánar tilgreindum skilyrðum til ræktunar á risaostrum (Crassostrea gigas) við Kaldárós við Faxaflóa, með vísan til 7. gr. laga nr. 90/2011 um skeldýrarækt. Í kjölfarið sótti kærandi um leyfi til innflutnings á umræddri tegund til áframræktunar á sama svæði. Í erindinu kom fram að stefnt væri að innflutningi á 6 mm ostrum frá eldisstöð í Frakklandi sem aldar yrðu í búrum frá Kanada. Ostrurnar yrðu fluttar inn í litlum skömmtum í tvígang í upphafi, en eftir það yrði „svolítið magn“ flutt til Íslands. Jafnframt yrði hugað að því að koma á fót eldisstöð á Íslandi. Framsendi Matvælastofnun erindið til Umhverfisstofnunar með tölvupósti 23. febrúar 2017.

Umhverfisstofnun tók umsóknina til meðferðar og leitaði umsagnar sérfræðinganefndar um framandi lífverur, sbr. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Taldi nefndin í umsögn sinni, dags. 10. apríl 2017, að hafna bæri umsókninni vegna hættu á neikvæðum áhrifum á vistkerfið. Með bréfi, dags. 17. maí s.á., kom kærandi að frekari gögnum og sjónarmiðum sínum við greinda umsögn. Veitti sérfræðinganefndin umsögn að nýju, dags. 30. júní 2017, og áleit sem fyrr að hafna bæri umsókninni.

Í framhaldi þessa áttu sér stað nokkur samskipti milli Umhverfisstofnunar og lögmanns kæranda og var umsókninni breytt á þann veg að hún takmarkaðist við þrílitna ostrur. Óskaði stofnunin frekari upplýsinga og gagna vegna umsóknarinnar, sem bárust henni með tölvubréfum 1. og 4. september og 9. og 12. október 2017. Einu þeirra fylgdi áhættumat, dags. 6. október s.á. Í bréfunum kom m.a. fram að til stæði að flytja inn þrílitna ostrur frá eldisstöð á Spáni og að fjöldi þeirra yrði eitt þúsund á ári. Var tiltekið að kynblöndun ostranna við aðrar lífverur væri ómöguleg þar sem ostrurnar væru ófrjóar, sem og vegna hitastigs sjávar við Ísland. Smithætta ætti engin að vera en ostrurnar væru með vottorð frá spænskum yfirvöldum um hreinleika og hæfi til útflutnings. Ekki ætti að vera hætta á slysasleppingum en ostrurnar yrðu í lokuðum búrum sem fest yrðu með akkeri í botn sjávar. Í áhættumatinu var m.a. tiltekið að ekki yrði séð að ostrurækt hefði í för með sér meiri áhrif á umhverfið en önnur skeldýrarækt. Hefði áhætta verið metin óveruleg eða nær engin.

Umhverfisstofnun óskaði umsagnar sérfræðinganefndar um framandi lífverur að nýju og var niðurstaða nefndarinnar í umsögn, dags. 1. desember 2017, sú sama og áður, þ.e. að hafna bæri umsókninni. Í umsögninni var og tekið fram að munurinn á þrílitna og tvílitna ostrum, sem áður hefði verið ráðgert að flytja inn, fælist einkum í því að þrílitna ostrur væru taldar nær ófrjóar og því mun minni líkur á því að þær gætu fjölgað sér. Taldi nefndin að hafa yrði í huga að þrílitna ostrur væru þó ekki fullkomlega ófrjóar og því væri ekki hægt að útiloka að fyrirhuguð ræktun þeirra gæti haft neikvæð áhrif á íslenskt vistkerfi í framtíðinni. Kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum við umrædda umsögn með bréfi, dags. 10. janúar 2018, og taldi hana haldna verulegum ágöllum vegna skorts á rökstuðningi og gögnum. Auk þess færu fullyrðingar nefndarinnar í bága við þær heimildir sem nefndin vísaði til.

Hinn 19. janúar 2018 veitti Umhverfisstofnun kæranda leyfi til innflutnings á eitt þúsund þrílitna risaostrum á ári í þrjú ár, alls þrjú þúsund ostrum, til áframhaldandi tilraunaræktunar við svæðið Kaldárós við Faxaflóa. Leyfið var veitt með nánar tilgreindum skilyrðum, svo sem að sendingum skyldi fylgja uppruna- og heilbrigðisvottorð. Jafnframt ætti að skila til Umhverfisstofnunar aðgerðaráætlun vegna slysasleppinga og 1. mars ár hvert skyldi skila til stofnunarinnar skýrslu um starfsemi undangengins árs þar sem fram kæmu m.a. upplýsingar um mánaðarlegar mælingar á hitastigi sjávar við ræktunarstað. Í kjölfar þessa mun kærandi hafa haft samband við Umhverfisstofnun og upplýst stofnunina um að mistök hefðu átt sér stað við tilgreiningu á fjölda ostra, en umsóknin tæki í raun til innflutnings á einni milljón ostra á ári en ekki til þúsund ostra líkt og leyfi hefði verið veitt fyrir. Afturkallaði stofnunin fyrrgreinda ákvörðun sína og tók málið fyrir að nýju.

Með bréfi Umhverfisstofnunar til kæranda, dags. 19. febrúar 2018, var umsókn um leyfi til innflutnings á alls einni milljón risaostra á ári til þriggja ára synjað. Í ákvörðun stofnunarinnar var m.a. til þess vísað að umsagnir sérfræðinganefndar um framandi lífverur væru efnislega samhljóða um það að leita ætti allra leiða til að koma í veg fyrir að umrædd tegund næði fótfestu á Íslandi. Áliti nefndin að um ágenga tegund væri að ræða og að til staðar væri ákveðin smithætta, en hvort tveggja gæti haft áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Fjallaði Umhverfisstofnun sérstaklega um ágengni tegundarinnar, frjósemi hennar og smithættu og taldi hvað umsóknina varðaði heildstætt að ekki væru til nægjanlega góð gögn um vistkerfi ræktunarsvæðisins og væri því erfitt að meta nákvæmlega hvaða áhrif fyrirhuguð ostrurækt gæti haft á svæðið. Næði tegundin að breiða úr sér við strendur landsins gæti það haft í för með sér neikvæð áhrif á þau vistkerfi þar sem hún næði útbreiðslu, en tegundin yrði þá ríkjandi og gæti umbreytt vistkerfum.

Þá mætti leiða að því líkur að aukinn fjöldi dýra gæti haft verulega neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni á svæðinu óháð því hvort ostrurnar slyppu þar sem aukinn fjöldi lífvera á svæðinu kallaði á aukna samkeppni um fæðu. Var og tekið fram að það hefði verið meginforsenda fyrir fyrri leyfisveitingu Umhverfisstofnunar að innflutningurinn væri ekki til þess fallinn að ógna eða hafa veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að til grundvallar þeirri niðurstöðu Umhverfisstofnunar að fallast ekki á heimild til innflutnings hafi einkum legið þrjár ástæður, þ.e. smithætta, ágengni tegundarinnar og frjósemi hennar. Hvað ágengni tegundarinnar varði  sé bent á að ostrur af umræddri tegund hafi aldrei fundist fyrir norðan 60°N breiddargráðu. Samkvæmt NOBANIS-gagnagrunninum (European Network on Invasive Alien Species) sé tegundin ekki talin ágeng í Norður-Evrópu eða á Norðurlöndum heldur á heitara svæði, þ.e. svokölluðu tempruðu loftlagssvæði við strendur Belgíu, Hollands og Þýskalands. Þurfi sjávarhiti að ná 22°C samfellt í tvær vikur til að ostrurnar geti fjölgað sér og þroskast. Ekki sé fyrirséð að sjór við Íslandsstrendur muni ná þeim hita á næstu 50-100 árum. Hitastig sjávar við Ísland nái aldrei 18-22°C hita og sé meirihluta árs undir 5°C. Jafnvel sjávarhiti inn til stranda við Faxaflóa mælist sjaldnast yfir 14°C. Í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar frá árinu 2008 komi fram að spáð sé tiltölulega takmarkaðri hlýnun sjávar við Ísland á næstu 50-100 árum, þ.e. um 1-2°C. Líkurnar á því að ostrurnar geti orðið ágengar við strendur Íslands séu því litlar sem engar. Þá komi einnig fram í NOBANIS-heimildinni að með því að nýta eldisrækt sé verið að fyrirbyggja óæskilega dreifingu tegundarinnar, en kærandi hyggist einmitt beita slíkri rækt.

Ekki geti talist málefnalegt að byggja á því við synjun leyfis að smithætta geti verið til staðar. Fyrir muni liggja heilsuvottun sem staðfesti að ostrurnar séu ekki smitaðar af Herpes (OsHV1) veirusjúkdómi áður en innflutningur eigi sér stað. Smithætta verði því ekki fyrir hendi og hafi Umhverfisstofnun ekki fært fram nein rök fyrir því hvers vegna svo ætti að vera þrátt fyrir fyrrgreinda vottun. Eðlilegra verði að telja að heimilaður hefði verið innflutningur gegn því skilyrði að staðfest væri fyrir innflutning hverju sinni að ostrur væru ekki smitaðar. Hafi þannig ekki verið gætt meðalhófs við afgreiðslu málsins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Fisksjúkdómanefnd hafi staðfest með umsögn frá 30. nóvember 2015 að hún legðist ekki gegn innflutningi á ungviði ostru af þeirri tegund sem hér um ræði, væru ákveðin skilyrði uppfyllt. Verði ekki annað séð en að vísindamenn á vegum nefndarinnar líti því svo á að ostrurnar séu ekki til þess fallnar að valda fisksjúkdómum hér við land sé allra varúðarráðstafana gætt.

Ostrurnar séu ófrjóar við innflutning og því óhugsandi að þær geti fjölgað sér. Með því að binda innflutning við þrílitna ostrur, sem sé að mati sérfræðinga 99,94% öruggt að geti ekki fjölgað sér, sé brugðist við hættu á óæskilegri fjölgun, sem þá þegar sé lítil sem engin vegna hitastigs sjávar við Ísland. Enn fremur hafi sérfræðingar Matvælastofnunar staðfest að lirfur ostrunnar séu mjög viðkvæmar fyrir kulda og þoli ekki lægra hitastig en 5°C. Ólíklegt sé því að lirfur næðu sér á strik við Íslandsstrendur ef til þess kæmi að ostrurnar næðu að fjölga sér, en á því séu nánast engar líkur. Þegar Umhverfisstofnun hafi heimilað kæranda innflutning á eitt þúsund ostrum á ári hafi hún talið að lítil hætta væri á því að þær gætu fjölgað sér. Verði ekki betur séð en að Umhverfisstofnun sé að falla frá fyrra mati sínu án þess að það sé sérstaklega rökstutt. Virðist stofnunin ekki byggja höfnun sína á vísindalegum gögnum heldur á eigin skoðunum. Litið sé fram hjá því að sýnt sé að ostrurnar séu ófrjóar og að hitastig sjávar við Ísland nú og í framtíðinni muni ekki bjóða upp á þær aðstæður að ostrurnar geti fjölgað sér, þroskast og þrifist. Hafi Umhverfisstofnun ekki fært fram neinar haldbærar sannanir um hið gagnstæða. Kærandi hafi gripið til allra nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir ágengni, smithættu og frjósemi ostranna. Loks sé bent á að aðrir aðilar hafi fengið heimild til að flytja inn ostrur af sömu gerð og frá sama aðila.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu Umhverfisstofnunar er bent á að við fyrri leyfisveitingu til kæranda hafi stofnunin farið gegn umsögnum sérfræðinganefndar um framandi lífverur þar sem það hafi verið mat stofnunarinnar að hægt væri að framkvæma tilraunir með ostrurækt, enda hefði verið sótt um innflutningsleyfi fyrir tiltölulega litlu magni. Ákveðið hafi verið að binda þá leyfisveitingu skilyrðum um skýrslugjöf þar sem fram kæmu upplýsingar um m.a. hitastig sjávar á ræktunarstað, hvort tegundin fjölgaði sér o.fl. Stofnunin hafi talið að miðað við þann fjölda sem upphaflega hefði verið sótt um gæti kærandi hæglega sinnt aðgæsluskyldu sinni samkvæmt 65. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og stofnunin sinnt skyldu sinni á grundvelli 67. gr. sömu laga ef skýrslur gæfu ástæðu til að ætla að hin ágenga framandi lífvera ógnaði eða hefði veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Það mat hafi gjörbreyst þegar í ljós hafi komi að sótt væri um leyfi fyrir þúsund sinnum fleiri ostrum. Þá hafi nýjar upplýsingar komið fram sem mælt hafi gegn því að tegundin yrði flutt til landsins.

Meginástæða fyrir því að uppfærðri umsókn kæranda hafi verið hafnað sé sú að ástæða sé til að ætla að innflutningur þriggja milljón risaostra til áframræktunar á svæði sem ekki hafi verið rannsakað sé til þess fallinn að ógna eða hafa veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Helstu þættir sem stofnunin hafi skoðað við það mat hafi verið ágengni tegundarinnar, frjósemi hennar og möguleg smithætta af hennar völdum. Röksemdir Umhverfisstofnunar séu byggðar á umsögnum sérfræðinganefndar og frá öðrum stjórnvöldum, t.a.m. Náttúrufræðistofnun Íslands og Hafrannsóknastofnun, sem og úr NOBANIS-gagnagrunninum.

Nýlegar rannsóknir sýni fram á að umrædd tegund hafi fundist á tveimur stöðum norðan við 60°N breiddar, en árið 2016 hafi hún bæði fundist meðfram ströndum Noregs og í kræklingarækt á Hjaltlandseyjum, tæpum 500 km norðar en hún hafi áður fundist, við aðstæður og hitastig sem áður hafði verið talið að tegundin þrifist ekki í. Í NOBANIS-skýrslunni sé sérstökum aðlögunareiginleikum tegundarinnar lýst og fjallað um að fátt gefi til kynna að draga muni úr útbreiðslu hennar. Virðist tegundin getað fjölgað sér og lifað af við mun lægra hitastig en áður hafi verið vitað.

Að auki segi í NOBANIS-skýrslunni að tegundin hafi enn sem komið er ekki komið upp varanlegu búsvæði norðan við 60°N breiddar, líklega vegna kulda. Aftur á móti gefi nýlegar rannsóknir á vexti og fjölgun tegundarinnar til kynna að tegundin hafi ekki náð vistfræðilegum og lífeðlisfræðilegum mörkum sínum og að frá landfræðilegu sjónarhorni séu það aðeins miðbaugs- og norðurskautssvæði sem gætu talist óhentug fyrir ræktun eða útbreiðslu tegundarinnar.

Hvergi segi í umræddri skýrslu að tegundin teljist ekki ágeng í Norður-Evrópu eða á Norðurlöndum. Virðist kærandi gagnálykta sem svo vegna umfjöllunar um ágengni tegundarinnar á tempruðum svæðum. Í skýrslunni komi fram að tegundin sé mjög áhættusöm framandi tegund á slíkum svæðum. Komist sé að þeirri niðurstöðu að tegundin hafi náð stöðugri fótfestu í Evrópu og að hún virðist njóta góðs af hlýnun sjávar. Þá segi að ásamt öðrum ágengum framandi lífverum hafi tegundin valdið miklum neikvæðum áhrifum á fuglategundir og virkni vistkerfa. Loks sé vísað til þess að evrópskur sérfræðingahópur hafi í kjölfar rannsókna komist að þeirri niðurstöðu að tegundin væri meðal hundrað ágengustu framandi tegunda í Evrópu. Í NOBANIS-skýrslunni segi einnig að tegundin búi yfir þeim eiginleika að geta aðlagast ýmsum umhverfisaðstæðum, hún vaxi hratt og hafi gott þol við ýmsar aðstæður, t.a.m. á gruggugum svæðum og svæðum þar sem umhverfisálag sé mikið. Jafnframt hafi komið í ljós við endurskoðun umsóknarinnar að í Noregi hafi sérstakri aðgerðaráætlun verið hrint í framkvæmd vegna ágengni tegundarinnar. Í aðgerðaráætluninni sé tegundin flokkuð í áhættuflokkinn „svært hoy riskiko“ og sé því tegund sem sé talin geta haft alvarleg áhrif á vistkerfi og líkleg til að breiðast út á stórum svæðum.

Hugtakið ágeng framandi lífvera sé skilgreind í 3. tölul. 5. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd sem framandi lífvera sem valdi eða sé líklegt að valdi rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni. Óháð því hvort ostrurnar geti fjölgað sér við íslenskar aðstæður þá geti ræktun á þremur milljónum ostra haft veruleg áhrif á lífríkið á ræktunarstað. Þá gefi upplýsingar úr NOBANIS-skýrslunni um aðlögunareiginleika tegundarinnar og upplýsingar úr aðgerðaráætlun Norðmanna um að tegundin leiti í skjólsæl grunn svæði ástæðu til að ætla að alls ekki sé hægt að útiloka að tegundin nái að fjölga sér og breiða úr sér við strendur Íslands. Mikilvægt sé að hafa í huga að engar mælingar hafi farið fram á sjárvarhita við Kaldárós, en í ljósi þess að um sé að ræða leirur og tiltölulega grunnt svæði megi ætla að sjávarhiti geti orðið hærri þar en á þeim svæðum sem Hafrannsóknastofnun stundi hitamælingar. Einnig sé gerð athugasemd við tilvísun kæranda til skýrslu vísindanefndar um loftlagsbreytingar. Í skýrslunni segi að þær breytingar sem þar sé fjallað um „snerti fyrst og fremst hafsvæðið á landgrunninum í kringum Ísland og á nærliggjandi svæðum“. Ljóst sé að ekki sé verið að fjalla um yfirborðshita eða sjávarhita við aðstæður sem séu sambærilegar fyrirhuguðum ræktunarstað.

Sótt sé um innflutningsleyfi fyrir slíku magni að ostrurnar gætu ógnað eða haft veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni á svæðinu, m.a. vegna aukinnar samkeppni um fæðu við þær villtu tegundir sem fyrir séu. Svæðið við Kaldárósa sé hluti af stærra svæði sem Náttúrufræðistofnun Íslands hafi skilgreint sem mikilvægt fuglasvæði á Íslandi. Það sé jafnframt á lista Birdlife International sem mikilvægt fuglasvæði (IBA) í Evrópu og á heimsvísu. Meðal þeirra tegunda sem nýti svæðið og nái alþjóðlegum verndarviðmiðum séu álftir, margæs, sendlingur og jaðrakan.

Ályktun kæranda um að eldisræktun tegundar hér á landi sé til þess fallin að fyrirbyggja óæskilega dreifingu tegundarinnar eigi ekki við nokkur rök að styðjast. Sú umfjöllun sem kærandi vísi til í þessu samhengi sé í kafla NOBANIS-skýrslunnar sem fjalli um stjórnunaraðferðir. Heilt á litið séu niðurstöður umfjöllunarinnar á þá leið að tegundin sé afar erfið viðureignar og þrautinni þyngri að stjórna útbreiðslu hennar. Tegundin sé einn mesti skaðvaldur Vaðhafsins (d. Vadehavet).

Kærandi telji fulltryggt að við innflutning verði ostrurnar ekki smitaðar af herpesveirunni (OsHV1) og vísi því til stuðnings til umsagnar sem kærandi hafi aflað. Í þeirri umsögn sé vísað til fræðigreinar þar sem fram komi að hitastig sjávar spili að öllum líkindum stórt hlutverk við smit veirunnar, en að erfitt hafi reynst að skilgreina nákvæman hitaþröskuld sem valdi því að veiran komi upp í ostrum og drepi þær. Dæmi sé um að hún hafi komið upp við 22-25°C í Bandaríkjunum og 16-24°C í Frakklandi, auk þess sem ein rannsókn hafi gefið til kynna að veiran geti smitast án þess þó að leiða ostrur til dauða þegar hitastig sjávar sé undir 16°C. Í umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, er veitt hafi verið vegna umsóknar kæranda um tilraunaleyfi, segi að ekki sé hægt að útiloka að veiran sé til staðar í ostrunum þó svo að hún finnist ekki við skimun. Jafnframt kunni aðrar óæskilegar örverur og sníkjudýr sem ekki sé skimað fyrir komið með innfluttum dýrum. Telji sérfræðinganefnd um framandi lífverur að ákveðin hætta sé á smiti sem gæti borist í annan skelfisk. Meti Umhverfisstofnun það svo að ómögulegt sé að koma algjörlega í veg fyrir smithættu þegar til standi að flytja inn það magn sem hér sé til umfjöllunar. Í umsögn fisksjúkdómanefndar sem kærandi vísi til sé ekki minnst á herpesveiruna (OsHV1) en sérstaklega tekið fram að íslenskt eldi lagardýra búi við þær einstöku aðstæður að alvarlegir smitsjúkdómar hafi sjaldan komið upp og að mikilvægt sé að standa vörð um þá stöðu.

Samkvæmt 7. gr. laga um náttúruvernd skuli stjórnvöld við töku ákvarðana sem áhrif hafa á náttúruna taka mið af þeim meginreglum og sjónarmiðum sem fram komi í 8.-11. gr. laganna. Engar vísindalegar rannsóknir hafi farið fram í tengslum við mögulega smithættu af völdum tegundarinnar við íslenskar aðstæður. Í varúðarreglu 9. gr. laganna felist að leitast skuli við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum þegar tekin sé ákvörðun á grundvelli náttúruverndarlaga án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hafi á náttúruna, líkt og í tilfelli því sem hér um ræði. Hvað varði þann málatilbúnað kæranda að röksemdir Umhverfisstofnunar um smithættu af völdum tegundarinnar séu ómálefnalegar og órökstuddar sé rétt að endurtaka að möguleg smithætta sé aðeins einn af þremur þáttum sem niðurstaða stofnunarinnar hafi byggst á.

Þrílitna ostrur séu ekki fullkomlega ófrjóar. Rannsóknir hafi sýnt að þrílitna ostrur geti myndað kynfrumur í nokkrum mæli, eða allt að 42%, líkt og fram komi í umsögn sérfræðinganefndarinnar, dags. 1. desember 2017. Í umsögninni segi jafnframt að áframhaldandi þroskun sé ekki eins árangursrík og að möguleikar á æxlun séu aðeins um 0,06%. Þrátt fyrir að möguleikar á æxlun séu litlir sé mikilvægt að hafa í huga að þrílitna ostrur sé ekki stöðugt ástand þar sem frumubreytingar geti orðið til þess að þær verði aftur tvílitna. Rannsóknir hafi sýnt fram á að í ræktun þar sem aðeins þrílitna ostrur hafi verið notaðar hafi fundist frumur í 20% ostranna sem séu bæði tví- og þrílitna. Jafngildi það sexhundruð þúsund tvílitna ostrum af þeim fjölda sem kærandi hafi sótt um leyfi fyrir. Talið sé að lirfur tegundarinnar þoli ekki lægra hitastig en 5°C, en hluta úr ári sé hitastig sjávar hins vegar hærra og engar hitamælingar hafi farið fram á ræktunarstað. Telja megi nær ómögulegt að tryggja að ostrurnar séu fullkomlega ófrjóar og geti ekki fjölgað sér hér á landi.

Mat Umhverfisstofnunar við leyfisveitinguna 19. janúar 2018 hafi tekið mið að því að sótt væri um innflutningsleyfi fyrir þrjú þúsund ostrum. Slíkt mat breytist eðli málsins samkvæmt mjög mikið þegar um sé að ræða þúsund sinnum fleiri ostrur. Í því samhengi megi nefna að 0,06% af þrjú þúsund ostrum séu tæplega tvær ostrur, en 0,06% af þremur milljónum ostra séu átjánhundruð ostrur. Um sé að ræða gífurlega frjósama tegund en hver ostra geti framleitt á bilinu 50-100 milljónir eggja samkvæmt NOBANIS-skýrslunni.

Þegar málið hafi komið til kasta Umhverfisstofnunar hefði hún aldrei afgreitt umsókn um innflutningsleyfi fyrir ostrur af þeirri tegund sem hér um ræði eða fyrir aðrar ostrutegundir. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun hafi tvö íslensk fyrirtæki fengið leyfi til innflutnings á ostrum. Sótt hafi verið um þau leyfi fyrir gildistöku laga nr. 60/2013 og hafi leyfin verið afgreidd á grundvelli laga nr. 54/1990 um innflutning dýra. Í gildistíð laga nr. 44/1999 um náttúruvernd hafi verið kveðið á um að Umhverfisstofnun gæti veitt leyfi fyrir innflutningi, ræktun og dreifingu framandi lífvera að því leyti sem ekki væri kveðið á um það í öðrum lögum, sbr. 41. gr. laganna. Hvergi hafi þó verið minnst á að Umhverfisstofnun bæri að líta til áhrifa innflutnings, ræktunar eða dreifingar á líffræðilega fjölbreytni. Svo sé heldur ekki í lögum nr. 54/1990. Telji Umhverfisstofnun að hún sé á engan hátt bundin af þeim fordæmum sem kærandi vísi til.

Þá geri Umhverfisstofnun athugasemdir við áhættumat, dags. 6. október 2017, en í því sé hvorki útskýrt hvernig komist sé að þeirri niðurstöðu að ostrurnar séu „þrílitna og því ófrjóar (99,94%)“, né heimilda getið. Þá sé ekki fjallað um þá staðreynd að þær séu ekki fullkomlega ófrjóar. Enn fremur sé sú staðhæfing að ostrurækt muni ekki hafa meiri áhrif en önnur skeldýrarækt ekki útskýrð nánar.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Umhverfisstofnunar: Kærandi tekur fram að hann hafi í upphafi leitað til Matvælastofnunar um innflutningsleyfi en hann hafi búist við því að umsóknin yrði afgreidd á grundvelli laga nr. 54/1990 um innflutning dýra. Í umræddum lögum séu lindýr frá eldisstöð, líkt og ostrur þær er hér um ræði, undanþegnar innflutningsbanni á dýrum erlendis frá séu þau ætluð til eldis í eldisstöð, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Í kjölfar samskipta kæranda og Matvælastofnunar hafi málinu verið vísað til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem hafi vísað því aftur til Matvælastofnunar til þóknanlegrar meðferðar. Fram hafi komið að ráðuneytið hafi úrskurðað að ekki þyrfti að afla umsagnar erfðanefndar landbúnaðarins skv. 5. gr. fyrrnefndra laga þar sem þessi tegund hefði áður verið flutt inn til landsins til áframræktunar og þá farið í gegnum slíkt umsagnarferli.

Nánar tilgreint félag hafi flutt inn ostrusmælki af sömu tegund og frá sömu eldisstöð á Spáni  frá 2013 til 2017 á grundvelli laga um innflutning dýra. Hafi Matvælastofnun ekki vísað þeim umsóknum til Umhverfisstofnunar eða sú stofnun gripið til aðgerða þrátt fyrir að lög nr. 60/2013 um náttúruvernd hafi tekið gildi árið 2015. Matvælastofnun hafi veitt innflutningsleyfi vegna ostrutegundarinnar árin 2016 og 2017 og það sé því rangt að öll fyrirliggjandi fordæmi séu fyrir gildistöku náttúruverndarlaga. Sé mál kæranda að öllu leyti sambærilegt máli fyrrnefnds félags. Umhverfisstofnun sé skylt að tryggja að íslensk fyrirtæki í sambærilegri stöðu fái sambærilega meðferð mála sinna og hafi kærandi lögmætar væntingar til þess. Einnig sé stofnuninni skylt að beita og skýra lög um náttúruvernd til samræmis við önnur lög og viðurkennda framkvæmd þeirra, svo sem lög nr. 54/1990, svo jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fullnægt. Um íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sé að ræða sem takmarki verulega atvinnuréttindi kæranda og möguleika hans til atvinnustarfsemi hérlendis á vettvangi eldisræktunar lindýra.

Ekki fáist staðist að allar forsendur fyrir upphaflegri leyfisveitingu hafi brostið þegar upplýsingar um fjölda innfluttra ostra hafi verið leiðréttar, líkt og Umhverfisstofnun haldi fram. Í samþykki stofnunarinnar, dags. 19. janúar 2018, hafi verið fallist á fjölmörg sjónarmið kæranda um ágengni, frjósemi og smithættu ostrutegundarinnar og þau lögð til grundvallar ákvörðun um að leyfa innflutning án þess að vísa sérstaklega til fjölda ostra. Hafi mat stofnunarinnar um áhrif innflutningsins á líffræðilega fjölbreytni nánast að öllu leyti grundvallast á fjölda ostra þá sé slík stjórnsýsluframkvæmd ómálefnaleg og jafnvel ólögmæt í ljósi 3. mgr. 63. gr. laga nr. 60/2013. Hljóti mat og stjórnvaldsákvörðun stofnunarinnar að þurfa að byggja á fleiri þáttum en fjöldatölum og tölfræðilegum áhættuútreikningum stofnunarinnar á slysafjölgunum, í ljósi þess að tilvitnað lagaákvæði og umrædd hugtök í náttúruverndarlögum virðast aðallega tengjast eðli og eiginleika viðkomandi lífveru í líffræðilegu tilliti.

Kærandi hafi fært fram rök fyrir því í andmælum sínum til Umhverfisstofnunar, dags. 17. maí 2017, að risaostrur séu ekki framandi lífverur í skilningi náttúruverndarlaga. Þær hafi fundist hér við land í kringum árið 1802 og aðrir hafi flutt tegundina inn undanfarin ár án þess að náttúruverndarlög hafi komið til skoðunar. Þrátt fyrir rök og sjónarmið kæranda hafi Umhverfisstofnun aldrei rökstutt hvers vegna um „framandi lífveru“ sé að ræða í skilningi 8. tölul. 5. gr. náttúruverndarlaga. Sjónarmið kæranda um þetta atriði hafi hins vegar gefið Umhverfisstofnun sérstakt tilefni til að fullnægja rannsóknarskyldu og færa rök fyrir afstöðu sinni í þessum efnum.

Engin algild skilgreining sé á því hvaða landsvæði falli undir norðurskautssvæðið en það sé vanalega afmarkað við heimskautsbaug (66°33´N). Margar aðferðir séu hins vegar notaðar til að skilgreina norðurskautið. Í skilgreiningu vistfræðinnar falli ræktunarstaður kæranda við Kaldárósa innan norðurskautsins, en til dæmis Noregur ekki. Sé staðurinn þar með óhentugur fyrir ræktun og útbreiðslu ostrutegundarinnar enda hafi komið í ljós hjá öðrum innflytjendum og ræktendum að ræktunin sé verulegum erfiðleikum háð, svo sem vegna náttúru og veðurfars.

——

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en höfð hafa verið til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 19. febrúar 2018 að synja kæranda um leyfi fyrir innflutningi á þremur milljónum risaostra til áframræktunar í Kaldárósi við Faxaflóa.

Líkt og fram hefur komið mun kærandi upphaflega hafa sótt um innflutningsleyfi til Matvælastofnunar á grundvelli 2. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1990 um innflutning dýra. Í því lagaákvæði kemur fram  að heimilt sé að flytja til landsins lifandi fisk, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, þ.m.t. hrogn og svil, að meðtöldum dýrum sem lifi upprunalega villt en séu ætluð til eldis í eldisstöð, enda skuli innflutningurinn háður skilyrðum reglugerða sem ráðherra setji að fengnum nánar tilgreindum umsögnum. Vísaði Matvælastofnun máli kæranda til Umhverfisstofnunar og taldi eðlilegt að stofnunin fjallaði um  erindi hans og samþykkti áður en Matvælastofnun afgreiddi erindið endanlega. Skírskotaði Matvælastofnun til 63. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og til 5. gr. laga nr. 54/1990, en í síðargreinda ákvæðinu er mælt fyrir um að áður en leyfi sé veitt til innflutnings á nýjum dýrategundum eða erlendum stofnum tegunda sem hér séu fyrir skuli ráðherra afla umsagnar erfðanefndar landbúnaðarins. Til slíks innflutnings skuli jafnframt afla leyfis Umhverfisstofnunar í samræmi við ákvæði 63. gr. laga nr. 60/2013, en í því ákvæði segir að óheimilt sé að flytja inn og dreifa lifandi framandi lífverum nema með leyfi Umhverfisstofnunar.

Í 1. mgr. 41. gr. eldri laga nr. 44/1999 um náttúruvernd var vísað til þess að Umhverfisstofnun gæti veitt leyfi fyrir innflutningi, ræktun og dreifingu lifandi framandi lífvera að því leyti sem ekki væri kveðið á um það í öðrum lögum, svo sem lögum nr. 54/1990. Sá fyrirvari eldri laga er ekki lengur til staðar og ljóst samkvæmt skýru orðalagi 1. mgr. 63. gr. laga nr. 60/2013 að svo fremi að um lifandi framandi lífverur sé að ræða þarf leyfi Umhverfisstofnunar til innflutnings þeirra. Auk þess getur eftir atvikum þurft leyfi samkvæmt öðrum lögum, s.s. lögum nr. 54/1990. Leyfi til innflutnings risaostra, sem veitt voru í samræmi við ákvæði laga nr. 54/1990 fyrir gildistöku laga nr. 60/2013, hafa því ekki þýðingu í þessu máli. Kærandi hefur jafnframt vísað til þess að frá gildistöku síðarnefndu laganna hafi Matvælastofnun gefið út leyfi til slíks innflutnings og fari synjun um leyfi honum til handa því í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Gat kærandi ekki búist við því að leyfi yrði gefið út honum til handa með sama hætti, enda er skýrt í lögum að leyfi til innflutnings lifandi framandi lífvera sé háð leyfi Umhverfisstofnunar. Getur kærandi ekki með vísan til jafnræðis unnið betri rétt en lög heimila á hverjum tíma.

Svo sem fram er komið er í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 60/2013 kveðið á um að óheimilt sé að flytja inn og dreifa lifandi framandi lífverum nema með leyfi Umhverfisstofnunar. Á framangreindri meginreglu eru ákveðnar undantekningar, en þær eiga ekki við í þessu máli. Með umsókn um slíkt leyfi skal fylgja áhættumat sem umsækjandi hafi aflað, sbr. 2. mgr. 63. gr. Í því skal m.a. koma fram mat á hættu á því hvort viðkomandi lífverur séu ágengar og þeim áhrifum sem það kunni að hafa á líffræðilega fjölbreytni. Samkvæmt 3. mgr. nefndrar 63. gr. skal Umhverfisstofnun leita umsagnar sérfræðinganefndar skv. 4. mgr. um umsóknir um leyfi skv. 1. mgr. Óheimilt er að veita leyfi ef ástæða er til að ætla að innflutningurinn ógni eða hafi veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni og getur stofnunin bundið leyfi skilyrðum sem dragi úr hættu á því að hann hafi áhrif á lífríkið, sbr. 3. mgr. 63. gr. laganna. Samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar hefur ráðherra heimild til að setja reglugerð um innflutning og dreifingu framandi lífvera, en svo sem greinir í frumvarpi því sem varð að greindum lögum er gert ráð fyrir að í slíkri reglugerð séu sett nánari fyrirmæli, þ. á m. um áhættumat og þau sjónarmið sem leggja skuli til grundvallar við mat á því hvort leyfi skuli veitt, sem og um störf sérfræðinganefndar. Í reglugerð getur ráðherra einnig ákveðið að banna innflutning og dreifingu tiltekinna framandi tegunda eða að vissar tegundir megi flytja inn án leyfis. Hefur ráðherra ekki nýtt sér nefnda reglugerðarheimild og kemur því til skoðunar hvort innflutningur á risaostrum falli undir ákvæði 63. gr. laganna, en skilyrði þess að svo sé er að um sé að ræða innflutning eða dreifingu á lifandi framandi lífverum.

Samkvæmt 8. tölul. 5. gr. laga nr. 60/2013 eru framandi lífverur skilgreindar með svofelldum hætti: „Tegund eða lægri flokkunareining, svo sem afbrigði, kyn eða stofn, þ.m.t. lífhlutar, kynfrumur, fræ, egg eða dreifingarform sem geta lifað af og fjölgað sér, sem menn hafa flutt vísvitandi eða óvitandi út fyrir sitt náttúrulega forna eða núverandi útbreiðslusvæði“. Skilgreiningin svo orðuð kom inn með lögum nr. 109/2015 er breyttu náttúruverndarlögum, en fyrir gildistöku breytingarlaganna var gert ráð fyrir því að skilgreiningin væri afmörkuð í tíma. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 109/2015 kemur fram að lagt sé til að skilgreining á framandi lífverum verði ekki háð því að þær hafi flust út fyrir sitt náttúrulega forna eða núverandi útbreiðslusvæði eftir miðja 18. öld heldur verði útgangspunkturinn ávallt sá að maðurinn hafi flutt þær út fyrir sitt náttúrulega forna eða núverandi útbreiðslusvæði vísvitandi eða óvitandi. Þá er í athugasemdum vegna skilgreiningarinnar í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 60/2013 tekið fram að sú merking orðsins „náttúrulegur“ sem sé lögð til grundvallar hafi skírskotun til markmiðsákvæðis frumvarpsins þar sem segi að lögin eigi að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum.

Í samræmi við þau ákvæði sem áður eru reifuð leitaði Umhverfisstofnun við meðferð málsins umsagnar sérfræðinganefndar um umsókn kæranda um innflutning. Sú nefnd skal vera stjórnvöldum til ráðgjafar um innflutning og ræktun framandi tegunda og dreifingu lifandi lífvera, sbr. 4. mgr. 63. gr. laga nr. 60/2013. Eftir að fyrsta umsögn nefndarinnar lá fyrir 10. apríl 2017 var því fyrst hreyft af kæranda að vafi léki á að ostrurnar féllu undir ákvæði um framandi lífverur í lögum nr. 60/2013, en ostrur hefðu fundist hér við land áður fyrr, t.d. árið 1802. Í umsögn sérfræðinganefndarinnar frá 30. júní 2017 er tekið fram að þrátt fyrir að sögur hermi að ostrur hafi fundist við Íslandsstrendur fyrir meira en 200 árum síðan þá finnist þær ekki við náttúrulegar aðstæður núna. Risaostur hafi aldrei fundist við Ísland og teljist því tvímælalaust framandi lífverur fyrir íslenskt vistkerfi árið 2017. Hélt meðferð málsins og áfram á grundvelli laga nr. 60/2013, líkt og vísað var til af Umhverfisstofnun í samskiptum stofnunarinnar við umboðsmann kæranda, allt þar til hin kærða ákvörðun lá fyrir. Er áréttað í umsögn sérfræðinganefndarinnar frá 1. desember 2017 um endurskoðaða umsókn kæranda að samkvæmt NOBANIS-gagnagrunninum (European Network on Invasive Species) sé ostrutegundin Crassostrea gigas talin ágeng og framandi í N-Evrópu og hætta sé á að þar sem hún nái bólfestu geti hún tekið yfir búsvæði annars skelfisks.

Í hinni kærðu ákvörðun Umhverfisstofnunar er vísað til þess að sótt hafi verið um leyfi í samræmi við 1. mgr. 63. gr. laga nr. 60/2013 og eru fleiri tilvísanir til þeirrar réttarheimildar að finna í ákvörðuninni. Í frekari athugasemdum kæranda til úrskurðarnefndarinnar bendir hann þó á að Umhverfisstofnun hafi hvorki rannsakað né rökstutt sérstaklega að umrædd ostrutegund teljist framandi lífvera. Er hvað það varðar til þess að líta að fyrir Umhverfisstofnun lá álit sérfróðra aðila þess efnis að um framandi tegund væri að ræða og að kærandi hafði ekki gert nánari athugasemdir þar að lútandi þótt honum hefði verið kynnt það álit sem fram kom í umsögnum sérfræðinganefndarinnar. Bendir og ekkert í gögnum málsins til annars en að það álit sérfræðinganefndarinnar að risaostrur verði að teljast til framandi lífvera hafi verið rétt. Var að þessum atvikum virtum ekki tilefni til nánari rannsóknar eða rökstuðnings af hálfu Umhverfisstofnunar um þetta efni. Er í því sambandi rétt að benda á að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 21/1939 um ostrurækt er tekið fram að ostrur séu ekki til við strendur Íslands. Þótt ostrur kunni af sögulegum ástæðum að hafa fundist hér áður þarf ekki að efast um það að þær risaostrur sem kunna að finnast hér við land, og eru eftir atvikum í eldi, hafa borist hingað af mannavöldum og eru ekki hluti af náttúru Íslands, sbr. 8. tölul. 5. gr., sbr. og 1. gr. laga nr. 60/2013. Fór Umhverfisstofnun réttilega með umsókn kæranda á grundvelli þeirra laga og bar stofnuninni að gæta að ákvæðum þeirra, sem og stjórnsýslulaga nr. 37/1993, líkt og endranær.

Umsókn um leyfi skal skv. 2. mgr. 63. gr. laga nr. 60/2013 fylgja áhættumat sem umsækjandi hefur aflað og skal þar m.a. koma fram mat á hættu á því hvort viðkomandi lífverur séu ágengar og þeim áhrifum sem það kann að hafa á líffræðilega fjölbreytni. Er ágeng framandi lífvera skilgreind í 3. tölul. 5. gr. náttúruverndarlaga sem framandi lífvera sem veldur eða líklegt er að valdi rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni. Nánari skýringar á því hvaða upplýsingar þurfi að koma fram í áhættumati koma fram í athugasemdum við 5. mgr. 63. gr. í frumvarpi því sem varð að náttúruverndarlögum, en eins og áður sagði er þar fjallað um heimild ráðherra til að setja reglugerð með nánari fyrirmælum. Í athugasemdunum er tekið fram að í reglugerð skuli fjalla um áhættumat skv. 2. mgr. greinarinnar og að í slíku mati þurfi m.a. að koma fram upplýsingar um vistfræði viðkomandi tegundar í upprunalegum heimkynnum, reynslu annarra þjóða af innflutningi tegundarinnar og hvort ætla megi að tegundin geti dreifst óheft út fyrir það svæði sem henni sé ætlað. Skilaði kærandi Umhverfisstofnun áhættumati, dags. 6. október 2017. Niðurstaða þess var sú að áhætta vegna fyrirhugaðs innflutnings væri óveruleg eða nær engin. Í matinu kemur einnig fram að tegundin sé upprunalega frá Kyrrahafsströndum Asíu en hafi verið dreift víða um heim til ræktunar. Risaostrur þær sem nota eigi séu þrílitna og því ófrjóar (99,94%) auk þess sem egg og lirfur tegundarinnar geti ekki lifað við lægra hitastig en 5°C og nái ekki að þroskast eðlilega nema að hitastig sjávar sé ekki undir 22°C í tvær vikur. Geti ostrurnar þ.a.l. ekki aukið kyn sitt hér við land. Tryggt sé frá framleiðanda að ostrurnar séu ekki smitaðar af Herpes (OsHV1) veirusjúkdómnum en auk þess sé ólíklegt að sýking af völdum þeirrar veiru komi fram við lægra hitastig sjávar en 16°C. Þrátt fyrir skort á reglugerð með nánari leiðbeiningum um hvernig áhættumat skuli unnið verður ekki fram hjá því litið að efni þess áhættumats sem fylgdi endurbættri umsókn kæranda er fremur rýrt að efni til og í raun er í því ekki lagt mat á hvaða afleiðingar það kynni mögulega að hafa á líffræðilega fjölbreytni ef tegundin myndi þrífast hér og reynast ágeng, sbr. orðalag 2. mgr. 63. gr. laga nr. 60/2013. Í stað þess er gengið út frá því að svo verði ekki og því slegið föstu að áhætta verði óveruleg eða nær engin. Allt að einu telur kærandi að allar fyrirliggjandi upplýsingar og gögn bendi til þess að ekki sé hætta á því að umrædd ostrutegund geti fjölgað sér og þroskast við þær aðstæður sem finna megi við Íslandsstrendur, en að auki sé tryggt að ekki stafi af þeim smithætta.

Í 3. mgr. 63. gr. laga nr. 60/2013 segir að óheimilt sé að veita leyfi til innflutnings lifandi framandi lífvera ef ástæða er til að ætla að innflutningurinn ógni eða hafi veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni, en líffræðileg fjölbreytni er skilgreind í 13. tölul. 5. gr. laganna sem: „Breytileiki meðal lifandi vera á öllum skipulagsstigum lífs, þar á meðal í vistkerfum á landi, í sjó og í ferskvatni. Hugtakið tekur til vistfræðilegra tengsla milli vistkerfa og nær til fjölbreytni innan tegunda og milli tegunda og vistkerfa.“ Í athugasemdum við 13. tölul. 5. gr. í frumvarpi því sem varð að náttúruverndarlögum er m.a. tekið fram að skýring hugtaksins byggist á því hvernig hugtakið sé skilgreint í samningnum um líffræðilega fjölbreytni, sem Ísland er aðili að. Nánar er fjallað um samninginn í athugasemdum frumvarpsins með XI. kafla og tekið fram að samkvæmt h-lið 8. gr. hans skuli hver samningsaðili, eftir því sem hægt sé og viðeigandi, koma í veg fyrir að fluttar séu inn framandi tegundir sem ógni vistkerfum, vistgerðum eða tegundum eða að öðrum kosti stjórna þeim eða uppræta þær. Á grundvelli þessa ákvæðis hafi verið gefnar út leiðbeiningarreglur, sem samningsaðilar hafi samþykkt, um ágengar framandi tegundir. Í inngangskafla reglnanna sé áréttað að samningsaðilar geri sér grein fyrir að ágengar framandi tegundir séu eitt af því sem helst ógni líffræðilegri fjölbreytni, einkum í vistkerfum sem séu landfræðilega og þróunarlega einangruð, og að hættan sem af þeim stafi kunni að aukast vegna aukinnar heimsverslunar, samgangna, ferðamennsku og loftslagsbreytinga. Í leiðbeiningarreglunum sé byggt á svokallaðri þriggja stiga nálgun og eitt meginatriða hennar sé það sjónarmið að yfirleitt sé mun hagkvæmara og umhverfisvænna að koma í veg fyrir innflutning ágengra framandi tegunda en að ráðast í aðgerðir eftir að slíkar tegundir hafi fest sig í sessi. Einnig er reifað í athugasemdunum að komið hafi verið á fót samstarfsverkefni þjóða í Norður-Evrópu (NOBANIS) sem hafi það að markmiði að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum ágengra tegunda. Verkefnið miði að því að þróa og búa til net gagnagrunna með upplýsingum um framandi tegundir í Norður-Evrópu og gera þær aðgengilegar á veraldarvefnum. Þá segir í athugasemdunum að mikilvægt sé að viðhafa sérstaka aðgát við innflutning, ræktun og dreifingu framandi tegunda hér á landi vegna sérstöðu Íslands sem eyríkis með viðkvæma og sérstaka náttúru. Af framangreindu má ráða að rík aðgæsluskylda sé lögð á þau stjórnvöld sem hafa það hlutverk að meta umsóknir sem varða innflutning á framandi lífverum.

Við meðferð málsins leit Umhverfisstofnun einkum til þriggja þátta, þ.e. ágengni tegundarinnar, frjósemi hennar og mögulegrar smithættu af hennar völdum. Kemur fram í hinni kærðu ákvörðun stofnunarinnar að hún hafi kynnt sér upplýsingar um tegundina í NOBANIS-gagnagrunninum og skýrslu norsku umhverfisstofnunarinnar um aðgerðaráætlun (n. Handlingsplan stillehavsøsters, Miljødirektoratet) vegna ostra af sömu tegund og sótt sé um innflutningsleyfi fyrir. Einnig hafi verið aflað umsagna sérfræðinganefndar um framandi lífverur, litið til umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands, dags. 20. október 2015, þar sem fjallað hafi verið um sambærilega umsókn, sem og til umsagnar fisksjúkdómanefndar, dags. 30. nóvember 2015. Þá hafi verið skoðaðar upplýsingar frá Hafrannsóknastofnun um hitastig sjávar. Bendir ekkert í gögnum málsins til annars en að umfjöllun Umhverfisstofnunar um framangreinda þætti hafi verið fullnægjandi og að vísað hafi verið með forsvaranlegum hætti til þeirra gagna sem nefnd hafa verið. Vísaði stofnunin m.a. til ráðgefandi niðurstöðu sérfræðinganefndarinnar auk þess sem stofnunin lagði sjálfstætt mat á það hvort skilyrði til þess innflutnings sem um var sótt væru fyrir hendi.

Með vísan til umfjöllunar í ákvörðuninni um ágengni tegundarinnar, lífslíkur og mögulega útbreiðslu við strendur landsins var niðurstaða Umhverfisstofnunar sú að ekki hafi verið lagt nægjanlega gott mat á það hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér ef tegundin þrifist við strendur Íslands. Þá lægju ekki fyrir upplýsingar um hitastig sjávar á ræktunarstað og því ekki hægt að útiloka að tegundin gæti fjölgað sér og orðið ágeng á svæðinu. Jafnframt hefði það veruleg áhrif á niðurstöðu stofnunarinnar að sótt væri um leyfi til innflutnings á miklum fjölda ostra án þess að fyrir lægju upplýsingar um vistkerfið á ræktunarstað og því ekki hægt að útiloka að ræktunin ógnaði eða hefði veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Skyldi samkvæmt 9. gr. laga um náttúruvernd leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum þegar tekin væri ákvörðun á grundvelli laganna án þess að fyrir lægi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hefði á náttúruna. Hvað frjósemi tegundarinnar varðaði væri það mat stofnunarinnar að þrátt fyrir að litlar líkur væru á því að þrílitna ostrur gætu fjölgað sér þá hefði fyrirhugaður ræktunarstaður ekki verið rannsakaður nægilega vel til að ganga úr skugga um að aðstæður væru ekki til þess fallnar að tegundin gæti fjölgað sér. Væri það mat Umhverfisstofnunar, með vísan til 9. og 3. mgr. 63. gr. laga um náttúruvernd, að sá fjöldi ostra sem sótt væri um leyfi fyrir gæti verið til þess fallinn að ógna eða hafa veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Þá mætti leiða líkur að því að með þann fjölda sem hér um ræddi yrði erfiðara að koma algjörlega í veg fyrir smithættu.

Loks dregur Umhverfisstofnun saman niðurstöðu sína hvað varðar umsóknina. Taldi stofnunin að ekki væru til nægjanlega góð gögn um vistkerfi ræktunarsvæðisins og því erfitt að meta nákvæmlega hvaða áhrif fyrirhuguð ostrurækt gæti haft á svæðið. Næði tegundin að breiða úr sér við strendur landsins gæti það haft í för með sér neikvæð áhrif á þau vistkerfi þar sem hún næði útbreiðslu. Tegundin yrði þá ríkjandi og gæti umbreytt vistkerfum. Hefði tegundin dafnað svo vel í Danmörku, Bandaríkjunum, Kanada, Frakklandi, Hollandi og Svíþjóð að hún hefði yfirtekið kræklingasvæði, sem aftur hefði keðjuverkandi áhrif á fæðu fugla. Þá mætti leiða að því líkur að aukinn fjöldi dýra gæti haft verulega neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni á svæðinu óháð því hvort ostrurnar slyppu, þar sem að aukinn fjöldi lífvera á svæðinu kallaði á aukna samkeppni um fæðu. Þessi aukna samkeppni gæti jafnframt haft í för með sér keðjuverkandi áhrif upp fæðukeðjuna. Væri svæðið við Kaldárósa hluti af stærra svæði sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefði skilgreint sem mikilvægt fuglasvæði á Íslandi. Jafnframt væri svæðið á lista Birdlife International sem mikilvægt fuglasvæði (IBA) í Evrópu og á heimsvísu.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 60/2013 er markmið laganna að vernda til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru, þar á meðal líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni og fjölbreytni landslags. Lögin eiga og að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru á eigin forsendum og verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt og einnig stuðla að endurheimt raskaðra vistkerfa og auknu þoli íslenskra vistkerfa gegn náttúruhamförum og hnattrænum umhverfisbreytingum. Er tekið fram í athugasemdum við 1. gr. í frumvarpi því sem varð að náttúruverndarlögum að orðalagið „til framtíðar“ undirstriki að stefnumið náttúruverndar þurfi að hugsa til langs tíma með hagsmuni komandi kynslóða í huga.

Fyrirhugað ræktunarsvæði er við Kaldárós við Faxaflóa, en svæðið er mikilvægt fuglasvæði, eins og fram kemur í ákvörðun Umhverfisstofnunar. Fyrir liggur að Hafrannsóknastofnun hefur ekki gert mælingar á hitastigi sjávar á þessu svæði en upplýsingar þess efnis eru veigamikill þáttur við mat á því hvort smithætta stafi af risaostrum og hvort þær geti fjölgað sér, en hvoru tveggja getur haft áhrif á vistkerfi staðarins og hugsanlega ógnað eða haft áhrif á líffræðilega fjölbreytni þess. Verður að telja rannsókn á vistkerfi ræktunarsvæðisins sérstaklega mikilvæga í ljósi þess að nýlegar rannsóknir hafa sýnt að umrædd tegund hefur á undanförnum árum fundist á norðlægari slóðum en áður var talið að hún gæti þrifist á. Samkvæmt upplýsingum úr NOBANIS-gagnagrunninum, líkt og kærandi hefur vísað til, sýnir útbreiðsla tegundarinnar á heimsvísu að einungis svæðið við miðbaug og heimskautasvæðin séu óhagstæð til ræktunar í landfræðilegu tilliti. Hefur kærandi í því sambandi bent á að í skýrslu vísindasiðanefndar um loftslagsmál frá 2008 sé talið að þær loftslagsbreytingar sem þar er fjallað um snerti fyrst og fremst hafsvæðið á landgrunninu í kringum Ísland og á nærliggjandi svæðum þar sem spáð sé tiltölulega takmarkaðri hlýnun sjávar (1-2°C) á næstu 50-100 árum. Samkvæmt NOBANIS-gagnagrunninum hafa risaostrur einstaka aðlögunarhæfni og þótt þær hafi almennt ekki komið sér upp varanlegum búsvæðum norðar en 60°N, líklega vegna of lágs sjávarhita, þá er í einnig bent á nýlega rannsókn sem bendir til þess að tegundin hafi ekki enn náð vistfræðilegum mörkum sínum og að æxlunargeta hennar geti leitt til frekari útbreiðslu. Vísar Umhverfisstofnun og til þess að í aðgerðaáætlun Norðmanna komi fram að talin sé hætta á því að tegundin breiði úr sér allt norður til Lofoten, sem er staðsett norðan 68°N. Þá kemur fram í nefndri aðgerðaáætlun að tegundin finnist á grunnum, skjólsælum svæðum og að við hagstæð veðurskilyrði geti sjávarhiti á slíkum svæðum verið allt að 10°C hærri en yfirborðshiti á opnari strandsvæðum í nágrenninu.

Þrátt fyrir að hverfandi líkur virðist vera á því t.d. að tegundin geti fjölgað sér, þar sem um þrílitna ostrur er að ræða, verður ekki framhjá því litið að ákveðnir óvissuþættir eru fyrir hendi sem leiða til þess að erfitt er að leggja mat á það hvort aðstæður séu með þeim hætti að tegundin geti orðið ágeng og þannig ógnað líffræðilegri fjölbreytni. Sótt var um leyfi til að flytja inn ostrur sem eru þrílitna, en það er ekki stöðugt ástand. Auk þess eru ostrurnar ekki allar ófrjóar og skimun vegna smithættu er ekki óbrigðul. Þá er samkeppni um fæðu á svæðinu óháð því hvort ostrurnar breiða úr sér eða ekki, en fram kemur í áhættumati því er fylgdi umsókn kæranda að þar sem ostrur séu síarar eins og kræklingar þurfi ekki að fóðra þær. Í matinu er hins vegar ekki fjallað um mögulega fæðusamkeppni vegna þessa og þá áhrif hennar. Getur sá mikli fjöldi ostra sem sótt er um leyfi fyrir haft áhrif á alla þessa þætti, en ekki verður annað ráðið af ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 19. janúar 2018 um leyfi til innflutnings en að hún hafi að miklu leyti verið á því reist að um væri að ræða innflutning á alls þremur þúsundum ostra. Tók enda Umhverfisstofnun fram í þeirri ákvörðun sinni að ólíklegt væri að sá fjöldi ostra sem sótt var um leyfi fyrir næði slíkri útbreiðslu að tegundin ógnaði eða hefði veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni og áréttaði stofnunin þá afstöðu sína síðar til innflutningsins „eins og hér stendur sérstaklega á“. Verður að telja eðlilegt að mat stofnunarinnar hafi tekið breytingum þegar ljóst var að forsendur væru svo mikið breyttar sem raunin varð hvað varðar fjölda ostra sem áætlað var að flytja inn. Gaf og sá mikli fjöldi stofnuninni tilefni til nánari rannsóknar, sem m.a. leiddi í ljós upplýsingar um hvar tegundin hefði fundist og undir hvaða kringumstæðum hún gæti fundist, sem stofnunin hafði ekki vitneskju um áður.

Að teknu tilliti til ákvæða laga nr. 60/2013, markmiða þeirra og tilgangs um að vernda líffræðilega fjölbreytni, meginreglna laganna, sem kveða m.a. á um vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku, sbr. 8. gr., og að þegar ekki liggi fyrir með nægilegri vissu hvaða áhrif ákvörðun hafi á náttúruna skuli leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum, sbr. 9. gr., verður að telja að eins og atvikum er hér háttað hafi Umhverfisstofnun verið rétt að synja umsókn kæranda um leyfi til innflutnings. Að baki synjuninni lágu málefnaleg rök, enda taldi stofnunin að ákveðna þekkingu skorti til að hægt væri að fullyrða að lífríkinu stafaði ekki hætta af svo umfangsmiklum innflutningi. Með hliðsjón af því umfangi verður ekki heldur séð að stofnunin hefði, með vísan til fyrri leyfisveitingar og meðalhófs, átt að fallast á að veita leyfið með skilyrðum til að draga úr hættu á því að innflutningurinn hefði áhrif á lífríkið, sbr. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 60/2013. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Það athugist að Umhverfisstofnun leitaði í þrígang umsagnar sérfræðinganefndar um framandi lífverur í samræmi við 3. mgr. 63. gr. laga nr. 60/2013. Umsagnar nefndarinnar var þó ekki leitað að nýju við endurskoðun umsóknarinnar, en fallast verður á að ekki hafi borið nauðsyn til þess þar sem afstaða nefndarinnar var þegar ljós í fyrri umsögnum hennar, að því er virðist óháð fjölda innfluttra ostra.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 19. febrúar 2018 um að synja umsókn um leyfi til innflutnings á einni milljón risaostra (Crassostrea gigas) á ári til þriggja ára til áframræktunar við Kaldárós við Faxaflóa.

100/2019 Laugavegur

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 2. október 2019, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 100/2019, kæra á afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 13. september á fyrirspurn um verslun og veitingastað í húsnæði við Laugaveg 15, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. september 2019, er barst nefndinni 25. s.m., kærir eigandi Laugavegs 20b „samþykkt skipulagsfulltrúa frá 13. september að samþykkja veitingastað í húsnæði við Laugaveg 15“, Reykjavík. Verður að skilja málatilbúnað kæranda sem svo að þess sé krafist að afgreiðslan verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. september 2019.

Málavextir: Kærandi hefur oftar en einu sinni falast eftir því að fá að opna veitingastað í húsnæði sínu við Laugaveg 20b. Umsagnir skipulagsfulltrúa frá 29. janúar 2016, 29. júní 2018 og 16. september 2019 vegna erinda kæranda voru neikvæðar vegna starfsemiskvóta viðkomandi götuhliða.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 30. ágúst 2019 var lögð fram fyrirspurn um að vera með verslun og veitingastað/take away á jarðhæð hússins á lóð nr. 15 við Laugaveg. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra og var lögð fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. september 2019. Var í umsögninni tekið fram að ekki væri gerð skipulagsleg athugasemd við að heimilað yrði að opna verslun og veitingastað í rými því sem um ræddi með þeirri uppskiptingu sem lagt væri upp með samkvæmt fyrirspurninni. Endurskoða þyrfti þó fyrirhugaða uppstillingu á veitingahluta starfseminnar til að gæta að sérskilmálum í deiliskipulagi. Hægt væri að koma að nýjum tillögum þannig að þeim skilmálum yrði fylgt. Umsögn skipulagsfulltrúa var samþykkt á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 13. september 2019 og hefur sú afgreiðsla verið kærð, svo sem að framan greinir

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að bæði Laugavegur 15 og 20b séu staðsett á sama götusvæði og því hljóti sömu reglur að gilda um húsin. Það sé óeðlilegt að Laugavegur 20b, sem hafi ríka sögu sem veitingahúsnæði, fáist ekki samþykkt sem veitingastaður á meðan húsnæði sem alla tíð hafi verið í hefðbundinn verslunarrekstur fái slíkt samþykki.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verði ekki lögð að jöfnu við formlega leyfisumsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli geti ekki, eðli máls samkvæmt, talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgi. Sé því ljóst að svar skipulagsfulltrúa vegna fyrirspurnar feli ekki í sér lokaákvörðun. Þar sem hin kærða ákvörðun um jákvæða afstöðu til fyrirspurnar sé ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar beri að vísa kærumálinu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Í 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. sömu laga kemur fram að byggingarfulltrúi skuli leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd sem er háð byggingarleyfi samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Af framangreindum lagaákvæðum er ljóst að endanleg ákvarðanataka um veitingu byggingarleyfis til að breyta notkun húsnæðis í veitingastað liggur hjá byggingarfulltrúa. Samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðun, sem bindur ekki enda á mál, verður hins vegar ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsfulltrúa á fyrirspurn um hvort heimildir séu til staðar til að opna veitingastað í hluta húsnæðis við Laugaveg 15, en kærandi telur að í þeirri afgreiðslu felist ójafnræði gagnvart sér. Í þeirri afgreiðslu felst hins vegar engin sú ákvörðun sem bindur enda á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Er og ljóst að kærandi getur hvorki haft lögvarinna hagsmuna að gæta vegna grenndar eða meints ójafnræðis nema af leyfisveitingu verði, en samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála eiga þeir einir kærurétt til nefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af kæruefninu. Ber því samkvæmt öllu sem að framan er rakið að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

72/2019 Skólavegur

Með

Árið 2019, föstudaginn 27. september, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 72/2019 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Skólavegar 14, Fáskrúðsfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 9. ágúst 2016 að veita byggingarleyfi fyrir sólpall og 140 cm hárri skjólgirðingu úr timbri á lóðinni Skólavegi 12, Fáskrúðsfirði. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og viðurkennd verði aðilastaða hans við lokaúttekt mannvirkisins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 18. september 2019.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 13. júní 2016, sóttu eigendur Skólavegar 12 um byggingarleyfi fyrir byggingu sólpalls og 140 cm hárrar skjólgirðingar úr timbri á nefndri lóð. Umsóknin var tekin fyrir á fundi eignar-, skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins 15. s.m. og samþykkt að grenndarkynna hana fyrir kæranda, sem lóðarhafa aðliggjandi lóðar, með athugasemdfrest frá 20. júní til 18. júlí 2016. Að lokinni grenndarkynningu tók nefndin umsóknina fyrir 21. júlí s.á. og lágu þá m.a. fyrir athugasemdir frá kæranda. Samþykkti nefndin umsóknina með vísan til þess að fram komnar athugasemdir væru ekki þess eðlis að hafna bæri henni. Bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, staðfesti þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 25. júlí 2016. Byggingarfulltrúi tilkynnti umsækjanda þá niðurstöðu með bréfi, dags. 9. ágúst 2016, þar sem jafnframt kom fram að leyfið tæki gildi þegar byggingarleyfisgjöld hefðu verið greidd.

Af hálfu kæranda er á því byggt að umrætt byggingarleyfi sé ólögmætt sbr. ákvæði laga um mannvirki nr. 160/2010, auk e.-f. liða gr. 2.3.5. sem og gr. 7.2.3. byggingareglugerðar nr. 120/2012 með áorðnum breytingum. Einnig sé byggt á meginreglum nábýlisréttar ekki síst hvað varðar aukna snjósöfnun á lóð hans vegna umrædds mannvirkis. Kærandi hefði átt að hafa aðilastöðu, í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að því stjórnsýslumáli sem leiddi til útgáfu lokaúttektarvottorð vegna umþrætts mannvirkis.

Byggingaryfirvöld Fjarðabyggðar benda á að kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 vegna umdeilds byggingarleyfis hafi verið löngu liðinn þegar kæra í máli þessu hafi borist úrskurðarnefndinni en kæranda hafi verið leiðbeint um rétt sinn til að kæra umrædda ákvörðun. Þá hafi fulltrúi kæranda verið á svæðinu þegar lokaúttekt verksins hafi verið framkvæmd með sérstakt umboð í því skyni. Fyrir lokaúttektina hafi kærandi verið upplýstur um í bréfi, dags. 16. maí 2019, að sveitarfélagið teldi hann ekki eiga aðild að henni og myndu ekki fá sérstaka boðun í úttektina. Þrátt fyrir það hafi kærandi verið upplýstur um hvenær byggingarfulltrúi hefði í hyggju að framkvæma lokaúttekt og honum gefinn kostur á að hafa fulltrúa sinn viðstaddan.

Leyfishafi bendir á að eins mánaðar kærufrestur vegna málsins sé liðinn. Ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar hafi verið tekin 9. ágúst 2016 og kæranda sent bréf sama dag með tilkynningu um veitingu umdeilds byggingarleyfis tilkynnt um ákvörðunina. Samkvæmt ofangreindu hafi því kærufrestur í þessu máli runnið út fyrir rétt tæplega þremur árum áður en kæra hafi borist og beri því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins verður kæru þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Svo sem að framan er rakið var hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar tekin 9. ágúst 2016. Sama dag var bréf sent kæranda með tilkynningu um ákvörðunina og honum leiðbeint um kæruleið og kærufrest í samræmi við 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Liggur því fyrir að kæranda varð kunnugt um hina kærðu ákvörðun þegar í ágúst 2016. Kæra í máli þessu barst hins vegar ekki úrskurðarnefndinni fyrr en 25. júlí 2019 eða tæpum þremur árum síðar. Var lögbundinn kærufrestur þá löngu liðinn. Ekki eru fyrir hendi þær ástæður sem leiða til þess að ógildingarkrafa kæranda verði tekin fyrir að liðnum kærufresti samkvæmt undantekningarákvæðum nefndrar 28. gr. stjórnsýslulaga.

Fyrir liggur að byggingarfulltrúi sendi kæranda bréf, dags. 16. maí 2019, þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða lokaúttekt sem skyldi fara fram í síðasta lagi fyrir lok júní s.á. Kom þar m.a. fram að hann teldi það hluta af rannsóknarskyldu sinni í tilefni af athugasemdum kæranda að láta fara fram ákveðnar mælingar á staðnum sem lið í lokaúttekt. Í skjali sem ber yfirskriftina Lokaúttekt Skólavegar 12 og dagsett er 25. júní 2019 er tekið fram að meðal viðstaddra hafi verið fulltrúi kæranda. Loks liggur fyrir í málinu umboð kæranda, dags. 31. maí 2019 til þess fulltrúa sem viðstaddur var úttektina til að koma fram fyrir hans hönd við mælingar milli mannvirkis á Skólavegi 12 og lóðamarka Skólavegar 14. Verður af framangreindu ekki talið að kærandi eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um rétt hans til aðildar að umræddri lokaúttekt þar sem fulltrúi hans var á staðnum við úttektina sem þegar hefur farið fram.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

21/2019 Fitjar

Með

Árið 2019, föstudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2019, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 13. mars 2019 um að fresta afgreiðslu umsóknar um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. mars 2019, er barst nefndinni 20. s.m., kæra eigendur Fitja í Skorradalshreppi, þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 13. mars 2019 að fresta afgreiðslu umsóknar um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32. Er þess krafist að staðfest verði að framlögð gögn séu fullnægjandi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 9. maí 2019.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 3. júlí 2018 var tekin fyrir umsókn kærenda um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við Fitjahlíð 28 og 32. Var málinu frestað þar sem að mati nefndarinnar lægi ekki fyrir fullnægjandi gögn, sbr. c-lið 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Fært var til bókar að kærendur þyrftu að leggja fram hnitsettan uppdrátt sem staðfestur hafi verið af skipulagsyfirvöldum. Með bréfi, dags. 8. júlí s.á., tilkynnti byggingarfulltrúi kærendum um afgreiðslu nefndarinnar.

Í kjölfarið hafði annar kærenda samband við Þjóðskrá og óskaði eftir leiðbeiningum um hvaða gögnum þyrfti að skila til sveitarfélags til að uppfylla skilyrði fyrrnefnds lagaákvæðis. Fékk kærandi meðal annars þær leiðbeiningar að skila þyrfti inn umsóknareyðublaði F-550 um skráningu nýrra landeigna í fasteignaskrá ásamt hnitsettum mæliblöðum með nýrri afmörkun landeigna. Í tölvupósti skipulagsfulltrúa frá 21. ágúst 2018 til kæranda kom fram „[s]taðfestur uppdráttur af skipulagsyfirvöldum er deiliskipulag umræddra lóða Fitjahlíðar 28 og 32.“ Uppdráttur sem fylgt hafi með umsókn uppfylli ekki kröfu um gerð deiliskipulagstillögu.

Hinn 20. febrúar 2019 sendi kærandi erindi til skipulags- og byggingarnefndar og óskaði eftir því að umsókn kærenda yrði tekin til afgreiðslu en með erindinu fylgdi umsóknareyðublað ásamt hnitsettum uppdráttum. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 13. mars s.á. var erindi kærenda frestað að nýju þar sem hnitsettur uppdráttur sem staðfestur hafði verið af skipulags­yfirvöldum hafi ekki enn verið lagður fram. Var sú afgreiðsla nefndarinnar samþykkt á fundi hreppsnefndar sama dag.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að eftir að skipulags- og byggingarnefnd hafi frestað erindi þeirra hinn 3. júlí 2018 hafi þau leitað til Þjóðskrár. Þar hafi þau fengið greinargóð svör við fyrirspurn sinni um hvers konar staðfestingu skipulagsyfirvalda væri átt við í 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Hafi þeim verið tjáð að nóg væri að sveitarfélagið stimplaði mæliblað eða samþykkti með undirritun. Því hafi kærendur sent beiðni til skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps um afgreiðslu á umsókn sinni um að skipta Fitjahlíð 30 upp í tvær lóðir og sameina við Fitjahlíð 28 og 32. Kærendur hafi skilað inn umsókn ásamt hnitsettum uppdráttum en nefndin hafi ítrekað talið gögnin ófullnægjandi. Telja þau að byggingarfulltrúi eigi að taka umsókn þeirra fyrir og afhendi síðan Þjóðskrá „nauðsynleg gögn, sem yfirfer skráningu og færir upplýsingar í fasteignaskrá, að gefnu samþykki sýslumanns“, líkt og segi í leiðbeiningum um skráningu landeigna á vef Þjóðskrár.

Málsrök Skorradalshrepps: Af hálfu hreppsins er farið fram á frávísun málsins. Bent sé á að hin kærða ákvörðun sé ekki ákvörðun sem tekin sé samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, en ekkert sé fjallað um stofnun lóða, skráningu lóða eða breytingar á slíkri skráningu í lögunum. Umrædd ákvörðun sé þess efnis að hreppurinn hafi hafnað því að gera breytingar á umbeðinni skráningu lóða innan sveitarfélagsins á þeim grundvelli að framlögð gögn uppfylli ekki þær kröfur sem sveitar­félögum beri að gera til hnitsettra uppdrátta. Ákvörðunin sé tekin á grundvelli laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og eigi sem slík ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar. Þá sé hin kærða ákvörðun heldur ekki lokaákvörðun í málinu. Umsókn kærenda hafi verið frestað en ekki hafnað. Leiðbeiningar hafi verið veittar um hvað kærendur þurfi að gera til að fá umsóknina samþykkta og þar með hafi hreppurinn uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína gagnvart kærendum skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því liggi ekki fyrir lokaákvörðun í málinu en skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga verði ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en mál hafi verið til lykta leitt.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur hafna frávísunarkröfu hreppsins. Skýrt komi fram í gögnum málsins að kæran byggist á skilningi byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa um að málið snúist um skipulagsmál. Með kröfu hreppsins um deiliskipulagsgerð sé umsókn kærenda tekin úr samhengi við lög nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og sett alfarið undir skipulagslög nr. 123/2010. Lokaákvörðun í málinu felist í því að gera kröfu um deiliskipulagsgerð. Sú krafa sé óréttmæt, íþyngjandi og líklega ólögmæt. Umsóknin og hnitsett mæliblöð uppfylli kröfur c-liðar 14. gr. laga nr. 6/2001 og 1. mgr. 48. gr. laga nr. 123/2010. Ef gerð sé krafa um deiliskipulag þá beri hreppnum að standa straum af kostnaði sem af því hlýst, sbr. 5. mgr. 18. gr. skipulagslaga, og bera ábyrgð á gerð og afgreiðslu þess, sbr. 1. mgr. 38. og 5. mgr. 37. gr. sömu laga.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps að fresta afgreiðslu umsóknar kærenda um að skipta Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við Fitjahlíð 28 og 32.

Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en í lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna er ekki að finna kæruheimild til nefndarinnar. Umsókn kærenda var lögð fram á grundvelli 14. gr. laga nr. 6/2001 en þar er kveðið á um það ferli þegar sótt er um stofnun fasteignar í fasteignaskrá. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal umsókn lögð fram hjá viðkomandi sveitarfélagi ásamt m.a. afmörkun fasteignar á hnitsettum uppdrætti sem staðfestur hefur verið af skipulagsyfirvöldum þegar um skiptingu eða samruna lands er að ræða, sbr. c-lið ákvæðisins. Hins vegar er fjallað um ákvarðanir um lóðir og lóðamörk í skipulagslögum, en slíkar ákvarðanir geta annað hvort verið teknar með deili­skipulagsgerð, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga, eða með samþykki sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr. 48. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að umsókn kærenda hafi verið lögð fram á grundvelli 14. gr. laga nr. 6/2001 verður að líta svo á að efnislega hafi hún falið í sér beiðni um skiptingu lóða og breytingu á lóðamörkum. Með hliðsjón af fyrrnefndum lagaákvæðum bar hrepps­nefndinni því að afgreiða erindi kærenda á grundvelli skipulagslaga.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kærenda frestað og er því ljóst að sú ákvörðun fól ekki í sér lokaákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar. Verður kröfu kærenda um að staðfest verði að fullnægjandi gögn hafi verið lögð fram með umsókn þeirra um breytingu lóða því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Af gögnum málsins verður ráðið að hreppsnefndin hafi litið svo á að ekki yrði orðið við beiðni kærenda um skiptingu lóðar og sameiningu við aðrar lóðir nema með gerð deili­skipulags en kærendur hafi ítrekað verið ósammála þeirri afstöðu hreppsnefndarinnar og farið fram á að umsókn þeirra yrði afgreidd. Að svo búnu var full ástæða fyrir sveitarfélagið að afgreiða umsókn kærenda efnislega til þess að kæranleg lokaákvörðun lægi fyrir. Verður að svo komnu að líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Með hliðsjón af því að rúmlega hálft ár er frá því að kæra barst úrskurðar­nefndinni verður lagt fyrir hreppsnefnd Skorradalshrepps að taka umsókn kærenda til efnis­legrar meðferðar án ástæðulauss dráttar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 13. mars 2019 um að fresta afgreiðslu umsóknar kærenda er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Lagt er fyrir skipulagsyfirvöld í Skorradalshreppi að taka umsókn kærenda frá 20. febrúar 2019, um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32, til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

138/2018 Bogatröð

Með

Árið 2019, föstudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 138/2018, kæra vegna álagningar „matsgjalds“ vegna brunabótamats fasteignarinnar Bogatröð 31, Reykjanesbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir M.K. Bílaleiga ehf., Látraströnd 54, Seltjarnarnesi, álagningu „matsgjalds“ vegna brunabótamats fasteignarinnar Bogatröð 31, Reykjanesbæ með gjalddaga 1. september 2018 að upphæð kr. 97.845. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu álagningar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Þjóðskrá Íslands 4. janúar 2019 og 10. september s.á.

Málavextir: Með beiðni til Þjóðskrár Íslands, dags. 4. október 2018, óskaði kærandi eftir breytingu á skipulagsgjaldi fasteignarinnar Bogatröð 31 í Reykjanesbæ. Í erindinu kom fram að eigandi fasteignarinnar hefði aldrei farið fram á brunavirðingu en samkvæmt lögum geti enginn annar en eigandi farið fram á nefnda virðingu. Á þeim grundvelli óskaði kærandi eftir því að skipulagsgjald yrði fellt niður.

Kærandi ítrekaði beiðni sína um breytingu á skipulagsgjaldi fasteignarinnar með bréfi, dags. 24. október 2018, og tiltók að matið hefði verið framkvæmt áður og vísaði til þess að í kaupsamningi um eignina sé tilgreint um brunabótamat. Með tölvupósti, dags. 2. nóvember 2018, óskaði Þjóðskrá Íslands eftir afriti af kaupsamningnum þar sem brunabótamat fasteignarinnar væri tilgreint og svaraði kærandi því erindi 4. s.m. þar sem fram kom að samningurinn væri ekki aðgengilegur að svo stöddu. Hinn 15. nóvember 2018 barst kæranda ákvörðun Þjóðskrá Íslands þar sem hafnað var beiðni hans um breytingu á álagningu skipulagsgjalds vegna fast­eignarinnar að Bogatröð 31 þar sem kærandi hafi ekki lagt fram haldbær gögn, s.s. tilvísaðan kaupsamning, sem sýndi fram á að seljandi fasteignarinnar hafi samið um að greiða álagt skipulagsgjald.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi eignast umrædda fasteign með kaup­samningi, dags. 4. júní 2015. Hinn 1. september 2018 hafi honum borist reikningur frá Sýslumanninum á Suðurnesjum þar sem hann hafi verið krafinn um kr. 97.845 fyrir skipulagsgjald. Við nánari eftirgrennslan hafi hins vegar komið í ljós að gjaldið væri vegna virðingar eignarinnar til brunabótamats. Haft hafi verið samband við Þjóðskrá Íslands vegna kröfunnar og bent á að við kaupin hafi fasteignin ekki verið metin til brunabótamats og þar sem um fyrstu virðingu væri að ræða væri hún gjaldfrjáls skv. 1. gr. gjaldskrár nr. 446/2001 vegna brunabótamats, málskots til yfirfasteignarmatsnefndar og gerðardóms skv. lögum nr. 48/1994 um brunatryggingar.

Bendir kærandi á að umrætt gjald sé ávallt ranglega nefnt „skipulagsgjald“ en í raun sé um að ræða gjald vegna virðingar húseignar á grundvelli gjaldskrár nr. 446/2001, sem stoð eigi í lögum nr. 48/1994. Yfirlit Þjóðskrár sýni að allt fram til 7. ágúst 2018 hafi fasteignin ekki verið virt til brunabótamats. Það mat sé gert eftir að hann eignaðist fasteignina og sé því fyrsta virðing hennar til brunabótamats, en fyrir það skuli ekki greiða matsgjald, svo notað sé orðalag reglugerðarinnar.

Málsrök Þjóðskrár Íslands: Stofnunin vísar til þess að samkvæmt 1. gr. laga um bruna­tryggingar nr. 48/1994 sé húseiganda skylt að brunatryggja allar húseignir og að vátryggingar­skyldar húseignir sé skylt að meta eigi síðar en fjórum vikum eftir að byggingu þeirra lauk eða þær hafi verið teknar í notkun. Í máli þessu sé ekki ágreiningur um að byggingu fasteignarinnar sé lokið og að fasteignin hafi verið tekin í notkun fyrir meira en fjórum vikum.

Samkvæmt 2. gr. sömu laga annist Þjóðskrá Íslands virðingu húseignar samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar. Heiti þeirrar gerðar sé brunabótamat. Vísar stofnunin til þess að þó svo að kærandi hafi ekki farið eftir 1. gr. laganna leysi það hann hvorki undan lagaskyldu varðandi tilkynningu né greiðsluskyldu.

Álagning skipulagsgjalds fari fram á grundvelli brunabótamats samkvæmt 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem segi að greiða skuli skipulagsgjald í eitt skipti sem nemi 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Samkvæmt 3. mgr. falli skipulagsgjald í gjalddaga þegar virðingargjörð hefur farið fram og Fasteignamat ríkisins (nú Þjóðskrá Íslands) hafi tilkynnt hana til innheimtumanns ríkissjóðs.

Kærandi hafi ekki lagt fram gögn eða upplýsingar þess efnis að skipulagsgjald hafi áður verið lagt á fasteignina Bogatröð 31 og ekki séu í kerfum Þjóðskrár Íslands upplýsingar um slíka álagningu. Þá hafi kærandi ekki lagt fram haldbær gögn, svo sem áðurnefndan kaupsamning, sem sýndi fram á að seljandi fasteignarinnar hafi samið um að greiða álagt skipulagsgjald.

Niðurstaða: Af fyrirliggjandi gögnum máls verður ekki annað séð en að reikningur vegna álagningar gjalds að fjárhæð kr. 97.845, sem deilt er um í þessu máli, varði álagninu skipulagslagsgjalds skv. 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en ekki gjalds vegna virðingar húseignar skv. gjaldskrá nr. 446/2001 vegna brunabótamats, málskots til yfir­fasteignarmatsnefndar og gerðardóms skv. lögum nr. 48/1994 um brunatryggingar, sem unnt væri að skjóta til yfirfasteignamatsnefndar.

Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta. Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 hluta verðs eldra húss. Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins, nú Þjóðskrá Íslands, hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.

Eins og háttað er reglum um álagningu skipulagsgjalds má við því búast að hún geti farið fram nokkru eftir að viðkomandi bygging hefur verið tekin í notkun og hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum fallist á að réttlætanlegt kunni að vera að leggja gjaldið á nokkru eftir að byggingu mannvirkis hafi lokið.  Á hitt ber að líta að miðað er við að gjaldið sé lagt á nýreist hús og nýjar viðbyggingar. Verður ekki á það fallist að umrædd fasteign, sem mun hafa verið reist á árinu 1960, verði talið nýreist hús í skilningi 17. gr. skipulagslaga er umdeild álagning fór fram. Engin eðlis- eða efnisrök leiða til þess að beitt verði svo rúmri lögskýringu við túlkun þess lagaákvæðis, sem umdeild álagning styðst við þegar litið er til orðalags þess. Verður og að líta til þess að um er að ræða eldri fasteign á svæði sem löngu hafði verið byggt upp og skipulagt á kostnað framkvæmdaaðila er skipulagsgjaldið var lagt á.

Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að fella úr gildi álagningu skipulagsgjalds á umrædda fasteign kæranda.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds með gjalddaga 1. september 2018 að upphæð kr. 97.845 vegna fasteignarinnar Bogatröð 31, Reykjanesbæ.