Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

54/2019 Tangabryggja

Árið 2020, fimmtudaginn 28. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðu­-maður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júní 2019 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júlí 2019, er barst nefndinni 8. s.m., kærir húsfélag Tangabryggju 13-15 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júní 2019 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15 í Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingar­­­fulltrúa verði gert að endurtaka lokaúttekt samkvæmt skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, eftir að verktaki ljúki við bygginguna að fullu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. nóvember 2019 og 2. og 28. apríl 2020.

Málavextir: Á árinu 2016 var sótt um byggingarleyfi til þess að byggja fimm hæða fjölbýlis­­-hús með 63 íbúðum á lóðinni nr. 18-24 við Tangabryggju, sem síðar var breytt í Tangabryggju 13-15. Umsóknin var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 14. mars 2017. Leyfishafi sótti þrívegis um breytingar á samþykktu byggingarleyfi og voru þær umsóknir samþykktar á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa dagana 23. janúar og 14. ágúst 2018 og 2. apríl 2019. Hinn 23. apríl 2019 sendi kærandi tölvupóst til byggingarfulltrúa og óskaði eftir því að fá að koma að athugasemdum áður en lokaúttekt færi fram, sem hann og gerði. Með tölvupóstum 27. s.m. og 31. maí s.á. kom kærandi að frekari athugasemdum vegna loka­-úttektar. Lutu athugasemdir hans m.a. að því hvernig aðgengi og loftræsingu væri háttað. Hinn 20. maí s.á. sendi byggingarfulltrúi tölvupóst til hlutaðeigandi aðila og upplýsti um að tekinn hefði verið frá tími fyrir lokaúttekt 5. júní 2019. Jafnframt tók byggingarfulltrúi fram að áður en boðað yrði til úttektar þyrftu tiltekin gögn að berast embættinu, þ. á m. staðfesting þess að bílastæði fyrir hreyfihamlaða stæðust kröfur gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Skoðun á mannvirkinu fór fram 5. júní 2019 en endanleg lokaúttekt átti sér stað 21. s.m. Sama dag gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt. Í vottorðinu kemur fram að gögn sem hafi borist staðfesti að úrbótum hafi verið lokið vegna athugasemda sem gerðar hefðu verið í skoðun á mannvirkinu 5. s.m., en þær lutu einkum að brunavörnum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í gr. 1.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram að markmið hennar sé að tryggja aðgengi fyrir alla. Samkvæmt gr. 6.2.4. skuli fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða vera við íbúðarhús með 63 íbúðir. Fjögur slík stæði séu til staðar en þau séu öll staðsett í læstri bílageymslu hússins. Samkvæmt sama ákvæði sé heimilt að hafa bílastæði fyrir hreyfihamlaða í bílageymslu sé það tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna þar. Þessum ákvæðum sé ekki fylgt þar sem um læsta bílageymslu sé að ræða og bílastæðin fjögur séu þinglýst eign ákveðinna íbúða í eigu ófatlaðra einstaklinga. Einnig segi í ákvæðinu að eitt af hverjum fimm bílastæðum hreyfihamlaðra, þó aldrei færri en eitt, skuli vera 4,5 × 5,0 m að stærð og við enda þeirra athafnasvæði um 3 m að lengd. Stæði fyrir hreyfihamlaða í bílageymslunni séu öll jafnstór og öll af minni gerð, en ekkert athafnasvæði sé til staðar. Þá séu þau ekki merkt á yfirborði heldur aðeins með lóðréttu skilti, en báðar merkingar eigi að vera til staðar samkvæmt ákvæðinu.

Þar sem gerð sé krafa um algilda hönnun bygginga skuli skv. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerð gera ráð fyrir sjálfvirkum opnunarbúnaði fyrir inngangsdyr í aðalumferðarleiðum. Slíkan búnað sé ekki að finna á þeim fimm hurðum sem marki aðalumferðarleið frá bílageymslu að lyftum í Tangabryggju 15, en öll stæði hreyfihamlaðra í eigninni tilheyri íbúðum í Tangabryggju 15. Samkvæmt skilalýsingu byggingarinnar skuli stæði fyrir hreyfihamlaða vera ofanjarðar og malbikuð eða hellulögð. Hins vegar séu engin stæði fyrir hreyfihamlaða ofanjarðar. Því sé aðgengi hreyfihamlaðra íbúa og gesta skert, en það brjóti í bága við ákvæði reglugerðarinnar um aðgengi fyrir alla.

Ekki sé til staðar útsog úr eldhúsum íbúða, af gangi eða stigahúsum. Þar af leiðandi séu ekki eðlileg loftskipti á þessum stöðum í samræmi við gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Á uppdráttum komi fram að öll gluggalaus eða lokuð rými verði loftræst. Matarlykt leiði nú um íbúðir og fram á ganga. Gangar og stigahús séu gluggalaus, en á efstu hæð stigahúss sé þakgluggi til reykræsingar. Sorpgeymsla sé án læstrar hurðar og gólf þar ómeðhöndlað. Það leiði til þess að erfitt sé að þrífa gólfið, en skv. gr. 6.12.7. skuli sorpgeymslur þannig frágengnar að auðvelt sé að þrífa þær. Einnig segi í gr. 6.12.8. að gólf í sorpgerði/sorpskýli skuli vera úr efni sem auðvelt sé að þrífa. Þá vanti loftræsingu í sorpgeymslu svo hægt sé að læsa henni, sbr. gr. 6.12.7. Samkvæmt gr. 6.12.1. skuli ganga þannig frá tæknirýmum að þau „séu ávallt læst ef í þeim eru tæki, búnaður eða efni sem eru viðkvæm, geta valdið slysum eða verið hættuleg börnum eða fullorðnum.“ Rafmagnstöflur séu ólæstar í sameiginlegu rými, sem sé skilgreint sem hjóla- og vagnageymsla/tæknirými. Þar sé óhindrað aðgengi fyrir börn og fullorðna sem geti valdið slysum og tjóni fyrir íbúa hússins.

Svo virðist sem húsið hafi ekki verið tekið út samkvæmt ákvæðum skoðunarhandbókar og skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð. Hefði skoðunarhandbók og skoðunarlistum verið fylgt við áfanga- og lokaúttektir á byggingunni hefði komið fyrr til úrbóta. Ekki sé hægt að gefa út lokaúttektarvottorð þegar ekki séu uppfyllt skilyrði varðandi aðgengi, hollustuhætti og öryggismál, sbr. gr. 3.9.4. í reglugerðinni

Loks hafi leyfishafa verið sendar fleiri athugasemdir er varði öryggiskröfur, m.a. varðandi frágang á reykþéttum eldvarnarhurðum, frágang á einangrun á loftræsirörum í sameign og skort á lýsingu á gönguleið að bílastæðum, sbr. gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er vísað til þess að ekki verði séð að málsmeðferð byggingarfulltrúa hafi verið í ósamræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Verði ekki á öðru byggt en að við lokaúttekt 21. júní 2019 hafi byggingarfulltrúi haft til hliðsjónar athugasemdir kæranda frá 23. apríl s.á. Ekki verði önnur ályktun dregin af útgáfu vottorðs um lokaúttekt en að ekki hafi þótt ástæða til þess að gera athugasemdir við bygginguna, sbr. gr. 3.9.3. í byggingarreglugerðinni, og að hún hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög og reglugerðir sem um hana gildi. Ekki sé ástæða til að draga í efa yfirlýsingu byggingarfulltrúa þess efnis, þ.e.a.s. um útgáfu lokaúttektarvottorðs.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar komu fram í þessu máli.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsefna vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að byggingarfulltrúa verði gert að endurtaka lokaúttekt samkvæmt skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Framkvæmd lokaúttektar og útgáfa vottorðs þess efnis er hluti af lögbundnu eftirliti byggingarfulltrúa með mannvirkjagerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá er mælt fyrir um það í 4. mgr. ákvæðisins að ef mannvirkið uppfylli ekki að öllu leyti ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim þá geti útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttektina með athugasemdum. Þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu kom kærandi að athugasemdum við byggingarfulltrúa áður en lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15 fór fram. Gerði kærandi aðallega athugasemdir er vörðuðu aðgengi hreyfihamlaðra að fjölbýlishúsinu og benti m.a. á að öll bílastæði fyrir hreyfihamlaða væru staðsett í bílageymslu hússins og tilheyrðu tilteknum íbúðum þess. Því væru ekki til staðar bílastæði hreyfihamlaðra fyrir gesti eða aðra íbúa en þá sem byggju í þeim íbúðum sem bílastæði hreyfihamlaðra tilheyrðu. Einnig benti kærandi á að aðgengi að íbúðum frá stæðum í bílageymslu væri um dyr með þungum hurðum, sem væri erfitt fyrir íbúa eða gesti í hjólastól. Í tölvupósti byggingarfulltrúa til leyfishafa um niðurstöðu lokaúttektar segir um þessar athugasemdir kæranda: „Í deiliskipulagi og á aðaluppdráttum er ekki gert ráð fyrir gestastæðum fyrir fatlaða. Opnunarþunga hurða má stilla á hurðapumpum. Engin ákvæði eru til sem banna að merkja bílastæði fatlaðra ákveðnum íbúðum.“

Í fyrrnefndri gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð er fjallað um bílastæði hreyfihamlaðra og segir þar í 4. mgr. að eitt af hverjum fímm bílastæðum fyrir hreyfihamlaða, þó aldrei færri en eitt, skuli vera 4,5 × 5,0 m að stærð og við enda þeirra athafnasvæði, um 3 m að lengd. Mælt er fyrir um það í 5. mgr. að fjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhús, önnur en sérbýlishús, skuli að lágmarki vera samkvæmt töflu 6.01. Í þeirri töflu kemur fram að þegar fjöldi íbúða sé á bilinu 41-65 skuli vera fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Í 9. mgr. ákvæðisins er síðan kveðið á um að fækka megi bílastæðum á lóð mannvirkis samkvæmt töflu 6.01 sem nemi fjölda sérmerktra stæða fyrir hreyfihamlaða í sameiginlegri bílageymslu, enda sé tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna.

Fjölbýlishúsið að Tangabryggju 13-15 er með 63 íbúðum og skulu því þar vera fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða, sbr. nefnda gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð. Sá fjöldi slíkra stæða er til staðar, en á samþykktum uppdráttum má sjá að þau stæði eru öll í sameiginlegri bílageymslu og eru þau stæði merkt fjórum tilteknum íbúðum í húsinu. Þá verður ekki séð að neitt bílastæðanna sé 4,5 × 5,0 m að stærð með athafnasvæði, um 3 m að lengd, eins og mælt er fyrir um í sama ákvæði. Er því ekki uppfyllt skilyrði gr. 6.4.2. um aðgengi gestkomandi að bílastæðum hreyfihamlaðra. Breytir engu í því efni þótt nefnt fyrirkomulag sé í samræmi við deiliskipulag og samþykkta aðaluppdrætti, enda er skýrt kveðið á um það í lögum um mannvirki að samþykktir aðaluppdrættir skuli vera í samræmi við byggingarreglugerð, sbr. 11. gr. laganna. Sem fyrr greinir skal þáttum sem varða aðgengi ávallt vera lokið við gerð lokaúttektar, sbr. 4. mgr. 36. gr. mannvirkjalaga. Var byggingarfulltrúa ekki heimilt að víkja frá þeim kröfum og gefa út hið kærða vottorð um lokaúttekt. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Það athugist að fari lokaúttekt fram að nýju kann byggingarfulltrúa að vera rétt að bregðast við þeim athugasemdum sem kærandi hefur gert við meðferð máls þessa, s.s. um að gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð sé ekki fullnægt þar sem útsog sé ekki til staðar í eldhúsum íbúða.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júní 2019 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15.