Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

5/2020 Álfaskeið

Árið 2020, miðvikudaginn 20. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 5/2020, kæra á umsögn byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 18. desember 2019 um endurnýjun rekstraleyfis fyrir gististað í flokki II að Álfaskeiði 10, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. janúar 2020, er barst nefndinni 28. s.m., kærir eigandi, Álfaskeiði 10, Hafnarfirði, neikvæða umsögn byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 18. desember 2019 um endurnýjun rekstraleyfis fyrir gististað að Álfaskeiði 10, Hafnarfirði.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 6. mars 2020.

Málsatvik og rök: Kærandi hefur verið með leyfi fyrir rekstri gististaða í flokki II að Álfaskeiði 10, Hafnarfirði. Gildistími leyfisins var til 18. janúar 2020, en kærandi mun hafa sótt um endurnýjun þess fyrir þann tíma. Með tölvupósti 18. desember 2019 veitti  byggingarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar Sýslumanninum á Höfuðborgarsvæðinu neikvæða umsögn vegna endurnýjunar leyfisins. Var tekið fram í umsögninni að endurnýjunin samræmdist ekki aðalskipulagi.

Kærandi bendir á að í grein 2.2.1 í gildandi aðalskipulagi komi fram að í íbúðarhverfi sé heimilt að hafa aðra þá starfsemi en þjónusti íbúa viðkomandi hverfis svo framarlega sem ekki verði ætlað að starfsemin valdi „óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né drag[i] að sér óeðlilega mikla umferð“. Gistirými kæranda, sem sé smátt sniðum, falli að þessari skilgreiningu. Það sé í húsi á stórri lóð innst í botngötu og sé hraun allt um kring. Gestir hafi eigið bílastæði og inngang. Engar kvartanir hafi borist frá nágrönnum. Eignin hafi verið keypt til þessara nota og umfangsmiklar og kostnaðarsamar umbætur verið gerðar til að uppfylla reglur um gistirými. Í kjölfar þess hafi jákvæðar umsagnir verið gefnar af öllum umsagnaraðilum og leyfi verið veitt. Vegna endurnýjunar hafi kærendur þegar greitt heilbrigðiseftirlitsgjald og endurnýjunargjald sem ekki hefði verið gert hefði afstaða byggingarfulltrúa legið ljós fyrir.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er á því byggt að það samrýmist ekki gildandi Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 að reka gististað í flokki II í íbúðarhverfi. Í gr. 2.2.1 í greinargerð með aðalskipulaginu sé kveðið á um að á öllum íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði. Samkvæmt orðalagi greinarinnar sé ljóst að einungis sé gert ráð fyrir að heimilt sé að hafa starfsemi í íbúðarbyggð sem eðlilegt sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis. Rekstur gistiheimilis falli ekki þar undir. Að virtum þessum sjónarmiðum gefi byggingarfulltrúi neikvæða umsókn í sambærilegu málum. Dæmi séu um að sambærileg mál hafi áður fengið jákvæða umsögn byggingarfulltrúa en þeirri stjórnsýsluframkvæmd hafi verið breytt, enda ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag. Að framangreindu virtu verði að telja umsögn byggingarfulltrúa vera í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir og byggi hún á lögmætum sjónarmiðum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Ákvörðun um veitingu rekstrarleyfis fyrir gististarfsemi þá sem hér um ræðir, eða eftir atvikum synjun um slíkt leyfi, er tekin af sýslumanni skv. lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Er ákvörðun hans þar að lútandi kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sbr. 26. gr. þeirra laga, en í þeim lögum er ekki að finna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar. Við málsmeðferð umsókna um rekstrarleyfi skal sýslumaður m.a. leita umsagna sveitarstjórnar og byggingarfulltrúa áður en umsókn er afgreidd, sbr. 10. gr. laga nr. 85/2007. Þær umsagnir verða hins vegar ekki bornar undir úrskurðarnefndina þar sem aðeins þær ákvarðanir sem binda endi á mál verða bornar undir kærustjórnvald samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í málinu ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og ber af þeim sökum að vísa þessu máli frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.